131. löggjafarþing — 32. fundur
 17. nóvember 2004.
þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum.
fsp. ÁMöl, 221. mál. — Þskj. 224.

[15:44]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Í úttekt OECD frá árinu 2001 á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi bendir stofnunin á að vegna mikillar aukningar í ferðaþjónustu á Íslandi sé þörf á að setja hemil á það álag á náttúru landsins sem því fylgir, þ.e. þörf er fyrir auknar fjárveitingar til uppbyggingar á betri aðstöðu og þörf á fleiri eftirlitsmönnum á viðkvæmustu ferðamannasvæðunum.

Engum blandast hugur um að þetta er rétt lýsing á stöðu mála hér á landi og þrátt fyrir aukinn skilning og auknar fjárveitingar í málaflokkinn á síðustu árum dugar það ekki til. Víða má sjá gróðurskemmdir og álagsmerki á landinu af manna völdum sem hægt væri að koma í veg fyrir með ýmsum ráðstöfunum.

Í skýrslu OECD eru einnig lagðar fram ýmsar tillögur sem geta stuðlað að auknum árangri Íslendinga á sviði umhverfismála. Þar er m.a. lagt til að fjölgað verði landvörðum á náttúruverndarsvæðum og fjármagn til náttúruverndar aukið, t.d. með því að beita nytjagreiðslureglum í ferðaþjónustu og með gjaldtöku af ferðamönnum á friðuðum svæðum.

Ástæða þess að ég tek þetta mál upp nú á hinu háa Alþingi er að nú er kominn nýr umhverfisráðherra. Hvatningin til að taka þetta mál upp hér og nú var frétt sem birtist nýlega í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá niðurstöðu meistararitgerðar Maríu Reynisdóttur en hún kannaði vilja ferðamanna til að greiða gjald á ferðamannastöðum. María notaði viðurkennda aðferðafræði sem kölluð er skilyrt verðmætamat og felst í að gefnar eru tilteknar forsendur áður en fólk svarar hinni eiginlegu spurningu um hvort það sé tilbúið að greiða fyrir aðgang. Forsendurnar eru að gjaldið yrði notað til að vernda náttúruna, til uppbyggingar á svæðunum og þriðja forsendan að fjármagn væri ekki nægilegt í dag.

Að mati Maríu gefur athugun hennar betri mynd af vilja ferðamanna en þær athuganir sem hingað til hafa verið gerðar. Að gefnum þessum forsendum svöruðu 90% ferðamanna sem tóku þátt í athuguninni því játandi að þeir væru tilbúnir til að borga sig inn. Í sömu frétt var viðtal við formann Samtaka ferðaþjónustunnar sem sagði að fara yrði varlega í gjaldtöku á ferðamannastöðum en hann bætti jafnframt við að yrðu fjármunirnir nýttir til uppbyggingar á svæðunum væri gjaldtakan mjög jákvæð.

Í ljósi þessa varpa ég þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að tekin verði upp þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum, samanber heimild í 32. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.



[15:46]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Samkvæmt náttúruverndarlögum getur Umhverfisstofnun eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis tekið gjald fyrir þjónustu eða aðgang. Tekjunum skal varið til eftirlits, lagfæringar, uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.

Þessi heimild laganna hefur ekki verið nýtt fyrir utan að innheimt eru gjöld fyrir gistingu á tjaldsvæðum í þjóðgörðum en aðgangseyrir er ekki innheimtur.

Umhverfisráðherra skipaði starfshóp árið 2000 sem gera átti tillögur um tekjuöflun á náttúruperlum og gera tillögu að stefnumótun til lengri tíma um aðgangs- og þjónustugjöld á vernduðum svæðum eða á hvern hátt best megi tryggja nauðsynlegt fjármagn til að byggja upp fjölsótt náttúruverndarsvæði til að mæta vaxandi umferð ferðafólks. Var starfshópurinn skipaður sérfræðingum frá umhverfisráðuneytinu, Náttúruvernd ríkisins, Ferðamálaráði, Samtökum ferðaþjónustunnar og fjármálaráðuneytinu.

Starfshópurinn var ekki sammála um upptöku á innheimtu aðgangseyris að ferðamannastöðum almennt og skýrðist það á þeim sjónarmiðum að slík gjaldtaka felur í sér mismunun milli staða þar sem erfitt eða nánast útilokað er að innheimta aðgangseyri nema á mjög takmörkuðum fjölda þeirra. Einnig að slík gjaldtaka væri neikvæð með tilliti til þess að einungis þeir ferðamenn sem sækja takmarkaðan fjölda fjölsóttra ferðamannastaða væru að greiða fyrir aðgang, aðrir ekki. Jafnframt að kostnaður við innheimtukerfið er hlutfallslega hár miðað við þær tekjur sem nást inn.

Einnig þarf að hafa í huga að þeir fjármunir sem nást inn með innheimtu aðgangseyris mega og eiga að fara til uppbyggingar á þeim stöðum þar sem þeir innheimtast og ekki væri hægt að nýta þá til uppbyggingar annarra náttúruperla. Slík innheimta gæti því verið slæm lausn.

Landfræðilega koma fáir staðir til greina þar sem hægt væri að halda utan um aðstreymi ferðamanna á auðveldan hátt, en það væri hægt á sumum þeirra svo sem í þjóðgarðinum í Skaftafelli, Ásbyrgi, þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum, Dimmuborgum í Mývatnssveit, Gullfossi og Geysi. Starfshópurinn var hins vegar sammála um að uppbygging ferðamannastaða skapar forsendur fyrir tekjuöflun rekstraraðila á stöðunum sem nýta má til uppbyggingar þar.

Því var á árinu 2000 veitt 25 millj. kr. fjárveiting til Umhverfisstofnunar, þar af 19 millj. kr. og tímabundin fjárveiting til fimm ára til uppbyggingar í þjóðgörðum á friðlýstum svæðum. Á sama tíma fékk Ferðamálaráð fjárveitingu til sama verkefnis og þessar stofnanir unnu í samvinnu við Vegagerðina að uppbyggingu og framkvæmdum á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Alls hafa farið til þessa verkefnis um 500 millj. kr. á sl. fimm árum og hafa málin þokast nokkuð áfram en ótal verkefni eru enn til staðar á mörgum þessara staða og í dag eru alls um 90 friðlýst svæði í umsjá Umhverfisstofnunar. Ljóst er hins vegar að samhliða fjölgun ferðmanna um þessi svæði, jafnt innlendra sem erlendra, þarf aukið fjármagn til áframhaldandi viðhalds og uppbyggingar á þeim fjölmörgu viðkomustöðum sem ferðamenn heimsækja. Ein leiðin til að afla þessa fjármagns væri að taka upp þjónustugjöld og innheimta aðgangseyri á ferðamannastöðunum.

Þar sem aðeins er hægt að koma við gjaldtöku á takmörkuðum fjölda staða á auðveldan og viðunandi hátt og einungis þeir ferðamenn sem færu um þá greiddu fyrir uppbygginguna og kostnaður við innheimtukerfið er hlutfallslega hár er ég ekki tilbúin á þessari stundu að taka afstöðu til þess hvort ég muni beita mér fyrir því að gjaldtöku verði komið á. Ég vil gjarnan skoða málið í stærra samhengi áður en ég tek slíka ákvörðun.

Hins vegar finnast mér hugmyndir Maríu Reynisdóttur, sem hv. fyrirspyrjandi, Ásta Möller, nefndi í máli sínu, vera allrar athygli verðar, sérstaklega þar sem samkvæmt rannsókninni eru yfir 90% ferðamanna reiðubúin til að greiða fyrir aðgang. Það er auðvitað mjög mikilvægt innlegg í umræðu af þessu tagi. En sé verðlagningunni hagað þannig að hámarkstekjur innheimtist, sem gætu orðið verulegar, gæti líka dregið úr aðsókn. Þetta þarf allt að hafa í huga þegar þessi mál eru skoðuð.



[15:52]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir innlegg sitt og ég tel jákvætt að þetta komi til umræðu á hinu háa Alþingi.

Ég vil samt sem áður lýsa þeirri skoðun minni, sem fram kom í svari hæstv. umhverfisráðherra og starfshópnum sem hún nefndi áðan, að það ber að fara varlega hvað þetta mál varðar. Til að mynda finnst mér útilokað að tilfærsla milli svæða, ef um gjaldtöku væri að ræða, ætti sér stað. Það eru aðilar sem hafa byggt upp tiltekna staði, auglýst þá og lagt í mikinn kostnað og ég tel mjög varhugavert ef færa ætti til fjármuni á milli staða og tel að það ætti alls ekki að gera.



[15:53]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er gott að taka þessa umræðu og fínt að fá þessa fyrirspurn. Uppbygging ferðamannastaða er stórmál og skiptir máli hvernig við tökum á þeim málum.

Ég átti þess kost að koma í Skaftafell á fögrum degi seint í haust þegar engir voru þar og fara um svæðið og Skaftafell er algjörlega til fyrirmyndar. Maður sá svo vel allan aðbúnað og uppbyggingu þegar ekkert fólk var þarna og engin tæki. Það er alveg til fyrirmyndar.

Auðvitað er þetta ákveðið vandamál. Þetta eru 90 friðlýst svæði fyrir utan önnur. Ég ferðast mjög mikið um landið og ég verð að segja að ég á mjög erfitt með að sjá það fyrir að koma að lokuðum hliðum, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Ég veit að þetta þekkist einhvers staðar í stóra útlandinu en ég mundi vilja leita annarra leiða og deili í raun þeim sjónarmiðum sem hæstv. umhverfisráðherra setti fram í málinu.



[15:54]
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin og ágætum þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni.

Ég þekki mjög vel þá skýrslu sem hæstv. umhverfisráðherra gerði að umræðuefni í ræðu sinni. Nefndin sem reit þá skýrslu skilaði störfum árið 2000, að mig minnir. Nú er bráðum 2005 og ég er þeirrar skoðunar að ýmislegt hafi breyst í umræðunni í millitíðinni.

Ég lagði fram á 128. löggjafarþingi þingsályktunartillögu um þetta efni sem hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og ákveða fyrirkomulag og innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum sem stæði undir uppbyggingu og þjónustu á slíkum svæðum.“

Tillagan var ekki útrædd í þinginu en fór til nefndar og fékk umsagnir. Hún fékk mjög jákvæða umsögn ýmissa aðila þó vissulega væru skiptar skoðanir um efni hennar. Þó var sammerkt með þeim sem áttuðu sig á því að tillagan beindist að því að setja þjónustugjald sem stendur undir tiltekinni þjónustu, en ekki aðgöngugjald, að þeir voru almennt jákvæðir gagnvart málinu. Þannig lýstu Vegagerðin, Náttúruvernd ríkisins, sem er reyndar komin undir Umhverfisstofnun, og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sig hlynnt slíkum hugmyndum og sama átti við um Ferðamálaráð og Samtök ferðaþjónustunnar. Samtök ferðaþjónustunnar hafa yfirleitt verið tekin sem dæmi um samtök sem hafa lýst sig andvíg, en það er ekki rétt því þau lögðu sérstaka áherslu á að það væri jákvætt ef gjaldið stæði undir þjónustu en væri ekki hreinn aðgangseyrir.

Virðulegi forseti. Skoðun mín er að hugmyndir sem þessar hafi nú aukinn hljómgrunn í samfélaginu. Þessi leið er viðurkennd erlendis, það er t.d. regla frekar en undantekning að erlendis sé greitt þjónustugjald fyrir aðgang að þjóðgörðum. Ef ég leyfi mér að alhæfa út frá þeirri rannsókn sem ég ræddi um í fyrri ræðu minni má ætla að um 90% þeirra á fjórða hundrað þúsund erlendra ferðamanna séu tilbúin að greiða slíkt gjald sé það hæfilegt og standi undir þjónustu á viðkomandi stað. Því hvet ég hæstv. umhverfisráðherra til að skoða málið frekar.



[15:56]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessa ágætu umræðu. Mér finnst mjög gott að málinu sé hreyft vegna þess að okkur ber svo sannarlega að skoða þessi mál vel. Aðalatriðið er að tryggja að náttúruperlur okkar séu verndaðar, að almenningur hafi greiðan aðgang að þeim, það sé góð umgengni um svæðin og þau verði ekki fyrir ágangi af völdum ferðamanna, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi réttilega í upphafi fyrirspurnar sinnar. Ég tel því að við eigum að skoða alla fleti málanna.

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan að ég er ekki reiðubúin til að gefa afgerandi svör um þetta á þessu stigi en ég mun fara mjög vandlega yfir þessi mál. Ég sé í þeim bæði kosti og galla þó mér finnist gallarnir vera fleiri.