131. löggjafarþing — 28. fundur
 13. nóvember 2004.
kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, 2. umræða.
stjfrv., 318. mál. — Þskj. 347, nál. 349 og 350, brtt. 351.

[11:48]
Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Það liggur frammi á þingskjali 349 og eins og þar kemur fram hefur nefndin fengið á sinn fund fjölmarga aðila, m.a. þá aðila sem að deilunni hafa staðið og ríkissáttasemjara.

Með frumvarpinu er lagt til að bann verði lagt við verkfalli grunnskólakennara, þ.e. Kennarasambands Íslands fyrir hönd Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands og félagsmanna þeirra. Kjarasamningar kennara við launanefnd sveitarfélaga hafa verið lausir frá 31. mars sl. Verkfallið hófst 20. september og stóð óslitið á sjöttu viku, þ.e. til 28. október, en þá var því frestað vegna framkominnar miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Þegar úrslit atkvæðagreiðslu sem felldi miðlunartillöguna lágu fyrir hófst verkfall að nýju 9. nóvember.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samningsaðilar hafi frest til 15. desember nk. til að ljúka samningum. Ef samningar nást ekki fyrir þann tíma segir í frumvarpinu að Hæstiréttur skuli tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skuli fyrir 31. mars 2005 ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands hjá þeim sveitarfélögum sem aðild eiga að launanefnd sveitarfélaga. Ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur milli aðila frá og með 15. desember 2004 og gilda þann tíma sem gerðardómurinn ákveður. Þá skuli endanlegt uppgjör launa fara fram 30. apríl 2005.

Meiri hluti allsherjarnefndar leggur áherslu á að þótt það sé grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli getur komið til þess þegar brýna nauðsyn ber til að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg. Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu er nú svo komið að ríkisstjórnin telur sig ekki lengur geta setið aðgerðalaus á meðan 45 þús. skólabörn fá ekki þá lögmætu kennslu sem þeim ber. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir langt verkfall og stíf fundahöld séu deiluaðilar engu nær og hafi að því er virðist heldur fjarlægst. Á fundum nefndarinnar hefur þessi staða málsins verið staðfest enn frekar og þeir aðilar sem að deilunni standa og ríkissáttasemjari hafa lýst því yfir að ekkert bendi til að frekari viðræður muni leiða til niðurstöðu á næstu vikum eða jafnvel mánuðum. Frumvarpinu er því ætlað að höggva á þann hnút sem deiluaðilar hafa sagt óleysanlegan. Skólastarf hefur legið niðri svo vikum skiptir og meiri hlutinn tekur undir það mat ríkisstjórnarinnar að ekki verði lengur við unað en leggur jafnframt áherslu á að samningsaðilar geti eftir sem áður, hvenær sem er, gert kjarasamning óbundnir af gerðardómi. Í þessu sambandi vísast til þess sem segir í lokamálsgrein athugasemda við 3. gr. frumvarpsins að lögin komi að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómur hafi tekið til starfa.

Í samtölum nefndarinnar við gesti var mikið rætt um þá tímaramma sem settir eru fram í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Sú umræða snerist annars vegar um dagsetninguna 15. desember, þ.e. þann frest sem aðilar hafa til að ljúka samningum áður en gerðardómur tekur til starfa sem verður þá jafnframt gildistökudagur niðurstöðu gerðardóms, og hins vegar var rætt um dagsetningarnar 31. mars og 30. apríl, þ.e. þann frest sem gerðardómur hefur til að ljúka störfum og þann dag þegar endanlegt uppgjör launa skal fara fram. Ákvæði frumvarpsins um að aðilar hafi frest til 15. desember til að ljúka samningum áður en gerðardómur tekur til starfa helgast af tilmælum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um nauðsyn þess að gefa deiluaðilum nægilegt svigrúm til að ná sáttum og gera kjarasamninga. Yfir þetta atriði var sérstaklega farið með lögfræðingum félagsmálaráðuneytisins og og horft til fordæma í því efni.

Með þessu tímamarki 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins var ætlunin að koma til móts við þessi tilmæli. Á fundi nefndarinnar með deiluaðilum og í skriflegum umsögnum þeirra kom hins vegar ótvírætt fram að þeir teldu þennan frest of rúman og teldu ástæðulaust að halda honum óbreyttum. Í þessu sambandi má aftur vísa til lokamálsgreinar athugasemda við 3. gr. frumvarpsins þess efnis að lögin komi að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómur hafi tekið til starfa. Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða leggur meiri hlutinn því til að sá tími sem aðilum verði gefinn til að reyna til þrautar að ná samningum fyrir skipun gerðardóms verði styttur frá 15. desember í 20. nóvember nk. Meiri hlutinn leggur einnig til að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. verði breytt á þann veg að í stað þess að ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur milli aðila frá og með 15. desember 2004, eins og þar segir, skuli hann vera bindandi frá gildistöku laganna. Með því er tryggt að sú breyting sem verður á kjörum kennara mun gilda frá og með þeim degi er þeir taka aftur til starfa. Þá leggur meiri hlutinn jafnframt til að gerðardómur skuli ljúka störfum svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 28. febrúar 2005 í stað 31. mars 2005 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Þar sem sá dagur sem miðað er við um það hvenær gerðardómurinn kunni að taka til starfa hefur verið færður fram þótti meiri hlutanum eðlilegt að færa þessa síðari dagsetningu fram í tíma um sambærilegan dagafjölda. Það kom mjög skýrt fram hjá þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar að fyrri fordæmi sýndu að á margan hátt væri óheppilegt að skammta gerðardómi of skamman tíma til að komast að niðurstöðu og sérstaklega ætti það við í jafnviðamiklu máli og hér er um að ræða. Í því sambandi ber að hafa í huga að þeir aðilar sem taka sæti í gerðardómnum, ef til þess kemur, eru að koma að málinu í fyrsta sinn.

Meiri hlutinn vísar einnig í þessu sambandi til laga nr. 34/2001, um kjaramál fiskimanna og fleira, en þar var gerðardómi markaður mun styttri tíma til ákvarðanatöku en hér er. Í framhaldi af því er lagt til að endanlegt uppgjör launa skuli fara fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir í stað 30. apríl 2005, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Í hæstaréttardómi nr. 167 frá árinu 2002 er fjallað um gerðardóm sem skipaður var með lögum nr. 34/2001 sem bundu enda á verkfall fiskimanna vorið 2001. Í dómnum segir að í lögunum hafi ekki verið skýr fyrirmæli um gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Honum hafi því aðeins verið settar skorður af því almenna ákvæði 3. gr. laganna að gerðardómurinn skyldi við ákvörðun sína hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hefðu verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við ætti og almenna þróun kjaramála. Þá segir í dómnum að í raun hafi þetta þýtt að gerðardómurinn skyldi ákveða gildistíma ákvarðana sinna með hliðsjón af gildistíma kjarasamninga sem gerðir hefðu verið mánuðina áður en hann starfaði. Það svigrúm sem gerðardómnum hefði verið gefið til að ákveða gildistíma ákvarðana sinna væri óheppilega mikið en fæli þó ekki í sér óhæfilega skerðingu á réttindum stefnanda í málinu. Niðurstaða Hæstaréttar í málinu var að gerðardómurinn þótti hafa farið hóflega með vald sitt.

Í ljósi þessa hæstaréttardóms telur meiri hlutinn rétt að taka fram að með því að marka gerðardómnum engar reglur um það hversu langur samningstíminn skv. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins skuli vera er leitast við að skapa gerðardómnum hæfilegt svigrúm til starfa og draga úr áhrifum þess inngrips á samningssvið deiluaðila sem lagasetningin er. Meiri hlutinn bendir þó á að miðað við aðdraganda málsins og tilgang frumvarpsins — hérna mundi ég einnig vilja vísa til þeirra almennu orða sem ég hef viðhaft og koma fram um þá grundvallarreglu að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín á milli án afskipta ríkisvaldsins — þurfi gildistíminn að vera skemmri en lengri, þó þannig að nægileg ró og stöðugleiki geti skapast á vinnumarkaði og í grunnskólum landsins áður en sest verður að samningaborði á nýjan leik. Eftir sem áður er hlutverk gerðardóms að meta hæfilegan gildistíma komi til þess að hann verði skipaður og ljúki störfum.

Loks leggur meiri hlutinn til að orðalagsbreytingar verði gerðar á 1. og 2. gr. frumvarpsins sem lúta eingöngu að fyrirkomulagi samningsumboða launanefndar sveitarfélaga. Lagt er til að 1. mgr. 1. gr. verði jafnframt breytt til að taka af allan vafa um að með orðunum „að gera með sér kjarasamning“ sé átt við að kjarasamningur hafi verið undirritaður.

Breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar liggja hér frammi á þskj. 351 sem ég leyfi mér að vísa til. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér rakið, breytingum sem fram koma á fyrrnefndu þingskjali og eiga að skýra sig í öllum atriðum með þeim skýringum sem ég hef hér gefið.



[11:58]
Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar sem finna má á þskj. 350.

Minni hlutinn er andvígur frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lög á kjaradeilu kennara og skólastjórnenda. Lagasetning þessi leysir engan vanda, heldur skýtur honum einungis á frest auk þess sem báðir samningsaðilar hafa lýst yfir algjörri andstöðu við þessa lagasetningu. Nái frumvarpið fram að ganga magnast óánægja innan kennarastéttarinnar og kann að leiða til atgervisflótta úr stéttinni. Skólastarf í landinu verður í uppnámi, í meira uppnámi en það hefur verið, virðulegi forseti, enda munu kennarar mæta til starfa í algjörri óvissu um framtíðarkjör sín. Frú forseti. Lagasetning á vinnudeilur getur ekki aðeins alltaf orkað tvímælis, eins og hún vissulega gerir, heldur er þessi lagasetning þess eðlis að því miður mun hún leiða til enn meira uppnáms í málinu en verið hefur.

Framsögumaður meiri hluta minntist hér á tímasetningarnar sem meiri hluti allsherjarnefndar gerir ákveðnar breytingar á. Minni hlutinn telur að tímasetningarnar eins og þær voru upphaflega lagðar fram í frumvarpinu hafi verið óásættanlegar og þá er ég að vísa til skipunar gerðardómsins og þess tíma sem honum er ætlaður til starfa. Við teljum þá breytingu sem meiri hlutinn gerir hvað varðar það að gerðardómnum sé gefinn skemmri tími til að koma til starfa — hann á að taka til starfa 20. nóvember í stað 15. desember — jákvæða og nauðsynlega því að það var algjörlega óásættanlegt að miða við að hann tæki ekki til starfa fyrr en 15. desember.

Síðan gerir meiri hlutinn þá breytingu að ætla gerðardómi mánuði skemmri tími núna en var samkvæmt frumvarpinu. Við teljum reyndar að leggja hefði mátt til enn meiri styttingu á þeim tíma sem gerðardómurinn hefur. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, úr því að þessi leið er farin að þá sé reynt að klára málið á sem skemmstum tíma. Það er auk þess samdóma álit deiluaðila að mun skemmri tími dugi til að komast að því hvort lagasetning hafi yfirleitt breytt samningsgrundvellinum. Þessir aðilar hafa talað saman lengi og það liggur nokkuð ljóst fyrir hvar ágreiningurinn er. Varðandi breytingartillögur meiri hlutans telur minni hlutinn að þessar tillögur séu skref í rétta átt.

Hið sama má líka segja um þá breytingu meiri hlutans að ákvörðun gerðardóms skuli taka gildi við gildistöku laganna. Að okkar mati er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði þannig því að á þeim tímapunkti eru kennarar sviptir rétti sínum til að leggja niður vinnu sem er annars eina vopn þeirra í kjarabaráttunni.

Ég vil líka taka það fram í þessu sambandi að það er ekkert í frumvarpinu sem bannar gerðardómnum að taka ákvörðun um eingreiðslu til kennara, eins og gert var ráð fyrir í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, og við viljum benda á að það yrði óneitanlega til þess fallið að bæta kennurum upp þann tíma sem þeir hafa verið samningslausir.

Af umfjöllun allsherjarnefndar að dæma, eins og skýrt kom fram í máli fulltrúa kennara sem komu á fund nefndarinnar, virðist algjörlega útilokað að viðunandi kjarasamningar geti náðst á grundvelli þeirra forsendna sem gerðardómnum er ætlað að starfa eftir. Þá er ég að vísa til 3. gr. frumvarpsins. Gerðardómnum eru settar mjög þröngar skorður og þær munu ekki auka líkurnar á því að farsæl lausn finnist á þessu erfiða deilumáli.

Minni hlutinn vekur t.d. athygli á því að í forsendum er ekki minnst á markmið um að draga úr launamun kynjanna. Væri ekki eðlilegt, virðulegi forseti, að hafa slíka forsendu í þeirri grein í ljósi þess að 75% kennara í grunnskólum eru konur? Þetta er kvennastétt og þetta er eitt markmið sem þyrfti líka að hafa til hliðsjónar. Þegar farin er sú leið að setja gerðardóm í svona erfiða deilu er náttúrlega mikilvægt að hann taki mið af þeim forsendum sem báðir aðilar hafa lagt fram í kröfum sínum. Síðan er það þá gerðardómsins að reyna að leggja mat á það allt. Þarna er hins vegar verið að setja það miklar skorður að kennarar hafa lýst því yfir að algjörlega sé útilokað að viðunandi niðurstaða finnist fyrir þá á grundvelli þessara forsendna. Það orkar alltaf tvímælis, virðulegi forseti, að nota lagasetningu um þvingaðan gerðardóm í málum eins og þessu. Ef sú leið er samt farin, ef hún er talin nauðsynleg er líka mikilvægt að reyna eftir mætti að draga úr neikvæðum afleiðingum hennar.

Þannig bentu t.d. samtökin Heimili og skóli og Samfok á að lagasetning kæmi til greina en með þeim fyrirvara að reynt væri eftir mætti að draga úr neikvæðum afleiðingum hennar. Samtökin segja það ekki gert með þessu frumvarpi, þau segja forsendur 1. mgr. 3. gr. vera svo stífar að útilokað sé að kennarar geti unað við þær. Þessir aðilar benda á að markmiðið sé ekki bara að börnin komist aftur í skólann heldur þurfi skólastarfið líka að vera innihaldsríkt. Verði frumvarpið að lögum telja þessi samtök afar ólíklegt að sú verði raunin. Af þeim sem komu fyrir allsherjarnefnd voru fáir — satt best að segja bara enginn, held ég — sem töldu líklegt að farsæl lausn næðist á grundvelli þessa frumvarps. Það hlýtur jú að vera markmiðið, virðulegi forseti.

Það er líka mat okkar í minni hlutanum að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á því hve alvarleg staðan er. Hún hefur sjálf gert samninga við framhaldsskólakennara sem fullkomlega eðlilegt er að grunnskólakennarar noti sem viðmiðun. Þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna í ágúst 1996 voru byrjunarlaun kennara þau sömu í framhaldsskólum og grunnskólum. Eftir síðustu samninga ríkisins eru byrjendalaun grunnskólakennara mun lægri og munurinn á heildarlaunum er orðinn verulegur. Þarna kann að vera að skipulagsbreytingar blandist eitthvað inn í, að vinnutími framhaldsskólakennara sé lengri, en eigi að síður er þetta bil orðið gríðarlegt. Ríkisstjórnin hefur skapað þetta viðmið og hún getur ekki vikist undan ábyrgðinni.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin ekki tryggt sveitarfélögunum fullnægjandi tekjustofna til að standa undir þeirri ábyrgð sem Alþingi og ríkisstjórnin hafa lagt þeim á herðar. Í þessu felst ef til vill stærsti hluti ábyrgðar ríkisstjórnarinnar og í því að hafa ekki lokið vinnu tekjuskiptinganefndar ríkis og sveitarfélaga. Til viðbótar hefur ríkisstjórnin gert breytingar á skattalögum sem hafa takmarkað tekjuöflun sveitarfélaganna.

Í þriðja lagi hafa kröfur til grunnskólans breyst verulega frá því að hann var færður til sveitarfélaganna. Grunnskólar eru nú einsetnir og fleiri róttækar og dýrar breytingar hafa verið gerðar á skólastarfi. Sveitarfélögin eiga reyndar lof skilið fyrir að hafa svarað auknum kröfum með því að bæta þjónustuna en allir bera hins vegar samfélagslega ábyrgð á þróun grunnskólans. Í því felst að einnig ríkisvaldið ber ábyrgð á kostnaðaraukanum sem hlýst af auknum gæðum grunnskólans. Þetta kallar á aukinn skilning á sanngjarnri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Tíu árgangar Íslendinga bera skaðann af þessu verkfalli. Hann verður seint að fullu bættur og stjórnvöld hafa engar áætlanir uppi um að bregðast við honum. Það hefur vissulega verið grafalvarlegt ástand í samfélaginu þar sem 45 þús. grunnskólabörn hafa verið án kennslu í tæpa tvo mánuði. Neikvæð áhrif af slíku ástandi geta verið gríðarleg og langvarandi. Hins vegar leysir þetta frumvarp, verði það að lögum, engan vanda, það virðist þvert á móti gera hann enn meiri og deiluna illleysanlegri. Því vísar minni hlutinn allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni í þessu máli og leggst gegn lagasetningunni.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins verður friðarskylda lögð á deiluaðila frá gildistöku laganna og út gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Skv. 1. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir að gerðardómurinn ákveði sjálfur gildistíma ákvarðana sinna. Er komið örlítið inn á þetta atriði í áliti meiri hlutans og var rakið hér af framsögumanni hans. Það að gerðardómurinn ákveði sjálfur gildistíma ákvarðana sinna felur í sér að honum er í raun framselt vald til að ákveða upp á eigin spýtur hve lengi grunnskólakennarar skuli vera sviptir verkfallsrétti. Þetta fyrirkomulag telur minni hlutinn vera óvarlegt enda nýtur verkfallsrétturinn verndar félagafrelsisákvæðis 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og ákvæðis 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Strangar kröfur eru gerðar til lagasetningar sem banna verkföll.

Í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002, í svokölluðu sjómannamáli sem fjallaði um réttmæti lagasetningar á verkfall sjómanna, komst Hæstiréttur svo að orði um sambærilegt ákvæði í þeim lögum að það svigrúm sem gerðardómnum var gefið þá hefði verið óheppilega mikið. Á það hefur verið bent að við lagasetningu sem þessa sé rétt og það beri að afmarka hóflegan hámarksgildistíma ákvarðana gerðardómsins í lögunum sjálfum. Það telur minni hlutinn að hefði verið réttara að gera.

Í lokamálslið frumvarpsins er gert ráð fyrir að aðilum verði áfram heimilt að semja um breytingar eftir að gerðardómurinn hefur komist að niðurstöðu en þeir megi hins vegar ekki knýja þær fram með vinnustöðvun. Þetta telur minni hlutinn vera óhóflega skerðingu þeirra mannréttinda sem í verkfallsréttinum eru fólgin, sbr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en samningsrétturinn er vissulega lítils virði ef ekki má fylgja honum eftir með verkföllum sem er sú leið sem hefur verið viðurkennd til þess.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það enn og aftur að þessi lagasetning, og eins og hún er sett hér fram, setur þessa viðkvæmu og erfiðu deilu í miklu verri stöðu en hún var. Því miður gerir hún það. Ég hef rakið í áliti mínu á hverju ég byggi og við í minni hlutanum vísum ábyrgð á lagasetningunni og framsetningu hennar algjörlega til ríkisstjórnarinnar. Við erum andvíg henni.

Undir þetta álit skrifa auk mín hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurjón Þórðarson og Guðrún Ögmundsdóttir. Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykk áliti þessu. [Klapp á þingpöllum.]



[12:09]
Forseti (Jónína Bjartmarz):

Forseti biður gesti á þingpöllum að trufla ekki þingfund og virða þingsköp.



[12:10]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Frjálslyndi flokkurinn er alfarið á móti lagasetningum á vinnudeilur. Ég sat fundi allsherjarnefndar, á löngum fundum þar sem boðaðir voru gestir og farið vel yfir það lagafrumvarp sem liggur hér til umræðu. Ég verð að segja eins og er að ég tel stóra hættu á því að við séum einungis að skjóta þessari vinnudeilu á frest, að við séum ekki að leysa hana hér og nú. Þess vegna ríður á að unnið sé í framhaldinu að því að koma á sæmilegri sátt í grunnskólunum.

Hjá öllum deiluaðilum sem komu á fundi nefndarinnar kom fram að þeir voru ósáttir við lagasetninguna. Til dæmis kemur það fram í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Hún byrjar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í upphafi er rétt að taka það sérstaklega fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aldrei óskað eftir því að kjaradeila launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna grunnskólans verði leyst með lagasetningu. Sambandið telur slíkt inngrip í kjaradeiluna afar slæmt og ekki til þess fallið að vera framtíðarlausn á þeim vanda sem upp er kominn.“

Það er íhugunarefni þegar annar viðsemjandinn segir þetta — og við vitum öll hver hugur Kennarasambandsins til þessarar lagasetningar er þannig að allir aðilar málsins eru á einu máli. Meira að segja kemur hér fram í umsögn samninganefndar launanefndar sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Samninganefnd launanefndar sveitarfélaga lýsir því yfir að hún hefur ekki á neinu stigi þessa máls óskað eftir því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga.“

Annað kom fram líka á fundinum. Það var orðið nokkuð ljóst að ef ekki yrði gripið inn í mundi þessi deila að öllum líkindum standa fram yfir áramót. Samt sem áður ber ríkisstjórnin meginábyrgð á deilunni og þá skal fyrst nefna að taka þarf á tekjuskiptingu sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa fengið aukin verkefni, auknar kröfur og skyldur frá ríkinu en ekki hafa fylgt fjármunir í sama mæli. Auðvitað þarf það að fylgjast að, auknir fjármunir og síðan auknar skyldur því að náttúrlega þarf fjármuni til að uppfylla skyldur sveitarfélaganna.

Síðan hefur ekki síst ítrekað komið fram, m.a. í fyrirpspurn hér á þingi, að hjá mörgum litlum sveitarfélögum, fámennum sveitarfélögum, fara allt að níu af hverjum 10 krónum í rekstur grunnskólans. Það má segja að þar sé kominn annar vandi sem þurfi að líta til, það er fjárhagsvandi minni sveitarfélaga. Ég verð að segja að það er ekki einfaldlega nóg að sameina sveitarfélög, heldur þarf að taka á byggðaröskuninni.

Svo má nefna að ýmsar misráðnar yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra hafa verið síst fallnar til að greiða úr deilunni. Enn fremur má segja að komið hafi fram að ríkisstjórnin, þ.e. ríkið, hefur gert betur við þá aðila sem hún hefur samið sérstaklega við, aðila sem eru viðmiðunarhópur grunnskólakennara. Það er náttúrlega ákveðinn vandi í þessu máli.

Ég held samt sem áður að það sé mjög mikilvægt núna að allir flokkar reyni að skapa sátt um grunnskólann, horfa fram á veginn og líta til þess hvernig megi koma á sæmilegri sátt. Flestir flokkar sem hér starfa á Alþingi — við verðum að ræða um hlutina eins og þeir eru — bera ákveðna ábyrgð á ástandinu. Það er ekki einungis ríkisstjórnin. Það verður að segjast eins og er að stjórnarandstaðan, Vinstri grænir og Samfylkingin, er ráðandi afl í sveitarfélögunum sem eru annar viðsemjandinn. Þannig er það í langstærsta sveitarfélaginu, í Reykjavíkurborg, og þess vegna verða þeir að vissu leyti að axla ábyrgð á því hver staðan er.

Ég tel brýnast að horfa til mánudagsins eins og staðan er nú. Nú liggur ljóst fyrir að kennarar verða skyldaðir til að koma til vinnu á mánudaginn og mér finnst brýnt að sveitarfélögin í landinu skjóti á fundi og reyni að koma til móts við reiði kennara vegna þess að þeir eru náttúrlega mjög ósáttir við það eftir langt verkfall að sjá ekki neinar kjarabætur. Það verður bara að horfast í augu við það. Ég tel að sveitarfélögin ættu jafnvel að skjóta á fundi núna í dag eða á morgun og reyna að lægja óánægjuöldur kennara. Mér finnst það mjög mikilvægt ef það markmið laganna að tryggja frið um grunnskólann á að nást.



[12:16]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þau eru ekki létt, þessi spor í ræðustólinn í gær og í dag þegar við ræðum frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, enda ekki að furða því að báðir deiluaðilar þessarar deilu eru mótfallnir því að lög af þessu tagi verði sett.

Inngrip af þessu tagi hefur gífurlega alvarlegar afleiðingar og við sem sitjum fundi allsherjarnefndar fengum það upplýst frá fulltrúa BHM sem heimsótti okkur á fund í morgun að ekki væri enn gróið um heilt eftir lagasetninguna á BHM 1990. Við erum að tala um 14 ár. Það er kannski fyrst núna, sagði formaður og framkvæmdastjóri BHM, sem segja má að það sé að gróa um heilt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hversu gríðarlega alvarlegar afleiðingar inngrip af þessu tagi geta haft. Enginn sem hefur að þessu máli komið hjá allsherjarnefnd hefur ýkt neitt um það, fólk hefur verið mjög hófstillt í yfirlýsingum sínum í þessum efnum.

Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif þessi lagasetning getur haft á kennara, skólastarf og þar með börnin okkar þegar kennararnir verða dæmdir til að koma í vinnuna á mánudaginn. Það getur ekki verið að kennarar mæti í vinnuna með bros á vör og það getur ekki orðið tóm ánægja í skólanum á mánudaginn eða næstu daga þar á eftir vegna þessa inngrips, vegna þess sem löggjafarsamkundan telur sig vera neydda til að gera hér, þ.e. meiri hluti þessarar löggjafarsamkundu, ríkisstjórnin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.

Það kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur á hvern hátt stjórnarandstaðan hefur reynt að höndla þetta mál og mótað sér um það mjög afdráttarlausa skoðun. Hún er sú að þessi lagasetning verði ekki til bóta, við erum andvíg henni, við teljum ekki réttlætanlegt að kjörum sé skipað með lögum. Það er ekkert í þessari stöðu sem við sjáum að réttlæti þær gjörðir sem hér fara fram, því miður.

Frumvarp þetta dæmir af kennurum þau sjálfsögðu og lögvörðu réttindi sem fólgin eru í verkfallsréttinum. Það eitt og sér er gríðarlega alvarlegur dómur. Ein af hættunum sem 3. gr. í frumvarpinu felur í sér er sú að kennarar verði dæmdir inn á kjör sem þeir eru búnir að hafna í miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Svo þröngt er einstigið sem gerðardómnum er skipað að feta í dómi sínum. Þar er honum gert að feta það einstigi sem afmarkast af almennri þróun á vinnumarkaði, stöðugleika efnahagsmála og að forsendum annarra kjarasamninga verði ekki raskað og síðan því að taka hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geti talist grunnskólakennurum að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.

Þeir gestir allsherjarnefndar sem tjáðu sig um þessa grein voru allir sammála um að þetta væri óframkvæmanlegt. Einstigið í 3. gr. er marklaust, fullkomlega marklaust vegna þess að það er ekki hægt að feta það. Hendur gerðardómsins eru þegar bundnar, hann er settur í slíka klemmu að hann getur ekki kveðið upp úrskurð sem gerir hvort tveggja, raskar ekki forsendum annarra kjarasamninga en hjálpar jafnframt kennurum að halda í við viðmiðunarhópa sína.

Sem sagt, ónothæfar forsendur í 3. gr. eru meðal þess sem minni hlutinn í allsherjarnefnd og stjórnarandstaðan mótmælir.

Eitt af því sem kom fram við umræðu í gær, 1. umr. málsins, var að bannað yrði með þessum lögum að bæta kennurum skaðann af verkfallinu. Um þetta spurðum við í allsherjarnefndinni þá aðila sem sömdu frumvarpið og það er rétt að hér upplýsist að þeir aðilar sem standa að frumvarpinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hafa samið frumvarpið, lögfræðingar sem hafa komið að því, fullyrða að þessi túlkun sem hér var viðhöfð í gær sé ekki rétt. Þeir segja að gerðardómurinn hafi frjálsar hendur um það hvort kennurum verði dæmdar bætur fyrir verkfallið, ef það má orða það svo, eða hvort fyrir þá löngu vinnustöðvun sem kennarar hafa átt í komi einhvers konar eingreiðsla, eins og t.d. miðlunartillaga ríkissáttasemjara gerði ráð fyrir. Hún var reiknuð, sérstaklega reiknuð tala sem innifól frestun á breytingu kennsluskyldu, og þó að aðilar hafi ekki litið á þetta sem bætur fyrir verkfall vitum við alveg að þegar löng vinnustöðvun hefur átt sér stað hafa eingreiðslur af þessu tagi sem hafa þó eðlilega skýringu og skilgreiningu mikil áhrif á það hvernig verkfalli er lokið, hvernig mórallinn verður í stéttinni sem hefur þurft að búa við vinnustöðvunina þegar aftur er mætt til vinnu. Þær yfirlýsingar komu hér fram. Þeir sem standa að frumvarpinu telja hendur gerðardómsins hvað þetta varðar ekki bundnar, og það er mjög mikilvægt.

Segja má að kennarar séu ekki öfundsverðir af því sem hér er yfirvofandi. Þeir eiga það yfir höfði sér að vera hýrudregnir um næstu mánaðamót eins og við vitum enda fengu kennarar greidd full laun 1. nóvember og sveitarfélögin eiga þar af leiðandi inni hjá kennurum. Jafnvel horfir til þess að kennarar fái engin laun fyrr en eftir áramót. Þetta ástand gerir það að verkum að erfitt verður að koma í skólana á mánudaginn. Í því sambandi vil ég taka undir orð gesta allsherjarnefndarinnar, þeirra Bergþóru Valsdóttur og Elínar Thorarensen frá Samfoki og Heimili og skóla, sem lýstu miklum áhyggjum af því við allsherjarnefndina hvernig andrúmsloftið yrði þegar skólinn yrði kallaður aftur saman, þegar kennarar kæmu aftur til starfa.

Þær sögðu, virðulegi forseti, við allsherjarnefndina að mjög mikilvægt yrði að draga sem mest væri mögulegt úr þeim neikvæðu áhrifum sem lagasetningin hefur. Börnin og fjölskyldurnar þurfa ekki á því að halda að fá óánægða kennara, sem hafa fengið á sig lagasetningu af þessu tagi, inn í skólana á mánudaginn. Þær sögðu: Við þurfum innihaldsríkt skólastarf og við fáum það ekki með óánægðum kennurum. Við fáum það ekki með kennurum sem hafa þurft að lúta lagasetningu af því tagi sem hér er fram reidd.

Hæstv. forseti. Samfélagið vill fá hæft og gott fólk inn í skólana, um það hefur ríkt sátt. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt það fullum fetum að nauðsynlegt sé að grunnskólarnir eigi kost á hæfu og vel menntuðu fólki. Það vita samt allir og hæstv. ríkisstjórn þar með að við fáum ekki hæft og gott fólk inn í skólana nema greiða því góð laun, það liggur alveg á borðinu. Það er nauðsynlegt að ráðamenn geri sér grein fyrir því hvað hér er í húfi með þeirri lagasetningu sem liggur á borðum okkar og við erum að fjalla um.

Hæstv. forseti. Ég get einungis lýst því hér yfir í lok ræðu minnar að ég tek undir öll þau atriði sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans um þetta mál. Það er sannarlega ekki með bros á vör sem maður heldur þessar ræður hér í tilefni af þessari lagasetningu. Hér er óhóflega þröngur stakkur skorinn, óhóflega stuttir frestir settir og óhóflega að öllu þessu máli staðið. Í grunninn snúast við í manni innyflin við að þurfa að fara yfir þessa lagasetningu vegna þeirrar einföldu grunnreglu sem öll mín sannfæring segir að það eigi ekki að skipa kjörum með lögum.



[12:25]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vildi einungis standa hér upp til að þakka hv. allsherjarnefnd fyrir góð störf. Nefndin hefur unnið málið hratt og vel eins og nauðsynlegt er við slíkar aðstæður. Ég vildi jafnframt þakka stjórnarandstöðunni fyrir þann skilning að nauðsynlegt sé að afgreiða mál snöggt í tilvikum sem þessum. Þótt ég virði að sjálfsögðu skoðanir þeirra og andstöðu við málið er mikilvægt að slíkur skilningur sé hér á Alþingi.

Ég tel mjög eðlilegt að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að breyta dagsetningunni 15. desember í 20. nóvember enda liggur fyrir að báðir aðilar óska eftir því. Ríkisstjórninni þótti eðlilegt að gefa aðilum rúman tíma til að reyna enn frekar að ná samningum. Nú liggur fyrir að menn meta það svo að það sé ekki mögulegt. Ég tel að það sé enn frekari staðfesting á nauðsyn þess að fara í málið með þessum hætti þó að okkur öllum sé það að sjálfsögðu óljúft.

Hér hefur verið talað um að það verði erfitt fyrir kennara og aðra að koma til vinnu, koma í skólann, á mánudag. Ég ætla ekkert að draga úr því. En ætli það hefði ekki orðið enn þá erfiðara að koma til vinnu og koma í skólana einhvern tíma eftir áramót eins og staðan blasir við? Ég býst ekki við að það hefði verið létt.

Auðvitað er málið erfitt en ég bendi á að það er að sjálfsögðu gerðardómsins, sveitarfélaganna, kennaranna og samtaka þeirra að vinna úr málinu á þeim grundvelli sem þetta frumvarp og væntanleg löggjöf gerir ráð fyrir. Þar eru margir möguleikar og mörg tækifæri til að vinna úr málinu sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt því að endingu eru það aðilar málsins sem eiga síðasta orðið í þeim efnum og verða að vinna úr því. Við gerum okkur öll grein fyrir því og þess vegna hefur verið lögð á það áhersla í þessu máli að loka engum dyrum og hafa alla möguleika opna í þeim efnum þannig að hægt sé að tryggja sem farsælasta lausn að lokum.