131. löggjafarþing — 33. fundur
 18. nóvember 2004.
umræður utan dagskrár.

áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:29]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú eðlilega krafa er gerð að olíufélögin og stjórnendur þeirra skili til baka til neytenda gróðanum af ránsfengnum vegna brota þeirra á samkeppnislögum. Talið er að ávinningur olíufélaganna hafi verið um 6,5 milljarðar kr. Einnig hefur verið kallað eftir því að stjórnvöld sjái til þess að eftirlitsstofnanir verði í stakk búnar til að fylgjast með því að olíufélögin velti ekki kostnaði af sektargreiðslum vegna samráðsins yfir á neytendur í hærra verði á vöru og þjónustu. Útgjöld heimilanna eru þegar orðin ærin vegna þessa þjófnaðar þótt það bætist ekki við.

Nú er gerð sama krafa til ríkisins, að það skili til neytenda hagnaði sínum af ránfeng olíufélaganna. Sú krafa hefur m.a. komið fram hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Ríkið hefur tekjur af eldsneyti í formi bensíngjalds og virðisaukaskatts á eldsneyti. Auknar tekjur ríkisins af samráði olíufélaganna koma aðallega fram í auknum virðisaukaskatti af bensíni. Það skýrist einkum af því að bensíngjald leggst ofan á innkaupsverð eldsneytis og fyrirtækin fá endurgreiddan útskatt af dísilolíu og gasi þannig að svindlið þar eykur ekki nettótekjur ríkisins. Ránsfengurinn á þeim sviðum skilar sér þó í auknum framlegðaráhrifum á hagnaði olíufélaganna.

Fram hefur komið í skýrslu Samkeppnisstofnunar að samráð olíufélaganna hafi hækkað framlegð fyrirtækjanna, sem glöggt hafi komið fram á árunum 1996–2001. Í skýrslunni kemur fram að á þeim árum hafi verið seldir 1.129 millj. lítra af bílabensíni. Sérfræðingar sem skoðað hafa þetta mál með mér áætla að með tilliti til 6,5 milljarðs kr. aukinnar framlegðar vegna samráðsins sé um að ræða rúmar 2 kr. á hvern lítra á þessa 1.129 millj. lítra sem olíufélögin svindluðu á fólki. Það gerir í framlegðaraukningu um 2,3–2,5 milljarða kr. Virðisaukaskattur af því er hátt í 600 millj. kr. Þannig hefur ríkið haft nálægt 600 millj. kr. í virðisaukaskatt af því ránsfé sem olíufélögin náðu af fólkinu gegnum ólöglegt samráð á bensínverði.

Ég þykist viss um, af því að hæstv. fjármálaráðherra er sanngjarn maður, að hann vilji skoða hvernig best sé að skila þessum fjármunum aftur til skattgreiðenda þegar fyrir liggur að ríkissjóður hefur hagnast um hundruð milljóna á þessum þjófnaði. Það væri hægt að gera með því að ríkið lækkaði hlut sinn í skattlagningu á bensíngjaldi um 2–3 kr. sem skilaði þar með neytendum aftur um 600 millj. kr. Það gæti um leið haft jákvæð áhrif til lækkunar á vísitölu og verðbólgu og þar með kjarasamninga aðila á vinnumarkaði en ASÍ hefur haldið því fram að aukin verðbólga stefni kjarasamningum í hættu.

Miðað við að vörugjald af bensíni, sem nú er rúmlega 11 kr. á hvern lítra, lækkaði um 2,50 kr. þá skilaði ríkissjóður til baka nálægt 600 millj. kr. Bensínverðið mundi þá lækka um 3% og vísitöluáhrifin yrðu um 0,1%, sem væri um leið jákvætt innlegg til lækkunar á verðbólgu. Reyndar ætti að ganga lengra og ríkisvaldið ætti að beita sér fyrir því að allar sektargreiðslur vegna þessara lögbrota skiluðu sér í lækkun á eldsneytisverði.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé reiðubúinn að láta Ríkisendurskoðun eða aðra þar til bæra aðila skoða ávinning ríkisins af þessu svindli og í framhaldi af því verði fjármagninu skilað aftur til fólksins. Hæstv. fjármálaráðherra þekkir þá meginreglu skattalaga að ef sýnt er að teknir hafi verið of miklir skattar af fólki miðað við tekjur þá greiði ríkið því oftekna skatta til baka. Sama gildir ef fólkið fær ofgreiddar bætur, barnabætur eða vaxtabætur svo dæmi sé tekið. Þá gerir ríkið þá kröfu til fólksins að ofteknum bótum sé skilað aftur. Sama á auðvitað að gilda nú þegar fyrir liggur, og varla hægt að mótmæla því, að ríkið hefur haft óeðlilegar skatttekjur af lögbroti. Þeim á undanbragðalaust að skila til baka til fólksins.

Það er ólíðandi, herra forseti, að ríkið hagnist á lögbroti olíufélaganna. Það væri til að kóróna þetta hneykslismál, þetta stærsta samsæri Íslandssögunnar gegn neytendum, ef fólk þarf líka að greiða skatt til ríkisins af þjófnaðinum.



[15:34]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Allir, þingmenn jafnt sem almenningur, fordæma ólöglegt samráð þar sem það hefur viðgengist. Slíkt athæfi er efnahagslega skaðlegt og óverjandi á allan hátt.

Forsvarsmenn olíufélaganna hafa beðist afsökunar að því marki sem þeir telja sig ábyrga. Félögin gera hins vegar ágreining við samkeppnisyfirvöld um fjöldamargt í þessu máli, þar með talið útreikninga á áætluðum ávinningi félaganna. Við þá útreikninga hefur Hagfræðistofnun Háskólans einnig gert athugasemdir. Endanleg niðurstaða bíður úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum dómstóla.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sakar ríkið um að hafa verið eins konar óvirkur þátttakandi í ólöglegu samráði og að hafa með því haft rúmlega hálfan milljarð kr. af almenningi með ofteknum virðisaukaskatti. Samt er augljóst að ekkert verður fullyrt um að ríkið hafi haft óeðlilegar skatttekjur af ágóða af verðsamráði meðan málið hefur ekki verið endanlega upplýst.

Á hinn bóginn er hagur ríkissjóðs er nátengdur hag fólksins í landinu. Ef hagur heimilanna versnar verður hagur ríkissjóðs einnig verri og ef hagur fólksins batnar þá batnar einnig hagur ríkissjóðs.

Almennt er það þannig að ef tiltekin neysluvara hækkar í veðri þá rýrnar kaupmáttur fólks og þar með svigrúm þess til að kaupa aðrar vörur. Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti breytast þar af leiðandi ekki við slíka hækkun. Af þessum sökum er það rangt sem sumir halda fram, að ríkissjóður hafi hagnast gríðarlega á hækkun olíuverðs á alþjóðlegum mörkuðum undanfarna mánuði. Þvert á móti hefur allt þjóðarbúið tapað á þeim hækkunum.

Skatttekjur ríkissjóðs aukast hins vegar með hagvexti, sem eykur bæði tekjur almennings og fyrirtækja. Þess vegna ber að efla hagvöxtinn. Einokun og ólögmætt samráð hafa hins vegar þau áhrif að draga úr hagvexti og tekjum. Þannig starfsemi kemur því bæði niður á almenningi og ríkissjóði og fráleitt að gefa í skyn að ríkissjóður hagnist á slíku. Hagfræðibækur geyma mörg dæmi um falskenningar af þessu tagi, sem ganga út á að þjóðfélagið geti hagnast á því að sem mestu tjóni sé valdið.

Við þetta er því að bæta að hugmynd þingmannsins um endurgreiðslu svokallaðs ránsfengs í þessu máli er með öllu óraunhæf. Hafi ríkissjóður haft tekjur af meintu samráði hefur þeim fjármunum þegar verið varið í þágu almannahagsmuna með ákvörðunum á Alþingi. Samkvæmt hugmynd hv. þingmanns ætti almenningur því að endurgreiða almenningi þau útgjöld. Þetta gengur ekki upp. Ég geri ekki ráð fyrir því að þingmaðurinn krefjist þess að útgjöldin og sú opinbera þjónusta sem þeim hefur verið varið til verði einnig afturkölluð. Þá væri þingmaðurinn í það minnsta ekki líkur sjálfum sér. Vart er þingmaðurinn að leggja til að lagður verði á annar skattur til að fjármagna slíka endurgreiðslu.

Nei, virðulegur forseti, ríkissjóður hefur ekki haft neinn hag af háu olíuverði. Þvert á móti hefur það aukið rekstrarkostnað ýmissa ríkisstofnana og hækkað almennt verðlag. Málflutningur þingmannsins stenst ekki. Skýrsla Samkeppnisstofnunar um meint samráð olíufélaganna er grafalvarlegt mál eins og áður hefur verið rætt á Alþingi. En kenningar þingmannsins sem hér hafa verið reifaðar gera lítið úr alvöru málsins.

Sem betur fer hefur samkeppni aukist á flestum sviðum í fyrirtækjarekstri á undanförnum árum. Það hefur skilað bæði almenningi og ríkissjóði miklum ávinningi. Ríkissjóður hefur ekki hag af því að menn brjóti leikreglurnar í atvinnulífinu. Skilningur allra þátttakenda á markaði, bæði fyrirtækja og launþega, á hinu nýja lagaumhverfi er mjög að aukast en vissulega geta allir gert betur og ríkisstjórnin stefnir ótrauð að því að auka samkeppni á sem flestum sviðum atvinnulífsins er lúti virku eftirliti.



[15:39]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að samráðshneyksli olíufélaganna er eitt stærsta mál sinnar tegundar hér á landi, a.m.k. sem upplýst hefur verið að nokkru leyti. Það eru tiltölulega traustar forsendur sem benda til margra milljarða ávinnings olíufélaganna á löngu árabili af þessu samráði. Það er rétt að sínu leyti og svo langt sem það nær að ríkið kann að hafa haft auknar tekjur af þessum þætti málsins en það kann að hafa tapað öðrum á móti.

Sá er auðvitað munur á að þeir fjármunir hafa þá gengið til landsmanna aftur í gegnum hinn sameiginlega sjóð þótt það sé fullkomlega eðlilegt að það sé rætt, í tengslum við þá sjálfsögðu kröfu að olíufélögin bæti neytendum það sem þau hafa ranglega af þeim tekið, hvort uppgjör fari einnig fram á þætti ríkisins í þessu máli.

Hitt er aftur ljóst að skaðinn af samráðinu verður í raun aldrei bættur nema að hluta með fé, þótt það sé sjálfsagt út af fyrir sig. Trúnaðarbresturinn verður aldrei bættur. Skaðinn í atvinnulífinu verður aldrei bættur til fulls. Hversu mikið betur stæðu ýmsar greinar atvinnulífs, t.d. stærsti einstaki viðskiptavinur olíufélaganna, sjávarútvegurinn, ef þær hefðu haft þá fjármuni handa á milli sem olíufélögin hafa ranglega af þeim tekið á undanförnum árum? Muna menn ekki þá tíma að olíufélögin voru áskrifendur að myndarlegum hagnaði á hverju einasta ári, jafnvel á mestu erfiðleikatímum sjávarútvegsins? Þar sá aldrei högg á vatni. Hvernig ætla menn að bæta þetta?

Verst er þó, og þar er ég algjörlega ósammála hæstv. fjármálaráðherra, að fákeppnin er vaxandi á fjölmörgum öðrum sviðum viðskiptalífsins (Forseti hringir.) og þar gefur ríkisstjórnin vont fordæmi, m.a. með einkavæðingu sinni.



[15:41]
Þórarinn E. Sveinsson (F):

Herra forseti. Hér er til umræðu fyrirspurn um hvort ríkissjóður bæti borgurum það fé sem í ríkissjóð hefur runnið vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna.

Niðurstaða samkeppnisráðs um samráð olíufélaganna er grafalvarlegt mál og afar skiljanlegt að fólki um allt land finnist það hafa verið platað og að þeim sem bera ábyrgð á þeim verknaði beri skylda til að bæta hverjum og einum þá fjármuni sem hafa verið hafðir af fólki með því vinnulagi. Því miður er þetta þó ekki svo einfalt í mínum huga.

Þær tekjur sem ríkissjóður hefur haft vegna þessa samráðs, ef einhverjar eru, umframtekjur má kannski kalla það, hafa á einn eða annan hátt runnið til venjubundinna útgjalda ríkisins. Ef ríkissjóður á að eyrnamerkja greiðslur sérstaklega sem einhvers konar skaðabætur vegna þessa leiðindamáls verður að sækja þá peninga eitthvert. Þá er ekki um annað ræða en að skera eitthvað af útgjöldum ríkisins niður og þar með draga úr þjónustu á einhverju sviði eða hækka skatta. Það er sama hvor leiðin væri farin. Það mætti með sanni segja að verið sé að innheimta þessa peninga aftur. Það er því að mínu viti bæði torsótt, illfær og a.m.k. óréttlát leið.

Frágangur og úrvinnsla þessa máls er í ákveðnum farvegi. Ein óbein afleiðing er t.d. sú að til stendur að styrkja Samkeppnisstofnun enn frekar. Það er eitt af hlutverkum okkar í þessum sal. Önnur meðhöndlun þessa máls fer í þann farveg sem lög gera ráð fyrir. Við megum gæta þess að fara ekki offari í refsingum og grípa til ráða sem gera allar afleiðingar þessa máls enn meiri og verri en ástæða er til.



[15:43]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu tekjur ríkissjóðs af ólöglegu verðsamráði olíufélaganna.

Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að mér finnst við eiginlega færa umræðuna inn á ranga braut með því að beina henni í þessa átt. Það er talað um að ríkið hafi hagnast um 600 millj. kr. Þeir peningar hljóta að hafa runnið í ríkissjóð og verið ráðstafað eftir fjárlögum sem voru ákveðin á hinu háa Alþingi í góðri trú og með það að leiðarljósi að þessir peningar nýttust með bestum hætti til velferðar fyrir land og þjóð. Ég geri ráð fyrir því að þessum peningum hafi verið varið í þágu þjóðarinnar.

Hins vegar teljum við í þingflokki Frjálslynda flokksins að þeir sem séu raunverulega ábyrgir í þessu máli, þ.e. forstjórar, stjórnarformenn og hugsanlega stjórnarmenn, eigi að sjálfsögðu að sæta ábyrgð. Hér dugir ekki bara að segja: Ég biðst afsökunar. Þessa menn verður að draga til ábyrgðar því að afbrotin eru að sjálfsögðu mjög alvarleg.

Kveðinn hefur verið upp sá úrskurður að olíufélögin greiði stjórnsýslusektir upp á rúma tvo milljarða. Við vitum ekki hvort sú upphæð verður hin endanlega upphæð sem þessi félög greiða fyrir glæpsamlegt athæfi sitt en það er okkar skoðun að þeir peningar eigi eingöngu að renna til úrbóta í samgöngumálum, að þær sektir sem verða innheimtar af illa fengnu fé renni til framkvæmda sem gagnist öllum landsmönnum. Þar er sannarlega af nógu að taka.

Það er ekki rétt að lækka bensíngjaldið, að okkar mati. Okkar bíða það mörg brýn úrlausnarefni í samgöngumálum og margt hefur verið gert gott á undanförnum árum en mörg þörf verkefni bíða. Í þau eiga tekjur ríkisins af eldsneyti að fara og einnig þær stjórnsýslusektir sem hér um ræðir, alveg hiklaust.



[15:45]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Þetta stærsta samráðsmál Íslandssögunnar hefur margar hliðar. Ein þeirra er til umræðu hér. Það er ljóst að bæði olíufélögin og ríkissjóður hafa hagnast af samráðinu. Það er áætlað að hagnaður olíufélaganna hafi verið um 6,5 milljarðar kr. Það er hægt að áætla að hagnaður vegna oftekinna skatta ríkissjóðs hafi a.m.k. verið 600 millj. kr.

Hins vegar er ljóst, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, að útgjöld ríkissjóðs hafa líka aukist að einhverju leyti. Hæstv. ráðherra hefði væntanlega getað áætlað þær tölur.

Herra forseti. Ríkisvaldið verður að koma að málinu. Það væri ekki óeðlilegt að ríkisvaldið hefði forgöngu að því að fara í viðræður við olíufélögin um hvernig skila megi til þjóðarinnar þeim mikla hagnaði sem samráðið hefur fært þeim.

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að forsvarsmenn olíufélaganna hefðu komið og beðist afsökunar á gjörðum sínum. Í nýjasta tölublaði FÍB-blaðsins er ein grein undir yfirskriftinni „Er nóg að segja afsakið?“ Í þeirri grein segir m.a., með leyfi forseta:

„Það er klárt að forstjórar olíufélaganna eru uppvísir að langvarandi og skipulögðu samráði af margvíslegum toga og um hvað eina. Þeir höfðu samráð um verð. Þeir höfðu samráð um skiptingu markaðar. Þeir höfðu samráð um að útiloka erlendan keppinaut frá íslenskum olíu- og eldsneytismarkaði og samráð höfðu þeir meira að segja um léttvæg atriði eins og það hvað gefa ætti starfsmönnum félaganna í jólagjöf. Það liggur orðið ljóst fyrir að þeir stunduðu einbeittir alvarleg lögbrot og það er varla til of mikils mælst að lögbrjótar taki afleiðingum gerða sinna. Ætla mætti því að yfirvöld, fulltrúar almennings sem brotið var á, séu tilbúnir að láta þessa lögbrjóta taka afleiðingum gerða sinna og að þeir sjálfir séu tilbúnir til þess. Svo virðist þó ekki endilega vera. Það er slegið úr og í, fjasað um að ekki megi nú hengja bakara fyrir smið, menn séu saklausir uns sekt sannast o.s.frv.“



[15:47]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við getum öll verið sammála um að í frjálsu markaðskerfi eins og er hér á Íslandi eigi alls ekki að eiga sér samráð á markaði, hvort sem er á milli olíufélaga eða annarra fyrirtækja á markaði. Slíkt grefur undan frjálsu markaðshagkerfi.

Málflutningur háttvirts málshefjanda er hins vegar nokkuð farsakenndur þegar horft er til hlutverks ríkisins. Virðisaukaskatturinn leggst í öllum tilfellum á það vöruverð sem verður til á markaði, hvernig sem það verð er ákveðið. Ríkið getur ekki talist þjófsnautur eða hafa stolið fjármunum í neinu tilfelli, þegar um almenna skattlagningu er að ræða. Ríkið er almenningur, sami almenningur og borgaði bensín, olíur og virðisaukaskatt ofan á þær vörur.

Ríkissjóður fékk tekjur af virðisaukaskattinum en ríkissjóður deildi þeim tekjum aftur út til almennings. Við getum ekki fullyrt að það hafi verið nákvæmlega sama fólkið sem naut góðs af þeirri útdeilingu og þeir sem greiddu skattana enda er það sjaldnast hægt þegar um tekjur og útgjöld ríkisins er að ræða.

Við sem höfum þá pólitísku skoðun að umsvif ríkisins eigi að vera sem minnst í daglegu lífi fólks og í hagkerfinu yfirleitt getum verið sammála því að sá vöxtur ríkisumsvifa sem af þessu leiddi hafi verið óheppilegur. En vegna almenns eðlis þessarar skattlagningar er ljóst að aldrei verður hægt að greiða sömu einstaklingum til baka og greiddu virðisaukaskattinn í upphafi. (Gripið fram í.)

Tilvísanir hv. þingmanns í eðlilegar leiðréttingar á einstaklingsbundnum skattgreiðslum eru gjörsamlega út í hött. Þegar litið er til pólitískra áherslumála hv. þingmanns í gegnum tíðina, sem yfirleitt hafa kallað á útgjaldaaukningu ríkissjóðs, verður málflutningurin enn sérkennilegri. Lækkun bensíngjalds í þessu samhengi er jafnframt fráleit.

Hæstv. forseti. Hag almennings er best borgið með því að nú skuli samráði olíufélaganna lokið og meðferð málsins gangi sinn veg í réttarkerfinu. Hin góðu áhrif frjáls markaðshagkerfis fá nú að njóta sín almenningi til hagsbóta.



[15:49]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hið ólöglega samráð olíufélaganna sem hefur verið til umræðu um hríð hefur ýmsa anga. Einn þeirra anga hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tekið upp. Ég tel hins vegar mikilvægt að menn drepi ekki alvarleika umræðunnar á dreif eða víki of mikið frá meginatriðum hennar.

Ég leyfi mér hér að vitna í frétt á forsíðu Morgunblaðsins 6. nóvember síðastliðinn þar sem vitnað er í ummæli Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, sem þrátt fyrir góð störf sín í borgarstjórn ákvað að segja af sér vegna þátttöku sinnar og tengsla við olíusamráðið. Hann er þar spurður hvers vegna hann gekk ekki út þegar honum var ljóst að hann væri þátttakandi í ólöglegu athæfi. Orðrétt svarar borgarstjóri:

„Sú spurning horfir öðruvísi við þegar horft er til baka heldur en þegar maður er á bólakafi í vinnunni sjálfri. Að hluta til verður að skoða það í þessu pólitíska andrúmslofti. Ég hefði verið að segja öllu valdakerfi landsins stríð á hendur ef ég ætlaði að brjótast út úr olíuviðskiptunum.“

Þarna liggur alvara þessa máls. Munum við, íslenskt samfélag og íslenskt réttarkerfi, hafa bolmagn til að gera eins og borgarstjóri nefnir í þessu viðtali, til þess að segja öllu því valdakerfi landsins stríð á hendur; valdakerfi helmingaskiptareglu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem við höfum búið við undanfarin ár? Þar er alvarleiki málsins. Munum við hafa burði til að segja þessu valdakerfi landsins stríð á hendur?

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að samkvæmt 58. gr. þingskapa má eigi lesa upp prentað mál nema með leyfi forseta.)



[15:52]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það sem ég ætla að gera að umtalsefni eru viðbrögð stjórnarflokkanna við svindlinu á almenningi. Viðbrögð stjórnarflokkanna við því að allir þeir sem dældu eldsneyti á bíla sína voru hafðir að fíflum, svo maður noti orð sjálfra svindlaranna, hafa einkennst af tómlæti. Ef maður skoðar ummæli stjórnarþingmanna, sérstaklega sjálfstæðismanna í umræðunni þegar við ræddum þessi mál fyrr í vikunni, kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að þetta væru einhverjar eftirhreytur frá því viðskiptaumhverfið hefði verið að breytast. Sama mátti heyra hjá öðrum þingmanni sem sló úr og í varðandi þetta samráð. Það var eins og þetta væri ekkert stórmál.

Það má segja að þeir sem svo tala fylgi línu hæstv. utanríkisráðherra, foringja síns, hvað þetta varðar. Hann hefur dregið úr því að sekta ætti þessa olíufursta, það muni einungis renna út í verðlagið. En svo kveður við breyttan tón í umræðunni í dag. Nú heyrir maður á hæstv. fjármálaráðherra að um óverjandi gjörning sé að ræða. En síðan tekur ekki betra við, hann dregur úr og nefnir til sögunnar ágæta skýrslu sem hann segir að komi frá Hagfræðistofnun Háskólans. Nú er háskólinn búinn að sverja þessa skýrslu af sér. Þá skýrslu unnu einungis tveir menn í þágu olíufélaganna.

Því fer fjarri að Framsóknarflokkurinn sé saklaus í þessu máli. Hann hefur einnig sýnt því tómlæti. Hann hefur sérstaklega sýnt tómlæti sjálfri Samkeppnisstofnun. Samkeppnisstofnun hefur verið í fjársvelti við að rannsaka mál sem varða almenning. Það er náttúrlega alvarlegt og Framsóknarflokkurinn ber þunga ábyrgð á því að slík mál hafi ekki verið kláruð, bæði (Forseti hringir.) hvað varðar olíusamráð og tryggingasamráð.



[15:54]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Viðbrögð ráðherra og fulltrúa stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, valda mér miklum vonbrigðum. En þau koma mér ekki á óvart. Þau eru í anda þess sem því miður hefur verið á umliðnum áratug.

Rifjum það upp að það hefur verið í pólitísku skjóli stjórnarflokkanna sem þetta samráð, mér liggur við að segja þetta glæpsamlega samráð, hefur átt sér stað. Það er hárrétt sem fram hefur komið að á þeim sama áratug hafa sömu stjórnarflokkar haldið Samkeppnisstofnun í herkví. Sú stofnun hefur aldeilis ekki verið efst á vinsældalista stjórnarflokkanna í þessum sal eða utan hans. Höldum því til haga.

Það er fullt tilefni til þeirrar umræðu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hér haft frumkvæði að. Þau viðbrögð stjórnarliða að drepa málinu á dreif og gera það flóknara en það er er þeim ekki til lyftingar. Hér hafa verið ofteknir skattar, um það verður ekki deilt. Það er auðvitað ekkert svar til bensínkaupenda og bíleigenda síðasta áratugar að það sé búið að eyða þessum peningum. Hvernig yrði mönnum við ef skattyfirvöld svöruðu eðlilegum athugasemdum þeirra um oftekna skatta með því að segja: Nei, fyrirgefið, það er bara búið að eyða þessum peningum í ríkissjóði. Það er ekki hægt að svara með þeim hætti.

Vissulega er málið víðtækt og sumpart flókið, ef menn vilja gera það þannig, en ég vil vekja athygli á enn einum þætti þess sem menn hafa haft á sérkennilegar skoðanir. Það eru þau væntanlegu viðurlög sem olíufélögunum verður gert að greiða, hvort sem það verða 2 milljarðar kr. eða 3 milljarðar kr. Sumir hafa haldið því fram að það mundi renna beint út í verðlagið og sé ekki til neins að refsa eða sekta þessi félög.

Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra svaraði því líka hvort það væri jafnflókið mál að tryggja að þeir fjármunir, sem munu sannarlega renna í ríkissjóð, komi í vasa þeirra neytenda sem verst hafa orðið úti, þeirra sem notað hafa vegina og bílana í landinu. Þannig ber allt (Forseti hringir.) að sama brunni, herra forseti. Það er tilhneiging til að gera málið flóknara en það er.



[15:56]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Herra forseti. Það er dálítið sérstakt að hlusta hér á stjórnarandstæðinga koma með þá fullyrðingu að í skjóli laga og verndar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi olíufélögin starfað óeðlilega. Þau hafa starfað undir lögum um áratuga skeið þar sem ríkisstjórnir jafnt til vinstri sem hægri hafa átt hlut að máli.

Nú hefur lögum verið breytt fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins með tilliti til Samkeppnisstofnunar. Þá koma menn og segja að ríkisstjórnin haldi enn verndarhendi yfir olíufélögunum. Auðvitað fordæmum við þetta samráð. Skaðinn af samráðinu verður þó aldrei bættur eins og hér hefur komið fram og ég tek undir það. En við skulum ekki fara í pólitískt kapphlaup í máli þessu.

Þingmaðurinn Jóhanna Sigurðardóttir, sem hér er málshefjandi, er vönd að virðingu sinni. Því kemur mér á óvart sú ferð sem Samfylkingin leggur nú upp í löngu áður en mál þetta er til lykta leitt. Menn eru þegar farnir að tala um endurgreiðslur til ríkissjóðs og nefna í því samandi milljónir og jafnvel milljarða. Ég hlýt að segja að það er of snemmt að varpa fram endanlegum tölum um ágóða fyrirtækjanna af meintu verðsamráði. Það sama á við um hugsanlegar skatttekjur ríkissjóðs af slíkum ágóða.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það kemur mér mjög á óvart hve mikið mönnum liggur á. Síðan koma háttvirtir þingmenn og segja að það sé hjóm eitt sem heyrist frá Sjálfstæðisflokknum. Það var athyglisvert að hlusta á umræðuna um stöðu borgarstjóra þegar háttvirtir þingmenn Samfylkingarinnar komu hver á fætur öðrum og vildu höggva hann í herðar niður en það voru sjálfstæðismenn sem sögðu: Við skulum bara láta málið anda og ráðast ekki á einstakar persónur í þessu máli í þeirri stöðu sem það er. Er það hjóm í sjálfstæðismönnum að vaða ekki fram eins og hér hefur verið gert?



[15:58]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég spyr nú hvers lags málflutningur það er af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að segja að það sé bara allt í lagi að ríkið hafi tekjur af þessum lögbrotum. Hvaða skilaboð eru þetta út í samfélagið, til þeirra sem hagnast á lögbrotum? Er það bara allt í lagi ef þeir verja þeim fjármunum til skynsamlegra mála? Eru þetta skilaboð til olíufélaganna, um að það sé allt í lagi að stunda lögbrot ef hagnaðinum er varið til góðra mála, til landgræðslu og fleira?

Þetta er afar sérkennilegur málflutningur og hundalógík að halda því fram, eins og hæstv. ráðherra gerði, að almenningur hafi hreinlega hagnast á þessu öllu saman. Þegar búið er að hafa af almenningi 6,5 milljarða kr. og þar af hafi ríkissjóður hagnast af bensíninu um 600 millj. kr.

Hæstv. ráðherra leggst í vörn til að réttlæta það að ríkið geti haldið þessum ránsfeng eftir og skili honum ekki til almennings í lækkuðu bensíngjaldi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann líka að leggjast í vörn gegn því að sektargreiðslunum verði skilað í lækkuðu eldsneytisverði til landsmanna eins og við þingmenn höfum farið fram á? Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Hæstv. ráðherra reyndi ekkert að hrekja þá útreikninga sem ég hef lagt fram til grundvallar þessari kröfu, sem er sannarlega réttmæt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann virkilega ekki að láta athuga, t.d. hjá Ríkisendurskoðun, hvað ríkið hefur hagnast á svindli olíufélaganna? Hann vill ekki einu sinni íhuga það, ekki einu sinni skoða hvernig skila eigi því aftur til almennings.

Ég spyr ráðherrann: Á ekki að gilda hið sama hér og t.d. gildir um ofgreiddar bætur? Hæstv. ráðherra gerir kröfu til þess að almenningur skili ofteknum bótum aftur í ríkissjóð. Nú gerir almenningur kröfu til þess að ráðherrann skili aftur þeim fjármunum hafa fengist inn í ríkissjóð af lögbrotum og aukið skatttekjur hans með óeðlilegum hætti.



[16:00]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er enginn í vörn í þessu máli nema þá ef til vill háttvirtur málshefjandi, sem er á algjörum villigötum í málflutningi sínum, enda hafa undirtektirnar í umræðunni leitt það í ljós. Það tekur ekki nokkur maður í þessum sal undir málflutning hennar vegna þess að hann er ekki á rökum reistur. Það er heila málið eins og ég reyndi nú að útskýra í ræðu minni.

Það er ekki hægt að halda því fram að ríkið hafi ávinning af því sem þjóðin öll tapar á, þ.e. ólögmætu samráði. Ef hv. þm. vildi reikna dæmi sitt til enda — sem er reyndar fljótt á litið meingallað, eins og það blasir við mér — af hverju tekur hún ekki inn í það aukakostnað ríkissjóðs vegna lögreglubílanna, vegna skipakosts ríkisins eða annarra bílaflota sem ríkið rekur, inn í dæmi sitt? Ef það er þannig að almennt bensínverð hafi hækkað vegna samráðs olíufélaganna, skyldi þá ekki ríkið hafa þurft að greiða hærra verð en ella? Af hverju reiknar ekki þingmaðurinn þetta líka?

Málið er ekki svona í pottinn búið. Það er ekki svona einfalt. Það er ekki hægt að skila til baka sköttum eða gjöldum sem tekin hafa verið með kerfisbundnum hætti af olíuvörum til einstakra neytenda.

Hvað með þá sem ekki eru lengur á meðal vor en keyptu sér bensín á árunum 1993–2001? Á að skila til þeirra eða dánarbúa þeirra ofgreiddu bensíngjaldi? (JóhS: Þetta er nú útúrsnúningur hjá ráðherra.) Ég er bara að varpa ljósi á það, hv. þingmaður, á hve miklum villigötum þessi málflutningur er. (GÁS: Einu sinni í ríkissjóð, alltaf í ríkissjóði.) Hún er á miklum villigötum. Þingmaðurinn er í mikilli vörn með það að hafa hafið máls á þessu og fær ekki stuðning hér í salnum.

Hún gerir því miður lítið úr alvarlegu máli með því að leggja það upp eins og gert hefur verið. Það er því miður niðurstaða þessarar umræðu.