131. löggjafarþing — 6. fundur
 11. október 2004.
Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í áhrif efnahagsstefnu ríkisstjórnar hans á kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Sérhver ríkisstjórn, þessi hefur ekki verið nein undantekning þar frá, hefur kostað kapps um að hafa sem best samstarf við verkalýðshreyfinguna og reyna að ná sem mestum stöðugleika á vinnumarkaði. Stöðugleikann sem við höfum búið við í efnahagslífinu síðustu missiri má að mestu leyti rekja til þess að þetta hafi tekist, ekki síst vegna þess að stjórn og stjórnarandstaða hafa borið gæfu til að taka höndum saman í þessu efni.

Nú bregður svo við að nýr forsætisráðherra hefur sest að völdum og hefur í fyrsta skipti lagt fram efnahagsstefnu sína í fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórn hans stendur að. Þá vill svo til að verkalýðshreyfingin rís upp til harðra mótmæla. Miðstjórn ASÍ hefur samþykkt ákaflega harðorða ályktun þar sem sagt er að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar setji forsendur kjarasamninga í uppnám og hún leggi grunn að djúpstæðri deilu við verkalýðshreyfinguna um markmið og leiðir í kjara- og velferðarmálum. Það er sérstaklega tekið fram í hinni harkalegu ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að skattastefna núverandi ríkisstjórnar verki líkt og olíu sé hellt á eld.

Það er mjög sjaldgæft, herra forseti, að verkalýðshreyfingin grípi til svo sterkra andmæla við efnahagsstefnu nokkurrar ríkisstjórnar. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvernig hyggst hann bregðast við því að verkalýðshreyfingin telur að efnahagsstefna ríkisstjórnar hans muni setja forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í uppnám?



[15:10]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég er ósammála því sem kemur fram í þessari ályktun. Ég hyggst hins vegar eiga fund með forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á næstunni til að fara yfir þessi mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að fjárlagafrumvarpið er með ágætum afgangi og að þar eru aukin útgjöld til margvíslegra velferðarmála.

Það er jafnframt ljóst að fyrirhugaðar skattalækkanir munu auka kaupmátt verulega og hafa góð áhrif á kaupmátt einstaklinga. Hins vegar hafa þær ekki verið nákvæmlega útfærðar. Það hefur t.d. ekki verið endanlega ákveðið hversu mikið barnabætur verða hækkaðar og hvernig útfærslan verður í því sambandi. Fyrr en það liggur fyrir er ekki hægt að fullyrða um áhrif skattalagabreytinganna á kaupmátt einstaklinga og ákveðinna fjölskyldustærða. Því er of snemmt að spá fyrir um það.

Það er sjálfsagt að fara yfir málin með forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar en það er af og frá að fjárlagafrumvarpið og fyrirhugaðar skattalækkanir setji forsendur kjarasamninga í uppnám.



[15:12]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Við búum við ákaflega sérkennilegar aðstæður sem stendur. Nýr forsætisráðherra er að taka við völdum og það ríkir verkfall í grunnskólanum. Hæstv. forsætisráðherra hefur komið hingað og sagt: Það verkfall kemur mér ekki við. Hann og hans ríkisstjórn ætlar ekki með nokkrum hætti að reyna að liðka til fyrir lausn þess máls.

Sami hæstv. forsætisráðherra leggur síðan fram fjárlagafrumvarp þar sem efnahagsstefna hans birtist. Efnahagsstefnan er svo harkaleg að hún stefnir stöðugleikanum í voða. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands segir að þar sé skattalækkunarstefna sem verki beinlínis eins og olíu sé hellt á eld. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að hann ætli í raun ekki að gera nokkurn skapaðan hlut nema að boða til fundar.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn til að breyta skattastefnunni í frumvarpinu. Er það til dæmis rétt að Framsóknarflokkurinn komi í veg fyrir að hægt sé að lækka matarskattinn? Það er það sem verkalýðshreyfingin vill.



[15:13]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því hvert hv. þm. er að fara. Hann segir að efnahagsstefnan sé mjög harkaleg. Heldur hann því fram að útgjöldin séu allt of mikil?

Ég hef skilið fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar þannig að þeir telji ekki nægilegt aðhald í fjárlagafrumvarpinu. Ég hefði þá átt von á að hv. þm. og flokkur hans flytti tillögur á Alþingi um lækkun útgjalda til ýmissa mála. En á sama tíma kemur hv. þm. hingað og krefst þess að ríkisstjórnin veiti meira fjármagn til sveitarfélaganna. Það er ekki nokkur leið að botna upp né niður í því hvert þingmaðurinn er að fara.



[15:14]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér talaði hæstv. forsætisráðherra sem ætlar að færa nokkra milljarða úr sjóðum ríkisins yfir í vasa þeirra sem hafa hæstar tekjurnar. Eitt af því sem miðstjórn ASÍ fordæmir hvað harkalegast í ályktun sinni er einmitt þessi skattastefna, þar sem þeir fá mest sem mest hafa fyrir. Þeir fá minnst sem minnst hafa fyrir. Um þetta snýst málið að sjálfsögðu.

Herra forseti. Það hlýtur að vera hæstv. forsætisráðherra umhugsunarefni hvernig staðan er á vinnumarkaði nú þegar hann hefur tekið við völdum. Við höfum þetta alvarlega verkfall grunnskólakennara og hæstv. forsætisráðherra segir: Mér kemur það ekki við. Við höfum núna fyrir okkur skoðun verkalýðshreyfingarinnar á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hann veitir forustu og hæstv. forsætisráðherra segir: Mér er alveg sama. Hann hlustar ekki á þá.

Forsætisráðherrar verða að hlusta. Þeir sem ætla að vera farsælir í að leiða þjóð sína verða að leggja eyrun við því sem hún segir.



[15:15]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ráðgjöfina, hún er ágætlega þegin. Ég hef aldrei sagt að mér komi hlutirnir ekki við og auðvitað hlusta ég á það sem sagt er, en ég minni hv. þm. á eitt: Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp var skattprósentan rétt liðlega 35% og ég man vel að allir flokkar á Alþingi voru sammála um að skattprósentan mætti ekki verða hærri. Nú stendur til að lækka hana niður og að hún verði svipuð og hún var upphaflega. Þá rís stjórnarandstaðan á Alþingi öndverð gegn því. Ég held að hv. þm. ætti að rifja upp hvernig Alþýðuflokkurinn talaði þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp. Ég held að það væri honum hollt að lesa sig til um það áður en hann kemur með slíka sleggjudóma.

Ég vil líka minna hv. þm. á það að eftir því sem skattprósentan er lægri þeim mun ólíklegri eru skattsvik. Það skiptir máli og það skiptir líka máli að minnka bilið í tekjuskattinum milli einstaklinganna og fyrirtækjanna og sú stefna sem ríkisstjórnin hefur tekið upp er einmitt leið til þess.