131. löggjafarþing — 10. fundur
 18. október 2004.
einkamálalög og þjóðlendulög, 1. umræða.
stjfrv., 190. mál (gjafsókn). — Þskj. 190.

[15:58]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998. Frumvarp um sama efni var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Við gerð þessa frumvarps hefur verið tekið mið af niðurstöðu meiri hluta allsherjarnefndar frá því í vor og breytingartillögum hennar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála um skilyrði gjafsóknar og miðar það að því að setja skýrari reglur um gjafsókn, þannig að efnalítið fólk geti fengið fjárstuðning úr ríkissjóði til þess að reka mál fyrir dómstólum. Jafnframt verði nýtt sem best það fjármagn sem ætlað er að kosta gjafsóknarmál, en það liggur fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna veitingar gjafsóknar aukast á hverju ári og er ekki séð fyrir endann á því nema á verði tekið.

Gert er ráð fyrir að gjafsóknarheimildir byggist á því grundvallaratriði að efnalítið fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Einnig verður á því byggt að nægjanlegt tilefni sé til málshöfðunar og að eðlilegt megi teljast að málssókn sé kostuð af almannafé. Fellt verði á brott ákvæði um að gjafsókn sé hægt að veita þegar úrlausn máls hefur svokallað almennt gildi en það skilyrði hefur afar víðtæka skírskotun og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsókn einstaklings af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis. Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að settur verði skýrari grundvöllur undir heimild dómsmálaráðherra til að kveða nánar á um veitingu gjafsóknar í reglugerð, þar með talið hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn. Er þannig stefnt að því að unnt verði að veita gjafsóknarnefnd nánari leiðbeiningar á þeim atriðum sem líta beri til við mat á því hvort skilyrði séu fyrir veitingu gjafsóknar og um leið verði þau sjónarmið sem liggja að baki ákvörðunum nefndarinnar gegnsærri. Er að því leyti tekið mið af álitum umboðsmanns Alþingis um starfshætti stjórnvalda við veitingu gjafsóknar. Fyrrnefnd reglugerðarheimild hefur verið vandlega ígrunduð í ráðuneytinu og hef ég í hyggju að kynna allsherjarnefnd málið til hlítar með því að senda henni drög að reglugerð þegar málið kemur þangað til umfjöllunar.

Jafnframt er í frumvarpinu lögð til breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta þannig að í lögin verði tekið ákvæði um gjafsókn sem er sérstaklega sniðið að þörfum og hagsmunum þeirra sem aðild eiga að þjóðlendumálinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[16:00]
Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið var þetta mál lagt fram á síðasta þingi og fór í gegnum allsherjarnefnd. Við náðum að fara þar yfir málið og senda frá okkur nefndarálit en síðan fór það ekki lengra hér í þinginu. Allsherjarnefnd gaf sér því nokkurn tíma á vorþinginu til þess að fjalla um þetta mál og kallaði m.a. fjölda manns fyrir nefndina. Þar á meðal voru þeir er skipuðu á þeim tíma gjafsóknarnefnd sem hæstv. ráðherra hafði ekki með í ráðum við smíði þessa frumvarps og ég geri athugasemdir við hér á eftir. Auk þess kom fram fjöldi umsagna til allsherjarnefndar. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að flestar voru þær umsagnir neikvæðar að því er varðar meginefnisbreytinguna í frumvarpinu.

Frumvarpið er þrjár greinar og það felur í fyrsta lagi í sér þrengingu á þeim skilyrðum sem núgildandi lög um meðferð einkamála setja gjafsókn í einkamálum.

Í öðru lagi felur það í sér reglugerðarheimild fyrir dómsmálaráðherra til að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði sérstök gjafsóknarheimild í lögum um þjóðlendur.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd leggjast alfarið gegn þessu frumvarpi og gerðu það í meðferð nefndarinnar í vor. Tilgangur frumvarpsins virðist sá helstur að þrengja verulega að möguleikum almennings til að leita réttar síns með málshöfðun gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum. Það er, virðulegi forseti, ekki sú þróun sem við viljum sjá eiga sér stað í lýðræðisríki í upphafi 21. aldarinnar.

Frumvarpið mun, verði það að lögum, fela í sér útilokun á möguleikum til gjafsóknar í málum sem geta varðað einstaklinga og almenning miklu. Slíkar takmarkanir eru á skjön við aukna réttarvitund almennings sem ég tel vera mjög af hinu góða, virðulegi forseti, og er m.a. kannski ástæðan fyrir því að slíkum málum hefur fjölgað og kostnaður ríkisins þar af leiðandi aukist eitthvað í þessum málum.

En ekki aðeins er það svo að þetta stangist á við aukna réttarvitund almennings heldur stangast þetta líka á við hefðir sem hafa þróast í öðrum lýðræðisríkjum og ég vil að við horfum líka til, virðulegi forseti. Auk þess eru tillögurnar illa rökstuddar og tilefni breytinganna er ekki nægilega skýrt. Ég undrast það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra skuli ekki koma hér með frekari röksemdir fyrir þessum breytingum en þær sem koma fram í frumvarpinu og komu fram í vor sem mikil gagnrýni var á, þar sem einungis er talað um að ekki sé forsvaranlegt að hafa svo almennt orðað ákvæði sem grundvallað er á auknum útgjöldum almennings.

Þetta eru ekki boðlegar skýringar, herra forseti, eða boðleg rök fyrir þessum breytingum sem geta varðað almenning miklu. Þar vísa ég máli mínu til stuðnings m.a. til þeirra umsagna sem komu til hv. allsherjarnefndar.

Fyrsta grein frumvarpsins felur ekki í sér neina efnisbreytingu í raun og veru en í henni segir að dómsmálaráðherra sé eftir sem áður heimilt að setja reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar. Ég geri ekki athugasemdir við þessa grein og ætla ekki að eyða frekari orðum í hana.

Ég hef hins vegar miklar athugasemdir, virðulegi forseti, fram að færa við 2. gr. frumvarpsins sem felur í sér meginbreytinguna sem lögð er til að núgildandi lögum, en þar kemur fram að mínu mati alvarleg atlaga að möguleikum almennings til gjafsóknar í málum sem þó kunna að varða miklu fyrir almenning og varða miklu fyrir almannahagsmuni.

Í gildistíð eldri einkamálalaga tíðkaðist það að gjafsókn var veitt í þeim tilvikum sem greinir í b-lið 1. mgr. 126. gr. núgildandi laga, þ.e. ef mál hafði verulega almenna þýðingu eða varðaði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagsmuni um einkahagi umsækjanda. Þessi heimild var þó í gömlu lögunum. Í eldri lögum var þessi heimild þó háð velvilja ráðherra sem gat hafnað umsókn þótt málið teldist mikilsvert. Það ákvæði sem nú er komið inn í lögin og er í lögunum í dag og hæstv. ráðherra vill breyta er hins vegar efnislega tekið upp úr 16. gr. frumvarps til laga um opinbera réttaraðstoð sem var lagt fram á 112. og 113. löggjafarþingi, þannig að þetta ákvæði sem við höfum í núgildandi lögum var þannig liður í viðleitni til þess að víkka út heimildir til ókeypis lögfræðiaðstoðar fyrir almenning, sem er ekki vanþörf á hér á landi ef miðað er við nágrannalöndin.

Reyndar hafa margsinnis verið lögð fram á Alþingi mál í þessu skyni og má af umræðum um slík mál ráða að mikill vilji — og þess vilja hefur gætt í öllum eða a.m.k. langflestum stjórnmálaflokkanna í umræðum um slík mál — hefur verið til að auka slíka þjónustu en ekki til að þrengja að henni, eins og hæstv. ráðherra er að gera í þessu máli.

Ég er því þeirrar skoðunar að réttara hefði verið af hæstv. ráðherra að fara þá leiðina að auka möguleika almennings á ókeypis réttaraðstoð í stað þess að takmarka slíkar heimildir enn frekar eins og lagt er til í frumvarpinu. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 126. gr. einkamálalaga, sem nú á að fella út, hefur verið í lögum rúman áratug og ekki er hægt að ráða það, virðulegi forseti, af gögnum sem voru lögð fyrir hv. allsherjarnefnd að ákvæðið hafi valdið vandkvæðum í framkvæmd. Eins og ég sagði í upphafi skortir að mínu mati rökstuðning fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að skilyrðið um gjafsókn skv. b-lið 1. mgr. sé „afar víðtækt og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.“

Svona er það orðað, virðulegi forseti.

Þetta var m.a. rökstutt í umsögnum sem bárust allsherjarnefnd að væru alls ekki nægileg rök eða nægilega vel ígrunduð rök fyrir því að breyta ákvæði sem getur varðað almenning svo miklu. En ekki er að finna annan rökstuðning fyrir niðurfellingu þessarar heimildar og því hlýtur að mega ráða að fyrst og fremst sé verið að fella þetta ákvæði niður í sparnaðarskyni.

Ég hlýt því að velta fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þarna sé akkúrat það svið sem við þurfum að grípa til sparnaðar á. Er það svo að fé almennings hafi verið sóað í óhóflega réttaraðstoð fyrir almenning? Má skilja það svo, virðulegi forseti, að breytingin sé til komin þess vegna? Hvað er að gerast í öðrum löndum?

Gjafsóknarmálum hefur vissulega fjölgað verulega á undanförnum árum, sem er fyrst og fremst til marks um aukna réttarvitund almennings. Almenningur er orðinn meðvitaðri um rétt sinn og sækir hann frekar en kannski áður var. Ég tel, virðulegi forseti, að það sé af hinu góða og það eigi einmitt að hvetja til þess að það sé gert.

Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins áætlaði fyrir allsherjarnefnd í vor að sparnaður með frumvarpinu gæti numið 10–15 millj. kr. árlega, sem er einungis örlítið hlutfall af heildarkostnaði ríkisins vegna gjafsókna. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég tel vandséð hvernig hægt sé að réttlæta slíkan sparnað á kostnað þeirra ríku almannahagsmuna og hagsmuna einstaklinga sem í húfi eru. Ég tel því að þarna sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og þess vegna leggst ég gegn þessari breytingu í því formi sem hún liggur fyrir í frumvarpinu.

Reyndar er gert ráð fyrir að áfram sé inni heimild til gjafsóknar í málum þar sem efnahag umsækjenda er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans yrði honum ofviða. Guði sé lof, virðulegi forseti, fær það ákvæði nú að standa áfram. En sú heimild hrekkur hins vegar skammt þegar þess er gætt að við mat á því hvort gjafsókn sé veitt á grundvelli efnahags umsækjanda hefur verið höfð hliðsjón af skattleysismörkum á hverjum tíma. Þetta kom fram fyrir hv. allsherjarnefnd í vor.

Heimildin er þess vegna afar þröng auk þess sem réttlætisrök geta að sjálfsögðu verið fyrir heimild til gjafsóknar alveg burt séð frá efnahag. Þrengingin sem lögð er til í frumvarpinu mun fela í sér að gjafsókn verður útilokuð í málum sem eru mikilsverð réttlætismál fyrir hagsmuni einstaklinga og almennings.

Samkvæmt upplýsingum sem gjafsóknarnefnd gaf allsherjarnefnd í vor kunna slík mál t.d. að varða heimtu skaðabóta fyrir varanlega örorku, þegar örorka er mikil en aflahæfi verulega skert, málið varðar bætur fyrir missi framfæranda, lífeyrisréttindi, atvinnuréttindi og eignaréttindi, réttindi varðandi friðhelgi einkalífs og önnur hefðbundin mannréttindi. Þetta kom m.a. fram í máli gjafsóknarnefndarmanna sem komu fyrir nefndina í vor. Eru þetta málin, virðulegi forseti, sem hæstv. ráðherra telur óþarfi að veita gjafsókn í? Hvaða mál eru það, virðulegi forseti, sem hæstv. dómsmálaráðherra telur óþarfi að veita gjafsókn í og telur ekki forsvaranlegt að sóa fé almennings í að veita gjafsókn?

Einnig eru dæmi um, virðulegi forseti, eftir því sem kom fram í allsherjarnefnd í vor, að gjafsókn hafi verið veitt á grundvelli þessarar heimildar vegna ófrjósemisaðgerðar og vönunar þar sem vafi lék á um heimild til aðgerðanna. Einnig gætu mál vegna læknamistaka fallið hér undir. Eru þetta mál, virðulegi forseti, sem hæstv. dómsmálaráðherra telur ekki forsvaranlegt að veita fé almennings í, nema í þeim tilvikum sem efnahag umsækjenda er verulega ábótavant? Erum við ekki að tala um mannréttindi, virðulegi forseti, í slíkum málum? Ég hefði haldið að þá skipti efnahagur fólks ekki öllu máli.

Þá gæti gjafsókn samkvæmt b-lið 1. mgr. 126. gr., sem er verið að fella hér niður, verið veitt í málum þar sem einstaklingar leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum. Slík mál gætu t.d. verið vegna umhverfismála, kærur vegna kosninga eða vegna ráðherraúrskurða að því er gjafsóknarnefnd greindi okkur frá í allsherjarnefnd í vor.

Ég tel einnig, eins og ég hef reyndar aðeins minnst á áður, að það skorti verulega á að gerð sé nægileg grein fyrir markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu og tek þar með undir gagnrýni sem m.a. kom fram í umsögn Lögmannafélags Íslands um þetta atriði. Þar segir m.a. að þau rök sem fram komi í frumvarpinu fyrir breytingunni fullnægi ekki þeim kröfum sem gera verði til rökstuðnings og tilgreiningar tilefnis og markmiðs með ráðgerðum breytingum.

Ef markmið frumvarpsins er fyrst og fremst, eins og lesa má út úr athugasemdum við frumvarpið, að lækka kostnað ríkissjóðs vegna gjafsókna þyrfti það að koma skýrt fram í athugasemdum og ég hlýt að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því áður en lengra er haldið hvort það sé rétt skilið að það sé fyrsta og síðasta markmið sem hann hefur að leiðarljósi þegar hann leggur fram þetta frumvarp.

Síðan er sér kafli, sem er 3. gr. frumvarpsins, þ.e. breyting á gjafsóknarheimild þjóðlendulaga. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt sé að veita aðila máls sem rekið er á grundvelli þjóðlendulaga, nr. 58 frá 1998, gjafsókn eða gjafvörn ef mál hans hefur að mati gjafsóknarnefndar verulega almenna þýðingu eða varðar verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að heimild sé veitt til gjafsóknar í slíkum málum, ég tel svo vera. En með hliðsjón af því að til stendur að fella heimildina niður í öllum öðrum málum þá hljómar einkennilega að gera þessa undantekningu. Og ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki heldur nægilega rökstutt í athugasemdum við frumvarpið af hverju þessi málaflokkur er sérstaklega tekinn út úr. Röksemdir fyrir því að gera undantekningu í þjóðlendulögunum eru þar af leiðandi jafnfátæklegar og allar aðrar röksemdir sem fylgja þessu frumvarpi.

Jafnræðisrök eru nefnd til sögunnar, þ.e. að þar sem málarekstur sé þegar hafinn vegna ákvörðunar óbyggðanefndar á einu svæði þyki rétt að sömu reglur gildi vegna mála sem rekin yrðu á öðrum svæðum. En auðvitað eiga þessar röksemdir við um alla aðra málaflokka, virðulegi forseti. Af hverju í ósköpunum hafa mál vegna ákvörðunar þjóðlendunefndar það mikla sérstöðu að hæstv. ráðherra telur réttlætanlegt að gera undantekningu hvað þau varðar? Það má með sömu jafnræðisrökum halda því fram í öðrum málaflokkum að það eigi líka við, að ástæða sé til að gera undantekningu.

Þessi málatilbúnaður er því bara til marks um það að mínu mati hversu vanhugsað það er að fella þessa almennu heimild brott úr einkamálalögum. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að með þessari breytingu þrengi ríkisstjórnin markvisst að möguleikum almennings til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum og opinberum aðilum og þar er að mínu mati horft til fortíðar, því miður, virðulegi forseti. Verið er að fara aftur í tímann í þeirri þróun sem við höfum séð hingað til hér á landi, þótt fátækleg hafi verið hefur hún þó verið í rétta átt. Og ef horft er til annarra ríkja er alls staðar verið að stefna í öfuga átt í ljósi þess hversu mannréttindi eru viðurkenndari nú og það að borgararnir eigi þann sjálfsagða rétt að sækja sín mál sín gagnvart opinberum aðilum, þá hefur þróunin verið í öfuga átt. En hér á landi, virðulegi forseti, er verið að fara allt aðrar leiðir sem ég tel miður og verð því að lýsa því yfir hér strax í 1. umr. að ég er alfarið á móti þeirri efnisbreytingu sem kemur fram í frumvarpinu.

Ég hefði talið eðlilegra og meira í anda nútímalegra vinnubragða, virðulegi forseti, að auka möguleika almennings til opinberrar réttaraðstoðar frekar en að þrengja enn verulega að honum. Mér finnst það fátækleg rök að nefna þær 10–15 millj. kr. sem hugsanlega kunna að sparast vegna breytinganna þegar hafðir eru í huga almennir hagsmunir og e.t.v. möguleikar almennings til þess að sækja mál sín fyrir gagnvart stjórnvöldum.

Ég vil líka nefna að samkvæmt þessum tillögum yrði t.d. ekki talið mögulegt að sækja gjafsókn ef menn vildu leita sér aðstoðar fyrir erlendum dómstólum eins og Mannréttindadómstóli Evrópu. Í löndunum í kringum okkur hefur verið talið æskilegt að fólk ætti möguleika á að sækja sér slíka réttaraðstoð, eins og m.a. kom fram hjá bæði fulltrúa Lögmannafélagsins og einhvers staðar víðar í umsögnum, því í ljósi þess hvernig þróunin hefur verið eiga mannréttindi að sjálfsögðu ekki bara að snúast um fjárhag fólks.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst eins og heyra má af þessari ræðu minni að ég treysti mér til þess núna strax við 1. umr., sem ég geri ekki mjög oft, að lýsa mig andsnúna meginefni þessa frumvarps einkum í ljósi þess að það fékk góða umfjöllun í hv. allsherjarnefnd og því miður þá hefur hæstv. dómsmálaráðherra tekið mið af athugasemdum allsherjarnefndar og þeim breytingum sem meiri hluti allsherjarnefndar lagði til. Hann hefur hins vegar ekki tekið mið af þeim alvarlegu athugasemdum sem komu fram hjá minni hlutanum eða í fjölda umsagna sem komu fram um málið.



[16:17]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, Bryndísar Hlöðversdóttur. Þess ber að geta að ég er áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd og sat fundi nefndarinnar þegar fjallað var um þetta mál og lýsti mig samþykka niðurstöðu minni hlutans, þ.e. nefndaráliti því sem birt var á þskj. 1661 á síðasta löggjafarþingi.

Það sem var rakið hér í ræðu síðasta hv. þingmanns og er, að mati okkar sem erum andsnúin þessu frumvarpi, ámælisvert að það skuli eiga að fella niður almenna heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Það kom fram í umfjöllun allsherjarnefndar um málið að slík mál sem hér um ræðir gætu t.d. verið vegna umhverfismála. Einnig voru nefndar kærur vegna kosninga og kvartanir eða kærur vegna ráðherraúrskurða. Þannig að hér er um að ræða ákveðið bragð stjórnvalda til að koma sér undan kærum vegna ráðherraúrskurða, þar sem almenningur telur sig eiga eitthvað sökótt við ráðherrana og stjórnsýslu þeirra og hefur hingað til heyrt undir gjafsóknarákvæði, en nú á að fækka þessum gjafsóknarmálum fyrst og fremst með því að koma í veg fyrir að mál af þessu tagi verði rekin á grundvelli gjafsókna.

Þetta vekur sannarlega athygli, vegna þess að þetta stríðir auðvitað gegn þeirri þróun sem hefur verið og er í nágrannalöndum okkar mjög sýnileg og markast t.d. í umhverfismálunum af samningi sem nefndur er Árósasamningurinn og stendur fyrir dyrum að fullgilda hér á Íslandi.

Árósasamningurinn gerir ráð fyrir því að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð og greiðan aðgang að upplýsingum í umhverfismálum. Ég sé ekki betur og við í allsherjarnefndinni sem fjölluðum um málið á síðasta ári, en að efni þessa frumvarps stangist illilega á við þær skyldur sem stjórnvöld ætla sér að undirgangast og þurfa að undirgangast, samkvæmt þessum samningi, Árósasamningnum. Ég sé ekki betur en það sé útilokað samkvæmt núgildandi reglum að fá heimild til gjafsóknar til þess að sækja mál fyrir alþjóðlegum dómstólum. Á því virðist engin breyting ætla að verða samkvæmt þessu frumvarpi.

Slíka heimild má hins vegar sjá í reglum nágrannaríkja okkar og þess vegna væri eðlilegt að taka upp sambærileg ákvæði hér á landi, en ekki að byrja rétt áður en við gerumst fullgildir aðilar að Árósasamningnum og undirgöngumst það að leiða ákvæði hans í lög hér á landi, að þrengja löggjöf okkar þannig að það verði ekki pláss fyrir gjafsókn á þessu sviði.

Þetta breytir auðvitað gífurlega miklu. Þetta breytir t.d. því að fólk sem ætlar sér að gæta hagsmuna náttúruverndar og umhverfisverndar verður þá sjálft að kosta málsókn sína, því náttúran og umhverfið eiga sér engan talsmann eða málsvara — sérstaklega ekki þegar ríkisstjórnin er eins innréttuð og raun ber vitni — að jafnvel þó um sé að ræða málshöfðun gegn stjórnvöldum sem hafa að mati einstaklinganna brotið rétt á þeim sem eiga að gæta þessara hagsmuna að öðru leyti.

Það er því augljóst, frú forseti, að hér er um mjög mikilvæg mál að ræða. Mér finnst að þessi mál hljóti að geta varðað einstaklinga og almenning mjög miklu. Það er í sjálfu sér ámælisvert að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki eyða á það orði í ræðu sinni hér áðan að þessi atriði voru öll til umfjöllunar í allsherjarnefnd þegar við fjölluðum um málið á síðasta þingi. Hæstv. ráðherra hefði svo sannarlega getað komið inn á þessi atriði og svarað þeim með einhverjum hætti í ræðu sinni, t.d. því hvað kvartað var undan lélegum rökstuðningi í greinargerð með frumvarpinu.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gat um hér áðan að rökstuðningurinn sem greinargerðin byggir á er afar veikur og það virðist vera að fela eigi hæstv. ráðherra að meta þessa hluti í reglugerðarheimildum án þess að löggjafinn komist með sín sjónarmið að borðinu. Þannig að ég held að svona víð reglugerðarheimild og illa rökstudd eins og gert er ráð fyrir að hér verði lögleidd sé ámælisverð og varasöm og hefði talið að hér hefði þurft að standa mun betur að málum og undirbyggja mun betur þann rökstuðning sem hæstv. ráðherra hefur fyrir þessum breytingum, ef hann hefur þá einhvern rökstuðning.

Það kom líka fram í umfjöllun allsherjarnefndar um málið að ekki væri líklegt að breytingarnar mundu leiða til mikils sparnaðar, þannig að ég sé ekki að þetta mundi skipta sköpum hvað það varðar þó að einhver mál sem gætu kannski verið þrjú, fjögur, fimm á ári, svo skotið sé út í bláinn, mundu fylgja með í þessum gjafsóknarpakka.

Það er alveg ljóst að almenningur er orðinn meðvitaðri um þann rétt sem hann hefur samkvæmt lögum til að leita heimilda til gjafsókna. Við í allsherjarnefnd fengum mjög fína yfirferð frá aðilum í gjafsóknarnefndinni varðandi það hvernig þær heimildir sem eru veittar eru rökstuddar. Ég verð að staðfesta það hér að það virðist vera afar vel og skynsamlega á málum haldið í þeirri nefnd og mjög rökfastur málflutningur nefndarmanna sem komu fyrir nefndina. Ég sé því ekki annað en að hæstv. dómsmálaráðherra verði að skoða ofan í kjölinn á nýjan leik hvað hér er á ferðinni og svara með einhverju móti þeirri gagnrýni, sem er mjög málefnaleg, sem hefur komið fram á þetta mál. Ég held að það verði að gerast í 1. umr.



[16:24]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra mælir fyrir þessari lagabreytingu sem hér er til umræðu. Mér fannst hæstv. dómsmálaráðherra leggja mikið út af því að kostnaður við þessi mál væri að aukast. Auðvitað ber hæstv. dómsmálaráðherra sem vörslumanni ríkisfjár á sínum pósti að passa upp á þessa hluti og er það vel að svo sé. Það er aftur spurning hvers vegna þetta er að aukast.

Ég vil ætla, hæstv. dómsmálaráðherra leiðréttir mig þá í því, að almennt sé málum fyrir dómstólum að fjölga, umfang löggjafar sem sett er fyrir þegnana er allt að verða meira og af því getur leitt meiri ágreining en þar sem löggjöf er lítil að vöxtum og einföld. Það glímum við auðvitað við í hinum hefðbundnu dómstólum óháð gjafsókn.

Hér er verið að fara nokkuð inn á það að ákvarða þessa hluti í reglugerðum. Ég er mjög mótfallinn því að reglugerð leysi allt af hólmi. Við eigum að mæla ítarlega fyrir um hlutina í löggjöf og ég hefi talið og flutt um það þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi og áður í tvígang, um eftirlit Alþingis með framsali löggjafarvalds, af því Alþingi hefur að mínu viti gengið allt of langt í því að framselja löggjafarvald til framkvæmdarvaldsins og það þarf að skerpa skilin sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrár. Það er auðvitað Alþingi sem fer með löggjafarvaldið. Hér erum við að tala um það sem snýr að dómsmálum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fella burt b-lið 126. gr. laganna eins og hann hljóðar núna, þar sem rætt er um mál sem hafa verulega almenna þýðingu. Ég hef litið þannig á þau mál sem stundum hafa verið kölluð prófmál, að eitt mál varðar marga, að þeir sem eru að leggja í slík mál gerast vissir brautryðjendur, ryðja slóð fyrir aðra og taka það á sínar herðar. Það réttlætismál að mínu viti að hið opinbera leggi sitt til að auðvelda þeim þá göngu. Það léttir líka það sem á eftir fer.

Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að kostnaður hefði aukist hér. Mig langar til að spyrja hann hvort hann hafi upplýsingar um að kostnaður vegna gjafsóknarmála hafi vaxið og hvort það sé þá línuleg fylgni. Hefur gjafsóknarmálakostnaður verið að vaxa umfram annan kostnað af auknum málafjölda?



[16:27]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður. Að vísu hefur lítið nýtt komið fram í þeim miðað við umræður sem fóru fram á síðasta þingi og það er ljóst að þeir sem voru á móti þessu máli þá hafa ekki skipt um skoðun þrátt fyrir umræður um málið og þrátt fyrir að að sjálfsögðu hafi verið færð rök fyrir þessum breytingum. Mér finnst svolítið einkennilegt að tala hér hvað eftir annað um þessi atriði. Sömu þingmennirnir tala um að það vanti rök þótt þeir séu ósammála máli sem er ekki það sama og að rök vanti í málum. Mér finnst það einkennilegur málflutningur, virðulegi forseti, að hlusta á ræður sí og æ um þessi mál og eins það þótt menn séu ósammála málum þá geti þeir ekki fallist á þau rök sem eru flutt fyrir máli. Það er heldur takmarkað umburðarlyndi fyrir skoðun annarra sem menn sýna með því.

Varðandi útgjöldin til gjafsóknarmála þá vil ég bara vísa til þess sem ég svaraði á síðasta þingi. Það voru mjög ítarlegar upplýsingar lagðar fram þá. Það hefur einnig verið spurt um þetta mál núna í upphafi þessa þings. Það er verið að taka upplýsingarnar saman, þannig að ég verð að vísa til þess. Ég er ekki með tölurnar hér á hraðbergi, enda taldi ég það ónauðsynlegt miðað við að þær hafa verið lagðar fram og verið er að vinna úr þeim núna vegna fyrirspurna sem komu fram hér í þinginu og þær munu að sjálfsögðu liggja fyrir.

Ef mönnum finnst fjárhæðin 10–15 millj. lág, er það þá ekki til marks um að þessi mál séu ekki mörg og þess vegna sé ekki ástæða til að fara þannig orðum um þetta eins og háttvirtir þingmenn voru að gera; að það væri verið að vega að einhverjum gífurlegum réttindum og réttlætismálum með því að setja þessar reglur svona skýrar. Það hefur komið í ljós við framkvæmd málanna og framkvæmd þessara reglna að það er nauðsynlegt að setja skýrari reglur um þetta, setja í lagarammann ákveðnari viðmið heldur en eru í núgildandi lögum og það er verið að gera með þessu frumvarpi.

Það hefur að sjálfsögðu verið rætt um þessi mál við gjafsóknarnefnd og haft samstarf við hana í mörgu tilliti þegar litið er á gerð frumvarpsins, auk þess sem nefndin kom að sjálfsögðu fyrir allsherjarnefnd á sl. vetri eins og fram hefur komið. Henni er því fullkunnugt um málið sem er til umræðu.

Þegar hv. þm. gera því skóna að með frumvarpinu og breytingunum sé verið að vega að sérákvæðum, eins og í svonefndum Árósasamningi sem hugsanlegt er að verði lögfestur hér eða hvaða aðferð sem menn viðhafa, að setja einhverjar skorður við því sem menn gangast undir með gerð þess samnings er alrangt. Þegar menn setja sérreglur og sérlög ganga þau framar þeim reglum sem settar eru á þann almenna hátt sem gert er með gjafsóknarreglunum. Það er því ástæðulaust að vera með slíkar lagaskýringar og leggja mál út á þann veg sem gert var, að með almennu reglunum sé verið að takmarka einhverjar sérreglur sem kunna að verða lögfestar og ganga lengra og hafa gildi hvað sem hinum almennu reglum líður.

Varðandi það að rökin í málinu séu óljós eru þau náttúrlega mjög einföld og skýr. Verið er að leggja á ráðin um það með breytingunum að fjárhagur þess sem hefur málsókn ráði. Það er meginreglan sem verið er að árétta með frumvarpinu og verið að draga þá línu skýrar en í gildandi lögum. Það þarf enginn að fara í grafgötur um það. Menn geta verið því sammála eða ósammála, en þurfa ekki að standa og kvarta undan því að það vanti rök fyrir jafneinfaldri reglu og þarna er sett.

Einnig er rétt að hafa í huga að ef menn fara í mál, hvort sem þeir eru auðugir eða nota gjafsóknarréttinn, fá þeir sakarkostnaðinn greiddan sér dæmdan ef þeir vinna málið. Þetta er hin einfalda og skýra regla sem menn þurfa að hafa í huga, sérstaklega lögfræðingar sem hér taka til máls og fjalla um þessi mál. Það má ekki gleyma því að vinni menn mál og séu með gott mál fá þeir sakarkostnaðinn greiddan og þurfa ekki að bera hann.

Vikið hefur verið að reglugerðinni og ég get tekið undir með þingmönnum að heimildin er rík í frumvarpinu til setningar á reglugerð. Við upphaf umræðunnar sagði ég að reglugerðarheimildin hafi verið vandlega ígrunduð í ráðuneytinu og að ég hefði í hyggju að kynna allsherjarnefnd málið til hlítar með því að senda henni drög að reglugerðinni þegar málið væri þar til umfjöllunar. Það er því ekki verið að fara á bak við þingmenn eða allsherjarnefnd varðandi setningu reglugerðarinnar, heldur verður málið kynnt fyrir þingmönnum og allsherjarnefndinni á þann veg að þeir munu fá drögin til skoðunar.

Ég held því að ekki sé hægt að nálgast málið þannig að það hafi verið illa að því staðið eða einhver rök í málinu skorti, sérstaklega ekki þegar litið er til þess að málið var til umræðu á þingi sl. vetur. Álit meiri hluta allsherjarnefndar liggur fyrir. Það hefur verið fjallað um það. Það liggja einnig fyrir umsagnir manna um þetta hjá nefndinni. Síðan geta menn verið sammála eða ósammála eins og gengur og náttúrlega hlutverk okkar líka að vera ósammála ef svo ber undir og menn verða að sætta sig við það, út á það ganga stjórnmálin öðrum þræði.

Sagt var að það skorti rök, m.a. þegar rætt væri um þjóðlendumálin í frumvarpinu. Það segir sérstaklega t.d. í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að ákvæðið byggist bæði á því að ríkið hafi haft frumkvæði að lagasetningunni um þjóðlendurnar og kröfugerð og að mál vegna ákvarðana óbyggðanefndar séu þegar hafin á einu landsvæði þannig að eðlilegt þyki að sömu reglur gildi um ákvarðanir nefndarinnar á öðrum svæðum.

Ég sé ekki annað en að þetta séu mjög skýr og góð rök fyrir því að taka málið þeim tökum sem gert er í frumvarpinu og hafa ákvæði frumvarpsins með þessum hætti. Ég veit ekki hvaða einfaldari og skýrari rök menn þurfa til þess að átta sig á því að þjóðlendumálið hefur algera sérstöðu þegar litið er til mála af þeim toga þar sem ríkið hefur fallist á að greiða kostnað við málsókn. Þetta styður mig því enn í þeirri skoðun að þær sífelldu fullyrðingar að hér skorti einhver rök eiga ekki við rök að styðjast og eru úr lausu lofti gripnar til þess að villa mönnum sýn þegar málið er til umræðu. Einnig það tal að það sé einhver þróun, eins og það séu einhverjir náttúrukraftar á ferðinni í heiminum sem leiði til þess að ríkið eigi að standa undir kostnaði við málaferli hvers og eins þegar honum dettur í hug að stefna ríkinu eða einhverjum öðrum á einhverjum óljóst skilgreindum forsendum, að það sé náttúruþróun eða einhver heimsþróun sem við séum að fara á mis við með því að taka á málum eins og sagt er í frumvarpinu. Það er álíka mikil rökleysa og að halda því fram að það skorti rök fyrir því að hafa sérstök ákvæði um þjóðlendumálin í frumvarpinu.



[16:36]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að hæla hæstv. ráðherra fyrir það að hann gaf yfirlýsingu um að reglugerðin yrði kynnt fyrir allsherjarnefnd áður en hún verður birt. Það er sannarlega virðingarvert og ekki vanþörf á í málum sem hafa verið gagnrýnd eins og þetta mál. Það er því virðingarvert og ég tek það sérstaklega fram.

Komið hefur fram í umræðunni að hér sé um fremur lága upphæð að ræða og ekki mörg mál. Þetta er engu að síður upphæð sem skiptir sköpum fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. Það er alveg ljóst að b-liður 126. gr. sem gjafsóknarnefnd hefur haft tök á að veita fólki gjafsókn út á hefur ekki verið mikið notaður en hefur verið notaður í málum þar sem fólk hefur stefnt ríkinu vegna t.d. ráðherraúrskurða.

Þess vegna sýnist mér alveg augljóst að hæstv. ráðherra sé að beita sér fyrir því að slík mál komi ekki lengur upp á borð sem gjafsóknarmál. Það verði eingöngu fólk sem á umtalsverða fjármuni umleikis sem getur farið í þannig mál eða treystir sér til þess. Auðvitað veit hæstv. ráðherra eins vel og við öll að það er undir hælinn lagt hvort mál vinnast fyrir dómi eða ekki. Fólk getur aldrei vitað fyrir fram hvort mál vinnast eða ekki og kannski allra síst mál af því tagi sem hér um ræðir, þar sem stjórnsýslulegur vafi getur leikið á um stjórnsýslulegar athafnir hæstv. ráðherra.

Ég segi því enn og aftur að það er ámælisvert að hér skuli verið að taka úr sambandi möguleika á gjafsókn þess fólks og þeirra mála sem hér um ræðir. Ég stend því fast við gagnrýni mína.



[16:38]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verið er að ákveða, ef frumvarpið verður að lögum, að þeir fjármunir úr ríkissjóði sem nýta skuli til gjafsókna skuli renna til þeirra sem minnst fjárforræði og minnst fjárráð hafa í landinu. Þau mál sem hv. þm. ber sérstaklega fyrir brjósti tel ég að snerti ekki þann hóp fólks. Ég held að aðrir standi í málaferlum en þeir sem þurfa í raun og veru á fjárstuðningi ríkisins að halda til þess að stofna til málaferla. Verið er að leggja á ráðin um að þeir opinberu fjármunir séu nýttir í þágu þeirra sem þurfa á þeim að halda, vegna þess að þá skortir fé til þess að fara í málaferli.

Þeir sem hv. þm. ber fyrir brjósti eru ekki í þeim flokki. Það er alveg ótvírætt að mínu mati að það fólk er ekki að velta þeim málum fyrir sér sem hv. þm. gerir að umtalsefni.



[16:39]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst andsvar hæstv. ráðherra staðfesta það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu, að það er einmitt það sem hæstv. ráðherra ætlar að forðast með lagasetningunni. Hann ætlar að forðast það að einstaklingar geti fengið gjafsókn ef þeir telja sig eiga eitthvað sökótt við hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, telja hæstv. ráðherra misfara á einhvern hátt með vald sitt. Það er ósköp eðlilegt að menn vilji reyna að komast undan slíkum málum og segja: „Þeir verða bara að kosta það sjálfir þeir einstaklingar úti í bæ sem vilja setja spurningarmerki við stjórnvaldsaðgerðir hæstv. ráðherra.“

Ég er því ekki að gera athugasemdir við það að efnalítið fólk fái gjafsókn, en ég geri athugasemdir við það að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar skuli beita sér fyrir því að ráðherrarnir komist hjá því að fá á sig málshöfðanir sem fólk færi mögulega ekki út í fengi það ekki gjafsókn. Þar eru t.d. umhverfismálin hátt skrifuð, mál er varða kosningar og önnur mál sem lúta beinlínis að stjórnsýslu hæstv. ráðherra.

Ég get ekki annað en mótmælt hæstv. ráðherra enn einu sinni varðandi það að ekki sé fótur fyrir ásökunum okkar um að málin séu illa rökstudd, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða rökstuðningur er það varðandi það að fella niður b-lið í 126. gr., þar sem segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Ákvæði b-liðar er afar víðtækt og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.“

Þetta er eini rökstuðningurinn. En auðvitað hefur hæstv. ráðherra komið inn á það í andsvari sínu hvað býr raunverulega að baki.



[16:42]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að árétta að frumvarpið gengur út á að tryggja að fjármunir úr ríkissjóði til gjafsóknar renni til þeirra sem ekki hafa fjárhagslega burði til þess að fara í málaferli, hvers kyns málaferli. Ef einhver ætlar að fara í mál við ríkið án þess að hafa til þess fjárhagslega burði á hann rétt á gjafsókn. Það er ekkert flóknara en það.

Ég tel hins vegar að í þeim málaflokki sem hv. þm. ber sérstaklega fyrir brjósti og hefur gert að umtalsefni sé auðvelt að afla fjár á annan veg en að leita til ríkisins og það eigi ekki við almennt um þann málaflokk og þau mál sem hv. þm. ber fyrir brjósti. Þeim mun almennari sem málstaðurinn er og kröfugerðin í slíkum málum, þeim mun auðveldara er að afla fjár almennt til þess að fara í slík mál. Þar eiga ekki þau rök við sem eru grundvallarrökin á bak við hugmyndafræðina um gjafsókn, að auðvelda þeim sem hafa ekki fjárhagslega burði til þess að fara í mál, hvers kyns mál. Málið snýst um það en ekki hitt, að mismuna mönnum eftir því hvernig málatilbúnaðurinn er heldur að taka mið af því hvernig fjárhagslegir burðir einstaklinganna eru.

Mér finnst einkennilegt að þetta sjónarmið sé að engu haft í umræðunum og talið að það sé skortur á rökum þegar það er lagt til grundvallar, sem er grunnhugmyndin á bak við gjafsóknarhugmyndina frá upphafi til enda. Sérstakir hugsjónamenn geta svo alltaf bætt við og hengt einhverja pinkla og sagt: Í málaflokki mínum vil ég að ríkið borgi líka ef mér dettur í hug að fara í mál við ríkið eða einhvern annan.

Það er bara ekki þannig. Gjafsóknin snýst ekki um það heldur að sjá til þess að fólk sem ekki hefur fjárhagslega burði geti farið í málaferli.



[16:44]
Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki hafa andsvör eða frekari svör hæstv. ráðherra í málinu sannfært mig, heldur þvert á móti sýnt fram á og sannað það sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni, að með frumvarpinu er hæstv. ríkisstjórn fyrst og síðast að koma í veg fyrir eða þrengja möguleika almennings til þess að sækja mál á hendur opinberum aðilum. Það er ekkert annað sem býr að baki, virðulegi forseti.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir, og hann má eiga það að hann segir það hreint út, að honum finnist eðlilegt að hafa það fyrirkomulag að borgararnir geti sótt mál gagnvart stjórnvöldum ef þeir telja á sér brotið, m.a. vegna mannréttinda, en einungis eðlilegt að þeir fái gjafsókn ef þeir hafi bágan efnahag.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að miðað hefur verið við skattleysismörk í þessum efnum, sem mér er sagt að séu í kringum 72 þús. kr. í dag. Hæstv. dómsmálaráðherra telur eðlilegt að þeir sem eru yfir þeim mörkum, yfir þeim tekjum, eigi ekki rétt á að fá gjafsókn í málum sem hér hafa verið talin upp af hugsjónafólkinu, sem hæstv. dómsmálaráðherra kallar svo, andstæðingum þessa frumvarps. Hvaða mál vorum við að tala um? Meðal annars öll helstu mannréttindi, t.d. réttindi er varða friðhelgi einkalífs og önnur hefðbundin mannréttindi. Ef borgararnir vilja sækja það gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni og telja á sér brotið þá fá þeir ekki gjafsókn í þeim málum samkvæmt tillögum hans nema að tekjur þeirra séu 72 þús. kr. eða þar undir.

Mér finnst þetta, virðulegur forseti, undarlegur málflutningur. Ég verð að segja eins og er, að mig hryllir við þessum málflutningi. Ef vandamálið væri svo gríðarlega stórt og kostnaður ríkisins svo gríðarlegur af þessum málum að ástæða væri til að halda að óeðlileg þróun væri í gangi þá mundi ég skilja hæstv. dómsmálaráðherra betur.

Aðspurður gat ráðherra ekki svarað því hvort þessi fjölgun væri meiri en fjölgun mála fyrir dómstólum á sama tíma. Kann að vera, virðulegi forseti, að það sé eðlileg skýring á þessari aukningu, að málum fyrir dómstólum hafi einfaldlega fjölgað og hlutfall mála af þessu tagi sé hið sama og áður hefur verið? Þessu verður hæstv. dómsmálaráðherra að svara. Ég hefði talið eðlilegra að hann svaraði því áður en hann legði fram slíkt frumvarp á grundvelli sparnaðar. (Dómsmrh.: Það var gert á þinginu í fyrra.) Þessu var ekki svarað á þinginu í fyrra, virðulegi forseti. Þá var svarað fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, ef ég man rétt. Þar kom ekki fram hlutfall þessara mála. Þar komu fram tölur og fjöldi mála en eftir því sem ég best man kom það ekki fram hvort hlutfall gjafsóknarmála af heildarfjölda dómsmála væri stærra. Auðvitað hlýtur það að vera grundvallarstærð í þessu máli.

Ég sé ekki betur en að fyrir hæstv. dómsmálaráðherra liggi fyrirspurn þar sem nákvæmlega þetta kemur fram. Þetta er grundvallaratriði. (Dómsmrh.: Henni verður svarað.) Henni verður svarað en ég hefði haldið, virðulegi forseti, að betra væri fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að skoða þetta áður en hann leggur fram sparnaðarhugmyndir af því tagi sem hér birtast, sem geta varðað hagsmuni almennings svo miklu.

Ég hef þvert á móti harðnað í andstöðu minni. Mér finnst af máli hæstv. dómsmálaráðherra að dæma sem hann sýni ákveðna lítilsvirðingu, og það kemur mér á óvart, málum þar sem borgararnir sækja rétt sinn gagnvart ríkisvaldinu. Kannski hefur hann verið allt of lengi við völd. Það kann að ráða því að hann er farinn að horfa til þess sem ákveðins óþarfa að almenningur og borgarar þessa lands skuli sækja rétt sinn, m.a. í mannréttindamálum. Jú, allt í lagi, þeir geta fengið gjafsókn ef þeir eru bláfátækir og tekjur þeirra eru undir 72 þús. kr. en ekki ef þeir hafa 73 þús. kr. eða 74 þús. kr. í tekjur. Mér finnst að í máli hæstv. dómsmálaráðherra birtist okkur alvarleg þróun. Ég vara við því að þessi leið sé farin án þess að fyrir liggi svör við ákveðnum grundvallarspurningum sem ég hef minnst á.

Mér virðist hæstv. dómsmálaráðherra láta að því liggja að það hafi verið vandamál við framkvæmd þessara mála, verið einhver lausung í þessu. Hann talaði um það áðan að óeðlilegt væri að menn gætu endalaust fengið gjafsókn í málum sem jafnvel væru ekki nægilegt tilefni málssóknar, væru illa rökstudd o.s.frv. Ég held að hæstv. dómsmálaráðherra viti það jafn vel og ég að það er til reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar. Þar er mjög skýrt um þetta fjallað. Í 2. gr. þeirrar reglugerðar segir m.a., með leyfi forseta:

„Umsókn skal vera ítarlega rökstudd og þar skal meðal annars fjallað um:

a. helstu málsatvik, málsástæður og lagarök,

b. hvort nægilegt tilefni sé til málshöfðunar eða málsvarnar,

c. fjölskylduhagi umsækjanda ...“ — o.s.frv.

„d. hvort úrlausn máls hafi almenna þýðingu ...“

Þetta er mjög ítarlega tilgreint í reglugerðinni. Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra veit jafn vel og ég að gjafsóknarnefnd hefur starfað eftir mjög skýrum reglum. Þær eru birtar á vef hæstv. dómsmálaráðherra, þ.e. vef dómsmálaráðuneytisins.

Mér finnst ekki rétt að láta að því liggja og gefa í skyn að einhver lausung hafi verið á þessu, að þetta sé opin bók fyrir almenning, að ná sér í fría málssókn fyrir dómstólum eins og framkvæmdin hefur verið. Þvert á móti þá virtist mér, í umfjöllun allsherjarnefndar og eftir að hafa rætt við þá sem fyrir nefndina komu, að ekki hafi verið neinir hnökrar á þessari framkvæmd. Sú röksemdafærsla gengur einfaldlega ekki upp.

Eftir standa, að því er mér finnst, lítilsgild rök hæstv. ráðherra fyrir því ástæða sé til að þrengja að möguleikum borgaranna til að sækja rétt sinn ef þeir telja á sér brotið. Við skulum muna það, virðulegi forseti, að um er að ræða mál þar sem fólk telur á sér brotið af hendi opinberra aðila eða stjórnvalda. Ég tel að þrengt sé um of að möguleikum fólks til málssóknar með því að miða það við skattleysismörk að fólk eigi rétt á gjafsókn.

Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra ætti ekki að þurfa að leggja í slíka vegferð. Ég stend við það sem ég sagði áðan og fleiri hafa sagt það. Mér finnast þetta illa rökstuddar breytingar. Hæstv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir endurtók það sem við báðar og fleiri höfum nefnt hérna til sögunnar úr greinargerð með frumvarpinu, að það þyki „ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis.“

Ef það hefðu verið raunveruleg vandamál með framkvæmdina, ef það hefði verið lausung á málinu og það óskýrt, ákveðin réttaróvissa í gangi og ef gjafsóknarnefnd hefði veitt slíkar heimildir á grundvelli geðþóttaákvarðana, þá mundi ég skilja hæstv. dómsmálaráðherra. En svo virðist bara ekki hafa verið. Ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að upplýsa það ef svo hefur verið, hafi verið ávísað ótæpilega á ríkissjóð á grundvelli gjafsóknarákvæðisins.

Enn og aftur: Ég hef frekar herst í trú minni og afstöðu gegn þessu frumvarpi, virðulegi forseti.



[16:52]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki gert að því þótt fólk forherðist í trúnni í umræðum af þessu tagi. Það er ekki vandamál sem ég þarf að glíma við í þessu máli. Ég sannfærist alltaf betur og betur um að nauðsynlegt sé að setja um málið skýrari reglur. Í greinargerð með frumvarpinu eru m.a. settar fram röksemdir fyrir því að setja skýrari reglur, ef hv. þingmenn hafa fyrir því að lesa það. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er þannig ætlunin að gera skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar skýrari og tekur frumvarpið að því leyti mið af álitum umboðsmanns Alþingis.“

Hér kemur fram að þetta er m.a. gert vegna álita umboðsmanns Alþingis til þess að taka af skarið um álitamál sem hann hefur vikið að. (BH: Reglugerðin ...) Maður stendur í þessum ræðustól af og til og er skammaður fyrir að hafa álit umboðsmanns Alþingis að engu. En þegar álit hans er notað sem rök í frumvarpi af þessum toga og sagt frá því í greinargerðinni að það sé tekið mið af álitum umboðsmanns Alþingis þá er það haft að engu, sagt að það hafi ekkert komið fram og ekkert liggi fyrir um að einhverjir aðilar hafi bent á nauðsyn þess að gera ákvæðin skýrari.

Ég skora á hv. þm. að kynna sér þessi álit umboðsmanns Alþingis og þau álitamál sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. Ég stóð að því á sínum tíma að setja umrædd ákvæði í lög. Ríkisstjórn sem ég var í og studdi stóð að því að setja þau í lög. Sú röksemdafærsla þingmannsins að ég hafi verið andvígur því að þessi leið yrði farin er náttúrlega eins fráleit og verið getur. Ég er hins vegar maður til þess, þegar ég að hnökrar hafa verið á framkvæmdinni, að gera bragarbót á og reyna að gera hana skýrari þannig að menn velkist ekki í vafa og að fjármunirnir nýtist þeim sem í raun þurfa á því að halda að ríkið styrki þá til málssóknar.



[16:54]
Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra er ekkert að gera neitt skýrara. Hann er að taka út ákveðna heimild í b-lið 1. mgr. 126. gr. einkamálalaganna. Hann er að taka hana út, virðulegi forseti. Það er ekki rétt að með því séu viðkomandi ákvæði gerð skýrari. Það er bara ekki rétt. Það er verið að fella niður ákveðna heimild. Hins vegar kann að vera að komið væri til móts við álit umboðsmanns Alþingis með því að setja inn skýra reglugerðarheimild eða eitthvað slíkt í lögin. Hæstv. ráðherra heldur því fram að umboðsmaður Alþingis hafi farið fram á þessa breytingu. Deilan snýst um að taka út þessa tilteknu gjafsóknarheimild. Það er hæstv. dómsmálaráðherra að gera og um það snýst deilan.

Ég bið hæstv. dómsmálaráðherra um að benda mér á það álit umboðsmanns Alþingis þar sem hann — fróðlegt væri ef það væri hreinlega lesið upp úr því, virðulegi forseti — leggur til að þessi tiltekna gjafsóknarheimild sé felld úr lögunum. Ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að sýna mér það. Þá skal ég fremur beina gagnrýni minni að umboðsmanni Alþingis, hafi hann lagt það til. Umboðsmaður Alþingis kann að hafa lagt til breytingar á öðrum atriðum, t.d. að skýrar reglugerðarheimildir séu í lögum, sem er eðlilegasti hlutur í heimi, eins og 1. gr. gerir ráð fyrir. Mér finnst ansi ólíklegt, og leyfi mér að efast stórlega um það hér, virðulegi forseti, að umboðsmaður Alþingis hafi lagt til að þessi tiltekna heimild b-liðar 1. mgr. 126. gr. einkamálalaganna yrði felld út úr íslenskum lögum.

Auðvitað er verið að gera lög skýrari með því að fella þau niður, það má alveg segja það. En ég leyfi mér að efast um að umboðsmaður Alþingis hafi lagt það til.



[16:56]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið er náttúrlega til umræðu í heild. Ég veit ekki hvers vegna hv. þm. heldur því fram að ekki megi líta til þeirra ákvæða frumvarpsins sem koma til móts við álit umboðsmanns Alþingis og það sé eitthvað sem ekki má ræða í þingsalnum, þótt hv. þm. sé á móti tilteknu ákvæði í frumvarpinu. Frumvarpið er m.a. flutt til að taka á málum vegna álits umboðsmanns Alþingis.

Eins og ég benti á í ræðu minni áðan þá hafði þingmaðurinn ekkert fyrir sér í því þegar hún sagði að ekki væri rökstutt í frumvarpinu hvers vegna sérstaklega væri vikist undan því að breyta ákvæðum um þjóðlendumál og ákvarðanir óbyggðanefndar. Ég rakti skýr rök fyrir því. Þannig er sama hvaða atriði ég tek upp og ræði við hv. þm., röksemdafærslan hjá þingmanninum stenst bara ekki þótt hún telji mig skorta rök fyrir mínu máli. Hins vegar stenst ekki röksemdafærsla hv. þm.

Hitt er ljóst að okkur greinir á um ákveðið atriði í frumvarpinu. Það er í sjálfu sér ekki ámælisvert að þingmenn séu ekki sammála um alla hluti í þingsalnum. En það er ekki eina atriðið í þessu frumvarpi. Það eru fleiri atriði í frumvarpinu og m.a. er tekið á málum sem snerta álit umboðsmanns Alþingis.



[16:57]
Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Deilan snýst um tiltekið ákvæði þessa frumvarps og það veit hæstv. dómsmálaráðherra jafn vel og ég. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um niðurfellingu b-liðarins, sem oft hefur verið nefndur til sögunnar. Ég leyfi mér a.m.k. að draga þá ályktun af ræðu hæstv. dómsmálaráðherra að hann haldi því ekki fram að umboðsmaður Alþingis hafi lagt til niðurfellingu þessa liðar. Það er umdeildast í þessu máli og á því byggi ég andstöðu mína.

Varðandi þjóðlenduákvæðið þá er ekki rétt að ég hafi sagt að engin rök hafi verið færð fyrir því. Ég sagði að sú röksemdafærsla væri jafnfátækleg og önnur röksemdafærsla í frumvarpinu. Ég dró það m.a. fram að til sögunnar væru nefnd jafnræðisrök, þ.e. að þar sem málarekstur sé hafinn vegna ákvarðana óbyggðarnefndar á einu svæði þyki rétt að sömu reglur gildi vegna mála sem rekin eru á öðrum svæðum.

Ég benti líka á, virðulegi forseti, og trúi ekki öðru en hæstv. dómsmálaráðherra hafi heyrt það, að því nákvæmlega sama megi halda fram varðandi aðra málaflokka. Það eru önnur mál í gangi í öðrum málaflokkum þar sem fólk nýtur rýmri réttinda en sá sem yrði fyrir nýju lögunum hæstv. dómsmálaráðherra ef þau verða einhvern tímann að lögum. Ég undrast þetta, þótt ég ímyndi mér að ástæðan sé sú að þjóðlendulögin hafa ákveðna sérstöðu vegna þess að þar fer ríkið beinlínis gegn einstaklingum og á frumkvæðið að því. En auðvitað upplifa þeir einstaklingar sem telja sig órétti beitta af hálfu ríkisvaldsins eða opinberra aðila það nákvæmlega sama, að þeir séu órétti beittir.

Á fundi hjá hæstv. allsherjarnefnd var meira að segja nefnt dæmi um það þegar einstaklingur er pikkaður út vegna þess að nota á hann sem prófmál í málssókn skattyfirvalda gagnvart tilteknum hópi einstaklinga. Það má með sömu rökum segja að í slíkum málum þurfi að gæta jafnræðis og allir eigi þá að njóta gjafsóknar í slíkum málum. Ég sé ekki að rök séu fyrir því að draga þjóðlendulögin sérstaklega út, með fullri virðingu fyrir rétti þeirra sem þar eiga í hlut.