131. löggjafarþing — 14. fundur
 21. október 2004.
byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005, ein umræða.
skýrsla iðnrh., 216. mál. — Þskj. 218.

[11:13]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt Alþingi skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar vegna ársins 2002 í samræmi við 13. gr. laga um stofnunina. Jafnhliða geri ég grein fyrir framvindu byggðaáætlunar eins og sama lagagrein gerir ráð fyrir. Skrifleg skýrsla um framvinduna hefur verið lögð fyrir Alþingi.

Hlutverk Byggðastofnunar eins og það er skilgreint í lögum er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin m.a. að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu og skipuleggur vinnu við atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra svo nokkrir þættir úr starfsemi stofnunarinnar séu nefndir.

Starfsemi Byggðastofnunar skiptist í fjögur svið, fyrirtækjasvið, lögfræðisvið, rekstrarsvið og þróunarsvið.

Segja má að starfsemi Byggðastofnunar hafi verið með nokkuð hefðbundnu sniði þegar á heildina er litið. Lokið er öllu umstangi sem leiddi af flutningi stofnunarinnar til Sauðárkróks og ró komin á starfsemina. Á síðasta ári var lögð mikil áhersla á innra starf stofnunarinnar. Hafa henni verið settar heildstæðar starfsreglur og þær gefnar út í formi handbókar fyrir stjórn og starfsfólk. Meginþættir handbókarinnar eru verklagsreglur fyrir útlána- og fjármálastarfsemi stofnunarinnar, reglur um störf stjórnar Byggðastofnunar, siðareglur fyrir stofnunina, starfsmannastefna auk þess sem fleira mætti nefna. Eru þessar reglur birtar með aðgengilegum hætti á heimasíðu stofnunarinnar, byggdastofnun.is. Starf þetta þarf eðli máls samkvæmt stöðugt að halda áfram en megintilgangur þess er að leitast við að tryggja góða stjórnsýslu í málefnalegu og gegnsæju starfi Byggðastofnunar. Þannig er nú skýr verkaskipting á milli stjórnar annars vegar og forstjóra, forstöðumanna og starfsmanna stofnunarinnar hins vegar og áhersla lögð á eftirlits- og stefnumótunarhlutverk stjórnar.

Ársfundur Byggðastofnunar 2003 var haldinn á Höfn í Hornafirði þann 13. júní og að honum loknum var haldið málþing um aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni að lánsfjármagni. Fundurinn var vel sóttur og umræður líflegar. Byggðastofnun fékk rúmlega 287 millj. kr. framlag úr ríkissjóði árið 2003. Ekki var um að ræða sérstök framlög úr ríkissjóði í afskriftareikning Byggðastofnunar á árinu. Alls greiddi stofnunin út á árinu 2003 ný lán að fjárhæð 1,7 milljarðar kr. en útgefin lánsloforð 2003 námu alls um 2,6 milljörðum kr.

Á árinu 2003 þurfti stofnunin að afskrifa endanlega veitt lán að fjárhæð alls 606 millj. kr. Að langstærstu leyti er þar um að ræða útlán frá árinu 1998 til og með 2000 og því ljóst að á því árabili hefur verið tekin mikil áhætta í útlánum stofnunarinnar. Á árinu 2002–2003 hefur verið mikið tap af reglulegri starfsemi stofnunarinnar, mest um 480 millj. kr. árið 2002. Tap þetta er allt tilkomið vegna þeirra útlánatapa sem stofnunin hefur orðið fyrir. Hefur þetta leitt til þess að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar samkvæmt reglum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hefur enn lækkað og nam í árslok 2003 10,85%. Þess má til samanburðar geta að í árslok 2001 nam eiginfjárhlutfall stofnunarinnar 16,45%.

Niðurstaða efnahagsreiknings Byggðastofnunar var rétt rúmlega 15 milljarðar kr. um síðustu áramót og hafði hækkað um rúm 12% á árinu. Lífeyrisskuldbindingar voru 501 millj. kr. í ársbyrjun en 572 millj. kr. í árslok. Eigið fé í árslok var 1 milljarður 699 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi og stóð nánast í stað frá fyrra ári. Mikið útlánatap hefur haft í för með sér að stofnunin hefur orðið að leysa til sín mikið af fasteignum víðs vegar um landið og eru nú í eigu stofnunarinnar fullnustueignir sem bókfærðar eru hátt í 600 millj. kr.

Framlög Byggðastofnunar til atvinnuþróunarfélaga námu alls 115 millj. kr. á árinu og hafa hækkað um 8 millj. kr. frá fyrra ári. Styrkveitingar Byggðastofnunar hafa dregist saman á undaförnum árum og voru um 27 millj. kr. árið 2003. Þá hefur einnig dregið mjög úr hefðbundnum hlutafjárframlögum til fyrirtækja á starfsævi stofnunarinnar.

Undanfarna mánuði hefur í ört vaxandi mæli borið á uppgreiðslum á útlánum Byggðastofnunar. Veruleg vaxtalækkun hefur undanfarna mánuði orðið á langtímalánum á íslenskum lánamarkaði. Mikil samkeppni viðskiptabankanna hefur leitt til þess að fjölmörgum úr hópi viðskiptavina Byggðastofnunar bjóðast nú betri vaxtakjör en stofnunin getur boðið. Þannig má ætla að uppgreiðslur síðustu 12 mánaða nemi allt að 1,5 milljörðum kr. Þegar skoðað er hvaða lán hafa verið greidd upp kemur í ljós að þar er einkum um lán með öruggum tryggingum að ræða, einkum tryggð með veði í fiskiskipum og varanlegum veiðiheimildum og skuldarar sem reynst hafa öruggir greiðendur að lánum sínum. Þetta leiðir til þess að hreinar vaxtatekjur stofnunarinnar dragast stórlega saman, úr 441 millj. kr. árið 2003 en stefna í að vera kringum 250 millj. kr. í ár. Haldi sú þróun áfram mun stofnunin sitja eftir með mun veikara útlánasafn en áður og hætt er við að vanskil sem hlutfall af heildarútlánum muni aukast. Þó ber auðvitað að fagna auknum möguleikum fyrirtækja á landsbyggðinni að sækja aukið fjármagn.

Sérstaða Byggðastofnunar á lánamarkaði hefur jafnan verið sú að stofnunin hefur lögskilgreint starfssvæði og hlutverk. Hún veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum á starfssvæði sínu lán á almennt hagstæðari kjörum en viðskiptabankarnir, hún veitir lán til lengri tíma og gefur lántakendum lengri aðlögun fram að fyrsta gjalddaga. Þá er stofnunin þolinmóðari ef vanskil verða.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur átt sér stað umræða innan Byggðastofnunar um stöðu hennar og framtíðarhlutverk í breyttu viðskiptaumhverfi. Ljóst er að á undanförnum missirum hafa orðið miklar breytingar að því er varðar stoðkerfi atvinnulífs á landsbyggðinni þar sem fleiri aðilar og stofnanir koma nú að málum en áður. Þetta kallar á nýjar áherslur og ný vinnubrögð af hálfu Byggðastofnunar þar sem skýr framtíðarsýn er lykilatriði.

Byggðastofnun hefur með höndum erlent samstarf á sviði byggðamála og atvinnuþróunar. Forstöðumaður þróunarsviðs stofnunarinnar situr í sérfræðiráði Nordregio, sem er norræn rannsóknastofnun á sviði skipulags- og byggðamála, og í NÄRP, norrænu embættismannanefndinni um stefnu í byggðamálum. Byggðastofnun hefur auk þess faglegt samstarf við ýmsa erlenda háskóla og rannsóknastofnanir og umsjón með tveimur alþjóðlegum verkefnum á sviði byggðamála fyrir Íslands hönd. Þetta er annars vegar NORA, Norræna Atlantsnefndin, sem veitir styrki til samstarfsverkefna er tengjast þróun atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknarstarfsemi á starfssvæði sínu og Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins, NPP, en Íslendingar gerðust aðilar að áætluninni á árinu 2002 eins og tillaga var gerð um í gildandi byggðaáætlun. Norðurslóðaáætluninni er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir og/eða stunda rannsóknir á sameiginlegum viðfangsefnum norðurslóða.

Áhersluverkefni geta verið af þrennum toga:

1. Verkefni tengd samgöngu- og fjarskiptamálum.

2. Verkefni tengd atvinnuþróun og vistvænni nýtingu náttúruauðlinda.

3. Verkefni tengd eflingu samfélaga á norðurslóðum.

Það er gaman að segja frá því að íslenskir aðilar eru nú þegar þátttakendur í fjölmörgum verkefnum innan áætlunarinnar.

Næst mun ég að fara nokkrum orðum um framkvæmd byggðaáætlunar og fylgja þannig úr hlaði skriflegri skýrslu um framvinduna sem lögð hefur verið fyrir Alþingi.

Alþingi ályktaði þann 3. maí 2002 að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar skyldu verða eftirfarandi:

a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

b. Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.

c. Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.

d. Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.

e. Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.

Aðgerðir til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggjast á fimm meginstoðum sem eru traust og fjölbreytt atvinnulíf, öflug byggðarlög, aukin þekking og hæfni, bættar samgöngur og áhersla á sjálfbæra þróun. Samþykkt Alþingis fylgdu tillögur um 22 beinar aðgerðir til að ná fram meginmarkmiði byggðaáætlunarinnar. Aðgerðirnar eru ekki tæmandi og taka ekki til allra þeirra viðfangsefna sem stefnumarkandi áherslusvið tilgreind í byggðaáætluninni snerta. Til þess að tryggja sem best framgang gildandi byggðaáætlunar var bryddað upp á þeirri nýbreytni að fela tilteknum ráðuneytum og Byggðastofnun ábyrgð á framkvæmd framannefndra aðgerða. Auk þess var skipuð sérstök verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Þetta gerir framkvæmd áætlunarinnar markvissari og auðveldar eftirlit með henni.

Skemmst er frá því að segja að vinna er hafin við flestar aðgerðanna 22 eins og kemur skýrt fram í skýrslunni um framvindu byggðaáætlunar sem ég hef lagt fyrir þingið en þar er farið rækilega yfir framkvæmd hverrar aðgerðar um sig. Í skýrslunni er einnig vikið að ýmsum fleiri aðgerðum sem stjórnvöld hafa staðið að og miða í átt að meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Það er rétt að taka fram að þarna er vissulega ekki um tæmandi upptalningu að ræða.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja framkvæmd þessara aðgerða til hlítar hér en mig langar þó að fara yfir helstu atriði við framkvæmd byggðaáætlunarinnar og tæpa á örfáum aðgerðum sem eru ýmist komnar til framkvæmda eða í farvatninu. Ráðuneytið hefur lagt og mun áfram leggja mikið upp úr því að byggð í landinu þróist á grunni þekkingar og nýsköpunar. Þessi áhersla endurspeglast í aðgerðum ráðuneytisins.

Með byggingu raforkuvers við Kárahnjúka og samningum um byggingu álvers á Reyðarfirði er stigið eitt stærsta spor sem stigið hefur verið á síðari árum til að bæta lífskjör og afkomumöguleika fólks á Austfjörðum þaðan sem fólksflótti hefur verið hvað mestur á undanförnum árum. Framkvæmdin hefur þegar haft mjög mikil áhrif á atvinnuástandið og íbúaþróun á Austurlandi þó svo hún sé rétt farin af stað. Þá hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sérstakt 700 millj. kr. framlag til þess annars vegar að leggja fram hlutafé í sprotafyrirtæki og fyrirtæki í skýrum vexti og hins vegar að styðja rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna til að styðja grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar augljós áhrif til að bæta starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Sérstakt átak sem ríkisstjórnin ákvað að ráðast í til að flýta samgöngubótum er til þess fallið að draga úr mismunun á lífskjörum fólks og bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Hér er ástæða til að benda á að samkvæmt áliti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnunar Íslands eru samgöngubætur sú aðgerð sem best er til þess fallin að bæta afkomu og lífskjör íbúa landsbyggðarinnar.

Sérstök byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð hefur að markmiði að efla búsetu á Norðurlandi og hafin er vinna við byggðaáætlun fyrir Vestfirði, þar sem stefnt er að eflingu byggðar vestra. Uppbygging Háskólans á Akureyri og rannsóknarstarfs honum tengt hefur haft mjög mikil og jákvæð áhrif á byggðaþróun á Akureyri. Hið sama má segja um uppbyggingu framhaldsnáms víðs vegar um landið.

Samningar um byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni munu gera almenningi auðveldara að rækta menningu sína og auðga þar með þjóðlífið.

Starf Impru, nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri, hefur verið eflt til muna. Fjárveitingar á fjárlögum til atvinnuþróunarfélaga hafa hækkað verulega milli áranna 2003–2004 eða úr rúmlega 101 millj. í rúmlega 119 millj. Með því hefur styrkari stoðum verið skotið undir það mikilvæga starf sem félögin vinna.

Mjög mikilvægt er að árangur náist í því sameiningarátaki sem nú er að fara af stað. Sameiningarnefnd sem félagsmálaráðherra skipaði hefur skilað fyrstu tillögum og er stefnt að því að kosið verði um sameiningu í apríl næstkomandi. Efling sveitarfélaganna í landinu er mjög brýnt verkefni þannig að unnt verði að fela þeim fleiri verkefni en nú er. Vilji sveitarfélögin vera gjaldgeng sem góður búsetuvalkostur verða þau að hafa þann íbúafjölda innan vébanda sinna að sveitarfélagið geti boðið upp á þá þjónustu sem krafa er gerð um í nútímasamfélagi.

Vaxtasamningur Eyjafjarðarsvæðisins var undirritaður í júlí 2004. Samningurinn er samkomulag einkaaðila og opinberra aðila þar sem sett eru markmið um uppbyggingu svæðisins í tilteknum vaxtargreinum með áherslu á hagvöxt og fyrirtækjaklasa. Stefnt er að því að mynda fjóra klasa en þeir eru mennta- og rannsóknarklasi, heilsuklasi, ferðaþjónustuklasi og matvælaklasi.

Verkefnisstjórn byggðaáætlunar fyrir Vestfirði hóf störf í október 2003 en í henni sitja fulltrúar byggðarlaga á Vestfjörðum. Verkefnisstjórn hefur unnið að tillögugerð og að áfangaskýrslu og stefnir að því að hægt verði að gera vaxtarsamning fyrir Vestfirði sem gildir fyrir árin 2005–2008. Samningurinn er samkomulag einkaaðila og opinberra aðila þar sem sett eru markmið um uppbyggingu svæðisins í tilteknum vaxtargreinum með áherslu á hagvöxt og fyrirtækjaklasa. Stefnt er að því að mynda þrjá klasa en þeir eru sjávarútvegs- og matvælaklasi, mennta- og rannsóknarklasi og menningar- og ferðaþjónustuklasi.

Þessa dagana er verið að taka í notkun nýtt og glæsilegt rannsóknar- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri sem mun án nokkurs efa verða allri rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi á landinu til framdráttar. Jafnframt styrkist sú starfsemi sem í húsinu verður mjög stöðu Háskólans á Akureyri en ekki verður lögð of þung áhersla á hversu mikil áhrif háskólinn hefur á að efla Akureyri og bæta búsetuskilyrði þar og víða um land.

Vinna við að bæta möguleika til háskólanáms víðar á landsbyggðinni er í fullum gangi. Þannig er í gangi vinna við að móta skipulag og koma með tillögur um fjármögnun þekkingar háskólanámssetra á landsbyggðinni. Þetta er starf sem skiptir mjög miklu máli að vel takist til um því bætt aðstaða til náms og möguleikar á að vinna að rannsóknum er grundvallaratriði í bættri samkeppnisstöðu hinna einstöku svæða.

Hæstv. forseti. Hér verða ekki fleiri atriði upp talin en vísað til skýrslunnar um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Eins og áður kom fram ákvað ríkisstjórnin á árinu 2003 að verja 700 millj. kr. til atvinnuátaks á landsbyggðinni og var Byggðastofnun falið að ráðstafa 500 millj. kr. af því fé. Skyldi 350 millj. kr. vera varið til hlutafjárkaupa í álitlegum sprotafyrirtækjum og 150 millj. kr. til að styrkja verkefni sem líkleg væru til að efla grunngerð og nýsköpun á starfsvæði stofnunarinnar. Alls bárust Byggðastofnun 98 umsóknir um hlutafjárframlög, samtals að fjárhæð um 1 milljarður og 750 millj. kr. og var ákveðið að fjárfesta í 23 verkefnum. Þá er stofnunin nú þegar þátttakandi í fjölda verkefna um eflingu grunngerðar og nýsköpunar á landsbyggðinni, og ráðstöfun 150 millj. kr. er þannig langt komin og mun væntanlega ljúka fyrir næstu áramót.

Ef áætlanir verða að veruleika er ljóst að mikill fjöldi starfa mun skapast í kjölfar þessara verkefna á næstu árum.

Í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir þinginu er gerð grein fyrir framvindu byggðaáætlunar og störfum Byggðastofnunar. Að mörgu fleiru hefur verið unnið á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta er varðar uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni á undanförnum missirum. Hefur umtalsverðum fjármunum verið varið til þeirra verkefna. Hér vil ég nefna hugmyndir um byggingu rafskautaverksmiðju í Hvalfirði en slík verksmiðja mundi skapa um 100 ný störf. Þá hefur ráðuneytið tekið þátt í athugun á undirbúningi á byggingu kalkþörungaverksmiðju í Arnarfirði, álþéttiverksmiðju á Akureyri, pólýolverksmiðju á Húsavík, kísilduftsverksmiðju við Mývatn og vikurvinnslu á Mýrdalssandi.

Lög um endurgreiðslu vegna kvikmynda og kynning á þeim hefur haft umtalsverð áhrif á atvinnulíf landsbyggðarinnar. Á undanförnum árum hafa kvikmyndaverkefni velt milljörðum króna.

Þá hefur mikil vinna farið í staðarvalsrannsóknir vegna hugmynda um stóriðju á Norðurlandi. Mikill áhugi er meðal álfyrirtækja á því verkefni og öllum hér inni sem á annað borð hafa heimsótt Austurland á síðustu mánuðum ætti að vera ljóst hvílík áhrif slík uppbygging gæti haft.

Nýverið birti Hagstofa Íslands tölur um búferlaflutninga það sem af er árinu. Þær tölur sýna að víða er fækkun fólks. Sú fólksfækkun stafar ekki fyrst og fremst af atvinnuleysi því víða þar sem fækkunin er mest er atvinnuleysi lítið eða ekkert, svo sem á Norðurlandi vestra. Við þessu verður að bregðast enn frekar. Ég tel að það verði best gert með því að efla samkeppnishæfni einstakra svæða og skapa forsendur til að bjóða upp á sem jöfnust og best búsetuskilyrði, svo sem bættum samgöngum í víðasta skilningi, betra aðgengi að menntun og afþreyingu og þeirri þjónustu sem nútímalífshættir krefjast. Jafnframt verði atvinnulífinu sköpuð skilyrði til að nýta staðbundna kosti til verðmætasköpunar.

Það þarf að gera með því að efla enn frekar stuðning við nýsköpun og frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja með því að tryggja næg framboð af menntun vinnuafls og ekki síst með því að skapa atvinnulífinu sömu starfsskilyrði að öðru leyti og í helstu samkeppnislöndum okkar.

Nú er tæpt ár eftir af tíma núgildandi byggðaáætlunar. Ég hef fyrir nokkru falið Byggðastofnun og starfsmönnum ráðuneytisins að hefja vinnu við gerð byggðaáætlunar fyrir tímabilið 2006–2009. Ég vænti þess að geta lagt þá áætlun fram á haustþingi 2005.

Að lokum vil ég nefna að á vegum iðnaðarráðuneytisins er nú verið að kanna möguleika á að teknar verði upp endurgreiðslur til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar. Eftirlitsstofnun EFTA setur slíkum styrkveitingum skorður og nú er verið að vinna að nánari útfærslum endurgreiðslukerfisins og að upplýsingaöflun áður en kerfið verður formlega borið undir Eftirlitsstofnunina.

Hæstv. forseti. Ég er bjartsýn á framtíð landsbyggðarinnar. Það er mat mitt að framvinda byggðaáætlunar sé vonum samkvæmt. Hins vegar tel ég eðlilegt að áætlunin verði nú skoðuð í ljósi fenginnar reynslu og metið hvort þörf sé á að endurskoða tiltekna þætti hennar.



[11:34]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að þessi skýrsla skuli loks vera komin á dagskrá Alþingis. Menn sakna þess að hún hafi ekki verið rædd í vor eftir að hún var lögð fram en að hún sé rædd nú, þetta seint, er þó skárra en ekki.

Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra. Í því þingskjali sem hér hefur verið dreift er fjallað um aðrar aðgerðir stjórnvalda. Þar er fjallað um hvað verið sé að gera í iðnaðarráðuneytinu, í heilbrigðisráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Það vekur athygli mína, herra forseti, að hér er ekkert um aðrar aðgerðir í þeim ráðuneytum sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrir. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hverju það sæti að það er ekki verið að vinna í neinum öðrum aðgerðum stjórnvalda í ráðuneytum Sjálfstæðisflokksins.



[11:35]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þingmanns um að skýrslan skyldi ekki rædd í vor vil ég fyrst segja að ég reyndi ítrekað að fá hana rædda hér á hv. Alþingi en því varð ekki fyrirkomið einhverra hluta vegna. Það er því ekki við mig að sakast í þeim efnum, bara svo að það liggi fyrir.

Síðan spyr hv. þm. um ráðuneyti sjálfstæðismanna. Ég hef engin svör við því, þetta er sú skýrsla sem unnin er á grundvelli upplýsinga sem berast frá ráðuneytunum. Ég bara hef ekki svör við því á þessari stundu en mun athuga hvernig á þessu stendur.



[11:36]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki svör á reiðum höndum um þetta sem ég spurði um. Mér finnst það dálítið sláandi að ráðuneyti sjálfstæðismanna skuli ekki skila gögnum hingað inn um þetta eins og hæstv. ráðherra fjallar um. Þau gögn hafa ekki borist. Þess ber þó að geta að fyrst þegar skýrslan var gerð í vor skilaði eitt ráðuneyti Framsóknarflokksins, utanríkisráðuneytið, ekki inn gögnum. Það er dálítið sérstakt, eins og ég gerði hér að umtalsefni, að ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins skilar engu hingað inn. Því spyr ég ráðherrann enn frekar út í þetta: Getur verið að einhver ágreiningur sé milli ríkisstjórnarflokkanna í þessum málum? Ég mun líka koma að því í ræðu minni á eftir að frá þeirri skýrslu sem var lögð fram í vor og til þeirrar sem lögð er fram nú er töluvert mikill munur í mörgum köflum þar sem meginmarkmið og framkvæmd er ekki útskýrt. Það á svolítið við um málaflokka sem falla undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins.



[11:37]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það þurfi engrar skýringar við að sú skýrsla sem lögð er fram núna sé ekki nákvæmlega eins og sú sem lögð var fram í vor, það er einfaldlega vegna þess að borist hafa nýjar upplýsingar. Verkefni hafa líka verið í gangi sem hafa þokast áfram o.s.frv. Mér finnst þetta ekki vera alveg málefnalegt að koma með þetta svona í upphafi því að ég hef ekki gert neinn sérstakan samanburð á ráðuneytum framsóknarmanna og ráðuneytum sjálfstæðisráðherra í þessu sambandi og tel það ekki mitt hlutverk. Hv. þm. verða bara að lesa skýrsluna eins og hún kemur fyrir.



[11:38]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera allsérstæð skýrsla. Þetta er svona samtíningur á verkefnunum en í rauninni er voðalega erfitt að meta árangur í byggðamálum. Ef ég hefði gert svona skýrslu hefði ég reynt að tína út hvernig raunverulega er hægt að meta stöðuna. Ég tel að það hefði verið best gert þannig að menn reyndu að bera saman fjölgun íbúa eða íbúaþróun og fjölgun eða fækkun starfa. Hvers vegna er það ekki gert?



[11:39]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eflaust hægt að vinna þetta á ýmsan hátt. Það hefur svo sem verið unnið á ýmsan hátt að því að reyna að átta sig á þróun byggðar. Sú aðferð sem hefur verið beitt og er ekki beitt núna er sú aðferð að teikna landið upp í mismunandi litum og segja: Þetta er vaxtarsvæði og hitt er hnignandi svæði o.s.frv. Þessu hefur verið hætt og ég held að það sé mikilvægt. Ég er þó fyrst og fremst að greina frá því hvernig gengur með þau verkefni sem lögð var áhersla á í byggðaáætlun. Það er mitt hlutverk. Og það kemur fram í þessari skýrslu. Hvort að hún er fullnægjandi og hvort hún veitir fullnægjandi svör verður hv. þm. að meta en a.m.k. er gerð tilraun til að greina frá því hvar við stöndum með þessi verkefni.



[11:40]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé augljóst að ef menn ætla að meta árangur verkefnanna hljóta þeir að skoða íbúaþróun og fjölgun eða fækkun starfa. Ég held að það hljóti að vera augljóst. Ég skil ekki hvernig á að vera hægt að meta byggðaþróun öðruvísi.



[11:40]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hægt að fylgjast með byggðaþróun í gegnum tölur frá Hagstofunni. Samkvæmt þróun á 3. ársfjórðungi vill svo til (Gripið fram í.) að það er fjölgun í tveimur landshlutum, ef þannig má að orði komast, annars vegar á Austurlandi og hins vegar Suðurlandi. Fækkun hefur hins vegar orðið á höfuðborgarsvæðinu, um 88 manns. Nú er ég ekki að gleðjast sérstaklega yfir því en það er allt í lagi að hafa þessar tölur í huga þegar verið er að ræða byggðaáætlun. Þetta er þróun íbúa í landinu.

Um það hve mörg störfin eru nákvæmlega á hverju svæði hef ég ekki upplýsingar en ég veit a.m.k. að þeim fjölgar mikið á sumum landsvæðum. Sjálfsagt er eitthvert samhengi á milli þessarar íbúaþróunar og fjölgunar starfa. Þá er ég að hugsa bæði um Suðurland og Austurland.



[11:41]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, þar sem hún fjallaði í upphafi máls síns um störf Byggðastofnunar, árangur af þeim og mat á því hvernig þar hefði til tekist — ég held að hæstv. ráðherra hafi sagt eitthvað á þá leið að afskriftir á árunum 1998–2000 hefðu verið mjög miklar, 600 millj. eða meira, og þar hefði greinilega verið tekin mikil áhætta, á þeim árum. Metur hæstv. ráðherra það svo að stjórnin sem þá sat í Byggðastofnun hafi tekið áhættu langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist? Eða hvað á hæstv. ráðherrann við?

Þegar núna verður mikil uppgreiðsla lána sitja þá ekki eftir lán með mikilli áhættu og hvernig ætlar ráðherrann að meta það í framtíðinni?



[11:43]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er hægt að segja að það sé þannig núna eftir að það hefur verið þetta mikið um uppgreiðslur lána að þau lán sem eftir eru eru með meiri áhættu en þau sem greidd hafa verið upp. Það er ákveðið áhyggjuefni sem ég kom inn á í ræðu minni.

Ég hef ekkert metið störf stjórnar í samhengi við það hverjir hafa setið þar. Ég fór hér einfaldlega með tölur. Gríðarleg áhætta hefur verið tekin hjá Byggðastofnun í lánamálum og það er alveg skiljanlegt — ég hef fullan skilning á því — og viljinn er sá að reyna að styrkja byggðir á viðkomandi stöðum, og styrkja atvinnulífið. Allt hefur þó sín takmörk og kannski er mönnum ekki greiði gerður endilega með því að fá lán ef starfsemin er vonlaus fyrir fram. Ég tel að með nýjum vinnubrögðum sé lögð meiri áhersla á að meta lánsumsóknir og veita einungis lán þeim fyrirtækjum sem eiga von.



[11:44]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Ég þakka svörin og vil tjá þá skoðun mína að ég held að það hljóti ævinlega að vera svo að Byggðastofnun taki meiri áhættu í lánum sínum en almennar lánastofnanir. Það er beinlínis hlutverk hennar að standa að því að reyna að efla atvinnu og byggð í landinu. Til þess getur Byggðastofnun eðlilega þurft að taka áhættu og þess vegna ítreka ég það að ég átta mig ekki alveg á því hvað hæstv. ráðherrann átti við þegar hún tók sérstaklega árin 1998–2000 sem ég held að hæstv. ráðherra hafi nefnt í ræðu sinni sem sérstaklega mikið áhættutímabil. Eða getur hæstv. ráðherrann upplýst hversu háar upphæðir um er að ræða sem núna sitja eftir í Byggðastofnun sem áhættulán?



[11:45]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki með nákvæmar tölur um hvað telst vera áhættulán og hvað ekki en ég endurtek það sem ég sagði áðan, þau lán sem Byggðastofnun er með úti í dag eru að tiltölulega stórum hluta áhættulán þar sem um uppgreiðslu lána hefur verið að ræða að svo miklu leyti sem raun ber vitni. Þetta er bara staðreynd sem liggur fyrir og það þarf að horfa á málið út frá slíkum staðreyndum upp á framtíðarstörf stofnunarinnar.



[11:46]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að staldra við eitt atriði sem ég mun fjalla ítarlegar og betur um í dag í ræðu minni, um það sem segir í skýrslunni um rafræna menntun og fjarvinnslu. Síminn, þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga í fjarskiptum, hefur skilgreint ákveðin byggðarlög sem of óarðbær til að leggja þangað háhraðanet í gegnum ADSL-kerfi og með því eru þau afsett og sett í 2. flokk. Þarna er um að ræða dreifbýlið og smærri byggðarlög. Þau eru svipt aðgengi að upplýsingahraðbrautinni og jöfnum tækifærum til að byggja upp fjarvinnslu hvers konar og fyrir íbúana að mennta sig í gegnum netið.

Íbúarnir eru afsettir á þennan hátt og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún muni — ekki síst út frá þeim markmiðum sem fram koma í skýrslunni — beita áhrifum sínum og afli til að tryggja að allir íbúar Íslands, hvort sem þeir búa í dreifbýli eða smærri byggðarlögum, hafi aðgang að háhraðaneti. Þá er ég ekki að tala um að menn þurfi að leggja streng heim á hvern einasta bæ heldur eru til margar aðrar lausnir eins og í gegnum örbylgju og fleira. Það þarf hins vegar aðkomu Símans og opinberra aðila að þessu verkefni.



[11:47]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. veit heyrir þessi málaflokkur undir samgönguráðherra en hins vegar kemur fram í skýrslunni að það er búið að vinna heilmikið á þessu sviði. Auðvitað höfum við öll þá von og það markmið að öll heimili í landinu hafi háhraðatengingu. Ég veit að það er hægt að fara aðrar leiðir en þær að leggja ljósleiðara og ýmislegt er að gerast í tæknimálum sem gefur okkur von um að þetta verði einfaldara en við kannski vissum áður.

Þetta verður ekki gert öðruvísi en með aðkomu Símans, sagði hv. þm., og í tengslum við sölu Símans er samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að gera þarna ákveðið átak sem ég trúi að verði landsbyggðinni mjög í hag.



[11:48]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil áfram nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja jákvæðni sinni til málsins eftir með því að beita sér fyrir því að þegar og ef Síminn verður seldur yfirleitt verði salan skilyrt þannig að hann taki þátt í því félagslega og þjóðfélagslega verkefni að tryggja öllum landsmönnum aðgang að háhraðaneti. Þær byggðir sem hafa ekki aðgang að háhraðatengingu verða einfaldlega ekki samkeppnishæfar í framtíðinni. Málið er svo einfalt — þar sest fólk ekki að.

Ef við beitum ekki afli samfélagsins og samstöðunnar til að tryggja þessum dreifðu byggðum og smærri byggðarlögum aðgengi að háhraðaneti og aðgengi að internetinu, aðgengi að upplýsingahraðbrautinni, aðgengi að þeirri upplýsingabyltingu sem er í gangi og er í vændum og þeim tækifærum sem hún veitir, erum við einfaldlega að slá þessar byggðir af. Það er svo einfalt mál og þess vegna eigum við að beita afli samfélagsins til að tryggja að svo megi verða sem við erum að ræða hér.



[11:49]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er gríðarlega mikilvægt mál og m.a. þess vegna hefur verið farið út í verkefnið Rafrænt samfélag sem er eitt af áhersluatriðum byggðaáætlunar. Þar unnu tveir sveitarfélagaklasar til verðlauna, og verðlaunin voru þau að taka þátt í verkefninu með aðstoð ríkisvaldsins. Þetta er annars vegar sveitarfélag á Suðurlandi og hins vegar á Norðurlandi og ég bind miklar vonir við þetta verkefni, líka til þess að sem allra flestir geti höndlað þetta mikilvæga upplýsingamál sem er það að kunna á þessi samskipti.



[11:50]
Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég sagði áðan að það væri gott að loksins skyldi komast á dagskrá þingsins að ræða skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Áðan kom fram hjá hæstv. ráðherra að hún hefði mikið gert til að koma skýrslunni á dagskrá í vor en það hefði ekki tekist. Þá er væntanlega við hæstv. forseta Alþingis að sakast.

Mér fannst í raun og veru dálítið táknrænt að skýrslan skyldi ekki hafa komist fyrr á dagskrá vegna þess að mér finnst oft og tíðum sem menn á hinu háa Alþingi veigri sér mikið við það að eyða tíma sínum í að ræða um byggðamál og byggðaáætlanir. Ég sé ekkert eftir þeim tíma og er stoltur af því að færa þau mál oft í tal þó að ég skaprauni hæstv. ráðherrum eins og í gær þegar þau pirrast yfir því að rædd skuli vera mál sem betur mega fara.

Í upphafi máls míns núna vil ég líka taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði í gær, að sannarlega er verið að vinna að mörgum ágætum málum á mörgum stöðum á landinu. Þau gagnast bara ekki öllum. Ég verð að nefna þetta, virðulegi forseti, eins og ég hef nefnt með byggingu álvers fyrir austan sem gagnast vel á Miðausturlandi en ekki t.d. þegar komið er á Vopnafjörð eða suður á Stöðvarfjörð, svo að ég taki dæmi.

Það sem við erum að færa í tal er það sem við sjáum, að skórinn kreppir á öðrum stöðum og ýmislegt má betur fara. Þá kannski snýst það sérstaklega um rekstrarskilyrði fyrirtækja og búsetuskilyrði fólks sem er jafnréttismál.

Ég sagði áðan að ég sæi mikinn mun á þeirri skýrslu sem dreift var í vor og átti að ræða hér og hinni sem dreift er núna. Það er töluvert mikið búið að breyta henni, og kem ég að því síðar, að ég tali nú ekki um fyrstu skýrsluna sem ég fékk í gær. Þá brá mér verulega vegna þess að maður þarf ekki annað en að taka á henni, hún var miklu þynnri en hinar. Ég spurði sjálfan mig: Hvað er nú á ferðinni? Ég margfletti í gegnum skýrsluna í gærkvöldi og skildi ekkert hvað væri á ferðinni þar til ég áttaði mig á því að inni í því gagni, a.m.k. því eintaki sem ég hafði fengið, kom blaðsíða nr. 25 á eftir síðu nr. 8. Það vantaði svona mikið inn í hana. Rétt áður en ég fór að sofa kom það upp í huga mér eitt augnablik hvort það hefði kannski verið táknrænt að svo margar síður vantaði í skýrsluna. Svo þegar ég fór á netið kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað við prentun eða heftun eða guð má vita hvað það var, a.m.k. er meira í skýrslunni sem betur fer.

Ég ræddi áðan um ráðuneytin og hæstv. ráðherra gat ekki svarað um framsóknarráðuneytin versus sjálfstæðisráðuneytin, um aðrar aðgerðir stjórnvalda svo það komi skýrt fram, en það er líka sá munur á skýrslunni sem lögð var fram í vor þar til núna að það er búið að taka ýmislegt út úr ýmsum köflum. Það finnst mér mjög athyglisvert og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem mun þá geta svarað því hér á eftir, hvers vegna það sé. Þetta er um meginhugmyndirnar, merkislýsingin á hverjum kafla fyrir sig og markmiðið, markaðssetning ef svo má að orði komast. Margt af því var tekið út, t.d. kaflinn um athugun á búsetuskilyrðum fólks, meginhugmyndin þar og markmið. Þetta eru falleg orð á blaði og ég get alveg undir þau þó að ég gagnrýni stundum að ekki sé unnið eftir þeim.

Athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna, bæði meginhugmyndir og markmið, er líka farin út og hefur verið sett inn í einn lítinn kafla. Það stendur að iðnaðarráðherra hafi falið Hagfræðistofnun Háskólans og Byggðarannsóknastofnun að skrifa nýja bók, nýja skýrslu. Annað stendur ekki í þessu, því miður. Það er það sem ég sakna, að ekki skuli vera sagt frá því hérna hvað kom fram við athugun á búsetuskilyrðum fólks. Hvar er það sem fólk á landsbyggðinni býr ekki við jafnrétti gagnvart höfuðborgarsvæðinu? Og af hverju er það ekki skilgreint hér og sett upp? Af hverju förum við ekki í þær aðgerðir eins og margoft hefur verið lofað? Af hverju er ekkert sett niður í skýrslu byggðamálaráðherra um starfsskilyrði atvinnuveganna? Þetta vantar. Ég tala nú ekki um ljósleiðarann sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ræddi hérna áðan og ætlar að ræða um, ég ætla ekki að eyða lengri tíma í núna. Meginhugmyndin sem stendur í gömlu skýrslunni er, með leyfi forseta:

„Notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu.“

Markmiðslýsingin er líka mjög góð en í nýju skýrslunni er hún farin út. Hverju sætir það, hæstv. ráðherra? Ég spyr, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Það er gott, virðulegi forseti, ef hæstv. byggðamálaráðherra hefur skipt um skoðun frá því að ætla að skila auðum síðum upp á einar 14–15 blaðsíður en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla sem hér er rædd — ég sagði að það væri gert vonum seinna og væri betur að það væri gert oftar — gefur ekki tilefni á 15 mínútum til að fara í gegnum þetta allt saman lið fyrir lið. Þó væri sannarlega full ástæða til að gera það. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem snúa að því að skekkja samkeppnisstöðu fólks á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, ef svo má að orði komast. Ég ætla að nefna verri lífskjör, mismun sem jafnaðarmenn geta ekki sætt sig við. Ég held að í eðli sínu séum við, flestir Íslendingar, dálítið miklir jafnaðarmenn. Það er ekki hægt að sætta sig við það sem er að gerast hér. Hið sama á við um rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja. Tökum dæmi sem er að gerast núna og ríkisstjórn segir: Okkur kemur þetta ekki við. Þegar rætt er við hæstv. samgönguráðherra, sem var hér áðan en er því miður farinn, um að sjóflutningar eigi að hætta 1. desember segir hann bara: Okkur kemur þetta ekki við, okkur kemur þetta ekki við. Alveg eins og með kennaraverkfallið. Okkur kemur þetta sannarlega við vegna þess að þetta mun skekkja samkeppnisstöðu atvinnurekstrar á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Á ég að nefna eitt dæmi?

Við í sjávarútvegsnefnd heimsóttum t.d. Sæplast á Dalvík og fengum þar sýnt á glæru hvernig það mun fara þegar sjóflutningar hætta og þeir þurfa að fara að flytja allt landleiðina. Þar fyrir utan spái ég því að taxtar á landflutningum muni hækka um leið og sjóflutningarnir hætta og, það sem verra verður, ég spái því líka að flutningafyrirtækin muni lokka frystitogarana suður til sín á höfuðborgarsvæðið einn af öðrum og bjóða þeim fría löndun, kannski frían flutning á mannskap heim o.s.frv. gegn því að koma suður og landa. Þá verður þetta tekið af bæði sem tekjur fyrir hafnirnar og vinna fyrir fólkið þarna. Olíugjaldið sem ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu að taka upp á næsta ári mun líka stórhækka flutningskostnað á landinu. Hæstv. ráðherra ræddi ekki um það. Það verður núna með öðrum orðum tekjustofn fyrir ríkissjóð, fyrir flutningabíla sem keyra yfir margar heiðar í ófærð. Í mótvindi t.d. munu þessir bílar eyða miklu meiri olíu og greiða miklu meiri skatt til ríkissjóðs, og er þó nóg fyrir. Ég spái því, virðulegi forseti, því miður, að þetta muni hækka flutningsgjöld.

Hæstv. byggðamálaráðherra ræddi enn einu sinni um og kenndi einhverju apparati úti í Brussel um að ekki séu komnar einhverjar aðgerðir í jöfnun flutningskostnaðar eins og margoft hefur verið lofað og talað um af hæstv. ráðherra á tyllidögum og fyrir kosningar. Þessa sér hvergi stað í fjárlögum. Það er ekki endalaust hægt að kenna Brussel um svona aðgerðaleysi. Við þurfum ekkert samþykki í Brussel fyrir því að lækka skatta af flutningastarfsemi, virðulegi forseti. Það er auðveld leið. Sú leið sem ég m.a. benti á við olíugjaldið var því miður ekki tekin upp, að setja hina sérstöku mæla í flutningabíla, láta þá greiða eftir því og gefa t.d. möguleika á miklum afslætti ef keyrt væri á næturnar. Hæstv. ríkisstjórn hlustaði því miður ekki á það.

Annað atriði sem ég vil nefna á þessum stutta tíma er tekjustofnar sveitarfélaga. Skertar tekjur sveitarfélaga gera það að verkum að sveitarfélögin úti á landi geta skaffað íbúum sínum minni þjónustu en gerist og gengur annars staðar. Íbúar úti á landi vilja sömu þjónustu frá sveitarfélagi sínu og gerist annars staðar, hvort sem það varðar skóla, vegi, félagsþjónustu eða annað. Þetta hefur verið skert mjög í tíð núverandi ríkisstjórnar. Skattkerfisbreytingin 2001 þar sem mönnum gafst tækifæri til að setja rekstur sinn yfir í einkahlutafélög stórskerti tekjur sveitarfélaga og að mati Vilhjálms Vilhjálmssonar, formanns Sambands sveitarfélaga, sem ég kalla stundum höfuðborgarsveitarfélaganna, skertust tekjurnar um milljarð.

Hvaða afleiðingar hefur þetta í för með sér? Jú, það gerir það t.d. að verkum að þau sveitarfélög eru til sem verja allt að 90% til fræðslumála, eins og kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn minni nú fyrir nokkrum dögum. Það er alveg með ólíkindum hvernig þetta er að fara. Hvaða áhrif hafði þessi skattkerfisbreyting á fyrirtækjarekstur í landinu? Mjög alvarlegar afleiðingar. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu stórgræddu á tekjuskattsbreytingunni, á lækkun skattprósentunnar, á lækkun eignarskattsins og upptöku og hækkun tryggingagjaldsins. Ég sagði það í gær að fyrirtæki á þessum tíma og á þáverandi verðlagi í Reykjavík og á Reykjanesi græddu 2,7 milljarða kr. á þessari skattkerfisbreytingu. Fyrirtækin á Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og Vesturlandi græddu heilar 6 millj. kr.

Það er þetta sem ég er að tala um, virðulegi forseti.

Í þessari skýrslu er verið að tala um að jafna rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja en það hefur ekki verið gert á neinn hátt heldur farið í þveröfuga átt eins og ég bendi á. Er hæstv. ráðherra byggðamála virkilega stolt af því að sitja í ríkisstjórn sem beitir sér fyrir aðgerðum sem koma svona misjafnlega niður á þegnum og fyrirtækjarekstri í landinu? Ég segi nei. Ég var sammála því að lækka tekjuskattsprósentuna en ekki hvernig það er gert. Af hverju er þá ekki gengið í það sem gerir það að verkum að fyrirtæki á landsbyggðinni víðast hvar skila ekki miklum hagnaði, að lækka flutningskostnaðinn sem er brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar? Nei, það er ekki gert vegna þess að einhverjum vondum körlum úti í Brussel er kennt um það.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan gefst ekki mikill tími til að fara í gegnum þessa skýrslu á 15 mínútum eftir 30 mínútna inngangserindi hæstv. ráðherra. En ég á aðrar 15 mínútur og mun nota þær á eftir og ræða um aðra þætti sem snúa að þessu.

Ég vil í lokin á þessum ræðutíma segja að það sem ég nefndi um sjóflutningana og landflutningana — af því að hæstv. samgönguráðherra er kominn inn vil ég nefna það að ég var að tala um sjóflutningana og að ég er mjög ósáttur við þau orð samgönguráðherra þegar hann var spurður út í sjóflutninga að ríkisvaldinu komi þeir ekki við. Auðvitað kemur okkur við hvernig þetta er og við eigum að stuðla að því ef hægt er að hafa sjóflutninga áfram. Það má alveg hugsa sér þá leið að styrkja sjóflutninga til ákveðinna staða á landsbyggðinni, þ.e. með flutningsstyrkjum. Evrópusambandið er t.d. mest í því að leyfa slíka „mismunun“ ef svo má að orði komast. Það mætti alveg hugsa sér það til einhverra meginhafna og það væri líka öryggisatriði gagnvart umferð á þjóðvegum. Af því að hæstv. samgönguráðherra er hér og hefur tekið við umferðaröryggismálunum þá er það líka ákveðið öryggisatriði að fá ekki allan þann flutning sem nú fer í sjóflutningum upp á þjóðvegi landsins og skapar stórhættu á þjóðvegunum. Auðvitað eigum við að hugsa upp leiðir og skoða hvort hægt er að koma til móts við þetta, t.d. að bjóða út sjóflutninga eins og gert var með flugið til ákveðinna staða. Mér finnst alveg fullkomlega koma til greina að skoða þá leið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan um þessa skýrslu þá er margt ágætt sett þar fram. Mér finnst hins vegar vanta töluvert mikið á efndirnar. Ég tek sem dæmi endurgreiðslu námslána, punkt nr. 20, með ágætismeginhugmynd og ágæta markmiðslýsingu í þeirri skýrslu sem dreift var í vor. Í skýrslunni núna er meginhugmyndin og markmiðslýsingin tekin út og í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni um málið kom einfaldlega fram að það hefði ekkert verið gert í því og stæði ekki til að gera neitt.

Ég nefndi áðan háhraðatengingarnar, þá fínu markmiðslýsingu sem var í gamla gagninu um að notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu. Meginhugmyndin var sú, markmiðslýsingin var líka góð, ábyrgðin á höndum samgönguráðuneytisins, allt þetta er farið út. Hvers vegna er það farið út? Er það vegna þess að einhverju ráðuneyti finnst óþægilegt að hafa slíka lýsingu? Ég var mjög ánægður með hvernig þetta var sett upp og að einstök ráðuneyti voru gerð ábyrg fyrir framkvæmdinni á þessum hluta byggðaáætlunar. Mér fannst þetta mjög góð markmiðssetning en ég verð mjög hissa, svo ég segi nú ekki meira, ef þetta er að detta út eitt af öðru núna. Ég vil ekki trúa því að ráðuneytin treysti sér ekki til að vinna þessi verkefni, að þau séu að beita sér fyrir því að þetta sé tekið út úr skýrslu hæstv. byggðamálaráðherra sem flutt er hér nú.

Virðulegi forseti. Ég hef gert nokkur atriði úr þessari skýrslu að umtalsefni. Mörg önnur bíða þess að verða tekin út og rædd og eins ég sagði áðan mun ég gera það á eftir. Ég mun m.a. tína til og sýna reikninga fyrir flutningi á einu tonni af sementi vestur á firði þar sem flutningskostnaðurinn er jafnhár og innkaupsverðið á sementinu. Hvernig í ósköpunum á kaupmaðurinn í Bolungarvík að selja þetta sement? Það væri gaman að heyra útlistun á því hjá hæstv. byggðamálaráðherra, sem jafnframt er viðskiptaráðherra, hvernig reka eigi fyrirtæki á landsbyggðinni sem býr við þessi ofurflutningsgjöld og hvernig á að leggja á og hafa smávegis fyrir rekstri miðað við slíka álagningu.



[12:05]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Kristjáni Möller um að margt jákvætt hefur verið gert í byggðamálum. Það var alveg hárrétt hjá honum eins og hann byrjaði ræðu sína.

Þar sem um ríki og sveitarfélög er að ræða þá veit hann ósköp vel að nefnd um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er að störfum núna þar sem verið er að tala um að sveitarfélögin fái aðra tekjumöguleika. Sú nefnd mun skila áliti innan skamms. Ég vil svo spyrja hv. þm.: Hvernig stendur á því að mörg sveitarfélög, að mig minnir 67 sveitarfélög í landinu, nýta ekki alla þá tekjumöguleika sem þau hafa rétt á? Það er líka umhugsunarvert.

Varðandi einkahlutafélögin þar sem rætt er um einn milljarð. Sú upphæð hefur ekki verið staðfest. Hafa ekki orðið til fyrirtæki og atvinnutækifæri, tækifæri til atvinnusköpunar með því að létta sköttunum af þessum fyrirtækjum? Má aldrei nokkurn tíma breyta neinu í skattamálum hér á landi? Er aldrei rétti tíminn til þess? Við höfum verið að létta sköttum af fyrirtækjum og það er vel því að þau hafa mikla þörf á því.

Aðalumkvörtunarefni til fjármálaráðuneytisins hefur verið á þann veg að gerð sé of há krafa í endurgjaldið. Það eru aðalkvartanirnar sem hafa komið þangað en allir greiða að sjálfsögðu sína staðgreiðslu.



[12:07]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að svara nokkrum af þeim spurningum sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir beindi til mín. Hún minntist á að ég hefði talað um að margt jákvætt hafi verið gert. Það er sannarlega rétt, en má ég þá snúa þessu við og spyrja hv. þm. sem er landsbyggðarþingmaður eins og ég: Er hv. þm. sammála mér um að þrátt fyrir að margt jákvætt sé gert vanti samt mjög margt eins og t.d. að jafna rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja og að jafna búsetuskilyrði fólks?

Varðandi það hvort öll sveitarfélög nýti tekjustofna sína. Ég hef ekki hugmynd um það. En auðvitað er það líka hluti af vandamálunum ef sveitarstjórnir þurfa að hækka skatta sína mikið. Það skiptir í raun og veru engu máli hver stjórnar þeim sveitarfélögum, hvort það eru sjálfstæðismenn, samfylkingarmenn eða einhverjar sameiginlegar stjórnir. Ég kann ekki að reikna út hve mikið meiri tekjur sveitarfélögin gætu fengið ef þau nýttu útsvarið sitt í topp.

Ég minni líka á skammir ríkisstjórnarinnar til sveitarfélaganna fyrir aðhaldsleysi í fjármálum sínum og skattheimtu. Stundum er það svo.

Varðandi eignarhaldsfélögin og milljarðinn. Ég hef þá tölu frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og fyrrverandi varaformanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra Árna Magnússyni. Þeir töluðu um það á sínum tíma að þetta hafi skert tekjur sveitarfélaganna um einn milljarð.

Í lokin varðandi skattaívilnun. Má aldrei gera neina skattbreytingu? Jú, það má gera og ég hældi þeim fyrir það sem gert hefur verið, að lækka skatta á atvinnustarfsemi. En ég spyr á móti hv. þm. Drífu Hjartardóttur, og ég hef sýnt fram á það með rökum, virðulegi forseti: Getur verið að síðasta skattkerfisbreytingin hafi mismunað mjög fyrirtækjarekstri? Og má ég minna hv. þm. á hvernig skattkerfisbreytingin kom út fyrir sérskattumdæmi Vestmannaeyja sem er í kjördæmi hv. þm.? (Forseti hringir.) Fyrirtækjarekstur í Vestmannaeyjum borgaði að mig minnir 30 millj. kr. meira (Forseti hringir.) eftir skattkerfisbreytinguna en fyrir.

(Forseti (ÞBack): Má ég minna hv. þm. á að virða ræðutíma.)



[12:10]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við gætum aldeilis skipst á skoðunum í allan dag en um margt erum við sammála.

Ég vil vara þingmenn við því að draga upp of svarta mynd af búsetuskilyrðum úti á landi því það er mjög jákvætt að búa á landsbyggðinni. Það er mjög barnvænt samfélag, nærsamfélagið er mjög gott og ég vara þingmenn við því að draga upp of dökka mynd, því hver vill flytja í það sveitarfélag þar sem allt er að fara til fjandans? Það er margt gott að gerast úti á landi en auðvitað má margt gera betur og það eru áform um að gera það.

Ég vil minna á eitt mjög jákvætt sem hefur verið gert til að bæta búsetuskilyrðin. Það eru símenntunarstöðvarnar og fjarnámið, jöfnun námskostnaðar og jöfnun húshitunarkostnaðar þannig að það hefur margt verið gert.

Hvað varðar skattheimtu og sveitarfélögin þá held ég að það sé kominn tími til að sveitarfélögin hafi sjálf ákveðið lögræði yfir því hvernig þau haga skattheimtu sinni. Þau gætu þá gert það eftir því sem þau vildu og í ákveðinn tíma, kannski haft hærri skattheimtu í nokkur ár ef á þyrfti að halda og síðan lækkað skattana aftur. En það er umhugsunarvert að öll þessi sveitarfélög nýti ekki skattstofna sína. Mér finnst það verulegt umhugsunarefni þegar sveitarfélögin kalla eftir meira fjármagni frá ríkinu.



[12:12]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka þá spurningu mína sem ég lagði fram hér í stuttu andsvari hvort hv. þm. væri sammála þeirri aðgerð sem gerð var við skattkerfisbreytinguna og kom þannig út fyrir fyrirtækjarekstur í Vestmannaeyjum að það hafði eins og ég sagði í för með sér 30 millj. kr. skattahækkun miðað við sömu rekstrarskilyrði á verðgildi ársins 2001 þegar við ræddum þetta frumvarp, meðan fyrirtækjarekstur í Reykjavík og Reykjanesi græddi 2,7 milljarða á málinu? Það er þetta sem ég er að gagnrýna. Fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni naut ekki ávaxtanna af þessari skattkerfisbreytingu vegna þess að þau voru í eðli sínu að borga litla skatta, vegna þess að þau voru m.a. að borga há flutningsgjöld og þau fengu ekki mikla lækkun á eignarsköttunum vegna þess að eignarskattar úti á landi eru ekki mjög háir af því að íbúðaverð og húsnæðisverð fyrirtækja er svo lágt skrifað en þessi fyrirtæki urðu að greiða hærra tryggingagjald. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé sammála þessu.

Ég neita því að ég sé sífellt að draga upp svarta mynd af ástandinu á landsbyggðinni. Ég er að færa í tal raunveruleikann. (Samgrh.: Er það?) Heyrist mér nú koma eitthvert baul hér á hægri hönd frá hæstv. samgönguráðherra sem tekur því sennilega illa að það skuli vera rætt um þetta og bíð ég spenntur eftir að heyra í hv. 1. þm. Norðvest. í umræðunni á eftir um byggðamál,.

Það er jákvætt að búa úti á landi, það er sannarlega rétt, það vitum við sem höfum búið þar. Þar er barnvænt og allt það. Það er bara ekki nóg. Fólk þarf atvinnu. Fólk þarf jöfn lífsskilyrði og sættir sig ekki við annað. Fólk á Raufarhöfn sættir sig ekki við að hafa ekki háhraðatengingu eins og fólk hefur á Suðurlandi. Þetta er bara lífsmottó fólks í dag. Og varðandi atvinnuleysi og atvinnuleysisskráningu, eins og hæstv. ráðherra talaði um áðan, þá skulum við horfa á íbúaskrána vegna þess að hún er líka talning á atvinnuleysi af því að fólk neyðist til að flytja í burtu.



[12:14]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hv. þm. Kristján L. Möller ræða um sjóflutninga og landflutninga. Hann talar um að sjóflutningar leggist af en það er nú svo að enn þá eru sjóflutningar til Vestfjarða. Ég hef margkomið inn á það í þessum ræðustól og spurt þingmenn dreifbýlisins: Í skýrslu sem liggur fyrir frá samgönguráðuneytinu kemur fram að það er 30–70% dýrara að flytja vörur landleiðina en með sjóflutningum en hvernig má þá vera að atvinnurekendur í hinni dreifðu byggð flytji í jafnríkum mæli og raun ber vitni landleiðina? Munu flutningar á landi leggjast af ef stofnuð verður Skipaútgerð ríkisins? Munu þeir flutningar leggjast af ef styrkur verður veittur sérstaklega til landflutninga?

Það hefur meira að segja komið fram hjá sumum stjórnarandstæðingum að það væri eðlilegt að leggja hærri skatta á landflutningana sem þýðir hærra vöruverð úti á landi. Ég verð að segja eftir að hafa hlustað á stjórnarandstæðinga tala út og suður eins og þeir gera hér að þá áttar maður sig ekkert á stöðunni. Það er bara ríkisvaldið sem á að koma til. En hvað með fólkið sjálft í hinni dreifðu byggð? Hvað með atvinnurekendur sem enn eru að flytja landleiðina í ljósi þeirra upplýsinga hve miklu dýrara er flytja landleiðina en sjóleiðina? Af hverju flytja þeir ekki sjóleiðina? Munu sjóflutningar aukast ef landflutningarnir verða styrktir? Þetta er algjörlega út í hött. Menn tala hér út og suður.

Hæstv. forseti. Nei, hér er annað að en að það sé allt ríkinu að kenna að sjóflutningar séu að leggjast af. Það er hinni dreifðu byggð sjálfri að kenna. Og getur verið að það séu undirliggjandi deilur á milli sveitarfélaga um að koma sér ekki saman um að nota einhverja ákveðna höfn?



[12:16]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. sagði. Ég hygg hins vegar að í sjóflutningum undanfarinna ára hafi aðallega þungaflutningar á vörum eins og frábærar útgerðarvörur frá Sæplasti verið fluttar sjóleiðina, ekki með bílum vegna þess að þetta er rúmfrek vara á t.d. járni til vélsmiðjanna til úrvinnslu og jafnvel á vörunni til baka. Tökum 3X-Stál á Ísafirði sem dæmi. Það er frábært fyrirtæki en um langan veg að flytja.

Hins vegar er allt annað mál með lausavöruna, matvöruna. Það er ósköp eðlilegt að menn vilji geta tekið hana daglega, með daglegum ferðum flutningabíla. Það er kannski mest í fiskflutningum og öðru sem kreppir að. Það eru vikulegar siglingar á meðan bílarnir eru með daglegar ferðir næstum því um allt land. Í því liggur munurinn. Ég þekki það sem gamall kaupmaður að ég gat aldrei notað sjóflutninga. Líka vegna þess að oft og tíðum var verið að flytja of litlar einingar og þrátt fyrir allt hagkvæmara að flytja þær með bíl en sjóleiðina.

Þetta er mjög alvarlegt mál og við höfum stundum rætt það, ég og hv. þm., í samgöngunefnd. Ég er mjög ósáttur við að stjórnvöld skuli ekki koma að málinu og skoða leiðir. Mér finnst það mjög skrýtið og alvarlegt að þegar fyrirtæki í Bolungarvík kaupir eitthvert smotterí af múrblöndu og öðru slíku efni fyrir 21 þús. kr. í kjördæmi hæstv. ráðherra, Sturlu Böðvarssonar, að það kosti 19 þús. kr. að flytja það vestur. Hvað fær ríkissjóður af 19 þús. kr.? Ég segi alveg hiklaust um 8 þús. kr. Það eru strax 4 þús. kr. í virðisaukaskatt sem greiðast til ríkissjóðs og það er þetta sem ég gagnrýni við skattheimtuna.



[12:18]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller kemur að málinu eins og það blasir við. Það er ákveðið vandamál sem blasir við hinni dreifðu byggð í sambandi við flutningana. Það er rétt að vikulegar ferðir skipanna eru mjög óhentugar og óþénugar. (Gripið fram í: ... og fáar hafnir.) Sveitarfélögin hafa ekki komið sér saman um að byggja upp ákveðnar útflutningshafnir innan kjördæmanna. Það er vegna þess, og enginn hefur mótmælt því þá ég hef haldið því fram, að sveitarfélögin geta ekki unnið sameiginlega að því að gera einhverja eina höfn útflutningsvænni en aðra og vinna þannig að markmiðum þess sem hv. þm. kemur inn á. Það er til vansa fyrir hina dreifðu byggð að sjóflutningar skuli ekki halda áfram í ljósi þess sem ég hef sagt. Eðlilega ætti að vera miklu meira um sjóflutninga en raun ber vitni.

Það er eðlilegt að fólk á landsbyggðinni vilji ekki fá matvöru síðasta söludags á borðið hjá sér eða í hillur verslananna. Við höfum talað um ferska fiskinn, svokallaðan flugfisk, sem fer daglega í flug og er orðið miklu meira um en var. Þegar atvinnurekendur úti á landi eru spurðir hvers vegna þeir noti ekki sjóflutningana er svarið þetta: Það eru of strjálar ferðir og mikið óhagræði af sjóflutningunum. Það kostar ákveðið að koma vörunni um borð í skipið, frá borði aftur og keyra hana á þann stað þar sem menn ætla að brúka vöruna hvar svo sem það er.

Það er því svo margt sem er undirliggjandi, það er svo margt sem hefur breyst, eins og hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á í ræðu sinni, við erum á fleygiferð í umhverfi breytinga. Hraðinn og kröfurnar eru orðnar það miklar að menn kæra sig ekkert orðið um að nota sjóflutninga, telja það staðnaðan og úreltan flutningamáta.



[12:21]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerir hafnirnar enn að umtalsefni og af hverju menn noti þær ekki skulum við taka Vestfirði sem dæmi. Eru strandsiglingar Eimskips ekki bara til Ísafjarðar? Þá er eftir allt suðursvæðið. Ekki væri skynsamlegt að flytja vöruna með skipi til Ísafjarðar og keyra hana svo suður á Patreksfjörð. Við skulum hafa í huga að þetta er hluti af vandamálinu. (Gripið fram í.)

Fyrir norðan hafa skipin hins vegar komið við á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri og Húsavík, á fleiri staði. Ég sagði áðan að mér fyndist fullkomlega eðlilegt að skoða hvort haldið væri úti strandsiglingum eins og á Ísafirði með skipulegum og góðum ferðum út frá því.

Hitt atriðið sem hv. þm. nefndi var með fiskflutningana. Það snýr að skattheimtunni. Ímyndum okkur 40 feta gám af fiski á bryggju. Ef gámurinn er tekinn, settur á sleða og keyrður suður í flutningabíl þarf viðkomandi ekki að borga hafnargjöldin og hvað þetta allt saman heitir til hafnarinnar og ég tek það skýrt fram að gámurinn er á hafnarsvæðinu. Ef hann er hins vegar hífður í hina áttina um borð í skipið fær hann öll gjöldin á sig. Það er náttúrlega dálítið hjákátlegt.

Virðulegi forseti. Ég hygg og vona að hv. þm., formaður samgöngunefndar, komi að umræðunni á eftir um byggðaáætlunarskýrsluna. Ég trúi ekki að menn þurfi að gretta sig vegna þess. (Gripið fram í.) Ég trúi ekki öðru vegna þess að þetta er það mikilvægt í skýrslunni, sjóflutningur og annað slíkt, og hygg að við munum ræða þetta fram eftir degi. Ég vona að hv. þm. sem hefur jafnmiklar áhyggjur af málinu og ég og við höfum oft rætt saman komi með innlegg í umræðuna alveg eins og maður bíður spenntur og miklu spenntari eftir því að hæstv. samgönguráðherra komi.



[12:23]
Guðjón Guðmundsson (S):

Hæstv. forseti. Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar er um margt athyglisverð og sýnir að margt hefur tekist vel til þó alltaf megi gera betur. Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margháttuðum aðgerðum til hagsbóta fyrir landsbyggðina og margt af því hefur bætt mjög stöðu landsbyggðarinnar þó enn séu ýmis vandamál til staðar.

Mér finnst hafa verið vaxandi skilningur á því á undanförnum árum að menntun sé eitt af stóru landsbyggðarmálunum. Það var ekki mikið talað um hana fyrir nokkrum árum þegar rætt var um landsbyggðarmál en nú held ég að allir séu sammála um að uppbygging menntastofnana á landsbyggðinni sé eitt af því sem skiptir hvað mestu í þróun landsbyggðarmála. Getið er um það í skýrslunni að menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafi gert með sér samkomulag í fyrra um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni þar sem lögð er áhersla á eflingu náms með fjarskipta- og upplýsingatækni og til þess varið 100 millj. kr. á ári næstu þrjú árin. Í skýrslunni kemur fram að á þessu ári fari fjármunirnir í háskólanámsetur á Egilsstöðum, fræðasetur á Húsavík, eflingu þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum, eflingu símenntunarmiðstöðva um allt land, kjarnaskóla og framhaldsskóla á landsbyggðinni vegna starfsmenntunar, þróunarverkefni í grunnskólum í dreifðum byggðum á Vestfjörðum, þróun framhaldsskóla á Snæfellsnesi, háskóla vegna skipulags og þróunar námsframboðs í fjarkennslu, skráningarvinnu í menningarstofnununum og miðlun menningarefnis.

Þetta eru allt saman mjög mikilvæg verkefni og landsbyggðinni til hagsbóta. Þessu til viðbótar má geta þess að á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg uppbygging í háskólastofnunum á landsbyggðinni. Háskólinn á Akureyri reið á vaðið og tókst einstaklega vel til. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur vaxið og dafnað og er mjög mikilvæg stofnun á landsbyggðinni og starfsemin í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, sem er einkaskóli, hefur vaxið með ótrúlegum hraða. Það er gríðarleg aðsókn í þann skóla og mikil uppbygging og kraftur í starfseminni. Þetta er allt af hinu góða. Ég held að þetta skipti landsbyggðina mjög miklu máli og ekki síður fjarkennslan sem fer vaxandi um allt land. Menn sitja með sveittan skallann vítt og breitt um landið og nema við Háskólann á Akureyri, Viðskiptaháskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og fleiri skóla í gegnum tölvur og þurfa ekki að fara langar leiðir til náms. Þetta er mjög mikilvægt.

Ég held að ákvörðun ríkisstjórnarinnar fyrir tveimur árum um stórátak til atvinnusköpunar á landsbyggðinni hafi skipt verulegu máli. Þar voru lagðir margir milljarðar fyrst og fremst til samgöngubóta, en einnig 700 millj. kr. til að efla atvinnulífið í formi hlutafjár og styrkja til nýsköpunar. Þetta hefur skilað verulegum árangri og fyrst og fremst samgöngubæturnar náttúrlega sem skipta landsbyggðina miklu máli. Við höfum séð að þar hefur átakið gert verulegt gagn. Ekki síður peningurinn sem veittur var til hlutafjárkaupa og til að styrkja sprotastarfsemi vítt og breitt um landið. Þar hefur Byggðastofnun haft með úthlutun peninganna að gera og er lokið að koma hinum 350 millj. kr. til 23 aðila vítt og breitt um landið. Starfsmenn Byggðastofnunar lögðu mikla vinnu í að kanna umsóknir og mjög margar umsóknir bárust. Ég held að þarna hafi tekist afskaplega vel til og ég er viss um að mörg þessara fyrirtækja eigi eftir að skila mörgum störfum á landsbyggðinni og þeim peningum sem ríkisstjórnin lagði í þetta sé vel varið. Þó mönnum finnist þetta kannski ekki stór upphæð held ég að hún eigi eftir að gera mjög mikið gagn. Það er langt komið að úthluta styrkjunum, 150 millj. kr., og vonandi mun það ekki síður takast vel til. Menn hafa lagt mjög mikla vinnu í að rannsaka umsóknirnar og reyna að beina þeim peningum þangað sem þeir koma að mestu gagni.

Það er engum blöðum um það að fletta að það hafa verið gríðarlegar framkvæmdir í vega- og jarðgangagerð á undanförnum árum sem hefur gerbreytt aðstöðu landsbyggðarmanna hvað samgöngur varðar. Við sjáum það ef við förum hringveginn og við sjáum það ef við förum Vestfirðina og víðar um landið að alls staðar hefur ríkið verið að byggja upp öflugt vegakerfi, einnig jarðgöng, Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng, væntanleg Siglufjarðargöng. Allt ógurlega fjárfrekar framkvæmdir sem nýtast fyrst og fremst landsbyggðinni. Það má ekki gleymast þegar rætt er um byggðamál að það hefur orðið alger bylting í samgöngumálum á undanförnum árum og sjálfsagt aldrei í Íslandssögunni verið gert meira í þeim málum sem skiptir fólkið í hinum dreifðu byggðum geysilega miklu máli þó auðvitað bíði þar enn stór verkefni og í okkar fámenna en stóra landi verður sjálfsagt aldrei lokið að fullu því sem þarf að gera í samgöngumálum.

Eitt af því sem mér finnst að hafi tekist afskaplega vel í byggðamálunum á undanförnum árum er tilkoma atvinnuþróunarfélaganna. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið fyrir frumkvæði Egils Jónssonar sem þá var formaður stjórnar Byggðastofnunar að farið var með þau mál í þann farveg sem núna er. Áður var Byggðastofnun að dreifa styrkjum, milljón hér og milljón þar, til einstakra sveitarfélaga og alls konar félaga sem voru að reyna að vinna að atvinnusköpun. Þetta skilaði ekki miklu. Þetta voru einyrkjar og kannski menn í hálfu starfi hjá sveitarfélögunum sem voru að vinna annað eftir hádegi og ég held að það hafi nánast ekkert komið út úr þessu.

Sú breyting varð þarna fyrir frumkvæði Egils Jónssonar á sínum tíma að farið var út í það að stofna til eins atvinnuþróunarfélags í hverju kjördæmi sem Byggðastofnun styddi með mjög myndarlegum hætti. Í stað þess að menn væru að paufast einn og einn í hverju horni er núna í öllum gömlu kjördæmunum eitt félag með 3, 4, kannski 5 starfsmenn sem vinna saman og þeir eru allir sammála um að þetta sé miklu betri aðferð og nýtist betur. Fjárframlög til þessa hafa verið aukin jafnt og þétt og voru, ef ég man rétt, 103 millj. í hittiðfyrra, 115 millj. í fyrra og yfir 120 millj. í ár. Ég tel að flest þessi félög, ef ekki öll, vinni afskaplega gott starf. Þau eru yfirleitt vel mönnuð. Menn hafa fengið þarna til starfa mikla áhugamenn um uppbyggingu á landsbyggðinni sem hafa unnið ágætt starf og ég held að þetta hafi verið mjög góð breyting frá því sem áður var í sambandi við styrki til atvinnuþróunar á landsbyggðinni.

Í skýrslunni er minnst á samvinnu opinberra sjóða, á bls. 5, þ.e. talað um aukna samvinnu opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífsins. Minnt er á að haldnir hafi verið fundir með fulltrúum Ferðamálasjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs landbúnaðarins, Orkusjóðs, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Byggðastofnunar þar sem menn hafi skipst á upplýsingum og talað um að gera þurfi þetta með skipulegum hætti. Ég er alveg sammála því að þessar stofnanir þurfa að vinna saman. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að það ætti að sameina nokkra af þessum sjóðum. Það var mikið rætt í sambandi við lagasetninguna um Byggðastofnun fyrir einum fjórum árum og voru flestir sammála því að þessum sjóðum þyrfti að þrýsta eitthvað saman en þegar til á að taka er alltaf einhver andstaða við það og kannski ýmis ljón í veginum. Það hefur þó orðið úr að Ferðamálasjóður hefur verið færður til Byggðastofnunar. Ég held að það hafi verið ágætisaðgerð og tekist vel til en það er mikilvægt að þessir sjóðir vinni saman og rekist ekki á í störfum sínum.

Hér er rætt um endurgreiðslu flutningskostnaðar á bls. 7 þar sem bent er á að iðnaðarráðuneytið sé að kanna möguleika á að taka upp endurgreiðslu til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni vegna hás flutningskostnaðar. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Flutningskostnaðurinn er mjög hamlandi fyrir starfsemi úti á landi og við höfum oft heyrt menn tala um að fyrirtæki sem eru að framleiða úti á landi og selja á höfuðborgarmarkaðnum eða flytja vöruna til Reykjavíkur til að koma henni í skip til útlanda kvarta undan þessum flutningskostnaði. Reyndar þarf ekki að fara lengra en norður fyrir Hvalfjörð þar sem dregið hefur úr mönnum að setja upp starfsemi þar vegna flutningskostnaðar og kostnaðar við Hvalfjarðargöng. Flutningskostnaðurinn skiptir máli og ég fagna því að ráðuneytið skuli vera með það mál í athugun.

Á bls. 14 er minnst á alþjóðlegt samstarf og bent á að við þurfum að fylgjast vel með stefnu annarra þjóða í byggða- og atvinnumálum og reyna að nýta okkur hugmyndir þeirra, draga lærdóm af reynslu annarra þjóða. Ég tek eindregið undir þetta. Ég held að það skipti mjög miklu máli því að byggðaþróunarvandamál sem við höfum verið að stynja undan á undanförnum árum er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Ég minnist þess þegar ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir 2–3 árum að mér var sagt að í sögu Bandaríkjanna hefði aldrei verið meira vandamál en núna hinn rosalegi flutningur fólks frá dreifbýlinu til stórborganna. Þetta er vandamál líka víða um Evrópu og þess vegna er þetta ágætisábending. Þetta hefur reyndar verið rætt á vettvangi Byggðastofnunar og ákveðið þar að auka samskipti við aðrar þjóðir. Menn telja það mjög gagnlegt og við höfum gert allt of lítið af þessu. Stjórn Byggðastofnunar og starfsmenn hafa hins vegar ákveðið að efla mjög þessi samskipti og gera könnun á því hvað aðrir eru að gera í þessum málum.

Hæstv. ráðherra gerði ágæta grein fyrir starfsemi Byggðastofnunar. Ég ætla engu við það að bæta öðru en því að taka fram að það er afskaplega gott starfslið í Byggðastofnun. Þar eru eitthvað yfir 25 manns. Því var spáð á sínum tíma að erfitt yrði að manna stofnunina með hæfu fólki þarna úti á landi og aðeins einn starfsmaður stofnunarinnar flutti með henni frá Reykjavík en sem betur fer tókst afskaplega vel til og mikill fjöldi fólks hefur sótt um stöður þar, bæði í upphafi og eins þegar stöður hafa losnað. Menn hafa vandað sig við mannaráðningar og það er afskaplega hæft og gott starfsfólk þarna.

Við höfum oft heyrt í umræðunni að það er ósköp auðvelt að sparka í Byggðastofnun, bölva henni og tala um að þar sé allt ómögulegt en oft finnst mér vera talað af mikilli vanþekkingu. Sem betur fer finnst mér þessi gagnrýni hafa farið dvínandi á undanförnum árum, m.a. vegna þess að þetta fólk vinnur afskaplega góða vinnu.

Það má segja frá því líka að þarna er mjög samhent stjórn sem er skipuð mönnum úr hinum ýmsu flokkum í pólitíkinni en þeir hafa aldrei í neinu tilfelli sem ég man eftir látið það trufla störf sín í Byggðastofnun. Þvert á móti hafa þeir unnið afskaplega vel saman eins og vera ber.

Eitt hefur gerst núna, bankarnir eru farnir að sinna landsbyggðinni aftur. Við munum það fyrir tveimur árum eða svo að bankarnir voru búnir að loka á landsbyggðina nema stærstu fyrirtækin. Nú hefur það gerst að bankarnir hafa farið eins og ryksugur um landsbyggðina og náð fyrirtækjum í viðskipti, boðið þeim hagstæð lán. Það er mjög jákvætt. Það er jákvætt í byggðaþróuninni ef bankarnir fara að sinna landsbyggðinni betur og það hafa þeir gert núna. Það hefur leitt til þess að menn hafa í stórum stíl greitt upp lán sín hjá Byggðastofnun sem mun væntanlega gera lánastarfsemi þeirrar stofnunar erfitt fyrir þó að það sé náttúrlega ekki hennar að vera að standa í samkeppni.

Vandamálið við þetta er hins vegar kannski það að bankarnir velja bestu kúnnana. Þeir velja þá sem hafa yfir aflaheimildum að ráða, stærstu iðnfyrirtækin og þau fáu fyrirtæki í ferðaþjónustunni sem standa vel. En gott og vel, þetta er breyting sem á margan hátt er jákvæð. Vandamálið er þó að lánastarfsemi Byggðastofnunar sitji eftir með þá sem eiga erfiðast.

Það er rétt að minna á að margs háttar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni hefur stóraukist á undanförnum árum. Það má minna á stóriðjuna í Reyðarfirði sem er stærsta byggðamál sögunnar og á eftir að skapa þar gríðarlega mörg störf og vonandi velsæld. Uppbyggingin á Grundartanga hefur tekist vel. Þar eru allt að 400 störf, það er verið að stækka Norðurál og stendur til að stækka það meira, stækka járnblendiverksmiðjuna, byggja rafskautaverksmiðju. Það er í pípunum að byggja kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal og stálpípuverksmiðju í Keflavík. Fiskeldið er að rísa víða um land með mörg störf og margt fleira mætti til tína eins og hæstv. ráðherra gerði reyndar í ræðu sinni. Það er augljóst að það er mikill uppgangur í atvinnustarfsemi víða um land þó að vandamálin séu enn veruleg á einstökum landsvæðum, þá kannski fyrst og fremst á Norðvesturlandi.

Það er augljóst af þessari skýrslu að margt hefur verið gert og margt er í pípunum til að efla landsbyggðina þó að auðvitað megi alltaf gera betur. Eins og fram kom í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra hefur sú breyting orðið að íbúum tveggja landsbyggðarsvæða hefur fjölgað á sama tíma og fækkað hefur á höfuðborgarsvæðinu. Það hefði þótt frétt fyrir nokkrum árum.



[12:38]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir yfirferð hans. Við höfum oft verið samstiga í ýmsu í umræðum um byggðamál.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann út í nokkuð sem snýr að rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Í því dæmi sem ég tók áðan sat hv. þm. sem aðalmaður hér á þingi, þ.e. við skattkerfisbreytinguna 2001 sem ég hef gert að umtalsefni nokkrum sinnum þar sem tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 30% niður í 18%, eignarskatturinn lækkaður að mig minnir um helming þá en tryggingagjald fyrirtækja hækkað. Þetta hafði þær afleiðingar í för með sér sem ég sagði áðan og vil segja núna rétt til upprifjunar að fyrirtækjarekstur í Reykjavík og á Reykjanesi, þeim tveimur skattumdæmum, hagnaðist um 2,7 milljarða kr. Fyrirtækjarekstur í hinu gamla kjördæmi Vesturlandskjördæmi hagnaðist á þessum sama tíma og með nákvæmlega sama útreikningi og sama samanburði um 4 millj. kr. Telur hv. þm. þetta eðlilegt og að þarna sé gætt jafnræðis milli atvinnurekstrar á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu?



[12:40]
Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hef ég ekki séð neinar tölur á prenti um það sem hv. þm. er að segja. Þetta eru hans orð og ég ætla ekki ... (KLM: ... nefndarálitinu.) Ef ég mætti aðeins ljúka máli mínu fyrir pirringnum í hv. þingmanni er ég að segja það að ég er ekki með neitt um þetta í höndunum. Ég tel hins vegar að þær skattbreytingar sem þessi ríkisstjórn hefur gengist fyrir fyrir fyrirtækin í landinu hafi styrkt atvinnulífið með þeim hætti að það er aldrei sterkara en eftir þær.

Af því að hann nefnir Vesturland held ég að ég megi fullyrða að atvinnulífið á Vesturlandi er í miklum blóma. Ég minnist þess að þegar ég byrjaði á Alþingi 1991 var bölvað basl í atvinnurekstri vítt og breitt um Vesturland. Það hefur bara gjörbreyst, það er allt annað ástand og það er kannski fyrst og fremst að þakka því að ríkisstjórnin hefur breytt skattumhverfi fyrirtækjanna, lækkað tekjuskattinn, fellt niður aðstöðugjaldið og fleira í þeim dúr. Eignarskatturinn er á förum. Allt þetta styrkir atvinnulífið í landinu og við verðum að líta á það jákvætt, hv. þingmaður.



[12:41]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Með þessari skattkerfisbreytingu komu fram gögn úr efnahags- og viðskiptanefnd frá ríkisskattstjóra um þær tölur sem ég nefndi. Af því að hv. þm. skýlir sér á bak við það að hann hafi þær ekki ætla ég að snúa spurningunni við.

Segjum sem svo að þær upplýsingar sem ég fer hér með séu réttar — telur þá hv. þm. að þessi skattkerfisbreyting hafi komið jafnt út fyrir allan atvinnurekstur, sama hvort hann var á Vesturlandi eða á höfuðborgarsvæðinu? Mig varðar ekkert um atvinnulífið, hvernig það var á þeim ömurlegu árum 1990–1991 þegar erfiðleikar voru miklir. Aðeins þetta, ef þær tölur eru réttar sem ég er hér að nefna telur þá hv. þm. að þarna hafi jafnræðis verið gætt í skattkerfisbreytingum gagnvart fyrirtækjarekstri á Vesturlandi og í Reykjavík og á Reykjanesi?



[12:42]
Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að skýla mér á bak við eitt eða neitt. Ég bendi á að þær breytingar sem þessi ríkisstjórn hefur gengist fyrir í skattamálum hafa rifið upp atvinnulífið í landinu og stórbætt atvinnuástandið. Þetta er í stíl við annað sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins, breyta skattkerfinu, fella niður aðstöðugjaldið, lækka tekjuskatt fyrirtækjanna, afnema eignarskattinn og gera svo ótal margt annað til að byggja upp atvinnulífið í landinu. (Gripið fram í.)

Það er alltaf hægt að nöldra út af einhverju en, hv. þingmaður, við verðum að líta heildstætt á hvernig þetta kemur út fyrir atvinnulífið í heild. Það kemur auðvitað alveg stórkostlega vel út. Það er táknrænt fyrir Samfylkinguna að enda svo ræðu sína á því að sig varði ekkert um það sem ég hef verið að segja um hvernig þetta var áður. Auðvitað skiptir máli hvernig ástandið var fyrir 13 árum, hv. þingmaður, þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kom að öllu í molum eftir Samfylkinguna sem nú er og vinstra liðið í landinu. Atvinnulífið var allt í rúst. (KLM: Var það ríkisstjórn ...?) Atvinnulífið var allt í rúst, hv. þingmaður, hvað sem þú galar fram í. Það er alveg táknrænt fyrir þessa gömlu kreppukrata að koma svo hér og segja: Mig varðar ekkert um hvernig ástandið var.

Það sem skiptir máli, hv. þingmaður, er hvernig ástandið er í dag og hvað þessi ríkisstjórn hefur gert til að bæta ástand atvinnufyrirtækjanna í landinu. Það er það sem skiptir máli og það er alveg með ólíkindum að koma hér og segja að sig varði ekkert um hvernig ástandið var þegar vinstri stjórnin hrökklaðist frá með allt á hælunum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa forseta.)



[12:44]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst skýrslan sem við erum að fjalla um hér, skýrsla byggðamálaráðherra um framvindu byggðamála, algjörlega ófullnægjandi. Hvers vegna segi ég það? Jú, það er ófullnægjandi hvernig árangurinn er metinn. Ekkert mat er lagt á fjölgun starfa á landsbyggðinni í fyrsta lagi. Í öðru lagi er ekkert yfirlit yfir íbúaþróun á landsbyggðinni. Ég tel að ef við ætlum að halda áfram að fjalla um byggðamál með einhverjum vitrænum hætti verðum við að hafa einhverjar mælistærðir sem við berum saman á milli ára en tölum ekki um einstök verkefni út og suður, eins og mér finnst því miður stundum að ríkisstjórnarflokkarnir vilji gera. Þeir tala um eitt og eitt verkefni, forðast að ræða um sum mál og ég tel að við verðum að koma þessari umræðu á vitrænna svið en nú er. Það er ekkert vit í því að fjalla um 30 blaðsíðna skýrslu og við fáum engar mælistærðir, hvernig við mælum árangurinn. Það er sagt frá einhverjum milljónum sem fara í hin og þessi verkefni. Ég tel að þessu þurfi að breyta. Ég á von á að margir aðrir hv. þm. séu mér sammála um að þetta gangi ekki lengur.

Almennt í umræðu um byggðamál finnst mér vera kominn tími til að ræða hlutina. Í gær var verið að tala um byggðamál og mér heyrðist á hæstv. byggðamálaráðherra að ég væri hálfvanþakklátur fyrir það að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu flutt Byggðastofnun til heimabæjar míns, Sauðárkróks. Ég spyr: Eigum við sem búum á landsbyggðinni að vera eitthvað sérstaklega þakklát fyrir það að stofnun eins og Byggðastofnun sé flutt út á land? Hvar á hún betur heima en úti á landi? Ég spyr. Mér finnst það bara ósköp eðlilegt. Ég segi það, eigum við sem búum úti á landi að vera eitthvað sérstaklega þakklát fyrir að lagðir séu vegir? Mér finnst þetta bara sjálfsagt mál.

Svo getum við líka snúið dæminu við og sagt að einhverra hluta vegna væri stofnun sem fjallaði um borgarmál staðsett austur á fjörðum og þá ættu Reykvíkingar að vera sérstaklega þakklátir yfir því að stofnunin yrði flutt suður á land. Nei, ég held að það væri bara eðlilegt mál sem þyrfti ekki að fjölyrða mikið um.

Fleira er athyglisvert við þessa skýrslu, t.d. að ekkert er fjallað um einn helsta atvinnuveg landsbyggðarinnar, sjávarútveginn. Það er náttúrlega mjög sérstakt, svo að ekki sé meira sagt. Það er eftir öðru að ríkisstjórnarflokkarnir forðast að ræða sjávarútvegsmál en auðvitað vita allir, og örugglega skýrsluhöfundar, að það hvernig komið er fyrir sjávarútvegi landsmanna er ein helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er í sjávarbyggðunum. Auðvitað eigum við að ræða það í svona skýrslu, mér finnst það. Ég tel að skýrslan sé hálfhlægileg þegar ekkert er fjallað um sjávarútvegsmál, eða nánast ekki neitt.

Það er annað sem þarf að tala um í sambandi við byggðamálin. Það má helst ekki minnast á vanda landsbyggðarinnar, þá er verið að draga kjark úr fólki. Það virðist ekki mega tala um hlutina eins og þeir eru. Ég hafna því alfarið. Hvernig ætlum við að komast fyrir raunverulegan vanda landsbyggðarinnar ef við tölum ekki um meinið?

Hvað sem því líður ætla ég að halda mig við skýrsluna. Í inngangi að henni kemur heildarmat Byggðastofnunar og það er eins og áður, þar er ekkert fjallað um fjölda starfa eða íbúaþróun. Að vísu eru ágætisverkefni tíunduð. Það kom fram að ríkisstjórnin hefði veitt 700 millj. kr. framlag til að auka hlutafé í sprotafyrirtækjum. Það er mjög vel, það ber að þakka. Ef eitthvert verulegt gagn ætti að vera að skýrslunni kæmi auðvitað fram um hversu mörg störf hefði fjölgað úti á landi vegna þessara upphæða.

Síðan er fjallað enn og aftur um menningarhús, talað um samning um byggingu menningarhúsa. Ég veit ekki hvað menn ætla að fjalla lengi um þau. Er ekki komið á annan áratug sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa fjallað um menningarhúsin? Kannski má velta því upp hvers vegna menn fjalli ekki um fjölgun starfa og íbúaþróun á landsbyggðinni. Hvers vegna hafa menn það ekki inni í þessari skýrslu?

Hér verður innan tíðar umræða um fjölgun eða fækkun starfa í sjávarplássi og þegar ég grennslaðist fyrir um það um daginn kom í ljós að störfum hafði fækkað um 100 í einungis litlu sjávarþorpi í valdatíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Svo er í skýrslunni fjallað um stuðningsverkefni fyrir frumkvöðla en ekkert kemur fram hvað störfum hafi fjölgað mikið við þau. Hérna er t.d. ágætisverkefni tíundað í skýrslunni, Brautargengi, 15 vikna námskeið fyrir konur til að hvetja þær til atvinnusköpunar. Mér skilst að 60 konur af landsbyggðinni hafi sótt þetta námskeið. Hverju hefur það skilað? Það vantar algerlega í skýrsluna. Hins vegar eru tíundaðir samningar Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélögin og á bls. 5 í skýrslunni kemur fram að þar hafi störfum fjölgað um fjögur. Auðvitað ber að þakka það sem vel er gert. Síðan er skýrslan því miður full af skýrsluskvaldri eins og ég kalla það. Verið er að vitna í lög og reglugerðir og mjög lítið kjöt er á beinunum hvað varðar í rauninni afrakstur þessarar vinnu.

Á bls. 6 er síðan fjallað lítillega um stækkun sveitarfélaga. Í sjálfu sér finnst mér mjög þarft verk að skoða stækkun sveitarfélaga en ég tel að það sé enn ein leiðin til að forðast að ræða raunverulegan vanda landsbyggðarinnar, það að fara allt í einu að ræða um sameiningu sveitarfélaga. Það er líka annað athugavert við þá vinnu. Þegar nefndin sem á að fjalla um sameiningu sveitarfélaga var sett saman var Frjálslyndi flokkurinn settur út. Það er með ólíkindum að hæstv. félagsmálaráðherra skuli beita svo ólýðræðislegum vinnubrögðum því að ég er sannfærður um að Frjálslyndi flokkurinn hafði miklu meira fram að færa varðandi byggðamál en Framsóknarflokkurinn, eða a.m.k. sýna tölur um íbúaþróun að sagan er Framsóknarflokknum mjög óhliðholl. Hann hefur reynst mjög slæmur fyrir landsbyggðina í þessari níu ára setu. Það sjá allir sem fara í gegnum tölur Hagstofunnar.

Ég tel að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að fara að dæmi hæstv. menntamálaráðherra, fjölga í nefndinni og koma okkar góðu sjónarmiðum í Frjálslynda flokknum inn í hana. Ég er alveg sannfærður um að það mundi liðka fyrir málinu frekar en hitt.

Síðan er það í fjórða lagi á bls. 7, efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Hæstv. forseta þingsins Halldóri Blöndal og hv. þm. Magnúsi Stefánssyni var falið að skrifa nýja skýrslu, skilst mér, og engin störf koma út úr því.

Í fimmta lagi er í skýrslunni fjallað um athugun á búsetuskilyrðum fólks og í sjötta lagi athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna. Þó svo að það hafi verið rætt á þingi að rafmagnsverð hjá fyrirtækjum á landsbyggðinni sé 30% hærra en á höfuðborgarsvæðinu er ekki fjallað um það í skýrslunni. Hins vegar er rætt um flutningsjöfnun, enn og aftur. Hæstv. byggðamálaráðherra ræddi um flutningsjöfnun hér. Ég veit ekki hvað hún er búin að gera það í mörg ár en ekkert kemur út úr því. Hið eina sem hefur gerst er að sú litla flutningsjöfnun sem var í landinu var aflögð, þ.e. flutningsjöfnun á sementi. Mér finnst furðulegt að talað skuli vera um flutningsjöfnun á vörum ár eftir ár og ekkert gerist nema þá að það versni.

Um byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð er ágætur kafli og mér sýnist á þeim kafla að þar komi til fimm störf. Ég reiknaði þetta út og sló á að það væru fimm störf, ekki meira. Það er hins vegar ekkert tekið á vanda Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Sérstaklega í Ólafsfirði hefur störfum farið fækkandi í sjávarútvegi, m.a. vegna fiskveiðistjórnarkerfisins eða óstjórnar í því. Ég tel að þar sé um mikinn vanda að ræða og skýrsla um byggðaáætlun sem hefði einhvern raunverulegan metnað tæki sérstaklega á þeim atriðum þar sem út af ber. Það væri einblínt á sjávarbyggðirnar.

Hér er í áttunda lagi fjallað um eflingu núverandi landbúnaðarskóla sem fræðslu-, rannsóknar- og þróunarsetur og ég tel að það sé mjög gott mál. Því miður kemur ekkert fram hvað störfum fjölgar. Hvað varðar landbúnaðarráðuneytið hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið þekktastur fyrir það nú síðustu árin að fækka sláturhúsum og hann virðist leggja sum byggðarlög nánast í einelti, svo sem í Búðardal. Maður furðar sig á því.

Í níunda lagi er fjallað um eflingu fiskeldis og ég tel að það sé mjög gott mál. Hér kemur fram að helmingi af andvirði steinullarverksmiðjunnar sem svarar til 105 millj. kr. hafi verið varið til tveggja verkefna á sviði fiskeldis. Ég tel að það sé mjög gott mál og fyrir það ber að þakka.

Síðan kemur kafli um fjarskiptamál í dreifbýli, það er m.a. UD, upplýsingatækni í dreifbýli. Við Ísafjarðardjúp stendur byggð höllum fæti og fólk hefur sótt um það árum saman að tengjast með ISDN-tengingu. Ekkert gerist þó og það fæst varla svar frá Landssímanum þangað til nú nýlega að svar kom um að viðkomandi fengju ekki að vera tengdir með ISDN-tengingu. Þetta gerir náttúrlega fólki illkleift hreinlega að stunda nútímalífshætti. Það er ekki hægt að greiða reikninga í heimilisbanka því slíkt krefst þessara tenginga, þetta er orðið það þungt umhverfi. Það er í rauninni með ólíkindum að hæstv. byggðamálaráðherra skuli ekki hafa metnað fyrir því að halda þessum bæjum í byggð og tengja þá sérstaklega. Þarna stendur byggð hvað höllustum fæti og það er mjög mikilvægt að þeir séu tengdir og verði í byggð, líka út frá öryggissjónarmiðum.

Síðan er það jöfnun verðs á gagnaflutningum. Fram kemur að Landssíminn hafi náð samkomulagi við samgönguráðherra frá 16. mars 2001 sem tryggi uppbyggingu ATM-gagnaflutningsneta. Þetta lítur allt vel út á pappírnum. En því miður er raunveruleikinn sá að þau sveitarfélög eða þau fyrirtæki sem geta einungis tengst með þessum hætti þurfa að greiða 55 þús. kr. fyrir símtengingu. Flest þeirra kæmust vel af með ADSL sem kostar 3.500 kr. Ég sé að þarna er stór og mikill munur á búsetu- og starfsskilyrðum fyrirtækja á þessum svæðum og ég hefði talið að það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum að leysa þetta mál.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka og reikna með að fjalla í næstu ræðu um síðari hluta skýrslunnar sem er jafnþunnur og fyrri hlutinn.