131. löggjafarþing — 13. fundur
 20. október 2004.
opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.
fsp. KLM, 81. mál. — Þskj. 81.

[14:00]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Í byggðaáætlun sem samþykkt var 3. maí 2002 getur að líta margar fallegar hugmyndir og góðan texta settan á blað. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar verði eftirfarandi.“ — Markmiðin eru síðan talin upp í fimm liðum.

Allt eru þetta góð orð á blaði þó að stundum finnist manni ekki eins mikið gert úr þeim hlutum sem þar eru settir á blað. Einn liðurinn sem á eftir fylgir snýr að eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni sem er samkvæmt áætluninni á ábyrgð forsætisráðherra eða forsætisráðuneytisins. Meginhugmyndin þar var að gerð yrði áætlun um að fjölga verkefnum og störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. með því að efla þær stofnanir sem fyrir eru í tengslum við endurskipulagningu opinberra stofnana, með fjarvinnslu, með flutningi verkefna frá opinberum aðilum til fyrirtækja þegar nýjar opinberar stofnanir eru settar á fót og hugsanlega með flutningi stofnana.

Markmiðið með þessu átti að vera, virðulegi forseti, að efla stærstu byggðarlögin — ég tek fram að þar stendur stærstu byggðarlögin — á landsbyggðinni jafnframt því sem opinber verkefni og þjónusta yrðu endurskipulögð og starfsemin gerð árangursríkari. Opinberar stofnanir á landsbyggðinni áttu ekki aðeins að hafa svæðisbundið þjónustuhlutverk með höndum heldur yrðu stofnanir sem þjóna öllu landinu einnig staðsettar á landsbyggðinni.

Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra setti málið í gang í janúar 2003 í aðdraganda kosninga. Hann fór skiljanlega að dusta rykið af málum og fékk til liðs við sig hv. þm. Halldór Blöndal, forseta Alþingis, og hv. þm. Magnús Stefánsson til að gera enn eina skýrslu og gera forsætisráðuneyti grein fyrir því hvernig þetta ætti að fara.

Niðurstaðan var sett fram í skýrslu og í framhaldi af því, virðulegi forseti, kemur fram að áfram eigi að vinna að þessu verkefni. Það var ekki tímasett eða skipulagt hvernig það ætti að gerast heldur fjallað um það á almennan hátt, sem sagt falleg orð á blaði rétt einu sinni í sambandi við byggðamál.

Í lokin segir að forsætisráðherra muni í framhaldi af þessari skýrslu vinna áfram að gerð tillagna og áætlun um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Að því var stefnt að þessi tillaga lægi fyrir á næstu mánuðum. Það var sú tillaga sem hv. þm. Halldór Blöndal tók þátt í að skila hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra.

Í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurningar sem sett er fram á þskj. 81:

„Hvað líður gerð áætlunar um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins?“



[14:03]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Kristjáns Möllers, fór forsætisráðherra þess á leit við alþingismennina Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson, í byrjun árs 2003, að vera með sér í ráðum um þau mál sem hann rakti og ég ætla ekki að rekja frekar. Þeir funduðu með einstökum ráðherrum og öfluðu upplýsinga um hvaða verkefni og störf hefðu verið færð til landsbyggðarinnar eða áform væru um að færa þangað. Þeir skiluðu skýrslu sinni til forsætisráðuneytisins í nóvember.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að í viðræðum við ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi komið fram vilji til að nýta þau tækifæri sem gæfust til að styrkja opinbera þjónustu á landsbyggðinni með því að flytja þangað verkefni og störf sem bæði eru takmörkuð við staðbundna þjónustu sem og þjónustu við stærri svæði.

Skýrsluhöfundar benda á að því séu ýmsar skorður settar hversu hratt og í hve ríkum mæli slíkur flutningur á verkefnum og störfum geti orðið. Í því sambandi vilja þeir að áhersla verði einkum lögð á eftirfarandi:

„Að styrkja þær stofnanir sem eru til staðar á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni þar á meðal frá öðrum ráðuneytum. Í því sambandi megi m.a. nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur.

Að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar. Beina beri athygli sérstaklega að einum byggðarkjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi beri einkum að hyggja að eflingu menntastofnana og sjúkrahúsa. Jafnframt sé mikilvægt að styrkja þá vísa að rannsóknastarfsemi sem byggðir hafa verið á landsbyggðinni með fjölgun verkefna og samstarfi fleiri stofnana.“

Þegar skýrsluhöfundar, hv. þingmenn Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson, ræddu við einstaka ráðherra haustið 2003 var kjörtímabilið nýlega hafið og takmarkað ráðrúm hafði gefist til að móta aðgerðir í þessa veru á kjörtímabilinu. Því hefur forsætisráðherra farið þess á leit við þá að afla að nýju upplýsinga um áform einstakra ráðherra um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

Skýrsluhöfundar hafa skrifað ráðherrum bréf þar sem þessara upplýsinga er óskað og er þess að vænta að svör þeirra berist á næstu dögum og vikum. Í framhaldi af þeim svörum verður hugað nánar að mótun áætlunar um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.

Ég vil hins vegar taka fram að áætlanir eru góðra gjalda verðar. Menn mega ekki tala, eins og mér fannst hv. þm. gera, eins og almennt sé ekkert að gerast í þessum málum. Hér var sérstaklega lögð áhersla á menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og rannsóknastofnanir. Það er verið að byggja upp skóla um allt land. Ég vil nefna Háskólann á Akureyri, Hvanneyri og Bifröst. Ég vil nefna háskólasetur á Vestfjörðum og Austurlandi. Þessi starfsemi er öll í miklum blóma. Það hefur tekist að efla verulega heilbrigðisstofnanir úti á landi og rannsóknastarfsemi fer vaxandi.

Nýlega kom fram að aðeins hefði fjölgað í tveimur landshlutum á síðasta ársfjórðungi, það er á Austurlandi og Suðurlandi. Það er víða blómlegt í landinu öllu. Þess vegna mega menn ekki tala á Alþingi með þeim hætti að það sé nákvæmlega ekkert að gerast, eins og mér finnst hv. þm. oft gera og tala kjarkinn úr landsmönnum.



[14:07]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Frumatvinnuvegir landsbyggðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa því miður verið á undanhaldi. Auðvitað horfir landsbyggðin til þess að opinberum störfum verði fjölgað þar þótt ekki væri nema í hlutfalli við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Það að setja niður opinber störf á ákveðnum stöðum treystir byggð og treystir eignir fólksins sem byggir þá staði. Ég hef bent á að víða á landsbyggðinni hafa fasteignir fólks rýrnað. Það mun vera til skoðunar hjá Alþingi eftir að ég flutti þingsályktunartillögu um það efni.

Það treystir eignir fólks á höfuðborgarsvæðinu þegar opinberum störfum fjölgar hér og eins og ég segi mundi hið sama gerast á landsbyggðinni. En það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir, að sitthvað hefur verið gert og það ber að þakka.

Ég lagði fram fyrirspurn á 128. löggjafarþingi til allra ráðuneyta og ráðherra um hvernig störfum hefði fjölgað í viðkomandi ráðuneytum og hver skiptingin væri milli landshluta.



[14:08]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra benti á í lok ræðu sinnar, að margt hefur gerst á landsbyggðinni, ýmis störf verið flutt þangað og margt af því hefur tekist afar vel. Þess vegna skilur maður ekki hvers vegna hægagangurinn er svo mikill. Af hverju gefa menn þá ekki frekar í.

Það gekk t.d. mjög vel að flytja Landmælingar Íslands upp á Akranes. Við höfum séð Háskólann á Akureyri blómstra og þar fram eftir götunum. Hvers vegna gefum við hreinlega ekki í, tökum djarfar ákvarðanir og höldum þessu áfram? Veiðimálastofnun fór upp í Borgarfjörð, Landhelgisgæslan suður í Keflavík, þótt þyrlan geti verið hér áfram og svo má lengi telja. Fram hafa komið ótal hugmyndir en afskaplega lítið hefur verið um efndir.



[14:09]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur látið hafa eftir sér að nú sé komið að atvinnuuppbyggingu í Norðvesturkjördæmi. Það er vel. Út er komin skýrsla á vegum bæjarstjórnar Ísafjarðar um fækkun starfa á Ísafirði og Vestfjörðum. Hefur hæstv. forsætisráðherra gripið þá skýrslu á lofti og fylgt henni eftir að einhverju marki?



[14:10]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það var að mörgu leyti athyglisvert að hlusta á svör hæstv. ráðherra áðan. Þar kom fram að verið er að gera nýja skýrslu og nýjar tillögur til að vinna eftir. Einnig kom fram að hv. ráðamenn vita hvað þarf að gera. Þeim verður aftur á móti allt of lítið úr verki.

Ég ítreka það sem kom fram í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, að í Norðvesturkjördæmi hefur opinberum störfum farið fækkandi. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna ráðherrann aftur á orð hans um að röðin væri komin að því kjördæmi ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta verða af því að fjölga opinberum störfum úti á landi. Á því er sannarlega þörf.

Ég bendi einnig á að þær stofnanir sem hafa verið í vexti og ráðherrann taldi upp eru ekki í vexti fyrir frumkvæði ríkisstjórnarinnar heldur fyrir frumkvæði þeirra sem þeim stjórna.



[14:11]
Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Kristján L. Möller skuli hafa vakið máls á því hvernig unnið er að því að fjölga verkefnum og opinberum störfum úti á landi. Það er sérstaklega ánægjulegt að hann skuli gera það nú í dag. Eftir tvo daga munum við fara saman til Akureyrar til að fagna því að tekið verði í notkun mikið rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri sem hinar ýmsu rannsóknastofnanir ríkisins standa að. Það mun gerbreyta öllum möguleikum háskólans, Akureyringa, Norðurlands og raunar landsbyggðarinnar allrar til að láta að sér kveða á þeim vettvangi.

Víðar á landinu er unnið að uppbyggingu á ýmsum stofnunum og ýmsum stöðum en auðvitað er ekki hægt að gera áætlun um þessi efni í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að vinna að þessu jafnt og þétt og fylgjast með því sem er að gerast. Það endurspeglast m.a. í þeim fjárlögum sem samþykkt verða fyrir næsta ár.



[14:12]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það virðist ekki hafa verið mikið gagn af þeirri áætlun eða hugmyndum sem fram komu fyrra skiptið úr því að það þarf strax að vinna aðra skýrslu um þessi mál.

Það er svo sem hægt að taka undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að áætlanir væru ekki uppspretta alls. En þær sýna þó vilja manna til þess að gera einhverja hluti og það hefur farið ótrúlega langur tími í að undirbúa það sem hér er um að ræða.

Ég held t.d. ekki að margir í Norðvesturkjördæmi kannist við efndir af því tagi sem hér hefur verið lýst, hreint ekki. Ég held að það sé fyrir löngu kominn tími til að menn sýni svolítið á spilin sín og hvað þeir vilja gera í þessum málum. Sumir í Norðvesturkjördæmi segja að byggðastefna ríkisstjórnarinnar sé eitt allsherjar „Halló Akureyri“. Það er svolítið til í því. Það er nefnilega þannig að byggðamálin koma afar misjafnlega niður af hendi þeirra sem hafa völdin í þessu landi.



[14:14]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það reyndar orðið hálffarsakennt þegar ég heyri af munni hæstv. forsætisráðherra að það skref sem nú er tekið til að flytja störf af þessu tagi út á landsbyggðina sé að fá hv. þingmenn Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson aftur til að gera nýja skýrslu. Þeir hafa nýlokið skýrslu sem liggur fyrir hjá hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Hvað er að henni? Hvers vegna í ósköpunum þarf að fá þessa ágætu menn til að endurvinna þetta? Væri ekki frekar ráð að koma á slíkri endurvinnslu úti á landsbyggðinni til að skapa störf þar? Af því að hæstv. forsætisráðherra sagði að menn mættu ekki misvirða það sem þó væri vel gert þá verð ég að rifja upp að menn hafa lofað hlutum sem ekki hafa gengið eftir.

Hæstv. forsætisráðherra sagði 15. ágúst 1999, þegar hann var viðstaddur opnun starfsstöðvar Íslenskrar miðlunar á Stöðvarfirði, að hann teldi sjálfsagt að ríkið keypti þjónustu af þeim einkaaðilum til að styðja það framtak. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Efndi hann það nokkurn tímann?



[14:15]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ævinlega verið að semja skýrslur á skýrslur ofan um það hvernig atvinnumál þróast, m.a. á landsbyggðinni. Sú stefna hefur jú verið mótuð sem hér hefur komið fram að fjölga eigi opinberum störfum á landsbyggðinni. Eftirfylgnin er hins vegar engin. Það var líka skrifuð um það skýrsla árið 2001 hvað mundi gerast á Vestfjörðum ef kvótasett yrði í smábátunum, í ýsu, ufsa og steinbít. Þar var spáð að störfum mundi fækka um 100 í fiskvinnslu og 200 í sjómannsstörfum í smábátum á Vestfjörðum. Því miður gekk það að stærstum hluta eftir en ég hef ekki orðið var við nokkrar einustu efndir á nokkurri stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma á móts við þann samdrátt og efla atvinnustigið á landsbyggðinni.

Ég spyr þá hæstv. forsætisráðherra úr því hann minntist á háskóla á Vestfjörðum: Mun forsætisráðherra styðja það að við fáum að stofna háskólasetur á Vestfjörðum?



[14:16]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér þótti svar hæstv. forsætisráðherra heldur snubbótt. Hann notaði megnið af tíma sínum til að lesa orðrétt upp úr skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar 2002–2005 um þennan kafla, segja okkur svo frá því að hv. þm. Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson hefðu einhvern tímann skrifað skýrslu og að hans fyrsta verk hefði verið að biðja þá að skrifa fleiri skýrslur.

Hæstv. forsætisráðherra. Það hefur fyrir löngu komið fram að fólk lifir ekki á skýrslum einum saman. Það er komið nóg af skýrslum í byggðamálum. Okkur vantar aðgerðir. Ég get tekið undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér um háskólana og allt þetta. Þetta er flott og fínt og allir sammála um það. Þetta er mjög gott, álverið fyrir austan o.s.frv. Við erum að tala um þau byggðarlög sem eru að mélast niður enn þá, byggðarlög sem njóta ekki ávaxtanna af þessu. Hvað t.d. með lítið byggðarlag sem telur 1.500 manns í dag og er að tapa 70 manns frá sér á þessu ári vegna samdráttar í sjávarútvegi? Gera menn sér grein fyrir því að tekjusamdráttur sveitarfélagsins er 20 millj. vegna þessa fólks? Gera menn sér t.d. grein fyrir því svari um framlög sveitarfélaga til fræðslumála við fyrirspurn minni sem var dreift í gær? Við getum talað um það í sambandi við verkfallið. 70–80% af tekjum sveitarfélaga úti á landi fara til fræðslumála. Hvernig í ósköpunum eiga þessi sveitarfélög að taka þátt í einhverri atvinnuuppbyggingu eða öðru slíku til að halda í íbúana sem við viljum ekki missa í burtu?

Nei, hæstv. forsætisráðherra, það þarf að gera betur en að lesa hér upp úr gömlum skýrslum. Það þarf að fara í aðgerðir gagnvart þessum litlu byggðarlögum sem eins og ég segi njóta ekki ávaxtanna af háskólunum, álverinu, nýsköpunarmiðstöðinni eða einhverju öðru. Það eru fleiri sveitarfélög í landinu.

Ég verð að segja alveg eins og er (Forseti hringir.) að mér leiðist það þegar skapillur forsætisráðherra kemur hingað og að þegar maður vogar sér að tala við hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra um byggðamál telji hann að menn séu að tala kjarkinn, ekki bara úr landsbyggðarfólki (Forseti hringir.) heldur bara landsmönnum öllum.



[14:18]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér heyrist hv. fyrirspyrjandi vera í eitthvað vondu skapi í dag. Ekki veit ég af hverju.

Það er alveg rétt hjá honum og öðrum, það er ekki nóg að semja skýrslur. Það er verið að vinna á grundvelli þess sem kom fram í skýrslu þessara ágætu þingmanna á sviði menntamála, heilbrigðismála og rannsóknastarfsemi. Er eitthvað að því að því sé fylgt eftir og það sé komið nánar að því eins og hefur verið ákveðið? Ég botna ekkert í þessum málflutningi.

Hér koma menn og segja: Það á ekkert að semja fleiri skýrslur. Gott og vel. (KLM: Aðgerðir.) Gott og vel, aðgerðir. Svo kemur hv. þm. og segir: Hvað á að gera fyrir 1.500 manna byggðarlag sem er að tapa störfum? Gæti verið að til stæði að bæta samgöngur til þessa sama byggðarlags, er það hugsanlegt? Ekki minntist hv. þm. á það þótt alveg sé ljóst að víða í landinu er veruleg andstaða gegn því.

Svo kemur hv. þm. upp skipti eftir skipti og segir að ekkert sé verið að gera í þessum málum. Mér þætti gaman að vita hvernig hv. þm. talar í eigin þingflokki um þessi mál. Fær hann engar undirtektir þar? Er það þess vegna sem það liggur oft svona mikið við í þingsalnum?

Það er margt jákvætt að gerast, hv. þingmaður, um allt land. Það er mikilvægt að viðurkenna það, sem mér finnst að hv. þm. sé mjög tregur til, en um leið ber að sjálfsögðu að viðurkenna að víða má betur gera.