131. löggjafarþing — 5. fundur
 7. október 2004.
fjáraukalög 2004, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 76. mál. — Þskj. 76.

[13:31]
Jón Gunnarsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni fyrir fundarhlé að ég var að fara yfir forsendur þjóðhagsspár og hve illa þær hefðu staðist, sem m.a. þýðir að skattur eða tekjur ríkisins aukast um rúma 8 milljarða kr. á rekstrargrunni frá forsendum fjárlaga. Skattur á fjármagnstekjur einstaklinga sem dæmi eykst um 2.100 milljónir. Þar á bak við eru að sjálfsögðu fjármagnstekjur upp á 21 milljarð kr., sem er dágóður skildingur svona til viðbótar við það sem búið var að áætla áður.

Það er reyndar til umhugsunar fyrir okkur að heildarfjármagnstekjuskattur á einstaklinga er áætlaður 7,7 milljarðar á þessu ári og að baki þess hljóta að liggja 77 milljarðar í fjármagnstekjum einstaklinga, tekjum sem eru í formi vaxta, arðgreiðslna og söluhagnaðar af hlutabréfum hjá einstaklingum einum á einu ári.

Gjaldstofn til tekjuskatts og útsvars í síðustu álagningu tekjuskatts nam 483 milljörðum. Þessi gjaldstofn kemur til af vinnu einstaklinga með höndum og höfði. Álagning á hann, að teknu tilliti til persónuafsláttar vegna tekjuskatts til ríkis, er um 25%, útsvarið er um 13% og nettótekjuskattur um 12%.

Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um forgangsröð ríkisstjórnarinnar þegar kemur að skattamálum að tekjur sem skapaðar eru með vinnu bera að meðaltali 25% skatt til hins opinbera en ef tekjurnar verða til í formi vaxta, arðgreiðslna eða söluhagnaðar hlutabréfa þá skal einungis greiða 10% í skatt.

Er nokkur furða þó að allir reyni sem geti að koma tekjum sínum í seinna formið og greiða þannig mun lægri skatt en annars hefði orðið? Ef skattstofn til fjármagnstekna hefði borið sama hlutfall og almennar launatekjur hefði skattgreiðslan af þeim 77 milljörðum orðið 19,3 milljarðar en ekki 7,7 milljarðar.

Ég er svo sem ekki neinn sérstakur talsmaður skattpíningar eða að skattpína allt og alla en ég held að kominn sé tími til þess fyrir okkur að reyna að jafna þetta hrópandi óréttlæti aðeins.

Stimpilgjöldin eru líka skattur sem hækkar afar mikið milli fjárlaga og fjáraukalagafrumvarps. Það er ekki lítil hækkun að gera ráð fyrir 850 millj. kr. hækkun á þeim skatti. Þetta er dæmi um óréttlátan skatt sem oft lendir á þeim sem erfitt eiga með að borga. Þessi skattur og hin mikla aukning hans mun að hluta til éta upp það hagræði sem margir annars sæju sér í því að endurfjármagna lán sín í hinum nýju kjörum sem bankarnir bjóða nú á húsnæðislánum.

Ekki er lokið álagningu á lögaðila þannig að erfitt er að gera sér grein fyrir hver niðurstaðan verður þar. En í heildina tekið getum við sagt að skattamylla ríkisins malar nú sem aldrei fyrr og við sjáum í þeim áætlunum sem liggja fyrir að tekjur ríkisins verða geysilega miklar.

Einn lítill glaðningur til viðbótar fyrir ríkiskassann er sá að Áfengisverslun ríkisins mun greiða 500 milljónir aukalega í arð, eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, til ríkisins af gróða sem safnast hefur upp hjá henni í sjóðum og það er venjan að þegar yfir flýtur í sjóðum áfengisverslunarinnar þá kallar ríkið eftir peningum í arðgreiðslur.

Förum þá í kafla sem heitir Lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Þar vakti athygli mína að gert er ráð fyrir að Landsvirkjun endurgreiði ríkinu 400 millj. kr. vegna virkjanarannsókna, sem ríkið hefur þá væntanlega ráðist í og Landsvirkjun á að njóta. Landsvirkjun þarf ekki að punga út fyrir þessu á einu bretti heldur borgar þetta á raðgreiðslum í formi skuldabréfs og mér finnst eðlilegt að spurt sé: Hvaða virkjanarannsóknir er hér um að ræða? Njóta önnur orkufyrirtæki sem ríkið er aðili að sömu fyrirgreiðslu, þ.e. að ríkið ráðist í rannsóknir og þau fyrirtæki endurgreiði það síðar svona eftir atvikum? Hvað er þetta skuldabréf til langs tíma og hvaða vaxtakjör ber það? Að síðustu, af því að við erum að tala um fjáraukalög: Var hér um ófyrirséðan atburð að ræða og á þessi gjörningur erindi inn í fjáraukalögin?

Í heimildakaflanum í frumvarpinu er óskað heimildar til að Flugmálastjórn Íslands ráðstafi 250 millj. kr. af eigin fé Alþjóðaflugþjónustunnar í tengslum við hlutafélagastofnun á grundvelli 7. gr. laga nr. 60 frá 1998. Ástæðan er sögð í skýringum að í frumvarpinu sé stofnunin að kaupa rekstur fjarskiptamiðstöðvarinnar á Gufunesi af Landssíma Íslands. Spurning hvort Landssíminn hefur þurft á því að halda að selja einhverjar eignir til að geta farið að sýna enska fótboltann. En þetta skýrir ekki fyrir mér hvaða hlutafélag er verið að stofna og með því að skoða 7. gr. laga nr. 60 skýrist það ekkert frekar.

En þessi grein segir, með leyfi forseta:

„Flugmálastjórn skal heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna og eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir með það að markmiði að vinna að rannsókn og þróun á starfssviði stofnunarinnar og hagnýta niðurstöður þess starfs.

Enn fremur er Flugmálastjórn heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar.

Þá skal Flugmálastjórn heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að eiga aðild að fyrirtækjum sem eru hlutafélög, önnur félög með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnanir og fela þeim að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnunarinnar, enda sé slíku félagi eða fyrirtæki gagngert komið á fót í þessu skyni.

Fjárveitingar samkvæmt þessari grein skulu vera samkvæmt heimild í fjárlögum og samgönguáætlun.“

Ekki er óeðlilegt að óskað sé skýringa á því hvað þarna er á ferðinni og einnig hvort um er að ræða ófyrirséðan atburð sem á heima í fjáraukalögum eða, ef um er að ræða nauðsynlega stofnun hlutafélags, hvort ekki hefði mátt bíða fjárlaga ársins 2005. En ég geri mér ekki grein fyrir því í fljótu bragði hvað það er sem Flugmálastjórn er að fara að gera, hvort hún ætlar að reka þessa fjarskiptamiðstöð í Gufunesi og selja þá þjónustu einhverjum öðrum aðilum, hvort hún kemur til með að eiga þetta hlutafélag ein eða hvort einhverjir aðrir koma þar að og spurning um hvað þetta er og af hverju liggur svo mikið á að koma þessu inn.

Ef við skoðum gjaldaliðina þá eru, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, nokkuð margir liðir sem menn velta fyrir sér af hverju eru í frumvarpi til fjáraukalaga en bíði ekki eftir fjárlögum ársins 2005. Þegar lesið er í gegnum skýringar við ýmsar fjárveitingar sem hér eru, þá veltir maður því oft og tíðum fyrir sér hvað sé á ferðinni.

Undir menntamálaráðuneytinu er styrkur til útgáfumála undir liðnum Ýmis fræðistörf. Þar er verið að sækja um 6 millj. kr. framlag til verkefnisins Þjóðsagan um Gretti, teiknimynd. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 1 millj. kr. framlagi til verkefnisins, segir hér, en það átti að vera 7 milljónir.

Ég fór að velta fyrir mér þegar ég sá þennan texta hvernig þetta hefði verið í fjárlagavinnunni á árinu 2004 og mundi þá eftir að teiknimyndasagan um Gretti var eitt af mörgum góðum verkefnum sem við vísuðum til menntamálanefndar með það hvaða styrki ætti að veita hverju verkefni. Við fengum til baka frá menntamálanefnd að teiknimyndasagan um Gretti ætti að fá 1 millj. kr., það var tillaga þeirra. Við settum það inn og það er staðfest hér í sölum Alþingis að teiknimyndasagan um Gretti — sterka væntanlega, ekki köttinn Gretti — ætti að fá 1 millj. kr. Svo dúkkar upp í fjáraukalögum texti sem segir: Teiknimyndasagan um Gretti átti að fá 7 millj. kr. — átti að vera 7 millj. kr. Maður hlýtur að spyrja og um hugann fara orð eins og bananar og jafnvel spilling: Hvernig getur það verið þegar við erum búin að taka svona erindi fyrir, eitt af mörgum góðum — ég er ekki að lasta erindið — það fer í sinn farveg á þinginu til fagnefndarinnar sem skilar áliti, til fjárlaganefndar sem fer yfir það og staðfestir það, til Alþingis sem setur það í lög, og svo leyfir einhver sér að koma því inn í fjáraukalög að þessi upphæð hefði átt að vera 7 milljónir en ekki 1 milljón. Maður verður að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver lofaði því að þetta ættu að vera 7 millj. kr.? Hver hefur þau völd á Íslandi að eftir að menntamálanefnd er búin að skila tillögu sinni og fjárlaganefnd er búin að skila sinni tillögu og Alþingi er búið að samþykkja lög að þá komi einhver og segi: Þetta er vitlaust hjá ykkur, þetta átti að vera öðruvísi, það var búið að lofa mér 7 milljónum?

Við hljótum að þurfa að fá svar við þessu því að ef þetta er hægt, ef við opnum fyrir þetta þá veit ég ekki hvar við endum. Þá hljótum við að enda í því að við setjum jú fram fjárlög, svo fara einhverjir vinir og vildarvinir að spyrja hina og þessa hvort þeir geti ekki fengið meiri peninga og þá ratar það bara inn í fjáraukalög.



[13:41]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að hefja ræðu mína á máli sem er nú ekki stórt í fjáraukalögunum en skiptir þá miklu sem málið varðar, en það er framlag til loðdýraræktar, um 20 milljónir á þessu ári. Það er ætlað til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri. Greiðslan er hluti af samningi eða samþykkt ríkisstjórnarinnar upp á 116 millj. kr. sem eiga að renna til loðdýraræktunarinnar vegna vanda hennar, og þetta framlag upp á 20 milljónir á að veita í samræmi við álit nefndar sem kom út í maí 2004 um bráðan rekstrarvanda greinarinnar.

Nú eru það svo að Samband íslenskra loðdýraræktenda hefur gert greinargerð og samið reglur um hvernig eigi að úthluta þessum 20 milljónum. Tillögur nefndarinnar eða stjórnarinnar ganga út á það að nota fjárstuðning ríkisins til að loka a.m.k. þremur af fjórum einkareknum fóðurstöðvum sem starfræktar eru, loka sem sagt einkareknum fóðurstöðvum sem framleiða 26% af heildarframleiðslu loðdýrafóðurs í landinu. Til þess hefur Samband íslenskra loðdýraframleiðenda búið til sérstakar reglur til að útiloka einkareknar fóðurstöðvar.

Frú forseti. Ég get ekki séð annað en að þessar reglur og fyrirhuguð fjárútlát ríkisins stangist á við jafnræðisreglur og einnig á við heilbrigða meðferð á opinberu fé, að fara að nota opinbert fé til þess að loka einkareknum stöðvum. Það er óumdeilanlega mjög sérstakt, ef af verður, ef menn fara þessa leið sem allar líkur eru til, að Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig stundum við markaðshyggju ætli að styðja slíkan gjörning. Mér finnst það ótrúlegt. Það er spurning hvernig hæstv. ráðherra muni þá skora á frelsislistanum ef sú leið verður farin að nota opinbert fé til að loka einkareknum fyrirtækjum. Mér finnst það ótrúlegt.

En stundum fer maður að efast um hvort Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með því að styðja við bakið á einkarekstri og heilbrigðri samkeppni, og sérstaklega í ljósi þess að ég spurði hæstv. ráðherra út í starfsemi ríkisfyrirtækisins Landssímans á síðasta þingi.

Þeir sem starfrækja einkafyrirtæki í samkeppni við ríkisfyrirtækið hafa bent á að það beiti ekki heiðarlegum aðferðum í samkeppninni en notfæri sér einokunaraðstöðuna gegn fyrirtækjum í samkeppni á opnum markaði. Það er fáheyrt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki getað svarað því og einfaldlega kannað það, spurt Landssímann hvort áburður þeirra sem standa í samkeppni við ríkisfyrirtækið eigi við rök að styðjast. Ég botna í raun ekkert í því hvers vegna menn svara því ekki í staðinn fyrir að koma með löng svör sem segja ekki neitt.

Mig langar einnig að gera að umtalsefni framlag til Ábyrgðasjóðs launa. Mér virðist framlagið sem fer í þennan lið mjög hátt, 800–850 millj. kr. sem renna í sjóðinn og farið fram á um 300 millj. kr. viðbótarfjárheimild í þessum fjáraukalögum. Ég held að það sé tími kominn til að staldra við og skoða hvort fara eigi aðra leið, að skylda fyrirtæki einfaldlega til að kaupa sér tryggingu. Þetta eru orðnar það háar upphæðir. Inn í þetta kemur að þeim sem standa skil á öllum gjöldum og launum finnst fyrirkomulagið jafnvel ýta undir óábyrgan rekstur, að menn geti stofnað fyrirtæki og ráðið fólk í vinnu og síðan hlaupið frá öllu. Menn telja jafnvel tíma til kominn að láta fyrirtækin kaupa tryggingu. Ég velti þeirri spurningu upp vegna þess að við sjáum nú fram á að þessi kostnaður fari í 800–850 millj. kr. af skattfé almennings.



[13:48]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér hafa farið fram athyglisverðar umræður um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 og hafa þingmenn víða komið við. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd, fór yfir meginsjónarmið í okkar og álit á afgreiðslu frumvarpsins. Það er ekki þörf á að endurtaka það. Hann kaus reyndar að fara ekki mjög ítarlega yfir frumvarpið í ræðu sinni.

Ég velti því fyrir mér hvort hið almenna yfirlit í umræðunni í dag sé í raun nóg við 1. umr. Ég tel að í frumvarpinu sé margt forvitnilegt og ætla að líta á einstaka liði eins og háttvirtir tveir ræðumenn á undan mér hafa leyft sér að gera. Ég held að umræður í fjárlaganefndinni sjálfri skili sér sjaldnast nægilega vel til almennings og tel fulla þörf á að þau atriði sem maður hnýtur um í þessu fjáraukalagafrumvarpi eigi að líta dagsins ljós við 1. umr. Það er undir hælinn lagt hvort þau skila sér aftur við 3. umr. inn í þingsalina. Ég ætla því að leyfa mér að koma með athugasemdir við nokkur atriði sem ég hef hnotið um hér og þar í frumvarpinu. Það má vel vera að rödd mín hljómi sem samantekt úr fyrirspurnatíma Alþingis. En við því er í raun ekkert að gera því að við lestur frumvarpsins hrannast upp spurningar sem óhjákvæmilegt er að orða í þingræðum.

Það má kannski segja að hæstv. fjármálaráðherra sé nokkuð sáttur, rödd hans og tónninn í ræðu hans benti til þess að hann væri ekkert venju fremur pirraður yfir frumvarpinu, kannski vegna þess að tekjuaukningin er gríðarleg. Það kemur fram í upphafi þessa frumvarps, við endurskoðun ríkisfjármála okkar, að tekjuafgangurinn á ríkissjóði hefur aukist um 1,1 milljarð kr. og verður þar af leiðandi um 7,8 milljarðar kr.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur vitanlega ástæðu til þess að fagna því en engu að síður eru í frumvarpinu útgjaldaliðir sem verður að setja spurningarmerki við og jafnvel við hina auknu tekjuöflun. Meðal þess sem fram kemur í þessu fjáraukalagafrumvarpi er að bílainnflutningur á árinu hefur aukist og nemur um 15 þús. bifreiðum. En árinu 2003 voru fluttar inn 2.600 bifreiðir. Hvað segir þetta okkur um einkaneysluna og hvað segir þetta ... (Fjmrh.: Prentvilla.) Prentvilla, segir hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: 12.600.) Að þær eigi að vera 12.600 árið 2003. (Fjmrh.: Ég held það.) Við skulum skoða, hæstv. fjármálaráðherra , hvað rétt er. En jafnvel þótt þeir hafi átt að vera 12.600 á síðasta ári þá er aukningin umtalsverð. Einkaneyslan eykst gífurlega. Hvað koma skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á næsta ári til með að gera? Bæta enn olíu á nákvæmlega þann eld. Ég tel að þar séu gífurleg hættumerki sem mér finnst ríkisstjórnin ekki sporna gegn heldur fer hún í þennan aukna tekjuafgang og deilir honum út tvist og bast, um holt og móa eins og þetta fjáraukalagafrumvarp gefur til kynna.

Mig langar til að byrja á að líta hér á kafla menntamálaráðuneytisins þar sem lagt er til að fjárheimildir verði auknar um rúmar 500 millj. kr. Hér hefur verið komið inn á framhaldsskólana og málefni þeirra. Ég þarf í raun engu við það að bæta öðru en því að þær upplýsingar sem lágu fyrir í fjárlagaumræðunni fyrir þetta ár eru allar að koma á daginn núna. Ríkisstjórnin hafði enga ástæðu til að viðurkenna ekki vandann þegar fjárlagaumræðan fór fram. Einu afleiðingarnar af gjörðum ríkisstjórnarinnar eru þær að stjórnendur skólanna hafa átt í gríðarlegum erfiðleikum við að stjórna stofnunum sínum allt þetta ár. Ríkisstjórnin neitaði að horfast í augu við vandann þegar eðlilegt var að hún gerði það og mér finnst óforsvaranlegt að ríkisstjórnin skuli meðvitað gera skólastjórnendum, framhaldsskólanemum og fjölskyldum þeirra svo erfitt fyrir sem raun ber vitni, bara fyrir þvergirðingsháttinn í fólki við að viðurkenna augljósan vanda. Menn vissu síðasta haust, þegar fjárlagaumræðan fór fram, að þeir þyrftu að kyngja þessu súra epli þótt síðar yrði. Ég bið um að hæstv. ráðherrar hætti öllum þvergirðingshætti gagnvart skólunum og viðurkenni vandann þegar þörf er á en ekki ári síðar, tveimur eða þremur. Mér finnst sem að viðhorf ríkisstjórnarinnar til framhaldsskólanna birtist í þessu og þau viðhorf verða að breytast. Það er ekki bara þörf á því heldur er það algjörlega nauðsynlegt.

Sömuleiðis vil ég nefna liði er varða Þjóðminjasafn Íslands, sem varða bæði Þjóðminjasafnið sjálft, þ.e. aukafjárveitingu vegna grunnsýningar safnsins og fjármuni til kynningarmála og sömuleiðis endurbætur vegna hússins. Nú má enginn misskilja orð mín. Ég óska okkur, þjóðinni allri, til hamingju með stórkostlegt Þjóðminjasafn og glæsilega grunnsýningu. En ég hef staðið í þessum ræðustól ár eftir ár á síðasta kjörtímabili og grenjaði yfir því að ekki væru ætlaðir fjármunir í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Var því svarað á þeim tíma? Ó nei, ekki orði. Engu var breytt, eins og það ætti ekki að koma upp nein grunnsýning. Það var engu líkara en munirnir sem unnið var að forvörslu á ættu að liggja eins og hráviði á gólfinu í þessu fína safni.

Auðvitað var það aldrei ætlunin, auðvitað var ætlunin að setja þá í eitthvert fjáraukalagafrumvarp. En það er ekki forsvaranlegt að ríkisstjórnin stilli forstöðumönnum ríkisstofnana ævinlega upp við vegg og láti þá stjórna við slíkt óvissuástand sem gert hefur verið. Það er ekki forsvaranlegt að koma svona fram. Hér sést svart á hvítu það sem ég, við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar fleiri stjórnarandstöðuflokka, óskuðum eftir við fjárlagagerð oftar en einu sinni á síðasta kjörtímabili. Það kristallast hér og kemur fram í þessum fjáraukalögum.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan varðandi styrkinn til þjóðsögunnar um Gretti, teiknimyndarinnar. Ég ætla að staðfesta það héðan úr þessum ræðustól sem menntamálanefnd, sem sendi umsögn til fjárlaganefndarinnar um þau verkefni sem óskað var eftir styrkjum til, sagði. Ég get staðfest það að við ákváðum að láta verkefnið hafa sömu upphæð og verkefnið hafði fengið árið áður, 2003, þ.e. 1 millj. kr. Það sem stendur í þessum texta á bls. 61 um það að framlagið hafi átt að vera 7 millj. kr. er rangt. Það átti að vera 1 millj. kr. Menntamálanefnd var beðin um umsögn og að gera tillögu og tillagan var upp á 1 millj. kr. en ekki 7 millj. kr.

Að gefnu tilefni kem ég að því einu sinni enn að það er í raun óviðráðanlegt hvernig fjárlaganefnd fær send inn ótal verkefni sem varða listir og menningu. Umbeðnir fjármunir á síðasta ári voru um 450 millj. kr. Menntamálanefnd fær allar þessar umsóknir til umsagnar en menntamálanefnd hefur ekki neinn pott eða neina fjármuni til úthlutunar til slíkra verkefna. Hún sendir þess vegna einhverjar hugmyndir og tillögur til fjárlaganefndar til baka. Síðan er undir hælinn lagt hvort fjárlaganefnd fer eftir þeim. Á undanförnum árum hefur fjárlaganefnd sinnt þeim óskum eða þeim hugmyndum sem komið hafa frá menntamálanefndinni en hún hefur oft á tíðum og iðulega bætt við pottinn. Þegar endanleg afgreiðsla málanna liggur á boðinu eru miklu meiri fjármunir til umráða en menntamálanefnd fékk tækifæri til að gera tillögur um að ráðstafa. Hvaða vit er í þessu? Getum við ekki á árinu 2004 komið úthlutunarmálunum í sómasamlegt horf?

Nú tek ég það fram að við höfum leiklistarráð sem úthlutar til leiklistarstarfsemi, til sjálfstæðra atvinnuleikhópa sem starfa vítt og breitt um landið af mikilli grósku. Leiklistarráð hefur á fjárlögum ákveðinn pott sem úthlutað er úr, þ.e. tillögur eru gerðar til menntamálaráðherra um úthlutanir úr þeim sjóði. Menntamálaráðherra fer alltaf að tillögum leiklistarráðs, sem skipað er faglega og þekkir leiklistargeirann, þekkir starfsemi leikhópanna og veit um hvað starfsemi þeirra snýst. Þar er fagleg úthlutun fjármuna sem sómi er af.

Sama hefur verið reynt að setja upp í sambandi við tónlistarráðið, sem við ákváðum á síðasta þingi að setja á laggirnar til að koma á faglegri úthlutun fjármuna. Sömuleiðis höfum við komið þessu á í tengslum við listamannalaun, faglegri úthlutun fjármuna þar sem faglegar nefndir annast tillögur um úthlutun.

Ég spyr: Hvers vegna er fjárlaganefnd ásamt menntamálanefnd að vasast í úthlutunum sem hægt væri að koma fyrir á allt annan hátt? Úthlutanir af þessu tagi, fullyrði ég, frú forseti, hafa ekkert að gera í fjáraukalög okkar, sannarlega ekki.

Kaflinn um utanríkisráðuneytið verður næst fyrir mér. Það hefur komið fram að í þeim fjárlögum sem við erum að fjalla um fyrir árið 2005 verður gífurleg aukning á útgjöldum til utanríkismála. Ég held að kostnaður utanríkisráðuneytisins eigi að hækka um fimmtung á næsta ári, um 1.150 millj. kr. ef ég man rétt. Það þýðir að útgjöld til utanríkismála verða 6,7 milljarðar kr. á árinu 2005. Samt sem áður, með alla þessa miklu fjármuni, getur utanríkisráðuneytið ekki annað en sótt um á fjáraukalögum um 300 millj. kr. Til hvers konar verkefna er það? Jú, til að mynda eru 45 millj. kr. til að hreinsa Nikkel-svæðið sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli skilaði ríkissjóði árið 2001 og til þess að standa við samning sem ríkissjóður gerði við Bandaríkjamenn um að við ættum að taka að okkur yfirborðshreinsun á landinu. Svo eru hér fjármunir til framlags vegna sérfræðikostnaðar í tengslum við Varnarmálaskrifstofu. Það eru þessar 45 millj. kr. sem utanríkisráðuneytið á að fá á þeim lið.

Ég spyr: Hvernig stendur á því að hreinsun á Nikkel-svæði varnarliðsins, sem vitað var að þyrfti að fara fram árið 2001 og sennilega miklu fyrr, skuli komið hér á fjáraukalög fyrir árið 2004? Ég get ekki látið hjá líða að spyrja um heildarkostnaðinn. Hvað eiga Íslendingar að bera mikinn kostnað vegna hreinsunar þessa svæðis út af subbuskapnum í Bandaríkjaher sem kvartað hefur verið yfir ótt og títt? Auðvitað hefði herinn átt að hreinsa þetta upp eftir sig sjálfur en ekki að skilja okkur eftir með þeirra eigin sóðaskap. Við þurfum síðan að greiða tugi eða jafnvel hundruð milljóna til að hreinsa upp eftir þá.

Það má líka gera athugasemdir við stefnu Íslendinga varðandi sendiráðsbyggingar. Í fjáraukalögunum er verið að biðja um 42 millj. í viðbótarframlag vegna flutnings sendiráðs Íslands í Brussel í nýtt húsnæði. Það er allt í lagi að almenningur viti að gert er ráð fyrir að 34 millj. kosti að endurnýja innréttingar og borga flutninginn en svo eiga að fara 8 millj. í húsgögn, 8 millj. í endurnýjuð húsgögn í sendiherrabústaðnum í Brussel, þ.e. vegna flutnings sendiráðs Íslands í Brussel. Það er verið að skipta um húsnæði og þetta þarf að koma inn á fjáraukalög. Ég minni á, og fólk má þá hafa það í huga, að á næsta ári er gert ráð fyrir að sendiherrabústaðurinn í Berlín, sem verður nýr sendiherrabústaður, taki til sín 230 millj. kr.

Ekki höfum við fengið að sjá heildarstefnumörkun íslenskra stjórnvalda varðandi vöxt eða viðgang sendiráða á Íslandi. Hér er verið að keyra frá degi til dags og ráðstafa fjármunum ríkissjóðs án þess að fyrir liggi yfirvegaðar áætlanir þar um. Það er auðvitað gagnrýnivert, virðulegi forseti.

Þá vil ég koma hér inn á alveg makalausan lið í fjáraukalögum sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið og kemur til vegna tapsins á vísindaveiðunum á hrefnu. Hafrannsóknastofnun á að fá af þessum fjáraukalögum 8,5 millj. kr. til að greiða fyrir hluta taps á vísindaveiðum á hrefnu árið 2003. Heildartapið samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar mun hafa verið um 12 millj. kr. Höfum við ekki séð hér einhvers staðar í þingskjölum og heyrt sagt í þingræðum að allt hvalkjötið af veslings hvölunum sem veiddir voru til vísindaveiða hafi verið selt? Átti þetta ekki allt að standa undir sér? Hvað gerðist? Getur verið að við séum að tapa á vísindaveiðunum sem áttu að vera svo atvinnuskapandi fyrir okkur og áttu að skila svo miklu í þjóðarbúið? Þetta átti að vera svo hagkvæmt. Af hverju koma ekki ráðherrarnir hérna fram og segja okkur þá hvað klikkaði? Það á bara að læða hér inn milljónum á milljónir ofan til þess að greiða tapið af vísindaveiðunum. Má ég leggja til að vísindaveiðum á hrefnu verði hætt, virðulegi forseti? Ef það á að kosta þetta plús tapið sem við verðum fyrir í ferðaþjónustunni skulum við bara hætta þessu. Mér sýnist vera sjálfhætt, ég sé ekki betur. Það verður forvitnilegt að vita hvar þetta dæmi stendur í heild sinni þegar gert verður upp ef það á að halda áfram á þeirri braut sem gert var á því ári sem nú er að líða, og ég tala ekki um þau næstu.

Vinnumálastofnun Íslands fær hér hækkaða fjárheimild sem gerð er grein fyrir á bls. 67, um 4 millj. kr., til þess að ráða starfsmann hjá Vinnumálastofnun til að annast útgáfu atvinnuleyfa vegna starfsemi á virkjanasvæðum við Kárahnjúka og vegna byggingar álvers í Reyðarfirði. Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við þetta fjárframlag, þessa auknu fjárheimild, og ég spyr hvort haldið sé til haga öllum þeim kostnaðarauka sem þessar framkvæmdir leiða til fyrir ríkissjóð. Er ekki orðið tímabært að við fáum að sjá rauntölur um hvað þetta feigðarflan í stóruiðjumálunum á eftir að kosta okkur og er að kosta okkur núna þau ár sem framkvæmdirnar sem áttu að skila svo ofboðslega miklu standa yfir? Hvað kostar þetta ríkissjóð í beinhörðum peningum, beint og óbeint? Ég spyr hvort þessar tölur séu inni í upphaflegum áætlunum Landsvirkjunar um heildarkostnað Kárahnjúkavirkjunar og undirbúnings fyrir álversframkvæmdir.

Það má líka vekja athygli á því, frú forseti, að þetta er ekki eini liðurinn í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem varðar stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan. Ó nei, aldeilis ekki, því að við getum séð undir kafla iðnaðarráðuneytisins, sem er á bls. 79, að það fær á þessum fjáraukalögum 3,5 millj. í viðbótarfjárheimild til þess að hreinsa álverslóðina á Austfjörðum. Hreinsa hana af hverju? Jú, jú, byggingum og girðingum og einu og öðru smálegu, það þarf að greiða sorphirðugjald af því. Í annan stað þarf að veita aukna fjármuni til þess að rannsaka fornminjar á lóð sem ætluð er undir álver Alcoa í Reyðarfirði. Iðnaðarráðuneytið fær til þess 3 millj. kr.

Það var löngu vitað þegar umhverfismat þessa álvers var gert að það gætu verið umtalsverðar fornleifar á lóðinni. Það þurfti ekki að koma hér inn í fjáraukalögin 2004. Það væri forvitnilegt, og verður auðvitað spurt um það, frú forseti, að vita hvaða fornleifar kæmu þar upp, hvaða minjar koma þar upp og hversu verðmætar þær eru. Í því sambandi er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé komið að því að við stoppum og segjum: Kannski er það bara hagkvæmara eftir allt að grafa upp fornleifarnar okkar, búa til vísindasetur í kringum þær, kortleggja þær og koma á framfæri í útlöndum, úti um allan heim, heldur en að reisa álver á lóðum sem hafa að geyma merkar fornminjar.

Sem sagt, iðnaðarráðuneytið fær hér aukna fjármuni og ég spyr: Eru þeir hluti af heildarpúllíunni, heildarkostnaði vegna álversframkvæmda og virkjanaframkvæmda á Austfjörðum?

Enn er hægt að nefna fjármuni sem fara af þessum fjáraukalögum beinlínis í það að vinna við stóriðjuframkvæmdirnar. Á bls. 81 í frumvarpinu kemur fram að Náttúrufræðistofnun Íslands fær 20 millj. kr. fjárveitingu til að vega upp á móti fyrirsjáanlegri lækkun sértekna á áætlun fjárlaga en þar munar mest um vinnu sem fyrirhuguð var fyrir Landsvirkjun og Orkusjóð en hefur nú verið frestað. Henni hefur verið frestað en hún á eflaust eftir að fara fram í annan tíma, 20 millj. kr. þar áætlaðar og eru það örugglega ekki einu 20 millj. sem Landsvirkjun á eftir að bæta við í rannsóknarvinnu út af stóriðjuframkvæmdunum.

Hér eru nefndir til sögunnar þrír liðir sem sýna svart á hvítu að stóriðjuframkvæmdirnar kosta ríkissjóð beint og óbeint gífurlega fjármuni sem mig grunar að hafi ekki verið reiknaðir inn í heildaráætlanirnar um kostnaðinn sem Landsvirkjun hefur reiknað af þessum virkjanaframkvæmdum öllum.

Já, virðulegi forseti, það eru ýmsar athugasemdir sem má gera við þetta fjáraukalagafrumvarp. Oft finnst manni eins og hér hafi verið illa ígrunduð mál og ekki staðið nægilega fagmannlega að verki. Ég tel að fjárlaganefndin eigi talsverða vinnu fyrir höndum við að rýna í einstök atriði sem hér eru til staðar og hafa verið tíunduð af fleiri þingmönnum en mér í þessari umræðu.



[14:08]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Okkur gefst í fjárlaganefndinni ágætistækifæri til að fara yfir einstaka liði í fjárlagafrumvarpinu og leita svara við einstökum fjárveitingum í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég hygg að ég muni fyrst og fremst færa slíkar spurningar fram á þeim vettvangi en vil nota þetta tækifæri til að beina til hæstv. fjármálaráðherra nokkrum almennum fyrirspurnum sem lúta að fjáraukalögum og þá kannski fyrst vegna þeirrar umræðu sem hér hefur verið í þinginu undanfarna daga um þau miklu frávik sem verið hafa á fjárlagafrumvarpi annars vegar og niðurstöðu ríkisreiknings hins vegar.

Nú er komið fram fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2004 sem eykur útgjöldin allnokkuð en þar hafa tekjur líka verið vanáætlaðar þannig að nettóútkoman er ríkissjóði hagstæð. Það er út af fyrir sig ánægjulegt en ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji nú, þegar hillir undir lok árs, að fjárlögin og þessi fjáraukalög muni þá endurspegla næsta nákvæmlega þá niðurstöðu sem við munum síðan sjá í ríkisreikningi. Eru þar e.t.v. einhverjir liðir sem við eigum enn eftir að sjá sem víkja frá þeim áformum sem lagt var upp með fyrir ári í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2004?

Í öðru lagi vildi ég spyrja um afstöðu fjármálaráðherrans til fjáraukalaganna. Mér hefur fundist að skilja mætti á máli hans undanfarna daga að það væri í sjálfu sér ekki nema eðlilegur þáttur í rekstri ríkissjóðs að það þyrfti að sækja aukafjárveitingar í fjáraukalögum og að menn yrðu einfaldlega að gera ráð fyrir því. Það er út af fyrir sig sjónarmið en þá held ég að það sé mikilvægt að það liggi fyrir hversu mikið umfang fjármálaráðherrann telur vera eðlilegt í slíkum fjáraukalögum í auknum útgjöldum. Er t.d. þetta umfang, svona á bilinu 6–7 milljarðar í aukafjárveitingum, það sem hæstv. fjármálaráðherra þykir eðlilegt í aukafjárveitingum? Það er þá eðlilegt við umfjöllun um fjárlög hvers árs að taka tillit til þess að í raun og veru sé gefið, þegar lagt er upp í þann leiðangur, að útgjöld muni aukast um 5, 6 eða jafnvel 7 milljarða vegna aukafjárveitinga sem óhjákvæmilega séu og hæstv. fjármálaráðherra geri í raun ráð fyrir á hverju ári. Það hefur auðvitað áhrif á alla umræðu og umfjöllun um fjárlögin ef það eru fyrir fram gefin sannindi að það sé eðlilegt að vera í milljarðaaukafjárveitingum.

Ég vildi líka fá að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort gætt sé sérstaklega að þeim liðum fjárlaga sem aftur og aftur, ár eftir ár eru fastir liðir á fjárlögunum. Ég kallaði eftir yfirliti um það á síðasta ári hvaða fjárlagaliðir væru oftar en ekki á síðustu fimm árum inni á fjáraukalögunum. Ég sé að af þeim lista yfir 100 fjárlagaliði sem komu yfir aðila sem eru oftar en ekki á fjáraukalögum eru þetta árið liðlega 40 aðilar einmitt í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Mér sýnist fljótt á litið að þeir séu með um 95% af aukafjárveitingunum og að það sé þess vegna nokkuð fyrirsjáanlegt hvaða liðir það eru sem eru alltaf aftur og aftur á fjáraukalögunum og sumir raunar hvert ár. Ég held að það séu einir 10 liðir sem eru öll sl. sex ár, sumir kannski eðlilega vegna þess að þeir eru þess eðlis en sumir ættu auðvitað ekki að vera þar.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki fara illa á því að í þessum hópi sé að finna bæði Alþingi og forsætisráðuneytið. Það er nú einu sinni svo að eftir höfðinu dansa limirnir. Mér þætti vænt um að heyra afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til þess hvort honum þyki ekki fara illa á því að það séu stöðugar og sífelldar aukafjárveitingar til þessara æðstu stofnana löggjafar- og framkvæmdarvaldsins.

Liðurinn Ýmis verkefni hjá forsætisráðuneytinu fer sífellt fram úr. Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að ríkisstjórninni séu fengnar á fjárlögum á ári hverju hundruð milljóna króna í ófyrirséðar ákvarðanir sem ríkisstjórnin þarf að taka um einstakar fjárveitingar. Er þá ekki töluvert svigrúm fyrir ráðherra eins og hæstv. forsætisráðherra til að koma með slík verkefni, leggja á borð ríkisstjórnar og þar sé þá fjármagn fyrir?

Um leið fagna ég því að aðeins ein af aðalskrifstofum ráðuneytanna er á þessum lista í ár, aðalskrifstofa utanríkisráðuneytisins, en mér þykir fara betur á því að sjá ekki aðalskrifstofur ráðuneytanna keyra fram úr heimildum sínum í fjárlögum eins og allt of margar gerðu samkvæmt þeim lista sem útgefinn var í fyrra. Mér finnst vera framför að þessu.

En einmitt um aðhaldið og eftirfylgnina, að sömu aðilarnir séu aftur og aftur að fara fram úr, vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi á síðastliðnu ári frá því að við ræddum fjárlög síðast með formlegum hætti þurft að veita formlegt tiltal eða áminningar eða gefa út viðvaranir til einstakra ríkisstofnana sem aftur og aftur hafa farið fram úr þeim heimildum sem þeim eru veittar lögum samkvæmt. Og af því að það er í sama anda og hefur verið rætt um áður um teiknimyndina um Gretti sterka, og hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafa upplýst, vildi ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort hinar umræddu 7 millj. hafi nú þegar verið greiddar úr ríkissjóði. Mér finnst það einfaldlega skipta máli fyrir virðingu manna fyrir fjárlögunum og fyrir því með hvaða hætti framkvæmd þeirra fer fram eftir að hafa heyrt hv. þingmenn lýsa því hvernig ákvarðanir um fjárveitinguna voru teknar. Ég geri mér grein fyrir því að hægt er að breyta þeim í fjáraukalögum en ég geri ráð fyrir að slík fjárveiting sé greidd út að fengnu samþykki Alþingis í þeim lögum sem hér verða afgreidd.

Að síðustu um eina af forsendunum í fjárlagafrumvarpinu sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á áðan um atvinnustigið. Ég vil fá að nota tækifærið til að árétta þá fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að þetta er ekki eina árið sem atvinnustigið er ofmetið og atvinnuleysi vanmetið talsvert. Í ár er áætlað 2,5% en verður 3%. Árinu áður var líka áætlað 2,5% og varð 3,3%. Á bak við þessar hlutfallstölur eru miklu hærri fjárhæðir í Atvinnuleysistryggingasjóði en ekki síst mjög margt fólk sem er atvinnulaust. Það sem vekur mig til sérstakrar umhugsunar er að ég man ekki betur og vildi óska eftir því að ráðherra staðfesti það, að þessar spár um atvinnuleysi fyrir sl. ár hafi verið gefnar út áður en ákvörðun um virkjanaframkvæmdir fyrir austan voru teknar og að spáin fyrir þetta ár verið gefin án þess að gera ráð fyrir stækkun Norðuráls. Hið síðarnefnda hygg ég að sé örugglega rétt hjá mér en bið hæstv. fjármálaráðherra að hjálpa mér með hið fyrrnefnda. Þessar framkvæmdir eiga auðvitað að skapa umtalsverða atvinnu og ef þær voru ekki í forsendunum þegar atvinnuleysinu var spáð og það hefur sem sagt árað betur í atvinnulífinu hefur maður kannski enn þá meiri áhyggjur af því að menn séu að vanmeta þróunina í atvinnustiginu og í atvinnuleysinu og ég vil biðja hæstv. ráðherra um að reifa þetta.



[14:18]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég mun halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni og tiltaka nokkur atriði sem ég vil gera athugasemdir við út frá því sem ég sagði í fyrsta hluta ræðu minnar. Ég minntist á fjölmiðlalögin í lok ræðunnar og þann kostnað sem þau höfðu í för með sér. Það er sérstaklega eitt atriði sem ég nefndi ekki áðan sem er ástæða til að gera athugasemd við, að kostnaðurinn af fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra er færður undir forsætisráðuneytið.

Frú forseti. Þetta kallar fram þær hugrenningar að fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra hafi verið fjölmiðlanefnd forsætisráðherra. Það hafi aldrei verið ætlunin að nefndin starfaði að einhverju leyti undir menntamálaráðherra. Ég hlýt að biðja hæstv. fjármálaráðherra um skýringu á því af hverju nefndarstörf á vegum menntamálaráðuneytisins eru færð undir forsætisráðuneytið og að í fjáraukalögum komi beiðni um að forsætisráðuneytið greiði kostnað af nefnd sem starfaði á vegum menntamálaráðuneytisins.

Ég náði ekki alveg að ljúka athugasemdum mínum varðandi framhaldsskólana og þessa sérkennilegu tölu, um 1.100 nemendur, sem virðist hafa dúkkað upp að því er virðist óvænt þrátt fyrir að um þetta hafi verið mikið rætt og bent á að þarna væri röng áætlun. Það er sérkennilegt að talan skuli vera svona há þegar tekið er tillit til þess að við 2. umr. um fjárlög var bætt inn 800 millj. kr. til þess að mæta vanáætluninni um nemendafjölda en að vísu var meðaltalið á hvern nemanda einnig hækkað. Það er nauðsynlegt að fá úr því skorið vegna þess að í frumvarpinu um fjáraukalögin segir, með leyfi forseta: „Og er miðað við að lækka meðalframlag á nemanda frá því sem gert hafði verið ráð fyrir.”

Er þá verið að lækka framlagið á þá 1.100 nemendur sem er bætt við eða er verið að lækka meðalframlagið á alla nemendur í framhaldsskólum landsins á yfirstandandi ári? Þetta kemur ekki glöggt fram í texta en nauðsynlegt að fá það fram, sérstaklega í framhaldi af því sem ég sagði áðan, að við 2. umr. fjárlaga fyrir þetta ár var meðalframlagið hækkað vegna þess að talin var ástæða til og virðist nú eiga að ganga til baka. Þegar það þarf meiri peninga er meðalframlagið lækkað en þá væntanlega náð upp í nemendafjöldann. Þetta hefur gerst undanfarin ár að ýmist er tölunni um nemendafjölda mætt eða tölunni um kostnað en aldrei virðist ætla að takast að ná hvoru tveggja í senn.

Nokkrir hv. þm. hafa talað um umframkostnaðinn vegna opnunar Þjóðminjasafnsins og gleðilegt að það skuli hafa tekist að opna það safn en jafnforkastanlegt að þurft hafi aukafjárveitingu til þess, vegna þess að í fjárlagavinnunni í fyrra lá þetta allt saman fyrir. Það þýðir ekkert að segja að þetta hafi verið ófyrirséð því þetta lá allt saman fyrir í skriflegum gögnum, meira að segja frá Þjóðminjasafninu. Mér er sérstaklega minnisstætt þar sem hér er talað um opnunarsýninguna því rökstuðningur með þeirri beiðni var mjög góður og því með ólíkindum að þetta skuli gerast, sérstaklega þegar vísað er til þess að það var margspurt um þetta í fyrra. Á þessu ári var spurt um þetta í tvígang í þinginu, fyrst í febrúar, og þá var ekki talin þörf fyrir neina fjármuni, og aftur í maí. Þá var reyndar upplýst að beðið yrði um 100 millj. kr. vegna opnunarinnar en frá því í maí hefur þetta hækkað um 20% svo beiðnin hljóðar nú upp á 120 millj. kr.

Í landbúnaðarráðuneytinu kemur fram afar sérkennileg athugasemd. Beðið er um rúmar 130 millj. kr. vegna álagsgreiðslna vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt og skýrt á mjög eðlilegan hátt og engar efasemdir um það. En þetta er spurning um vinnubrögð. Hvernig getur það gerst að talan sem á að vera inni samkvæmt lögum sem samþykkt voru á árinu 2002 ef ég man rétt, þannig að það er búið að liggja fyrir mjög lengi, dettur út vegna einhverra mistaka, væntanlega í fjárlagaferlinu og enginn virðist taka eftir því frá því í októberbyrjun og fram í desember að töluna vanti? Maður veltir því fyrir sér hvort ráðuneytin fylgist ekki betur með en svo að þau lesi ekki einu sinni fjárlagafrumvarpið og fylgist með þeim fjármunum sem eiga að renna til þeirra. Því spyr maður: Hvaða vinnubrögð eru viðhöfð sem geta orsakað slíkt?

Það er hægt að koma víða við en ég verð að reyna að hoppa nokkuð yfir þetta. Varðandi löggæslukostnað, ýmis löggæslu- og öryggismál, er afar sérkennilegt mál sem ég held að sé alveg nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra útlisti á einhvern hátt fyrir okkur, en það er ævintýrið í kringum Tetra Ísland ehf. Þar er verið að biðja um 51 millj. kr. sérstaka hækkun vegna viðbótarsamnings en síðan segir að á þessu stigi liggi ekki fyrir skipting kostnaðaraukans. Æskilegt væri, ef hæstv. fjármálaráðherra hefur tök á því, að hann mundi nefna hvaða stofnanir koma þar við sögu og hvað hafi í raun gerst hjá Tetra Ísland ehf.

Varðandi félagsmálaráðuneytið kemur fram að aðalskrifstofan þurfi að fá tugi milljóna króna vegna breytinga á húsnæði og vísað til úttektar á öryggismálum. Við skulum vona að öryggismálin komist í lag með þessum 10 millj. kr. en þarna segir að þetta sé vegna úttektar. Þá er spurning hvenær hún var gerð og maður hlýtur að spyrja í framhaldinu: Hvernig er staðan á öðrum aðalskrifstofum ráðuneyta? Er búið að taka öryggismálin út þar eða var þessi einstaka skrifstofa tekin út? Við vonum að þetta sé í lagi á öðrum skrifstofum en ef ekki er nauðsynlegt að þar verði gerð úttekt.

Kjararannsóknarnefnd er að vinna að býsna mikilvægu og mögnuðu verkefni við að gera launakönnun í samvinnu við Hagstofuna og virðist það hafa gengið ágætlega. Í frumvarpinu kemur fram að í lok árs 2003 hafi náðst m.a. sá áfangi að launakönnun náði til útgerðarfyrirtækja á árinu 2004. Mun könnunin einnig ná til fjármálafyrirtækja, tryggingafélaga og lífeyrissjóða. Hér er því greinilega býsna þarft verk á ferðinni, en af hverju kemur þetta fram í frumvarpinu? Það liggur ljóst fyrir að könnunin er ekki ný, hún hefur verið unnin á árum áður þannig að ef menn hafa ætlað sér að vinna þetta eins og gert hefur verið á árinu 2004 hefði upphæðin að mínu mati átt að vera í fjárlögum þessa árs.

Hjá heilbrigðisráðuneytinu kennir ýmissa grasa en ég ætla að láta duga að nefna aðeins eitt sem vekur sérstaka athygli varðandi lækniskostnað undir liðnum Sjúkratryggingar. Þar er farið fram á 70 millj. kr. hækkun á fjárheimildum vegna lækniskostnaðar en áform um sparnað á þessu ári náðu ekki fram að ganga og eðlilegt að spurt sé hvað átti að spara sem ekki tókst. Seinni hlutinn er enn merkilegri. „Ekki varð af afslætti sérgreinalækna vegna eininga umfram samninga.“ Frú forseti. Hvaða afslátt er um að ræða? Af hverju var gert ráð fyrir að sérgreinalæknar gæfu afslátt á eitthvað sem ekki er samkvæmt samningum? Hvað höfðu menn fyrir sér í því að slíkt mætti takast?

Annað atriði hjá heilbrigðisráðuneytinu snertir Heilbrigðisstofnun Austurlands. Það er býsna merkilegt að sá liður þurfi að koma í fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2004 vegna þess að hér er eingöngu um að ræða 20 millj. kr. aukningu vegna aukinna umsvifa í kjölfar stóriðjuframkvæmda og virkjunarframkvæmda fyrir austan. Það var löngu búið að taka ákvarðanir um þessar framkvæmdir og var bent á af þessari stofnun að umfangið mundi að sjálfsögðu stóraukast. Þar af leiðandi lá það fyrir að þarna mundi þurfa að bæta verulega í en því miður var það ekki gert og verið að reyna að bæta það núna.

Frú forseti. Að lokum vil ég nefna orðalag sem vekur alveg sérstaka athygli hjá Hagstofu Íslands. (Forseti hringir.) Hagstofan hafði talið óhætt að reikna með áframhaldandi framlagi á sama hátt og önnur ráðuneyti. Þrátt fyrir að það væri ekki í fjárlögunum taldi Hagstofan að hún mætti gera ráð fyrir því þó Alþingi hefði ákveðið annað. Hvernig stendur á því, hæstv. fjármálaráðherra?



[14:29]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er búin að vera nokkuð löng umræða um frumvarp til fjáraukalaga og kannski ítarlegri en oft áður. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að fá mikið flóð spurninga um einstök atriði og ég átti satt að segja von á því að hæstv. ráðherra mundi nota þann rétt sem hann hefur til að koma þrisvar í þessa umræðu og svara einhverju af því sem við spurðum um í okkar fyrstu umferð en ekki ræð ég því.

Þegar tíma minn þraut í fyrstu umferð var ég að ræða um þá ósk að auka fjármuni til teiknimyndaverkefnisins Grettis, það sem ég leyfði mér að kalla spillingu. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra og bæta við þær spurningar sem komið hafa: Finnst hæstv. ráðherra eðlilegt að þetta skuli koma inn í frumvarpið með þessum hætti og finnst honum eðlilegt að bjóða upp á skýringuna sem sett er fram við þessa ósk, að í huga einhverra hefði þetta átt að vera hærri upphæð en bæði menntamálanefnd og fjárlaganefnd töluðu um og Alþingi Íslendinga setti í lög?

Það er annar liður undir menntamálaráðuneytinu sama efnis og hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi hér, og það var Snorrastofa. Ég vil taka það fram eins og hann að ég er ekkert að leggja neinn dóm á þessi verkefni, hvorki teiknimyndina Gretti né Snorrastofu. En það sem ég er að velta fyrir mér eru þær skýringar sem eru látnar fylgja óskum um aukið fjármagn. Þarna er farið fram á 6 milljónir í stofnkostnaðarframlag vegna Snorrastofu í Reykholti. Í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram á sínum tíma var gert ráð fyrir þessu framlagi, 6 millj. kr. Síðan í 2. umr. var það fellt út, það var sem sagt breytingartillaga um að fella þessar 6 milljónir út og það var samþykkt af Alþingi.

Nú kemur hér inn ósk um að þessar 6 milljónir verði greiddar og þar segir, og það er skýringin sem ég er að furða mig á og skil ekki hvernig hæstv. ráðherra telur sig geta boðið Alþingi upp á svona skýringu:

„Þeir sem að Snorrastofu standa höfðu hins vegar miðað áætlanir sínar við að þessi fjárheimild yrði til staðar, með tilvísun í frumvarpið.“

Þýðir þetta þá að þegar lögð eru fram frumvörp hér á Alþingi, áður en byrjað er að ræða þau, áður en þau eru afgreidd, að ef einhverjir hlutir eru þar inni og einhverjir aðilar telja sig geta farið fram með ákveðnum hætti af því að eitthvað stendur í frumvarpinu, að þeir eigi þá rétt á því og jafnvel þá einhverjum bótum ef einhverjir hlutir eru felldir út úr frumvarpi í meðferð Alþingis? Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. ráðherra að því: Telur hann þetta eðlilega málsmeðferð og telur hann þá skýringu bjóðandi fyrir Alþingi, þ.e. ósk um að þessar 6 milljónir verði greiddar?

Undir utanríkisráðuneyti er Nikkel-svæðið, og reyndar var vakin athygli á því af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það er verið að óska eftir 32 millj. kr. vegna hreinsunar á svokölluðu Nikkel-svæði sem er í Reykjanesbæ, sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli skilaði ríkissjóði árið 2001.

Ef ég man rétt þá fór fram mjög viðamikil hreinsun á þessu svæði á árinu 2002. Herinn skilaði því 2001, tók sínar pípur og tanka og síðan, eftir því sem ég best veit, fór ríkissjóður í að hreinsa upp jarðveginn þarna og miklir jarðvegsflutningar voru frá Nikkel-svæðinu og út á svokallað DYE-5 svæði á Stafnesi, reyndar við mjög hávær mótmæli landeigenda þar því að þeir töldu að þarna væri verið að koma með mjög mengandi efni inn á land sem lá að þeirra landi, en sleppum því.

Spurningin er: Hvernig í ósköpunum getur þetta dúkkað hér upp í fjáraukalögum? Er þetta ekki dæmi um verkefni sem alls ekki á heima lögum sem þessum?

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór aðeins yfir lið undir sjávarútvegsráðuneyti sem heitir Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, og ég ætla aðeins að hnykkja á því sem hann sagði. Þarna er ráðuneytið að óska eftir 10 millj. kr. fjárveitingu til að endurgreiða Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði greitt út styrk til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins upp á 10 millj. kr. til að þróa og smíða fiskvinnslubúnað.

Síðan gerist væntanlega eitthvað sem framkvæmdastjórnin er ekki sátt við því að hér segir:

„Í framhaldi af athugasemdum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins athugaði Ríkisendurskoðun framkvæmd samnings sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gerði við íslenskt fyrirtæki vegna verkefnisins. Að mati Ríkisendurskoðunar var framkvæmdin ekki í samræmi við ákvæði samningsins og ríkislögmaður mat að forsendur fyrir endurkröfu styrksins á hendur samstarfsaðila væru ekki fyrir hendi.“

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fær þá 10 millj. kr. styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í ákveðið verkefni, úthlutar þeim peningum og verkefnum væntanlega til einhvers einkafyrirtækis. Það einkafyrirtæki stendur sig ekki miðað við þær forsendur sem settar eru fyrir útgreiðslu styrksins og framkvæmdarstjórnin endurkrefur íslenska ríkið um peningana.

Ríkið telur sig ekki geta náð peningunum af fyrirtækinu sem fékk þá, ef ég skil þessa grein rétt. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra, hafi hann um það upplýsingar, svari okkur um hvað þarna er á ferðinni. Ef upplýsingarnar liggja ekki fyrir nú þá munum við að sjálfsögðu leita eftir þeim í vinnu okkar í fjárlaganefnd.

Síðan er það sem heyrir undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Þar er verið að fara fram á auknar fjárheimildir vegna laga um siglinga- og farmvernd og það er í sjálfu sér eðlilegt. Lögum er breytt og það verður til aukinn kostnaður, 30 millj. kr. hjá ríkislögreglustjóra vegna siglinga- og farmverndar og hjá Landhelgisgæslu 9 millj. kr. eða 40 millj. kr. alls. Ég hef ekkert við þetta að athuga vegna þess að við breytum lögum hér á Alþingi og það fellur til kostnaður, talsvert mikill aukakostnaður og þessi embætti þurfa að finna leið til að mæta honum.

Það sem aftur á móti í framhaldi af umræðu sem var hér fyrr í dag veltur upp í hugann er: En hvað með sveitarfélögin? Hvað með sveitarfélögin sem þurftu að leggja í verulega mikinn stofnkostnað til að mæta kröfum þessara nýju laga? Ég veit að það var sagt við þau: Þið verðið bara að hækka gjöldin og ná fyrir þessu þannig. En sveitarfélög, mörg hver fjárvana, urðu að ráðast í dýrar framkvæmdir við hafnir sínar til þess að geta tekið þar áfram inn fraktskip eða skip erlendis frá og fyrst að talið var eðlilegt að bæta kostnað ríkisfyrirtækjunum sem verða fyrir kostnaði vegna framkvæmda við kaup á vopnum og búnaði þá veltir maður því fyrir sér af hverju á sama hátt er ekki ástæða til þess að bæta sveitarfélögunum þann kostnað sem þau verða fyrir.

Hjá sýslumanninum í Reykjavík er óskað eftir viðbótarfjárheimildum upp á 6 millj. kr. og það kemur manni svolítið á óvart til hvers þær eru, svona miðað við það sólskinsástand sem ríkir hér á Íslandi eftir því sem sagt er, vegna þess að sýslumaðurinn í Reykjavík þarf 6 milljónir til viðbótar vegna þess að fjárnámsbeiðnum hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Þeim hefur fjölgað úr tæplega 17 þúsund á árinu 2000 í 29 þúsund beiðnir á síðasta ári. Þetta hefur skapað vandræði í aðfarardeild embættisins og þrátt fyrir að búið væri að auka fjárveitingar út frá þessu til sýslumannsins í Reykjavík þá dugir það ekki til. Það er svo mikið að gera hjá sýslumanninum í Reykjavík við fjárnámsbeiðnir að hann þarf að fá sérstaka aukafjárveitingu þess vegna. Þetta er kannski stöðugleikinn og góðærið sem hér ríkir.

Tíminn er að hlaupa frá mér. Það var búið að minnast hér á Ábyrgðasjóð launa, þar er eitthvað á ferðinni sem við hljótum að þurfa að skoða, þessi stöðuga aukning á því að ríkið þurfi að greiða launþegum sem áður hafa unnið hjá fyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota laun. Þarna er eitthvað um að vera sem við hljótum að þurfa að skoða, þetta getur ekki vaxið svona á hverju einasta ári.

Atvinnuleysistryggingasjóður þarf að fá hækkun upp á 948 milljónir, tæpan milljarð, og það er að hluta til vegna vitlausra forsendna um atvinnuleysisspá, líka vegna þess að atvinnuleysisbætur hækka, það er hluti af þessu. En það vekur mann til umhugsunar að við erum að bæta milljarði í atvinnuleysisbætur vegna ástandsins á vinnumarkaði og við höfum sagt að við séum að bæta talsvert mikið í bætur til öryrkja vegna ástandsins á vinnumarkaði, og þegar maður leggur þessi tvö atriði saman þá hlýtur maður að velta fyrir sér og hafa áhyggjur af hvað er að gerast.

Þetta frumvarp sem liggur fyrir, ég held að það sýni okkur að hluta til agaleysi, sjálfvirkni og ekki nægjanlegt aðhald í útgjöldum ríkisins.



[14:39]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir alveg prýðilega umræðu á fundinum um fjáraukalögin fyrir þetta ár, bæði um einstök atriði frumvarpsins og eins almennt um málefni er lúta að meðferð fjáraukalaganna.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég er ekkert sérstaklega pirraður yfir þessu frumvarpi. Það er kannski í og með vegna þess að í ár er um að ræða tiltölulega lítil frávik frá fjárlögunum sjálfum og minni en við höfum þurft að glíma við undanfarin ár oft og tíðum. Frávikið gjaldamegin er 2,5% og ég held að það verði nú að segja, hvað sem líður einstaka þáttum þar, að 2,5% frávik í svona stóru dæmi er innan skekkjumarka. (Gripið fram í: Það gæti verið minna.) Það gæti verið minna og við skulum keppa að því sameiginlega að gera það minna.

Í þessu eru að sjálfsögðu, eins og við vitum öll, margar fjárhæðir sem byggja á áætlunum sem eru óvissar. Það var nefnt hérna t.d. áðan að liðir í Tryggingastofnun ríkisins væru ýmist að hækka eða lækka samkvæmt þessu frumvarpi. Það er vegna þess að upphaflegu áætlanirnar voru ekki öruggari en svo, sumt hækkar, annað lækkar eftir því sem líður á árið og hlutir skýrast. Sama er að segja t.d. um Atvinnuleysistryggingasjóð, atvinnuleysi hefur því miður orðið meira en við reiknuðum með fyrir ári síðan. En það hefur líka gerst að það var tekin sérstök ákvörðun um það í marsmánuði sl. að hækka þessar bætur um 11,3%, sem vitanlega var ekki vitað þegar fjárlögin voru afgreidd en hefur auðvitað áhrif til hækkunar núna. Svo bætist það við hvað varðar Atvinnuleysistryggingasjóð að vextir af inneign hans hjá ríkissjóði eru lægri en þeir voru vegna þess að vaxtastigið hefur lækkað. Margt af þessu og flest af þessu á sér því eðlilegar skýringar.

Einn hv. þingmaður spurði að því hvort útkoman úr fjárlögunum plús fjáraukalögunum yrði þá hin endanlega niðurstaða ríkisreiknings á næsta ári, hvort ég gæti þá fullyrt það og hvort ég væri þá ánægður með það. Ég hélt að ég hefði við 1. umr. um fjárlögin hér í fyrradag farið það rækilega yfir þetta atriði, sérstaklega í síðari ræðu minni, að spurningum sem þessari yrði ekki varpað hér fram. En ég skal útskýra aftur hvers vegna henni er ekki hægt að svara. Ég get gert það með tilvísun til eins máls sem nú er uppi hér í þjóðfélaginu og menn hafa gert að umtalsefni hér á Alþingi, sem er kennaraverkfallið.

Það vill nefnilega þannig til að lífeyrisskuldbindingar kennara eru enn þá a.m.k. á ábyrgð ríkisins. Ef kennaradeilan leysist með þeim hætti að dagvinnulaun kennara hækka meira en almennt gerist þá mun lífeyrisskuldbindingin sem því fylgir og mun gjaldfalla á reikninginn hjá ríkissjóði hækka sem því nemur. Getum við svarað því í dag hver sú tala er eða yrði? Nei. En gátum við þá kannski svarað því þegar við vorum að afgreiða fjárlögin í fyrra fyrir þetta ár, eins og haldið var fram hér í þingsalnum á þriðjudaginn var að við hefðum átt að geta? Auðvitað ekki.

Þess vegna er svarið við þessari spurningu það að við vitum ekki fyrir víst hvort þetta verður endanlega niðurstaðan út úr reikningnum. Hitt vitum við af hinum almenna rekstri ríkissjóðs, þar sem óreglulegir liðir eru ekki teknir með, að allt bendir til þess að þessi niðurstaða muni standast.

Ég var að enda við að segja að frávikið núna væri 2,5%, tæplega reyndar, í gjöldum miðað við fjárlögin, og ég var spurður að því hvort þetta umfang væri eðlilegt, 6–7 milljarðar kr., er það eðlilegt frávik? Það er ekki hægt að svara því. Það tengist m.a. þessu sem ég var að enda við að rekja varðandi skuldbindingar og annað þess háttar. Hins vegar er náttúrlega eðlilegt að stefna að því að þessi tala verði sem allra lægst alveg eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var að skjóta hérna inn í. Um það eiga allir að geta sameinast. Og kannski er ein leið til þess að gera betur í þeim efnum sú að setja meiri fjármuni inn á liði sem eiga að dekka óviss útgjöld eða ófyrirsjáanleg atvik í sjálfum fjárlögunum, það er ein leið.

Við erum með sérstakan lið í fjárlögunum sem heitir Laun og verðlagsmál sem er reyndar í fjárlagafrumvarpi næsta árs heldur ríflegri en hann hefur oft verið vegna óvissu um þau málefni. Við erum með óviss útgjöld á ýmsum stöðum. Það er auðvitað ein leið að gera betur gagnvart því að rýmka slíkar fjárveitingar og reyna þá að draga úr því sem kemur inn á fjáraukalögin. En þá er jafnframt verið að framselja ráðstöfunarréttinn yfir því til ráðherranna. Vilja menn það kannski? Þetta er vandasamt. Auðvitað viljum við öll vinna saman að því að gera eins vel og við getum í þessum efnum.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi líka hvort það hefði ekki verið þannig að með óvissum útgjöldum mætti ná utan um útgjöld t.d. forsætisráðuneytisins og Alþingis. Það er liður í fjárlögunum sem heitir Ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og er upp á 200 millj., var lengi 100 millj. en er núna 200 vegna þess að það koma ævinlega upp hlutir sem eðlilegt er að bregðast við. Við notum þann lið mikið til að bregðast t.d. við hjálparbeiðnum frá útlöndum, núna síðast vegna fellibylja í Karíbahafinu, áður vegna hörmungarástands í Súdan og jarðskjálfta í Íran o.s.frv. en einnig að sjálfsögðu vegna verkefna innan lands.

Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um þessi atriði. Ef forsætisráðuneytið tekur upp á arma sína nýtt verkefni sem ekki var fyrirséð eða ekki var hægt að áætla fyrir með nákvæmni er ekkert við það að athuga að slíkt mál komi upp í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég tel að það eigi við um Evrópunefndina sem hér er ákveðið að leggja til að veitt verði fjármagn til. Sama er að segja um endurnýjunarsamning um Vesturfarasetrið á Hofsósi og sama er að segja um að ljúka við Laxnessafnið á Gljúfrasteini með þeim hætti að það sé fullkominn sómi að og þá var best að klára það fyrst byrjað var á því og fyrst ekki var nægileg fjárveiting fyrir því á fjárlögum ársins.

Mér er ekki kunnugt um hvort forstöðumenn hafa fengið áminningar eða tiltal eða a.m.k. formlegar áminningar. Mér er kunnugt um að sumir þeirra hafa að sjálfsögðu fengið bréflegar athugasemdir frá sínum ráðuneytum hafi þeir farið fram úr þeim reglum sem gilda í reglugerðum um framkvæmd fjárlaga. Við í fjármálaráðuneytinu sendum öðrum ráðuneytum reglulega ábendingar um það efni og það er ætlast til að því sé fylgt eftir og það er að sjálfsögðu gert. Ég hef sjálfur ekki veitt forstöðumanni áminningu fyrir framúrakstur. Það hefur ekki verið tilefni til þess í mínu ráðuneyti. En kannski er tilefni til þess í einhverjum öðrum ráðuneytum þó svo að það hafi ekki verið gert og það er þá ágætt að fjárlaganefndin fylgi slíkum athugasemdum eftir ef hún telur að svo sé. Reyndar eiga ýmsar stofnanir góða vini og bandamenn í þinginu og í fjárlaganefndinni þannig að það þarf kannski skoða hlutina eitthvað í því ljósi en það á hins vegar eitt yfir alla að ganga í þessum efnum.

Varðandi efnahagsforsendur almennt í frumvarpinu sem nokkrir þingmenn hafa vikið að, t.d. varðandi atvinnuleysi, þá gildir auðvitað um það eins og annað að slíkar spár eru óvissu háðar og menn verða að horfast í augu við raunveruleikann hvað það varðar. Sú staða hefur verið uppi á árum áður að atvinnuleysi hafi verið ofáætlað, það hefur orðið minna og þá hefur verið hægt að minnka framlögin í atvinnuleysisbætur. Núna er það reyndar öfugt og það er dálítið andstætt því sem menn höfðu eðlilega átt von á vegna þess að menn héldu að það yrði meiri spenna á vinnumarkaðnum en raunin hefur orðið vegna stórframkvæmda. Skýringarnar á því eru kannski þær að það er meira erlent vinnuafl innan lands en menn reiknuðu með. Það hefur verið meiri framleiðniaukning o.s.frv. sem getur skýrt þetta. En ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma. Við vonum öll að sjálfsögðu að atvinnuleysið minnki eins og gert er ráð fyrir í spánni fyrir næsta ár þar sem reiknað er með að það verði 2,75% að meðaltali yfir árið.

Ég hyggst þá koma að nokkrum athugasemdum um einstök mál og ef mér tekst ekki að ljúka við að svara þeim treysti ég því að einhver þingmaður taki til máls svo ég geti talað í þriðja sinn þegar því er lokið. En ég vil hins vegar segja það strax að ég er ekki með á takteinum skýringar um hvert einasta atriði og fólk verður því miður, eins og þingmenn tóku reyndar fram, að sætta sig við að fá ítarlegri skýringar í fjárlaganefndinni.

Það er búið að tala um ýmis mál. Margir hafa látið orð falla um eitt lítið verkefni sem tengist Gretti sterka og ég skal með ánægju útskýra það mál eins og það blasir við mér vegna þess að það er ekki eins einfalt og látið er í veðri vaka af því að eins og ég hef skilið málið urðu mistök í fjárlaganefndinni og fjárveitingin sem ætluð var þessu verkefni lenti annars staðar. Hún lenti nefnilega á fjárlagalið eða undirlið sem kallaður er Menningar- og fræðsluverkefnið Grettistak, 7 millj. Þannig að þó svo að menntamálanefnd hafi lagt til 1 milljón skilst mér að fjárlaganefnd hafi ætlað sér þetta en sett það fyrir handvömm á annan lið og menn hafi meira að segja fengið þar meira en þeir höfðu beðið um en þeir tóku því auðvitað fagnandi og af miklum skilningi. Ég skal þó ekki hallmæla þeim lið neitt, ég held að það sé hið besta mál en upp úr þessu og samtölum milli mín og fjárlaganefndarforustunnar virðist þetta hafa verið niðurstaðan. Ég fékk síðan bréf frá þeim um þetta og lagði til í ríkisstjórninni að þetta yrði lagfært. Þess vegna er þetta mál inni í frumvarpinu. Þarna er þá um að ræða einhvers konar mistök sem ég fyrir mitt leyti tek mína ábyrgð á og aðrir sína eftir atvikum. Vona ég þar með að það mál sé upplýst.

Hérna hefur verið nefnt annað lítil mál sem er Snorrastofa. Þar hafa líka orðið mistök í meðferð máls en ég get alveg fallist á að orðalagið sem er í skýringum í fjáraukalagafrumvarpinu með því sé ekki heppilegt. Ég skal viðurkenna það strax að ekki er heppilegt að segja í fjáraukalagafrumvarpinu: „Þeir sem að Snorrastofu standa höfðu hins vegar miðað áætlanir sínar við að þessi fjárheimild yrði til staðar ...“ Það er ekki eðlileg skýring. Skýringin er sú að þarna urðu mistök. Þau eru sennilega okkur að kenna í ríkisstjórninni þegar tillögur bárust frá okkur til nefndarinnar. Þetta var fellt brott þó að það hafi ekki verið ætlunin og við erum að reyna að leiðrétta það en það átti ekki að skýra það með þessum hætti. Ég tek á mig þau mistök.

Varðandi verkefni eins og Efri-Brú sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi hér þá er það líka handvömm, býst ég við. Þetta gerist seint á árinu og málið er ekki klárað. En hvað ætli þingmenn hefðu sagt ef ekki væri óskað eftir þessum fjármunum til þess að borga þessa húsaleigu? Þá hefði jafnvel verið beðið um utandagskrárumræðu ef marka má þann áhuga sem þingmenn hafa almennt á starfsemi þeirra ágætu samtaka sem þarna eiga hlut að máli.

Varðandi Tetra-kerfið sem tveir þingmenn hafa spurt um geri ég ráð fyrir að óskað verði eftir betri upplýsingum um það í nefndinni sjálfri. Ég hef ekki þær upplýsingar tiltækar en auðvitað er alveg ljóst að þar hefur ekki allt farið eins og ætlast var til, því miður, og það er búið að kosta mikla peninga. Þar hafa orðið mistök af ýmsu tagi sem ástæða er til að fara vel yfir í nefndinni. Ég tek mjög undir það.

Varðandi önnur atriði þá hygg ég að ég verði að geyma mér þau þar til ég fæ tækifæri til að koma aftur í ræðustól sem ég hyggst gera.



[14:55]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem bárust við þeim spurningum sem ég hafði lagt fyrir hann. Það er auðvitað ljóst að hann komst ekki yfir nærri allt og verður vonandi bætt úr því á eftir en ég hef ekki annan kost en að koma upp í andsvör því ég hef lokið rétti mínum til ræðuhalda undir þessum dagskrárlið.

Varðandi Laxnessafnið er ég út af fyrir sig sammála hæstv. ráðherra að fyrst á annað borð var farið af stað var auðvitað best að ljúka því þó svo að það hafi reyndar ekki tekist heldur þarf að fresta einhverju yfir á næsta ár. Það sem ég var hins vegar fyrst og fremst að gera athugasemdir við var að það er greinilegt að áætlunarkerfið í þessu sambandi hefur verið algerlega úr samhengi við það sem upp kom síðar og þar af leiðandi voru fjárlögin röng. Vegna þess að ef ætlunin hefur verið að gera það sjáum við að ef það hefur kostað rúmlega 20 millj. kr. duga 2,5 millj. kr. náttúrlega ekki til þess að framkvæma slíka hluti þannig að áætlunargerðin hefur greinilega verið úr öllu samhengi og við það var ég að gera athugasemd.

Varðandi Snorrastofu fagna ég því sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að þarna er orðalagið ekki rétt og afar óheppilegt og þarna hafa verið gerð mistök sem hæstv. ráðherra tekur á sig eða sitt fólk og það er ekkert við því að segja annað en fagna því að það skuli þá upplýst. Sama er að segja um Byrgið að þar hefur augljóslega orðið einhver handvömm og ég er sammála hæstv. ráðherra í því að þegar slíkt á sér stað á auðvitað bara að segja það í frumvarpinu. Það er hin rétta skýring og það á ekki að vera að fela það.

Einnig vil ég taka undir það með hæstv. ráðherra að Tetra-Ísland er augljóslega það stórt mál að við verðum að fara miklum mun nánar yfir það í fjárlaganefndinni sjálfri og eins og fram kom í fyrstu ræðu minni geri ég ráð fyrir að við munum óska eftir minnisblaði um það í fjárlaganefnd þannig að hægt sé að átta sig á hvað þarna fór úrskeiðis.



[14:57]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta andsvar hv. þm. að bæta að öðru leyti en því að ég vil taka fram að ég tek á mig þau mistök sem í frumvarpinu eru en ekki á mitt starfslið.

Það eru atriði sem hv. þm. nefndi áðan, ef mér leyfist að koma aðeins inn á það, sem ég gæti kannski skýrt aðeins betur en þó eru þau ekki mörg. Ég held að ég verði að vísa þeim flestum til fjárlaganefndar í frekari úrvinnslu. Hv. þm. spurði t.d. um hvaða sparnaður náðist ekki í sjúkratryggingunum varðandi læknana. Þar voru liðir sem menn höfðu reiknað með að geta náð ýmist með samningum við þá eða með því að minnka þá þjónustu sem keypt væri af þeim. Það virðist ekki ætla ganga eftir, enda eru þeir ekkert sérstaklega ginnkeyptir fyrir slíku, þeir ágætu starfsmenn ríkisins, og skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

Varðandi aðalskrifstofu félagsmálaráðuneytisins urðu þau atvik þar sem kölluðu nauðsynlega á úrbætur í öryggismálum í því ráðuneyti og hygg ég að búið sé að ganga frá slíkum hlutum í öðrum ráðuneytum áður eins og þingmaðurinn spurði um.

Varðandi Hagstofuna held ég að það hafi líka verið ákveðin mistök í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið í ár að láta ekki eitt yfir alla ganga hvað varðar framlög vegna upplýsingasamfélagsins. Ráðuneytin höfðu öll þar ákveðna púllíu. Hagstofan datt út en það er líka óheppilegt orðalag að segja að hún hafi mátt reikna með að hún fengi eitthvað meira úr því að það var ekki í frumvarpinu. Ég tek undir að það á sama við um þetta og Snorrastofu, þarna er ekki heppilega að orði kveðið.



[14:59]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta. Ég vil aðeins þakka hæstv. ráðherra fyrir að vekja athygli á því að orðalag, bæði varðandi Hagstofuna og Snorrastofu, er auðvitað afskaplega óheppilegt því verið er að gefa það fyllilega í skyn að það séu einhverjir aðilar utan þings sem geti tekið ákvarðanir út frá hinu og þessu og það eigi bara að gilda. Ég vona því að næst þegar við sjáum slíkt frumvarp verði hæstv. ráðherra búinn að tryggja það að slíkt orðalag sjáist ekki oftar og ef gerð hafa verið mistök séu þau bara viðurkennd sem slík vegna þess að auðvitað geta þau alltaf orðið þó svo að við stefnum að því að fækka þeim eins og kostur er. En að gefa það til kynna í frumvarpi til fjáraukalaga að það séu einhverjir sem geta dregið ályktanir af hinu og þessu og þar með eigi þeir að fá ákveðna fjármuni eru auðvitað hlutir sem ekki er hægt að bjóða upp á.



[15:00]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram.

Aðeins varðandi verkefnið „Grettir sterki“, ég held að við þurfum að ræða þetta í nefndinni betur en hægt er að gera hér á þessum stutta tíma. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að menn hafi ætlað sér að setja í verkefnið 7 milljónir, og spurningin er: Hvaða menn? Hann sagði að hann hefði fengið bréf frá einhverjum, og spurningin er: Bréf frá hverjum? Er einhver undirnefnd í fjárlaganefnd sem er að senda bréf eða hvernig ganga þessir hlutir fyrir sig? Ég biðst bara velvirðingar á því ef ég á að vita það, ég er það nýr að ég átta mig ekki á því ef svo er.

Það eru tvö lítil atriði sem ég spurði um sem mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra hefði einhver svör við. Ég sætti mig þó að sjálfsögðu við það að þurfa að bíða ef svörin eru ekki á reiðum höndum. Það er annars vegar þetta skuldabréf sem Landsvirkjun er að fá hjá ríkinu og er að greiða ríkinu til baka 400 millj. kr. virkjanarannsóknir. Ég var að velta fyrir mér hvort það væri viðtekin venja að ríkið réðist í einhverjar virkjanarannsóknir hér og þar og að orkufyrirtæki sem væru að hluta til í eigu ríkisins greiddu það svo til baka eftir dúk og disk einhvern tíma og á einhverjum kjörum sem ég var að spyrja um.

Hitt atriðið sem mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað varðar heimild til Flugmálastjórnar um að ráðstafa 250 millj. af eigin fé alþjóðaflugþjónustunnar til að stofna hlutafélag til að kaupa, sýnist mér, fjarskiptamiðstöðvarnar í Gufunesi af Landssíma Íslands og reka þær þá væntanlega í þessu hlutafélagi til að selja þjónustu, annaðhvort sjálfri sér eða þá einhverjum öðrum.

Að öðru leyti þakka ég ráðherra skýr svör við því sem fram kom.



[15:02]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja aðeins út af þessu Grettismáli að auðvitað verður fjárlaganefndin að fara yfir það. Þegar ég segi að menn höfðu ákveðið, eða mér var a.m.k. sagt að menn hefðu ákveðið, að veita meiri fjármuni þarna á ég auðvitað við meiri hlutann í nefndinni. Þetta er auðvitað allt gert á hans ábyrgð og hið sama er að segja um þetta bréf. Ég vil þó taka það fram að ég var í sambandi við varaformann nefndarinnar út af þessu máli.

Varðandi Landsvirkjun og endurgreiðslu virkjanakostnaðar er það þannig í lögum að ríkið á endurgreiðslukröfu gagnvart þeim kostnaði sem Orkustofnun hefur lagt út vegna virkjanarannsókna sem síðan leiða til framkvæmda. Það var gengið frá því með skuldabréfi fyrir einhverju síðan hvernig Landsvirkjun mundi endurgreiða kostnaðinn sem ríkið varð fyrir í gegnum Orkustofnun vegna framkvæmdanna fyrir austan. Þetta er gömul aðferð og hefur iðulega verið notuð. Hún er í sjálfu sér mjög eðlileg, ef grunnrannsóknir breytast í hagnýta framleiðslu orku er það endurgreitt sem út hefur verið lagt.

Varðandi Flugmálastjórn og þetta hlutafélag sem ætlunin er að stofna verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki smáatriðin í því. Þar er þó um að ræða ákveðnar skipulagsbreytingar sem m.a. eru hugsaðar til þess að gera Flugmálastjórn auðveldara að selja þjónustu sína til erlendra aðila og verða virkari á þessum markaði sem um er að tefla í alþjóðaflugþjónustunni. Ég held að þetta sé mjög jákvæð breyting í sjálfu sér þó að hún kalli hér á einhverjar skipulagsbreytingar og þessa breyttu tilhögun varðandi fjárveitingar.



[15:04]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég heyri það á öllu í umfjöllun hæstv. fjármálaráðherra um hið stóra mál Grettis sterka að það er engu líkara en að Glámur hafi tekið sæti í fjárlaganefndinni.

Ég kveð mér nú hljóðs fyrst og fremst til að gefa ráðherra kost á því að halda hér sína þriðju ræðu og fara yfir þær skýringar sem hann hefur fram að færa. Það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að koma ítrekað í ræðustólinn til að gera grein fyrir þeim margvíslegu aukafjárveitingum sem hér er verið að fjalla um. Ég lýsi ánægju minni með að heyra undirtektir hans við því að þessar aukafjárveitingar séu of miklar og að við eigum að stefna að því að ná þeim niður. Mér finnst að með þeim orðum taki hann að sumu leyti undir þann málflutning sem við höfum haft uppi hér í fjárlagaumræðunni undanfarið um að þetta séu óhóflegar aukafjárveitingar og að við þurfum að vinna að því að ná þeim niður.

Fyrst að ég er kominn hingað í ræðustólinn langar mig að tjá mig aðeins um vinnubrögð. Hæstv. ráðherra nefndi þann möguleika að setja potta út til framkvæmdarvaldsins þannig að það gæti bara jafnað þessar framúrkeyrslur í einhverjum peningapottum sem það hefði til ráðstöfunar. Hann talaði um að það væri út af fyrir sig aðferð. Ég er sammála honum um það. Ef það er vilji manna að aukafjárveitingar séu bara heimilaðar með tiltölulega einföldum hætti af framkvæmdarvaldinu, það eigi ekki að vera flókið að sækja aukafjárveitingar og það eigi bara að geta gengið svona tiltölulega hratt og vel áfram að menn fái þær, held ég að menn eigi að gera það þannig. Ég held samt að það geti verið ákveðið aðhald í því að beita fjáraukalögum til að veita aukafjárveitingar. Gallinn í þessu fyrirkomulagi hér er sá að þó að fjáraukalögin komi nú miklu fyrr en þau gerðu á síðustu öld held ég að engu að síður séum við að taka afstöðu, eða öllu heldur að afgreiða það sem þegar hefur verið ákveðið í ráðuneytunum. Það er í raun og veru búið að taka þessar ákvarðanir áður en málið kemur til þingsins. Ef það á að nota fjáraukalögin sem stjórntæki væri framför í því að hér væru fjáraukalög afgreidd, ein á vorþingi og önnur á haustþingi. Þegar menn sæju að inn á árið væru komin verkefni sem ráðast þyrfti í ættu þeir þess kost að sækja um þau á vorþingi, fá fjárveitinguna og fara síðan í þau. Þann kost eiga stofnanirnar í raun og veru ekki í dag vegna þess að fjáraukalögin eru afgreidd svo seint á árinu að eftir að þær heimildir væru veittar, þá auðvitað í framkvæmdum svo sem eins og við hús Halldórs Laxness, væri ekki hægt að vinna framkvæmdirnar innan ársins.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann teldi ekki að því bragarbót í fjárlagaferlinu ef það verklag væri uppi að hægt yrði að sækja aukafjárveitingar í fjáraukalögum inn í þingið að vorinu til, m.a. áður en helsti framkvæmdatíminn í landinu fer í hönd, sumarið, og væntanlega þegar skólarnir eru farnir að sjá betur hvernig skólaárið leggst út o.s.frv. Gott væri að fá fram afstöðu hans til þess.

Hitt er mál sem ég rak hér í fyrra og kom mér mjög á óvart sem nýjum þingmanni en þá spurðist ég fyrir um hvað lögreglan í Reykjavík hefði beðið um í fjárveitingu, hverjar þarfir lögreglan teldi sig hafa til fjárframlaga á þessu ári. Ég átti ekki von á öðru sem nýr nefndarmaður í fjárlaganefnd en að ég bara fengi þær upplýsingar. Því var þó ekki að heilsa. Það var leyndarmál sem ekki mátti upplýsa og mér var formlega neitað með bréfi frá lögreglustjóranum í Reykjavík um upplýsingar um hvaða fjárveitingar lögreglan hefði farið fram á fyrir yfirstandandi ár.

Ég tel algjörlega óviðunandi fyrir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd að hafa ekki aðgang að slíkum upplýsingum vegna þess að það gerir okkur einfaldlega erfitt fyrir að rækja eftirlitshlutverk okkar og rýna í það sem fyrir okkur er lagt.

Ég hafði fyrir ári síðan ástæðu til að ætla að þær fjárveitingar sem í fjárlögum voru til lögreglunnar í Reykjavík væru ekki nægar. Þess vegna vildi ég grennslast fyrir um það hvernig lögreglan sjálf hefði metið það mál. Hvað kemur nú á daginn í frumvarpi til fjáraukalaga? Ég sé eða veit að þar er inni fjárveiting upp á 35 millj. kr. til lögreglunnar í Reykjavík. Ég á í starfi fjárlaganefndar eftir að grennslast fyrir um ástæður þeirrar framúrkeyrslu en mér finnst það styðja þær röksemdir sem ég setti hér fram fyrir ári um að það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur sem eigum að vinna að fjárlögunum, ef eitthvert mark á að vera takandi á þeirri vinnu, að hafa fullan aðgang að upplýsingum frá stofnunum ríkisins og vera ekki synjað um jafnsjálfsagðar grundvallarupplýsingar og hvað stofnanir sem starfa í þágu almennings hafa sjálfar talið sig þurfa.

Það er auðvitað ekki heilagur sannleikur sem þær hafa farið fram á en það er sjónarmið í málinu, og það er sjónarmið sem þarf að koma fram til þess að málefnaleg umfjöllun geti farið fram um fjárlagafrumvarpið. Málefnaleg umfjöllun um það er væntanlega forsenda þess að það geti verið sem næst réttu lagi og að síður þurfi að koma til þeirra umfangsmiklu og verulegu aukafjárveitinga sem við erum hér ár eftir ár í fjáraukalögum að afgreiða.



[15:11]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég átti eftir að svara hér áðan nokkrum atriðum sem fram komu í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Sumum þeirra hef ég reyndar áður svarað vegna þess að þau tengdust því sem aðrir höfðu spurt um og sama er að segja um atriði sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á. Þeir ræddu báðir um Ábyrgðasjóð launa og þær 300 millj. sem gert er ráð fyrir að bæta við þann sjóð með þessu frumvarpi. Það er vissulega áhyggjuefni hve mjög þessi sjóður stækkar. Hann kemur ekki til af góðu eins og við vitum en eins og lögin eru núna er ekki um annað að ræða en að framfylgja þeim.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson taldi rétt að staldra við varðandi þetta atriði og kanna hvort fyrirtæki ættu kannski frekar að kaupa sér tryggingu í þessu skyni en að ríkið tæki alla ábyrgðina. Mér finnst þetta athyglisverð hugmynd þó að ég hafi ekki skoðað hana áður. Mér finnst hugmyndin athyglisverð og ástæða til þess að velta henni fyrir sér.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi hér, eins og ég drap á áðan, um fjölgun lífeyrisþega og spurninguna um hvernig það mál er að þróast. Þar er um að ræða sex liði, þrír þeirra hækka og þrír lækka. Einn þeirra hækkar vegna þess að gert var ráð fyrir minni fjölda bótaþega á árinu 2004 en sú spá rættist ekki. Hv. þm. gerði það að umtalsefni. Gert var ráð fyrir því en nú er það ekki lengur. Það breyttist. Þetta er hins vegar mjög gott dæmi um það hvernig háar upphæðir geta velkst til og frá, hækkað og lækkað eftir því hver framvindan í viðkomandi málaflokkum verður, framvinda sem ekki er hægt að sjá fyrir.

Hv. þm. nefndi rannsóknaskipið Dröfn og spurninguna um að selja það. Ég viðurkenni að ég hef minna vit á slíkum málum en hann, þar á meðal hvaða hagræðing fylgir því að leggja því skipi eða selja það. Ég get ekki svarað því. Ég tel hins vegar að bak við þessa beiðni Hafrannsóknastofnunar liggi það að hún telji sig geta haft meira gagn af tækjum sem fá mætti fyrir andvirði skipsins en af skipinu sjálfu eins og nú er háttað. Dröfnin er orðin gamalt skip og kannski ekki alveg jafnfært í slaginn og áður var miðað við nýja rannsóknaskipið sem getur eflaust bætt við sig verkefnum.

Ég vil svo segja aðeins í lokin almennt um fjáraukalögin að hér hafa komið fram ákveðnar hugmyndir varðandi þau og fólk er að ræða þau eins og gengur og eðlilegt er. Það verður að hafa í huga að stór hluti af þessu sem við erum að fjalla um núna í fjáraukalögunum er ekki raunverulega nýjar fjárveitingar heldur eru þetta endurskoðaðar áætlanir, eins og ég hef verið að segja, þegar fyrir liggja betri upplýsingar. Atvinnuleysisbætur, lífeyristryggingarnar og margt, margt fleira, tekjuspáin auðvitað sem snýst um það að leggja hlutina bara fram á grundvelli nýjustu upplýsinga.

Einhver nefndi áðan, ég held að það hafi verið hv. þm. Jón Gunnarsson, að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins mundi skila 500 millj. kr. í arðgreiðslur umfram það sem áður hefur komið inn í fjárlögin. Það er rétt. Það þarf að taka það þá inn með formlegum hætti gegnum fjáraukalög vegna þess að þarna er um það að ræða að áfengisverslunin hefur skilað í ríkissjóð samkvæmt áætlunum öllu því sem hún átti að skila en hins vegar haft umframtekjur, að ég hygg einkum af tóbaki, sem þarna hafa safnast fyrir. Nú er eðlilegt að þær séu bara greiddar í ríkissjóð þó að það séu sem sagt rekstrartekjur frá stofnuninni en ekki skatturinn sem greiddur er með öðrum hætti við aðrar aðstæður, eins og við vitum í gegnum tollstjóraembættið.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta en þakka mönnum fyrir alveg ágæta umræðu. Eins og fyrr treysti ég því að það verði gott samstarf á milli ráðuneytis og fjárlaganefndar um úrvinnslu þessa frumvarps.



[15:16]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera neinn stórvægilegan ágreining við hæstv. fjármálaráðherra um svör hans en vil þó vekja athygli á því að rannsóknaskipið Dröfn er minnsta skip Hafrannsóknastofnunar og hefur hentað ágætlega til að stunda ýmsar rannsóknir, t.d. innfjarðarannsóknir, við þröngar aðstæður og önnur minni verkefni. Ég tek heils hugar undir það með hæstv. fjármálaráðherra að hið nýja rannsóknaskip Árni Friðriksson þarf að fá fleiri verkefni og það er fullt af verkefnum sem hægt er að vinna með því öfluga skipi og þeim tækjabúnaði sem þar er um borð. Ég held bara að sum þeirra verkefna séu þess eðlis sem þarf að setja í forgang og ég held að verkefni þess skips verði næg á komandi árum, m.a. í að auka þekkingu okkar á hafsvæðinu kringum Ísland, botnlægi o.s.frv. Hins vegar dreg ég mjög í efa að t.d. Árni Friðriksson henti til að taka við sumum verkefnum Drafnarinnar, sérstaklega innfjarðarannsóknum og minni verkefnum. Þar er einfaldlega um stórt skip að ræða og dýrt, og ekki er ástæða til að nota stærri og dýrari skip við minni innfjarðarannsóknir eins og t.d. rækjuveiðar innfjarða og hörpuskelsmælingar o.s.frv. en ástæða er til. Þetta vil ég bara láta koma fram.



[15:18]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til að þykjast hafa meira vit á þessum málum en hv. þingmaður og viðurkenni fúslega að ég þekki ekki þessa hluti í smáatriðum. Ég vona bara að hægt verði að upplýsa þetta mál í fjárlaganefndinni og að Hafrannsóknastofnun geri grein fyrir því hvers vegna hún vill fara þessa leið í stað þess að halda áfram að reka Dröfnina. Það mál er fyrst og fremst faglegs eðlis og um það efni hefur hv. þm. mikla yfirburði fram yfir þann sem hér stendur.