131. löggjafarþing — 29. fundur
 13. nóvember 2004.
kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 318. mál. — Þskj. 352.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:49]

[12:36]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin segist ganga grátandi til þessa verks. Hún segist vera að setja lög á kennara til varnar skólabörnum, þetta sé neyðarbrauð og að ráðherrabekkurinn sé harmi sleginn.

Það er ekki stórmannalegt að beita börnum fyrir sig til að réttlæta eigin vesaldóm og dáðleysi. Það er ekki stórmannlegt að beita börnum fyrir sig til að réttlæta lög á kennara sem svipta þá lýðræðislegum réttindum.

Það er rétt að kjaradeilan sem háð hefur verið gegn kennurum undanfarnar vikur og mánuði var komin í hnút, var komin í mjög harðan hnút. Þá spyr maður: Á hvers færi var og er að leysa þann hnút? Hver batt hnútinn? Hver er ábyrgur fyrir því að hann verði leystur? Það eru þeir sem sitja hér mér til hægri og vinstri handar og þeir hér í salnum sem ríkisstjórnin styðst við. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig komið er.

Við mótmælum þessum lögum.



[12:38]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Samfylkingin mótmælir þessari lagasetningu harðlega. Við segjum nei, nei og aftur nei.

Hér er verið að fara með ofbeldi gagnvart kennurum, hér er ríkisstjórnin að reyna að moka sinn eigin flór sem hún sjálf hefur óhreinkað með aðgerðaleysi sínu. Þessi ríkisstjórn hefði getað leyst þetta mál miklu fyrr. Þessi ríkisstjórn hefði getað skapað aðstæður sem hefðu gert sveitarfélögunum kleift að koma með sanngjörnum hætti til móts við kennara. En það var aðgerðaleysi og þyrnirósarsvefn þessarar ríkisstjórnar sem leiddi til þess að sveitarfélögunum var ekki kleift að leysa deiluna. Því lýsum við allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni.

Það var líka ríkisstjórnin og lausatök hennar á hagstjórninni sem leiddi til þess að þegar kennarar stóðu frammi fyrir miðlunartillögu blasti það við þeim að launahækkanirnar sem tillagan hefði fært þeim hefðu étist upp af verðbólguþróuninni. Ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni. Það er þess vegna sem við lýsum ábyrgð á hendur ríkisstjórninni.

Frú forseti. Þessi lög leysa því miður ekki vandann. Það hefur komið fram hjá talsmanni Framsóknarflokksins í menntamálum og hæstv. menntamálaráðherra að það er líklegt að þessi lög kunni að skjóta vandanum á frest, en þau munu leiða til þess að mórallinn í stéttinni hrynur. Við fáum kennarastétt sem er ekki ánægð með kjör sín, við fáum verri skóla. Því er þessi aðferð skaðleg fyrir menntakerfið í landinu.



[12:40]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er rétt í þann veginn að verða að lögum þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar um það að setja lög á kennaraverkfallið. Þar með lýkur kannski í bili mjög erfiðri kjaradeilu sem ég hygg að hafi valdið allri þjóðinni mjög miklu hugarangri á undanförnum vikum.

Ég skal alveg viðurkenna að við í Frjálslynda flokknum höfum haft mjög miklar áhyggur af þessu máli og okkur var það fyllilega ljóst fyrir nokkrum dögum að eitthvað yrði að gera, þessari martröð yrði að linna.

Ég sagði í lokaræðu minni í gær að við hefðum ákveðið að við mundum sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps. Við höfum tekið þátt í vinnunni við að afgreiða það hér á hinu háa Alþingi, við höfum greitt fyrir afbrigðum, okkar maður hefur unnið af heilindum í allsherjarnefnd og við höfum lagst á árar með stjórnarandstöðunni í þá átt að reyna að bæta þetta frumvarp, reyna að gera það þá eins gott og hægt var.

Því miður er niðurstaðan af þeirri vinnu ekki ásættanleg að okkar mati. Við teljum að ekki sé komið nógu mikið til móts við óskir kennara, sanngjarnar óskir kennara. Við gerum okkur á sama tíma líka grein fyrir því að í þessu máli eru tveir hópar sem báðir hafa þurft að þjást mikið vegna deilunnar, annars vegar kennarar og hins vegar börnin og foreldrar þeirra.

Ég verð að segja það að eftir vandlega íhugun, mjög erfiða ákvörðun, höfum við í þingflokki Frjálslynda flokksins komist að þeirri niðurstöðu að við munum segja nei við þessu frumvarpi. Við teljum að það sé hreinlega ekki nógu gott. En ég ítreka enn og aftur orð mín: Það varð að gera eitthvað og ég vona svo sannarlega að sá gálgafrestur — þetta er ekkert annað en gálgafrestur — sem við erum að kaupa okkur nú á hinu háa Alþingi verði til þess að ásættanleg lausn náist til frambúðar í kjaramálum kennara. Þá er ég ekki bara að tala um grunnskólakennara, heldur líka leikskólakennara. Hér verðum við virkilega að gangast við ábyrgð okkar, við stjórnmálamenn. Það er sú vinna sem við eigum að fara í núna og við eigum að vinna hana hratt og örugglega.



Frv.  samþ. með 28:21 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

  já:  GHH,  GHj,  GHall,  GÁ,  GunnB,  HÁs,  SI,  HjÁ,  JónK,  KÓ,  KHG,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SF,  StB,  VS,  ÞKG,  HilmG,  ÁMagn,  ÁMM,  BÁ,  BjarnB,  DJ,  ÁMöl,  DrH,  EKG,  JBjart.
nei:  PBj,  GÁS,  GÖg,  SigurlS,  HHj,  GE,  JóhS,  KJúl,  KolH,  KLM,  MÞH,  MF,  RG,  SigurjÞ,  ÞSveinb,  ÖJ,  ÖS,  AKG,  ÁÓÁ,  BjörgvS,  BH.
14 þm. (EMS,  GÞÞ,  JBjarn,  JGunn,  LB,  MS,  MÁ,  SP,  BjG,  ÞBack,  ÁRJ,  BJJ,  BBj,  EOK) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:44]
Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er fátt ef nokkuð sem bendir til þess að deiluaðilar í þessu alvarlega máli muni ná saman, ekki á þessu ári og guð má vita hvenær á næsta ári. Það ríkir með öðrum orðum algjört neyðarástand í grunnskólum landsins.

Það frumvarp sem hér er til afgreiðslu gengur út á það að setja gerðardóm, reyna að höggva á þennan hnút og finna nýja nálgun í þessu máli í því skyni að ná niðurstöðu.

Með þeim breytingum sem hv. allsherjarnefnd hefur kynnt er gengið mjög til móts við þær óskir sem deiluaðilar hafa viðrað, frestur er styttur, en umfram allt skiptir máli í þessu að viðsemjendur geta og eiga lag á því að setjast niður og ná saman án aðkomu gerðardóms. Það er undir þeim komið. Ef það ekki gengur er það gerðardómur sem á að finna lausn.

Um leið er líka rétt að senda út ákall til annarra hópa að una þeirri niðurstöðu sem vonandi fæst í þessu mikilvæga máli fyrir kennara. Ég sendi enn einu sinni út það ákall til annarra hópa að una þeirri niðurstöðu en umfram allt til viðsemjenda sjálfra að finna lausn á þessu máli. Ég segi já.