131. löggjafarþing — 30. fundur
 15. nóvember 2004.
Rannsókn á þróun valds og lýðræðis, fyrri umræða.
þáltill. JóhS o.fl., 21. mál. — Þskj. 21.

[16:20]
Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Lúðvíki Bergvinssyni, Merði Árnasyni og Björgvini G. Sigurðssyni, um að rannsókn fari fram á þróun valds og lýðræðis.

Markmið tillögunnar er að kanna áhrif þeirrar þróunar síðustu 20 árin og meta hvaða áhrif hún kunni að hafa á komandi árum. Markmiðið verði að fá sem gleggsta mynd af því hvort þrískipting ríkisvaldsins sé orðin óljós í framkvæmd og meta áhrif þess á lýðræðisþróunina og samfélagið í heild. Einnig verði skoðað hvort völd embættismanna hafi aukist meira en eðlilegt getur talist og hvaða áhrif fjölmiðlar hafa haft á þróun stjórnmála og samfélagið í heild.

Við rannsóknina verði jafnframt lagt mat á hvort og að hve miklu leyti völd hafa færst frá kjörnum fulltrúum til einkaaðila, m.a. með breytingu á efnahagslegu valdi í krafti tilfærslu eigna og fjármagns og hvort ákvarðanir og fjárfestingar stórra valdablokka í atvinnu- og fjármálalífi hafi nú verulega meiri áhrif en áður á afkomu og þróun þjóðarbúsins. Lagt verði mat á framhald þessarar þróunar fyrir efnahags- og atvinnulíf og með tilliti til eigna- og tekjutilfærslna.

Það er jafnframt mikilvægt að þróunin verði skoðuð út frá áhrifunum á valdahlutfall kynjanna í þjóðfélaginu. Ástæða er til að hafa af því áhyggjur að hlutur kvenna í forustustörfum í atvinnulífinu hafi minnkað og var hann ekki mikill fyrir. Vísa ég þar til svara við fyrrispurnum mínum, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra, þar sem fram kemur að sé litið til stjórnenda lífeyrissjóða og stjórnenda í atvinnulífi og fjármálalífi eru þar í forustustörfum yfir 90% karlar en innan við 10% konur.

Umsjón með þessu verki, eins og það er lagt upp í þessari tillögu, á að vera í höndum fimm fulltrúa sem tilnefndir verða af háskólunum í landinu. Það er svipuð tilhögun og var í sambærilegri rannsókn sem gerð hefur verið í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Hvati þeirra rannsókna var þær miklu breytingar sem hafa orðið í þessum löndum með aukinni alþjóðavæðingu og vegna breytinga á umsvifum í atvinnu- og fjármálalífi.

Niðurstaða norsku rannsóknarinnar var m.a. að breytingar í umsvifum á markaði hefðu leitt til meiri fákeppni og að fulltrúalýðræðið væri í tilvistarkreppu. Niðurstaðan, bæði í Danmörku og Noregi, var að dómstólar hefðu veikt völd þinganna.

Við leggjum til að forsætisráðherra skipi nefnd sem í sitji fimm fulltrúar háskóla. Háskóli Íslands tilnefni tvo fulltrúa og verði annar þeirra formaður nefndarinnar. Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Viðskiptaháskólinn á Bifröst tilnefni einn fulltrúa hver. Verkefni nefndarinnar verði að hafa umsjón með verkinu og fái hún heimild til að kalla til sérfræðinga til að vinna að rannsókninni. Nefndin leggi verkefnaáætlun og fjárhagsramma fyrir forsætisráðherra sem geri tillögur til Alþingis um nauðsynleg fjárframlög til verksins. Nefndin skili áfangaskýrslum eftir því sem verkinu miðar fram og skal rannsókninni lokið eigi síðar en 1. janúar 2008.

Það er ljóst af efni þessarar tillögu að hún er mjög umfangsmikil. Það kom vissulega til skoðunar hjá okkur flutningsmönnum að skipta tillögunni upp. Niðurstaðan var sú að setja þetta fram í einni tillögu, að betra væri að fara þá leið til að fá samfellu í verkið. Með því gefast meiri möguleikar á heildarsýn yfir mögulegar valdatilfærslur. Í verkahring nefndarinnar verður að skoða hvort og þá hvernig verkin verði brotin upp.

Upplýsingaþjónusta Alþingis hefur að beiðni flutningsmanna tekið saman stutta lýsingu á sambærilegum rannsóknum sem fram hafa farið á þróun valds og lýðræðis í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Rannsóknirnar í þessum löndum beindust að stöðu valds og lýðræðis við upphaf 21. aldar. Hvati rannsóknanna voru þær miklu breytingar sem hafa orðið á viðkomandi samfélögum með aukinni alþjóðavæðingu og breytingum á skyldum ríkisvaldsins, t.d. vegna minni afskipta af viðskiptalífinu. Ein af helstu ástæðum þess að ráðist var í rannsóknina í Danmörku var að þingið óttaðist að það væri að missa völd. Niðurstaða rannsóknarinnar þar er á þann veg að danska þingið hafi aukið völd sín á kostnað framkvæmdarvaldsins, m.a. með aukinni sérhæfingu þingmanna, auk þess sem fjöldi minnihlutastjórna í Danmörku hefur haft þessi áhrif. Það er athyglisvert, ekki síst fyrir okkur á Íslandi sem höfum búið við samsteypustjórnir lengst af.

Á hinn bóginn hafa, eins og ég nefndi, dómstólarnir veikt völd þingsins og sama gildir um Noreg. Niðurstaða norsku rannsóknarinnar er m.a. að fulltrúalýðræðið sé í tilvistarkreppu. Fram kemur einnig að stéttaskipting hafi aukist. Athyglisvert er einnig að áhrif ákveðinna hópa hafa breyst með auknum áhrifum sérstakra tengsla milli áhrifamikilla einstaklinga í þjóðlífinu. Jafnframt hafi staða lýðræðisins breyst með meiri áhrifum frá ákveðnum hópum sem ekki eru endilega lýðræðislega kjörnir. Sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar getur fengið aðgang að þessum skýrslum ef áhugi er á því að skoða þær nánar.

Á þeim tíma sem ég hef til umráða vil ég fara yfir þá meginþætti sem þessi tillaga lýtur að, þ.e. þrískiptingu valdsins og þróun þrískiptingar á umliðnum árum, valdmörk dómstóla, áhrif fjölmiðla á þróun lýðræðis og áhrif af tilfærslu valds og fjármagns í samfélaginu og lýðræðisþróunina.

Þrískipting ríkisvaldsins hefur þótt óljós í framkvæmd og rætt er um að ákvarðanir sem máli skipta fyrir þjóðarbúið séu í auknum mæli að færast frá vettvangi stjórnmálanna yfir á vettvang fjármála- og atvinnulífs. Þá telja margir að vald embættismanna hafi aukist verulega og að kjörnir fulltrúar þjóðanna hafi fært þeim meira vald til ákvörðunar en eðlilegt getur talist.

Í tillögunni er jafnframt lagt til að metið sé vald fjölmiðla og áhrif þeirra á samfélagsþróunina, en í sambærilegri rannsókn sem unnin var í þessum norrænu ríkjum sem ég nefndi áðan var sá þáttur einnig hluti viðfangsefnisins.

Flutningsmenn telja að brýnt sé orðið að leggja mat á þessa þróun og fá af henni heildarmynd þannig að hægt sé að bregðast við ef ástæða þykir til. Með rannsókn sérfræðinga væri hægt að leggja mat á hvort slík tilfærsla hafi orðið á valdmörkum þeirra þriggja valdþátta sem stjórnskipunin byggist á að stoðir lýðræðis og góðrar stjórnskipunar í landinu hafi veikst. Ég held að mikilvægt sé að leggja mat á þetta.

Jafnframt yrði varpað skýru ljósi á þróun valds og eignasamþjöppunar og hvaða áhrif meiri háttar ákvarðanir stórra valdablokka í fjármála- og atvinnulífi hafi haft og geti haft á atvinnulífið, á afkomu heimila og þjóðarbúið í heild. Í framhaldi af þessari rannsókn væri ástæða til að skoða hvort tilfærsla fjármagns og valds hafi leitt til verulegrar gliðnunar á eigna- og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og stuðlað að aukinni stéttaskiptingu, sem ég tel veigamikinn þátt í þeirri rannsókn.

Umræðan hér á landi hefur snúist um hvort löggjafarvaldið sé sífellt að veikjast á sama tíma og framkvæmdarvaldið styrkist. Þar er átt við framsal Alþingis á valdi í lögum og víðtækar reglugerðarheimildir framkvæmdarvaldinu til handa, auk þess sem löggjafarvaldinu sé gert stöðugt erfiðara að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu.

Þetta var ágætlega orðað í grein eftir Friðgeir Björnsson í Tímariti lögfræðinga árið 1999 þar sem m.a. er vikið að því að ekki sé fjarri lagi að segja að handhöfn bæði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sé hjá ríkisstjórn með forsætisráðherra í broddi fylkingar í flestu sem einhverju máli skiptir.

Þróunin hefur líka verið í þá átt að frumkvæði og undirbúningur laga sem Alþingi samþykkir er að mestu leyti í höndum framkvæmdarvaldsins. Sömuleiðis er það gagnrýnt að vald embættismanna sé orðið meira en eðlilegt er, eins og ég nefndi áðan, og vitnað er til þess að þeir útfæri iðulega stefnu stjórnvalda með því að þeir undirbúi þingmál, séu nefndum löggjafarþingsins til ráðgjafar um breytingar og endanlega gerð laga og séu síðan oft þeir aðilar í stjórnsýslunni sem hafi með höndum framkvæmd og eftirlit. Flestir viðurkenna að EES-samningurinn hefur haft mjög jákvæð áhrif í efnahags- og atvinnulífinu en engu að síður er ljóst að hann hefur átt sinn þátt í að veikja löggjafarvaldið en styrkt jafnframt embættis- og framkvæmdarvaldið.

Ágreiningur hefur einnig verið milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins um fjárhagslegt sjálfstæði Alþingis sem stofnunar auk þess sem það hlýtur að ganga í berhögg við þrískiptingu valdsins að það sé forsætisráðherra sem kallar saman Alþingi og slítur því. Staða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu er líka veikari en hún ætti að vera þar sem ekki er enn meirihlutavilji fyrir því að Alþingi t.d. komi á rannsóknarnefndum sem geti tekið mál og rannsakað að því er varðar framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varða. Slíkt fyrirkomulag þekkist víða erlendis og margsinnis hefur verið reynt að koma þeirri skipan á hér á landi.

Vissulega má benda á leiðir sem farnar hafa verið til að reyna að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég nefni þar bætta stöðu þingmanna við störf í fastanefndum Alþingis eftir að nefndasvið þingsins var styrkt verulega með því m.a. að auka þar mannafla og fá lögfræðinga til starfa. Ýmsar breytingar á þingsköpum voru líka til þess ætlaðar að styrkja stöðu þingsins. Árið 1991 var t.d. tekið upp í þingsköp að nefndir gætu fjallað um önnur mál en þau sem þingið vísar til þeirra en í reynd hefur þetta ákvæði litlu skilað, og ekki frekar en t.d. 39. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um rannsóknarvald þingnefnda. Þingið þarf að samþykkja að koma á fót rannsóknarnefndum skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Meiri hluti þings hefur nær undantekningarlaust á undanförnum þremur eða fjórum tugum ára stöðvað tillögur um að settar yrðu á fót slíkar rannsóknarnefndir enda er þeim oft ætlað að rannsaka gjörðir valdhafa sem þá starfa í skjóli meiri hluta þingsins.

Ástæða er einnig til að nefna grein sem fyrrverandi forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, ritar í Tímarit lögfræðinga í mars 1997 um samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Þar fjallar Ólafur um ýmislegt sem lýtur að stjórnsýslu þingsins og segir m.a. að tilhneigingar gæti hjá framkvæmdarvaldinu til að hafa bein afskipti af stofnunum Alþingis, þ.e. Ríkisendurskoðun, umboðsmanni Alþingis og Alþingi sjálfu, með flutningi stjórnarfrumvarpa. Ýmislegt annað sem er allrar athygli vert bendir Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi forseti Alþingis, á sem ég hef tíundað í greinargerð.

Ég nefni líka valdmörk dómstóla sem eru einn meginþáttur þessarar tillögu en í þessari rannsókn er lagt til að lagt sé mat á hvaða breytingar hafa orðið á valdmörkum dómstóla og löggjafarþings og litið verði til þess grundvallarágreinings sem uppi er um hvort og að hve miklu leyti dómstólarnir hafi tekið sér lagasetningarvald eða mótað nýjar lagareglur sem áhrif hafa á niðurstöðu í dómsmálum. Umræðan snýst m.a. um hvort dómstólar gæti ekki valdmarka sinna gagnvart öðrum greinum ríkisvaldsins en um leið þarf einnig að skoða hvort æskilegt er með tilliti til þrískiptingar valdsins að skipunarvald dómara sé í höndum ráðherra sem iðulega gengur gegn lögbundinni umsögn Hæstaréttar.

Með rannsókn sérfræðinga væri hægt að leggja mat á hvort slík tilfærsla hafi orðið á valdmörkum þeirra þriggja valdþátta sem stjórnskipunin byggir á, að stoðir lýðræðis og góðrar stjórnskipunar í landinu hafi veikst og gangi gegn eðlilegri lýðræðisþróun.

Síðan á rannsóknin ekki síst að skoða áhrif af tilfærslu valds og fjármagns í samfélaginu og þá erum við að líta til þeirra gífurlegu breytinga sem hafa orðið í atvinnu- og fjármálalífi á umliðnum árum með sívaxandi alþjóðavæðingu og fjármagnsflutningum milli landa sem má líkja við byltingu. Þetta teljum við að þurfi að skoða út frá þeim markmiðum sem sett eru í tillögugreininni.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Markmið þessarar tillögu tel ég að sé mjög mikilvægt, þ.e. að kanna áhrifin af þróun valds og mikilli tilfærslu eigna og fjármagns, hvaða áhrif það hefur haft í þjóðfélaginu og leggja mat á framhald slíkrar þróunar fyrir afkomu þjóðarbús, velferðarþjónustuna, heimili og atvinnulíf. Með því er hægt að mínu viti að varpa skýrara ljósi á þá þróun sem orðið hefur og tilfærslu á völdum og fjármagni og þá, virðulegi forseti, er betur hægt að meta áhrifin á lýðræðisþróun og samfélagið í heild sinni. Út frá þessari rannsókn væri síðan hægt að skoða hvort ástæða væri til að bregðast við með einhverjum hætti en meginmarkmiðið með tillögunni er að rannsókn fari fram á þróun valds og lýðræðis þannig að á raunhæfan hátt sé hægt að meta framhaldið.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. allsherjarnefndar.



[16:36]
Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni fyrir skilmerkilega framsöguræðu um afskaplega merkilegt mál, um rannsókn á þróun valds og lýðræðis, hvorki meira né minna. Ég hef nú aðeins átta mínútur til að fjalla um þetta yfirgripsmikla mál en ég vil taka undir þau meginsjónarmið sem fram koma með þessari þingsályktunartillögu, einfaldlega af þeirri ástæðu að lýðræðið og það vald sem í samfélaginu er, og við höfum skipað okkur í það form sem við köllum lýðræði, er líklega eitt af mikilvægustu hugtökum sem við fjöllum um hér, ég tala nú ekki um á þeim stað sem við stöndum á núna.

Umræðan um þetta getur að sjálfsögðu verið endalaus og hægt að nálgast efnið út frá ótal mörgum hliðum og sjónarhornum, eins og reyndar þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Ég hefði samt haldið, virðulegur forseti, að í anda þingsályktunartillögunnar hefði verið hyggilegra að leita eftir meðflutningsmönnum úr öllum flokkum. Þessi tillaga er einmitt af slíkum toga. Þetta er mál sem ég trúi ekki að sé nokkur pólitískur ágreiningur um, þ.e. að fara í faglega umfjöllun um þetta mikilsverða hugtak og um þróun valds og lýðræðis.

Í þessu sambandi þurfum við aðeins að velta upp hugtakinu lýðræði. Samkvæmt orðsins hljóðan merkir það að lýðurinn skuli ráða, þ.e. þátttaka fólksins, og við getum borið okkur saman við aðrar þjóðir, ég tala nú ekki um Bandaríkjamenn þar sem nýafstaðnar eru kosningar bæði til þings og forseta. Eins og kunnugt er er kosningaþátttaka þar afskaplega döpur, flókið kerfi og erfitt, meðan kosningaþátttaka hjá okkur hefur almennt verið góð sem bendir til þess að lýðræðinu sé þannig séð nokkuð vel skipað hér hjá okkur.

Við hljótum samt að spyrja: Er það svo? Þá kemur þessi spurning sem er mjög erfitt að svara: Af hverju kýs fólk og hvers vegna kýs fólk eins og það gerir?

Kosningaþátttaka er að mínu mati ein og sér ekki alveg nóg til þess að geta sagt að lýðræðið sé í höfn og að hér sé gott og virkt lýðræði. Fyrsta skrefið er að lýðurinn taki þátt í kosningabaráttunni og taki ekki síst virkan þátt í umræðunni samkvæmt þess orðs merkingu. Upphaflega gerir lýðræði ráð fyrir því að fólkið, lýðurinn sem á að ráða, taki upplýsta og meðvitaða afstöðu og ákvörðun um það með hvaða hætti eigi að kjósa og leggja sitt á vogarskálarnar með því.

Á hverju byggir síðan þessi upplýsing sem er grundvöllur að öflugu og lifandi lýðræðisríki? Hún byggir á því væntanlega að fólkið sé vel upplýst og til þess höfum við m.a. skipað í flokka sem koma upplýsingum á framfæri. Inn í þessa ágætu þingsályktunartillögu hefði ég talið að væri mikilvægt að draga áhrif fjölmiðla á þróun lýðræðis vegna þess að hið upplýsta lýðræði byggir á því að fólk sé vel upplýst. Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að umræðan hér á þingi einkennist e.t.v. ekki af hinni eiginlegu umræðu heldur meira svona eins og í fyrirsögnum. Hv. þingmenn tala í fyrirsögnum í þeirri von að fjölmiðlar festi þær. Það er ekki hin eiginlega umræða sem því miður fer allt of sjaldan fram í þingsölum. Umræðan og upplýsingin eru grundvöllur hins lifandi lýðræðis. Því hefði ég viljað beina til hv. framsögumanns hvort ekki væri við hæfi að bæta þeim þætti inn í tillöguna vegna þess að upplýsingadreifingin og hin eiginlega umræða er útgangspunkturinn í því að lýðræði geti orðið upplýst og virkt. (Gripið fram í: Þetta er í tillögugreininni.) Það vantar hins vegar, má segja, og ég minnist þess að í grein frá bandarískum fréttamannasamtökum var m.a. lýst áhyggjum yfir því að í bandarískum fjölmiðlum væri skemmtigildið farið að vera ráðandi, meira að segja í fréttaflutningi. Það tengist að sjálfsögðu hinni lýðræðislegu upplýsingu og upplýsingadreifingu en það eru þættir sem er mjög mikilvægt fyrir okkur, líka hér í heimspekilegri umræðu um lýðræði, að velta upp.

Fjölmiðlar eru oft nefndir fjórða valdið. Áhrif þeirra á störf þingsins og í samfélaginu eru mikil og þess vegna þarf að huga vel að þeim þætti.

Ég vil í annan stað nefna flokka. Þeir eru mikilvægir, þeir eru jú það form sem er ein af undirstöðum lýðræðis. Það vekur áhyggjur að umræða um hina pólitísku flokka er því miður allt of oft neikvæð. Við sjáum þróunina á Norðurlöndum þar sem virk þátttaka fólks í pólitískum flokkum fer minnkandi. Það má segja að hér sé sama tilhneiging og það er bara það samfélag sem við búum í og þar sem margt lifandi er að gerast. Það er margt sem togar í og fólk nennir ekki að verja tíma sínum í pólitískt skak. Þetta er umhugsunarefni og bendir til þess að lýðræðisríkið sé að veikjast hvað þetta varðar því að lýðræðið byggir jú á hinni virku þátttöku lýðsins.

Svo er hin eilífa umræða um fjármál flokkanna. Hún er á ákveðnum villigötum líka. Annars vegar heyrum við að þegar verið er að veita pólitísku flokkunum stuðning frá hinu opinbera hneykslast margir yfir því. Ég er ekki í þeirra hópi, ég tel eðlilegt að styrkja hina pólitísku flokka fjárhagslega vegna þess að þeir eru ákveðin undirstaða að lýðræðislegri umræðu hér. Þegar hins vegar fyrirtæki og einstaklingar styrkja flokka er það oft gert tortryggilegt. Auðvitað er ástæða til að bókhaldið sé opið og eðlilegt, eins og hér hefur verið fjallað um. Það er ákveðinn tvískinnungur í þessu. Það er gert neikvætt ef utanaðkomandi aðilar styrkja flokka og líka ef hið opinbera styrkir flokkana. Flokkarnir þurfa á fjármagni að halda til að starfa og einhvers staðar frá þarf þá það fjármagn að koma.

Hvað varðar þrískiptingu valdsins held ég að dómsvaldið sé í ágætum röðum hér en við þurfum að skoða hvernig. Framkvæmdarvaldið er mjög sterkt og hefur líklega verið alla tíð. Völd hafa verið að færast frá stjórnmálamönnum og út á markaðinn.

Ég sé að tími minn er að renna út þannig að eins og við var að búast næ ég ekki að ljúka máli mínu. Ég tel ástæðu til að skerpa á aðskilnaði, sérstaklega milli framkvæmdarvalds og löggjafarsamkomu, en ekki síst tel ég mikilvægt að leggja áherslu á að eiginleg umræða eigi sér stað, ekki síst upplýsingagjöfin þannig að fólk verði upplýst og meðvitað í pólitískri umræðu.



[16:44]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni kærlega fyrir þann góða skilning sem hann sýnir tillögu sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar hafa flutt hér.

Í ræðu sinni drap hv. þm. Hjálmar Árnason á fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka. Hann sagði að ekki ætti að gera það tortryggilegt þó að stjórnmálaflokkar fengju framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Það hefur hins vegar verið gert tortryggilegt og það er ákaflega auðvelt að gera það tortryggilegt.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þm. hvort hann geti tekið undir þá skoðun sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur tekið undir að fjárreiður stjórnmálaflokkanna og uppgjör eigi að fara til skoðunar og athugunar hjá Ríkisendurskoðun sem skilar þá skilagrein sinni til stjórnmálaflokkanna, eftir atvikum til forseta þingsins, með þeim athugasemdum sem þar kunna að vera. Ég tel að Ríkisendurskoðun gæti með þessu móti orðið eins konar varðgæslumaður lýðræðisins í þessum efnum. Það er ekki óeðlilegt að leita til hennar með þetta vegna þess að stjórnmálaflokkarnir fá jú obbann af því fjármagni sem þeir nota til þess að reka sig fyrir frá ríkinu. Þess vegna er þetta nokkuð rökrétt og skynsamleg hugmynd.

Hæstv. viðskiptaráðherra hefur nýlega tekið undir að svona gæti þetta verið og henni félli við þessa hugmynd. Mig langar að spyrja hvort hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, sé á svipaðri skoðun.



[16:46]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Milli mín og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er sjaldan mikill ágreiningur og ég tel þetta alls ekki slæma leið. Aðalatriðið er að eyða þeirri tortryggni sem ég tel að hafi að mörgu leyti verið sköpuð í umræðum hér á Alþingi þar sem stundum hafa komið fram eins konar dylgjur — þá á ég við stjórnarandstöðuflokka allra tíma — í garð hinna flokkanna og vegna slíkra dylgna hafi þessi tortryggni orðið nokkuð lifandi í samfélaginu. Við vitum að líklega hafa flest stærstu fyrirtækin styrkt alla pólitísku flokkana.

Þessi umræða hefur líka, eins og ég nefndi áðan, stundum verið gerð tortryggileg þegar hið opinbera hefur veitt fjármuni til flokkanna. Og það er ekkert óeðlilegt þegar umræðan verður á þann hátt hér inni á þingi að þá taki sjónarmið fólks sem fylgist með þeirri umræðu nokkuð mið af því.

Það er eðlilegt að reyna að eyða þessari tortryggni og ég ítreka þá skoðun mína að það er mjög mikilvægt að hinir pólitísku flokkar fái fjárstuðning, bæði frá stuðningsmönnum sínum og fyrirtækjum sem vilja styðja þá. En það þarf þá að vera þannig að slíkt sé hafið yfir allar grunsemdir eða að við þurfum að haga tali okkar eins og stundum gerist hér. Ríkisendurskoðun getur verið prýðileg leið sem öryggisventill í þessu viðmiði.

Það hefur verið talað um að sumir flokkar, eins og ég hygg flokkur hv. formanns Samfylkingarinnar sem beindi til mín fyrirspurn áðan, gefi ekki upp gefendur sem eru yfir einhverri tiltekinni upphæð. En við vitum að það er mjög auðvelt að fara í kringum þetta, t.d. með því að lækka upphæðir. Þetta er á engan hátt einfalt mál.



[16:48]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er ég alveg viss um að það sé rétt hjá hv. þm. að það séu einkum stjórnarandstöðuflokkar hverju sinni sem tortryggi fjárframlög til stjórnmálaflokka og þá á hv. þm. væntanlega við stjórnarflokka. Ég held hins vegar að það sé eðlileg tortryggni sem alltaf er til staðar í upplýstu og opnu samfélagi gagnvart flokkum sem vitað er að þiggja framlög frá fyrirtækjum og svo er um alla flokka á Alþingi Íslendinga. Það er fullkomlega eðlilegt að almenningur setji fram kröfu um að hann geti gengið úr skugga um hvort fjárframlög hafi einhver áhrif á afstöðu stjórnmálaflokka eða einstakra stjórnmálamanna.

Ég tel þannig, frú forseti, að ekki sé bara nauðsynlegt að setja skýrar reglur um fjárframlög til stjórnmálaflokka heldur ekki síður til stjórnmálamanna. Við skulum ekki gleyma því að eins og kerfinu er háttað í pólitík þurfa stjórnmálamenn oft að ganga í gegnum mjög erfið og kostnaðarsöm prófkjör. Hvaðan fá þeir peninga til þess að kosta milljóna baráttu? Væntanlega frá fyrirtækjum og þannig hefur það verið. Sumir hafa rekið óheyrilega dýra kosningabaráttu. Mér finnst það sanngjörn og eðlileg krafa að það liggi ljóst fyrir hvar menn fá peninga til þess. Þetta á að gilda bæði um stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka.

Það er rétt sem hv. þm. sagði, það á að vera hægt fyrir einstaklinga að styrkja stjórnmálaflokka þannig að slíkt sé hafið yfir alla tortryggni og ég er ánægður með að hv. þm. segir: Öryggisventillinn, sem á að gæta hagsmuna almennings í þessu tilliti, gæti sem best verið Ríkisendurskoðun. Mér finnst það mikilvægt að í þessari umræðu skulum við tveir, hæstv. viðskiptaráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hefur vakið máls á þessu, öll vera sammála um þetta. Það veit á gott í þessu máli.



[16:51]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Aðalatriðið er, virðulegur forseti, að stjórnmálaflokkar eru nauðsynlegir lýðræðisins vegna. Til þess að stjórnmálaflokkar geti starfað af krafti og öfluglega í þágu lýðræðis þurfa þeir á fjármagni að halda. Það má taka undir það sem forsvarsmenn sumra fyrirtækja hafa sagt opinberlega að þeir líti á það sem lýðræðislega skyldu sína að láta fé af hendi til stjórnmálaflokkanna, og þá til allra stjórnmálaflokka.

Það sama á við um einstaklinga sem vilja styðja þá og sama hugsun er að baki þess þegar Alþingi ákveður framlög til stjórnmálaflokkanna. Þetta er í þágu lýðræðis vegna þess að stjórnmálaflokkarnir eru ákveðinn grundvöllur lýðræðisins.

Við þurfum hins vegar að lyfta þessu yfir tortryggni og það mætti fara þá leið að Ríkisendurskoðun setti einhverjar reglur. Ugglaust væru einhverjir sem mundu sniðganga slíkar reglur, eins og Íslendingar eru frægir fyrir. En einhver viðmið þarf að hafa og ég ítreka að mér hugnast ágætlega sú hugmynd að nýta Ríkisendurskoðun sem slíkan öryggisventil.

Það er rétt sem hv. þm. nefndi að þetta nær ekki einungis til stjórnmálaflokka heldur einnig til þeirra rándýru prófkjöra sem voru haldin í aðdraganda síðustu kosninga. Það er vitað að einstaklingar þurfa að kosta milljónum króna til að tryggja sér öruggt sæti á lista og þá hafa menn einmitt verið að velta upp þessari spurningu: Eru einstakir þingmenn að láta kaupa sig? Ég trúi ekki að svo sé hjá neinum þeirra sem nú eru inni á þingi en það er ástæða til að líta einnig á þennan þátt. Hver er staða þingmanns sem í prófkjörsbaráttu sinni hefur hugsanlega þegið milljónir frá fyrirtæki, hver er staða viðkomandi þingmanns siðferðilega gagnvart slíku fyrirtæki þegar á hólminn kemur? Þetta eru mál sem okkur ber að fara yfir.



[16:53]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það eru góð tíðindi að hv. þm. Hjálmar Árnason hvetji stjórnmálaflokkana til þess að opna bókhald sitt. Við í Frjálslynda flokknum höfum opið og endurskoðað bókhald sem má sjá á heimasíðu flokksins.

Sú leynd sem hvílir yfir bókhaldi flokkanna er ávísun á spillingu og hér í þinginu hafa ekki eingöngu stjórnarandstöðuflokkar bent á það heldur einnig prófessorar í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Í þætti nýlega benti t.d. Svanur Kristjánsson á að Essó hafi dælt peningum ríflega í Framsóknarflokkinn, hann hafi verið á föstum fjárframlögum.

Það kom einnig fram í ágætu blaði fyrr í vor að Framsóknarflokkurinn hafi verið í fastri áskrift hjá Baugi. Þetta er ástand sem er ekki líðandi, og það er gott ef framsóknarmenn eru farnir að sjá að sér og vilja bæta úr þessu. Það á ekki að bjóða íslenskum kjósendum upp á að þurfa að kjósa flokka sem eru styrktir með leynilegum fjárframlögum. Þetta er kerfi sem hvergi líðst í Evrópu, þó með einni undantekningu held ég. Við höfum fengið tilmæli frá Evrópuráðinu um að þessu þurfi að breyta og það er gott ef framsóknarmenn eru farnir að sjá að sér í þessum efnum.



[16:54]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér hefur farið fram uppbyggileg umræða en ég tel að hv. þm. hafi komið með örlítinn stílbrjót í hana. Við erum að ræða fræðilega um þessa úttekt, það er tilgangurinn með þingsályktunartillögunni, þess vegna kýs ég að svara ekki þeim fáránlegu ásökunum sem þingmaðurinn kom með og enginn fótur er fyrir. Það hefur komið fram í umræðunni, bæði hjá hv. framsögumanni og einnig reyndi ég að draga það fram, að þetta er sú regla sem hefur verið við lýði hjá öllum pólitískum flokkum en nýburinn, Frjálslyndi flokkurinn, hefur kosið að birta bókhald sitt og það er vel. Þessa dagana eru hinir pólitísku flokkar og eldri flokkar einmitt að fjalla um þetta og ég tel að sú þingsályktun sem hér er flutt sé innlegg í þá umræðu. Við eigum að ræða hvernig við viljum sjá málin skipast í framtíðinni en ekki vera að velta upp einhverri vitleysu eins og hv. þm. gerði sig sekan um.



[16:56]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason talar um fáránlegan málflutning og segir að þetta eigi ekki við rök að styðjast. En þetta er nú ekki fáránlegra en svo að prófessor við Háskóla Íslands hefur nýlega haldið þessu fram. Þetta er til umræðu í þjóðfélaginu núna og er eitt af því sem framsóknarmenn verða að horfast í augu við. Ég hélt að hv. þm. hefði séð að sér, að þetta væri eitthvað sem þyrfti að breyta. Fjárframlög flokkanna þurfa að vera uppi á borðinu og þetta gerir alla umræðuna ómerkilega.

Ég skil vel að hann vilji ekki svara þessu efnislega heldur snúa út úr og tala um fáránlegan málflutning. En þetta er málflutningur sem prófessor í Háskóla Íslands heldur fram og menn verða að horfast í augu við það. Að stjórnmálaflokkar leyni hverjir leggi fram fé í kosningasjóði þeirra er ástand sem líðst hvergi annars staðar í Evrópu.

Auðvitað á þetta ekki að líðast og þetta er ekki einhver heimspekileg umræða, við erum að tala um Ísland í dag. Að leyna því hverjir greiði í kosningasjóði Framsóknarflokksins er í rauninni eitthvað sem menn eiga ekki að sætta sig við og um það eigum við að sameinast.

Ég taldi að ábending mín félli í góðan jarðveg hjá hv. þm. en svo er ekki að heyra. En ég vona að hann komi hér í annað andsvar og taki ábendingunni betur, ræði þetta með málefnalegri hætti og horfist í augu við að þannig er umræðan í þjóðfélaginu og meira að segja í Háskóla Íslands.



[16:58]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Prófessor í Háskóla Íslands sagði það, þar með er það rétt.

Ég hef mikla trú á menntuðu fólki en það kemur fyrir að menntað fólk hafi rangt fyrir sér og ég hygg að hv. þm. geri sér grein fyrir því. Jafnvel prófessorum í háskólanum getur orðið á í messunni og ég tel að umræddur prófessor, sem hv. þm. vísar til, hafi farið með staðlausa stafi og það er mjög auðvelt að færa rök fyrir því (Gripið fram í: Opna bókhaldið.) bara með því að bera saman annars vegar fullyrðingu hans og hins vegar yfirlýsingu frá fulltrúum olíufélaganna að undanförnu (Gripið fram í: Er ekki rétt að opna bókhaldið?) og bera það saman.

Hv. þm. fékk sínar tvær mínútur og nú væri ráð að hann þegði á meðan ég klára þetta.

Ég vil svo segja að ég skildi ekki alveg ræðu hv. þm. í umræðunni. Hér liggur fyrir þingsályktun um að fara efnislega í þróun valds og lýðræðis á Íslandi, þar á meðal að skoða bókhald flokka, allra flokka. En hv. þm. festir sig mjög gjarnan við Framsóknarflokkinn í þessari umræðu, eins og oft áður einhverra hluta vegna, og það ber að fagna áhuga hv. þm. á Framsóknarflokknum. En hér er verið að ræða ástand, eins og er margbúið að koma fram og hv. þm. virðist ekki skilja, þetta er sú vinnuregla sem hefur verið hjá öllum flokkum og fram hefur komið vilji hjá þeim öllum til þess að finna lausn þannig að það verði opnað.

Ef hv. þm. ætlar að taka þátt í almennri umræðu þá á hann ekki að tala með þeim hætti sem hann hefur gert hér. Það er ekki til þess að bæta umræðuna en ég vona að umræðan haldi samt áfram á málefnalegri nótum en í innskoti hv. þm.



[17:00]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera athyglisvert að hlýða á þær umræður sem skapast hafa hér um tillögu til þingsályktunar um rannsókn og þróun valds og lýðræðis. Mikið er undir. Þetta er, eins og fram kom í máli þeirra sem hér hafa talað, merkileg tillaga til þingsályktunar. Það er mjög mikilvægt að rekja áhrif þeirrar miklu og öru þróunar sem hefur átt sér stað á síðustu 10–15 árum í valdahlutföllum í samfélaginu og í lýðræðislegri uppbyggingu þess. Margt hefur gjörbreyst. EES-samningurinn á sínum tíma breytti miklu. Það má færa rök fyrir því að um leið og hann hafði mjög mikinn efnahagslegan ábata fyrir samfélagið og margvíslegan annan eins og með löggjöf um samkeppnismál og fleira hafi hann einnig og um leið veikt löggjafarvaldið verulega. Margt annað hefur að mínu mati orðið til þess, virðulegi forseti, að veikja löggjafarvaldið á Íslandi á síðustu árum. Við höfum öll skynjað þá þungu umræðu sem er í samfélaginu um að löggjafarvaldið sé undirselt sterku framkvæmdarvaldi, að foringjaræði stjórnarflokkanna sé algjört og svo mætti lengi telja.

Ekkert af þessu er úr lausu lofti gripið og margt af þessu er rétt. Sterkir foringjar í stjórnmálaflokkunum sem hafa beitt valdi sínu nokkuð miskunnarlaust til að brjóta flokka sína undir sig og sinn pólitíska vilja hafa orðið til þess að Alþingi Íslendinga virkar oft og tíðum eins og stimpilstofnun fyrir löggjöf sem kemur beint frá framkvæmdarvaldinu. Frumkvæði löggjafarvaldsins í smíði löggjafar og tilurð er allt of lítið.

Margt mætti annað nefna, t.d. einkavæðinguna sem hefur einnig fært mikil völd frá stjórnmálamönnum til markaðarins og er í sjálfu sér mjög jákvæð þróun að mörgu leyti. Hins vegar er einnig auðvelt að færa rök fyrir því að sú valdatilfærsla, frá kjörnum fulltrúum samfélagsins yfir til viðskiptalífsins, hafi ekki leitt af sér þá valddreifingu sem við viljum sjá og við krefjumst, við flutningsmenn þessarar tillögu sem og flestir sem taka þátt í stjórnmálum á Íslandi. Markmiðið er að dreifa valdi milli löggjafarvalds, sveitarstjórnarstigsins, hins frjálsa markaðar o.s.frv. Þróunin á markaði hefur að mörgu leyti verið nokkuð háskaleg. Eignasamþjöppunin hefur orðið mikil og því er það dreifræði ekki til staðar sem við teljum að eigi að vera til staðar.

Þetta er þróunin sem menn fundu út í Danmörku að hefði átt sér stað síðustu árin. Í þessari mjög svo vönduðu og ítarlegu greinargerð með tillögunni eru raktar helstu niðurstöður úr sambærilegum niðurstöðum á þróun valds og lýðræðis sem gerðar hafa verið í grannlöndum okkar, Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Eru þær niðurstöður merkilegar og varpa ljósi á hve ör þróunin hefur verið þótt hún hafi að mörgu leyti verið með öðrum hætti þar. Eins og allir vita er Danmörk aðili að Evrópusambandinu og býr þar af leiðandi ekki við þann gríðarlega lýðræðishalla sem má færa rök fyrir að við búum við út af EES-samningnum og er ein af ástæðum þess að Íslendingar ættu nú að huga að því að sækjast eftir fullri aðild að því ágæta sambandi. Margt annað kemur fram í þessari greinargerð um ástand mála annars staðar á Norðurlöndunum.

Þróunin er eins og ég segi um margt háskaleg. Völd löggjafarvaldsins, Alþingis, hafa að mínu mati minnkað. Við þurfum að ná utan um þessa þróun. Við þurfum að vita það. Við þurfum að hafa á borðinu fyrir framan okkur raunhæft mat á þróun valds og lýðræðis þannig að umræðan sem við erum að taka bæði hér á hinu háa Alþingi og í samfélaginu sé byggð á sterkum rökum, ítarlegum rannsóknum og greinargóðu mati á stöðunni í samfélaginu. Það er auðvelt að halda því fram, bæði úr þessum ræðustól og annars staðar þar sem pólitísk umræða á sér stað, að þróunin hafi verið býsna háskaleg á mörgum sviðum og að vald löggjafans sé allt of lítið, allt of veikt og hafi veikst þannig að fulltrúalýðræðið þjóni ekki með fullnægjandi hætti hlutverki sínu, spegli ekki valdahlutföllin í samfélaginu, völd stjórnmálamanna eða Alþingis séu að mörgu leyti orðin of lítil á kostnað hins gífurlega yfirgangssama framkvæmdarvalds annars vegar og hins vegar út af þróun á markaði.

Mig langaði að skjóta því einnig að vegna orða hv. þm. Hjálmars Árnasonar áðan um stöðu fjölmiðlanna að þeir eru ríkur þáttur í þessari þingsályktunartillögu, eins og sagt er hér, með leyfi forseta:

„Jafnframt er lagt til að metið sé vald fjölmiðla og áhrif þeirra á samfélagsþróunina, en í sambærilegri rannsókn sem unnin hefur verið í þremur öðrum norrænum ríkjum var þessi þáttur einnig hluti viðfangsefnisins.“

Það er mjög skýrt tekið fram að slík úttekt á þróun valds og lýðræðis verði að innihalda úttekt á þróuninni á sviði fjölmiðlunar.

Það er athyglisverð setning einhvers staðar í tillögunni um það hvernig þáttur stjórnmálaflokkanna hefur breyst og veikst í raun og veru í samfélaginu og að fjölmiðlarnir hafi nú það hlutverk með höndum að vera hinn beini milliliður á stjórnmálamannanna og fólksins í landinu, þess sem hlustar á fjölmiðlana. Fólkið tekur sem sagt í minna mæli þátt í stjórnmálabaráttunni þó að sú þróun hafi alls ekki verið eins dramatísk á Íslandi og t.d. í Danmörku, þar sem þátttaka í stjórnmálaflokkunum hefur bókstaflega hrunið úr því að vera yfir 200 þúsund meðlimir niður í að vera örfáir tugir þúsunda. Ég held að sú þróun hafi ekki átt sér stað hér en alvöruþátttaka í starfi flokkanna er ekki nándar nærri eins og var í gamla daga.

Að lokum, af því að tími minn er að renna út, þá þarf að mínu mati að grípa til aðgerða sem væri best að gera á forsendum slíkrar úttektar á þróun valds og lýðræðis til að skerpa skilin á milli löggjafa, dómsvalds og framkvæmdarvalds verulega. Það þarf að skerpa skilin og taka þá umræðu alveg upp á nýtt. Til þess eru nokkrar róttækar leiðir, t.d. að ráðherrar gegni ekki þingmennsku — sem ég er ekki alveg sannfærður um en má vel skoða. Svo má kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, forsætisráðherra sem síðan velur sér ríkisstjórn eftir vissum reglum og leiðum sem aftur á móti Alþingi gæti haft eitthvað um að segja, þ.e. hverjir tækju þar sæti. Ég held að við eigum að skoða þá leið mjög vandlega núna í allri umræðu um stjórnarskrárbreytingar og þróun valds og lýðræðis að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu.

Vilmundur Gylfason og Gylfi Þ. Gíslason, fyrrum þingmenn og ráðherrar, skildu eftir sig ítarleg plögg um þetta sem við, sumir þingmenn Samfylkingarinnar, notum nú til grundvallar tillögugerð um beina kosningu framkvæmdarvaldsins.



[17:08]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari framkomnu þingsályktunartillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingar leggja fram um að rannsaka skuli þróun valds og lýðræðis hér á landi.

Í þessari vönduðu þingsályktunartillögu ásamt góðri greinargerð kemur margt fróðlegt fram sem ég hvet fólk til að renna yfir og glöggva sig á. Eitt af þeim atriðum er þrískipting ríkisvaldsins sem er að sjálfsögðu grundvöllur stjórnskipunar- og ríkisvalds okkar, bæði sem óskráð meginregla og sömuleiðis með beinum hætti í stjórnarskránni.

Eitt hefur komið mér á óvart sem nýjum þingmanni, búinn að vera á þingi í rúmlega eitt ár, og það er hvernig þessi þrískipting ríkisvalds er virt á hinu háa Alþingi. Svo virðist sem framkvæmdarvaldið hafi mun meiri völd en stjórnarskrárgjafarnir höfðu í huga þar sem löggjafarvaldið átti skýrt að liggja hjá Alþingi ásamt fjárveitingavaldinu. Hér má nefna í framhjáhlaupi notkun löggjafarvaldsins á hinum svokölluðu fjáraukalögum.

Það er annað sem hefur komið mér á óvart, hið mikla reglugerðarvald sem ráðherrar virðast hafa í samfélagi okkar. Nú er til umræðu í hv. allsherjarnefnd frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um skerðingu á rétti til gjafsóknar. Í þeirri umfjöllun fengum við að sjá drög að reglugerð sem átti að fylgja með þessari lagabreytingu sem er að einhverju leyti byggð á núverandi reglugerð hvað þetta varðar en þar kemur í ljós að nánast allar efnislegar takmarkanir hvað varðar gjafsókn í þessu tilviki er að finna í sjálfri reglugerðinni en ekki í lögunum. Í reglugerðinni koma fram þessar takmarkanir á gjafsókn. Þar er tekið fram tekjuviðmiðið og þar er beinlínis tekinn út einn flokkur mála sem er ekki gjaldgengur til að fá gjafsókn, þar eru t.d. meiðyrðamálin, en slíka takmörkun er ekki að finna í sjálfu frumvarpinu. Þess vegna fær þessi efnislegi þáttur enga þinglega meðferð. Þetta er nokkuð sem við sjáum víða.

Við sjáum einnig hvernig þetta þing starfar varðandi venjuleg þingmál hv. þingmanna. Hér virðist vera lenska að þingmál óbreyttra hv. þingmanna endi yfirleitt í nefnd og sofni þar. Í raun fá þá viðkomandi mál ekki þinglega meðferð.

Þetta er nokkuð sem kom mér mjög á óvart þegar ég settist nýr á þing. Ég vil rifja upp það sem umboðsmaður Alþingis sagði fyrir skemmstu um að þetta væri ekki góð þróun og gæti verið ein af skýringunum á því af hverju við búum við þetta fyrirspurnaflóð frá þingmönnum eins og margir hafa bent á. Það gæti verið vegna þess að hv. þingmenn sjá ekki aðra leið til að fá þinglega meðferð fyrir hugðarefni sín eða baráttumál en með fyrirspurnum. Í fyrirspurnatíma er tryggt að ráðherrann þurfi að svara þeim. Eins og fólk sér sem fylgist með eða les er enginn ráðherra viðstaddur þessa umræðu.

Við sjáum einnig að vald embættismanna í kerfi okkar er gríðarlegt. Ég hef orðið vitni að því sem nýr þingmaður að þingmenn stjórnarmeirihlutans vilja bera ákveðnar hugmyndir undir embættismannakerfið og eru mjög varfærnir í að breyta einhverju sem kemur frá ráðuneytinu. Sá er bara raunveruleikinn að flest þau lagafrumvörp sem eru samþykkt á hinu háa Alþingi eru frumvörp sem embættismenn semja nánast frá A til Ö. Ég held að það væri skynsamlegt að þetta væri að einhverju leyti öfugt, að frumkvæðið og efnislegar hugmyndir kæmu frá þingmönnunum sem hafa löggjafarvaldið og svo færu embættismennirnir yfir þær og mætu hvort allt stæðist og væri í lagi. Þetta er algjörlega öfugt eins og menn sjá þegar þeir kynnast þessum heimi.

Mig langar líka til að koma inn á annan þátt sem kom mér einnig á óvart sem nýjum þingmanni, áhrif þrýstihópa eða svokallaðra lobbíhópa. Lobbíismi eða þrýstingur á kjörna fulltrúa er miklu meiri en mig grunaði. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vera á varðbergi gagnvart. Þrýstihópar eiga að sjálfsögðu alveg rétt á sér og hagsmunahópar eiga rétt á að koma upplýsingum til kjörinna fulltrúa en þetta er eitthvað sem hefur verið að vaxa hafa menn bent á. Þetta er eitthvað sem við þurfum að passa okkur á. Við sjáum að ákveðin öflug félagasamtök og fyrirtæki hafa beinlínis launaða starfsmenn til að sjá um slíka hluti. Ein afleiðingin af þessu er að aðrir hópar sem hafa ekki tök á að hafa þessa launuðu starfsmenn, eða stunda öflugan lobbíisma, geta orðið út undan. Gott dæmi er ákveðnir hópar sjúklinga, jafnvel ákveðnar menntastofnanir sem hafa ekki tök á þessu eða vilja. Þetta er eitthvað sem við þurfum einnig að gæta okkar á þegar umræðan er um hvernig þróun valds og lýðræðis er hér á landi.

Ég held að skynsamlegt væri að Alþingi samþykkti þessa þingsályktunartillögu. Þessi rannsókn yrði afar gott yfirlit. Þetta er auðvitað viðamikið verk, enda gera flutningsmenn ráð fyrir rúmum tíma. Rannsókninni á að ljúka eigi síðar en 2008. Ég held að enginn mundi svo sem tapa á þessari skýrslu fyrir utan kostnaðinn við gerð hennar og þessar upplýsingar gætu leitt margt fróðlegt í ljós.

Í greinargerðinni er einnig komið inn á það hvernig vald hefur færst til hér á landi. Á sumum sviðum hefur vald stjórnmálamanna verið að minnka, svo sem á samkeppnismarkaði. Það má kannski minnast sérstaklega í því tilliti á fjármálamarkaðinn. Það er jákvætt. Stjórnmálamenn eiga ekki að vasast í fjármálamarkaðnum. Það á að vera liðin tíð að við séum að skipa hér uppgjafarstjórnmálamenn í bankastjórnir bankanna eða í Seðlabankann. Við eigum að sýna miklu meiri fagmennsku hvað þetta varðar en enn þann dag í dag erum við að sjá pólitískar skipanir á einstaklingum sem tengjast flokkunum með beinum hætti, t.d. í Seðlabankann. Síðasta skipun seðlabankastjóra bar ákveðinn keim af því.

Við eigum að leggja okkur fram um að reyna að minnka vald stjórnmálamanna þegar kemur að samkeppnismarkaðnum. Annar vinkill á þessu sem ég vil nefna er hvernig umhverfi okkar í landbúnaðinum er háttað. Landbúnaðinum er miðstýrt frá A til Ö og ítök stjórnmálamanna eru þar mikil. Þetta er eitt af þeim sviðum sem við eigum að ræða og reyna að losa úr viðjum stjórnmálamanna og miðstýringar en stjórnarmeirihlutinn hefur ekki viljað ljá máls á því. Síðasta vor voru fjörugar umræður hvað þetta varðar og hér kom hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum og varði það úrelta kerfi sem þar er að finna. En þetta er auðvitað angi af þeim sama meiði að við eigum að takmarka vald stjórnmálamanna á samkeppnismarkaði og ég tel að landbúnaðurinn sé slíkur markaður.

Tími minn er að klárast. Þetta er afskaplega jákvæð þingsályktunartillaga og greinargerðin er mjög viðamikið og gott plagg. Ég sé ekki ástæðu fyrir því að við ættum ekki að samþykkja hana. Ég tek undir það sem hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknar, talaði um. En hann talaði um tillöguna á jákvæðum nótum. Ég sé því enga fyrirstöðu fyrir því að við hér á þingi samþykkjum hana, bara helst fyrir jól.



[17:16]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það má segja að sú þingsályktunartillaga sem hér er flutt lúti í raun að því að finna svar við spurningunni: Hvar liggur valdið í íslensku samfélagi?

Til skamms tíma held ég að menn hafi verið sammála um að valdamiðjan í samfélaginu lægi á hinu háa Alþingi. Á síðasta áratug hafa orðið verulegar breytingar á samfélaginu sem hafa leitt til þess að valdið liggur ekki á hinu háa Alþingi í jafnríkum mæli og áður. Það hefur flust til stofnana framkvæmdarvaldsins en það hefur líka flust út á markaðinn. Markaðurinn hefur með auknu frelsi sótt sér eða sogað til sín vald sem áður var hér. Fjármálalegar og efnahagslegar ákvarðanir sem áður voru teknar í skjóli löggjafarvaldsins af handhöfum framkvæmdarvaldsins og vörðuðu mikilvæga þætti eins og vaxtamál og þau kjör sem íslensk alþýða og íslensk fyrirtæki bjuggu við, er núna með vissum hætti ráðið til lykta af lögmálum sem virka á hinum frjálsa markaði. Ég er síður en svo að halda því fram að það sé slæmt. Hins vegar skýtur það stoðum undir þá staðhæfingu hv. flutningsmanns Jóhönnu Sigurðardóttur að valdið sem áður var hér sé komið út til efnahagslegra blokka og að rannsaka þurfi með hvaða hætti það vald er notað og sömuleiðis, sem er önnur þungamiðja þessarar tillögu, að rannsaka tengsl hins pólitíska og efnahagslega valds.

Ég vil líka segja að þegar ég tala um að valdið hafi færst frá Alþingi á síðasta áratug þá er ég ekki síst að horfa til þeirrar þróunar sem ég hef séð gerast fyrir framan við mig og í kringum mig, bæði sem alþingismaður og ráðherra. Hún felst í því að eftir því sem hlutverk ríkisvaldsins verður flóknara, stofnanir þess burðugri og viðameiri og verkefni ríkisvaldsins stærri að vöxtum, er erfiðara um vik fyrir Alþingi að vasast í ákvörðunum sem áður voru stórar en eru ekki lengur stórar vegna þess hversu umfang verkefna er orðið mikið. Þetta hefur leitt til þess að valdið hefur með lögum verið flutt yfir til ráðuneyta, yfir til embættismannakerfis. Í vaxandi mæli er verið að veita stofnunum, þ.e. ráðuneytum framkvæmdarvaldsins, heimildir til þess að ráða til lykta mjög mikilvægum málum sem varða hag og heill allrar þjóðarinnar, alls samfélagsins, með reglugerðum.

Hverjir setja þær reglugerðir? Það er í vaxandi mæli hinn nafnlausi skari embættismanna sem stöðugt vex og þeim er stöðugt að fjölga. Þeir eru að verða ákaflega valdamikið afl í samfélaginu. Það eru sérfræðingar sem búa til reglugerðir sem aldrei koma í reynd til kasta Alþingis í sama mæli og lög, sem tóku jafnvel á ýmsum smáum tönnum í gangverki samfélagsins, gerðu áður. Þetta gerir það að verkum að það er ákaflega erfitt oft og tíðum fyrir löggjafann að veita það aðhald gagnvart framkvæmdarvaldinu sem þó er mælt fyrir um í stjórnarskránni. Þetta er einn angi af því valdaafsali sem hefur með sjálfviljugum hætti átt sér stað af hálfu Alþingis. Það er erfitt að snúa þessu við en ég held að þetta sé óheillavænlegt. Ég held að það sé ákaflega erfitt að snúa þessari þróun við vegna þess að þetta er partur af því sem gerist þegar þjóðfélagið verður flóknara og tæknivæddara og verkefnin stærri sem framkvæmdarvaldið þarf að ráða fram úr fyrir þegnana.

Önnur þróun hefur líka átt sér stað sem er ekki sjálfviljug af hálfu þingsins. Hún felst í því að framkvæmdarvaldið hefur orðið æ langtækara og stórtækara þegar það hefur verið að seilast eftir völdum. Við búum við dálítið sérstakt kerfi á Íslandi þar sem situr tveggja flokka ríkisstjórn sem hefur núna bráðum setið í hartnær áratug. Þessi ríkisstjórn hefur haft mjög sterkan þingmeirihluta, sterkan í þeirri merkingu að hún hefur haft mikið afl á Alþingi og ekki hikað við að neyta aflsmunar gagnvart stjórnarandstöðunni. Í vaxandi mæli hefur þetta leitt til þess að þingið og þingmenn stjórnarliðsins hafa staðið frammi fyrir ákvörðunum sem búið er að taka í sölum valdsins í ráðuneytunum. Það er enginn sem getur staðið upp og skekið sig framan í valdið og brotið af sér ok þess. Í vaxandi mæli sjáum við jafnvel að hugdettur og dyntir einstakra sterkra valdamanna leiða til þess að til verða frumvörp til laga sem varða grundvallarþætti í samfélaginu og þau eru lögð fram á hinu háa Alþingi. Jafnvel þó að í ljós komi að fáir, mér liggur við að segja enginn eins og í tilviki fjölmiðlafrumvarpsins sem kom fram á síðastliðnu vori, finni til einhverrar sérstakrar löngunar til þess að styðja slík mál eru þau eigi að síður keyrð hér fram í krafti offors og valdbeitingar.

Ég hef orðað það svo að þetta sé partur af því sem megi kalla ráðherraræði á Íslandi. Fjölmiðlalögin voru dæmi um það. Það var einn ráðherra, þáverandi forsætisráðherra, sem tók þá ákvörðun að það væri nauðsynlegt að stemma stigu við ákveðinni þróun í samfélaginu með þessum lögum. Það var nánast enginn annar í sölum Alþingis sem var honum sammála. En málið fór í gegn, vegna þess að hér ræður ríkjum það sem hefur jafnvel stundum á heldur ófegurra máli verið kallað „rassvasalýðræði“. Rassvasalýðræði má skýra þannig að það er einn ráðherra sem ræður öllu í ríkisstjórn. Þannig hefur það verið í töluvert mörg ár, til skamms tíma a.m.k. Þessi ráðherra hefur getað í gegnum ægivald sitt í ríkisstjórninni komið fram því sem hann vill og ríkisstjórnin síðan sem fulltrúi hans gagnvart stjórnarflokkunum hefur í reynd sett þá frammi fyrir ákvörðunum sem stjórnarflokkarnir hafa ekki getað breytt. Þar með hefur þingmeirihluti verið fyrir ákvörðunum sem jafnvel hafa ekki verið ræddar í þingflokkum stjórnarliðsins.

Annað dæmi um þetta, og ívið verra jafnvel en fjölmiðlamálið, er auðvitað Írak og afstaða okkar til Íraks. Þar var rassvasalýðræðið í sinni allra nöktustu og ljótustu mynd. Þar var það einn ráðherra sem tók ákvörðun og fékk annan ráðherra, formann hins stjórnarflokksins, til liðsinnis. Saman bundu þeir heila þjóð til stuðnings við innrás í Írak án þess að nokkur fengi að koma að ákvörðuninni. Ekki þingflokkar stjórnarinnar, ekki þingflokkar stjórnarandstöðunnar, ekki Alþingi, ekki utanríkismálanefnd, ekki þjóðin, enginn.

Þetta eru dæmi um það hvernig Alþingi í reynd lætur sér lynda valdaafsal til framkvæmdarvaldsins í þeim mæli að ekki er lengur hægt að sitja þegjandi hjá. Slíkri þróun verður að snúa við. Þessi tillaga er fyrsta skrefið til þess.



[17:24]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög merka tillögu til þingsályktunar um rannsókn á þróun valds og lýðræðis. Í henni er sérstaklega nefnd kenningin um þrískiptingu valdsins sem á sínum tíma var sett fram til að verja borgarana fyrir ofurvaldi ríkisins. Hugsunin var sú að það væru þrjár óháðar stofnanir ríkisvaldsins, löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, sem kæmu fram fyrir hönd ríkisins gagnvart borgurunum. Eftir frönsku stjórnarbyltinguna var talið nauðsynlegt að setja þetta á laggirnar til að vernda borgarana fyrir ríkisvaldinu.

Það er ýmislegt hér á landi sem brýtur þessa reglu, t.d. að ráðherrar skuli vera þingmenn. Það hefur verið rætt og liggur fyrir Alþingi hugmynd til umræðu einmitt um það atriði frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur.

Einnig brýtur það regluna að forseti lýðveldisins, samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar, er ásamt með Alþingi hluti af löggjafarvaldinu og ásamt með ráðherrum hluti af framkvæmdarvaldinu, þ.e. hann er báðum megin. Það er líka nokkuð sem við ræðum á eftir þar sem lagt er til í lagafrumvarpi að forsetaembættið verði lagt af. Allt eru þetta því ákveðnar spurningar sem menn verða að velta fyrir sér.

Bent hefur verið á og er bent á það í greinargerð með þingsályktunartillögunni að frumvörp séu samin annars staðar en á Alþingi og þetta er eitthvað sem ég hef margoft nefnt. Það er nefnilega svo að sá sem setur upp texta í upphafi ræður mjög miklu um endanlega gerð hans og sá sem semur frumvarp í upphafi ræður miklu um hvernig lagasetningin verður. Hann þarf ekki að rökstyðja af hverju þetta og hitt stendur í drögunum sem hann leggur upp. Allir aðrir sem koma að frumvarpinu eftir það þurfa að rökstyðja af hverju þeir vilja breyta því.

Því miður er það þannig þar sem við erum komin með mjög sérhæfða starfsemi, ég nefni t.d. samkeppnislög og margt, margt fleira sem er orðið óskaplega flókið, að þeir einir hafa best vit á þessu sem starfa við framkvæmd laganna. Þeim er oft falið það verkefni að semja lögin og síðan þurfa allir aðrir að rökstyðja breytingar á drögunum sem þeir hafa sett upp. Vald þeirra er því að verða mjög mikið, þ.e. vald sérfræðinganna sem gætu jafnvel verið að smíða vopn í hendurnar á sér í baráttunni við borgarana. Ég nefni t.d. skattalögin í því sambandi, þau eru að miklu leyti samin af fólki sem framkvæmir lögin.

Ég hef lagt fram og reifað hér hugmynd áður, ekki reyndar formlega, að í stað þess að framkvæmdarvaldið semji frumvörp og komi með þau til Alþingis, verði þessu breytt þannig að framkvæmdarvaldið ásamt hagsmunaaðilum, einstaklingum, samtökum og öðrum gætu komið hugmyndum að lagabreytingum og þörf fyrir lagabreytingar á framfæri við nefndir þingsins eða einstaka þingmenn, og síðan tækju nefndirnar ákvörðun um hvort ástæða væri til að semja frumvarp og létu síðan semja frumvarpið á Alþingi. Þau frumvörp yrðu svo rædd og send til ráðuneytis og annarra til að kanna hvernig gengi að framkvæma þau. Það er náttúrlega dálítið undarlegt fyrirkomulag núna að aðilar sem framkvæma lögin, eins og framkvæmdarvaldið, semji frumvörp og síðan séu þingmenn í því að kanna hvernig gengur að framkvæma lögin. Þetta ætti að vera öfugt.

Hugmynd mín gengur út á það að nefndir þingsins semji lög, sendi þau síðan til umsagna til ráðuneytis og annarra aðila í þjóðfélaginu sem málið varðar, eins og gert er í dag að einhverju leyti, og síðan yrði málið afgreitt. Þessu yrði sem sagt snúið við. Þetta er náttúrlega mjög byltingarkennd hugmynd af því að mér skilst að í öðrum þjóðþingum sé þessu nákvæmlega eins farið og er hér á landi núna.

Síðan finnst mér nauðsynlegt að í stjórnarskránni sé einhver staðar minnst á vald Hæstaréttar. Hann er ekki nefndur á nafn í stjórnarskránni. Í stjórnarskránni eru einungis þrjár greinar um dómsvaldið, mjög veikbyggðar að mínu mati. Ég vil gjarnan koma inn ákvæðum um Hæstarétt í stjórnarskrána og alveg sérstaklega þegar Hæstiréttur kemur fram sem stjórnlagadómstóll, þegar hann sker úr um það hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrána. Þá tekur hann sér mjög mikið vald eins og hann hefur gert á undanförnum árum.

Ekki verður litið á þróun valds öðruvísi en að líta á fjármálamarkaðinn og fjármál. Í greinargerð með tillögunni er nefnt það gífurlega vald sem felst hjá lífeyrissjóðunum sem er fé sem ég vil kalla fé án hirðis. Eigandinn er að mínu mati sjóðfélaginn. Ég sé engan annan eiganda að því fé. Það er sjóðfélaginn sem á þetta fé en aðkoma hans að stjórnun þessa fjár er mjög veik. Það eru bara tveir lífeyrissjóðir í landinu sem eru með beint lýðræði og þeir eru frekar litlir. Stærstu sjóðirnir eru með tilnefningar þar sem stjórnir þeirra eru tilnefndar á lokuðum fundum. Stjórnir lífeyrissjóðanna hafa gífurlega mikið vald þar sem þær fara bráðum með eitt þúsund milljarða króna og geta farið að stjórna landinu og miðunum meira og minna og gera það reyndar að miklu leyti.

Ekki er hægt að fjalla um þróun valds og lýðræðis án þess að geta um fjölmiðlavaldið. Fjölmiðlarnir hafa það vald að segja mér hvað er að gerast. Fjölmiðlar segja mér hvað gerist í þjóðfélaginu þannig að ég geti tekið ákvörðun um hvað er rétt eða rangt, tekið afstöðu til mála. Fjölmiðlarnir ákveða þar með hvaða skoðun ég, sem borgari, hef á vissum málum. Þeir geta mótað þá skoðun. Þess vegna er mikilvægt að fjölmiðlar séu óháðir og fjölbreyttir.

Nú hefur það gerst, sem er kannski einsdæmi, að mjög sterkur aðili á fjármálamarkaði er að seilast til valda í fjölmiðlun. Þá vaknar upp spurningin: Hvað gerist ef sá fjölmiðill þarf að gagnrýna þá sem eiga hann? Hvernig standa málin með aðra fjölmiðla? Eru þeir kannski jafnháðir? Getur verið að starfsmenn annarra fjölmiðla sjái í þessum fjölmiðli möguleika á vinnu, hluta af vinnumarkaði þeirra, jafnvel starfsmenn Ríkisútvarpsins? Sjá þeir fram á að geta hugsanlega fengið starf hjá Norðurljósum, sem ég er að tala um, og gæti þess þar af leiðandi að grípa ekki inn á valdsvið þess fjölmiðils?

Þess vegna má segja að örlög fjölmiðlafrumvarpsins hafi kannski verið ráðin fyrir fram, vegna þess að þar hafi verið barist við fjölmiðla sem voru orðnir svo sterkir að þeir yrðu ekki knésettir. Það getur náttúrlega verið mjög hættulegt lýðræðinu. Ég bind vonir við að slík tillaga um rannsókn á þróun valds og lýðræðis leiði það í ljós.



[17:32]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel að hér sé um að ræða mjög áhugaverða þingsályktunartillögu og beri að fara rækilega í gegnum hana. Ég tel mjög þarft fyrir lýðræðislega umræðu að fara í gegnum tillögu sem þessa.

Í fyrsta lagi hefur verið rætt um þrískiptingu ríkisvaldsins. Það er náttúrlega kominn tími á að ræða þá hluti í ljósi þess er Ísland lýsti yfir stuðningi við Íraksstríðið. Þá voru án efa, a.m.k. í mínum huga, þingsköp Alþingis brotin. Það er mjög alvarlegt og furðulegt að menn skuli hafa reynt að eyða þeirri umræðu. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðþingið að skoða hvort menn geti brotið þingsköp Alþingis og gengið gegn lögum og þeim ásetningi þjóðarinnar að fara aldrei með ófriði á hendur öðrum þjóðum.

Hér er einnig fjallað um hvort óeðlileg völd séu færð til embættismanna. Ég er ekki viss um að svo sé en í stjórnmálabaráttu minni hef ég orðið var við að margir landsbyggðarþingmenn, sérstaklega stjórnarflokkanna, virðast reyna að skjóta sér á bakvið það þegar kemur að stefnu flokkanna í garð landsbyggðarinnar að henni ráði embættismannavaldið í Reykjavík og þeir ráði ekki neitt við neitt. Það er auðvitað furðulegur málflutningur sem ég hef nokkuð oft orðið vitni að. Ég hafna honum.

Ég tel að skoða ætti annan þátt í tillögunni hvað varðar völd, þ.e. áhrif Evrópusambandsins og Brussel á reglugerðir og lög á Íslandi. Mikill hluti reglugerða kemur nánast beint frá Brussel hvað varðar hina og þessa hluti. Því miður hef ég einnig orðið var við að á hinu háa Alþingi hafi stjórnmálamenn, til að verja óvinsælar ákvarðanir og reglugerðir, svo sem hæstv. landbúnaðarráðherra, reynt að klína einhverjum óþverra á Brussel sem Brussel hefur ekki átt skilið. Dæmi um slíkt er t.d. lokun sláturhúsa. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur í því sambandi vísað til Evrópureglna. En allir sem eitthvað kynna sér málin sjá fljótlega að Evrópusambandið hefur ekkert um þau mál að segja. Þær ákvarðanir eru alfarið og eingöngu á ábyrgð hæstv. landbúnaðarráðherra.

Sama gildir um ýmsa þingmenn. Ég gæti t.d. nefnt Einar Odd Kristjánsson. Hann hefur oft deilt á lélegt fiskveiðistjórnarkerfi og kennt Hafrannsóknastofnun um það. Það er náttúrlega af og frá þar sem Hafrannsóknastofnun er undir stjórn ráðherra og lýtur pólitísku valdi. Þar er enn eitt dæmi um að menn reyni að skjóta sér undan pólitískri ábyrgð með því að benda á embættismenn. Ég tel að það sé oft notað til að drepa málum á dreif.

Hvað varðar efnahagsleg áhrif og völd, þau eru til staðar og það vita allir, tel ég nauðsynlegt að hafa einfaldlega allt uppi á borðinu. Það er nauðsynlegt og orðið löngu tímabært að íslenskir stjórnmálaflokkar opni bókhald sitt þannig að öllum megi verða ljóst hverjir styrkja íslenska stjórnmálaflokka. Ástandið sem hér ríkir er algjörlega óviðunandi.

Þegar ég minntist á það í andsvörum við hv. þm. Hjálmar Árnason fyrr í umræðunni taldi ég í sannleika sagt að hann mundi fagna þeirri umræðu og Framsóknarflokkurinn ætlaði í raun að breyta stefnu sinni, opna bókhaldið og koma því undir eftirlit Ríkisendurskoðunar. Því miður voru svör hans eingöngu á þann veg að ég væri með ómálefnalega umræðu. Ég hafna því algjörlega. Á síðustu vikum og mánuðum hefur ítrekað komið fram að Framsóknarflokkurinn hafi fengið greitt í kosningasjóði frá stórfyrirtækjum og vilji ekki gefa upp hverjir hafa greitt í kosningasjóðinn.

Fyrrverandi gjaldkeri flokksins, Unnur Stefánsdóttir, greindi auk þess frá því að bæði einstaklingar og fyrirtæki hefðu greitt til flokksins og með því launað flokknum, sérstaklega þeir sem hafa fengið háar stöður í gegnum flokkinn, þ.e. greitt með því til baka í sjóði flokksins. Auðvitað þarf að rannsaka svona hluti. Það er ekki nóg að afneita þeim. Þetta er grafalvarlegur hlutur sem verður að skoða, hverjir hafi greitt í sjóði flokkanna og hvaða áhrif þau fyrirtæki hafi haft á stefnu flokkanna.

Ég efast ekki um að þeir sem hafa greitt til flokkanna hafi haft mikil áhrif á stefnu þeirra. Ég er ekki einn um þá skoðun. Sömu skoðunar eru einnig prófessorar í háskólanum, t.d. Svanur Kristjánsson prófessor, en hann segir orðrétt í fréttum Ríkisútvarpsins, með leyfi frú forseta:

„Við sjáum líka þessi tengsl í gegnum það hvernig einkavæðing bankanna fór fram, hverjir fengu að kaupa banka og hverjir fengu ekki að kaupa bankana. Og ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að flokkarnir almennt, og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem fór nú með viðskiptaráðuneytið, en flokkarnir almennt verði bara með hreint borð.“

Ég tek undir það. Það er orðið löngu tímabært að fara í þá umræðu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur oft rætt um þessa hluti og ég styð hana heilshugar í þessu máli. Það þarf að opna bókhald flokkanna.

Hér hafa komið fram fleiri atriði varðandi fjármál stjórnmálaflokkanna sem skoða þarf betur. Þótt menn telji að ég sé með ómálefnalegan málflutning þá get ég bent á að í ágætu dagblaði kemur fram að Framsóknarflokkurinn hafi hreinlega verið í peningaáskrift hjá stórfyrirtækjum. Þetta er eitt af því sem nauðsynlegt er að fara yfir. Því fyrr, því betra.



[17:41]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs vegna orða hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hv. þm. fór þar út í umræðu sem hann átti í þessum ræðustól í dag við hv. þm. Hjálmar Árnason. Hann blandaði inn í þá umræðu prófessor frá Háskóla Íslands, sem hann titlar sem slíkan, en lætur þess ekki getið að viðkomandi prófessor er jafnframt fyrrverandi frambjóðandi til formanns í stjórnmálaflokki, án þess ég sé að kasta rýrð á þann ágæta mann.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur líka, í þessari ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um hreint frábærlega unnið þingmál, nefnt fyrrverandi gjaldkera Framsóknarflokksins og vísar í orð hennar í fjölmiðlum. Hann lætur að því liggja að það hafi mátt skilja orð hennar þannig að þeir sem hefðu styrkt flokkinn fjárhagslega, á sama hátt og allir aðrir flokkar njóta stuðnings fyrirtækja og einstaklinga, hafi vænst þess að bera eitthvað úr býtum fyrir það. Af þessu tilefni vil ég gjarnan árétta við hv. þingmann að í Framsóknarflokknum erum við með svokallað styrktarmannakerfi. Þeir sem kjósa að ganga í flokkinn greiða líka félagsgjöld. Sumir kjósa að greiða meira en aðrir, einnig þeir sem eru kjörnir fulltrúar, bæði til Alþingis og sveitarstjórna, til að standa straum af flokksstarfinu.

Ég held það hafi verið þau framlög sem fyrrverandi gjaldkeri Framsóknarflokksins nefndi. Mér fannst það heldur óþinglegt, af því hv. þm. Hjálmar Árnason er farinn úr þingsalnum, að taka þessa umræðu upp á ný.

Að öðru leyti, frú forseti, vildi ég fyrst og fremst taka undir efni þessa ágæta þingmáls, þeirrar tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú er í forsetastól, er 1. flutningsmaður að.

Ákveðin mál sem hafa verið í umræðunni síðustu missiri, bæði ákveðin málefni, þjóðfélagsmál sem hafa risið hátt, m.a. í sölum þingsins, og ákveðnir hlutir sem við þingmenn rekum okkur á frá degi til dags, gefa tilefni til þeirrar rannsóknar sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Það má kannski segja að þar til upp koma mál eins og svokallað fjölmiðlamál síðasta sumar þá göngum við út frá því að lýðræðið sé sjálfgefið en það er engan veginn sjálfsprottið. Það sjáum við m.a. af því þjóðskipulagi sem ríkir til að mynda hjá mörgum af nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ég held að rannsókn af þessu tagi varði sameiginleg hagsmunamál allra þingmanna og allra flokka, þ.e. að skoða grundvöll lýðræðisins, hvort þrískiptingu ríkisvaldsins sé á einhvern hátt ógnað með þeirri þróun sem orðið hefur, m.a. með breytingum á viðskiptamarkaði og auknum áhrifum fjölmiðlanna, sem oft eru kallaðir fjórða valdið.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hafði orð á því fyrr í umræðunni að hann sæi ekki hvers vegna við ættum ekki að samþykkja þetta. Ég gat svo sem fallist á það. Þingmálið gengur fyrst og fremst út á það að forsætisráðherra feli ákveðinni nefnd að undirbúa þetta mál og sú nefnd eigi síðan að leggja verkefnaáætlun og fjárhagsramma fyrir forsætisráðherra sem geri síðan tillögu til Alþingis um nauðsynleg fjárframlög til verksins.

Á hinn bóginn vil ég bara rifja upp, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra hefur boðað að ráðist verði í endurskoðun á stjórnarskránni og á fleiri en einum kafla stjórnarskrárinnar. Hefði þeirri rannsókn sem hér er nefnd verið lokið þá kæmi svoleiðis að góðu gagni í þeirri vinnu. En spurningin er sú hvort einhvers staðar skarist þau verkefni sem þessi þingsályktunartillaga lýtur að og þau verkefni sem má hugsa sér að endurskoðunarnefnd tæki sér fyrir hendur.

Annað sem ég vil líka nefna í þessu samhengi er að á vegum norrænu ráðherranefndarinnar undir formennsku Íslands núna það sem af er þessu ári hefur farið fram mjög merkileg rannsókn, samnorræn rannsókn á þróun lýðræðisins á Norðurlöndunum. Ég held að sú rannsókn sé engan veginn jafnviðamikil og gert er ráð fyrir í þessu ágæta þingmáli. En mér datt í hug hvort það skaraðist á einhvern hátt eða hvort það ætti við vinnu þessa þingmáls að horfa sérstaklega til þeirrar rannsóknar og hvort einhver skörun sé og hugsanlega megi nota þá vinnu á vegum norrænu ráðherranefndarinnar í þeirri vinnu sem hér er fyrir mælt.

Meðal annars kom fram í þeirri rannsókn að lýðræðið sé á undanhaldi. Fulltrúalýðræðið er í tilvistarkreppu til að mynda í Noregi þar sem einungis var um 50% þátttaka í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Reynslan er sú að kosningaþátttaka er að aukast í Danmörku og sitthvað fleira kom þar áhugavert í ljós. Eitt af því sem kom í ljós var m.a. að tiltrú fólks á kjörnum fulltrúum er að minnka víða á Norðurlöndunum en á móti koma aukin áhrif þrýstihópa eða svokallaðra frjálsra félagasamtaka.

Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst taka undir þetta ágæta mál og hrósa vinnunni við það en hefði nú gjarnan viljað sjá flutningsmenn þingmenn úr fleiri flokkum en Samfylkingunni vegna þess að ég held að þetta sé ágætis þingmál sem þingmenn allra flokka ættu að geta sameinast um. Málið er, svo ég endurtaki það einu sinni enn, að mínu mati alveg sérlega vel unnið.



[17:48]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Sem einn flutningsmanna þessa máls fagna ég ummælum hv. þm. Jónínu Bjartmarz og tek undir að það er vel unnið undir forustu hv. 1. flutningsmanns Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hv. áður áminnstur þingmaður kom hér að eigin sögn fyrst og fremst upp til að gera athugasemdir við orð sem fallið hafa hér í umræðunni um Framsóknarflokkinn. Hún taldi að það væri ekki rétt sem haldið hefði verið fram að menn borguðu fyrst í Framsóknarflokkinn og fengju síðan einhverjar vegtyllur eða stöður. En þetta er ekki rétt hjá hv. þingmanni. Það var einmitt öfugt sem þetta var sagt. Unnur Stefánsdóttir frá Vorsabæ, fyrrverandi gjaldkeri, sagði þetta að gefnu tilefni, að það væri þannig að þegar menn hefðu fengið háar stöður þá borguðu þeir til baka. Þannig var þetta nú orðrétt, að borga til baka. Ég óska þess að hv. þingmaður skýri út þessi orð því að það var þannig sem þetta var.

Þegar maður lítur yfir ýmsa af þeim sem hafa verið fremstir á bekk hjá Framsóknarflokknum nú síðustu ár, það þarf ekki annað en að taka til menn úr þingflokki framsóknarmanna núna á síðasta kjörtímabili og kjörtímabilinu þar áður, þá sér maður að þeir sitja núna í góðum stöðum á vegum ríkisvaldsins margir hverjir. Þá er spurningin: Hvað borga þeir til baka?



[17:49]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég hvernig það tíðkast í flokki hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég var að gera grein fyrir því í stuttri ræðu minni og að ég hélt hnitmiðari að félagsmenn í Framsóknarflokknum eins og í öðrum flokkum greiða sitt félagsgjald og við, ef þú kallar okkur hv. þingmenn, kjörna fulltrúa, vera í háum stöðum, greiðum heldur meira en aðrir. Með fullum vilja, með einbeittum vilja má snúa út úr orðum fyrrverandi gjaldkera flokksins á annan hátt en með þessari útskýringu sem ég hef nú verið að gefa.

Hins vegar getur hv. þm. Mörður Árnason einn gert grein fyrir því hvernig hlutunum er háttað í hans flokki. En mig rámar nú í ákveðna menn sem hafa tilheyrt þeim flokkum sem standa að Samfylkingunni og eru víða í samfélaginu í háum stöðum. Ég veit ekkert hvernig þeir eru þangað komnir. Ég hélt að það væri fyrir þeirra eigið ágæti.



[17:50]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ef til vill kann að vera um misskilning að ræða og útúrsnúning á orðum Unnar Stefánsdóttur frá Vorsabæ. En þau féllu nú samt eins og þau voru tilfærð hér. Og því eru þau athyglisverð að þau passa því miður við þann brag eða kúltúr, ef menn vilja það frekar, sem einkenndi íslenska flokkakerfið á 20. öld. Einn af upphafsmönnum þess kúltúrs hefur raunar verið talinn Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, og er það heldur ljóður á þeim ágæta manni.

Ég skil þá hv. þingmann svo að hún muni beita sér fyrir því, sem ég geri, og við samfylkingarmenn í okkar flokki, að eyða þessum kúltúr, að fjarlægja þennan kúltúr út úr okkar flokkum og taka hér upp hreinskilnara, opnara og betra lýðræðisfyrirkomulag en verið hefur.



[17:51]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég á ekki annað svar við þessu seinna andsvari hv. þm. Marðar Árnasonar en að við erum öll hluti af þessum sama kúltúr. Það er kannski akkúrat það sem þetta þingmál gengur út á (MÁ: Mismikið ...) að við skoðum (MÁ: ... meira en aðrir.) þróun á valdi og lýðræði í íslensku samfélagi. Þó svo að hv. þingmaður haldi því fram að hann eigi minni þátt í íslenskum kúltúr, íslenskum stjórnmálakúltúr en aðrir þá minni ég hv. þingmann líka á að hans ágæti flokkur, Samfylkingin, er samsettur í dag af þremur eldri flokkum.



[17:52]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir góð orð hv. þingmanns í garð þess máls sem hér liggur fyrir og sömuleiðis undir áhyggjur þingmannsins af dvínandi trausti á kjörnum fulltrúum. Ég skil vel að hv. þingmanni líki illa að þurfa að standa á Alþingi undir dylgjum um óeðlilega fjársýslu eða fjárreiður síns stjórnmálaflokks og hygg að svo hlyti að vera um okkur öll. Sú umræða sem verið hefur undanfarna daga um fjármál stjórnmálaflokkanna hlýtur sannarlega að vera áhyggjuefni öllum þingmönnum sem hér starfa því hún varðar traust allra þeirra sem hér starfa og traust þessarar samkomu.

Ég hef í þessu sambandi sett fram hugmynd um að Ríkisendurskoðun kæmi að einhvers konar eftirliti með fjármálum stjórnmálaflokkanna. Sú hugmynd hefur verið til umræðu fyrr á þingfundinum í dag og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur tekið í svipaðan streng fyrr og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur tekið undir þær hugmyndir sömuleiðis hér í dag.

Ég vildi því inna hv. þm. Jónínu Bjartmarz eftir því hvort slíkt fyrirkomulag hugnaðist henni til þess að efla það traust sem hún gerði að umfjöllunarefni hér á kjörnum fulltrúum.



[17:54]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sú sem hér stendur og hv. þm. Helgi Hjörvar látum okkur jafnannt um tiltrú á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum og deilum ýmsum skoðunum að því leyti. Ástæðan fyrir því, eins og ég sagði í upphafi, að ég kvaddi mér hljóðs í þessari umræðu voru dylgjur í garð tiltekins stjórnmálaflokks. Ég vek líka athygli á að þeim hefur ekki verið svarað með dylgjum í garð annarra. Ég held að við ættum að gera sem minnst af því að vera með slíkar og því um líkar dylgjur. Það er alltaf álitamál (Gripið fram í.) hvar þær lenda verst ef út í það er farið.

Af því tilefni, af því að það er skoðun mín að við eigum að forðast það sem mest þá styð ég þetta þingmál. Ég held að einhvers staðar liggi skýrslubeiðni sem lýtur að fjármálum stjórnmálaflokkanna, sem ég geri mér vonir um að verði orðið við fljótlega, og ég segi eins og hv. þm. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, að ég sé því ekkert til fyrirstöðu að ríkisendurskoðandi komi að þessu máli eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur líka sagt og get að því leyti tekið undir orð hv. þm. Helga Hjörvars.



[17:55]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á skemmra erindi í ræðustólinn að þessu sinni. Ég vil bara fagna undirtektum hv. þingmans við því að Ríkisendurskoðun hafi hér einhverju hlutverki að gegna því að þó að menn kunni að deila um hvort og hversu opið bókhald manna eigi að vera þá hljótum við öll að vera sammála um það sem hér störfum að bókhald um starfsemi okkar og okkar samtaka hlýtur að þurfa að vera þess eðlis að það standist skoðun. Það hlýtur að þurfa að vera með því að það lágmarki eitthvert formlegt eftirlit þó að okkur kunni síðan að greina á um hversu langt eigi að ganga í að opna það.

Ég fagna því þessum undirtektum þingmanna Framsóknarflokksins undanfarna daga og vonast til að við berum gæfu til að fela Ríkisendurskoðun með formlegum hætti eitthvert hlutverk í þessu efni.



[17:56]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði að það hefði verið óþinglegt af mér að ræða um orð hv. þm. Hjálmars Árnasonar eða víkja orðum mínum að honum vegna þess að hann væri farinn úr salnum.

Nú þekkir hv. þingmaður eflaust betur en ég þingsköp Alþingis. Í 53. grein þeirra kemur fram að þingmönnum sé skylt að sækja alla fundi. Þess vegna finnst mér æði undarlegt að ég megi ekki víkja orðum mínum að þingmanni sem hefur ekki boðað forföll. Ég skil í rauninni ekkert í því að meira að segja einn af varaforsetum þingsins skuli vera að víkja orðum sínum með þeim hætti að mér. Mér finnst það vera mjög ómálefnalegt.

Síðan verð ég að segja það líka að mér finnst mjög ómálefnalegt að saka mig um að hafa verið með dylgjur þegar ég er að vitna í prófessor í Háskólanum og vitna í fréttatíma, vitna í blöð og meira að segja vitna í fyrrum gjaldkera Framsóknarflokksins, og þá er það sagt ómálefnalegt. Ég held að við ættum miklu frekar að horfa fram á veginn og spyrja okkur: Hvernig getum við losnað við þessa umræðu? Það er bara ein leið til þess, þ.e. að opna bókhaldið og láta Ríkisendurskoðun eða þar til bæra stofnun fara yfir þessa hluti.



[17:58]
Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál, um rannsókn á þróun valds og lýðræðis. Ég stend einungis upp til að þakka þær góðu undirtektir sem málið hefur fengið. Það er ástæða til að fagna því að þingmenn úr nær öllum flokkum hafa tekið til máls og tjáð skoðanir sínar á málinu, m.a. hafa þingmenn úr báðum stjórnarflokkunum tekið undir þetta mál og lýst yfir stuðningi við það. Það ber vissulega að þakka.

Það kom réttilega fram hjá hv. 6. þm. Reykv. s., að það er sameiginlegt hagsmunamál allra flokka að ráðast í slíka rannsókn á þróun valds og lýðræðis líkt og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum. Það er full ástæða til, miðað við þróun mála á umliðnum árum og áratugum, að við vindum okkur í að skoða stoðir og grundvöll lýðræðisins, hvort orðið hafi tilfærsla á valdi og hvaða áhrif það hafi haft á samfélagsþróunina í heild sinni. Mér finnst raunar að þjóðþinginu beri skylda til að gera það.

Ég hefði talið ástæðu til að rannsókn á þróun valds og lýðræðis hefði farið fram fyrir löngu og væri m.a. grundvöllur að þeirri endurskoðun sem fram á að fara á stjórnarskránni. Ég tel að það væri mikilvægt fyrir þá endurskoðun sem þarf að fara fram á stjórnarskránni að slík rannsókn lægi fyrir. En ég geri mér grein fyrir að rannsóknin gæti tekið langan tíma. Samkvæmt tillögu okkar er henni ætlaður tími til ársins 2008. Það má vel vera að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar skoði hvort stytta eigi þann tíma. Í tillögugreininni er þó gert ráð fyrir að nefndin skili áfangaskýrslu eftir því sem verkinu miðar áfram og vel má vera að hægt yrði að fá slíkar áfangaskýrslur fyrr.

Menn hafa dvalið við ýmsa þá þætti sem þessi umfangsmikla tillaga lýtur að, m.a. fjármál stjórnmálaflokkanna. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Ég hef á einum átta þingum flutt þingmál um að fjármál stjórnmálaflokkanna verði gegnsæ og stjórnmálaflokkunum verði gert skylt að birta fjármál sín opinberlega. Á umliðnum vikum hefur það fengið aukið vægi. Þingmenn eru smám saman að færast nær í þessu efni, að ákveðin lög verði að gilda um gegnsæi í fjármálum stjórnmálaflokka. Það væri mjög gott innlegg í þá umræðu ef þeirri skýrslu yrði hraðað sem ég hef beitt mér fyrir að verði lögð fram hið fyrsta á þessu þingi. Ég minni í því sambandi á að sama skýrslubeiðni var lögð fyrir á síðasta þingi en hæstv. þáverandi forsætisráðherra treysti sér ekki til að svara henni þá. Hann sagði að starfað yrði að þeirri skýrslubeiðni og væntanlega hefur gefist tími til að vinna vel að þeirri skýrslu sem vonandi verður lögð fram fljótlega.

Ég ætla ekki að fara í einstaka þætti þessa máls. Menn hafa dvalist mjög við embættismannavaldið, sem ég held að full ástæða sé til að skoða. Menn hafa nefnt valdið á fjármálamarkaðnum og vald fjölmiðla. Ég vil í því sambandi benda á, af því að hv. 6. þm. Suðurk. nefndi að þessi umfangsmikla úttekt þyrfti líka að ná til fjölmiðla, að það er gert ráð fyrir því í tillögugreininni að skoðað verði hvaða áhrif fjölmiðlar hafa haft á þróun stjórnmála og samfélagsins í heild. Þau áhrif eru vissulega gífurlega mikil og í raun er varla hægt að fara í rannsókn á þróun valds og lýðræðis nema að nefna það.

Mér er mjög umhugað um að valdið á fjármálamarkaðnum verði skoðað rækilega. Fjárfestingar nokkurra valdablokka í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði eru af stærðargráðu sem fáir hefðu getað gert sér í hugarlund fyrir aðeins fáum árum. Ég vil taka fram að sú þróun hefur að því leyti verið jákvæð að dregið hefur úr óeðlilegu samblandi stjórnmála og atvinnulífs, með minni þátttöku ríkisins í atvinnulífinu. Það er líka jákvæð þróun að valdablokkir í atvinnu- og viðskiptalífinu eru fleiri en áður voru, sem ætti að tryggja meiri samkeppni þótt við höfum séð á síðustu dögum að töluvert vantar upp á að samkeppni sé næg í ýmsum atvinnugreinum í þjóðfélaginu.

Þótt það sé umfangsmikið mál legg ég gífurlega áherslu á að í þessari rannsókn verði dregið fram hvort arðsemin af þeirri miklu samþjöppun eigna og fjármagns sem átt hefur sér stað á síðustu árum í viðskiptalífinu skili sér svo ásættanlegt sé til þjóðarbúsins eða hvort áhrifin séu fyrst og fremst gífurleg eigna- og fjármagnstilfærsla til nokkurra valdablokka. Það þarf að meta hvort söfnun auðs og valds á fárra manna hendur hefur aukið misréttið í kjörum fólks, eins og víða virðist hafa gerst, og gliðnað á milli eigna- og tekjuskiptingar í þjóðfélaginu með aukinni stéttaskiptingu. Ég hafði ekki tíma til að koma inn á þetta í framsöguræðu minni áðan.

Ég vil í lokin draga fram að ég tel, af því að það hefur ekki mikið verið rætt, það veigamikinn þátt í þeirri rannsókn á þróun valds og lýðræðis sem hér er lagt til að gera að metin verði samfélagsleg áhrif af þeim breytingum sem hafa vissulega orðið á þróun valds og lýðræðis í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Hér þurfa fleiri þingmál að komast að. Ég læt því máli mínu lokið en ítreka þakklæti mitt til þingmanna frá flestum stjórnmálaflokkum sem hér hafa talað. Umræðan gefur manni vonir um að góð samstaða gæti náðst um þetta þingmál í allsherjarnefnd og hún yrði hugsanlega samþykkt á þessu þingi þannig að við getum undið okkur í svo viðamikla rannsókn sem yrði samkvæmt tillögunni á vettvangi háskólasamfélagsins.



[18:05]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins nýta mér möguleikann á að koma í stutt andsvar til að segja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að í önnum mínum úti á skrifstofu hef ég fylgst með áhugaverðri umræðu um þetta athyglisverða þingmál. Ég vil lýsa því yfir að þetta mál á allan minn stuðning. Það voru sannarlega orð í tíma töluð sem hv. þingmaður lét falla í framsöguræðu sinni. Í landi þar sem farið er að gæta sömu áhrifa og í stórum löndum í kringum okkur, þar sem valdsvið stjórnmálamanna og ríkisstjórna virðist sífellt verða veikara og vald stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja ekki síst, er að verða áþreifanlegt, jafnvel inni í stjórnkerfi ríkisstjórnanna, þá er sannarlega ástæða til að taka þannig á málum sem hér er lagt til. Ég vil lýsa því yfir að þetta mál kemur til með að fá stuðning minn í allsherjarnefnd þingsins þegar það kemur til umfjöllunar þar.



[18:06]
Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ummæli hv. þingmanns og vek um leið athygli þingheims á því að nú hafa fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi talað fyrir tillögunni og mælt með samþykki hennar. Ég fagna því.