131. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2004.
textun, 1. umræða.
frv. GAK o.fl., 20. mál (sjónvarp, kvikmyndir o.fl.). — Þskj. 20.

[15:29]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um textun. Hér er að sjálfsögðu átt við textun myndefnis. Meginefni frumvarpsins markast í fyrstu tveimur greinum þess.

Samkvæmt 1. gr. er markmið laganna að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum sömu möguleika til fræðslu og afþreyingar og þeim sem eru heyrandi. Markmiðsgreinarnar ber að túlka rúmt og hin almenna regla laganna er sú að allt efni sem framleitt er og sent út eða dreift skuli veita heyrandi og heyrnarskertum sömu möguleika til að meðtaka og skilja efni.

Í 2. gr. er talað um gildissvið laganna sem er afmarkað. Samkvæmt henni skulu allar sjónvarpsstöðvar sem hafa leyfi samkvæmt útvarpslögum til sjónvarpsreksturs, kvikmyndaframleiðendur, kvikmyndahús, framleiðendur auglýsinga-, fræðslu- og kynningarefnis, myndbanda- og mynddiskaframleiðendur og aðrir þeir sem dreifa slíku efni sjá til þess að efnið sé textað. Dreifingaraðilum hér á landi ber að sjá til þess að efnið sé textað og tekur það m.a. til alls efnis sem framleitt er erlendis óháð tungumáli og sýnt eða dreift á Íslandi. Eigi skiptir máli hvort efnið er selt eða leigt. Sú mikilvæga takmörkun er þó á gildissviði laganna að þeim er aðeins ætlað að ná til þeirra sem framleiða, útvarpa eða dreifa á annan hátt efni í atvinnuskyni.

Eins og áður sagði er frumvarpi þessu ætlað að tryggja að heyrnarskertir og heyrnarlausir njóti þeirra mannréttinda að geta notið frétta-, upplýsinga-, fræðslu-, kynningar-, auglýsinga- og afþreyingarefnis til jafns við þá sem heyra. Einungis hluti þess efnis sem sent er út á sjónvarpsstöðvum eða aðgengilegt er á myndböndum og stafrænu formi er með íslenskum texta ef tungumálið er íslenska. Flestar erlendar kvikmyndir og erlent sjónvarpsefni er með íslenskum texta til að almenningur geti notið þess til fulls og þykir það sjálfsagt og eðlilegt. Heyrnarskertir og heyrnarlausir fá ekki notið þessa sjónvarpsefnis, kvikmynda eða myndbanda nema það sé textað.

Á Alþingi hafa textunarmál oft verið til umræðu og á 126. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun nr. 33/2001, um textun íslensks sjónvarpsefnis. Hins vegar virðist samþykkt Alþingis litlu hafa skilað í reynd. Efni líðandi stundar er að miklu leyti ekki textað og er það mjög bagalegt. Þá þarf einnig að hafa í huga að um tímabundnar fjárveitingar hefur verið að ræða til þessara þarfa.

Samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er talið að um 25 þús. manns séu meira og minna heyrnarskertir að einhverju leyti þannig að þeir nái ekki að heyra efni sjónvarpsins. Textun veitir fullkomið aðgengi að upplýsingum og eru það sjálfsögð mannréttindi og mikið jafnréttismál. Annars staðar á Norðurlöndum er textun innlends efnis sjálfsögð í rekstri sjónvarpsstöðvanna. Talið er að textun stuðli að bættri lestrargetu heyrnarskertra barna, unglinga og annarra sem eru í lestrarnámi eða eiga við lestrarörðugleika að stríða. Þá er textun mikilvægur stuðningur við nýbúa sem eru að læra málið. Það auðveldar þeim að skilja efnið geti þeir fylgst með skjátextanum jafnframt því sem þeir hlusta og sjá atburði.

Textun er atvinnuskapandi og gefur færi á nýjum atvinnumöguleikum. Hjá BBC í Bretlandi störfuðu t.d. sex starfsmenn við textun í byrjun en þeir eru núna 90, eða voru það árið 2002. BBC hefur verið í fararbroddi á þessu sviði í Evrópu á síðustu missirum og voru 78% af öllu efni breska ríkissjónvarpsins textuð á síðasta ári, þar á meðal íþróttafréttir, fréttir, þingmál og bíómyndir, og er ekki gerður neinn greinarmunur á því hvort um beina útsendingu er að ræða eða ekki. Frá árinu 1996 hefur textun á innlendu sjónvarpsefni aukist stöðugt. Þess má einnig geta að í Bretlandi voru samþykkt lög þess efnis að 50% innlends efnis yrðu textuð, og var gefinn átta ára aðlögunartími til að ná markmiðinu. Það á að hafa náðst í ár. Ekkert vandamál er að senda texta út í beinni útsendingu þar og eru t.d. allar beinar útsendingar frá breska þinghúsinu textaðar en nú er verið að vinna að nýrri tækni sem breytir tali í texta.

Íslendingar hafa sýnt að þeir eru fljótir að gleypa við allri nýrri tækni. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þeir gerðu það í þessu máli. Stór hópur gæti notið góðs af.

Rétt er að geta þess að á Norðurlöndunum hefur komið fram að fólk missir eitthvað af heyrninni um þrítugt en aldursviðmiðið var áður um fimmtugt. Ástæðan fyrir því er sú að nú verða unglingar fyrir stöðugt meira hávaðaáreiti sem gerir það að verkum að heyrnin skerðist fyrr á ævinni en áður. Ekki er til nein rannsókn sem hægt er að styðjast við þar sem ekki fór að bera á þessu fyrr en mjög nýlega en gera má ráð fyrir að sá hópur sem ekki heyrir í sjónvarpi fari stækkandi í framtíðinni, og aldursbilið mun breikka verulega. Því er mikilvægt að veita þessum hópi aðgengi, sem og þeim hópi sem fyrir er.

Ég tel að hjá þingmönnum sé fullur vilji til að koma textun í framkvæmd. Umræður um málið á síðustu þingum sýna það og sanna. Það sem stöðvað hefur málið er að einblínt hefur verið á Ríkisútvarpið, sjónvarp sem einu stöðina sem á að texta, hinum stöðvunum er það ekki skylt. Textun er illframkvæmanleg þrátt fyrir góðan vilja æðsta yfirmanns RÚV, þ.e. menntamálaráðherra, en það vantar sama metnað hjá undirmönnum hans. Textun þarf að setja í lög og gera jafnar kröfur til allra stöðva um að texta innlent sjónvarpsefni og veita þeim stuðning.

Hér kann að vísu að vera um nokkuð dýra fjárfestingu að ræða en ég tel að þeim peningum sem væri til þess varið væri vel fórnað. Nú tel ég kominn tíma til aðgerða af hálfu okkar hv. þm. og ég vona vissulega að sem flestir styðji þetta mál.

Nánar um efni frumvarpsins. Í 3. gr. er kveðið á um skyldu til textunar. Minni kröfur eru gerðar til efnis sem sýnt er beint (bein útsending) enda getur það stundum verið örðugt tæknilega. Hins vegar er gert ráð fyrir að aðilar skuli gera allt sem í þeirra valdi stendur til að texta efni jafnóðum, t.d. með aðstoð textavélar en þessi tækni er í stöðugri þróun. Ef ekki er unnt að texta efnið jafnóðum skal það endursýnt innan 48 klukkustunda með íslenskum texta. Í 3. mgr. 3. gr. er hins vegar kveðið á um undanþágu frá textun ef um er að ræða beint endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum þar sem ekkert er unnið með dagskrána að öðru leyti. Ef efnið væri hins vegar tekið upp og sýnt síðar í sjónvarpi, á myndbandi eða sem kvikmynd væri skylt að texta. Ákvæði þetta er sama efnis og 2. mgr. 8. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000.

Í 4. gr. er kveðið á um sérstakan fimm ára aðlögunartíma frá gildistöku laganna. Í samræmi við markmið laganna er stefnt að því að allt efni verði textað fimm árum eftir gildistöku þeirra. Gera verður ráð fyrir því að í upphafi fylgi aukinni textun nokkur kostnaðarauki og er því kveðið á um að ríkið leggi til fjármuni með stofnun Textunarsjóðs sem auðveldi fyrirtækjum að koma sér upp nauðsynlegum tækjabúnaði og þekkingu til að uppfylla markmið laganna. Komi nýir aðilar inn á markaðinn eftir gildistöku laganna skulu þeir uppfylla sömu kröfur og þeir sem fyrir eru þar sem þeir eru þá staddir í aðlögunarferlinu.

Í 5. gr. er kveðið á um stofnun Textunarsjóðs. Mjög mikilvægt er að nægileg fjárveiting fáist til sjóðsins svo markmið laganna náist. Gert er ráð fyrir að um tímabundið fjárframlag sé að ræða og að markaðsaðilar hafi náð að laga sig að breyttu umhverfi að loknum aðlögunartíma.

Í 6. gr. er kveðið á um viðurlög við brotum á lögunum en ráðherra er veitt heimild til að beita aðila þvingunarúrræði í formi dagsekta ef ekki er uppfyllt skylda um textunarhlutfall efnis.

Í 7. gr. er tekið fram að lögin skuli aðeins gilda um efni sem sent er út, framleitt eða dreift eftir gildistöku laganna. Eldra efni sem orðið hefur til er því ekki skylt að texta ef það hefur þegar verið framleitt eða því dreift. Eldra ótextað efni væri hins vegar skylt að texta ef senda ætti það út að nýju, hefja dreifingu á ný eða endurgera það. Gert er ráð fyrir að Textunarsjóður geti styrkt textun á eldra ótextuðu efni svo að hægt sé að gera það sem aðgengilegast heyrnarskertum og heyrnarlausum.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé verið að hreyfa ákaflega þörfu máli og eins og ég hef sagt áður treysti ég því að þetta þingmál fái góðan stuðning hv. þingmanna og að við vonandi ljúkum því á þessu hv. þingi og setjum lög um aðgengi heyrnarskertra og aukna möguleika þeirra með textun myndefnis.



[15:40]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. 1. flutningsmanni að hér er um afar þarft mál að ræða. Ég vil meina að hér sé um mannréttindamál að ræða og ég tel að Frjálslyndi flokkurinn njóti þess að hafa nú innan vébanda sinna og í sinni forustu hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur sem hefur auðvitað komið svo um munar skriði á þau mál sem varða málefni heyrnarlausra á hinu háa Alþingi.

Málum textunar myndefnis hefur samt sem áður verið hreyft nokkuð oft í þessum sal. Við þingmenn höfum reynt aftur og aftur að efla möguleika heyrnarlausra á því að fylgjast með myndefni, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum. Má segja að afar hægt hafi gengið í þeim efnum, jafnvel þó að ævinlega hafi vilji virst vera til staðar hjá ríkisstjórninni að gera bragarbætur. Það segir manni bara eitt, nefnilega að það er nauðsynlegt að setja textun á sjónvarpsefni og myndefni í lög. Ég er sannfærð um að mál af þessu tagi nýtur mjög mikils stuðnings í þessum þingsal sem og úti í samfélaginu. Stuðningurinn kemur strax í ljós í flutningsmannaflóru frumvarpsins en auk tveggja þingmanna Frjálslynda flokksins standa þingmenn frá Samfylkingunni og Vinstri grænum að málinu og ég treysti því að þingmenn frá stjórnarflokkunum komi til liðs við okkur í þessum þremur flokkum og málið verði á endanum stutt svo vel í nefndinni sem fær það til umfjöllunar að það komi hingað aftur til 2. umr. og endanlegrar afgreiðslu.

Þær vangaveltur sem koma upp þegar maður fer yfir efni frumvarpsins eru svo sem nokkrar og ég vil gera örfáar þeirra að umtalsefni, virðulegur forseti. Fyrst langar mig að staldra við það að 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir því að vissir aðilar hafi þá skyldu með höndum að texta það efni sem þeir í atvinnuskyni senda út, framleiða eða dreifa, þ.e. sjónvarpsstöðvar sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga, framleiðendur íslensks auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefnis, framleiðendur íslenskra kvikmynda og loks aðrir aðilar sem dreifa hér á landi kvikmyndum og auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefni, hvort sem það er til sölu eða leigu. Það eru fyrst og fremst skyldur á herðar þessara aðila sem löggjöfin kæmi til með að leggja.

Það sem vekur kannski athygli fólks, fólk kann að setja spurningarmerki við eða efasemdir kunna að vakna um er 1. töluliður 2. gr., þ.e. allar sjónvarpsstöðvar sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum. Fólk kann að segja: Æ, er þetta ekki bara mál sem Ríkisútvarpið á að sjá um? Meðan við höfum Ríkisútvarp á þetta þá ekki bara að vera mál þess? Svarið við þeirri spurningu er að sjálfsögðu nei. Þessa skyldu verður að leggja á herðar allra sem annast útsendingar sjónvarpsefnis vegna þess að það er svo mikilvægt að þar sé ekki farið í manngreinarálit, þ.e. að það verði þá til einhver ein stöð sem heyrnarskertir geta hlustað á eða horft á en aðrar ekki. Það er afar mikilvægt að þetta ákvæði 2. gr. nái til allra þeirra aðila sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum.

Hingað til hefur raunin auðvitað verið sú að Ríkisútvarpið hefur staðið eitt sjónvarpsstöðva sæmilega á bak við þessa textun meðan hún er að slíta barnsskónum. Hún er hins vegar enn á barnsskónum þannig að Ríkisútvarpið þarf eins og kemur fram í greinargerð þessa frumvarps að gera svo miklu betur. Ein af ástæðum þess að Ríkisútvarpið hefur ekki getað gert betur er sú að ekki hefur verið ætlað nægilegt fjármagn til verkefnisins. Það fjármagn sem ríkisstjórnin hefur getað sett í þetta mál eða hefur valið að setja í málið hefur verið tilviljanakennt og alls ekki með þeim hætti sem hefði þurft að vera. Ekki hefur verið mörkuð um þetta sérstök stefna.

Ríkisútvarpið hefur ákveðna sérstöðu í þessum efnum. Ákveðinn eðlismunur er vissulega á Ríkisútvarpinu og öðrum stöðvum þar sem lagalegar skyldur hvíla á Ríkisútvarpinu umfram stöðvar í einkaeign. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að Ríkisútvarpinu sé gert það kleift að halda sérstöðu sinni og að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að leiða umræðuna og draga vagninn í þessum efnum. Við verðum — og auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að kippa slíku í liðinn — að sjá til þess að Ríkisútvarpið geti staðið þessa vakt með sóma.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að sé ekki hægt að texta útsendingu samtímis verði stöðvum gert að endursýna viðkomandi efni innan 48 klukkustunda og þá með íslenskum texta. Þetta er lagaskylda sem gæti verið erfitt fyrir stöðvar að uppfylla ef þær hafa ekki þeim mun meiri bandvídd eða þeim mun fleiri rásir sem þær geta notað fyrir efni sitt. Að þessu leyti held ég að þarna komi Ríkisútvarpið og sérstaða þess líka við sögu því að í byrjun held ég að Ríkisútvarpið verði kannski eina stöðin sem geti mögulega uppfyllt þessa kvöð. Þá er líka að líta til þess að frumvarpið gerir ráð fyrir fimm ára aðlögunartíma sem ég tel afar skynsamlegt. Ég held að við ættum að geta með þeim fimm ára aðlögunartíma gefið aðilum á markaði, þ.e. þeim sem reka einkastöðvar, ákveðið svigrúm til að standa undir skyldunum sem þetta frumvarp leggur þeim á herðar.

Þá er eitt sem ég held að skipti verulegu máli að fólk fari að átta sig á að þurfi að skoða með tilliti til textunar fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta en það eru DVD-diskarnir og framleiðsla þeirra. Vera kann að þeir sem eru að framleiða þessa diska eða dreifa þeim geri sér ekki alveg grein fyrir því að þegar viðkomandi efni er með íslensku tali þarf samt að texta það líka á íslensku. Þar þarf að verða þessi vitundarvakning sem mál af þessu tagi getur leitt til, þ.e. að það nægir okkur ekki að hafa DVD-disk í höndunum sem er á íslensku, hann þarf líka að vera textaður á íslensku. Það er algjört skilyrði og ég hef svo sem heyrt bæði hér á landi og í útlöndum að mikill misbrestur sé á því að framleiðendur og dreifendur efnis á DVD-diskum átti sig á þessu.

Það er kannski eins með það og annað í þessum málum að það þarf að kynna það fyrir þeim sem hlutaðeigendum. Það þarf að standa vel að kynningu á efni þessa frumvarps meðal almennings, meðal fyrirtækja, framleiðenda kvikmynda- og sjónvarpsefnis, auglýsinga- og fræðsluefnis til að boðskapur og skilaboð frumvarpsins komist vel til skila og fólk nái að opna augu sín fyrir því hvað þetta er þýðingarmikið.

Ég sagði áðan að Ríkisútvarpið ætti að vera kyndilberi í þessum efnum og auðvitað hefur það reynt að vera það þó að því hafi ekki tekist sem skyldi. Ríkisútvarpið ber auðvitað við ýmsu, bæði því að tækjabúnaður þess sé ekki nægilega öflugur og sömuleiðis að það fái ekki næga fjármuni. Samt sem áður er ekki hægt að afsaka það að Ríkisútvarpið skuli ekki hafa sett þetta mál framar í forgangsröðina þannig að ég held að Ríkisútvarpið sem þó státar af því að hafa á síðasta ári þrefaldað mínútufjöldann í textuðu efni frá árinu þar áður verði að minnast þess að það hafði sjálft áform um að fimmfalda þetta magn á árinu 2003. Það náði ekki að gera betur en að þrefalda. Við sjáum á þessu að þó að viljinn sé góður þarf miklu meira til.

Ríkisvaldið og hæstv. menntamálaráðherra þurfa að taka í taumana og sjá til þess að jarðvegurinn sé þannig úr garði gerður að þetta verði hægt og Ríkisútvarpinu verði gert kleift að standa betur að þessum málum en hingað til hefur verið hægt.

Ég vil í lok máls míns, virðulegi forseti, lýsa óánægju minni með það að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera við þessa umræðu. Sannarlega hefði verið fengur að því að geta skipst á skoðunum við hæstv. ráðherra um þetta mikilvæga mál sem eins og ég sagði í upphafi er mannréttindamál og sjálfsagt að fái hér framgöngu.



[15:49]Útbýting:

[15:50]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hérna er flutt öðru sinni þetta mikilvæga frumvarp til laga um textun. Þegar hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir var síðasta vetur á Alþingi í fyrsta sinn flutti hún það ásamt öðru mjög merkilegu máli um móðurmál heyrnarlausra. Síðan hefur ekkert gerst í þessum málum og þau svæfð í nefnd eins og svo mörg önnur þjóðþrifamál sem ætti að vera auðvelt að ná þverpólitískri samstöðu um á Alþingi. Þingmenn stjórnarflokkanna ættu ekki að flýja afgreiðslu og umræður um jafnbrýn þjóðfélagsmál og þetta með þögninni.

Aðgengi að upplýsingum jafngildir aðgengi að samfélaginu, svo einfalt er það mál. Á þeirri sjónvarpsöld sem við lifum og miðað við hve mikilvægu hlutverki fjölmiðlarnir gegna í samfélagi okkar, ljósvakamiðlarnir og sérstaklega sjónvarpsstöðvarnar, hafa þeir gríðarleg afþreyingarleg, menningarleg og lýðræðisleg áhrif á samfélagið. Sá sem hefur ekki aðgengi að sjónvarpsfréttum og umfjöllun um málefni samfélagsins hefur einfaldlega ekki aðgengi að samfélaginu. Það er svo einfalt og þess vegna segir réttilega í greinargerð með þessu prýðilega frumvarpi um textun að hér sé um að ræða mannréttindamál.

Orðið mannréttindi er oft notað af miklu gáleysi og það gengisfellt með alls konar skrumi og dellu sem sögð er vera mannréttindi. Þetta mál fellur hins vegar klárlega undir það hugtak. Í nútímasamfélagi sem er uppbyggt eins og okkar og í einu ríkasta samfélagi heimsins er slíkt mál mannréttindamál.

Einungis tvennt getur afsakað það að lög um textun séu ekki til staðar, annars vegar fátækt samfélagsins og hins vegar frumstæði og fáfræði einhvers konar. Í töflu í greinargerðinni sjáum við lista yfir samanburðarþjóðir og þar kemur fram að textun á mánuði hjá ríkisstöðvum þessara landa er ákaflega mismikil. Eina dæmið sem er hægt að bera saman við stöðu Íslands er Albanía, þjóðfélag sem fellur akkúrat í þann flokk að vera bæði fátækt og frumstætt eftir þá hörmulegu áratugi sem á undan eru gengnir í sögu þess lands. Þar er textun á mánuði fyrir erlent mál engin. Á Íslandi er þetta einn klukkutími. Svo koma þau lönd sem skara algerlega fram úr, Bretland og Danmörk, Bretland sérstaklega þar sem þessi mál eru í ótrúlega góðu horfi. Í frumvarpinu kemur fram hve mjög Bretunum hefur fleygt fram og með hvaða hætti breska ríkissjónvarpið, BBC, hefur gengið fram með því að þróa tæknina og texta útsendingar úr breska þinginu, texta meira og minna allt sitt innlenda efni. Þetta er mjög merkileg þróun og mætti verða ríkissjónvarpinu íslenska til fordæmis.

Það er óhætt að fullyrða hér að framganga Ríkisútvarpsins í þessu máli er til skammar. Hún er stofnuninni til skammar og hún er yfirmönnum Ríkisútvarpsins til skammar, að sjálfsögðu líka þeim hæstv. ráðherra menntamála sem nú situr og þeim sem á undan hafa gengið. Kannski er þetta sérstaklega hneisa fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur linnulítið og óslitið nánast farið með menntamálaráðuneytið áratugum saman. Það er þeim undarlega flokki til vansa og skammar hvernig þessum málum er háttað.

Í fyrsta lagi er komið í veg fyrir að táknmál heyrnarlausra sé viðurkennt sem móðurmál þeirra og í öðru lagi er komið í veg fyrir að jafnbrýnt mál og þetta frumvarp til laga um textun nái fram að ganga með því að svæfa málið í nefnd. Menn ættu að brjóta odd af oflæti sínu og pólitískum skotgrafahernaði og fylkja sér um mál sem ætti að vera jafnþverpólitískt og -sjálfsagt og þetta sem við ræðum hér, textun sjónvarpsefnis. Furðu sætir að málið sé ekki komið á frekari rekspöl. Ég minnist þess í umræðum í fyrra að eftir að sá sem hér stendur og fleiri höfðu skorað á þingmenn stjórnarflokkanna að taka þátt í umræðunum og kynna okkur viðhorf flokka sinna mættu í púltið þeir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson. Ég man ekki betur en að hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hafi talað líklega um að þetta væri hið ágætasta mál sem ekkert ætti að koma í veg fyrir að næði fram að ganga þó að ég muni ekki nákvæmlega orð hans eða hafi ræðu hans hér.

Það er ástæða til að skora á hv. þingmanninn að mæta hingað aftur eigi hann þess kost eða senda einhvern af fulltrúum sínum í ræðustól. Einhver 22 þingmanna Sjálfstæðisflokksins hlýtur að sjá sér fært að vera við umræðu um eitt brýnasta mál þingsins. Ég segi eitt brýnasta mál þingsins af því að hér er um að ræða mál sem lýtur að mannréttindum heyrnarlausra og heyrnarskertra á Íslandi. Það er rakið prýðilega hve stór hópur þetta er. Við erum ekki einungis að tala um fólk sem fæðist heyrnarlaust eða verður það á lífsleiðinni, heldur þann stóra hóp Íslendinga sem verður fyrir einhvers konar heyrnarskerðingu á ævinni. Eldri borgarar landsins þekkja það líka, við lifum æ lengur og þegnar Íslands sem eiga sem betur fer æ lengri ævi en á síðari áratugum er mjög mörgum þannig farið að heyrnin skerðist og fólk á erfitt með að fylgjast með íslensku sjónvarpsefni sé það ekki textað. Heyrnarskert fólk á erfitt með að fylgjast með fréttum og því sem fer fram í samfélaginu, á erfitt með að njóta íslensks afþreyingarefnis hvers konar, einfaldlega af því að það er ekki textað.

Það er eiginlega stórundarlegt, virðulegi forseti, af hverju þessi mál eru í þeim skammarlega farvegi sem þau eru í á Íslandi árið 2004. Við erum ein af ríkustu þjóðum veraldar og höfum um áratuga skeið búið meira og minna við góðæri og gott efnahagsástand, að sjálfsögðu með allri sinni litríku sögu. Þjóðin hlýtur að líta á það sem forgangsmál að búa svo um hnútana að allir hafi jafnt aðgengi að samfélaginu. Hafi menn ekki aðgengi að samfélaginu í gegnum upplýsingar og sjónvarp eru menn einfaldlega útilokaðir frá því og mismunað mjög gróflega. Það að hér séu ekki lög sem skylda þá aðila sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum og framleiðendur íslensks auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefnis að texta efni sitt þarfnast skýringa. Ég trúi ekki öðru en að stjórnarmeirihlutinn og þingmenn stjórnarflokkanna taki höndum saman við stjórnarandstöðuflokkana og veiti þessu brýna máli brautargengi í vetur.

Það var mjög þarft þegar hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti þessi mál í fyrra, þetta mál og málið um að táknmál yrði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Taldi þá margur að þegar þessi brýnu mál yrðu komin með svo vönduðum og afgerandi hætti inn á Alþingi Íslendinga sæju menn lag að vinna þau áfram í nefndinni og koma þeim aftur til 2. og svo 3. umr. og málið yrði að lögum. Ég trúði sjálfur að svo yrði og er ástæða til að nota þetta tækifæri hér til að skora á forustumenn og þingmenn stjórnarflokkanna að endurskoða hug sinn og veita því brautargengi. Málið er mjög mikilvægt og eitt af réttlætismálum okkar tíma að það nái fram að ganga. Ekki höfum við þá afsökun að íslenskt samfélag hafi ekki efni á að texta sjónvarpsefni með þeim hætti sem hér er lagt til og í öðru lagi er alveg ágætur og sanngjarn aðlögunartími þar sem fimm ár eru gefin frá gildistöku laganna þar til allt innlent efni skuli vera textað. Þetta er tekið í mjög sanngjörnum þrepum eins og hér segir.

Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum þykir textun innlends sjónvarpsefnis sjálfsagt mál. Sjálfsagt brygði mörgum í brún að upplifa á hve frumstæðum nótum þessi mál eru stödd á Íslandi og að Alþingi Íslendinga skuli árið 2004 þurfa að ræða jafnsjálfsagt mál og þetta. En það væri mjög sorglegt ef þessi ríkisstjórn ætlaði að humma það fram af sér að þetta mál komi til kasta Alþingis, verði afgreitt út úr nefnd og Alþingi gefist kostur á að greiða atkvæði um málið og það færist fram á næsta kjörtímabil að samþykkja lög um textun sjónvarpsefnis. Það væri mjög dapurlegt af því að þá værum við áfram að útiloka þúsundir ef ekki tugþúsundir Íslendinga frá því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu með því að fylgjast með þjóðfélagsumræðu í gegnum fréttir og annað efni og njóta þeirrar afþreyingar sem íslenskt sjónvarpsefni býður upp á.

Það verður fróðlegt að heyra í þingmönnum stjórnarflokkanna en það er dapurlegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki geta verið við þessa umræðu. Hún mun kannski hafa tækifæri til að gera með einhverjum öðrum hætti grein fyrir afstöðu sinni í málinu og ýta á eftir því að málið verði afgreitt úr nefnd og komi fyrir Alþingi aftur þannig að Alþingi Íslendinga gefist kostur á að afgreiða það. Ég efast ekki um að ef slíkt mál kæmi til kasta þingsins og atkvæðagreiðslu þá væri yfirgnæfandi eða algjör meiri hluti með málinu. Ég ætla engum alþingismanni íslenskum það að vera á móti jafnsjálfsögðu máli og þessu.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að rekja það frekar hve aftarlega við erum á merinni í þessum efnum. Þó má nefna nokkrar tölur. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að 80% af öllu innlendu efni á BBC, ITV og Rás 4 í Bretlandi er textað. Það hlýtur að teljast stórbrotinn árangur. Íslensku sjónvarpsstöðvunum er samkvæmt frumvarpinu ætlaður þriggja ára aðlögunartími frá gildistöku þessara laga til að ná sama marki. Í öðrum löndum er ástandið misgott en þó alls staðar miklu betra en hér. Þróunin í Bretlandi er hins vegar sérstaklega athyglisverð.

Það er Ríkisútvarpinu til skammar hvernig málum er fyrir komið og að forustumenn þeirrar stofnunar skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að stofnunin gangi fram fyrir skjöldu, leiði þessa þróun og sýni það án þess að vera skipað eða skikkað til þess af Alþingi Íslendinga að sinna þessum stóra þjóðfélagshóp. Þetta er ríkisútvarp okkar allra sem ber skylda til að tryggja að allir hafi aðgang að sjónvarpsefninu sem miðlað er í gegnum það. Það er ástæða til að skora á þá sem fara fyrir stofnuninni að bæta þar verulega úr þótt stjórnarflokkarnir standi í veginum fyrir því að þetta mál nái fram að ganga.

Engan sé ég enn þá frá Sjálfstæðisflokknum í salnum. Hér er mættur einn þingmaður Framsóknarflokksins en við sjáum til hverju fram vindur í umræðunni. Ég ætla ekki að hafa lengra mál að þessu sinni en vil aftur segja að það að hvernig þessum málum er fyrir komið á Íslandi er samfélaginu til skammar. Þetta er einn af smánarblettunum á þjóðfélaginu. Ég skora því enn og aftur á þingmenn stjórnarflokkanna að brjóta odd af oflæti sínu og taka þátt í því með stjórnarandstöðunni að þetta mál megi ná fram að ganga í vetur.



[16:04]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Að gefnu tilefni vill forseti taka það fram að samkvæmt fjarvistaskrá er hæstv. menntamálaráðherra með leyfi í dag.



[16:04]
Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þm. vil ég í andsvari við hann árétta afstöðu mína til málsins. Ég lét hana koma fram á síðasta þingi þegar málið var þá rætt. Ég fagna því að málið er endurflutt. Ég tel það nauðsynlegt og er tilbúinn að vinna að því að það fái brautargengi á Alþingi, hvort sem það verður nákvæmlega með þeim hætti sem þingmálið gerir ráð fyrir eða þingnefnd telur rétt að taka málið öðrum tökum eða í öðrum skrefum en gert er ráð fyrir. Það læt ég þingnefndinni eftir að athuga.

Það sem mestu máli skiptir er að koma þessum málum áleiðis frá því ástandi sem nú er sem er algjörlega óviðunandi.



[16:05]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að bregðast svo skjótt við og gera okkur grein fyrir afstöðu sinni, líkt og hann gerði í umræðum um þetta mál síðasta vetur. Ég gleðst mjög yfir því og endurtek að í raun efast ég ekki um að flestir þingmenn stjórnarflokkanna séu sama sinnis. Mér þykir a.m.k. ólíklegt að menn séu á móti frumvarpinu og þess vegna er kannski enn þá ríkari ástæða til að brýna menn til að taka þátt í umræðunni, gera grein fyrir afstöðu sinni og vinna þessu máli brautargengi.

Ég tek jafnframt undir það að mestu máli skiptir að þetta verði að lögum. Útfærslan og hvernig þetta tiltekna þingmál breytist í meðförum nefndar kemur bara í ljós. Þingnefndinni ber að laga málið til og breyta því ef menn telja að svo þurfi að gera, að það þurfi að lengja aðlögunartíma eða slá eitthvað af kröfunum, slá t.d. af endursýningarkröfu innan 48 stunda, sem ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að gæti reynst mörgum stöðvum örðug.

Allt eru þetta útfærsluatriði sem sjálfsagt er að breyta til hins betra svo að málið verði sem best úr garði gert þannig að sjónvarpsstöðvarnar geti raunverulega sinnt þessari þá orðnu lagaskyldu sinni.

Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í umræðunni og gera okkur grein fyrir afstöðu sinni og vona að við sjáum síðar í umræðunni fleiri þingmenn stjórnarflokkanna spretta upp í salnum.



[16:07]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er í raun til vansa fyrir hið háa Alþingi að svona mál þurfi að koma fyrir þingið í tvígang. Þetta frumvarp ætti að vera löngu lögfest. Það er skammarlegt af þjóð sem telur sig ríka að tryggja ekki öllum þegnum sínum sambærilegt aðgengi að upplýsingasamfélaginu.

Við teljum okkur gjarnan standa mjög framarlega í flestum þáttum er snúa að tækni en þegar við skoðum þessa austurrísku könnun sem vísað er til í frumvarpinu má sjá að við stöndum mjög höllum fæti. Þessi mál hafa of oft komið til umræðu á hinu háa Alþingi án þess að sýnilegur árangur hafi orðið, þrátt fyrir þingsályktunartillögu síðasta vor.

Eins og hv. þm. kom inn á áðan kom fram í áðurnefndri könnun að við stöndum álíka vel og hið fátæka land Albanía. Ég vil eiginlega ekki trúa því að hæstv. menntamálaráðherra vilji hafa málin í þeim farvegi. Ef maður horfir til þess að einungis sé um einn tími á viku af textuðu efni í ríkissjónvarpinu þá er það í raun sorglegt. Við sem heyrum mundum seint sætta okkur við svo lélega þjónustu í upplýsingavæddu samfélagi. Eins og fram hefur komið er þetta hreint og klárt mannréttindamál sem setja þarf í lög.

Hópurinn sem þjónustuna þarf er orðinn stór, um 25 þúsund eins og fram hefur komið. Vert er að hafa í huga að það er annar hópur sem fer ört stækkandi, þ.e. aldraðir, sem gera má ráð fyrir að komi til með að nýta sér textaða þjónustu í auknum mæli.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm ára aðlögunartíma og lagt til að stofnaður verði textasjóður sem styrki aðila til að koma sér upp tækjabúnaði og styðji við innleiðingu nýrrar tækni sem til þarf. Mér þykir mikilvægt að einblína ekki einungis á ríkissjónvarpið heldur skoða málið í víðu samhengi og gera sömu kröfu til allra þeirra sem sjónvarpa innlendu efni. Það er nefnilega ekki okkar sem heyrandi erum að ákveða á hvaða stöð heyrnarskertir og heyrnarlausir skuli horfa. Við viljum öll hafa valkosti en hinn hópurinn, þ.e. heyrnarskertir og heyrnarlausir, eiga að sjálfsögðu að hafa þá líka.

Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að lestrargeta verður betri þegar þeir sem búa við þann vanda að vera heyrnarskertir eða heyrnarlausir hafa, frá því að þeir byrja að horfa á sjónvarp, fyrir framan sig textað íslenskt efni. Það kemur nefnilega fram strax í skóla hjá þeim sem eru heyrnarskertir að þeim gengur hægar í námi ef þeir hafa ekki notið sömu þjónustu og við heyrandi og þeir eru tilbúnari til að sinna sínu námi ef þeir fá þessa þjónustu.

Ég tek að sjálfsögðu undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að allir flokkar sjái sóma sinn í því að styðja slíkt mannréttinda- og jafnréttismál sem þetta er.

Það kom fram á ráðstefnu Öryrkjabandalags Íslands að aðgengi að upplýsingasamfélaginu væri almennt mjög skammt á veg komið, hvort heldur sem er í textuðu efni, útgefnu námsefni eða öðru sem þessi hópur þarf á að halda. Við sem íslensk og rík þjóð stöndum okkur því ekki vel í þessum málum.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fimm ára aðlögunartími verði gefinn til að skila verkinu með sóma og að allt íslenskt efni verði orðið textað. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að lögin nái nema til þeirra sem framleiða, útvarpa eða dreifa efni í atvinnuskyni. Það hefur sýnt sig að kostnaðurinn fer minnkandi um leið og samkeppni á sér stað. Því er mikilvægt, eins og áður segir, að gera sömu kröfur til allra sem sýna innlent efni.

Mjög mikilvægt er að það verði skýrt, við umfjöllun og vinnu fjárlaga, að fjárveitingar verði til frambúðar en ekki bara í eitt ár í senn. Það er lágmarkskrafa að heyrnarlausir og heyrnarskertir eigi sömu möguleika til fræðslu og afþreyingar og hinir heyrandi. Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra beiti sér fyrir því á þessu þingi að hinum stóra hópi heyrnarlausra og heyrnarskertra verði sinnt með sóma og þetta mikilvæga frumvarp nái fram að ganga.



[16:12]
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mælti fyrir, um textun á innlendu sjónvarpsefni, er mjög mikilvægt innlegg í þau mál sem lúta að bættu upplýsingaaðgengi fyrir stóran hóp landsmanna. Talað var um 10% í því samhengi. Það er há tala og segja má að það sé skammarlegt að jafnstór hópur fái upplýsingaaðgengi sínu ekki fullnægt.

Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa aðgang að upplýsingum. Ríkissjónvarpið er eina sjónvarpið sem eitthvað hefur sent út textað af innlendu sjónvarpsefni. Í þessari viku eru aðeins þrír þættir sendir út textaðir en það eru Spaugstofan, Í brennidepli og Stundin okkar. Allir eru þessir þættir um hálftímalangir. Það liggur ljóst fyrir að margir innlendir þættir eru gerðir fyrir fram og ættu því að vera nokkuð auðveldir til textavinnslu svo að hægt sé að senda þá út með texta.

Fyrir árið 2004 er áætlað að 2,5 millj. kr. fari í textun á innlendu efni. Tölur fyrir 2005 liggja ekki fyrir.

Frú forseti. Ég verð að segja að ég er nokkuð viss um að meiri hluti þeirra 10% þjóðarinnar sem um er að ræða borgar fullt afnotagjald ríkissjónvarpsins, a.m.k. gerir mitt heimili það.

Nýverið á þessu ári tóku Norðurljós upp stafræna tækni í útsendingum hjá sér. Mér hefur verið tjáð að með stafrænni tækni aukist möguleikarnir á að efni sé sent út textað.

Mér var tjáð í samtali við starfsmann Norðurljósa með þekkingu á stafrænni tækni að þeir mundu vilja notfæra sér þennan möguleika. En sem stendur er upphafskostnaðurinn mikill. Á eigin ábyrgð get ég sagt að með samþykkt frumvarpsins og tilkomu svokallaðs Textunarsjóðs trúi ég að fjárframlag úr þeim sjóði mundi styrkja þá yfir erfiðasta hjalla upphafskostnaðarins sem þarf til að textun geti orðið að veruleika.

Skjár einn, yngsta sjónvarpsstöðin hérlendis og sem er í meirihlutaeigu íslenska ríkisins, hefur ekki textað innlent efni að neinu ráði frá upphafi til dagsins í dag. Í samtali við starfsmann Skjás eins kom fram að þeir væru áhugasamir fyrir því, sér í lagi ef til stuðnings kæmi frá stjórnvöldum til að mæta upphafskostnaði, og erum við þar aftur komin að ágæti Textunarsjóðs.

Ég leyfi mér að bæta því að þeir sem ekki heyra hljóðið í sjónvarpi en hafa farið til útlanda og séð þar textað efni hafa sagt mér að þeir upplifi allt annan heim með því að fá upplýsingarnar jafnóðum og er það mikill kostur.

Þess má einnig geta að í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum voru kosningavökur helstu sjónvarpsstöðva sendar út textaðar og það í beinni útsendingu.

BBC í Bretlandi hefur á síðasta ári sent út textað efni í stafrænni útsendingu. Einnig má nefna að Sky Channel hefur nú hafið útsendingar á sérstakri táknmálsrás, en margir heyrnarlausir vinna við þá stöð, við tæknivinnslu, þáttagerð og að öðru sem lýtur að rekstri sjónvarpsstöðvarinnar.

Ég hef engu við það að bæta sem flutningsmaður sagði í ræðu sinni nema að ég vil ítreka það enn og aftur að mikilvægt er að frumvarp þetta verði að lögum, svo framarlega sem stjórnvöld geta hugsað sér að bæta upplýsingaaðgengi 10% landsmanna.

Ég vona heils hugar að þetta frumvarp fái jákvæða umfjöllun í menntamálanefnd.

Herra forseti. Ég sakna verulega nærveru menntamálaráðherra hér í dag.



[16:18]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. alþingismanna um þetta frumvarp er hér á ferð afar þarft og gott mál. Þetta frumvarp til laga um textun er flutt af þingmönnum stjórnarandstöðu, þ.e. tveimur þingmönnum Frjálslynda flokksins, einum þingmanni Vinstri grænna og þremur þingmönnum Samfylkingar.

Þegar maður skoðar markmið þessara laga sem við vonum að verði samþykkt þá eru þau að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum, afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn. Hér er að sjálfsögðu um fullgilt mannréttindamál að ræða og þarf í raun ekki að eyða mörgum orðum í það eða beita mikilli röksemdafærslu til að allir skilji að þetta á að vera sjálfsagt og eðlilegt mál.

Í ágætri greinargerð með frumvarpinu kemur fram að um eða yfir 10% landsmanna eiga annaðhvort við heyrnarskort eða heyrnarleysi að stríða. Mér finnst það vera til marks um það hversu hógvær þessi hópur hefur verið í kröfum sínum fram til þessa, hversu lágvær þessi hópur hefur verið í kröfum sínum fram til þessa, að við Íslendingar skulum ekki komnir lengra á leið við að texta innlent sjónvarpsefni fyrir þetta fólk. Eins og fram kemur hér í töflu og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti á áðan erum við á svipuðu róli og Albanía í þessu efni.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta alveg hreint með ólíkindum því að mjög mikið af því sjónvarpsefni sem sent er út í dag, til að mynda fréttir, er þegar til á texta þegar það fer í loftið. Nánast allir fréttatímar eru klárir á texta í handriti áður en þeir fara í loftið. Það eina sem ekki er til á texta 100%, ef svo má segja, eru viðtalsbútar við viðmælendur fréttamanna. Allt annað er tilbúið og textað. Því er mjög erfitt að skilja hvers vegna sjónvarpsstöðvarnar sem reka fréttastofu hafa ekki fyrir löngu séð sóma sinn í að sjá þó alla vega til þess að fréttatímarnir fari út textaðir. Það er ekkert mál að koma þessu við, ekki nokkurt minnsta mál og ætti í raun ekki að vera mikill kostnaður.

Ríkissjónvarpið hefur um margra ára bil lagt út í þann kostnað að hafa fréttaþuli sem tjá sig á táknmáli. Það hafa verið örstuttir fréttatímar síðdegis á hverjum degi þar sem þulir segja fréttir á táknmáli. Þennan kostnað yrði hægt að fella niður ef fréttirnar væru sendar út textaðar. Þarna mundu þá sparast peningar á móti þeim óverulega kostnaði sem hlytist af því að senda fréttir út textaðar. Þessu mætti kippa í liðinn strax um leið og þetta frumvarp tæki gildi og ætti í raun að gera það nú þegar.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur áðan þá eru þrír þættir í sjónvarpinu textaðir, þ.e. Spaugstofan, Í brennidepli og Stundin okkar. Ég veit ekki til þess að Stöð 2 til að mynda texti einn einasta þátt. Þetta er að sjálfsögðu til mikils vansa og það er enn og aftur til marks um hversu hógvær þessi stóri þjóðfélagshópur er að bæði Stöð 2 og Ríkissjónvarpið, annars vegar stöð seld í áskrift fyrir miklar fjárhæðir, mjög dýrt áskriftarsjónvarp, sennilega eitt það dýrasta í heiminum, og síðan RÚV, þ.e. ríkissjónvarpið, þar sem fólk borgar afnotagjöld, að þessar stöðvar skuli ekki sjá sóma sinn í því að fara út í að greiða þann kostnað sem hlýst af því að texta sjónvarpsefni fyrir þó þennan stóra þjóðfélagshóp sem hlýtur, herra forseti, að vera mikilvægur markhópur m.a. fyrir auglýsingar. Þetta er hópur sem borgar afnotagjöld sín fullu verði. Þetta er hópur sem ég veit ekki til að fái neinn afslátt á áskriftargjöldum sínum til Stöðvar 2. Samt er þetta stór þjóðfélagshópur sem fer á mis við mjög mikið af því efni sem sent er út frá þessum stöðvum og ekki bara innlenda þætti. Þessi hópur fer líka á mis við — gleymum því ekki — hann fer líka á mis við stóran hluta þeirra auglýsinga sem eru sendar út á þessum stöðvum og þó að margir telji auglýsingar meinlegan og leiðinlegan áróður þá hafa þær oft og tíðum töluvert upplýsingagildi.

Þetta fólk er neytendur alveg eins og við öll hin og þetta fólk býr ekki — vona ég alla vega — við svo verulega verri fjárhag en öll við hin að það geti ekki tekið þátt í neysluþjóðfélaginu á sama hátt og aðrir borgarar þessa lands. Þetta fólk er engir annars flokks borgarar. Þetta eru ekkert verri Íslendingar en við hin þó að þeir eigi við heyrnarörðugleika að stríða.

Þarna ættu menn því strax að gera bragarbót. Sjónvarpsstöðvarnar ættu að sjá sóma sinn í því að lagfæra þetta, t.d. með því að einhenda sér strax í að fréttatímarnir fari út textaðir og fara síðan að undirbúa sig fyrir að þetta frumvarp verði vonandi að lögum á þessu þingi. Nú er tiltölulega langur tími eftir af þinginu og ég hreinlega vænti þess, hef miklar væntingar um það, að þetta frumvarp fái afgreiðslu út úr menntamálanefnd. Það verður mjög gaman að sjá þær umsagnir sem munu berast frá sjónvarpsstöðvunum, þ.e. hvernig þær bregðast við þessu, hvaða skoðanir þær hafa á þessu frumvarpi. Það verður líka mjög áhugavert að fylgjast með vinnsluferli frumvarpsins í hv. menntamálanefnd og ég hlakka til þegar frumvarpið kemur hingað aftur til 2. umr.

Eitt aðeins að lokum, herra forseti. Hér er talað um Textasjóð og sagt að ríkið eigi að bera kostnað af því að styrkja fyrirtæki til tækjakaupa og styrkja þau til að greiða annan kostnað sem af þessu kann að hljótast. Ég efast um að þessi kostnaður þurfi að vera svo ofboðslega hár fyrir sjónvarpsstöðvarnar. Í greinargerðinni sem fylgir með frumvarpinu kemur fram að verið er að þróa nýja tækni sem gerir það að verkum að sífellt verður auðveldara og ódýrara að texta sjónvarpsefni þannig að ég get ekki ímyndað mér annað en að sjónvarpsstöðvarnar ættu að geta tekið stóran hluta af þessum kostnaði á sín breiðu bök á sama hátt og þessar sjónvarpsstöðvar hafa tekið á sig þann kostnað sem hlýst af því t.d. að talsetja barnaefni á íslensku. Hér hefur um árabil verið heill her af leikurum úti í bæ að talsetja erlent sjónvarpsefni fyrir íslensk börn. Ekki er að sjá annað en að til hafi verið peningar fyrir því. Hvernig stendur þá á því að lagt er út í þann kostnað að íslenska efni fyrir börnin blessuð, blönk börnin, en hins vegar tíma menn ekki að leggja út í kostnað til að texta sjónvarpsefni fyrir fólk sem er þó í fullri vinnu að langmestum hluta? Þetta finnst mér alveg hreint með ólíkindum og gersamlega óskiljanlegt.



[16:26]
Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls og tóku allir vel í að þetta mál fengi góðan framgang. Ég vonast vissulega til þess, eins og ég sagði áður að þetta frumvarp eigi stuðning í öllum stjórnmálaflokkum sem starfa á hv. Alþingi og að málinu ljúki á þann farsæla hátt að hér setjum við efni þess í lög. Það kann auðvitað að vera við vinnslu í hv. nefnd að mönnum finnist eitthvað þurfa skoðunar við eða jafnvel komi einhverjar tillögur um breytingar. En ég tel að það sé nokkuð sem menn geti skoðað og að sjálfsögðu reyna menn að lenda málinu með þeim besta stuðningi sem fáanlegur er og með það að markmiði að málið náist fram.

Ég vil svo bara að lokum þakka þessa umræðu og legg til að frumvarpinu verði vísað til menntamálanefndar.