131. löggjafarþing — 30. fundur
 15. nóvember 2004.
Íslenska táknmálið, 1. umræða.
frv. SigurlS o.fl., 277. mál. — Þskj. 299.

og 

Breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins, 1. umræða.
frv. SigurlS o.fl., 297. mál. — Þskj. 324.

[18:09]
Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli í annað sinn á Alþingi Íslendinga fyrir frumvarpi til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum, frumvarpi um viðurkenningu táknmáls annars vegar og hins vegar frumvarpi á þskj. 324, svokölluðum bandormi, þar sem gerðar eru nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum til að styðja réttarstöðu þeirra sem nota íslenska táknmálið, einkum hvað varðar rétt til að nota það í samskiptum við ríki, sveitarfélög og stofnanir.

Ljóst er að ef frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra verður að lögum þarf að breyta fjölmörgum lögum í kjölfarið og þyrfti hvert ráðuneyti fyrir sig að taka lög á sínu málefnasviði til gagngerrar endurskoðunar. Í þessu frumvarpi er fyrst og fremst tæpt á helstu atriðum sem þurfa lagfæringar við.

Sem fyrr eru margir mætir meðflutningsmenn með mér að frumvarpinu. Í frumvarpinu er að finna réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem tala íslenska táknmálið jafnframt því sem kveðið er á um að táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkunar.

Ég ákvað að nota hugtakið „fyrsta mál“ í 1. gr. frumvarpsins af því að skilgreiningin sem gefin hefur verið á hugtakinu móðurmál er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það mál sem er talað í því landi sem maður fæðist í og er talað af þeirri fjölskyldu sem elur mann upp telst vera móðurmál manns.“

Þessi skilgreining getur ekki gilt um heyrnarlausa almennt því að 98% heyrnarlausra fæðast í heyrandi fjölskyldum. Táknmálið er því í flestum tilfellum áunnið mál á heimilinu þegar barn fæðist heyrnarlaust í heyrandi fjölskyldu sem hefur íslensku að móðurmáli sínu.

Líf heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu. Sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra mun eflast til muna. Þeir munu finna hvers virði það er að geta sinnt daglegum félagslegum þörfum hindrunarlaust og geta rofið þá einangrun sem hefur heft þá í langan tíma. Þeir munu geta tekið fullan þátt í atvinnulífinu. Þeir þurfa ekki lengur að betla af t.d. vinnuveitanda að greiða fyrir þjónustu túlks á starfsmannafundum. Það styrkir sjálfsmyndina töluvert, sérstaklega á vinnustað, að vita að maður hefur sömu möguleika til launahækkana og til að vinna sig upp og heyrandi samstarfsmenn.

Daufblindir eru þeir sem hafa skerta eða enga heyrn og skerta eða enga sjón samtímis. Daufblinda, sem nota snertitáknmál, er þess vegna sjálfsagt að taka með, enda er þar um að ræða fámennasta hóp fatlaðra hér á landi, ef svo má að orði komast. Þeir þurfa þó einhverja sérhæfðustu þjónustuna á forsendum samskipta og á táknmálið að skipa þar stóran sess. Þessir þrír hópar, heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir, eiga táknmálið sameiginlegt og því má enginn þeirra vera settur út undan. Táknmál á að vera þessum þremur hópum velkomið aðgengistæki að upplýsingum, námi, menningu og daglegu lífi. Í þessu frumvarpi eiga réttindi þessara þriggja hópa á forsendum táknmálsins að vera tryggð, vera þeirra réttindaskrá.

Táknmál er á undanförnum áratug farið að sjást víða í samfélaginu. Má þar nefna grunn-, framhalds- og háskóla, þar sem heyrnarlausir stunda nám með túlk sem aðgengistæki sitt að náminu. Heyrnarlausir hafa á síðustu missirum mikið látið að sér kveða, sér í lagi hvað varðar hagsmunamál sín. Þeir eru ekki lengur sá hógværi hópur sem löngum var nánast gleymdur.

Sú barátta sem heyrnarlausir hafa háð hefur þegar borið árangur. Þar má nefna eitt spor í margra ára réttindabaráttu þeirra sem stigið var í haust, í byrjun þessa þings þegar hæstv. menntamálaráðherra ákvað að gera bragarbót í málefnum félagslegrar túlkunar og leggja til 2 millj. kr. fjárframlag fyrir árið 2004 en árið 2005 er áætlað að veita 10 millj. kr. í félagslega táknmálstúlkun. Þetta fjárframlag er vissulega góðra gjalda vert og þarft en þó að þessu fjárframlagi sé ætlað að tryggja rétt heyrnarlausra þá vantar með öllu að sá réttur sé lögbundinn. Tilkoma og síðar samþykkt táknmálsfrumvarpsins er því mikilvægt innlegg í að réttur heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra sé lögbundinn með öllu. Út á það gengur frumvarpið sem ég flyt nú.

Á haustdögum 2003 gerðist sá atburður að fyrrverandi forseti okkar Íslendinga, frú Vigdís Finnbogadóttir, tók að sér að gerast verndari táknmála á Norðurlöndum. Vigdís er sem kunnugt er útvalin velgerðarsendiherra erlendra tungumála hjá UNESCO og í ljósi þeirrar stöðu sem hún gegnir veit hún nákvæmlega að hverju hún gengur með því að gerast verndari táknmála á Norðurlöndum. Hún veit að táknmál er sjálfstætt mál og það á að viðurkenna og virða. Með leyfi forseta vitna ég í annað sinn í þessi orð:

„Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn ... en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.“

Norski málvísindamaðurinn Terje Basilier sagði þessi orð en því hefur einnig verið haldið fram að bandaríski mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King hafi fyrstur látið þessi orð falla. Hver sagði þessi orð fyrstur skiptir ekki öllu máli en þau eiga svo sannarlega vel við nú þegar fjallað er um viðurkenningu íslenska táknmálsins.

Það er flókið að viðurkenna nýtt mál. Skoða þarf vandlega hvað viðurkenning á táknmáli þýðir fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda og hvaða þýðingu hún hefur fyrir stjórnvöld. Sem fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps tel ég að viðurkenningin sé fyrir þessa þrjá samfélagshópa bæði viðurkenning á tilveru þeirra og á ábyrgð stjórnvalda. Fyrir stjórnvöld þýðir viðurkenningin einfaldlega að virða skuli rétt hvers einstaklings til mismunandi þarfa og koma til móts við þá af virðingu.

Ég segi enn og aftur að framtíðarsýnin í lagasetningunni er sú að táknmálið muni njóta sömu virðingar og önnur mál og að heyrnarlausum verði gert mögulegt að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á grundvelli laganna og að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi rétt til að ákveða sjálfir hvaða mál er móðurmál þeirra og aðrir viðurkenni og virði þá ákvörðun.

Íslendingar hafa byggt upp öflugt velferðarkerfi sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Alþingi væri sómi að því að gera betur með því að viðurkenna táknmál sem fyrsta mál heyrnarlausra og heyrnarskertra. Gera þarf heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum, sem aðallega eru notendur táknmálstúlkaþjónustu, þannig hátt undir höfði að þeir geti og fái notið táknmálstúlkaþjónustu hindrunarlaust. Full þátttaka ríkissjóðs í greiðslu táknmálstúlkakostnaðar er því sjálfsögð.

Til að viðurkenning íslenska táknmálsins öðlist fullt gildi þarf tvennt að vera tryggt: Í fyrsta lagi efling táknmálsfræðináms. Það þarf að stórefla táknmálsfræðinám sem nú er stundað í Háskóla Íslands. Það er nú fjögurra ára nám, nám í túlkafræði er tveggja anna nám og aðeins þeir sem hafa lokið námi í táknmálsfræði geta farið í nám í túlkun.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra annast kennslu í túlkanámi í samvinnu við táknmálsfræði í Háskóla Íslands. Á fyrsta ári eru nú 27 nemendur í fullu námi en níu nemendur í hlutanámi. Engir nemendur eru á öðru ári m.a. vegna þess að engir fyrsta árs nemar voru teknir inn síðasta haust. Hins vegar eru fimm nemendur á þriðja ári, á því síðasta ári námsins er kennd táknmálstúlkun. Til að þessi deild geti dafnað og vaxið verður að mennta fleiri táknmálskennara. Í dag er lektor deildarinnar eini fasti starfsmaður hennar. Efst í forgangsröðun þessa ætti því helst að vera að mennta fleiri táknmálskennara. Táknmálsfræðinámið í Háskóla Íslands heyrir nú undir heimspekideild. Nemendur í öðrum námsgreinum háskólans eiga möguleika á að læra þar táknmál. Þannig gætu heyrnarlausir notið þjónustu sálfræðings eða lögfræðings sem kann táknmál og nemendur í málvísindum gætu lagt stund á táknmál og unnið að rannsóknum á því með námi og síðan að loknu námi. Nemendur í sagnfræði gætu skoðað sögu táknmálsins og heyrnarlausra og lært táknmálið. Nemendur í mannfræði gætu lært táknmál, fræðst um það og stundað rannsóknir á menningarlegum mun samfélaga heyrnarlausra og heyrandi. Jafnframt þarf að veita meira fé til rannsókna á íslenska táknmálinu svo fleiri geti lagt stund á þær.

Í lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra frá árinu 1991 er kveðið á um að eitt af meginhlutverkum miðstöðvarinnar sé að stunda rannsóknir á íslensku táknmáli. Frá stofnun hennar hefur hún ekki gefið út neina rannsókn á táknmáli sem hægt er að vísa í og ekki gefið út námsefni á táknmáli nema það sem stofnunin kennir sjálf. Nemendur í táknmálsfræði geta því ekki stuðst við neina rannsókn á íslensku táknmáli sem veldur þeim vissum erfiðleikum í náminu samanborið við nám í öðrum deildum Háskóla Íslands. Alla táknmálsnámsefnisgerð þarf því að efla mikið til að hægt sé að kenna og nema málið á sem bestan hátt.

Vesturhlíðarskólinn, eini grunnskólinn á Íslandi fyrir heyrnarlaus börn, var lagður niður vorið 2002 og starfsemin flutt í Hlíðaskóla sem nefnist nú Hlíðaskóli táknmálssvið. Því er aðkallandi að kennarar í almennum skóla eins og Hlíðaskóla kunni táknmál og jafnvel kennarar í öðrum skólum sem heyrnarlaus eða heyrnarskert börn kunna að vera í því að foreldrar heyrnarlausra eða heyrnarskertra barna geta valið þann möguleika að setja barn sitt í hverfisskólann. Táknmálsfræðideild Háskóla Íslands gæti í náinni samvinnu við Kennaraháskóla Íslands boðið nemendum Kennaraháskólans táknmálsfræðinám og metið það til eininga sem hluta af kennaraprófi. Þannig gætu nemendur í Þroskaþjálfaskóla, leikskólakennaraskor og íþróttakennaraskor lært táknmál samhliða námi sínu í Kennaraháskólanum eins og nemendur í grunnskólaskor. Mikill hagur yrði í því að fólk í þessum störfum kynni táknmál. Jafnvel mætti síðar kenna táknmál í Háskólanum á Akureyri eða í öðrum háskólum á landsbyggðinni ef eftirspurn væri eftir því.

Táknmálsfræðinámið verður ekki eflt á einum degi. Það þarf að gefa þessu öllu tíma til að dafna. Sýna þarf þeim sem hafa áhuga á að fara í táknmálskennaranám og túlkanám að starfsgrundvöllur þeirra og framtíð séu tryggð.

Í öðru lagi þarf að tryggja fjárveitingar til allrar þeirrar túlkaþjónustu sem fellur undir frumvarpið. Tryggja þarf rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu í félagslegum tilgangi. Með því er jafnframt komið á menntunar- og atvinnuöryggi fyrir táknmálstúlka.

Táknmálstúlkastarfið þarf að lögvernda. Tryggja þarf að táknmálstúlkanám í Háskóla Íslands verði alltaf í boði því fjölga þarf táknmálstúlkum á tveggja ára fresti, sérstaklega í ljósi þess að virkir vinnutímar táknmálstúlka eru aðeins 20 stundir á viku vegna þess hversu slítandi starf þeirra er. Þá þarf að mennta túlka daufblindra sérstaklega því daufblindir nota snertitáknmál.

Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er texti af vísindavef háskólans sem skýrir táknmál á mjög einfaldan hátt en eins og áður hefur komið fram hafa engar rannsóknir farið fram á íslensku táknmáli sem hægt er að vísa til.

Eins og ég hef nefnt áður er frumvarpið flutt öðru sinni nú. Í síðasta flutningi fékk það góða athygli en því miður var ekki sömu athygli að fagna hjá menntamálanefnd. Frumvarpið fékk nánast enga umfjöllun í nefndinni og ég er að vonum mjög svekkt yfir því. Hver sem ástæðan kann að vera vil ég fá að segja það, virðulegi forseti, að ég er nokkurn veginn viss um að í þinginu er almenn sátt um að koma réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra inn í hið lögbundna form sem táknmálsfrumvarpið er. En ég held að meginástæðan sé þó að þingheimur og þó sérstaklega stjórnarflokkarnir hræðist einhvern himinháan kostnað sem mundi koma á frumvarpið í framkvæmdinni. Ég held að sá ótti sé ástæðulaus ef menntamálanefnd settist aðeins niður, gæfi hugmyndafluginu lausan tauminn og kæmi með tillögur sem sennilega mundu birtast í séráliti. Það vil ég endilega. Ég vil sjá óskir stjórnarliðanna. Ég er nokkuð viss um að samfélag heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, sem lögin eiga að ná til, vill það líka. Ég er tilbúin til að skoða allar lausnir svo framarlega sem þær skerða ekki frelsi og réttindi manna sem einstaklinga á nokkurn hátt en stuðla að því að allir fái tækifæri til að njóta sín sem sjálfstæðir einstaklingar.

Ég tek það líka fram að öllum réttindum fylgja ákveðnar skyldur. Skyldur heyrnarlausra í þessu samhengi eru þær að þeir sjálfir láti vita af sér og túlkaþörf sinni og ég er viss um að þær skyldur verða virtar.

Ísland er lítið land, það hefur oft verið sagt. Það hefur líka verið sagt að við séum framsækin. Við ættum að nota okkur þetta tvennt hérna núna. Smæð landsins og mannfjöldi gerir það að verkum að við ættum að eiga auðvelt með að koma lögbundnum réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra í ákveðið form eða módel sem aðrar þjóðir geta tekið til fyrirmyndar í stærra samhengi. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa viðurkennt táknmálið og jafnvel þó að nokkrar hafi viðurkennt það er ekki þar með sagt að því sé sinnt af alúð og umhyggju ásamt því að vera sett í ákveðið form. Hjá nokkrum löndum er viðurkenningin ein og sér bara dauður lagabókstafur en miklu máli skiptir hvernig hagvöxtur landsins er. Við Íslendingar státum okkur hins vegar oft af miklum hagvexti og ættum þá að geta verið vel í stakk búin til að geta sinnt réttindum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra af alúð. Látum okkur það eftir með samþykkt táknmálsfrumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og vísa þessum tveimur frumvörpum til menntamálanefndar með náðarsamlegri ósk um ítarlega umfjöllun af hálfu nefndarinnar.



[18:29]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kem hér upp til að lýsa svipuðum almennum stuðningi við þetta mál og ég gerði í fyrra. Ég geri það fyrir hönd flokks míns sem því miður er ekki aðili að ríkisstjórn en verður það innan skamms.

Ég vil segja í tilefni af orðum hv. flutningsmanns um menntamálanefnd að þau eru alveg rétt. Frumvarpið kom inn í þingið að ég hygg á svipuðum tíma í fyrra og fór til menntamálanefndar eftir 1. umr., lá þar allan veturinn og var ekki rætt. Í rauninni gerðist ekkert með það nema að leitað var umsagna eins og skylt er. Þó má kannski segja að óbeint hafi orðið ákveðinn árangur af skörulegri framsögu flutningsmanns og vinnu hennar við frumvarpið, sem ég kem að síðar.

Það er þó nánast sorglegt fyrir okkur sem sátum hér í fyrra og urðum flutnings hv. þingmanns áheyrsla að ekkert skuli hafa gerst eftir þetta eina ár vegna þess að þegar málið var flutt hér í fyrra var það fyrir okkur sum ákveðin uppgötvun og stund sem ég held að við gleymum ekki, þ.e. í fyrsta sinn sem þetta tungumál var notað í sölum Alþingis Íslendinga, og ég held að þeir sem sátu hér og hlustuðu á það í fyrra hafi svona í huganum heitið stuðningi sínum við þennan málstað nema þeir væru úr steini, sem þeir eru held ég ekki.

Það er ekki aumingjagæska eða einhvers konar tilfinningasemi sem stendur á bak við það heldur ósköp einfaldlega jafnréttishugsjónir og hugmyndir jafnaðar sem standa til þess að fólk sem hefur þetta mál að tjáningarformi á að standa jafnfætis og hafa sama rétt og við hin sem tjáum okkur með öðrum og hefðbundnari hætti.

Það er ekki bara þetta mál sem hér er endurflutt heldur nær þessi saga því miður langt aftur í tímann. Nefnd á nefnd ofan á opinberum vegum, barátta sem því miður hefur haft of lítinn árangur og skal þó ekki vanvirt það sem vel er gert, svo sem þær milljónir sem hæstv. menntamálaráðherra lagði í félagslega táknmálstúlkun fyrr í haust og ber engan skugga á þó að það takist fram að til þess þurfti fyrst mótmæli heyrnarlausra fyrir utan þingið og síðan utandagskrárumræðu af hálfu stjórnarandstæðings, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Það var vel gert og skörulega, en eins og hv. þingmaður vakti athygli á þá er þetta redding, það er til skamms tíma sem menntamálaráðherra kom þessum hlutum í lag og þeir hafa ekki verið festir niður á sínum stað í stjórnkerfinu, eru að ég hygg veittir nú annaðhvort af ráðstöfunarfé ráðherra eða potti ríkisstjórnarinnar en eru ekki í fjárlagafrumvarpinu á sínum stað í yfirliti yfir fjárveitingar frá menntamálaráðuneytinu eða gegnum menntamálaráðuneytið eins og vera ætti.

Af hverju sinnum við þessu svona dauflega? Það strandar á fé og strandar á áhuga- og sinnuleysi, strandar kannski á því að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir eru ekki svo stór hópur að flokkarnir sækist sérstaklega eftir stuðningi þeirra eins og er stundum um aðra hópa, og hann hefur ekki, ef ég má orða það kímilega, mjög hátt um sinn vanda. Það er þó að aukast, og í takt við aukinn þrýsting þeirra og aðstandenda þeirra opnast auðvitað flokkarnir líka og stjórnmálakerfið allt.

Ég held að þriðja ástæðan sé sú, og þá kem ég kannski að hinum óbeina árangri sem ég tel að hv. flutningsmaður hafi náð í fyrra, að við höfum ekki sinnt því, þrátt fyrir margyfirlýsta aðdáun á eigin tungumáli og fjölda ástarheita við íslenskuna, að hirða um stöðu íslenskunnar í samfélagi okkar. Við það hafa heyrnarlausir, heyrnardaufir og daufblindir orðið varir því þegar þeir sækja fram og vilja að mál þeirra sé sett jafnt íslensku okkar hinna og fara að skoða lögin og reglurnar sem gilda um hana kemur í ljós að sjálf þjóðtungan er ekki þjóðtunga nema í munni okkar. Á hana er ekki minnst í stjórnarskránni, um hana er óvíða fjallað í lögum og það þýðir að þegar kemur að þeim sem ekki tala íslensku, að táknmálinu og líka nýbúum, ég er ekki að jafnsetja þá heyrnarlausum, heyrnardaufum og daufblindum, en þeir eiga líka við þennan vanda að stríða, að þeir ná ekki þeim rétti sem væri eðlilegt að þeir hefðu, t.d. til þýðinga eða túlkunar, vegna þess að staða íslenskunnar er svo vanskýrð.

Fleira má nefna sem hvetur til þess að hún skýrist betur og þar er auðvitað hnattvæðingin stikkorðið. Á Íslandi höfum við alltaf, frá upphafi landnáms, í raun og veru lifað í veröld margra tungumála þótt íslenskan hafi verið sterkust. Það gerðist líka í gegnum alla Íslandssöguna og það á sér enn stað en núna í auknum mæli og miklu hraðar en áður þannig að okkur ber skylda til þess, sem erum í þessum sal og eigum að heita stjórnvöld í landinu, að skilgreina hlut íslenskunnar, skilgreina hlut móðurmáls eða a.m.k. fyrsta máls þeirra sem ekki geta talað íslensku og skilgreina hlut annarra mála sem koma okkur við, bæði alþjóðamálanna og mála þess fólks sem hefur kosið að flytjast hingað og gerast Íslendingar.

Ég flutti um þetta tillögu ásamt ýmsum ágætum hv. þingmönnum öðrum úr öllum flokkum í fyrra. Henni var vísað til ríkisstjórnarinnar og þegar það var ákveðið í menntamálanefnd að leggja það til skildi ég það svo að það væri m.a. vegna þess málflutnings sem hv. flutningsmaður hafði hér í frammi í fyrra, vegna þess að sérstaklega var tekið til táknmáls heyrnarlausra í þessari tillögu minni.

Um leið og ég sakna þess að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera hér, sem er kannski ekki von, og heldur enginn úr hennar flokki viðstaddur umræðuna þá heiti ég því að halda áfram að berjast fyrir því að tekið verði mark á þessari tillögu minni í ríkisstjórninni og hyggst sækja það mál hér skörulega næstu árin, bæði fyrir íslenskuna sem mér þykir vænt um og fyrir táknmál heyrnarlausra sem ég tel að eigi að eiga sama rétt.

Ég ætla ekki að fjalla efnislega um einstakar greinar í þessum málum. Ég gerði það í fyrra og ég hef sama fyrirvara, og vil taka það fram til þess að vera bara hreinskilinn með það, um ákveðna hluti í því, m.a. notkun táknmáls í fjölmiðlum. Við verðum að finna einhverja málamiðlun á milli hins fyllsta réttar annars vegar og hins vegar þess að á Íslandi eru fjölmiðlar ekki sterkir og ef við setjum of miklar kröfur á þá um kostnað er hætt við að þeir nái ekki þeirri breidd sem til þarf og því afli sem þeir þurfa að hafa. Ég segi „málamiðlun“ á þessu sviði sem ég tel að hægt sé að ná með t.d. aukinni túlkaþjónustu.

Ég vil svo segja að mér fannst ræða hv. flutningsmanns athyglisverð og sérstaklega kannski þegar hún benti á að hinn mikli galli okkar og sá eilífi tilvistarvandi að vera fámenn þjóð, smáþjóð, gæti reynst okkur kostur í þessu efni. Við erum fámenn þjóð, við höfum þess vegna mikla nánd, við höfum yfirsýn yfir hvern og einn í samfélagi okkar og þurfum ekki að umgangast fólk eins og ópersónulegar stærðfræðistærðir, einhverja hópa, og við búum við það sem margir hafa talið illt að samþjöppun byggðarinnar er orðin töluverð. Það þykir mörgum ókostur en það er kostur í þessu dæmi því þá væri hægt að reiða fram þjónustu fyrir mjög stóran hóp landsmanna á einum stað eða í raun og veru einu byggðarlagi. Ef við tökum höfuðborgarsvæðið, hvort sem við tölum um það sem höfuðborgarsvæðið hið minna sem er þá Reykjavík og nágrenni, eða höfuðborgarsvæðið hið stærra, þríhyrninginn Keflavík, Akranes, Selfoss, þá má koma við töluverðri þjónustu og tiltölulega ódýrri miðað við þau lönd þar sem miklu meiri dreifing er á íbúum.

Mér þóttu þetta merkileg ummæli og lýk máli mínu þar en þó með því heiti að meira verði gert í menntamálanefnd að þessu sinni. Ég held að okkur sem þar sitjum sé skylt að gera það og reyna á sem kostur er hvernig við getum fylgt þessu máli fram, ef ekki frumvarpinu sjálfu þá að skapa einhverjar aðstæður til þess að stigin verði skref fram á við í þessu efni sem hafa verið ákaflega fá og tilþrifalítil á undanförnum árum.



[18:41]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumvarpi sem við ræðum hér og ég vil segja í upphafi að ég tek fyllilega undir meginmarkmið frumvarpanna beggja en verð samt að viðurkenna að það sem ég staldra kannski við er umfangið, en samkvæmt orðanna hljóðan í frumvörpunum ætti ríkisvaldið að tryggja túlkaþjónustu alls staðar og alltaf. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort möguleiki sé á því að þrengja hringinn eitthvað. Ég get tekið sem dæmi hvort þurfi túlka í allar kirkjur þegar messur standa yfir, í allar verslanir o.s.frv. Í því tilliti tek ég undir með hv. þm. Merði Árnasyni varðandi fjölmiðlana, að við reynum að finna einhverja málamiðlun og þar gætum við á einhvern hátt kannað til að mynda búsetuna og reynt að þrengja hringinn og gera skynsamlega áætlun sem kæmi til móts við heyrnarlausa.

Ég er sammála því sem segir í frumvarpinu um að efla táknmálsfræðinám. Ég er þess minnug þegar Háskóli Íslands felldi niður nám í táknmálsfræði, það var ekki gott ástand. Ég velti því líka upp í þessari umræðu og ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar hvort ekki væri athugandi að kenna einhver grunnundirstöðuatriði táknmáls í grunnskólum, vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að t.d. krakkar læri það, þau eru svo fljót að grípa þetta og það mundi þá líka jafna aðstöðu þeirra barna sem glíma við heyrnarleysi.

Annar punktur í þessu er líka sá sem snertir atvinnulífið. Ég held að það væri mjög þarft verkefni að stór fyrirtæki, og að sjálfsögðu þau smærri líka ef möguleiki er á, sendu þó ekki væri nema einn starfsmann í fyrirtækinu á námskeið þannig að hægt væri að bjarga sér með táknmál og að viðkomandi starfsmaður gæti þá aðstoðað heyrnarlausa. Ég held að þetta yrði ekki lengi að vinda upp á sig og mér finnst að það ætti að vera sjálfsögð þjónusta. Til að mynda var þetta gert, veit ég, í Seðlabanka Íslands. Þar var starfsmaður sendur á námskeið til að læra grunnundirstöðuatriði og ég vissi reyndar til þess að sá starfsmaður starfaði á kvöldin í sjoppu hér í bæ og það var orðið þannig að mjög margir heyrnarlausir sóttu þjónustu þangað vegna þess að þeir voru auðvitað svo ánægðir með að einhver skildi þá og þeir gætu virkilega mætt á svæðið og talað á sínu tungumáli. Ég held að þetta sé punktur sem við ættum að horfa á og ég nefndi þetta einmitt í utandagskrárumræðu nýlega hvort ekki væri á einhvern hátt hægt að skora á atvinnulífið að bregðast við þessu.

Hér var utandagskrárumræða um daginn þar sem hæstv. menntamálaráðherra gaf það út að hún eða ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja til aukafjármagn í félagslega táknmálstúlkun. Ég tel að þetta sé mikilvægt skref í réttindabaráttu heyrnarlausra og fagna þessu mjög enda ákaflega brýnt.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir kom inn á það áðan í framsögu sinni að hún er tilbúin að skoða allar lausnir sem skerða ekki réttindi heyrnarlausra. Ég held að þetta komi nákvæmlega inn á það sem ég ræddi áðan, hvort við gætum einhvern veginn reynt að þrengja þetta án þess þó að skerða réttindin því að þetta er dálítið víðtækt í frumvörpunum. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að ekki sé nóg að viðurkenna táknmálið en fylgja því ekki eftir með aðgerðum. Því tel ég afar brýnt að vanda vel til verks.

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í greinar frumvarpsins. Ég vil aðeins segja að ég tel að þessi atriði verði að skoða í hv. menntamálanefnd og mun reyna að beita mér fyrir því. Við hljótum að geta fundið viðunandi lausn sem yrði þá upphaf á þessu máli.



[18:46]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna viðbrögðum og viðhorfum hv. varaformanns menntamálanefndar, Dagnýjar Jónsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Ég tel mjög mikilvægt að hún spegli með þessum hætti viðhorf annars stjórnarflokkanna tveggja. Tel ég það gott. En sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins um mannréttindamál er náttúrlega ekki viðbrugðið að venju enda láta þeir ekki sjá sig í sölunum þegar slík grundvallarmál sem þetta eru til umræðu eins og lifir ágætlega í minningunni frá því í síðustu viku þegar við ræddum hliðstætt mál sem snertir sama samfélagshóp, þ.e. frumvarp hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um textun sjónvarpsefnis. Þá var engin leið að kreista nokkurt einasta hljóð út úr Sjálfstæðisflokknum, þeim stóra í stjórnarsamstarfinu og fá einhverjar línur lagðar um það hvort ekki væri möguleiki á því að þessi réttlætismál yrðu afgreidd frá Alþingi Íslendinga í vetur. Þinginu væri mikill sómi að því, öllum flokkunum sem hér eru, ef menn færu einu sinni upp úr skotgröfum stjórnmálaátakanna hinna dags daglegu og afgreiddu slíkt mannréttindamál frá þinginu.

Virðulegi forseti. Ég tel að málið sem við ræðum núna sé grundvallarmál, mál sem pólitískar málamiðlanir ná ekki yfir. Þess vegna skora ég á Sjálfstæðisflokkinn að rífa sig upp úr farinu. Hvert einasta skipti sem réttindamál einhvers konar ber á góma flýja þeir í skjól. Það er ekki einu sinni sá bragur á þeim að þeir komi hér og tali gegn málunum. Þeir reyna að þegja þau einhvern veginn út af borðinu, svæfa þau síðan í nefnd þannig að þau komi aldrei aftur inn í þingsalina til neinnar endanlegrar afgreiðslu.

Þetta er mannréttindamál að mínu mati eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti. Með samþykkt þessa frumvarps til laga væru mannréttindi stórs hóps, ákveðins hóps í samfélaginu, þess hóps sem býr við heyrnarleysi eða heyrnarskerðingu hvers konar, viðurkennd. Hin ítarlega og góða greinargerð með frumvarpinu upplýsir okkur um sögu táknmálsins, stöðu heyrnarlausra og þá réttindaskrá sem til er lögð að verði að fylgja eftir þannig að staða þessa hóps sé viðunandi í samfélaginu. Þá er ég að meina jafnstöðu, jafnstöðu þess hóps sem býr við heyrnarleysi og heyrnarskerðingu á við okkur sem erum heyrandi til að taka fullan þátt í samfélaginu. Þetta mál er vissulega nátengt textunarfrumvarpinu sem er hin hliðin á krónunni, sem sagt aðgengi heyrnarlausra og heyrnarskertra að samfélaginu, samfélagi sem byggist meira og minna á miðlun upplýsinga og aðgengi og aðgangi okkar að þeim. Á meðan það er ekki í lög fest að sjónvarpsstöðvunum, eða efnisveitunum eins og Sjálfstæðisflokkurinn kallar þetta eftir að Síminn keypti Skjá 1, beri skylda til að texta íslenskt efni sem nokkur kostur er að texta með einhverjum eðlilegum undantekningum með beinar útsendingar o.s.frv. þá gerist ekkert af viti í þessu máli. Ríkisútvarpið sem stofnun hefur brugðist skyldu sinni. Ríkisútvarpið hefur brugðist í því að hafa forgöngu og sóma í þessu máli. Ríkisútvarpið hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að sýna þessum hópi sanngirni, réttlæti og þá virðingu sem hann á skylda með því að beita afli sínu til að texta allt það íslenska efni sem sýnt er og hefur verið unnið fyrir fram sem er töluvert efni.

Frægt er að þeir leggi í að texta Spaugstofuna og það er ágætt. En við það situr. Svo eru þættir sem teknir eru upp með ágætum fyrirvara eins og laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þar var t.d. frægt viðtal um helgina við hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson. Þeim hefði verið í lófa lagið að texta þetta eins og hvert annað íslenskt efni sem unnið er fyrir fram.

Málið er í fyrsta lagi viðurkenning á mannréttindum, viðurkenning á því að íslenska táknmálið sé jafnsett tjáningarform í samskiptum á milli manna og íslensk tunga. Þess vegna er, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„... óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir tala.“

Eins og staðan er í dag er fólki mismunað. Því er mismunað eftir því hvort það heyrir eða heyrir ekki og það er ósanngjarnt og það er óréttlátt að koma þannig fram við einhvern hóp í samfélaginu vegna þess að hann býr við fötlun. Það er einfaldlega ólöglegt, óeðlilegt og ósiðlegt. Þetta mundi allt breytast ef þetta frumvarp yrði að lögum í vetur, frumvarp sem færir það í lög að íslenska táknmálið hafi jafna stöðu á við íslenska tungu. Það er sanngjarnt og eðlilegt í samfélagi sem getur hvorki skákað í skjóli fávísi né fátæktar. Við bárum stöðuna í textunarmálunum saman við stöðuna í öðrum Evrópulöndum sem er mjög misjöfn. Hún er framúrskarandi í Bretlandi, ágæt víða annars staðar en hörmuleg á Íslandi og í Albaníu. En Albanía hefur sér það til málsbóta að vera fátækt samfélag sem er að rísa úr rústum ömurlegra tíma og mun sjálfsagt taka þessi mál til umræðu eins og önnur. En Ísland hefur ekkert þvílíkt sér til málsbóta. Ísland er eitt af ríkustu og upplýstustu samfélögum í heimi. Tölvueign, upplýsinganotkun, upplýsingaaðgengi og öll slík mál eiga sér vart sinn líka og á Íslandi. Þess þá heldur hlýtur það að brenna á okkur að mismuna ekki einum hópi í samfélaginu með þeim hætti að veita ekki fullt aðgengi eins og kostur er að þessu nútímaupplýsingasamfélagi. Þess vegna skora ég á Sjálfstæðisflokkinn, stóra flokkinn í ríkisstjórnarsamstarfinu, flokkinn sem því miður hefur farið með völdin sl. 14 ár, að koma og gefa einhvern ádrátt um það hvert viðhorf forustumanna hans sé. Ekki hefur nú legið á hv. formanni menntamálanefndar, Gunnari Birgissyni, að tjá sig þegar kemur að því að brjóta réttindi á kennurum. Hann var fyrstur hér til að reka áróður fyrir því að brotin yrðu mannréttindi á kennurum með því að setja lög á kjaradeilu þeirra. En það bólar ekkert á hv. þingmanninum þegar um er að ræða mannréttindamál, réttarbætur, sanngirnismál eins og við ræðum hér núna. Ég þreytist aldrei á því að skora á Sjálfstæðisflokkinn að taka þátt í umræðu um þessi mál. Alþingi Íslendinga, löggjafinn, á að hafa forgöngu að slíkum réttlætismálum, slíkum réttindabótum og í því eiga allir þingmenn allra flokka að sjálfsögðu að taka þátt. Ég vil aftur á móti hrósa þingmanni Framsóknarflokksins fyrir að taka þátt í umræðunni og lýsa afdráttarlausum stuðningi við málið. Menn gætu gert sér í hugarlund hver staðan væri í þessum málum, mannréttindamálum heyrnarlausra, heyrnarskertra og annarra hópa, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri utan ríkisstjórnar. Þá væri aðeins öðruvísi um að litast í samfélagi okkar. Þá væri staðan í samfélaginu ögn réttlátari. Þá væri gengið fram af sanngirni við hópa og menn legðu sig í líma við það að veita fólki jafnstöðu, jöfn tækifæri og jafnt aðgengi að samfélaginu. Staðan eins og hún er í dag er hrein og klár mismunun eins og ég sagði áðan.

Þeir sem hafa rætt um málið á undan mér hafa komið inn á til að mynda stöðu táknmálsfræðinámsins. Hún er óþolandi. Hún er í takt við svo margt annað í íslenska menntakerfinu, gersamlega óþolandi, og fyrir því þurfti að róa lífróður fyrir ári síðan að námið hreinlega legðist ekki af í Háskóla Íslands. En það er illa að því staðið. Það eru allt of fáir túlkar menntaðir eins og staðan er núna og þar verður að taka mjög hressilega til hendinni eigi einhver árangur að nást í þessum málum og eigi að vera hægt að fylgja eftir lagabreytingu eins og þeirri sem við ræðum hér verði hún að veruleika sem eru samt ekki miklar líkur á fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn verður kominn út úr ríkisstjórn.

Hérna fylgir með nokkuð ítarleg réttindaskrá og gott yfirlit yfir hvað þurfi að breytast og hvaða réttindi heyrnarlausra og heyrnarskertra þurfi að fylgja slíku. Líkt og hv. þingmenn Mörður Árnason og Dagný Jónsdóttir reifuðu er það að sjálfsögðu mál sem rætt og unnið verður í framhaldinu, þ.e. hverju má breyta og bæta, hverju þarf að bæta við, hvort einhverju sé ofaukið þar o.s.frv. Það fylgir að sjálfsögðu útfærslunni.

Meginmálið er að við erum með frumvarp til laga þar sem um er það að ræða að bæta úr mismunun heyrnarlausra og heyrnarskerta í íslensku samfélagi, veita þeim sanngjarnan, réttlátan og eðlilegan aðgang að samfélaginu.

Ég vil í lokin, til að þeir sem eiga eftir að tala komist að áður en þingfundi lýkur, nota tækifærið og skora aftur á Alþingi Íslendinga og stjórnarflokkana að sjá sóma sinn í því að veita þessu máli brautargengi en ekki svæfa það svefninum langa í nefnd eftir þessa umræðu.



[18:57]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki ástæða til að lengja umræðuna því ég get tekið undir það sem þeir hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í henni á undan mér hafa sagt. Ég fagna því að málið skuli vera komið fram á nýjan leik. Ég tók undir það við 1. umr. á síðasta þingi á þeim nótum sem ég geri hér. Ég styð þetta mál heils hugar með oddi og egg enda er ég fyrir hönd míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einn af flutningsmönnum þess.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur brotið í blað í sögunni með því að færa íslenska táknmálið hingað á vettvang Alþingis Íslendinga. Það hefur hún gert með miklum glæsibrag. Þjóðin hefur fylgst með og dáðst að henni fyrir það hve sköruleg framganga hennar hefur verið í þinginu. Hún á heiður skilið fyrir vinnslu þessara frumvarpa sem hún hefur lagt fram. Þau eru nú þegar orðin þrjú. Hér hafa verið nefnd til sögunnar, auk þessara tveggja sem við ræðum nú, frumvarp um textun íslensks sjónvarpsefnis og svo boðar hún í þessu frumvarpi sem hér er til umræðu frumvarp um menningarsetur heyrnarlausra. Ég verð að segja að ég hlakka til að sjá það frumvarp, það fjórða í kippunni um frumvörpin sem snerta málefni heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.

Ég nefndi menningarsetur heyrnarlausra. Ég vil fá að segja nokkur orð um menningu heyrnarlausra. Ég hef átt þess kost að kynnast örlítið þessum heimi í gegnum menningarstarf því að það gerðist á árum áður að ég fékk að starfa með leikhópi heyrnarlausra. Þar var einn leikendanna einmitt Sigurlín Margrét Sigurðardóttir. Hún lék á sviðinu í Háskólabíói ásamt félögum sínum lystilega litla leiksýningu sem ég fékk að leikstýra þeim í. Ein merkilegasta reynslan frá leikstjórnartíð minni er að hafa fengið að kynnast heimi heyrnarlausra og tungumáli heyrnarlausra sem ég vil leyfa mér að fullyrða að er ekki síður litríkt heldur en íslenskan sem töluð er. Það er tjáningarríkt vegna þess að allur líkaminn er virkur við meðferð málsins. Því er það í raun miklu dramatískara mál en hið talaða orð og þar af leiðandi afar vel fallið til að flytja á leiksviði. Eitt það merkilegasta sem maður getur upplifað er að heyra táknmálskór syngja og ég hvet alla sem ekki hafa heyrt það til að leggja sig eftir því að hlusta á íslenska táknmálskórinn, sem er til, syngja því það er merkileg upplifun, virkilega merkileg. Ég hlakka því til að sjá fjórða frumvarpið í kippunni, frumvarp um menningarsetur heyrnarlausra.

Af því að ég starfa í menntamálanefnd þingsins vil ég taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar sem sagði fyrr í umræðunni að málið hefði legið í þagnargildi menntamálanefndar allan síðasta vetur. Það var mjög miður. Þetta mál, eins og mörg önnur góð mál, þurfti á lokasprettinum í þinginu hér undir vor að gjalda þess forgangs sem fjölmiðlafrumvarpið hafði. Þetta mál ásamt mörgum öðrum merkum málum var látið liggja kyrrt í möppum þingmanna í menntamálanefnd án nokkurrar umræðu.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar að ég kem til með að beita mér ásamt með honum og fleirum í nefndinni auðvitað fyrir því að þetta gerist ekki aftur. Þetta mál verður að taka til umfjöllunar í nefndinni svo fljótt sem kostur er.

Hér hefur verið sagt að um mannréttindamál sé að ræða, mikið jafnréttismál, og það er að sjálfsögðu rétt og eðlilegt að taka undir það. Mér þykir til fyrirmyndar hvernig hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur fært hingað inn á okkar vettvang lítinn hóp sem hefur ekki notið jafnréttis eða mannréttinda í samfélagi okkar, kannski minni mannréttinda en nokkrir aðrir hópar í samfélaginu, og það eru daufblindir. Það hvernig málefni daufblindra hafa fengið sérstakan sess í ræðum hv. þingmanns þegar hún hefur talað fyrir þessum málum hefur virkilega opnað augu mín og eflaust margra annarra sem á hafa hlýtt fyrir málefnum þessa hóps. Hann er lítill og það er svo mikil hætta á að svona litlir hópar hafi ekki afl til að berjast fyrir hagsmunum sínum en hv. þingmaður hefur lagt sitt af mörkum til þess að breyta því. Á hún heiður skilinn fyrir það.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði að þessi hópur hefði almennt ekki hátt, sagði það kímilega, en ég vil rifja það upp með hv. þingmönnum að fyrir umræður um stefnuræðu forsætisráðherra í haust ætluðu heyrnarlausir baráttumenn hreint að æra okkur sem stóðum hér í þessum sal með flauti miklu þar sem heyrnarlausir mættu með miklar blístrur á Austurvöll og virkilega létu í sér heyra. Ég treysti því og veit að heyrnarlausir halda áfram að hafa hátt þangað til málefni þeirra eru komin í höfn. Þau eiga það sannarlega inni því að þessi mál hafa legið í láginni allt of lengi.

Ég lýsi hér yfir, hæstv. forseti, öflugum stuðningi við þetta mál, stuðningi mínum og þingflokks míns, og ég treysti því að málið fái brautargengi og örugglega einhverja umræðu í menntamálanefnd á þessum vetri.



[19:03]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fylgja þessu frumvarpi úr hlaði með örfáum orðum. Ég er einn af 16 flutningsmönnum þess, 16 flutningsmönnum sem koma úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Þetta er mjög myndarlegur hópur og ég hygg að það endurspegli — ég trúi því a.m.k. — að það endurspegli að frumvarpið njóti töluverðs fylgis á hinu háa Alþingi og ég vona svo sannarlega að þegar að því komi skipti í raun og veru engu máli hvar í flokki menn standa. Hér er að sjálfsögðu verið að fjalla um sjálfsagt mannréttindamál, að táknmálið skuli vera fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga, mál sem í raun og veru ætti að vera hafið yfir alla pólitíska flokkadrætti og pólitískt dægurþras.

Ég sagði það hér á dögunum þegar mælt var fyrir frumvarpi um textun á sjónvarpsefni, sem líka er sjálfsagt jafnréttismál, að það væri okkur Íslendingum til skammar hversu skammt á veg við erum komin þegar um er að ræða sjálfsögð réttlætismál fyrir þennan þjóðfélagshóp sem er glettilega stór hluti af þjóðinni. Það kom fram á dögunum að u.þ.b. 10% af þjóðinni eiga við örðugleika að etja þegar heyrn er annars vegar. Það er ekki lítill hópur, frú forseti.

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu nú. Hér hafa verið fluttar ágætar ræður um þetta mál, ég er sammála efni þeirra og sé enga ástæðu til að endurtaka það. Eftir að hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir kom til liðs við okkur í þingflokki Frjálslynda flokksins hafa augu mín opnast fyrir því hve skammt við erum á veg komin þegar þessi mál eru annars vegar. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, alls ekki, að ástandið væri svona slæmt og eftir því sem ég kynnist réttindamálum heyrnarlausra betur þess sannfærðari verð ég um að það sé mjög brýnt að við, íslenska þjóðin, tökum okkur tak og gerum gangskör að því að lagfæra þessi mál. Þetta er stór hópur þjóðfélagsþegna sem greiða sitt til samfélagsins og þessi hópur á sjálfsagða kröfu til þess að samfélagið veiti þeim grundvallarþjónustu á móti.

Ég vil að lokum, frú forseti, fá að koma á framfæri þökkum til hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur. Hún hefur flutt mál sín og undirbúið þau af miklum dugnaði og mikilli elju. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hversu mikla vinnu hún hefur lagt í frumvörpin sem hún hefur mælt fyrir á hinu háa Alþingi. Ég vona svo sannarlega að hv. menntamálanefnd taki við þessum frumvörpum og að þeir sem sitja þar sjái til þess að þau fái þinglega meðferð og að stjórnarflokkarnir, sem hljóta jú að bera ábyrgð á því að þessi mál hafa hingað til ekki komist í gegnum þingið, sjái nú sóma sinn í því — þó að þeir séu kannski ekki endilega fullkomlega sammála því sem stendur í þessum frumvarpstextum — að koma þá með breytingartillögur, afgreiða þessi mál úr nefndunum þannig að þau komist aftur til 2. og helst 3. umr. Ég óska þess heitast að þessi frumvörp verði að lögum þannig að þessi mál komist endanlega á þann rekspöl sem þau eiga skilið.



[19:07]
Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig um þessi mál.

Mig langar að svara hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, aðeins að nefna nokkur atriði sem hún talaði um. Mér finnst það einmitt mjög góð hugmynd að börn í grunnskóla læri táknmál. Þetta er þeim mjög aðgengilegt og þau eiga mjög auðvelt með að tileinka sér þetta mál, en þá spyr ég á móti: Hvar eru táknmálskennararnir sem eiga að kenna börnunum? Í frumvarpinu er einmitt talað um að það vanti menntun, fleiri menntaða táknmálskennara. Hv. þingmaður óskaði sérstaklega eftir þessu en við þurfum að bæta stöðu þeirra heyrnarlausu sem leggja þetta fyrir sig.

Síðastliðin ár hefur verið einstefna hjá ríkisvaldinu. Samfélag fyrir alla, ég hef oft fengið það á tilfinninguna að Ísland sé ekkert samfélag fyrir alla. Samt er ákveðin stefna til varðandi þessi mál. Ég sjálf mundi vilja að táknmálið kæmi inn í þetta samfélag fyrir alla.

Alveg eins og ég sagði áðan í lokaorðum mínum er ég tilbúin til að skoða allar leiðir sem stjórnarflokkarnir sjá, einmitt ræða það hvaða leiðir eru færar í þessum efnum til að réttur okkar sé tryggður. Ég vil gjarnan hitta stjórnarflokkana svo að við getum komið okkur saman um góðar tillögur.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um menningarsetur og er spennt fyrir því að sjá það frumvarp komast hingað inn en því miður er ekki hægt að vinna það núna vegna þess að kostnaður við táknmálsfrumvarpið var mikill og það var sett í forgang. Umræðan um táknmálsmenningarsetrið er hins vegar auðvitað tengd aðgangi okkar að menningu.

Ég þakka öllum kærlega sem töluðu hér í dag og óska þess að frumvarpið fái umræðu í hv. menntamálanefnd.