131. löggjafarþing — 24. fundur
 10. nóvember 2004.
heimilislausir.
fsp. JóhS, 153. mál. — Þskj. 153.

[14:22]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru ekki mörg ár síðan við byrjuðum að sjá miklar breytingar á þessu samfélagi. Þá á ég við það að í samfélaginu er að verða sýnilegt fólk sem á hvergi höfði sínu að halla, fólk sem er á vergangi, lifir utan þjóðfélagsins, fólk sem er með brotna sjálfsímynd og kallar eftir hjálp samfélagsins.

Í svari félagsmálaráðherra til mín á síðasta þingi um aðstæður heimilislausra kom fram að alls voru 102 fullorðnir taldir heimilislausir í fjórum sveitarfélögum, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri. Þar af voru 74 karlar en 28 konur og í hópnum voru einnig einstæðar mæður með börn á framfæri. Meginþorri þessa fólks er í Reykjavík og er frá 20 ára til sjötugs. Rúmlega þriðjungur þess á við fíkniefnavanda að etja og fjölmargir í hópnum eru geðfatlaðir.

Viðbrögð félagsmálaráðherra sem komu fram á síðasta þingi lýstu góðum vilja ráðherrans en nú er kallað eftir aðgerðum. Það er þyngra en tárum taki í þjóðfélagi sem vill kenna sig við velferð og mannréttindi að það taki ekki hiklaust og af festu á málefnum heimilislausra og finni úrlausn á þeim málum.

Ráðherrann sagðist á síðasta þingi hafa fullan hug á að gera könnun á stöðu þessara mála. Hefur slík könnun verið gerð, virðulegi forseti? Ráðherrann sagði líka að fundin yrði lausn á þörfum geðfatlaðra fyrir húsnæði en samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér eru nú 77, hvorki meira né minna, geðfatlaðir einstaklingar sem bíða eftir húsnæði á vegum Öryrkjabandalagsins. Það eru nýjar upplýsingar.

Það segir sig því sjálft að málið þolir ekki bið. Við höfum ekki efni á því, virðulegi forseti, að bíða lengur eftir aðgerðum stjórnvalda þegar á annað hundrað manns eru heimilislausir og bíða úrlausnar, þar á meðal á annan tug einstaklinga sem eru hættulegir umhverfi sínu samkvæmt fyrra svari ráðherrans, eru á götunni og ógna umhverfi sínu eins og fram kom í svarinu. Þessa ógn ber að taka alvarlega og bregðast við til að fyrirbyggja að þessir einstaklingar skaði sjálfa sig eða aðra. Hér er um að ræða sjúka einstaklinga sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda, ýmist vegna fíkniefnaneyslu eða alvarlegra geðrænna vandamála. Um getur líka verið að ræða fólk sem ekki getur séð sjálfu sér farborða af ýmsum ástæðum. Það veit ekki gististað sinn frá einni nótt til annarrar og ég kalla hér eftir áformum ríkisstjórnarinnar og tillögum til úrlausnar fyrir heimilislausa. Það er ekki vonum seinna, virðulegi forseti, að á þessu máli sé tekið.



[14:25]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér í þinginu.

Í framhaldi af umræðum á Alþingi sl. vor hélt ég samráðsfund með fulltrúum Félagsþjónustunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og á þann fund komu einnig fulltrúar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og lögreglunni í Reykjavík.

Í ljós kom að sá vandi sem hér er um rætt er margþættur og lausn finnst ekki án þess að félagslega kerfið, heilbrigðiskerfið og löggæslan vinni saman. Meðal annars kom í ljós á þessum fundi okkar að skilgreining á hugtakinu „heimilisleysi“ var nokkuð á reiki. Aðilar ákváðu því að mínu frumkvæði að stofna samráðshóp um þessi mál. Hópurinn var skipaður í ágúst og hefur fengið það verkefni að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hugtakið heimilisleysi og í framhaldi að setja fram áætlun um samstillt viðbrögð til að koma í veg fyrir heimilisleysi á höfuðborgarsvæðinu en ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það hlýtur að vera verkefni sem við tökum höndum saman um. Í hópnum eiga sæti fulltrúar framangreindra aðila.

Hæstv. forseti. Starfshópurinn hefur komist að sameiginlegri vinnuskilgreiningu um hugtakið heimilisleysi enda er það forsenda þess að vinnan beri árangur og að niðurstaðan verði raunhæf. Aflað hefur verið gagna frá umræddum sveitarfélögum og frá lögreglunni í Reykjavík, það var farið yfir upplýsingarnar og þær bornar saman til að tryggja heildaryfirsýn yfir viðfangsefnið. Nú er verið að taka saman í grófum dráttum upplýsingar um viðkomandi einstaklinga sem að mati hópsins búa við heimilisleysi, þ.e. kyn þeirra, aldur og heilsufar, bæði líkamlegt og andlegt, lifibrauð, þ.e. hvort viðkomandi býr við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, örorkubætur eða annað, samskipti við stofnanir ýmiss konar, gróft mat á meginorsök vanda viðkomandi o.fl. Svo virðist sem nánast allur hópurinn haldi til í Reykjavík, hæstv. forseti.

Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir verður mögulegt að leggja til aðgerðir og tillögur um samráð með það að markmiði að koma í veg fyrir að fólk verði heimilislaust á höfuðborgarsvæðinu. Það er stefnt að því að samráðshópurinn skili mér skýrslu eigi síðar en 15. janúar nk.

Við þetta vil ég bæta, hæstv. forseti, að nú hefur hafist samstarf félagsmálaráðuneytis við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um málefni geðsjúkra sérstaklega og búsetumál þess hóps. Tillögur um aðgerðir til þess að bregðast við því verkefni eiga að liggja fyrir í lok þessa árs eða byrjun hins næsta.

Sömuleiðis hefur verið settur af stað hópur sem ætlað er að bregðast við bráðum vanda þeirra sem geðsjúkir eru og m.a. komu til umfjöllunar hér á hinu háa þingi í vor, þ.e. þeirra sem talið er að hætta geti stafað af. Félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, lögreglan og félagsþjónusta viðkomandi sveitarfélaga hafa tekið höndum saman um að bregðast við vanda þessara einstaklinga á hverjum tíma og það er óhætt að segja, hæstv. forseti, að sú aðferð hefur þegar borið nokkurn árangur.



[14:28]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér kom fram að 77 geðfatlaðir bíða eftir húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu og 20–30 þeirra eru á götunni. Það fólk er að mestu leyti hér í Reykjavík og við sjáum það úti á Austurvelli nánast daglega.

Það er gott sem kemur fram hér hjá hæstv. ráðherra að kerfin eru að vinna saman og hafa komist að niðurstöðu um það að koma sér saman um merkingu hugtaksins heimilisleysi og hvert sé lifibrauð þessa hóps. En hvenær má gera ráð fyrir úrræðum fyrir þessa heimilislausu?

Fyrir nokkrum dögum, þegar snjóaði fyrsta daginn í vetur, gekk ég yfir Austurvöll snemma morguns og sá að undir hvítri snjóbreiðunni lá heimilislaus maður og svaf. Það er orðið mjög brýnt að raunveruleg úrræði komi fyrir þetta fólk þannig að við þurfum ekki í þessu velferðarsamfélagi að horfa upp á það að sjúkt fólk liggi sofandi á bekkjunum úti á Austurvelli þegar maður kemur snemma morguns til vinnu. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær má búast við úrræðum? Við getum ekki beðið fram yfir áramót eftir því að úrræði fáist.



[14:30]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég finn í svörum ráðherra eins og á síðasta þingi góðan vilja hjá honum til að finna lausn á þessum málum. Hæstv. ráðherra er að vinna að því. En hér er spurt um efndir. Ráðherrann segist hafa skipað nefnd í ágúst sl., samráðsnefnd aðila, félagskerfisins, heilbrigðiskerfisins og löggæslunnar, til að skoða vanda þessa hóps. Ég velti fyrir mér: Af hverju var þessi nefnd ekki skipuð fyrr? Vandinn lá fyrir, hefur legið fyrir lengi, var rakinn á síðasta þingi en það er ekki fyrr en í ágúst sem þessi nefnd er skipuð.

Það kemur upp í huga mér hvort niðurstaðan hjá þessari nefnd og framkvæmd ríkisstjórnar verði með sama hætti og þegar ríkisstjórnin skilaði af sér á síðasta þingi, virðulegi forseti, niðurstöðu sinni um hvernig eigi að taka á vanda fátækra í Reykjavík. Það voru ekki nokkur úrræði sem ríkisstjórnin lagði þá fram, vísaði öllu á sveitarfélögin. Því miður óttast ég að það geti farið eins núna en það má bara ekki verða, virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra segir að það eigi skila skýrslu 15. janúar. Með því verður fylgst og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi með þessa skýrslu inn í þingið, að við fáum að ræða þessa stöðu og niðurstöðuna sem úr því kemur og þá verði lögð fram skýr áætlun um það hvernig eigi að finna lausn á þessum vanda. Það er ekki boðlegt í velferðarsamfélagi okkar að við þurfum að rekast á, ekki einn sem er á vergangi heldur stundum tugi saman í miðborginni sem ráfa um í reiðileysi og eiga hvergi höfði sínu að halla.

Ég spyr líkt og síðasti ræðumaður: Hvaða áætlun liggur fyrir af hálfu heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra til að leysa búsetuvandamál 77 geðfatlaðra einstaklinga? Liggur fyrir einhver áætlun um það hvernig henni verður hrint í framkvæmd? Hvenær megum við eiga von á að sjá lausn í þessu máli? Það er orðin skömm að því, virðulegi forseti, ef ekki verður tekið fljótt á því.



[14:32]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu. Það er hverju orði sannara sem fram kom í máli fyrirspyrjanda og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hér er verkefni sem brýnt er að við tökumst á við. Ég tel hins vegar mikilvægt, eins og fram kom í máli mínu áðan, að hér taki menn höndum saman og séu sammála um með hvaða hætti á að takast á við vandann. Það er það verkefni sem blasir við okkur núna og við höfum verið að vinna að frá því að við áttum þá umræðu sl. vor sem hér hefur komið til tals. Þótt sá hópur sem ég gerði að umtalsefni hafi ekki formlega verið skipaður fyrr en í ágúst kom hópurinn saman strax í kjölfar umræðunnar í vor og hefur að mínu viti unnið vel að því verkefni sem honum var falið.

Ég mun að sjálfsögðu gera mitt ýtrasta til að upplýsa um niðurstöðu þeirrar vinnu sem ég hef rakið að farin er af stað. Það blasir við að við þurfum að taka á búsetuvanda geðsjúkra og sjúkra og geðfatlaðra með kannski líkum hætti, hæstv. forseti, og gert var varðandi fatlaða. Á sínum tíma var sett upp metnaðarfull áætlun sem tók til fimm ára og ríkisstjórnin hefur séð til þess að á hverju ári hafa fjármunir verið veittir til þess að bregðast við þeim vanda sem þar var uppi. Við sjáum nú fyrir enda þess verkefnis, þ.e. biðlistunum í málefnum fatlaðra verður brátt eytt, og ég vil gjarnan sjá álíka áætlun verða til hvað varðar búsetumál geðsjúkra og geðfatlaðra og eins og ég rakti í máli mínu áðan vonast ég til að sú áætlun líti dagsins ljós eigi síðar en í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.