131. löggjafarþing — 34. fundur
 20. nóvember 2004.
athugasemdir um störf þingsins.

Tilefni þingfundar.

[14:00]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ekki ætla ég að lengja þennan fund en mig langar til að spyrja: Til hvers er hann haldinn? Til hvers er verið að ræsa út fjölda starfsmanna þingsins til að dreifa einu þingmáli þegar það er algjörlega óskiljanlegt að einhverjar sérstakar nauður reki til þess að þingmálinu sé dreift í dag? Þegar það er skoðað kemur í ljós að jú, vissulega, varðar svolítill hluti þess það þing sem núna stendur yfir en að öðru leyti er áformað að festa í lög breytingar sem eiga ekki að taka gildi fyrr en eftir nokkur ár. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hefði getað lagt þetta frumvarp fram á mánudaginn og fengið sína eðlilegu umræðu um það einhvern tíma síðar í þeirri viku. Hvers vegna er þá verið að halda sérstakan útbýtingarfund til þess að þjóna einhverjum duttlungum hans? Óttast hæstv. fjármálaráðherra að svo miklar deilur standi til innan hans eigin raða að erfitt verði að koma þessu máli fram, eða hvað er það sem veldur því að halda þarf sérstakan útbýtingarfund?

Ég hef verið á þingi frá 1991 og vitaskuld hef ég verið viðstaddur marga slíka fundi en ég hef lært af þeirri reynslu að þeir hafa allir haft ákveðinn tilgang. Sá tilgangur helgast af því að greiða fyrir störfum þingsins, geta með hæfilegum og lögbundnum fyrirvara dreift nefndarálitum til að þau megi taka til umræðu án þess að leita þurfi sérstakra afbrigða. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða, herra forseti. Hér er einungis að koma fram þingmál, að vísu eitt af gælumálum hæstv. fjármálaráðherra, en hvað veldur því að það þarf að kalla út fjölda starfsmanna þingsins bara til að halda þennan fund svo að hæstv. ráðherra geti talað fyrir málinu á þriðjudag í staðinn fyrir miðvikudag? Hér er ekki verið að fara vel með fólk eða fé, herra forseti.



[14:02]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þau gerast svona drjúg, laugardagsverkin, að hér skuli vera svo brýnt mál á ferð að kalla þurfi til sérstaks þingfundar til að þjóna duttlungum hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar. Við höfum verið með starfandi þing í haust og þing á eftir að starfa fram í desember. Ég leyfi mér því að ítreka spurninguna til hæstv. forseta:

Hvaða nauðir rekur svo til að hér þurfi að kalla saman þingfund á laugardegi, kalla saman fjölda fólks til vinnu á laugardegi til að útbýta þingmáli sem að stórum hluta, þegar grannt er skoðað, kemur ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári og þarnæsta ári, ef það kemur þá nokkurn tíma til framkvæmda? Maður veltir fyrir sér: Er að verða einhver heimsendir hjá ríkisstjórninni? Það væri þá rétt að ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar segðu okkur bara að heimsendir væri yfirvofandi og þess vegna þyrfti að grípa til þeirra neyðarúrræða undir nónbil á laugardegi að kveðja saman þing. Hvað er á seyði, herra forseti?



[14:04]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er ekkert sérstakt á seyði það ég þekki til annað en að hér er verið að reyna að greiða fyrir þingstörfum eins og hv. 1. þm. Reykv. s. orðaði það í sambandi við það þegar boðað er til útbýtingarfunda í þinginu. Ég gengst að sjálfsögðu fúslega við því að ég óskaði eftir að þessi fundur yrði haldinn og þakka forseta fyrir að hafa orðið við því. Ástæðan er sú að einungis eru þrjár vikur eftir af áætluðu þinghaldi til jóla.

Það frumvarp sem hér hefur verið útbýtt er með stærstu málum þessa haustþings. Ég skoðaði starfsáætlun næstu viku og sá í hendi mér að heppilegast mundi vera að þetta mál kæmist á dagskrá, ef forseta litist þannig á, nk. þriðjudag. Þá var um tvennt að ræða, annaðhvort að legga frumvarpið fram á mánudegi og biðja um afbrigði á þriðjudegi sem er kannski ekkert sérstaklega þægilegt að biðja stjórnarandstöðuna um — hér er mál sem hún er sennilega að miklu leyti andvíg — eða þá að óska eftir útbýtingarfundi til þess að tímafrestum yrði fullnægt. Það varð niðurstaða mín eftir að hafa spjallað lítillega við formenn stjórnarandstöðuflokkanna þó að þeir séu á engan hátt ábyrgir fyrir því sem hér er að gerast í dag.

Ég hélt satt að segja að það væri öllum til hagsbóta að mál sem þetta kæmist sem fyrst fyrir almenningssjónir. Það er flokksráðsfundur hjá einum stjórnarandstöðuflokkanna um helgina. Er ekki gott fyrir þingmenn sem þar eru að hafa þetta mál undir höndum til að geta fjallað um það þar? Er ekki gott fyrir sem flesta að geta notað helgina ef þeir telja sig þurfa þess til að undirbúa umræðu sem vonandi getur farið hér fram á þriðjudag og verður áreiðanlega efnismikil og löng?



[14:06]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Nú skil ég hvernig liggur í málunum. Þetta er allt saman gert af sanngirni gagnvart stjórnarandstöðunni. Þetta er allt saman gert til að auðvelda stjórnarandstöðunni að halda fundi sína um helgina. Heyr á endemi, herra forseti. Það liggur við að ég bresti í hlátur þegar ég heyri þessar sérkennilegu og skondnu skýringar hæstv. fjármálaráðherra.

Er staðan virkilega þannig, herra forseti, að Alþingi sé fjarstýrt úr Stjórnarráðinu? Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því í afskaplega ítarlegum smáatriðum hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri best að hafa þessa umræðu á þriðjudaginn af því að það hentar honum best. Þá tekur hann upp símann og hringir í hæstv. forseta sem verður umyrðalaust við þeirri beiðni.

Ég tel, herra forseti, að þarna stappi nærri því að verið sé að misnota Alþingi. Ég verð að segja það. Það er ekkert sem mælir á móti því að þetta frumvarp sem vissulega er efnismikið og djúpt verði rætt í þaula í næstu viku. En herra trúr, ef þrjár vikur af starfstíma þingsins duga ekki til að afgreiða þetta mál er ég hræddur um að hæstv. fjármálaráðherra renni í grun um frekari átök um málið en ég sé fyrir, a.m.k. á þeim tíma sem líður fram að þingi. Auðvitað mun stjórnarandstaðan ræða málið í þaula. Hins vegar ætti á þremur vikum að takast að koma í gegn hvaða máli sem er ef það er ekki þeim mun vitleysislegra.

Þetta mál þekkja menn. Menn vita hvað í því felst. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að það væri þarft að koma því í umræðu hið allra fyrsta en það var leitt fyrir almannasjónir í gær af hæstv. ráðherra í fjölmiðlum.

Ég vil að endingu, herra forseti, mótmæla því að menn fari fram með vinnubrögðum af þessu tagi. Þessi fundur er fullkomlega óþarfur og er bara til að uppfylla einhverja duttlunga hæstv. fjármálaráðherra.



[14:09]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lét að því liggja að nauðsynlegt væri að útbýta málinu í dag, á laugardegi, vegna þess að stjórnarandstaðan væri hugsanlega ósamvinnuþýð á þingi. Mér finnst þetta mjög ósanngjörn aðdróttun. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum dögum hefðum við liðkað til fyrir öðru frumvarpi, mjög óvinsælu sem stjórnarandstaðan var fullkomlega á móti. Það var frumvarp um gerðardóm á kennara. Engu að síður varð samkomulag um að það mál fengi hraðferð í gegnum þingið þannig að það er mjög ósanngjarnt af hæstv. fjármálaráðherra að segja að óræddu að ekki sé hægt að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um málsmeðferð og þess vegna verði að dreifa málinu í dag. Ef þetta hefði verið brýnt, ef stjórnarsamstarfið hefði verið að slitna eða þá að hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefði verið að fara með þetta inn á miðstjórnarfund Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn réði hér ferð og hann hefði getað fengið tækifæri til að gera grein fyrir því þar, hefði ég skilið asann. Ég skildi kannski það sjónarmið að hæstv. fjármálaráðherra hefði orðið að sýna hæstv. forsætisráðherra hver réði ferðinni í stjórnarsamstarfinu og það yrði að koma fram á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Eina skýringin sem ég sé á þessari flýtimeðferð sem hér er höfð í frammi er að hæstv. forsætisráðherra hafi verið gert skylt að kynna nýja skattstefnu ríkisstjórnarinnar á miðstjórnarfundinum.

Það að væna stjórnarandstöðuna um að vera ekki reiðubúin að ræða flýtimeðferð á málum ef mikinn alvarleika ber að höndum finnst mér ósanngjarnt. Auk þess sé ég ekki að þetta mál sé svo brýnt að það hefði brotið í blað þó að munað hefði einum degi hvenær það væri tekið til umræðu á þinginu. Hér er bara annars vegar um valdbeitingu að ræða og hins vegar misnotkun á þinginu og forsetastjórn þess.



[14:11]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Því fer fjarri að ég hafi sakað stjórnarandstöðuna um að vera ósamvinnuþýð. Það er ósanngjörn ásökun. Það sem ég sagði var að það væri ekki heppilegt að setja stjórnarandstöðuna í þá óþægilegu aðstöðu á þriðjudag að þurfa að taka afstöðu til afbrigða gagnvart máli sem vitað er að hún hefur mikla fyrirvara og er jafnvel í hreinni andstöðu við. Það er ekkert óeðlilegt við það að halda útbýtingarfund þegar svona stendur á til að mál geti komist á dagskrá þegar það er heppilegt með tilliti til annarra mála sem eru í gangi í þinginu. Það er líka ósanngjarnt að halda því fram að ráðherrar, ég eða aðrir, segi forseta fyrir verkum með þetta mál. Ég óskaði eftir því að þessi fundur yrði haldinn. Við því var orðið. Ég hef jafnframt bent á að þriðjudagurinn næsti gæti verið heppilegur dagur til að ræða málið og það verður að koma í ljós hvort forseti kýs að setja málið á dagskrá þá.

Fjármálaráðherra er ekkert sérstaklega duttlungafullur maður þó að báðir stjórnarandstæðingarnir í dag hafi haldið því fram. Ég hef lagt mig fram um það á þessu þingi, eins og jafnan fyrr, að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna til að koma málum fram. Ég veit ekki betur en að á þessu hausti hafi stjórnarandstaðan átt mikinn og rúman tíma í ræðustól þingsins með sín eigin mál. Það er fínt, ekkert við það að athuga. Aðalatriðið er að menn haldi áfram að vinna saman og sýni hver öðrum sanngirni þannig að þau mál sem menn bera fyrir brjósti komist að og til umræðu þó að auðvitað verði síðan meiri hluti þingsins að ráða því hvaða mál hljóta hér samþykki.

Frumvarpið sem nú hefur verið útbýtt er reyndar ekki, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti réttilega á, nýtt af nálinni. Það hefur legið fyrir í u.þ.b. eitt og hálft ár hvað í því kynni að felast þannig að þingmenn hafa nú þegar, margir hverjir, tekið forskot á sæluna og rætt það efnislega heilmikið í umræðum um önnur mál, síðast um fjáraukalög fyrr í vikunni. Að þessu leyti til er þetta ekki nýtt mál en það er brýnt að koma því á dagskrá og afgreiða það fyrir jólin.