131. löggjafarþing — 13. fundur
 20. október 2004.
Fjármálaeftirlitið.
fsp. JóhS, 157. mál. — Þskj. 157.

[14:52]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Í október árið 2003 setti Fjármálaeftirlitið fram umræðuskjal um hvort ástæða væri til að rýmka heimildir eftirlitsins til að greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðu í einstaka málum. Rökin sem Fjármálaeftirlitið setti fram voru að aukin upplýsingagjöf um framkvæmd og niðurstöður eftirlits gætu stuðlað að auknu markaðsaðhaldi gagnvart þeim sem starfa á fjármálamarkaði. Slíkar upplýsingar mundu eiga þátt í að leiða í ljós styrkleika og veikleika þeirra sem eftirlitið beinist að. Fjármálaeftirlitið benti líka á varnaðaráhrifin af auknu gegnsæi.

Fram hefur einnig komið hjá forstjóra Fjármálaeftirlitsins að hann lýsir áhyggjum sínum af því að um takmarkaðar heimildir stofnunarinnar sé að ræða til að greina frá athugasemdum sínum við markaðsaðila og úrskurði í einstaka málum.

Athyglisvert er einnig að nýlega kom fram hjá KB-banka að þrýsta þyrfti á löggjafann um að auka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að tjá sig. KB-banki spyr hvernig það megi vera að ef eftirlitið þurfi að hafa afskipti af viðskiptum eða innri málefnum fyrirtækja að markaðurinn sé ekki upplýstur um það.

Ég er sannfærð um að það muni veita mikilvægt markaðsaðhald og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi á fjármálamarkaði ef Fjármálaeftirlitið fengi slíkar heimildir. Fjármálaeftirlitið hefur oft að ósekju sætt gagnrýni um að aðgerðir þess séu veikar, Fjármálaeftirlitið sem stofnun sé veik og þar sé lítið aðhafst. Ég tel að skýringin sé sá leyndarhjúpur sem hvílir yfir aðgerðum sem FME grípur til gagnvart eftirlitsskyldum aðilum sem sjaldnast koma fram opinberlega.

Rýmka þarf einnig heimildir Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnvaldssektum. Í Evrópusamstarfi verðbréfaeftirlita og í nýjum tilskipunum Evrópusambandsins er stefnan sú að unnt verði að ljúka innherjasvikamálunum sjálfum með stjórnvaldssektum í stað þess að setja þau í hefðbundna refsimeðferð. Þessi umræða beinist að verðbréfamarkaðnum, einkum markaðssvikum, þ.e. innherjasvikum og markaðsmisnotkun þar sem þörfin er mest. Fordæmi um viðurlög á stjórnsýslustigi er m.a. að finna í starfsemi og heimildum Samkeppnisstofnunar og skattrannsóknarstjóra.

Í nýlegri tilskipun Evrópusambandsins um markaðssvik er kveðið á um að eftirlitsaðilar skuli búa yfir heimildum til þess að beita stjórnsýsluviðurlögum þegar reglur sem byggja á tilskipuninni eru brotnar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um að tryggja þurfi eftirlitsaðilum heimild til að greina opinberlega frá beitingu stjórnsýsluviðurlaga.

Fyrirspurn mín til hæstv. viðskiptaráðherra um þetta efni hljóðar svo:

„Mun ráðherra beita sér fyrir lagaheimild sem eykur gegnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins, til að mynda með því að rýmka heimildir til þess að greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðum í einstökum málum?

Telur ráðherra rétt að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til að beita sektum, t.d. fyrir innherjasvik, og hvaða áhrif hefði það haft á mál sem komið hafa til kasta þess og tengjast innherjasvikum ef slíkar heimildir hefðu verið fyrir hendi sl. þrjú ár?“



[14:55]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir auknu gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins. Því er til að svara að ég hef hug á að beita mér fyrir því og tel mikilvægt að heimildir Fjármálaeftirlitsins til að birta opinberlega niðurstöður sínar í eftirliti með verðbréfamarkaði verði rýmkaðar. Fjármálaeftirlitið fjallar ekki opinberlega um einstök mál eða málefni eftirlitsskyldra aðila nema mælt sé fyrir um upplýsingaveitingu í lögum. Eftirlitsskyldir aðilar eða almenningur eiga því ekki aðgang að niðurstöðum í einstökum málum nema þær séu birtar af öðrum en Fjármálaeftirlitinu. Þetta hefur verið gagnrýnt m.a. vegna þess að þetta leiðir til þess að varnaðaráhrif af aðgerðum Fjármálaeftirlitsins eru minni en ella og stuðla ekki að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði í heild. Á móti kemur að það þjónar ekki hagsmunum heildarinnar að öll verkefni Fjármálaeftirlitsins séu gerð opinber.

Meginverkefni Fjármálaeftirlitsins er fjárhagslegs eðlis, þ.e. að fylgjast með styrkleika eftirlitsskyldra aðila að standa við skuldbindingar sínar. Fyrirbyggjandi eftirliti er ætlað að stuðla að sterkari áhættustýringu og innra eftirliti, greina veikleika í tíma og leiða þá til lykta þannig að sem minnst tjón hljótist af.

Framkvæmd og niðurstöður slíks eftirlits geta ekki verið opinberar fyrr en eftir að hætta er liðin hjá. Það er fyrst og fremst í eftirliti með verðbréfamarkaði þar sem telja verður að gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins eigi að vera meira. Þróunin er sú í Evrópu að fjármálaeftirlit greini í ríkari mæli frá einstökum málum, einkum málum sem varða starfsemi á verðbréfamarkaði. Í nýrri tilskipun Evrópusambandsins um markaðssvik verður fjármálaeftirlitum almennt heimilt að birta opinberlega upplýsingar um þau tilvik þar sem viðurlögum eða öðrum stjórnvaldsaðgerðum er beitt.

Í frumvarpi því um verðbréfaviðskipti sem nú er í smíðum í viðskiptaráðuneytinu er tekið á gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og heimildir þess rýmkaðar.

Þá spyr hv. þm. um hvort rétt sé að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til að beita sektum fyrir innherjasvik. Ástæða er til að geta þess að Fjármálaeftirlitið hefur fengið heimildir til að beita stjórnvaldssektum við brotum er varða tilkynningarskyldu fruminnherja, birtingu upplýsinga um viðskipti fruminnherja og innherjaskrá svo dæmi séu tekin. Hins vegar hefur eftirlitið ekki heimild til að beita stjórnvaldssektum sem viðurlög við innherjasvikum.

Það þarf að íhuga það mjög vandlega hvort rétt sé að Fjármálaeftirlitið fái slíkar heimildir. Það er meginregla í íslenskum rétti að dómstólar annist ákvörðun refsinga, jafnt fésekta sem refsivistar með dómi, að undangenginni opinberri rannsókn. Þrátt fyrir þetta hafa verið lögfest ýmis ákvæði í íslenskum lögum er varða eftirlit með einstaklingum og lögaðilum sem veita stjórnvöldum heimildir til álagningar stjórnvaldssekta. Þetta er í samræmi við þróunina í viðskiptalöggjöfinni í Evrópu en þar er tilhneigingin í þá átt að auka vægi stjórnvaldssekta, m.a. vegna varnaðaráhrifa þeirra í eftirliti með markaði.

Ég er þeirrar skoðunar að æskilegt sé að stefna að því að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til stjórnvaldssekta en áður en til þess kemur þurfi að fara mjög vandlega yfir viðurlög við efnahagsbrotum.



[15:00]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi starfsskilyrði og starfsramma Fjármálaeftirlitsins. Ég tel mjög mikilvægt að gagnsæi í störfum eftirlitsins sé aukið og eftirlitið gefi mun reglulegar út eða skýri frá niðurstöðum eða framgangi rannsókna- og eftirlitsstarfa. Mér finnst eins og eftirlitið er nú sé það líkt og að dómari væri án flautu á knattspyrnuvelli eða bíll æki um án flautu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar um eflingu á starfsemi og sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Við veltum því fyrir okkur hvort staða þessi er þegar of veik að heyra beint undir ráðherra sem hefur verið mjög umsvifamikill einmitt í viðskiptalífinu og ekki veitt af að hafa sérstakt eftirlit með þannig að það sé ástæða til að efla sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins.



[15:01]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það gleymist stundum í þessari umræðu að hlutverk Fjármálaeftirlitsins er fyrst og fremst að tryggja trúverðugleika á markaðnum, þ.e. að litlir og meðalstórir fjárfestar treysti sér til að setja fjármuni á þennan markað. Það er afar slæmt þegar reglurnar eru þannig úr garði gerðar að ekki megi birta rannsóknir og úrskurði sem kveðnir eru upp þegar grunur leikur á að menn hafi ekki spilað samkvæmt þeim reglum sem fyrir eru settar og slíkt dregur úr trúverðugleik markaðarins. Þess vegna er mjög mikilvægt að það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið að tala fyrir nái fram að ganga og þetta eftirlit verði miklum mun virkara. Hlutverk ríkisins er að setja reglur og tryggja trúverðugleika markaðarins til þess að fjárfestar séu tilbúnir til að setja fjármagn inn á þennan markað og eins og staðan er núna er þetta ekki í nægilega góðu horfi. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að segja meira, virðulegi forseti, en aðeins að stefnt skuli að.



[15:02]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að hún ætlar að beita sér fyrir því að sett verði lög sem munu auka gegnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og ég skil ráðherrann svo, og hún mótmælir því þá ef svo er ekki, að slíkt frumvarp muni fljótlega sjá dagsins ljós hér á þinginu. Það þarf virkilega að efla Fjármálaeftirlitið, gera það virkara og auka trúverðugleika og traust á því, og ég held að þetta sé ágæt leið til þess.

Mér fannst hæstv. ráðherra aftur á móti frekar draga lappirnar að því er varðar fyrirspurn nr. 2 hvort ráðherrann telji rétt að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að beita sektum t.d. vegna innherjasvika. Hæstv. ráðherra stefnir að því að fá slíkar heimildir en þá þarf að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum áður. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst vinna að þessu máli áfram. Ég hafði fullan hug á að setja fram frumvarp um þetta efni en ef það er í fullri vinnslu hjá hæstv. ráðherra og málið lítur dagsins ljós á þingi fljótlega þá mun ég auðvitað halda að mér höndum í því efni.

Ég sé ekki hvernig hæstv. ráðherra kemst hjá að beita sér fyrir slíkri lagasetningu að það komi heimildir til að beita sektum fyrir innherjasvik. Í því sambandi minni ég á, eins og ég nefndi í framsögu minni áðan, að í Evrópustarfsemi verðbréfaeftirlita og í nýjum tilskipunum Evrópusambandsins er stefnan sú að unnt verði að ljúka innherjasvikamálunum sjálfum með stjórnvaldssektum og ég tel það afar mikilvægt tæki fyrir Fjármálaeftirlitið að hafa slíkar heimildir og ég spyr: Hvað er það sem mælir frekar á móti því að Fjármálaeftirlitið fái tafarlaust þannig heimildir án þeirrar rannsóknar sem ráðherrann er að boða að fari fram á viðurlagakaflanum við efnahagsbrotum þegar t.d. skattrannsóknarstjóri og Samkeppnisstofnun hafa slíkar heimildir til að beita viðurlögum á stjórnsýslustigi? Þar eru fordæmin og ég spyr ráðherra: Eftir hverju erum við að bíða?



[15:05]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að vandað sé til löggjafarinnar og þeirra frumvarpa sem lögð eru fram af okkar hálfu og þessi mál eru til athugunar og hv. þm. skildi mig alveg rétt áðan þar sem ég sagði að við værum að athuga hvort ekki væri rétt að Fjármálaeftirlitið fengi heimildir til stjórnvaldssekta. En þessi mál snúa líka að dómsmálaráðuneytinu og það þarf að hafa samráð í þeim.

En mér finnst þegar hv. þingmenn koma hér og tala mikið um að efla þurfi Fjármálaeftirlitið þá verði að hafa í huga að það er ekkert smáræði sem það hefur verið eflt. Það er öflugt og þegar talað er um að þessi mál séu ekki í nægilega góðu horfi þá finnst mér það í raun ekki alveg sanngjarnt því ég held því fram að þarna séu mál í góðu lagi. Ég ítreka það sem kom fram áðan að vegna þess hvernig Fjármálaeftirlitið starfar, samkvæmt lögum, þá vitum við ekki og almenningur veit ekki hvað þar er verið að vinna. Ég veit það ekki heldur þó að ég fari með þessi málefni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar því Fjármálaeftirlitið er algerlega sjálfstætt og ráðuneytið sem slíkt hefur ekki nokkur afskipti af vinnubrögðum þeirra. Ég trúi því og hef margoft sagt það á hv. Alþingi að ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þar sé staðið vel að málum en það sem hv. þm. spyr um er hins vegar umhugsunarefni og það er eitt af því sem við erum að fara yfir í mikilli alvöru.