131. löggjafarþing — 32. fundur
 17. nóvember 2004.
notkun risabora við jarðgangagerð.
fsp. HilmG, 292. mál. — Þskj. 315.

[18:15]
Fyrirspyrjandi (Hilmar Gunnlaugsson) (S):

Virðulegi forseti. Samgöngumál eru mér líkt og mörgum öðrum þingmönnum einkar hugleikin. Því miður hafa samgöngumál oftar en ekki orðið bitbein innan kjördæma, milli kjördæma og landshluta eða togstreitu milli hinna dreifðu byggða og þéttbýlis hvar á landinu sem er. Það er slæmt ekki síst vegna þess að togstreitan veldur því óþarflega oft að ekkert verður af framkvæmdum eða þær dragist vegna ágreinings.

Vissulega hafa orðið stórkostlegar framfarir í samgöngumálum okkar Íslendinga á síðustu árum og ber að þakka fyrir það. Trúlega hafa þær framfarir og framsýnu ákvarðanir, sem oftar en ekki hafa verið teknar hér á þessum vettvangi, gert það að verkum að sífellt fleiri skilja nauðsyn góðra samgangna fyrir alla þætti þjóðlífsins. Góðar samgöngur eru forsenda, alger lykilforsenda skynsamlegrar og hagkvæmrar nýtingar þeirra gæða sem okkar góða land býður upp á.

Á síðustu missirum hafa jarðgangamál orðið fyrirferðarmikil í umræðunni og hafa framkvæmdir í þeim efnum komist aftur á dagskrá eftir nokkurt hlé. Mestu jarðgangaframkvæmdir Íslandssögunnar eiga sér nú stað á hálendinu í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Þar er að mestu stuðst við aðra aðferð en notuð hefur verið við gerð jarðganga hér á landi fyrir bílaumferð, þ.e. með notkun risabora.

Skiljanlega hafa áhugamenn um jarðgangagerð velt fyrir sér þeirri spurningu hvort unnt sé annaðhvort að koma meiru í verk og framkvæma með ódýrari hætti eða að slá tvær flugur í einu höggi með nýtingu þessara risabora við jarðgangagerð fyrir bílaumferð, þ.e. að koma bæði meiru í verk og gera það á ódýrari hátt en ella. Því leyfi ég mér, herra forseti, að beina svofelldri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

1. Er notkun risabora, eins og þeirra sem notaðir eru við gerð aðveituganga í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, möguleg við gerð jarðganga fyrir bílaumferð?

2. Hver má ætla að kostnaður sé við slíka jarðgangagerð á hvern kílómetra?

3. Hver er áætlaður meðaltalskostnaður á hvern kílómetra jarðganga fyrir bílaumferð sem unnið er að núna og eru fyrirhuguð?

4. Liggja fyrir upplýsingar um hvor aðferðin er fljótlegri og ef svo er, hversu tímafrek hvor aðferðin um sig er?



[18:18]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni fyrir þessa fyrirspurn. Því miður gafst ekki nægilega mikill tími til að fara rækilega ofan í athugun á þessu máli sem hér er brotið upp með fyrirspurn.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður: „Er notkun risabora, eins og þeirra sem notaðir eru við gerð aðveituganga í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, möguleg við gerð jarðganga fyrir bílaumferð?“

Svar mitt er svohljóðandi: Risaborvélar eins og þær sem notaðar eru við Kárahnjúkavirkjun eru víða notaðar við gerð vegganga og þá sérstaklega við gerð lengri vegganga en hefðbundinn bor og sprengitækni er þó mun algengari þegar um veggöng er að ræða.

Í annan stað er spurt: „Hver má ætla að kostnaður sé við slíka jarðgangagerð á hvern kílómetra?“

Svar mitt er svohljóðandi: Kostnaður við slíka jarðgangagerð á hvern kílómetra er háður þversniði og lengd ganga ásamt þeim jarðfræðilegu aðstæðum sem búast má við á jarðgangaleiðinni og því er erfitt að bera þetta saman. Almennt er þó kostnaður svipaður að talið er og við sprengd göng en verktíminn er yfirleitt mun styttri þegar um þessi stóru og afkastamiklu tæki er að ræða.

Í þriðja lagi er spurt: „Hver er áætlaður meðaltalskostnaður á hvern kílómetra jarðganga fyrir bílaumferð sem unnið er að núna og eru fyrirhuguð?“

Svar mitt er svohljóðandi: Áætlaður meðaltalskostnaður þeirra jarðganga sem nú er unnið að er 650–800 millj. kr. á kílómetra en það er m.a. háð gangalengd. Í þeim tölum er meðtalinn allur kostnaður, m.a. undirbúningur og vega- og skálagerð utan ganga, þ.e. 650–800 millj. kr. á hvern kílómetra.

Í fjórða lagi er spurt: „Liggja fyrir upplýsingar um hvor aðferðin er fljótlegri og ef svo er, hversu tímafrek hvor aðferðin um sig er?“

Eins og segir að ofan er mun fljótlegra að nota svonefnda heilborun við sjálfa gangagerðina. Reikna má með að með hefðbundinni aðferð sé unnt að grafa allt að 2,5 km á ári með hverjum jarðgangaflokki en oft er grafið frá báðum endum og má miða við að göng lengist um 4,5–5 km á ári. Reikna má með að ein risaborvél afkasti meiru en þessu eða um 150 metrum á viku og 5–7 km á ári. Það er þó alveg háð aðstæðum á hverjum stað.

Einnig tekur nokkuð langan tíma að setja slíkar vélar saman í verkbyrjun og undirbúa þær aðstæður sem þessi búnaður þarf að hafa. Þar eð gangagerðin sjálf tekur ekki nema ríflega helming verktímans og forvinna, eftirvinna í göngum og vega- og skálagerð utan ganga tekur jafnlangan tíma í báðum tilfellum, þá er ekki hægt að reikna með að heildarverktími styttist nema um e.t.v. 25% miðað við eina borvél borið saman við tvo sprengiflokka þannig að það er um 25% skemmri tími sem þetta tæki. En ég vil undirstrika það sem kom fram hjá mér fyrr að sá búnaður sem notaður er í Kárahnjúkavirkjun er fyrst og fremst hagstæður í lengri göngum.



[18:22]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. samgönguráðherra fyrir ákaflega athyglisverð svör um mál sem ég veit að mjög margir hafa velt fyrir sér. Ástæðan er einföld. Við höfum auðvitað séð af þeirri reynslu sem þegar hefur fengist af jarðgangagerð í landinu hversu miklu jarðgöng breyta fyrir byggðir landsins og við vitum hvaða þýðingu þau munu hafa til að mynda varðandi stækkun atvinnusvæðisins á Austfjörðum í tengslum við hinar miklu framkvæmdir sem þar eru, og víða um landið horfa menn til þessa möguleika varðandi jarðgangagerð. Í því sambandi vil ég aðeins vekja athygli á jarðgangagerð sem oft er rætt um og er auðvitað mikilvægt að sett verði næst í röðina, þ.e. jarðgöng sem tengja norður- og suðurhluta Vestfjarða. Ég veit þess vegna að það er ekki síst þar sem menn horfa til þeirra möguleika sem hv. þingmaður var að hreyfa og vekja athygli á. Ég held að þetta sé lýsandi dæmi um það að menn þurfa að vera mjög á varðbergi og vakandi fyrir nýjum möguleikum sem geta falið það í sér að við getum hraðað þessum bráðnauðsynlegu framkvæmdum sem nú (Forseti hringir.) er samt sem áður nokkuð í tísku að tala illa um, illu heilli.



[18:23]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði áðan, annars vegar þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp og hins vegar ráðherra fyrir svörin sem hann gaf vegna þess að það er auðvitað nýtt fyrir okkur á Íslandi að hafa slíka risabora hér að störfum og er ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla gangi sem er við boranir fyrir austan.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það hvort meiri sparnaður geti hugsanlega skapast af þessu þar sem menn eru ekki að sprengja og það hefur ekki þau áhrif að sprungur myndast í veggjum og ekki þarf að teina þá eins mikið upp. Getur verið að meiri sparnaður leynist í því þegar búið er að heilbora bergið og það verði miklu betra, sem það að sjálfsögðu verður, og það skili sér kannski í minni kostnaði?

Ég vil svo líka taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það er í tísku hjá mönnum að tala illa um jarðgangaframkvæmdir. Því miður er það svo og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst sú umræða sem sem hv. þingmaður hóf hér ólíkt gáfulegri og betri en arfavitlaus ályktun framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.



[18:25]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að þakka hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni fyrir þá ágætu fyrirspurn sem hér liggur fyrir og sem vonandi verður upphaf að því að þessi mál verði rædd hér í þaula. Það er ýmislegt athyglisvert í svörum sem hæstv. samgönguráðherra gaf varðandi þessa fyrirspurn en mér sýnist, miðað við upplýsingar sem ég hef haft af þessu borverki, að varðandi ýmsar upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf sé eðlilegt að setja a.m.k. spurningarmerki við og þær þurfi að kanna frekar. Ég vænti þess að hæstv. samgönguráðherra geti gefið okkur þá yfirlýsingu þegar hann tekur til máls aftur að hann hafi fullan áhuga á því að það verði athugað hvort sú tækni sem hv. fyrirspyrjandi er að spyrja hér um verði ekki könnuð til þrautar og það ýti hugsanlega undir það að við gerum jarðgangaáætlun til nokkuð langs tíma og könnum hvort það geti ekki sparað okkur verulega fjármuni að nýta þessa tækni og auka þar með um leið hraða jarðgangagerðar hér á landi.



[18:26]
Fyrirspyrjandi (Hilmar Gunnlaugsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra kærlega fyrir að koma upp og svara fyrirspurn minni og lýsi yfir ánægju minni með þau svör miðað við þann skamma tíma sem óneitanlega var skammtaður þar sem þetta er síðasti dagur minn á þingi og verið var að leitast við að gefa mér færi á að fylgja fyrirspurninni eftir.

Að mörgu leyti má segja að svarið komi ekki á óvart. Það liggur svo sem fyrir að kostnaður og tími sem fer í að setja þessa risabora upp og taka þá niður er mikill og þess vegna átti maður von á að það væru einkum við lengri göng sem gæti verið hagkvæmt að nota þessa risabora. Þó er rétt að halda því til haga að einn þeirra þriggja bora sem nú eru uppi á hálendinu kom hingað úr verki að mér skilst í New York sem voru 6 km löng göng.

Ég fagna þeim viðbrögðum sem hér hafa komið fram og vek athygli á því að málið snýst ekki um eitt ákveðið kjördæmi heldur er um að ræða mál sem ætti að vera hægt að horfa á á landsvísu og því vil ég taka undir það sem kom fram áðan hjá hv. þingmanni Norðausturkjördæmis, Einari Má Sigurðarsyni, að menn geri áætlun til lengri tíma og hafi meira undir.

Ég ítreka þakkir fyrir góða umræðu og góð svör.



[18:27]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Eðlilega velta hv. þingmenn fyrir sér hvort hægt sé að finna leiðir til að sú mannvirkjagerð sem jarðgöng eru geti orðið sem hagkvæmust og ódýrust. En ég held að það hafi komið í ljós út af fyrir sig þegar jarðgöng voru boðin út á sínum tíma milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar að þá sáu menn ekki fyrir sér þennan möguleika því að heilborun og allur sá búnaður sem þar er á ferðinni, og er nýtt núna við Kárahnjúka, er auðvitað þekkt til margra ára víða í heiminum og verktakar sem hafa velt fyrir sér jarðgangagerð þekkja þá möguleika sem það skapar. Ég á ekki von á eins og kaupin gerast á eyrinni núna að þau jarðgöng sem verða á næstunni á dagskrá skapi skilyrði til að nýta þessa tækni. Þó skal ég svo sem ekki fullyrða neitt um það á þessu stigi. Vonandi er sá möguleiki fyrir hendi en það er fátt sem bendir til þess eins og málin standa. Aðalatriðið er að verktakarnir leggi sig fram um að finna leiðir sem eru hagkvæmar og eigi möguleika á því að fá þau verk sem fyrir liggur að verði farið í á sviði jarðganga á næstu árum.

Ég held að það sé afar mikilvægt að þingmenn velti þessu fyrir sér og því fagna ég þessari fyrirspurn og þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að fá tækifæri til að svara þessu hér og nú.