131. löggjafarþing — 33. fundur
 18. nóvember 2004.
skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 1. umræða.
stjfrv., 300. mál (fjárfestingar). — Þskj. 327.

[18:51]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. umræddra laga þar sem fjallað er um skilyrði fjárfestinga lífeyrissjóða. Samkvæmt greininni skulu tilteknir eignaflokkar sem tilgreindir eru í 1. mgr. 36. gr. og hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Í núgildandi lögum er m.a. vísað til 7. tölul. 1. málsl. 36. gr., en eignir í þeim flokki eru hlutdeildarskírteini eða hlutir verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða samkvæmt lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Fram kemur í umræddum 7. tölul. að verðbréfasafni að baki skírteinunum eða hlutunum skuli skipt á aðra töluliði 1. mgr. 36. gr. laganna, þ.e. aðra eignaflokka, með tilliti til takmarkana sem gerðar séu í 2.–6. mgr. 36. gr. Samkvæmt framansögðu er eignasafn lífeyrissjóðs skilgreint út frá því hvaða eignir liggja að baki hlutdeildarskírteinum eða hlutum í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóðum.

Í framkvæmd hafa vaknað spurningar um túlkun framangreindra ákvæða og þá einkum um hvort að í ákvæðunum felist sú kvöð að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða, á grundvelli 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna, nema viðkomandi hlutdeildarskírteini eða hlutir hafi skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Til að taka af allan vafa um skilyrði ákvæðisins er í frumvarpi þessu lagt til að tilvísun í 7. tölul. í 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. verði felld niður. Samkvæmt því er tekinn af allur vafi um að lífeyrissjóðum verði framvegis heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða.

Ég legg að endingu til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.