131. löggjafarþing — 6. fundur
 11. október 2004.
Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., frh. 1. umræðu.
frv. SJS og JBjarn, 4. mál (frestun á sölu). — Þskj. 4.

[16:13]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og sá sem hér talar flytjum tillögu um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. Frumvarpsgreinin miðar að því að söluferli Landssímans verði stöðvað, ríkið haldi óskertum hlut sínum í fyrirtækinu, a.m.k. fyrst um sinn, þótt við séum reyndar þeirrar skoðunar að Landssíminn eigi áfram að vera í höndum ríkisins, eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Við leggjum til að fyrst um sinn verði a.m.k. horfið frá söluferlinu og tíminn verði notaður til þess að gera sérstakt átak til að bæta fjarskipti og gagnaflutningakerfi landsins með það að markmiði, eins og segir í tillögunni, „að allir landsmenn, án tillits til búsetu, eigi kost á nýjustu og fullkomnustu tækni á þessu sviði. Heimilt er að lækka eða fella niður arðgreiðslur í ríkissjóð á móti þeim fjárfestingum fyrirtækisins í þessu skyni sem síst eru arðbærar, samkvæmt nánari reglum er fjármálaráðherra setur“.

Það er boðað að einkavæðing og sala á Landssíma Íslands sé á næsta leiti og hafin er undirbúningsvinna í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar til að undirbúa söluna. Það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að einkavæðingarnefnd og framkvæmd á undirbúningi og sölu Landssímans er nú á ábyrgð ráðherra Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar.

Það er líka athyglisvert og ætti að vera umhugsunarefni fyrir Framsóknarflokkinn sem nú fer með söluferlið að í skoðanakönnun sem gerð var fyrir tæpum tveimur árum um afstöðu fólks til sölu Landssímans kom greinilega fram að góður meiri hluti þjóðarinnar vill að Síminn verði áfram í opinberri eigu og að hlutfall þeirra sem það vilja er langhæst á landsbyggðinni. Það þarf ekki að koma á óvart. Yfir 70% af íbúum landsbyggðarinnar vilja að Síminn sé áfram í opinberri eigu. Þegar litið er til þess í skoðanakönnuninni sem var mjög ítarleg, þ.e. hvernig hún deilist niður á einstaka stjórnmálaflokka, kom í ljós að 64% af kjósendum Framsóknarflokksins sem spurðir voru í könnuninni vilja að Síminn verði áfram í opinberri eigu. Reyndar vilja það einnig 64% af kjósendum Samfylkingarinnar en 80% af kjósendum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Lægstur var hluturinn hjá Sjálfstæðisflokknum, 44%. Engu að síður var mikill meiri hluti, þ.e. nærri 60%, sem vildi í heild sinni að Síminn yrði áfram í opinberri eigu.

Þetta ætti að vera drjúgt og öruggt veganesti til Framsóknarflokksins sem nú fer með formennskuna í einkavæðingarnefnd, og þar af leiðandi líka söluferli Landssímans, um það hver vilji kjósenda þeirra er til þessa máls, a.m.k. samkvæmt þeirri vísbendingu sem Gallup-könnunin gerði grein fyrir.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telur engin haldbær rök fyrir einkavæðingu Símans og telur hann áfram best kominn sem öflugt almannaþjónustufyrirtæki í opinberri eigu. Því er þess vegna enn freistað að hafa áhrif á málið með því að leggja til að horfið verði frá hugmyndum um sölu, a.m.k. þá til ársloka 2008 eins og hér er lagt til. Með því gæfist ráðrúm til að skoða málin, meta reynslu annarra þjóða af einkavæðingu fjarskipta og síðast en ekki síst nota tímann vel til að bæta fjarskiptakerfið. Framhald málsins verður svo í höndum þess löggjafar- og framkvæmdarvalds sem með málið fer þegar þar að kemur.

Það er von flutningsmanna að sú leið sem frumvarpið felur í sér fáist tekin til alvarlegrar skoðunar, ekki síst í því skyni að ná lágmarkssáttum um meðferð þessa umdeilda máls. Í ljósi óumdeilds mikilvægis fjarskipta og gagnaflutninga í nútímasamfélagi verður að gera kröfu um ýtrustu gát. Má í því sambandi benda á að hægri stjórnin í Noregi hefur farið sér mjög hægt í því að minnka í áföngum eignarhald ríkisins í norska símanum.

Ekki er annað vitað hér, a.m.k. ef marka má þá umræðu sem var á haustdögum, en að ætlunin sé að afhenda Símann meira eða minna í heilu lagi, eða a.m.k. ráðandi hlut í honum, til svokallaðra kjölfestufjárfesta. Það er þó mjög erfitt að henda reiður á hver aðferðafræði ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á að vera í einkavæðingarmálum því oft er skipt um aðferð hverju sinni. Þannig var dreifð eignaraðild einu sinni sögð keppikefli en hvarf síðan út úr myndinni og í staðinn kom ofuráhersla á svokallaða kjölfestufjárfesta.

Síðan kemur líka það til hvaða vinir einstakra stjórnmálaflokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eiga að fá viðkomandi eign hverju sinni. Það getur ráðist af geðþóttaákvörðunum.

Það er mikil óánægja í samfélaginu með margar þær breytingar sem hafa orðið á einkavæðingu öflugra ríkisfyrirtækja. Almenningi blöskrar samþjöppun valds og auðs í kjölfar markaðs- og einkavæðingar sem einnig orsakar minna aðhald og lakari aðkomu almennings að ákvörðun um mikilvæg hagsmunamál í samfélaginu. Meira að segja ýmsir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa hrifist með óánægjubylgjunni og látið ummæli falla um skerta þjónustu í kjölfar einkavæðingar ríkisfyrirtækja eða lýst yfir áhyggjum af græðgisvæðingu samfélagsins og samþjöppun auðs og valds. Gerir það áform um einkavæðingu Símans enn óskiljanlegri en ella.

Ég trúi því ekki, herra forseti, að það sé vilji þjóðarinnar — reyndar alls ekki — að Landssíminn verði seldur með þeim hætti að hann síðan fari á braskferð og geti endað í megindráttum, kannski erlendis, í búlgarska símanum eða annars staðar. Ég trúi því ekki að sá sé vilji íslensku þjóðarinnar.

Það eru gríðarlega mörg verkefni sem brýnt er að ráðast í á næstu árum, hafa reyndar verið mjög vanrækt á undanförnum árum. Þar má t.d. nefna uppbyggingu á fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikum um allt land og það að tryggja aðgang allra landsmanna að GSM-kerfinu. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt tillögur um hvort tveggja. Er þar gert ráð fyrir að t.d. arðgreiðslur úr ríkissjóði verði lækkaðar á meðan Síminn vinni að þeim verkefnum. Með þessu er að sjálfsögðu ekki allt talið upp sem fram undan er á þessu sviði. Svonefnd þriðja kynslóð farsíma er að halda innreið sína og fram undan eru miklar fjárfestingar á vegum fjarskiptafyrirtækja við að byggja upp þá þjónustu.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga að kröfur til fjarskiptaþjónustunnar fara sívaxandi og þróunin er hröð hvað nýja og afkastameiri tækni varðar. Það er því mjög mikilvægt að við höfum slíkt opinbert fyrirtæki sem tryggi einnig framþróun í gagnaflutningum og tækni hvað það varðar að hún berist til allra landsmanna.

Við höfum á undanförnum árum horft upp á, t.d. varðandi GSM-símaþjónustuna sem menn telja að sé á samkeppnismarkaði, að þau tvö aðalfyrirtæki sem eru á fjarskiptamarkaðnum hafa keppst um að setja upp hvort sína eigin fjarskiptasenda hér á suðvesturhorninu þar sem þeir meina að samkeppnin sé. Á meginhluta landsins, í dreifbýlinu, á þjóðvegunum, þar sem ekki er samkeppni og ekki arðbært að mati þessara fyrirtækja er ekkert gert. Svona þjónusta gengur ekki upp. Þess vegna krefjast landsmenn jafnaðar hvað þessa fjarskiptaþjónustu varðar.

Ég hef hér undir höndum ótal ályktanir, yfirlýsingar, kröfur og óskir frá sveitarfélögum, frá samtökum sveitarfélaga, frá hinum ýmsu félagasamtökum og hagsmunaaðilum, frá ferðaþjónustunni hringinn í kringum landið þar sem þess er krafist að fjarskiptaþjónustan verði bætt. Menn vilja fá GSM-símaþjónustu, meira öryggi í fjarskiptum á þjóðvegum landsins og annars staðar í byggð. Allar þessar ályktanir og óskir liggja hér fyrir. Það er þetta sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að eigi að vera forgangsverkefni og forgangsatriði.

Það er ekki sem Síminn sé baggi á þjóðinni, síður en svo. Bara í ár er gert ráð fyrir því að hann greiði í arð til ríkisins meira en 2 milljarða kr. og er þó hagnaðurinn á árinu talinn einhvers staðar í kringum 7 milljarða kr. Þarna er aldeilis nægt fjármagn á ferð þannig að það er ekki mikill baggi fyrir þjóðina að eiga slíka gullkú. Þess vegna er enn frekar ástæða til þess að við hættum nú við öll áform um sölu Landssímans í bili og einhendum okkur í að beita styrk hans til þess að efla fjarskiptin um allt land.

Herra forseti. Það er líka vert að huga að því hvernig menn ætla að selja ef út í þá vitleysu verður farið. Við heyrum að hér er verið að flytja hverja tillöguna á fætur annarri eða heyrum umræður um að nota eigi andvirði sölu Landssímans til að gera þetta eða hitt. Í gær kom fram tillaga um að nota fjármunina til að lækka gjaldið í Hvalfjarðargöngum. Við höfum heyrt aðra tillögu um að nota eigi söluandvirði Landssímans til þess að byggja menningarhús. Ein tillagan er að það eigi að byggja jarðgöng. Enn önnur tillaga er um að lækka skuldir ríkissjóðs. Drottinn minn dýri, það eru svo mörg eiginleg verkefni ríkisins sem hægt er að skjóta sér á bak við með því að selja Landssímann.

Horfum á þessa 2 milljarða, 2–3 milljarða sem hann skilar í arð á ári. Er það ekki fjármagn sem hægt væri að nota til þeirra hluta sem hafa verið nefndir ef út í það væri farið?

Nei, herra forseti. Það er virkilega þjóðhagslega hagkvæmt fyrir þjóðina að eiga Landssímann, eiga þetta sterka fyrirtæki, beita afli þess, beita fjármunum Landssímans til að efla fjarskiptakerfið um allt land. Það eigum við að gera, hætta við allar hugmyndir um sölu Landssímans og einhenda okkur í þetta verk.



[16:27]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku hófum við umræðu um þingmál sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram um frestun á sölu Landssímans. Því miður gafst okkur ekki tími til að klára umræðuna sem þá hófst. Nokkrir biðu á mælendaskrá þegar þeirri umræðu var frestað og henni er nú fram haldið.

Ég vil byrja á því að segja að ég fagna umræðu um málefni Símans og um fjarskiptamál í landinu almennt. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram, bæði í síðustu viku og í dag, sé af hinu góða. Í síðustu viku flutti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ágætt mál um málefni Símans og fjarskipti almennt í þjóðfélaginu. Ég vil segja að ég deili þeim áhuga sem hv. þm. sýnir fjarskiptamálum, þá sérstaklega á landsbyggðinni, og við deilum væntanlega þeirri hugsjón að við viljum sjá fjarskipti batna til muna á landsbyggðinni frá því sem nú er.

Hér er fyrst og fremst um hápólitískt álitamál að ræða sem stjórnmálaflokkarnir standa frammi fyrir, þ.e. sala Landssímans. Hér hafa hv. þm., sérstaklega Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, mikið vitnað í skoðanakannanir sem voru gerðar fyrir nokkrum árum þar sem rætt var um stuðning eða andstöðu landsmanna og ýmissa hópa innan mismunandi flokka um sölu á Símanum.

Mig langar þar af leiðandi til að varpa fram spurningu: Hvaða forsendur liggja að baki slíkri könnun? Var sú forsenda t.d. að baki þeirri könnun að skilyrði við sölu Símans yrði það að við mundum stórbæta GSM-dreifikerfið og háhraðatengingar víða um land? Ég vil leyfa mér að draga í efa að ef slíkt hefði verið tekið fram í umræddri könnun hefði svörun orðið sú sem hún varð. Við þurfum einfaldlega að spyrja okkur þeirrar spurningar nú þegar samkeppni er orðin mjög mikil á fjarskiptamarkaði í landinu. Mér reiknast til að um 30–40 einkafyrirtæki, sprotafyrirtæki, bjóði, oftar en ekki dreifðum byggðum og sveitum, þjónustu, þá sérstaklega hvað varðar háhraðatengingar gagnvart tölvum þar sem Síminn hefur því miður kannski ekki staðið sig sem skyldi. Við erum sammála um það, við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Við þurfum einfaldlega að spyrja okkur spurningarinnar: Á ríkið að standa í samkeppni við þessa aðila?

Ég viðurkenni að þar greinir okkur allverulega á, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, og stjórnmálaflokkana almennt, Framsóknarflokkinn og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, því að það er stefna Framsóknarflokksins að standa ekki að slíkum samkeppnisrekstri við fjöldann allan af innlendum aðilum sem eru á þeim markaði.

Af því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala um að við framsóknarmenn skuldum kjósendum okkar skýringar á því af hverju við erum að fara í þessa einkavæðingu, þá var það ljóst fyrir kosningar að í þennan leiðangur yrði farið. Í raun var það stefna síðustu ríkisstjórnar að við skyldum einkavæða Landssímann þannig að það gekk enginn gruflandi að því í aðdraganda síðustu kosninga hver stefna Framsóknarflokksins væri í þessu máli, hver stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri í þessu máli eða annarra stjórnmálaflokka því að stefnan hafði verið mörkuð. Ég veit ekki betur en forsvarsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi andæft því fyrir síðustu kosningar og talað um það á mörgum framboðsfundum að ekki bæri að selja Landssímann heldur ætti ríkið að eiga Landssímann og standa þar af leiðandi í samkeppni við 30–40 einkafyrirtæki á markaðnum. Við skulum ekki gleyma því að eitt af þessum fyrirtækjum, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr öðrum aðilum á þessum markaði, er fyrirtæki sem heitir Og Vodafone, fyrirtæki sem ófáir landsmenn eiga hlut í, mjög stórt fyrirtæki og mjög öflugur samkeppnisaðili. Enn og aftur skulum við spyrja okkur þeirrar spurningar: Eigum við, ríkið, að standa í samkeppni við öflug almenningshlutafélög og önnur sprotafyrirtæki hér í landinu? Ég segi nei, og þar skilur okkur einfaldlega að í þessari umræðu.

Við getum rætt fleira í þessari umræðu um einkavæðinguna sem hefur átt sér stað á síðustu árum. Okkur greindi einnig á í því verkefni sem einkavæðing ríkisbankanna var á sínum tíma. Á þeim tíma stóðu ríkisbankarnir í mikilli samkeppni við banka sem voru í eigu almennings, lífeyrissjóða og annarra tugþúsunda fjárfesta í íslensku þjóðfélagi.

Hver er veruleikinn sem við horfum á í dag ? Við horfum á útrás íslenska bankakerfisins og við horfum kannski í fyrsta skipti í sögunni á alvöru samkeppni á íslenskum bankamarkaði sem er trúlega ein mesta kjarabót sem íslenskar fjölskyldur hafa fengið á hinum síðari árum.

En ég get ekki látið hjá líða í umræðunni sem hér á sér stað að segja að mér finnst hins vegar þjónusta Símans við íbúa landsbyggðarinnar oft á tíðum ekki upp á marga fiska og því fyrirtæki ekki til sóma. Ég veit að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getum sagt sömu sögu af því úr þessum stól því við höfum báðir farið víða um landsbyggðina og þá sérstaklega norðausturhornið og suðurfirði kjördæmis okkar. Það er alveg ljóst að Síminn hefur ekki veitt þessum smærri þéttbýliskjörnum þá þjónustu sem skyldi og það er staðreynd málsins.

Hver eru svör forsvarsmanna fyrirtækisins? Jú, að ákveðin arðsemi þurfi að vera af ákveðnum hlutum. Nú þekki ég ekki hvaða viðmiðanir þetta opinbera fyrirtæki hefur sett sér en hverjar eiga þessar arðsemiskröfur að vera? 10, 15 eða 20%? Svör þessa opinbera fyrirtækis eru að þeir fari fram á nokkuð mikla arðsemi af fjárfestingum sínum.

Ég spyr: Er það virkilega þannig að ef arðsemi er kannski ekki meiri en 5% eða ef arðsemin er jafnvel á pari að þá eigi heilt byggðarlag þar af leiðandi ekki að fá háhraðatengingu eða aðra þjónustu sem Síminn getur veitt? (Gripið fram í: Það lítilræði.) Er það framtíðarsýn okkar? spyr ég.

Ég held að flestir sem sitja hér á hinu háa Alþingi geti verið sammála um að við mælum einfaldlega ekki allt í krónum og aurum, og hér tala ég fyrir hönd míns flokks, það er ekki stefna Framsóknarflokksins að reka hér óheft markaðssamfélag þar sem krónur og aurar skipta meira máli en velferð, lífsgæði, öryggi og hamingja fólksins.

Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn sett það skilyrði við sölu Símans að fjármunir verði teknir frá við söluna og nýttir til að bæta þjónustu við þessa smærri þéttbýlisstaði. Það kemur mér því á óvart og fer ekki hjá að mér sárni að í þessari umræðu hefur trúlega hvað versta orð legið til Framsóknarflokksins, þrátt fyrir að allir forustumenn flokksins hafi sagt það í umræðum hér innan þings sem utan að þeir vilji efla þjónustu Símans við þessa staði.

Síðan vil ég fara yfir þá þjónustu sem Síminn veitir. Við vitum að GSM-dreifikerfið er mjög stopult kerfi, það er mjög götótt. Við lifum á 21. öldinni og tækniframfarir hafa verið miklar á umliðnum árum og þó að stjórnendur Símans segi að 99% heimila njóti þjónustu í GSM-kerfinu þá er það oft þannig, sérstaklega í mörgum smærri sveitarfélögum og þéttbýliskjörnum að þegar út fyrir túnfótinn er komið þá er ekkert GSM-samband. Og í ljósi þess öryggishlutverks sem GSM-dreifikerfið gegnir í dag er það er að mínu viti nokkuð alvarlegur hlutur hversu gloppótt það er, hvort sem það er hér á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Við getum tekið sem dæmi margar björgunarsveitir sem vinna kraftaverk árið um kring, sem byggja öryggiskerfi sitt að nokkru leyti á GSM-kerfinu. Það er því mikið réttlætismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að úr þessu verði bætt.

Háhraðatengingar er annað sem varðar þjónustu Símans, það eru tengingar við veraldarvefinn sem er orðinn órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið nást í dag háhraðatengingar, svokallaðar ADSL-tengingar, til um 90% landsmanna eða rétt rúmlega það.

En ég spyr: Er það nóg? Er í lagi að skilja hin tíu prósentin eftir? Mundum við hv. þingmenn sem hér erum inni sætta okkur við að hafa ISDN-tengingar á tölvunum okkar? Ég er ansi hræddur um ekki. Þetta þarf að bæta og ég held að allir séu sammála um það.

Hins vegar vil ég segja það, hæstv. forseti, að mér finnast vægast sagt dapurleg þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð, hefur valið sér m.a. í síðustu viku gagnvart okkur framsóknarmönnum. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eigi ekki að efast um góðan hug okkar framsóknarmanna til þjónustu í fjarskiptum á landsbyggðinni, ég veit ekki hversu oft forustumenn flokksins, beggja stjórnarflokkanna, þurfa að segja að við ætlum okkur að bæta þessa þjónustu. (Gripið fram í.) En menn skella hér við skollaeyrum og vilja ekki heyra og tala — ja, ég vil nota það orð — með niðurrifshætti, um margar byggðir landsins þar sem við ætlum okkur að bæta fjarskiptin.

Í þessari umræðu er eins og sá ágæti flokkur Sjálfstæðisflokkurinn sé alltaf að kúga Framsóknarflokkinn, að Framsóknarflokkurinn liggi hér kylliflatur undir Sjálfstæðisflokknum. Hér er ekki verið að kúga neinn. (Gripið fram í: Ég er ánægður með þetta.) Það er enginn úr þingflokki Framsóknar sem liggur kylliflatur fyrir Sjálfstæðisflokknum og það er enginn í þeim ágæta samstarfsflokki Sjálfstæðisflokknum sem liggur í valnum eftir okkur framsóknarmenn, þannig er það ekki í þessu stjórnarsamstarfi. (Gripið fram í: Nei.) Hér er um heiðarlegt og gott samstarf að ræða á milli tveggja flokka og ég veit að þetta fer alveg óskaplega í taugarnar á hv. stjórnarandstöðu þegar við tölum svona fallega hvor um annan, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, því að ekki er nú samlyndið svo gott í stjórnarandstöðunni eins og raun ber vitni.

En ég vil segja það hér, hæstv. forseti, í lok máls míns, að að sjálfsögðu munum við fylgja markaðri stefnu ríkisstjórnarinnar, Landssíminn mun verða seldur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Aðalatriðið í þeirri umræðu sem mér finnst háttvirt stjórnarandstaða hafa byggt hér upp, að þetta hafi átt að koma einhverjum á óvart, þetta lá allt fyrir í aðdraganda síðustu kosninga. Síðasta ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk innan borðs markaði þessa stefnu og margar umræður hafa verið teknar um hana.

Aðalatriðið er að það er ekki sama hvernig sala Símans fer fram. Ég legg áherslu á það, mér finnst margir hv. þingmenn hafa verið búnir að gefa sér það í umræðunni að ekki er búið að skilgreina sölu Símans, þ.e. hvernig það söluferli fer fram. Ég held að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ættu að bíða með sleggjudómana þangað til sú niðurstaða liggur fyrir, það ferli er nú að hefjast.

Þetta mál liggur því nokkuð skýrt fyrir, það er verið að skilgreina hvernig sala Símans mun fara fram og komið í ákveðið undirbúningsferli að sölunni og því hvet ég hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarandstöðunnar, til að spara stóru orðin og gífuryrðin í garð Framsóknarflokksins í umræðunni þangað til sú niðurstaða liggur fyrir.



[16:41]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að það er komið við mikla kviku hjá ýmsum þingmönnum Framsóknarflokksins þegar aðild þeirra að þessu máli er nefnd, og talsmanni flokksins var svona órótt á köflum fannst mér hér í málsvörn sinni fyrir framgöngu Framsóknarflokksins. Ég leyfi mér að segja að það hafi verið nokkrar mótsagnir í málflutningi hv. þm., t.d. sagði hann hér í lokin að menn ættu ekki að vera að tjá sig um þetta svona vegna þess að það ætti eftir að skilgreina hvernig sala Símans færi fram og það skipti öllu máli. Það sannar auðvitað að ríkisstjórnin hefur hér valið þá ógæfulegu aðferð að ákveða fyrst að selja Símann og fara svo að velta því fyrir sér hvernig það eigi að gerast og hvaða afleiðingar það muni hafa. Sem sagt, fyrst gefa menn sér niðurstöðuna, það skuli einkavæða, svo er farið að velta því fyrir sér — já, bíddu, en hvaða áhrif hefur það, hvernig kemur það út fyrir landsbyggðina? Hvað þurfum við þá að reyna að gera til að deyfa höggið af þessu? Um það snýst hnoðið milli stjórnarflokkanna núna.

Hv. þm. spurði um þessa könnun og á hvaða skilyrðum hún hefði byggt. Það er einfalt. Engum. Þetta var einföld könnun án skilyrða. Það var spurt um afstöðu almennings til þessa einfalda grundvallaratriðis: Vilja menn að þetta fyrirtæki sé áfram í opinberri eigu eða ekki? Þjóðin er alveg fær um að gera upp hug sinn til slíkrar einfaldrar spurningar og það er einmitt kosturinn við könnunina að hún er algerlega skýr og einföld. Niðurstaðan er líka skýr: Yfir 60% vill að Síminn sé áfram opinbert fyrirtæki og reyndar hærra hlutfall þeirra sem gáfu upp stuðning við framsókn.

Svo stóð nú bara frjálshyggjusöngurinn upp úr hv. þm. um að ríkið ætti ekki að vera í samkeppni við einkaaðila þar sem þeir væru til staðar. (Gripið fram í.) En á hvaða grunni byggir þessi þátttaka einkaaðilanna á afmörkuðum sviðum? Jú, hún byggir á grunnkerfi Símans, þeir eru háðir viðskiptum við Símann um flutning á merkjum sínum þannig að málið er ekki alveg svona einfalt.

Ég held að það sé mikill misskilningur ef hv. þm. heldur að lausnin í þessum efnum liggi í endanlegri markaðs- og einkavæðingu fjarskiptasviðsins í landinu. Það mun ekki leiða til góðs.



[16:43]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon brást hér við með því að segja að fyrst hefði ríkisstjórnin ákveðið að selja Símann og spyrja svo hverjar afleiðingarnar yrðu. Ég fór mjög vel yfir það í ræðu minni áðan hver skilyrðin fyrir sölu af hálfu þingflokks Framsóknarflokksins eru gagnvart sölu Símans.

Okkur greinir hins vegar á um það, og við getum þá verið sammála um að vera ósammála um, að ríkið á ekki að standa í samkeppni gagnvart 30–40 einkafyrirtækjum á þessum markaði. Okkur greinir á í þeim efnum rétt eins og okkur greindi á varðandi sölu á ríkisbönkunum.

Það sér sennilega hver maður hver niðurstaðan af þeirri einkavæðingu hefur orðið, þó umdeild hafi verið innan Framsóknarflokksins á sínum tíma. Það er sama hvað menn segja, það er mikil samkeppni á bankamarkaði í dag.

Ég vil sjá, svo ég tali persónulega, ég ætla ekki að úttala mig um málið, en ég mundi gjarnan vilja sjá að við sölu Símans yrði tekið frá eitthvert fé, þar sem einkaaðilar á þessum markaði, tugir fyrirtækja, gætu líka tekið þátt í útboði til þess að bæta þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar hvað varðar GSM-dreifikerfið eða háhraðatengingar almennt. Ég tel það ekki fráleitt. Gott væri að heyra viðbrögð hv. þm. hvað það varðar.

Annað varðandi grunnnet Símans. Það er alveg ljóst að samkvæmt fjarskiptalögum munu allir eiga aðgang að grunnnetinu. Þegar menn tala um þriðju kynslóð farsíma og annað slíkt þá er alveg ljóst að við munum aldrei klára það verkefni að byggja upp dreifikerfið eða svara kalli tímans. Ég held að það sé alveg ljóst. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna í framtíðinni að reyna að bregðast við því þegar þar að kemur.



[16:46]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að oft sé gott til glöggvunar afstöðu manna til mála af þessu tagi að menn byrja á því að leggja hlutina niður fyrir sér hvers eðlis þau fyrirbæri eru sem menn fjalla um. Spurningin hér er fyrst og fremst um það. Er þetta þjónusta? Er þetta mikilvæg undirstaða í samfélagi okkar sem allir eiga að hafa jafnan aðgang að eða er þetta bisness?

Mér heyrist hv. þm. Birkir Jón Jónsson vera á ákaflega háskalegum brautum í því hvernig hann grautar þessu tvennu saman. Öðrum þræði notar hann frjálshyggjurökin. Ríkið á ekki að vera að þvælast í samkeppni við 30–40 aðila sem eru nú að vísu ekki allir stórir í þessu dæmi. Hins vegar rifjar hann svo upp gamlar og því miður að mestu leyti gleymdar ræður framsóknarmanna um hvað þeir séu nú þrátt fyrir allt miklir félagshyggjumenn og miklir byggðajöfnunarsinnar. Ég taldi upp hin hefðbundnu frjálshyggjurök, að ríkið eigi ekki að vera að þvælast þarna í samkeppni. Þetta er ekki venjulegur bisness, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Þetta er ein mikilvægasta undirstaða þess að menn geti verið fullgildir þátttakendur í upplýsingasamfélagi nútímans og framtíðarinnar. Það er hárrétt að menn leysa þetta mál ekki bara í eitt skipti fyrir öll með einhverjum framkvæmdum núna. Það þarf að tryggja það að allir landsmenn standi jafnt að vígi gagnvart þróuninni inn í framtíðina. Hvernig í ósköpunum á að gera það og tryggja að þar verði félags- og byggðarleg sjónarmið að einhverju leyti í heiðri höfð, en ekki bara arðsemin?

Hv. þm. gagnrýnir Símann og segir að hann hefði getað staðið sig betur í uppbyggingu á undanförnum missirum. Gott og vel. Hvers vegna hefur hann ekki staðið betur en raun ber vitni undanfarin ár? Jú, það er vegna þess að hann hefur tekið að skilgreina sig sem einkafyrirtæki, sem bisness og horfið frá þeirri hugsun sem áður var þar við lýði að hann væri almenningsþjónustufyrirtæki sem hefði skyldum að gegna við alla landsmenn. Heldur þá hv. þm. að lausnin sé sú að fara alveg yfir og einka- og markaðsvæða það að fullu? Ég segi: Það sem er að í Símanum undanfarin missiri er að hann er horfinn of langt frá hinni gömlu góðu grundvallarhugsun um að hann væri þjónustufyrirtæki allra landsmanna. Hann er orðinn of markaðs- og (Forseti hringir.) einkavæddur nú þegar. Lausnin er þá ekki að ganga alla leið í þeim efnum.



[16:48]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni hvað það varðar að þjónusta Símans mætti vera betri, GSM- og internetþjónusta víða um land.

Ég vil spyrja hv. þm. um hver beri ábyrgðina á ástandinu. Er það bara Síminn einn og sér? Hver stjórnar Símanum? Er þetta ekki hlutafélag þar sem eigandinn ræður? Eru það ekki einmitt stjórnvöld, sem hv. þm. styður, sem bera ábyrgðina á ástandinu og hvernig þjónustan er rekin? Það hlýtur að vera.

Það er ekki hægt að tala um Símann eins og hann sé sjálfstæður og komi eigendunum ekkert við. Þetta er í rauninni bara stefna stjórnvalda sem lýsir sér í ástandinu, að ekki er t.d. símasamband á þjóðvegi 1. Hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á því.

Síðan talar hv. þm. um að enginn hefði átt að velkjast í vafa um hver afstaða Framsóknarflokksins var fyrir síðustu kosningar. Það er nú eins og mig minni, ég vona að hv. þm. Birkir Jón Jónsson leiðrétti mig ef mig misminnir, að Framsóknarflokkurinn hafi einmitt viljað undanskilja grunnnetið við söluna á Símanum fyrir síðustu kosningar. Er það ekki rétt? Enda væri það algjör fásinna (JBjarn: Það voru sumir framsóknarmenn ...) — já, voru það sumir framsóknarmenn? — fyrir þá sem vilja samkeppni á fjarskiptamarkaði að undanskilja ekki grunnnetið. Það gerðum við varðandi raforkuna þegar við breyttum raforkulögunum. Það ættum við líka að gera, við sem viljum samkeppni á fjarskiptamarkaði, ef við meinum eitthvað með því sem við segjum.



[16:50]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að hlusta á það andsvar sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom hér með. Mig langar í fyrsta lagi að ræða um afstöðu Frjálslynda flokksins í þessu máli af því hér eru tveir ágætir þingmenn þess ágæta flokks.

Ég hélt að Frjálslyndi flokkurinn væri skilgreindur sem hægri flokkur, flokkur sem er hægra megin við miðju, hina íslensku miðju. En svo brá við í umræðum í síðustu viku að hingað flykktust þingmenn Frjálslynda flokksins upp og mærðu þessa tillögu, um að það bæri nú bara að fresta þessari einkavæðingu Símans og annað slíkt, það væri hið besta mál. Ég held að hv. þingmenn ættu að fara að skoða hugmyndafræði síns flokks sem mér finnst oft á tíðum ekki einkennast af einhverjum hægri sjónarmiðum heldur þeim sjónarmiðum sem henta best hverju sinni pólitískt séð.

Hvað varðar ábyrgðina á rekstri Símans er alveg ljóst að Síminn heyrir undir stjórn. Einstaka þingmenn fara ekki niður í Síma og skipa þar stjórnendum fyrir. Ég held að hv. þm. geti verið mér sammála um það. Það er alveg ljóst að stjórnin ber ábyrgð á og markar stefnu Símans. Sú stefna er ekki rekin hér eða tekin í þingsölum Alþingis.



[16:52]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hv. þm. vilji ekki ræða stefnu Framsóknarflokksins sem virðist vera síbreytileg og vilji ræða um stefnu okkar í Frjálslynda flokknum. Mér finnst það bara mjög gott að ræða stefnu Frjálslynda flokksins vegna þess að við viljum hafa samkeppni og forsenda fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði er einmitt að undanskilja grunnnetið. Það var stefna Framsóknarflokksins, a.m.k. sumra framsóknarmanna. Nú virðist það breytt. Það þýðir heldur ekki að tala hér í stjórnarandstöðu og á móti því og þykjast ekki bera nokkra ábyrgð á því hvernig Síminn hefur verið rekinn undanfarin ár og það að vegir landsins séu meira og minna án fjarskipta og vera þá allt í einu í stjórnarandstöðu. Menn verða bara að horfast í augu við eigin ábyrgð í þessu máli. Síminn er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson styður.

Ég held einmitt að hann ætti að vera sammála okkur í Frjálslynda flokknum. Ef menn í raun og veru meina eitthvað með samkeppni á fjarskiptamarkaði, þá er ekkert vit í því að einkavæða grunnnetið, nema þá að það sé undanskilið og allir eigi jafnan aðgang að því. Ég er í ágætu sambandi við þá sem reka fjarskiptafyrirtæki og jafnvel á landsbyggðinni. Það er einmitt það sem þeir óttast mest, að grunnnetið fari og verði selt með og að það verði ekki ríkiseinokun eins og er núna heldur verði einokunin einkavædd.



[16:54]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hafi kannski ekki hlustað nógu vel á mál mitt áðan. Ég fór yfir það hvað við framsóknarmenn sögðum fyrir síðustu kosningar. Ég fór líka yfir það í máli mínu (Gripið fram í.) að stefna ríkisstjórnarinnar var ljós fyrir síðustu kosningar, þeirra flokka sem stóðu að þeirri ríkisstjórn. Það vildi svo til að þessir flokkar héldu meiri hluta og hafa ákveðið að starfa áfram saman. Því hlýtur sú stefna að standa.

Og að tala um það að ég komi hér upp í púlt og tali í stjórnarandstöðu — ég veit ekki betur en að hv. þingmenn séu yfirleitt að gagnrýna sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fyrir að tala einni röddu. Það eru nú meiri ósköpin. Svo kem ég hingað upp og ræði um þau mál sem mér finnst að megi betur fara í íslensku þjóðfélagi, kemur ekki hv. þm. Sigurjón Þórðarson og gagnrýnir mig fyrir að tala ekki sama máli og ríkisstjórnin í málinu. Hvers lags málflutningur er þetta?

Ég hef í máli mínu sagt það að fyrirvarar Framsóknarflokksins í málinu eru þeir að við ætlum að bæta GSM-dreifikerfið og háhraðatengingar víða um land. Ég er ekki að tala hér í neinni stjórnarandstöðu. Þetta er bókun sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram og ég hef verið að skýra fyrirvara þingflokksins í þessu máli. Þannig að tvískinnungur háttvirtrar stjórnarandstöðu hvað þetta varðar er algjör. (SJS: Þetta er kattarþvottur.)



[16:55]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst í beinu framhaldi af því sem rætt hefur verið hér á undan þá hefur nú verið erfitt að átta sig á því hver munurinn er á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Það hefur hins vegar einhver ágreiningur verið á ferðinni og vandræðagangurinn við sölu Símans er náttúrlega með þvílíkum eindæmum að leita þarf langt til að finna annað eins. Árið 2001 átti að hrinda sölunni af stað. Allir muna a.m.k. í þessum þingsölum hvernig það fór allt saman. Síðan hafa menn hnoðast með málið á vegum Sjálfstæðisflokksins fram á þennan dag. Þegar ný ríkisstjórn kemur til valda er það fyrsta verk forsætisráðherra að skipa mann í einkavæðingarnefnd á sínum snærum til að leiða málið. Þá bregður svo við að undirbúningnum virðist svo ábótavant að leita þarf ráðgjafar út um allt til að finna út úr því hvernig eigi að standa að málinu. (Gripið fram í: Breyttar aðstæður.)

Nú er langt liðið á árið 2004 og undirbúningurinn er nú ekki betri en þetta enda eru, eins og heyrst hefur vel í þessari umræðu, álitamálin eru mörg og hafa stjórnarflokkarnir ekki tekist á við mörg þeirra. Það er bara tekin ákvörðun um að selja eigi Símann og virðist nánast sem einungis hafi verið fengist við þá einu setningu. Framsóknarflokkurinn sagði já, enda vil ég meina að það séu fleiri en bara Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem sjá ekki muninn á þeim flokkum. Það var þó þannig í sögunni um Bakkabræður að þeir áttuðu sig á því hvaða löpp þeir áttu þegar barið var í þær en það þurfti að gera til að þeir áttuðu sig á því hver ætti fótinn. En í núverandi ríkisstjórn er málið þannig vaxið að þegar á að herða á virðist ekki vera nokkur leið að átta sig á því hver á hvaða löpp.

Mér finnst að þegar Framsóknarflokkurinn er með þann kattarþvott að það eigi að halda eftir einhverjum fjármunum til þess að koma á betri fjarskiptum í landinu, þá eigi menn ekki að komast upp með það. Ég segi það alveg eins og er. Ég held því ekki fram að ekki sé ástæða til að styðja við þetta. En þegar menn hafa horft upp á allan þennan tíma líða án þess að tekið væri almennilega á þessum málum, á meðan ríkið á Símann, þá veltir maður því fyrir sér hvort það er eitthvað trúverðugra þegar menn tala um að setja peninga í að gera hlutina. Það er það sem mér finnst vera undarlegt í þessu máli.

Hér hafa menn í allt sumar verið með umræður um það að nú þyrfti að taka á einokunarfyrirbrigðum í samfélaginu og koma í veg fyrir hringamyndanir og einokun. Hvar skyldi nú vera meiri einokun til staðar en sú einokun sem verið er að koma á með sölu Símans án þess að taka grunnnetið undan? Síminn, sem er með 74–75% af öllum viðskiptum í fjarskiptum í landinu, á að hafa grunnnetið þar sem hinir þurfa að koma á hnjánum til hans. Samgönguráðherra stóð fyrir því að sett voru lög sem settu kvaðir á þá sem væru með grunnnet, að aðrir hefðu aðgang að þeim, þessum grunnnetum. Það átti að leysa öll þessi vandamál um samskiptin. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að nú eru fyrirtækin á fjarskiptamarkaði að byggja sem óðast upp önnur net. Það er það sem við fáum út úr þessu, þ.e. að margföld fjárfesting er farin í gang við grunnnetin í landinu. Íslendingar hafa alltaf efni á því að eyða peningum. Það er ekki undantekning á því í þessu tilviki.

Þarna hefði verið hægt að hafa sömu afstöðu til mála og gagnvart raforkukerfinu, að reyna að sjá til þess að það yrði ekki margföld fjárfesting í því og hægt yrði að nýta sameiginlegt net til þess að keppa á. Það er nánast búið að eyðileggja þann möguleika með framgangi ríkisstjórnarflokkanna.

Ég ætla að snúa mér að þingmálinu. Við erum að miklu leyti sammála því sem í því stendur enda er ég 1. flutningsmaður að annarri tillögu sem kom inn í upphafi þings um endurskoðun á sölu Símans. Það er fyrst og fremst tillaga um að menn reyni að bjarga því sem bjargað verður með því að (Gripið fram í.) taka grunnnetið undan Símanum og reyna að sameina aðila á markaðnum um eitthvert grunnnet. Það er ekki víst að það sé hægt miðað við hvernig komið er en það væri a.m.k. tilraunarinnar virði. Að því leyti erum við sammála. Svo er hægt að hafa langt mál um það hvernig framgangurinn verður þegar Síminn er með þetta grunnnet.

Ég gerði t.d. tilraun til þess að leita mér upplýsinga um hvernig staðið yrði að því að fá viðbætur í kerfið þegar búið væri að einkavæða Símann með grunnnetinu, ef ríkisstjórnin og Alþingi vilja koma á skárra símasambandi og betri þjónustu á einhverju tilteknu landsvæði og láta í það peninga. Hvað gera menn þá? Jú, þá verður það boðið út. Hverjir eiga að keppa við Símann um viðbæturnar á markaðnum þegar hann á allt grunnnetið úti á landi? Hvað verður að marka tilboðin sem verða gerð í viðbætur úti á landsbyggðinni þegar einn aðili á netið sem þar er til staðar?

Þetta er mikið umhugsunarefni og ástæða til þess að hv. þm. Birkir J. Jónsson eða aðrir sem mæla fyrir þeirri stefnu Framsóknarflokksins að láta peninga í þetta, útskýri hvernig þeir ætli að standa að því að fá fram þessar úrbætur, hvort þeir ætla að semja bara við Símann, fá eitthvert gott verð hjá honum, einkavæddum og í höndunum á mönnum sem kunna að reka bisness, eða hvort þeir ætla að bjóða út og láta þessa litlu sem eru á markaðnum bjóða í á móti Símanum, keppa á grundvelli sem er ónýtur, vonlaus. Er það þetta sem menn ætla sér? Það hefur ekki verið útskýrt og er ástæða til þess að kalla eftir því hvernig menn ætla að standa að þeim hlutum.

Hægt væri að hafa langt mál um símamálið sem einkavæðingarmálefni. Það er nefnilega dæmi um það hvernig menn eiga ekki að standa að hlutunum. Hverjar eru skyldur ríkisins þegar til stendur að einkavæða starfsemi eins og þessa? Fyrst og fremst að sjá til þess að til verði samkeppnisumhverfi sem virkar. Þar hafa menn hjá ríkisstjórnarflokkunum brugðist. Það hefði verið hægt að gera með því að til hefði orðið sameiginlegur samkeppnisgrundvöllur fyrirtækjanna á neti sem hugsanlega hefði líka verið hægt að einkavæða ef það hefði endilega þurft að þjóna lund manna. En það var ekkert nauðsynlegt. Aðalnauðsynin er að búa til farvegina, þjóðvegina fyrir skilaboðin og merkin sem fyrirtækin senda.

Ég ætla ekki að hafa mikið lengra mál um þetta. Mér finnst að ríkisstjórnin hafi valið kosti án þess að fara ofan í þá og hafi eytt ótrúlega löngum tíma í málið. Miklu lengri en hægt er að fyrirgefa ríkisstjórnarflokkunum fyrir að hafa eytt í mál þegar komið er með það til afgreiðslu í því klúðri sem það er eins og í stefnir. Niðurstaðan er að möguleikarnir til þess að bjarga málinu eru enn þá til staðar en næstum búið að eyðileggja þá. Kannski var það alltaf meiningin, kannski hafa menn aldrei viljað gera hlutina þannig að til yrði almennilegt samkeppnisumhverfi og möguleikar til þess að þjóna landinu öllu á eðlilegum samkeppnisgrundvelli. Hvað á maður að halda þegar málið er að enda með þeim endemum sem við sjáum?



[17:06]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Spunnist hafa nokkrar umræður um málið og ýmislegt hefur fallið í þessum ræðustól. Það eru margar hliðar á málinu og ýmis sjónarmið hafa komið fram hjá hv. þm. Ég held hins vegar að það fari ekkert á milli mála fyrir þá sem hugleiða málið í alvöru að nauðsynlegt er að staldra við og skoða það á nýjan leik. Ég lít svo á að sú tillaga sem við ræðum og flutt er af tveimur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé tilraun til þess að taka málið niður, eins og sagt er, og skoða hvar við erum stödd og reyna að fá í það lendingu sem gæti ef til vill verið ásættanleg.

Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að best væri að dreifikerfið yrði ekki selt með Símanum og að um það væri stofnað sérstakt fyrirtæki sem mundi efla dreifikerfið, halda því við og tryggja að öll þau fyrirtæki sem starfa á markaði sem getur nýtt dreifikerfið um landið hafi aðgang að því á jafnræðisgrundvelli. Þannig verði samkeppni tryggð, annars vegar á milli símafyrirtækja og í framtíðinni á milli ýmissa fyrirtækja sem veita þjónustu um ljósleiðara, jafnvel á dreifingu á útvarps- og sjónvarpsefni. Sú aðferð var valin í sambandi við breytingu á raforkukerfinu að setja dreifikerfið í sérfyrirtæki og ég tel að það hefði einnig átt að gera þegar menn hugleiða sölu Símans.

Það hefur verið talað um það af stjórnarliðum að stjórnarandstaðan legðist ævinlega gegn allri einkavæðingu og öllum breytingum. Ég tel að menn fari þar ekki með rétt mál. Hins vegar er mjög mikilvægt, og um það held ég að þingmenn stjórnarflokkanna geti verið sammála, að tryggja eðlilega samkeppni. Að minnsta kosti hefur umræðan m.a. um bankakerfið og ýmis önnur viðskiptamál hér á landi snúist um að hér verði að vera eðlileg samkeppni. Menn hafa verið að hæla sér af því að eftir einkavæðingu bankanna m.a. væri loksins að koma upp eðlilegt samkeppnisumhverfi í lánaviðskiptum hér á landi og að samkeppnin tryggði það. Undir það má vissulega taka að mörgu leyti. Við höfum öfluga bankastarfsemi af einkavæddum bönkum og neytendur eru vonandi farnir að sjá í aukinni samkeppni eitthvað sem þjónar hagsmunum þeirra í betri lánafyrirgreiðslu og lækkandi vöxtum og er það vel.

Ég held, virðulegur forseti, að það væri mjög eðlilegt að menn stöldruðu við varðandi dreifingarkerfið og mótuðu þá stefnu að það væri ekki selt og jafnframt að tryggðir verði fjármunir til þess að byggja kerfið upp og gera það þannig úr garði að það þjónaði jafnt til sjávar og sveita, á þjóðvegum landsins o.s.frv. Það sem mér finnst meginmarkmið í þeirri hugsun þegar við tölum um aðgang að fjarskiptaþjónustu almennt er að landsmönnum verði í framtíðinni boðið upp á að sitja við sama borð.

Þar af leiðandi get ég sagt að ef um tillöguna næðist sá flötur að fresta sölunni í heilu lagi mundi ég ekki gera ágreining um það. Ég hef hins vegar talið að meginmálið í að tryggja samkeppni til framtíðar lægi í því að dreifikerfið yrði byggt upp og öllum fyrirtækjum væri gerður jafn aðgangur að dreifikerfinu. Það held ég að sé algjörlega nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir íslenska þjóð. Ég held að til framtíðar litið, þó svo mönnum tækist að byggja upp dreifikerfi hér á landi sem fyrir stæðu ýmis einkarekin fyrirtæki og tækist á næstu árum að koma slíku dreifikerfi á sem ýmsir ættu, er ég alveg viss um að það yrði dýrara og við hljótum líka að þurfa að horfa til þess. Hverjir borga fyrir mörg dreifikerfi ef það yrði niðurstaðan? Það eru neytendur, það fer ekkert á milli mála.

Ég dreg því mjög í efa að við næðum út úr því bestu hagkvæmni fyrir neytendur landsins að byggja upp mörg dreifikerfi því sá kostnaður yrði alltaf greiddur af notendunum og þeir fjármunir sem festir yrðu í að byggja upp margar dreifistöðvar og mörg dreifikerfi af ýmsum toga, jafnvel þó ný tækni hefji innreið sína og lækki kostnað, ættu að gera það í einu fyrirtæki. Þegar maður leggur þetta saman og veltir þessu fyrir sér getur maður ekki komist að annarri niðurstöðu en að það hljóti að vera hagkvæmara fyrir íslensku þjóðina að eiga og viðhalda dreifikerfinu og tryggja að öll fyrirtæki sem starfa á þessu sviði eigi aðgang á jafnréttisgrundvelli og keppist um að veita þjónustu með sitt efni, þegar um það er að ræða, og með viðskiptaform sitt og hagkvæmni í rekstri, þegar um það er að ræða, en eigi aðgang að einu dreifikerfi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að reyna að reisa neinn ágreining um það hvort slíkt fyrirtæki skuli vera bein ríkiseign eða einkafyrirtæki sem ríkið eigi að öllu leyti, en ég held að þannig fyrirkomulag þurfi að vera á þessu meðan verið er að tryggja uppbyggingu dreifikerfisins. Ég er alveg sannfærður um að ef við gerum það ekki muni, þegar upp verður staðið, kostnaðurinn fyrir neytendur verða meiri en ella. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að huga að því að við stígum ekki þau skref að fara í þá einkavæðingu sem verið er að boða og við ræðum með tillögunni sem hér er flutt fram í frumvarpsformi af Vinstri grænum, að það verði ekki stigið það skref að selja Símann í heilu lagi ásamt dreifikerfinu.

Ég held að hv. þm. Birkir J. Jónsson hafi nefnt það í ræðustól áðan að ef menn ætluðu að einkavæða þetta þá yrði a.m.k. að taka frá fjármuni til að tryggja að kerfið yrði þannig byggt upp að allir sætu við sama borð. Ég held að niðurstaðan sé einfaldlega sú að best sé að geyma sér það að einkavæða og ljúka því að byggja dreifikerfið upp án þess að fara í að selja eins og ríkisstjórnin vill gera, í heilu lagi með því að selja bæði þjónustuna og dreifikerfið. Það er niðurstaða mín í málinu.

Ég held að á undanförnum mánuðum og missirum hafi mörgum landsmönnum orðið það æ ljósara að ekki ætti að selja dreifikerfi Símans. Menn hafa iðulega líkt dreifikerfi Símans við vegakerfið okkar. Það er ágæt samlíking. Við teljum að ríkið eigi að standa fyrir því að leggja vegi og tryggja á sem bestan máta að landsmenn fái betra vegakerfi og sitji við sama borð að því leyti eins og hægt er. Ég held að það sama eigi við varðandi dreifikerfi Símans. Við þurfum að tryggja að menn sitji við sama borð.

Ég sat nýlega fjórðungsþing Vestfirðinga á Ísafirði. Þar voru menn m.a. að ræða tillögur um dreifikerfi Símans, GSM-netsins o.s.frv. Þar á þinginu kom fram tillaga um dreifikerfið eftir að menn höfðu rætt um einkavæðingu Símans. Það var ekki ómerkari maður en Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, sem flutti þá tillögu. Hún var samþykkt samhljóða á þinginu og ég held að ég verði að fá leyfi hæstv. forseta til að lesa þá ályktun þingsins, hún er innlegg í málið. Hún hljóðar svona:

„49. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Ísafirði 3.–4. september 2004, ítrekar fyrri ályktanir um þéttingu GSM-sambands á þjóðvegum á milli þéttbýliskjarna og á fjölförnum leiðum. Með uppsetningu á nokkrum GSM-sendum á Vestfjörðum er hægt að koma á samfelldu GSM-sambandi. Aukinn fjöldi ferðamanna á svæðinu kallar á betri þjónustu, en krafa nútímans er að vera í GSM-sambandi sem víðast.

Brýnt er að tryggja þjónustu við landsbyggðina og ferðamenn, innlenda sem erlenda ekki síst í ljósi þess að nú hillir undir sölu á Símanum. Vegna þess er mikilvægt að skoða hvort ekki eigi að undanskilja dreifikerfið, í sambærilegu fyrirtæki og Landsnet er fyrir raforkugeirann þar til bætt hefur verið úr aðgengi hinna dreifðu byggða að öflugri gagnaflutningi.“

Þetta var þessi ályktun, virðulegi forseti, og með henni fylgdi svofelld áskorun, með leyfi forseta:

„49. Fjórðungsþing Vestfirðinga skorar á samgönguráðherra að hann beiti sér fyrir því að hluta af hagnaði af sölu Símans verði varið til frekari uppbyggingar GSM-kerfisins.“

Þetta hafa menn verið að ræða í tengslum við þessa tillögu, virðulegi forseti. Síðan langar mig að vitna í eitt af mörgum erindum sem bárust inn í fjárlaganefnd frá ýmsum sveitarstjórnum. Þær nefndu einmitt dreifikerfið og framtíð fjarskipta á landinu. Sá pappír sem ég ætla að vitna í er erindi frá Þingeyjarsveit. Um fjarskiptin segir þar, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnin hefur vonda reynslu af markaðsvæðingu á fjarskiptamálum og hefur verulegar áhyggjur af sölu Símans og þeirri þróun sem orðið hefur á þeim vettvangi undanfarið. Þar má t.d. nefna að samfélagið nýtur almennt ekki góðs af tengingum sem Síminn hefur lagt, m.a. fyrir ríkissjóð, FS-netið, sem tengir m.a. framhaldsskóla góðri gagnaflutningatengingu. Þannig liggja tækifærin fyrir fótum okkar en við megum ekki nota þau af því að við erum ekki nógu fjölmennt markaðssvæði. Markaðsvæðingin á augljóslega ekki við um allt landið. Því verður ríkisvaldið að gera öllum íbúum landsins kleift að nýta þau tækifæri sem þó eru fyrir hendi og skapa ný.“

Þetta var ályktun þeirra í Þingeyjarsveit um dreifikerfið. Ég held að það fari ekkert á milli mála, hæstv. forseti, að eftir því sem menn ræða þetta meira óttast þeir meira að landsbyggðin sitji ekki við sama borð að þessu leyti. Þess vegna er eðlilegt að menn staldri við og fari í smærri skrefum þá leið sem ríkisstjórnin ráðgerir. Ég held að það væri vel til fundið að menn hugsuðu sig vandlega um hvort við séum að stíga rétt skref með því að fara í þetta allsherjarsöluferli á Símanum í einu lagi. Ég tek undir það sem komið hefur fram í máli manna, m.a. því sem ég hef vitnað í, að vert sé að óttast að niðurstaðan verði sú að við sem búum úti á landi munum ekki sitja við sama borð þegar kemur að fjarskiptum.

Við í Frjálslynda flokknum tökum eindregið undir það að menn hugsi sig betur um. Ef þessi tillaga um það að fresta sölu Símans til 2008 er liður í því þá getum við tekið undir hana. Við teljum að fyrst og fremst þurfi að skoða dreifikerfið og það að tryggja öllum jafna samkeppnisstöðu á þessum markaði um leið og landsmenn njóti sömu þjónustu. Það hlýtur einnig að vera mikilvægt að sá kostnaður sem við leggjum í sé ekki meiri en þörf er á til að tryggja þessi markmið. Ég tel að ef fjöldamörg fyrirtæki fara hvert fyrir sig að búa til dreifikerfi verði það neytandinn sem að lokum þarf að borga þann kostnað.



[17:22]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef bæði í dag, og eins þegar umræðan hófst í síðustu viku, fylgst af áhuga með henni. Ástæða þessarar umræðu er frumvarp sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason eru flutningsmenn að. Sala Landssímans hefur verið í umræðunni mörg undanfarin missiri. En ástæðan fyrir því að ég kem í ræðustól, frú forseti, er fyrst og fremst að mér finnst gæta ákveðins misskilnings í umræðunni, eiginlega að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi hafði hv. þm., síðasti ræðumaður, orð á því að hömlur væru á því að menn sætu við sama borð í samkeppni fjarskiptafyrirtækja. Ég vildi upplýsa hv. þm. um að eignarhald dreifikerfisins ræður ekki öllu um það. Dreifikerfi Landssímans, flutningskerfið sem slíkt, er aðskilið frá öðrum þáttum í rekstri þess fyrirtækis og með lögum sem þingið hefur sett er tryggt að öll fjarskiptafyrirtæki sitji við sama borð gagnvart dreifikerfinu.

Við höfum stofnun eins og Póst- og fjarskiptastofnun sem fylgist með því að engar aðgangshindranir séu fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki sem selja landsmönnum þjónustu sína. Það að halda dreifikerfinu í ríkiseign eða undanskilja þær sölunni er ekki nauðsynlegt til að tryggja samkeppnisaðstöðu fjarskiptafyrirtækjanna.

Hinn misskilningurinn sem ég vildi hafa orð á var að hv. þm. talaði um að klára uppbyggingu grunnnetsins. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir vegna þess að menn klára aldrei uppbyggingu á neinu sem heitir grunnnet fjarskipta á Íslandi. Í því samhengi langar mig að nefna að það eru ekki mörg missiri síðan stjórn Landssímans þóttist hafa háleit markmið um að ISDN-væða allt landið en ADSL-tengingar þóttu á þeim tíma ekki raunhæfar fyrir einstaklinga.



[17:24]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka vinsamlegar og góðar ábendingar. Ég hef eins og hv. þm. áttað mig á því að ný tækni býður endalaust upp á breyttar aðferðir við samskipti manna milli landsvæða og neytenda. Ég nefndi það í ræðu minni en þakka ábendingu þingmannsins að því leyti. Ég tel hana rétta.

Ég tók fram að dreifikerfi framtíðarinnar væri vafalaust ekki það sem við sjáum fyrir okkur einmitt í dag. Um það held ég að við þurfum ekki að gera mikið mál. Ég hygg að ný tækni muni alltaf leita inn á svið þar sem hennar er þörf. Ég var einfaldlega að benda á að eftir því sem fleiri fyrirtæki legðu eigið dreifikerfi þá yrði kostnaðurinn meiri fyrir notendur.

Varðandi hitt atriðið, sem snýr að byggðunum, þá er staðreyndin einfaldlega sú að fámennar byggðir og sveitir þessa lands eru ekki eins eftirsóknarvert markaðssvæði og þar sem fleiri búa. Þar af leiðandi álít ég að við þurfum að hafa fyrirtæki í eigu ríkisins til að tryggja að fámennari svæði fái sömu möguleika og þjónustu þar sem einkafyrirtæki muni frekar sækja inn á þéttbýlli svæði.



[17:26]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ljóst að ég og hv. þm. erum sammála um að við klárum ekki að byggja upp grunnnetið, dreifikerfi, flutningskerfi fjarskipta á Íslandi, í eitt skipti fyrir öll. Það er jafnframt misskilningurinn í þessu ágæta frumvarpi þar sem lögð er áhersla á að fresta sölu Símans þar til lokið er uppbyggingu grunnnetsins. Ég vil meina að við gerum það aldrei í eitt skipti fyrir öll og hv. þm. síðasti ræðumaður tók undir það. En af því að við gerum það ekki er ljóst að meginatriðið er ekki endilega að undanskilja dreifikerfið við sölu Landssímans heldur að tryggja að ávallt sé gert ráð fyrir því að áfram verði haldið að byggja upp eftir því sem tækninni fleygir fram. Grunnurinn fyrir þá ákvörðun þingflokks framsóknarmanna er að samfara sölunni skuli gengið frá því í samkomulagi stjórnarflokkanna að til þess verði tryggt fjármagn.

Það er ekki arðbært fyrir fjarskiptafyrirtækin að byggja upp grunnnetið í hinum dreifðari byggðum en þarf að vera tryggt að áfram verði haldið að gera það til að tryggja samkeppnisgrundvöllinn til hagsbóta fyrir neytendur. Þingflokkur Framsóknarflokksins ákvað, þegar hann samþykkti að leggja fram frumvarpið um söluna, að forsendan væri að þetta væri tryggt.

Ég minni hv. þm. á að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra tók undir þau sjónarmið í umræðunni á dögunum, þegar mikið gekk á í fjölmiðlum um Landssímann og sölu hans, að það væri sjálfsagt að huga að því, þegar Landssíminn yrði seldur, að tryggja áframhaldandi uppbyggingu. Það er til að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða og einnig öryggi þeirra sem búa á þéttbýlissvæðunum, á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem eru á ferð um landið, öryggi útlendinga sem ferðast. Gæta þarf að fjarskiptakerfi hinna dreifðari byggða þar sem ekki er hagkvæmt fyrir einkafyrirtæki að leggja í kostnað.



[17:29]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Okkur greinir sennilega ekki mikið á um að reyna beri að tryggja að neytendur hér á landi hafi sem jafnasta stöðu við að nýta sér dreifikerfi, sem færir fólk á sama stað með tækninni. Ég er hins vegar engu nær um það hvernig Framsóknarflokkurinn ætlar að tryggja þessi markmið með því að taka til hliðar fjármuni við sölu Símans. Hv. þm. sagði sjálf í andsvari áðan að það væri ekki fyrirsjáanlegt hvernig dreifikerfið verður til framtíðar eða hvernig það mun byggjast upp.

Framsóknarflokkurinn getur alls ekki kortlagt það hvaða fjármuni þarf að leggja til hliðar til að byggja upp dreifikerfi sem dugar fyrir framtíðina. Þess vegna held ég að það væri skynsamlegast, virðulegi forseti, að við yrðum sammála um að dreifikerfið yrði ekki selt, að um það yrði stofnað sérstakt fyrirtæki.

Það tæki vafalaust einhver ár að láta slíkt fyrirtæki vinna þau verk sem við höfum verið að tala um að allir ættu að fá að njóta. Það væri hægt að meta það eftir 4–5 ár hvort menn treysti sér þá til að taka frá fjármuni til að tryggja dreifinguna. Ég átta mig ekki á því hvaða fjármuni þarf að leggja til hliðar til að tryggja framtíðina eins og Framsókn vill.



[17:31]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Það mál sem er til umræðu er vissulega stórt mál og varðar marga. Ljóst er að nútímafjarskipti eru grunnþáttur í búsetu í hinum dreifðu byggðum. Það varðar einnig miklu að nútímafjarskipti eru grunnþáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Það er á grunni þessa sem það er þarft byggðamál sem flutningsmenn hreyfa hér.

Ég vil treysta ríkisstjórninni til að líta til þessara þátta og ég skil orð hv. 6. þm. Reykv. s., Jónínu Bjartmarz á þá leið að þeir vilji gera það. En við vitum að landsbyggðin býr víða ekki við góðan hlut í þessu. Hv. 5. þm. Norðvest., Guðjón A. Kristjánsson, vitnaði í bréf frá þeirri ágætu sveit þar sem ég hef búsetu og þar sem sá mæti maður Jónas frá Hriflu hafði búsetu áður, þar hafa menn efasemdir um þetta og svo er víða um byggðir landsins. Fólk býr við slæm skilyrði í fjarskiptamálum og er búið að búa lengi og það óttast mjög um sinn hag því ef landsbyggðarfólk getur ekki treyst á núverandi eiganda Símans, íslenska ríkið, hverjum á það þá að treysta?



[17:33]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skil mjög vel að menn vilji selja Símann. Ég hef góðan skilning á að áhugi sé á því. Rekstrarhagnaður Símans og dótturfyrirtækja var á síðasta ári 7.381 millj. kr. eða 40%. Þetta er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir. Arðsemi eigin fjár er tæplega 15%, 14,8% í fyrra. Þarna á sér stað gífurleg eignamyndun. Þarna eru verðmæti sem gefa af sér geysilegan arð. Ég skil þess vegna það sjónarmið að til séu aðilar sem vilji selja þetta fyrirtæki á nákvæmlega sama hátt og ég skildi þá fjárfesta sem keyptu búlgarska símann þegar hann var einkavæddur. 60% í honum voru seld nokkrum fjárfestum, þar á meðal Íslendingum, fyrir 25 milljarða. Það þótti mjög góð fjárfesting, mjög arðvænleg fjárfesting fyrir fjárfestana. Þá skil ég mjög vel.

Hina skil ég síður sem eiga að standa vaktina fyrir hönd íslensku þjóðarinnar sem á Símann, sem nýtur þessa arðs, sem nýtur þessarar eignar sinnar. Ég skil að vissu leyti Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans sem vilja í öllu frjálst markaðskerfi. Það er ákveðin pólitísk sýn, pólitísk nálgun. Þeir telja að samfélaginu sé betur borgið með þeim hætti. Þó að menn séu komnir nokkuð langt frá gamla Sjálfstæðisflokknum sem var breiðari að þessu leyti og hugsaði meira á almennum nótum um þjóðarhag, minna um hag fjárfestanna eða létu ekki stjórnast af hagsmunum þeirra og sú var tíðin að Framsókn var á öðru róli og hugsaði samfélagslega. Það er löngu liðinn tími.

Mér fannst athyglisvert að hlusta á talsmann Framsóknarflokksins við umræðuna í dag, hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem blandaði sér í umræðuna sem var hið besta mál. En hann spurði: Er eðlilegt að Síminn í eign þjóðarinnar sé í samkeppni við 20–30 fyrirtæki? Er það eðlilegt? Hann taldi svo ekki vera. En þá held ég áfram og spyr: Er eðlilegt t.d. að halda úti ríkisútvarpi sem er í samkeppni við fjöldann allan af útvarpsstöðvum? Hvar eigum við láta staðar numið? Nú er byrjað að einkavæða ýmsa geira heilbrigðisþjónustunnar og menn spyrja á sömu lund: Er eðlilegt að ríkið standi í samkeppni við einkarekna heilbrigðisþjónustu? Þetta er aðferðafræðin sem er notuð til að brjóta niður samfélagslega þjónustu. Hvar ætlum við að láta staðar numið? Er ekki kominn tími til að við hugsum um þjóðarhag, hvað gagnast þjóðinni best? Við bendum á í greinargerð með frumvarpinu að nýlega hafi Síminn keypt stóran hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur Skjá 1. Var það ekki 25% hlutur? Fulltrúar Símans sátu fyrir svörum í Kastljósi samdægurs eða daginn eftir þá ákvörðun og fulltrúar okkar, fréttamennirnir, spurðu: Hvernig stendur á því að þið fjárfestuð í Skjá 1 en ekki Norðurljósum? Svar forstjóra Símans eða stjórnarformanns var á þá leið að Síminn hefði í sjálfu sér engan áhuga á sjónvarpsrekstri heldur vildi tryggja sér viðskipti. Aðilar sem réðu yfir fjarskiptaneti, gagnaneti. En fréttamönnunum datt ekki í hug að spyrja þess sem mér þótti vera augljóst: Hvers vegna var ekki leitað til Ríkisútvarpsins um samstarf? Þetta er nefnilega orðið bannorð, þjónustufyrirtæki í eigu almennings mega ekki vera til, mega ekki starfa saman.

Mér fannst athyglisverðar yfirlýsingar sem fram komu í viðtali við útvarpsstjóra Markús Örn Antonsson í Fréttablaðinu fyrir skömmu um dreifikerfið, um stafrænt dreifikerfi og jarðnet. Hann vísaði í nefnd sem er starfandi á vegum hæstv. samgönguráðherra. Ég ætla að vitna, með leyfi forseta, í þetta viðtal við Markús Örn Antonsson. Hann segir, með leyfi forseta:

„Við höfum yfir okkur þá meginkröfu að þjóna landsmönnum öllum og til þess að þjóna öllu landinu teljum við að þurfi að byggja upp stafrænt dreifikerfi, jarðnet með sendum út um allt land.“ Síðar segir: „Samgönguráðuneytið hefur haft forgöngu um athuganir á þessum málum og gert grófar áætlanir um það hvernig væri hægt að standa að því. Niðurstaðan var sú að óska eftir samráði útvarps- og sjónvarpsfyrirtækjanna annars vegar og fjarskiptafyrirtækjanna, aðallega Símans, hins vegar, um það hvort ekki væri hægt að ná samstarfi og sameinast um eina stefnu varðandi uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi til alls landsins. Síminn og Norðurljós hafa ekki áhuga á því. Hér hjá RÚV höfum við sagt að við teljum langeðlilegast að sem flestir aðilar taki höndum saman og til verði eitt kerfi sem bjóði upp á einn myndlykil til hagræðis fyrir notendur sem geti þannig náð öllum rásum sem í boði eru.“

Ég vil taka undir þessi orð útvarpsstjóra Markúsar Arnar Antonssonar og þau sjónarmið, það viðhorf sem kemur fram um samstarf og samvinnu sem heyrir nánast sögunni til þegar kemur að orðabókum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Ég ætla að rifja það upp eins og ég gerði síðast þegar ég vitnaði í ummæli fyrrverandi og núverandi forstöðumanna Símans, Póstur og sími hét það á þeim tíma. Fyrrverandi forstjóri var spurður hvaða markmiðum hann vildi helst ná í sínu starfi. Að þjóna landsmönnum sem best, sagði hann. Núverandi forsvarsmenn voru spurðir sömu spurninga og svarið var á þá leið að þeir vildu skila eigandanum góðum og miklum arði. Það er í sjálfu sér ágætt sjónarmið líka. Það væri mjög gott sjónarmið ef arðurinn væri látinn renna til þjóðarinnar. Hún væri látin njóta góðs af þessari eign sinni en ekki þeir aðilar sem bíða eftir því að ríkisstjórnin geri alvöru úr því að selja fyrirtækið, þetta mikilvæga fyrirtæki úr hendi þjóðarinnar. Ég lýsi mikilli undrun á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sumir hverjir eru sæmilega víðsýnir enn þá, og einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins skuli ekki vera tilbúnir að taka undir með okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem leggjum hér til í sáttaskyni að menn fresti sölunni til ársins 2008. Að sjálfsögðu erum við þeirrar skoðunar að ekki eigi að selja Símann en í sáttaskyni, í málamiðlunarskyni viljum við fara þessa leið. (Gripið fram í: Að selja þá?) Nei.



[17:42]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég skil þessa tillögu frá Vinstri grænum, að þeir vilji fresta og nota tímann til að byggja upp dreifikerfið, grunnkerfið, flutningskerfi fjarskipta á Íslandi, er kannski vert vegna síðustu orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar að árétta enn og aftur þau orðaskipti sem ég átti við annan hv. þm. fyrr í dag að við klárum það aldrei í eitt skipti fyrir öll að byggja upp dreifikerfi.

Að öðru leyti vil ég segja um afstöðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann og flokkur hans hefur ákveðna hugmyndafræðilega afstöðu til sölu ríkisfyrirtækja. Hv. þm. og flokkur hans var líka á móti sölu ríkisbankanna og hann talar gjarnan um að við eigum að halda mjólkurkúnni í ríkiseigu, það er ágætissamlíking hjá honum. En hv. þm. lítur líka ávallt fram hjá því eða kýs að gleyma því hvað til að mynda sala ríkisbankanna hefur fært íbúunum, þjóðinni, kjósendunum í hagnað svo ég nefni nýjustu dæmi um lækkun vaxta. Það hefur verið stefna stjórnarflokkanna og í rauninni allra flokka hér á þingi að selja Landssímann, að tryggja rekstrargrundvöll fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði á Íslandi. En aðallega gengur umræðan út á það hvort eigi að selja dreifikerfið líka. En eins og ég gat um fyrr í dag er sala dreifikerfisins ekki forsendan fyrir því að tryggja jafnan aðgang allra. Forsendan fyrir því að tryggja jafnan aðgang er ekki að halda dreifikerfinu í ríkiseigu. Og ég ítreka þá stefnu Framsóknarflokksins að vilja tryggja við söluna nægjanlegt fjármagn til að halda áfram tæknilegri uppbyggingu grunnkerfisins sem er forsendan fyrir samkeppninni á þessum markaði. Það er meginatriðið. Það er byggðasjónarmiðið og það er öryggissjónarmiðið, sem ég nefni á hlaupum vegna þess að hv. þm. líkti þessu við Ríkisútvarpið.



[17:45]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ýmsir höfðu hag af því að bankarnir voru seldir. En ég á eftir að samþykkja að það hafi verið þjóðin sem hafi hagnast á því fyrst og fremst, enda eru þar ekki öll kurl komin til grafar.

Þeir sem högnuðust fyrst og fremst voru þeir sem keyptu bankana samkvæmt helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sennilega framsóknarfyrirtæki, við erum að tala um tugi milljarða króna. Og um þá hagsæld sem þjóðin hefur haft af kerfisbreytingunni, hlutafélagavæðingu og sölu bankanna hef ég ákveðnar efasemdir.

Á síðasta ári dældu bankarnir 300 milljörðum kr. í íslenskt efnahagskerfi. Hvaðan sóttu þeir þessa peninga? Þeir sóttu þá í erlendum lánum. Ég er ansi hræddur um að það eigi eftir að gera upp allt dæmið.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að þröng hugmyndafræði ráði afstöðu okkar, þröng pólitísk stefna. Þetta er praktísk afstaða. Við spyrjum: Hvað kemur þjóðinni best? Hvers vegna í ósköpunum eigum við að láta þessa eign frá okkur sem gefur af sér aðra eins arðsemi? Menn hafa talað um það í umræðunni, ég man ekki hvort það var hæstv. fjármálaráðherra, að það mætti hafa vexti af fjármagninu sem við fengjum fyrir söluna. En það fengist miklu minni arður með því móti en hinu að halda henni í þjóðareign. Það gefur mest í aðra hönd.



[17:47]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Afstaða hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Vinstri grænna er þröng að því leyti að þeir eru eini flokkurinn á þingi sem er andvígur sölu Símans í það heila. Aðrir flokkar hafa ákveðinn fyrirvara við það að selja dreifikerfið líka með þeim rökum sem við höfum rætt fyrr í dag. En hv. þm. kýs líka í umræðu sinni og þegar hann ber þetta saman við sölu ríkisbankanna að gleyma því hvernig sú sala og einkavæðing bankanna hefir leitt til lækkunar vaxta fyrir neytendur, fyrir þjóðina ásamt öðrum málum sem varða Íbúðalánasjóð og ráðstafanir þar.

Hann kýs líka að gleyma því hvernig fjarskiptin og samkeppni á fjarskiptamarkaði hefur orðið til hagsbóta fyrir neytendur í lækkuðum kostnaði við fjarskiptin á síðustu árum. Einnig hefur tækninni fleygt verulega fram.

Ef maður lítur til þess hvar stuðningurinn er á Alþingi er mikill meiri hluti langt út fyrir stjórnarmeirihlutann hlynntur því að selja Landssímann. En áhyggjur manna hafa beinst að því hvernig við ætlum að tryggja áframhaldandi uppbyggingu grunnnetsins við þá sölu til að tryggja að það sé samkeppnisgrundvöllur og að við þjónum hinum dreifðari byggðum og tryggjum öryggi landsmanna og útlendinga á ferð um landið. Ákvörðun Framsóknarflokksins miðaði að því á sínum tíma, að tryggja fjármagn til að tryggja hagsmuni hinna dreifðari byggða og öryggi landsmanna á ferð um landið, þó Síminn væri seldur.



[17:49]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar Framsóknarflokkurinn byrjar að kveða öfugmælavísurnar er sumum skemmt. Þannig hét það á sínum tíma þegar pósthúsum var lokað víða um landið að menn væru að efla og bæta póstsamgöngur og póstkerfið. Hið sama er upp á teningnum nú. Verið er að selja Símann til þess að bæta dreifikerfið og við vitum að formúlan sem á að nota er þessi: Einkavæðum það sem gefur af sér arð, látum skattborgarann um hitt. Nú á að vísu að nota söluhagnaðinn til þess að byggja upp dreifikerfið, en hv. þm. var að minna okkur á annað fyrir stundu, að því starfi lyki aldrei. Það væri í stöðugri þróun. Hins vegar lyki öðru, ráðstöfun þeirra fjármuna sem salan gæfi í aðra hönd. Hv. þm. er því kominn í örlitla mótsögn.

Varðandi hitt, að formbreytingin yfir í hlutafélag hafi verið svo mjög til hagsbóta hef ég miklar efasemdir um. Símakerfið á Íslandi var ódýrasta símakerfið í öllum heiminum, bæði almenni síminn og GSM-síminn, áður en Landssímanum var breytt í hlutafélag. Ég þekki ekki samanburðartölur og væri fróðlegt að skoða þær, en þannig var þetta. Það er staðreynd.

Svo vil ég benda hv. þm. á að fróðlegt væri að menn kynntu sér söguna með hliðsjón af vaxtaþróun í landinu. Hér hafa nefnilega áður verið lágir vextir. Einu sinni voru neikvæðir vextir, ekki er ég að mæla því bót, síður en svo, en svo voru tímabil þar sem vextir voru mun lægri en núna. Ég veit að ekki var búið að einkavæða neina banka á þeim húsnæðislánum sem ég tók upp á 2%. (Forseti hringir.) Þá var slíka vexti að fá í bankakerfinu og ekki búið að einkavæða neina banka.



[17:51]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur í upphafi umræðunnar um þetta gagnmerka mál. Engu að síður sé ég mig knúinn til þess að taka þátt í lokaumræðunni áður en málinu verður vísað til samgöngunefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar. (Gripið fram í.) Að vísu er salan undir fjármálaráðherra, það er rétt.

Við getum tekist á um eitt í þessu máli sem er spurning sem mikið hefur verið fjallað um: Hvað kemur þjóðinni best? Þar greinir okkur á og ekkert að því. Við munum eftir því að einu sinni hét fyrirtæki Viðtækjaverslun ríkisins og lifði ágætu lífi. Það var ekkert útvarp selt á landinu öðruvísi en það færi í gegnum þá stofnun. Við munum eftir fyrirtæki sem hét Bifreiðaeftirlit ríkisins og það mátti enga bifreið skoða af öðrum aðila.

Viðtækjaverslun ríkisins er ekki til lengur sem betur fer og Bifreiðaeftirlit ríkisins er komið í hendur einkaaðila og hefur gengið vel. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar hv. þm. Vinstri grænna spyrja og leggja fyrir okkur andstæðinga í pólitískum þankagangi hvað kemur þjóðinni best. Gæti það gerst að einkafyrirtæki sem nú þegar eru komin á þennan markað næðu meirihlutaviðskiptum í grunnneti og í sambandi við Símann?

Þá hljóta menn að spyrja: Gerðu Vinstri grænir, að því gefnu að þeir hafi náð máli sínu fram, þjóðinni best gagnvart Símanum, sem væri þá kominn í þá stöðu að vera minnsti rekstraraðili hvað áhrærir þjónustu Símans á Íslandi? Nei, Vinstri grænir gerðu ekki þjóðinni best. Og í því umhverfi sem Síminn starfar í mundum við gera þjóðinni best með því að veita Símanum sams konar rekstrarumhverfi og aðrir aðilar starfa í núna, t.d. Og Vodafone og fleiri aðilar. Það er a.m.k. mín skoðun.

Svo má alltaf toga og teygja hvernig halda eigi á málum en það er alveg ljóst að grunnnetið er hið viðkvæma mál í þessu. En þar hefur nú verið rætt um að eðlilegt sé að sá aðili sem keypti Símann sæi um grunnnetið líka, það kæmi til góða. Jafnvel hafa menn rætt um að eðlilegt væri ef fyrirtækið væri selt í heild sinni, að skipta upp rekstrarreikningi þar sem annars vegar væri Síminn og hins vegar grunnnetið. Þetta er allt undir og þarf nokkurrar umræðu við og kemur væntanlega til umfjöllunar í nefndum þingsins þar sem um málið verður fjallað.

En ég ítreka, og þar greinir okkur á, að ég tel að það komi þjóðinni best að selja Símann.



[17:55]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum fylgjandi blönduðu hagkerfi. Við teljum að ekki sé hægt um aldur og ævi að segja hvar línurnar eigi að liggja á milli þess sem á að vera á markaði annars vegar og þess sem á að vera á vegum samfélagsins hins vegar. Fyrr á tíð komu menn á fót bæjarútgerðum t.d. vegna þess að enginn aðili hafði burði til þess að ráðast í slík verkefni. Eins var með mörg önnur fyrirtæki á vegum ríkis og sveitarfélaga.

Hv. þm. nefndi Viðtækjaverslun ríkisins. Það dytti ekki nokkrum manni í hug að hafa slíkt í ríkiseign núna. Hér var rekin Ferðaskrifstofa ríkisins. Ég var fylgjandi því að hún væri seld. Hér var rekin Gutenberg prentsmiðja í eigu ríkisins. Engin andstaða var gegn því að hún væri seld.

En hér voru ríkisbankar. Ástæðan fyrir því að við vorum andvíg því að markaðsvæða og selja bankana var ekki sú að við hefðum þá eindregnu pólitísku skoðun að ríkið ætti að reka banka. Við vildum horfa praktískt á aðstæður og sögðum að við þær aðstæður sem Íslendingar búa við, í okkar litla hagkerfi væri ríkiseign á banka forsenda þess að hér gæti þrifist kröftug samkeppni. Það var ástæðan.

Við lítum því praktískt á hlutina, hvað er rétt hverju sinni, ekki hugmyndafræðilega. Það er í því ljósi sem við skoðum söluna á Símanum. Við teljum að hún gagnist ekki íslenskum heimilum.



[17:57]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Að líta praktískt á hlutina er góðra gjalda vert. Þannig var það líka þegar fyrirrennarar Vinstri grænna, alþýðubandalagsmenn, litu á útvarpsrekstur og héngu í því alveg fram í rauðan dauðann að það væri ríkið eitt sem ætti að hafa einkaleyfi á útvarpsrekstri.

Síðan gerist það að opinberir starfsmenn fara í verkfall og slökkva á Ríkisútvarpinu. Þá hafði verið að velkjast í sölum Alþingis frumvarp til breytinga á lögum um útvarpsrekstur sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti ár eftir ár, þar sem einkaaðilum væri heimilt að reka útvarp. Það var nú aldeilis ekki og fyrirrennarar Vinstri grænna börðust hatramlega gegn því. En allt í einu kom góður liðsauki sem fylgdi málum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar eftir og það lenti í góðri höfn. Það kom þjóðinni til góða að opinberir starfsmenn fóru í verkfall og slökktu á Ríkisútvarpinu, þeim öryggismiðli. Það kom þjóðinni best að þeir slökktu vegna þess að þá var lögum um útvarp breytt.

Við erum sannfærð um það sem stöndum að sölu Símans að það er þjóðinni fyrir bestu.



[17:59]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna kemur hv. félagi minn úr verkalýðshreyfingunni við svolítið veikan blett því ég var einn af þeim sem tók þátt í því að slökkva á útvarpinu á sínum tíma í verkfallsbaráttu opinberra starfsmanna árið 1984.

Það er alveg rétt að nú er breytt umhverfi í fjölmiðlun og enginn að tala um að snúa því til baka þó margir hafi bent á að þegar innihaldið er gaumgæft hafi það ekki allt verið endilega til góðs, en ég ítreka að það er enginn að tala um að snúa því til baka. Hlutirnir nefnilega breytast og við eigum að sjálfsögðu að taka mið af breyttum aðstæðum. Meginatriðið er að taka mið af aðstæðum og reyna að hætta að hugsa þröngt og hugmyndafræðilega og skoða hlutina praktískt. Við bendum á að við erum með geysilega öflugt símafyrirtæki á Íslandi sem gefur okkur mikinn arð, milljarða á ári hverju í skatthirslur ríkisins, sem verður til þess að við getum létt skattbyrðum af skattgreiðendum og ráðið við kostnað sem við ella ekki gerðum, t.d. við uppbyggingu dreifikerfisins. Það eru þessar praktísku aðstæður sem við bendum á.



[18:01]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil sem fyrri flutningsmaður þessa máls þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um málið og þátttöku fulltrúa allra stjórnmálaflokka í henni.

Ég vil fyrst segja í sambandi við það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi með nefndarvísun að mér þótti rétt að leggja það til að málið færi til efnahags- og viðskiptanefndar í ljósi þess að forræði fyrir eignarhaldi á Símanum er nú hjá fjármálaráðherra og þau lög sem þetta frumvarp er til breytinga á eiga þá í rauninni þar heima. En ég tók það einmitt sérstaklega fram að ég óskaði eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd mundi senda málið til umsagnar hjá samgöngunefnd og það finnst mér að sama skapi sjálfsagt.

Ég tel að ég hafi ekki miklu við orðaskipti þeirra hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Guðmundar Hallvarðssonar að bæta hvað varðar samlíkingar sem sá síðarnefndi tók og mér finnast kannski ekki eiga beint erindi inn í þetta, um Viðtækjaverslun ríkisins eða Bifreiðaskoðun ríkisins, sem voru börn síns tíma og þeirra aðstæðna sem voru uppi þegar þessi fyrirbæri urðu til á skömmtunar- og krepputímum og síðan var því fyrirkomulagi viðhaldið. Það er nú gaman að því þegar sjálfstæðismenn eru að hneykslast á þessum gömlu, liðnu tímum og það liggur svona í orðunum án þess að það sé sagt berum orðum að það hafi verið einhverjir skammsýnir og vondir menn sem hafi komið þessu kerfi á og viðhaldið því. En staðreyndin er sú að lengst af þess tíma sem einokunar- og skömmtunarfyrirkomulagið var við lýði á Íslandi var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn. Síðan breyttust tímarnir og menn hafa breytt því fyrirkomulagi og mörgu öðru sem eðlilegt er.

Mér finnst í raun ósambærilegu saman að jafna undirstöðuþjónustu af því tagi sem fjarskipti eru, ekki síst í nútímanum, og vegna þess að þau lúta að svo miklu leyti, a.m.k. enn um sinn, lögmálum náttúrulegrar einokunar vegna þess að undirstöðunetið, grunnnetið sem við tölum hér oft um, er til staðar og verður kjölfestan í þeim flutningum enn um árabil. Um það eru flestir tæknilegir sérfræðingar sammála. Það eru að vísu að koma möguleikar, þráðlaus sambönd og ýmislegt sem getur á afmörkuðum sviðum og í vissum mæli keppt við sjálft grunnnetið en það er meginæðarnar sem þetta blóð streymir um og mun verða svo um alllangan tíma. Þetta þykist ég geta fullyrt af því að ég hef kannað þessi mál dálítið og setið í tveimur starfshópum á vegum Norðurlandaráðs sem hafa einmitt verið að reyna að kortleggja þessa þróun. Þar hafa iðulega komið upp spurningar af þessu tagi: Eru áhyggjur manna af grunnnetinu, ljósleiðurum og koparþráðunum ekki óþarfar? Eru ekki bara handan við hornið hérna gervihnattasambönd og þráðlaus sambönd sem leysa þetta af hólmi? Svar sérfræðinganna er nei. Þetta kemur svona til viðbótar og til hliðar og á afmörkuðum sviðum en leysir ekki í fyrirsjáanlegri framtíð af hólmi sjálfa þjóðvegina, meginæðarnar sem gagnaflutningarnir fara um, sem eru hin afkastamiklu kerfi ljósleiðara, örbylgjusambanda og kopar- eða fíberglaslagna inn í hús. Þetta t.d. staðfestu helstu sérfræðingar Ericsson og Nokia við þann starfshóp sem ég tók í seinna tilvikinu þátt í á vegum Norðurlandaráðs og ég hef ekki hitt aðra færari sérfræðinga til að ráðgast um þetta við. Þess vegna er það mat mitt og niðurstaða að enn um nokkuð langt árabil verði fyrirtæki eins og Síminn í algerri lykilstöðu og við verðum að horfast í augu við það og taka á málinu í samræmi við það.

Það er svo með hið ágæta fyrirtæki Símann, Landssíma Íslands hf., áður Póst og síma, að mjög margt gott er um það fyrirtæki að segja. Ég gæti þess jafnan að halda því til haga að þar var vel að verki staðið og við Íslendingar eigum því mikið að þakka hversu myndarlega og vel var staðið að uppbyggingu og rekstri á vegum þess fyrirtækis í gegnum tíðina. Það var ekki lélegur árangur sem við getum sagt t.d. að hafi blasað við okkur um 1990 eða á tíunda áratug síðustu aldar að við vorum nánast í fremstu röð á öllum sviðum fjarskipta hvað varðaði þjónustu og innleiðingu nýrrar tækni og við bjuggum við einhver hagstæðustu verð sem í boði voru a.m.k. í Evrópu, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur réttilega bent á.

En mér hefur fundist á köflum á síðustu árum að stjórnendur fyrirtækisins væru að verða of uppteknir af því að þeir væru orðnir hlutafélag og þetta væri að færast meira yfir í það að vera spurning um rekstur sem skilaði arði, að vísu enn þá til ríkisins sem eiganda, en áherslurnar á hinar samfélagslegu skyldur og ábyrgð á að um væri að ræða almenningsþjónustufyrirtæki væru víkjandi. Þetta hef ég gagnrýnt Símann fyrir og ég tel mig hafa nokkuð til míns máls í því.

Ég skil viðhorf hinna nýju stjórnenda sem telja að þeir eigi að horfa fyrst og fremst til þess að þarna sé búið að búa til hlutafélag sem sé á leiðinni inn á markaðinn og eigi að einkavæða og þeir eigi að fara að færa rekstur þess yfir í það horf. En það er spurning um pólitík, það er spurning um hvernig menn nálgast hlutina og hvernig menn skilgreina þá.

Tökum þar sem dæmi spurninguna um hvað mikið Síminn leggur á sig til þess að breiða út möguleikana á háhraðatengingum hvað varðar gagnaflutninga. Þar hafa menn búið sér til ákveðnar viðmiðanir, það er rétt, þær eru býsna metnaðarfullar, 90% hafi aðgang að slíkum tengingum í dag. En hv. þm. Birkir Jón Jónsson spurði: Er það nóg? Hvað með hin tíu prósentin?

Síðan koma einkafyrirtæki og þau finna lausnir eins og þráðlaus sambönd í þorpum, sem Síminn hefur talið of lítil til að koma upp ADSL-þjónustu. En þá spyr ég á móti: Gat ekki Síminn gert þetta? Hefði það ekki alveg eins legið við að Síminn notaði aðstöðu sína og tækni og færi þá út í svona lausnir? Það tel ég að væri vel hugsanlegt. Eða að Síminn væri opnari fyrir því að eiga samstarf við einkaaðila um slíkar lausnir? Síminn er áfram í lykilstöðu vegna þess að þó svo að framsækin fyrirtæki eins og fyrirtækið Skerpa á Vestfjörðum, sem allt í einu fer að leysa þessi vandamál Vestfirðinga í þorpum sem hafa verið of lítil fyrir Símann til að hann teldi það svara kostnaði að bjóða þar úrlausn, leysa það á mjög praktískan hátt. En fyrirtækið er áfram háð því að semja við Símann um tengingu inn á þeirra kerfi. Síminn á möstur, hann á hús á stöðunum sem væri praktískt að nota til að koma þessu upp.

Sama má segja um þær lausnir sem fyrirtækið eMax eða Þekking er að bjóða annars staðar í landinu. Ég ber mikla virðingu fyrir og dáist að þeim útsjónarsömu og kláru mönnum sem eru þarna að bjóða þessa þjónustu. En munum eftir því að hún er innan þessa ramma, að þeir verða síðan að semja við Símann um afnot af hans kerfi. Ég held að þarna hefðu menn getað verið framsæknari þó að margt sé vel um það sem menn hafa þarna sagt.

Um GSM-símann, þ.e. aðra kynslóð farsíma sem enn er ekki búið að byggja upp á Íslandi og er enn allt of götótt, þar er einfaldlega spurning um hvað ræður. Það viðhorf að tryggja öllum landsmönnum og öllum byggðum þessa þjónustu eða að horfa bara til þess hvar er notkunin nákvæmlega nógu mikil til þess að viðkomandi sendir skil í arði. Þarna er skurðpunkturinn.

Þá erum við komin að kjarna málsins. Hvort ræður áherslunum í uppbyggingunni og fjárfestingunum inn í framtíðina, spurningin um þjónustu, um jafnræði eða arð? Þetta er nákvæmlega svona. Sendir sem kostar 2–3 milljónir fyrir GSM og er hægt að smella upp jafnvel í húsnæði sem Síminn á og rekur til að hafa örbylgjusambönd í, þar sem rafmagn er til staðar, þar sem vegur liggur upp á fjallið, er ekki keyptur og settur niður af því að of fáir íbúar eru á bak við. Þó að það sé öryggissjónarmið, þarna séu fiskimið, það séu þarna fjallvegir og þarna sé ferðaþjónusta sem er að verða úr leik af því að hún hefur ekki GSM-sambönd, þá er svarið því miður þetta: Nei, það er of lítil notkun á þessu svæði til að það svari kostnaði að kaupa og setja niður sendi.

Þarna erum við komin að þessum skurðpunkti. Síðan er það það sem fram undan er. Við erum hér með í höndunum frumvarp sem auðvitað hefði verið gott að ræða í tengslum við þetta mál, frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Út á hvað gengur það? Þar er verið að burðast við að skilgreina forsendur til þess að úthluta mönnum leyfum til að byggja upp þá starfsemi. Og hver er viðmiðunin? Að 60% íbúa á viðkomandi svæðum geti notið þjónustunnar. Nú er skaði að hafa ekki hv. þm. Birki Jón Jónsson í salnum og spyrja hann: Ef 10% eru of mikið sem standa út af, hvað þá með 40%?

En þetta verður þannig, ef það frumvarp nær fram, í höndum einkaaðila sem eiga að sjá um uppbyggingu þriðju kynslóðar farsíma, sem væntanlega verður sú sem ryður hinum fyrri úr vegi þegar þar að kemur, að þá gætu allt að 40% íbúa á viðkomandi svæðum orðið utan þjónustu en samt teldist aðilinn hafa fullnægt þjónustukröfum sínum.

Þetta er þá framtíðin sem er verið að draga upp fyrir okkur eða hvað ef enginn aðili er með aðrar skyldur og aðra stöðu en þá sem þessir einkaaðilar hafa samkvæmt skilgreiningum um að það nægi þeim að dekka tiltekið lágmarkshlutfall íbúa? Að vísu ber að taka fram að hér er ekki bara verið að tala um landið sem eitt heldur eftir svæðum og það er til bóta. En samt er það þannig, ef við tökum t.d. Norður- og Austurland eða Norðausturkjördæmið, að í grófum dráttum ná menn þeim viðmiðunum með því að bjóða upp á þjónustuna á Akureyri og kannski bæta svo Húsavík, Dalvíkurbyggð og Héraði við.

Með öðrum orðum, ef þetta verður niðurstaðan dettur allt strjálbýlið á Íslandi eins og það leggur sig niður um netið, möskvarnir eru svo gisnir. Er það eitthvað sem við getum sætt okkur við? Ég segi nei. Ég skrifa ekki upp á það. Ég mun berjast til hinstu stundar fyrir því að við viðhöldum því hugarfari í þessum efnum að ein þjóð búi í landinu og að við ætlum henni allri, eftir því sem tæknin gerir það mögulegt, að sitja við sama borð. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að við fáum ekki hérna upp og aftan að okkur læðist sú stéttaskipting sem margir telja núna að geti orðið sú alvarlegasta á þessari nýbyrjuðu öld, þ.e. spurningin um hverjir hafa aðgang að þessum undirstöðuþáttum upplýsingasamfélagsins og hverjir ekki. Það snýst um tækni, um að búnaðurinn sé til staðar, en það snýst líka um verð. Það er líka hægt að útiloka menn á grundvelli þess að verðleggja þjónustuna svo mismunandi að þeir sem standa þar lakast að vígi séu ekki samkeppnisfærir. Það gildir sérstaklega um atvinnulífið. Það er ekki bara nóg að tæknilega séu möguleikarnir til staðar. Verðlagningunni verður að vera þannig háttað að menn standi nokkurn veginn jafnfætis í þeim efnum einnig og svo auðvitað hvað varðar í sjálfu sér þekkingu og aðgang að því að nota umrædda tækni.

Einkavæðing Símans er og hefur verið frá byrjun eitt mesta reginklúður sem hæstv. ríkisstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna hefur farið í í þeim efnum og er þá mikið sagt. Þarna er því miður á ferðinni aðferðafræðin að skjóta fyrst og spyrja svo. Menn gefa sér fyrst þá niðurstöðu að einkavæða Símann, fara svo að velta því fyrir sér hvaða afleiðingar það hefur og hvernig stoppað verði í götin. Það er einhver mesta fjallabaksleið í þessum efnum sem ég hef nokkurn tíma heyrt talað um, að selja Símann fyrst en fara svo að nota einhvern hluta af söluandvirðinu til að stoppa svona í mestu götin eins og þau eru í augnablikinu og láta síðan framtíðina í þessum efnum bara ráðast.

Sú hugmynd að undanskilja grunnnetið og reka það í sjálfstæðu fyrirtæki er vissulega freistandi og hún hefur mikla kosti en hún hefur líka galla rétt eins og fyrirkomulagið í raforkukerfinu hefur líka mikla galla. Menn eru að búa til lagskipt kerfi með eftirlitskostnaði og ýmsum slíkum þáttum. Það er miklu einfaldara að slá því á frest, helst hætta alveg við það, að selja Símann og beita honum og nota afl hans til að tryggja þetta jafnræði, halda uppbyggingunni áfram, halda okkur áfram í fremstu röð hvað varðar tækni og möguleika á þessu sviði, og það er hægt án þess að útiloka samkeppni. Þvert á móti, það greiðir götu samkeppninnar á grundvelli reikisamninganna og þess aðgangs sem öðrum aðilum er tryggður að netinu. Þá er það í allra þágu að netið dekki allt landið og farsímafyrirtæki, sem vilja keppa t.d. við Símann eða vera í samkeppni við hann um gagnaflutninga og annað slíkt, hafi aðgang að öllum landsmönnum jafnframt. Það er vænlegasta leiðin.

Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum menn þurfa að hverfa frá því sem í raun og veru hefur gengið ágætlega í þessum efnum. Það var minnt á þrengsli og þrönga hugmyndafræði og gamaldags viðhorf og guð má vita hvað við Vinstri grænir höfum fengið á okkur frá ýmsum, ákaflega málefnalega eða hitt þó heldur, af því að við flytjum þetta mál. Ég held hinu gagnstæða fram. Þrengslin eru hin blinda trú á nýfrjálshyggjuna að halda að markaðslausnir leysi allan vanda og líka á þessum sviðum. Geta menn ekki lært eitthvað af mestu óförum einkavæðingarinnar þar sem menn hafa lent úti í því feni að einkavæða t.d. veitur og þjónustustarfsemi sem lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Rafmagnsveitur, vatnsveitur, járnbrautir og annað því um líkt. Hvernig er útkoman á því dæmi? Hún er skelfileg og menn eru að fara til baka og leysa til sín slík mannvirki af því að það hefur gefist illa að fara þessa markaðsleið á þeim sviðum. En það þýðir ekki að menn geti ekki áfram notað það fyrirkomulag að margir sjái um að selja útvarpstæki. Þessu tvennu mega menn ekki blanda saman. Horfum bara raunsætt á hvað gagnast okkur best í þessum efnum og ég fullyrði: Þeim mun strjálbýlli og fámennari sem lönd eru, þeim mun betur hefur það gefist að líta á þetta sem almannaþjónustu og byggja hana þannig upp. Það hefur skilað jafnstrjálbýlum og fámennum löndum og Íslandi, Grænlandi og Færeyjum fyrirtaksniðurstöðum í þessum efnum og er þá einhver ástæða til að hverfa frá því? Ég held ekki.



[18:16]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom víða við í sinni ágætu ræðu. Ég held að við deilum því meginmarkmiði að það þurfi að tryggja uppbyggingu grunnnetsins, hvað sem verður um Landssímann. Hv. þm. sagði, og það með réttu, að fyrirkomulagið sem við búum við er þannig að þeir sem vilja standa í fjarskiptaþjónustu eiga aðgang að grunnnetinu sem núna er rekið af Landssímanum. Landssíminn getur ekki sett öðrum sem selja fjarskiptaþjónustu neinar aðgangshindranir. Til þess er Póst- og fjarskiptastofnun sem stjórnar því. En ég skil einhvern veginn ekki enn, ég hélt að kominn væri ákveðinn skilningur milli okkar sem höfum verið í þessari umræðu, hvert Vinstri grænir eru að fara með þessu þingmáli af því að annars vegar heyrist mér á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ætlunin sé að fresta sölu Landssímans þar til búið er að ljúka uppbyggingu grunnnetsins sem hann telur að verði í kringum 2008 en í hinu orðinu talar hann fyrir því að það eigi ekki að selja Landssímann í það heila vegna þess að það sé hluti af einhverri grunnþjónustu sem allir landsmenn þurfa að njóta.

Svo skil ég heldur ekki, herra forseti, þegar hv. þingmaður rekur það að Landssíminn láti sig litlu skipta og vilji ekki leggja í kostnað við að byggja upp þjónustu í minni þorpum heldur séu ákveðin smærri fyrirtæki sem ráðist í að þjónusta þorpsbúa en síðan segir hv. þm. í hinu orðinu að þessi sömu smáu fyrirtæki séu að kaupa sér aðgang að grunnkerfi Landssímans. Ég vona að þingmaðurinn geti útskýrt aðeins betur hvað hann er að segja í svari við andsvari mínu. Eitthvað var það eitt í viðbót sem ég skildi ekki fullkomlega en ég sé að ég hef ekki tíma til að koma því að.



[18:18]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta frumvarp sé alveg skýrt. Þetta er einföld breyting á gildandi lögum þar sem er heimild til staðar fyrir ríkið að selja allan eignarhlut sinn í Símanum. Við leggjum til að sú heimild verði tekin úr sambandi og öllum áformum um slíka sölu verði frestað a.m.k. til ársloka 2008. Þá verði tekin ákvörðun og það verði í höndum þess meiri hluta og þess Alþingis sem þá situr, vonandi gæfulega saman sett hvað varðar meiri hluta og minni hluta, að ráða um framhaldið. Það gæti hugsanlega þýtt áframhaldandi óbreytt eignarhald á þessu þjóðarfyrirtæki og það vildum við gjarnan sjá fyrir okkur, að menn veldu þá leið að fara að losa um eignarhald ríkisins í einhverjum áföngum. Það yrði t.d. norska leiðin í þessum efnum og ég hef iðulega spurt hvers vegna í ósköpunum menn skoði hana ekki hér. Hér á að gera þetta á einu bretti, henda fyrirtækjunum út á markaðinn í einu lagi og selja jafnvel einum aðila, þess vegna útlendum. Og það jafnvel þótt umræður verði uppi í þjóðfélaginu um að kannski verði þetta fyrirtæki okkar síðan sameinað búlgarska símanum og notað sem stökkpallur til útrása í símamálum í Austur-Evrópu. Þetta virðist ekki valda mönnum áhyggjum.

Ég held að það sé líka alveg skýrt eða vonandi verður það alveg skýrt ef menn leggja betur eyrun við að við erum ekki bara að tala um ástandið eins og það er í dag. Ég hef lagt á það áherslu allan tímann og sérstaklega í framsöguræðu minni. Það er ekki síður spurningin um þróunina inn í framtíðina sem við erum að velta fyrir okkur. Verði grunnnetið einkavætt þá á einn af samkeppnisaðilunum á þessum markaði í einkaeigu allt undirstöðufjarskiptakerfið í landinu. Hann á ljósleiðarana, örbylgjusamböndin, hann á koparlagnirnar inn í húsin, hann á möstur, hús og tengivirki, hann á jarðstöðvarnar fyrir samböndin til útlanda og hann á eignarhlut Íslendinga í sæstrengjum. Þá fara viðskiptalegar ákvarðanir þess fyrirtækis að ráða öllu í framhaldi um uppbygginguna og það verða samkeppnishagsmunir þess fyrirtækis sem ráða en ekki þjónustuskyldurnar við íbúa í strjálum byggðum. Það er þetta sem við höfum verið að reyna að koma inn í hausinn á mönnum en gengur greinilega misjafnlega vel.



[18:21]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. um það hvað skeður ef við einkavæðum Landssímann þá gat ég ekki heyrt annað en fyrirvarar hv. þm. væru fyrst og fremst í því að selja grunnnetið, selja dreifikerfið með vegna þess að það mundi skapa tiltekna stöðu sem tryggði í rauninni að ekki yrði ráðist í frekari uppbyggingu grunnnetsins og þá stæðu hinar dreifðari byggðir út af borðinu. Ég gat ekki skilið síðustu orð hv. þm., og lagði ég vel við hlustirnar, öðruvísi en svo að rökin væru fyrst og fremst þau að halda grunnnetinu í ríkiseign.

Eins og við erum líka sammála um þá erum við með löggjöf og erum með Póst- og fjarskiptastofnun sem tryggir jafnan aðgang allra. Ég held að áhyggjuefnið sem við ættum að hafa og ættum kannski að deila sé það hvernig við getum tryggt áframhaldandi uppbyggingu grunnnetsins þrátt fyrir söluna þannig að við tryggjum jafnræði allra byggða landsins.

Rétt aðeins í lokin, herra forseti, langar mig til að nefna eitt sjónarmið sem ég held að hafi líka komið fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er ákveðið áhyggjuefni að við séum ekki að leita þjóðhagslegrar hagkvæmni við uppbyggingu dreifikerfisins, t.d. uppbyggingu Línu.Nets í Reykjavík, að menn séu ekki alls staðar að leggja einhvers konar dreifikerfi, mig minnir í einhverjum uppsveitum Borgarfjarðar, af því að mönnum finnst uppbyggingin ekki ganga nógu hratt hjá Landssímanum við að tryggja öllum háhraðatenginguna sem óhjákvæmilega er forsenda þess að menn sitji við sama borð gagnvart kostnaði. Og ég vildi gjarnan sjá einhverja stefnu sem samgönguráðherrann mundi vinna að og einhverja sátt um það að við værum þó að byggja upp eitt dreifikerfi en ekki mörg grunndreifikerfi sem menn ættu svo allir jafnan aðgang að á sama kostnaði.



[18:23]
Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt. Eitt af því sem menn hafa rætt í þessu sambandi og skiptir verulegu máli er offjárfesting eða tvíverknaður eða þríverknaður eða hvað við köllum það. Menn hafa stundum líkt grunnneti fjarskiptanna við vegakerfið og það er ekki galin líking og menn sjá þá best hversu gáfulegt væri að einkaaðilar færu að leggja vegi við hliðina á þjóðvegunum. Það væri hvorki mjög hagkvæmt né umhverfisvænt ef margir einkaaðilar færu að leggja hver sinn veginn.

Út af fyrir sig er það alveg rétt að á grundvelli fjarskiptalaga er mönnum tryggður aðgangur að fjarskiptanetinu eins og það er á hverjum tíma. Nú verður það einkavætt og til verður einkafyrirtæki hvort sem það er með annan fótinn í útlöndum eða ekki og það er svo í samkeppni við aðra aðila innan lands. Það fer þá auðvitað að horfa á stöðu sína í samkeppnisljósi og fer að ráðstafa fjármunum sínum í fjárfestingar og uppbyggingu sem það telur að styrki mest samkeppnisstöðu þess. Hvar eru mikilvægustu markaðirnir? Þeir eru í þéttbýlinu. Þetta er saga sem við þekkjum annars staðar frá og hefur skapað geysileg vandamál. Ég hef verið að reyna að rifja upp fyrir mönnum og minna þá á reynsluna t.d. frá Nýja-Sjálandi. Svíar hafa af þessu nokkra reynslu. Þeir mega þó eiga það að þeir hafa mótað opinbera stefnu um að reyna að tengja sem flesta við upplýsingasamfélagið og hvað hafa þeir gert? Þeir hafa einmitt reynt að setja opinbera fjármuni í útboð til þess að útbreiða netið. En það hefur ekki gefið mjög góða raun vegna þess að þeir eru komnir inn í það umhverfi sem stjórnarliðar ætla að fara að búa til. Á sama tíma hafa þau lönd sem áfram hafa haldið sínum opinberu símfyrirtækjum farið fram úr. Ísland og Færeyjar eru miklu betur sett í dag en hin Norðurlöndin. Færeyingar eru komnir lengst allra Norðurlanda í að útbreiða t.d. stafrænt sjónvarp í sínu landi í gegnum sitt opinbera símafyrirtæki.