131. löggjafarþing — 21. fundur
 8. nóvember 2004.
Græðarar, 1. umræða.
stjfrv., 246. mál. — Þskj. 257.

[15:44]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um græðara. Í kjölfar þingsályktunar um stöðu óhefðbundinna lækninga sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 2002 skipaði ég nefnd sem falið var að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi og bera hana saman við stöðu mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum.

Verkefni nefndarinnar var að skoða stöðu óhefðbundinna lækninga, gera tillögur um hvernig koma skuli til móts við vaxandi umsvif á sviði óhefðbundinna lækninga og að taka afstöðu til þess hvort viðurkenna skuli nám í þeim með veitingu starfsréttinda. Í áfangaskýrslu nefndarinnar sem lögð var fram á Alþingi, 130. löggjafarþingi, var gerð grein fyrir upphafsvinnu nefndarinnar sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að æskilegt væri að gefa þeim græðurum kost á tiltekinni viðurkenningu hins opinbera að uppfylltum ákveðnum menntunarlegum og faglegum kröfum. Með þessu móti yrði starfsemi græðara settur ákveðinn rammi og komið á fót virku eftirliti sem væri til hagsbóta jafnt græðurum og þeim sem nýta sér þjónustu þeirra. Ákveðið var að þetta yrði best gert með lagasetningu og er frumvarpið sem hér er kynnt meginniðurstaðan af starfi nefndarinnar.

Óhefðbundnar lækningar hafa lengi verið stundaðar í einhverri mynd í öllum samfélögum. Viðhorf til þessara mála eru mismunandi milli landa, munur er á því hvaða aðferðir óhefðbundinna lækninga hafa náð fótfestu í menningu ólíkra þjóða og í hve miklum mæli almenningur nýtir sér þær. Í Noregi og Danmörku hafa nú verið sett lög um starfsemi þeirra sem vilja veita óhefðbundna meðferð og í Svíþjóð er unnið að undirbúningi að lagasetningu.

Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins kemur fram að komið skuli á fót frjálsu skráningarkerfi græðara en með því er átt við að græðurum er ekki skylt að skrá sig í skráningarkerfið heldur sé það val hvers og eins. Kveðið er á um að skráningarkerfið skuli vera í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Í umsjóninni felst: að færa á skrá þá græðara sem þess óska að því tilskildu að þeir uppfylli skilyrði um félagsaðild, taka af skrá þá sem þess kunna að óska og afskrá þá sem ekki uppfylla lengur sett skilyrði fyrir skráningu. Mikilvægt er að umsjónaraðili með kerfinu tryggi að skráðar upplýsingar séu ávallt réttar og að allar breytingar séu færðar inn reglulega. Bandalagi íslenskra græðara er heimilt að innheimta skráningargjald af hverjum einstaklingi sem skráir sig í skráningarkerfið. Gjaldið skal vera hóflegt og einungis ætlað til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af rekstri og viðhaldi skráningarkerfisins. Gert er ráð fyrir að sú viðurkenning sem skráning felur í sér verði græðurum og einstökum fagfélögum þeirra hvatning til að sækjast eftir aðild að skráningarkerfinu. Aðeins þeir græðarar sem fá skráningu hafa heimild til að kynna sig sem skráða græðara á því sviði sem þeir starfa. Skráning er til marks um að þeir uppfylli tilteknar menntunarlegar og faglegar kröfur og felur í sér ákveðinn gæðastimpil sem nýtist græðurum við að kynna starfsemi sína og veitir jafnframt notendum þjónustunnar ákveðnar upplýsingar um gæði hennar. Nefndin telur að verði þetta frumvarp að lögum hafi það í för með sér ávinning fyrir þá sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara, samhliða því að starfsumhverfi græðara verður bætt.

Frumvarp til laga um græðara var sent til umsagnar fjölda aðila um miðjan júlí 2004 og voru viðbrögð almennt jákvæð. Samkvæmt frumvarpinu skal eins og áður segir komið á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Með almennu heilbrigðiskerfi er átt við alla heilbrigðisþjónustu sem veitt er af löggiltu heilbrigðisstarfsfólki, hvort sem ríkið tekur þátt í kostnaði vegna hennar eða ekki. Megináhersla er lögð á neytendavernd og að efla faglega ábyrgð þeirra sem veita heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Í athugasemd við 2. gr. frumvarpsins er nánar skýrt hvað átt er við með heilsutengdri þjónustu. Þeim sem veita slíka þjónustu hefur verið valið samheitið græðarar sem oft hefur komið fyrir í þessari framsöguræðu. Orðið er gamalkunnugt orð í íslensku máli og hentar vel til að afmarka þann fjölbreytta og sundurleita hóp sem veitir heilsutengda þjónustu eins og hún er skilgreind í frumvarpinu. Einnig hefur orðið græðari verið notað um skeið af bandalagi nokkurra fagfélaga sem veita heilsutengda þjónustu, þ.e. Bandalagi íslenskra græðara sem stofnað var árið 2000.

Fram að þessu hefur engin lögformleg skilgreining verið til á heilsutengdri þjónustu græðara. Græðarar hafa ekki notið opinberrar viðurkenningar. Samkvæmt frumvarpinu er græðurum veitt ákveðin viðurkenning af hálfu hins opinbera ef þeir skrá sig í skráningarkerfi það sem frumvarpið fjallar um. Slík skráning er háð skilyrðum og leggur vissar skyldur og faglegar kröfur á herðar einstökum fagfélögum sem fá aðild að skráningarkerfinu og þeim einstaklingum sem skrá sig í það.

Í drögum að reglugerð sem lögð eru fram sem fylgiskjal með frumvarpi þessu er kveðið á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að hljóta aðild að skráningarkerfinu. Kröfurnar lúta m.a. að menntunarlegum og faglegum kröfum sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að teljast fullgildir félagar í viðkomandi fagfélagi.

Í meðfylgjandi drögum að reglugerð sem lögð er fram sem fylgiskjal með frumvarpinu er kveðið á um að almenningur skuli eiga greiðan aðgang að upplýsingum um hvort græðari sé skráður og í hvaða starfsgrein. Þetta er mikilvægt til þess að hver sá sem vill nýta sér þjónustu græðara geti gengið úr skugga um hvort græðari sá er hann leitar til uppfylli þær kröfur sem kveðið er á um í frumvarpi þessu og reglugerðum sem á því byggja.

Herra forseti. Frumvarpinu sem hér er lagt fram er eins og áður segir ætlað að hafa í för með sér ávinning fyrir þá sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara, jafnhliða því sem starfsumhverfi græðara verði bætt.

Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.



[15:51]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram í þinginu. Ég var einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar sem var samþykkt hér 2002 sem síðan varð til þess að farið var í þá vinnu sem nú hefur skilað sér inn í þingið sem frumvarp um græðara. Ég get ekki annað en verið ánægð með það. Við lestur frumvarpsins sé ég að víðtæk sátt hefur verið um hvernig frumvarpið er úr garði gert. Leitað hefur verið til fjölmargra félagasamtaka og stofnana um umsagnir. Síðan hefur verið höfð til fyrirmyndar lagasetningin á Norðurlöndunum en bæði í Noregi og Danmörku tóku gildi á þessu ári lög um óhefðbundnar lækningar.

Ég vil líka segja að mér finnst orðið græðari gott orð yfir þá sem stunda þessa heilsutengdu þjónustu eða óhefðbundnar lækningar og er sannfærð um að þessi lagasetning veitir bæði þeim sem nýta sér þjónustu græðaranna betri stöðu og sömuleiðis er þetta betra starfsumhverfi fyrir þá sem sinna óhefðbundnum lækningum.

Mig langar aðeins til að spyrja hæstv. ráðherra út í atriði sem er ekki alveg óskylt þessu, áhugamál mitt sérstakt, þ.e. hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn að taka einnig inn í svona lagasetningu aðra heilsutengda þjónustu, heilsurækt. Nú veit ég ekki hvort ráðherrann er að hlusta á mig þar sem ég sé að hann er að tala við fyrrverandi umhverfisráðherra en ég var sem sagt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri tilbúinn til að samþykkja svipaða lagasetningu yfir þá sem veita heilsutengda þjónustu sem felst í hreyfingu og líkamsrækt.

Nú hefur það gerst á Norðurlöndunum að læknar hafa vísað í æ auknari mæli á hreyfingu í stað þess að fara inn á hefðbundna læknisþjónustu. Við lestur þessa frumvarps finnst mér ekki óeðlilegt að sá hópur, þ.e. þeir sem sinna líkamsrækt og heilsutengdri þjónustu sem felst í því að fólk hreyfi sig og geri það á réttan hátt, fái einhverja svipaða stöðu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að standa að því.

Ég hyggst leggja fram þingsályktunartillögu í þá veru í vetur þar sem farið yrði í svipaða vinnu og hér hefur verið farið í hvað varðar hreyfingu. Ég hef mikinn áhuga á því að það verði gert. Ég vildi gjarnan heyra í hæstv. ráðherra um það. Auðvitað munum við síðan fara yfir þetta mál í heilbrigðis- og trygginganefnd og skoða það lið fyrir lið og hvort eitthvað mætti betur fara. Við fyrsta yfirlestur líst mér vel á málið og er tilbúin að styðja að það verði að lögum sem fyrst. Ég fagna því að þingsályktunin sem Lára Margrét Ragnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og núverandi varaþingmaður, átti frumkvæði að skuli hafa skilað sér með þessum hætti inn í þingið.



[15:56]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, og fagna því að þetta frumvarp sé komið hér fram. Við sem vorum hér á síðasta kjörtímabili fylgdumst mjög vel með framgangi þingsályktunartillögu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur sem var 1. flutningsmaður tillögu um að skipa nefnd sem átti að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi og bera saman við stöðu mála erlendis. Við vitum að töluverður áhugi er á þessu frumvarpi úti í samfélaginu, bæði meðal þess stóra hóps fólks sem málið varðar og mundi falla undir skilgreiningu græðara og jafnframt þess stóra hóps fólks sem nýtur þjónustu þeirra stétta sem falla undir græðara. Það kemur m.a. fram í skýrslu frá þeirri nefnd sem skipuð var í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögunnar að á 15 ára tímabili, frá 1985 til 2000, fjölgaði þeim sem nýttu sér þessa þjónustu græðara úr 6% og upp í tæplega 30%. Það segir að þetta meðferðarform nýtur mikillar velvildar og álits meðal þjóðarinnar.

Mig langaði að draga fram að í nefndaráliti hv. heilbrigðis- og trygginganefndar með þingsályktunartillögunni þegar hún kom til afgreiðslu í hinu háa Alþingi sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nefndin telur brýnt að ráðist verði í þá vinnu sem tillaga þessi gerir ráð fyrir. Ljóst er að svokallaðar óhefðbundnar lækningar eru stundaðar hér á landi í talsverðum mæli með þegjandi samþykki yfirvalda. Það skortir tilfinnanlega regluramma um þessa starfsemi svo að unnt sé að hafa eftirlit með henni og vernda hagsmuni notenda þessarar þjónustu sem og starfsöryggi og heiður þeirra sem sannanlega hafa aflað sér þekkingar til að veita hana. Segja má að þessi starfsemi hafi hingað til farið fram í einhvers konar lagalegu tómarúmi með afskiptaleysi yfirvalda og er mikilvægt að ráða bót á því vegna eðlis þjónustunnar. Áður en af því getur orðið verður þó að vinna ákveðna grunnvinnu. Tillaga þessi gengur út á að ráðist verði í þessa vinnu og þannig stigið fyrsta skrefið að því markmiði að mynda lagaramma utan um þessa starfsemi.“

Síðan segir einnig í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin vill koma þeirri afstöðu sinni á framfæri að ekki eigi að leggja áherslu á löggildingu starfsréttinda í þessum greinum heldur geti viðurkenning náms og réttinda verið nægjanleg í flestum tilvikum. Í slíkum viðurkenningum felst mikilvæg neytendavernd.“

Í rauninni má segja að það frumvarp sem við erum núna að fjalla um fari nákvæmlega eftir þeim ramma og þeim hugmyndum sem nefndin lagði til.

Í mínum huga er tilgangur þessa nýja frumvarps í fyrsta lagi að skilgreina hvað felst í heilsutengdri þjónustu græðara og í öðru lagi að gæta hagsmuna neytandans. Það er mjög mikilvægt og þýðir m.a. að þjónusta sem er boðin sé viðurkennd af stjórnvöldum og uppfylli ákveðin skilyrði um gæði og öryggi. Hún á líka að fela í sér að þjónustan sé háð eftirliti stjórnvalda, að þeir sem veita þjónustuna séu skráðir og hafi grundvallarþekkingu í ákveðnum greinum heilbrigðisvísinda og hafi undirgengist tilteknar reglur, þar á meðal siðareglur sem eiga að tryggja hag neytandans. Hér á ég við siðareglur viðkomandi stéttar. Síðan er líka mjög mikilvægt að upplýsingar liggi fyrir þannig að almenningur geti áttað sig á hvaða einstaklingar eru viðurkenndir af stjórnvöldum og hverjir eru það ekki. Loks er í þriðja lagi tilgangur frumvarpsins að viðurkenna stöðu græðara í íslensku samfélagi og kveða á um réttindi þeirra og skyldur og skapa þeim betri starfsaðstæður.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að Danir og Norðmenn hafa farið svipaða leið og hér er lögð til og hafa nýlega sett lög um græðara sem eru á svipuðum nótum, þ.e. að viðurkenna græðara með því að þeir fái skráningu sem slíkir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hér er auðvitað gerður greinarmunur annars vegar á löggiltum heilbrigðisstéttum sem meðhöndla sjúka svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar og fleiri heilbrigðisstéttir sem fá starfsleyfi hjá heilbrigðisráðuneytinu, og hins vegar græðurum sem eru skráðir, reyndar er skráningarkerfið frjálst samkvæmt þessu frumvarpi sem ég tel vera alveg viðunandi. Það er því gerður ákveðinn greinarmunur á þessu.

Mig langar í örfáum orðum að fjalla um stöðu þess sem kallað er óhefðbundnar lækningar í öðrum löndum, en t.d. í Kína, Víetnam og Kóreu er það sem við köllum óhefðbundnar lækningar hið hefðbundna. Meira að segja í skýrslu eða öllu heldur ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til stjórnvalda um hvernig haga eigi þessum málum þá er talað um „traditional medicine“, ekki óhefðbundnar, „untraditional“, heldur traditional, þannig að það sem er óhefðbundið hjá okkur er hefðbundið í mörgum öðrum ríkjum, m.a. Austurlanda. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég datt ofan á eru á sjöunda hundrað þúsund læknar í Kína sem mundu falla undir skilgreiningu óhefðbundinna lækninga, sem væru þá hefðbundnar hjá þeim, og sú meðferð sem þeir veita er að fullu greidd af sjúkratryggingakerfinu.

Síðan er líka vert að benda á að í Ástralíu og Indlandi og fleiri stöðum er háskólanám fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga og fleiri í óhefðbundinni meðferð. Rannsóknastofnanir í óhefðbundnum meðferðarformum eru t.d. starfandi í Noregi, Japan, Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum en einnig í Indlandi, Indónesíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum svo fáein lönd séu nefnd.

Þetta innlegg mitt er til þess að undirbyggja það að við förum varlega í því að gefa til kynna að þetta sé ósannreynd og óvísindaleg meðferð. Ég vil því gera sérstaklega að umfjöllunarefni 2. gr. frumvarpsins þar sem segir að þessi meðferð byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Það er dálítil hætta á að verið sé að gera lítið úr þeim raunverulega árangri sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að er ekki lakari en árangur af því sem við köllum hefðbundnar meðferðir.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til stjórnvalda eru m.a. gefin dæmi um rannsókn þar sem tveir hópar sjúklinga með mismundi sjúkdóma en samt sem áður sambærilegir fóru í meðferð þar sem annar hópurinn fékk það sem við mundum kalla hefðbundna meðferð, lyfjameðferð og slíkt með framleiddum lyfjum, og hinn hópurinn fékk meðferð sem mundi falla undir óhefðbundna meðferð. Niðurstaðan af þessu eftir eitt ár var að óhefðbundna meðferðin var ódýrari. Það voru færri aukaverkanir af óhefðbundinni meðferð, það var meiri fylgni milli álits sjúklinga á árangri og raunverulegs árangurs meðferðar og viðurkenning sjúklings á hlutverki meðferðaraðila í að leysa heilbrigðisvandann var einnig meiri, og það var 53–63% hagkvæmara að beita óhefðbundinni meðferð með tilliti til árangurs en hefðbundinni. Þetta var bæði hagkvæmara og árangursríkara þannig að við skulum aðeins staldra við þegar við segjum eða gefum í skyn að meðferðin sé óvísindaleg.

Þarna er hins vegar verulegur óplægður akur og það er oft erfitt að finna aðferðir til að rannsaka áhrif tiltekinnar meðferðar en það er mikil þróun í gangi í þessum efnum. Þess vegna beini ég því til hv. heilbrigðisnefndar að hún skoði orðalag 2. gr. frumvarpsins þannig að ekki sé verið að gera lítið úr þessum meðferðum. Ég er þeirrar skoðunar og ég veit að margt af því sem mundi falla undir starfssvið græðara er í rauninni framkvæmt af heilbrigðisstéttum sem hluti af starfi þeirra inni á spítölum og er í rauninni viðurkennd meðferð þó að sú meðferð fái ekki sömu viðurkenningu þegar hún er í höndum græðara og nefni ég þar t.d. nálastungumeðferð og nudd og slíkt sem hefur verið sýnt fram á að hefur mjög góð áhrif á sjúklinga.

Mér sýnist að öðru leyti að það frumvarp sem hér er til umræðu taki mið af ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um hvernig á að taka á þessum málum þannig að það er af hinu góða.

Að lokum langar mig aðeins að draga fram 8. gr. frumvarpsins sem snýr að auglýsingum. Fyrirsögn 8. gr. er reyndar Starfsheiti og kynning en ég ætla sérstaklega að varpa spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvað varðar þær takmarkanir sem þar koma fram varðandi auglýsingar á þessari starfsemi. Þeir hópar sem mundu falla undir þessi lög hafa í dag engar slíkar takmarkanir og ég hef ekki séð að það hafi verið til trafala. Sannarlega þurfa þessir aðilar að gæta að ákveðnum siðareglum og að þeir séu ekki að lofa meiru en þeir geta staðið við, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir auglýsi þjónustu sína hér eftir sem hingað til. Reyndar er það skoðun mín að við höfum gengið of langt varðandi heilbrigðisstéttir að þeir megi ekki auglýsa þjónustu sína því hvenær eru auglýsingar upplýsingar og er ekki sjúklingum nauðsynlegt að hafa upplýsingar þegar þeir taka ákvörðun um til hvers þeir eiga að leita.

Í því sambandi langar mig að benda á þjónustu tannlækna. Verðlagning á þjónustu tannlækna er frjáls í dag en fólki er það yfirleitt ekki ljóst. Fólk heldur að það gangi að föstum taxta þegar það fer til tannlæknis, en það er öðru nær. Og meðan fólk hefur ekki upplýsingar um hvað kostar t.d. að senda barnið sitt í tannréttingar þar sem er gríðarlegur verðmunur á milli tannlækna, hvernig í ósköpunum á fólk að geta metið hvar bestu þjónustuna er að fá, hvar eru mestu gæðin fyrir besta verðið, hvert er hagkvæmast að leita? Þessar upplýsingar liggja ekki á lausu nema fólk hreinlega hringi á milli staða þannig að því er í raun og veru gert mjög erfitt fyrir.

Ég legg áherslu á að 8. gr. verði endurskoðuð í nefndinni og horft verði til þess að þessar stéttir auglýsa í dag og það hefur ekki skapað vanda, og um leið vil ég lýsa yfir þeirri skoðun minni að ég tel að við göngum of langt varðandi þetta atriði hjá heilbrigðisstéttum í dag.

Almennt séð tel ég að frumvarpið sé til mikilla bóta fyrir stöðu græðara og stöðu neytenda og það sé mikið framfaramál að það fari í gegn. Það hefði e.t.v. mátt gerast fyrr en það er eins og með svo mörg mál að þau koma seint fram hér á landi, við förum stundum heldur varlegar en aðrar þjóðir en kannski má segja að þegar við tökum okkur til þá gerum við það vel.



[16:09]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og góða yfirferð um þessi mál í ræðu sinni og spyrja hv. þingmann hvort hún hefði einhverja tillögu um hvernig við ættum að breyta 2. gr. Ég get alveg tekið undir það að þetta sé ekki alveg í takt við reynsluna, sérstaklega þegar litið er til fjarlægra heimsálfa varðandi þá sem sinna þessari heilbrigðisþjónustu eða heilsutengdu þjónustu þar, því vissulega má segja að í Austurlöndum byggir þessi þjónusta á gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Við þurfum því kannski að breyta 2. gr. og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé með ákveðna tillögu um hvernig best væri að breyta henni. En ég er alveg sammála því að mér finnst hún eiginlega ekki geta staðið svona í ljósi þess í hverju þessi heilsutengda þjónusta felst úti í hinum stóra heimi.

Síðan get ég tekið undir með hv. þingmanni í sambandi við takmarkanir á auglýsingunum. Ég get ekki séð að við eigum að takmarka það eitthvað miðað við hvernig þetta er í dag. Nuddarar og aðrir geta auglýst í dag og mér finnst engin ástæða til að við þurfum þrengja það eitthvað þó að komið sé ákveðið starfsumhverfi í kringum þjónustu þessara hópa.



[16:11]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því einmitt fyrir mér hvernig hægt væri að orða þetta með einhverjum þeim hætti sem sneiddi hjá þessum vanköntum sem eru núna á greininni en ég komst ekki að neinni niðurstöðu um það og hafði kannski ekki heldur mikinn tíma til að velta því fyrir mér. En ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir nefndina að fá góðar umsagnir, að fá umsagnir frá þeim aðilum sem eiga þarna hagsmuna að gæta og kannski ekki síður frá þeim fagfélögum þar sem eru löggiltar starfsstéttir vegna þess að ég veit t.d. að hjúkrunarfræðingar telja að ýmis meðferð sem þeir veita hefur í raun og veru, þó að hún sé innan þeirra starfssviðs, ákveðna samsvörun í ýmsu sem græðarar eru að gera, og þá sérstaklega hjúkrunarfræðingar sem hafa aukið við menntun sína á einhverju tilteknu sviði.

Ég tel því að það ætti einmitt að leita til lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og fleiri stétta til að fá sjónarmið þeirra á því hvernig þetta ætti að hljóða. Ég hef ekki lausn á því en vildi nota tækifærið og benda á að þetta er kannski ekki nákvæmlega eins og við viljum hafa það og í rauninni ekki í samræmi við sannleikann í málinu, þó svo, eins og ég sagði áðan, að það séu ákveðnir erfiðleikar með aðferðafræði við að sannreyna óhefðbundnar meðferðir. Hvernig ætlum við að sannreyna það t.d. að nudd hafi áhrif á ónæmiskerfið? Reyndar er það kannski óheppilegt dæmi vegna þess að það eru einmitt rannsóknir sem benda til þess að nudd hafi jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. En þetta er þá verkefni nefndarinnar að skoða.



[16:13]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þurfum auðvitað að senda málið út til umsagnar og fá álit fjölmargra. Þó svo að frumvarpsdrögin hafi verið send út mjög víða til umsagnar þurfum við engu að síður að fá umsagnir inn í nefndina. Það er einmitt fín ábending hjá hv. þingmanni að skoða það sérstaklega að fá löggiltar stéttir til að segja álit sitt eins og t.d. á 2. gr. Ég er alveg sannfærð um að við munum gera það í nefndinni að fá sem flesta að málinu og laga það sem við teljum að betur mætti fara í frumvarpinu. Síðan get ég ekki séð að neitt ætti að vera því til fyrirstöðu að við getum afgreitt málið úr nefndinni að því loknu því það er, eins og mér heyrist allir vera sammála um, hið þarfasta mál bæði fyrir almenning og þá sem veita þessa þjónustu.



[16:14]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara stutt athugasemd. Það var leitað til ýmissa aðila við vinnslu frumvarpsins en það var samt sem áður einn aðili sem hafði séð frumvarpið á fyrri stigum í umsögnum og kom á óvart hvað það hafði breyst mikið frá því að hann hafði fengið það til umsagnar og þangað til endanlega útgáfan kom. Ég held því að það sé ástæða til að leita sérstaklega til þessara aðila til að sjónarmið þeirra komi þá fram um hvað betur mætti fara.



[16:15]
Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því frumvarpi sem heilbrigðisráðherra hefur nú mælt fyrir. Eins og umræðan í þingsalnum ber glöggt vitni um er þetta ekki nýtt mál í þinginu og heyrist á ræðumönnum sem hér hafa talað á undan mér að um þetta hefur verið fjallað töluvert í þinginu og sérstaklega í heilbrigðis- og trygginganefnd. Eins og kom fram í máli ræðumanna kemur þetta frumvarp fram í kjölfarið á þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 2002 og heilbrigðisnefnd fjallaði töluvert um á sínum tíma.

Þegar þetta mál var í heilbrigðisnefnd fengum við bæði tilteknar umsagnir inn í nefndina og fengum gesti á okkar fund frá Bandalagi íslenskra græðara og fleiri aðilum sem höfðu sterkar og góðar skoðanir á þessu. Þar kom m.a. fram að þetta er mjög fjölbreyttur og sundurleitur hópur sem hefur í almennri umræðu gengið eða setið undir því að stunda það sem við kölluðum í þingsályktunartillögunni óhefðbundnar lækningar.

Markmiðið eins og ég skil með frumvarpinu núna og í takt við þingsályktunartillöguna er að veita ákveðna viðurkenningu tilteknum hópi þeirra sem hafa stundað óhefðbundnar lækningar. Einhvern veginn segist mér svo hugur að þá flokkist þessi hópur svolítið niður. Það kom í ljós í meðferð heilbrigðis- og trygginganefndar að margir af þeim sem hafa verið að veita þessa þjónustu eru með margra ára háskólanám að baki en aðrir hafa jafnvel bara sótt ákveðin helgarnámskeið. Það er náttúrlega ljóst að með frumvarpinu, ef að lögum verður, er verið að tryggja ákveðna neytendavernd. Verið er að tryggja það að almenningur geti gert sér svolitla grein fyrir því hvað stendur á bak við þjónustutilboð frá hverjum og einum.

Það sem ég velti svolítið fyrir mér og langaði til að beina spurningu til ráðherra um er að við töluðum alltaf um þetta sem óhefðbundnar lækningar. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu er í dönsku og norsku lögunum, sem nýbúið er að setja, talað um óhefðbundna meðferð sem er svona aðeins í takt við þá orðnotkun sem við höfum tileinkað okkur á Íslandi, en hins vegar er í þessu frumvarpi talað um heilsutengda þjónustu græðara. Spurning hvort ráðherra getur að einhverju leyti skýrt fyrir okkur af hverju þessi orðnotkun er valin.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum að mér finnst heitið græðari óskaplega gott og ég held að full sátt sé um að nota það, líka meðal Bandalags íslenskra græðara og þeirra aðildarfélaga sem þar heyra undir. En ef ráðherra vildi aðeins skýra fyrir okkur hvers vegna þessi orðnotkun er valin í frumvarpinu væri það gott.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller er sín hvor sýnin á þetta, þ.e. í okkar vestrænu samfélögum og síðan víða í Asíu og Afríku. Við og á vettvangi WTO lítum á þetta sem svona jaðarþjónustu eða viðbótarþjónustu og umræðan hér áðan og andsvör hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur bera þess líka merki að við eigum svolítið erfitt með að fóta okkur í þessu, hvað það er sem við í rauninni viljum að heyri undir þessa almennu heilbrigðisþjónustu og hins vegar það hvað við teljum að eigi að falla undir þetta óhefðbundna.

Mér fannst orðaskipti þessara tveggja hv. þingmanna fyrst og fremst bera þess merki hvað við enn eigum erfitt með að fóta okkur í því hvað eigi að vera hvað.

Það kom líka fram hjá hv. þm. Ástu Möller að margir hjúkrunarfræðingar telja sig og örugglega læknar vera að veita þjónustu sem eftir sem áður telst óhefðbundin, ég nefni bara sem dæmi nálastungur og annað. Ég veit ekki annað en að læknar séu gjarnir á að beita henni, en síðan sé sérstakt félag þeirra sem einungis veita slíka þjónustu.

Það sem þetta snýst kannski að hluta til um er að við erum með eitthvað ákveðið sem heitir almennt heilbrigðiskerfi þar sem við erum búin að tryggja greiðsluþátttöku almannatrygginga en síðan erum við með heilsutengda þjónustu, eins og það heitir í frumvarpinu, sem stendur þar fyrir utan.

Þetta er held ég að hluta til kappsmál margra þeirra sem veita óhefðbundnar lækningar, heilsutengda þjónustu, að komast inn í þetta almenna heilbrigðiskerfi og að fleiri geti þá notið þeirrar þjónustu.

Málið ber þess merki, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra líka, að frumvarpið er unnið í sátt. Í nefndinni sem vann frumvarpið áttu sæti aðilar m.a. frá Bandalagi íslenskra græðara. Frumvarpið var líka sent til umsagnar víða. Ég geri ráð fyrir að þegar búð er að vísa frumvarpinu til heilbrigðis- og trygginganefndar munum við eftir sem áður senda það til umsagnar og fá líka á fund nefndarinnar gesti, bæði fulltrúa heilsutengdrar þjónustu, eins og það heitir í frumvarpinu, og jafnframt einhverja fulltrúa frá hinu almenna heilbrigðiskerfi eða talsmenn þess.

Mig langar sérstaklega að vekja athygli í þessu tilviki á vinnubrögðum sem ég tel vera til mikillar fyrirmyndar. Eins og frumvarpið ber með sér er í nokkrum tilvikum rætt um eða nefndar reglugerðarheimildir. Til að mynda segir hér að ráðherra skuli með reglugerð kveða á um þær kröfur sem fagfélög þurfa að uppfylla til að eiga aðild að skráningarkerfinu, þessu frjálsa. Einnig er talað um lágmark vátryggingarfjárhæðar sem ráðherra skuli ákvarða með reglugerð. Síðan er jafnframt gert ráð fyrir að heiti eins og alvarlegir sjúkdómar og aðgerðir sem veita meðferð sem fylgir alvarleg áhætta, það skuli skilgreint betur í reglugerð.

Síðan er um kynningar og auglýsingar, takmarkanir á því sem ræðumenn hér á undan nefndu líka.

Það sem ég vildi hrósa er að drög að reglugerðunum fylgja frumvarpinu. Við eigum þá hægara með að átta okkur á heildarmyndinni og jafnframt að ræða það við þá gesti og umsagnaraðila sem heilbrigðis- og trygginganefnd mun leita til.

Ég tel að þessi vinnubrögð séu mjög til fyrirmyndar þegar um er að ræða nokkuð víðtækar reglugerðarheimildir eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Mig langar að lokum, herra forseti, að fagna því að frumvarpið er fram komið. Grunnvinnan var unnin af fyrrverandi hv. þingmanni, Láru Margréti Ragnarsdóttur. Hún hélt síðan áfram í heilbrigðis- og trygginganefnd sem vann þetta mál vel og faglega, afgreiddi það frá sér og til þingsins. Það hefur síðan skilað sér í þessu frumvarpi sem enn er búið að leggja frekari vinnu í af hálfu ráðherra og er gleðilegt að það skyldi ekki dragast að koma frumvarpinu inn í þingið. Síðan geri ég ráð fyrir að þegar það er komið í heilbrigðis- og trygginganefnd fái það þar eins og önnur mál vandaða og góða yfirferð.



[16:22]
Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri hv. þingmenn sem þegar hafa tekið til máls fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram, frumvarp til laga um græðara. Ég tel eins og fleiri að frumvarpið sé unnið með þeim hætti eins og ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri frumvörp unnin þar sem fram kemur þingsályktunartillaga, málið er síðan unnið í heilbrigðis- og trygginganefnd og unnið áfram í heilbrigðisráðuneytinu og eftir því sem best verður séð með vönduðum vinnubrögðum og margir hafa komið þar að.

Með frumvarpinu er verið að fylla upp í það tómarúm sem hefur verið varðandi þá fjölmörgu einstaklinga sem hafa stundað hér óhefðbundnar lækningar eins og við höfum kallað það eða flokkað þá fjölmörgu sem stunda ýmiss konar heilbrigðistengda þjónustu sem hefur verið í lagalegu tómarúmi. Það hefur verið til baga vegna þess að þeir einstaklingar sem hafa sótt þjónustu inn í þennan geira hafa ekki haft nokkra einustu möguleika á að vita hvort starfsemin sé viðurkennd eða ekki. Hér erum við að fá þennan ramma sem vonandi dugar til þess að þessi fyrrnefnda óhefðbundna starfsemi geti blómstrað áfram en með þeim gæðakröfum sem á þarf að halda.

Með frumvarpinu munu verða viðurkennd bæði náms- og starfsréttindi hverrar stéttar því þær eru fjölmargar. Ljóst verður hvað felst í starfi græðara og hvaða menntunar verður krafist og hvaða einstaklingar eru viðurkenndir sem græðarar og að þeir séu skráningarskyldir. Það sem skiptir líka máli er að sérhver stétt og sérhver einstaklingur mun hafa ákveðnar siðferðilegar skyldur og ekki síst þagnarskylduna.

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að þrátt fyrir heilbrigðisþjónustuna eins og við þekkjum hana í dag á Íslandi og ég tel að við stöndum nokkuð framarlega hvað varðar þekkingu og veitta almenna heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á háskólasjúkrahúsunum, þá eru stöðugt fleiri einstaklingar sem leita út fyrir hina hefðbundnu heilbrigðisþjónustu, ekki síst einstaklingar sem eru haldnir langvinnum og alvarlegum sjúkdómum sem þrátt fyrir góða, vísindalega sannaða meðferð á sjúkrahúsunum telja að það vanti eitthvað umfram það og leita til ýmissa einstaklinga, inn á mismunandi svið, hvort sem það eru nú nálastungur, nudd, grasameðferð, heilun eða hvað það nú er sem fólk telur sig geta fengið betri bót, a.m.k. betri líðan þó það fái ekki bata. Ég tel því að mjög mikilvægt sé að viðurkenna þessa starfsemi, koma utan um hana ákveðnum böndum en þó ekki þannig að það komi í veg fyrir að hún geti blómstrað.

Ég tel einnig að með frumvarpinu felist ákveðin viðurkenning á heilsutengdri þjónustu græðara. Hún er samt sett aðeins skörinni lægra en sú heilbrigðisþjónusta sem við erum vön. Það er heldur ekki hægt að setja allt undir sama hatt því að orðið græðari nær yfir einstaklinga sem eru allt að því sjálfmenntaðir eða hafa lítið nám að baki og einnig þá sem hafa mjög langt og erfitt háskólanám að baki, þannig að orðið græðari spannar mjög vítt svið. Það eina sem er sameiginlegt er að þau falla ekki undir okkar hefðbundna eða vestræna módel.

Það er kannski til umhugsunar fyrir okkur að reyna að komast út úr þeirri núverandi skilgreiningu hvað er hefðbundið og óhefðbundið. Það sem talað er um sem hefðbundið er út frá menningarheimi okkar og okkar vestrænu skilgreiningu og þekkingu eins og við notum innan heilbrigðisþjónustunnar, sérstaklega læknisfræðinnar. Spurning hvort við náum ekki í framtíðinni að skilgreina frekar heilbrigðisþjónustuna út frá álfum eins og okkar, sem vestræna meðferð, og síðan afríska eða asíska eftir uppruna, því margar þessar fræðigreinar byggja á árþúsunda þekkingu og reynslu og að baki margra liggur, eins og ég sagði áðan, mjög langt háskólanám.

Ég tel að frumvarpið um græðara, ef það verður að lögum, verði fyrsta skrefið til þess að koma a.m.k. hluta þessarar starfsemi undir skilgreiningu á heilbrigðisþjónustu þannig að hún verði viðurkennd sem hluti af heilbrigðiskerfi okkar og að þeir einstaklingar sem hana sækja fái einnig stuðning og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.



[16:29]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi leggja örfá orð í belg um þetta ágæta mál sem er hér til umræðu. Þetta mál er enn ein sönnun þess að þingsályktunartillögur sem samþykktar eru hér á þinginu hafa oft á tíðum mjög góð áhrif og verða að veruleika.

Eins og hér hefur verið komið inn á var þetta mál sent til margra umsagnaraðila, þeir voru 60 talsins. Þar á meðal var frumvarpið sent til Bandalags íslenskra græðara, en það var stofnað árið 2000. Bandalagið hefur einmitt notað þetta orð „græðari“ sem er mjög fallegt og kjarnyrt íslenskt orð. Mér finnst fara vel á að nota það í þessu sambandi, um óhefðbundnar lækningar eða óhefðbundna meðferð, ef maður ætti að vera nákvæmari.

Aðildarfélög bandalagsins eru nokkur og mig langar að nefna þau: Acupunkturfélag Íslands, Cranio sacral félag Íslands, Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Félag íslenskra heilsunuddara, Félag lithimnufræðinga, Organon, félag hómopata, Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi og Svæðameðferðarfélag Íslands. Við heyrum af þessum lestri, virðulegi forseti, að félögin sinna þjónustu á mjög víðtæku sviði.

Segja má að í frumvarpinu felist neytendavernd, gerðar eru kröfur um aukið öryggi og reynt að tryggja gæði eins og kostur er í þessu frjálsa skráningarkerfi sem græðarar geta skráð í ef þeir hafa áhuga á því og uppfylla ákveðnar menntunarkröfur og faglegar kröfur. Það eru einnig gerðar kröfur til þeirra. Þeim er t.d. skylt að virða þagnarskyldu og einnig, eins og fram kemur í 4. gr., að taka tryggingar. Þar kemur fram að skráðum græðurum er skylt að hafa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi vegna tjóns sem leitt gæti af mistökum eða gáleysi í störfum þeirra. Þeir geta líka lagt fram ábyrgð í ákveðnum tilvikum.

Málið veitir því vernd fyrir neytandann en það er einnig mjög gott fyrir græðarana sjálfa að fá einhvers konar viðurkenningu í þessu frumvarpi. Með því að ná inn á skráningarlistann geta þeir sagt að þeir séu skráðir græðarar og í því felst ákveðin viðurkenning. Ég tel mjög brýnt að þetta mál fái góða skoðun, m.a. vegna þessa stóra hóps sem nýtir sér þjónustu græðara í dag, sem fer mjög vaxandi.

Ég hef skilið það svo að góð sátt sé um þetta mál og m.a. hafi læknar talið að frumvarpið væri í ásættanlegu formi og hafi ekki mikið við það að athuga.

Hér hefur farið fram umræða um 2. gr. frumvarpsins, þ.e. skilgreininguna á því hvað er græðari. Þar kemur fram að með orðinu græðari sé átt við þá sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis en með slíkri þjónustu er átt við þjónustu sem byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Ég get ekki tekið undir að orðanna hljóðan, virðulegur forseti, geri lítið úr græðurum, þ.e. með því að vísa í hefð og reynslu. Stundum kemur á daginn að það sem hefur verið byggt á hefð og reynslu reynist síðar hægt að sanna vísindalega, að menn hafi verið á réttri leið.

Varðandi nálastungur má t.d. nefna að þar er aðferð sem menn hafa stundað mjög lengi, m.a. í Kína. Þar gerðu menn kort af mannslíkamanum þar sem fram komu, nálastungupunktarnir, kort sem þróað var í mörg hundruð ár út frá reynslunni. Þegar vísindin urðu fullkomnari og menn gátu mælt þessa punkta með rafbylgjum þá kom í ljós, að ég held, yfir 90% fylgni á þessum punktum og svo korti sem gert var út frá rafbylgjunum með vísindalegum nálgunum. Þar sannaði hefðin sig, að eitthvað var á bak við hana. Nálastungupunktarnir breyttust ekki mikið við rafbylgjurnar þegar kortið var kannað með þeim hætti.

Ég tel mjög gott að fólk geti nýtt sér þjónustu græðara. Það er æskilegt, jákvætt og gott fyrir hvern þann sem getur nýtt sér þá þjónustu. Hins vegar er önnur hlið á málinu sem maður þarf að spyrja sig að, þ.e.: Hvað kostar meðferðin? Mun hún kosta skattborgarana eitthvað? Eins og við vitum er mikill vöxtur í heilbrigðiskerfinu og útgjaldaaukning. Við veitum mjög góða þjónustu en það þarf að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Það er alveg ljóst að í fjárlögunum fyrir næsta ár fara 122,5 milljarðar kr. til heilbrigðismála. Það eru um 45% af útgjöldum ríkisins. Þar af eru 8,5 milljarðar kr. hækkun, þ.e. raunhækkun, og þá hefur ekki verið tekið tillit til verðlags eða verðbóta. Þetta er raunhækkun upp á 8,5%. Mér finnst það afar há tala. Ég var að reyna að ímynda mér og reyna að giska á hve mikil raunaukningin væri á því sem fer í heilbrigðiskerfið. Þetta eru 8,5%, sem er geysilega mikið.

Hér fór fram utandagskrárumræða um daginn um þenslu í samfélaginu, þróun verðbólgu og áhrif hennar á kjarasamninga. Þar kom upp sú krafa, sem eðlileg er, að sýnt væri aðhald í fjárlögum, sem er það hagstjórnartæki sem stjórnvöld geta beitt. Á sama tíma er krafa um aðhald í fjárlögum sem við vissulega beitum, m.a. með því að takmarka mjög fjárfestingar. Hins vegar er 8,5% raunaukning í heilbrigðismálum. Ég held að það ríki mikil sátt um þá raunaukningu. Ég hef a.m.k. ekki heyrt stjórnarandstöðuna gera miklar athugasemdir við það. Það er reyndar raunaukning líka í menntamálunum og félagsmálum.

Við verðum því að forgangsraða, virðulegur forseti, og þess vegna vil ég sérstaklega benda á að í umsögn fjárlagaskrifstofu segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Sjúkratryggingar koma ekki til með að greiða eða taka þátt í kostnaði einstaklinga sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara. ... Ekki er því talið að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.“

Af þessu er ljóst að við erum ekki að feta okkur inn á þá braut að skattborgarar greiði fyrir þessa þjónustu í gegnum fjárlög. Það er algjörlega skýrt og mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu, sérstaklega vegna orða hv. þm. Þuríðar Backman áðan. Það er a.m.k. ekki meiningin með þessu frumvarpi að ríkið taki þátt í kostnaðinum.

Ég vil benda líka á það að í 7. gr. segir, virðulegur forseti:

„Heilbrigðisstofnun er heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar.“

Í greinargerðinni segir um 7. gr., virðulegur forseti:

„Enn fremur er í 7. gr. tekið fram að heimilt sé að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara inni á heilbrigðisstofnun sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar.“

Almennt er það þannig að meðferðir á stofnunum eru ókeypis í okkar kerfi. Ég túlka þetta sem svo að þrátt fyrir að veitt sé heilsutengd þjónusta græðara á heilbrigðisstofnun þá verði hún greidd af viðkomandi sjúklingi en ekki skattborgurum. Annars væri ekki samræmi milli frumvarpsgreinanna og umsagnar fjármálaráðuneytisins.

Ég vildi gera þetta að sérstöku umtalsefni vegna hins mikla vaxtar í heilbrigðiskerfinu. Þessi þjónusta sem græðarar veita er mjög mikilvæg og æskileg og sjálfsagt mun koma upp spurning um hvort það eigi að greiða hana, hvernig, með hvaða skilyrðum o.s.frv. En það er a.m.k. alveg ljóst að í þessu frumvarpi er ekki opnað á það.

Ég sé líka, virðulegur forseti, að við fetum hér sömu leið og menn hafa gert í Noregi og Danmörku, að setja upp frjálst skráningarkerfi. Það þýðir að menn komast þar inn ef þeir uppfylla ákveðnar menntunar- og faglegar kröfur.

Ég tel vel staðið að verki. Málið er búið að fá víðtæka skoðun og ég tel að það muni flýta mjög fyrir skoðun málsins í heilbrigðisnefnd þingsins.



[16:40]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staldraði aðeins við það sem hv. þm. sagði rétt áðan varðandi þjónustu græðara þegar þeir koma inn á heilbrigðisstofnanir. Ég lít öðruvísi á þessa grein eða skil hana á annan hátt en hv. þm. Mér virðist að þetta eigi við ef sjúkrahúsin taka ákvörðun um að tiltekin þjónusta, sem er þá veitt innan veggja sjúkrahússins, gæti þá verið í höndum græðara en gæti hins vegar einnig verið í höndum löggiltra starfsstétta. Eins og ég rakti í máli mínu áðan er í ýmislegt í störfum löggiltra fagstétta, t.d. hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara, sem græðarar sinna einangrað og veita eingöngu þá þjónustu.

Ég lít svo á að ef sú þjónusta er veitt inni á sjúkrahúsi vegna tilvísunar frá þá heilbrigðisstéttum, hjúkrunarfræðingum, læknum eða öðrum sem um það hafa að segja, þá sé það greitt af viðkomandi heilbrigðisstofnun en ekki af sjúklingnum sjálfum, sé sú meðferð veitt vegna tilvísunar frá heilbrigðiskerfinu.

Það verður áhugavert að heyra svar hæstv. ráðherra á eftir varðandi þetta atriði en ég gat ekki á mér setið að koma upp og ræða þetta mál. Það skiptir verulegu máli.



[16:42]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægð með að hv. þm. Ásta Möller skuli spyrja út í þetta. Ég tel mjög mikilvægt að átta sig á því hvað þetta þýðir nákvæmlega. Eins og ég skil frumvarpið þá er hægt að veita þjónustu á stofnun ef það er í anda stofnunarinnar en síðan kemur mjög skýrt fram í umsögn fjármálaráðuneytisins að það eigi ekki að greiða eða taka þátt í kostnaði einstaklinga sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara og frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.

Ef heilbrigðisstofnun kallar inn græðara og hann veitir þjónustu inni á stofnuninni, nýja þjónustu, þá er ekki greitt fyrir hana. Þá hlýtur sjúklingurinn sjálfur að greiða það.

Enda spyr maður sig: Ef það ætti að fara að greiða meðferðina á stofnuninni, af skattfé borgaranna, af stofnuninni sjálfri sem er á fjárlögum. Af hverju er það þá ekki greitt úti í bæ? Hver er munurinn þá?

Mér finnst þetta mjög áhugaverð spurning og það getur vel verið að hæstv. heilbrigðisráðherra geti varpað skýrara ljósi á þetta. En ég skil það þannig að frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda og ekki verði sett nýtt fé í þjónustu græðara. Það hlýtur að útiloka að stofnanir geti greitt fyrir þjónustu græðara inni á stofnunum.



[16:44]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski ágætt að hæstv. heilbrigðisráðherra greiddi úr þessum vanda hjá okkur. Ég skildi það þannig að umsögn fjármálaskrifstofunnar væri í þá veru að það væri ekki gert ráð fyrir að sjúkratryggingar Tryggingastofnunar greiddu græðurum, þeir færu sem sagt ekki inn á samning hjá Tryggingastofnun og fengju ekki greitt þar.

Sé hins vegar tekin ákvörðun um að sjúklingur, sem er inni á heilbrigðisstofnun, þurfi á tiltekinni meðferð að halda sem er í höndum græðara, þá er það hluti af þeirri meðferð og órjúfanlegt frá annarri meðferð innan stofnunarinnar en það væri ágætt að heyra frá hæstv. ráðherra um það efni.

Í þessari umræðu kom upp í huga mér að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands er að vissu leyti greidd af opinberu fé. Fólk greiðir hins vegar ákveðið daggjald sem stendur ekki undir nema hluta af þeim kostnaði sem meðferðin kostar. Það er alveg ljóst að þar fer fram meðferð, leirböð og annað, sem mundi falla undir óhefðbundna meðferð. Í raun hafa heilbrigðisyfirvöld að vissu leyti viðurkennt, á þessu endurhæfingarsviði, meðferð sem er greidd af opinberu fé að einhverju leyti. Það mætti skoða það aðeins.



[16:46]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að hæstv. heilbrigðisráðherra varpi ljósi á þessa spurningu, hvað þetta nákvæmlega þýðir. Ef það er óljóst getum við líka kallað eftir því í nefndinni. Ég held að mjög brýnt sé að kveða upp úr með þetta. Eins og við vitum eru nokkrar stéttir sem vilja gjarnan fá endurgreiðslur frá Tryggingastofnun, fá endurgreiðslur af skattfé borgaranna. Mér finnst þetta grundvallarspurning. Það er prinsippspurning fyrir hvað á að greiða og hvað ekki.

Það er svo mikill vöxtur í heilbrigðisútgjöldunum. Við erum að auka útgjöld um 8,5% núna milli ára, samt í aðhaldsumhverfi. Við þurfum virkilega að vanda okkur og forgangsraða varðandi það hvað almennur skattpeningur á að fara í í þessu sambandi. Þetta segi ég ekki til að gefa í skyn að þessi þjónusta sé ekki mikilvæg. Ég held að hún sé mjög mikilvæg og geti hjálpað afar mörgum.



[16:47]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þetta mál og þær jákvæðu undirtektir sem frumvarpið hefur fengið. Það er rétt að þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur til kasta þingsins, fyrst í formi þingsályktunar og síðan afrakstur samþykktarinnar nú í frumvarpi.

Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín og ég ætla að reyna að svara þeim eftir bestu getu. Ég veit að síðan fer heilbrigðis- og trygginganefnd vandlega yfir frumvarpið.

Í fyrsta lagi var spurning frá hv. 4. þm. Reykv. s. um heilsutengda þjónustu, hreyfingu og líkamsrækt, hvort ég sé reiðubúinn að standa að frumvarpi um slíkt. Því er til að svara að ég er opinn fyrir öllu sem varðar neytendavernd og að setja reglur um að fagleg sjónarmið ráði varðandi þá þjónustu sem veitt er utan hins almenna heilbrigðiskerfis, eins og stendur í 2. gr. frumvarpsins. Ég get ekki sagt um það á þessu stigi með hverjum hætti slíkt yrði eða með hvaða hætti slíkt bæri að en þetta frumvarp ber með sér að ráðuneytið er reiðubúið að skoða þau mál.

Síðan var staðnæmst við orðalag í 2. gr.: „Með heilsutengdri þjónustu græðara er átt við þjónustu sem einkum tíðkast utan hins almenna heilbrigðiskerfis og byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum.“ — Það er alveg rétt að hefð, reynsla og vísindalegar niðurstöður, áreiðanlegar líka þótt mig bresti þekkingu til að tala tæmandi um þau mál, eru mismunandi eftir því hvaða menningarheim við búum við. Ég hef heimsótt bæði spítala og lyfsölu í Kína og það eru mjög ólíkar hefðir sem þar eru uppi, m.a. í lyfsölunni þar sem menn standa með vigt og vigta jurtir í poka. Síðan er biðröð eftir þeim og það er talið bara hefðbundið og langreynt sem þar er selt.

Auðvitað gæti nefndin farið ofan í þetta orðalag og fengið þau sjónarmið sem uppi eru um þetta en frumvarpið ber vissulega keim af því að þarna er verið að samræma ýmis sjónarmið. Ég held að þetta sé atriði sem væri rétt fyrir nefndina að kalla eftir umsögnum um, en umsagnir um frumvarpið eru til í stórum bunkum eins og greinargerðin ber með sér.

Frumvarpið samræmir ýmis sjónarmið. Af þeirri rót er 1. mgr. 2. gr. þar sem sagt er: „Með orðinu græðari í lögum þessum er átt við þá sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis.“ — Orðalagið „heilsutengd þjónusta“ er angi af þessu.

Varðandi auglýsingarnar í 8. gr. er um heimildarákvæði að ræða og það eru engin áform um það, a.m.k. ekki hjá mér, að fara að herða reglur í þessu efni. Hins vegar er þá miðað við að sambærilegar reglur gildi og um auglýsingar annarra heilbrigðisstétta. Síðan er það aftur mál sem við gætum rætt. Auðvitað þarf að fara fram umræða um hvernig auglýsingar í almenna heilbrigðiskerfinu eru, hvort við höfum gengið þar of langt eða hvort ástæða er til að breyta þar til á einhverjum póstum. Við erum með tiltölulega strangar reglur í því eins og kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller. Það er aftur sérmál en ég undirstrika að þarna er um heimildarákvæði að ræða.

Síðan voru nokkur skoðanaskipti um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í þessari starfsemi. Í 2. gr. kemur fram að hér er átt við þjónustu utan hins almenna heilbrigðiskerfis sem Tryggingastofnun ríkisins tekur ekki þátt í. Það er hin almenna regla. Ef svo skyldi hins vegar fara að spítalar kölluðu eftir þjónustu græðara og sjúklingurinn væri lagður inn á spítala hygg ég að það sama mundi gilda um hann og aðra sem eru lagðir inn á spítala. Ég tel að þar sem rætt er um heilbrigðisstofnanir í þessu sambandi eigi þetta við um þjónustu spítala. Ég veit reyndar ekki í hve ríkum mæli slíkt mundi verða eða hvort einhver dæmi eru fyrir slíku, að spítalar mundu kalla eftir þjónustu græðara inn á stofnun sína. Ég hygg að ef svo væri og sjúklingurinn væri skráður inn mundu gilda um hann sömu reglur og um aðra sem þar liggja. Þetta er sú tilfinning sem ég hef fyrir þessu máli.



[16:55]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég hafði orð á í ræðu minni áðan eru mörkin um margt óljós og þessi síðustu orðaskipti eru einmitt til marks um það. Í skilgreiningunni í frumvarpinu segir að við séum annars vegar að tala um almenna heilbrigðiskerfið sem eru vísindalega gagnreyndar aðferðir og hins vegar tölum við um heilsutengda þjónustu græðara. Þá segir að hún tíðkist einkum „utan hins almenna heilbrigðiskerfis og byggist fremur á hefð og reynslu ...“

Þetta er einmitt vandi okkar í dag. Til að mynda er uppi á Reykjalundi verið að nota nálastungur sem verkjastillandi meðferð. Það kostar ekki að vera á Reykjalundi. Ég sé fyrir mér að við fáum nálastungusérfræðing inn á Landspítala – háskólasjúkrahús og þá hlýtur sú þjónusta að greiðast af sjúkrahúsinu, alveg á sama hátt og mönnum er gefinn kostur á annarri verkjastillandi meðferð.

Þessi umræða sýnir fyrst og fremst hvað mörkin eru um margt óljós. Við erum að tala um lækna eins og uppi á Reykjalundi með hefðbundna menntun sem hafa svo bætt þessu við sig sem að þeirra mati gefur oftar en ekki betri raun en hefðbundin lyfjameðferð.



[16:56]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þessari útleggingu hv. þingmanns. Hér er vissulega um að ræða margs konar starfsemi. Það er alveg rétt. Sumir hafa lokið háskólanámi, margra ára háskólanámi, og nálastungur eru m.a. stundaðar uppi á Reykjalundi. Og það er alveg rétt, þar er greitt fyrir þá sjúklinga eins og aðra inni á þeirri stofnun.



[16:57]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vildi árétta og kom skýrlega fram í orðum hæstv. heilbrigðisráðherra er sá skilningur minn á þessu ákvæði í frumvarpinu að heilbrigðisstofnunum sé heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér þetta þar sem það er í samræmi við stefnu stofnunarinnar. Í því hlýtur að felast að það er sjúklingunum að kostnaðarlausu.

Þetta er ekkert eina dæmið. Við vitum að t.d. á Landspítalanum fá menn geðheilbrigðisþjónustu. Innifalið í henni er þjónusta sálfræðinga. Samt tekur ríkið ekki þátt í kostnaði við sálfræðiþjónustu úti í bæ. Það sem þetta byggist á er það að við erum ekki með kostnað sjúklinga af innlögnum á sjúkrahús eða aðrar heilbrigðisstofnanir en ýmis sambærileg þjónusta og læknismeðferð kostar sjúklinga sem sækja slíkt utan stofnana.

Ég er bara mjög sátt við þessa skýringu hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er ágætt að hún fylgi okkur inn í nefndina. Það þýðir samt ekki aukin útgjöld fyrir heilbrigðiskerfið eða hið opinbera vegna þess að það fellur þá innan ramma þeirra fjárveitinga sem sjúkrahúsin eru með.



[16:58]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar um það hvenær væri greitt fyrir þjónustu þessara einstaklinga langar mig að spyrja hæstv. ráðherra af því að það er nú tækifæri til þess — ég hef áður spurt hann út í greiðslur fyrir störf þeirra sem veita húðflúr, sérstaklega konum sem láta byggja upp brjóst eftir brjóstnám vegna brjóstakrabbameins. Yrði það greitt ef spítali fengi þann sem sérhæfir sig í húðflúri inn á spítalann til að byggja upp geirvörtu á konu sem brjóstið hefur verið tekið af alveg eins og borgað er fyrir það þegar læknir flytur húð og græðir annars staðar sem er mun erfiðari og ekki eins árangursrík aðferð? Ég vildi gjarnan fá svar frá hæstv. ráðherra um þetta. Málið snýst um hvað gerist ef slík meðferð kæmi inn á spítalann því þarna erum við farin að viðurkenna öðruvísi þjónustu en þessa hefðbundnu.



[16:59]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki óyggjandi svör við þessu. Það er almenn regla að fyrir sjúklinga sem eru inni á spítölum er sú þjónusta greidd sem er talið óhjákvæmilegt að veita þeim þar. Ég get ekki lagt á það mat án þess að ráðgast við mér fróðari menn hvort slík tilvik kæmu upp í húðflúri eða uppbyggingu eftir aðgerðir. Almenna reglan er sú að sú þjónusta sem er talið nauðsynlegt að veita meðan á spítalavist stendur er greidd af fjárveitingu viðkomandi spítala eins og fram hefur komið hér.

Ég get því miður ekki svarað þeirri spurningu svo óyggjandi sé hvort það getur komið upp á spítalanum að óhjákvæmilegt sé að veita þessa þjónustu.



[17:00]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hæstv. ráðherra getur ekki svarað þessari spurningu þá vil ég hvetja hann til þess að hefja vinnu við að bjóða þennan möguleika inni á sjúkrahúsum. Þetta er bæði ódýrara og árangursríkara. Þar sem við erum núna að viðurkenna starfsemi t.d. græðara þá ættu auðvitað þeir sem veita húðflúr í lækningaskyni, eins og þeir sem byggja upp geirvörtur, að fá sambærileg réttindi og aðstöðu og græðararnir. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að taka þetta mál sérstaklega fyrir því ég veit að mjög margar konur hafa þurft að fara í þessa meðferð eftir krabbamein og brjóstnám. Þær bíða eftir svari frá hæstv. ráðherra um hvort hann muni viðurkenna þessa þjónustu húðflúrara inni á spítala, eins og þjónustu græðaranna.



[17:02]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég skildi hæstv. heilbrigðisráðherra á stofnunin sjálf að greiða útgjöld sem felast í því ef sjúklingar vilja nýta sér þjónustu græðara á heilbrigðisstofnun sé það í samræmi við stefnu stofnunarinnar. Af því tilefni langaði mig aðeins að velta dálitlu upp: Getur staðan orðið sú — ég er nú ekki að segja að hún verði þannig — en gæti hún orðið þannig að til yrðu kallaðir græðarar, t.d. heilsunuddarar eða meðferðaraðilar sem sinna nálastungum, í auknum mæli á heilbrigðisstofnanir til að lina þjáningar fólks í talsvert stórum stíl? Þá þyrfti að forgangsraða upp á nýtt á þessum stofnunum af því að væntanlega þýddi það talsverð útgjöld að kalla inn svona meðferðaraðila á stofnanirnar.



[17:03]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þjónustu sem veitt er inni á stofnunum þá er það í valdi framkvæmdastjórar, sviðsstjóra, lækningaforstjóra, hjúkrunarforstjóra hverrar stofnunar hvaða þjónusta er veitt. Auðvitað kemur líka til kasta ráðuneytisins og fjárveitingavaldsins ef um mikla útþenslu er að ræða og menn ætla að fara inn á ný svið. Það breytir ekki þeirri almennu reglu sem gildir núna og menn hafa verið að ræða um hvort væri rétt og það er allt annað mál að sjúkrahúsvist er mönnum að kostnaðarlausu þó rukkað sé fyrir fjölmargar rannsóknir inni á stofnunum.



[17:04]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum að fara mjög ítarlega yfir þetta í nefndinni. Ég þekki nú ekki nákvæmlega hvernig þetta er núna, þ.e. hvort verið sé að kalla til utanaðkomandi græðara inn á heilsustofnanir eða hvort hér verði um alveg nýja tegund þjónustu að ræða sem við sinnum ekki í dag. Ég velti líka upp samkeppnissjónarmiðum. Ef það verður kallað á græðara inn á stofnanir í auknum mæli og greitt fyrir hvert skipti, af stofnuninni væntanlega, eitthvert gjald, koma þá ekki upp erfið samkeppnissjónarmið gagnvart öðrum sem eru ekki inniliggjandi á stofnunum og þurfa að borga úr eigin vasa fyrir þjónustu græðara?

Við getum kannski ekki komist algerlega að þessu í þessari umræðu. En ég tel mjög brýnt að heilbrigðisnefnd skoði þetta algjörlega ofan í kjölinn þannig að það sé algjörlega skilgreint hvaða braut við erum að feta í þessu efni.



[17:05]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega sjálfsagt að heilbrigðis- og trygginganefnd fari yfir þetta mál. Það er sjálfsagt að fara yfir þau sjónarmið. Ég er nú þeirrar skoðunar að þetta frumvarp muni ekki breyta miklu um þetta. Eins og var hér tíundað áðan vinna t.d. stofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og Reykjalundur kannski svona til hliðar við þetta svið eða í tengslum við þessa þjónustu. En ég hef ekki trú á að það verði bylting í þessu. Það er verið að koma á skráningarkerfi fyrir þá sem vinna utan heilbrigðiskerfisins. Það held ég að verði stærstu áhrifin af þessu frumvarpi. En það er sjálfsagt að fara yfir málið.