131. löggjafarþing — 10. fundur
 18. október 2004.
umræður utan dagskrár.

rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:21]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nýleg koma rússnesks herskipaflota upp að ströndum landsins hefur rifjað upp þá tíma er Morgunblaðið birti af aðdáunarverðri eljusemi og með reglubundnu millibili myndir af sovéskum flugvélum sem komu upp undir landið og herinn á Keflavíkurflugvelli flaug til móts við. Ef óþarflega langt leið á milli slíkra heimsókna að mati Morgunblaðsins voru sóttar gamlar myndir inn á lager og birtar til að halda mönnum við efnið.

Nú er öldin önnur. Rússneskur herskipafloti kemur upp að Íslands ströndum og hefur hér langdvalir fast upp við tólf mílna landhelgismörkin. Það er Landhelgisgæslan íslenska sem uppgötvar flotann í könnunarflugi, eftirlitsflugvélar frá Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu eru sagðar hafa komið og kíkt á herlegheitin en engin mynd hefur birst á útsíðum Morgunblaðsins af verndaranum á Keflavíkurflugvelli og hinum óboðnu erlendu gestum.

Auðvitað hefur enginn í alvöru áhyggjur af því að Rússar hafi eitthvað misjafnt í hyggju í garð okkar Íslendinga, hvorugur aðilinn á sökótt við hinn. Hitt er öllu alvarlegra, það andvaraleysi sem íslensk stjórnvöld virðast hafa sýnt í þessu tilviki hvað varðar það að reyna að bægja þessum ófögnuði frá ströndum landsins og af fiskimiðum okkar. Við eigum að sjálfsögðu að halda öllu hernaðarbrölti og heræfingum eins fjarri landinu og kostur er og gildir þá einu hver á í hlut. Alvarlegust er þó sú ógn sem umhverfinu getur stafað af slíkum heimsóknum, sérstaklega ef í hlut eiga kjarnorkuknúin eða mögulega kjarnorkuvopnuð farartæki.

Jafnvel þótt svo sé ekki sýnir olíuflekkur á sjónum við herskipin, væntanlega tengdur umskipun á olíu á hafinu, hvað getur verið að varast. Langanesbjörgin eru einnig vélarvana skipum ómjúkur landtökustaður áveðurs í foráttubrimi ef svo bæri undir.

Í rússneska herskipaflotanum voru m.a. flugmóðurskipið Kúsnetsov aðmíráll, tæplega 60 þús. tonn að stærð, og kjarnorkuknúna beitiskipið Pétur mikli, rúmlega 23 þús. tonna kláfur og sagður í mjög lélegu ástandi. Eins er líklegt að kafbátar, þess vegna kjarnorkuknúnir, hafi tekið þátt í leiknum neðan sjávar. Rússneski norðurflotinn, eins og hann er á sig kominn, er að margra dómi alvarleg ógn við umhverfið á norðurslóðum þó að hann haldi sig í höfn á Kólaskaga, hvað þá þegar hann er kominn hér upp undir fjörur.

Þess misskilnings hefur gætt í umræðunni að skipin hafi verið utan íslenskrar lögsögu. Því fer víðs fjarri. Skipin héldu sig vissulega utan 12 mílna landhelgismarkanna en þau voru djúpt inni í íslensku 200 mílna sérefnahagslögsögunni. Samkvæmt 56. grein hafréttarsamningsins fer strandríkið með fullveldisréttindi hvað varðar m.a. verndun lífrænna sem ólífrænna náttúruauðlinda innan sérefnahagslögsögunnar og með lögsögu hvað varðar verndun og varðveislu hafrýmisins.

Samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nýsettum lögum nr. 33/2004, nær íslenska mengunarlögsagan yfir alla sérefnahagslögsöguna út að 200 mílum og til landgrunnsins alls. Einnig má nefna alþjóðasamninga um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 o.fl. Það er því síður en svo að við höfum ekkert á bak við okkur í því að reyna að bægja þessum ófögnuði frá landinu.

Auðvitað væri staða okkar sterkari ef við hefðum friðlýst allt íslenska hafsvæðið fyrir kjarnokuvopnum og bannað þar umferð kjarnorkuknúinna skipa eins og ég hef margoft lagt til með frumvarpi hér á Alþingi og í gegnum tíðina hefur verið stutt af þingmönnum allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins.

Herra forseti. Mikla undrun vekur að það var fyrst eftir að skipin voru búin að vera hér uppi við landsteina í tæpan hálfan mánuð sem íslensk stjórnvöld byrjuðu að leita eftir skýringum hjá Rússum. Þetta mál vekur margar áleitnar spurningar og gefur tilefni til að yfir það verði farið, m.a. vegna mögulegra sambærilegra tilvika í framtíðinni.

Ég vil því leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra, yfirmanns Landhelgisgæslunnar, sem til viðbótar gæslu lögsögunnar fer þar með mengunareftirlit:

1. Hvenær varð Landhelgisgæslunni ljóst að meðal hinna rússnesku herskipa væri kjarnorkuknúið skip?

2. Tilkynnti Landhelgisgæslan umhverfisyfirvöldum um málið?

3. Telur dómsmálaráðherra mögulegt að líta svo á að kjarnorkuknúin skip séu tilkynningarskyld innan mengunarlögsögu Íslands, sbr. 12. gr. laga nr. 33/2004?

4. Hverju sætir að svo lengi dróst að hafa samband við rússnesk yfirvöld og óska skýringa á dvöl herskipanna hér?

5. Kom aldrei til álita að beina tilmælum til rússnesku herskipanna um að hverfa frá landinu?

6. Telur dómsmálaráðherra í ljósi reynslunnar af þessu máli þörf á styrkja stöðuna til gæslu og mengunareftirlits innan lögsögunnar með frekari lagaákvæðum?



[15:26]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Á 20 ára bili, frá því um 1970 fram undir 1990, urðum við vitni að stöðugum vexti sovéska herflotans á Norður-Atlantshafi. Var þá gripið til öflugra gagnráðstafana til að stemma stigu við ógninni af honum hér á landi og annars staðar. Vöktu þær ráðstafanir oft ákafar deilur, m.a. hér á Alþingi, t.d. þegar ákveðið var að efla ratsjárvarnir landsins í samvinnu við Bandaríkjaher innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Ratsjáreftirlit er að sjálfsögðu mikilvægt þegar um er að ræða æfingar flugmóðurskips við landið.

Eftir hrun Sovétríkjanna lagðist flotinn mikli á Kólaskaga Rússlands við festar og mörg skipa hans eru ónýt eða illa haffær. Hinn 24. september sl. afhenti fulltrúi sendiráðs Rússlands íslenska utaríkisráðuneytinu orðsendingu þess efnis að floti Rússlands áformaði að senda herskipasveit ásamt flugmóðurskipinu Admiral Kúsnetsov til margvíslegra æfinga á norðurhluta Atlantshafs 25. september til 25. október og yrði m.a. æft flug herflugvéla og þyrlna frá borði flugmóðurskipsins.

Á hefðbundnu gæsluflugi hinn 29. september varð Landhelgisgæslan fyrst vör við fimm rússnesk herskip, beitiskip, tundurspilli, birgðaskip og tvö björgunarskip, fyrir akkeri á Digranesgrunni út af Vopnafirði. Var að nýju flogið yfir fimm herskip þarna 2. október og síðar þann sama dag sást rússneska orrustubeitiskipið Pétur mikli á siglingu um 24 sjómílur austnorðaustur af akkerisstað skipanna fimm.

Hinn 9. október voru sjö rússnesk herskip fyrir akkeri á Þistilfjarðargrunni, 8–15 sjómílur utan við 12 sjómílna mörkin, sömu sex skip og áður og flugmóðurskipið Admiral Kúsnetsov og var það tengt með slöngu við birgðaskipið Sergej Osípov og sást úr lofti olíubrák á sjónum út frá skipunum. Við svo búið var varðskip sent á svæðið. Var það þar 10.–13. október og tóku varðskipsmenn m.a. sýni af olíubrákinni sem sást.

Hinn 11. október flaug P-3 Orion kafbátaleitarvél frá norska hernum yfir svæðið og jafnframt Nimrod-eftirlitsþota frá breska flughernum. Landhelgisgæslan flaug til eftirlits að morgni laugardags 16. október en þá voru skipin horfin af svæðinu.

Utanríkisráðuneytið óskaði hinn 11. og 14. október skýringa á ferðum herskipanna hjá rússneska sendiráðinu. Hinn 15. október ítrekaði íslenska sendiráðið í Moskvu beiðni um skýringar. Þann sama dag barst tilkynning frá rússneska utanríkisráðuneytinu um að æfingunni væri lokið og að skipin væru á förum af svæðinu út af Þistilfirði. Rússnesk stjórnvöld fullyrða að æfingin hafi verið áfallalaus.

Rætt hefur verið um kjarnorkuhættu af skipunum. Flugmóðurskipið, hið eina í rússneska flotanum, er ekki kjarnorkuknúið. Á sl. sumri var það í viðgerð og kom úr henni í september. Orrustubeitiskipið Pétur mikli er kjarnorkuknúið og það var einnig í viðgerð á liðnu sumri fram undir lok ágúst.

Rússum er samkvæmt alþjóðalögum heimilt að stunda flotaæfingar eins og þessar. Hvorki alþjóðasamningar né hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna bannar slíkar æfingar. Samkvæmt íslenskum lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda nær íhlutunarréttur Landhelgisgæslunnar ekki til herskipa.

Eftir hrun Sovétríkjanna eru nýmæli að rússnesk herskip séu við æfingar svo fjarri heimahöfn á Kólaskaga. Hvort æfingar þeirra nú séu til marks um þáttaskil í ferðum rússneskra skipa á Norður-Atlantshafi skal ekkert fullyrt. Fyrir 30 árum hóf sovéski flotinn sókn út á Norður-Atlantshaf til að ná þar hernaðarlegum yfirburðum en þau markmið náðust ekki vegna öflugra gagnráðstafana. Æfingar rússneska flotans nú byggjast ekki á sambærilegri stefnu og Sovétstjórnin fylgdi á sínum tíma. Gagnráðstafanir eru þess vegna ekki af sama toga og áður.

Íslensk stjórnvöld munu fylgjast náið með framvindu mála og leggja mat á þróunina í samvinnu við yfirvöld ríkja við Norður-Atlantshaf og sérstaklega við Bandaríkjastjórn á grundvelli varnarsamnings ríkjanna.



[15:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta var ekki gott svar hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Það undirstrikaði það andvaraleysi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að hefði einkennt viðbrögð íslenskra stjórnvalda í málinu. Ég verð að taka dýpra í árinni en hv. þm. Ég verð að segja að þetta stappar nærri gáleysi af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði að vísu ekki þeirri spurningu sem hv. þm. beindi til hans, þ.e. hvenær íslensk stjórnvöld gengu úr skugga um hvort kjarnorkuknúin skip kynnu að vera í flotanum. Hins vegar kom það alveg skýrt fram hjá honum að íslensk stjórnvöld hófu ekki að leita upplýsinga um hvers konar skip væru þarna á ferðinni fyrr en þau höfðu verið hérna í hálfan mánuð.

Herra forseti. Samfylkingin skilgreindi um helgina mengunarslys á hafsvæði við Ísland sem eina af alvarlegustu hættunum sem steðjað gæti að Íslendingum og nákvæmlega það átti að vera ofarlega í huga stjórnvalda á þessum tíma. Hvers vegna? Vegna þess að öll heimsbyggðin veit í hvers konar ástandi rússneski flotinn er. Aðalflotaforingi rússneska hersins lýsti því yfir í apríl að beitiskipið Pétur mikli sem var hérna væri hættulegt og gæti sprungið í loft upp og það er kjarnorkuknúið.

Herra forseti. Það þarf ekki nema einn rússneskan ryðkláf, kjarnorkuknúinn, til þess að sökkva á íslensku hafsvæði til þess að við Íslendingar séum komnir í verulega vond mál. Það dugar ekki, herra forseti, að það komi ekki skýrt fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra hvort það hafi virkilega verið þannig að Landhelgisgæslan, dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafi ekki gert umhverfisstjórnvöldum viðvart um að þarna var á ferðinni kjarnorkuknúið skip sem aðalflotaforinginn, samkvæmt fréttum sem allir geta lesið á netinu, hefur lýst sem hættulegu.



[15:33]
Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Málið um Rússaskipin vekur athygli á því að þörf er að huga að málefnum Landhelgisgæslunnar og þeim búnaði sem hún hefur yfir að ráða. Orion-flugvélar sem löngum hafa haldið uppi eftirliti með umferð um íslenska lögsögu eru ekki staðsettar hér lengur frekar en aðrar eftirlitsflugvélar. Þær flugvélar sinna verkefnum sem Bandaríkjaher telur brýnni en eftirlit með íslenskri lögsögu og þó má ætla að varnarliðið hafi fylgst með ferðum flotans með ratsjá.

Ljóst er af fréttum fjölmiðla að á meðan flotinn var á ferð um alþjóðlegt hafsvæði undan landinu hafi Landhelgisgæslan ekki haft tök á að fylgjast með ferðum hans jafnreglulega og æskilegt mætti teljast. Það þurfti að sinna reglulegu eftirliti Fokker-véla Gæslunnar á þessu tímabili og á meðan var gripið til þess ráðs að leigja flugvél Flugmálastjórnar til að fljúga yfir og kanna ferðir flotans.

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á að eðlilegt er að taka málið til umfjöllunar á Alþingi og eðlilegt að huga að því í framhaldinu hvernig rétt sé að byggja upp Landhelgisgæsluna til að tryggja að yfirleitt sé fullnægjandi eftirlit með íslenskri landhelgi og íslenskri fiskveiðilögsögu. Ekki síst er það þarft með tilliti til þess að líkur hafa verið leiddar að því að hér hafi verið á ferð kjarnorkuknúin skip sem eru, a.m.k. á ófriðartímum, búin kjarnavopnum.

Herra forseti. Ábyrgðin á verndun fiskveiðilögsögu okkar kallar á fastmótaðar áætlanir um viðbrögð í þeim tilvikum sem hér um ræðir.



[15:35]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ansi aum ríkisstjórn sem er ekki fær um að gæta grundvallaröryggishagsmuna eigin þjóðar þegar eitthvað bjátar á eins og þegar Rússar komu hingað í heimsókn. Þetta var gríðarlega alvarlegt mál. Skipin lágu á grunnslóðinni rétt undan landi í marga daga, hálfan mánuð, 15 sjómílur frá ströndum landsins, um það bil 30 kílómetra. Þetta er álíka vegalengd og frá Kvosinni í Reykjavík upp á Akranes. Það var öll vegalengdin upp að ströndum landsins þar sem skipin lágu.

Við vitum að skipin eru í lélegu ásigkomulagi, við vitum að Rússar hafa hvað eftir annað lent í mjög alvarlegum slysum í Norðurhöfum með kafbáta sína, K-19 árið 1961 norður af Íslandi, Komsomolets við Bjarnarey árið 1989 og Kursk árið 2000 í Barentshafi. Hvað hefði gerst ef eitthvað hefði komið fyrir, ef komið hefði upp bilun í skipunum? Hvað hefðu Íslendingar getað gert? Við hefðum sáralítið getað gert.

Hvers vegna í ósköpunum var rússneski sendiherrann ekki kallaður á fund ríkisstjórnarinnar um leið og menn gerðu sér grein fyrir því hvers konar ófögnuður var kominn að ströndum og hann krafinn skýringa og jafnframt komið á framfæri við hann harðlegum mótmælum gegn því að skipin væru hér og Rússar beðnir um að hypja sig héðan hið fyrsta? Að sjálfsögðu hefði átt að gera það.

Hvað eru menn að æfa á heræfingum? Þeir eru að æfa stríð, styrjöld, þeir eru að æfa gagnárásir á önnur herskip, hugsanlega flugvélar, hugsanlega kafbáta. Þeir eru jafnvel að æfa innrás í landið. Það er ekki flóknara en það. Þetta voru Rússar sennilega að æfa meðan þeir lágu hér í hálfan mánuð ef þeir voru ekki að reyna að gera við einhverja af kláfum sínum.

Þetta atvik leiðir líka hugann að því sem hv. þm. Jónína Bjartmarz benti á og það eru málefni Landhelgisgæslunnar. Fyrst hæstv. dómsmálaráðherra er hér til svara er sjálfsagt að spyrja hann: Hvað líður undirbúningi að smíði nýs varðskips? Við verðum að fara að huga að því að smíða nýtt varðskip, ekki bara eitt heldur fleiri, ekki herskip heldur skip sem eru fær um að mæta svona flota um leið og hann birtist og fylgjast alvarlega með honum. Þetta er mjög alvarlegt mál og má aldrei endurtaka sig.



[15:37]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í svari sínu að hvorki alþjóðasamningar né hafréttarsáttmálinn næðu til þeirra heræfinga sem við fjöllum um. Hvað segir það okkur? Það segir okkur talsvert um það ofurvald sem hernaðarhagsmunirnir hafa að segja þegar núverandi ríkisstjórn okkar er annars vegar. Hún er allt of höll undir þá hagsmuni. Þessa dagana er spurt og ósköp eðlilegt að spurt sé: Eiga kjarnorkuknúin skip að eiga griðland í íslenskri lögsögu? Mitt svar er afdráttarlaust nei. Það er ekki bara vegna þeirra sjónarmiða sem við í Vinstri grænum höfum í friðarmálum og að við teljum að öryggishagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið annars staðar en innan hernaðarbandalagsins NATO. Nei, það er ekki síður vegna umhverfissjónarmiða, því sigling kjarnorkuknúinna skipa um lögsögu okkar býður heim hættu á óbætanlegu umhverfisslysi.

Þess vegna er aðgerðaleysi og andvaraleysi íslenskra stjórnvalda nú svo ámælisvert. Það er mat mitt að kjarnorkuknúin skip séu tilkynningarskyld í íslenskri lögsögu á grundvelli 12. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda sem umhverfisnefnd Alþingis hafði til umfjöllunar á síðasta vetri. Fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, staðfesti þann skilning minn í umræðu á þinginu um frumvarpið á 128. löggjafarþingi þar sem hún taldi ekki nein tvímæli um að geislavirkur úrgangur heyrði til hættulegum efnum og heyrði sem slíkur undir lögin. Dýrmætasta lögsaga okkar ætti að vera friðuð fyrir umferð kjarnorkuknúinna skipa og einnig fyrir flutningi með losun kjarnorkuúrgangs.

Krafan sem Vinstri grænir gera á stjórnvöld er afdráttarlaus. Alþingi Íslendinga á að friða lögsöguna fyrir siglingum kjarnorkuknúinna skipa, að ekki sé talað um skip sem eru hlaðin kjarnavopnum.



[15:39]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir að hefja umræðuna. Umræða um öryggis- og varnarmál er að sjálfsögðu mjög mikilvæg og minnir okkur á stöðu okkar í þeim efnum. Eins og menn þekkja þurfum við sökum smæðar okkar að vera í samstarfi við aðra aðila nú eins og undanfarna áratugi. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi varaformaður Alþýðubandalagsins, hefði miklar áhyggjur af vígbúnaði Rússa og kallaði til ábyrgðar hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, en hlutirnir breytast. Á síðustu áratugum voru þetta mikil deilumál eins og menn þekkja. Þá skiptust flokkarnir nokkuð á Alþingi Íslendinga og þrír lýðræðisflokkar stóðu fyrir ábyrgri stefnu í öryggis- og varnarmálum en á móti var Alþýðubandalagið.

Hlutirnir hafa hins vegar breyst og lýðræðisflokkanir eru orðnir tveir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, en Samfylkingin hefur tekið upp stefnu gamla Alþýðubandalagsins í þessum málaflokki. Það er svolítið kaldhæðnislegt því formaður flokksins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, kom og vísaði í stefnu Samfylkingarinnar, sem var tilkynnt um helgina, að leggja niður loftvarnir við Ísland.

Ég vek athygli á því, af því að hér hafa menn komið upp og bent á mikilvægi þess að þær séu góðar sem og aðrar varnir Íslands, að ef við færum eftir stefnu Samfylkingarinnar, virðulegi forseti, værum við eina landið í Evrópu sem sæi ástæðu til þess að leggja niður loftvarnir á þessum tíma.

Ég fagna umræðunni, virðulegi forseti og vonast til þess að vinstri menn sjái að sér.



[15:42]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir fréttaskýringar af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á laugardaginn. Sá ágæti maður hefur ekki lesið nógu vel. Þar var margt rætt og m.a. settar fram nýjar hugmyndir um öryggis- og varnarmál Íslands. Mig langar af þessu tilefni að benda hv. þm. á að eins og er eru engar Orion-kafbátaleitarvélar hjá varnarliðinu í Keflavík og það veit enginn hvort þær koma til baka. Eins og er eru þar líklega fjórar orrustuþotur engum vopnum búnar. Svo vil ég spyrja hv. þm.: Hvaða loftvarnir eru það? Það er kannski kominn tími til að fara að tala um málin eins og þau eru.

Vegna þess sem hér var hafið máls á vil ég ítreka það sem áður kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að okkur stafar án nokkurs vafa meiri hætta af kjarnorku- og mengunarslysi einhvers konar í Norðurhöfum en nokkru öðru. Það gæti einfaldlega kippt grundvellinum undan atvinnuvegum þjóðarinnar og lífi okkar hér ef kjarnorkuslys yrði í Norðurhöfum. Í því ljósi er vægast sagt ógnvænlegt að lesa það á fréttavef BBC að beitiskipið Pétur mikli sem var fyrir utan ströndum okkar í nokkrar vikur í haust hafi verið kallað til hafnar fyrr á árinu vegna þess að það væri í ótryggu ástandi. Yfirmaður rússneska flotans sagði í fréttum að það gæti sprungið upp hvenær sem er, það væri svo illa fyrir því komið. Við vitum að rússneski flotinn er að stórum hluta að hruni kominn. Málið þarf að ræða bæði með tilliti til þess hvernig alþjóðlega er hægt að hjálpa Rússum til þess að koma í veg fyrir slys (Forseti hringir.) og hvernig við ætlum að hafa eftirlit með umferðinni í sjónum.



[15:44]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hin langa vera rússneskra herskipa hér við land leiðir hugann að vörnum landsins og varnarsamningi okkar. Við höfum verið fullgildir meðlimir í NATO frá upphafi og verið í farsælu samstarfi við Bandaríkjamenn gagnvart vörnum landsins á grundvelli varnarsamnings okkar við þá. Sú uppákoma með veru rússneskra skipa upp við land sýnir enn á ný að mikilvægt er að standa vel að öllu NATO-samstarfi í framhaldinu og viðhalda traustum vörnum landsins, en við höfum átt í viðræðum um þann samning við Bandaríkjamenn. Ég tek undir þær raddir sem efast mjög um gildi þeirrar nýju stefnu Samfylkingarinnar. Ég tel að hún sé mjög hæpin einmitt gagnvart varnarsamningi okkar við Bandaríkjamenn.

Virðulegur forseti. Ég vil tengja veru rússneskra herskipa hér við land við umhverfisþátt málsins. Alla vega eitt þessara skipa var kjarnorkuknúið eins og fram hefur komið. Það er altalað að rússneska flotanum er mjög illa við haldið. Þar er um að ræða mikinn fortíðarvanda frá tíma Sovétríkjanna, frá tímum kommúnismans.

Virðulegur forseti. Við Íslendingar erum mjög háðir sjávarútvegi og markaðir okkar eru mjög viðkvæmir. Vera rússneska flotans getur haft neikvæð áhrif á þá markaði ef eitthvað kemur upp á. Við Íslendingar höfum mótað stefnu um aðaláherslur okkar varðandi baráttu á umhverfisvettvangi, alþjóðlega, og þar hafa aðalmálin verið loftslagsmál og varnir gegn mengun hafsins. Gagnvart mengun hafsins hefur aðalumræða verið geislamengun og mengun vegna þrávirkra lífrænna efna, gagnvart geislamengun hefur þar verið Sellafield og mengun frá Kólaskaga og fyrrum Sovétríkjunum.

Ég tel eðlilegt að fram komi úr þessum stóli á Alþingi að við teljum mjög óæskilegt að Rússar séu hér upp við land með flota sinn. Ég tel að (Forseti hringir.) það skipti máli að þau skilaboð komi héðan.



[15:46]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ef rússneskur herskipafloti hefði lagst upp við landsteinana fyrir tveimur, þremur áratugum hefði heyrst hljóð úr horni, ekki bara hér á landi heldur einnig í Washington og í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Ástæðan fyrir harðari viðbrögðum fyrr á tíð en nú er ekki sú að Íslendingar hafi þá óttast meira hættuna af kjarnorkuknúnum herskipum á gjöfulum fiskimiðum rétt undan Íslandsströndum. Ef eitthvað er eru menn nú meðvitaðri um hættuna af kjarnorkuvopnum og kjarnaofnum. Ástæðan fyrir hvellinum sem hefði orðið fyrr á tíð er að sjálfsögðu sú að Bandaríkin hefðu talið sér ógnað. Bandaríkin hefðu litið á komu Rússanna inn á sitt áhrifasvæði sem ögrun og ógnun.

Nú er öldin hins vegar önnur. Nú er bandarískum ráðamönnum sama. Þeir líta ekki á Rússa sem ógnun við hagsmuni sína. Þess vegna þegja þeir. En það sem verra er, þess vegna þegja íslenskir ráðamenn líka. Er það vegna þess að okkur stafi engin hætta af veru herskipanna hér á Íslandsmiðum? Jú, það hefur komið rækilega fram í þessum umræðum. Það eru allir á því máli.

Þess vegna spyrjum við: Hvers vegna þessi þögn? Hún er að sjálfsögðu vegna þess að ríkisstjórn Íslands samsamar sig bandarískum öryggishagsmunum en ekki íslenskum öryggishagsmunum. Það er dapurlegt.



[15:48]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að nota seinni hluta ræðutíma míns flokks til að viðra aðeins þær ályktanir sem við megum draga af þessum atburði. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni er þetta mjög alvarlegur atburður. Ég hygg að hvergi annars staðar í Norður-Atlantshafi hefði nokkur þjóð liðið það að þessi floti lægi svona nálægt ströndum þetta langan tíma. Norðmenn hefðu t.d. aldrei liðið það að þessi tiltekni floti með umræddum skipum og með þessum vopnabúnaði hefði legið rétt fyrir utan strendur Finnmerkur við Norður-Noreg eða annars staðar við Norður-Noreg í svo langan tíma. Slík skip hefðu áreiðanlega verið hrakin á brott með diplómatískum aðferðum, þ.e. með því að beita Rússa þrýstingi.

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Er þetta það sem koma skal? Erum við hugsanlega að sjá það núna að Rússar fari að gera sig meira gildandi á norðanverðu Atlantshafi en við höfum séð mörg undanfarin ár? Er þetta kannski fyrsta heimsókn af mörgum sem við munum fá hingað upp að Íslandsströndum, getur það verið? Ef svo er, hvernig ætlum við þá að mæta því?

Ég held að mjög mikilvægt sé að við Íslendingar setjumst niður núna og reynum að hugleiða það hvernig við ætlum að mæta slíkum heimsóknum í framtíðinni. Hvernig ætlum við að bregðast við ef við verðum þess áskynja að kjarnorkuknúin skip, flotadeildir komi upp að ströndum landsins, hugsanlega með einhverja kafbáta í eftirdragi neðan sjávar, liggjandi hér á okkar ríkustu fiskimiðum dögum saman? Við verðum að koma upp einhvers konar viðbragðsáætlun varðandi þetta. Þar tel ég að Landhelgisgæslan hafi að sjálfsögðu eðlilegu hlutverki að gegna. En til þess að hún geti gert það þarf að bæta flugvélakost hennar en það þarf líka að bæta skipakostinn. Það er gríðarlega mikilvægt að þeim skipum, þessum gömlu varðskipum sem við höfum í dag verði hreinlega lagt, og við förum út í það að láta smíða fleiri en eitt nýtt varðskip sem geti tekið á eftirliti með svona flota, geislamengun, annarri mengun og öðru þess háttar. Það er mergurinn málsins.



[15:50]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að hagsmunir Íslendinga liggja í því að vernda efnahagslögsögu okkar fyrir mengun og koma í veg fyrir eftir þeim leiðum sem færar eru að slys verði og bregðast við ef slíkt á sér stað.

Í umræðunni sem fram hefur farið í dag hefur hins vegar komið fram afar mikill misskilningur af hálfu ýmissa hv. þingmanna sem hér hafa talað.

Í fyrsta lagi er vert að hafa í huga að flotaæfing af því tagi sem átti sér stað er fullkomlega heimil á þeim stað sem hún fór fram samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðlegum sáttmálum. Tólf mílna landhelgin er friðhelg gagnvart slíkum aðgerðum, nema með fullu samþykki stjórnvalda, en efnahagslögsagan er það ekki. Það er klárt samkvæmt alþjóðalögum og alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ekki beinan íhlutunarrétt í aðgerðir eða æfingar á því hafsvæði. Ef hv. þingmenn eru að tala um að íslensk stjórnvöld hafi sýnt vanrækslu með því að hlutast ekki til um þessar aðgerðir eða hafa í frammi beinar íhlutunaraðgerðir, þá eru sömu hv. þingmenn að biðja íslensk stjórnvöld um að ganga á svig við alþjóðlegar reglur sem á þessu sviði gilda.

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga af því að þær umræður sem hafa átt sér stað hérna hafa verið mjög villandi að þessu leyti.

Einnig er kannski rétt að taka fram af því menn hafa rætt um hættuna af rússneska flotanum og vitna til orða rússnesks flotaforingja. Ef menn leita vel á netinu munu þeir finna ummæli sama flotaforingja þar sem hann tók þau ummæli sín til baka að nefnt beitiskip gæti sprungið í loft upp. Menn ættu því að skoða þann þátt aðeins betur.

Hins vegar er athyglisvert að heyra af hálfu Samfylkingarinnar sem talað hefur í dag, (Forseti hringir.) að þá er annars vegar sagt að íslensk stjórnvöld vanræki eftirlitsskyldu en (Forseti hringir.) á sama tíma er talað um að hér eigi að afnema allar loftvarnir.



[15:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og eftir atvikum svör að svo miklu leyti sem þau fengust. Ég sakna þess að hæstv. umhverfisráðherra sem sat hér í salnum skyldi ekki sjá sér fært að taka þátt í umræðunni og vonandi ber ekki að túlka það þannig að umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið hafi ekkert um þetta mál að segja eða hafi ekkert skoðað það eða velt því fyrir sér.

Þeim beinu spurningum sem hæstv. dómsmálaráðherra svaraði ekki, ef til vill hefur hann ekki talið sig hafa tíma til þess, get ég sem best beint til hans í formi fyrirspurnar og mun taka það til athugunar eftir umræðuna.

Það er mér vel ljóst og öðrum sem hafa lesið t.d. þetta ágæta plagg hér og aðra viðeigandi alþjóðasamninga að þeir banna ekki heræfingar af þessu tagi inni í sérefnahagslögsögunni. En það er furðulegt að heyra menn túlka þá með þeim hætti sem hér var m.a. gert síðast, að gera stöðu okkar sem veikasta í því sambandi. Það er alveg ljóst að við höfum í alþjóðahafréttarsamningnum, í alþjóðasamningum um varnir gegn mengun frá skipum og í mörgum fleiri samningum stöðu til að beita okkur með ýmsum hætti þegar í hlut á verndun og varðveisla auðlinda innan sérefnahagslögsögunnar. Við eigum auðvitað að túlka þá möguleika okkur í hag.

Ég fullyrði það, m.a. með vísan í 58. gr. hafréttarsáttmálans sem leggur samningsaðilum þær skyldur á herðar að taka tillit til skyldna strandríkjanna að þessu leyti, að við getum með því t.d. að skilgreina dvöl kjarnorkuknúins skips sem umhverfisógnun, beitt okkur í því sambandi. Þó svo væri nú ekki að við teldum okkur hafa beinar lagastoðir, þá ættum við að sjálfsögðu að beina þeim eindregnu tilmælum til Rússa að þeir hefðu sig á brott. Það hefði verið algert lágmark.

Ég hlýt að segja, frú forseti, að mér finnast öll þessi dauflegu viðbrögð íslenskra stjórnvalda bera vott um mikið andvaraleysi, alveg einkennilegt andvaraleysi. Að menn skuli fyrst vakna til meðvitundar eftir tæpan hálfan mánuð, (Forseti hringir.) að ekki skuli heyrast bofs frá umhverfisráðuneytinu og hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki geta svarað einni einustu (Forseti hringir.) efnislegri spurningu um þetta mál.



[15:55]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa svarað efnislega öllum þeim spurningum sem fram komu. Það er hins vegar að sjálfsögðu fyrirspyrjanda að meta hvort hann telji svörin fullnægjandi.

Ég vil líka láta þess getið að það er rangt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki látið þetta mál til sín taka. Eins og fram kom í máli mínu var það 29. september sem Landhelgisgæslan fyrst sá þessi skip og síðan var fylgst með þeim þangað til þau fóru héðan út úr okkar nágrenni og út úr lögsögu okkar. Það var síðan tilkynnt þegar sást til Péturs mikla á siglingu hér. Það er eina kjarnorkuknúna skipið sem er í þessum flota, ofan sjávar a.m.k. Við Íslendingar höfum engan tækjabúnað til að fylgjast með ferðum kafbáta og verðum þar að treysta á bandamenn okkar og Bandaríkjamenn. Þannig að við erum ekki í stakk búnir til þess að fylgjast með kafbátum og höfum aldrei verið.

Ef menn eru að tala um að fara út í slíkar aðgerðir, þá er verið að tala um miklu meiri hervæðingu hér en meira að segja ég hef orðað nokkru sinni í þessum sal eða annars staðar. Ég veit ekki til þess að menn hafi verið að tala á þann veg, nema það beri að skilja orð þingmanns Frjálslyndra sem hér hefur talað á þann veg að hann vilji að við komum okkur upp slíkum búnaði. Þá er það algjört nýmæli í þessum umræðum.

Ég tel að þegar litið er til þessara mála verði að líta á alla heildarmyndina og sjá hvernig hún lítur út. Við getum ekki og það hefur enginn haldið því fram að rússnesku skipin hafi verið hér í óvinveittum tilgangi. Menn hafa haft áhyggjur af mengun af þeim. Það er vissulega ástæða til þess að hafa slíkar áhyggjur.

Ég gat þess í máli mínu að rússneski flotinn er ekki í góðu ásigkomulagi, en hins vegar þegar menn eru þar að vitna í flotaforingja og ummæli þeirra um skipin, þá held ég að menn verði að segja söguna alla. Þessi viðkomandi flotaforingi sem formaður Samfylkingarinnar vitnaði oftar en einu sinni í hefur dregið ummæli sín til baka, ef formaðurinn hefði fyrir því að kynna sér staðreyndir málsins.