131. löggjafarþing — 35. fundur
 22. nóvember 2004.
viðræður um skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

[15:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. fjármálaráðherra varðandi þá stöðu sem uppi er í viðræðum ríkisins og sveitarfélaganna í svonefndri tekjustofnanefnd. Þannig er að það liggur ítrekað við viðræðuslitum vegna þvergirðingsháttar ríkisvaldsins eða fulltrúa fjármálaráðherra í þessum viðræðum, samanber t.d. ummæli bæjarstjórans á Ísafirði á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 1. nóvember sl. sem endurtekin voru í Morgunblaðinu sl. laugardag.

Fram undan er aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sá tími sem menn settu sér til að fá botn í þetta mál er liðinn. Menn töluðu um að fyrir miðjan nóvember þyrftu niðurstöður helst að liggja fyrir þannig að hægt væri að vinna eðlilega að hlutunum í framhaldinu og það er ástæða til að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi það á Alþingi, þar sem löggjafinn og fjárveitingavaldið situr, hvort einhverrar afstöðubreytingar sé að vænta í þessum viðræðum af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins. Það er augljóst mál að ríkisstjórnin undir forustu hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt þeirri taktík að hafa bremsurnar í botni, skrúfa þær fastar, og það er tilgangslaust að halda viðræðum áfram við þær aðstæður. Nú er reyndar búið að endurskipuleggja viðræðunefndina, a.m.k. af hálfu ríkisvaldsins, og nýr fulltrúi kominn úr fjármálaráðuneytinu, skrifstofustjóri þar í stað fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra, og ég tel rétt og skylt að hann upplýsi það hér:

Er að vænta afstöðubreytingar af hálfu ríkisvaldsins og hvenær verður þá ný afstaða, nýjar tillögur eða eitthvert útspil af hálfu ríkisvaldsins kynnt í þessum efnum?



[15:32]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Mér þykir athyglisvert að þetta mál skuli tekið upp undir þessum dagskrárlið í ljósi þess að mér skilst að formaður Samfylkingarinnar hafi óskað eftir og fengið samþykkt meðal þingflokksformanna og forseta þingsins að ræða þetta mál utan dagskrár síðar í vikunni. En það er önnur saga.

Fyrir liggur nýleg viljayfirlýsing sem við félagsmálaráðherra undirrituðum ásamt formanni Samtaka sveitarfélaga um þetta mál. Á grundvelli þeirrar yfirlýsingar hafa þessar umræður átt sér stað nú upp á síðkastið í hinni svokölluðu tekjustofnanefnd ríkis og sveitarfélaga. Sú nefnd er auðvitað tengd miklu stærra verkefni sem lýtur að eflingu sveitarstjórnarstigsins í landinu, fækkun sveitarfélaga en jafnframt tilflutningi verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna og hugsanlega að einhverju marki öfugt. Þetta er stórt mál, það hefur verið lengi í undirbúningi, vel hefur verið að því staðið af hálfu ráðherra sveitarstjórnarmála, félagsmálaráðherranum, en það er ekki búið að ná landi í þessum efnum. Þetta var verkefni tekjustofnanefndarinnar númer eitt, eins og ég hef skilið það, og á grundvelli viljayfirlýsingarinnar starfar þessi nefnd.

Ýmsir í röðum sveitarstjórnarmanna hafa hins vegar viljað taka upp aðra hluti sem þessum málum eru fjarskyldir en sem að mínum dómi eiga ekki að öllu leyti heima á verksviði umræddrar tekjustofnanefndar. Ég treysti því og vænti þess að nefndin muni halda áfram vinnu sinni á grundvelli þeirrar yfirlýsingar sem forustumenn sveitarfélaganna, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga, og við félagsmálaráðherra undirrituðum fyrir nokkrum vikum.



[15:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við höfum sjálfsagt gert rangt í því, stjórnarandstæðingar, að taka ekki hæstv. fjármálaráðherra upp og ríkisstjórnina, bæði fyrr og oftar í þessum málum. Það þarf að komast á hreint hvort fjármálaráðherra gengur fram eins og raun ber vitni í umboði meiri hluta á Alþingi. Er meiri hluti Alþingis þeirrar skoðunar að fjármálaráðherra standi eðlilega að málum í þessum viðræðum? Það kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra að hann er enn að reyna að þvælast fyrir því að yfirstandandi fjárhagsvandi sveitarfélaganna fáist tekinn fyrir í þessum viðræðum og reyna að halda sveitarfélögunum í því fari að ekkert megi ræða nema verkefnaflutning í framtíðinni og tekjur sem honum eiga að tengjast. Þetta skýrir þann hringlandahátt sem hefur verið á erindisbréfum þessara nefnda þar sem ýmist hefur átt að taka fyrir framtíðina eina og/eða í öðrum tilvikum að sveitarfélögin hafa verið að reyna að fá núverandi stöðu tekna fyrir.

Ég ræð ekki annað af viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra en að enn þá sé allt fast í botni, bremsurnar skrúfaðar fastar. Er sú sem sagt staðan?



[15:36]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er einfaldlega verið að vinna að þessu máli á þeim forsendum sem ákveðnar voru í þeirri viljayfirlýsingu sem ég gat um hérna áðan. Það er útgangspunkturinn í verkinu. Síðan verða menn að vinna það eftir atvikum eins hratt og mögulegt er.

Ég geri mér sem sagt vonir um að það takist að ná landi í þessu máli með viðunandi hætti áður en mjög langt um líður, hv. þingmaður.



[15:36]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það veit ekki á gott hvernig hæstv. fjármálaráðherra talar. Ég minni á að hæstv. ráðherra er að svara spurningum á Alþingi. Ég held að það hljóti að vera rétt og skylt að Alþingi beiti sér í þessu máli. Það er væntanlega ekkert einkamál hæstv. fjármálaráðherra úti í bæ hvernig farið er með tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Fram undan er fundur í þessari viðræðunefnd, á miðvikudaginn ef ég veit rétt, og síðan er aukalandsþing Sambands sveitarfélaga á laugardaginn. Það væri ákaflega æskilegt að eitthvað lægi fyrir um það með hvaða hætti hæstv. fjármálaráðherra ætlar að nesta embættismenn sína inn í þetta mál á næstu dögum. Það þýðir ekkert að vísa í innihaldslausa viljayfirlýsingu frá því í haust sem var gerð til að bjarga þessum viðræðum frá strandi. Þá voru sveitarstjórnarmenn gjörsamlega að gefast upp á þessum samskiptum. Þá hafði ekki verið fundað síðan í apríl. Það er greinilegt af viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra hér að engrar afstöðubreytingar er að vænta þar. Það er þvælst fyrir málinu og þessu öllu saman drepið á dreif. Það er mjög ámælisvert, herra forseti.



[15:37]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Ég mótmæli því harðlega, herra forseti, að þessu máli hafi verið drepið á dreif. Ég vísa málflutningi þingmannsins á bug. (SJS: Nú?) (JBjarn: Þú svarar sem sagt engu.)