131. löggjafarþing — 35. fundur
 22. nóvember 2004.
svæðalokun á grunnslóð.

[15:23]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þann 10. nóvember sl. kvaddi ég mér hljóðs um störf þingsins til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra út í mjög svo umdeilda svæðalokun á grunnslóð í sunnanverðum Breiðafirði. Þar er búið að loka mjög stóru svæði allt frá Gufuskálum í vestri til mynnis Hvammsfjarðar í austri. Lokunin vakti mjög hörð viðbrögð hjá fólki sem býr á norðanverðu Snæfellsnesi, talað var um að atvinnuöryggi 100–200 manna væri ógnað.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði þá í svari sínu — nú eru liðnir tólf dagar síðan það svar var gefið í sal hins háa Alþingis — eitthvað á þá leið að verið væri að skoða málið og sennilega mundi eitthvað liggja fyrir eftir helgi. Ný ákvörðun um hina mjög svo umdeildu svæðalokun yrði þá tekin í ljósi upplýsinga sem hæstv. ráðherra hefði þá vonandi undir höndum.

Nú eru liðnir ansi margir dagar og ekki að sjá að neitt sé að gerast í málinu, alla vega ekki frá hendi stjórnvalda. Hins vegar hafa sjómenn við sunnanverðan Breiðafjörð tekið sig til og látið framkvæma aldursgreiningar á fiski sem veiðst hefur á svæðinu. Þar hefur komið í ljós með óyggjandi hætti, alla vega eru mjög sterkar vísbendingar um að þarna sé á ferðinni nokkuð gamall fiskur miðað við lengd, fiskur fjögurra, fimm ára og eldri.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra að því hvort þess sé að vænta á næstunni að einhver ákvörðun verði tekin í málinu, að þetta mjög svo víðfeðma svæði verði aftur opnað fyrir veiðum þannig að menn geti farið að róa og aflað sjálfum sér og sínum lífsviðurværis með þeim hætti sem þeir hafa gert frá örófi alda.



[15:25]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Í framhaldi af þeirri umræðu sem hv. þm. vísaði til var aflað sýna á svæðinu. Verið er að vinna úr þeim sýnum hjá Hafrannsóknastofnun. Ég átti von á niðurstöðum þeirrar vinnu í fyrri hluta síðustu viku. Þær höfðu ekki borist í upphafi þessarar viku og því spurðist ég fyrir um það fyrr í dag hvenær þær mættu verða tilbúnar og var tjáð að þær mundu liggja fyrir þegar líður á vikuna. Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir verður farið yfir málið að nýju og ákvörðun um lokun endurmetin.



[15:26]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin og vona svo sannarlega að hreyfing fari að komast á málið. Jafnframt vil ég í framhaldinu nota tækifærið og hvetja hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara í þá vinnu að athuga hvort við séum ekki á einhvern hátt að gera hlutina með röngum hætti því eins og við vitum öll hefur því miður nánast stanslaus friðun á þorski sl. 20 ár ekki skilað neinu. Við erum enn þá að veiða við sögulegt lágmark.

Sjómenn sem ég hef rætt við hafa bent á að loðna hafi til að mynda ekki komið inn á Breiðafjörð í mörg herrans ár og það geti að einhverju leyti skýrt það að fiskur á þessari slóð vex mjög hægt. Hann er þar af leiðandi flokkaður sem smáfiskur þó hann sé það í raun og veru ekki.

Ég vil því enn og aftur nota tækifærið til að hvetja sjávarútvegsráðherra til dáða í þessum málum og athuga hvort ekki sé rétt að hugsa hlutina með svolítið öðruvísi hætti en við höfum gert sl. 20 ár. Það hefur ekki skilað okkur langt fram á veginn.



[15:27]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það voru út af fyrir sig athyglisverð sjónarmið og vangaveltur sem fram komu hjá hv. þm. varðandi stöðuna um göngu loðnunnar og hugsanleg áhrif þess á fisk í Breiðafirði. Hins vegar er ekki rétt hjá honum að enginn árangur hafi náðst í fiskveiðistjórnun okkar hvað varðar þorsk síðustu 20 árin. Það hefur gengið bæði upp og niður af ýmsum ástæðum sem margoft hefur verið farið yfir í þingsalnum. Reyndar eru ekki margir þorskstofnar við Atlantshafið sem geta státað af því að vera í svipaðri stærð og þeir voru fyrir 20 árum, langsamlega flestir þeirra eru í miklu lakari stöðu en þeir voru í fyrir 20 árum.

Þetta kemur fram í þeirri umræðu sem fram fer á alþjóðavettvangi, að árangur okkar er metinn í þessu ljósi og talinn vera einn af þeim bestu sem náðst hefur á þessu sviði og þótt víðar væri leitað.



[15:28]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála þessu. Ég er með skýrslu Hafrannsóknastofnunar fyrir framan mig þar sem kemur m.a fram að hrygningarstofn þorsksins við Ísland var um milljón tonn árið 1955. Núna er hann kominn niður í 177 þús. tonn og hefur sjaldan eða aldrei verið jafnlítill.

Við getum tekið aflatölur af handahófi. Árið 1980 veiddum við 465 þús. tonn en í ár veiðum við aðeins 202 þús. tonn. Þetta eru hinar ísköldu staðreyndir sem blasa við.

Svo er ég heldur ekki sammála því að þorskstofnar annars staðar í Norður-Atlantshafi séu í mjög slæmu ásigkomulagi. Það er þokkalegt ástand við Færeyjar og mjög gott ástand í Barentshafi, í raun og veru miklu betra en menn hefðu búist við fyrir nokkrum árum. Þetta er því alls ekki rétt.

Það verður því miður bara að segjast eins og er, og mjög margir viðurkenna það, að fyrirhuguð uppbygging okkar á þorskstofni hefur ekki verið í neinu samræmi við væntingar. Það hlýtur þá í framhaldi af því, herra forseti, að vekja upp spurningar um það hvort við höfum ekki verið að gera eitthvað rangt í öll þessi ár.



[15:29]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég er alls ekkert óvanur því að vera ósammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni og líður ekkert illa með það, sérstaklega ef málflutningurinn byggist á því að koma með tilvitnun 20 ár aftur í tímann, og svo þegar hann kemur upp í andsvar fer hann 49 ár aftur í tímann til að bera tölurnar saman. (Gripið fram í.) Já, ég kann þessar tölur ágætlega en þegar verið er að tala um 20 ár aftur í tímann tölum við um það en vitnum ekki í árið 1955.

Hvað varðar aðra stofna sem hann nefndi hafa þeir ekki fengið þær sömu einkunnir og okkar stofn hefur fengið. Stofninn í Barentshafi hefur sveiflast mun meira en stofninn í kringum Ísland á því tímabili sem um hefur verið að ræða og færeysk stjórnvöld hafa fengið viðvaranir hvað eftir annað frá Alþjóðahafrannsóknastofnuninni um stöðu þorsksins við Færeyjar þótt vissulega hafi veiðst vel enda vitum við líka að það er ekki alltaf beint samræmi á milli þess hvernig veiðist og hver staða stofnanna er.