131. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2004.
húsnæðismál, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 220. mál (hámark lánshlutfalls). — Þskj. 223.

[14:09]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við höldum nú áfram að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem umræða hófst um í morgun, sem sagt um að taka upp 90% lán með ákveðnu þaki, eins og hér hefur komið fram, og breyta því kerfi sem verið hefur í gildi.

Allt er þetta gott og blessað vegna þess að segja má um Íbúðalánasjóð að hann sé mikill jafnréttissjóður, ef svo má að orði komast. Hann mismunar ekki fólki, a.m.k. ekki eins mikið og aðrir, eftir því hvar þeir búa á landinu. Kem ég kannski að því síðar þegar ég ræði um fasteignalán bankanna.

Þess vegna er mikilvægt að menn standi dyggan vörð um Íbúðalánasjóð eins og ræðumenn hafa sagt hér í morgun, og að hann sé varinn vegna þess að við vitum auðvitað að það er töluverð ásókn lánastofnana — við fylgdumst með því í vor og sumar — í að þessi opinberi sjóður leggist af og fari inn í bankakerfið. Þess vegna segi ég að það er mikilvægt að standa dyggan vörð um þennan sjóð.

Sá opinberi sjóður sem hér er verður að gæta jafnræðis og jafnréttis milli þegna landsins, sama hvar þeir búa. Þetta segi ég Íbúðalánasjóði til hróss. Hér hefur nefnilega komið fram að fasteignalán bankanna gæta ekki jafnræðisins, íbúar höfuðborgarsvæðisins þar sem veðin eru tryggari að mati bankanna fá hærri lán en íbúar landsbyggðarinnar og alls konar þröskuldar eru settir þar inn.

Þegar ég segi þetta um Íbúðalánasjóð og hæli honum verð ég samt sem áður að segja að Íbúðalánasjóður er því miður — og hefur verið undanfarin ár — í ákveðnu hlutverki gagnvart landsbyggðarfólki og mér líkar það ekki. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra nokkurs — hann situr hér í salnum meðan umræða er um frumvarp hans eins og ráðherrar eiga að sjálfsögðu að gera. Ég er sem sagt að ræða um Íbúðalánasjóð sem vefengir stundum söluverð húsnæðis á landsbyggðinni, vefengir það markaðsverð sem sett er upp í kaupum og sölum milli aðila og á það til að senda sérfræðinga að sunnan, eins og sagt er stundum, SAS-ara, til viðkomandi byggðarlags að skoða viðkomandi eign og jafnvel að reyna að verðfella hana eða lækka verðið. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð hjá Íbúðalánasjóði allra landsmanna sem ég hef hér verið að dásama og hæla. Mér finnst ljóður á því hvernig þetta er gert. Nú hlýtur það að vera svo, virðulegi forseti, að markaðsverð íbúða, sama hvar það er á landinu, hlýtur að vera það verð sem kaupandi og seljandi hafa komið sér saman um. Þess vegna á Íbúðalánasjóður að lána út á það verð líkt og gert er hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðilar koma sér saman um söluverð. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvað honum finnist um þetta atriði og hvort það muni kannski minnka eða leggjast af með þessum breytingum hér eða hvort íbúðaseljendur og -kaupendur á landsbyggðinni þurfi áfram að búa við að þetta verði gert svona.

Bankarnir hafa í samkeppni við Íbúðalánasjóð komið fram á markaðinn á sumrinu, sem er af hinu góða, skapað fjölbreytta lánamöguleika, lengri tíma og allt það, til að byggja upp þessa miklu og bestu eign hverrar fjölskyldu, þ.e. húsnæði, og boðið þar mikið lán sem er ekki boðið öllum landsmönnum, jafnvel ekki þegar viðkomandi peningastofnanir eru á viðkomandi stöðum. Það geta verið hömlur á. Við skulum ekki gleyma því að á sumum stöðum er bankastarfsemin að dragast saman og hefðbundnir bankar jafnvel að fara í burtu. Eftir sitja hinir ágætu sparisjóðir sem eru bankastofnanir margra byggðarlaga og sem ég því miður óttast að geti ekki tekið þátt í þessari samkeppni mjög lengi.

Það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að lánin sem peningastofnanir bjóða með þeim vöxtum sem þær gera og engum hámörkum geti verið þensluhvetjandi, séu með öðrum orðum neyslulán. Það er vitað mál, eins og fram hefur komið, að fólk er að skuldbreyta lánum, taka óhagstæð lán, þess vegna til utanferða, bílakaupa og annars slíks og skuldbreyta þeim yfir í betri lán. Það getur auðvitað verið þensluhvetjandi eins og getið er um í umsögn fjármálaráðuneytisins þar sem varað er við þessu.

Í því sambandi vil ég segja að þetta mun náttúrlega fyrst og fremst hækka fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu eins og gerst hefur í mörg ár, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Hún tók dæmi um að tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um allt að 100% frá árinu 1997. Ég þykist vita að þetta sé hárrétt og að hækkunin sé jafnvel meiri.

Virðulegi forseti. Til hvers leiðir hækkað fasteignaverð? Jú, til hækkunar á húsnæðislána- eða húsnæðisþætti vísitölu neysluverðs. Til hvers leiðir það svo? Jú, til hækkunar fasteignalána hjá öllum landsmönnum, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur alls staðar, jafnt á Raufarhöfn sem Reykjavík, eða Kópavogi eða Kópaskeri. Það gerir það að verkum að íbúar þessara staða þurfa að greiða meira af lánum sínum en áður. Þeir njóta ekki ávaxtanna við hækkun fasteignaverðs, að hægt sé að selja viðkomandi fasteign hærra verði og greiða upp lánin. Þetta vildi ég nefna, vegna þess að það er allt of sjaldan rætt um vísitölu neysluverðs, hvernig hún og húsnæðisþátturinn er fundin út. Mér virðist að það mælist fyrst og fremst hækkunin á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir til þessara víxlverkana allra.

Ég get ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að nefna svar hæstv. félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá mér um lánveitingar Íbúðalánasjóðs á síðasta þingi, sem er í raun og veru mjög merkilegt svar. Við sjáum fjölda lána og annað slíkt og við sjáum líka hvernig viðkomandi lán hafa lánast út frá Íbúðalánasjóði eftir sveitarfélögum sem er því miður spegilmynd af byggðaröskun og byggðaþróun undanfarinna ára. Ég horfi hér til félagsmálaráðherra, og kannski þess vegna rifjast upp orð hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, sem sagði að Framsóknarflokkurinn hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu. Ég skil ekki af hverju þetta kemur allt í einu upp í hugann þegar ég horfi hér til hægri á hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, að gleyma landsbyggðinni í markaðssetningu á höfuðborgarsvæðinu. En nóg um það.

Í frumvarpinu er líka fjallað um áhrif sem niðurlögn á viðbótarlánum hefur á sveitarfélögin í landinu. Það er gott. Ég vil þó að haft sé í huga að viðbótarlánin og þau fjárhagslegu útgjöld sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir undanfarin ár með viðbótarlánunum var náttúrlega eitt af þeim verkum og ákvörðunum Alþingis sem fóru til sveitarfélaganna, juku útgjöld þeirra án þess að tekjustofn kæmi á móti. Þess vegna er gott að þetta skuli fara. En betur má ef duga skal í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og vita það allir sem sátu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku að það vantar mikið upp á.

Ég vara við því að hæstv. félagsmálaráðherra og stjórnarliðar almennt rjúki upp og fagni þeim smáupphæðum sem fara þarna. Ég segi smáupphæðum, vegna þess að þetta er lítið brot af því sem á sveitarfélögin hefur hallað í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sama hvort það eru 300 millj. kr. sem detta út eða reksturskostnaður viðkomandi sveitarfélags sem lagður er inn. Ég fagna því að þetta skuli vera sett svo vel inn þegar þetta er að detta út og menn geti skreytt sig með þeim rósum hér nú og vænti þess að hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, setji það eins vel inn í öðrum frumvörpum sem kunna að auka álögur á sveitarfélög vegna ákvarðana sem teknar eru á hinu háa Alþingi, að það sé sett inn á jafnmarkvissan hátt eins og að hver afgreiðsla kosti um 5 þús. kr. á viðbótarlánum og allt reiknað eins og hér kemur til.

Án þess að ég ætli að fara að ræða um fjárhagsleg samskipti fagna ég því að þetta skuli fara þarna út, en segi líka að það er margt annað sem á eftir að koma til. Ég vara því hæstv. stjórnarliða við því að fagna þessu og segi að þetta er bara lítið hænuskref í átt að því að koma þessu í eðlilegt horf þarna á milli. Við heyrðum undirliggjandi óánægjurödd sem liggur í sveitarstjórnarmönnum þar sem meira að segja forusta Sambands íslenskra sveitarfélaga, á ég þá sérstaklega við formann sambandsins, virtist aðeins vera farinn að byrsta sig og hrista sig í vörn fyrir sveitarfélögin, bara til að hafa sagt það á fjármálaráðstefnu. Ég hélt eitt augnablik að það ætti að fara að kjósa formann í framhaldi af ræðu formannsins, það væri formannskjör seinna um daginn, en það var nú ekki. Mér fannst þetta vera framboðsræða. Vonandi er það rétt byrjunin á hörkuforustu Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnvart ríkinu í þeim samningum sem eiga að gerast í þessum mánuði. Við höfum ekki meira en þennan mánuð til að ganga í það.

Ég vil líka segja með viðbótarlánin, virðulegi forseti, af því að fjallað er um þau í 8. gr., að nú þarf ekki lengur samþykki viðkomandi húsnæðisnefndar til að yfirtaka þau lán eins og áður. Það er ágætt og má leiða líkur að því að íbúðarhúsnæði sem er með viðbótarláni sé sölulegra en önnur sem eru ekki með viðbótarláni. Auðvitað er húsnæði alltaf sölulegra þegar það er með hagstæðu láni. Á móti kemur að ef menn vilja skuldbreyta, því þessi lán eru með hærri vöxtum en þau sem á að bjóða eftir samþykkt frumvarpsins, mun það kosta stimpilgjöld og lántökukostnað sem er af hinu verra. Með öðrum orðum getur fólk tekið nýtt lán og greitt upp lánin sem voru fyrir, en þarf þá að greiða stimpilgjald og lántökukostnað og allt það þannig að fjárhagslegur ávinningur fer kannski þar. Hin ósanngjörnu stimpilgjöld geta því leitt til þess að sá einn hagnast sem kannski síst skyldi, þar sem ríkissjóður fær af slíkum skuldbreytingum. Það er algjörlega óþolandi að við skuldbreytingu á láni, jafnvel hjá hinum opinberu sjóðum, skuli þurfa að fara þessa leið og greiða stimpilgjöld og lántökukostnað.

Ég vil minnast á félagslegar íbúðir. Í frumvarpinu er fjallað um að setja meiri peninga í varasjóð húsnæðismála og auka þar með tækifæri sveitarfélaga að greiða upp og taka á sig tap vegna sölu á félagslegum íbúðum. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt atriði og tel að félagsmálanefnd eigi að skoða það og hæstv. félagsmálaráðherra líka, að sett sé örlítið meira í sjóðinn til þess að auðvelda sveitarfélögum um allt land að selja sig út úr kerfinu, ef svo má að orði komast, vegna þess að við vitum að hér áður fyrr var mikið byggt af félagslegu húsnæði sem er svo núna vegna íbúafækkunar og annarra þátta, allt of mikið framboð af. Þess vegna vantar að taka húsnæðið og gera sveitarfélögunum kleift að losa þetta út á hinn almenna markað og greiða upp mismun sem er á lánum sem standa á þessu og markaðsvirði á því sem það selst á. Það léttir líka mjög fjárhagsstöðu fjölmargra sveitarfélaga ef það er gert.

Virðulegi forseti. Þetta vil ég að verði veganesti félagsmálanefndar. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd, en ég vænti þess að málið verði tekið upp og skoðað í þeirri ágætu nefnd, ásamt því að ég tek undir það sem hér hefur verið sagt og skal hafa það lokaorð mín, að ég tel ákaflega mikilvægt að félagsmálanefnd vinni málið mjög hratt og fljótlega svo breytingin geti tekið gildi 1. janúar nk. vegna þess að þegar verið er að breyta um kerfi eins og þetta vitum við að það hefur áhrif á markaðinn, fólk fer að bíða og hætta og ástæðulaust að Alþingi taki sér allt of langan tíma í þetta. Ég trúi ekki öðru en hægt sé að skapa sátt um að vinna þetta fljótt og vel og klára þetta áður en Alþingi fer heim í jólafrí.



[14:25]
Hilmar Gunnlaugsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tímabundna tækifæri mitt á þingi til þess að taka aðeins þátt í umræðunni. Ég þekki nokkuð vel til fasteignamála á mínu svæði, Austurlandi, og hef kynnst bæði virkum og óvirkum markaðssvæðum.

Vegna ummæla í morgun er ljóst að menn virðast hafa mestar áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs þó, eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á áðan, að sjóðurinn væri ekki takmark heldur kjör viðsemjenda hans, sérstaklega á landsbyggðinni eins og mál virðast vera að þróast. Ef við gefum okkur að hagsmunir Íbúðalánasjóðs skipti lántakendur miklu máli verður að fara varlega í þessi mál. Það er ljóst að með 90% lánum er verið að taka ákveðna áhættu. Vegna orða hv. 3. þm. Norðaust., Kristjáns L. Möllers, um markaðsverð er fullkomlega eðlilegt að Íbúðalánasjóður, eins og aðrir sem lána út á veð, gangi tryggilega úr skugga um að um tryggt veð sé að ræða. Það þekkist því miður að það sem er sett á pappír sé ekki endilega markaðsvirði. Þess vegna er eðlilegt að það sé kannað. (Gripið fram í: Er verið að falsa eitthvað?) Því miður er alltaf sú hætta til staðar. Það verður að spyrja sig og stunda gagnrýna hugsun í þessum efnum. Þess vegna tel ég fullkomlega eðlilegt að það sé kannað, þó það verði auðvitað að gera það þannig að það hleypi ekki kostnaðinum of mikið upp.

Það er ljóst að Íbúðalánasjóður mun verða fyrir meiri áhættu með þessu kerfi. 90% lán þýða, alla vega þar sem ég þekki til, að þar sem ekki er virkur markaður fylgist einfaldlega ekki að markaðshækkun og hækkun lána þegar um verðtryggð lán er að ræða. Fasteignir lækka oft kannski ekki í krónum talið en þegar lánin hækka, og 90% lán eru fljót að éta upp eigið fé í fjárfestingunni, þarf að fara mjög varlega. Ég vil lýsa yfir ákveðnum áhyggjum með þetta og vona að það stökkvi ekki allir um of, eins og rætt hefur verið um í dag, að nýta sér það frelsi sem vissulega fylgir þessu til fulls. Það er engin nauðsyn til þess.

Vegna umræðunnar í morgun vil ég mótmæla því að endalaust sé verið að stilla bönkum og Íbúðalánasjóði upp sem einhverjum andstæðum. Sem dæmi um það var í morgun verið að gera því skóna að bankarnir væru búnir að draga línu í kringum höfuðborgina og hugsuðu ekki um neitt annað. Af því að ég þekki betur til en það veit ég að vissulega skipta bankarnir landinu upp í virk og óvirk markaðssvæði, en það er ekki verið að draga einhverja línu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Ég verð að segja eins og er að ég er orðinn hundleiður á því þegar þingmenn leyfa sér að einfalda hlutina með þessum hætti, að menn séu hólfaðir í tvö hólf. Það verður að vera málefnaleg umræða um þetta. Hún er ekki málefnaleg þegar landsbyggðin er öll sett undir einn hatt og höfuðborgarsvæðið undir annan.

Vegna umræðunnar um að bönkum og Íbúðalánasjóði sé stillt upp sem andstæðum þá geta þeir aðilar unnið ágætlega saman í dag. Ég fæ reyndar ekki betur séð en verið sé að gera það að tillögu að hætta því upp að ákveðnu marki, þ.e. þegar verið er að kaupa fasteignir sem eru aðeins í hærri kantinum geta einstaklingar í dag tekið lán á 1. veðrétt og svo fullt lán hjá Íbúðalánasjóði. Mér sýnist að verið sé að gera það að tillögu að þetta verði lagt niður. Það er að mörgu leyti miður að verið sé að stilla fólki upp annaðhvort eða. Mér finnst að Íbúðalánasjóður eigi ekki að þurfa að vera settur í þá stöðu.

Almennt séð er auðvitað um nokkuð jákvætt mál að ræða í þeim skilningi að þetta mun væntanlega örva fasteignamarkaðinn og vonandi hleypa lífi í óvirku svæðin og gera þau virkari en það verður að fara varlega í þessu máli.



[14:31]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tel að við ræðum hér eitt af þeim málum sem sennilega næst góð samstaða um í þinginu og að allir stjórnmálaflokkar telji það sem stefnt er að vera gott mál eins og stundum er sagt um málefni sem hér eru rædd. Að minnsta kosti á það við um þann sem hér stendur að ég tel að sú stefna sem hér er sett fram, að auka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs, sé af hinu góða og sé í raun og veru bráðnauðsynleg miðað við hvernig mál hafa þróast í landinu á undanförnum missirum. Það er auðvitað svo, því miður, að lánskjör og lánsfjárhæðir eru misjafnar hér á landi eftir því hvar verið er að lána út á fasteignir þó að það sé sjálfsagt rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að ekki sé hægt að draga þessa línu eingöngu utan um höfuðborgarsvæðið sem sérstakt lánasvæði sem bankarnir vilja eingöngu lána á, heldur ráðist það auðvitað dálítið af mati viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana á því hvaða verðmæti þeir telja í ákveðnum eignum. Ég tel hins vegar að hlutverk Íbúðalánasjóðs sé að efla sem mest jafnræði með fólki hér á landi varðandi lánamöguleika til að eignast eigið húsnæði. Íslendingar hafa í ríkum mæli viljað eiga sitt húsnæði sjálfir og mjög margir stefna að því sem sérstöku takmarki á ævinni að eignast sitt eigið húsnæði. Í sjálfu sér tel ég það af hinu góða þó að vissulega eigi það ekki beinlínis að vera skylda hvers og eins að kaupa sér húsnæði ef hann vill heldur vera á leigumarkaði.

Mér sýnist alveg ljóst að frumvarp það sem við erum með í höndunum og erum að ræða sé til þess fallið að efla möguleika fólks til að eignast húsnæði. Ég tek undir það sem sagt er í greinargerð með frumvarpinu að landsmenn sitja ekki allir við sama borð að því er varðar lánskjör og lánafyrirgreiðslu, annars vegar víða á landsbyggðinni og hins vegar á þeim markaðssvæðum þar sem íbúðaverð hefur hækkað markvisst á undanförnum árum sem er að stærstum hluta á höfuðborgarsvæðinu þótt það sé ekki einhlítt.

Bankarnir komu inn á þennan markað fyrir aðeins örfáum missirum með miklum látum í kjölfar þess að þeir höfðu ekki náð því fram að ríkinu væri í raun og veru ekki heimilt að reka Íbúðalánasjóð og kappsmál fjárfestingarbankanna og viðskiptabankanna var að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þegar hins vegar sú staðreynd lá fyrir og það var staðfest að starfsemi Íbúðalánasjóðs stæðist allar reglur, niðurstaða í því máli kom fram í ákvörðun sem lá fyrir frá ESA í ágúst sl., fóru bankarnir beint inn í virka samkeppni á íbúðalánamarkaði og út af fyrir sig er ekkert nema gott um það að segja. Maður spyr sig hins vegar að því þegar svo er komið að fjárfestingarstofnanir setja á fulla ferð inn á húsnæðismarkaðinn og sækjast eftir 1. veðrétti eigna hvort viðskiptabankarnir telji að það séu e.t.v. bestu tryggingarnar fyrir lánsfé hér á landi að festa lánin við íbúðarhúsnæði.

Ég minni á það, hæstv. forseti, að á undanförnum árum hafa lánastofnanir hér á landi fjárfest eða stutt við fjárfestingar í því sem ég kalla að taka veð í góðu sumri, þ.e. í syndandi fiski í sjónum, sem enginn veit frá ári til árs hvort verður nákvæmlega það sama árið eftir eða árið þar á eftir og ég hef nú stundum varað menn við því að árferðið á Íslandsmiðum væri ekki stabílt fyrirkomulag. Ég held að menn séu að upplifa þetta og sum veðin sem tekin voru t.d. í innfjarðarrækju fyrir ekki svo löngu síðan eru einskis virði í dag, svo ég minni bara á það. Framsýni bankastofnana í því að taka tryggingar hefur því ekki alltaf verið mikil hér á landi.

Samt sem áður hafa íbúðarhúsin okkar löngum verið talin nokkuð góð veð. Það er auðvitað líka vegna þess að það er séð til þess að við tryggjum þessar eignir okkar og þar af leiðandi er áhættan minni en ella væri. Almennt hefur íbúðaverð farið hækkandi hér á landi þó að það eigi ekki við alls staðar og sum landsvæði hafa orðið að una því að íbúðaverð hafi breyst verulega til lækkunar en það hefur yfirleitt gerst samfara því að önnur breyting hefur orðið í viðkomandi byggðarlögum eins og tekjusamdráttur eða breytingar á atvinnumöguleikum. Þar er auðvitað búið við ákaflega óstöðugt umhverfi sem við þekkjum öll sem höfum tekið hér einstaka sinnum umræðu um byggðamál, fiskveiðistjórnarmál og fleiri mál sem ég ætla ekki að blanda mikið meira inn í þessa umræðu.

Ég tel hins vegar að það mál sem við erum með í höndunum og erum að ræða sé af hinu góða. Ég held að það sé einnig góð þróun að fólki sé boðið upp á endurfjármögnun sem bankarnir tóku upp með þeim með hætti sem þeir gerðu undanfarin missiri. Það er hins vegar ekkert launungarmál að þegar fólk endurfjármagnar lán sín er það venjulegast gert til að lækka greiðslubyrði og fólk hefur þá meira ráðstöfunarfé handa á milli. Það er auðvitað æskilegt en það væri líka æskilegt að eitthvað af því aukna ráðstöfunarfé sem fólk fær fari ekki allt í eyðslu. Það væri æskilegt að fólk notaði auknar ráðstöfunartekjur sínar að hluta til sparnaðar svo framarlega sem það ætti þess kost og hefði ráð á því.

Allt spilar þetta saman við stefnumálin almennt. Við ræddum áðan um skattamálin og ég hef oft nefnt að ég tel útþenslu ríkisstjórnarinnar í skattamálum að því er varðar að lækka sérstaklega skatta á hátekjur bjóða upp á aðferð sem ekki gagnist okkur til þess að viðhalda stöðugleika og sé þvert móti frekar til að auka óstöðugleika og reyndar einnig til þess gert að auka kaupmátt þeirra sem hafa alveg þokkalegan og góðan kaupmátt fyrir og er engin ástæða til að fara þannig í málin. Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast mjög þá stefnu ríkisstjórnarinnar þó að menn afsaki þetta ævinlega með því að sú ákvörðun hafi verið tekin fyrir löngu að lækka skatta á hátekjur og síðan að afnema þær. Ég tek auðvitað eftir því að verkalýðshreyfingin er sammála mér í því og þeir telja að það sé ekki rétt stefnumótun hjá ríkisstjórninni að fara í skattalækkanir með þeim hætti sem hún boðar.

Ég tel rétt eins og staðan er í þjóðfélaginu núna varðandi lánamarkaðinn að við reynum að flýta þessu máli ef hægt er en ég legg jafnframt áherslu á að menn vandi vel málsmeðferðina og fari gaumgæfilega yfir málið í nefndinni. Mér sýnist frv. hafa verið ágætlega unnið og að hægt sé að hæla hæstv. ráðherra fyrir að það virðist hafa verið skoðað vel miðað við þá greinargerð sem því fylgir. Ég lýsi einfaldlega yfir stuðningi míns flokks við málið og mun ræða það betur þegar það kemur úr nefnd eftir að hafa verið skoðað þar og tel að það eigi að fá eins fljóta en jafnframt vandaða meðferð og kostur er.



[14:43]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Síðastliðið sumar fékk Íbúðalánasjóður óvænta samkeppni og var ekki seinna vænna að kæmist á samkeppni í lánveitingum til einstaklinga. Þessi samkeppni er þess eðlis að veitt er mjög hátt hlutfall í lánveitingum og ekki er endilega verið að spyrja í hvað peningarnir fara og sú forsjárhyggjan sem er í gangi hjá Íbúðalánasjóði er ekki til staðar. Menn þurfa ekki endilega að taka fullt lán. Menn þurfa ekki endilega að taka þau til ákveðins tíma o.s.frv. Það er sem sagt komin miklu meiri og sveigjanlegri samkeppni við Íbúðalánasjóð. Hann rauk að sjálfsögðu upp til handa og fóta og frumvarpið sem við sjáum í dag er afleiðingin þess að Íbúðalánasjóður er í rauninni að reyna að bjarga eigin skinni í þessari samkeppni. Þó að hann sé enn þá með eitthvað ívið lægri vexti held ég að stóraukin þjónustulund samkeppnisaðilanna á markaðnum geri honum mjög erfitt um vik.

Menn hafa rætt talsvert mikið um hvort þessi nýju lán séu ekki þensluhvetjandi og það er ekki spurning að þau verða það að einhverju leyti. Ég skipti þeim hópi manna sem fær þarna minni greiðslubyrði í tvennt. Ég hef séð greiðslubyrði sem hefur lækkað um allt að helming hjá þeim sem eru í miklum vandræðum, en hvað gera þeir við afsláttinn? Sumir eru í þeirri stöðu að þeir eru að sigla beint í gjaldþrot, því miður allt, allt of margir, eins og fréttir hafa borið með sér. En ef þeim er forðað frá gjaldþroti með því að þeir ráða við greiðslurnar þá er það mjög jákvætt og kannski ein jákvæðasta niðurstaðan af þessari samkeppni. Þeir munu ekki auka eyðslu sína, þeir munu auðvitað bara borga eins og þeir geta þannig að sá hópur mun ekki valda þenslu. Svo er það sá hópur sem ræður við núverandi greiðslubyrði og fær allt í einu jafnvel helmingslækkun. Hvað gerir hann við peningana sem hann hefur þá til ráðstöfunar? Menn hafa bent á og kannski með réttu að margir muni auka eyðsluna, kaupa sér bíl, fara í utanlandsferðir, taka aukin lán upp í greiðslubyrðina sem þeir geta ráðið við, og það er ákveðin hætta. Við slíkt fólk vil ég segja að 90% lánveiting er mjög hættuleg, ég kem betur inn á það á eftir, og menn ættu að huga betur að því að auka hraða eignamyndunar, þ.e. að borga niður skuldir eða jafnvel að mynda sparnað. Þeir sem aldrei hafa átt peninga í banka ættu að reyna að ímynda sér það hversu huggulegt það er og unaðslegt að eiga kannski 2, 3 milljónir í banka til að grípa til ef eitthvað bjátar á svo sem veikindi, atvinnuleysi, skilnaður eða fleira þannig að menn séu ekki algerlega berskjaldaðir fyrir áföllum. En það sem menn ættu fyrst og fremst að gera er að nota þessa auknu greiðslugetu til að auka sparnað eða greiða niður skuldir.

Menn hafa líka rætt hér um landsbyggð og höfuðborgarsvæði og menn reyna alltaf að stilla þessu upp sem einhverjum andstæðum. Það er ekki þannig. Ég tek undir með hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni, þingmanni Austurlands, sem sagði að við ættum frekar að tala um virk og óvirk svæði, þ.e. virk svæði þar sem eignir eru seljanlegar, þar er auðvelt að lána alveg sama hvar sú eign er, hvort sem hún er á Reyðarfirði, í Reykjavík eða í Keflavík, og hins vegar svæði sem eru óvirk þar sem getur verið ákveðin hætta fólgin í því að lána vegna þess að lánveitandinn getur hugsanlega eignast eignina og ekki losnað við hana aftur. Það getur verið ákveðið vandamál. En ég held að miðað við þá þjónustulund sem þessir aðilar sýna á höfuðborgarsvæðinu og þá miklu peninga sem þeir hafa í höndunum og þurfa að koma í vinnu muni þeir leita út á landsbyggðina, þ.e. út á virk svæði þar, ekki síður en til Reykjavíkur.

Auðvitað vantar þá oft og tíðum staðbundna þekkingu vegna þeirrar miðstýringar sem var á lánamarkaðnum á Íslandi, hann var mjög miðstýrður og öll þekkingin liggur í Reykjavík. Þá kemur kannski að því að veita útibúum og sparisjóðum úti á landi aukið vægi í lánveitingum, þeim aðilum sem hafa staðbundna þekkingu, sem vita að þessi eign er handónýt og hin er mjög góð, að Jón borgar alltaf allar sínar skuldbindingar og Gunnar borgar aldrei neitt. Það er slík staðbundin þekking sem er mjög mikilvæg þegar menn stunda lánveitingar.

Það sem ég vil benda á í þessu sambandi og lítið hefur komið fram eru gæði útlána. Þegar menn eru farnir að lána 80% af kaupverði fasteignar eða verðmætis má lítið út af bera þannig að eignin fari í mínus, að einstaklingurinn skuldi meira en hann á. Einungis 10% verðlækkun á fasteignaverði getur valdið því. Fasteignir eru vara sem hægt er að framleiða og verið er að framleiða núna á höfuðborgarsvæðinu óhemjumikið af fasteignum þannig að þessi hækkun á fasteignum heldur nokkuð örugglega ekki áfram og það kann að koma ákveðin lækkun á fasteignum eins og gerst hefur á hlutabréfum þar sem lækkunin var heil 20% eða nálgaðist það þegar verst lét en hefur reyndar gengið til baka. Þá gæti það hæglega gerst að fasteignir lækki um 10% og það ættu menn að hafa mjög alvarlega í huga þegar þeir eru að veðsetja og taka lán allt að 90%. Þetta þurfa einstaklingar að hafa í huga og þetta þurfa lánveitendur sérstaklega að hafa í huga, þeir þurfa að treysta mjög vel á lántakann þegar þeir lána slíkt, og það gæti orðið mjög hættulegt fyrir lánastofnanir í landinu ef almenn lækkun yrði á fasteignaverði.

Ég get ekki látið hjá líða að geta um umsögn fjármálaráðuneytisins. Það var mjög skemmtilegt að sjá í frumvarpinu að þar kemur fram mat á áhrifum frumvarpsins á kostnað sveitarfélaga. Það er samkvæmt nýju samkomulagi sem gert hefur verið og er mjög til bóta. Væri skemmtilegt, frú forseti, að sjá líka umsögn um kostnað atvinnulífsins eða einstaklinga af frumvörpum. Það kemur vonandi í framtíðinni að farið verði að meta það hvað t.d. eftirlitsiðnaðurinn kostar fyrirtæki og einstaklinga.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki minnst einu orði á þær gífurlegu skuldbindingar sem gætu myndast hjá Íbúðalánasjóði ef vextir í landinu lækkuðu nú almennilega mikið, ef raunvextir færu niður í 2%. Þá væri Íbúðalánasjóður með feiknarlegar skuldbindingar, hundruð milljarða í lánum sem eru með föstum vöxtum sem honum ber að greiða og eru með ríkisábyrgð. Þetta hefur ekki verið rætt og þetta kemur ekki fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, en gæti skipt milljörðum eða milljarðatugum ef vextir í landinu lækka, og ég sakna þess í umsögn fjármálaráðuneytisins að sú áhætta er til staðar.



[14:51]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál og þær góðu undirtektir sem það hefur undantekningarlítið fengið hjá þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Hér hefur að sjálfsögðu margt verið reifað og inn á marga hluta málsins komið og ég ætla, hæstv. forseti, að snerta á flestu af því sem hér hefur verið rætt.

Í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kom fram við upphaf umræðunnar spurning um hvort menn hefðu velt fyrir sér hvernig háttað væri endurfjármögnun banka og sparisjóða á þeim lánum sem þeir nú, góðu heilli, bjóða á húsnæðislánamarkaðnum og ég ítreka að ég fagna framboði þeirra á markaðnum. Sá er hér stendur hefur ekki haft frumkvæði að slíkri athugun enda kannski varla á mínu verksviði en þó vil ég, með leyfi forseta, vitna til nýlegs álits Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fjallar m.a. um breytinguna á húsnæðislánamarkaðnum. Í sjálfu sér má segja að í áliti hans komi ekkert nýtt fram hvað varðar Íbúðalánasjóð og álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á starfsemi hans en það vekur athygli að sjóðurinn varar við þeirri hættu sem skapast þegar bankar og sparisjóðir fjármagna langtímalán í formi íbúðalána á lágum vöxtum með skammtímalánum og erlendum lántökum með tilheyrandi gengisáhættu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við því ójafnvægi sem myndast milli meðallíftíma eigna og skulda í efnahagsreikningi fjármálastofnananna við þær aðstæður.

Svipaðan tón mátti heyra í máli forstjóra Fjármálaeftirlitsins á ársfundi þess í gær þar sem forstjórinn sagði, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið telur brýnt að þeir viðskiptabankar og sparisjóðir sem bjóða upp á þessi lán hugi vel að áhættustýringu og áhættustöðu sinni vegna þessarar nýju og auknu starfsemi. Svör við ítarlegri upplýsingabeiðni um þetta gefa til kynna að í sumum tilvikum hafi verið ítarlega farið yfir áhættustýringu í þessu sambandi. Í öðrum tilvikum er ljóst að ekki hefur verið hugað nægilega vel að fjármögnun lánanna í upphafi eða arðsemi þessara lána að teknu tilliti til þátta eins og afskrifta, rekstrarkostnaðar og annarra tekna. Brýnt er að Íbúðalánasjóður undirbúi sig vel undir breytta tíma þar sem hann er ekki lengur einn á þessum markaði. Nýlegar breytingar á fyrirkomulagi starfsemi hans og breyttar markaðsaðstæður kalla á miklu nákvæmari áhættufjárstýringu en áður. Fjármálaeftirlitið mun fylgjast vel með framvindunni en með lagabreytingum á þessu ári fellur Íbúðalánasjóður nú að fullu undir eftirlit þess.“

Þetta finnst mér ástæða til að komi hér fram, hæstv. forseti.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr líka um það hvort félagsmálaráðherra hafi haft frumkvæði að athugun Seðlabankans á áhrifum af lánum bankanna og þeirri breyttu stöðu sem nú er upp komin. Því er til að svara að ég hef gert það. Ég hef fært það í tal við forsvarsmenn Seðlabankans að nauðsynlegt sé að slíkt álit fari fram, slík vinna fari fram, slík athugun eigi sér stað og tel brýnt að það verði gert.

Sömuleiðis er því til að svara hv. þingmanni að að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að félagsmálanefnd fái aðgang að því áliti sem Seðlabankinn vann fyrir félagsmálaráðuneytið varðandi þær hugmyndir sem liggja til grundvallar því frumvarpi sem við fjöllum hér um þó að segja megi, hæstv. forseti, að það álit sé að mörgu leyti úrelt því að það fór fram áður en sú breytta staða varð uppi á húsnæðislánamarkaði sem nú er orðin staðreynd.

Til þess að taka af öll tvímæli vil ég líka svara hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur afdráttarlaust um það að þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að strax um áramót, ekki síðar, eða við gildistöku laganna, verði Íbúðalánasjóði heimilt að lána allt að 90% af kaupverði hóflegs íbúðarhúsnæðis.

Hér hefur þingmönnum orðið talsvert tíðrætt um hámarkslánið og hvers vegna það eigi ekki að hækka hraðar og meira. Um það má, hæstv. forseti, eflaust endalaust deila. Ég vil þó undirstrika það að hámarkslán Íbúðalánasjóðs hefur hækkað mikið á þessu ári. Það hefur hækkað úr 8 millj. vegna notaðs húsnæðis og 9 millj. vegna nýrra húsnæðis í 11,5 millj. hvort tveggja. Frumvarpið sem við ræðum nú gerir ráð fyrir að það verði 13 millj. um áramótin og haldi síðan áfram að hækka á kjörtímabilinu.

Það er hins vegar afar mikilvægt, eins og komið hefur fram í umræðunni hvað eftir annað í dag, hæstv. forseti, að hámarkslán Íbúðalánasjóðs taki mið af þeim aðstæðum sem eru á húsnæðislánamarkaðnum þannig að honum verði gert kleift að uppfylla markmið sín. Við höfum skilgreint það svo að það sé að veita öllum almenningi aðgang að 90% lánum vegna meðalhúsnæðis upp að ákveðnu hámarki.

Hv. þm. spurði líka hvort ráðherra hefði viljað ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir og svarið við því er nei. Ég tel að þarna sé farið fram af skynsemi og hófsemd og síðan, eins og áður sagði, hæstv. forseti, þarf að meta stöðuna eftir því sem henni vindur fram.

Hv. þm. spurði um viðbótarlánin og hvort farið hefði fram athugun á því hvort hagkvæmara væri að vera í gamla kerfinu, þ.e. því kerfi sem var við lýði um síðustu áramót, eða hinu sem hér er boðað. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, formaður félagsmálanefndar, rakti áðan sparast strax á fyrsta ári við breytinguna hjá þeim sem tekur hámarkslán í nýja kerfinu nokkrar þúsundir króna þrátt fyrir hærri lántökukostnað. Eftir það er sparnaðurinn um 90 þús. kr. á ári þau 39 ár sem eftir eru af lánstímanum þannig að það sést auðvitað, hæstv. forseti, að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson rakti í máli sínu aðkomu og athugasemdir bankanna að þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar því máli sem við ræðum hér. Það er auðvitað rétt sem þingmaðurinn rakti að bankarnir hafa snúið við blaðinu. Í bréfi sem þeir rituðu félagsmálaráðuneytinu 4. júní í fyrra hafa þeir uppi allnokkur varnaðarorð og segja að þær hugmyndir sem þar voru uppi geti leitt til hækkaðs fasteignaverðs, geti leitt til hækkunar verðtryggðra vaxta, ýti undir verðbólgu, það sé eðlilegt að lánshlutfallið hækki ekki eða a.m.k. mun minna vegna lána til dýrara húsnæðis og þannig mætti áfram telja. En bankarnir hafa nú snúið við blaðinu og tekið þá ákvörðun að taka virkan þátt í samkeppninni á þessum markaði og það er vel.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson og sömuleiðis hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fjölluðu um stöðu annarra á húsnæðislánamarkaði en þeirra sem eiga kost á að eignast eigið húsnæði. Ég rakti í máli mínu í morgun, hæstv. forseti, að nefnd sem fjallaði sérstaklega um um biðlista eða bið eftir félagslegu húsnæði og stöðu leiguhúsnæðismarkaðarins hefur komist að þeirri niðurstöðu að tekjulægstu hóparnir í samfélaginu þurfi væntanlega á frekari aðstoð að halda til að standa undir leigugreiðslum á almennum markaði. Þar kemur ýmislegt til álita, m.a. sérstakar húsaleigubætur og stofnstyrkir til sérhópa á borð við öryrkja, aldraða og námsmenn. Við munum skoða það í framhaldi af þessu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist sömuleiðis á húsnæðismál geðfatlaðra. Það er út af fyrir sig sérmál sem er til umfjöllunar sameiginlega hjá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Ég vonast til að við getum kynnt um þau ákveðna áætlun á næstu mánuðum.

Hv. þm. Böðvar Jónsson undirstrikaði í þessari umræðu, sem mér finnst ástæða til að gera líka, hæstv. forseti, að samstaða er um málið milli stjórnarflokkanna. Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála. Sömuleiðis get ég vitnað til ummæla hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, frá því í sumar. Hann sagði, og ég tek undir það, að sú staða sem uppi er á húsnæðislánamarkaði undirstriki enn frekar nauðsyn þess að við viðhöldum sterku húsnæðislánakerfi með Íbúðalánasjóð í fararbroddi.

Umræðan um varasjóð viðbótarlána fer nú fram milli félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í umræðunni hefur verið komið inn á hlutverk sveitarfélaganna í húsnæðiskerfinu.

Katrín Júlíusdóttir rakti í máli sínu að innkoma bankanna á húsnæðislánamarkað hefði ýtt við ríkisreknu bákni. Hið sama mátti merkja af máli hv. þm. Péturs Blöndals. Nú ætla ég ekki að deila um, hæstv. forseti, hvort kom á undan hænan eða eggið. Í öllu falli er ljóst að sú þróun sem orðið hefur á húsnæðislánamarkaðnum í sumar hefur ekki síst orðið vegna þeirra hugmynda sem liggja til grundvallar því frumvarpi sem við ræðum hér, breyttrar fjármögnunar Íbúðalánasjóðs með lækkun vaxta til hagsbóta fyrir fjölskyldurnar í landinu. Allt er það af hinu góða.

Hv. 3. þm. Norðaust., Kristján Möller, gerði að umtalsefni vinnureglur Íbúðalánasjóðs sem gera ráð fyrir því að ef kaupverð húsnæðis fer verulega fram úr fasteignamati hringi viðvörunarbjöllur og viðeigandi mál sé kannað. Ég tel það eðlilega varnaðarráðstöfun. Það er fráleitt svo að í hverju tilviki á landsbyggðinni séu fasteignasalar fengnir til þess að meta viðkomandi fasteignaviðskipti en það er eðlilegt að hjá Íbúðalánasjóði, eins og öðrum lánastofnunum, viðhafi menn ákveðna varúðarreglu ef fasteignaviðskiptin eða verðgildi kaupsamninganna fer langt fram úr því sem venjulega gerist á viðkomandi svæði.

Hv. þm. Hilmar Gunnlaugsson gerði regluna um 1. veðrétt að umtalsefni og raunar sömuleiðis hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Það er rétt að minna á að bankarnir gera sambærilega kröfu varðandi sín lán. Við búum við virka samkeppni á þessum markaði og það er ekki óeðlilegt að hún leiði til ákveðinna breytinga í samskiptum bankanna og Íbúðalánasjóðs. Það er líka ástæða til að undirstrika að Eftirlitsstofnun EFTA hefur bent á að í nýju húsnæðislánakerfi orkaði tvímælis að Íbúðalánasjóður færi aftar í veðröðina en aðrir lánveitendur. Með því væri í raun verið að veita óbeina ríkisábyrgð á lánum annarra en Íbúðalánasjóðs. Reglan um fyrsta veðrétt er sömuleiðis undirstrikun þess að Íbúðalánasjóði er ætlað að sinna lánveitingum vegna kaupa á minna og meðalstóru húsnæði en ekki hinum verðmeiri eignum, a.m.k. ekki þegar kemur að 90% lánshlutfalli.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi hér í máli mínu snert á flestu því sem fram hefur komið í umræðunni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um stimpilgjöldin. Ég tek undir með hv. þm. Böðvari Jónssyni hér í umræðunni að stimpilgjöldin séu aftar í forgangsröðinni en þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað að hún muni ganga til þótt vissulega megi færa haldbær rök fyrir því að þar sé um skattlagningu að ræða sem ástæða væri til að skoða. Þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur boðað og varða m.a. lækkun tekjuskatts, hækkun barnabóta, eignarskattslækkun og þar fram eftir götum eru hins vegar framar í röðinni þegar kemur að því að ákveða hvernig við viljum ráðstafa þeim góða árangri sem hefur náðst við rekstur ríkissjóðs undir forustu þeirrar ríkisstjórnar sem hér fer með völd.



[15:06]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað að láta mér nægja andsvör en tel, miðað við það sem fram kom hjá ráðherra, að ég þurfi heldur lengri tíma þótt ég ætli ekki að teygja lopann í þessu máli. Ég vil þakka ráðherra fyrir svörin sem hann reyndi af bestu samvisku að svara en ég þarf ýmislegt að ítreka við hann eftir að hafa hlýtt á mál hans.

Varðandi viðbótarlánin þá gerir hæstv. ráðherra ekki mikið úr því að eftir þessa breytingu þurfa þeir sem hafa fengið viðbótarlán, eða hefðu fengið þau ef þetta frumvarp hefði ekki verið lagt fram og yrði óbreytt að lögum, að greiða fullt stimpilgjald sem þeir ekki þurftu að gera áður og greiða 1% lántökugjald. Ráðherrann bendir á að sparnaður viðkomandi við þessa breytingu sé verulegur en hæstv. ráðherra verður að líta til þess varðandi vaxtalækkunina úr 5,3% í 4,3%, að vextirnir hefðu lækkað þótt þetta frumvarp hefði ekki komið fram. Vextir á viðbótarlánunum hlutu að lækka niður í 4,3%.

Ég bendi á það að fyrir nokkrum mánuðum, sennilega á fyrri hluta þessa árs, voru vextir úr útboðum húsnæðisbréfa vegna viðbótarlána komnir niður í 4,28%. Ætlaði ráðherrann þá virkilega að halda þessum vöxtum í 5,3% eins og þeir voru, miðað við að vextir í útboði á húsnæðisbréfum voru 4,28%? Það er ekki hægt að telja það sem sérstakan sparnað hjá fólki við þessa breytingu.

Mér fannst ráðherrann ekki svara því um lántökugjaldið hvort hann væri tilbúinn að lækka það niður í hálft prósent t.d., úr einu prósenti í hálft prósent, til að vega upp á móti stimpilgjöldunum sem fólk þarf að fara að borga en greiddi ekki áður og það að fólk þarf að greiða 1% lántökugjald í staðinn fyrir hálft prósent áður, þ.e. þeir sem voru innan tiltekinna tekjumarka til að geta fengið viðbótarlán.

Ég ítreka því spurningu mína um viðbótarlánið og finnst ekki hægt að bera fyrir sig að verulegur sparnaður verði hjá fólki vegna vaxtalækkunarinnar. Vaxtalækkunin hlaut að verða engu að síður þó að þessi breyting hefði ekki orðið. Staðan á lánamarkaðnum er slík að vextir í útboði húsnæðisbréfa gáfu tilefni til þess að lækka vexti á viðbótarlánum miklu fyrr en gert var.

Mig langar að fara aðeins út í álit Seðlabankans. Ráðherra upplýsti að hann hefði leitað álits Seðlabankans og það hefði legið fyrir áður en staðan breyttist á fasteignamarkaðnum. Var ekki ástæða til að leita álits Seðlabankans á nýjan leik eftir þessa breyttu stöðu, eftir innkomu bankanna á lánamarkaðinn? Staðan er gjörbreytt og ætla má að álit Seðlabankans sé allt annars eðlis eftir þá breytingu.

Ég hef nefnt það, og ég heyri ekki að ráðherra mótmæli því, að það mundi ekkert breytast fyrir þensluna í þjóðfélaginu að hækka hámarksupphæðina meira en ráðherrann ætlar sér vegna þess að það eina sem gerist er að bankarnir fá ella meiri hlutdeild í fasteignaviðskiptunum. Þenslan verður ekkert meiri og ég vísa því á bug sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, að það væri einhver tvískinnungur í málflutningi Samfylkingarinnar út af því að við vildum hækka hámarksfjárhæðirnar í húsnæðislánum. Hvað vakir fyrir okkur? Að standa vörð um stöðu Íbúðalánasjóðs vegna þess að hann þarf að vera til a.m.k. í einhvern tíma í viðbót þótt það sé ekki meginmarkmið, meðan bankarnir eru að sanna það að lág vaxtakjör í fasteignaviðskiptum séu til frambúðar?

Við erum ekki að tala um aukna þenslu á markaðnum, ég vil ítreka það út af orðum hæstv. forsætisráðherra, þótt við leggjum til að hækka hámarksfjárhæðina. Við viljum fyrst og fremst að passa upp á tilveru Íbúðalánasjóðs sem þarf að vera til til hagsbóta fyrir landsmenn meðan við sjáum hverju fram vindur í þessum málum. Ég óttast það mjög, og hygg að það eigi eftir að koma á daginn, að hlutur bankanna í fasteignaviðskiptum eigi eftir að vaxa meira vegna þess hve hægt er hér farið í sakirnar.

Hæstv. ráðherra nefndi að hann muni halda áfram að hækka hámarksfjárhæðina á kjörtímabilinu. Hann er búinn að upplýsa um áform sín um áramótin. En hver er framtíðin í þeim efnum? Hvaða áætlun liggur fyrir um hækkun á þeim hámarksfjárhæðum? Það er nauðsynlegt að við sem eigum að fjalla um þessi mál í félagsmálanefnd og í þinginu fáum að vita um áform ráðherra í þessu efni. Það skiptir verulegu máli við að leggja mat á stöðuna.

Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að hann segir að hann sé sáttur við að nema staðar við 11,5 millj. kr. núna og svo um 13 millj. kr. um áramótin: Telur hann að með breytingunum, þessum fjárhæðum, þessum hámarksfjárhæðum, sé Íbúðalánasjóður að fylgja þróun á markaði? Svar mitt við því er nei. Meðalverð á íbúðum var 17,5 millj. kr. nú í október og ekki hægt að fá fyrir þessar 13 millj. kr., sem eiga að koma um áramótin lán hjá Íbúðalánasjóði, nema fyrir góðri þriggja herbergja íbúð. Það er ekki að halda í við þróunina á markaði.

Ég er ekki að tala um það að Íbúðalánasjóður eigi að fara að lána fyrir stórum einbýlishúsum upp á 20–30 millj. kr. Ég er að tala um það að Íbúðalánasjóður geti þegar verið samkeppnisfær að því er varðar fjögurra herbergja íbúðir og kannski minni raðhús, geti kannski lánað 90% af eignum sem kosta um 18 millj. kr. Það eru að vísu engin raðhús en a.m.k. góðar íbúðir í fjölbýli. Hér er því ekki fylgt eftir þróuninni á markaði eins og mér fannst hæstv. ráðherra nefna áðan að væri markmiðið með frumvarpinu.

Ég vil líka spyrja ráðherrann út í gildistökuna, ég nefndi það einnig áðan: Er ráðherra fylgjandi því — af því að hér stendur formaður félagsmálanefndar — að við setjum okkur það vinnumarkmið í félagsmálanefnd að frumvarpið geti tekið gildi 1. desember? Allt skiptir þetta máli fyrir samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

Ég vil líka spyrja, af því að hæstv. ráðherra nefndi það ekki, en ég viðraði í máli mínu áðan áhyggjur mínar af því hvernig fasteignaverð er að blása upp og greiningardeildir bankanna spá enn meiri hækkun á næsta ári, 10–12% hækkun til viðbótar: Óttast ráðherra það ekki og hefur hann engar áhyggjur af því fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn, að auknir möguleikar á lánamarkaði, hærri lán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði, hverfi bara í hækkun á fasteignaverði og því fylgi verri skuldastaða og aukin greiðslubyrði viðkomandi einstaklinga? Það er út af fyrir sig ekki eins slæmt fyrir þá sem eru að skipta um eignir. Þeirra eignir hækka þá samhliða, nema að vísu sérbýlin og einbýlishúsin en verð á þeim virðist núna á fljúgandi ferð.

Ungt fólk sem er að koma inn á markaðinn í fyrsta sinn og festir kaup á sinni fyrstu íbúð tekur hærri lán en það þurfti fyrir ári síðan til að kaupa samsvarandi íbúð. Hækkun á lánshlutfallinu og auknir lánamöguleikar hverfa því í hækkun á fasteignaverði hjá ungu fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Hefur ráðherrann engar áhyggjur af því?

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég hef áhyggjur af stöðu leiguíbúða og biðlistarnir hafa lítið grynnkað að því er varðar leiguíbúðir hjá sveitarfélögum og félagasamtökum. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær má vænta þess að við sjáum aðgerðir fyrir þá sem verst standa á húsnæðismarkaðnum, fólkið sem hefur lítið milli handanna og á enga möguleika aðra en að fá leiguíbúðir hjá sveitarfélögum eða félagasamtökum? Þar erum við að tala um námsmenn, einstæða foreldra, fólk sem þarf að lifa kannski af 100 þús. kr. á mánuði eða rétt þar um og fer með stærsta hlutann af tekjum sínum, kannski ¾ , í leigu á almenna markaðnum. Ég spyr: Hvenær má þetta fólk vænta úrlausna hjá hæstv. ráðherra? Munum við fljótlega sjá frumvarp um þau mál á þinginu sem við gætum afgreitt fljótt og vel til að bæta hag þeirra sem þurfa að vera á leigumarkaði og ráða hvorki við leiguna á almenna markaðnum né að eignast sjálft þak yfir höfuðið?



[15:16]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir spurningar hennar.

Fyrst vil ég koma að umræðunni um þróun vaxta í húsnæðislánakerfinu og stöðu þeirra sem þurftu á viðbótarláni að halda. Annars vegar í því kerfi sem hefur verið við lýði til þessa og hins vegar í kerfinu sem við leggjum til að verði samþykkt í þessu frumvarpi.

Eins og ég kom inn á fyrr í máli mínu, hæstv. forseti, þá er það þannig að þeir sem hefðu tekið hámarkslán í hinu fyrra kerfi, 13 millj. kr. á þeim vöxtum sem þá voru í boði, 5,1% vegna almenna lánsins og 5,3% vegna viðbótarlánsins, hefðu á fyrsta árinu — með lægri lántökukostnaði en hér er gert ráð fyrir — greitt 12 þús. kr. meira en þeir gera á fyrsta árinu samkvæmt hinu nýja kerfi. Í 39 ár eftir það borga þeir 90 þús. kr. minna á ári. Ég tel að það sé ekki hægt að taka skýrara dæmi um hvaða áhrif þær breytingar sem nú eru að verða á húsnæðislánamarkaðnum fyrir frumkvæði og forustu ríkisstjórnarinnar hafa fyrir fólkið í landinu. (JóhS: Hefðu vextir ekki lækkað þrátt fyrir þessar breytingar?)

Síðan kemur hv. þm. og segir að þetta hefði allt saman gerst hvort eð var. Það gerist ekkert í þessu lífi af sjálfu sér. Þetta er afleiðing þeirra breytinga sem þingið samþykkti í sumar, breytinga á lögum um fjármögnun Íbúðalánasjóðs, sem hefur leitt af sér mun lægri vexti í þessu kerfi.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að frá því að sá er hér stendur tók við keflinu í félagsmálaráðuneytinu hafa vextir af viðbótarlánum lækkað úr 5,7% í 4,3%. Halda menn að það gerist af sjálfu sér og það sé bara eitthvað sem komi með vindinum? Það gerist vegna skýrrar stefnumörkunar og vegna þess að ríkisstjórnin ber hag fólksins í landinu fyrir brjósti.

Hv. þm. spurði eftir áliti Seðlabankans og ég hygg að ákveðins misskilnings gæti í því, hæstv. forseti. Ég leitaði eftir áliti Seðlabankans á sínum tíma á þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar þessu máli. Það álit liggur fyrir, félagsmálanefnd mun að sjálfsögðu fá það. Ég hef þegar óskað eftir því við Seðlabankann að hann meti nú áhrif þessa nýja lánaframboðs bankanna og við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess.

Í dag hefur ítrekað verið spurt, hæstv. forseti, hvort of hægt sé farið í sakirnar við hækkun hámarkslánsins. Hv. þm. spyr: Hvað ber framtíðin í skauti sér, hvað á að fara hátt, fylgir sjóðurinn markaðnum? Ég tók það skýrt fram í máli mínu fyrr í dag, hæstv. forseti, að það er auðvitað mjög mikilvægt að hámarkslánið þróist með tilliti til aðstæðna á markaði þannig að sjóðnum verði kleift að sinna því markmiði sínu að lána 90% af meðalverði hóflegs íbúðarhúsnæðis. En þegar talað er um meðalverð húsnæðis þá erum við ekki að tala um verð á stórum eignum og ég hygg að við séum sammála um það, ég og hv. þm., að það er ekki endilega hlutverk Íbúðalánasjóðs að lána 90% af kaupverði dýrustu eignanna.

Hæstv. forseti. Rétt í lokin vil ég nefna varðandi leiguíbúðirnar og þá hópa sem þar eru kannski sérstaklega til umfjöllunar eins og aldraða, námsmenn og öryrkja, að sú nefnd sem ég fól að fara yfir þau mál, með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila, aðila vinnumarkaðar, námsmanna og fleiri, er rétt núna að skila af sér niðurstöðum sínum. Við þurfum að sjálfsögðu einhvern tíma til að fara yfir þær, meta og taka afstöðu til hverju við viljum fylgja eftir í tillögunum. En ég vonast til þess, hæstv. forseti, að á næstu mánuðum takist að vinna úr þeim tillögum sem þar koma fram.



[15:21]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af einhverjum ástæðum svarar hæstv. ráðherra ekki öllum spurningunum sem ég lagði fyrir hann. Ég nefndi gildistökuna, breytinguna á henni, ég kallaði eftir skoðun ráðherrans á þeirri hækkun sem hefur orðið á fasteignaverði og því sem spáð er hér á næsta ári. Ég nefndi áhyggjur mínar varðandi ungt fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn, hvernig allir þessir auknu lánamöguleikar hverfa inn í hækkun á fasteignaverði. Ég nefni líka, virðulegi forseti, að ráðherrann talar ekkert um eða sýnir nein viðbrögð við því sem ég nefndi varðandi lántökugjaldið, hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir lækkun á lántökugjaldi á móti því að fólk sem áður fékk viðbótarlán þarf nú að fara að greiða fullt lántökugjald, 1%, og líka stimpilgjald.

Varðandi vaxtalækkunina á viðbótarlánunum þá er það svo, virðulegi forseti, að útboð húsnæðisbréfa vegna viðbótarlána voru komin niður í 4,28% áður en frumvarpið sem hæstv. ráðherra er að vísa í var lögfest. Á markaðnum voru vaxtakjörin með þeim hætti að hægt var að lækka viðbótarlánin miklu fyrr og það var alveg óháð þeim breytingum sem urðu á lögunum á sl. vori. Það liggur fyrir.

Mér finnst því ráðherra enn þá skulda upplýsingar um hvort hann sé tilbúinn að lækka lántökugjaldið sem ég held að mundi gera mjög mikið til þess að bæta fólki sem áður bjó við lægra lántökugjald og stimpilgjald þetta upp.

Ég vil segja að mér finnst forgangur ráðherra sem hann nefndi hér fyrr í máli sínu afar sérstakur. Hann telur að það eigi heldur að lækka skatta á hátekjufólki með 4% tekjuskattslækkun sem nýtist helst þeim sem betur hafa það, en að afnema stimpilgjöldin.



[15:23]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga ef félagsmálanefnd gengur svo vasklega til verks sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kallar hér eftir, að gildistaka þessara laga verði fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég væri því manna fegnastur.

Hvað varðar hækkun fasteignaverðsins þá er það rétt sem hv. þm. hefur rakið hér í máli sínu að því er spáð að fasteignaverð muni halda áfram að hækka. Það er hins vegar vert að árétta, hæstv. forseti, að fasteignaverð hér á höfuðborgarsvæðinu hefur farið mjög hækkandi á undanförnum missirum og árum án tillits til þeirra hugmynda sem uppi hafa verið um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Sú þróun var byrjuð löngu áður en þær voru fyrst reifaðar og er í nokkru samræmi við það sem gerist á viðlíka svæðum í löndunum í kringum okkur.

Hvað lántökugjaldið varðar, hæstv. forseti, þá rakti ég það hér með skýrum hætti í máli mínu áðan. Á fyrsta ári í hinu nýja kerfi hækkar lántökugjaldið í eitt skipti um 70 þús. kr. Í 39 ár þar á eftir borgar sá sem tekur hámarkslánið 90 þús. kr. minna á ári. Þarna erum við annars vegar að tala um 70 þús. kr. í hærra gjald, hins vegar um 3,5 millj. kr. á föstu verðlagi í lægri greiðslubyrði. Ég tel að þessi samanburður, hæstv. forseti, svari spurningunni mjög skýrt.



[15:25]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin en jafnframt lýsa vonbrigðum mínum með að hann opnar ekkert á þann möguleika að lækka lántökugjaldið á móti auknum kostnaði hjá þessu fólki. Okkur greinir greinilega á um hvort breytingin sé til fyrir hagsbóta fyrir fólk sem hefur haft viðbótarlán áður að fara inn í hið nýja kerfi.

Hæstv. ráðherra getur ekki mótmælt því að fyrir mörgum mánuðum síðan, sennilega u.þ.b. ári, var uppi sú staða að lækka vexti á viðbótarlánum niður í 4,3%, eins og þeir eru núna. Þetta frumvarp eða frumvarp ráðherrans frá síðasta þingi hafði því ekkert með það að gera.

Við munum auðvitað reyna að vinna þessu máli skjótan framgang í nefndinni en ég mun leita eftir samstöðu um að lækka lántökugjaldið og reyna að ná samstöðu um að hækka þessa hámarksfjárhæð sem ráðherrann stefnir verði 13 millj. Ég tel að það eigi að gera það vegna þess að ég ber hag sjóðsins fyrir brjósti líkt og ráðherrann. Ég tel að ég sé að ráðleggja honum vel með því að hvetja hann til þess að endurskoða afstöðu sína til þessarar hámarksfjárhæðar.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er álit Íbúðalánasjóðs, stjórnar sjóðsins og forustumanna, til hámarksfjárhæðarinnar? Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa leitað til stjórnar sjóðsins eða forustumanna stofnunarinnar um hvort það væri ásættanleg niðurstaða að fara í 11,5 millj. núna og svo 13 millj. um áramótin. Ég spyr að lokum um það, hæstv. forseti, hvort fyrir liggi álit Íbúðalánasjóðs varðandi hámarksfjárhæðina og hvort þeir væru fylgjandi þeim hugmyndum sem ég hef lagt fram í þessu efni, að við förum þegar í 16 millj. kr. þak á hámarksfjárhæð.



[15:27]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þessarar síðustu spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þá liggur það fyrir að af hálfu Íbúðalánasjóðs er lögð áhersla á, eins og ég hef rakið í máli mínu í dag, að sjóðnum verði gert kleift með hámarksláninu að vera virkur þátttakandi á húsnæðislánamarkaðnum hvað varðar lán allt að 90% til kaupa á hóflegu íbúðarhúsnæði. Hver sú krónutala á nákvæma að vera getur menn sjálfsagt greint á um bæði hér inni á hinu háa Alþingi og annars staðar.

En ég ítreka það sem ég hef þegar sagt að ég tel að við séum á réttri braut. Hámarkslánið hefur hækkað talsvert hratt á þessu ári, úr 8 og 9 millj. í 11,5. Það hækkar samkvæmt þessu frumvarpi í 13 millj. um áramótin og vilji er til að hækka það enn frekar áfram út kjörtímabilið þannig að sjóðurinn verði áfram virkur þátttakandi í lánveitingum til kaupa á húsnæði upp að hóflegu marki.