131. löggjafarþing — 32. fundur
 17. nóvember 2004.
Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.
fsp. RG, 123. mál. — Þskj. 123.

[13:07]
Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins í framhaldi af umræðu um síðasta mál, auðvitað munum við alltaf halda áfram að taka upp mál á Alþingi en það sem ég á við er: Hvernig tryggjum við að umræðan sé tekin hinum megin frá, ekki bara um hversu verðmætt sé að virkja heldur hversu verðmætt er að geyma? Það er endalaus umræða.

Hér er ég með fyrirspurn til iðnaðarráðherra:

Hefur verið sótt um rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun? Hver er staða mála varðandi Villinganesvirkjun annars vegar og hins vegar Skatastaðavirkjun?

Þessi fyrirspurn var að sjálfsögðu komin fram á Alþingi áður en umræðan varð fyrir 3–4 vikum um það að sveitarfélagið hefur ákveðið að setja þessa virkjanir — nú hristir þingmaðurinn höfuðið — ég taldi að niðurstaða hefði verið komin. Að minnsta kosti (Gripið fram í: Tillaga.) var tillaga um að setja virkjanirnar á skipulag. Það er þó a.m.k. komin í gang umræða og meiri vitneskja en þegar ég lagði þessa fyrirspurn fram. Alþingi leyfði Villinganesvirkjun sem var 30 megavatta virkjun, og ekki mjög hagkvæm eftir því sem manni heyrist, og mér skilst að hugsanleg Skatastaðavirkjun þurfi ekki að koma fyrir þingið fremur en aðrar slíkar framkvæmdir þannig að það erum þá við sem tökum upp umræðuna hér. Hún kemur ekki sjálfkrafa inn á þingið og því ákvað ég að spyrja hver staðan væri og hvort búið væri að sækja um rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun.

Hér kom t.d. fram í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar í umræðu um lög um mat á umhverfisáhrifum fyrir stuttu síðan að í raun og veru væri búið að fara með þessa tillögu fyrir Skipulagsstofnun sem hefði fyrir sitt leyti heimilað Villinganesvirkjun. Hann benti á alvarlega vankanta sem væru á því máli um að skoða þyrfti afleiðingar eftir á. Okkur sem vorum í þessum sal við þá umræðu hnykkti mjög við að heyra málflutning þingmannsins og hvort það hefði getað verið eitthvað takmörkuð umfjöllun um málið hvað varðar Villinganesvirkjun sem þegar hefur leyfi frá Alþingi.

Þá er spurningin: Hvernig er með Skatastaðavirkjun? Þetta er líka mjög sérstakt svæði, þessi miklu gljúfur. Annað gljúfur fellur þvert á það gljúfur sem á að virkja. Þetta er mjög fagurt svæði og hrikalegt og þarna mun þetta mál stangast á við ferðaþjónustuna. Það er mjög mikið umhugsunarefni hvar og hvernig hin nýtingin er metin sem felst í að varðveita landið og fara ekki út í virkjanir.



[13:10]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í september sl. óskaði Landsvirkjun eftir því með bréfi til iðnaðarráðuneytisins að fyrirtækið fengi rannsóknarleyfi til 15 ára á vatnasviðum austari og vestari Jökulsár í Skagafirði með fyrirheiti um forgang að nýtingu orkunnar. Þá hefur ráðuneytinu einnig borist sams konar erindi frá Héraðsvötnum ehf. sem er hlutafélag í eigu Rafmagnsveitna ríkisins og heimamanna í Skagafirði þar sem óskað er eftir rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun.

Erindum þessum hefur verið svarað á þann veg að lagalega sé óhjákvæmilegt annað en að hafna þeim. Í erindum þessum er óskað eftir því að veitt verði rannsóknarleyfi með fyrirheiti um forgang að nýtingu orkunnar ef hún reynist hagkvæm. Í 40. gr. raforkulaga er kveðið á um að lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gildi um leyfi til þess að rannsaka orkulindir til undirbúnings raforkuvinnslu. Leyfi til nýtingar orkunnar til raforkuframleiðslu er hins vegar veitt með virkjanaleyfi samkvæmt ákvæðum raforkulaga en ekki samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og því er ekki unnt að veita rannsóknaraðila forgang að virkjanaleyfi á grundvelli þeirra laga. Að auki ná auðlindalögin óbreytt ekki til vatnsorku en á næstu dögum verður lagt fram nýtt lagafrumvarp sem tekur til rannsókna og nýtingar á öllum auðlindum á og í jörðu. Verði það að lögum er tryggt að rannsóknir og virkjanaundirbúningur getur farið fram með eðlilegum hætti á næstu árum.

Með breytingum á lögum um raforkuver frá 1981 var Rafmagnsveitum ríkisins í samstarfi við aðila í Skagafirði veitt á árinu 1999 heimild til að virkja Héraðsvötn í Skagafirði við Villinganes, Villinganesvirkjun, með allt að 40 megavatta afli. Á árinu 2000 hófu þessir aðilar undirbúning að mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og nauðsynlegar virkjunarrannsóknir. Á árinu 2002 féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina og umhverfisráðuneytið staðfesti þann úrskurð stuttu síðar. Þá var á árinu 2003 unnið að sérstöku deiliskipulagi fyrir virkjunarsvæðið eins og lög gera ráð fyrir og var það kynnt í Héraði.

Eins og kunnugt er þarf virkjunin að vera reist í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og hefur verið ágreiningur um það meðal heimamanna hvort fella skuli deiliskipulag virkjunarinnar að aðalskipulagi sveitarfélagsins sem unnið hefur verið að á sl. árum. Enn sem komið er hefur sveitarfélagið ekki fallist á að gera það og hefur því ekki verið unnið að frekari undirbúningi þessarar virkjunar.

Skatastaðavirkjun er virkjun í austari Jökulsá með veitum að Nýjabæjarfjalli og efstu drögum Hofsár og hluta af jökulkvíslum vestari Jökulsár. Í forathugun virkjunarinnar sem gerð var árið 1999 voru kannaðir ýmsir virkjunarkostir með mismunandi veitum frá vestari Jökulsá og jafnframt meira falli virkjunar en áður hafði verið fyrirhugað. Þar var einn kostur sá að frárennslisgöng Skatastaðavirkjunar mundi enda neðan núverandi stíflusvæðis Villinganesvirkjunar og nýta þannig fallorku fyrirhugaðrar Villinganesvirkjunar. Í þeim virkjunarkostum sem hafa verið til athugunar hefur verið miðað við að helstu vatnsvegir frá miðlunarlóni og stöðvarhúsi virkjunarinnar yrðu neðan jarðar.

Staða náttúrufarsrannsókna vegna Skatastaðavirkjunar er góð miðað við að enn er þessi virkjunarkostur á frumhönnunarstigi og ekki hefur verið tekin ákvörðun um endanlega útfærslu virkjunarinnar. Orkustofnun hefur lítið unnið við jarðfræði eða náttúrufarsrannsóknir á svæðinu undanfarin ár nema við rennslismælingar. Fyrir hendi eru nú þegar góðar langtímamælingar á rennsli þeirra vatnsfalla er kunna að verða nýtt til virkjunarinnar en aðeins lítill hluti þeirra mun þó skerðast miðað við núverandi rennsli í byggð. Meginumhverfisáhrif virkjunarinnar yrðu af völdum miðlunarlóns hennar, svokallaðs Bugslóns sem yrði um 28 ferkílómetrar að flatarmáli með um 400 gígalítra miðlunargetu. Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun og margar aðrar stofnanir hafa unnið að rannsóknum á þessu svæði á undanförnum 15 árum þannig að umhverfisáhrif lónsins eru allvel þekkt.



[13:15]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Aðalatriði þessa máls er auðvitað það að ef farið verður í virkjunarframkvæmdir í Skagafirði, sem allt auðvitað mælir með, sérstaklega varðandi Skatastaðavirkjun sem er stærri virkjunin og miklu þýðingarmeiri, á að nýta þessa orku til atvinnusköpunar í héraði, sá er kjarni málsins.

Í þessu sambandi vil ég líka benda á það að rétt vestan við er síðan Blönduvirkjun sem ekki hefur verið nýtt til atvinnusköpunar í héraði og þess vegna mælir allt með því að þetta sé samnýtt til þess að koma Norðurlandi vestra á kortið sem hinum eðlilegasta næsta stóriðjukosti í landinu.

Virðulegi forseti. Það er allt sem mælir með því, bæði atvinnulegar aðstæður í héraði og eins þessar aðstæður sem ég er hér að nefna, og það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem er sú, og var mótuð t.d. með stóriðjuuppbyggingunni á Austfjörðum, að nýta orkusköpunina til atvinnuuppbyggingar í héraði. Þess vegna er hið eðlilega og rökrétta svar og niðurstaða af öllu saman sú að hraða beri þessum rannsóknum til þess að við getum farið að undirbúa (Forseti hringir.) eðlilega uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi vestra eins og heimamenn gjarnan vilja og hafa óskað eftir.



[13:16]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra til hvers maður notar rammaáætlunina. Gerð er rammaáætlun um forgangsröðun á virkjunum og virkjunarkostum en síðan er ekkert gert með það meir. Báðar þessar virkjanir, bæði Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun, koma mjög illa út í viðkomandi rammaáætlun og það eru nægir aðrir virkjunarkostir í landinu sem koma betur út. Mér finnst alveg forkastanlegt að hægt sé að hunsa rammaáætlunina.

Ég vil svo bara vekja athygli á því að þessar virkjanir báðar, og virkjun á þessum svæðum, skaða og hindra uppbyggingu á ferðaþjónustu sem hefur verið vaxandi atvinnugrein á svæðinu. Þetta er eitt af einkennistáknum Skagafjarðar, þessi gljúfur og þessi vatnasvæði, heimsfrægar fljótasiglingar sem þarna eru stundaðar. Þarna í liggja hinir stóru atvinnumöguleikar héraðsins þannig að stórvirkjanir á þessu svæði munu í heild skaða þá ímynd héraðsins sem við höfum verið að vinna að. (Forseti hringir.)

Ég tel þess vegna að þarna eigi að fara mjög varlega og það eigi að hafna hugmyndum um þessar virkjanir.



[13:17]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um að allt mæli með þessum virkjunum í Skagafirði. Það er líka mjög margt sem mælir í móti þeim, alveg sérstaklega Villinganesvirkjun sem er að mínu mati þegar grannt er skoðað kannski eitthvert sorglegasta dæmið um skammsýni í þessum efnum og dæmi um hversu órafjarri því menn eru að horfa til einhverrar sjálfbærrar orkustefnu og orkunýtingar hér í landinu. Þessi tiltölulega litla virkjun, með aðeins 40 megavatta afli, verður ónýt á 40–60 árum af því að uppistöðulónið fyllist en sökkvir í leiðinni einhverjum fallegustu gljúfrum í landinu og eyðileggur þá uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu sem þar hefur verið unnið að undanfarin ár.

Það er sömuleiðis aldeilis ekki í hendi að þó að ráðist yrði í þessar virkjanir yrði orkan nýtt í Skagafirði. Þvert á móti eru menn einmitt að bera mjög víurnar í þessa orku (Forseti hringir.) í öðrum byggðarlögum og hæstv. ráðherra reyndar etur þeim saman (Forseti hringir.) og hefur stofnað til illdeilna milli byggðarlaga á Norðurlandi um það (Forseti hringir.) hvert þeirra eigi að hreppa hnossið, næsta álver.



[13:19]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að halda sig innan tímamarka.



[13:19]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Athugasemd mín í þessu máli er sú að hér hefur komið fram hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að hann telji að nýta beri orkuna til atvinnuuppbyggingar í þeim landshlutum þar sem hún verður til. Ég get svo sannarlega tekið undir það. Ég held einmitt að tími sé til kominn að Sunnlendingar fái að njóta þeirrar miklu orku sem framleidd er í því kjördæmi og þeim landshluta og þá er það Suðurland, og Reykjanesið ekki síður. Þar er gríðarlega mikil orka óunnin.

Það má heldur ekki gleyma því að ástæðan m.a. fyrir uppbyggingu álversins á Reyðarfirði, miðað við þá virkjun sem er í Kárahnjúkum, er að tapið á flutningum á orkunni er mjög mikið. Það skiptir þjóðfélag okkar miklu máli að ekki sé verið að flytja orkuna um of langan veg og að þar af verði mikið tap.

Þannig höfum við Sunnlendingar mikinn áhuga á því varðandi stækkun (Forseti hringir.) hafnarinnar í Þorklákshöfn að hún verði nýtt til stóriðju.



[13:20]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Að gefnu tilefni vil ég lýsa því yfir að ég er þessu algjörlega mótfallinn og mér finnast fáránlegar þær hugmyndir sem menn setja hér fram um að einhverjir heimamenn eigi orku sem þurfi að nýta til vinnslu í héraði. Það er ekki um það að ræða, við Íslendingar eigum allir okkar land og þegar virkjað er á einum stað þarf að líta á það ósköp einfaldlega hvar hagfelldast er að nýta þá orku.

Hins vegar má svo sem segja að hjá mönnum sem búa við það að fleygt er saman tveimur fljótum og annað þeirra látið renna gruggugt og allt öðruvísi en áður var hafi orðið slíkur skaði á landsgæðum í því héraði að það sé gustuk að verksmiðjan sé sett þar niður, svona eins og til einhverra endurbóta.

Í tilefni af því að Friðrik Sophusson sagði svo gáfulega á sínum tíma að það væri þó kostur við Kárahnjúkavirkjun, þrátt fyrir alla eyðilegginguna, að þar væri komin saman ein stór virkjun í staðinn fyrir mjög margar smáar með eyðileggingarkraft sinn úti um allt land vil ég spyrja hvort iðnaðarráðherra geti tekið undir þessi orð eða hvort hún ætli að virkja hverja einustu á á landinu. (Forseti hringir.) Er einhver staður og einhver á sem ekki er hægt að virkja, og er eitthvað sem iðnaðarráðherra getur nefnt núna (Forseti hringir.) sem hún vill ekki virkja, eitthvað sem á að fá að vera í friði, eitthvað sem er friðheilagt í náttúru Íslands?



[13:21]
Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á því að vita sem mest um þessar virkjanir tvær sem verið er að velta fyrir sér, án þess að ég sé á þessu augnabliki búin að taka neina afstöðu til þeirra. Þessi orðaskipti hér segja okkur hversu mikilvægt það er að ræða þessi mál á Alþingi og þess vegna finnst mér mjög slæmt að Alþingi sé með lögum búið að gefa frá sér að ákvarðanir, hversu stórar sem þær eru, í virkjunarmálum komi hingað inn á þing.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi að synjun hefði m.a. byggst á því að ekki væri hægt samkvæmt auðlindalögum að gefa rannsóknarleyfi og virkjunarleyfi, að það færi ekki saman. Þess vegna spyr ég, varðandi þá breytingu sem hún kynnti á lögunum, hvort eftir það verði hægt að heimila einhverjum aðila að fara í rannsóknir á einhverju svæði með því fororði að ef hann verði sáttur við niðurstöðu rannsóknanna fari hann í virkjanir. Verður þetta breytingin með lögunum, skildi ég það rétt?

Svo varðandi Villinganesvirkjun. Þetta er nú eitt af því sem á að vera okkur alþingismönnum til eilífðarumhugsunar, þetta var eitt af þeim frumvörpum sem kom inn seint um vor, skaust inn í iðnaðarnefnd, fékk ekki mikla umfjöllun og allt í einu var bara búið að afgreiða það út, ekki bara að Alþingi heimilaði að fara í Villinganesvirkjun heldur hafði í nefndinni komið inn eitt lítið ákvæði í viðbót sem ekki hafði verið mælt fyrir hér við 1. umr., eins og áskapað er, um það að fara í Bjarnarflagið. Því var þó a.m.k. bjargað þannig að setja þá ákvörðun undir lögin um Laxá og Mývatn þannig að það varð viss vernd í því.

Svona hafa vinnubrögð Alþingis stundum verið. Þau hitta okkur fyrir á erfiðum tímum löngu seinna. Það ætti að vera okkur umhugsunarefni.



[13:24]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunni hér vegna þess að vandamál Skagfirðinga birtist ljóslifandi hér í þingsalnum þar sem þeir töluðu algjörlega í kross, þeir stjórnmálaflokkar sem fara með völdin í Skagafirði. Þá er ég að tala um Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna en ég fer ekki frekar út í það.

Hv. þingmaður Steingrímur Sigfússon talar um að ég sé að stofna til illdeilna á Norðurlandi í sambandi við virkjanamál og stóriðjumál. Það er mjög ósanngjarnt að halda því fram. Það er hins vegar þannig að ýmsir hafa áhuga á stóriðjumálum á Norðurlandi og það má tala um þrjá staði í því sambandi. Ég hef lagt áherslu á að Norðlendingar verði að vinna saman að þeim málum ef þeir eiga að ná árangri.

Svo um virkjanaframkvæmdir almennt. Það er mjög auðvelt að vera bara á móti virkjunum sem slíkum því að auðvitað hafa þær alltaf einhver áhrif á náttúruna. Ef maður horfir einangrað á einhverja virkjun er maður sjálfsagt bara á móti henni. Við verðum þá að hafa í huga hvað við fáum í staðinn. Við fáum yfirleitt atvinnuuppbyggingu, að ég tali ekki um hina almennu raforkunotkun landsmanna sem kannski enginn er hreint og beint á móti.

Það eru alltaf svo margir hlutir sem við þurfum að hafa uppi á borðinu í einu þegar við erum að fjalla um þessi málefni. Ef ég á að nefna einhverja staði hér sem ég er á móti að séu yfirleitt nýttir sem virkjanakostir eru þeir svo sannarlega til. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að virkja allar virkjanlegar ár, því fer svo fjarri, en ég er almennt hlynnt því efnahagskerfisins vegna að við séum með fleiri egg í körfunni og eins vegna þess að atvinnuuppbygging á landsbyggðinni er stórmál og þessar virkjanir eru yfirleitt þar. (Forseti hringir.) Þess vegna þarf að horfa á þetta á breiðari grundvelli en margir gerðu hér áðan.