131. löggjafarþing — 20. fundur
 5. nóvember 2004.
byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005, frh. einnar umræðu.
skýrsla iðnrh., 216. mál. — Þskj. 218.

[14:22]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni um skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar til þessa eru margar góðar fyrirætlanir settar á blað í skýrslu hæstv. ráðherra. Ef ég rifja aðeins upp helstu markmiðin með áætluninni eru þau eftirfarandi, með leyfi forseta:

„a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

b. Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.

c. Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.

d. Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.

e. Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.

Lagt var til að þær aðgerðir sem beitt yrði til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggðust á eftirtöldum meginstoðum: Traustu og fjölbreyttu atvinnulífi, öflugum byggðarlögum, aukinni þekkingu og hæfni, bættum samgöngum og áherslu á sjálfbæra þróun.“

Þetta eru vissulega fín markmið og frábært ef maður hefði séð að að þeim hefði verið unnið að einhverju marki undanfarin ár. Það er þó svo að mér ofbýður við þennan lestur og mér er skapi næst að kasta skýrslunni frá mér. Mér dettur í hug: Er verið að draga dár að fólki? Við skulum hafa í huga að við erum að fjalla hér um áætlun sem nær yfir tímabilið 2002–2005, tímabil sem er að verða lokið. Maður skyldi því ætla að verkefnin og fyrirætlanirnar væru komnar vel á veg og að þeirra sæi stað um land allt. Þessi byggðaáætlun á að vera fyrir allt landið, ekki satt?

Því miður er staðan sú eftir að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa haft byggðamál í sínum höndum í tíu ár, allt of langan tíma, að byggð er að hruni komin á heilu landsvæðunum og á þeim sömu stöðum býr fólk víða við sára fátækt. Ráðherra byggðamála kannast reyndar ekkert við að til séu nein sérstök svæði þar sem meðaltekjur eru áberandi lægri en meðaltekjur á Íslandi. Það kom fram í viðræðum sem ég átti við hana á síðasta þingi.

Því sárar er að hlusta á hæstv. ráðherra sem hafa tekið þátt í umræðunum hér. Hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, talar eins og allt sé í himnalagi í landbúnaðarmálum og hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, lætur eins og það sé helber ósanngirni að minna hana á þá ábyrgð sem hún ber á byggðaþróun, á þeim afdrifaríku afleiðingum sem aðgerðaleysi, afskiptaleysi og rangar ákvarðanir í skattamálum og samgöngumálum, svo eitthvað sé nefnt, hafa í för með sér.

Hér hafa verið rakin áhrif skattbreytinga til aukinnar mismununar á aðstöðu fyrirtækjarekstrar á suðvesturhorninu andspænis landsbyggðinni. Það gerði hv. þm. Kristján Möller. Þessum hæstv. ráðherrum sem ég nefndi hér kemur það víst ekkert við.

Líka hefur verið rakið hvernig framkvæmdir í vegamálum hafa verið dregnar saman og verða dregnar saman á næstu árum, samtals um 4 milljarða á næstu tveim árum þrátt fyrir það að þessir sömu hæstv. ráðherrar og allir ráðherrar viti að engar aðgerðir eru líklegri til að treysta byggð en einmitt samgöngubætur. Ráðherrann veit líka að til þess að atvinnurekstur blómstri um allt land þarf að jafna samkeppnisstöðu.

Mér barst bréf nýlega, afrit af bréfi til Símans, þar sem íbúar og aðstandendur atvinnufyrirtækja við Ísafjarðardjúp óskuðu eftir að mark yrði tekið á umleitan þeirra og bréfum sem þeir hafa skrifað á undanförnu þrem og hálfu ári, fyrst fyrir þrem og hálfu ári og margítrekað, um að þeim yrði komið í viðunandi tengingu við umheiminn þannig að þeir gætu rækt atvinnustarfsemi sína á sambærilegan hátt og aðrir landsmenn sem búa á þéttbýlissvæði, stundað nám og fleira sem einmitt er verið að minnast á hér sem forsendur þess að byggðaþróun geti orðið viðunandi. Þessu hefur ekki verið svarað.

Það hefur komið fram í umræðum á Alþingi að ráðherrar telja það ekki hlutverk sitt að skipta sér af starfsemi Símans vegna þess að hann sé orðinn hlutafélag. Það er eftir sem áður svo, herra forseti, að Síminn er að stærstum hluta til í eigu okkar landsmanna allra og það er samgönguráðherra sem fer með hlutabréf ríkisins. Það hlýtur því að vera hlutverk ríkisstjórnarinnar að ýta við þessu fyrirtæki ef það er raunverulega meining ráðherranna að það eigi að koma lagi á samgöngumál, bæði í lofti og á láði.

Við þekkjum stöðu sveitarfélaganna. Þau eru látin engjast árum saman. Þróun í land- og sjóflutningum er látin fara eins og verða vill og reyndar beinlínis stuðlað að því að flutningur færist alfarið á land með óhagstæðum flutningsjöfnunargreiðslum og olíugjaldi sem mismunar bifreiðaeigendum. Afleiðingar þess eru mikil mengun, stóraukin hætta á vegum sem eru alls ekki undir það búnir eða fyrir það byggðir að flytja svona mikla umferð á þeim og þunga, mikill aukakostnaður fyrir fyrirtæki landsins, tilheyrandi verðhækkanir á vöru og stóraukið slit vega.

Það kom fram í rannsókn Tinnu Finnbogadóttur, sem er nemi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, að flutningar á landi eru allt að 340% dýrari en flutningar á sjó. Vegslit af völdum bifreiða, 10 tonna og þyngri, er miklu meira og alvarlegra þar sem þessar bifreiðar mylja undirlag veganna miklu verr en bifreiðar, 4 tonna og léttari, og gjaldið sem er sett á þessar bifreiðar er ekki í neinu samræmi við það slit sem af þeim hlýst.

Ríkisstjórnin hefur ríkar ástæður og full efni til þess að hafa hönd í bagga og stýra því hvernig flutningar fara fram á landi og í kringum landið, á láði eða á legi. En þetta kemur þeim víst ekkert við frekar en annað.

Hæstv. ráðherra hefur það fyrir sið þegar ég ræði við hana um byggðamál að minna mig á að Byggðastofnun var flutt til Sauðárkróks. Ráðherrann telur sjálfsagt að hún stingi upp í okkur þingmenn með því að minna á þau örfáu dæmi sem hægt er að finna um aðgerðir og uppbyggingu utan Akureyrar og Miðausturlands. Svo er þó hreint ekki og gagnrýni okkar beinist, svo það sé skýrt tekið fram, ekki að því sem verið er að gera á Akureyri og Miðausturlandi. Það er hreint ekkert of mikið. En það þarf að hafa hönd í bagga víðar og það má ekki láta fólk engjast í óvissu árum saman.

Ég tók eftir því ásamt mörgum fleirum að um leið og Byggðastofnun var flutt norður á Sauðárkrók voru settar á fót tvær stofnanir á Akureyri sem hafa með höndum sams konar verkefni og Byggðastofnun er ætlað að hafa. Ég hefði hins vegar talið eðlilegt og ákjósanlegra að Byggðastofnun sjálf væri efld til frekari verka en að útdeila verkum og verkefnum til annarra og hugsanlega gera Byggðastofnun óþarfa með tímanum. Ég vona að það sé ekki ætlun hæstv. ráðherra því að þá væri illa farið með fé skattborgaranna og óorði komið á flutning ríkisstofnana út á land.

Það er líka augljóst að ef tryggja á að Byggðastofnun geti sinnt þeim verkefnum sem henni er ætlað þarf að auka möguleika hennar á styrkveitingum í stað lána. Það er nefnilega þannig, hæstv. ráðherra, að á ýmsum svæðum landsins er ekki til fjármagn til að standa undir nýsköpun og stofnsetningu fyrirtækja. Þetta á ráðherrann reyndar að vita. Það er ekki hægt að krefja um mótframlag þegar engir peningar eru til og það kann einmitt að vera meðal skýringa á því að færri umsóknir komu úr Norðvesturkjördæmi en úr kjördæmi hæstv. byggðamálaráðherra í 700 millj. kr. sem rætt er um í skýrslunni sem við erum að fjalla um, 700 millj. kr. sem veittar voru til uppbyggingar eða sérstaks átaks í atvinnumálum fyrir síðustu kosningar.

Jafnframt þarf að efla atvinnuráðgjöf á svæðum en ekki planta fleiri ráðgjöfum niður á Akureyri þó að þeir sem þar starfa séu allir góðra gjalda verðir. Nýlega gengu einmitt á fund fjárlaganefndar aðilar úr Norður-Þingeyjarsýslu sem sárvantar liðsstyrk, vantar eitt stöðugildi í viðbót til að geta sinnt þeim verkefnum við atvinnuuppbyggingu sem fyrir liggja.

Ég man líka að búið er að flytja Landmælingar ríkisins til Akraness. Það er mál þeirra sem til þekkja að afar vel hafi tekist til enda hafa heimamenn lagt sig fram um að greiða götu stofnunarinnar. Nú er hins vegar gert ráð fyrir stórskertum framlögum til hennar í frumvarpi til fjárlaga. Gert er ráð fyrir að felld verði niður 30 millj. kr. fjárveiting til kortagerðar stofnunarinnar en það er verkefni sem var gerður samningur um í stefnumótun hennar og hluti af árangursstjórnarsamningi sem var gerður við hana í upphafi. Það er ljóst að ef staðið verður við þetta ákvæði í fjárlögum mun þessi stofnun þurfa að segja upp fjölda manns.

Það liggur við að manni falli allur ketill í eld þegar maður stendur frammi fyrir svona vinnubrögðum, og hvað á maður eiginlega að halda? Fylgir enginn hugur máli þegar verið er að koma starfsemi fyrir utan Reykjavíkur?

Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra sýni þess merki að hún þekki aðstæður á Íslandi öllu og láti sig varða hvernig hagur fólksins er. Hún verður að beita áhrifum sínum á þeim svæðum landsins sem virkilega er þörf fyrir og vinna í þeim anda sem þessi byggðaáætlun sem við erum að tala um hér er sett fram í. Markmiðin eru virkilega góð eins og ég sagði í upphafi máls míns. Íbúum næstum alls Norðvesturkjördæmisins, íbúum norðausturhornsins og á suðausturhorni landsins, svo eitthvað sé nefnt, hlýtur að þykja nóg um afskiptaleysi hæstv. ráðherra. Þeir bíða óþreyjufullir eftir að hún sýni þess merki að hún þekki til aðstæðna þar og vilji láta til sín taka í anda byggðaáætlunar sem nú hefur bráðum runnið sitt skeið. Vonandi fáum við að sjá næstu áætlun í góðum anda líka og áætlun sem betur verður framfylgt en þeirri sem hér er til umræðu.



[14:37]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega dálítið hissa á þeirri ræðu sem hér var flutt, ég get ekki annað sagt. Mér finnst ákveðinn hroki felast í því að bera það hér á borð að ég þekki ekki til landsins alls. Ég held að hv. þingmaður ætti bara að kynna sér dagbók mína og átta sig á því hvað ég fer mikið um landið.

Svo finnst mér eins og hún sé farin að yfirbjóða kollega sinn úr Norðausturkjördæmi, Kristján Möller, sem talar hér næst. Ég gæti gjarnan spurt hann að því, þó að það falli kannski ekki vel að þessu andsvari, hvort hann sé ekki sammála hv. þingmanni um að það sé verið að gera allt of mikið á Akureyri af minni hálfu og hálfu stjórnvalda.

Þetta var ræða sem mér finnst eiginlega ekki vera boðleg.



[14:38]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra verður bara að meta það sem hroka ef henni finnst það vera hrokafullt sem ég hef sagt í dag. Það er einfaldlega þannig að mér svíður að sjá afskiptaleysi ráðherrans af stórum svæðum landsins sem ég fer um. Ég veit að umbjóðendur mínir í Norðvesturkjördæmi eru mér hjartanlega sammála um að lítið verði vart við aðgerðir af hálfu ráðherrans og ráðuneytis hennar í því kjördæmi.

Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni áðan að ég teldi ekki að neitt væri ofgert, hvorki á Miðausturlandi né á Akureyri, þannig að það er ekkert hægt að snúa neinu upp á mig í þeim efnum. Það er vissulega gott að byggja upp á Akureyri og í Eyjafirði en það þarf að líta víðar við. Þó að ég segi að það þurfi að líta víðar við þýðir það ekki að ég telji neitt ofgert á Akureyri eða á Miðausturlandi, þvert á móti.

Mér finnst að það eigi að sinna málum áður en heilu landsvæðin eru komin að fótum fram en þannig er ástandið að verða mjög víða á landinu.



[14:39]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér í lok viku, á föstudegi, tökum við til umræðu og höldum áfram að ræða skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Í dag er 5. nóvember. Þetta er skýrsla sem hefði að sjálfsögðu, eins og áður hefur verið sagt, átt að ræðast síðasta vor. Við hefðum átt að fjalla um hana þá en það var ekki gert. Hæstv. ráðherra kennir forseta þingsins um það að skýrslan hafi aldrei komist á dagskrá. Hún hefur lýst því við fyrri umræðu að hún hafi mikið gert til að koma skýrslunni á dagskrá.

Ég hef áður sagt „betra er seint en aldrei“ og held mig við það þó að það sé alltaf slæmt þegar umræða er slitin í sundur. Það er eðlilegt að þetta sé mikið rætt. Það er kannski heldur ekkert óeðlilegt við það að í sal Alþingis í dag eru aðeins þrír alþingismenn á þessari stundu við að ræða skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar. Ég tek þó skýrt fram að það eru nokkrir á mælendaskrá. Það er kannski sýnishorn af því hvernig byggðamálaumræða hefur þróast á hinu háa Alþingi hin síðari ár.

Ég hef sagt það áður og vitnað í orð hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, sem hann sagði úr ræðustól, að Framsóknarflokkurinn hefði gleymt landsbyggðinni þegar hann hóf markaðssókn fyrir formann Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur þó ekki miklu meira atkvæðamagn bak við sig en formaður stúdentaráðs í kosningum til stúdentaráðs, en sleppum því nú. Auðvitað sakna ég þess að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn skuli ekki koma hér í umræðu, einkanlega sjálfstæðismenn sem eru yfirleitt á harðahlaupum frá þessu máli og ræða það ógjarnan á Alþingi.

Mörg atriði hefði ég viljað ræða í seinni ræðutíma mínum um þessa skýrslu en verð því miður að stikla á stóru, fara bara yfir nokkur atriði. Ég var búinn að fara yfir fáeina þætti, m.a. að nefna það og vekja athygli þingsins á því að sú skýrsla sem lögð var fram á þessu hausti er töluvert mikið öðruvísi en sú skýrsla sem hæstv. ráðherra lagði fram á vorþingi. Ýmsir merkilegir markmiðakaflar, kaflar um hver beri ábyrgð á framkvæmdinni og hverju eigi að ná í þeim efnum, eru fallnir út. Hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, hefur ekki getað svarað því á sannfærandi hátt hvers vegna þetta er farið út. Nefni ég t.d. afslátt vegna lána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna sem átti að vera á herðum hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í það sl. vor og svörin voru þau að nánast ekkert væri verið að gera í málinu. Nú hefur þetta verið fellt út úr skýrslunni, þ.e. markmiðasetningin og áformin, hin göfugu, fallegu orð sem sett voru í þessa skýrslu og sett inn í áætlunina sem svo kemur í ljós að er ekkert annað en orðin tóm. Því miður.

Ég gæti tekið mörg atriði. Ég hef áður rætt um það að byggðamál snúast orðið miklu meira um það sem mundi kallast jöfn lífskjör og jöfn búsetuskilyrði fólks, sama hvort það býr í Reykjavík eða á Raufarhöfn, í Kópavogi eða á Kópaskeri. Það er auðvitað ólíðandi, eins og ég hef áður sagt, að fólk á þeim stöðum þar sem ríkið rekur ekki framhaldsskóla skuli þurfa að leggja fram miklar og háar upphæðir umfram íbúa landsins sem sitja í þeim sveitarfélögum þar sem ríkið rekur framhaldsskóla og borgar kennurum laun. Þetta fólk þarf að punga út miklum fjármunum til að mennta unglinga sína og það er náttúrlega óþolandi og ólíðandi.

Nú skal ég taka það skýrt fram, virðulegi forseti, að töluverðum upphæðum er varið til jöfnunar námskostnaðar. Það er mikið og gott atriði í sambandi við jafnræði og jöfnun búsetuskilyrða en hins vegar vantar meiri peninga, miklu meiri, vegna þess að þetta er ekki jafnað nóg.

Sama má segja um ótal mörg önnur atriði, t.d. fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa að leita sér lækninga suður til Reykjavíkur. Þar munar líka miklu á að jafnræðis sé gætt. Þetta á auðvitað að gerast í gegnum skattkerfið, eins og kom fram og var svo fallega sagt í lögunum sem við ræddum í gær, þ.e. breytingar á lögum um húsnæðissjóð, 90% lánin. Þar er sagt að jöfnunaraðgerðirnar skuli gera í gegnum skattkerfið og eigi að gera það í leiðbeiningum um greinarnar. Þetta er fallega sagt og vonandi að það verði tekið fyrir á fleiri stöðum.

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef ætla ég að gera að umtalsefni tekjustofna sveitarfélaga og það hvernig ríkisvaldið, ríkisstjórn og Alþingi, hafa sífellt verið að setja meiri kvaðir, lög og reglugerðir á sveitarfélögin án þess að tekjustofnar hafi fylgt með. Þetta segi ég hér í umræðu um byggðamál vegna þess að það er auðvitað mjög mikilvægt atriði í sambandi við byggðamál að öll sveitarfélög á landinu hafi tekjustofna til að sinna lögboðnum framkvæmdum og ákvörðunum sem sveitarfélögin eiga að sinna, svo og lögbundinni þjónustu. Sveitarfélög vítt og breitt um landið geta það alls ekki vegna þess hve lágur tekjustofninn er orðinn.

Þetta ætla ég að gera að umtalsefni vegna þess að svokallaðri fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga er nýlokið. Þar voru flutt mörg mjög merkileg erindi og sýnt fram á hvernig sífellt hafi verið að fara á verri hliðina fyrir sveitarfélögin í fjárhagslegum samskiptum ríkis og bæja. Þar féllu t.d. orð hjá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga eins og þau að það gengi illa að toga ríkisvaldið að þessu borði, þ.e. til að ræða á vitrænan hátt, eins og hann sagði, við ríkisvaldið um tekjustofna sveitarfélaga. Þar sagði þessi sami maður þau orð að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru ekki nógu góð. Hann tók svo dæmi af efnahagsmálum, kjarasamningamálum og fjárhagslegum samskiptum.

Það kom líka fram hjá sambandinu, formanni, að stjórn þess væri mjög ósátt við þá samráðsfundi sem haldnir væru milli ríkisins og sveitarfélaganna. Hann sagði að þeir gögnuðust lítið sveitarfélögunum og að umræðurnar væru ekki mjög vitrænar. Virðulegi forseti. Ég hef hér eftir það sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði um samskipti ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Þó að ég geri mér grein fyrir því að þessi mál heyri undir félagsmálaráðherra er engu að síður rétt að draga þau hér fram í þessum efnum.

Ég ætla ekki að hafa allt eftir að þessu sinni sem kom fram á ráðstefnunni en ég vil líka taka sem dæmi umsögn bæjarstjórans á Akureyri. Hann er einn af þremur í tekjustofnanefnd og er að reyna að semja við ríkið um þessi atriði. Hann orðaði það svo að það væri dapurt að sitja fundi við umboðslausa aðila frá ríkisvaldinu og sagði að við værum nánast í sömu sporum og í desember 2003. Þetta segir margt um fjárhagslegu samskiptin og ég ítreka að ég geri þetta hér að umtalsefni vegna þess að sveitarfélögin eru náttúrlega stærstu atvinnurekendur vítt og breitt og í mörgum sveitarfélögum á landinu þó að svo sé ekki hér á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin eiga að sinna lögbundinni þjónustu við íbúana, sama hvort það er í skólamálum, leikskólamálum, öldrunarmálum, annarri félagslegri þjónustu eða hverju sem er. Þau geta það ekki vegna þess að sífellt er verið að þrengja að þeim.

Ég ætla að grípa aðeins niður í nokkur atriði sem komu fram í ágætu erindi bæjarstjórans á Akranesi þar sem hann bar saman hvernig þetta hefði þróast hjá sveitarfélögunum gagnvart ýmsum ákvörðunum sem hafa komið frá hinu háa Alþingi. Hann tók sem dæmi að kostnaðurinn vegna húsaleigubóta hjá Akureyrarbæ hefði aukist úr 10 millj. í 50 millj. frá 1990 til 2003. Það má taka fleiri málaflokka sem þarna voru teknir sem dæmi. Kostnaður t.d. vegna barnaverndar hefur á sama tíma eða frá árinu 1990 til 2003 hjá Akureyrarbæ aukist úr 5 millj. kr. í 20 millj. kr. Kostnaður vegna liðveislu hefur hækkað úr 5 millj. í 22 millj. frá 1990–2003 hjá Akureyrarbæ.

Það var ansi merkilegt sem sagt var á þeim fundi um grunnskólana, orðrétt, með leyfi forseta:

„Það sem mátti ekki gera meðan ríkið annaðist grunnskólann er orðið að skyldu eftir að sveitarfélögin tóku við.“

Ég vek athygli á þessu orðalagi, virðulegi forseti. Þetta eru orð sem skólastjórnandi hafði um kerfið eftir að ríkið losaði sig við grunnskólana og færði þá til sveitarfélaganna. Síðan hefur margt annað í rekstri grunnskóla stóraukist vegna ákvarðana og reglugerða frá Alþingi og frá menntamálaráðuneyti.

Það má t.d. líka fjalla um þessi fjárhagslegu samskipti þegar menn tala um styttingu náms til stúdentsprófs. Þá er gert ráð fyrir tilfærslu verkefna til grunnskólanna, aukinnar endurmenntunar og aukinnar námsráðgjafar. Þarna er verið að færa þetta í rauninni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Hver á að borga brúsann? Sveitarfélögin að mati hæstv. ríkisstjórnar.

Það má halda áfram svona, virðulegi forseti, en tími gefst ekki til að fara í gengum þessi fjárhagslegu samskipti.

Ég vil aðeins segja það að lokum um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga að mikil þörf er á því að niðurstaða komi út úr þeim viðræðum sem eru í gangi nú milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins í tekjustofnanefndinni. Frá þessari nefnd verða að koma tillögur um bráðaaðgerðir til að rétta af fjárhag sveitarfélaganna í því sem búið er að gera þar sem skuldir hafa verið að hlaðast upp.

Hitt er svo næsta verkefni sem verður auðvitað að vinna samhliða vegna þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin hefur tekið, þ.e. að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga næsta vor. Ef ekki verður búið að koma tekjustofnum sveitarfélaganna í eðlilegt horf, ef ríkisvaldið verður ekki búið að gefa eftir hluta af þeim skatti sem innheimtur er til sveitarfélaganna, spái ég því að engar sameiningarkosningar verði í landinu, það verði ekki hægt að leggja það fyrir íbúa landsins, íbúa byggðarlaga úti um allt land, að fara að greiða atkvæði um slíkar sameiningartillögur ef sveitarfélögin eiga að vera jafnfjársvelt og þau eru núna frá hendi ríkisins vegna þeirra atriða sem ég hef hér tekið nokkur dæmi um í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að það eru alvarleg orð sem ég færi hér fram um þessar fyrirhuguðu sameiningarkosningar. Það er sannarlega þörf á því að fækka sveitarfélögum og sameina þau, a.m.k. þessi allra minnstu, til þess að þau geti betur innt af hendi þá þjónustu sem þarf gagnvart íbúunum. En málið er að mínu mati mjög alvarlegt og er í mjög þröngri stöðu.

Ég ætla rétt í lokin, virðulegi forseti, að nefna í þessu sambandi að þegar hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um — ég vek athygli á því að það er hæstv. ríkisstjórn með ráðherra byggðamála innan borðs — að fara í skattkerfisbreytinguna sem gerð var og auka möguleika á því að færa rekstur úr einkarekstri yfir í einkahlutafélög hafði það í för með sér að mati núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, fyrrverandi varaformanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, að sveitarfélögin töpuðu um 1.000–1.300 millj. kr. Þetta, virðulegi forseti, hefur sveitarfélögunum aldrei verið bætt, að ekki sé nú rifjað upp aftur í tímann þegar Íslendingar stóðu í biðröðum hjá verðbréfastofum á gamlársdag til að kaupa sér hlutabréf og nýta sér skattafslátt. Auðvitað var sá skattafsláttur líka gefinn með því að fella niður svo og svo miklar tekjur til sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins nefna þennan eina þátt sem á sannarlega erindi inn í umræðu um skýrslu um byggðamál. Fjárhagsstaða mjög margra sveitarfélaga á landinu er það döpur, það léleg, að þau geta ekki innt af hendi til borgaranna þá lögbundnu þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita, þá sjálfsögðu þjónustu sem íbúar vítt og breitt um landið vilja fá frá sveitarfélagi sínu. Stóru sveitarfélögin sem flest eru á höfuðborgarsvæðinu geta innt þessa þjónustu af hendi og eru sífellt að auka hana. Það geta þau vegna þess að tekjur til þeirra hafa aukist, m.a. vegna búferlaflutninga.



[14:54]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða 30 blaðsíðna skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðamála. Ég vil segja það í upphafi máls míns að þetta er ákaflega léleg skýrsla. Þetta er eitt það lélegasta sem ég hef lesið vegna þess að þetta er samtíningur. Ef við tökum saman skýrslu og skoðum markmið og leiðir er æskilegt að menn hafi eitthvað að leiðarljósi, geti borið saman. Menn verða að vera með einhverjar mælistærðir til að mæla árangur en ekki bara að tína saman einhver verkefni héðan og þaðan úr ráðuneytunum. Það eru alveg furðuleg vinnubrögð og skrýtið að horfa upp á það núna, sérstaklega í ljósi þess hvernig byggðir landsins standa víða.

Til að hafa eitthvert vit í svona skýrslugerð tækju menn saman þróun íbúa og einnig tækju menn saman hvort störfum væri að fækka eða fjölga í viðkomandi byggðarlagi. En það er ekki gert. Nei, það er bara samtíningur af einhverjum verkefnum og svo er ekki hægt að sjá hvort störfum fækkar eða fjölgar. Hverju skilar verkefnið? Það er ómögulegt að sjá það þegar verið er að lesa í gegnum þessi verkefni.

Ég var búinn að fara í gegnum helminginn af skýrslunni í fyrri ræðu minni og m.a. kominn í gegnum fjarskipti. Þar þarf að gera verulega bragarbót, bæta fjarskiptakerfið og jafna gagnaflutning til landsbyggðarinnar.

En meginatriðið raunverulega í skýrslunni er það sem á vantar, umfjöllun um meginatvinnuvegi landsbyggðarinnar. Lítið er fjallað um sjávarútvegsmál, nánast ekkert. Ein helsta aðgerð Framsóknarflokksins, þar sem þeir stóðu allir saman sem einn, meira að segja hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, var að kvótasetja trillurnar. Það er nú eitt af því sem kemur landsbyggðinni og Norðvesturkjördæminu — sem hæstv. forsætisráðherra sagði að kominn væri tími til að fara að athuga — mjög illa, sérstaklega norðanverðum byggðunum. Það ættu allir að sjá. Það er ekkert fjallað um það.

Eini kaflinn um sjávarútvegsmál er um AVS-sjóðinn sem er skammstöfun á „aukið virði sjávarfangs“. Sá sjóður er einmitt eins og ekki á að skipuleggja rannsóknasjóði. Þar er búið að hólfa niður 200 millj. kr. í ákveðna rannsóknarflokka þar sem hagsmunaaðilar í viðkomandi atvinnugrein, fiskeldi, þeir sem fara fyrir hópnum þar, eru leiðandi í fiskeldi. Það væri miklu nær og miklu betra fyrir landsbyggðina að auka hreinlega fé til samkeppnissjóða en ekki að hólfa þetta rannsóknafé niður og hafa síðan hagsmunaaðila í forsvari fyrir því hvaða rannsóknir á að fara í og hverjar ekki. Það er ekki vænlegt til árangurs.

Síðan spurði ég fyrr í umræðunni hvort rafmagnsverð til fyrirtækja á landsbyggðinni mundi hækka eða lækka og það væri mjög fróðlegt að fá svör við því hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Eins og staðan er núna er rafmagn sem fyrirtæki á landsbyggðinni greiða 30% hærra en það sem fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu greiða. Auðvitað er löngu orðið tímabært að jafna þann mun ef menn meina eitthvað með byggðaáætlunum og fagurgala um að jafna búsetuskilyrði og allt það. Stundum virðist þetta vera algjört þvaður sem engin meining er á bak við.

Maður sannfærist eiginlega um það þegar maður les í gegnum skýrsluna. Það er verið að telja upp verkefni og meira að segja verkefni sem koma landsbyggðinni varla við. Jú, þau koma henni við en því miður hefur fjármagnið í þeim verkefnum mestmegnis runnið til höfuðborgarsvæðisins.

Þá vil ég nefna fráveitumál í kafla á bls. 23:

„Unnið er samkvæmt lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Ríkið tekur þátt í kostnaði ...“ og svo segir hér áfram að heildarframlag ríkisins til fráveitumála verði 2,2 milljarðar. Í skýrslu um byggðamál hefði maður haldið að þessir fjármunir hefðu þá runnið til byggðanna. Nei, þessir fjármunir hafa mestmegnis runnið til höfuðborgarsvæðisins, og það sem landsbyggðin þarf helst á að halda er að farið verði í raunverulegar undirbúningsrannsóknir og það verði metið hver raunveruleg þörf er á því að fara í dýrar mengunarvarnir á fámennum stöðum. Nei, þetta er í kafla um fráveitumál þótt það ætti betur heima í kafla um höfuðborgarsvæðið því ég hugsa að þangað hafi 80% runnið af þeim 2,2 milljörðum sem eru taldir upp í skýrslu um byggðamál.

Síðan eru fleiri kaflar hérna. Það er námskeið um klasa, langur kafli um það á bls. 20, og eftir því sem ég kemst næst í þeim kafla er þetta eflaust ágætisnámskeið, tveggja daga námskeið sem var haldið í Reykjavík. Ég veit í rauninni ekki hvað það hefur fjölgað mörgum störfum, eða fækkað. Hefur þetta fjölgað störfum? Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort þarna hafi náðst verulegur árangur. Svona getur maður lengi haldið áfram.

Meðal annars er fjallað um heilbrigðismál og í rauninni er alveg ómögulegt að átta sig á þeim kafla. Þetta er almennt hjal um fjarlækningar og bráðarannsóknir, fjarlækningar fyrir sjómenn — ef við erum að ræða byggðamál ættum við náttúrlega að vera að fara yfir það hvað þetta hefur fjölgað eða fækkað störfum. Mér hefði þótt það eðlilegt en það kemur ekki hér fram.

Svo er kafli á bls. 22 um þjóðgarða. Störfum þar hefur fjölgað um þrjú. Það verður að þakka sérstaklega fyrir það. Þar er vel að verki staðið, það eru þrjú störf þar.

Í mörgum þeirra verkefna sem við ræðum um nú kemur ekkert fram um árangur þeirra.

Á bls. 18 er eitt mál sem alltaf er verið að tala um, endurgreiðsla námslána. Það er búið að tala mikið um það og ekkert gerist. Þetta er rosalega flókið mál. Ég veit eiginlega ekki hvar það ætlar að enda. Mér finnst hreinlegra að menn bara segi: Nei, við ætlum ekki að gera þetta, í staðinn fyrir að gefa einhvern ádrátt um að þetta verði mögulega gert. Ég eiginlega skil ekki hvað hæstv. byggðamálaráðherra er að fara.

Ef maður fer yfir skýrslu um íbúaþróun og atvinnuþátttöku í sjávarbyggðum landsins er augljóst að fjölmörg störf hafa tapast. Það á að tala um hlutina eins og þeir eru en ekki einhver verkefni út og suður sem segja ekki neitt og er erfitt að átta sig á.

Förum aftur í landbúnaðarmálin. Ég ræddi um trillurnar áðan og það mál telst aðför að landsbyggðinni. Nú hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið í þeim verkum að fækka sláturhúsum, oft með mjög ómálefnalegum hætti og ekki gætt jafnræðis. Maður áttar sig ekki á því. Í rauninni væri miklu nær að hæstv. byggðamálaráðherra og landbúnaðarráðherra færu yfir það með íbúum landsbyggðarinnar hvernig best væri að auka sem mest virði landbúnaðarafurða á þeim stöðum sem afurðirnar eru framleiddar. Ég tel að miklu nær væri að hafa þá stefnu að vera með minni sláturhús og vera úti í byggðunum í staðinn fyrir, eins og stefnan er nú, að menn fækki sláturhúsum og fari út í að uppfylla kröfu sem er í rauninni lítið annað en viðskiptalegar hindranir, tæknilegar viðskiptahindranir Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin er að eltast við þær og notar til þess ómældar fjárhæðir. Hún notar mjög háar upphæðir til að fækka störfum. Þetta er alveg furðulegt. Hún notar mikið fé til að skaða landsbyggðina, notar skattfé almennings til þess.

Maður verður líka að virða það sem vel er gert. Það er þarna ágætisverkefni um rafrænt samfélag sem virðist skila þó nokkrum störfum, átta störfum sýnist mér. Ég hefði talið miklu nær að vera með fleiri svoleiðis verkefni í staðinn fyrir að fara í aðgerðir sem ganga þvert á hagsmuni landsbyggðarinnar.

Svo er þessi tónn gagnvart okkur landsbyggðarfólki sem mér finnst algerlega óþolandi, tónn sem kom m.a. fram um daginn í umræðunni um að Byggðastofnun hefði verið flutt út á land. Auðvitað á hún að vera úti á landi. Ég tel að ég sem íbúi á Sauðárkróki eigi ekkert að þakka það sérstaklega. Mér finnst bara eðlilegt að Byggðastofnun sé þar og að verkefni séu flutt í meira mæli út á land. Það má bera það saman, eins og ég sagði fyrr í umræðunni, að ætlast væri til að fólk á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að þakka sérstaklega fyrir að einhver stofnun í borgarmálefnum væri staðsett t.d. fyrir austan og flutt til höfuðborgarinnar. Það væri alger fjarstæða að þakka það sérstaklega. Það væri bara eðlilegur hlutur.

Ef skynsemi væri í efnahagsstjórninni núna og menn ætluðu að vera sniðugir væri stefnan sú að fjölga störfum í meira mæli úti á landi. Hér hefur verið þensla en samdráttur úti á landsbyggðinni en samt er ekkert brugðist við. Verið er að draga saman í heilbrigðisstofnunum víða í Norðvesturkjördæminu þrátt fyrir orð hæstv. forsætisráðherra. Það sýnir hvað mikið er að marka hvað þessir háu herrar segja. Forsætisráðherra segir að komið sé að Norðvesturkjördæminu en þegar farið er yfir fjárlagafrumvarpið er þar samdráttur. Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. byggðamálaráðherra hver stefnan er varðandi það kjördæmi sem stendur hvað verst. Þá á ég við norðurhlutann.

Það er a.m.k. ekki mikið samræmi í orðum og athöfnum. Ég tel vænlegra upp á framtíðina að gera að þegar hæstv. byggðamálaráðherra kemur hér næst með skýrslu verði hún betur úr garði gerð. Það verður að gera þá kröfu. Það er mjög auðvelt að gera betur. Ég hef verið að kynna skýrsluna á fundum um landið og fólk er rosalega hissa á því að hægt sé að búa svona til og svo eigi að ræða þessa vitleysu þar sem ekki eru notaðar neinar mælistikur. Ég veit eiginlega ekki hvað menn ætla sér með svona vinnubrögðum.

Það væri fróðlegt að heyra hvers vegna ekki var farið yfir það hversu mörgum störfum verkefnin skiluðu. Hvers vegna hafa menn ekki einhverjar mælieiningar til að bera saman? Það er með öllu óskiljanlegt.

Ég tel það forsenduna fyrir því, ef við ætlum að halda áfram að ræða byggðamál, að við séum ekki að ræða hérna einstök verkefni, hvort sem það eru svona voðaverk, vil ég segja, eins og að setja trillurnar í kvóta og fækka sláturhúsum, að við ræðum málin á vitrænum grunni þar sem við förum yfir íbúaþróun í sjávarbyggðunum og skoðum t.d. hvaða áhrif aðgerðir eins og að fækka sláturhúsum hafa. Ég hefði talið það og ég mælist til þess að hæstv. byggðamálaráðherra geri betur en þetta. Þetta er ákaflega slöpp skýrsla, ég segi ekki meira.



[15:09]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég flutti hér ræðu við umræður um þetta mál fyrir viku þar sem ég fór fyrst og fremst í gegnum þau atriði sem lúta að samkeppnishæfni byggðanna. Það eru grunnstoðir atvinnulífsins og búsetunnar um allt land sem skipta meginmáli. Einstakar sértækar aðgerðir eiga að vera í algjöru lágmarki, eiga bara að vera til að grípa til ef einhver áföll eða eitthvert sérstakt átak er í gangi, en hinn almenni grunnur verður fyrst og fremst að vera fyrir hendi.

Fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga er nýafstaðin þar sem mjög greinilega kom fram sú erfiða staða sem mörg sveitarfélög eru í vegna þess að ríkisvaldið heldur þeim með skipulegum hætti í fjársvelti. Stöðugt fleiri verkefni eru færð til sveitarfélaganna án þess að þeim fylgi fjármagn. Verkefnin eru bæði lúmskt færð til þeirra og einnig með því að ríkið stendur ekki með eðlilegum hætti við þá samninga og samskipti sem hefur verið gengið út frá að væru milli þessara aðila.

Ég spyr hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra hvort ríkisstjórnin sé með í bígerð eitthvert sérstakt átak til að jafna og styrkja tekjugrunn sveitarfélaganna til að þau geti axlað þau samfélagslegu verkefni sem þeim er falið samkvæmt lögum. Ég held að eitt hið mikilvægasta núna í byggðamálum sé að það verði gert. Verði það ekki gert skipta litlu máli einstakar sértækar aðgerðir sem hæstv. ráðherra beitir sér fyrir í einhverjum gæluverkefnastíl eins og vinnulagið hefur verið hjá hæstv. ráðherra innan þess málaflokks sem hún hefur og sem kallast byggðamál.

Það eru þessi stóru atriði sem skipta máli. Verði tekjugrunnur sveitarfélaganna ekki styrktur verður mönnum mikill vandi á höndum og erfitt að ætla að bæta það upp með einhverjum sértækum aðgerðum.

Annað mál sem hæstv. ráðherra hefur líka farið í kringum eins og heitan graut er flutningsjöfnunarmálin. Við erum búin að ræða þetta hér á undanförnum þingum. Skýrslur hafa verið unnar, a.m.k. tvær frekar en ein, ef ekki þrjár, sem sýna fram á gríðarlega hækkun á flutningskostnaði á vörum úti um allt land, langt umfram verðlagsþróun og þrátt fyrir að flutningsfyrirtækin telji sig hafa verið að vinna stórátak í hagræðingu, hætta strandsiglingum og telji sig hafa unnið að hagræðingu. Samt stórhækkar flutningskostnaður. Eitt af kosningamálum Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar var að það átti að lækka og jafna flutningskostnaðinn. Við fáum kannski að heyra það aftur fyrir næstu kosningar að það sé áfram á stefnuskrá Framsóknarflokksins. Þetta er mál sem hæstv. byggðamálaráðherra er með á sínum höndum nú — og ekkert gerist. Við fengum jú umræðuna um olíufélögin hér áðan og skýrslu Samkeppnisstofnunar sem sýnir að olíufélögin hafa með skipulegum hætti haldið uppi verði á olíu sem hefur komið einmitt hart niður á flutningsaðilunum. Áttu ekki sömu aðilar þá líka eignarhlutinn í sumum flutningsfyrirtækjunum? Hvernig ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að ná þessu til baka, þessum ofteknu gjöldum á flutningana í landinu?

Hvað líður þeim aðgerðum sem hæstv. ráðherra ætlaði að beita sér fyrir varðandi flutningsjöfnunina? Því er svarað hér að þetta sé í einhverju þjarki við einhvern dómstól eða í einhverri nefnd úti í Brussel. Það er mjög auðvelt að skjóta sér á bak við svoleiðis en ekki stórmannlegt. Þetta skiptir máli.

Jöfnun á námskostnaði. Sérstakur sjóður á að jafna kostnað námsmanna í framhaldsnámi. Nemendur sem þurfa að fara um langan veg frá heimilum sínum í framhaldsskóla geta sótt í hann. Sú fjárhæð stendur gjörsamlega í stað, hún fylgir ekki einu sinni verðbólgu, hvað þá að þar sé verið að auka og bæta í. Ef svo fer fram sem nú horfir samkvæmt tillögum í fjárlagafrumvarpi verður hann skertur til einstaklinga ef eitthvað er vegna þess að þeim einstaklingum fjölgar sem sækja þetta nám. Það fjölgar í þessum árgangi og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum í fjárlaganefnd mun þörfin fyrir þetta fjármagn aukast. Hvað þá með að hækka framlagið til þessara einstaklinga?

Hvað líður því, hæstv. byggðamálaráðherra, að jafna námskostnað hjá ungu fólki? Það er aðgerð sem kemur öllum vel hvar sem þeir búa á landinu en þurfa að sækja skóla um langan veg. Hvað líður umræðunni um tónlistarskólana? Ungt fólk sem þarf að fara úr byggðum sínum til stórþéttbýlisins, hvort sem það er til Akureyrar eða Reykjavíkur, til að sækja framhaldsskóla þar vegna þess að þeir eru ekki í heimabyggð þeirra en tónlistarnám er hluti af námi þeirra.

Í fyrsta lagi verða þeir að borga stórfé fyrir að sækja slíkt nám og í öðru lagi er verið að vísa þeim þaðan út nú um áramótin. Það er ekki að furða þó að fjöldi ungs fólks verði að flytja lögheimili sitt úr heimabyggð sinni á haustin þegar það fer í skóla til þess að eiga möguleika á að sækja almenna þjónustu sem ætti að vera sjálfsögð. Ég vil inna hæstv. byggðamálaráðherra eftir því hvernig hann sé að vinna að því að jafna þennan kerfisbundna aðstöðumun sem ungt fólk af landsbyggðinni býr við og skiptir gríðarlegu máli.

Ég vil líka inna hæstv. byggðamálaráðherra eftir því hvað ráðherrann hyggst gera í sambandi við samgöngumálin. Er það liður í að styrkja byggðirnar að skera samgönguáætlun niður um 1.600–1.700 milljónir á þessu ári, um 2 milljarða á næsta ári og aðra tvo á þarnæsta ári? Er það liður í að styrkja byggðirnar? Ég held ekki. Ríkisstjórnin er að keyra fram vanhugsaðar skattalækkanir sem síðan bitna á landsmönnum með niðurskurði í samgönguáætlun. Niðurskurður samgönguáætlunar er nauðsynlegur til að vega á móti lækkun skatta sem fyrst og fremst gagnast hátekjufólki. Skattalækkanir gagnast ekki almenningi úti um land, því miður. Hinar stóru byggðaaðgerðir sem ríkisstjórnin er með, eins og skattalækkanirnar, koma fyrst og fremst hátekjufólkinu til góða og það býr ekki úti um land. Og þá verður að skera niður þær framkvæmdir og þjónustu sem er virkilega til styrktar landsbyggðinni eins og samgöngumálin.

Þetta er nú stefnan í byggðamálum í hnotskurn, landsbyggðin er látin taka á sig niðurskurð í samgöngumálum til þess að bera skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Eru þetta sanngjarnar byggðaaðgerðir, skattalækkunum á fólki mætt með niðurskurði á vegaframkvæmdum úti um land?

Ég vil minnast á eitt sértækt atriði sem var til umræðu fyrr í vikunni og snýr að byggðamálum, það snertir sláturhúsin. Gert hefur verið stórátak í hagræðingu í sláturhúsum. Þeim hefur verið lokað og þau lögð niður sem átti að verða til þess að hækka verð til bænda. Sú hefur reyndar ekki orðið raunin, því miður. Heill landshluti er nú án sláturhúss, allt Norðvesturland að undanskildu litlu sláturhúsi í Króksfjarðarnesi og óvíst er hvort það verður starfrækt áfram. Sláturhúsinu í Búðardal var lokað, það fékk ekki að fara í gang á sl. hausti. Í því húsi hefði verið hægt að hafa upptökuhús fyrir stærra svæði á Vesturlandi en það var ekki gert.

En það sem er sértækt við þetta er að sláturhúsið er 95% í eigu Byggðastofnunar. Þetta er atvinnutækifæri þessarar byggðar sem hefur á undanförnum árum, þegar það hefur starfað, skaffað fólkinu sem býr þar 25–30 millj. kr. í vinnulaun. Fólk hefur getað unnið þar hlutastarf sem hefur skipt það gríðarlegu máli. Þetta hús á Byggðastofnun. En eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið lætur hún sig þetta engu varða, þessi mál eða hvernig er hægt að nýta þessa eign.

Þó stendur í þingsályktunartillögunni, en við erum að ræða árangur af henni hér, með leyfi forseta:

,,Í Dalabyggð [...] hefur fólki fækkað mikið og samdráttur verið í atvinnulífi, einkum í landbúnaði. Þetta svæði þyrfti verulegan stuðning af opinberri hálfu einungis til að treysta þá búsetu sem þar er nú fyrir hendi.“

Þetta hérað er einmitt gríðarlegt landbúnaðarhérað og treystir á það. Sem betur fer er öflug mjólkurvinnsla í Búðardal. En þarna á Byggðastofnun mannvirki sem hefur verið nýtt allt til þessa og skaffað atvinnu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem fer með þetta sláturhús sem er í eigu Byggðastofnunar, en Byggðastofnun heyrir beint undir ráðherrann, hún er deild í iðnaðarráðuneytinu og forstöðumaður hennar er ráðinn af iðnaðarráðherra og heyrir síðan beint undir hann, og ef ráðherrann getur ekki svarað þessu nú þá ætti hún að hugleiða spurninguna: Hvað ætlast Byggðastofnun fyrir með sláturhúsið í Búðardal? Ætlar hún að standa með heimamönnum um uppbyggingu á slátrun þar áfram eða hvernig á að nýta þessa stóru eign sem Byggðastofnun á þarna?

Við höfum falleg orð í byggðaáætlun um að gera eigi átak í að styrkja og efla atvinnulíf þarna á svæðinu, sem veruleg þörf er á, en heldur lítið hefur orðið um efndir hvað þetta varðar.

Það er sjálfsagt að koma líka að öðrum verkefnum á svæðum eins og þar en þarna er atvinnutæki sem Byggðastofnun á og því er eðlilegt að hún standi skil á því hvernig það verður best nýtt fyrir heimamenn og eigi samstarf um það með þeim.

Frú forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að breyta um kúrs í atvinnumálum á heilu landsvæðunum. Eina sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur dottið í hug er að setja álver í alla firði og á öll nes. Maður heyrir framsóknarmenn á Ísafirði tala um að það ætti að setja álver á Ísafjörð o.s.frv. Þetta er það eina sem kemst í huga hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég tel að þetta sé rangt. Það er stórhættulegt að vera með alla sína orku eða stóran hluta hennar bundna í einni atvinnugrein. Það er líka stórhættulegt að ætla að vera með brúttó útflutningstekjur sínar bundnar að stórum hluta í einni atvinnugrein. Nettó er ekki svo mikið að hafa út úr þessari álbræðslu en hún gefur stórar umsetningstölur í útflutningsgreinum.

Ég tel að á norðvestursvæðinu séu t.d. miklir möguleikar í ferðamálum. Á fundi kjördæmisþings Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi sem haldið var nú um síðustu helgi var einmitt ályktað um ferðamálin.

Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi leggur til að hafin verði stórsókn í uppbyggingu á kjördæminu sem sérstöku ferðaþjónustusvæði og gerð verði sérstök átaksáætlun til næstu fimm ára sem hafi það að markmiði að treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar á svæðinu. Þingið skorar á Alþingi og ríkisstjórn að veita til þessa verkefnis a.m.k. 1 milljarði króna árlega næstu fimm árin.“

Gera þarna stórátak. Það er búið að vinna mikla grunnvinnu á þessu svæði til að það geti verið öflugt ferðaþjónustusvæði en fjármagn vantar til að styrkja innviði þess, styrkja markaðsstarf og kynningarstarf. Og ég er viss um að verði það gert mun blómgast þarna mjög öflugt atvinnulíf í takt og sátt við umhverfi sitt.



[15:25]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum nú að taka fyrir seinni hálfleik, ef svo má segja, í umræðu um skýrslu hæstv. byggðamálaráðherra, byggðaskýrslu, en fyrri umferðin fór fram fyrir viku. Í fyrri ræðu minni sem ég hélt þá fór ég vítt og breitt yfir fyrri hluta skýrslunnar og kom þar víða við en endaði ræðuna á því að koma aðeins inn á sjávarútvegsmálin. Ég vil nú fá að lýsa því yfir að ég er frekar ósáttur við þessa skýrslu hvað það varðar hvernig stjórnvöld hafa staðið sig í þeim málum. Öllum er jú ljóst að sjávarútvegurinn skiptir mjög miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.

Í inngangi skýrslunnar er farið yfir byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti 3. maí 2002. Ég hnýt um nokkur atriði þar. Byggðaáætlun er rifjuð upp í innganginum og þar er farið yfir meginþætti hennar þar sem fram kemur að í þessari byggðaáætlun eru tólf stefnumarkandi áherslusvið. Fyrsta áherslusviðið er einmitt nýting sóknarfæra í atvinnulífi.

Það er skoðun mín að þetta sé einmitt kjarninn í því sem við eigum að gera þegar byggðamál eru annars vegar, þ.e. að nýta þau sóknarfæri sem við höfum fyrir hendi í atvinnulífinu hverju sinni. Við eigum að sjá til þess að einkaframtakið úti á landsbyggðinni fái að láta til sín taka, stjórnvöldum ber skylda til þess að skapa ramma til þess að svo megi verða.

Þarna tel ég því miður að stjórnvöld hafi brugðist allhrapallega að mörgu leyti, þó að vísu hafi margt gott verið gert líka og ég ætla svo sem ekkert að draga úr því. En það sem einkanlega hefur valdið óánægju hjá mér á undanförnum árum er það hvernig stjórnvöld hafa haldið á spilunum þegar sjávarútvegurinn er annars vegar. Við vitum að hann er gríðarlega mikilvægur mjög víða um land og margar af byggðunum meðfram ströndinni eiga allt sitt undir honum. Í mínum huga er alveg klárt að þessar byggðir eru að mörgu leyti hryggjarstykkið í mannlífi úti á landi því þar er að finna ýmsar þjónustustofnanir sem eru síðan gríðarlega mikilvægar fyrir t.d. landbúnaðarbyggðirnar þar í kring.

En til þess að þær byggðir sem eru yfirleitt alltaf við ströndina, þessar lykilbyggðir ef svo má segja, fái að rækja hlutverk sitt verða þær að hafa ákveðið þjónustustig og þær verða að hafa ákveðið atvinnustig líka. Það verður að vera fyrir hendi ákveðin starfsemi lykilþátta í þessum byggðum til að þær geti sinnt hlutverki sínu.

Á undanförnum árum tel ég að núverandi ríkisstjórn hafi hreinlega veist mjög harkalega að þessum byggðum með aðgerðum sínum. Það hefur komið í ljós að slíkar aðgerðir hafa verið algjörlega ónauðsynlegar. Ég held að ég hljóti enn og aftur að hvetja stjórnvöld og hæstv. byggðamálaráðherra til þess að íhuga það mjög vandlega hvort við höfum ekki verið að gera mjög alvarleg mistök t.d. með því að hefta atvinnufrelsi fólksins sem býr í þessum byggðum til að stunda útgerð. Þá er ég að tala um smábátana og jafnvel báta af millistærð, sem hafa verið mjög algengir og hafa nánast haldið atvinnulífi þessara staða uppi, hvort við ættum ekki einmitt að veita þeim meira frelsi til að nýta mikilvægustu náttúruauðlindir þessara byggða sem eru jú fiskurinn í sjónum allt í kringum landið.

Við sjáum að fiskigengd hefur víða aukist mjög mikið samfara hækkandi hitastigi í hafinu, til að mynda er nú mjög mikil fiskigengd fyrir utan allt Norðurland. Það er mikil fiskigengd við Vestfirði, jafnvel svo mikil fiskigengd í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi að fiskurinn sem þar er hefur étið upp alla rækjuna og nú er komið upp neyðarástand í mörgum byggðum á Vestfjörðum vegna þess að rækjan er horfin. Það er mjög mikið af fiski í fjörðunum en menn eru bundnir í allt of mikil höft, þeir ná ekki að nota sóknarfærin til að nýta auðlindirnar með þeim hætti sem þeir ættu að gera, einmitt vegna núverandi fiskveiðistjórnarkerfis.

Hið sama má segja um Norðurland. Ég var staddur á Siglufirði á dögunum og þar voru menn einmitt að barma sér yfir því að atvinnuástandið væri frekar dapurt. Það eru erfiðir tímar í úthafsrækjuveiðum, lélegur afli, hátt olíuverð og afurðaverð hefur lækkað, afkoman sem sagt slæm. Ég spurði hina ágætu bæjarstjórnarmenn á Siglufirði: Hvað með fiskinn, er ekki nógur fiskur í firðinum og hér fyrir utan? Jú, það er nógur fiskur, það vantar ekki, en við fáum bara ekki að veiða hann. Það vantar kvóta, að manni heyrðist.

Þetta tel ég, hæstv. forseti, vera mjög slæmt. Við stjórnmálamenn náum aldrei með ákvörðunum okkar að aðlaga lög og reglugerðir nógu fljótt að sveiflunum í lífríki hafsins. Ég tel að við ættum að láta litlu bátana sem eru heftir af veðri og sjólagi og öðru þess háttar hreinlega í friði og leyfa þeim að veiða, þó undir ákveðnum skilyrðum, þ.e. með ákveðnum veiðarfæratakmörkunum o.þ.h., þannig að við hefðum alla vega smá hemil á sókninni ef á þyrfti að halda, en þar fyrir utan að veita fólkinu sem býr á þessum stöðum frelsi til að lifa af þessari auðlind sinni.

Margt af því sem hefur verið gert er mjög slæmt. Af því að hæstv. byggðamálaráðherra er frá Norðausturlandi langar mig einmitt að fara yfir nokkur atriði sem beinlínis varða fólk í kjördæmi hennar, fólk sem ég hef hitt og talað við og leyfa henni að heyra hvað það hefur sagt mér.

Fyrir það fyrsta var ég staddur á Akureyri í haustbyrjun ásamt sjávarútvegsnefnd Alþingis á árlegri ferð hennar um landið. Þar hittum við smábátamenn frá Eyjafirði úr félaginu Kletti, Eyjafirði, svæðisfélag smábátaeigenda allt frá Ólafsfirði að Tjörnesi. Þeir tjáðu okkur að endalok hins svokallaða dagakerfis hjá trillunum sem núverandi ríkisstjórn ákvað illu heilli sl. vor, gegn mikilli andstöðu smábátamanna, hefði haft mjög alvarleg áhrif. Þeir létu okkur hafa skjal með ákveðnum áherslupunktum sem þeir afhentu öllum í sjávarútvegsnefnd Alþingis, undirritað af Pétri Sigurðssyni, formanni Kletts. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lok dagakerfisins, fækkun starfa og nýliðun í útgerð er úr sögunni.

Hið breytta umhverfi sem blasir við mönnum á nýju fiskveiðiári með niðurfellingu dagakerfisins er langt frá því að vera bjart. Borðleggjandi er að störfum við fiskveiðar mun fækka til muna þar sem útgerð færabáta mun dragast verulega saman á okkar svæði. Til dæmis sjáum við fram á samdrátt sem nemur 20–30 bátum eða allt að 50 störf bara í veiðum. Einnig er það okkur mikið áhyggjuefni hversu erfitt er fyrir nýja aðila að komast inn í kerfið eins og það er orðið með kvóta á alla báta og tegundir. Stjórn Kletts telur enn, þrátt fyrir lagasetningu frá Alþingi á síðasta ári, að krafan um frjálsar handfæraveiðar eigi fyllilega rétt á sér.“

Þetta eru skilaboðin sem við, nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd, vorum beðnir um að koma til skila á hinu háa Alþingi og nú hefur það verkefni verið leyst af hendi.

Það sem mennirnir eru að segja þarna er mjög alvarlegt. Þeir koma frá stöðum eins og Ólafsfirði, Dalvík, Hrísey, Grenivík og Húsavík og eru að segja okkur að þeir hafi orðið fyrir miklu áfalli. Byggðirnar þeirra hafi orðið fyrir miklu áfalli, vegna þess að atvinnufrelsi þeirra hafi verið skert alvarlega vegna stjórnvaldsaðgerða sem voru ákveðnar í þessum sal. Stjórnvaldsaðgerðir sem ég tel að hafi verið gersamlega óþarfar því eins og ég sagði áðan hefur fiskigengd undan Norðurlandi verið að aukast töluvert mikið, t.d. er þar nú að finna mjög mikið af ýsu sem var varla að finna þar áður. Ýsan hefur komið þangað einfaldlega vegna þess að nýliðun í ýsustofninum hefur verið mjög góð. Umhverfisskilyrði hafa verið með þeim hætti að ýsustofninn hefur aukið útbreiðslu sína og er nú fyrir öllu Norðurlandi, en menn fá því miður ekki að veiða hann því þeir hafa ekki kvóta fyrir honum. Það er mjög slæmt.

Ég fór einnig til Húsavíkur. Þar voru menn að veiða og þar var líka mjög mikill fiskur rétt fyrir utan ströndina. Þar hittum við einnig smábátamenn og menn á minni bátum sem voru að veiða fisk. Þeir voru ekki að veiða úr eigin kvóta. Nei, þeir voru að veiða fyrir stórt fyrirtæki á staðnum sem er í eigu fyrirtækis sem er með aðalstöðvar sínar á Akureyri að mjög stórum hluta. Þessir menn gátu fengið að veiða upp á náð og miskunn á sínum eigin heimamiðum vænan þorsk. Þeir fengu fast verð fyrir þorskinn, 50 kr. á kílóið. Fyrirtækið lét þá hafa kvóta, dró síðan af þeim ákveðna upphæð í kvótaleigu og sjómennirnir sátu eftir með í mesta lagi einn þriðja af því verðmæti sem þeir hefðu annars fengið fyrir fiskinn ef þeir hefðu átt hann heilan og óskiptan.

Þetta er, hæstv. forseti, ekki mjög gæfulegt fyrir byggðir landsins þegar atvinnutæki byggðarinnar og fjárfestingin sem liggur í þeim og þeir tekjumöguleikar sem atvinnutækin geta útvegað mönnum eru nýtt til þess að veiða fisk í sjónum sem fjarstaddir, fjarlægir aðilar telja sig eiga. Sjómennirnir eru látnir borga hátt leiguliðaverð til þessara aðila fyrir að fá að róa til fiskjar á eigin heimamiðum. Þetta er afskaplega ósanngjarnt.

Ég er með annað dæmi um vestfirskan bát sem á tímabilinu 10. febrúar til 6. apríl í fyrra veiddi 182 tonn af þorski og ýsu. Heildarverðmætið var 25 millj. Af því fóru 17 millj. í að greiða kvótaleigu. Eftir sat útgerðin með rétt rúmar 7 millj. kr., þ.e. megnið af aflaverðmæti bátsins. Peningarnir fyrir þann afla runnu út úr byggðunum til einhverra annarra aðila sem sátu langt í burtu, kannski á suðvesturhorninu, kannski einhvers staðar fyrir norðan, hver veit. Þangað runnu sem sagt peningarnir, arðurinn af auðlindinni. Byggðirnar fengu ekki að njóta hans. Þetta er afskaplega slæmt. Þarna hafa margar byggðir því miður orðið að lúta mjög í lægra haldi vegna óréttláts kerfis.

Ég tel mjög brýnt að þessu verði breytt þannig að byggðirnar fái aftur atvinnuréttindi sín til baka og að fólkið í byggðunum geti lifað við auðlindir sínar og fengið að njóta arðsins af þeim heilum og óskiptum.

Ég vil aðeins að lokum, frú forseti, koma inn á annað atriði sem er talið í skýrslu iðnaðarráðherra sem stefnumarkandi áherslusvið, þ.e. 10. liðurinn, Bættar samgöngur, og 11. liðurinn, Greiður aðgangur að fjarskipta- og upplýsingatækni. Þetta er hvort tveggja gríðarlega mikilvægir þættir.

Það hefur margt mjög gott verið gert í samgöngumálum af núverandi ríkisstjórn, það skal alveg viðurkennast. Virkilega skemmtilegt að fara um landið og sjá þann stórhug sem hefur ríkt í samgöngumálum hér á landi á undanförnum árum. Við getum að sjálfsögðu rifist endalaust um forgangsröðina, en við höfum virkilega lyft grettistaki á undanförnum áratugum í samgöngumálum og ég ætla svo sannarlega að vona að þeirri stefnu verið haldið áfram. Þetta eru þau tvö lykilatriði sem geta eflt byggðirnar okkar til lengri tíma litið fái þær að njóta náttúruauðlinda sinna og að samgöngumálin og fjarskiptamálin séu í góðu lagi. Okkur á hinu háa Alþingi, stjórnmálamönnunum, ber skylda til að þetta sé í góðu lagi.

Ég vil að við förum að hugsa samgöngumálin svolítið öðruvísi en við höfum gert og reynum að flýta okkur frekar en hitt við að fara út í mikilvægar samgönguframkvæmdir. Ég tel að lausnin á því, sérstaklega sem snýr að suðvesturhorninu þar sem umferðin er mest, hljóti að verulegu leyti að felast í því að við leyfum einkaframtakinu að njóta sín meira en verið hefur í því að fjármagna og fara út í dýrar samgönguframkvæmdir. Reynslan af því hvernig farið var út í framkvæmdina á Hvalfjarðargöngunum og fjármögnun á henni er afskaplega góð. Ég tel að við ættum að skoða þá möguleika í fullri alvöru hvort ekki sé ástæða til að nota svipaðar lausnir m.a. til að lagfæra veginn yfir Hellisheiði og ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og halda okkur síðan við þá vegáætlun sem fyrir liggur í dag, nota þá peninga til þess að bæta enn frekar samgöngur á landsbyggðinni því þar er svo sannarlega mjög margt ógert þó mikið gott hafi verið gert á undanförnum árum.

Ég vil að lokum taka það fram að ef Landssíminn verður seldur er gersamlega nauðsynlegt að grunnnetið verði skilið frá til að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar, það verði áfram undir stjórn og í eigu hins opinbera. Ég hef lokið máli mínu.



[15:40]Útbýting:

[15:41]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í lok umræðunnar sem er orðin býsna löng og ekkert nema gott um það að segja. Það er ánægjulegt að hv. þm. hafa mikinn áhuga á byggðamálum. Það eru svo sem ekki ný tíðindi. Ég bið hv. þm. að hafa skilning á því að þó svo byggðamál heyri undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fer ég ekki með alla þá málaflokka sem varða landsbyggðina, því í raun varða flestir málaflokkar landsbyggðina að einhverju leyti, sérstaklega sjávarútvegsmál og samgöngumál. Það eru aðrir ráðherrar sem fara með þá málaflokka þannig að ég tel ekki ástæðu til að fara mikið inn í þá, með virðingu fyrir kollegum mínum. Engu að síður er nóg um að tala og mjög margt sem fram hefur komið í umræðunni sem á fullan rétt á sér og annað á minni rétt á sér að mínu mati, eins og gengur, en það er bara eins og pólitíkin er.

Af því að hér eru hv. þm. sem töluðu í lokin vil ég bregðast við örfáum atriðum sem þeir komu inn á, t.d. í sambandi við rafmagnsverðið. Við erum að fara inn í nýtt kerfi þar eins og allir vita. Ríkisvaldið mun ekki stjórna því hvaða verðlagning verður viðhöfð, að öðru leyti en því að Orkustofnun gefur út verðskrá hvað varðar sérleyfisþættina og síðan gerist annað á markaðnum. Það sem ég tel að muni koma í ljós eftir að breytingin hefur átt sér stað er að landsbyggðin muni búa frekar við lægra verð en áður vegna þess að Rarik verður ekki lengur skyldað til þess að standa undir þeim félagslega kostnaði sem er í kerfinu, en þetta á allt eftir að sýna sig betur. Eins má segja að Hitaveita Suðurnesja mun taka meiri þátt í flutningskerfinu almennt eftir breytinguna.

Það mátti skilja á máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar í sambandi við Byggðastofnun að ég hefði vald yfir þeirri stofnun þannig að ég stjórnaði þar daglegum rekstri. Það er ekki þannig. Það er stjórn fyrir stofnuninni sem fer með daglegan rekstur og stofnunin heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Svo er líka rétt að nefna það að stofnunin þarf að lúta lögum á bankamarkaði sem gerir það að verkum að mjög þröngar skorður eru settar við það sem bæði ráðherra og stjórnarmenn mega hafa afskipti af einir og sér. Það eru stjórnarfundirnir sem ráða ríkjum.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var mikið í sjávarútvegsmálunum eins og oft áður. Ég þekki þau sjónarmið sem hann kynnti ákaflega vel, en engu að síður vil ég halda því til haga að sjávarútvegsmálin eru í raun ekki málaflokkur sem ég ber ábyrgð á, en hef þó stutt þá stefnu sem uppi hefur verið í þeim málaflokki og er ekki áhugasöm um að hlaupa frá því og ber þar mikla ábyrgð eins og aðrir stjórnarsinnar. Við höfum talið að það væri mikils virði þegar á heildina er litið að viðhalda kvótakerfinu.

Ég vil segja það í lokin að ég var í þessari viku á fundi norrænna byggðamálaráðherra í Stokkhólmi. Þá áttaði maður sig betur á því en áður að þetta er stór málaflokkur í öllum þessum löndum, meira að segja í Danmörku sem manni finnst kannski vera þannig vaxin að hún þurfi ekkert á mikilli byggðastefnu að halda. Engu að síður er rekin byggðastefna þar líka. Ég tel að við getum nýtt okkur þetta samstarf meira en við höfum gert fram að þessu, t.d. í gegnum það rannsóknastarf sem fram fer á vegum stofnunar sem Norðurlönd eiga og hefur komið með ýmsar mikilvægar ábendingar.

Ég vil halda því fram, þó svo að þessi umræða hafi kannski ekki verið mikið á jákvæðu nótunum, að við séum að ná árangri í byggðamálum. Mér finnst ástandið á landsbyggðinni betra en það hefur verið oft áður þó að ég geri mér fulla grein fyrir erfiðleikum á vissum landsvæðum og tel mig hafa alveg þokkalega yfirsýn hvað það varðar. Ég legg mig fram eins og ég get. En það er nú bara þannig að það skiptir miklu máli að heimamenn hafi frumkvæði. Svo eru náttúruauðlindirnar líka misjafnlega settar um landið.

En alltaf er nú verið að reyna að bæta úr og þannig mun ég reyna að starfa áfram.



[15:46]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hæstv. byggðamálaráðherra í því að hér vantar ráðherrana, ráðherra atvinnumála, svo hægt sé að ræða við þá um byggðamál vegna þess að byggðamál eru oft atvinnumál. Hér sárvantar hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er í raun furðulegt að þeir skuli ekki sinna þessari umræðu betur en raun ber vitni.

Hæstv. byggðamálaráðherra talaði um árangur og ég vil fá að forvitnast um hvernig hún meti árangur í byggðamálum. Ég hef kvartað yfir því hér ítrekað að það vanti einhverjar mælistærðir, þ.e. íbúaþróun eða fækkun eða fjölgun starfa. Því væri fróðlegt að vita hvernig hún metur árangurinn vegna þess að við höfum ekki þær mælieiningar sem ég hefði talið vænlegar til þess að meta árangur.



[15:47]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Bara til þess að koma í veg fyrir misskilning þá var ég ekki að gagnrýna aðra ráðherra fyrir að vera ekki hér á staðnum vegna þess að ég tel ekki að þeir í sjálfu sér hafi sérstakar skyldur þegar við fjöllum um byggðamál. Þá er ráðherrann sem fer með byggðamál til andsvara.

En hvað árangur varðar tel ég fjölgun á Austurlandi t.d. ákveðinn árangur og fjölgun á Suðurlandi en hins vegar fækkun á höfuðborgarsvæðinu núna eins og á síðasta missiri sem mælt var. Ég er ekki að gera neitt allt of mikið úr þessu en mér finnst þetta — og á ferðum mínum um landið hefur mér fundist líka að andrúmsloftið sé þannig að fólk sé frekar jákvæðara og tilbúið að berjast fyrir eflingu byggðarlaga sinna. Það er mjög mikilvægt.

Það er þetta sem ég meina þegar ég segi að það hafi orðið árangur.



[15:49]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók þetta nú sem gagnrýni á þessa ráðherra og þó svo að hún hafi ekki verið að gagnrýna þá beint tel ég það gagnrýni vert að hæstv. ráðherrar skuli ekki sinna þessari umræðu betur. Þó verður að minnast á þá sem hafa verið hér viðstaddir og virða það við þá. Ef ég man rétt var hæstv. samgönguráðherra hér. Aðrir hafa í raun ekki komið hér í salinn þó svona mikilvæg mál hafi verið til umræðu sem mörg hver snerta kjördæmi þeirra. Það er í rauninni furðulegt hvað þeir lítilsvirða málaflokkinn með þessu.

Vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um árangur fyrir austan, á Austurlandi, þá ætla ég að vitna í útprent frá Fjölmiðlavaktinni. Þar kemur fram að innfæddum Austfirðingum hafi fækkað um 12 en fjölgunina sem hefur verið á Austfjörðum má rekja til útlendinga.

Við skulum þó ekki dvelja of lengi við fækkun eða fjölgun á þessum ársfjórðungi heldur eiga þessar upplýsingar að liggja hér fyrir þegar við ræðum byggðamál og líka um fækkun og fjölgun starfa. Umræða eins og þessi um þessa skýrslu, um verkefni út og suður, skilar ákaflega litlu. Ég hefði talið miklu vænlegra til að örva vitrænar umræður um málaflokkinn að hafa þessar tölur uppi á borðinu og í skýrslunni.