131. löggjafarþing — 35. fundur
 22. nóvember 2004.
loftslagssamningurinn og stefna Íslands.

[15:05]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í ræðu sem hæstv. forsætisráðherra hélt á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins um helgina braust út það sem pistlahöfundur Morgunblaðsins gæti kallað hamslausa stóriðjuást. Hæstv. ráðherra gerði stóriðjustefnuna að sérstöku umtalsefni með því að beina sjónum sínum að hinu svokallaða íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar sem stjórnvöld knúðu fram í samningaviðræðum við aðildarríkin á árunum 1997–2002. Árið 2002 var samþykkt að Íslendingar, sem, nota bene, einir þjóða höfðu fengið heimild til að auka losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt bókuninni um 10%, fengju þar fyrir utan að losa 1,6 millj. tonna á ári frá málmbræðslum og öðrum þungaiðnaði. Hæstv. ráðherra notaði orðið sigur í því sambandi og sagði að Íslendingar hefðu haft sigur í þessu máli þegar þeir fengu meðgjöfina, heimildina til að menga hlutfallslega meira en nokkur önnur þjóð sem aðild átti að Kyoto-bókuninni.

Hæstv. forseti. Nú vil ég leyfa mér að gagnrýna þennan málflutning sem ég tel í mesta máta ósmekklegan í ljósi nýafstaðinnar vísindaráðstefnu sem haldin var hér á landi í tilefni af nýrri skýrslu 250 vísindamanna um hlýnun lofthjúpsins og áhrif loftslagsbreytinga af manna völdum á norðurheimskautssvæðið. Niðurstöður rannsóknanna sem skýrslan fjallar um sýna að hlýnunin á norðurheimskautssvæðinu verði helmingi hraðari á næstu árum en annars staðar í heiminum og að hún muni hafa gríðarleg áhrif á allt líf fólks á norðurslóðum, ís muni bráðna, sífreri þiðna, dýrategundum og gróðri muni ógnað og líf frumbyggja muni gerbreytast, svo að eitthvað sé nefnt. Hæstv. ráðherra gerði sjálfur niðurstöðu skýrslunnar að umtalsefni í ræðu sinni á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs og lýsti þar áhyggjum sínum. Svo leyfir hann sér að dásama íslenska undanþáguákvæðið um leið og norrænir fjölmiðlamenn eru komnir úr augsýn.

Sér hæstv. forsætisráðherra ekki samhengi hlutanna? Af þessu tilefni spyr ég hæstv. ráðherra: Hver verður stefna Íslands þegar aðildarríki loftslagssamningsins hefja umræður um næsta skuldbindingartímabil eða hvaða forskrift fara íslenskir embættismenn með í farteskinu á næsta fund aðildarríkjanna í Buenos Aires 6.–17. desember nk.? Verða það óskir um frekari undanþágur til að uppfylla enn villtari drauma ríkisstjórnarinnar um fleiri álverksmiðjur?



[15:08]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er mjög óvenjulegt í þessum fyrirspurnatímum að tekin séu upp ummæli okkar stjórnmálamanna í flokksstofnunum okkar. En látum gott heita að það sé gert.

Ég get alveg endurtekið það sem ég sagði á þessum fundi. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði og það er forsenda þeirrar uppbyggingar sem hefur verið farið í í sambandi við stóriðju í landinu. Þar er ekki verið að auka losun í heiminum, þvert á móti. Það er verið að nýta endurnýjanlega orkugjafa í þeim tilgangi að draga úr losun í heiminum. Það var þetta sem viðmælendur okkar skildu og þess vegna var fallist á ákvæðið. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að ef við hefðum ekki farið í þetta mál og fengið undanþáguna væri ekki verið að byggja upp þá stóriðju sem nú er verið að fara í í landinu. Það liggur alveg fyrir.

Ég veit að hv. þingmaður er algerlega á móti því og hv. þingmaður er á móti því að við förum í uppbyggingu á verðmætasköpun á þessum grundvelli. Þar með er hv. þingmaður að setja sig á móti bættum lífskjörum í landinu. Núverandi ríkisstjórn er ekki á móti bættum lífskjörum í landinu. (SJS: Ekki við heldur. Þetta er ósmekklegur málflutningur.) Þetta er ekki ósmekklegur málflutningur. (SJS: Að við séum á móti bættum lífskjörum?) Það er alveg ljóst að ef ekki er farið í þessa uppbyggingu verða ekki þau sömu lífskjör í landinu og annars verða. Þetta hljóta hv. þingmenn að skilja (Gripið fram í.) hvað svo sem þeir kalla oft fram í hér. Það er hins vegar ljóst að það er verið í þessari uppbyggingu og þess vegna getum við m.a. lækkað skatta. (Gripið fram í: Mengunarráðherra.)



[15:10]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra misskilur hrapallega grundvöll Kyoto-bókunarinnar. Kyoto-bókunin var skuldbinding þjóðríkja til að draga úr mengun, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að minnka líkurnar á þeim áhrifum sem nú blasa við, ekki hvað síst á norðurheimskautssvæðinu þar sem hlýnunin virðist ætla að verða helmingi hraðari en í öðrum heimshlutum. Hæstv. ráðherra leyfir sér að hælast um yfir þessu undanþáguákvæði sem fengið var fram eftir margra ára viðræður með miklu harðfylgi íslenskra embættismanna og það var ekki auðvelt að knýja það fram. Það var látið undan þrjósku og harðfylgi íslenskra embættismanna og íslenskra stjórnvalda á lokasprettinum til að unnt væri að ná saman Kyoto-bókuninni. Hæstv. ráðherra á ekki að leyfa sér að tala á þann hátt sem hann gerir, að koma í flokksstofnunina sína og hælast um út af undanþáguákvæðinu og láta svo í ljósi áhyggjur út af hlýnun lofthjúpsins á Norðurlandaráðsþingum.



[15:11]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er átta sinnum meiri losun ef notuð er olía og kol í þá framleiðslu sem hér um ræðir. Það er það sem skiptir máli. Hv. þingmaður vill að það sé ekki gert, það sé haldið áfram að byggja þennan iðnað upp á grundvelli olíu og kola. (KolH: Það hef ég aldrei sagt. ...) Heldur hv. þingmaður að hún, þótt hún sé valdamikil, komi í veg fyrir það í heiminum að þessi iðnaður verði byggður upp? Telur hún að hún geti komið í veg fyrir það að ál sé notað t.d. í bílaframleiðslu, miklu léttari málmur en aðrir málmar og þar með málmur sem leiðir til orkusparnaðar? Þetta snýr allt á haus hjá vinstri grænum, því miður.



[15:12]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra standi sjálfur á haus og hann hefur stungið sínum haus svo kirfilega í sandinn að hann neitar að horfast í augu við staðreyndir þessa máls og neitar auðvitað að svara spurningunni sem lögð var fyrir hann: Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera á næsta skuldbindingartímabili sem verður byrjað að ræða í Buenos Aires næstu daga? Fara ekki íslenskir embættismenn á vegum hæstv. ráðherra á fundinn í Buenos Aires? Hvað fara þeir með í farteskinu? Óskir um frekari undanþágur fyrir frekari álverksmiðjur? Það stendur ekkert annað upp úr hæstv. ríkisstjórn í atvinnumálum Íslendinga en bunan um fleiri álverksmiðjur. Kvótinn er búinn, eða svo gott sem. Ætla íslensk stjórnvöld að fara fram á frekari undanþágur í því ferli sem nú er fram undan eða ekki?



[15:13]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Að sjálfsögðu. Við ætlum að halda áfram að nýta íslenska orku. Það stendur ekkert til af hálfu núverandi ríkisstjórnar að hætta að nýta eina mestu auðlind þjóðarinnar. Jafnvel þótt vinstri grænir vilji ekki nýta þessar auðlindir geta þeir ekki ráðið því. Meiri hluti þjóðarinnar ræður í þessum efnum og við ætlum að sjálfsögðu að halda áfram að virkja orku okkar til hagsmuna fyrir þjóðina alla. Að sjálfsögðu.