131. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2004.
húsnæðismál, 1. umræða.
stjfrv., 220. mál (hámark lánshlutfalls). — Þskj. 223.

[10:33]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2003 er kveðið á um að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% að verðgildi eigna að ákveðnu hámarki og að leigumarkaður íbúðarhúsnæðis verði efldur.

Í kjölfar þessarar stefnumörkunar var þegar hafist handa um undirbúning að umræddum breytingum með það að leiðarljósi að lánshlutfall fyrir almenna lántakendur yrði eins hátt og kostur væri og með eins góðum kjörum og unnt væri að veita. Sett var á fót verkefnisstjórn og ráðgjafarhópur skipaður fulltrúum félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem starfaði sumarið 2003 og fram á það haust. Í þeim undirbúningi var farið ítarlega yfir valkosti við hækkun hámarkslána og haft samráð við hagsmunaaðila. Samhliða því var nefndum falið að fara yfir stöðu viðbótarlánakerfisins og stöðu á leigumarkaði.

Það frumvarp sem hér er fylgt úr hlaði er afrakstur þeirrar vinnu. Það fylgir í kjölfar breytinga á lögum um skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs sem tóku gildi 1. júlí sl. Þær breytingar hafa þegar haft mikil áhrif til lækkunar á útlánsvöxtum sjóðsins. Nú í byrjun nóvember eru vextir Íbúðalánasjóðs af almennum lánum og viðbótarlánum 4,3% en voru þar til breytingin tók gildi 5,1% af almennum lánum og 5,3% af viðbótarlánum. Hér er því, hæstv. forseti, um afar mikilvæga kjarabót að ræða fyrir heimilin í landinu.

Húsnæðismarkaður á Íslandi hefur undanfarna áratugi einkennst af skorti á fjármögnun. Atbeina ríkisins hefur þurft til að tryggja fjármagn til kaupa á íbúðarhúsnæði þar sem viðskiptabankarnir hafa verið tregir til að veita lán nema með háum vöxtum. Í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs nú í sumar og ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA frá 11. ágúst sl. þess efnis að starfsemi Íbúðalánasjóðs samræmdist ákvörðun EES-samningsins komu viðskiptabankarnir fram með tilboð til almennings um lánafyrirgreiðslu um kaup fasteigna sem eru að einhverju leyti sambærileg við þau kjör sem Íbúðalánasjóður hefur veitt. Þau kjör sæta þó takmörkunum sem leiða til þess að ekki sitja allir landsmenn við sama borð. Það þýðir að íbúar á landsbyggðinni eiga síður möguleika en aðrir á að fjármagna íbúðarkaup. Þannig er með engu móti hægt að halda fram að lánsframboð bankanna taki til landsins alls.

Enn fremur má spyrja sig: Hvað gerist á húsnæðismarkaði þegar kemur að viðskiptum með það húsnæði sem nú er sett að veði fyrir lánum bankanna? Hvernig gerast kaupin á eyrinni þegar viðskiptavinur einnar bankastofnunar kaupir af viðskiptamanni annarrar? Hver ber þá kostnaðinn af vaxtamuninum og er þá hætta á að þau góðu kjör sem nú eru í boði gangi að einhverjum hluta til baka?

Þrátt fyrir að sú breyting sem orðið hefur á lánsframboði sé jákvæð fyrir þróun íslensks húsnæðismarkaðar er jafnljóst að Íbúðalánasjóður og sú fyrirgreiðsla sem sjóðurinn veitir er forsenda fyrir jöfnum aðgangi almennings að lánsfé til fasteignakaupa óháð búsetu eða fjárhagslegri forsögu. Ljóst er að atburðarásin á lánamarkaði undanfarna mánuði sýnir með skýrum hætti að tilvist og lánaframboð Íbúðalánasjóðs felur í sér nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Í frumvarpinu sem nú er lagt fram er á engan hátt hvikað frá markmiðum gildandi laga um að Íbúðalánasjóði beri að stuðla að með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum óháð búsetu og að fjármunum verði sérstaklega varið til að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Einn liður í því að uppfylla þetta markmið sjóðsins er sú þjónusta sem hann veitir viðskiptavinum sínum á tímum ófyrirsjáanlegra atburða í lífi þeirra sem oftar en ekki leiða til greiðsluerfiðleika og jafnvel vanskila. Íbúðalánasjóður hefur þannig svigrúm og heimildir til frystingar lána, lengingar þeirra eða eftir atvikum styttingar skuldbreytingar og fleira sem ætla má að ekki verði í sama mæli í boði í bankakerfinu.

Bankar og sparisjóðir skilyrða útlán sín með þeim hætti að til þess að njóta bestu vaxtakjara hjá þeim þarf viðkomandi einnig að vera með umtalsverð viðskipti og það eru einkum hinir efnameiri sem eiga auðvelt með að uppfylla slík skilyrði. Hjá Íbúðalánasjóði njóta hins vegar allir lántakendur sem uppfylla lánshæfismat sömu vaxtakjara. Sjóðurinn uppfyllir því í dag mjög vel þau markmið sem honum ber að starfa eftir og innleiðing 90% íbúðalána mun gera honum kleift að gera enn betur. Þeir sem telja sig geta fengið betri lánskjör annars staðar geta að sjálfsögðu kosið að nýta sér ekki þjónustu sjóðsins.

Bankarnir gera nú kröfu um 1. veðrétt sem forsendu hagstæðra íbúðalána. Þetta skilyrði veldur því að mikilvægt er að hámarkslán Íbúðalánasjóðs sé svo hátt að kaupendur hóflegs íbúðarhúsnæðis eigi möguleika á heildstæðri fjármögnun hjá Íbúðalánasjóði því að ella þurfi kaupendur að sækja viðbótarfjármögnun á mun lakari kjörum en bankarnir bjóða ef þeir fá 1. veðrétt. Þess vegna er það afar mikilvægt, hæstv. forseti, að fjárhæð hámarksláns þróist áfram með þeim hætti að lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs sé raunverulegur valkostur við kaup á hóflegu íbúðarhúsnæði. Einungis þannig verður tryggt til lengri tíma að markmið um áframhaldandi jöfn tækifæri til lántöku óháð búsetu og efnahag náist.

Íbúðalánasjóður er tæki til jöfnunar í húsnæðismálum og starfsemi hans er ekki markmið í sjálfu sér. Hins vegar er mikilvægt að muna að tilvist og frumkvæði í fjármögnun sjóðsins hefur haft lykiláhrif á þær jákvæðu breytingar sem hafa orðið á húsnæðislánamarkaði að undanförnu. Því hef ég sagt, hæstv. forseti, og er rétt að árétta að ég tel hlutverki Íbúðalánasjóðs hvergi nærri lokið.

Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir að hækkun lánshlutfallsins taki gildi 1. janúar 2005. Samhliða verður hætt að veita viðbótarlán enda mætir hið breytta lánakerfi Íbúðalánasjóðs þörfum tekju- og eignaminni kaupenda og greiðsluskylda sveitarfélaga í varasjóð viðbótarlána fellur um leið brott. Til að undirbúa þessa breytingu hefur hámarksfjárhæð almennra lána Íbúðalánasjóðs hækkað í áföngum að undanförnu. Hámarkslánið er nú 11,5 millj. kr., bæði vegna nýs og notaðs húsnæðis. Jafnframt hefur verið sett þak á heildarlán sjóðsins og getur samanlögð fjárhæð almenns láns og viðbótarláns ekki verið hærri en 13 millj. kr.

Eins og kunnugt er hafa sveitarfélögin ábyrgst viðbótarlánin. Nú er gert ráð fyrir í frumvarpinu að ríki og sveitarfélög taki upp viðræður um hlutverk sveitarfélaga á sviði húsnæðismála og framtíð varasjóðs viðbótarlána. Félagsmálaráðuneytið hefur þegar sent Sambandi ísl. sveitarfélaga formlegt erindi með beiðni um slíkar viðræður.

Hæstv. forseti. Vegna breyttrar fjármögnunar leiguíbúðalána er í frumvarpinu lögð til breyting varðandi vaxtaákvörðun þeirra lána. Er gert ráð fyrir að leiguíbúðafélög geti valið um breytilega vexti eða fasta vexti og að lántaki beri þá áhættu sem hlýst af föstum vöxtum með því að honum verði gert að greiða uppgreiðsluþóknun. Sjónarmið laga um neytendalán eiga ekki við um þessar lánveitingar sem eingöngu eru veittar til lögaðila en með því að bjóða fasta vexti er Íbúðalánasjóði hins vegar mögulegt að bjóða lægri vexti af þessum lánum en nú er mögulegt og ætti það að vera til þess fallið að styrkja leiguíbúðamarkaðinn enn frekar hér á landi.

Sl. haust skipaði ég nefnd til að yfirfara stöðu leigumarkaðar og gera tillögur um aukið framboð leiguíbúða. Jafnframt var nefndinni falið að gera greiningu á biðlistum eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum eða félagasamtökum. Gallup var falið að gera úttekt á leigumarkaði og gerð var sérstök könnun á biðlistum eftir leiguhúsnæði. Einnig var gerð úttekt á sérstöku átaki í byggingu leiguíbúða sem var ákveðið í ágúst 2002.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að staðan á leigumarkaði er góð og hefur að öllum líkindum aldrei verið betri. Könnun Gallups sýnir að meiri hluti leigjenda telur ástandið gott, að þeir búi við öruggar aðstæður og gæði húsnæðis séu fullnægjandi.

Á tímabilinu 2002–2004 hefur Íbúðalánasjóður veitt lán til um 2000 leiguíbúða. Átakið hefur haft mjög jákvæð áhrif bæði til fjölgunar leiguíbúða og til þátttöku nýrra aðila á almennum leigumarkaði. Leiguverð er í jafnvægi og framboð á vönduðu leiguhúsnæði hefur aukist og leitt til þess að lélegt húsnæði hefur því sem næst horfið af markaðnum.

Húsaleigubótakerfið hefur reynst vel og tilraun Reykjavíkurborgar með sérstakar húsaleigubætur fyrir fólk á biðlistum eftir félagslegu húsnæði virðist gefa góða raun. Samkvæmt athugunum nefndarinnar má ætla að tekjulægstu hóparnir þurfi frekari aðstoð til að standa undir leigugreiðslum á almennum markaði. Til að styrkja stöðu þeirra hefur einkum tvennt komið til álita: annars vegar sérstakar húsaleigubætur og stofnstyrkir til sérhópa á borð við öryrkja, aldraða og námsmenn. Hins vegar leggur nefndin til að leitað verði leiða til að lækka byggingarkostnað og kanna hvort endurskoða megi ákvæði byggingarlaga eða reglugerðar með það fyrir augum að auka svigrúm varðandi lágmarksstærðir herbergja og geymslna. Þá er lagt til að samræmd verði framkvæmd á stimpilskyldu lána og framboð lóða vegna leiguíbúða verði aukið.

Nefndin hefur unnið gott starf og ég mun í framhaldi gera tillögur um úrbætur er byggja á tillögum hennar. Því er við að bæta að gert er ráð fyrir að ráðgjafarnefnd varasjóðs húsnæðismála verði heimilt að ákvarða að raunvextir á ávöxtuðu fjármagni sjóðsins verði færðir upp til annarra verkefna hans og þar með verði bætt úr fjárvöntun vegna innlausnar sveitarfélaga á félagslegum íbúðum og sölu þeirra á almennum markaði sem nemur um 50–60 millj. kr. á ári. Þessi breyting mun ekki skaða sjóðinn sem hefur mjög sterka eiginfjárstöðu.

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum um húsnæðismál er félagsmálaráðherra heimilt að ákveða hámark íbúðalána til einstakra lántaka með reglugerð. Við gildistöku laga þeirra sem hér er flutt frumvarp til breytinga á er gert ráð fyrir að hámarkslánið verði 13 millj. kr. en það hækki síðan áfram í áföngum á kjörtímabilinu. Ekki er gert ráð fyrir því, hæstv. forseti, að framangreind hækkun hámarkslána sjóðsins muni valda neinni hækkun á áætluðum heildarútlánum hans frá síðustu áætlun heldur má gera ráð fyrir að samdrátturinn sem sjóðurinn var farinn að reikna með vegna aukinnar samkeppni á fjármagnsmarkaði verði minni en ella vegna þessara breytinga. Auk þess má benda á að samhliða er sett þak á heildarlán sem sjóðurinn veitir, þ.e. samanlagt almennt íbúðalán og viðbótarlán og það þak verði 13 millj. Ekkert slíkt þak var áður fyrir hendi þannig að gera má ráð fyrir að þessi breyting muni hamla gegn hugsanlegri útlánaaukningu.

Um önnur atriði en þau sem hér hafa sérstaklega verið tíunduð vísa ég til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.



[10:45]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%.

Sú samkeppni sem nú er komin upp á markaðnum um fasteignaviðskipti er jákvæð og hefur stuðlað að vaxtalækkun og mikilvægt að Íbúðalánasjóður hafi fulla burði til að taka þátt í þeirri samkeppni. Ekki er vafi í mínum huga að það á að styðja við bakið á Íbúðalánasjóði eins og hægt er til þess því að engin reynsla er komin á það enn hvort þau hagstæðu lánskjör í fasteignaviðskiptunum sem bankarnir bjóða nú séu komin til að vera eða hvort tilgangurinn sé einungis að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum líkt og tryggingafélögin gerðu við FÍB þegar það félag kom fram með hagstæðar tryggingar gegn okri og samtryggingu tryggingafélaganna í bifreiðatryggingum.

Þó að ég fagni framkomnu frumvarpi hef ég ýmislegt við það að athuga og ýmsar spurningar fram að færa við hæstv. félagsmálaráðherra. Það er afar mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða áhrif auknir lánamöguleikar í fasteignaviðskiptum hafa á þenslu, verðbólguþróun, einkaneyslu og efnahagslífið í heild. Félagsmálanefnd verður að fara vandlega yfir þá hlið málsins. Það er auðvitað auðvelt að meta áhrifin út frá þeim gefnu forsendum sem á borðinu liggja varðandi Íbúðalánasjóð sem er aðeins hluti af heildardæminu. Þar er gegnsæi sem þarf að vera til að meta áhrifin en annað gildir um bankana og sparisjóðina. Undrar mig satt að segja sinnuleysi aðila eins og Seðlabankans en lítið hefur heyrst frá þeim um mikla útlánaþenslu bankanna en útlánin hafa vaxið mikið og munu auka þenslu, verðbólgu og fasteignaverð sem ég mun koma að síðar.

Seðlabankinn hefur mjög beitt stýrivöxtum undanfarið en um það eru deildar meiningar hvaða áhrif hækkun stýrivaxta hefur á langtímaskuldbindingar eins og eru nú með auknum útlánum í bönkum, sparisjóðum og Íbúðalánasjóði.

Ég sé að í morgun ræðir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, aðeins um þessi auknu útlán í Fréttablaðinu og hann telur þessi nýju lán áhyggjuefni og segir að ekki hafi verið hugað nægilega vel að fjármögnun þessara lána eða arðsemi að teknu tilliti til afskrifta, rekstrarkostnaðar og annarra tekna.

Þetta segir mér að verið geti að það séu veikar stoðir undir þessu hjá einhverjum lánastofnunum, þeim útlánum sem þær bjóða nú, og það er brýnt að fylgst sé vel með því.

Ég vil spyrja hæstv. húsnæðisráðherra að því hvort einhverjar upplýsingar liggi fyrir varðandi endurfjármögnun á fasteignalán banka og sparisjóða og hvort hann sem félagsmálaráðherra eða hæstv. viðskiptaráðherra hafi haft frumkvæði að því að fá fram heildarmyndina og samanlögð áhrifin af auknum útlánum ekki bara hjá Íbúðalánasjóði heldur öðrum lánastofnunum einnig þannig að hægt sé að leggja mat á efnahagslegu áhrifin af mikilli innspýtingu fasteignalána á markaðinn. Ég hef að vísu lagt fram fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um þetta mál og það verður fróðlegt að sjá hvort bankarnir sleppi við að svara þeirri fyrirspurn í skjóli hlutafélagalaganna, en það gengur auðvitað ekki að bankarnir komist upp með að svara ekki slíkum fyrirspurnum þannig að hægt sé að meta heildaráhrifin.

Í þessu frumvarpi er farið mjög varlega í sakirnar eins og varðandi þak á hámarksfjárhæð. Nokkuð óljóst er í frumvarpinu að mér sýnist hvort 90% þakið eigi að taka gildi í áföngum eða hækkun á lánshlutfalli eigi að taka gildi að fullu um næstu áramót, en í orðum hæstv. ráðherra áðan mátti heyra að 90% lánshlutfallið eigi að taka gildi um áramót og ber að fagna því að menn séu ekki að teygja lopann í því efni, nógu erfiðlega mun Íbúðalánasjóði vegna í því að halda í hlut sinn í fasteignaviðskiptunum sem að stórum hluta eru nú komin yfir til bankanna.

En þó að ég tali fyrir því að útlánum sé hagað með þeim hætti að við missum ekki allt úr böndunum í meiri verðbólgu og óeðlilega hækkun á fasteignaverði sé ég ekki hverju það breytir í stöðunni nú varðandi hin efnahagslegu áhrif hvort strax á morgun verði farið í 90% lánshlutfall og hámarksfjárhæðin fari t.d. strax í 15–16 milljónir þegar bankarnir vaða fram algjörlega óheft varðandi þak á hámarksfjárhæð og með 80% lánshlutfall.

Hver verður afleiðing þess að bíða svona með að hækkun á lánshlutfallinu taki gildi eða að fara lengra varðandi hámarksfjárhæðina? Það mun ekki draga neitt úr útlánaþenslu, afleiðingin verður bara sú að bankarnir fá stærri hlut til sín af kökunni þegar svona er haldið á málum. Ég heiti hæstv. ráðherra stuðningi í því að afgreiða þetta mál fljótt og vel í nefndinni þannig að hægt verði að fara fyrr í hækkun á lánshlutfallinu, í 90%. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða ákvörðun sína varðandi hámarksfjárhæðina vegna þess að afleiðingin verður einungis sú að Íbúðalánasjóður mun í vaxandi mæli missa hlutdeild sína í fasteignaviðskiptum ef svo hægt er farið í sakirnar. Þetta hefur engin áhrif á verðbólguna eða þensluna, þessi viðskipti munu bara flytjast til yfir í bankana frá Íbúðalánasjóði.

Hæstv. ráðherra verður að líta til þess að meðalfjárhæð hvers kaupsamnings síðustu vikuna í október var 17,5 millj. til 20,8 millj. eftir því hvaða vika í október sl. var valin til viðmiðunar. Þetta kemur fram í gögnum frá Fasteignamati ríkisins. Miðað við hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs sem er nú 11,5 millj. lánar Íbúðalánasjóður einungis að hámarki 55–60% af meðallánum vegna íbúðakaupa eins og þau eru nú í október.

Hvað er hægt að kaupa stóra fasteign og fá 90% hluta lánað fyrir henni hjá Íbúðalánasjóði eftir þessa breytingu? Jú, íbúðin miðað við 11,5 millj. má ekki kosta meira en 12,7–12,8 millj. til að fá fullt lán hjá Íbúðalánasjóði miðað við 90% lánshlutfall og heldur meira þegar lánið er komið upp í 13 millj. um áramótin. Það dugar í mesta lagi fyrir þriggja herbergja íbúð en áætlað meðalverð á þriggja herbergja íbúð í Reykjavík í október er 12,9 millj. kr.

Ég nefni líka það ákvæði þessa frumvarps sem enn þrengir að Íbúðalánasjóði í samkeppni hans við bankana að gert er ráð fyrir að öll áhvílandi lán á íbúðum dragist frá hámarkslánsfjárhæðinni, 11,5 millj. Ég spyr ráðherrann: Er þá alveg sama á hvaða veðrétti lánin eru og hversu óhagstæð þau eru, á í öllum tilvikum að draga þau frá hámarkslánsfjárhæðinni? Það veikir sannarlega stöðu Íbúðalánasjóðs verulega ef til viðbótar því að svona hægt er farið í sakirnar miðað við það sem er að gerast hjá bönkunum á líka að draga áhvílandi lán frá heildarfjárhæðinni.

Nei, það er alveg ljóst að ef samkeppnisstaða Íbúðalánasjóðs verður ekki aukin meira en hér er gert ráð fyrir munu bankarnir fyrr en seinna taka til sín obbann af öllum lánaviðskiptum vegna fasteignakaupa. Áhrifin verða þau að bankarnir auka bara hlutdeild sína í fasteignaviðskiptum, endurfjármögnun á eldri lánum Íbúðalánasjóðs mun aukast og niðurstaðan verður sú að enn meira dregur úr samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

Það er viðurkennt í frumvarpinu að hækkun á lánshlutfalli í 90% og hækkun á hámarksfjárhæð hafi ekki þensluáhrif vegna lánaframboðs bankanna og það er nákvæmlega það sem ég er að segja. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Ljóst er að hækkun hámarksláns og lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% hafa ekki lykiláhrif á ákvörðun fólks um endurfjármögnun, þegar í boði eru sambærileg lán sem veitt eru án hámarksfjárhæðar og án tengsla við íbúðakaup. Þau þensluáhrif sem umsagnaraðilar gerðu ráð fyrir að breytingin gæti haft eiga því að vera komin fram í kjölfar þess lánaframboðs bankanna sem þegar hefur átt sér stað, óháð hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Vildi hæstv. ráðherra ganga lengra í að 90% lánin tækju gildi strax og hámarksfjárhæðin yrði hækkuð meira? Var það svo að hæstv. ráðherra vildi gera það en að málið hafi verið stoppað í ríkisstjórninni? Ég hygg að hæstv. ráðherra sjái að í samkeppni við bankana er ekkert vit í því að fara svona hægt í sakirnar.

Ég spyr: Hvert var álit Seðlabankans sem lítið virðist stugga við bönkunum? Ég geri ráð fyrir að álit Seðlabankans, sem við verðum auðvitað að fá fram í félagsmálanefnd, hafi kannski haft sitt að segja um það að ekki hafi verið gengið lengra varðandi hámarksfjárhæðina eða að taka 90% lánin fyrr í gildi. Hvert var álit Seðlabankans nákvæmlega, hæstv. forseti?

Ég vil aðeins fara yfir fasteignaverðið og áhrifin af breytingunni en það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að auknir lánamöguleikar fólks, sem eru af hinu góða, hverfi í hækkun á fasteignaverði sem hefur hækkað ótrúlega mikið á undanförnum mánuðum og missirum. Þegar litið er á verð á íbúðum í fjölbýli og sérbýli í september til október á þessu ári miðað við sömu mánuði á síðasta ári, 2003, koma í ljós miklar verðhækkanir. Þannig hefur t.d. fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík hækkað úr 13,7 millj. í 15,1 millj. á einu ári eða um 1,4 millj. kr. Verulegur hluti af auknum lánum hverfur því í hærra fasteignaverð. Ef litið er til sérbýla var meðalverð í sérbýli í október 2003 rúm 21 millj. kr. en í október 2004 er fasteignaverð í sérbýli komið í tæpar 26 millj. og hefur hækkað um tæpar 5 millj. á einu ári eða nálægt 25% hækkun. Það verður að skoða þessa hlið á málinu vegna þess að það er ótækt að auknir lánamöguleikar hverfi bara í hærra fasteignaverð og geri því ekki annað en að auka skuldir heimilanna.

Það er líka ástæða til að nefna ýmislegt sem fram hefur komið um áhrifin inn í framtíðina og hækkun á fasteignaverði og þenslu í þjóðfélaginu. Þar vil ég vitna til greiningardeildar KB-banka í september en þar kemur fram að samkvæmt spálíkaninu muni lítil sem engin hækkun verða á fasteignaverði fram til loka 2004 en fyrstu þrjá fjórðunga næsta árs muni hækkunin verða um 8% og þá til viðbótar því sem ég var að nefna. Síðan kemur fram að verð á stærri eignum sé viðkvæmara fyrir vaxtastigi en smærri og því má ætla að stærri eignir hækki meira í verði en þær minni, og það hefur þegar komið fram.

Það kemur einnig fram hjá greiningardeild Landsbankans að lægri vextir og aukið framboð á lánsfé kyndi undir eftirspurn bæði til einkaneyslu og fjárfestingar og líklegt er að eftirspurnin beinist að stórum hluta að innflutningi og auki enn frekar viðskiptahalla. Auk þess kemur fram að áhrifin muni þó að mestu leyti koma fram á fasteignamarkaði og sýna sig í hærra fasteignaverði og síðar auknu framboði á húsnæði.

Það sem er athyglisvert er að húsnæðisliður vísitölunnar hefur hækkað um 6% á sama tíma og aðrir þættir hafa hækkað um 1,1%. Hækkun húsnæðisverðs hefur því haft veruleg áhrif á verðbólgu á síðustu mánuðum. Það er alveg ljóst, herra forseti, og fólk þarf að borga fyrir það í hærra verði á vöru og þjónustu og það hækkar vissulega skuldir heimilanna.

Síðan kemur fram hjá greiningardeild Landsbankans að íbúðaverð gæti hækkað um 10–15% á næstu tveimur árum umfram það sem annars hefði orðið, þ.e. miðað við óbreytt framboð. Aukist framboð nýrra eigna fljótt í samræmi við eftirspurn verða áhrifin minni. Við gætum því átt von á að verð á íbúðarhúsnæði á næstu tveimur árum geti hækkað um 10–15%. Áhrif þeirrar hækkunar á verðbólgu eru talin á bilinu 0,5–1% prósent á ársgrundvelli.

Því er einnig spáð hér að þegar líður fram á annan ársfjórðung næsta árs megi eiga von á því að langtímavextir fari að þokast upp að nýju vegna hækkunar á erlendum vöxtum, hækkunar á stýrivöxtum Seðlabanka og væntingar um aukið framboð. Þessa hlið ber okkur vissulega að skoða líka á hv. Alþingi og í félagsmálanefnd þegar við veltum fyrir okkur niðurstöðunni.

Ég vil líka nefna, herra forseti, að veltan á fasteignamarkaði hefur aukist umtalsvert og er hægt að vísa í þinglýsta kaupsamninga í október á síðasta ári en þá voru þinglýstir kaupsamningar sem gerðir voru vegna íbúða í fjölbýli um 9 milljarðar kr. en tæpir 12,3 milljarðar í október sl. eða ári seinna og er aukningin 35% á einu ári. Veltan á fasteignamarkaði í sérbýli er enn meiri. Í október 2003 voru þinglýstir kaupsamningar í sérbýli tæpir 3,2 milljarðar en eru 4,9 milljarðar í október sl. og þar er aukning á veltunni 52% að því er varðar sérbýli. Er þar örugglega líka um að ræða verulega hækkun á verði íbúða sem eykur þessa veltu.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um það sem Íbúðalánasjóður hefur vissulega fram yfir bankana. Landsmenn eiga jafnari aðgang að Íbúðalánasjóði og lít ég þá sérstaklega til landsbyggðarinnar. Þarna er jafnréttispunktur í lögum um Íbúðalánasjóð og bankarnir virðast ekki hafa verulegan áhuga á að veita landsbyggðinni aðgang til jafns við höfuðborgarsvæðið. Ef á bjátar hjá lántakendum þá er miklu betri staða hjá þeim varðandi greiðsluerfiðleikalán, skuldbreytingar, lægri kostnað, lántökugjald, kostnað vegna vanskila o.s.frv. Uppgreiðslugjald í bönkunum er náttúrlega alger svívirða og nú er Samkeppnisstofnun að skoða hvort ólöglegt sé að láta fólk greiða hundruð þúsunda króna ef það ætlar að gera upp skuldir sínar. Því er refsað fyrir gera upp skuldir sínar með himinháu uppgreiðslugjaldi.

Svo er það stimpilgjaldið. Það þarf að fara að vinda sér í að fella niður þessi stimpilgjöld sem fólk þarf að reiða fram og eru 200–300 þús. kr. Ég spyr um skoðun hæstv. ráðherra á stimpilgjaldinu.

Ég spyr líka um viðbótarlánin. Þau eru núna komin í 4,3%. En er hagstæðara fyrir þá sem fá viðbótarlán að fella þau alveg niður þannig að fólk sem er innan tilskilinna tekjumarka gangi bara inn í almenna kerfið? Fólk borgar núna engin stimpilgjöld af viðbótarláninu en núna þarf það að fara að borga stimpilgjald af allri fjárhæðinni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað á að koma í staðinn? Er ráðherra reiðubúinn til þess að lækka lántökugjaldið á móti, þetta eina prósent t.d. niður í hálft prósent, til þess að vega þarna upp á móti? Þetta fólk borgar í lántökugjald núna hálft prósent en það verður eitt prósent þegar þessi breyting gengur fram. Núna eru viðbótarlánin afborgunarlaus fyrsta árið en það verður ekki við þessa breytingu.

Mér sýnist því og spyr ráðherrann um það: Verða kjör þeirra sem geta fengið viðbótarlán núna ekki óhagstæðari við þessa breytingu vegna þess að þeir þurfa að fara að borga stimpilgjald, lántökugjaldið verður hærra og ekki afborgunarlaust fyrsta árið o.s.frv.? Mun ráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að vega á móti því, t.d. lækka lántökugjaldið?

Mig undrar að ráðherrann nefnir að staðan á leigumarkaðnum sé góð, leiguverð í jafnvægi o.s.frv. Það má vera að svo sé á almenna leigumarkaðnum, að þetta hafi leitað jafnvægis þar. En staðan á leigumarkaðnum hjá þeim sem þurfa að leita sér húsnæðisaðstoðar, t.d. hjá sveitarfélögunum eða Öryrkjabandalaginu eða t.d. námsmenn, hefur bara lítið batnað. Enn eru biðlistar mjög langir. Bara hjá Félagsbústöðum bíða 900 manns eftir leiguíbúðum og þetta er fátækt fólk sem getur ekki fengið húsaskjól með öðrum hætti. Hjá Félagsstofnun stúdenta bíða 300–400. Nærri 300 eru á biðlista hjá Öryrkjabandalaginu, þar af bíða, virðulegi forseti, 77 geðfatlaðir einstaklingar eftir leiguíbúðum, hvorki meira né minna en 77 geðfatlaðir einstaklingar.

Ég spyr um vexti af þessum íbúðum. Þeir eru núna 4,9%. Er nú ekki full ástæða til þess, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra vindi sér í að lækka þá vexti? Ég spyr: Er á döfinni að lækka vextina á leiguíbúðunum? Ég held að nauðsynlegt sé að fá svar við því við þessa umræðu.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti. Ég hef beint ýmsum spurningum til hæstv. ráðherra. Ég held að staðan sé raunverulega sú að hæstv. ráðherra hafi verið píndur af Sjálfstæðisflokknum til að ganga ekki lengra varðandi þá breytingu sem hér er að ganga í gegn um hækkun á lánshlutfalli. Ég hygg að sjálfstæðismenn séu þeirrar skoðunar að það eigi að flytja þetta allt inn í bankana, öll fasteignaviðskipti, og framsóknarmenn eiga í miklum erfiðleikum með að halda hlut Íbúðalánasjóðs í þeirri breytingu. Ég spyr ráðherrann: Telur hann hér nægjanlega langt gengið? Er hann ekki sammála mér um að það muni engin áhrif hafa á þenslu, verðbólgu eða hækkun á fasteignaverði þó að hann gangi lengra í þessu efni? Íbúðaviðskiptin, fasteignaviðskiptin munu einungis flytjast í auknum mæli til bankanna.



[11:05]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að með þessu frumvarpi sé verið að stíga mikið framfaraspor og fagna þessum lagabreytingum. En ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ég tel að við þurfum að stíga enn fleiri skref í tengslum við þessar breytingar og vek þar sérstaklega athygli á tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að viðmiðunarverðið verði hækkað hið snarasta. Gert er ráð fyrir að það verði 13 milljónir þegar lögin taka gildi eða koma til framkvæmda í ársbyrjun. En það er mjög brýnt að hækka þessa viðmiðun og hafa ber þar í huga að bankarnir sem vilja Íbúðalánasjóð helst feigan bjóða 80% lán af ótilgreindri upphæð. Við verðum að skoða þessi mál í því stóra samhengi.

Ég hef verið að rifja upp hvað breyst hafi á sviði húsnæðismála á undanförnum tveimur áratugum og það er ekki lítið. Þegar Sigtúnshópurinn kom til sögunnar í upphafi níunda áratugarins — reyndar var þá aðeins liðið á þann áratug. Það mun hafa verið árið 1983 — reis hér upp mikil hreyfing í landinu vegna þess sem kallað var misgengis launa og lána. Vorið 1983 var vísitala launa tekin úr sambandi í óðaverðbólgu en lánin æddu upp á við, verðtryggð. Þessu var harðlega mótmælt að sjálfsögðu.

Þegar þetta gerist var framlag hins opinbera til húsnæðiskaupandans um 17% af verði meðalíbúðar. Eins og ég sagði þá geisaði mikil verðbólga á þessum tíma og lánin voru greidd út í áföngum þannig að að raungildi var þessi upphæð miklu minni. Hún var sennilega 11–12%, það sem verið var að lána.

Nú erum við að tala um að hækka þetta viðmið upp í 90% þannig að hér hafa átt sér stað framfarir að þessu leyti þó að það séu ýmsar dekkri hliðar á húsnæðismálunum sem ég ætla einnig að víkja að í máli mínu, hliðar sem hljóta að valda okkur miklum áhyggjum. En þetta vildi ég hafa sagt í upphafi.

Við erum að verða vitni að miklum breytingum á húsnæðismarkaði. Mér finnst athyglisvert að skoða hvernig viðbrögð samfélagsins og þá einkum forsvarsmanna í fjármálakerfinu hafa verið við þessum tillögum.

Þegar 90% lánin voru fyrst kynnt kviknuðu miklir eldar í samfélaginu. Menn sögðu að stöðugleika í landinu væri í voða stefnt, þetta mundi skapa mikla þenslu, fasteignaverð mundi hlaupa upp úr öllu valdi o.s.frv.

Hvað gerist síðan? Síðan fara bankarnir að bjóða mun lægri vexti en höfðu verið í boði hjá Íbúðalánasjóði og miklu rýmri skilyrði að öllu leyti. Þá heyrist ekki múkk frá sömu aðilum. Þá er engin hætta á þenslu eða offramboði. Þá er ekkert varað við því að íbúðaverð fari upp úr öllu valdi.

Hvers vegna skyldi þetta vera? Jú, það er vegna þess að mikil hagsmunabarátta á sér stað í samfélaginu um hvert eigi að stefna íbúðalánakerfinu. Á að stefna því inn í bankana, inn í fjármálakerfið sem núna er búið að eignast fiskinn í sjónum og vill núna eignast öruggasta veð sem til er í hverju samfélagi, íbúðir landsmanna? Það er þetta sem er að gerast. Þessum veðum, þessum verðmætum, vilja fjármálastofnanirnar ná frá hinu opinbera, frá Íbúðalánasjóði og stefna þeim yfir í bankakerfið. Um þetta snýst slagurinn. Ég þekki þetta mjög vel. Ég veit hvernig bankar og fjármálastofnanir hafa leitað til lífeyrissjóða á liðnum árum um samstarf um húsnæðislán af þessu tagi.

Hvað gerðist á síðasta ári? Jú, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja kærðu ríkið til Evrópudómstólsins, til ESA og vildu fá þar staðfesta þá óskhyggju sína að lánastarfsemi á vegum hins opinbera væri ekki heimil lögum samkvæmt eða samkvæmt reglum og skilmálum hins innra markaðar.

Þegar þessir aðilar höfðu ekki árangur af þessu, hvað gerist þá? Þá líða 11 dagar frá því að þeir ná ekki sinni ósk fram um að eignast húsnæðiskerfið ókeypis og þeir byrja að niðurborga og niðurgreiða og niðurbjóða, fara með vextina niður. Ellefu dagar líða. Þegar þeir fá þetta ekki á silfurfati þá skal farin þessi leið. Nú byrjar mikill slagur. Einn bankinn byrjar. Nokkrir klukkutímar líða og aðrir fylgja í kjölfarið. Þeir eru síðan að breyta skilmálum sínum á næstu klukkutímum frá því að þetta gerist. Fyrstu tilboð KB-banka voru t.d. á þá leið að menn gætu ekki greitt lánin upp, að það væri óheimilt með öllu. Síðan líða nokkrir dagar. Þetta er gagnrýnt og þá kemur tilboð um að kúnninn geti greitt lánin upp gegn 2% álagi á eftirstöðvarnar. Þannig hefur þetta síðan verið að gerast.

Náttúrlega er ógeðfelldast í þessu af hálfu bankanna að þeir hafa viljað eignast viðskiptavini sína, éta þá með húð og hári. Þeir hafa sett þau skilyrði að tvennt af þrennu skuli uppfyllt, vísaviðskipti, greiðsluþjónusta eða viðbótarlífeyrissparnaður. Tvennt af þessu þrennu skal uppfyllt til að menn fái lánin. Það er ekki verið að bjóða lán án nokkurra skilyrða. Verið er að krefjast þess að menn gerist þegnar bankans. Fyrst áttu þeir ekki að komast út og nú þegar fallið var frá því þá yrði það samkvæmt sérstakri gjaldtöku.

Við hljótum að skoða það í nefndinni líka þegar þetta kemur til kasta félagsmálanefndar hvort Íbúðalánasjóður þurfi ekki að sitja við svipuð kjör og bankarnir. Þó að ég hafi ekki verið hlynntur uppgreiðsluálagi þá hljótum við að vega saman annars vegar uppgreiðsluálagið og hagsmunina af því fyrir Íbúðalánasjóð og hins vegar vextina. Bankarnir eru fyrir neðan. Þeir eru ívið lægri með sína vexti en Íbúðalánasjóður. Væri hægt að lækka þá enn meira með því að skoða þetta samspil?

Ég hef ekki tekið afstöðu til þess en þetta eru hlutir sem við þurfum að sjálfsögðu að skoða vegna þess að við þurfum að ræða þetta í þessu breiða samhengi við samkeppnina sem bankarnir og fjármálastofnanirnar eru farin að veita Íbúðalánasjóði. Við verðum að gera það. Ég er ekki að segja að ég sé fylgjandi þessu. Ég er bara að segja að við þurfum að ræða þessa hluti í samhengi.

Þá vil ég víkja að öðrum þáttum sem ég sagði að væru alvarlegir í húsnæðiskerfi okkar, mjög alvarlegar brotalamir í húsnæðiskerfi okkar. Þótt framfarir hafi orðið gagnvart húsnæðiskaupandanum eiga þær við um þá sem á annað borð hafa efni á því að festa kaup á íbúð. Hópur þeirra sem ekki hafa efni á því hefur stækkað, þeirra sem ekki standast skilyrðin til að festa kaup á íbúð. Þá er ég að tala um fátækt fólk, fátækasta hluta samfélagsins á leigumarkaði.

Fyrir ekki svo ýkja löngu voru vextir á félagslegum lánum 1%, lánum sem gengu til aðila sem sjá skjólstæðingum sínum fyrir húsnæði, aðila á borð við Öryrkjabandalagið, námsmannasamtök og sveitarfélög. Síðan voru þeir færðir upp í 3,5%. Gera menn sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slík vaxtahækkun hefur? Mönnum reiknast t.d. til hjá Reykjavíkurborg að þetta hafi þýtt 25% hækkun á húsaleigu. Þetta er samhengi hlutanna og núna eru lánin til þessara aðila orðin enn kostnaðarsamari, þ.e. sambærileg við það sem lánað er til eignarhúsnæðis, 4,3% að undanskildu sérstöku átaksverkefni sem er á ívið lægri vöxtum.

Við vitum að um þetta voru miklar deilur í ríkisstjórninni. Þar komu tvær leiðir til álita, annars vegar að lækka vexti eða hafa stuðninginn í formi lágra vaxta og hins vegar að reiða fram sérstök stofnframlög, að félagslegir aðilar fengju tiltekna upphæð eftir fyrir fram gefnum kvörðum til stuðnings framtaki sínu. Það var önnur leiðin. Við vitum alveg hvað þarna gerðist. Sjálfstæðisflokkurinn var þessu andvígur. Það urðu talsverð átök um þetta á sínum tíma en það náði ekki fram að ganga. Það hefði verið í lagi ef hitt hefði náð fram að ganga og vextirnir verið lækkaðir en það var ekki gert. Þvert á móti hafa þeir farið hækkandi. Þetta er það sem ég tel að við þurfum að taka til skoðunar í húsnæðiskerfinu, á hvern hátt við getum komið með myndarlegri hætti til móts við þá aðila sem sinna félagslegum þörfum.

Auðvitað er þá hin leiðin eftir, þ.e. önnur leið sem er vissulega farin, að greiða húsaleigubætur. Húsaleigubæturnar má hækka og Reykjavíkurborg hefur t.d. farið inn á þá braut sem mér finnst vera mjög skoðunarverð og ágæt, þ.e. að reiða fram sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem eru á lægsta kaupinu, hafa minnst handa á milli. Þeir fá sérstakar húsaleigubætur. Þær eru ætlaðar fyrir það fólk sem ekki fær inni í félagslegu húsnæði. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að það kunni að vera verr sett en hinir og úr því þarf að bæta. Það er tæknilegs og pólitísks eðlis að ráða bót á slíku.

Í lokin vil ég aftur koma ögn að þeim kerfisbreytingum sem við stöndum frammi fyrir því að ég hef grun um að þeir séu margir enn sem vilji Íbúðalánasjóðinn feigan og vilji takmarka umsvif hans. Menn hafa í því sambandi t.d. bent til Noregs. Þar hefur opinbera íbúðalánakerfið takmarkaðri verkefni. Þá er hugsunin sú að opinbera húsnæðiskerfið láni þeim sem hafa minnstar tekjur, opinberir aðilar sjái um þann hóp í samfélaginu, en bankar og fjármálafyrirtæki láni hinum sem hafa sæmileg fjárráð. Allt hljómar þetta ágætlega þangað til dæmið er gert upp og reiknað út.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að lánsfjármagnið sem opinbera kerfið yrði að afla yrði dýrara. Ótraustari veð væru að baki því fjármagni en þeim peningum sem bankarnir öfluðu sjálfir. Þeir væru með allt sitt pottþétt en opinberu aðilarnir yrðu að þjónusta þau svæði þar sem veðin væru ótraust. Bankarnir töluðu um virk og óvirk veð. Þeir aðilar sem tala svona vilja að opinbera kerfið hafi óvirku veðin, það sjái um þau, og eigi síðan að fara út á fjármálamarkað og afla lánsfjármagns til að setja inn á þessi svæði. Ef við ætlum að halda okkur við þá formúlu, þá hugsun að Íbúðalánasjóður sé sjálfbær, hann fái ekki utanaðkomandi peninga, yrði niðurstaðan sú að lánin sem yrðu veitt til þeirra svæða þar sem veðin eru óvirk — þá erum við fyrst og fremst að tala um landsbyggðina — yrðu dýrari. Þar yrðu vextirnir hærri. Viljum við þetta? Nei. Þetta bæri vott um mjög slæmt bisnessvit. En þetta vilja bankarnir að sjálfsögðu. Bankarnir og fjármálafyrirtækin vilja þetta að sjálfsögðu, og það eitt er alveg víst að þau eru ekkert hætt.

Þetta mun nú verða tekið til umfjöllunar í félagsmálanefnd og ég vil alveg í blálokin enn taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að við hröðum afgreiðslu þessa máls og tökum viðmiðunarupphæðirnar til endurskoðunar. Þær verða að eiga sér samsvörun í veruleikanum. Hvað kostar húsnæðið í raunveruleikanum? Ef við svörum ekki því kalli, ef við horfum ekki á þær viðmiðanir er hinn kosturinn sá að fólki verði einfaldlega ýtt inn í bankakerfið, inn í gin ljónsins.



[11:23]
Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna framkomnu frumvarpi sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir, um hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% af kaupverði íbúða. Ég tel að þetta sé eðlilegt og jákvætt framhald þeirrar breytingar sem var gerð árið 1999 þegar viðbótarlán komu í stað þess félagslega íbúðakerfis sem þá hafði verið við lýði um nokkurt skeið. Þetta auðveldar auðvitað jafnframt fólki að kaupa eignir og hvetur almenning til þess að kaupa og eiga íbúðarhúsnæði sitt fremur en að leigja. Ég tel það vera góða stefnu og jákvæða þó að vissulega sé einnig nauðsynlegt að hafa til staðar virkt leigukerfi á íbúðarhúsnæði.

Það má segja að til margra ára hafi ég ekki verið neinn sérstakur stuðningsmaður Íbúðalánasjóðs. Ég taldi, og tel reyndar enn, að ýmis verkefni mætti færa yfir í aðrar fjármálastofnanir. Engu að síður nýttu bankarnir ekki vel það tækifæri sem þeir fengu í lok sumars þegar þeir hófu að veita íbúðalán með sambærilegum eða jafnvel betri kjörum en Íbúðalánasjóður hafði veitt. Ég er þeirrar skoðunar reyndar að bankarnir hafi með ákveðnum aðgerðum sínum gert það að verkum að Íbúðalánasjóður mun verða hér fastur í sessi til margra ára.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að sú ákvörðun bankanna að bjóða mismunandi kjör eftir búsetu hafi verið algjörlega óviðunandi ákvörðun. Hún leiddi til þess að ekki er annað mögulegt fyrir Íbúðalánasjóð en að halda sínu striki og vera áfram leiðandi á sviði íbúðalána í landinu. Það er ekkert annað en eðlilegt að miða lánshlutfall við verð á húsnæði og þar af leiðandi yrðu lán lægri á landsbyggðinni en þau eru á höfuðborgarsvæðinu vegna lægra verðs en það að mismuna landsbyggðinni með lægra lánshlutfalli var hins vegar óviðunandi.

Ég vil reyndar taka það skýrt fram að ég fagna mjög innkomu bankanna á þennan markað. Ég tel hana sérlega jákvæða. Bankarnir hafa nú orðið raunverulegur valkostur fyrir íbúðakaupendur sem eru í lánshugleiðingum og samkeppni á þessu sviði hefur auðvitað eins og á öðrum sviðum orðið til góðs og lækkað vaxtagreiðslur fólksins í landinu. Samkeppnin á reyndar eftir að lækka þær enn frekar því að hún á eftir að færast yfir á önnur svið eins og við höfum þegar séð dæmi um með auglýsingum um lægri lán hjá bílafyrirtækjum og bílasölum. Þrátt fyrir þessa jákvæðu innkomu gerðu bankarnir þau grundvallarmistök að bjóða mismunandi lánshlutfall eftir byggðarlögum. Það er ástæðan fyrir því að ég styð þetta frumvarp heils hugar og ég tel það mikla bót fyrir íbúðamarkaðinn í landinu. Ég tek undir það sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„ Ljóst er að atburðarásin á lánamarkaði undanfarna mánuði sýnir með skýrum hætti að tilvist og lánaframboð Íbúðalánasjóðs felur í sér nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum.“

Ég vil að þetta komi skýrt fram vegna þess að í þessum stól eru menn farnir að túlka samskipti stjórnarflokkanna, aðrir en þeir sem að þeim koma. Ég held að það sé mikilvægt að þetta komi fram.

Í frumvarpinu eru þó nokkur atriði sem mér finnst rétt að nefna lítillega. Eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á munu viðbótarlán sem veitt hafa verið með samþykki sveitarfélaganna falla niður við þessa breytingu. Sveitarfélögin hætta þar með greiðslu í varasjóð viðbótarlána en þær greiðslur hafa verið um 300 millj. kr. á ári. Þetta er mjög jákvætt skref fyrir sveitarfélögin í landinu og mikilvægt innlegg í umræður um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þrátt fyrir að upphæðin sé ekki stór er þetta engu að síður gjaldaliður hjá sveitarfélögunum og skref í þá átt að lækka þann kostnað sem þau hafa af skylduverkefnum sínum.

Sjóðurinn er nú um 1.100 millj. kr. og mun áfram verða til og standa til tryggingar þeim viðbótarlánum sem veitt hafa verið frá árinu 1999. Fram til þessa hafa viðbótarlán að langmestu leyti verið veitt út á minni eignir, út á tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir. Það er eðlilegt. Þar sem viðbótarlánin hafa verið til tekjuminni og eignalítilla einstaklinga eru þau veitt fremur út á minni eignir en hinar stærri.

Það segir sig líka sjálft að velta slíkra íbúða á markaði er hraðari en hinna stærri. Það eru örari skipti eigenda á litlum íbúðum en hinum stærri sem fólk velur sér oft sem framtíðarhúsnæði. Ég held að ekki sé óeðlilegt að telja að á næstu fimm árum muni verða eigendaskipti að stórum hluta þeirra eigna sem nú hafa áhvílandi viðbótarlán. Áður þurftu sveitarfélögin að yfirfara umsóknir og samþykkja breytingar á skuldurum í tilfellum þegar eigendaskipti áttu sér stað en eftir þessa breytingu verður það Íbúðalánasjóður einn sem veitir samþykki fyrir nýjum greiðanda að slíkum lánum. Um leið mun ábyrgð sveitarfélaganna falla niður og þá hlutverk þeirra sem varasjóðs viðbótarlána sem ábyrgðaraðila ef illa fer.

Frá árinu 1999 þegar sjóðurinn var settur á fót hafa greiðslur úr honum verið tiltölulega litlar sem betur fer. Ef áfram heldur sem horfir, þ.e. ef ástand á íbúðamarkaði verður gott áfram, verð fer hækkandi og ör skipti verða á eigendum, má einnig reikna með því að útgreiðslur úr sjóðnum verði tiltölulega litlar á næstu árum. Mér er kunnugt um að framlög í þennan sjóð voru óafturkræf samkvæmt reglum um hann og lögum en mér finnst þó ástæða til að ræða hvort ekki væri rétt að skoða að sveitarfélögunum yrðu greidd til baka þau framlög sem þau hafa sett í sjóðinn á síðustu fimm árum. Þar er um að ræða umtalsverðar upphæðir sem væri í sjálfu sér ekki vanþörf á fyrir sveitarfélögin að fá inn í rekstur sinn. Að minnsta kosti held ég að hægt væri að skoða þann möguleika að þegar eigendaskipti hafa átt sér stað á umtalsverðum fjölda þessara lána eða ákveðinni upphæð og ábyrgðin hafi þar með færst af varasjóði viðbótarlána og yfir til Íbúðalánasjóðs séu forsendur fyrir því að skoðað verði hvort ekki sé hægt að endurgreiða sveitarfélögunum úr þessum sjóði í sama hlutfalli og þau hafa greitt inn í hann á síðustu fimm árum.

Hæstv. forseti. Að því gefnu að sveitarfélögin hafi greitt 300 millj. kr. í sjóðinn á árinu 2003, sem var 5% af heildarfjárhæð þeirra viðbótarlána sem voru veitt þá, fáum við út að fjárhæð viðbótarlána á árinu 2003 hafi verið um 6 milljarðar kr. Það er rétt, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á áðan, að viðbótarlánin voru með lántökugjald sem var 0,5% í stað 1% sem er af venjulegum lánum sjóðsins og af þeim var ekki greitt stimpilgjald. Það þýðir með öðrum orðum að tekjur Íbúðalánasjóðs vegna hækkaðra lántökugjalda, að því gefnu að heildarupphæð lána verði með sama hætti og áður, munu hækka um 30 millj. kr. á ári og á sama hátt munu tekjur ríkissjóðs vegna stimpilgjalda hækka um 90 millj. kr. á ári.

Fyrir nokkrum vikum var til umræðu í þinginu nauðsyn þess að lækka kostnað fólksins í landinu vegna lántöku- og stimpilgjalda. Ég vil í tilefni af þeirri umræðu og málinu hér ítreka þá skoðun mína sem fram kom þá, að rétt sé að skoða hvort ekki sé mögulegt og ekki sé að skapast færi til þess að lækka þann kostnað fólksins í landinu með því að lækka eða fella niður stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa.

Vegna orða hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að stöðugt dragi úr samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs og reyndar einnig orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar finnst mér rétt að geta þess að mikilvægt sé að Íbúðalánasjóður þræði þann gullna meðalveg í samkeppni sem er eðlilegur hjá ríkisstofnun sem er í samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði. Íbúðalánasjóður er í yfirburðastöðu á íbúðamarkaði og hann þarf ekki og hann á ekki að fara í auglýsingaherferðir eða markaðsaðgerðir til að reyna að drepa niður samkeppni heldur fremur að vinna með þeim hætti að fleiri fyrirtæki geti einnig starfað á þeim markaði.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum nefna það að allar breytingar í þessa átt á lánakerfi húsnæðismarkaðarins setja markaðinn í biðstöðu þar til niðurstaða hefur fengist úr því máli sem verið er að ræða og þær breytingar sem verið er að leggja til eru um garð gengnar. Það er nokkuð víst að sala á íbúðarhúsnæði, sér í lagi úti á landi þar sem bankarnir hafa ekki verið að bjóða upp á 80% lánshlutfall, að þeir markaðir fara í biðstöðu þar til afgreiðsla hefur farið fram á frumvarpinu.

Íbúðamarkaðurinn hefur verið nokkuð sérstakur á þessu ári. Hann hefur einkennst af miklum breytingum á sviði lána en hann hefur jafnframt verið stöðugt undir þeirri pressu og umræðu að miklar breytingar séu fram undan á lánsmarkaðnum. Mér er kunnugt um að biðstaða hafi verið víða um land á sölu íbúðarhúsnæðis um nokkurra mánaða skeið í vor vegna fyrirhugaðra breytinga og svo verður aftur þar til frumvarp þetta verður afgreitt frá þinginu.

Það er gert ráð fyrir að lögin taki gildi frá 1. janúar 2005. Vissulega er það ekki langur tími en mér finnst ástæða til þess að nefna þetta við þær nefndir sem fá frumvarpið til umfjöllunar að þær vinni hratt og dragi ekki að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi sem allra fyrst þannig að sú starfsstétt sem hefur atvinnu sína af því að selja húsnæði, sér í lagi úti á landsbyggðinni, þurfi ekki að bíða aðgerðalaus þar til frumvarpið fær afgreiðslu þingsins.



[11:35]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að fella eigi niður stimpilgjöldin, einkum af lánum í fasteignaviðskiptum. Við í Samfylkingunni höfum margítrekað þá stefnu okkar og lagt fram um það þingmál að það verði í forgangi fram yfir margt annað sem menn vilja sjá í lækkun skatta.

Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki að lækkun stimpilgjalda vegna íbúðarhúsnæðis eða lækkun stimpilgjalda almennt eigi að vera í forgangi umfram það að fara í almenna tekjuskattslækkun um 4%, sem helst gagnast þeim sem mest hafa fyrir, hvort við eigum ekki að setja þetta í forgang og sammælast um það.

Ég vil einnig spyrja hv. þm. varðandi þá hámarksfjárhæð sem hæstv. ráðherra kynnti, 11,5 millj. kr. nú og 13 millj. kr. um áramót, hvort hann geti verið sammála mér um það að hér er of varlega farið í sakirnar og að ganga eigi lengra í að hækka hámarksfjárhæðina til þess að Íbúðalánasjóður verði samkeppnishæfur á við bankana sem eru með ekkert þak á hámarksfjárhæðinni, og hvort hann geti ekki verið mér sammála um það að þetta muni engu breyta fyrir þensluna á markaði eða verðbólguna vegna þess að þetta muni einungis flytja viðskiptin í meira mæli yfir til bankastofnana.

Hv. þm. nefndi það um daginn í umræðum um húsnæðismál að hann væri sammála skoðun minni að auka ætti sveigjanleika varðandi veðröð annarra lána þannig að Íbúðalánasjóður mundi heimila að lántakendur geti skuldbreytt óhagstæð lán svo að það væri meiri sveigjanleiki í veðröðinni. Hv. þm. tók undir það um daginn og ég vil spyrja hann hvort hann hafi eitthvað fylgt því máli eftir í þingflokki sínum þannig að það verði meiri sveigjanleiki sem eykur enn á samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.



[11:37]
Böðvar Jónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess sérstaklega að ég var þeirrar skoðunar að endurskoða beri og reynt verði að finna því farveg að lækka kostnað fólksins í landinu varðandi stimpilgjöld og lántökugjöld. Ég er hins vegar ekki sammála því að það sé í forgangi umfram það að lækka tekjuskattinn. Það er mál sem við eigum að ganga í númer eitt, að lækka tekjuskatt, og ég vona að fljótlega komi fram frumvarp um með hvaða hætti það verður gert á þessu kjörtímabili.

Um það hvort ekki sé eðlilegt að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs, má vel vera að ástæða sé til þess að fara með þakið hærra en 13 millj. Þó er nauðsynlegt að fara varlega í sakirnar og ég ítreka þau orð sem ég sagði áðan að Íbúðalánasjóður er með yfirburðastöðu á íbúðamarkaði. Hann þarf auðvitað að gæta hagsmuna sinna en hann á að fara þann gullna meðalveg sem er eðlilegt að ríkisfyrirtæki í samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði fari. Þess vegna er nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður skoði það og fari rólega í að hækka hámarkslán.

Ég get ítrekað það sem ég sagði um daginn að ég er sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að Íbúðalánasjóður á að veita veðleyfi þegar einstaklingar og aðilar óska eftir því að fá að skuldbreyta öðrum lánum en Íbúðalánasjóði. Ástæðan fyrir því er einmitt sú sama, að Íbúðalánasjóður á ekki að setja svo stíf skilyrði að fólk geti ekki skuldbreytt lánum sínum með eðlilegum hætti. Það skiptir ekki máli hvort Íbúðalánasjóður er á 1., 2. eða 3. veðrétti ef hann er innan þeirra eðlilegu veðmarka sem hann setur sér venjulega um veðhlutfall af hámarksverði húsnæðis.



[11:39]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því síðasta sem fram kom í máli hv. þm. varðandi veðmörkin og að auka eigi heimildir til þess að veita veðleyfi til þess að skuldbreyta öðrum lánum. Það væri ágætt að fá það fram í umræðunni á eftir hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað skoðað það mál nánar, sem ég tel mjög mikilvægt að verði gengið í.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með það sem hv. þm. nefnir varðandi forgang í skattalækkunum. Að lækka stimpilgjöldin mundi gagnast öllum íbúðarkaupendum. Ef þau yrðu felld niður mundi það spara venjulegum íbúðarkaupanda um 200–300 þús. kr. Það mundi gagnast atvinnulífinu, ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og það mundi gagnast t.d. landsbyggðinni sem hv. þm. ber fyrir brjósti mjög vel.

En hv. þm. vill frekar lækka tekjuskattinn með þeim hætti sem ríkisstjórnin stefnir að sem skilar sér í vasa þeirra sem mest hafa fyrir. Það hefur verið sýnt fram á það með margvíslegum hætti og ég lýsi vonbrigðum mínum með þá forgangsröðun sem hv. þm. setur fram um þennan þátt málsins.

Varðandi hámarksfjárhæðina þá var svar hv. þm. nokkuð óljóst og loðið um að það ætti að hækka hana, passa yrði upp á að ganga ekki of langt í því efni þar sem þetta væri ríkisstofnun, væntanlega til þess að bankarnir hefðu meira svigrúm. En það er alveg ljóst, af því að hv. þm. nefndi landsbyggðina í þessu sambandi og mikilvægi hlutverks Íbúðalánasjóðs fyrir landsbyggðina, að ef ekki verður gengið lengra í þessu efni, að hækka hámarksfjárhæðina, getur það gengið að Íbúðalánasjóði dauðum vegna þess að það er auðvitað það sem bankarnir vilja. Hlutverk Íbúðalánasjóðs er það mikilvægt á húsnæðismarkaðnum að við verðum að standa dyggan vörð um að hann geti með eðlilegum hætti gegnt hlutverki sínu. Liður í því er að ganga nú þegar lengra í að hækka hámarksfjárhæðina en hæstv. ráðherra áformar.



[11:41]
Böðvar Jónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að niðurfelling eða lækkun stimpilgjalda mun gagnast öllum íbúðarkaupendum en lækkun tekjuskattshlutfallsins gagnast mun fleirum. Þess vegna er það skoðun mín að lækkun á tekjuskattsstofninum eigi að ganga fyrir í lækkunum á hlutföllum í skattamálum. Það er mjög mikilvægt að það sé gert númer eitt, eins og fram hefur komið, og ýmsar aðrar skattalækkanir verði skoðaðar í framhaldi af því.

Hvað varðar hækkun hámarkslána ítreka ég það sem ég hef áður sagt að ég tel Íbúðalánasjóð vera í yfirburðastöðu á þessum markaði og hann verður að gæta hófs í því að berja ekki niður samkeppni. Þess vegna sagði ég að mér finnst að fara þurfi varlega í að hækka hámarksfjárhæðina og finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að miðað sé við 13 milljónir í upphafi árs. Vissulega hlýtur það þó að verða skoðað af ráðherra, ráðuneytismönnum og fulltrúum í Íbúðalánasjóði hvort ekki sé eðlilegt að hún fylgi svo eðlilegri þróun og hækkun á íbúðamarkaði til frambúðar.



[11:43]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og hefur komið fram í þessum umræðum ríkir breið samstaða hjá þeim sem hafa tjáð sig um þetta ágæta frumvarp og menn telja almennt að það sé til mikilla bóta. Það hefur líka komið fram, sem ég vil nefna sérstaklega, að stjórnarandstaðan hefur látið liggja að því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji Íbúðalánasjóð út af markaði, hefur vænt hann um það, en það er alveg ljóst að svo er alls ekki miðað við ræðuna sem hv. þm. Böðvar Jónsson hélt áðan. Það sem ég heyrði af ræðu hans var að hann fullyrti að Íbúðalánasjóður mundi verða fastur í sessi lengi, um nokkra framtíð eða í einhver ár, og því er alveg ljóst að þessi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að Íbúðalánasjóður hafi mjög miklu hlutverki að gegna.

Það hefur líka verið breið samstaða milli allra stjórnmálaflokka á Íslandi um að standa vörð um það meginmarkmið að íbúarnir geti búið við öryggi í húsnæðismálum. Að þeir geti á góðum eða viðráðanlegum kjörum eignast eigin húsnæði eða hafi ella möguleika á að leigja húsnæði einnig á góðum eða viðráðanlegum kjörum. Þetta hefur verið hin almenna pólitíska sýn og við viljum viðhalda henni.

Það kom fram í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra að leigumarkaðurinn stendur frekar vel um þessar mundir. Gallup-könnun sýndi að fólk hefur almennt frekar góðan aðgang að leiguhúsnæði og húsnæði er gott. Það má segja að búið sé að taka út af markaðnum lélegar íbúðir og á árunum 2002–2004 hefur Íbúðalánasjóður lánað til um 2.000 leiguíbúða þannig að það er veruleg innspýting og alveg ljóst að leiguíbúðaverð er í jafnvægi.

Það kom einnig fram að starfandi nefndir hafa verið að skoða íbúðalánamál og markaðinn og að leitað hefur verið leiða til að lækka byggingarkostnað. Einnig stendur til að kanna hvort endurskoða eigi ákvæði byggingarlaga og/eða byggingarreglugerðar með það fyrir augum að auka svigrúm varðandi lágmarksstærðir herbergja og geymslna. Af þessu tilefni vil ég taka sérstaklega fram, virðulegur forseti, að þetta er einmitt mál sem hefur oft komið upp í umræðunni. Er hægt að lækka byggingarkostnað, sérstaklega á smáíbúðum, með því að breyta þeim kvöðum sem gerðar eru til byggingaraðila, verktaka og fleiri um hvernig þessar íbúðir eiga að líta út? Þetta hefur einnig verið m.a. til skoðunar í umhverfisráðuneytinu og þar stendur núna yfir skoðun á breytingum á skipulags- og byggingarlögum í tveimur nefndum. Haldin var ráðstefna fyrir stuttu til að fá fram hugmyndir um hvernig væri hægt að breyta reglugerð, hugsanlega lögum til að lækka byggingarkostnaðinn og þar er verið að skoða eftirfarandi atriði: Er hægt að minnka kröfur varðandi geymslur? Er hægt að minnka kröfur varðandi sérþvottahús þannig að fólk geti til dæmis tekið þvottavélar sínar inn á baðherbergi? Er hægt að breyta fyrirkomulagi íbúða með sérhópa í huga, svo sem námsmenn, þannig að kröfurnar verði ekki eins miklar og þær eru í dag?

Mér finnst þetta mjög athyglisverð umræða og langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, ef hann hefur eitthvað skoðað hvernig málin standa, hvort eitthvað nýtt hafi komið í ljós. Það gæti verið mjög ákjósanlegt fyrir allan íbúðamarkaðinn ef hægt væri að auka sveigjanleika varðandi kröfur í byggingum þannig að byggingarkostnaður lækkaði. Er honum kunnugt um að svo sé?

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að 90% lánin voru eitt af aðaláherslumálum okkar framsóknarmanna í síðustu alþingiskosningum. Við fundum að afar æskilegt væri að koma málinu í framkvæmd til að auka kjarabætur fólks. Við lögðum mikið upp úr að koma málinu á framfæri og við erum núna að koma því í höfn. Við erum mjög ánægð með þetta mál og ég er einnig mjög ánægð með hversu jákvæður tónn er í hinum stjórnmálaflokkunum út í þetta. Hæstv. félagsmálaráðherra setti vinnuna við frumvarpið í gang og að því hefur verið unnið í samræmi við hagsmunaaðila. Slíkt er afar gott til þess að málið verði unnið eins heildstætt og hægt er.

Eins og ýmsir hafa gert tel ég ástæðu til að rifja upp það sem átti sér stað í sumar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór ágætlega yfir það en þá fór í gang mikil umræða um húsnæðismarkaðinn og komu fram mikil viðbrögð bankanna. Þau viðbrögð komu í kjölfar breytinga á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs þar sem sú breyting var hvatinn til að bankarnir fóru skyndilega að keppast við að lækka vexti og bjóða lán til íbúðarkaupenda. Þetta var afar sérkennileg atburðarás. Að mörgu leyti er hún mjög jákvæð en bankarnir hafa ekki hreyft sig neitt á þessum markaði svo heitið getur fyrr en í sumar.

En það er önnur forsenda fyrir því að bankarnir gátu hreyft sig svona mikið. Það var bæði þessi breyting á skuldabréfaútgáfunni en það var líka einkavæðing bankanna. Ef hún hefði ekki komið til á sínum tíma er alveg ljóst að þeir hefðu ekki brugðist við eins og þeir gerðu í sumar. Þetta eru því samverkandi áhrif.

Virðulegi forseti. Ég vil líka gera að umtalsefni hvað þetta er mikil kjarabót fyrir neytendur eða íbúðarkaupendur. Tökum tvö dæmi um hjón eða sambúðarfólk sem ætlar að kaupa sér íbúð og gamla kerfið er skoðað og síðan er það borið saman við nýja kerfið. Ef þessi hjón þurfa t.d. á 13 millj. kr. láni að halda til þess að kaupa sér þokkalega íbúð þá er ljóst að í gamla kerfinu er hægt að hugsa sér að 9,2 millj. hefðu verið teknar í fasteignaverðbréfi með 5,1% vöxtum og tekið yrði viðbótarlán upp á 3,8 millj. með 5,3% vöxtum, samtals 90% lán til íbúðarkaupa. Ef við tökum annað dæmi til samanburðar í nýja kerfinu um sama fólk sem tekur 90% lán upp á 13 millj. með 4,3% vöxtum þá er ljóst að í nýja kerfinu borgar þetta sama fólk 87 þús. kr. lægra í afborganir og vexti á fyrsta ári en í gamla kerfinu. Á lánstímanum borgar það tæpum 3,5 millj. kr. lægri afborganir og vexti. Hér er því óumdeilanlega um geysilega mikla kjarabót að ræða fyrir almenning, tæplega 90 þús. kr. á fyrsta ári og rétt undir 3,5 millj. kr. á lánstímanum.

Mig langar líka að draga fram að auk þess að vera mjög hagstæð fyrir íbúðarkaupendur þá léttir þessi breyting líka mjög mikið á sveitarfélögunum og er því mjög jákvæð fyrir þau. Það helgast af því að viðbótarlánin falla niður þannig að sveitarfélögin losna við að greiða í varasjóð viðbótarlána en á síðasta ári námu þessi framlög rúmlega 300 millj. kr. Samkvæmt 6. gr. getur varasjóður húsnæðismála aukið tækifærin til að greiða sveitarfélögunum tap vegna sölu á félagslegum íbúðum á almennum markaði og svo næst að sjálfsögðu fram vinnusparnaður vegna þess að sveitarfélögin þurfa ekki að sýsla með þessi viðbótarlán í framtíðinni. Þetta léttir um a.m.k. 300 millj. kr. af sveitarfélögunum og það kom fram í umræðunum að það væri kannski ekkert voðalega mikið en þetta er mjög há upphæð, þetta eru 300 millj. kr. Þetta er því mjög jákvætt fyrir sveitarfélögin sem hafa borið sig illa upp á síðkastið vegna tekjustofna sinna. Þó ber að hafa í huga að hæstv. félagsmálaráðherra og félagsmálaráðuneytið munu eiga viðræður við sveitarfélögin í kjölfar þessa um hvernig þau koma að húsnæðismálum. Miðað við tóninn á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldinn var fyrr í vikunni virðast sveitarfélögin ekkert vera að flýta þeim viðræðum.

Það hefur komið fram í umræðunni, virðulegi forseti, að við viljum almennt verja Íbúðalánasjóð. Hann hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki vegna þess jafnréttis sem hann hefur boðið upp á. Fólk getur fengið lán óháð búsetu og óháð fjárhagslegri forsögu. En bankarnir einbeita sér að svokölluðum virkum markaðssvæðum og menn vita ekki alveg hvernig þeir hafa hugsað sér að koma til móts við landsbyggðina. Þeir hafa ekki gert það ekki á sama hátt og Íbúðalánasjóður. Bankarnir hafa heldur ekki sýnt að þeir muni koma með sams konar félagsleg úrræði og Íbúðalánasjóður gerir ef fólk lendir í þröng, en þá hefur Íbúðalánasjóður fryst lánin í allt að 3 ár, lengt í lánum og skuldabreytt vanskilum. Það er mörgum til efs að bankarnir munu eitthvað skoða það að koma til móts við þá sem lenda í vandræðum. Íbúðalánasjóður hefur þessa félagslegu sýn sem bankarnir hafa ekki sýnt burði til að feta auk þess að Íbúðalánasjóður sinnir líka landsbyggðinni. En það er ekki þar með sagt að þessi innkoma bankanna eigi ekki rétt á sér. Íbúðalánasjóður hefur borið ægishjálm yfir aðra á þessum markaði en það er líka vegna þess að hann hefur sinnt honum, en það hafa aðrir ekki gert. Það má vel hugsa sér að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs minnki eitthvað. Ef ég man rétt er hún um eða yfir 80% þannig að það er svo sem ekkert óeðlilegt að aðrir komi inn á þennan markað með góð kjör. Á sama tíma viljum við halda þessari góðu stöðu gagnvart landsbyggðinni og gagnvart þeim sem hugsanlega lenda í vandræðum með afborganir og þurfa úrræði. Við viljum líka sjá hvort bankarnir hafi þol í þetta, hvort þeir hafi úthald. Enn sem komið er er því þörf á Íbúðalánasjóði og eins og fram hefur komið í umræðunni þá vilja fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem hér hafa talað almennt verja Íbúðalánasjóðinn.

Ég tel að þetta frumvarp sé afar gott og fagna því að þingmenn segjast vilja vinna tiltölulega hratt að þessu máli í félagsmálanefndinni og við munum reyna að gera það þannig að hið nýja fyrirkomulag taki gildi frá og með næstu áramótum. Þetta er afar gott mál og til mikilla hagsbóta fyrir neytendur. Á sama tíma skil ég mjög vel að þeir sem vilja verja Íbúðalánasjóð ræða mikið um hve há þessi hámarkslán eigi að vera, hversu hátt þetta þak á að vera vegna þess að við viljum ekki að öll þessi lán færist beint yfir í bankakerfið að öllu óbreyttu.



[11:57]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var mikilvægt að fá innlegg hv. formanns félagsmálanefndar um þetta mál en þangað fer málið til meðferðar. Hv. þm. nefndi að flýta afgreiðslu málsins og við höfum tekið undir það í ræðustól. Ég vil heita formanni nefndarinnar öllum stuðningi í því máli en spyr hv. þm. hvort við getum ekki sammælst um að reyna að flýta málinu það mikið að það taki gildi 1. desember nk. Ég held að það liggi mikið á. Ég held að bankarnir séu á hraðferð að taka þennan markað meira og minna til sín og við verðum bara að efla samkeppnisstöðu sjóðsins og ein leið í því væri t.d. að flýta gildistöku frumvarpsins.

Ég vil líka spyrja hv. þm. hvort hún sé ekki tilbúin að skoða það sem ég nefndi í máli mínu áðan, þ.e. að skoða það að lækka lántökugjöldin hjá Íbúðalánasjóði. Þar ber ég fyrir mig t.d. viðbótarlánunum sem nú á að fella niður, þau bera einungis 0,5% lántökugjald en munu ef ekki verður breyting á bera 1% lántökugjald. Viðbótarlánin bera heldur engin stimpilgjöld nú en munu bera stimpilgjöld eftir þessa breytingu, þ.e. þeir lántakendur sem núna falla innan tekjumarkanna sem veita rétt til viðbótarlána. Ég held að mikilvægt væri fyrir framkvæmd málsins að við gætum náð saman um að lækka lántökugjaldið.

Ég vil líka spyrja hv. þm. af því að hún tjáði sig ekki um hámarksfjárhæðina hvort hún sé ekki sammála mér í því að hér sé of skammt gengið að hámarksfjárhæðin sé eingöngu 11,5 millj. nú og eigi að fara í 13 millj. um nk. áramót. Ég held að það sé afar mikilvægt að breið samstaða náist um að fara hærra með þessar fjárhæðir til þess að Íbúðalánasjóður verði samkeppnishæfur við bankana, ella mun enn aukast streymið inn til bankanna varðandi útlánin. Ég hef nefnt það hér að við erum ekki að auka þensluna með því að fara hærra varðandi hámarksfjárhæðir heldur erum við einungis að treysta stöðu Íbúðalánasjóðs og að viðskiptin flytjist ekki eins og nú stefnir inn til bankanna.



[11:59]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi hvort flýta eigi afgreiðslu málsins þannig að hið nýja fyrirkomulag taki gildi 1. desember þá er eðlilegt að það verði rætt við umfjöllun málsins í félagsmálanefnd. Við munum að sjálfsögðu senda þetta mál út til umsagnar. En svona ber málið að til stjórnarflokkanna og inn í þingið og sjálfsagt hefur hæstv. félagsmálaráðherra skoðað alla fleti þess. Þetta er sem sagt niðurstaða í þessu frumvarpi eins og það lítur út í augnablikinu og við getum ekkert kveðið upp úr með það hér og nú hvort einhverjar breytingar verði gerðar á því.

Ég get heldur ekki kveðið upp úr með hvort við munum gera einhverjar tillögur um breytingar á lántökugjöldunum á þessari stundu. Við hljótum að skoða það líka í félagsmálanefnd eins og allar greinar þessa máls.

Varðandi hámarksfjárhæðina og spurninguna um hvort þetta gengur of skammt, hvort hún ætti að vera hærri þá er það mat hæstv. félagsmálaráðherra sem fer með þennan málaflokk að sú upphæð sem nefnd er í frumvarpinu sé ásættanleg, hámarkið 13 millj. og nú þegar er búið að breyta reglugerð þannig að það er 11,5 millj. sem er hámarksfjárhæðin. Það kom líka mjög skýrt fram bæði hjá hæstv. félagsmálaráðherra og öðrum sem hér hafa talað að það er æskilegt og nauðsynlegt að þessi upphæð þróist í takt við það sem er að gerast á húsnæðismarkaðnum. Ráðherrann hefur möguleika í reglugerð að breyta henni og að sjálfsögðu mun hann eins og eðlilegt er fylgjast með þróun á húsnæðismarkaði þannig að það er ekki útilokað að gerðar verði breytingar á henni í reglugerðum til hækkunar eftir því hvernig mál þróast áfram.



[12:02]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þessa síðasta, að eðlilegt sé að skoða þetta með tilliti til þróunar á markaðnum: Hver er þróunin á markaðnum? Verð á þriggja herbergja íbúð er um 13 millj. kr. og það liggur fyrir að lán Íbúðalánasjóðs nú duga ekki fyrir nema um 50% af meðalverði íbúðar. Bankarnir hafa ekki þak á hámarkslánsfjárhæðum sínum. Fólk gæti þannig fengið 20–30 millj. kr. lánaðar þar á meðan það fær einungis 11,5 millj. kr. úr sjóðnum. Ef þetta á að þróast í takt við það sem er í raunveruleikanum, það sem er að gerast hjá bönkunum þá á auðvitað strax að fara hærra. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra tjái sig um það á eftir hvort hann er ekki tilbúinn til að svo verði.

Mér finnst reyndar ófært, miðað við stöðuna, að það skuli allt í reglugerð, breytingar á hámarksfjárhæðinni. Ég vil að við höfum skoðun á því í þinginu hver sú hámarksfjárhæð á að vera og þá komi skýrt fram í nefndaráliti ef menn telja rétt að hafa þetta áfram í reglugerðum.

Varðandi gildistökuna þá munum við skoða það atriði. Ég heyri að hv. þm. vill að við reynum að flýta afgreiðslu málsins. Við höfum afgreitt stærri mál en þetta á þeim 3–4 vikum, sem við höfum til stefnu. Ég heiti stuðningi við að flýta gildistökunni. Það munar um hverja einustu viku sem Íbúðalánasjóður fær auknar heimildir. Ef ég skil hv. þm. rétt þá er hún opin fyrir því að skoða lántökugjaldið, að við reynum að sammælast um lækkun á því. Við munum ræða þetta áfram í félagsmálanefnd. Hv. þm. útilokar ekkert af því sem ég hef sagt og við munum reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu við afgreiðslu málsins í félagsmálanefnd.



[12:04]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við munum skoða þetta mál vel í nefndinni. En þótt ég tali um að við getum skoðað málin eins og eðlilegt er þá gef ég ekki út nein loforð um breytingar á þessu. Ég bið hv. þm. um að oftúlka ekki orð mín.

Varðandi það hvort hámarksfjárhæðin er rétt eða ekki þá er þetta a.m.k. mat hæstv. ráðherra sem leggur málið fram. Hann hefur auðvitað öll úrræði til að skoða þá upphæð faglega. Það má líka benda á, eins og gert var af fulltrúa Sjálfstæðisflokksins áðan, hv. þm. Böðvari Jónssyni, að þetta er nokkuð vandmeðfarið, að verja Íbúðalánasjóð þannig að hann haldi vissri stöðu gagnvart íbúðakaupendum. En það er ekki eðlilegt, þegar aðrir koma inn á markaðinn, að hann útiloki aðra frá markaðnum. Þetta er hinn gullni meðalvegur sem menn þurfa að feta.

Varðandi það sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, um að við ættum að hafa skoðun á því hvort fjárhæðin væri í reglugerð eða ekki, þá bendi ég á að eins og fyrirkomulagið er núna hefur ráðherra svigrúm til að breyta fjárhæð í reglugerð. Ég átta mig ekki á því hvort þingmaðurinn vildi meina að við ættum að setja það í lög en með því væri svigrúmið miklu minna og það þyrfti að fara í gegn lagafrumvarp í hvert einasta skipti sem hæstv. félagsmálaráðherra vildi hreyfa þessari tölu. Ég vara við því og tel að með því yrði kerfið miklu staðnaðra. Ég held að margt mæli með því að hafa fyrirkomulagið eins og það er núna, að hafa þessa upphæð í reglugerð.



[12:06]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu felst að lánshlutfall almennra íbúðalána mun hækka í allt að 90% af verðgildi eignar að ákveðnu hámarki.

Hér verður lögfest, ef allt gengur að óskum, eitt af stærri kosningaloforðum á síðari árum, vil ég meina, sem Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir í aðdraganda síðustu kosninga. Á flestum þeim fundum sem frambjóðendur flokksins héldu kom fram að stefnan væri að hækka lánshlutfall almennra íbúðalána í allt að 90% af verðgildi eignar, að ákveðnu hámarki. Auk þess, og ekki síst, yrði húsnæðislánakerfið tekið til endurskoðunar með það að markmiði að lækka vexti og greiðslubyrði íslenskra heimila af húsnæðislánum.

Hæstv. félagsmálaráðherra Árni Magnússon hefur fylgt þessu stefnumáli myndarlega úr hlaði. Strax að afloknum síðustu kosningum setti hann af stað mikla og vandaða vinnu við endurskipulagningu á fyrirkomulagi húsnæðislána, sem afgreidd var hér á síðasta þingi og við þekkjum sérstaklega vel sem þá sátum í félagsmálanefnd þingsins. Sú kerfisbreyting sem þá átti sér stað, að afnema húsbréfakerfið og taka upp íbúðalánakerfi, var forsendan fyrir því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það var forsendan fyrir 90% húsnæðislánunum.

Við horfum á þá þróun sem hefur átt sér stað síðan kerfisbreytingin var lögfest, að vextir hafa nú lækkað úr 5,1% í 4,3%. (Gripið fram í.) Því er hér um mjög mikla kjarabót að ræða fyrir íslensk heimili og ég er viss um að hv. formaður Samfylkingarinnar er sammála okkur framsóknarmönnum um að um gríðarlegt framfaramál er að ræða og trúlega eina mestu kjarabót sem íslenskar fjölskyldur og íslensk heimili hafa fengið á síðari árum.

Ef við hugum að heildarskuldum íslenskra heimila þá getum við gert ráð fyrir því að þær séu á bilinu 800–900 milljarðar kr. Ef við gefum okkur að vextir af húsnæðislánum og jafnvel öðrum neyslulánum hafi lækkað um 1% á þessum stutta tíma, eða allt að því, þá erum við að tala um 6–8 milljarða kr. lægri greiðslubyrði íslenskra heimila vegna lána sem fjölskyldurnar hafa þurft að taka til að koma sér þaki yfir höfuðið. 6–8 milljarðar kr. eru mjög miklir peningar og munar um minna í bókhaldi heimilanna. Ef við leggjum saman vaxtabætur og barnabætur þá reiknast mér til að ríkið verji samanlagt um 9 milljörðum kr. til þeirra mála. Þannig skiptir 6–8 milljarðar kr. lægri greiðslubyrði heimilanna gríðarlega miklu máli og er mikil kjarabót.

Í kjölfar kerfisbreytinga sem við samþykktum á síðasta þingi hefur hafist gríðarleg samkeppni á húsnæðislánamarkaðnum, sem ég fagna verulega. Bankarnir sem áður fyrr treystu sér ekki til þess að lána til húsnæðiskaupa á vöxtum undir 5,1% eru farnir að bjóða vexti upp á 4,2%. Öðruvísi mér áður brá en reyndar eru ekki sömu skilmálar á þeim lánum og þeim lánum sem Íbúðalánasjóður býður.

Við hljótum að velta fyrir okkur þeim áhrifum sem samkeppnin hefur. Bankarnir eru ekki einvörðungu að lána til húsnæðiskaupa heldur er oftar en ekki um hrein og bein neyslulán að ræða. Skuldlaus eigandi húsnæðis upp á 30 millj. kr. getur farið inn í banka og fengið 24 millj. kr. lán og getur náttúrlega farið með þá fjármuni að vild, keypt sér sumarhús, bíl og annað slíkt. Ég held að sú breyting sem hefur átt sér stað hvað þetta varðar muni auka einkaneysluna í landinu allverulega og hafa mjög þensluhvetjandi áhrif. Því er vert að minnast þess málflutnings sem bankarnir viðhöfðu í aðdraganda síðustu kosninga þegar við framsóknarmenn hófum umræðu um að hækka lánshlutfall almennra íbúðalána upp í allt að 90% af verðgildi eigna. Þá heyrðust varúðarorð frá bönkum og forsvarsmönnum banka um að hér væri um mjög hættulegt mál að ræða, að við mundum auka mjög á þenslu í íslensku samfélagi.

En í kjölfar þeirra kerfisbreytinga sem hér áttu sér stað treystu bankarnir sér til að lána allt að 80% af verðgildi eignar, óháð því hvort það lán færi í húsnæði eða til annarra þarfa sem viðkomandi hefði. Því er þetta kannski ekki að öllu leyti jákvæð þróun, sérstaklega ef við horfum á það í ljósi efnahagslegra aðstæðna.

Greiðslubyrði íslenskra heimila hefur lækkað í kjölfar þessa, um milljarða síðan þessi samkeppni hófst og síðan kerfisbreytingin átti sér stað. Við hljótum að fagna þeirri þróun og þeirri vinnu sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt í þessi mál.

Við getum líka spurt okkur að því í ljósi nýrra aðstæðna á markaði hvort bankarnir séu komnir til að vera í hinni miklu og hörðu samkeppni við m.a. Íbúðalánasjóð og hvort Íbúðalánasjóður sé ekki nauðsynlegt aðhald gagnvart bönkunum. Ég held að í ljósi sögunnar hafi það sýnt sig að íslenskir bankar, og reyndar bankar yfir höfuð, eru svo sem engar félagsmálastofnanir. Ég tel því nauðsynlegt að við treystum tilveru Íbúðalánasjóðs. Reyndar er þetta ekki eina forsenda þess að Íbúðalánasjóður verði áfram við lýði heldur hníga fleiri rök að því sem ég mun koma frekar að í máli mínu á eftir.

Það sem við ræðum hér er frumvarp til laga um að lánshlutfallið hækki í 90% af verðgildi eignar að ákveðnu hámarki. Því er ekki að leyna að mikið hefur verið spurt, m.a. úr þessum ræðustól og reyndar úti í þjóðfélaginu líka: Hvenær koma 90% lánin? Hvenær ætla framsóknarmenn að standa við loforðin um 90% lánin? Ætlið þið ekki að fara að hrinda þessu stóra kosningamáli ykkar í framkvæmd? Nú er það orðin raunin.

Ég tel að hér sé um mjög vandmeðfarin mál að ræða og vil í framhaldinu þakka hæstv. félagsmálaráðherra. Hann á svo sannarlega hrós skilið fyrir hversu vel hann hefur haldið á þessu vandasama máli varðandi breytingar á húsnæðislánakerfinu. Við getum tekið sem dæmi að heildarútlán Íbúðalánasjóðs eru um 500 milljarðar kr. Það segir sig sjálft að þær breytingar sem eru gerðar hverju sinni á húsnæðislánakerfinu skipta mjög miklu máli, ekki bara hvað varðar húsnæðislánamarkaðinn heldur og samfélagið allt.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er afrakstur verkefnisstjórnar og ráðgjafahóps sem hæstv. ráðherra skipaði sumarið 2003. Hann starfaði fram á haust það ár. Þar voru fulltrúar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og fulltrúar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Hér hefur verið haldið vel á málum og ég vil halda því til haga.

Það var einnig mikill léttir þegar niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA lá fyrir fyrr á árinu, þ.e. að íslenskum stjórnvöldum væri heimilt að bjóða landsmönnum öllum jafnrétti í íbúðakaupum óháð búsetu eða efnahag. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og í raun spurningin um það — þá er ég að tala um tilveru Íbúðalánasjóðs og það félagslega hlutverk sem hann gegnir — að hér búi ein þjóð í einu landi. Það er staðreynd að bankarnir hafa fram á þennan dag ekki boðið íbúum landsbyggðarinnar sömu kjör hvað íbúðalán varðar og íbúum höfuðborgarsvæðisins og annarra stærri þéttbýlisstaða bjóðast. Þeir hafa hreinlega sagt að ógerlegt sé fyrir banka að bjóða sams konar kjör á lánum til íbúa í Reykjavík og íbúa á Vopnafirði, svo dæmi sé tekið. Þetta hafa margir forsvarsmenn bankanna sagt og því er ljóst að það félagslega hlutverk sem Íbúðalánasjóður gegnir að þessu leyti er mjög mikilvægt. Ég held að við sem hér erum inni hljótum öll að stefna að því að íbúar landsbyggðarinnar sitji við sama borð og aðrir íbúar þessa lands þegar kemur aðgangi að fjármagni til þess að koma sér upp húsnæði. A.m.k. samræmist slíkt ekki stefnu Framsóknarflokksins í þeim efnum.

Ég vil ekki draga neitt undan því hér að við erum ekki einvörðungu að tala um stefnubreytingu í húsnæðismálum heldur líka um gríðarlegt byggðamál. Hér er um mjög mikið byggðamál að ræða og mér finnst oft fara mjög lítið fyrir þeim vinkli í þessari umræðu því að það er mjög mikilvægt að allir hafi jafnan aðgang að lánsfjármagni í því ljósi m.a. að treysta byggð um allt land.

Ég vil taka undir margt sem hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunni og taka upp nokkra punkta, m.a. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ögmundur Jónasson hafa velt upp varðandi hámarkslánið og hvernig sjóðurinn á að bregðast við því umhverfi sem nú er á íslenskum húsnæðismarkaði. Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna mun hámarkslánið hækka í 13 millj. kr. á næsta ári og það er bundið í reglugerð þannig að því er hægt að breyta með nokkuð skömmum fyrirvara. Íbúðalánasjóður mun því geta fjármagnað íbúð upp á 14,3 millj. kr. að 90% hluta.

Það er eðlilegt að menn spyrji sig að því: Er það hóflegt íbúðarverð, er það verð á fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík? Ég vil leyfa mér að segja að svo er ekki, oftar en ekki, auðvitað getum við kannski fundið einhverjar slíkar íbúðir. Ég legg því mjög mikla áherslu á það hér að sjóðnum verði gert kleift að mæta þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi á húsnæðismarkaðnum og ég hef ekki trú á öðru en hæstv. félagsmálaráðherra vilji standa þannig að verki og hann hefur sýnt það fram á þennan dag. Ég vil árétta hér að það er ekkert sem mælir því mót að talan 13 millj. sem gefin hefur verið upp núna muni ekki hækka þegar fram líða stundir og ég tel mig hafa heimildir fyrir því að lánið muni hækka á kjörtímabilinu í framhaldi af þessu.

Ég mun ekki taka undir þann málflutning að Íbúðalánasjóður fari að lána til íbúða sem kosta 20, 30 eða 40 millj. kr. Slíkt samræmist ekki félagslegu markmiði sjóðsins en félagslegt markmið hans er að bjóða öllum hæfilegt íbúðarhúsnæði á hæfilegu verði.

Við getum líka tekið upp annan punkt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi áðan er varðar skilmála á þeim lánum sem Íbúðalánasjóður veitir. Eins og íbúðalánin eru í dag eru lántakendur Íbúðalánasjóðs varðir fyrir uppgreiðsluálagi þannig að öllum er heimilt að greiða upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði án þess að þurfa að borga krónu fyrir. Aftur á móti eru þau lán sem bankarnir og fjármálafyrirtæki eru að veita í dag með hinu svokallaða uppgreiðsluálagi og getur slíkt álag numið allt að 2% af lánsupphæð þannig að af 10 millj. kr. láni mun það í einhverjum tilvikum kosta lántakandann 200 þús. kr. að greiða upp slíkt lán ef aðstæður breytast á markaði og vextir lækka.

Mér finnst vert að velta því upp í umræðunni hvort ekki sé rétt að við á löggjafarsamkundunni veitum Íbúðalánasjóði það svigrúm að hann geti boðið húsnæðislán með sömu skilmálum og verið er að bjóða á almennum bankamarkaði og þar af leiðandi er ljóst að vextir Íbúðalánasjóðs gætu verið lægri en þeir eru í dag. Ég velti þessu einungis upp hér án þess að ég fullyrði nokkuð í þeim efnum en mér finnst mjög vert að skoða þennan vinkil á málinu. En ég dreg ekkert úr þeim jákvæðu áhrifum sem núverandi fyrirkomulag hefur, þ.e. að við verndum lántakendur Íbúðalánasjóðs fyrir þessu uppgreiðsluálagi, en trúlega mættum við gera ráð fyrir að ef við byðum upp á hinn valkostinn tækju flestir þann kost og það er ófyrirséð hvaða kostnað það gæti leitt af sér fyrir framtíðarlántakendur sjóðsins. Ég held að við þurfum að skoða þetta mjög vel í starfi hv. félagsmálanefndar því að hér er um mjög stóra spurningu að ræða en ég vil skoða þetta mál mjög vel.

Annað varðandi frumvarpið sem hér er til umræðu og er mjög gleðilegt er að samkvæmt kostnaðarumsögn eða fylgiskjali frá félagsmálaráðuneytinu og skrifstofu sveitarstjórnarmála er álitið að fjárhagsleg áhrif frumvarpsins verði jákvæð fyrir sveitarfélögin og ég tel það mjög gleðilegt mál. Talið er að um 300 millj. kr. muni sparast í rekstri sveitarfélaganna á landinu við gildistöku þessara laga þar sem sveitarfélögunum hefur verið gert að greiða um 300 millj. á ári í varasjóð viðbótarlána sem mun falla niður við breytingar á lögunum. Mér finnst mjög jákvætt í ljósi þeirrar erfiðu fjárhagsstöðu sem mörg sveitarfélög glíma við að þau losni undan þessari kvöð.

Ég tek aftur á móti undir með hæstv. félagsmálaráðherra að það er mjög áríðandi að við opnum á þá umræðu hvert verður framtíðarhlutverk sveitarfélaganna í húsnæðismálum og félagslega þættinum hvað það varðar. Við vitum, ef við horfum á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að þau standa sig ansi misjafnlega í félagslega þættinum sem á þeim hvílir í þeim efnum. Reykjavíkurborg hefur að mörgu leyti staðið sig ágætlega í því þó að alltaf megi gera betur. Aðrir staðir, ónefnd sveitarfélög í nágrannabyggðum Reykjavíkur, sinna mjög lítið því mikilvæga hlutverki sem þau eiga að gegna í þeim efnum og jafnvel er það svo í sumum sveitarfélögum að þar eru örfáar félagslegar íbúðir og oft og tíðum finnst manni að stefna stjórnvalda í þeim sveitarfélögum sé sú að fólk sem þarf á slíkum félagslegum úrræðum að halda búi ekki í viðkomandi sveitarfélögum. Ég á erfitt með að sjá annað.

Annað jákvætt varðandi áhrifin á sveitarfélögin er að afgreiðsla veittra viðbótarlána mun væntanlega hætta og talið er samkvæmt fylgiskjali frá félagsmálaráðuneytinu að þar muni 20 millj. kr. sparast þannig að sparnaður sveitarfélaganna af því frumvarpi sem hér um ræðir er um 320 millj. kr. og munar um minna í erfiðum rekstri þeirra.

Ég vil að lokum fagna því frumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram og ég efa ekki að hv. félagsmálanefnd mun taka þetta stóra og mikilvæga mál til nákvæmrar endurskoðunar. Ég er hlynntur tilgangi laganna og á ekki von á því að það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram muni breytast neitt gríðarlega í störfum nefndarinnar en legg áherslu á að nefndin mun vinna fljótt og vel í þessu máli, enda er hér um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir fjölskyldurnar í landinu.



[12:24]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þingmaður mjög hugrakkur áðan þegar hann var að berja sér á brjóst út af barnabótunum. Þar er hv. þingmaður kominn út á hálan ís. Veit hv. þingmaður ekki að frá 1995–2004 eru barnabætur samtals 10 milljörðum lægri en þær hefðu verið ef árleg útgjöld hefðu verið hin sömu og árið 1995 allt tímabilið? (Gripið fram í.) Á hverju ári hafa þær lækkað um 1 milljarð. Hv. þingmaður þyrfti að standa að því að hækka barnabæturnar um 1 milljarð á næsta ári til þess að raungildið sé það sama og árið 1995. Ótekjutengdar barnabætur, svo að ég rifji það upp fyrir hv. þingmann, voru 56% af heildarfjárhæðinni en eru komnar niður í 19% nú. Hv. þingmaður skyldi því vara sig á að ræða mikið um barnabætur.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi að hér sé um að ræða eitt af stærri kosningaloforðum síðari ára þá verður hann að taka með í reikninginn að þetta breytir litlu núna nema hámarksfjárhæðin fylgi þeirri þróun sem er á markaðnum. Annars skiptir þetta afskaplega litlu fyrir íbúðakaupendur.

Ef við erum að tala um 11,5 millj. og svo 13 millj. um áramótin þá er í mesta lagi hægt að fá svona sæmilega þriggja herbergja íbúð fyrir þá fjárhæð. Fjárhæðin þyrfti að fara strax í 16 millj. til þess að vera samkeppnishæf við það sem er að gerast á markaðnum þannig að hægt væri að kaupa 18 millj. kr. íbúð sem væri þá sæmileg fjögurra herbergja íbúð. Annars skilar þetta litlu fyrir fólk.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að við þurfum að fara hærra varðandi hámarksfjárhæðina þegar í stað ef Íbúðalánasjóður á að vera samkeppnishæfur við bankana og ef þetta á að skila einhverju fyrir íbúðarkaupendur. Ég held að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd og við skulum reyna að sammælast um að það verði niðurstaðan. Við förum strax í 16 millj. kr. heildarfjárhæð á 90% lánum.



[12:26]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir taka stórt upp í sig þegar hún sagði áðan að það loforð sem framsóknarmenn gáfu fyrir síðustu kosningar skipti afskaplega litlu máli fyrir fólkið í landinu. (JóhS: Ég sagði að það mundi ekki gera það nema ...) Mundi ekki gera það. En þá vil ég minna hv. þingmann á að við sem sitjum bæði í félagsmálanefnd þingsins vorum í mjög mikilli vinnu á síðasta löggjafarþingi við að endurskipuleggja húsnæðislánakerfið. Það frumvarp sem ráðherrann lagði fram þá hefur valdið því að vextir af húsnæðislánum hafa lækkað úr 5,1% niður í 4,3%. Svo segir hv. þingmaður þegar vextir hafa lækkað um hátt í 1% af húsnæðislánum að það skipti afskaplega litlu máli fyrir fólkið í landinu. Ég verð að segja að ég skil ekki svona málflutning. Og þegar hv. stjórnarliðar hafa líka gefið út að það hámarkslán sem hæstv. ráðherra er búinn að gefa út að verði 13 millj. um næstu áramót sé kannski einungis byrjun á langri vegferð, skiptir það heldur engu máli? Að hjón með eitt barn geti keypt sér nokkuð góða og þokkalega þriggja herbergja íbúð hér í bæ, skiptir það ekki máli fyrir fólk? Mér finnst þetta afskaplega villandi og neikvæður málflutningur.

Auk þess vil ég andmæla því sem hv. þingmaður nefndi áðan að hámarkslánið ætti að vera bundið í lög. Slíkt yrði mjög þungt í vöfum ef félagsmálaráðherra þyrfti að koma inn á Alþingi í hvert skipti sem hann vildi hækka hámarkslánið og fara í gegnum þrjár umræður í þinginu í því skyni að hækka það. Ég veit ekki hvert hv. þingmaður er að fara í málflutningi sínum en mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé bundið í reglugerð.



[12:28]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þm. nefndi þá gat ég þess að mér fyndist slæmt að við gætum ekki lýst skoðunum okkar á því við atkvæðagreiðslu um málið hver hámarksfjárhæðin ætti að vera. Ég held að það sé til leið til þess. Við setjum þetta í ákvæði til bráðabirgða um að hámarksfjárhæðin verði 16 millj. kr. þegar þessi lög taka gildi og hæstv. ráðherra haldi áfram reglugerðarheimild sinni. Ég er tilbúin að sættast á það.

Varðandi það að þetta skipti litlu máli þá verð ég að segja að það er sannfæring mín að þetta breyti litlu fyrir utan það að hámarksfjárhæðin verður hærri. Fólk getur þegar farið í bankana og keypt sér sæmilega þriggja herbergja íbúð fyrir þá lánamöguleika sem þar eru. Ég veit að hv. þm. hlýtur að vera mér sammála um að það er nauðsynlegt fyrir Íbúðalánasjóð að hann fylgi þeirri þróun sem er á markaði ef hann á ekki að lognast út af og bankarnir að yfirtaka hann. Hvorugt okkar vill sjá það. Ég er sannfærð um það.

Ef hámarksfjárhæðin hefði fylgt launaþróun í gegnum árin þá ætti hún sennilega að vera á bilinu 16–18 millj. kr. Ætli meðal þriggja herbergja íbúð kosti ekki 13–14 millj. kr., eitthvað á því bili. Eins og áformin eru nú er því varla hægt að fá stærri íbúð fyrir 13 millj. kr. og 90% lán.

Ég vil spyrja hv. þm., af því að hann nefnir vextina. Telur hann ekki kominn tíma til að lækka vexti á leiguíbúðum, sem eru allt að 4,9%? Þeir voru 1% og menn stóðu vörð um það á sínum tíma að vextirnir á leiguíbúðunum yrðu ekki hærri.

Ég er hissa á því að Íbúðalánasjóður geti ekki farið lægra með vexti sína en 4,3% þegar um er að ræða ríkisábyrgð á þessum lánum, sem menn töldu að mundu skila því að hægt væri að hafa vextina 1% lægri en er hjá bönkunum.



[12:30]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom svo sem ekki margt nýtt fram í andsvari hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Mér gefst því færi á að bregðast frekar við fyrra andsvari hennar. Hv. þm. gerði athugasemdir við samanburð minn á barnabótum og vaxtabótum og þeim lækkunum á greiðslum heimilanna af húsnæðislánum sem þessi kerfisbreyting vissulega hefur valdið.

Hv. þm. kemur með samanburð um að ríkisstjórnarflokkarnir skuldi barnafólki í landinu marga milljarða frá árinu 1995. Ég hef oft kallað eftir því úr ræðustól hvaða forsendur liggja að baki slíkum útreikningum. Ég hef aldrei fengið það uppgefið. (JóhS: Ég sendi hv. þm. það, þær liggja fyrir.) Ég þakka fyrir það ef ég fæ upplýsingar (JóhS: Það eru upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu.) um það. Það hefði verið gott að heyra hv. þm. fagna því að ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér að hækka barnabætur um allt að 3 milljarða kr. á kjörtímabilinu, (JóhS: Eftir að hafa tekið af því 9 milljarða.) 3 milljarða sem munu koma tekjulágu barnafólki í landinu mest til góða.

En fyrir hverju er hv. þm. að berjast hvað mest? Fyrir hverju er Samfylkingin að berjast í skattamálum? Jú, það á að lækka skattprósentuna. Það á að afnema stimpilgjaldið. Það á að lækka virðisaukaskatt, jafnvel afnema hann. Það á að hækka skattleysismörk. Ég hef ekki heyrt í neinu máli, sem mælt hefur verið fyrir á Alþingi, að Samfylkingin sé á móti skattalækkunum í viðkomandi málaflokkum. Nei. Samfylkingin lofar öllum skattalækkunum. Ef við mundum leggja þetta saman þá hlyti það að nema tugum milljarða kr. Mér finnst hart til þess að vita hvernig hv. þingmenn tala um barnabótakerfið sem kemur láglaunafólki og barnafólki hvað mest til góða á meðan þeir einbeita sér að því að tala um að við eigum að lækka alla skatta í þjóðfélaginu og tala með óábyrgum hætti í þeim efnum.



[12:33]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég brosti út í annað þegar hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði í upphafi ræðu sinnar að hér væri verið að uppfylla eitt stærsta kosningamál síðari ára. Mér varð þá strax hugsað til barnakorta Framsóknarflokksins, sem enn hafa ekki orðið að veruleika og voru barmmerki þeirra í kosningabaráttunni fram að því að 90% lánin komu til umræðu.

En varðandi yfirlýsinguna um að verið væri að uppfylla eitt stærsta kosningamál síðari ára þá vil ég koma inn á úr hvaða jarðvegi þetta kosningamál er sprottið og umræðan um það. Hækkun á lánshlutfalli og lækkun á vöxtum hefur sprottið af mikilli stöðnun í húsnæðislánakerfinu og það var þrýstingur frá neytendunum sjálfum, neytendum þessara lána, sem bjuggu við háa vexti, verðbætur ofan á vextina, lágt lánshlutfall af íbúðunum og það að íbúðir höfðu farið það ört hækkandi að fólk átti erfitt með að leggja fram útborgun á móti láni Íbúðalánasjóðs. Við skulum halda því til haga að staðan var ekki beysin. Þess vegna fagna ég því frumvarpi sem hér er fram komið. Ég tel að með því séu stigin mörg framfaraspor.

Eins og ég sagði hafa orðið miklar breytingar á húsnæðislánamarkaði. Ég nefni sem dæmi að tveggja herbergja íbúð hefur frá árinu 1997 hækkað um hátt í 100% til dagsins í dag. Íbúðir hafa hækkað það mikið í verði að grípa þarf til róttækra aðgerða eins og gert er í þessu frumvarpi að mörgu leyti.

Ég vil einnig fjalla aðeins um innkomu bankanna. Ég tel að innkoma bankanna á þennan markað hafi ýtt við Íbúðalánasjóði, ýtt við ríkiströllinu og því að þetta frumvarp sé fram komið núna, fyrr heldur en ég bjóst við. Ég verð að viðurkenna það. Ég tel innkomu bankanna á þennan markað mjög góða. Samkeppnin um neytendur er af hinu góða. Neytendur eru mjög mismunandi, með mismunandi efnahag og með mismunandi þarfir.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan eða talaði eins og við þyrftum að verja Íbúðalánasjóð sérstaklega. Ég tel okkur ekki vera í þeirri stöðu. Ég sé Íbúðalánasjóð ekki sem Tuma þumal í samkeppni við bankana um húsnæðislánin. Ég tel að sjóðurinn standi ágætlega og maður hefur heyrt það þaðan. Ég tel að hann hafi líka mikilvægan tilgang. En þegar samkeppnin um hin almennu húsnæðislán er orðin svo mikil sem raun ber vitni þá eigum við auðvitað að spyrja okkur um tilganginn. Við eigum líka að kafa vel í hver markmið Íbúðalánasjóðs eiga að vera umfram almennar lánveitingar. Í þessu sambandi vil ég aðallega nefna þrennt sem ég tel að eigi að vera markmið Íbúðalánasjóðs umfram almennar lánveitingar. Hér hefur verið nefndur jafn aðgangur allra landsmanna að lánum, góðum húsnæðislánum sem bankarnir veita ekki en Íbúðalánasjóður vissulega gerir. Í öðru lagi má benda á aðgengi félagasamtaka og sveitarfélaga að lánsfé til uppbyggingar leiguíbúða. Í þriðja lagi, og ekki síst, ber sjóðnum að veita ákveðna aðstoð til hinna efnaminni til húsnæðiskaupa.

Ég vil velta því aðeins upp hvort við náum þessum markmiðum með frumvarpinu. Varðandi fyrsta markmiðið, þ.e. jafnan aðgang allra landsmanna að sæmilegum lánum til húsnæðiskaupa, þá tel ég að frumvarpið nái því. Bankarnir miða ekki inn á landsbyggðina heldur sækja þeir á höfuðborgarsvæðið og má eiginlega segja að þeir miði á millitekjur og hærri tekjur á höfuðborgarsvæðinu, að það sé markhópur þeirra.

Varðandi betra aðgengi félaga og samtaka að lánsfé til uppbyggingar á leiguíbúðum þá tel ég þetta frumvarp ekki ná því markmiði. Lengi vel var samkomulag um að hreyfa ekki við vöxtum á þeim lánum, að mig minnir til ársins 1998, þegar þeir vextir voru 1%. En þegar félagslega íbúðalánakerfið var lagt niður hækkuðu þeir vextir upp í 4,9%. Afleiðingarnar höfum við séð í því að uppbyggingin á leiguíbúðum, t.d. á vegum stúdentafélaganna, hefur snarminnkað. Hún hefur líka minnkað á vegum sveitarfélaga og verðið hefur hækkað. Það er alvarlegast.

Hina litlu uppbyggingu sjáum við auðvitað af biðlistunum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór ágætlega yfir áðan. Það eru biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík og biðlistar eftir stúdentaíbúðum, svo að tvö dæmi séu tekin. En það sem er alvarlegast er hækkunin á verðinu. Hún er bein afleiðing hækkunar á vöxtum Íbúðalánasjóðs til félaga sem byggja upp leiguíbúðir.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom inn á að einstaka sveitarfélög hefðu staðið sig illa í uppbyggingu á félagslegu húsnæði og þar tel ég að sami vandi sé á ferðinni. Við vitum öll, eftir umræðuna undanfarna daga, hvernig sveitarfélögin standa fjárhagslega. Þegar þau hafa ekki aðgang að betri lánum en þetta þá er augljóst að þau sem hafa minna umleikis sækja síður um lánin.

Varðandi uppbyggingu á leiguíbúðum þá tel ég að við verðum — mér finnst allt of lítið um það rætt í tengslum við húsnæðismálin á Íslandi — að sjá til að hér verði til eitthvað sem heiti raunverulegur valkostur í húsnæðismálum, þ.e. að það verði raunverulegur valkostur að leigja. Það á t.d. við um ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og vill síður binda sig, sér fyrir sér að fara í nám síðar meir o.s.frv. Í dag býr það við gríðarlegt óöryggi á leigumarkaði, óöryggi varðandi tímalengd leigusamninga og óöryggi varðandi verð. Leigan er há og ég tel að Íbúðalánasjóður gæti komið betur að uppbyggingu leiguíbúða, að því að búa til þann valkost, ekki síst fyrir ungt fólk, til þess að fara út í langtímaleigu, búa til leigukost fyrir þá sem vilja fara í langtímaleigu.

Þriðja markmiðið sem ég tel að eigi að vera markmið Íbúðalánasjóðs umfram almennar lánveitingar er aðstoð til hinna efnaminni við húsnæðiskaup. Ég tel að í frumvarpinu séu ákveðnir annmarkar að því leyti og þættir sem við verðum að skoða mun betur. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á stimpilgjaldið áðan en þarna er í raun verið að rýra kjör eða möguleika þeirra sem uppfylla skilyrði til viðbótarlána vegna þess að nú er stimpilgjald lagt að fullu á 90% lánin. Þetta tel ég að við þurfum að skoða.

Í allri umræðunni um húsnæðismálin tel ég að almennt verði að endurskoða tilveru stimpilgjaldsins. Ég hefði helst viljað sjá að það yrði lagt niður. Þessa umræðu verðum við auðvitað að taka samhliða þeim breytingum sem hafa orðið. Ég heyri að um málið er töluverður samhljómur í salnum. Ég heyrði það hjá hv. þm. Böðvari Jónssyni áðan. Þetta er ósanngjarn skattur og ég hvet þingheim og félagsmálanefnd til að taka frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um afnám stimpilgjalda á húsnæðiskaup til meðferðar og umfjöllunar samhliða þessu frumvarpi.

Ég tek einnig undir með þeim sem hafa talað um að ganga beri lengra varðandi 13 millj. kr. hámarkið. Ég tel að 13 millj. kr. hámarkið gangi gegn þriðja markmiðinu sem ég nefndi áðan, þ.e. aðstoð til hinna efnaminni við húsnæðiskaup. Efnaminna fólk með stórar fjölskyldur þarf meira en 13 millj. kr. hámarkið. Ég tel að þetta verði að vera hærra og verði að vera í takt við raunveruleikann á húsnæðismarkaðnum. Ég vona sannarlega að nefndin ræði þetta betur.

Í tengslum við hámarkið hefur verið rætt um samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs. Auðvitað er það ákveðinn faktor. Ég er ekki ein af þeim sem vilja að ríkisstofnanir séu í samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði en engu að síður tel ég að um Íbúðalánasjóð gildi önnur lögmál vegna þeirra mikilvægu þátta og markmiða sem hann á að standa fyrir og stefna að, vegna þessa þríþætta tilgangs hans sem ég fór yfir áðan. Ég tel að Íbúðalánasjóður sé mikilvægur. Engu að síður fagna ég þeim fjölbreyttu lánamöguleikum sem í boði eru í dag. Ég tel að þetta verði einungis til góðs fyrir flesta. Hins vegar verður að skoða hámarkið og prósentuhlutfallið til handa félögum og samtökum sem byggja upp leiguíbúðir. Ég tel að þá vexti verði að lækka aftur. Sömuleiðis tel ég að ræða þurfi alvarlega um stimpilgjaldið og tilverurétt þess í þessari umræðu.

(Forseti (BÁ): Forseti vill að gefnu tilefni minna háttvirta þingmenn á að vísa með réttum hætti hver til annars í ræðustól.)