131. löggjafarþing — 9. fundur
 14. október 2004.
Tekjuskattur og eignarskattur, 1. umræða.
frv. ÖJ o.fl., 7. mál (hlutfall fjármagnstekjuskatts). — Þskj. 7.

[10:39]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Síðar í dag fer fram umræða á þinginu um málefni geðsjúkra og þar verða væntanlega ræddar hugmyndir um hvernig eigi að bæta stöðu þeirra í heilbrigðiskerfinu. Það kostar peninga. Í vikunni ræddum við málefni heyrnarlausra og hvernig hægt væri að bæta aðstöðu þeirra með túlkaþjónustu. Það kostar peninga.

Mér finnst stundum koma fram nokkuð mótsagnakennd afstaða manna þegar skattamálin eru annars vegar og velferðarmálin hins vegar. Menn vilja margir draga úr tekjum ríkisins, lækka skatta en jafnframt stórbæta alla þjónustu sem kostar mikla peninga. Í þessu er fólgin mikil mótsögn. Ég virði að sönnu það sjónarmið sem sumir tefla fram í slíkri umræðu að lækkun skatta geti þegar allt kemur til alls orðið til þess að auka skatttekjur hins opinbera, skattheimtan verði betri. Þetta er sjónarmið sem t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oft teflt fram. En þegar áform stjórnmálaflokkanna voru kynnt fyrir síðustu kosningar var beinlínis um það rætt af hálfu held ég allra flokka nema Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að draga bæri úr skattheimtu ríkisins. Menn töluðu þar um jafnvel tugi milljarða sem menn ætluðu að lækka skattheimtu ríkisins. Þetta eru sömu aðilar og lofa síðan miklum úrbótum og aukinni þjónustu sem kostar peninga.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum reynt að vera sjálfum okkur samkvæm í þessu efni vegna þess að við viljum stórbæta velferðarþjónustuna og höfum þess vegna verið með miklar efasemdir um að draga úr skattheimtu ríkisins. Við viljum alls ekki fara þá leið.

Nú er það vissulega svo að hægt er að forgangsraða á annan hátt en gert er hjá ríkinu. Hægt er að nota skattféð á annan hátt en gert er. Það er t.d. hægt að stórbæta stöðu geðveikra með því að hætta við að verja fjórðungi úr milljarði til að reisa sendiherrabústað í Berlín, svo dæmi sé tekið, eða verja 900 milljónum kr. í sendiráðsbyggingu í Japan. Vissulega er hægt að forgangsraða á annan hátt.

En það er líka hægt að gera annað. Hægt er að forgangsraða við sjálfa skattheimtuna. Sú þróun hefur verið mjög áberandi á undanförnum hálfum öðrum áratug í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokki og síðan með Framsóknarflokki, hver þessi forgangsröð er. Skattbyrðum hefur verið létt af efnamönnum og fyrirtækjum sérstaklega en skattheimta aukist á þeim sem minnstar hafa tekjurnar og þar vísa ég til þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróun.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum fram tillögur um breytta forgangsröðun í skattheimtu. Nú er það svo að skattar eru tvennt í senn: Þeir afla hinu opinbera ríki og sveitarfélögum tekna en þeir eru líka jöfnunartæki, þeir jafna tekjurnar. Það sem við leggjum til er að fjármagnstekjuskatturinn sem núna er 10% verði hækkaður í 18%. Við leggjum þó til, og það skiptir miklu máli, að komið verði á sérstökum skattleysismörkum varðandi fjármagnstekjurnar og þar horfum við á 120 þús. kr. á ári í fjármagnstekjur, að þær verði ekki skattlagðar. Ég ætla að fara yfir þessa hugsun og fyrst líta á stærðargráðurnar.

Í frumvarpi til fjárlaga árið 2004 var skattur á fjármagnstekjur áætlaður á rekstrargrunni 5.600 millj. kr. Niðurstaðan varð talsvert hærri eða rúmir 7 milljarðar. Samkvæmt þessu frumvarpi mundu tekjur af fjármagnstekjuskatti aukast talsvert og má ætla að þær yrðu rúmir 10 milljarðar kr. eða sem svarar aukningu upp á rúmlega 3 milljarða, við mundum afla hinu opinbera 3 milljarða. Sem áður segir leggjum við til að skattleysismörk verði 120 þús. kr. á ári hjá einstaklingum. Við einskorðum þessi skattleysismörk við einstaklinga.

Í ljós kemur að við þetta má ætla að 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt verði undanþegin skattinum. Þótt hlutfallið sé hátt að þessu leyti er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem yfirleitt hefur megintekjur sínar af launavinnu. Við erum með öðrum orðum fyrst og fremst að skattleggja hátekjufólkið, fólk sem hefur miklar tekjur af fjármagni. Við erum að hlífa smásparandanum.

Þetta eru svolítið sláandi tölur, að það sé þetta hátt hlutfall sem við erum að létta þarna skattbyrðum af. Við erum að undanþiggja mjög stóran hóp fjármagnstekjuskatti. En við erum að sönnu að auka skattheimtuna á þeim sem hafa miklar tekjur af fjármagni.

Á undaförnum árum hefur þeim einstaklingum fjölgað hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir. Vinnandi fólk greiðir af launum sínum rúm 38,5% af samanlögðum tekjuskatti og útsvari og allt að 45% að viðbættum hátekjuskatti.

Tekjur þeirra auðugustu í landinu, þ.e. þeirra sem eiga fjármagnið og þeirra sem byggja hluta tekna sinna á hlutabréfakaupum eða kaupréttarsamningum, eru aftur á móti mestmegnis fjármagnstekjur og af þeim greiða þeir eins og fyrr segir aðeins 10% skatt.

Við viljum að brugðist verði við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa. Þá mun sú lagabreyting sem hér er lögð til afla ríkissjóði aukinna tekna, sem áður segir, til að standa straum af nauðsynlegri velferðarþjónustu.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í fyrirkomulag í nokkrum ríkjum. Við tökum sem dæmi Bandaríkin, Bretland, Finnland, Írland, Danmörku og Svíþjóð. Í ljós kemur þegar þetta er skoðað, þegar fjármagnstekjuskattur er skoðaður í öðrum ríkjum er hann víðast hvar miklu hærri en hér. Það er of mikil einföldun að vísa þar í einhverjar ákveðnar prósentur vegna þess að iðulega er flókið samspil á milli skattleysismarka og síðan getur verið um það að ræða að prósentan sé háð því hve miklar tekjurnar eru. Ég ætla aðeins að stikla á þeim upplýsingum sem hér eru reiddar fram.

Í Bandaríkjunum er notað stighækkandi skatthlutfall sem ræðst af tekjum og félagslegri stöðu fólks, allt frá 10% og upp í 38,6%. Í Bretlandi eru fjármagnstekjur af sparifé með 20% skatti í lægri flokknum en 40% í hæstu flokkunum. Í Danmörku eru fjármagnstekjur skattlagðar með öðrum tekjum, innheimtur er 28% skattur af arðgreiðslum upp að 41 þús. kr. en 43% af hærri upphæðum. Á Írlandi bera fjármagnstekjur yfirleitt flatan 20% skatt en í undantekningartilfellum er skattprósentan 40%. Í Kanada eru fjármagnstekjur yfirleitt skattlagðar með lægra skatthlutfalli þar sem aðeins þarf að greiða skatt af helmingi hreinna fjármagnstekna. Í Noregi eru fjármagnstekjur skattlagðar með almennum tekjum, hreinum tekjum, og þar er skattlagningin að hámarki 28%. Í Svíþjóð er flatur skattur, fjármagnstekjur í Svíþjóð bera 30% flatan skatt.

Ég stikla aðeins á þessum upplýsingum en þær eru skilmerkilega fram settar í greinargerð með frumvarpinu. En það sem er áhugaverðast er að víðast hvar eru fjármagnstekjur miklu hærri en þær eru hér á landi og fellur þá sú röksemd sem iðulega hefur verið teflt fram gegn hækkun á fjármagnstekjuskattinum að menn fari einfaldlega til annarra landa með peningana ef fjármagnsskatturinn yrði hækkaður hér. Ja, hvert ættu menn að fara? spyr ég.

Við vitum hvert menn fara, hvert úrræðið er. Það er í skattaparadísir þar sem peningarnir eru þvegnir og faldir. Það er nokkuð sem OECD hefur reynt að bregðast við með því að setja samræmdar reglur. Evrópusambandið hefur einnig reynt að taka á þessu máli. Íslendingar fengu ábendingu um það fyrir fáeinum árum að samstarfsverkefni sem viðskiptaráðuneytið og Verslunarráðið unnu að fyrir tugi milljóna króna af skattfé kynni að stangast á við þær reglur eða þá viðleitni, ganga gegn þeirri viðleitni sem OECD hafði í frammi til að sporna gegn neikvæðri skattasamkeppni að þessu leyti.

En við vitum að taka þarf á annan hátt en með skattlagningunni eða skattprósentunni á peningaþvætti og þeim flótta inn í skattaparadísirnar á Ermarsundinu og í Karíbahafinu, í Lúxemborg og víðar. Við eigum ekki að láta það stjórna afstöðu okkar eða skattapólitík. Við erum með öðrum orðum með miklu lægra skatthlutfall en almennt gerist.

Í samfélaginu er mjög sterk krafa um að breyta skattlagningu á fjármagnstekjum. Það er gagnrýnt þegar skattskráin liggur frammi, þá er það sláandi hvernig þeir sem hafa mestar tekjurnar í þjóðfélaginu eru í raun undanþegnir skattlagningu, þeir búa við miklu betri kjör en gerist hjá almennu launafólki. Þeir borga einvörðungu 10% af fjármagnstekjum sínum í skatt en vinnandi fólk sem áður segir 38,5%.

Við leggjum til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins. Við stöndum öll að þessu, allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er stefna okkar flokks og tilraun til að byggja betur undir velferðarþjónustuna á Íslandi.



[10:55]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Um margt voru þetta fróðlegar upplýsingar sem hv. þm. færði hér fram. Tilgangur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með því að leggja fram frumvarpið og fá hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 18% er að skapa ríkinu auknar tekjur.

Mér kom í fyrsta lagi á óvart að þessi töluverða hækkun skyldi að mati hv. þm. einungis skila 3 milljörðum kr. í ríkissjóð og langar til að spyrja hann hvort ég hefði rétt eftir tekið.

Og einnig: Eru það 3 milljarðar sem eru eftir þegar búið er að taka af þessu svigrúmi það sem þarf til þess að standa straum af skattfrelsismörkunum hinum nýju sem á að leggja á persónulegan sparnað?

Í þriðja lagi: Ef þarna er um að ræða töluverðan sparnað upp á einhverja milljarða, er þá hv. þm. alveg sannfærður um að það sé kannski rétt að verja því svigrúmi til að búa til skattfrelsi fyrir þá að sönnu fjölmörgu einstaklinga? Ég velti því fyrir mér hvort þar sé um nauð að ræða í þeirra hópi. Þetta eru ákaflega lágar upphæðir yfirleitt, eins og sést á fjöldanum sem greiðir þetta. Og hugsanlega, ef svigrúm skapast vegna slíkra skattbreytinga, mætti verja að nota það með öðrum hætti til annarra brýnni þarfa?



[10:56]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tölur sem við nefnum eru niðurstöður af athugunum sem við höfum gert og í samráði við skattyfirvöld, við höfum borið þetta undir þá sem sýsla með þau efni hér. Þessir 3 milljarðar eru nettóávinningurinn af slíkum skattkerfisbreytingum.

Það er alveg rétt að ræða má hvort og þá hvernig eigi að haga skattleysismörkum á fjármagnstekjuskatti, en það sem fyrir okkur vakir er að hlífa smásparandanum, hinum almenna launamanni, fullorðnu fólki sem hefur lagt peninga fyrir. Það varð niðurstaða okkar að hlífa hinum almenna sparanda.

Reyndar fannst mér það sláandi að við 120 þús. kr. skattleysismörk á ári undanþiggjum við 90% þeirra sem nú greiða skattinn, við undanþiggjum þá skattlagningunni. Þetta eru mjög miklar tölur.

En þetta segir okkur annað. Það segir okkur hve miklar upphæðir er um að ræða þegar hátekjufólkið er annars vegar, hve margir hafa mikinn arð af peningum sínum og fjármagni.

En þetta varð sem sagt niðurstaða okkar, að hafa skattleysismörk á fjármagn 120 þús. kr. á ári en afla ríkissjóði eða hinu opinbera með þessum hætti 3 milljarða kr.



[10:58]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst fúslega á að það er ákveðin innri lógík sem er í því að ef á annað borð er verið að hækka fjármagnstekjuskatt þá sé um leið varið töluverðum hluta af svigrúminu sem hann skapar til þess að búa til skattfrelsi fyrir þá sem eru ákaflega litlir greiðendur, einstaklingar sem flestir greiða af tiltölulega smáum innstæðum á bókum.

Þetta hefur verið rætt töluvert í hópi Samfylkingarinnar. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur skoðað þetta, reyndar árum saman, og verið með þessar sömu vangaveltur. Ég tel hins vegar ekki algjörlega einboðið, ef menn fara þessa leið, að því svigrúmi verði varið með þessum hætti, ég er ekki alveg viss um að það sé endilega rétt. Ég sagði að ákveðin lógík væri í því og ég fellst fúslega á það. Á mínum pólitíska ferli hef ég orðið var við margvíslegan þrýsting en það hefur aldrei neinn komið og sagt: Þetta er verulega ranglátt og þarna er mikið ranglæti sem leiðir með einhverjum hætti til skorts eða neyðar.

Auðvitað er þetta má segja pólitískt smekksatriði. Ég ætla ekki að fella neina dóma yfir þessu en segi hins vegar að svona mál þurfa menn að skoða ákaflega vel. Á sínum tíma var sammæli um slík mörk í þessari skattlagningu eftir miklar deilur, m.a. til að koma í veg fyrir að hér skapaðist skattalegur þrýstingur á fyrirtæki til að hverfa burt og á menn til að koma fjármunum sínum burt. Nú upplýsir hv. þm. það að miðað við stöðuna í samkeppnislöndum ætti hækkun jafnvel upp í þetta háa mark ekki að leiða til mikils þrýstings. Þannig hef ég skilið það samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. þm. lagði fram. Það þykir mér líka fróðlegt að hlusta á.



[11:01]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. og formanni Samfylkingarinnar fyrir hve vel hann tekur í þær meginhugmyndir sem við kynnum hér til breytinga á skattalögum.

Það er alveg rétt sem hann segir um það meginatriði að sú röksemd sem iðulega hefur verið teflt fram gegn hækkun á fjármagnstekjuskatti um að hætt sé við því að fjármagnið fari annað, hún stenst ekki.



[11:01]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er yfirleitt tilbúinn til þess að ræða skatthlutföll og breytingar á þeim í samskiptum við hv. 9. þm. Reykv. s., þó ég mundi að jafnaði fremur leggja til lækkun á hlutföllunum en hækkun eins og hann gerði hér í framsöguræðu sinni.

Mér fannst hins vegar rétt að það kæmi fram í þessari umræðu að þegar fjármagnstekjuskatti var komið á 1996, þá var allvíðtæk samstaða um að velja þá leið að hafa skatthlutfallið lágt en skattstofninn breiðan og undanþágur fáar. Það var ákveðin leið sem var valin. Vissulega hefði verið hægt að fara aðrar leiðir og slíkt var skoðað, en niðurstaðan var sú að betra væri að hafa skattstofninn breiðan og hlutfallið lágt, til þess að komast hjá ákveðnum vanköntum sem geta fylgt skattlagningu af þessu tagi, t.d. flækjum í kerfinu sem gera það að verkum að aðilar fara að sjá sér hag í því að spila á það með ýmsum hætti, nýta sér undanþáguheimildir, fyrir utan að flókið kerfi er jafnan erfiðara í framkvæmd.

Það má kannski líka benda á að víða þar sem hlutfallið er hærra, og hv. þm. vitnaði til þess í framsöguræðu sinni, þá eru undanþáguheimildir líka miklu fleiri, þannig að eins og hann réttilega nefndi er samanburður á prósentutölum ekki einhlítur í þessu sambandi.

Það er líka rétt athugað að sú leið var valin að skattleggja allar vaxtatekjur hér á landi með þessum hætti, ekki bara raunvextina, heldur líka verðbætur sem aðilar eru að fá ofan á fjármagnstekjur sínar. Það er atriði sem þyrfti auðvitað að skoða í þessu sambandi.

Varðandi tekjuaukann þá leyfi ég mér að efast um að tekjuaukinn yrði sá sem hv. þm. (Forseti hringir.) benti á, en kem kannski að því í síðara andsvari.



[11:03]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það var allbreið samstaða um meginhugsunina að baki skattlagningar á fjármagn. Menn voru almennt á því að það ætti að skattleggja grunnvextina, hinar raunverulegu tekjur af fjármagninu. Hins vegar voru margir á því og ég var t.d. í þeim hópi sem vildu hafa þessa skattlagningu mun hærri en niðurstaðan varð. Mér finnst eðlilegt að stefna að því að skattlagning á fjármagn, á tekjur af fjármagni, verði sambærileg við það sem tíðkast með launin, að við reynum að samræma eða stefna að aukinni samræmingu í þessa átt.

Það sem hefur breyst frá árinu 1996 er að fjölgað hefur í þeim hópi sem hefur gríðarlegar tekjur af fjármagni. Það er aldeilis fráleitt að undanskilja þetta fólk frá því að greiða til samfélagsins á sambærilegan hátt og annað fólk gerir. Við skattleggjum launafólk og láglaunafólk. Við erum farin að skattleggja öryrkja, en hlífum þessum hópi sem er fullkomlega aflögufær. Ísland hefur breyst á undanförnum 10 árum að þessu leyti.



[11:05]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. 9. þm. Reykv. s. segir að Ísland hefur breyst á margan hátt. Viðskiptalífið og efnahagsumhverfi okkar hefur breyst. Ég álít að sú breyting sem fylgdi því að tekinn var upp fjármagnstekjuskattur hafi átt þátt í að breyta samfélaginu t.d. með þeim hætti að gera fjármagnshreyfingar í viðskiptalífinu auðveldari en áður. Ég held að skattstofninn sem er að koma fram í tekjum ríkissjóðs í dag hefði ekki endilega komið fram að óbreyttum reglum, t.d. í sambandi við skattlagningu arðs og skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum, vegna þess að það að hafa lágan skatt t.d. á söluhagnað af hlutabréfum felur m.a. í sér að menn selja hlutabréf frekar. Með hækkun fjármagnstekjuskatts á viðskipti af því tagi gæti e.t.v. dregið úr slíkum viðskiptum þannig að skattstofninn mundi minnka.

Ég vék að þessu í lok máls míns í fyrra andsvari vegna þess að ég held að hv. þm. og meðflutningsmenn hans ættu að hafa áhyggjur af því að skattstofninn skreppi einfaldlega saman ef skatthlutfallið hækkar. Við höfum séð dæmi um það t.d. í sambandi við fyrirtækjaskattana að þar hafa tekjur ríkissjóðs stóraukist eftir því sem hlutfallið lækkar. Það sama á við um fjármagnstekjur eins og hagnað fyrirtækja, þar er um að ræða kannski allra hreyfanlegustu skattstofna í hagkerfinu. Þannig að þeir eru ekki fasti sem er hægt að ganga að sem vísum, heldur ráðast m.a. af lagaumhverfi og öðru slíku. Aðilar sem eru í rekstri eða þeir sem sýsla með verðbréf haga ákvörðunum sínum m.a. eftir því hvernig skattaumhverfið er. Hærra skatthlutfall getur því þýtt minni skatttekjur.



[11:07]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru röksemdir sem er mjög mikilvægt að ræða og við eigum að taka mjög alvarlega. Þess vegna fórum við í rannsókn í skattaumhverfinu í öðrum löndum á þessum atriðum.

Í fyrsta lagi með tilliti til þess hvort hætta væri á að fjármagnið flytti úr landi. Niðurstaða okkar er sú hættan er ekki jafnmikil og margir vilja vera láta eða telja vera með hækkun á fjármagnstekjuskattinum. Síðan er hitt hvar mörkin liggja. Þetta viljum við ræða, það er alveg rétt.

Vandinn er sá, og það lagði ég áherslu á í upphafi míns máls, að við þurfum að afla hinu opinbera tekna, til þess að reka velferðarþjónustuna og sjá fyrir því sem samfélagslegt er og við erum sammála um það. Spurningin er: Hvernig gerum við það? Og hvernig gerum við það á sem markvissastan og réttlátastan hátt? Þar bendum við á ranglætið sem felst í að skattleggja launavinnuna og lágtekju- og meðaltekjufólkið með hárri prósentu, en hlífa ríkasta fólkinu, auðmönnunum, sem hafa tekjur sínar af fjármagni. Hér er ekki bara um milljónir, heldur tugmilljónir jafnvel hundruð eða milljarða að ræða. Þannig að þetta réttlætiskrafa í bland.



[11:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér fer fram athyglisverð umræða um skattamál og er eiginlega framhald af umræðunni í gær. Þar var nokkuð rætt um hlutverk skattkerfis — ég kom inn á það í gær — hvort því sé ætlað að afla ríkissjóði tekna til að standa undir velferðarkerfinu eða að jafna kjör og eignir og stöðu manna.

Ég vil gjarnan koma inn á þetta. Það er ákveðinn eðlilegur launamunur í gangi. Þeir sem hafa farið í langt nám vilja að sjálfsögðu fá þá fjárfestingu greidda einhvern veginn og krefjast því hærri launa og fá hærri laun. Þeir sem eru duglegir, sá sem er tvöfalt duglegri en annar, það er hagur allra að borga honum meira, jafnvel tvöfalt. Þeir sem eru snjallir sömuleiðis, koma með snjallar lausnir á hlutum. Þeir sem hafa mikla reynslu eða sýna mikla tryggð við fyrirtækið og vinna lengi á sama stað, það er eðlilegt að borga þeim meira af því það kostar svo mikið að skipta um fólk. Svona má nefna fjölmörg dæmi sem réttlæta eðlilegan launamun.

Reyni menn að skattleggja þennan eðlilega launamun í burtu — t.d. má nefna eina ástæðu launamunar að þeir sem vinna uppi á Kárahnjúkavirkjun vilja að sjálfsögðu hafa hærri laun heldur en þeir sem vinna í bænum og geta farið í bíó á kvöldin og verið með ástvinum sínum — þá myndast enn meiri launamunur fyrir skatt. Og eftir skatt verður þessi eðlilegi launamunur eftir sem áður. Eina sem gerist þegar menn reyna að skattleggja þennan launamun burt er að hann virðist vaxa í þjóðfélaginu.

Svo er náttúrlega til líka óeðlilegur launamunur sem felst í því að ég ræð bróður minn inn í einhverja opinbera stofnun og borga honum há laun. Það er óeðlilegur launamunur. Ég hugsa að hann minnki heldur ekki eftir skatt.

Niðurstaðan er því sú að ef menn fara leið vinstri manna til að breyta hegðun manna með því að skatta burt launamun, þá myndast enn meiri munur fyrir skatt og munurinn verður því til staðar eftir skatt. Þessi tilraun eða barátta er dæmd til að tapast. Þetta á ekki að vera hlutverk skattkerfis að mínu mati.

Bótakerfið getur aðstoðað þá sem eru illa settir og gerir það. Þar eigum við að jafna mun, þ.e. bæta stöðu þeirra sem verst eru settir.

Þetta voru örfá orð um hlutverk skattkerfisins.

Það myndast alltaf mikil umræða þegar álagningarskráin er birt. Þá hefjast umræður um að óeðlilegt sé að sumir hafi óskaplegar tekjur, fjármagnstekjur, og borgi af þeim lágan 10% skatt, á meðan aðrir þurfa að borga 38% skatt af launatekjum. Menn hafa jafnvel talað um tímasprengju í því sambandi.

Þessi umræða er öll á villigötum. Það virðist allt vera gleymt sem var rætt þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp. Þá vorum við með mismunandi skattlagningu og kerfi í sambandi við fjármagnstekjur. Vextir voru skattfrjálsir. Arður var ýmist einskattaður, tvískattaður eða ekkert skattaður. Leigu- eða húsaleigutekjur voru skattaðar á ýmsan máta o.s.frv. Söluhagnaður var skattaður eins og laun, enda seldi enginn stórar eignir þurfandi að borga allt að helming í skatt. Þetta var allt sett í eitt flatt kerfi, 10% skatt, það átti ekki að koma ríkinu við hvernig menn vörðu eignum sínum, hvort þeir settu inn á bankabók, í hlutabréf, eða leigðu út húsnæðið o.s.frv.

Auðvitað er mikið óréttlæti fólgið í því að skattleggja t.d. vexti með 10%, þegar verðbólgan eins og hún var um árið 8% og allir voru með neikvæða raunvexti af innstæðum. Ef við ætlum að vera réttlátir ættum við að sjálfsögðu að taka verðbætur frá og skattleggja bara raunvexti. Ég er alveg til viðræðu um að skoða þá leið með fullkomnu réttlæti að skattleggja fjármagnstekjur eins og laun. Þá mundum við að sjálfsögðu skattleggja bara raunvexti í vaxtatekjum og draga vaxtagjöld frá öðrum tekjum. Þá er ég hræddur um að margir yrðu skattlitlir á Íslandi.

Uppspretta vaxta á Íslandi er hjá lífeyrissjóðunum og þeir lána til almennings sem skuldar þeim. Ég hugsa að Íslendingar hafi miklu meiri vaxtagjöld en vaxtatekjur almennt séð og tekjur ríkissjóðs af þessu yrðu almennt séð stórlega neikvæðar. Þetta var rætt í fjármagnstekjuskattanefndinni á sínum tíma.

Talandi um arð og söluhagnað af hlutabréfum, við skulum skattleggja þau eins og tekjur, ekki málið. En þá verður líka að leyfa fólki að draga frá tap af fjárfestingum, öllum litlu aðilunum sem tapa á atvinnurekstri úti um landsbyggðina, fara í útgerð, tapa á því, fara í einhverjar prjónastofur, tapa á því, kaupa í deCODE á genginu 60 og tapa helling á því. Við skulum bara leyfa því fólki að draga tapið frá tekjum fyrir skatt. Ætli það yrði ekki svipur á sumum þegar einstakir aðilar yrðu skattfrjálsir yfir áratug vegna taps á atvinnurekstri? Allt í lagi, við skulum skoða þetta.

Varðandi húsaleigutekjur, við skulum taka líka allan kostnað við húsnæðið, viðhald, afskriftir, vexti af fjármagni og skattlagningu á húsnæði, gerum það. Flækjum þetta endilega eins og mögulegt er þannig að menn hætti að telja fram leigutekjur eins og þeir gerðu. Gerum það, allt í lagi. Ég er hræddur um að tekjur ríkissjóðs yrðu núll af þessum skatti í heild sinni.

Eftir að þetta var gert svona einfalt hafa tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjum blásið út sem aldrei fyrr, sérstaklega tekjur ríkissjóðs af söluhagnaði af fasteignum og hlutabréfum, hann hefur vaxið. Stórar sölur eins og sala á Samherja og Hagkaupum hefðu aldrei orðið, aldrei nokkurn tíma, ég fullyrði það, ef eigendurnir hefðu þurft að borga helming af hagnaði í ríkissjóð. Ég er því ekkert viss um að slíkar hugleiðingar séu sérstaklega skynsamlegar.

Þessar skatttekjur eru allar mjög viðkvæmar fyrir skattprósentunni og núna er einmitt mál í gangi, rosalega stórt skattrannsóknarmál, þar sem einn aðili hafði mjög miklar fjármagnstekjur en honum fannst 10% vera of há þannig að hann borgaði ekki, ekki einu sinni 10%. Það var of hátt fyrir þann aðila. Ég held reyndar að flestum finnist í lagi að borga 10%, ef menn hagnast um 100 milljónir þá sé í lagi að borga 10 milljónir í ríkissjóð í eitt skipti. En það er annað ef það fer upp í 18%. Þá hugsa ég að fleiri flýi úr landi og reyni að komast undan því að borga skattinn. Það er nefnilega fullt af möguleikum og alveg sérstaklega í þeim löndum sem hafa háa skattprósentu. Þar er svo mikið af undanþágum fyrir erlent fjármagn að það er til að æra óstöðugan að setja sig inn í það.

Ég vara því mjög mikið við þeirri hugmynd að hækka prósentuna upp í 18%. Ég er nærri viss um að tekjur ríkissjóðs mundu snarminnka. Annars verða menn náttúrlega að ganga leiðina til enda og vera virkilega réttlátir og leyfa frádrátt af verðbótum, leyfa frádrátt af rekstrargjöldum, leyfa frádrátt af tapi á hlutabréfum, leyfa kostnað við leiguhúsnæði, það væri rökrétt en ekki að fara svona leið.

Talandi um skattfrelsismörkin, 120 þús. kr. Almáttugur, hvað erum við að tala um, herra forseti? Við erum að tala um 12 þús. kr. á ári eins og það drepi einhvern sem er með 120 þús. kr. í tekjur af fjármagni. Hvað eru menn að tala um? Það er fáránlegt að flækja allt kerfið fyrir þúsund kall á mánuði hámark sem einhver mundi hagnast á þessu. Þá þyrfti að telja fram fjármagnstekjur, koma með reikning yfir það, upplýsa það o.s.frv. og það þyrfti að aflétta bankaleyndinni í bönkunum. Í staðinn fyrir að taka 10% af öllum fjármagnsgjöldunum sem þeir greiða sparfjáreigendum þyrftu bankarnir að telja fram hvern einasta mann. Allt fyrir þúsundkall á mánuði, hámark. Hvað eru menn að gera? Er ekki öfundin alveg að fara með menn í málinu? Ég held að aðalhugsunin á bak við þetta sé náttúrlega öfundin yfir því að einhverjir skuli hafa svona miklar tekjur. Þeir munu hafa þær tekjur eftir sem áður, bara annars staðar. Ég vil benda á að mest af þessu fjármagni sem menn sjá ofsjónum yfir hefur komið til Íslands erlendis frá, frá Rússlandi og Bretlandi. Það getur vel verið að menn vilji ekkert hafa þetta fjármagn í atvinnulífinu, kannski vilja menn bara hafa sama doðann og var hér áður, allt í kaldakoli og launin á Íslandi til skammar. Maður skammaðist sín fyrir þau þegar menn nefndu það í útlöndum á þeim tíma, þau voru svo lág.

Launin hafa hækkað sem hvergi annars staðar eftir að kerfið var sett upp svona, eftir þessa innspýtingu í atvinnulífið sem gerir það að verkum að menn eru hvattir til þess að skila hagnaði, menn eru hvattir til þess að sýna góða afkomu. (ÖJ: Eru launakjör ásættanleg á Íslandi hjá láglaunafólki?) Launakjör á Íslandi eru orðin mjög ásættanleg, já. Meðallaun samkvæmt kjararannsóknarnefnd á öðrum ársfjórðungi 2004 voru að meðaltali 261 þús. kr. hjá iðnaðarmönnum, verkamönnum, verslunarmönnum og stjórnendum. Það finnst mér vera nokkuð þokkalegt og ég er ánægður með það — miðað við það sem var þegar lægstu launin voru um 46 þús. kr., eitthvað svoleiðis, sem var til háborinnar skammar.

Launin hafa því hækkað mjög umtalsvert sem betur fer. Auðvitað vinnum við að því að hækka þau enn frekar og við ætlum að lækka skatta á launin líka til að minnka muninn á milli fyrirtækja og einstaklinga.

En ég vara sem sagt eindregið við svona flækingu á kerfinu, við svona skattahækkun, ég veit ekkert hvaðan 18% eru komin, sennilega er höfð hliðsjón af skatti á hagnað fyrirtækja, en af hverju ekki 38%, af hverju ganga menn ekki bara vegferðina til enda fyrst þeir eru að þessu á annað borð? Og af hverju gera þeir þetta ekki raunverulega réttlátt með því að taka inn öll þessi atriði sem ég nefndi til frádráttar? Geri þeir það munu margir Íslendingar fara að skulda, þá munu þeir fyrst fara að skulda almennilega þegar vaxtagjöld eru frádráttarbær.



[11:22]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru fróðlegar yfirlýsingar frá talsmanni Sjálfstæðisflokksins og kaldar kveðjur til láglaunafólks á Íslandi sem hann segir búa við mjög góð kjör. Hann vill lækka skatta. Hvað þýðir það? Það þýðir að þetta fólk kemur til með að greiða fyrir þjónustu sem það fær frá velferðarkerfinu með öðrum hætti beint. Þetta er ávísun á notendagjöldin fyrir sjúklinga og skólanema.

Hv. þm. talaði um skattkerfið og tilgang þess, hvort það væri til fjáröflunar eða jöfnunar. Til hvors tveggja segjum við. Þetta er líka hagræðingaratriði fyrir alla. Í stað þess — og þá er ég að horfa til millifærslukerfisins almennt — að greiða mönnum laun í samræmi við að þeir séu að byggja alla ævina, að þeir séu með börn á framfæri alla ævina, að einhver í fjölskyldunni sé sjúkur alla ævina, að einhver sé í langskólanámi alla ævina í fjölskyldunni og þurfi á framfærslu að halda.

Í stað þess að greiða laun í samræmi við þessi útgjöld hefur samfélagið komið sér saman um millifærslu á meðan fólk er að byggja, á meðan það er veikt, á meðan það er með börn á framfæri o.s.frv. Það er í hagræðingarskyni sem við jöfnum kjörin með þessum hætti, þetta er ekki bara réttlætismál, þetta er líka í hagræðingarskyni gagnvart atvinnurekstrinum í landinu.

Síðan var náttúrlega fróðlegt að heyra hv. þm. tala um réttlætið, um hinn snjalla og um hinn duglega. Eru það hinir snjöllu og hinir duglegu sem búa við best kjörin í landinu? Er þetta endurspeglun á þá mynd sem hv. þm. sér í samfélaginu í kringum sig? Ég hefði haldið ekki.



[11:24]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fellur í þá gryfju sem mér finnst vinstri menn alltaf falla í. Þeir reikna með því að menn séu fátækir eins og það sé eitthvert persónueinkenni. „Hann er bláeygur og fátækur“, og það sé ekki hægt að breyta því.

Ég vil breyta því. Ég vil að menn hætti að vera fátækir. Ég vil að menn fái og sækist eftir því að fá hærri tekjur. Því miður höfum við búið til kerfi með einmitt þessum millifærslum, með öllum þessum skattkerfum, sem gerir það að verkum að margt fólk getur ekki bætt stöðu sína, það getur ekki hætt að vera atvinnulaust því það tapar á því. Það getur ekki hætt að vera öryrkjar því það tapar á því, (Gripið fram í.) og það getur ekki menntað sig af því að það tapar á því. Þetta eru svokallaðar fátæktargildrur. Ég vil afnema þær eins og hægt er og hugmyndir ríkisstjórnarinnar ganga einmitt út á það.

Þessar hugmyndir ganga þvert á það.

Auðvitað viljum við að láglaunafólk hafi hærri tekjur. Ég vil hætta að vera með láglaunafólk. Ég vil bara að það verði millitekju- og hálaunafólk, það er markmið mitt. Sem betur fer hafa lægstu laun hækkað umfram allt annað í þjóðfélaginu, það hefur tekist á síðustu árum úr því að vera 46 þús. kr. 1995 yfir í að vera 100 þús. kr. núna.

Það hefur alltaf verið þannig að snjallir menn og duglegir fá hærri laun. Ef hv. þm. væri atvinnurekandi, hvort sem hann er opinber atvinnurekandi eða ekki, mundi hann að sjálfsögðu frekar vilja fá duglegt fólk og snjallt sem skilar vinnu sinni og vinnur tvöfalt á við aðra. Hann væri væntanlega tilbúinn til þess, sérstaklega ef þetta er einkafyrirtækið hans, að borga þeim eilítið meira.



[11:26]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Manni verður eiginlega alltaf orða vant þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal byrjar að tala um láglaunafólk og öryrkja á Íslandi. — Fólk á bara að hætta að vera öryrkjar, fólk á bara að hætta að vera láglaunafólk, þessu vil ég breyta, segir hann.

Þetta er, ég veit ekki hvað skal kalla það, einföldun eða einfeldni, kannski er þetta einfeldni. En það er skrýtið að manni sem lítur á samfélagið í einföldum lausnum skuli vaxa í augum tæknileg útfærsla á fjármagnstekjuskatti. Ekki er þetta vandamál í þeim ríkjum sem við höfum verið að horfa til, á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Ástralíu. En þetta vex hv. þm., tryggingastærðfræðingnum, Pétri H. Blöndal í augum. Það kemur mér svolítið á óvart.

Ég vona að hann eigi eftir að flytja lengra mál um sýn sína á íslenskt samfélag, en ég bið hann um að spara kveðjurnar til láglaunafólksins og öryrkjanna sem hann hafði í frammi áðan.



[11:27]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um láglaunafólk. Ég ætla að gera því kleift að hækka launin sín, hætta að vera láglaunafólk, hætta að vera skjólstæðingar hv. þm., sem lifir á því að til séu nægilega margir láglaunahópar í þjóðfélaginu. Hvað ætlar hann að gera ef engir láglaunahópar eru lengur til? Hann yrði væntanlega atvinnulaus.

Ég vil að menn hætti að tala um fólk sem fátæklinga eins og það sé persónueinkenni. „Hann er bláeygur og fátækur.“ Þannig eigum við ekki að tala. (Gripið fram í.)

Við eigum að tala um að hann sé hugsanlega fátækur í dag en að við ætlum að hjálpa honum að breyta því.

Varðandi öryrkjana, það er fullt af fólki sem er virkilega öryrkjar og þarf virkilega á bótunum að halda. En það eru líka margir sem eru á mörkunum, sem hugsanlega gætu ef þeir fengju tækifæri til þess, ef þeir fengju vinnu t.d., breytt stöðu sinni. Ég vil vinna að því. Ég vil ekki að kerfið sé þannig að menn tapi á því að bæta stöðu sína, tapi á því að fara í háskólann, tapi á því að vera duglegir, tapi á því að vinna á hálendinu eða eitthvað slíkt. Það vil ég ekki og ég vil ekki að þeir sem eru atvinnulausir tapi á því að fara að vinna vegna þess að kerfið sé þannig uppbyggt. Þetta eru hinar svokölluðu fátæktargildrur sem menn hafa talað um, fjálglega stundum, en gleyma því að skattprósentan er einmitt hluti af því.

Þess vegna er það markmið ríkisstjórnarinnar að lækka skatta á einstaklinga, fyrst um 1% og svo 4%, til að minnka fátæktargildrurnar, hvetja fólk til að bæta stöðu sína.



[11:29]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi birtast að hluta til áherslur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í skattamálum. Það tekur að sjálfsögðu einungis á afmörkuðum þætt þeirra mála, þ.e. skattlagningu fjármagnstekna. Þær umræður sem fóru fram hér áðan voru talsvert, að mér fannst, á hlið við umræðuefnið. Þar var fyrst og fremst verið að ræða um launamun vegna launatekna og skattlagningu þeirra almennt eða stöðu þeirra sem lakari hafa aðstöðuna, hvort heldur er á vinnumarkaði eða utan hans sökum örorku eða atvinnuleysis. Ég vík kannski aðeins að því síðar.

Munurinn á Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og kannski ýmsum öðrum flokkum, er að nöfnum ónefndum sá að við erum ekkert feimin við að gangast við þeirri stefnu okkar að við viljum öflugt samábyrgt velferðarkerfi á Íslandi. Hér viljum við hafa velferðarsamfélag. Við vildum gjarnan og ætlum okkur að mynda velferðarstjórn í landinu fyrr en síðar. Þá verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið.

Það er mikill misskilningur, blekking og loddaraleikur í pólitík að reyna að telja mönnum trú um að hægt sé að gera hvort tveggja, að stórlækka skatta, afsala ríki og sveitarfélögum miklum tekjum, en efla velferðina samtímis. (PHB: Þetta hefur gerst.) Þessar íþróttir voru menn að reyna í kosningaloforðum sínum fyrir kosningarnar 2003. Hverjar eru svo efndirnar? Jú, það á að vísu að fara að lækka skatta, fyrst og fremst á þeim sem hæstar hafa tekjurnar og mestar eignirnar. En ríkissjóður er svo illa staddur að það þarf að svíkja samninga við öryrkja. Afkoman er ekki betri en svo þegar allt kemur til alls.

Þeir hafa stundum skilning á þessu hægri mennirnir þegar rætt er um þörfina fyrir aukin útgjöld, t.d. í menntakerfinu. Þegar talað var um fjárskort Háskóla Íslands skrifaði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson blaðagrein og sagði: Átta menn sig ekki á því að kröfur um aukin framlög til Háskóla Íslands eru kröfur um skattahækkanir? Þá skildi hv. þm. samhengi, að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Menn hafa ekki bæði tekjur til að reka öflugt velferðarkerfi, myndarlegt menntakerfi og heilbrigðiskerfi, en jafnframt lækka skatta og helst bara hafa enga skatta. (Gripið fram í.)

Staðreyndin er sú að skattkerfið þjónar þeim tilgangi sem rætt var um áðan, að afla nauðsynlegra tekna til að standa undir sameiginlegum verkefnum í samfélaginu. Þeirra ætti að afla með réttlátum hætti og jafna um leið að nokkru leyti aðstöðumuninn í þjóðfélaginu, kannski fyrst og fremst í þeim skilningi að þeir borgi sem hafa eitthvað til að borga með. Þetta snýst m.a. um það.

Hér er ekki verið að ræða um skattlagningu launatekna. Við getum að því leyti geymt okkur umræðuna um það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar eðlilegan launamun. Þar erum við væntanlega að tala um launatekjur þar sem mönnum er greitt fyrir vinnu sína. Hér erum við að tala um skattlagningu tekna sem koma síðar til sögunnar, þ.e. skattlagningu á vaxtatekjum, á arði af fjármagni, á söluhagnaði hlutabréfa. Einhvern veginn hafa menn fyrst eignast peninga til að leggja fyrir eða kaupa hlutabréf. (Gripið fram í.) Þess vegna er það náttúrlega enn meira réttlætismál að okkar mati að af þeim tekjum, sem sumir hafa í mjög miklum mæli, sé tekinn eðlilegur og sanngjarn skerfur til að standa undir sameiginlegum þörfum.

Er eðlilegt að menn geti haft hundruð milljóna eða jafnvel milljarða í fjármagnstekjur, nánast skattfrjálst, séu t.d. að stórgræða á gengishagnaði bréfa á verðbréfamarkaði? Á sama tíma telja menn sig þurfa að skattleggja örorkubætur að hluta, skattleggja atvinnuleysisbætur að hluta. Þarf að taka skatt af fólki með 100 þús. kr. á mánuði eða minna í heildartekjur? Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal þetta réttlæti? Það segjum við ekki vera.

Við teljum að þessi breyting, sem gengur út á það eins og framsögumaður fór yfir að í stað 10% flatrar skattlagningar á allar fjármagnstekjur verði greidd 18% en á móti komi skattleysismörk sem nemi 120 þús. kr. í tekjur á ári, sem má ætla að sé arður eða vextir af sparnaði upp á 1–2 millj. kr. eða þar um bil. Þetta felur með öðrum orðum í sér að menn borgi nokkuð hærra hlutfall af þessum tekjum og er það þó ekki hátt. Það verður tæpast sagt að samanborið 18% skattlagningu á hreinum hagnaði fyrirtækja eftir alla frádráttarliði og samanborið við 38% eða yfir 40% skatthlutfall launatekna, þá sé 18% skattur á fjármagnstekjur hátt hlutfall. Enda er það ekki. Í samanburði við önnur lönd er það í raun mjög væg skattlagning.

Ég furðaði mig nokkuð á því að hv. þm. Pétur Blöndal vék ekki einu orði að gildi þess að taka skattleysismörk inn í skattlagningu fjármagnstekna. Hvað þýðir það? Það þýðir að viss sparnaður er skattfrjáls. Þar með er hvati í kerfinu til að leggja fyrir. Menn hafa möguleika til að leggja fyrir nokkrar tekjur og hafa af þeim vexti, eða arð af fjármagni sem þeir leggja til hliðar án þess að það sé skattlagt. Það ætti að hvetja til þess og ýta undir það að um nokkurn almennan sparnað af þessu tagi yrði að ræða. Auðvitað eru þetta ekkert óskaplega háar fjárhæðir. Það er hægt að gera grín að því eins hv. þm. Pétur Blöndal gerði hér, 12 þús. kr. í skattgreiðslur þ.e. 12 þús. kr. frítekjumarki á mánuði. Það munar um þetta sums staðar í þjóðfélaginu. Táknrænt hefur þetta gildi, að hvetja til almenns hóflegs sparnaðar. Menn geta átt 1–2 millj. kr. á góðum reikningum og haft af því vexti árlega án þess að þurfa að borga af því skatta. Menn ættu eitthvað örlítið í handraðanum, eins og stundum er sagt, að menn eigi a.m.k. fyrir útförinni ef svo bæri undir.

Hv. þm. Pétur Blöndal á það til að tala um mikilvægi þess að menn efli sparnað og ráðdeild í samfélaginu. En honum brást bogalistin nú og skautaði alveg yfir þetta atriði, sem ég hefði þó haldið að hv. þm. tæki undir, að þetta væri í sjálfu sér góð lagfæring á kerfinu. Hún er réttlát og sanngjörn. Það má vera að sanngjarnt sé að endurskoða þessi viðmiðunarmörk. Það kemur vel til greina að menn telji fyrir því efnisleg rök að hafa þau rýmri og þá væri meiri hvati í kerfinu fyrir slíkan almennan sparnað.

Eitt af því sem tekist var á um árið 1996, þegar fjármagnstekjuskatturinn var innleiddur, var einmitt þetta. Þau sjónarmið voru uppi, og er rétt að hafa í huga vegna þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði, að það voru vissulega skiptar skoðanir um það hvort fara ætti út í þessa flötu skattlagningu sem skattlegði allan sparnað, jafnvel hinar litlu upphæðir þótt þar séu ekki háar fjárhæðir á ferð. Hér voru á þingi talsmenn þess að leitað yrði leiða til að haga skattlagningunni þannig að hún yrði nær því að vera raunskattlagning á raunvaxtatekjur og reynt yrði að hlífa tilteknum almennum sparnaði. Ég man vel að háttvirtur fyrrverandi þingmaður Ragnar Arnalds flutti um þetta nokkrar ræður. Hann hafði á þessu skoðanir eins og fleiri okkar sem þá vorum með honum í flokki á þingi.

Af okkar hálfu færir slík breyting kerfið að vissu leyti í áttina til þess að vera fremur raunskattlagning, vegna þess að það má líta þannig á að skattleysismörkin komi til móts við það að tekið yrði sama hlutfall af öllum vaxtatekjum, bæði verðbótum og vöxtum. Með því yrði um nafnvaxtaskattlagningu er að ræða, t.d. í tilviki óverðtryggðra reikninga. Það mætir því að á tímum nokkurrar verðbólgu er að sjálfsögðu stundum verið að skattleggja litlar sem engar og jafnvel neikvæðar raunvaxtatekjur.

Það er engin ástæða til að óttast að þótt þessi breyting verði gerð muni hún sem slík leiða af sér að menn reyni að flýja með fjármagn sitt úr landi. Það er borðleggjandi, þegar þetta er skoðað og borið saman við önnur lönd, að umhverfið hér yrði áfram hagstætt, a.m.k. að þessu leyti. Umhverfið er hagstætt að flestu leyti öðru. Hér er t.d. skattur á hagnað lögaðila, hagnað fyrirtækja, mjög lágur. Hér er að því leyti eitt lægsta skatthlutfall sem finnst innan OECD, þau 18% sem þetta er komið niður í í dag.

Hvort sem við skoðum skattlagningu á hagnaði sem til fellur vegna umsvifa í atvinnurekstri eða skattlagningu á prívatfjármagnstekjur manna þá verður skattaumhverfið áfram mjög hagstætt. Það er af öðrum ástæðum sem menn taka til fótanna með fé sitt og setja sig niður erlendis, eins og reyndar er mjög í tísku. Fróðlegt væri fyrir menn að velta fyrir sér hve stór hluti af stærstu mógúlum íslensks viðskiptalífs í dag hefur flutt lögheimilið úr landi á undanförnum missirum. Sögð eru risin upp hverfi í nálægum löndum fyrir íslenskar auðmannafjölskyldur þar sem jafnvel eru komnir íslenskir barnaskólar. Það er ekki vegna þess að skattaumhverfið á Íslandi sé að hrekja menn á brott, þvert á móti. Það er af einhverjum öðrum ástæðum að Ísland er orðið of lítið fyrir þessa stóru karla.

Frumvarpið gengur einnig í þá átt, herra forseti, að færa örlítið til, þótt í litlu sé, og til baka skattbyrðina eins og henni hefur verið dreift í landinu og hún hefur færst til undanfarin ár. Hvert hefur skattbyrðin færst, herra forseti? Hún hefur færst frá háum launum, frá stórum og miklum eignum og hagnaði í atvinnurekstri. Hún hefur ekki gufað upp. Nei, hún hefur færst á lág laun, meðaltekjur og veltuskatta. Ríkissjóður hagnast á neyslu og mikilli eyðslu í þjóðfélaginu, bæði í gegnum virðisaukaskattskerfið, tolla og aðflutningsgjöld og annað í þeim dúr.

Með þessu væri örlítill hluti skattbyrðarinnar aftur færður á þá sem hafa miklar tekjur af fjármagni. Útreikningarnir sem liggja til grundvallar sýna mjög vel að fámennur hópur einstaklinga er kominn til sögunnar í landinu sem hefur gríðarlegar tekjur af fjármagni. Annars mundi þessi kerfisbreyting, þrátt fyrir upptöku skattleysismarka gagnvart lágum fjármagnstekjum, ekki skila jafnmikilli raunaukningu og raun ber vitni.

Það er ósköp einfaldlega hægt að gera kerfisbreytingu sem gerir þorra einstaklinga í landinu skattfrjálsan hvað varðar fjármagnstekjur en nær um leið viðbótartekjum í ríkissjóð upp á 3 milljarða kr. með því einu að hækka hlutfallið úr 10% í 18% og taka upp þessi frítekjumörk gagnvart fjármagnstekjum. Ástæðan fyrir því að það er hægt er einfaldlega sú að fámennur hópur hefur gríðarlega háar tekjur. Það gerir í blóðið sitt þegar prósentan er hækkuð eins og raun ber vitni.

Hvernig á að nota þær tekjur sem til falla með þessum hætti? spurði hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Er þetta endilega rétt ráðstöfun? Ég skildi það svo að hann væri annars vegar að spyrja um það fé sem vissulega fer í að búa til skattleysismörkin gagnvart fjármagnstekjum og jafnvel hvað ætti að gera við afganginn upp á 3 milljarða. Það er nóg með það að gera, hv. þm.

Við höfum barist fyrir því á þingi og í stjórnmálum landsins í nokkur ár, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að gera fyrsta skólastigið í landinu gjaldfrjálst eins og hin, að leikskóladvöl verði gjaldfrjáls og menn þurfi ekki að borga 30–50 þús. kr. á mánuði fyrir börn sín á undirstöðuskólastiginu, leikskólanum. Þeir 3 milljarðar kr. sem þarna kæmu til sögunnar gerðu meira en að mæta öllum innheimtum leikskólagjöldum í landinu ef því væri að skipta. Með þeirri einu breytingu værum við búin að fjármagna það stóra framfara-, réttlætis- og jafnaðarmál gagnvart ungu barnafjölskyldunum í landinu. Leikskóladvölin væri ekki byggð á gjaldtöku sem fellur svo skyndilega niður þegar börnin verða sex ára og byrja í grunnskóla.

Talandi um samþættingu skólastiganna í landinu þá sjá allir hversu hróplega ranglátt þetta er, sérstaklega þegar horft er til stöðu fjölskyldnanna. Fáir deila um að staða yngstu barnafjölskyldnanna sem eru að koma úr skóla sé einna erfiðust, að koma sér upp þaki yfir höfuðið og jafnframt með háa tekjutengda endurgreiðslu námslána á bakinu.

Svo eitt dæmi sé nefnt væri þarna tilvalin ráðstöfun á fjármunum af þessari stærðargráðu og þarf ekki einu sinni allt til. Þetta mætti gera eins og við leggjum til í þingmáli okkar, að í samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga yrðu færðar til tekjur þannig að sveitarfélögin geti í áföngum horfið frá innheimtu leikskólagjalda, t.d. með því að ríkið létti af þeim greiðslu húsaleigubóta. Þær yrðu færðar inn í skattkerfið og samræmdar vaxtabótum. Úr yrði samræmdur húsnæðisstuðningur við fólk sem væri sem hlutlausastur gagnvart því hvort menn kaupa sér húsnæði eða leigja.

Að lokum aðeins um launamun og tilgang skattkerfisins í landinu.

Hv. þm. Pétur Blöndal hélt hér gamalkunnuga ræðu og rökstuðning fyrir því sem hann kallar eðlilegan launamun. Það var helst á honum að heyra að markaðurinn væri óskeikull í þeim efnum og skattkerfið ætti ekki á nokkurn hátt að skipta sér af því, t.d. með því að menn borgi eftir efnum. Það hafa nú þótt gömul og góð sannindi lengi á Íslandi að menn borgi eftir efnum og ástæðum eins og kallað er, að reynt sé að hlífa þeim við útgjöldum og greiðslum sem engin efnin hafa, en hinir leggi meira af mörkum. Þegar talað er um eðlilegan launamun, hvað eiga menn þá við? Eiga menn við hann eins og hann var á Íslandi fyrir kannski 10–15 árum? Það eru rétt rúm 20 ár síðan, herra forseti, að hér var á þingi maður sem flutti þingsályktunartillögu um að setja ætti ramma utan um launamuninn þannig að það væri bannað að hann væri meira en tvöfaldur, að enginn maður skyldi hafa meira en tvöföld laun annars, að það væri nóg, meira en nóg til þess að taka tillit til þessara þátta sem hv. þm. Pétur Blöndal var að nefna um hæfni manna og dugnað og hvað það nú var. Launamunur á Íslandi var talinn svona þrefaldur til fjórfaldur. Það þekktust ekki miklu hærri laun en fjórföld, fimmföld almenn laun þangað til fyrir svona tíu árum síðan. En hver er hann í dag? Nú er mjög algengt í meðalstórum, svo ekki sé nú talað um í stærstu fyrirtækjum landsins, að forstjórarnir og æðstu yfirmenn hafi tíföld til tuttuguföld laun almennra starfsmanna í fyrirtækinu. Þannig er þetta komið á Íslandi og þykir ýmsum nóg um. Er það það sem hv. þm. Pétur Blöndal kallar eðlilegt að forstjórinn hafi laun á við 30 almenna starfsmenn í fyrirtækinu? Eru þeir nú misduglegir og missnjallir forstjórarnir eins og kunnugt er. Eða viljum við fara alla leið til Bandaríkjanna þar sem samkvæmt könnun í fyrra höfðu forstjórar 100 stærstu bandarísku fyrirtækjanna að meðaltali fjögur hundruð og fimmtán til tuttuguföld laun almennra starfsmanna í sömu fyrirtækjum. Hver forstjóri var svona geysilega duglegur og verðmætur að hann var 415 manna maki. Er það það sem hv. þm. Pétur Blöndal kallar eðlilegan launamun sem ekki eigi að hrófla við með tekjujafnandi skattkerfi? Það er hugarheimur sem ég á ákaflega erfitt með að samsama mig í öllu falli, herra forseti.

Ég minni aftur á að þetta frumvarp snýst fyrst og fremst um það að hvaða marki hinar hreinu tekjur sem fjármagnið er að færa mönnum eru skattlagðar, til viðbótar því sem þeir eru vonandi að vinna fyrir með höndum og höfði, þeir sem eru í aðstöðu til þess.

Það var að sjálfsögðu skref fram á við í sjálfu sér þegar menn komust að þeirri niðurstöðu fyrir um áratug síðan að auðvitað væri fráleitt annað en skattleggja svona gróða sem á Íslandi hafði fram að því verið að hluta til skattfrjáls. Menn völdu að vísu þá skrýtnu leið að færa hlutafjáreigendum og þeim sem voru að fá greiddan arð gífurlega jólagjöf í formi skattalækkunar því slíkar tekjur höfðu áður verið skattlagðar með vissum frávikum eins og almennar launatekjur. Því var fírað á einu bretti úr yfir 40% skatti og niður í 10%. Þetta var einhver stærsta jólagjöf til stóreignamanna sem nokkurn tímann hefur verið afhent á Íslandi. Það að lækka sérstaklega hátekjuskattinn, sem er jólagjöf ríkisstjórnarinnar núna árlega til þeirra sem mest hafa þörfina eða hitt þó heldur, er bara brot af því sem þá fór fram.

Þetta var að sjálfsögðu upphafið og það þýðir ekki að það beri að standa óbreytt um aldur og ævi. Það er meira en tímabært að taka nú til skoðunar hvort ekki sé rétt að halda áfram að þróa þetta kerfi og breyta því. Það erum við að leggja hér til og ég vona svo sannarlega að þetta mál fái ásamt með öðrum sem tilheyra skattasviðinu vandaða skoðun á þessu þingi.



[11:50]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skattaumræða er alltaf mjög þörf. Þannig skil ég skattamál að þau eigi ekki einvörðungu að afla ríkinu tekna heldur eigi þau að gera það á sem jafnastan hátt fyrir þá sem greiða skatta. Þess vegna er þetta mjög þarft þingmál sem hv. flutningsmenn eru hér að hreyfa og margir hafa rætt það.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að þeir væru að hreyfa þessu máli í þeim tilgangi að það yrði skoðað og þessi umræða er auðvitað innlegg í það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Nú tala þeir hér um að hækka þennan skatt í 18%. Hafa þeir skoðað einhver önnur þrep eða prósentutölu í því sambandi?



[11:51]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og vissar undirtektir við þetta mál. Það kemur mér ekki á óvart þar sem hv. þingmaður er góður jafnaðarmaður og horfir til skattkerfisins með svipuðu hugarfari eða í gegnum svipuð gleraugu og við hv. þm. Ögmundur Jónasson gerum og höfum gert hér í umræðunni, að það hafi þann tvíþætta tilgang að afla tekna en líka að gera það á réttlátan og sanngjarnan hátt og jafna frekar en hitt aðstöðu manna í samfélaginu.

Á bak við átján prósentin eru kannski þau þríþættu rök að þetta er sama hlutfall og skattlagning á hreinum hagnaði lögaðila. Eitt af því sem menn hafa verið að ræða og horfa til er að færa þessar prósentur nær hver annarri þannig ekki sé of mikil gjá á milli, við skulum segja þá í fyrsta lagi skattlagningar fjármagnstekna, í öðru lagi skattlagningar hagnaðar fyrirtækja og í þriðja lagi skattlagningar launatekna. Það að þarna sé mjög langt bil á milli hefur ókosti í för með sér. Á þetta bentum við rækilega þegar verið var að lækka skattprósentu fyrirtækjanna, þ.e. að það mundi leiða til þess að menn færu að reyna að færa hagnað sinn úr launum yfir í hagnað í formi uppgjörs fyrirtækis. Það hefur auðvitað komið á daginn samanber gríðarlegan fjölda einkahlutafélaga.

Önnur rök eru einfaldlega þau að með þessum tveimur breytingum, annars vegar skattleysismörkunum sem kosta vissa peninga og hins vegar prósentu sem er á þessu róli þá næst þessi tvíþætti tilgangur. Annars vegar hlífum við lægsta sparnaðinum. Hins vegar fáum við nokkrar viðbótartekjur upp á um það bil 3 milljarða króna. Það var því okkar markmið jafnframt að kerfið gæti skilað ríkissjóði allmiklum viðbótartekjum og við settum mörkin þarna. Við töldum að það væri ekki fjarri lagi.

Í þriðja lagi held ég að þetta sé að mörgu leyti réttlát prósenta. Hún er í lægri kanti miðað við það sem gerist í löndum í kringum okkur þannig að við erum enn þá prýðilega samkeppnisfær ef svo má að orði komast. Það eru því ýmis rök sem leiða til þess að við erum á þessum slóðum.



[11:53]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni prýðileg svör. Hjarta okkar liggur nú á svipuðum stað í þessum jafnaðarmálum.

Það er auðvitað af þeirri ástæðu sem Samfylkingin hefur lagt hér til á þinginu að lækka virðisaukaskattsprósentu á matvælum og nauðþurftum úr 14% í 7%. Það er til að jafna kjör manna.

Ég vil ítreka það varðandi það frumvarp sem hér er til umræðu að hugsun þess er góð. Auðvitað geta menn deilt um þessar prósentur. En ég fagna framkomu þess og vænti þess að það fái góða afgreiðslu á þinginu.



[11:54]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka aftur viðbrögð hv. þingmanns. Út af fyrir sig, þó það sé kannski ekki beint svar við andsvari hans, þá er það alveg hárrétt að hér er talsverð umræða upp hafin um skattamál. Nú er tillöguflutningur á þingi með líflegra móti leyfi ég mér að segja. Hann er sjálfsagt að einhverju leyti í samhengi við það að skattamál fengu mikla athygli í aðdraganda síðustu kosninga og hæstv. ríkisstjórn er þar með ýmis plön uppi. Þetta leiðir svo hugann að því að ef menn væru að vinna að þessum hlutum á Íslandi virkilega yfirvegað og almennt þá hefðu þeir auðvitað sett niður einhvers konar meiri háttar starfshóp með helst aðild allra flokka sem hefði farið rækilega yfir það hvaða áherslur í skattkerfinu er nú um stundir skynsamlegt að hafa uppi, hverju við viljum breyta. Þá á auðvitað að líta á þetta allt saman, ekki bara rjúka til með kosningaloforð og segja sisona: „Við ætlum að lækka tekjuskatt.“ Og það langt inn í framtíðina án þess að vita hvernig hún verður að öðru leyti.

Síðan eru menn hér með virðisaukaskattinn undir. Hér eru þingmál frá bæði ríkisstjórn og Samfylkingunni um það. Hér er skattlagning fjármagnsteknanna þannig að allt ber það að sama brunni. Auðvitað hefði verið langæskilegast að vinna rækilega kortlagningu á stöðu skattkerfisins og þeim breytingum sem þar væri skynsamlegt að gera, í tekjuskatti, í fjármagnstekjuskatti, í veltusköttum, virðisaukaskatti, tollum, aðflutningsgjöldum o.s.frv. Síðan eru ýmsir minni skattar sem mættu kannski missa sín eins og stimpilgjöld og annað í þeim dúr.

Þetta er okkar innlegg og reyndar ekki það einasta því fleiri þingmál eru væntanleg frá okkur sem varða skattamál og tekjugrundvöll bæði ríkis og sveitarfélaga. Mér sýnist allt stefna í að hin háæruverðuga efnahags- og viðskiptanefnd þingsins fái nokkuð að starfa í vetur og vonandi fá þessir hlutir allir góða skoðun þar.



[11:56]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst að þessi umræða hafi um margt verið ákaflega fróðlegt og hún er þörf. Hún hefur líka leitt í ljós ákveðinn grundvallarágreining millum stjórnar og stjórnarandstöðu varðandi megintilgang skattkerfisins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er einn helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Hans viðhorf er bersýnilega það að skattkerfið sé fyrst og fremst til tekjuöflunar en með engu móti beri að nota skattkerfið til jöfnunar. Það er grundvallarmunur á þessu viðhorfi annars vegar og hins vegar því viðhorfi sem að minnsta kosti Samfylkingin og félagar okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa til skattkerfisins. Við lítum svo á að skattkerfið sé ekki síður til jöfnunar. Reyndar höfum við litið svo á að skattkerfið sé eins konar frumáveita og frá því renni í gegnum það og frá uppsprettu þess renni síðan straumar fjármagns sem eiga að fara til þess að styðja ýmsa þá sem þurfa tímabundið eða varanlega á því að halda, í gegnum húsnæðiskerfið, í gegnum heilbrigðiskerfi, í gegnum menntakerfi og í gegnum almannatryggingabótakerfið. Að þessu leyti má segja að þetta sé eins og pólitísk Flóaáveita. Þetta hefur alltaf verið skilningur okkar. Við erum stoltir af því að vera í senn bæði arkitektar og smiðir að þessu kerfi. Þar af leiðandi kemur það líka oftar en ekki í okkar hlut að leiðrétta hugsanlegar skekkjur sem koma fram í burðargrind kerfisins.

Almennt vil ég segja, herra forseti, að umræða um skattamál á sér ýmsa ástæður nú um stundir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti nokkrar. Það er alveg rétt hjá honum að mikil umræða var um skattamál í aðdraganda kosninganna. Það stafaði ekki síst af því að Sjálfstæðisflokkurinn var að tapa þeim kosningum og tapaði þeim. Hann tapaði 7%, ef ég man rétt, í þeim kosningum og gerði á síðustu metrum kosningabaráttunnar örvæntingarfulla tilraun til þess að kaupa sér atkvæði með gylliboðum um skattalækkanir upp á 30 milljarða. Engin merki eru þess að að standa eigi við öll þau orð og þau loforð sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði þá fram. Hins vegar hefur fæðst lítil mús og þessi litla mús er 1% í tekjuskatti. Það á að lækka tekjuskatt um 1%. En jafnvel þó það sé gert er skattheimtan undir forustu Sjálfstæðisflokksins í dag enn meiri en þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat með þáverandi félaga sínum og fjármálaráðherra, Ólafi Ragnari Grímssyni, í ríkisstjórn 1990. Skattheimtan sem Geir H. Haarde fjármálaráðherra stendur fyrir er enn hærra hlutfall af landsframleiðslu en þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra.

Þetta er dálítið athyglisvert að skoða, herra forseti, og ekki síst fyrir hæstv. forseta sem hefur ákaflega mikinn áhuga á skattasögunni eins og fram hefur komið í umræðunum um skattamál síðustu daga. Ekki ætla ég samt að fara frekar út í það.

Ástæðan fyrir þessari skattaumræðu er í fyrsta lagi loforð Sjálfstæðisflokksins. Í öðru lagi þessi mikla skattheimta sem hefur átt sér stað undir forustu Geirs H. Haardes og í þriðja lagi sá vöxtur sem hefur verið í hagkerfinu og vekur spurningar um það hvort ekki sé svigrúm til skattalækkana.

Mig langar aðeins að dvelja við það sem ég nefndi hér til sögunnar sem aðra orsök þessarar umræðu, þ.e. hina miklu skattheimtu sem Geir H. Haarde hefur staðið fyrir, og Sjálfstæðisflokkurinn.

Það kom fram undir lok síðasta kjörtímabils í svari við fyrirspurn frá Rannveigu Guðmundsdóttur, hv. þm. Samfylkingarinnar, að skattheimta hefði í öllum tekjuflokkum, bæði hjá einstaklingum og hjónum, aukist frá 1995 til loka kjörtímabilsins 2003. Sá sem staðfesti þetta var enginn annar en hæstv. fjármálaráðherra. Geir Haarde staðfesti það sem sagt að á því tímaskeiði sem hinn mikli skattalækkunarflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefði haft forustu í fjármálum hefði skattheimta af landsmönnum aukist.

Það eru auðvitað mikil tíðindi og merkileg að fjármálaráðherrann skyldi undir lok kosningabaráttunnar neyðast til að staðfesta þetta. Þetta eru hins vegar rök fyrir því að við skoðum það kirfilega hvort ekki sé hægt að lækka skatta.

Þá kem ég að því sem ég vildi ræða: Er svigrúm til skattalækkana? Ég held að svigrúm til skattalækkana sé að skapast. Forsendurnar sem Samfylkingin hefur gefið sér fyrir stuðninginn við einhvers konar skattlækkanir eru í fyrsta lagi að þær leiði ekki til niðurskurðar í velferðarkerfinu. Þá er ég að tala um menntakerfið og heilbrigðiskerfið fyrst og fremst. Í öðru lagi mega skattalækkanir ekki leiða til þess að hér skapist óhófleg þensla í efnahagslífi sem kunni að valda brothættri stöðu, kunni að valda áhlaupi á gengið með tilheyrandi verðbólgu og rýrnun kaupmáttar í framhaldi af því.

Þegar okkar ágætu félagar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði koma með tillögur virði ég það auðvitað. Mér finnst skiljanlegt að menn kanni þessa leið til að afla frekari tekna fyrir ríkið. Sá þingmaður sem nú situr í stóli hæstv. forseta, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur, eins og ég hef þegar á þessum morgni sagt einmitt, verið að velta fyrir sér þeim möguleikum að skapa svigrúm með því að hækka fjármagnstekjuskatt til að aflétta fjármagnstekjuskatti af tugum þúsunda einstaklinga sem borga af smáum upphæðum sem viðkomandi eiga í bönkum og fjármálastofnunum. Það er sjálfsagt að skoða þetta.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telja hins vegar nauðsynlegt að fá þessar tekjur inn í ríkissjóð til þess að standa straum af ýmsum nýmælum og ýmsum endurbótum á velferðarkerfinu. Ég vil nefna t.d. gjaldfrjálsan leikskóla. Ég vil þá lýsa því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar, frú forseti, að Samfylkingin styður það að allur leikskólinn verði gjaldfrír. Þetta er stefnumið sem jafnaðarmenn á Norðurlöndum hafa barist fyrir árum saman. Það var mér sérstakt gleðiefni að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skyldi taka þetta upp á sína stefnuskrá í kjölfar þess að systur okkar og bræður í Svíþjóð undir forustu Görans Perssons höfðu gert þetta að sterku baráttumáli í síðustu kosningum í Svíþjóð. Hér er um að ræða sameiginlegt baráttumál jafnaðarmanna allra flokka á öllum Norðurlöndunum.

Spurningin er þessi: Er staðan þannig að það þurfi sérstaka skattahækkun til að standa straum af þessu nýmæli? Án þess að ég sé að hafna því sem kemur fram í frumvarpinu tel ég þó að staðan í efnahagslífinu sé slík að það sé líklegt að tekjur ríkisins muni vaxa mjög á næstu árum og svigrúm skapist til þess að ráðast senn í nýmæli af þessu tagi en hugsanlega líka að fara í einhvers konar skattalækkanir. Við þurfum ekki annað en að skoða kjörtímabil sem er fjögur ár og velta fyrir okkur hver tekjuaukning ríkisins af hagvexti sé. Ef hagvöxtur er áætlaður 3% sem er viðunandi hagvöxtur þýðir það einfaldlega að landsframleiðslan eykst á kjörtímabili um 11%. Það þýðir miðað við upphaf þessa kjörtímabils að landsframleiðslan er 90 milljörðum meiri í lok kjörtímabilsins á ári en í upphafi. Það þýðir að á síðasta ári kjörtímabilsins verða árlegar tekjur ríkisins af þessari auknu veltu líklega 30 milljörðum meiri en í upphafi þess. Maður skyldi ætla að þarna væri borð fyrir báru þrátt fyrir þá óráðsíu og eyðslu sem því miður sést oft hjá þessari ríkisstjórn.

Það situr ekki bara við þetta. Þessi tekjuaukning miðast við 3% hagvöxt. Við sjáum hins vegar að hagvöxtur er snöggtum meiri en þau 3% sem menn voru að gera skóna hér fyrir kosningar. Kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna voru sett fram síðla vetrar í kjölfar þess að komið hafði fram hagvaxtarspá í desember 2002. Sú hagvaxtarspá gerði ráð fyrir 2,65% í hagvöxt. Munurinn á þeirri spá og hinni sem núna er unnið eftir er hins vegar svo mikill að viðbótartekjur ríkissjóðs umfram fyrri spár munu samanlagt á kjörtímabilinu nema 40–60 milljörðum kr. Þá er ég ekki að tala um á ári heldur samanlagt yfir kjörtímabilið.

Þetta þýðir, frú forseti, að það er borð fyrir báru til að gera þrennt, greiða niður skuldir ríkissjóðs, standa straum af nýmælum eins og gjaldfrjálsum leikskóla og líka lækka skatta.

Ef vel er á málum haldið og ef ekki er fylgt þeirri framúrkeyrslustefnu sem einkennt hefur ríkisfjárlög undir stjórn hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haardes á að vera hægt að lækka skatta. Þá komum við að meginefni þessarar umræðu sem er skattastefnan.

Hér má segja að á síðustu dögum hafi komið fram viðhorf a.m.k. þriggja flokka í þeim efnum. Ég segi þriggja flokka vegna þess að ég hef tilhneigingu til að líta á Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn nánast sem (Gripið fram í.) einn og sama flokk. Hinn ágæti og prýðilega efnilegi þingmaður Birkir Jónsson mótmælir þessu með frammíkalli. Auðvitað er súrt fyrir svo æskubjartan þingmann að hann skuli vera lentur í þeim hremmingum að vera eins konar botnlangi á Sjálfstæðisflokknum. Ég ætla ekki að ræða þau örlög hans frekar hér í þessari ræðu.

Það eru uppi þrír valkostir. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur mælt fyrir einni stefnu sem felst í því að hækka skatta. Hann telur að það þurfi að hækka skatta og fer þá leið að vilja hækka fjármagnstekjuskatt fyrst og fremst á fyrirtæki. Slík skattahækkun, ef skattahækkun er á annað borð nauðsynleg, er sú sem kemur minnst við og er hagkvæmust einstaklingunum, borgurunum í landinu. Ég er ekki viss um að þeirrar skattahækkunar sé þörf til að standa straum af þeim nýmælum sem hv. þm. var að tala um.

Í öðru lagi er það síðan stefna ríkisstjórnarinnar. Í hverju felst hún? Jú, hún felst í því að lækka tekjuskattsprósentuna um 1%. Það felur í sér að þeir sem hafa mest fá mest í sinn vasa. Þeir sem hafa minnst fá minnst í sinn vasa. Það eru dæmi um þá sem hafa svo lítið að þeir verða að lifa af bótum almannatryggingakerfisins og geta þó vart dregið fram lífið. Þeir fá ekki neitt.

Sú stefna sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um skattamál í fjárlagafrumvarpinu, sem er sennilega ósanngjarnasta fjárlagafrumvarp sem hér hefur lengi verið lagt fram, felur það í sér að sá sem fær 100 þús. kr. í tekjur á mánuði fær sem svarar tæplega tveimur bíómiðum í skattalækkun á mánuði. Grunnskólakennarinn sem er að berjast í verkfalli fær í skattalækkun á mánuði sem svarar tæplega bleyjupakka. Ofurforstjórinn, maður eins og Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Landssímans, ríkisfyrirtækisins, maður sem er með fast í 2 millj. í tekjur á mánuði, fær sem svarar í skattalækkun frá ríkisstjórninni sólarlandaferð í hverjum mánuði. Þetta er ójöfnuður.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur sýnt fram á það með tölum hér úr þessum ræðustól að sá fjórðungur sem hefur hæstu launin í samfélaginu í dag fær u.þ.b. helming í sinn vasa af öllum þeim upphæðum sem renna til skattalækkunar. Með öðrum orðum er ríkisstjórnin að verðlauna hálaunamenn — fyrir stuðning sinn væntanlega. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fallist á það í umræðum við þingmenn Samfylkingarinnar að til séu leiðir sem hafa í för með sér miklu meiri jöfnuð.

Svo er leið Samfylkingarinnar, það er þriðja leiðin. Sú leið felst í því að lækka matarskattinn. Sá þingmaður getur vart verið í þessum sölum sem er á móti því að lækka matarskattinn, ekki nema þeir sem eru keyrðir undir vilja flokksforustu sem af einhverjum undarlegum og óskiljanlegum ástæðum er á móti því að lækka matarskattinn. Ég á hér auðvitað við hæstv. forsætisráðherra, formann Framsóknarflokksins, sem er á móti því að lækka matarskattinn. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn í þessum sölum sem er á móti því að lækka matarskattinn.

Samfylkingin hefur lagt fram þá stefnu í skattamálum að það sé höfuðatriði að lækka virðisaukaskatt úr 14% í 7% á því sem skilgreina má sem brýnar nauðþurftir. Það leiðir til þess að allir fá eitthvað í sinn hlut en þeir hlutfallslega mest sem hafa úr minnstu að spila. Hvernig stendur á því, frú forseti? Jú, það er alveg sama hvaða tekjur við höfum, við þurfum öll að kaupa okkur brýnar nauðþurftir eins og mjólk, kjöt, fisk, brauð, ýmiss konar mjölmat, grænmeti, ávexti. Við getum ekki lifað án þess að kaupa þennan varning, þetta eru brýnar nauðþurftir. Því lægri tekjur sem við höfum til ráðstöfunar, því hærra hlutfall af þeim fer til þess að standa straum af þessum nauðþurftum. Þegar verðið á þeim er lækkað kemur það þess vegna hlutfallslega best við þá sem hafa minnst. Þessi sannindi féllst meira að segja hv. þm. Pétur H. Blöndal á í samtali í sjónvarpi við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Hv. þm. er nú flúinn úr salnum undir þessari ræðu þannig að ég get ekki tekið upp talið við hann núna.

Það sem er auðvitað sárgrætilegast í þessu, frú forseti, er staðreyndin að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst stuðningi við það að lækka matarskattinn, stjórnarandstaðan er reiðubúin til að taka höndum saman til þess að lækka matarskattinn en það er bara einn flokkur sem stendur gegn því að lækka matarskattinn. Það er Framsóknarflokkurinn, það er flokkur forsætisráðherra og það er flokkur hv. þm. Birkis J. Jónssonar sem væntanlega kemur hingað og reynir með einhverjum hætti að bæta úr yfirsjón og syndum formanns síns. En af því að hann er ungur og vaskur á sá hv. þm. að láta samviskuna og hjartað tala. Hann á að fara gegn flokksforustu sinni vegna þess að hann er ærlegur eins og flestir Siglfirðingar. Hann á að koma hingað og styðja Samfylkinguna í því að lækka matarskattinn.



[12:13]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að leiðrétta málflutning sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar, viðhafði hér um stefnu Framsóknarflokksins í skattamálum þar sem hann fullyrti að Framsóknarflokkurinn væri á móti lækkun matarskattsins. Slíkt er ekki rétt. Ég held að hv. þingmaður finni ekki þau orð töluð úr þessum ræðustóli þar sem einhver af forustumönnum Framsóknarflokksins hefur gefið það í skyn að við værum sérstaklega á móti lækkun matarskattsins.

Þessi fullyrðing um að lækkun matarskattsins komi jafnt við alla þjóðfélagsþegna er dálítið merkileg. Ég veit ekki hvar hv. þm. Össur Skarphéðinsson er alinn upp en ég hef ekki orðið var við það að lágtekjufólk eyði jafnmiklum fjármunum í matarinnkaup og hátekjufólk. Ég hef ekki orðið var við það. (Gripið fram í.) Ég hef ekki orðið var við að lágtekjufólk fari í sérverslanir og kaupi sér lambalundir og lambafillet eins og kannski bankastjórinn gerir. Þannig er íslenskur veruleiki.

Stefna Framsóknarflokksins í málefnum þeirra sem tekjulægri eru, barnafólks hér á landi, er sú að auka barnabætur sem eru tekjutengdar í eðli sínu. Stjórnarandstaðan er reyndar á móti henni. Hún er á móti tekjutengingum en þannig viljum við koma allt að 3 milljörðum sérstaklega til þess barnafólks sem hefur úr hvað minnstum fjármunum að spila. Þetta er skattapólitík Framsóknarflokksins. Ef hv. þm. ætlar að standa hér og segja að lágtekjumaður eyði jafnmiklu í sína matarkörfu og hátekjumaður er það rangt. Það er ekki íslenskur veruleiki og við vitum öll, allir hv. þm. sem hér erum, að slíkt er rangt.

Við skulum hækka barnabætur til hagsbóta fyrir lágtekjufólk, til hagsbóta fyrir barnafjölskyldur.



[12:15]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eitthvert aumasta yfirklór sem ég hef séð hjá nokkrum framsóknarmanni og er þó miklu til að jafna í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að lágtekjufólk eyddi meira en hátekjufólk í brýnustu nauðþurftir. Ég sagði hins vegar, og það er auðvelt að sýna fram á það eins og hefur verið gert, að lágtekjufólk eyddi hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínar í nauðþurftir en hátekjufólk. (BJJ: Rétt.) Lágtekjufólk getur ekki farið í sérverslanir til að kaupa sér lambalundirnar sem hv. þm. ræddi hér um.

Nú ætla ég að rifja upp nokkrar staðreyndir úr sögu Framsóknarflokksins fyrir hv. þingmanni. Hann talaði um að Framsóknarflokkurinn vildi efla barnabótakerfið. Frá 1995–2003 plokkaði Framsóknarflokkurinn sem svaraði samanlagt á þessu tímabili 11,3 milljörðum af barnafólki í landinu með því að greiða minna í barnabætur. Þegar ég og hv. þm. sem nú situr í forsetastóli, hæstv. forseti Jóhanna Sigurðardóttir, stigum út úr ríkisstjórn um miðjan síðasta áratug voru barnabætur 1% af landsframleiðslu. Þegar hæstv. félagsmálaráðherra Páll Pétursson, með aðstoðarmanninn Birki Jón Jónsson, hafði verið nokkur ár í félagsmálaráðherrastóli — steig úr honum í kosningunum 2003 — voru barnabætur komnar niður í 0,55% af landsframleiðslu. Það var að vísu aðeins gefið í á því ári þannig að hlutfallið fór upp í 0,72% af landsframleiðslu.

Framsóknarflokkurinn lofaði ótekjutengdum barnabótum til allra barna til 16 ára aldurs. Hvar eru efndirnar? Ekkert nema svik og blekkingar.

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem kemur í veg fyrir að matarskatturinn lækki. Því getur hv. þm. ekki neitað. Það hefur verið staðfest á þessum degi af hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, úr þessum ræðustól.



[12:18]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hann er merkilegur, þessi söngur Samfylkingarinnar um árangur framsóknarmanna í barnabótakerfinu. Það eru ótekjutengdar barnabætur fyrir börn sjö ára og yngri sem nema um 30 þús. kr. á ári sem allir fá. Þegar það niðurskurðartal sem hv. þm. hóf í gær, og Samfylkingin hefur reyndar viðhaft hér í umræðum um fjárlög og önnur skattamál í upphafi þessa þings, er viðhaft vil ég benda á að á síðustu þremur árum hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn aukið framlög á hverju ári sem nemur 500 millj. Það er 500 millj. kr. aukning á ári síðustu þrjú ár, einn og hálfur milljarður til barnabóta.

Þegar við heitum því að verja allt að 3 milljörðum til viðbótar til barnabótakerfisins kemur hv. þm. og talar um niðurskurð. Slíkt er ekki rétt.

Ég viðhafði aldrei þau orð hér að lágtekjufólk eyddi meira í matvöru en hátekjufólk. Það er útúrsnúningur. Við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að lágtekjufólk eyðir hlutfallslega meira af tekjum sínum í sína matarkörfu. Kemur það sér þá ekki best að verja þessum fjármunum, þessum 3 milljörðum og þessum eina og hálfa milljarði sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagt til barnabótakerfisins, þar sem þeir gagnast hlutfallslega best, þ.e. hjá íslenskum fjölskyldum, barnafólki og lágtekjufólki? Er Samfylkingin á móti því? Ég stórefa að Samfylkingin verði á móti þessu góða máli.

Þegar menn eru í pólitík, í stjórnarandstöðu, glepjast þeir oft í pólitískt yfirboð. Þeir lofa lækkun á stimpilgjöldum, lækkun skatta, lækkun á skattleysismörkum, lækkun á matarskatti og svo má áfram telja en þetta eru eintóm yfirboð.



[12:20]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. er kjarkaður að hætta sér út í umræðu um frammistöðu Framsóknarflokksins varðandi barnabætur. Þegar ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fórum úr ríkisstjórn um miðjan síðasta áratug voru greiddar ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri. (BJJ: Þá var enginn fjármagnstekjuskattur, enginn.) Í dag eru greiddar ótekjutengdar barnabætur til barna upp að sjö ára aldri. Það var flokkur sem afnam það. (BJJ: Það var enginn fjármagnstekjuskattur.) Það var flokkur hv. þingmanns. Sami flokkur lofaði því fyrir síðustu kosningar að auka þetta þannig að greiddar yrðu ótekjutengdar barnabætur til 16 ára aldurs. Hann hefur svikið það.

Það var flokkur hv. þingmanns, Framsóknarflokkurinn, sem plokkaði sem svaraði 11,3 milljörðum af barnabótum, plokkaði sem samanlagt nam 11,3 milljörðum af íslenskum barnafjölskyldum á tímabilinu 1995–2003. Svo kemur fulltrúi þessa flokks og ber sér á brjóst yfir frammistöðunni. Nú ætlar hann að skila svolitlu af ránsfengnum til baka og hann er stoltur af því.

Menn eiga að tala um svona í lokuðum herbergjum ef þeir ætla að monta sig af þessu. Menn eiga ekki að koma hingað og bera svona vitleysu á borð fyrir þjóðina.

Það breytir ekki hinu að við vorum hér að ræða um matarskatt. Í því máli er einungis ein staðreynd og hún er þessi: Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur komið í veg fyrir að hægt sé að lækka matarskattinn og þar með verð á brýnum nauðþurftum.

Það kom fram í umræðu hér í morgun milli mín og hæstv. fjármálaráðherra að óvíst væri að nokkur niðurstaða næðist í þeim samningum sem eru millum þessara tveggja flokka sem nú stýra ríkinu. Það kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum að það væri Framsóknarflokkurinn sem ekki felldi sig við tæknilega útfærslu á hugmyndum um að lækka matarskattinn.

Niðurstaðan er þessi: Það er Framsóknarflokkurinn sem stendur gegn því að matarverð á Íslandi lækki.



[12:22]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hún hefur bara byrjað nokkuð skemmtilega, umræðan um skattamál á þessu þingi. Skattamálin voru til umræðu og það talsvert mikið fyrir síðustu alþingiskosningar. Þar höfðu flokkarnir ýmislegt fram að færa, ýmsar tilfærslur. Ég held að ég muni það rétt að flokkur Vinstri grænna hafi þá verið með í áherslu sinni tiltölulega litlar skattbreytingar en bent á ýmsar leiðir eins og niðurgreiðslu eða niðurfellingu á gjöldum á leikskólum sem vissulega nýtist barnafólki, kæmi þar með fjölmörgum Íslendingum til góða.

Hér er hins vegar verið að ræða mál sem snýr að fjármagnstekjuskatti. Það er auðvitað ein hlið á málinu, og ákaflega fróðlegt væri svo sem að taka umræðu um hana. Vissulega á sú umræða fullan rétt á sér til rökræðu um það með hvaða hætti sú skattlagning hefur átt sér stað hér á landi. Hvernig er hún þá í öðrum löndum til samanburðar? Það er auðvitað mjög fróðlegt hér í þessu þingskjali hv. flutningsmanna Vinstri grænna þar sem þau birta töflur yfir það hvernig farið er með skattgreiðslur í öðrum löndum, bæði tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt.

Hér var líka rætt alveg nýlega mál frá Samfylkingunni um virðisaukaskatt af matvælum. Það var m.a. líka í umræðunni áðan milli tveggja hv. þm., úr stjórn og stjórnarandstöðu, sem skiptust á skoðunum um ágæti stefnumótunar ríkisstjórnar annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar.

Ég er nú þess sinnis, hæstv. forseti, og verð að segja alveg eins og er að mér hugnast ekki mjög vel sú skattastefna sem ríkisstjórnarflokkarnir eru núna með í skattamálum, þ.e. að því er varðar tekjuskattinn og hátekjuskattinn. Ég hef lýst þeim skoðunum nokkuð oft hér og hef talið að ef við tækjum til við skattalækkanir almennt fyndist mér kominn tími til þess að líta á stöðu þess fólks sem ber mestar byrðar í þessu þjóðfélagi og hefur versta afkomu. Það er auðvitað annars vegar lágtekjufólk almennt, hvar í stétt eða á hvaða aldri sem það er, og hins vegar barnmargar fjölskyldur.

Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, a.m.k. að því er varðar okkur í Frjálslynda flokknum að við vorum akkúrat með þessar tvær áherslur fyrir síðustu alþingiskosningar. Annars vegar bentum við á að ef svigrúm væri orðið mikið til skattalækkana, sem menn greinir svo sem ekki á um að eitthvert talsvert svigrúm sé til þess, væri eðlilegt að horfa til þess að hækka persónuafsláttinn og þar af leiðandi lyfta skattleysismörkunum. Hins vegar væri ástæða til að koma til móts við vanda barnmargra fjölskyldna, m.a. væri hægt að gera það í gegnum skattkerfið. Við bentum á leið til þess og lögðum áherslu á það að þetta væru leiðir sem við værum mjög áhugasöm um að skoða. Við þurfum auðvitað fulltingi annarra flokka ef slíkar breytingar sem við lögðum til í kosningabaráttunni ættu að ná fram að ganga.

Nú er það hins vegar ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Þau mál sem hér hafa verið reifuð og er núna verið að ræða, frumvarp þeirra félaga í Vinstri grænum um fjármagnstekjuskattinn og frumvarpið sem Samfylkingin var með um lækkun virðisaukaskatts á matvælum, eru ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar. Ég hygg, þótt ég hafi því miður ekki getað verið við umræðurnar hér fyrst í morgun, að forustumenn ríkisstjórnarinnar í skattamálum hafi ekki tekið þessari umræðu fagnandi ef ég ræð rétt í þær umræður sem ég hef síðan heyrt hér í sölum Alþingis.

Ég held að það sé mjög áhugavert að skoða þessar leiðir, m.a. þá leið sem hér er verið að velta upp. Hinu verður þó ekkert á móti mælt að fjármagnstekjuskatturinn hefur fært talsvert miklar tekjur í ríkissjóð á undanförnum árum, vaxandi tekjur. Það er auðvitað líka til þess að líta að það er hægt að færa fjármagn tiltölulega auðveldlega milli landa. Svona hlutir þurfa skoðunar við.

Ég tel að sú hugmynd sem hér er sett fram um ákveðið lágmark, 120 þús. kr., sem beri 10% skatt og síðan annað skattþrep sem er 18% sem er það sama og atvinnufyrirtækin bera sé alveg fyllilega athyglisverð, ekki síst í ljósi þess að í löndum í kringum okkur sem við berum okkur iðulega saman við er skattkerfið uppbyggt með allt öðrum hætti, bæði að því er varðar skattþrep í tekjuskatti og eins er varðar skattþrep í fjármagni. Alls staðar fer skatturinn hækkandi eftir því sem fjármagnstekjurnar eru hærri. Það er bara staðreynd máls og alls ekki undarlegt. Það er mjög eðlilegt að við tökum slík mál til skoðunar hér og gaumgæfum vel í hvaða farveg við eigum að fara með þau mál er varða fjármagnstekjuskatt.

Hinu er svo ekkert heldur að leyna og það vita allir sem vita vilja að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu hefur verið að breytast mjög á undanförnum árum. Það er orðinn þó nokkuð mikill fjöldi af eignamönnum svokölluðum sem hafa miklar tekjur af fjármagni sínu og þar af leiðandi er margt að skoða í því. Hins vegar er á það að benda sem ég gat um áðan að það er hægt að færa fjármagn úr landi og menn þurfa þess vegna að skoða mjög vandlega hvað gert er í þessum málum.

Ég vil vekja athygli á því í umræðunni um skattamálin að við í Frjálslynda flokknum fáum vonandi að ræða síðar í dag um mál sem er á dagskránni, um lágmarkslífeyri, sem við köllum, um tryggan lágmarkslífeyri. Það hefði áhrif á rauntekjur ellilífeyrisþega til hækkunar þannig að svokölluð jaðarskattaáhrif vegna skerðingar bóta hverfa undir ákveðinni upphæð, sem við leggjum til að sé 50 þús. kr.

Ég minni á að það eru fordæmi fyrir því í lögum og reglum hér á landi að því er varðar fjármagnstekjur, þar sem fjármagnstekjufrádráttur er látinn vega 50%. Það er þegar kemur að skerðingu á bótum í tryggingabótakerfinu. Þar segir að helmingur fjármagnstekna skerði grunnlífeyri. Ég bendi á þetta vegna þess að þar er fjármagnið tekið út fyrir sviga og í raun gengið út frá sömu hugsun og í frumvarpi Vinstri grænna þar sem viss hluti fjármagnstekna skerðir ekki tekjur. Í reglunum um ellilífeyrinn eru fjármagnstekjur mínusaðar um helming áður en þær skerða grunnlífeyrinn. Um þann þátt málsins munum við í Frjálslynda flokknum ræða í dag varðandi lágmarkslífeyrinn, um grunnlífeyrinn, tekjutrygginguna, sérstöku tekjutrygginguna og hvernig lífeyristekjur og aðrar tekjur skerða þær bætur. Ég bendi á þetta fordæmi, það er til að fjármagnstekjur eru ekki látnar skerða grunnlífeyrinn.

Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um skattamál. Það var auðvitað eftir vonum að stjórnarandstaðan kæmi fram með þau mál sem þeir flokkar telja til bóta. Ég er almennt á þeirri skoðun að það sé gott að við skoðum þessi mál út frá þeim flötum sem hér hafa verið til umræðu. En eins og ævinlega þá eru skattamál flókin og þarf vitanlega að skoða þau frá mörgum sjónarhornum.

Ég er hlynntur því að þeir sem hafa hærri tekjur í þjóðfélaginu beri meiri byrðar en þeir sem lægri hafa tekjurnar. Við höfum bent á það í Frjálslynda flokknum að við séum almennt á móti að láta það hafa forgang að fella niður hátekjuskattinn en láta lágtekjufólkið sitja eftir.

Ég vonast til að sú umræða sem hér hefur farið fram um skattamál verði til þess að ríkisstjórnarflokkanir hugleiði aðeins vegferð sína í málunum og meti á annan hátt hina flötu tekjuskattsprósentulækkun. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa greinilega allt aðrar áherslur til að hafa áhrif á stöðu og bæta hag þeirra sem lægri hafa laun. Ég held að það sé kominn tími til að fara slíkar leiðir í skattalækkunum.



[12:34]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson endaði á að ræða um stefnu stjórnarflokkanna hvað varðar tekjuskatt einstaklinga. Ég held að sé mikilvægt að við höfum það í huga í þeirri umræðu að árið 1987 eða 1988 var núverandi tekjuskattskerfi einstaklinga tekið upp. Þá var tekjuskattur 35,2%.

Þau áform sem núverandi ríkisstjórn hefur um lækkun á tekjuskatti einstaklinga gera ekkert meira en að jafna þau viðmið sem sett voru á þeim tíma og kannski rétt rúmlega það. Í umræðunum, þegar þáverandi ríkisstjórn setti þann skatt á íslenska launþega, 35,2% skatt, kom fram í máli fjölmargra þingmanna að þetta mætti ekki hækka, það mætti ekki hækka álögur á launafólk meira en þá var gert. Núverandi ríkisstjórn er að færa skattprósentuna í svipað horf og var árið 1987 eða 1988, svo sögunni sé nú til haga haldið í þessum sal. (GAK: Snúa niður fyrri verk.)

Varðandi það ágæta þingmál sem hér er mælt fyrir, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem hv. þingmenn Vinstri grænna flytja, vil ég byrja á að segja að ég er ekki sammála innihaldi frumvarpsins að öllu leyti og tel mega gaumgæfa margt sem þar er lagt til. Mér finnst lýsandi fyrir frumvarpið að sameining stjórnarandstöðunnar er nú ekki meiri en slík að einungis Vinstri grænir eru á þessu máli.

Við vorum að tala um lækkun á matarskatti í gær. Ég held að stjórnarandstaðan hafi ekki verið sameinuð í þeim efnum heldur. Eitthvað virðist bera þar á milli enda um ólíka flokka að ræða. En ég minnist ekki annars en að stjórnarandstaðan hafi komið vígreif til þessa þings og lagt áherslu á að hún mundi standa saman að sem flestum málum. Byrjunin er a.m.k. ekki góð í þeim efnum.

Fjármagnstekjuskatturinn sem við ræðum um í dag, 10% á tekjur einstaklinga, skilar ríkissjóði 7,7 milljörðum kr. sem stendur. Það eru gríðarlegar upphæðir. Við gætum t.d. rekið Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í tvö og hálft ár rúmlega fyrir þá fjárhæð. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að í tíð Alþýðuflokksins í ríkisstjórn 1991–1995, af því fulltrúar Alþýðuflokksins hafa tekið þátt í þessari umræðu, var enginn fjármagnstekjuskattur greiddur í þessu landi. Enginn. Þá var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson einnig ráðherra. En sú ríkisstjórn setti ekki á fjármagnstekjuskatt. Þá var jafnaðarmennskan við lýði.

Það var í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 1996 eða 1997 að núverandi fjármagnstekjuskattur var settur á og hann skilar nú 7.700 millj. kr., miðað við fjárlagafrumvarpið 2005, inn í ríkissjóð.

Ég set spurningarmerki við eitt í máli hv. þingmanna Vinstri grænna varðandi útreikning þeirra á því sem slík lagabreyting mundi í raun skila þjóðarbúinu, þ.e. að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 10% upp í 18%. Í fyrsta lagi ætla þeir að gera tekjur af upphæð sem svarar um 2,2 millj. kr., sem venjuleg fjölskylda á inni á bankareikningi, skattfrjálsar. Miðað við frumvarpið verða skattleysismörk upp að 120 þús. kr. Það er einn tilgangur þessa frumvarps, að tekjur sem gefa um 120 þús. kr. í fjármagnstekjur verði gerðar skattfrjálsar. Aftur á móti eigi þar af leiðandi að innheimta þessi 18% af mógúlum, eins og sagt var í umræðunni áðan, og auðmönnum.

Bent hefur verið á að við búum við frjálst flæði fjármagns. Svokallaðir mógúlar — ég vil ekki nota slíkt neikvætt orð um þá sem vegnar vel í lífinu, gengur vel og hafa tekið áhættu og barist til eigna — viðkomandi menn geta einfaldlega flutt eignir sínar úr landi.

Þá spyr maður sig: Höfum við gengið til góðs ef við hrekjum alla stóreignamenn úr landi þannig að þeir borgi ekki þennan fjármagnstekjuskatt sem skilar okkur 7.700 millj. kr.? Ég set ákveðinn fyrirvara við að það sé sjálfgefið að með slíkri breytingu komi aukalega 3 milljarðar kr. inn í ríkissjóð. Ég leyfi mér að draga það í efa.

Ég held að það sé sameiginleg stefna þess sem hér talar og stjórnarandstöðunnar að vilja standa vörð um velferðarkerfið. Við viljum ekki draga úr útgjöldum til velferðarmála. En leiðirnar sem menn hafa mælt fyrir eru ólíkar. Við viljum fara ólíkar leiðir að því marki. Ég er á því að við eigum að smyrja hjól atvinnulífsins, örva atvinnulífið. Ég leyfi mér að efast um að stórhækkanir á sköttum á fyrirtæki muni leiða til þess að við eflum atvinnulífið sem á þar af leiðandi að standa undir öflugu velferðarkerfi.

Samkvæmt þessu greiða fyrirtæki í dag 18% tekjuskatt. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 10% upp í 18%. Ef við setjum bara upp lítið bú sem dæmi, t.d. sveitabýli norður í landi sem skilar 10 millj. kr. í hagnað á ári. Ég veit að það er ekki algengt til sveita en við notum það sem dæmi hér. Viðkomandi bóndi borgar 1,8 millj. kr. til ríkisins í formi tekjuskatts og borgar svo, samkvæmt útreikningum mínum, um 1.480 þús. kr. til viðbótar í fjármagnstekjuskatt ef hann vill greiða afganginn út sem fjármagnstekjur. Þá erum við komin upp í prósentu sem nemur tæplega 33%. Skattastefna ríkisstjórnarinnar, sem hefur verið gagnrýnd hér, hljóðar upp á að lækka skatta launafólks, hins almenna launamanns í landinu, í 34,55%. Hér skilja því að tæp 2%, 1,8% eða svo.

Ég velti því fyrir mér, með réttu að ég tel: Erum við að örva íslenskan almenning til að taka áhættu og setja á stofn fyrirtæki með því að hafa svona lítið bil sem raun ber vitni á almennum tekjuskatti launafólks og þeirra sem taka vissulega áhættu, leggja húseignir sínar undir, taka lán og fara út í áhætturekstur? Ég leyfi mér að efast um að við séum virkilega að ýta undir þá hugsun að fólk á höfuðborgarsvæðinu og í hinum dreifðu byggðum taki frumkvæði og stofni til atvinnurekstrar. Það er mitt innlegg í þetta mál.

Þó vil ég segja, varðandi fjármagnstekjuskattinn, að ég vil ekki úttala mig um það hvort 10% skattur sé heilög tala eða hvort 12 eða 13% komi fremur til greina. Ég vil ekki úttala mig um það. Ég vildi fyrst sjá hvaða efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar það mundi hafa hér á landi.

Varðandi eignarskattinn þá er stjórnarandstöðunni tíðrætt um að við ætlum að leggja niður eignarskatta. Ég er sammála því að leggja niður eignarskatta. Margir eldri borgarar borga í dag eignarskatta. Menn eignast hús sín fyrir þær tekjur sem þeir hafa borgað skatt af, ekki rétt? Menn borga af húsum sínum með þeim peningum sem þeir fá í vasann eftir að ríkið er búið að taka sinn skerf. Þar af leiðandi finnst mér ekki rétt að við skattleggjum eignir fólks því að þá er um tvísköttun að ræða. Ég er þess vegna fylgjandi því að við leggjum á sérstakan skatt á fjármagnstekjur. Ég held að það sé þverpólitísk sátt um það. Spurningin er aðeins um hvar mörkin eigi að liggja. Ég leyfi mér að stórefa að 18% fjármagnstekjuskattur sé leiðin til lífsins í þeim efnum.

Ég ætla svo sem ekki að segja meira við þessa umræðu. Ég tel að hér sé hreyft við máli sem við þurfum að ræða betur. Það þarf að fara fram umræða um þetta mál í samfélaginu. Málið er síður en svo einfalt en ég legg áherslu á að við megum ekki búa til slíkt skattkerfi að það letji einstaklingsframtakið í þjóðfélaginu. Ég tel þess vegna ekki vert að fara þá leið sem Vinstri grænir leggja til. Ég efast stórlega um þær forsendur sem þeir gefa sér, að tekjur af fjármagnstekjum muni sjálfkrafa hækka um 3 milljarða kr. við þessar breytingar.

Auk þessa er ég fylgjandi því að allir greiði fjármagnstekjuskatt af þeim ástæðum sem ég hef rakið. Mér finnst ekki eðlilegt að fólk borgi eignarskatt eins og ég sagði áðan vegna þess að fólk er búið að borga tekjuskatt af þeim fjármunum sem það hefur aflað sér til að greiða fyrir þær eignir.

Ég þakka ágæta umræðu, sem hefur verið misjafnlega málefnaleg, m.a. þegar kemur að skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vil undirstrika það enn einu sinni að Framsóknarflokkurinn er ekki sérstaklega á móti lækkun matarskattar. En ég held að stjórnarandstaðan geti tekið undir þann málflutning að að sjálfsögðu þurfum við að huga að því hvert hið skattalega svigrúm er til að halda uppi öflugu velferðarkerfi, öflugu menntakerfi, öflugu heilbrigðiskerfi og öflugu félagskerfi. Það eru þeir fyrirvarar sem Framsóknarflokkurinn hefur gert í þessu samhengi.

Það getur vel verið að menn skori í augnablikinu með pólitískum yfirboðum hvað það varðar en ég mun ekki standa að því að skerða framlög til velferðarmála í þessu þjóðfélagi. Það er á hreinu. Þar af leiðandi er ég ekki fylgjandi því að skattar lækki niður úr öllu hófi. Hins vegar getur verið auðvelt að vera í stjórnarandstöðu, eins og háttvirtur formaður Samfylkingarinnar benti á áðan, og gera tillögu um að nánast allir skattar og allir tekjustofnar ríkisins lækki. Ég er ekki sammála því.



[12:46]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða og málefnalega umræðu um þetta frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fulltrúar allra flokka hafa tjáð sig um málið og hér hefur farið fram mjög málefnaleg og góð umræða. Menn hafa rætt almennt um skattamál og rifjaður var upp sá tími þegar fjármagnstekjuskatturinn var lagður á árið 1996. Það er nú rangt sem fram kom að helst hafi verið áhugamenn um þennan skatt að finna í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki þótt þeir hafi setið við (Gripið fram í.) stjórn í landinu því mikil umræða hafði átt sér stað um fjármagnstekjuskatt og það var mikill þrýstingur á stjórnvöld að taka þennan skatt upp. Sá þrýstingur var bæði úr pólitískum flokkum en einnig af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Það er nokkuð sem ég þekki vel og frá fyrstu hendi.

Það vekur athygli hve mikill samhljómur er í málflutningi stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir tekið vel í þær meginhugmyndir sem hér eru reifaðar. Það hefur einnig reyndar verið gert af hálfu sumra þingmann stjórnarliðsins. Vitna ég þar meðal annars í síðasta ræðumann, hv. þm. Birki Jón Jónsson, þótt hann hafi efasemdir um það fyrirkomulag sem við leggjum til, annars vegar varðandi skattleysismörkin og hins vegar prósentuna. Hann óttast að með þetta hárri prósentu, með 18% skatti, þá munum við ekki ná því markmiði að skila 3 milljörðum í ríkissjóð. Þetta höfum við rætt líka fyrr við umræðuna. Hv. þm. Birgir Ármannsson vakti sérstaklega máls á þessu.

Ég hef svarað því til, og við höfum gert það, að vísa í skattlagningu í öðrum löndum. Hún er víðast hvar hærri en hér, mun hærri víðast hvar. Í greinargerð með frumvarpinu eru tekin dæmi frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Norðurlöndunum, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og víðar. Nánast alls staðar er þessi skattur á fjármagn hærri en hér er.

Við búum enn sem áður náttúrlega við þann vanda sem við þegar stöndum frammi fyrir, að auðmenn, peningamenn fari með eignir sínar í skattaparadísir í Ermasundi, Karíbahafi, Lúxemborg og víðar. Því breytum við ekki. Ég held að þessi ótti sé ástæðulaus með tilliti til þessa.

Annað sem hér hefur verið rætt eru horfurnar í efnahagsmálum. Er svigrúm til skattalækkana? Menn hafa rætt þetta nokkuð. Ef við gefum okkur að við séum sammála um að við viljum efla efnahagskerfið verður þá hagvöxturinn og þenslan í samfélaginu og verðmætaaukningin svo mikil á komandi árum að við eigum jafnframt möguleika á að lækka skatta? Ég hef ákveðnar efasemdir um að við stöndum á eins traustum grunni hvað þetta snertir og margir ætla. Þannig er hægt að halda því fram að helsta tekjulind ríkisins núna sé viðskiptahallinn, eins mótsagnakennt og það hljómar. Í fyrra tóku bankarnir að láni í útlöndum um 300 milljarða sem síðan er pumpað inn í efnahagslífið. Sumt af þessu eru varanlegar fjárfestingar sem eiga eftir að skila sér inn í þjóðarbúið vonum við. En þetta er einnig neysla og þensla sem er mjög hol þegar allt kemur til alls. En náttúrlega skilar þetta ríkissjóði og hinu opinbera miklum tekjum bæði í beinum og óbeinum sköttum.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að ég vildi hækka skatta. Það er alveg rétt. Ég vil auka tekjur ríkis og sveitarfélaga. Það er alveg rétt. Ég vil gera það. Kannski er það þó einum of mikil einföldun að setja dæmið þannig fram vegna þess að í sumum tilvikum vil ég lækka skatta. Í öðrum tilvikum vil ég hækka skatta. Auðvitað væri ákjósanlegt að geta haft skattheimtuna sem minnsta. Það væri ákjósanlegt. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson varar við því að reisa einstaklingsframtakinu skorður. Sjálfsagt er að hyggja að þessu. En við höfum á undanförnum árum verið að stórlækka skatta á efnamenn og fyrirtæki. Árið 1990 var tekjuskattur fyrirtækja yfir 50%. Mig minnir að hann hafi verið 55%. Hann fór niður í 45%, 33%, og er kominn núna niður í 18%. Hvar á að draga þessi mörk? Þetta er spurning um á hverja við ætlum að setja byrðarnar. Ef við viljum ekki setja byrðarnar á efnamenn, fyrirtæki, þá sem eiga stóra reikninga á bankabókum, þá er ekki annarra kosta völ en að skattleggja hinn almenna launamann. Viljum við það? Viljum við frekar fara þá leið? Þetta er spurning um pólitík, um pólitíska forgangsröðun.

Hér hefur aðeins verið vikið að leikskólamálum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hrósaði Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sérstaklega fyrir að hafa lagt fram frumvarp og barist fyrir því að gera leikskólann gjaldfrjálsan og lýsti yfir stuðningi Samfylkingarinnar við það efni. Okkur reiknast til að þessi skattbreyting, þessi skattkerfisbreyting sem mundi skila um 3 milljörðum inn í ríkissjóð — ekki er hægt að segja með neinni vissu hve mikið það er. Þar liggur að baki svona ákveðinn líkindareikningur — mundi auðvelda okkur eða gera okkur kleift að gera leikskólann gjaldfrían. Sveitarfélögin fá tæplega 3 milljarða, 2,8 milljarða held ég hafi verið, í tekjur af leikskólagjöldum. Það munu vera 2,8 milljarðar. Okkar tillaga er að ríkið komi þar inn sveitarfélögunum til hjálpar og við höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um það efni.

Ég nefni þetta hér í því samhengi sem þetta tekjuskattsfrumvarp okkar er því það þarf náttúrlega að vera samræmi í því hvernig menn annars vegar krefjast úrbóta sem kosta peninga og hins vegar þess að afla teknanna til að framkvæma. Menn þurfa að vera sjálfum sér samkvæmir í því efni. Þetta er framlag okkar í þá umræðu.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka þessa góðu umræðu, málefnalegu umræðu sem hefur farið fram um þetta þingmál. Að síðustu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.