131. löggjafarþing — 24. fundur
 10. nóvember 2004.
skattgreiðslur Alcan á Íslandi.
fsp. GÁS, 258. mál. — Þskj. 276.

[13:55]
Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef beint svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra:

,,Hver eru viðbrögð ráðherra við óskum Alcan á Íslandi og Hafnarfjarðarbæjar um að skattgreiðslur fyrirtækisins taki mið af almennri umgjörð íslenskra skattareglna?“

Ástæðan fyrir fyrirspurn minni er m.a. sú að fyrir liggja erindi, annars vegar fyrirtækisins og hins vegar Hafnarfjarðarbæjar, til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Fyrra erindið er frá fyrirtækinu frá 28. maí 2003 og frá Hafnarfjarðarbæ þann 13. október síðastliðinn.

Það má svo sem velta því fyrir sér af hverju ég spyrji ekki hæstv. iðnaðarráðherra um viðbrögðin við þessum erindum en kannski liggur svarið einfaldlega í því að hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki gert svo lítið að svara þeim. Því taldi ég farsælast að leita upplýsinga hjá fjármálaráðherra sem fer með skattamál íslenska ríkisins.

Það eru vitaskuld tvær hliðar á þessum peningi. Alcan á Íslandi, Straumsvík, greiðir samkvæmt samningi við íslenska ríkið og Hafnarfjarðarbæ samkvæmt gömlum reglum, gömlum viðmiðum, sem í raun þýðir með talsverðri einföldun að ríkissjóður fær meira í sinn hlut en Hafnarfjörður minna en ef skattlagt væri samkvæmt almennum skattareglum sem gilda um velflest önnur fjölþjóðleg stóriðjufyrirtæki á Íslandi. Hafnarfjarðarbær hefur til að mynda reiknað út að ef þetta fyrirtæki væri skattlagt eins og önnur í bæjarfélaginu þá mundu tekjur af fasteignaskatti og lóðagjöldum tvöfaldast, verða tvöfalt hærri en er í dag samkvæmt viðmiðunum um framleiðslugjald sem gilt hefur um langt árabil í Straumsvík. Með öðrum orðum færu tekjur bæjarsjóðs af því úr 93 millj. kr. á ári í tæpar 180 millj. kr.

Á hinn bóginn má vænta þess að ef ríkissjóður færi að óskum fyrirtækisins um að fella samninginn að almennri skattaumgjörð hér á landi þá mundu skatttekjur ríkisins að sama skapi lækka umtalsvert. Það væri fróðlegt að fá tölfræðilegar upplýsingar frá hæstv. ráðherra um þau efni.

Ég minnist þess að hæstvirtir fjármálaráðherrar, núverandi og fyrrverandi, hafa margsinnis lýst því yfir að samningar við fyrirtæki sem hasla sér völl hér á landi, sérstaklega á vettvangi stóriðju, ættu að falla að almennum skattalögum og skattareglum. Ég spyr því: Hver er afstaða ráðherrans til þessara tilteknu erinda og hvernig mun ríkisstjórnin svara þeim?



[13:58]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þannig er að skattamál Íslenska álfélagsins í Straumsvík eru sérstök að því leyti að um þau er fjallað í sérstökum samningi sem gerður var upprunalega 1966 á grundvelli laga sem þá voru samþykkt á Alþingi. Samningurinn gerir ráð fyrir því að í stað þess að greiða gjöld samkvæmt hinum almennu íslensku skattalögum greiði fyrirtæki þetta sérstakt framleiðslugjald sem síðan hefur tekið nokkrum breytingum í áranna rás.

Ég er almennt þeirrar skoðunar — og það er rétt eftir haft hjá hv. þingmanni — að heppilegra sé að fyrirtæki af þessu tagi lagi sig að hinum almennu reglum á Íslandi hvað varðar skatta enda hafa þær reglur á undanförnum árum mjög breyst í átt að því sem almennt gerist í fyrirtækjarekstri í öðrum löndum.

Í samningnum sem gildir við Íslenska álfélagið er ákvæði þess efnis að fyrirtækið geti, ef það kýs svo, breytt því fyrirkomulagi sem nú er í gildi og fært sig yfir í hið almenna skattkerfi. Um það þarf að vísu formlega séð að semja en í rauninni er það ákvörðun fyrirtækisins sjálfs hvort það kýs að gera þetta. Ég vil þá segja það sem svar við hinni beinu spurningu í þessari fyrirspurn um það hver afstaða mín sé að ég er mjög jákvæður gagnvart því að fyrirtækið geri þetta.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda liggur fyrir erindi í iðnaðarráðuneytinu og það hefur verið til meðferðar milli iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins eins og nauðsynlegt er varðandi slíkt mál. Því verður væntanlega svarað fljótlega.

Vandinn hefur hins vegar verið sá, eins og oft er, að e.t.v. gæti fyrirtækið hugsað sér að fá eitthvað örlítið meira út úr slíkum viðskiptum en sem svarar því sem segir í skattalögunum eins og þau eru núna. Þar stendur hnífurinn í kúnni sýnist mér efnislega án þess að ég vilji vera að reifa hér hvað það er sem fyrirtækið muni fá í svar frá ríkinu. Öll fyrirtæki sem hafa aðstöðu til reyna auðvitað að koma ár sinni vel fyrir borð og þetta fyrirtæki sem er góður samstarfsaðili okkar til mjög margra ára og hefur lagt drjúgt í búið í Hafnarfirði í mörg ár vill auðvitað reyna að styrkja stöðu sína gagnvart framtíðinni í þessum efnum.

Afstaða okkar er sú að fyrirtækið er velkomið inn í hið nýja íslenska skattumhverfi sem við höfum verið að gjörbreyta og bæta á undanförnum árum en það getur ekki vænst þess að því til viðbótar fái það sérstök hlunnindi eða réttindi umfram aðra. Í rauninni stendur valið fyrir þetta fyrirtæki um það hvort það vilji halda sig við það fyrirkomulag sem nú er eða hvort það vilji breyta til og fara yfir í óbreytt íslenskt skattkerfi eins og það er á hverjum tíma. Það held ég að sé ákvörðun sem fyrirtækið verður bara sjálft að gera upp við sig. Ég hef enga sérstaka skoðun á því ef það er réttur fyrirtækisins samkvæmt samningnum eins og ég held að sé.

Síðan er það óháð þessu hvað verður um hækkun Hafnarfjarðar í þessu máli sem eins og ég sagði áðan hefur notið mjög góðs umfram önnur sveitarfélög af þessu fyrirtæki. Það er vel, það er fínt en tekjur Hafnarfjarðar af þessu máli eins og þær eru í dag markast auðvitað af samkomulagi sem upphaflega var gert um skiptingu framleiðslugjaldsins sem fyrirtækið greiðir milli ríkis og bæjarfélags.

Þetta held ég, virðulegi forseti, að sé málið í hnotskurn. Síðan má kannski bæta því við að vafalaust er þessi samningur frá 1966 með breytingum öðruvísi en hann væri ef hann væri gerður nýr á árinu 2004. Það á við um svo margt sem gert er. Hann er hins vegar alveg skýr hvað varðar efni málsins og eftir honum ber að fara þangað til aðilar semja um eitthvað nýtt.



[14:03]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Bæði spurning hv. þingmanns og svar hæstv. fjármálaráðherra gefur okkur tilefni til að beina sjónum að þessum samningum sem gerðir eru við stórfyrirtæki í þungaiðnaði á Íslandi. Spurningin er um það til hve langs tíma þessir samningar eru gerðir og hvaða fríðinda þessi fyrirtæki njóta þegar þau koma inn á okkar íslenska markað. Þau eru þess eðlis að það er eðlilegt að við setjum spurningarmerki við þau.

Mér fundust koma fram í svari hæstv. fjármálaráðherra ákveðin atriði sem gefa okkur tilefni til vangaveltna, í öllu falli það, um þessa langtímasamninga. Ég er sjálf hlynnt því að þessi fyrirtæki komi inn í íslenskt skattumhverfi og meginreglan í þessum efnum ætti auðvitað að vera að þau starfi á Íslandi samkvæmt íslenskum skattalögum en ekki við þau gífurlegu fríðindi og þá langtímasamninga sem hafa tíðkast hingað til.



[14:04]
Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru skýr svo langt sem þau náðu. Hann sagði efnislega að þessu fyrirtæki eins og öðrum sem nytu einhverra sérsamninga vegna þess hversu gamlir þeir væru stæði til boða að ganga inn í óbreytt íslenskt skattkerfi. Hann sagði jafnframt að þetta tiltekna fyrirtæki væri eftir því sem hann vissi best að sækja einhvern aukaafslátt af almennum skattareglum í því sambandi. Nú kann ég ekki skil á því og væntanlega getur ráðherrann útskýrt það betur.

Ég spurði hins vegar hvað það þýddi fyrir tekjur ríkissjóðs ef svo færi að þetta fyrirtæki gengi inn í hið almenna íslenska skattkerfi sem ég hygg að við séum flest sammála um að eigi að gerast með þessi fyrirtæki eins og önnur. Ég rakti það hér áðan og vil í því samhengi taka það sérstaklega út úr að Hafnarfjarðarbær hefur séð af umtalsverðum tekjum í áranna rás, allt frá 1966, vegna þess að fyrirtækið hefur notið sérsamninga við íslenska ríkið um hið svokallaða framleiðslugjald. Ef Hafnarfjarðarbær hefði getað skattlagt þetta fyrirtæki eins og önnur í bæjarfélaginu mundu skatttekjur á ári hverju hækka um helming. Ég hafna þeim yfirlýsingum ráðherra hér að Hafnarfjarðarbær hafi notið einhvers umfram önnur sveitarfélög í þessum efnum. Það er bara þannig að sveitarfélög hringinn í kringum landið hýsa smá og stór fyrirtæki og eiga samkvæmt almennum skattareglum að taka af þeim fasteignaskatta og lóðaleigu, eins og venja er til. Það er alveg óþarfi að leggja lykkju á leið sína og sjá einhverjum ofsjónum í því sambandi.

Grunur minn er sá, og það er kannski meginatriði fyrirspurnar minnar, að ríkissjóður sé kannski hikandi við að færa þetta til hinna almennu reglna vegna þess að það þýði í raun að tekjur sveitarfélagsins hækki en tekjur ríkissjóðs lækki. Þekkja menn það orðfæri enda er það ekki alveg nýtt í þessum sal. Það er með öðrum orðum verið að snuða sveitarfélögin og ríkissjóður heldur sínu óbreyttu.



[14:07]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Þessi síðasta setning er eiginlega alveg óskiljanleg, er náttúrlega bara skætingur þegar verið er að tala alvarlega um mikilvægt mál sem er fyrirkomulag skatta á álverið í Straumsvík. Ég vil segja að alveg frá byrjun hefur staðsetningin á þessu álveri í Straumsvík verið búhnykkur fyrir Hafnarfjörð og bæjarbúana þar. Ég fagna því, tel að það sé mjög fínt og hafi alla tíð verið fyrir þetta bæjarfélag.

Ég hef ekki upplýsingar tiltækar um tekjur ríkisins af þessu fyrirtæki og hvernig þær mundu breytast ef núverandi framleiðslugjald yrði lagt niður og fyrirtækið færi inn í almenna skattkerfið. Það er ekki aðalatriðið í þessu máli og það er ekki það sem við erum að skoða þegar verið er að taka afstöðu til breytinganna. Fyrirtækið getur farið fram á þessar breytingar og á rétt á þeim og ef fyrirtækið á rétt á þeim er það ekki aðalatriði málsins hvaða áhrif það hefur á tekjur ríkissjóðs eða skiptingu tekna milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar.

Það er eitt sem ég vildi segja út af síðari ræðu þingmannsins. Hann notaði orðalag sem ég kannast ekki við að hafa sjálfur notað um auka... (GÁS: ... góðs ... sveitarfélög ... búhnykkur ...) Nei, það var ekki það. Ég var að gefa í skyn að fyrirtækið vildi fá heldur meira fyrir sinn snúð en næmi reglunum í almennu skattalögunum. Ég hygg að nokkuð sé til í að fyrirtækið vilji fá notið góðs af núverandi almennum skattareglum en jafnframt notið einhverra réttinda sem er að finna í gildandi kerfi. Við getum ekki sætt okkur við það en það sem meira er er að slík afgreiðsla bryti væntanlega í bága við ríkisstyrkjareglur Evrópska efnahagssvæðisins vegna þess að þetta fyrirtæki er ekki á svokölluðu byggðakorti Eftirlitsstofnunar EFTA.