131. löggjafarþing — 32. fundur
 17. nóvember 2004.
Vatnajökulsþjóðgarður.
fsp. RG, 121. mál. — Þskj. 121.

[15:30]
Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að stærsti þjóðgarður Evrópu verður að veruleika með undirritun hæstv. umhverfisráðherra 28. október en fyrirspurn mín lýtur einmitt að Vatnajökulsþjóðgarði sem við erum að vona að verði framhaldið af þessum góða gjörningi og hvort til greina komi að Eldgjá og Langisjór verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs líkt og Lakagígar. Eldgjá er friðað svæði, og Langisjór með sínu mikilfenglega umhverfi mundi sóma sér vel í slíkum þjóðgarði.

Þessi nýja reglugerð um stækkunina á þjóðgarði sem stofnaður var 1967 er þreföldun, úr 1.600 ferkílómetrum í 4.800 ferkílómetra, og núna heyrir sá þjóðgarður til 57% Vatnajökuls- og Lakagígasvæðis. Ég vil sérstaklega benda á markmiðið í reglugerðinni um að vernda landslag, lífríki og menningarminjar, að þetta verði almenningur og náttúra sem allir geti sótt í. Fólk á að geta notið þessa. Þetta markmið þjóðgarðsins er mjög mikilvægt vegna þess að í öðrum tilfellum þegar við erum að meta landið er t.d. landslag eða fegurð ekki metið. Nýting er metin, lífríki og orkan. Þarna getum við kannski sameinast um að taka frá það sem við viljum að verði ekki spillt.

Við erum að tala um tvær stórar og merkar gossprungur, Lakagígana og Eldgjá og í framhaldi af Skaftárgljúfrinu er Langisjór. Það er vaxandi skilningur á Langasjó sem náttúrufyrirbrigði. Það verður 1.700 metra munur á hæstu og lægstu vatnsstöðu ef Langisjór verður gerður að miðlunarlóni, og mörgum hrýs hugur við að veita Skaftá í Langasjó eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Það er líka umhugsunarefni að vaxandi hiti er í Skaftárkötlum og hlaup hafa verið í Skaftá að undanförnu en í rammaáætlun er hvergi minnst á hættu á eldgosum.

Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra hvort til greina komi að skoða að Eldgjá og Langisjór verði hluti af hinum nýja Vatnajökulsþjóðgarði.



[15:33]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Vinna við undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur staðið allt frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um stofnun hans 9. mars 1999. Þar var umhverfisráðherra falið að láta kanna í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa möguleika á að stofna þjóðgarðinn. Starfshópur sem umhverfisráðherra skipaði í kjölfar þingsályktunarinnar lagði til að fyrsta skref í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs yrði stofnun þjóðgarðs sem tæki til jökulhettunnar. Með hliðsjón af niðurstöðu starfshópsins ákvað ríkisstjórnin 26. september árið 2000 að vinna að undirbúningi þjóðgarðsins sem tæki til jökulhettunnar sem fyrsta skref í þjóðgarði er tæki til Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans. Fjölmörg svæði við jökuljaðarinn eru friðlýst eða á náttúruminjaskrá eins og kunnugt er og hljóta þau svæði að koma til álita frekar en önnur svæði þegar hugað verður að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs út fyrir jökulhettuna þótt slíkt sé auðvitað ekki einhlítt þar sem viðhorf til náttúruverndar einstakra svæða hafa breyst og eru sífellt að breytast.

Má benda á í því sambandi að við nýlega stækkun Skaftafellsþjóðgarðs var eitt svæði utan jökulhettunnar tekið með í þjóðgarðinn en það er einmitt friðlýsta svæðið í Lakagígum.

Hvað varðar skoðun á því hvaða jaðarsvæði Vatnajökuls komi til greina sem hluti þjóðgarðsins í framtíðinni liggja fyrir ítarlegar tillögur um svæðið norðan Vatnajökuls sem unnar voru af nefnd sem í sátu þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu. Eru þær tillögur nú til umfjöllunar í ríkisstjórn. Ekki hefur farið fram sambærileg athugun á því hvaða svæði gætu hentað og væru vel til þess fallin að tengjast Vatnajökulsþjóðgarði sunnan og vestan jökulsins eða á því svæði sem Eldgjá og Langisjór eru á. Ég tel þó eðlilegt að slík athugun fari fram sem fyrst.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort til greina komi að Eldgjá og Langisjór verði utan þjóðgarðsins er því til að svara að auðvitað kemur slíkt til greina. Ég tel þó að frekari undirbúningsvinna sé nauðsynleg áður en hægt verður að taka ákvörðun um slíkt eins og gert var varðandi Lakagíga. Þess skal þó getið að hvorki Eldgjá né Langisjór hafa verið friðlýst eins og Lakagígar sem gerði inntöku þess svæðis í Skaftafellsþjóðgarðinn tiltölulega einfalda við stækkun hans. Fyrir liggur mat á verndargildi Eldgjár og hefur Eldgjá verið sett á náttúruminjaskrá en mat á verndargildi Langasjávar liggur ekki fyrir.



[15:36]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Í framhaldi af góðri umræðu um Vatnajökulsþjóðgarð vil ég taka fram varðandi Langasjó, sem auðvitað tengist þessu svæði, þá staðreynd að hér áður fyrr rann Skaftá í Langasjó. Þar hafa orðið ákveðnar breytingar á náttúrufari getum við sagt en áform eru uppi um það að nýta það vatn sem er í Langasjó með því að veita honum yfir á Tungnaársvæðið með göngum og nýta þannig vatnið í gegnum allar virkjanirnar á Tungnaár-/Þjórsársvæðinu, þ.e. Sigöldu-, Hrauneyjafoss-, Búðarháls- þegar hann kemur, Sultartanga- og Búrfellsvirkjun. Ég held að við megum undir engum kringumstæðum fórna þeim miklu hagsmunum sem þar eru í húfi, a.m.k. ekki í neinu bráðræði. Við þurfum að hafa þennan möguleika opinn og skoða hann vandlega áður en honum verður fórnað.



[15:37]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ætli það hafi ekki komið fram í máli síðasta hv. ræðumanns um hvað þetta mál snýst. Það er verið að spekúlera í því að nota Langasjó til orkuöflunar og þess vegna eru ekki uppi neinar hugmyndir um það í ráðuneyti hæstv. umhverfisráðherra að hann verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það sem maður óttast er auðvitað það að þessi aðferð ríkisstjórnarinnar við að koma upp Vatnajökulsþjóðgarði — sem þó má þakka fyrir að virðist vera stefna hennar, a.m.k. hæstv. ráðherra, eins og kom fram í umræðu um daginn — er ákaflega óhentug. Í staðinn fyrir að búa til heildaráætlun um þennan þjóðgarð, ná samstöðu um hana og gera þá þar með grein fyrir því sem ekki er hægt að gera vegna þjóðgarðsins, er stigið eitt lítið skref í einu og tekin sum náttúrusvæði á staðnum og önnur skilin eftir. Þegar tvö svæði hlið við hlið eru þannig að annað er tekið og hitt skilið eftir er það náttúrlega bein ávísun á að það svæði sé ómerkilegt og eigi að vera til annarra nota, svo sem til vatnsveitu í tengslum við virkjanir. Þetta er ómögulegt ástand.



[15:39]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka fyrir þetta mál sem hér um ræðir. Við erum að tala um tvær náttúruperlur sem eru í hættu af völdum mannsins, önnur þeirra vegna þess hversu aðgengileg hún er og hversu margir heimsækja hana. Hin perlan, Langisjór, er frekar óaðgengileg og í raun var ekki vitað að þetta svæði væri til fyrr en fyrir um 150 árum. Langisjór kom hvergi fram í rituðu máli fyrr en þá.

Málið er ekki vaxið á þann veg sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði, að veita ætti vatni úr Langasjó í virkjanir heldur veita vatninu úr Skaftá sem mun eyðileggja hina hreinu og tæru ásýnd Langasjávar. Það á að veita því í gegnum Langasjó til virkjunar og það er það sem er hættulegt.



[15:40]
Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ég var stödd á umræddu svæði var mér sagt að Langisjór væri í einkaeign og að vatnið væri leigt öðrum sem nytjaði það og það var einmitt verið að leggja net í vatnið þá. Ég hef velt því fyrir mér síðan hvort það geti skipt máli hvort þetta svæði sé einkaeign eða þjóðlenda, a.m.k. vaknar spurningin um hver á og við hvern á að semja ef til þess kemur að farin verði sú leið sem hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi og sem m.a. er forsendan fyrir spurningu minni.

Skaftá rann áður í Langasjó og þess vegna er oft haft á orði að í lagi sé að veita í hana jökulvatni á ný. Staðan er bara sú að þetta er allt annað landslag í dag þó að áður hafi runnið í hana jökulvatn. Nú er þetta heiðblátt, fagurblátt, undrafagurt vatn, svo sérstakt þarna inn á milli hæðanna að það er hreinlega ógleymanlegt að standa uppi á Breiðbak með alla víðáttuna í austur, vestur, suður og norður í kringum sig og þetta mikilfenglega vatn með náttúruumhverfi sínu við rætur fjallsins. Ég er sannfærð um að enginn sem það upplifir, stendur þarna og horfir út yfir landið sitt getur hugsað sér að láta kannski skammtímahagsmuni virkjunaráforma ráða því hvort þarna eigi að verja eða vernda. Ég er þeirrar skoðunar að fyrst eigum við að ákveða hvort á að vernda, verja og geyma fyrir komandi kynslóðir einhverja sérstaka náttúruperlu og síðan verði ákvörðun tekin um hvort eigi að nýta hana ef ekki á að geyma.

Ég fagna svörum hæstv. umhverfisráðherra sem ætlar að setja í gang skoðun á því hvernig haldið verði á málum þarna og að hún lokar alls ekki á að þetta svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Það gleður mig.



[15:42]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessar ágætu umræður þó að auðvitað hafi komið fram í umræðunni að ólík sjónarmið ríkja varðandi þessi efni. Ég ítreka að það kom skýrt fram í máli mínu að mat á verndargildi Langasjávar liggur ekki fyrir og það er auðvitað nauðsynlegt að slíkt mat fari fram áður en hægt er að taka nokkrar ákvarðanir.

Eins er líka ljóst að við samþykktum náttúruverndaráætlun í þinginu síðasta vor til næstu fimm ára og það er gríðarlega mikið verkefni fram undan að koma þeirri áætlun í framkvæmd. Það liggur fyrir að mikil áhersla er á náttúruverndarmálin, bæði náttúruverndaráætlun og þjóðgarðamálin sem við þurfum að framfylgja á næstu árum.