136. löggjafarþing — 108. fundur
 18. mars 2009.
nýtt háskólasjúkrahús.
fsp. GÞÞ, 354. mál. — Þskj. 603.

[16:05]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að allir landsmenn viti, hvort sem þeir hafa þurft á þjónustu Landspítalans að halda eða þekkja til þar, að afskaplega mikilvægt er fyrir okkur að bæta húsakost háskólasjúkrahússins. Við vitum að það er eitt stærsta verkefni Íslandssögunnar og mikilvægt að vanda til verksins og einhverjum gæti komið til hugar að við þær aðstæður sem nú eru væri skynsamlegt að fresta slíku. Ég er algerlega ósammála því sjónarmiði, af mörgum ástæðum.

Í fyrsta lagi er um dæmigert verkefni að ræða sem mikilvægt er að ráðast í við aðstæður eins og þessar. Það er mannaflsfrekt og nú er afskaplega hagkvæmt að fara út í aðgerðir sem hefði verið dýrara að gera fyrir nokkrum árum. Einnig er áætlað að þetta spari rekstrarkostnað á Landspítalanum um sem nemur 3–5 milljörðum á ári 2009–2030.

Hins vegar er afskaplega mikilvægt að gera þetta með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er og því fól ég, virðulegi forseti, forstjóra Landspítalans — og ég ætla að lesa bréf sem ég sendi henni í janúarmánuði og það hljómar svo, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af viðræðum ráðuneytisins og nýs forstjóra Landspítalans, sem tók við starfi í október 2008, um undirbúningsvinnu vegna byggingar nýs háskólasjúkrahúss og með vísan til bréfs Landspítalans, dagsetts þann 6. janúar 2009, vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Til að tryggja að undirbúningsvinnan verði sem best og hagkvæmust, með það að markmiði að draga úr kostnaði og tryggja að allur undirbúningur verði skilvirkur fellst ráðuneytið á beiðni Landspítalans sem felur í sér eftirfarandi:

1. Landspítalinn nýti meira eigin krafta til allrar vinnu.

2. Landspítali fari yfir stöðuna hvað varðar framkvæmdir og kostnað.

3. Landspítali geri samanburð á núllanalýsu sem Landspítali gerði í nóvember/desember 2008 þar sem engin slík analýsa lá fyrir á þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

4. Landspítali komi með a.m.k. tvo möguleika til viðbótar við það sem þegar liggur fyrir, þar sem sýnt er fram á minni kostnað, og framkvæmdaáætlun sem mun tryggja byggingu nýs háskólasjúkrahúss.

Ráðuneytið mun skipa samráðsnefnd um þetta málefni með beinni aðkomu Háskóla Íslands en fellst að öðru leyti á framangreint að því tilskildu að tillögum samkvæmt 4. tölulið verði skilað til ráðuneytisins í lok mars 2009. Landspítalinn skal árlega leggja framkvæmda- og fjárhagsáætlun fyrir ráðuneytið og gera ráðuneytinu reglulega grein fyrir framvindu verksins. Skal undirbúningsvinna spítalans vera í samræmi við stefnu heilbrigðisráðherra og ákvörðun hans um byggingu nýs háskólasjúkrahúss.

Að lokum felur samþykkt ráðuneytisins á færslu framhaldsverkefna til Landspítala það í sér að spítalinn leitist við að tryggja góða samvinnu við samtök sjúklinga og aðstandenda og geri tillögu til ráðuneytisins um aðkomu þeirra að undirbúningi og skipulagningu verksins.“

Virðulegur forseti. Málið er einfalt. Ég vil kanna hvort hæstv. ráðherra hafi ekki sama áhuga á verkefninu og sá sem hér stendur, og á ég frekar von á því, og kanna hvar málið stendur (Forseti hringir.) og hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar eða hvort þetta er í þessu ferli.



[16:09]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Spurt er hvað líði áformum um nýtt háskólasjúkrahús. Þess er að geta að undirbúningur nýs háskólasjúkrahúss hefur verið fluttur til stjórnenda Landspítala, eins og fram kom í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Það var gert að frumkvæði forsvarsmanna Landspítalans og samkvæmt tillögu þeirra en á vegum Landspítala og í samráði við Háskóla Íslands er nú unnið ötullega að því að leita leiða til að koma fram með tillögur sem geta auðveldað framgang þessa nauðsynlega verkefnis.

Unnið er með norskum sérfræðingum í starfsemi sjúkrahúsa að greiningu verkefnisins og að setja fram valkosti fyrir uppbyggingu og áfangaskiptingu. Markmiðið með þeirri vinnu er að leita leiða til að draga úr fjárfestingu og hafa áfangaskiptingu þannig að ávinningur skili sér sem fyrst. Þessari undirbúningsvinnu á að vera lokið um næstu mánaðamót og vil ég geta þess að í gær átti ég fund með forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss og lækningaforstjóra og fleiri aðilum sem koma að hönnun mannvirkisins og var þar farið yfir málið.

Spurt er hvort stefnubreyting hafi orðið hvað þetta málefni snertir. Því er til að svara að svo er ekki. Uppbygging nýs Landspítala er verkefni sem tekur langan tíma og við megum ekki láta tímabundna erfiðleika í fjármálum þjóðarinnar villa okkur sýn.

Það má draga saman nauðsyn uppbyggingar nýs Landspítala í fjórum meginpunktum, en sum áhersluatriðin komu einmitt fram í máli hv. þingmanns. Við blasir að við Íslendingar drögumst aftur úr öðrum þjóðum og fjarlægjumst ár frá ári skýr markmið laga um heilbrigðisþjónustu, að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði, svo vitnað sé í lögin frá 2007. Það er mat sérfræðinga að núverandi húsakostur standist illa kröfur um nútímasjúkrahúsarekstur. Í öðru lagi er bent á að nauðsynleg endurnýjun tækja sé erfiðleikum háð eða jafnvel ekki gerleg í núverandi húsakynnum spítalans.

Í þriðja lagi er bent á að sífellt erfiðara verði að fá sérmenntað fagfólk heim frá námi eða starfi í útlöndum ef ekki verður boðið upp á nútímalegt umhverfi og starfsaðstæður á háskólasjúkrahúsi okkar. Þetta eru áherslur sem fram koma hjá stjórnendum Landspítalans. Síðan er bent á að Landspítalinn þjóni landsmönnum öllum og hafi við þá skyldur sem sífellt erfiðara verði að standa við á tímum þegar auknar kröfur eru gerðar til heilbrigðisþjónustu á sama tíma og þjóðin eflist hlutfallslega.

Nútímalegt háskólasjúkrahús er eins konar móðurskip heilbrigðisþjónustunnar og nauðsynlegt sem slíkt, en önnur sjúkrahús hafa hlutverki að gegna í héraði og gegna skilgreindum hlutverkum í heilbrigðiskerfinu í heild. Landspítali er eina háskólasjúkrahús landsins og hefur skyldur sem slíkt samkvæmt heilbrigðislögum en getur illa eða ekki staðið undir þeim án verulegra úrbóta í húsnæðismálum. Einnig þetta er áhersluatriði sem fram kemur hjá forsvarsmönnum Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Vísað er til öryggis sjúklinga og að tryggja þurfi það eins vel og kostur er og þar skiptir umgjörðin að sjálfsögðu mjög miklu máli. Vísað er til þess að smitvarnir séu ófullnægjandi í núverandi húsnæði og sem dæmi megi nefna að margir sjúklingar samnýti snyrtiaðstöðu á legudeildum. Þá er bent á að sjúklingar verði að óbreyttu sendir í auknum mæli til útlanda til greiningar og meðferðar með tilheyrandi óþægindum, áhættu og kostnaði fyrir samfélagið ef ekki verði ráðin bót á húsnæðismálunum. Í þessu sambandi hefur verið tekinn sem dæmi svokallaður PET-skanni sem orðinn er sjálfsagður hluti af tæknibúnaði sjúkrahúsa á borð við Landspítalann og notaður t.d. við að greina umfang krabbameinsæxla og finna meinvörp fyrr en mögulegt er með öðrum aðferðum. Það er bent á að hvergi er hægt að finna slíku tæki stað í núverandi húsakynnum Landspítalans.

Í fjórða lagi segir að þá fyrst sé unnt að ná fram til fulls hagræðingu og sparnaði í rekstri sem sóst var eftir á sínum tíma við sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, og nemur 3–5 milljörðum kr. á ári. Þetta er atriði sem bent hefur verið á af stjórnendum Landspítala – háskólasjúkrahúss (Forseti hringir.) að það sé þegar upp er staðið dýr kostur að gera ekki neitt.



[16:14]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja máls á byggingaráformum nýs háskólasjúkrahúss og ég vil að sama skapi fagna svörum hæstv. heilbrigðismálaráðherra um að áfram sé unnið að framkvæmdum og undirbúningi þeirra, sem mörg rök hníga að, eins og hann rakti í máli sínu.

Ég verð að játa að mér brá nokkuð við þegar fréttir bárust af því að byggingarnefnd háskólasjúkrahússins hefði verið lögð niður og það kemur mér í sjálfu sér á óvart að þetta sé komið í hendur á Landspítalanum og Háskóla Íslands, ég hafði ekki heyrt af því.

Auðvitað er nauðsynlegt fyrir okkur að draga saman seglin eins og nú árar. Ég vil minna á að peningarnir fyrir einkavæðingu Símans áttu að borga þessa framkvæmd en þeir hafa, eins og margt annað, trúlega horfið í hítina. (Forseti hringir.) En það skiptir miklu máli að halda áfram undirbúningi þessa verkefnis, ekki síst til að halda uppi atvinnu fyrir verkfræðinga og arkitekta sem eru atvinnulausir í hrönnum.



[16:15]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin sem gefin voru hér. Það er alveg ljóst að bygging nýs háskólasjúkrahúss er mjög mikilvæg framkvæmd og ekki hefur alltaf ríkt samstaða um þessa framkvæmd. Ég hef stundum heyrt á mæli einstakra þingmanna að þeir telji að það eigi ekki að fara í þessa framkvæmd en ég tel að það skuli gera og heyri að hæstv. ráðherra er að vinna áfram að þessu máli.

Ég undirstrika að reiknað er með upp undir 15% hagræðingu þegar nýja húsið er komið í gagnið þannig að það er eftir miklu að sækjast með því að koma hér upp nýju háskólasjúkrahúsi. Þetta er framkvæmd sem við skulum reyna að halda áfram með eins og getum. Þrátt fyrir að árferðið sé erfitt varðandi fjármál landsins hef ég fundið fyrir velvilja, alla vega hjá þeim sem hafa haft með heilbrigðismál að gera í landinu og við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á að þessu verki verði lokið, (Forseti hringir.) því fyrr því betra.



[16:17]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og lýsi sérstakri ánægju með þau og að ekki sé um stefnubreytingu að ræða. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að það er dýrt að gera ekki neitt. Menn verða að átta sig á því að ef niðurstaðan verður sú að ekki eigi að fara í þessa framkvæmd þurfa menn að gera eitthvað annað, það er alveg ljóst. Það er alveg ófyrirséð hvað slíkt mundi kosta og er algjörlega ljóst að menn mundu ekki ná þeim hagræðingarþætti sem næst með því að hafa þetta á einum stað.

Þegar sérfræðingarnir frá Noregi verða búnir að meta þessa hluti í lok mars, ef ekkert hefur breyst, koma þeir hugsanlega með hugmyndir, með nýjar og hagkvæmari lausnir, ef svo ber undir. Það er ekkert leyndarmál að það hefur haft áhrif að fá nýjan forstjóra á Landspítalann sem hefur komið að þessum verkefnum annars staðar, nánar tiltekið hjá vinum okkar Norðmönnum, og ég tel að það hjálpi til. Ég held að það skipti máli fyrir okkur að líta út fyrir landsteinana þegar um slík verkefni og önnur heilbrigðistengd mál er að ræða.

Þegar menn fara af stað í verkið þýðir það að hér skapast vinna fyrir 80 arkitekta og verkfræðinga í 18 mánuði. Þeir verða íslenskir. Af hverju? Vegna þess að fyrri nefnd um aðstöðu, undir forustu Ingu Jónu Þórðardóttur, var svo framsýn að sjá til þess að öll útboðsgögn og tungumál verkefnisins yrðu á íslensku, sem skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að þetta er útboðsskylt á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það var því mjög framsýn ákvörðun.

Við skulum ekki byrgja okkur sýn þó að það séu tímabundnir erfiðleikar hjá íslensku þjóðfélagi. Við skulum ekki gleyma því að við byggðum Háskóla Íslands, Landspítalann og ýmis fleiri stórar byggingar, skóla og annað slíkt, í erfiðu árferði. Þetta er einmitt verkefni sem við eigum að (Forseti hringir.) ráðast í í ástandi eins og nú er.



[16:19]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi verið mjög góð hugmynd hjá forsvarsmönnum Landspítalans að fá teikningarnar inn á sitt borð og endurmeta þær. Betur sjá augu en auga, segir máltækið. Ég held að það hafi verið góður kostur að fá ferska sýn á málið með hjálp erlendra arkitekta og er þá alls ekki verið að kasta rýrð á starf þeirra sem áður hafa komi að þessum málum.

Áætlaður framkvæmdakostnaður við nýjan Landspítala hefur verið nefndur 70 milljarðar kr. á verðlagi í febrúar 2009 en þá er þess að geta að tekjur af sölu núverandi eigna kæmu að einhverju leyti upp á móti. Núna er, samkvæmt aðgerðaáætluninni, unnið að því að lækka kostnaðinn og áfangaskipta honum og gera framkvæmdina gerlega miðað við þær erfiðu forsendur sem við byggjum á núna.

Þá hefur verið nefnt að endurnýja þurfi tæki og húsbúnað fyrir nýjan Landspítala en þess jafnframt látið getið af hálfu þeirra sem til þessara mála þekkja að það þurfi að gera hvort sem er. Tæki og búnaður eru í stöðugri endurnýjun þannig að það er tilkostnaður sem metinn er á 12 milljarða kr. og þyrfti að koma óháð því hvort ráðist yrði í nýja byggingu.

Sem sagt samandregið hefur ekki orðið nein stefnubreyting í þessu máli. Það er einvörðungu verið að leita leiða til að áfangaskipta verkinu og gera það gerlegt við þær aðstæður sem við nú búum við.