131. löggjafarþing — 6. fundur
 11. október 2004.
umræður utan dagskrár.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:39]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í fullkomnum heimi þyrfti engar reglur eða eftirlit vegna ákvarðana stjórnvalda. Þar þyrfti heldur engar sérstakar reglur vegna jafnréttis kynjanna. Í slíkum heimi værum við laus við ótta við að stjórnvöld byggðu ákvarðanir sínar á flokkshagsmunum og geðþótta eða að langvarandi valdaseta byrgði mönnum sýn um tilgang sinn og hlutverk. Þar dytti engum í hug að stjórnvöld hefðu sömu sýn á valdið og ríkið og Frakkakonungur forðum sem sagði: „Ríkið, það er ég.“ Nei, það væri margt öðruvísi í slíkum heimi en er hjá okkur. En við búum ekki í fullkomnum heimi. Löggjafinn hefur með setningu ýmissa laga reynt að koma í veg fyrir að misvitrir stjórnmálamenn valdi tjóni með geðþóttaákvörðunum.

Þessar staðreyndir koma upp í hugann þegar rætt er um þá ákvörðun Geirs H. Haardes, setts dómsmálaráðherra, að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson í embætti hæstaréttardómara. Hæstv. ráðherra hefur í litlu reynt að rökstyðja ákvörðun sína. Hann hefur skýrt hana svo að hann hafi ákveðið eftir umhugsun að leggja megináherslu við skipun dómara í Hæstarétt á lögmannsþekkingu umsækjanda. Reyndar kynnti ráðherrann þessar áherslur sínar ekki fyrr en umsóknarfrestur um starfið var liðinn og eftir að Hæstiréttur hafði gefið umsögn sína um hæfni umsækjenda. Umboðsmaður Alþingis hefur sagt að það samrýmist ekki vönduðum stjórnsýsluháttum að upplýsingar um að sóst sé eftir ákveðinni sérfræðiþekkingu við skipun í starf kom ekki fram í auglýsingu um starfið. Ef það hefði legið fyrir áður en umsagnarfrestur rann út hefðu þeir sem töldu sig búa yfir slíkri þekkingu getað sótt um embættið. Með því hefði stjórnvaldið sinnt þeirri skyldu sinni að leitast við að velja þá hæfustu einstaklinga sem kostur er á til opinberra starfa. Þetta var ekki gert.

Hæstv. ráðherra hefur verið gagnrýndur fyrir að fara gegn umsögn Hæstaréttar. Ráðherra hefur haldið því fram að lögbundin umsögn Hæstaréttar þrengi ekki möguleika hans á að skipa hvern þann sem telst hæfur. Þessu er umboðsmaður Alþingis ósammála. Í áliti af sams konar tilefni sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„... þær breytingar sem gerðar voru á skipan þessara mála með lögum nr. 15/1998, um dómstóla, hafi leitt til þess að umsögn Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda hafi“ — með lagabreytingunni — „fengið aukið vægi og það hafi verið liður í að styrkja sjálfstætt og óháð dómsvald í landinu.“

„Það verður að ætla, eins og áður sagði, að það hafi verið liður í að efla sjálfstæði dómstólanna, að fela Hæstarétti ... aukið verkefni við að veita umsögn um þá sem sækja um embætti hæstaréttardómara.“

Undir þetta sjónarmið hafa virtir lögspekingar tekið, t.d. fyrrum prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Sigurður Líndal. Hann orðaði þetta svo í viðtali við Ríkisútvarpið að auðvitað finnist manni eðlilegt að dómsmálaráðherra virði álit Hæstaréttar ef hann á annað borð virðir sjálfstæði dómstólsins. Og Sigurður Líndal sagði, með leyfi forseta: „Og við skulum athuga það, að dómsvaldið á að vera sjálfstætt og ef framkvæmdarvaldshafi gengur yfir álit Hæstaréttar þá er hann raunverulega að ganga á rétt dómsvaldsins.“

Ekki þarf að fara mörgum orðum um álit kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu í sams konar máli í vor og hér er til umfjöllunar, að sú skipan hafi gengið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Engin ástæða er til að ætla annað en að sama niðurstaða yrði nú ef málið kemur fyrir nefndina, a.m.k. ekki meðan röksemdafærsla ráðherra liggur ekki fyrir. Óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins sem gilda um veitingu opinberra starfa hafa annars vegar að markmiði að tryggja jafnræði þeirra sem kunna að vilja sækja um slík störf og hins vegar að hæfasti umsækjandinn verði valinn. Ákvörðun ráðherra að fara gegn mati réttarins á hæfni umsækjenda og leggja áherslu á einn þátt lögfræðiþekkingarinnar umfram annan án þess að það hafi legið fyrir þegar starfið var auglýst bendir til þess að sú ákvörðun ráðherra hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum. Þegar um jafnstóra ákvörðun er að ræða og að skipa dómara við æðsta dómstól landsins hvílir sú almenna lagaskylda á dómsmálaráðherra að leggja til við forseta Íslands að sá umsækjandi sem telja varð hæfastan til að gegna embætti hæstaréttardómara yrði skipaður í það.

Í mínum huga hefur ráðherra með ákvörðunum sínum vegið að sjálfstæðu dómsvaldi í landinu. Hann hefur farið gegn grundvallarreglum stjórnsýslunnar auk þess sem hæstv. ráðherra fór gegn eina skilyrðinu sem tilgreint var sérstaklega í auglýsingu um starfið, þ.e. að jafnrétti kynjanna yrði leiðarljós við skipunina.

Virðulegi forseti. Að öllu þessu samanteknu virðist mér vera nokkuð ljóst að ákvörðun hæstv. ráðherra sé fyrst og fremst byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og sú staðreynd gerir það að verkum að umrædd ákvörðun ráðherra er lítið annað en geðþóttaákvörðun.



[15:44]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ákvörðun mín um skipun hæstaréttardómara 29. september síðastliðinn var tekin á grundvelli 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, að aðgættum almennum starfsgengisskilyrðum samkvæmt 2. og 3. mgr. sömu greinar og að teknu tilliti til langrar og samfelldrar reynslu þess sem fyrir valinu varð, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, af málflutningi og rekstri lögmannsstofu.

Hinn 13. fyrra mánaðar var ég settur til að fara með og taka ákvörðun í máli þessu í stað Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra sem vikið hafði sæti í málinu á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Umsagnir um embættið höfðu þá þegar verið sendar Hæstarétti í samræmi við 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og leitað hafði verið eftir umsögn hans um hæfi og hæfni umsækjenda.

Umsagnir réttarins, reyndar tvær, dags. 17. september, bárust mér stuttu síðar. Þar kom fram að rétturinn teldi með einum fyrirvara alla umsækjendur uppfylla almenn hæfisskilyrði til að taka við embættinu skv. 1.–8. tölul. 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, þar á meðal um hæfni. Þó var greint á milli umsækjenda í niðurlagi umsagnar meiri hluta réttarins án þess að fram kæmi nánar á hvaða sjónarmiðum sú niðurstaða væri byggð.

Á hinn bóginn hafði rétturinn áður bent á að ástæða væri til að gæta að því hverrar þekkingar og reynslu væri helst þörf þegar valinn er dómari í hóp þeirra sem réttinn skipa að öðru leyti. Þannig var í umsögn Hæstaréttar um umsækjendur um embætti dómara, dags. 5. ágúst 2003, bent á að aðeins einn dómari við réttinn hefði verið sjálfstætt starfandi lögmaður. Í réttinn hafði reyndar ekki verið þar til nú skipaður sjálfstætt starfandi lögmaður frá 1. mars 1990, en sá dómari lét af embætti fyrir nokkrum árum. Skipan réttarins hafði því ekki breyst hvað þetta atriði varðar.

Að þessu athuguðu taldi ég ástæðu til að veita þessu sjónarmiði sérstakt vægi við mat mitt á umsóknum um stöðuna. Í ljósi þess og með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis frá 3. maí 2004 fór ég þess á leit með bréfi hinn 20. september að Hæstiréttur lýsti nánar viðhorfi sínu til hæfni umsækjenda með tilliti til þessa sérstaka atriðis, þ.e. reynslu þeirra af lögmannsstörfum.

Svar réttarins, dags. 27. september, barst mér sama dag. Þar er engu bætt við það mat sem fram kom í þeim samanburði sem rétturinn hafði áður látið í té í fyrri umsögn sinni um málið. Samkvæmt henni taldi rétturinn ljóst að tveir umsækjendur hefðu báðir verulega reynslu af lögmannsstörfum og stæðu að því leyti öðrum umsækjendum framar. Rétturinn taldi hins vegar ekki efni til að gera upp á milli þeirra innbyrðis þótt munur væri á þeim heildartíma sem þeir hefðu sinnt slíkum störfum.

Annar þessara manna er sá sem varð fyrir valinu og hefur verið skipaður í embættið. Hann hefur yfir 30 ára farsæla og samfellda reynslu af málflutningi og öðrum lögmannsstörfum og er eini umsækjandinn sem kemur úr hópi sjálfstætt starfandi lögmanna. Að þessu athuguðu var hann sá umsækjenda sem á að baki lengsta reynslu af því tagi sem ég ákvað að leggja sérstaka áherslu á við val á umsækjanda í embættið sem laust var. Að þessu leyti hafði hann ákveðna yfirburði með tilliti til annarra umsækjenda, jafnvel þótt einhverjir þeirra hafi reynslu af lögmannsstörfum og sumir verulega, og hlaut hann að njóta þeirra í samanburði við þá.

Ég vil bæta því við að ég vann þetta mál, sem óvænt kom í mínar hendur að leysa úr, eftir bestu samvisku og ég tel að mjög vel hafi til tekist. Því fer að sjálfsögðu fjarri að geðþótti hafi ráðið niðurstöðunni.



[15:49]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál, sá endurtekni ófriður sem uppi hefur verið og uppi er um málefni Hæstaréttar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórninni hefur með öllu mistekist að tryggja Hæstarétti þann starfsfrið og viðhalda eða skapa og efla það traust á réttinum sem er einn af hornsteinum réttarríkis okkar. Það hefur m.a. gerst með fáheyrðum bréfaskriftum forseta Alþingis hér þar sem hann blandaði Hæstarétti inn í umfjöllun um mál á Alþingi. Það hefur gerst með því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur ítrekað hjólað í Hæstarétt af því að honum mislíka einstakar dómsniðurstöður réttarins. Verst hefur þó tekist til, endurtekið, þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, settir sem skipaðir, fara með vald sitt eins og raun ber vitni í sambandi við embættisveitingar hæstaréttardómara. Trúlega eru ítrekuð og að því er virðast vísvitandi brot á jafnréttislögum þó mesta hneykslið í þessu sambandi, en það liggur fyrir að bæði settur og skipaður dómsmálaráðherra, að því er virðist, telji sig óbundna af skýrum ákvæðum jafnréttislaga.

Fólk hefur það almennt ekki á tilfinningunni að um faglegar og hlutlægar ákvarðanir sé að ræða. Það er ömurlegt að heyra ráðherra Sjálfstæðisflokksins nota það sem málsvörn að þeir komi fram með prívatskoðanir sínar á því hvaða tegund af dómara sé heppilegust eftir að auglýsing hefur farið fram og eftir að Hæstiréttur hefur veitt sína umsögn. Af hverju var þá ekki látið liggja fyrir að það ætti að styrkja réttinn á sviði Evrópumála eða hvað varðar lögmannsreynslu?

Auðvitað gengur þetta ekki, þessi aðferðafræði er ónýt, a.m.k. á meðan veitingavaldið er í höndum manna eins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem fara með það sem raun ber vitni. Það verður að gera þarna breytingu á. Nærtækast er auðvitað að losna við svona ráðherra en til öryggis þarf aðferðafræðin að vera traustari þannig að um ókomin ár sé fyrirbyggt að menn geti farið svona með vald sitt.



[15:52]
Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, settur dómsmálaráðherra, hefur lýst því yfir að hann hafi fylgt sannfæringu sinni og samvisku við skipun nýjasta dómarans í Hæstarétt Íslands. Ég dreg það í sjálfu sér ekki í efa, dreg það að sjálfsögðu ekki í efa. Ýmsir sem komu að þeirri umræðu áður en skipað var völdu hins vegar þá leið að fara að halda með, að tala fyrir og halda með einstökum umsækjendum líkt og menn gera með liðum í fótboltanum og um leið að tala gegn öðrum umsækjendum um hæstaréttardómarastöðuna.

Ég held hins vegar með lögunum, herra forseti, og ég hef sterka sannfæringu fyrir því að það sé affarasælast fyrir þá sátt sem þarf að ríkja um Hæstarétt og fyrir trúverðugleika réttarins. Í íslensku samfélagi þarf að ríkja almenn og víðtæk trú á að dómstólarnir starfi sjálfstætt og að þeir séu óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins.

Dómstólalögin mæla fyrir um að Hæstiréttur skuli veita ráðherra umsögn um hæfi og hæfni umsækjenda og samkvæmt meginreglum stjórnsýslulaganna ber ráðherra að fara eftir þeirri umsögn, sem enda hefur lengstum verið þannig úr garði gerð að ráðherra hefur haft tiltekið svigrúm. Ef þingmenn eru á hinn bóginn ósáttir við lögbundið fyrirkomulag eins og það að Hæstiréttur meti hæfi og hæfni eða eins og menn hafa orðað það við það fyrirkomulag að Hæstiréttur velji samstarfsmenn sína og eftirmenn er eðlilega leiðin hér á hinu háa Alþingi að huga að því að breyta dómstólalögunum í einhverja þá veru sem ríkari sátt getur orðið um og tryggi jafnframt áfram þrískiptingu ríkisvaldsins og sjálfstæða, óháða dómstóla. (Gripið fram í: ... skipan ráðherra.)



[15:54]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þjóðin fékk á dögunum að fylgjast með hreint ótrúlegu ferli þegar hæstv. fjármálaráðherra skipaði í stöðu hæstaréttardómara. Mörgum almennum borgurum var og er alvarlega misboðið. Algerlega var gengið fram hjá lögboðinni umfjöllun Hæstaréttar um hæfni og hæfi umsækjenda um þessa mikilvægu stöðu. Hæstv. dómsmálaráðherra taldi sig vanhæfan í málinu og vísaði því í hendur hæstv. fjármálaráðherra sem tíndi til geðþóttarök til að réttlæta skipun lögmanns í þessa stöðu, lögmanns sem Hæstiréttur taldi ekki hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.

Fjölmargir hafa orðið til þess að mótmæla gjörningnum. Algerlega var gengið fram hjá tveim lögspekingum sem Hæstiréttur taldi hæfasta. Konur hljóta einnig að mótmæla skipun dómara við Hæstarétt Íslands þar sem ráðherra ríkisstjórnarinnar gætti ekki lögbundinna jafnréttissjónarmiða frekar en fyrri daginn. Í dag sitja tvær konur í Hæstarétti af alls níu dómurum. Þess vegna hefði ráðherra borið að skipa konu dómara að þessu sinni hefði hann viljað fara að jafnréttislögum enda var í hópi umsækjenda kona sem Hæstiréttur taldi a.m.k. jafnhæfa og þann umsækjanda sem að lokum fékk dómaraembættið.

Hér breyttust þá forsendur eftir hentugleika ríkisstjórnarinnar eins og síðast þegar hæstaréttardómari var skipaður. Þá var það náfrændi hæstv. forsætisráðherrans sem var dubbaður upp í dómarasætið en þá virtist skyndilega þurfa karlmann með reynslu af Evrópurétti af því að frændinn hafði eitthvað stúderað slík fræði.

Nú vantaði víst svo skyndilega karlmann með reynslu af lögmannsstörfum. Í bæði skiptin voru þessar svokölluðu hæfnisforsendur ákveðnar eftir að umsóknarfrestur var liðinn og umsækjendum sem og þjóðinni allri gefið langt nef, Hæstiréttur niðurlægður, virðing hans og sjálfstæði fótum niðurtraðkað af framkvæmdarvaldinu til að troða í sæti dómara pólitískum vígamanni sem hliðhollur er Sjálfstæðisflokknum.

Auðvitað er þetta ekkert annað en enn eitt dæmi um það hvernig þessi flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, reynir eftir fremsta megni að tryggja völd sín og áhrif í þjóðfélaginu nú þegar fjarar undan honum. Þingflokkur Frjálslynda flokksins mótmælir þessum vinnubrögðum.



[15:56]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eitt er hægt að segja um þá tvo karlmenn sem hafa fengið það hlutverk í tvö síðustu skipti að skipa hæstaréttardómara í Hæstarétt Íslands. Þeir eru báðir börn síns tíma, þeirrar kynslóðar er alltaf hefur séð um sína og séð um strákana.

Þeir hafa kannski ekki athugað, þessir hæstv. ráðherrar, að hér á landi hafa verið í gildi jafnréttislög í hartnær 30 ár. Hér á landi er líka í gildi jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar og það er meira að segja tekið fram í auglýsingu um nýjan hæstaréttardómara að sérstaklega sé tekið tillit til þess að fjölga þurfi konum þar í stöðum hjá ríkinu sem konur eru færri en karlar, í þeim stéttum og í þeim embættum. En það skiptir bara engu máli, hæstv. forseti. Þegar strákarnir þurfa að sjá um sína skiptir ekki máli þótt hæfar konur sæki um.

Maður spyr því hér á því herrans ári 2004 hvort það sé til einskis sem íslenskar konur mennta sig og eru að verða best menntuðu konur í heimi, hvort það sé til einskis að afla sér réttinda á vinnumarkaði þegar þessir menn eru við völd. Skilaboðin til kvenna eru alveg skýr: Vertu ekkert að sækja um, góða mín. Þú verður að hafa flokksskírteini, þú verður að þekkja réttu karlana og biddu fyrir þér, þó að þú sért hæf verður leikreglunum bara breytt.



[15:57]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rætt er um skipan í Hæstarétt í þessum sal og í sjálfu sér er engin ástæða til að staldra sérstaklega við skoðanamun einstakra manna þegar kemur að því að menn hafi persónulegt álit á því hver hefði átt að verða skipaður í þetta skipti.

Hins vegar er ástæða til að staldra við þá umræðu sem átt hefur sér stað um þann skoðanamun sem fram hefur komið á milli annars vegar ráðherra sem skipaði í stöðuna og þess álits sem kom fram í umsögn Hæstaréttar. Í því samhengi er algjört grundvallaratriði að menn átti sig á því að ábyrgðin í þessu máli hlýtur að fylgja valdinu til þess að skipa í stöðuna. Það gengur ekki að ráðherrann hafi ábyrgðina í málinu en að Hæstiréttur hafi á sama tíma ákvörðunarvaldið um það hver eigi að verða skipaður. Það blasir við hverjum þeim sem kynnir sér málið að slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp.

Það er í sjálfu sér rétt sem fram hefur komið hér í umræðunni, og menn hafa vísað til álits umboðsmanns Alþingis í því efni, að með dómstólalögunum á árinu 1998 var stefnt að því að auka vægi þessarar umsagnar en það var ekki síst fyrir það að í fyrri lögum sem giltu um þetta efni var í engu getið um það að hverju umsóknin átti að lúta. Ekki var heldur sérstaklega mælt fyrir um gildi þeirrar umsagnar eða áhrif. Það var því einungis verið að styrkja rannsóknarregluna með þeirri breytingu sem gerð var þá.

Það er skoðun mín að tilefnislausar athugasemdir í hvert sinn sem skipað er í réttinn séu miklu frekar til þess fallnar að grafa undan sjálfstæði réttarins en þær reglur sem við höfum um þetta efni og gilda um þessi mál í dag og hvernig þær reglur hafa verið framkvæmdar.



[16:00]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að hefja þessa umræðu um skipan í embætti hæstaréttardómara. Umræða um þetta efni hefur verið mikil að undanförnu og hefur fléttast inn í hana skipan í önnur lykilembætti í þjóðfélaginu. Á undanförnum missirum hafa ráðherrar ítrekað verið sakaðir um að misbeita pólitísku valdi sínu við stöðuveitingar. Því hafa þeir fyrir sitt leyti vísað harðlega á bug. Höfum við enn eitt dæmið um slíkt.

Þótt sjálfsagt sé að ræða einstakar stöðuveitingar, enda eru ráðherrar ábyrgir gagnvart Alþingi, tel ég brýnt að þessi umræða einskorðist ekki við einhverjar tilteknar stöðuveitingar heldur verði horft til framtíðar og leitað leiða til að skapa meiri sátt um stöðuveitingar, sérstaklega í embætti hæstaréttardómara. Þetta er mjög brýnt.

Á einum þætti vil ég einkum vekja athygli, þeirri togstreitu sem mér virðist fara vaxandi á milli löggjafans annars vegar og dómstóla annars vegar. Þessi togstreita er í sjálfu sér ekki óeðlileg. Ég hef mínar skoðanir á henni en ætla ekki að tíunda þær hér. Dómstólar skipta sífellt meira máli fyrir framvinduna í þjóðfélaginu, hvernig þeir túlka reglur og lög. Þetta er ekki einskorðað við Ísland, heldur getum við einnig horft til Evrópu í þessu sambandi.

Þetta þýðir að hlutverk dómstólanna er að verða stöðugt pólitískara í víðum skilningi þess hugtaks. Það þýðir svo aftur að mikilvægt er fyrir okkur að finna leiðir til að hafa skýrari línur á milli framkvæmdarvaldsins, löggjafans og dómstólanna. Það gerum við ekki með því að hafa skipunarvaldið á hendi eins manns, pólitísks ráðherra. Það er brýnt að við finnum nýjar leiðir út úr því öngstræti sem við erum í nú um stundir.



[16:02]
Hjálmar Árnason (F):

Virðulegi forseti. Engum blandast hugur um að tvær mikilvægustu stofnanir í okkar lýðræðislegu stjórnskipan eru Alþingi og Hæstiréttur. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að um þessar tvær virðulegu og mikilvægu stofnanir sé sátt, ríki friður, almenningur hafi tiltrú á þeim og þeim sé sýnd virðing. Þetta eru lykilstofnanir í lýðræðislegri stjórnskipan.

Nú má ljóst vera að um báðar þessar stofnanir hefur gárað nokkuð og ekki í fyrsta sinn. Umræðan hér og tilefni hennar beinist að gárum vegna Hæstaréttar. Það er alls ekki í fyrsta sinn. Í hvert skipti sem hæstaréttardómari hefur verið skipaður hafa sprottið upp deilur, mishávaðasamar. Það á ekki bara við hérlendis. Það þekkjum við einnig frá ýmsum nágrannaríkjum okkar. Að þessu sinni höfum við séð birtingarmyndina í undirskriftalistum. Við heyrum misvísandi túlkanir hjá lögspekingum ýmsum og jafnvel misvísandi skilaboð frá sjálfum Hæstarétti.

Þess vegna, virðulegi forseti, er full ástæða til að yfirfara leikreglurnar um skipan Hæstaréttar; um þær leikreglur sem eiga að gilda og við viljum að gildi um Hæstarétt, eina af mikilvægustu stofnununum okkar. Við þurfum að velta þar upp ýmsum grundvallarspurningum þannig að í framtíðinni verði Hæstiréttur sjálfur hafinn yfir slíkar pólitískar deilur, þurfi ekki að dragast inn í þær, þannig að friður verði meiri um skipan mála þar og tiltrú á þessari mikilvægu stofnun haldist.



[16:04]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða á að snúast um hvernig menn fara með vald sitt. Hún á að snúast um hvernig hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, ákvað að hunsa algjörlega álit Hæstaréttar. Hæstiréttur á að vera hafinn yfir alla tortryggni og vafa. Því hefur nú verið stefnt í hættu vegna ákvarðana Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt Hæstarétt harkalega fyrir að sinna sínu lögbundna hlutverki. Þeir hafa jafnvel talað um fámenna klíku í Hæstarétti sem vilji ákveða eftirmenn sína með óeðlilegum hætti. Sjálfstæðismenn virðast frekar vilja að þröng valdaelíta Sjálfstæðisflokksins ráðstafi þessu starfi. Hvor leiðin ætli sé líklegri til klíkumyndunar? Þegar gagnrýnin síðan hefst svara menn því með þjósti að þeir hafi veitingarvaldið og fólk eigi bara að halda sig á mottunni.

Öllu valdi fylgir ábyrgð. Hér er verið að sýsla með hagsmuni almennings. Þegar slíkir hagsmunir eru í húfi er ekki nóg að vísa bara í veitingarvald sitt, hunsa málefnaleg sjónarmið og skipa bridsfélagann í Hæstarétt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað gert skipan hæstaréttardómara að flokkspólitísku máli. Þeir hafa eyðilagt ferlið sem hefur verið í gangi undanfarna áratugi. Sáttin er farin, eins og hv. þm. Framsóknarflokksins benda hér á. Sjálfstæðisflokkurinn setti á fót leikrit sem öll þjóðin sér í gegnum þar sem forsendurnar voru klæðskerasaumaðar af þeirra mönnum eftir á. Það er eitthvað að þegar aðrir umsækjendur segja að ekkert þýði að leita réttar síns þar sem það hafi þeir gert áður án þess að nokkuð hafi breyst. Eða þegar fyrri umsækjendur segja að það þýði ekki einu sinni að sækja um embættið þar sem hvort eð er sé löngu búið að ákveða hver fái það.

Þegar maður hélt að þessi ríkisstjórn kæmist ekki lengra hvað varðar ítroðslu sinna manna í störf gerist þetta. Sjálfur Hæstiréttur er ekki einu sinni heilagur fyrir þessu fólki.



[16:06]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mér finnst full þörf á að ítreka við þessa umræðu.

Í fyrsta lagi er ljóst að dómstólalögin gera ráð fyrir að ráðherra velji nýjan hæstaréttardómara úr hópi þeirra sem Hæstiréttur telur að fullnægi lögbundnum hæfisskilyrðum og hafi jafnframt til að bera næga hæfni til að gegna embættinu. Þetta er skýrt í dómstólalögunum en hvorki lögin sjálf né lögskýringargögn gera ráð fyrir því að Hæstiréttur geri beina tillögu til ráðherra um hvern eigi að skipa. Ekki er heldur gert ráð fyrir því að umsögn réttarins bindi hendur ráðherra umfram það að honum er að sjálfsögðu óheimilt að skipa þá sem ekki fullnægja skilyrðunum um annaðhvort hæfni eða hæfi. Þetta er nauðsynlegt að undirstrika sérstaklega við þessa umræðu því að margir hv. ræðumenn hér í dag hafa látið í veðri vaka að hlutverk Hæstaréttar í þessu sambandi sé eitthvað miklu meira en lögin kveða á um.

Hv. málshefjandi Lúðvík Bergvinsson vitnaði m.a. í ummæli okkar ágæta gamla læriföður, Sigurðar Líndals, sem féllu í útvarpsviðtali fyrir skömmu um þetta efni. Ég verð að segja að ef taka ætti þá skýringu sem prófessor Sigurður Líndal kom með á málinu er beinlínis verið að færa veitingarvaldið til Hæstaréttar en það er ekki það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í lögum hér. Það er heldur ekki það fyrirkomulag sem við sjáum í löndunum í kringum okkur.

Það er fráleitt að mínu mati að tala eins og verið sé að ganga á sjálfstæði dómstólanna í landinu, sjálfstæði dómsvaldsins, með því að velja aðra niðurstöðu en Hæstiréttur mælir með í þessu sambandi. Ef við snúum dæminu við og viðurkennum að Hæstiréttur hafi endanlegt val í þessum efnum er veitingarvaldið flutt þangað frá ráðherranum. Þannig er ekki gert ráð fyrir að lögin virki.

Við getum svo sem rætt um hvort breyta megi þessu fyrirkomulagi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið hafi í meginatriðum reynst vel. Valdið liggur hjá ráðherra en auðvitað liggur pólitísk ábyrgð þar líka.



[16:08]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur ítrekað komið fram í umræðunni að menn harma þann mikla ófrið sem ríkir um Hæstarétt. Menn hljóta að spyrja: Hvers vegna er þessi ófriður? Er þetta eitthvað sem menn eru að búa til eða er það fyrst og fremst vegna þess hvernig með valdið er farið, þ.e. skipunarvaldið? Getur verið að þegar menn sí og æ setja leikreglurnar eftir á svíði það fólk og særi réttlætiskennd þess? Er ekki ófriðurinn vegna þess að menn eru ósáttir við það hvernig að þessu er unnið? Eru menn ekki ósáttir við það að reglur um þekkingu í Evrópurétti, þ.e. forsendur fyrir veitingu, séu settar eftir á? Eru menn ekki ósáttir við það að upplýst sé um þá forsendu að lögmannsþekking sé nauðsynleg eftir að umsagnarfrestur rennur út?

Þær forsendur sem hæstv. ráðherra vísar til, þ.e. úr gamalli umsögn Hæstaréttar, snerust um allt annað en þetta. Þar segir Hæstiréttur að nauðsyn sé á lögmannsþekkingu vegna þess að viðkomandi mundi líklegast setjast í b-deild Hæstaréttar þar sem flutt eru skrifleg mál sem snúa að innheimtu-, gjaldþrota- og uppboðsmálum og því væri mikilvægt að þessi þekking væri til staðar. Það var það sem Hæstiréttur sagði en hæstv. ráðherra greindi ekki frá í umræðunni.

Þá er ekki síður kjarni málsins sem hér hefur komið skýrt fram, þ.e. að „jafnrétti skuli haft að leiðarljósi“ eins og segir í auglýsingunni sjálfri. Þrátt fyrir það er sú niðurstaða fengin sem hér hefur verið rakin.

Það er fyrst og fremst hvernig farið er með valdið sem hefur valdið þeim ófriði um Hæstarétt sem við hér höfum orðið vitni að. Rótin að þeim ófriði er fyrst og fremst að hæstv. ráðherrar hafa beitt geðþótta við ákvarðanir sínar og það er algerlega óþolandi, virðulegi forseti.



[16:11]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er mikilvægt að fyrir liggi að það er alveg ótvírætt samkvæmt lögum um þetta efni að ráðherrann hefur síðasta orðið. Það er enginn vafi á því að hann hefur heimild til að skipa hvern þann sem samkvæmt umsögn Hæstaréttar telst hæfur til að gegna starfinu. Ég skipaði þann sem ég taldi hæfastan út frá þeim forsendum sem ég lagði til grundvallar sem að sjálfsögðu eru málefnalegar forsendur og eitt af því sem Hæstiréttur sjálfur hefur oftar en einu sinni bent á og tekið með í sinn reikning.

Ég ítreka jafnframt að ég leitaði til réttarins þegar fyrir lá hver útgangspunktur minn í málinu yrði. Ég óskaði eftir því að hann legði á ný mat á umsækjendur út frá þeirri tilteknu forsendu. Rétturinn kaus að gera það ekki. Það er þá ekki við mig að sakast í því efni.

Síðan aðeins örfá orð, virðulegi forseti, um sjálfstæði dómstólanna og þau stóru orð sem menn hafa látið falla um það að með þessari ákvörðun og skipun dómara upp á síðkastið almennt hafi verið grafið undan sjálfstæði dómstólsins. Það er auðvitað furðulegur málflutningur. Framkvæmdarvaldið hefur skipað dómarana eftir þeim lögum sem um þau mál gilda. Hæstiréttur hefur frá 1920, frá því að honum var komið á legg, ævinlega verið skipaður dómurum sem framkvæmdarvaldið hefur skipað. Sjálfstæði dómstólsins fer ekki eftir því hvaða ráðherra skipar dómarana sem sitja venjulega miklu lengur í embætti en ráðherrarnir. Það fer eftir því hvernig dómararnir sinna störfum sínum, hvernig þeir gegna þeim skyldum sem á þá eru lagðar í dómnum, með hvaða hætti þeir sinna dómaraverkefnum sínum. Ég þekki ekki dæmi um það að í Hæstarétti hafi verið dómarar sem hafa ekki sinnt þeim eftir bestu samvisku eða hafa gefið tilefni til að ætla að þeir séu ekki sjálfstæðir í störfum sínum gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég skora á menn sem halda öðru fram að finna þannig orðum stað við tækifæri.