131. löggjafarþing — 13. fundur
 20. október 2004.
um fundarstjórn.

fyrirkomulag utandagskrárumræðu.

[16:14]
Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Það er óvenjulegt að ég kveðji mér hljóðs um fundarstjórn forseta en ástæðan er sú að ég hef þrásinnis rætt það á fundum með formönnum þingflokka að eigi skuli beina fyrirspurnum í utandagskrárumræðum til annarra ráðherra en þess sem verður fyrir svörum hverju sinni. Ég vil minna þá á það að gefnu tilefni í lok þessarar umræðu.



[16:14]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ákaflega óvenjulegt, að ég ekki segi út í hött, að forseti Alþingis, sem hér hefur verið kjörinn, taki til máls sem þingmaður úr þessum stól og fari með boðskap sem hann á að flytja sem forseti Alþingis úr forsetastóli.

Það verður að krefjast þess af forseta Alþingis að hann geri mun á málflutningi sínum sem forseta annars vegar og sem þingmanns hins vegar. Ég fer fram á það við hann að hann gæti að þeim mun eftirleiðis.



[16:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil nú koma þér til varnar. Ég tel ekkert athugavert við fundarstjórn forseta hér og finnst ósæmilegt að 2. þm. Norðaust. komi hér óbeint með árásir á starfandi forseta því það gat ekkert annað tilefni verið fyrir hv. þm. Halldór Blöndal til að koma í ræðustól en það að finna að því að forseti skyldi ekki setja ofan í við þingmenn sem leyfðu sér þann munað að vekja athygli á því að auðvitað væri þetta mál skylt samgönguráðherra.

Ég er líka fullkomlega ósammála því að þegar mál liggur þannig að það snerti beint starfssvið fleiri en eins ráðherra og þeir hæstv. ráðherrar eru í salnum megi ekki nefna þá á nafn, það sé eitthvert bannorð. Hæstv. ráðherrum er eins og öðrum frjálst að taka þátt í þessari umræðu. Þeir geta sett sig á mælendaskrá og ættu auðvitað að gera það. Það er vandræðalegt að sjá hæstv. ráðherrana sitja hér þegjandi undir umræðum sem varða þá mjög og nota ekki möguleika sína til að blanda sér í þær, koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Á dögunum sat t.d. hæstv. umhverfisráðherra undir umræðu um rússneska herskipaflotann inni í íslensku mengunarlögsögunni og sagði ekki eitt einasta orð. Er það þá vegna þess að viðkomandi hæstv. ráðherrar hafi engar meiningar um málið? Nei, auðvitað er mönnum fullfrjálst að bera fram til þeirra spurningar og vekja athygli á ábyrgð þeirra í viðkomandi málaflokki en hins vegar er ljóst að þeir geta ekki krafið þá svara. Það er þá viðkomandi hæstv. ráðherrum í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt í umræðunni. Menn geta eingöngu krafið þann ráðherra svara sem umræðunni er beint til hverju sinni.

Ég tel að á engan hátt hafi hér verið staðið óeðlilega að málum, hvorki af hálfu þeirra þingmanna, eða þess þingmanns held ég sem vakti athygli á viðveru samgönguráðherra, né heldur forseta sem stjórnaði þessum fundi með prýði. Ég legg til að hv. þm. Halldór Blöndal, 2. þm. Norðaust., hemji skapsmuni sína betur en þetta ber vitni um, sem og auðvitað þeir sjálfstæðismenn sem greinilega eru eitthvað mismunandi vel stemmdir þessa dagana.