131. löggjafarþing — 21. fundur
 8. nóvember 2004.
Veggjald í Hvalfjarðargöng.

[15:38]
Gísli S. Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma þessari fyrirspurn að. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra og spyr um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi lækkun eða niðurfellingu vegskatts um Hvalfjarðargöng.

Eiga Íslendingar, og þá þeir sem mestra hagsmuna hafa að gæta, íbúar Norðvesturkjördæmis, von á aðgerðum í þessa átt? Ef svo er, hvenær?

Það er líklegt að kostnaður vegna samgöngubóta um Hvalfjörð, ef af hefði orðið, nemi þeim kostnaði sem varð þegar stofnað var til Hvalfjarðarganganna. Þess vegna hlýtur að vera sanngjörn krafa allra Íslendinga og sérstaklega þeirra sem eiga ríkastra hagsmuna að gæta að vegskatturinn verði felldur niður. Þetta og mál sem lúta að Arnkötludalsleið eru ein ríkustu samgöngumálin sem að okkur lúta, íbúum Norðvesturkjördæmis. Því spyr ég um vegskatt um Hvalfjarðargöng.



[15:39]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að þetta er tæplega óundirbúin fyrirspurn vegna þess að hún liggur skriflega fyrir í þinginu frá hv. þingmanni Norðvesturkjördæmis Jóhanni Ársælssyni. Því er kannski ekki ástæða til að eyða mjög miklum tíma í umræður um þetta. En það liggur fyrir að ýmsir hafa áhuga á því að lækka gjaldið vegna notkunar á Hvalfjarðargöngunum og sá sem hér stendur er meðal þeirra. Þingmenn úr öllum flokkum hafa vakið athygli á því að mjög æskilegt væri að lækka þetta gjald og af hálfu samgönguráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á það við stjórn Spalar að leita allra leiða til þess að lækka þetta gjald.

Gert er ráð fyrir að endurskoðuð verði innheimta virðisaukaskatts og það er samkvæmt stjórnarsáttmála og ég hef vakið athygli á því í umræðum um lækkun á virðisaukaskatti að ég hef gert ráð fyrir því að til þess komi að skatturinn lækkaði á þessum þætti, þ.e. gjaldið er í lægra þrepi virðisaukaskattsins og ég tel eðlilegt að það verði skoðað í þeirri heildarendurskoðun. Breytingar á álagningu virðisaukaskatts gætu og ættu að leiða til lækkunar gjaldsins.

En aðalatriðið er að í viðræðum milli Spalar, samgönguráðuneytis og Vegagerðar er verið að leita leiða til að lækka gjaldið. Ég tel eðlilegt að taka þessa umræðu að öðru leyti þegar fyrirspurnin sem ég benti á verður hér til umræðu og á dagskrá síðar á þinginu.



[15:41]
Gísli S. Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og að hafa bent á að þessar spurningar liggja að einhverju leyti fyrir. En ég vil bara ítreka að aldrei er of oft spurt góðra spurninga sem nauðsynlegt er að fá svör við. Það er alveg öruggt mál. Þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir íbúa Norðvesturkjördæmis að það ætti í rauninni að koma upp í hverjum fyrirspurnatíma til að leggja áherslu á að þetta á að taka af. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra að beita sér í þessu máli af fullum þunga en ekki láta einhverja menn, eins og ég vil næstum segja, úti í bæ vera að ræða málin.



[15:42]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég met að sjálfsögðu áhuga þingmannsins á þessu máli og geri ekki lítið úr honum. Það er nú ekki um það að ræða að einhverjir menn úti í bæ séu að fjalla um þetta heldur eru það stjórnendur Spalar, þess hlutafélags sem fengu með sérstökum samningi við ríkið leyfi til að grafa göngin. Þeir hafa fullt vald og fullan rétt til þess að fjalla um þetta mál.

Ég hef lýst þeim vilja mínum að allra leiða verði leitað í samstarfi við stjórn Spalar til þess að lækka gjaldið og ég á von á því að þeir ágætu stjórnendur leggi sig fram við að finna leiðir til þess.