131. löggjafarþing — 13. fundur
 20. október 2004.
uppgreiðslugjald.
fsp. JóhS, 87. mál. — Þskj. 87.

[14:41]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Mikillar óánægju gætir með þá skilmála sem bankarnir hafa sett fyrir nýjum fasteignalánum, að hægt sé að taka uppgreiðslugjald ef lán eru greidd upp fyrir gjalddaga. ASÍ og Neytendasamtökin hafa sent Samkeppnisstofnun kvörtun vegna þessa og óskað eftir að Samkeppnisstofnun kanni heimild bankanna til að krefjast uppgreiðsluálags.

Sömuleiðis hefur verið gagnrýnt í skilmálum bankanna og kallað eftir rökstuðningi fyrir ákvæðum sem kveða á um að lántakendur skuldbindi sig til viðskipta við bankann allan lánstímann, kannski 40 ár, ella verður lántakendum refsað með vaxtahækkun og gjaldtöku.

ASÍ kallar slíkt vistarband sem orki mjög tvímælis, og sannarlega teljast þau að mínu viti til óeðlilegra viðskiptahátta.

Neytendasamtökin benda á að lögin um neytendalán geri ráð fyrir rétti neytenda til að standa skil á skuldbindingum sínum fyrir gjalddaga og að hvergi í lögunum sé sá réttur skilyrtur á nokkurn hátt. Telja Neytendasamtökin að fjármálafyrirtæki séu með uppgreiðsluþóknun að rýra ótvíræðan lagalegan rétt neytenda, oftast með einhliða ákvæði í lánasamningi. Samtökin benda einnig á að í lögunum sjálfum og lögskýringargögnum bendi allt til þess að ætlun löggjafans hafi ekki verið sú að heimila uppgreiðsluþóknun vegna neytendalána.

Neytendasamtökin nefna líka að skiptar skoðanir hafi verið um það hvort lán einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteign falli undir lögin um neytendalán. Upphaflega féllu slík lán ekki undir lögin. Hins vegar var gildissvið laganna útvíkkað með lagabreytingu sem tók gildi þann 14. desember 2000. Það sé því óumdeilanlegt að veðlán einstaklinga sem tekin voru eftir lagabreytinguna falli undir lögin. Þessi skoðun Neytendasamtakanna er í samræmi við nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar í desember árið 2000.

Það eru vissulega, herra forseti, í hæsta máta óeðlilegir viðskiptahættir að fólki sé refsað, það þurfi að greiða tugi og hundruð þúsunda fyrir að ætla að greiða upp skuldir sínar. Því er eftirfarandi fyrirspurn beint til hæstv. viðskiptaráðherra:

Telur ráðherra að innheimta uppgreiðslugjalds hjá fjármálafyrirtækjum samrýmist lögum um neytendalán?

Hver er skoðun ráðherra á uppgreiðslugjaldi?

Er ráðherra reiðubúin að beita sér fyrir lagabreytingum svo tekin verði af öll tvímæli um að óheimilt sé að innheimta uppgreiðslugjald ef núgildandi lög eru óljós í því efni?

Þekkist það í nágrannalöndum okkar að fjármálafyrirtæki hafi heimild til innheimtu uppgreiðslugjalds þegar fólk vill greiða upp skuldir sínar?



[14:43]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsti liður fyrirspurnarinnar lýtur að túlkun laga og um þetta atriði eru skiptar skoðanir. Bankarnir og aðrar lánastofnanir hafa talið sér heimilt að áskilja sér uppgreiðslugjald en ASÍ og Neytendasamtökin hafa opinberlega dregið í efa að slíkar þóknanir samrýmist lögum um neytendalán. Fram hefur komið í fjölmiðlum að kærur hafi verið sendar til Samkeppnisstofnunar og Fjármálaeftirlits.

Úrskurðarvald um þessi atriði og túlkun laga er að sjálfsögðu hjá eftirlitsaðilum og dómstólum en ekki hjá ráðherra. Rétt er hins vegar að benda á að í 16. gr. núgildandi laga um neytendalán er uppgreiðslugjald ekki bannað berum orðum og er því vandséð að lánasamningar um slíka þóknun séu andstæðir lögunum. Þessi skoðun fær stoð í gögnum frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvað varðar tilskipun um neytendalán sem íslensku reglurnar eru byggðar á. Dönsk lög um neytendalán hafa einnig verið túlkuð á sama veg en þau hafa að geyma svipuð ákvæði.

Hvað varðar annan lið fyrirspurnarinnar er rétt að taka fram að í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu er nú verið að vinna að þessum málum. Þann 14. september sl. skipaði ég nefnd til að vinna að samkomulagi um lánveitingar og mun hún m.a. fjalla um uppgreiðslugjald. Markmið með skipun nefndarinnar er að stuðla að bættum viðskiptaháttum og kveða á um lágmarksvernd í viðskiptum neytenda við lánveitendur. Um er að ræða útvíkkun á núgildandi samkomulagi um notkun ábyrgðarskuldbindinga sem gert var árið 2001. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða, Sambands íslenskra tryggingafélaga, Landssamtaka lífeyrissjóða, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Íbúðalánasjóðs, Neytendasamtaka og viðskiptaráðuneytis.

Þrátt fyrir að uppgreiðslugjald sé ekki alfarið bannað hér á landi, þó um það sé deilt, leiða almenn sanngirnisrök og ýmis lagaákvæði til þess að lánastofnun hafi ekki ótakmarkað svigrúm í þessum efnum. Uppgreiðslugjald verður að vera hófstillt og í tengslum við þann kostnað sem fellur á lánastofnunina vegna uppgreiðslunnar. Bankar og aðrar lánastofnanir sem taka uppgreiðslugjald verða því að færa rök fyrir þeirri ákvörðun sinni og sýna fram á að kostnaður fylgi uppgreiðslunni.

Uppgreiðslugjald er helst hægt að rökstyðja með tilliti til hagsmuna lánveitenda við þær aðstæður þegar vextir lækka á langtímalánum með föstum vöxtum. Þá má einmitt búast við miklum uppgreiðslum, m.a. vegna endurfjármögnunar eins og við höfum orðið vitni að á síðustu mánuðum. Vel kemur til greina að settar verði frekari skorður við uppgreiðslugjaldi en slíkar tillögur verður að skoða vel og vinna í samráði við hagsmunaaðila. Einnig þarf að taka mið af vinnu sem á sér stað innan Evrópusambandsins hvað varðar nýja tilskipun um neytendalán.

Svarið við þriðja lið fyrirspurnarinnar er játandi, þ.e. að það þekkist í nágrannalöndum okkar að fjármálafyrirtæki hafi heimild til innheimtu uppgreiðslugjalds. Lausleg könnun leiddi í ljós að óvíða er uppgreiðslugjald alfarið bannað en í sumum löndum hafa verið settar takmarkanir á slíkar þóknanir svo sem í Noregi, á Bretlandseyjum og í Benelúxlöndunum. Í Danmörku gilda svipuð ákvæði og hér á landi og ekkert bann er við slíku gjaldi.



[14:47]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp, ekki síst í ljósi þess að einmitt nú um stundir og vegna hraðra og mikilla breytinga á lánamarkaði, ekki síst er varðar húsnæðislán bankanna, stendur fjöldi manns frammi fyrir því að greiða upp lán og taka önnur sem lántakendur telja hagkvæmari og henta sér betur.

Ráðherra talaði um sanngirnisrök og að skoða það að reisa skorður við því að lánastofnanir geti innheimt uppgreiðslugjald þegar fólk greiðir skuldir sínar. Ég vil því nota þetta tækifæri og skora á hana að ganga lengra en það og vinna að lagaheimild sem gerir það óheimilt að innheimta uppgreiðslugjald af lánum. Þetta er ósanngjörn gjaldtaka og fyrir því eru sanngirnisrök og það er réttlætismál að óheimilt sé að innheimta uppgreiðslugjald þegar fólk er að endurfjármagna lán sín. Þetta er mjög mikilvægt mál einmitt nú um stundir og skora ég á hana að beita afli sínu til þess.



[14:48]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en mér fannst nú, virðulegi forseti, að þau væru nokkuð opin í báða enda og erfitt að átta sig á afstöðu hæstv. ráðherra til uppgreiðslugjaldsins. Fyrirspurn númer tvö gengur einmitt út á það hvort ráðherra sé reiðubúin að beita sér fyrir lagabreytingu og taka af öll tvímæli í þessu efni. Það er auðvitað óþolandi og gengur ekki að fólki sé refsað svona harkalega eins og bankarnir gera ef það ætlar að greiða upp skuldir sínar.

Við getum tekið sem dæmi 8 millj. kr. lán, ef einhver ætlar að greiða það upp, þá þarf hann kannski að greiða 160 þús. kr. í uppgreiðslugjald. Slíkt gengur auðvitað ekki.

Ég fagna því þó sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hún telji að til greina komi að setja skorður við uppgreiðslugjaldi og ég hvet ráðherrann til að fylgja því eftir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi kynnt sér nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á árinu 2000 þegar fjallað var um neytendalán þar sem þetta ákvæði var útvíkkað. Gert var ráð fyrir að lánasamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign séu undanþegnir lögum um neytendalán — það hafi verið gert áður — og gert var ráð fyrir að þeim yrði breytt þannig að það taki til lánasamninga sem Íbúðalánasjóður gerir eða annarra sambærilegra fasteignaveðlánasamninga sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Sem sagt, efnahags- og viðskiptanefnd útvíkkaði þetta þannig að þessi lán falla undir lögin um neytendalán að mínu viti ótvírætt og það er í samræmi við það sem Neytendasamtökin segja, að samkvæmt lögum um neytendalán eigi einstaklingar ótvíræðan rétt til að greiða lán sín upp fyrir gjalddaga og það án nokkurra takmarkana eða skilyrða.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að fylgja þeirri yfirlýsingu sem hún tók þó hér fast eftir og að settar verði skorður við uppgreiðslugjaldi og auðvitað helst af öllu að fella það niður.



[14:51]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög eðlilegt að umræða komi hér upp um þetta mál á hv. Alþingi þar sem þetta hefur verið mikið til umfjöllunar í þjóðfélaginu. Eins og kom fram í máli mínu skipaði ég nefnd þegar í september sem er að fjalla um þessi mál og m.a. það hvort uppgreiðslugjaldið eigi rétt á sér og þá líka hvort setja þurfi einhverjar skorður við því í lögum hversu hátt það megi vera, því að mín skoðun er sú að það þurfi að stilla því í hóf ef yfirleitt á að vera heimilt að beita slíkri gjaldtöku.

Þess vegna er það nú sem ég vil ekki kveða upp úr um hluti á þessari stundu að málin eru til umfjöllunar. Ég ítreka það líka sem fram kom í máli mínu áðan að úrskurðarvald er ekki hjá ráðherra í þessum efnum þegar óljóst er eða ekki er hægt að segja algjörlega ótvírætt hvað lög þýða, eins og er í þessu tilfelli. En ég hef fullan skilning á því sem hv. þm. er að fara með máli sínu og hún mun þá fylgjast með því hvað kemur út úr því nefndarstarfi sem er í gangi.