131. löggjafarþing — 21. fundur
 8. nóvember 2004.
Húsnæðislán bankanna.

[15:13]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Bankarnir keppast nú um að bjóða lán á lágum vöxtum og í stað þess að lána tiltekið hlutfall af verðgildi eignar eru nú boðin 100% lán. Allt lítur þetta vel út við fyrstu sýn en þegar farið er að rýna í smáa letrið er iðulega annað upp á teningnum.

Ég held að mörgum hafi brugðið í brún þegar upplýst var í fréttum Stöðvar 2 í gær hverjir skilmálar eru fyrir 100% íbúðalán hjá Íslandsbanka. Í fréttinni kom fram að þeir sem sækja um slík lán verða að taka lánatryggingu og skila blóð- og þvagsýni til læknis. Meðal þess sem fólk þarf að svara á sérstöku eyðublaði er hvort foreldrar eða systkini þeirra hafi haft hjarta- eða æðasjúkdóma, geð- eða taugasjúkdóma, berkla, krabbamein, sykursýki eða sjúkdóma sem geta verið arfgengir. Sumt af þessu samkvæmt fréttinni stríðir reyndar gegn lögum um persónuvernd.

Hér er um að ræða fyrirtæki á markaði en fyrirtæki engu að síður sem starfar samkvæmt lagaramma sem hér er settur, samkvæmt landslögum. Þegar um er að ræða að þegnunum sé mismunað á þennan hátt samkvæmt heilsufari er ástæða til að beina spurningum til hæstv. ráðherra sem fer með bankamálin. Hefur það verið rætt á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess hvort ástæða sé til að skerpa á lögum um persónuvernd eða öðrum lögum sem koma í veg fyrir eða eiga að koma í veg fyrir grófa mismunun af þessu tagi?



[15:15]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er með þetta mál eins og það sem talað var um hér á undan að það er ekki þannig að ráðherrar hafi afskipti af öllu því sem fram fer í þjóðfélaginu.

Við höfum komið því þannig fyrir í sambandi við bankana að þeir starfa samkvæmt lögum þar um, en stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið hafa miklu hlutverki að gegna í sambandi við þá starfsemi sem fer fram í fjármálastofnunum. Eins og ég hef margoft tekið fram fer ég ekki með stjórn þeirrar stofnunar. Fjármálaeftirlitið er algjörlega sjálfstætt og ég hef ekki upplýsingar um það að hvaða málum þeir eru að vinna hverju sinni.

Af því að hv. þm. talar hér um lög um persónuvernd vil ég taka fram að þau heyra ekki undir ráðuneyti mitt, heldur undir dómsmálaráðuneytið. Í því tilfelli er því eins farið, Persónuvernd er sjálfstæð stofnun og starfar ekki samkvæmt tilmælum frá dómsmálaráðherra.

Með lagasetningu okkar höfum við komið okkur upp umhverfi og farvegi fyrir tilfelli eins og þetta þar sem við hljótum að treysta á að eftirlitið sé með þeim hætti sem þarf að vera og það sé tekið á þegar farið er út fyrir velsæmi í sambandi við mál eins og þetta. Ég heyrði þetta líka í fréttum eins og hv. þingmaður í gærkvöldi og hef ekkert frekari svör en hann við spurningunni.



[15:16]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til þess að þeir ráðherrar sem málið tekur til skoði það sérstaklega og þá hvort ástæða er til að skerpa á lögum til að koma í veg fyrir grófa mismunun af þessu tagi.

Bankar og fjármálastofnanir hafa skyldum að gegna gagnvart samfélaginu. Slíkar stofnanir eiga að þjónusta það. Það hefur oft verið sagt, sérstaklega af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, að ríkið eigi ekki að vera að vasast í því sem einkafyrirtæki geti gert eins vel. Nú er að koma á daginn á hvern hátt bankarnir þjónusta landsmenn, mismuna tilteknum byggðasvæðum og nú á að mismuna sjúku fólki sem er haldið illkynja sjúkdómum. Mér finnst full ástæða til að löggjafarvaldið taki þessi mál til skoðunar, og einnig framkvæmdarvaldið og allir þeir sem eiga að gegna eftirlitshlutverki.