131. löggjafarþing — 14. fundur
 21. október 2004.
umræður utan dagskrár.

áfengisauglýsingar.

[13:33]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Frakkland, sunnan Signu, er eitthvert mesta vínræktarland Evrópu. Það má heita hluti af almennri menntun að þekkja helstu vínræktarhéruð Frakka og helstu vín frá því landi. Því má ekki gleyma að sumar víntegundir heita beinlínis í höfuðið á frönskum héruðum, Champagne, Cognac. Þó eru auglýsingar á áfengi takmarkaðar verulega í Frakklandi. Þar eru t.d. engar áfengisauglýsingar sýndar í sjónvarpi, hvað sem líður tegund eða styrkleika. Í auglýsingum annars staðar má myndefni bara vera söluvaran sjálf með umbúðum sínum og í auglýsingatexta skal fyrst og fremst fjallað um uppruna og eðli viðkomandi víntegundar. Skilyrði er að þar sé líka viðvörun um afleiðingar ofneyslu áfengis samkvæmt lögum frá 1991.

Á Íslandi eru hins vegar óáreittar auglýsingar um allar tegundir áfengis. Þær eru í dagblöðum, þar á meðal Morgunblaðinu, í sjónvarpi, þar á meðal Skjá 1, hinu nýja ríkissjónvarpi, í tímaritum og utan húss á almannafæri, hvað sem lögin segja því að yfirvöld framfylgja ekki lögunum. Þess vegna hafa vínsalar, framleiðendur og innflytjendur tekið lögin í sínar hendur og ganga sífellt lengra í auglýsingamennsku sinni.

Það er athyglisvert fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra að auglýsingum um áfengi, sérstaklega um bjórtegundir, er fyrst og fremst ætlað að höfða til ungs fólks og til unglinga. Það er sá hópur sem auðveldast er að innræta neysluvenjur og vörutryggð, oftast með því að reyna að gera vörumerkið flott og kúl og sexað, samanber sjónvarpsauglýsingar um ungt fólk, fjör og bjór, um ungt fólk, rokk og bjór, um ungt fólk, hold og bjór.

Franskar vínauglýsingar eru barnaleikur miðað við Ísland. Ungt fólk í vínræktarlandinu Frakklandi nýtur miklu betri verndar fyrir áfengisáróðri árið 2004 en reyndin er á Íslandi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er hér til svara, m.a. vegna þess að það hefur reynst í geitarhús ullar að leita að spyrja um afstöðu hjá hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, til áfengisauglýsinga. Hæstv. ráðherra veit að það er oft rætt um fjóra þætti í forvörnum við afleiðingum áfengis. Einn er aðgengi sem mjög hefur aukist á síðustu árum hér á landi og verður að telja eðlilega þróun. Annar er áfengiskaupaaldur sem í raun er þremur til fimm árum lægri en landslög kveða á um hér og við mörg teljum ástæðu til að skapa um betri venju og sátt með nýju aldursmarki. Þriðji er verð sem hér er þegar við efstu hugsanleg mörk. Fjórði er svo auglýsingarnar. Nú hlýtur hæstv. heilbrigðisráðherra að svara því hvort það er að hans ráðum að þar er um þessar mundir gefið sérstaklega eftir.

Forseti. Hæstv. ráðherra sagði um þetta mál nokkuð brattur á síðasta þingi, 5. maí, í vor að honum sýndist að ráðherrar í ríkisstjórninni þyrftu, með leyfi forseta, „að setjast niður og fara yfir málið og hvernig hægt er að útbúa löggjöf sem heldur“.

Og áfram sagði hæstv. ráðherra:

„Við verðum að útbúa löggjöfina þannig að það sé auðveldara að fara eftir henni en núna er en það kostar vinnu. Menn gera það ekki á öðru hné sér ...“ Það er rétt hjá ráðherranum.

Nú er hins vegar komið haust og liðinn hálfur sjötti vinnumánuður frá 5. maí sl. Þess vegna er hér spurt, og hæstv. ráðherra er í þetta sinn beðinn að svara skýrt og ekki með því að klaga spurningarnar í aðra:

Telur heilbrigðisráðherra núna í lagi að áfengi sé á Íslandi auglýst eins og almenn neysluvara? Sé svo ekki, hyggst heilbrigðisráðherra þá beita sér fyrir því að hætt verði að auglýsa áfengi í dagblöðum, tímaritum, sjónvarpi og annars staðar á almannafæri? Sé svo, með hvaða hætti má þá búast við að heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir því að áfengisauglýsingar leggist af á Íslandi?



[13:38]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á áfengismálum og áfengisneyslu sem hefur farið hér ört vaxandi á liðnum áratug. Ég þakka sérstaklega fyrir það að vakin skuli athygli á þessum málum með umræðu utan dagskrár, ekki síst vegna þess að mér gefst þá tækifæri til að ræða niðurstöðu fundar sem Ísland stjórnaði á vettvangi Norðurlandanna á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn á mánudaginn var um áfengismál. Á þessum fundi gerðist það sögulega og ánægjulega í norrænu samstarfi að norrænir ráðherrar málaflokksins sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu og töluðu þannig einum rómi í nokkrum meginatriðum. Þetta eitt sér markar í fyrsta lagi nokkur tímamót því afstaða og aðstæður landanna eru mjög mismunandi eins og kunnugt er.

Í öðru lagi eru norrænu ráðherrarnir sammála um að áfengi beri ekki að skoða sem hverja aðra vöru. Í því felst sú sameiginlega skoðun að gilda skulu sérstakar reglur um þessa sérstöku vöru, áfengið. Menn eru sammála um að neysla áfengis hafi víðtækar heilsufarslegar afleiðingar og í þessu felst líka sú skoðun að áfengisneysla hafi í mörgum tilvikum mjög alvarlegar félagslegar afleiðingar.

Í þriðja lagi sammæltust norrænu ráðherrarnir svo um að halda fram þessari stefnu Norðurlandanna á vettvangi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og síðast en ekki síst gagnvart Evrópusambandinu. Í því sambandi samþykktu ráðherrarnir að hvetja til þess að Evrópusambandslöndin hækkuðu skattlagningu á áfengi í því skyni að draga úr neyslunni og koma í veg fyrir ofneyslu. Vandinn í Evrópusambandslöndunum er sá mikli munur sem er á skattlagningu áfengis. Fram hefur komið að skattlagningin er tuttuguföld í Svíþjóð borið saman við Búlgaríu, svo dæmi sé tekið.

Varðandi heilsufarslegar afleiðingar er rétt að taka það fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lítur svo á að ofneysla áfengis sé einn þeirra sjö þátta sem valdi flestum sjúkdómum sem ekki teljast til smitsjúkdóma. Áfengi er í þriðja sæti áhættuþáttar sem þyngst vegur í þeim sjúkdómum sem valda meira en 70% sjúkdómsbyrðar samfélaganna á Vesturlöndum.

Áfengisneysla hefur farið ört vaxandi á Norðurlöndum undanfarin missiri. Ísland er þar ekki undantekning. Áfengisneysla hér hefur aukist meira en annars staðar, eða um 37% frá árinu 1995 mælt í alkóhóllítrum. Til samanburðar er neysluaukningin í Svíþjóð 11% og í Noregi 23%. Hér er um opinberar sölutölur að ræða.

Í yfirlýsingu sem norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir sendu frá sér að loknum fundinum á Norðurbryggju sem ég gat um áðan er hvatt til aukinnar samvinnu í áfengismálum á vettvangi Norðurlandanna. Það er hvatt til þess að ekki sé litið á áfengi sem hverja aðra vöru, heldur vöru sem hefur áhrif á heilbrigði þjóða og félagslegar aðstæður í löndunum. Það er líka hvatt til þess að hver þjóð fyrir sig fylgi virkri áfengisstefnu sem miðist við að draga úr neyslunni sem hefur aukist mjög í öllum löndunum, ekki síst á Íslandi þegar litið er t.d. yfir liðin tíu ár.

Í yfirlýsingu ráðherranna er bent á að alþjóðavæðing og alþjóðleg viðskipti hafi torveldað löndunum að framfylgja áfengismálastefnu sem ákvörðuð er í hverju landi fyrir sig og lýsa ráðherrarnir áhyggjum af þessu.

Norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir eru þeirrar skoðunar að Norðurlöndin verði að vinna saman að því að halda fram heilbrigðis- og félagslegum sjónarmiðum á þeim alþjóðlega vettvangi þar sem teknar eru ákvarðanir sem geta haft áhrif á stefnuna í áfengismálum. Hvatt er sérstaklega til þess að Norðurlöndin beiti sér fyrir því að sjónarmiðum lýðheilsu verði gert hátt undir höfði á vettvangi Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Bein svör mín við spurningum hv. þingmanns eru þessi:

Af því sem hér er sagt á undan er heilbrigðismálaráðherra ekki þeirrar skoðunar að áfengi eigi að auglýsa eins og hverja aðra vöru, enda gengur það gegn lögum. Það er bannað á Íslandi að auglýsa áfengi. Heilbrigðisráðherra treystir því að þeim lögum sé framfylgt í samræmi við vilja Alþingis. Að öðru leyti vísa ég til þess svars sem ég gaf við þessari fyrirspurn í vor í fyrirspurnatíma hér á Alþingi, og fyrirspyrjandi vitnaði reyndar til.



[13:43]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Merði Árnasyni, fyrir að taka þetta mál upp. Ég hélt að umræðan ætti að snúast fyrst og fremst um áfengisauglýsingar og bann við þeim en ekki skattlagningu á brennivíni í Evrópusambandinu og á Norðurlöndum sem er umræða sem er góðra gjalda verð.

Sem kunnugt er eru áfengisauglýsingar bannaðar samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er nokkuð sem áfengissölum er ekki að skapi og þá hafa þeir um tvo kosti að velja, annaðhvort að vinna að því að fá lögunum breytt eða brjóta þau, í besta falli að finna leiðir til að fara á bak við þau.

Áfengissalar hafa valið síðari kostinn. Þeir brjóta lögin. Í seinni tíð hafa þeir verið að færa sig upp á skaftið og hefur keyrt um þverbak í sumar. Þess vegna er vel til fundið af hv. málshefjanda að taka þetta mál í upphafi þings til umræðu utan dagskrár til að ganga eftir því hvernig stjórnvöld hyggist bregðast við þessari ósvífnu og yfirveguðu aðferð til að brjóta íslensk lög. Þar sem sölumennirnir hafa ekki haft þrek og siðferðilega burði til að hlíta landslögum, sem er dapurlegt hlutskipti í sjálfu sér, og hafa ekki viljað fara hinar lýðræðislegu leiðir er ekki um annað að ræða en að gera annað tveggja, að sjá til þess að landslögum sé fylgt — það er ekki gert. Hæstv. ráðherra segist treysta því að landslögum verði fylgt. Þeim er ekki fylgt. Það er verið að spyrja hvað stjórnvöld hyggist gera í því efni — eða reyna að stoppa upp í öll þau göt sem kunna að opna leiðir fyrir áfengissalana til þess að fara (Forseti hringir.) á bak við landslög. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) mun fljótlega tala fyrir þingmáli með tillögu í þessu efni.



[13:45]
Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ótvírætt er að áfengisauglýsingar hafa birst í íslenskum fjölmiðlum um nokkurt skeið með beinum og óbeinum hætti. Þegar bann var sett við þessum auglýsingum á sínum tíma var fjölmiðlaumhverfið allt annað en það er í dag. Þá var hægur vandi að koma í veg fyrir að auglýsingar sem þóttu óæskilegar birtust landsmönnum í sjónvarpi eða í blöðum. Nú er öldin hins vegar öll önnur, fjölmiðlar hafa breyst, þeim hefur fjölgað og nýir miðlar hafa bæst við sem ekki voru til áður. Ég tel að bann við slíkum auglýsingum hér á landi nú sé úr takt við tímann og skili ekki lengur þeim árangri sem að var stefnt á sínum tíma.

Þegar svo er komið að lögin skila ekki lengur tilætluðum árangri er eðlilegt að endurskoða þau og breyta þeim eða fella úr gildi þau ákvæði sem ekki virka eins og þau eiga að gera, eins og á við um 20. gr. áfengislaganna sem fjallar um bann við auglýsingum á áfengi.

Ég skil mjög vel þær áhyggjur margra að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á börn og unglinga og jafnvel ýtt undir neyslu þeirra á viðkomandi vörum. Þess vegna væri mjög eðlilegt að samhliða slíkri breytingu á auglýsingum um áfengi yrði skerpt á 20. gr. útvarpslaganna en hún fjallar einmitt um vörn barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum. Þannig mætti t.d. takmarka birtingartíma slíkra auglýsinga eða tryggja að þeim væri ekki beint gegn börnum og unglingum beint.

Við hljótum öll að vera sammála um það, hæstv. forseti, að ofneysla áfengis er bæði skaðleg og óæskileg. Hins vegar er bjór og léttvín ekkert annað en dagleg neysluvara á fjölmörgum heimilum. Ég er ósammála því viðhorfi að feluleikur með ákveðnar vörur komi í veg fyrir notkun þeirra. Ég tel miklu vænlegra að íslensk börn og unglingar alist upp við að umgangast slíkar vörur með gát og hógværð eins og hefur tíðkast hjá velflestum börnum í löndunum í kringum okkur.



[13:47]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hv. málshefjanda, Merði Árnasyni, fyrir að taka þetta mál hér til umræðu.

Á nýrri fjarskiptaöld tel ég með öllu ómögulegt að banna áfengisauglýsingar og tel ég því brýnt að lögin verði endurskoðuð. Flest heimili á landinu búa yfir gervihnattasambandi og geta því tekið á móti fjölmörgum sjónvarpsstöðvum gegn vægri greiðslu. Eins og flest okkar vita eru áfengisauglýsingar ekki bannaðar á flestum, ef ekki öllum, erlendu sjónvarpsstöðvunum. Fyrir þessar sakir liggur í augum uppi að það missir marks að hafa í gildi lög sem banna áfengisauglýsingar á Íslandi. Þar fyrir utan má bæta við umræðuna þeim samkeppnisbresti sem innlendir framleiðendur á áfengum drykkjum búa við. Innflytjendur áfengra drykkja hafa vissulega forskot á innlenda framleiðendur í þessum skilningi. Ég hefði frekar talið að styrkja ætti innlendan iðnað en að mæla með lögum sem gera honum erfitt fyrir.

Sú afstaða að banna með öllu áfengisauglýsingar er skiljanleg. Án efa býr þar góður hugur að baki. Persónulega trúi ég ekki mikið á boð og bönn nema að litlu leyti þegar kemur að forvörnum af ýmsu tagi. Ég hef ávallt talið vænlegra að feta leið kynningar og öflugs skipulags með heildarstefnumótun löggjafans á fyrirbæri sem kallast heilbrigði, hreyfing og hollir lifnaðarhættir. Í þessu skyni vann ég ásamt fleiri þingmönnum að þingsályktunartillögu um íþróttaáætlun en hún var lögð fyrir Alþingi í síðustu viku.

Því miður er það svo, hæstv. forseti, að á meðan hv. leikmenn löggjafans rífast um hvort leyfa eigi áfengisauglýsingar er svo til aldrei á Alþingi talað um heilbrigði, holla lífshætti eða mataræði. Að mínu viti yrði stórt skref stigið í forvarnabaráttunni með innleiðingu íþrótta- og heilsuáætlunar til starfa löggjafans.



[13:49]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Áfengisauglýsingar eru bannaðar með lögum á Íslandi. Þau lög eru brotin nánast daglega. Hæstv. ráðherra var spurður að því hér hvort hann mundi beita sér fyrir því að farið væri eftir þessum lögum því það er alveg ljóst að með því að brjóta þau er farið gegn m.a. heilbrigðisáætlun sem samþykkt hefur verið hér á Alþingi. Þar eru forgangsverkefni m.a. áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir og börn og ungmenni, svo ég nefni bara fyrstu tvö atriðin af sjö sem talin eru upp í heilbrigðisáætlun.

Áfengisneysla hefur aukist frá 1995, segir hæstv. ráðherra í ræðu sinni, og mest á Íslandi, um 37%. Í heilbrigðisáætlun okkar segir í aðalmarkmiði um áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir, með leyfi forseta:

„1.a Áfengisneysla á hvern íbúa verði ekki meiri en 5,0 lítrar af hreinu alkóhóli á íbúa 15 ára og eldri og nánast engin hjá þeim sem yngri eru.

1.b Dregið verði úr áfengis- og vímuefnaneyslu fólks undir lögaldri um 25%.“

Hvernig í ósköpunum ætlum við að ná þessum markmiðum með því að láta þetta allt óátalið? Það getur vel verið að það þurfi að endurskoða lögin en þau gilda núna í landinu og auðvitað ætti það að vera á hendi hæstv. heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að farið verði að þeim lögum.

Ég minni á að undir hæstv. ráðherra er allt lýðheilsustarf og Lýðheilsustöð. Þar er fjöldi ráðgjafa um þessi mál. Ég spyr hæstv. ráðherra:

Hefur hann heyrt eitthvað frá ráðgjöfum sínum í vímuefnaráði um þessar auglýsingar? Hafa þeir gefið honum ráð um hvernig eigi að beita sér gegn þessum auglýsingum?

Ég minni einnig á að með því að láta þetta óátalið förum við ekki heldur að þeim markmiðum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett sér varðandi þennan málaflokk.

Ég tel, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) fulla ástæðu til þess að hæstv. ráðherra taki til hendinni þó að málaflokkurinn heyri ekki beint undir hann.



[13:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í allri umræðu um áfengisauglýsingar þarf að svara einni grundvallarspurningu, þ.e.: Er áfengi eins og hver önnur vara eða er áfengi sérstök vara sem réttlætir að það megi víkja frá almennu viðskiptalegu umhverfi, svo sem varðandi auglýsingu vörunnar?

Hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, hefur svarað þessari grundvallarspurningu eins og hér hefur komið fram. Áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Þannig hafa íslenskir þingmenn einnig svarað. Í 20. gr. áfengislaga kemur fram að áfengisauglýsingar eru bannaðar. Þó fylgir hér böggull skammrifi því að fram kemur undanþága þar sem segir að framleiðandi sem framleiðir áfengi megi nota firmanafn í tengslum við auglýsingu á drykkjum sem eru ekki áfengir. Þannig er alveg ljóst að innflytjendur og framleiðendur geta smokrað sér fram hjá auglýsingabanninu. Það hafa þeir gert. Það hefur borið mjög mikið á dulbúnum auglýsingum þar sem óáfengir drykkir eru auglýstir upp en það er greinilegt að ætlunin er að koma áfengum drykkjum á framfæri.

Í skýrslu sem vinnuhópur ríkislögreglustjóra setti fram í nóvember 2001 kemur fram að einn íslenskur framleiðandi byrjaði að framleiða óáfenga drykki að því er virðist einungis til að koma áfengu drykkjunum á framfæri. Þrjár erlendar bjórtegundir voru mikið auglýstar og sagðar óáfengar en þegar til átti að taka voru þær ekki til sölu, þ.e. óáfengar. Auðvitað var þannig verið að auglýsa upp áfenga drykki.

Ég tel að við þurfum að sporna við þessu með einhverjum hætti. Sú nefnd sem hefur skoðað þetta einna best er nefnd ríkislögreglustjóra og í niðurstöðu hennar er sagt að betur þurfi að skýra lagatextann þannig að menn viti hvað þeir mega og hvað ekki. Ég tel mjög æskilegt að þingið skoði það og veit að það er búið að flytja þingmál sem hægt er að skoða í framhaldinu, í þinglegri meðferð.



[13:54]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er bannað samkvæmt lögum að auglýsa bæði tóbak og áfengi hér á landi. Ákvæði laga um bann við tóbaki af öllu tagi eru skýr og afdráttarlaus og þeim hefur verið fylgt eftir. Beinar tóbaksauglýsingar sjást ekki en þrátt fyrir skýlaust bann við að auglýsa tóbak er mjög erfitt að koma í veg fyrir óbeinar upplýsingar í myndbirtingum og kvikmyndum. Bann við áfengisauglýsingum er ekki eins afdráttarlaust. Undanþágurnar eru of víðar og matskenndar. Þetta hafa framleiðendur og dreifingaraðilar notfært sér og ganga alltaf lengra og lengra í að auglýsa merki sín. Þeir munu halda því áfram og verða djarfari í beinum auglýsingum þar til gripið verður inn í þessa óviðunandi þróun með breytingu á áfengislögunum.

Fólki er farið að blöskra hve augljósar og áberandi áfengisauglýsingarnar eru orðnar. Neytendasamtökin hafa vakið athygli á því að lög um bann við áfengisauglýsingum eru brotin nær daglega í íslenskum fjölmiðlum og krefjast þess að ríkisstjórn og Alþingi grípi til viðeigandi ráðstafana til að stöðva þessar ólöglegu auglýsingar, hvort sem um hreinar áfengisauglýsingar er að ræða eða auglýsingar um áfengan bjór, dulbúnar sem léttöl eða auglýsingar fyrir áfengi, dulbúnar sem kynningar eða umfjöllun.

Algengasti mótleikur auglýsenda við banninu er sá að láta eina vöru auglýsa aðra, láta líta svo út sem verið sé að auglýsa drykk sem heimilt er að auglýsa en auglýsa í raun og veru áfengi. Mikil orka og fjármunir auglýsenda fara í að finna leiðir til að sniðganga lögin án þess að það leiði til opinberrar saksóknar. Það er meira að segja svo langt gengið að hvað eftir annað eru börn notuð í áfengisauglýsingum.

Herra forseti. Framleiðendur og dreifingaraðilar áfengis eru í raun að gefa löggjafanum langt nef (Forseti hringir.) með markvissum og útsmognum áfengisauglýsingum.



[13:56]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Markmið heilbrigðisáætlunar í áfengisvörnum til ársins 2010 gera ráð fyrir að Íslendingar dragi úr neyslu áfengis frá því sem nú er. Í raun þyrftum við því að herða reglur um áfengi, og gerast þær þó ekki strangari í hinum vestræna heimi.

Stjórnvöld hafa ýmis stjórntæki til að stýra aðgengi að áfengi og hafa áhrif á áfengisneyslu landsmanna, áfengiskaupaaldur, ríkisverslun með áfengi, bann á auglýsingum og hátt verð á áfengi. Hugmyndir um breytingar á öllum þessum þáttum hafa verið ræddar í þessum sölum og eiga þær marga stuðningsmenn meðal þingmanna. Hvers vegna hafa þessar breytingar ekki gengið eftir? Jú, stjórnmálamenn hika við að gera þær breytingar á áfengislöggjöf sem gætu stuðlað að aukinni áfengisneyslu, aukinni unglingadrykkju, ölvunarakstri og slysum í kjölfar þess. Á hinn bóginn, hver vill taka þátt í þeim skollaleik sem viðgengst um áfengisauglýsingar hér á landi? Hér birtast nánast daglega upplýsingar um áfengi í fjölmiðlum, á netinu og á auglýsingaskiltum. Eru þetta auglýsingar eða upplýsingar? Hvar liggja mörkin? Er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að birta auglýsingar á heimasíðu sinni undir merkjum upplýsinga og er vörulisti sem dreift er í vínbúðum stofnunarinnar eitthvað annað en auglýsingabæklingur? Hvað mundum við kalla bjórkynningu sem stendur nú yfir í vínbúðum ríkisins?

Hvaða tvískinnungur er það hjá stjórnvöldum að beita ströngustu reglum í áfengismálum á Vesturlöndum en eyða á sama tíma stórum fjárhæðum í að laða fólk að vínbúðum ríkisins?

Frá lögleiðingu bjórsins 1989 hefur drykkjumynstur Íslendinga gjörbreyst. Veikara áfengi hefur leyst sterkari drykki af hólmi. Með ákveðinni einföldun má segja að drykkjuómenning hafi breyst í vínmenningu. Vínmenningin kallar á upplýsingar. Reglur um auglýsingar á áfengi þurfa að taka mið af þessum þjóðfélagsbreytingum. Ég tel að endurskoða þurfi auglýsingabann á áfengi. Við þá endurskoðun verði m.a. tekið mið af öðrum löndum þar sem auglýsingar á léttum vínum og bjór eru leyfðar við ákveðnar aðstæður, t.d. í blöðum og tímaritum, en bannað að beina auglýsingum að börnum og ungmennum.



[13:58]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég leyfði mér þann munað að taka með mér upp í ræðustól hins háa Alþingis lagasafnið okkar frá árinu 2003 sem við þingmenn sem sitjum hér á löggjafarþingi þjóðarinnar eigum öll að eiga eintak af. Ég fletti upp á áfengislögum, nr. 75/1998, og þau eru í sjálfu sér afskaplega skýr. Í 20. gr. þeirra segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.“

Síðan fylgja með ýmsar undanþágur á þessum auglýsingum og annað þess háttar sem ég ætla ekki að rekja hér.

Ég tel alveg óþolandi að við sem sitjum á löggjafarþingi þjóðarinnar, förum með löggjafarvaldið, lítum það eitthvað jákvæðum augum að menn einhvers staðar úti í bæ brjóti landslög markvisst og skipulega, lög sem jafnvel eru ekki eldri en þetta, frá 1998. Þetta hljótum við að fordæma, sama hvar í flokki við stöndum og sama hvaða skoðun við annars höfum á þessum lögum. Við hljótum að fordæma það því þetta dregur úr trúverðugleika okkar sem sitjum hér á löggjafarþinginu. Þetta grefur undan trúverðugleika löggjafans sjálfs.

Það má vel vera að tími sé kominn til að endurskoða þessi lög. Ég hef í sjálfu sér ýmsar efasemdir um það. Ég hef hlustað á ræður hér í dag af miklum áhuga og ég er alveg reiðubúinn að fara í þá vinnu að skoða lögin, líta á þau á ný og athuga hvort einhver ástæða sé til að breyta. Ég efast reyndar um það, ég hef á vissan hátt ekki mikið álit á miklum boðum og bönnum í þjóðfélaginu og tel það forvarnastarf sem félagi minn, hv. þm. Gunnar Örlygsson, benti á áðan kannski vænlegra til árangurs. Það að menn brjóti lög er hins vegar óþolandi.



[14:00]
Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Spakvitur maður sagði: Bakkus er skemmtilegur ferðafélagi en það er ekki hægt að hugsa sér verri fararstjóra. Áfengislög, sem hér hefur verið vitnað til, skýra að hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Við höfum líka nýleg lög um Lýðheilsustöð. Þar er skilgreint helsta hlutverk Lýðheilsustöðvar, að annast áfengis- og vímuvarnir. Hnykkt er á þessu í 6. gr. laganna þar sem segir að hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs sé að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt. Þarna er skýrt eftirlitshlutverk með þeim lögum sem verið er að brjóta eins og þingmenn segja.

Þegnar þessa lands vita að þeim ber að fara að lögum. Þegnar þessa lands sjá þegar lög eru brotin með augljósum og lævísum hætti með áfengisauglýsingum. Tvískinnungur í þessum málum er verstur og ólíðandi því að hægri höndin verður að vita hvað sú vinstri gerir.

Frú forseti. Ég tel að það séu bara tveir kostir í stöðunni. Annaðhvort heimila menn áfengisauglýsingar eða menn framfylgja lögunum. Það er enginn millivegur. Sú skylda verður hins vegar aldrei tekin af okkur, að okkur ber að gæta bræðra okkar og systra og ekki síst ungmenna landsins.



[14:02]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur skilgreint ofneyslu áfengis sem eitt mesta heilbrigðisvandamál mannkyns. Þess vegna hafa flestar þróaðar þjóðir gripið til ýmissa aðgerða gegn þeirri vá. Einn þeirra þátta er að takmarka auglýsingar eins og Alþingi Íslendinga hefur samþykkt lög um. Þá ber að sjálfsögðu að hafa eftirlit með framkvæmd slíkra laga af þar til gerðum eftirlitsaðilum. En við hljótum að spyrja okkur hvort þau lög endurspegli þann veruleika sem við lifum við í dag. Hver er staðan?

Eins og fram hefur komið er bannið sniðgengið með ýmsum hætti þar sem snjallir auglýsingamenn og auglýsingastofur notfæra sér tvíræðni í myndmáli og texta þar sem bjór er auglýstur í líki pilsners og fræðileg umfjöllun fer fram um einstakar áfengistegundir, allt gert í því skyni að selja meira. Þegar við förum upp í flugstöð erum við komin í annað umhverfi. Þar blasa við auglýsingar í flugvélunum. Þá eru þær enn beinskeyttari og lúta allar að því sama, að selja meira áfengi.

Þetta er breyttur heimur. Það var auðvelt að grípa til banns þegar hér voru fáir fjölmiðlar og samskipti okkar við útlönd voru helst í kringum vorskipin. Við búum á tölvuöld þar sem ungmenni lifa og hrærast í tölvuheimi meira og minna eftirlitslaust, á sjónvarpsöld þar sem þau hafa aðgang jafnvel að tugum erlendra sjónvarpsrása. Meira að segja í svokallaðri innlendri dagskrárgerð, í íþróttaþáttum, auglýsir meðallið í enska boltanum þekkta danska bjórtegund. Við hljótum því að leiða hugann að því að taka til endurskoðunar gildandi lög sem banna þetta alveg og leggja meiri áherslu á að byggja upp sterka einstaklinga sem kunna að taka sjálfstæðar ákvarðanir og verjast slíkum auglýsingum.



[14:05]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna umræðunni sem fram hefur farið um áfengisauglýsingar. Ég held að tvennt sé ljóst í henni: Annars vegar að lögin standa, þau eru brotin og við krefjumst þess öll að þess verði gætt að þau séu það ekki. Þessi lög eru ekki ómerkari en önnur lög og sá veruleiki sem við blasir og síðasti hv. ræðumaður talaði um er m.a. til kominn vegna þess að menn hafa ekki staðið við að láta lögin gilda. Menn hafa látið vínsalana komast upp með að brjóta þau. Menn hafa látið peningahagsmuni ráða ferðinni í þessum málum en ekki hagsmuni ungs fólks og unglinga.

Á hinn bóginn hafa menn rætt um að sjálfsagt sé að taka lögin til endurskoðunar á þinginu. Það ræðum við á þinginu og sitt sýnist hverjum um hvernig eigi að endurskoða þau. Sumir vilja færa þau nær því sem gildir einhvers staðar annars staðar. Nú má minna á að alls staðar í þeim heimshluta sem við tilheyrum eru áfengisauglýsingar takmarkaðar og mjög víða bannaðar með öllu. Öðrum þykir ástæða til að opna þetta. Það má auðvitað minna frjálsræðishetjurnar á að það er fleira bannað en áfengisauglýsingar. Það er líka bannað að auglýsa tóbak hér á landi. Það er bannað að auglýsa lyfseðilsskyld lyf. Bannað er að auglýsa læknisþjónustu með markaðslegum hætti vegna þess að við teljum hana ekki af því tagi. Skotvopn eru ekki auglýst á Íslandi og frjálsræðishetjurnar ættu kannski að skoða veruleikann í kringum þetta hér og í öðrum löndum miðað við þá opnun sem hér hefur farið fram.

Eitt veldur mér vonbrigðum í umræðunni, sem annars hefur verið ágæt og við eigum sem betur fer eftir að endurtaka með einhverjum hætti í vetur, og það eru svör ráðherrans. Hæstv. heilbrigðisráðherra vísar í svari sínu til ummæla sem ég las í fyrirspurn minni þar sem hann segir að hann ætli að hefja vinnu í þessu efni og sagði það fyrir 6 mánuðum. Nú kemur hann aftur og vísar til þess að hann ætli að hefja vinnu. Ef einhvern tíma hefur verið talað í hring þá gerir hæstv. heilbrigðisráðherra það og ég bið hann að rjúfa hringinn, rjúfa vítahringinn sem hann og ríkisstjórn hans hafa komið upp (Forseti hringir.) í kringum þessi mál.



[14:07]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vil taka fram örfá atriði í lokin. Hlutverk heilbrigðisráðuneytisins í þessu efni er að sjá um forvarnir. Lýðheilsustöð gegnir því hlutverki fyrir okkur. Lýðheilsustöð hefur margsinnis kært framkvæmd á áfengisauglýsingabanninu, m.a. ítrekað á þessu ári. Það er hlutverk hennar. En aðalatriðið finnst mér vera að berjast gegn sívaxandi áfengisneyslu í landinu eins og ég kom inn á í inngangserindi mínu og til þess verðum við að hafa sem breiðasta samstöðu. Þess vegna fór ég í gegnum það í inngangserindi mínu sem síðast hefur verið gert í þessum málum á samnorrænum vettvangi. Ég tel afar mikilvægt að við höfum samvinnu við nágrannaþjóðirnar í þessu efni.

Það er alveg rétt að við höfum ekki náð þeim markmiðum sem við settum okkur í heilbrigðisáætlun. Við þurfum að gera það. Hins vegar varðandi breytingu á lögunum og framkvæmd laganna er það gersamlega óeðlilegt að ég fari að ræða það mál sem er á verksviði annars ráðherra og ég ætla ekki að gera það. (Gripið fram í.) Það sem ég hef sagt stendur en það er gersamlega óeðlilegt að beina til mín fyrirspurnum um endurskoðun laganna því það er á verksviði annars ráðherra og rétt að ræða það á réttum vettvangi. Skoðanir mínar liggja mjög ljóst fyrir, gerðu það í vor og gera það núna. Það stendur ekkert upp á mig í þessu sambandi, ekki neitt.