131. löggjafarþing — 35. fundur
 22. nóvember 2004.
Háskóli Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 348. mál (skrásetningargjald). — Þskj. 394.

og 

Kennaraháskóli Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 349. mál (skrásetningargjald). — Þskj. 395.

og 

Háskólinn á Akureyri, 1. umræða.
stjfrv., 350. mál (skrásetningargjald). — Þskj. 396.

[16:09]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, með síðari breytingum, frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri, og frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands. Hér eftir ætla ég að nefna þau einfaldlega frumvörpin.

Frumvörp þessi eru lögð fram í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2005 þar sem kynnt eru áform um að hækka skrásetningargjöld í ríkisháskólum úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Er þetta lagt til vegna óska ríkisháskólanna og við það miðað að hækkun skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra. Ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta þessarar hækkunar komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum.

Eins og bent er á í greinargerð með frumvörpunum er skráningargjaldi ríkisháskólanna ætlað að mæta tilteknum kostnaði af þjónustu við stúdenta á námstímanum. Hér er einungis um að ræða kostnað ótengdan kennslu og er um skýrt skilgreinda kostnaðarliði að ræða. Mun ég víkja nánar að þeim liðum síðar í ræðu minni.

Það er mikilvægt að taka skýrt fram að með þessari hækkun skrásetningargjalda er ekki verið að fjölga þeim kostnaðarliðum sem falla undir þau gjöld. Einungis er lögð til breyting á fjárhæð gjaldsins í samræmi við hækkun þess kostnaðar sem gjaldinu er ætlað að ná til og síðan er skýrlega kveðið á um til hvaða tímabils fjárhæðin nær.

Í fyrsta sinn er skýrlega gerð grein fyrir þessum kostnaði lið fyrir lið, samanber fylgiskjölin sem fylgja með frumvörpunum og koma frá ríkisskólunum sjálfum, unnin úr bókhaldi þeirra.

Í greinargerð þess frumvarps sem varð að lögum 29/1996, um breyting á lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og geymdi ákvæði um fjárhæð skráningargjaldsins eins og við þekkjum það í dag kom fram að umboðsmaður Alþingis taldi á þeim tíma að þágildandi gjaldtökuheimild hefði verið of þröng þar sem líta yrði á skrásetningargjaldið sem þjónustugjald sem yrði að eiga sér beina stoð í lögum. Óheimilt væri að taka hærra þjónustugjald en almennt næmi kostnaði við að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni í umræddu tilviki, skrásetningu, hugtakið skrásetningargjald væri of þröngt til að fella mætti undir það ýmsa kostnaðarliði sem mæta þyrfti í rekstri háskólans en grundvallarþýðingu hefði að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir yrðu undir skrásetningargjaldið þegar metið væri hversu hátt þetta þjónustugjald mætti vera. Skrásetningargjaldið væri bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og stæði undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar mætti sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum væri veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildarskrifstofa, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjafar, bókasafns, aðgang að tölvum og prenturum háskólans.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3805/2003 sem varðaði gjaldtöku vegna inntökuprófa í læknadeild Háskóla Íslands er bent á að af gildandi lögum um Háskóla Íslands eða lögskýringargögnum verði ekki ráðið að skráningargjaldið lúti beinlínis sömu lögmálum og þjónustugjald. Þannig komi fram í athugasemdum við frumvarpið er varð að lögum nr. 41/1999 að gjaldið komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Eins og áður er áréttað er gjaldið bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og á að standa undir hluta kostnaðar við háskólastarfið og gerð er grein fyrir þeim þjónustuþáttum sem skráningargjaldinu er ætlað að ná til og ég var búin að nefna. Bendir umboðsmaður á að löggjafinn hafi ákveðið að nemendur greiði við skráningu til náms sérstakt gjald sem sæti breytingum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Í fylgiskjali I með frumvarpi þessu er að finna yfirlit frá Háskóla Íslands yfir þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að ná til.

Sambærilegt fylgiskjal fylgir frumvörpunum um Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands.

Ég tel, hæstv. forseti, að með þessu sé gerð grein fyrir kostnaðinum með afar skýrum hætti og forsendum hans.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpanna er ákvæði gildandi laga um skrásetningargjaldið skýrt að því marki að ljóst er til hverra það nær og fjárhæðin er einnig ljós. Bent er á að þegar fjárhæð gjalds er fastákveðin með þessum hætti og gjaldskylda er að öðru leyti skýr sé að öðru jöfnu ekki ástæða til að gera greinarmun á því hvort um skatt eða þjónustugjald er að ræða. Á móti kemur að gera verður kröfu til þess að skýrar komi fram í lögunum sjálfum hversu oft gjaldið er kræft og á hvaða tímabilum, þar sem lögin heimila sérstakt álag á gjaldið utan auglýstra skrásetningartímabila.

Því gerir 1. gr. frumvarpsins ráð fyrir því að skýrt verði kveðið á um það í 3. mgr. 13. gr. laganna að skrásetningargjaldið nái til heils skólaárs. Skólaárið er frá 1. júlí til jafnlengdar næsta árs og skiptist í tvö kennslumissiri, haustmissiri frá 20. ágúst til 21. desember og vormissiri frá 7. janúar til 15. maí sem hefst í ágúst og lýkur í júní. Það leiðir til þess að hefji nemendur nám á vormissiri greiða þeir einungis helming skrásetningargjaldsins. Er þetta gert með sambærilegum hætti í frumvörpunum um breytingu á lögum um Háskólann á Akureyri og KHÍ.

Varðandi gildistökuákvæði er lagt til að þessi frumvörp, verði þau að lögum, öðlist gildi 1. janúar 2005 í samræmi við gildistökudag fjárlaga fyrir árið 2005.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir efni þessara frumvarpa um háskólana. Ég legg til að frumvörpunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar og 2. umr.



[16:15]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki um neitt annað en feluleik að ræða. Það er verið að fela að leggja eigi á skólagjöld. Mér finnst réttara að menn komi til dyranna eins og þeir eru klæddir og segi frá því hvað verið er að gera. Hér er verið að leggja á skólagjöld. Allur rökstuðningur með gjaldtökunni er á mjög hæpnum forsendum. Það kemur fram hér að skráning stúdenta í námskeið sé 20% af einhverjum kostnaði. Hvers vegna 20%? Hvers vegna ekki 25%? Hvernig stendur á því að allar tölurnar eru í kringum 45 þús. kr.? Það er verið er að setja á skólagjöld og ekkert annað og menn eiga bara að tala um hlutina eins og þeir eru og hætta þessu rugli.

Ég er alveg hissa á því að Framsóknarflokkurinn, sem hefur komið fram í kosningum og sagt að ekki eigi að leggja á skólagjöld í ríkisreknum háskólum, skuli standa að þessu frumvarpi, því þeir ganga þvert gegn yfirlýstri stefnu sinni. Það er með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á slíka umræðu hér.

Svona má lengi telja þegar lesið er í gegnum kostnaðarliðina. Það kom hér fram að það sé skýrt hvernig þetta er reiknað út. Ég get ekki séð það. Það er alls ekki skýrt hvernig þessi kostnaður er fundinn út. Hér segir: Aðgangur að tölvum – önnur gjöld reiknuð 50% af almennum rekstri Reiknistofnunar. Ég veit ekki hvers vegna þau eru 50%. Hvers vegna ekki 60%? Það kemur ekkert fram í þessari greinargerð. Það er með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á þessa umræðu og sérstaklega af Framsóknarflokknum. Það væri áhugavert að fá að heyra hér hvað fulltrúa flokksins, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, finnst um frumvarpið.



[16:18]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því harðlega að hér sé um einhvern feluleik að ræða. Hér er einfaldlega um að ræða hækkun á skrásetningargjöldum til Háskóla Íslands, skráningargjaldi sem var í núverandi mynd samþykkt með lögum árið 1991. Það sem verið er að gera núna í fyrsta skipti er að reynt er að draga fram svart á hvítu hvaða raunverulegur kostnaður býr að baki skráningargjaldinu. Það hefur ekki verið gert með jafnskýrum hætti og nú er gert. Við höfum auðvitað gert þetta í samvinnu við Háskóla Íslands. Þetta eru tölur sem koma frá þeim og að ósk þeirra að þessi hækkun er lögð fram af hálfu menntamálaráðherra. Að sjálfsögðu komum við til með að taka tillit til þess kostnaðar sem háskólinn leggur út fyrir. Ég ítreka að sá kostnaður sem liggur að baki skráningargjaldsins er kostnaður sem að mínu mati á alls ekki að taka af kostnaði sem hlýst vegna kennslu, heldur er þetta fyrst og fremst kostnaður tengdur skrásetningunni. Mér þætti miður ef Háskóli Íslands og aðrir ríkisháskólar þyrftu að taka af fjármagni til kennslu eða rannsókna til að standa undir áföllnum kostnaði vegna skrásetningarinnar.



[16:19]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ömurlegur málflutningur hjá hæstv. menntamálaráðherra því það er sýnt svart á hvítu í ágætri greinargerð frá Stúdentaráði Háskóla Íslands þetta er eintómur feluleikur. Það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu hæstv. ráðherra og er í rauninni furðulegt að bjóða upp á þessa umræðu. Menn eiga bara að koma hér í ræðustólinn, og sérstaklega sjálfstæðismenn, og vera stoltir af því að vera búnir að ná fram því baráttumáli sínu að setja á skólagjöld. Það hefur verið eitt af baráttumálum Sjálfstæðisflokksins og menn eiga þá bara að vera menn til að fagna því, vera ánægðir með það að hafa beygt Framsóknarflokkinn. Mér finnst þá menn koma hreint fram að vera ánægðir með að hafa náð fram stefnu flokksins og hafa beygt Framsóknarflokkinn niður í duftið.



[16:20]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það er sami kostnaður sem býr að baki þessari hækkun og verið hefur (Gripið fram í.) að baki skrásetningargjaldinu fram til þessa. Hér er ekki um skólagjöld að ræða, þá umræðu getum við tekið síðar, en hér er einfaldlega sú breyting höfð á að verið er að draga fram svart á hvítu þann raunkostnað sem stendur á bak við (SigurjÞ: Hvers vegna ekki 25%?) hækkunina á skráningargjaldinu og að sjálfsögðu komum við til með að styðjast við þær tölur sem koma frá Háskóla Íslands og öðrum ríkisháskólum. Ég leyfi mér ekki að efast um þær tölur sem þeir góðu háskólar leggja fram, að sjálfsögðu styðst maður við þær tölur að meginstefnu til. Og ég undirstrika að hv. menntamálanefnd hefur síðan tækifæri til að fara lið fyrir lið ofan í kostnaðarliðina. En ég ber traust til háskólanna.



[16:21]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hér er um að ræða er 40% hækkun á skólagjöld við Háskóla Íslands. Forsendurnar á bak við það sem hér er kallað skráningargjald er skrípaleikur. Það er leikur að orðum. Það er leikur að forsendum þangað til upphæðin er fengin. Allt rammast það ljómandi vel inn í því að allir skólarnir þrír lenda á nákvæmlega sömu krónutölunni þegar búið er að leika sér að tölunum í Excel og forsendunum þangað til nákvæmlega sama upphæð er fengin. Hér er um að ræða almenna tekjuöflun háskólanna þriggja vegna fjársveltis ríkisvaldsins í garð skólanna. Verið er að velta rekstrarkostnaði og rekstrarvanda skólanna yfir á nemendur án þess að nokkurn tímann hafi verið tekin um það umræða í þingsölum að verið sé að taka upp skólagjöld á grunnnám í Háskóla Íslands.

Með þessu lagafrumvarpi, verði það að lögum, er í raun og sanni verið að taka upp skólagjöld á grunnnám í Háskóla Íslands án þess að því fylgi nokkur einasta pólitísk umræða eða opinber ákvörðunartaka um það. Þetta er feluleikur og þetta er skrípaleikur, virðulegi forseti. Þessu verður að fylgja pólitísk umræða á almennari grunni. Vanda skólanna, fjársveltinu og rekstrarvandanum, á ekki að velta yfir á nemendur með þessum hætti. Þess má geta að ekki er lánað fyrir þessum skólagjöldum, vegna þess að í reglum lánasjóðsins nú er skrásetningargjaldið eins og það heitir en er náttúrlega ekkert annað en hrein og klár og skólagjöld, ekki lánshæft. Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur að svara því hér hvort hún ætli að beita sér fyrir því að skólagjöldin við ríkisháskólana þrjá verði lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og af hverju ekki sé tekið af skarið og það játað hér hreinskilnislega að gamla baráttumálið fyrir skólagjöldum í grunnnámi ríkisháskólanna sé loksins í höfn.



[16:23]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var vel æfð ræða en hún var afar þvæld, og mjög þvæld því hér er ekki um skólagjöld að ræða og við vitum það og hv. þingmaður á að vita að Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar fyrir skólagjöldum. Hér er um skráningargjald að ræða, gjald sem var samþykkt á hinu háa Alþingi, viðurkennt af þingheimi að hægt væri að leggja á í Háskóla Íslands vegna útlagðs kostnaðar háskólans sem tengist skrásetningunni og skráningunni. Þetta var sett í lög árið 1991. Og ef við miðum við það verðlag sem þá var má í rauninni segja að raunkostnaðarhækkunin vegna þessarar skráningar sé u.þ.b. 20%, enda hefur þjónusta háskólans aukist til muna frá árinu 1991, og allir vita að umfang háskólans og háskólastigsins hefur þanist út vegna hinnar miklu menntasóknar í háskólakerfið og allt háskólasamfélagið á undanförnum árum. Að sjálfsögðu vilja háskólarnir þá bjóða upp á þjónustu sem nemendur m.a. fara fram á, eðli málsins samkvæmt. En mér finnst óeðlilegt að háskólarnir taki á sig þann kostnað sem hlýst af skráningunni til að mynda af kennslukostnaðinum eða rannsóknarkostnaðnum. Hér er um raunkostnað að ræða vegna skráningarinnar og ekkert annað. Ekki skólagjöld, engan veginn.



[16:25]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Raunkostnaður við skráningu, segir hæstv. ráðherra og heldur því fram að ekki sé um skrípaleik, orðaleik og feluleik að ræða, því hér sé um að ræða upptöku hreinna og klárra skólagjalda. Hvað hafa framlög til samtaka og stofnana stúdenta með skráningu stúdenta að gera, hæstv. ráðherra? Hvað hefur aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu með skráningu stúdenta við ríkisháskólana að gera? Hvað hefur aðgangur að prenturum og prentarakostnaður með skrásetningargjöld í háskólana þrjá að gera? Og svo mætti lengi telja, því þegar forsendurnar fyrir þessari skólagjaldatöku á grunnnám í ríkisháskólunum þremur eru lesnar þá afhjúpast skrípaleikurinn og feluleikurinn með svo afgerandi hætti. Hvernig vill hæstv. ráðherra halda því fram að hér sé um raunkostnað við skráningu að ræða þegar svo ítarlega er talið upp allt annað sem er inni í þessum tölum?



[16:26]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ótrúlegt að heyra það vantraust sem kom í rauninni fram í máli hv. þingmanns að hann ber til yfirstjórna ríkisháskólanna, því það var að þeirra ósk sem þessi hækkun á skráningargjöldum er lögð fram. Þeir fá þessa hækkun algjörlega óskipta í sinn rekstur. Mér finnst með ólíkindum að menn skuli vera að mótmæla þeim kostnaði sem þeir leggja fram, og hv. menntamálanefnd gefst að sjálfsögðu tækifæri til að fara yfir þá kostnaðarliði sem lagðir eru fram lið fyrir lið.

Ég ber fyllsta traust til háskólanna, yfirstjórnar, rektorannna og þeirra sem koma að stjórn háskólanna og undirstrika að þetta er skráningargjald og að hér er engan veginn um skólagjöld að ræða.



[16:27]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vonast til þess að hæstv. menntamálaráðherra svari spurningunum en láti sér ekki nægja að segja ekki orð af viti í svolitla stund þangað til henni líður betur.

Það sem mig fýsir að vita er hvernig ráðherrann lítur á margnefnd skráningargjöld, hún hefur sagt að þau séu ekki skólagjöld en eru þau þjónustugjald eða eru þau skattur?

Ráðherrann flutti í ræðu sinni langt mál upp úr greinargerðinni til þess að sanna það að hægt sé að setja lög um þessi skráningargjöld. Það eru lög um þau þannig að við efumst ekki beinlínis um það og var kannski óþarft að segja okkur það. Það sem við þráum að vita hér er hvort um er að ræða skatt eða þjónustugjöld vegna þess að ef þetta er skattur þá skýrist það að sama upphæð er í öllum skólunum þó að þeir séu misstórir og skráning og sú þjónusta sem reidd er fram kosti væntanlega mismikið. Ef þetta er þjónustugjald vantar hins vegar af hverju þjónustugjaldið er jafnt yfir alla skólana. Þeir hafa á aðdáunarverðan hátt komist mjög nærri þeirri tölu sem hér er nefnd af einhverjum ástæðum, 45 þúsund, en þó er munur á. Í einum háskólanum er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við þjónustuna sé 48.494 kr., í öðrum að hann sé 45.987 kr. og í þeim þriðja að hann sé 45.181 kr.

Nú bið ég, forseti, hæstv. menntamálaráðherra að svara okkur — það er ekki spurning um það hvort setja má lög um þetta eða ekki, ekki að sinni, það ræðum við í menntamálanefnd — hvort hún telur þetta vera skatt eða þjónustugjald. Einföld spurning: Skattur eða þjónustugjald?



[16:29]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með von um að hv. þingmenn og hv. þm. Mörður Árnason skilji mig, eða reyni a.m.k. að skilja það sem ég hef verið að segja, auðvitað skiptir máli að menn fari að lögum. Það er að mínu mati tilgangurinn með framlagningu þessa frumvarps, að draga fram hver hinn raunverulegi kostnaður við skráningu í skólunum er hverju sinni, og það er mjög mikið til framfara. Það er verið að reyna að gera stjórnsýsluna gegnsæja og skilvirka. Slíkt hefði einhvern tíma verið álitið fagnaðarefni, en ekki tilefni til að koma í ræðupúlt og nöldra.

Ég vil undirstrika það sem ég hef sagt áður að engir nýir kostnaðarliðir hafa bæst við hjá nokkrum háskóla, en það má segja að nú sé raunkostnaður vegna þessara kostnaðarliða skrásettur mjög nákvæmlega og skilgreindur í fyrsta skipti, eins og ég gat um áðan. Ég hefði talið að menn mundu fagna því sérstaklega.

Ég vil þá líka spyrja: Til hvers var Alþingi að samþykkja lög um skráningargjald árið 1998? Að sjálfsögðu út af því að einhver grundvöllur þurfti að vera til þess að heimila það. Það var ekki bara samþykkt og átti síðan að vera einhver slumpaðferð. Það hljóta að vera röksemdir á bak við lagaheimildina til að taka skráningargjald. Og það er bara allt önnur Ella en það sem heitir skólagjöld. Þá umræðu getum við tekið síðar, en ég tel að við verðum að koma til móts við ósk ríkisháskólanna um að hækka skráningargjaldið og hækkunin mun renna óskipt inn í blómlegt starf ríkisháskólanna.



[16:31]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýt að vekja athygli á að í þingsköpum stendur að við 1. umr. frumvarpa skuli tala almennt um málið. Það þýðir að þingmenn eiga rétt á því að ráðherra sem flytur stjórnarfrumvarp skýri út hvað stendur á bak við málið. Þegar ég spyr hvort þetta skráningargjald sé, að mati ráðherrans, menntamálaráðherrans hæstvirts yfir íslenskum menntamálum, heldur skattur eða þjónustugjald, þá á ég heimtingu á, forseti, að því sé svarað. Það er virðingu þingsins ekki samboðið að ráðherrann komi hér upp og tali, í þær eina eða tvær mínútur sem hún má tala, um eitthvað allt, allt, allt annað en hún er spurð um.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Er þetta þjónustugjald eða skattur?

Íslenska ríkið getur ekki sett svona gjöld á þegna sína og krafist þess að þeir greiði þau án þess að ljóst sé hvar þau flokkast. Það er auðvelt fyrir hæstvirtan menntamálaráðherra að athuga þetta, undir hvað fellur þetta í greinargerðum fjármálaráðherra til alþjóðastofnana; fellur þetta undir þjónustugjald eða fellur þetta undir skatt? Því mönnum er skylt að gera skil á því þegar þeir eru teknir upp í alþjóðasamstarfi.



[16:32]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á framsöguræðu mína, þá á hann að geta gert sér grein fyrir hvers konar gjald þetta er. Hér er verið að mæta raunkostnaði sem Háskóli Íslands, ríkisháskólarnir, (Gripið fram í.) og Kennaraháskólinn þurfa að leggja út fyrir skráningu og skrásetningu og öllu sem (Gripið fram í.) tengist því.

Ég bendi hv. þingmanni á að fara sérlega vel yfir álit umboðsmanns Alþingis, þar segir alveg skýrt og klárt hvernig þessir hlutir eiga að vera (Gripið fram í.) og að því er m.a. verið að stefna í þessu frumvarpi, við erum að gera stjórnsýsluna skilvirkari, við viljum fá að vita út á hvað þetta gjald gengur, hvaða kostnaður býr að baki skráningargjaldinu eins og það er heimilað í lögum. (GAK: Hvenær svarar ráðherrann …?)



[16:33]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós í umræðum sem hafa farið fram hér í dag, og í andsvörum við hæstv. ráðherra, að hér er um hreina og klára skólagjaldatöku að ræða. Í þokkabót er hún ekki lánshæf, þetta er því gjaldtaka sem rýrir kjör námsmanna með beinum hætti. Ráðherra svaraði því engu hvort hugsanlegt yrði að skólagjöld við ríkisháskólana þrjá yrðu lánshæf, en ekki undanþegin frá lánum eins og nú er.

Í þessum þremur frumvörpum, um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, er klárlega verið að velta hluta af rekstrarvanda ríkisháskólanna þriggja yfir á nemendur. Skólarnir hafa verið fjársveltir um langt árabil, eins og margoft hefur komið fram, og á hverju hausti við fjárlagagerðina. Því fer fjarri að nemendaígildum sé mætt og rekstrarvandi þessara þriggja þjóðskóla hefur safnast upp svo hundruðum milljóna nemur. Þá grípa menn það sem hægt er að grípa í og hvort sem það kallast skráningargjöld eða annað.

Svör hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við rekstrarvanda háskólanna og ásókn í þá eru 40% hækkun skólagjalda í þessa þrjá skóla. Það er það sem hér um ræðir og akkúrat ekkert annað. Upptalning á því sem á bak við hið meinta skrásetningargjald stendur afhjúpar einungis þann skrípaleik sem er í gangi, því hér er verið að fara í feluleik af því að stjórnvöld þora ekki að horfast í augu við að þau séu að taka upp skólagjöld í grunnnám við ríkisháskólana þrjá. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti. Skólagjöld, 40% hækkun skólagjalda í ríkisháskólana þrjá.

Það er alveg með ólíkindum að lesa upptalninguna í frumvörpunum um það sem liggur að baki hinu meinta skráningargjaldi. „Hækkun á raunkostnaði vegna skráningar í skólana,“ segja stjórnvöld. Því fer fjarri að þetta hafi nokkuð með skráningu nemenda í skólana að gera, enda er flest annað en bein og hrein kennsla tínt til svo hægt sé að ná þessari tölu, t.d. prentarakostnaður, bókasafnsrekstur, framlög til samtaka og stofnana stúdenta, skrifstofa kennslusviðs, þjónusta alþjóðaskrifstofu, aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu, aðstaða og stjórn og reiknuð gjöld, 12% af liðum 1–9 o.s.frv.

Hér er allt tínt til til að fá ákveðna tölu í því skyni að létta á rekstrarvanda skólanna með því að velta honum yfir á nemendur. Án þess að tekin sé pólitísk umræða um hvort taka eigi upp skólagjöld á háskólastigi eða ekki.

Þegar verið er að tala um gjaldtöku í háskólanum skiptir engu máli hvort um er að ræða gjaldtöku af kennslu eða öðrum rekstrarþáttum þeirra. Þar sem skólagjöld eru innheimt til að standa að hluta til undir rekstri háskóla, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, fara þau einfaldlega í rekstur skólanna. Þar er enginn greinarmunur gerður á hvort þessi króna eigi að fara í kennslu og hin krónan í aðra rekstrarþætti skólans. Það skiptir nákvæmlega engu máli, virðulegi forseti. Gjaldtaka er gjaldtaka og menn skulu kalla hana það, alveg sama hvaða nöfnum hún nefnist. Það skiptir ekki nokkru máli hvort fjármunirnir sem aflað er með henni renna til greiðslu á kennsluþáttum í rekstri háskólanna eða í annan kostnað. Það er greinarmunur sem ég hef aldrei skilið og botna ekki í af hverju er verið að reyna að fela skólagjaldatökuna undir öðrum flöggum eða undir öðrum og undarlegri nöfnum, eins og ekki sé um gagnsæja, hreina og klára gjaldtöku að ræða.

Margt annað undarlegt má nefna í þessu samhengi, eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á áðan, t.d. hvort um er að ræða skatt, þ.e. skatta á nemendur, eða þjónustugjöld, því þjónustugjöld lúta allt öðrum lögmálum en það sem hér um ræðir hefur lagalegt ígildi skatts. Ef um þjónustugjöld væri að ræða þá væri það ekki skilgreind upphæð í lögunum heldur mætti sú upphæð einungis ná til þeirrar þjónustu sem innheimtugjaldið væri sett á. Þá þyrfti ekki að búa til einhverja regnhlíf yfir skrípaleik og innheimtu skólagjalda eins og hér um ræðir.

Allt um það, þetta afhjúpar greinilega skrípaleikinn sem er hér á ferð, að það sé verið að taka upp skólagjöld í grunnnám í ríkisháskólunum þremur, skólagjöld sem er ekki lánað fyrir, 40% hækkun skólagjalda í einu lagi.

Þá hljótum við að kalla sérstaklega eftir viðhorfum Framsóknarflokksins, sem er annar stjórnarflokkanna tveggja, sem hlýtur að bera jafnmikla ábyrgð á þessari 40% hækkun skólagjalda og Sjálfstæðisflokkurinn. Þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn fari með menntamálaráðuneytið í þessari ríkisstjórn þá hlýtur Framsóknarflokkurinn að gera sérstaka grein fyrir því hvar, hvenær og hvers vegna flokkurinn hafi látið af þeirri stefnu sinni að hann ætli ekki og muni aldrei heimila innheimtu skólagjalda í ríkisháskólana. Þar hefur Framsóknarflokkurinn ekki gert neinn greinarmun á grunnnámi eða framhaldsnámi, eins og ýmsir aðrir hafa gert, heldur hefur Framsóknarflokkurinn afdráttarlaust hafnað því að innheimt verði skólagjöld í ríkisháskólana, svo einfalt er það mál.

Þess vegna hljótum við að kalla eftir því að annar af tveimur fulltrúum flokksins í menntamálanefnd verði hérna við umræðuna. Ég veit að hv. varaformaður menntamálanefndar er erlendis og getur því ekki tekið þátt í umræðunni, en hv. þm. og þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, hlýtur þá að koma og gera okkur grein fyrir þeirri meginstefnubreytingu Framsóknarflokksins, að hann hafi fallist á það í ríkisstjórninni að innheimt verði skólagjöld við ríkisháskólana, hafi fallist á 40% hækkun skólagjalda. Framsóknarflokkurinn hlýtur að koma og svara því klárt og kvitt, nema hann sé í sama feluleiknum og hæstv. menntamálaráðherra, að þora ekki að horfa í augun á þjóðinni og segja að hér sé um að ræða skólagjaldatöku á grunnnámi við ríkisháskólana þrjá. Við hljótum að kalla eftir skýrum svörum frá Framsóknarflokknum um þetta.

Þá hlýtur að koma til umræðu hér hvort ekki eigi að heimila Lánasjóðnum, eða breyta reglum Lánasjóðsins þannig að hann geti lánað nemendum fyrir skólagjöldunum vegna þessarar 40% hækkunar gjaldanna, en að gjaldtakan sé ekki undanþegin lánshæfi eins og nú er. Fróðlegt verður að sjá hvernig stjórn Lánasjóðsins bregst við þessari tæplega 40% hækkun gjaldanna.

Við hljótum að kalla eftir skýrum svörum frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum flokksins sem hljóta að sýna okkur þann sóma að vera við þessa mikilvægu umræðu, þegar um er að ræða svo verulega hækkun á einhverju sem skírt var hér í skrípaleik fyrir fyrir sex árum „skráningargjöld við ríkisháskólana“. Þetta er að sjálfsögðu hrein og klár gjaldtaka á nemendur og hlýtur að geta kallast sama nafni og aðrar slíkar gjaldtökur. Hér er ekki um að ræða raunkostnað við skráningu nema að verulega litlu leyti heldur gjaldtöku fyrir ýmsa þjónustu skólanna; þjónustu sem engu máli skiptir hvort heitir kennsla eða eitthvað annað. Rekstur skóla er rekstur skóla og þar á ekki að skilja á milli.

Ef innheimta á skólagjöld af grunnnámi í ríkisháskólunum hljóta menn að taka breiða og opinskáa pólitíska umræðu um það, t.d. hve há þannig gjöld eigi að vera og hvernig eigi að koma til móts við það. Ætla menn að lána fyrir því? Eða mæta því eftir á með einhvers konar tekjuviðmiðunum þannig að menn greiði í samræmi við tekjuöflun að námi loknu, líkt og Bretar fóru að? Þessi umræða er öll eftir. Hvort réttlætanlegt sé að gera þetta og þá hvernig. En að skella skólagjöldum á svona nánast í skjóli myrkurs og í einhverjum felu- og skrípaleik á bak við hugtök og heiti, er einfaldlega áfellisdómur. Það er ámælisvert að svo sé gert. Stjórnmálamenn og stjórnvöld eiga að hafa kjark til að taka þessa umræðu með opinskáum og rækilegum hætti. Ef þeir ætla að berjast fyrir því sem hér kemur fram, að skólagjöld í grunnnámi í ríkisháskólunum verði tekin upp, þá skulu menn segja það, leggja fram stjórnarfrumvörp þess efnis og ræða málin á þeim forsendum, en ekki í þeim blekkingarleik sem hér um ræðir.



[16:44]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, nú sýnir Sjálfstæðisflokkurinn sitt rétta andlit, þegar komin eru fram þrjú frumvörp sem gera ráð fyrir hækkun á skráningargjaldi í háskólana, opinberu háskólana. Ég verð að segja að málflutningur hæstv. menntamálaráðherra er afar ótrúverðugur í þessu máli — afar ótrúverðugur. Hún hefur ekki getað svarað þeirri einföldu spurningu sem hv. þingmenn hafa lagt fyrir hana hvort hér sé um þjónustugjald eða skatt að ræða. Ekki hefur hún heldur getað komið til móts við þær spurningar sem voru lagðar fram úr þessum ræðustóli í þessum sal árið 1995 og 1996, þegar þetta skráningargjald var upphaflega fest, með tölunni 24 þús. kr., í lög um háskóla. Þá var þessu skráningargjaldi mótmælt á háværan hátt af stjórnarandstöðuflokkunum. Auðvitað er því mótmælt áfram af stjórnarandstöðunni á Alþingi, vegna þess að hér er verið að fara á skjön við þau meginsjónarmið að nám í háskólum sem reknir eru af opinberu fé skuli vera gjaldfrjálst. Hvers vegna? Vegna þess að það á að ríkja jafnrétti til náms á Íslandi. Þegar stjórnvöld í menntamálaráðuneytinu — en því hefur verið stýrt af Sjálfstæðisflokkunum allt of lengi — reyna að halda því fram að hér sé einungis um skráningargjöld að ræða og verið sé að reikna einhvern raunkostnað þá verður allur sá málflutningur afar, afar holur að innan.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér nákvæma yfirlýsingu um hvernig reikningskúnstunum, talnakúnstunum er beitt til þess að fá út niðurstöðutöluna 45 þús. kr. Stúdentaráð Háskóla Íslands er ekki að spara hæstv. ráðherra gagnrýniorðin í greinargerð sinni. Greinargerðin er upp á einar sjö síður og hefur verið send til fjölmiðla og þingmanna í dag. Þar segir stúdentaráð fullum fetum að verið sé að setja á aukið skráningargjald sem eingöngu eigi að nota sem almennt tekjuöflunartæki fyrir háskólana og tekur þar af leiðandi undir orð stjórnarandstöðunnar að um feluleik sé að ræða, skrípaleik og dulbúið skólagjald.

Í greinargerð hæstv. ráðherra með frumvarpinu segir að hækkunin sé í samræmi við óskir ríkisháskólanna. Hæstv. forseti, ég segi: Heyr á endemi, því hver er það sem hefur komið ríkisháskólunum á kné vegna fjárskorts? Það er hæstv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hvaða nafni sem hann hefur heitið undanfarin ár, því að árvisst hefur það gerst síðan sú sem hér stendur settist á Alþingi, að yfirvöld háskólans hafa komið á fundi fjárlaganefndar eða menntamálanefndar Alþingis og kvartað undan framgangi stjórnarliðanna, ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu þar sem aldrei hefur verið gert ráð fyrir því að eðlileg hækkun fjárframlaga til háskólanna nái fram að ganga. Aldrei er reiknað rétt hvað varðar launastiku háskólanna og aldrei er reiknað rétt hvað varðar nemendafjölgun háskólanna.

Svo stæra sömu stjórnvöld sig af því að aldrei hafi verið settir meiri peningar til menntamála, sérstaklega til háskólastigsins, en einmitt nú. Þá spyr maður sig, virðulegi forseti: Í hverju eru þau hækkuðu fjárframlög fólgin? Þau eru ekki fólgin í hækkun fjárframlaga til hinna opinberu háskóla. (Menntmrh.: Það er rangt.) Þau eru hins vegar fólgin í hækkunum til sjálfseignarstofnana, til þeirra aðila sem upp á sitt eindæmi hafa ákveðið að setja upp háskólastofnanir og stjórnvöld hafa vissulega komið myndarlega að framlagi til slíkra stofnana. Það er auðvitað fyrst og fremst þar sem hækkunina á fjárframlögum til háskólastigsins er að finna en ekki í hækkuðum fjárframlögum til hinna opinberu háskóla. Það er sannleikurinn í málinu.

Það er eðlilegt að hæstv. ráðherra svari fyrir þetta. Hún hrópaði fram í að fullyrðingar mínar væru rangar. Hún svarar því þá vonandi í ræðu sinni á eftir á hvern hátt hún sér þetta öðruvísi en ég.

En það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að hinir opinberu háskólar eru ekki að biðja um hækkun á skráningargjaldi háskólanna nema vegna þess að þetta sama ríkisvald, þessi sama ríkisstjórn hefur svelt háskólana og ekki komið til móts við fjárþörf þeirra á undanförnum árum.

Svo segir í greinargerð hæstv. ráðherra með frumvarpinu að ekki sé gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum. Ég segir aftur, herra forseti: Heyr á endemi og þakka skyldi þeim. Ég spyr: Datt þeim það í hug? Datt ríkisstjórninni í hug að setja skráningargjöldin í mínus og draga þau frá öðrum framlögum til háskólanna? Bara að leyfa sér að hugsa slíka hugsun segir meira en mörg orð um afstöðu stjórnvalda, núverandi ríkisstjórnar, til hinna opinberu háskóla.

Hæstv. forseti. Í greinargerð og í þessum þremur frumvörpum er tíundað á hvern hátt skráningargjaldið er reiknað og fram hefur komið í ræðum þeirra þingmanna sem talað hafa á undan mér að þar sé um blekkingarleik að ræða, feluleik. Ég ætla að leyfa mér að taka undir þau orð með því að vitna í greinargerð stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna fyrirhugaðrar hækkunar, hækkunar sem hefur verið mótmælt hástöfum af stúdentum frá því daginn sem hugmyndin kom fram. Frá því að fjárlagafrumvarpið leit dagsins ljós hefur þeim áformum verið mótmælt og þeim er mótmælt nú og það harðlega og þeim var mótmælt á Alþingi 1996 þegar fjárhæðin 24 þús. kr. var fest í lög um háskóla. Ég ætla að rifja það upp fyrir hæstv. menntamálaráðherra að 25 stjórnarliðar greiddu heildarlögunum atkvæði á vordögum 1996 og 19 stjórnarandstöðuþingmenn voru á móti, fyrst og fremst út af skrásetningargjaldinu. Hæstv. ráðherra skal því ekki tala eins og um þetta hafi einhvern tíma ríkt sátt á hinu háa Alþingi, því það hefur aldrei ríkt sátt um skrásetningargjöld í opinbera háskóla á Alþingi Íslendinga.

Greinargerð stúdentaráðs Háskóla Ísland er næst á dagskrá. Þar segja stúdentar að að þeirra mati hljóti skrásetningargjald, ef það eigi að taka á annað borð, að lúta reglum um þjónustugjöld og gagnrýnisvert sé ef stjórnvöld ætla að nota ákvæðin í lögunum til að innheimta jaðarskatta af námslánum. Síðan er farið í smáatriðum ofan í rökstuðninginn fyrir hækkun skrásetningargjaldsins og sagt að í upphafi hafi háskólayfirvöld sent frá sér yfirlit til menntamálaráðuneytisins yfir þá kostnaðarliði sem þau töldu að réttlættu hækkun gjaldsins og, nota bene, ég fullyrði að yfirlitið sem háskólanum hefur verið gert að senda til stjórnvalda hefur komið að beiðni stjórnvalda. Stjórnvöld hafa auðvitað óskað eftir þeirri sundurliðun. Varla hefur það komið að frumkvæði háskólanna að sundurliða þennan kostnað allan. Ef ég hef rangt fyrir mér geri ég ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra leiðrétti það á eftir.

En sannleikurinn virðist vera sá, út frá þeim upplýsingum sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur, að yfirliti háskólanna hafi verið gerbreytt eftir að það var sent frá þeim. Ákveðin dæmi eru nefnd. Til dæmis hafi í upphaflegu samantektinni frá Háskóla Íslands verið tilgreind atriði til þess að rökstyðja hækkunina eins og þau að hluti hafi átt að fara í rekstur íþróttahúss skólans sem ætti þá að tengjast skrásetningu nemenda. Hæstv. menntamálaráðherra virðist ekki hafa samþykkt það enda er ekkert um íþróttahúsið eða hlut þess í gjaldinu í frumvarpinu á þskj. 394 í dag.

Sömuleiðis gera stúdentar það uppskátt að í upphaflegu yfirliti frá Háskóla Íslands hafi átt að rukka fyrir útgáfu stúdentaskírteina sem hafi verið talin kosta 600 kr. á hvern nemanda við skólann samkvæmt samantekt háskólayfirvalda, en svo er bent á að hætt sé að gefa út þessi skírteini. Stúdentar benda okkur því á að það sé meira en lítið pottur brotinn í samsetningu kostnaðarliðanna sem taldir eiga að vera á bak við 45 þús. kr. kostnaðinn.

Ef þetta er rétt, hæstv. forseti, að verið sé að dulbúa kostnaðinn og færa hann undir þessa óskuðu upphæð, 45 þús. kr., er það auðvitað grafalvarlegt mál. Þess vegna er ekki óeðlilegt þó þingmenn gangi harkalega að ráðherranum og spyrji: Er þetta þjónustugjald eða skattur? Eru þetta skólagjöld eða hvað er þetta? Hæstv. ráðherra hlýtur að verða að svara gagnrýni stúdenta sem lýtur að fleiri liðum en þeim sem ég hef nefnt. Þeir gagnrýna t.d. lið 1 í frumvarpinu á þskj. 394 þar sem fjallað er um skráningu stúdenta í námskeið og próf. Þeir gagnrýna skipulag kennslu og prófa og framlög til samtaka og stofnana stúdenta. Þar kemur fram að samkvæmt skýrum ummælum í greinargerð sé skráningargjaldinu ekki ætlað að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem stúdentaráð Háskóla Íslands veitir, en það er þjónusta sem veitt hefur verið samkvæmt samningi milli Háskóla Íslands og stúdentaráðs hingað til.

Einnig gagnrýna stúdentar skrifstofu kennslusviðs. Þeir gagnrýna aðgöngu að bókasafni og lestraraðstöðu og koma inn á lokun Þjóðarbókhlöðunnar en það má vel rifja það upp, virðulegur forseti, að árið 2003 fékk Háskóli Íslands samkvæmt rammasamningi 14 millj. kr. sem runnu til kvöldopnunar Þjóðarbókhlöðunnar. Fyrirkomulaginu mun hins vegar hafa verið breytt og upphæðin farin að renna beint til skólans í stað þess að hún sé sérstaklega ætluð kvöldopnun safnsins. Svo kunnum við framhaldið á þeirri sögu. Fyrr á þessu ári ákváðu skólayfirvöld að loka Þjóðarbókhlöðunni á kvöldin og nota peningana í aðra hluti. Því var harðlega mótmælt af stúdentum og háskólayfirvöld hafa nú ákveðið að opna safnið aftur á kvöldin. Nú lítur út fyrir að það eigi hins vegar að velta kostnaðinum af kvöldopnun Þjóðarbókhlöðunnar í skráningargjald háskólanna.

Það er náttúrlega alveg forkastanlegt. Stúdentar gagnrýna þetta og þeir gagnrýna líka að hér skuli hluti af kostnaðarliðunum tengjast tölvum og prenturum og segja að hér sé margtalinn hlutur stúdenta af almennum rekstri Reiknistofnunar Háskóla Íslands og slumpað sé á einhverjar prósentutölur án nokkurra útskýringa og gagnrýna þetta harkalega, sérstaklega í ljósi þess að nemendakerfið er orðið rafrænt og rekstur þess og viðhald orðið mun ódýrara en fyrir nokkrum árum. Hér rekist því hvað á annars horn og sé alls ekki hægt að segja að málflutningur hæstv. menntamálaráðherra eða greinargerðin sem fylgir frumvörpunum sé á nokkurn hátt sannfærandi.

Hæstv. forseti. Það er óeðlilegt að hækka skráningargjald í opinbera háskóla um 40% á sama tíma og skráning nemenda er orðin auðveldari, ódýrari, rafrænni og eflaust mannfærri en áður. Tekið skal undir orð stúdenta sem halda því fram að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins byggi á talnaleikfimi og tilfærslu kostnaðarliða.

Það skal því tekið undir mótmæli stúdenta við þessum hækkunum og ég held því fram í nafni flokks míns, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að vegið sé að grundvallaratriði sem í stefnu okkar felst, þ.e. að fólk skuli hafa jafnan rétt til setu í háskólum burtséð frá efnahag. Ég tala nú ekki um þegar hæstv. ráðherra hefur mjálmað um það hér í ræðustól að skólagjöld séu lánshæf og það eigi ekki að þurfa að koma niður á fólki sem búi við bágan efnahag ber að undirstrika að skráningargjöldin eru ekki lánshæf svo skráningargjöldin koma til með að bitna illa á fólki sem býr við bágan efnahag. Þar af leiðandi er hækkunin sem hér er verið að leggja til ógnun við jafnrétti til náms og hækkun á borð við þá sem hér er lögð til skal aldrei fara auðveldlega í gegnum Alþingi Íslendinga. Það var ekki auðvelt fyrir stjórnvöld að koma þessu í gegn í upphafi, það var ekki auðvelt 1996 og það skal ekki verða auðvelt 2004.



[16:58]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. ráðherrar hafa fullkomið leyfi til að koma með þau frumvörp sem þeim sýnist inn á þingið á sama hátt og þingmenn hafa leyfi til að flytja þau eða andæfa frumvörpum hver annars eða frumvörpum ráðherrans. Hins vegar verður að gera ráð fyrir því, þó að það sé hvergi beinlínis skráð þá liggur það náttúrlega í anda þess að stofna til þings og umræðunnar um það sem ráðherrar m.a. vilja fá fram, að gera verður ráð fyrir því að ráðherrar alveg eins og þingmenn skýri út ástæður þess að þeir vilja fá frumvörp sín samþykkt.

Það verður að gera ráð fyrir því að ráðherra, sem býr m.a. við það framar einstökum þingmönnum að hafa sérstaka skrifstofu sem til eru ráðnir tugir og jafnvel hundruð sérfræðinga á háum launum, að ráðherrar hafi fyrir því, áður en þeir koma með frumvörp inn í þingið, að raða upp röksemdum fyrir því af hverju frumvörp þeirra skuli samþykkt af þinginu.

Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra, sem hefur setið hér lengur en ég, hefur horft upp á að menn kýldu í gegn mál án þess að mæla mjög fyrir þeim, án þess að taka þátt í umræðunum eða skýra það út fyrir þingi eða þjóð hvers vegna málin ættu að fara í gegn. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. menntamálaráðherra, vegna þess að hún er að hefja störf sín, til að taka ekki upp þann sið. Það væri ráðherranum sérstaklega ósæmandi að gera vegna þess að menntamálin gera beinlínis ráð fyrir því að menn færi rök fyrir máli sínu. Það liggur í eðli málaflokksins að menn reyni það.

Ég mótmæli þess vegna því að ráðherrann skyldi ekki svara áðan einfaldri spurningu minni um hvað hún álíti, með stuðningi af skrifstofu sinni, öllu menntamálaráðuneytinu, að hér sé um að ræða: Er hér um að ræða skatt eða er hér um að ræða þjónustugjöld? Því ætti að vera tiltölulega einfalt að svara.

Það er ekki nóg að sannfæra okkur á þinginu um að komist verði hjá því að lagafrumvörp þessi séu hrakin af Hæstarétti vegna þess að þau standist ekki stjórnarskrá, eins og hér er reynt að gera. Helsta röksemdin fyrir frumvörpunum sem ráðherra vill fara með í gegn um þingið er að það sé tæknilega unnt og að menn þurfi sum sé ekki að vera hræddir við að þurfa að éta þau ofan í sig aftur. Það er bara ekki næg röksemd. Hæstv. ráðherra á að segja okkur hvers vegna hann flytur mál sitt og hvers eðlis það er. Það er þannig.

Ég reyndi að rekja í andsvari, og ætla að halda því áfram, hvaða rök geta verið á bak við að þetta sé þjónustugjald og hvaða rök geta verið á bak við að þetta sé skattur.

Rök sem benda til þess að hér sé um þjónustugjöld að ræða eru að hæstv. ráðherra tilfærir sérstaklega í máli sínu að stofnað sé til þess gjalds sem innheimt er út frá tilteknum kostnaði af þjónustu. Forseti. Tiltekinn kostnaður af þjónustu bendir til þess að hér sé um að ræða þjónustugjald.

Þegar litið er á tölurnar í greinargerðinni um hvern einstakan skóla er hins vegar fátt sem bendir til að þar sé um að ræða þjónustugjald, tölurnar eru ekki hinar sömu. Þær eru, þannig að ég endurtaki það frá því áðan: við Háskóla Íslands 48.494 kr., við Kennaraháskóla Íslands 45.987 kr. og við Háskólann á Akureyri 45.181 kr. Ef um þjónustugjald væri að ræða mætti ætla að hver skóli innheimti sér upphæð sem næmi tilteknum kostnaði af þjónustu sem veitt er í hverjum skóla.

Raunar eru þessar tölur þannig að um þær er ekki hægt annað en að efast. Það er sérkennilegt að skólarnir hafa komist að því, að því gefnu að þeir hafi reiknað það út hver um sig á sjálfstæðan hátt, hver hinn tiltekni kostnaður af þjónustu er. Þjónustan sjálf hefur reyndar aldrei verið útskýrð nánar og ekki af ráðherra. Það er sérkennilegt að Háskóli Íslands skuli hafa fundið út að kostnaðurinn væri 48.494 kr. hjá sér en Háskólinn á Akureyri skuli hafa fundið út að innheimta þyrfti 45.181 kr. Það er því um 3.200 kr. minni kostnaður í Háskólanum á Akureyri við þessa kostnaðarþjónustu en í Háskóla Íslands. Þó er Háskóli Íslands allnokkuð stærri. Ja, ætli hann sé sextán sinnum stærri? Ég þori ekki að fara með það en hann er sextán til tuttugu sinnum stærri að nemendafjölda en Háskólinn á Akureyri. Af því gerir maður ráð fyrir að ná mætti einhvers konar hagkvæmni stærðarinnar í öllum þeim liðum þar sem ætla má að tiltekinn kostnaður verði af þjónustu sem ráðherrann ræðir svo mjög um.

Það er undarlegt að tölurnar skuli vera svona. Maður hefði gert ráð fyrir að þetta væri á hinn veginn. Maður hefði gert ráð fyrir því að í minnstu skólunum væri mestur kostnaðurinn við skráningu og annað það sem er tiltekið sem kostnaður af þjónustu, en í fjölmennustu skólunum sé því öfugt farið og minnstur kostnaður við þá liði.

Auðvitað bendir allt til þess, forseti, að hér sé eitthvað annað en þjónustugjald á ferðinni. Það bendir ekki til þess að um sé að ræða þjónustugjald þegar fylgiskjölin eru skoðuð, fylgiskjal I. í frumvörpunum þremur. Þá kemur í ljós að gert er ráð fyrir því að nemandi sem skráir sig í skólann fái þjónustu alls staðar í þeim liðum sem tilteknir eru. Það er t.d. gert ráð fyrir því í Háskóla Íslands að allir hafi aðgang að tölvum, prenturum og fleira, að allir hafi sama aðgang að bókasafni og lesaðstöðu og allir þurfi að skipta við alþjóðaskrifstofu. Það er ekki eðli þjónustugjalda. Eðli þjónustugjalda er það að ef maður þarf að skipta við alþjóðaskrifstofu og alþjóðaskrifstofan heimtir þar gjald, þá heimtir hún það af þeim sem skipta við alþjóðaskrifstofuna. Þjónustugjald er þannig og það getur hæstv. menntamálaráðherra lesið um í úrskurði umboðsmanns Alþingis sem hún vitnaði reyndar til áður. Þjónustugjald er þannig að með því borgar maður fyrir þjónustu sem veitt er og nákvæmlega hana, auðvitað að því tilskildu að slíkt gjald sé endurskoðað árlega, að einhverju leyti áætlað o.s.frv. Ef maður fer ekki á alþjóðaskrifstofuna eða einhverja aðra skrifstofu þar sem þjónusta er veitt, þá á maður ekki að þurfa að borga þjónustugjaldið. Það er þannig. Þetta bendir ekki til að hér sé um þjónustugjald að ræða.

Heiti fylgiskjalanna með frumvörpunum eru ekki eins á öllum stöðum. Þar segir ýmist að um sé að ræða „áætlaðan kostnað vegna skrásetningar“. Kostnaður við „þjónustu við stúdenta“ segir á einum stað en vegna „tengdrar þjónustu við nemendur á öðrum stað“. Þetta bendir til þess að höfundar hafi haft ákveðið sjálfræði í vali fyrirsagnar. Þegar háskólarnir skila inn þessu fylgiskjali eru liðirnir ákaflega misjafnir og það skilur maður vel. Þeir eru ákaflega misjafnir vegna þess að það er ekki sami kostnaðurinn í þessum skólum. Þær skrifstofur sem tilheyra Háskóla Íslands eru ef til vill ekki til í öðrum skólum. Sú þjónusta sem samið er um við nemendafélögin, eða látið líta svo út að um hana sé samið við þau, er væntanlega ekki hin sama í öllum þessum skólum. En samt er kostnaðurinn við þjónustuna sem háskólarnir hafa lagt fram hver um sig af fullkomnu sjálfstæði og án nokkurs samráðs, skulum við vona, álíka hár. Er nokkurt samráð í þessu, menntamálaráðherra? Það er ekkert samráð, forseti, menntamálaráðherra hristir höfuðið. Það munar sem sagt á niðurstöðutölunum þessum rúmlega 3.200 kr. Það er allur munurinn á þessu tvennu.

Hins vegar eru mjög mismunandi forsendur á bak við kostnaðinn við þá þjónustu sem til er tekin. Til dæmis er engin velgengnisvika í Háskóla Íslands eða Kennaraháskóla Íslands en hún er í Háskólanum á Akureyri og kostar hvern nemanda 323 kr. nákvæmlega. Maður gæti haldið að það munaði þá þessum 323 kr. milli skólanna en það er ekki þannig því að Háskólinn á Akureyri er ódýrastur að þessu leyti og þar munu nemendur að borga minnst.

„Aðstaða og stjórnun — reiknuð gjöld 12% af liðum 1–9,“ er reiknað í Háskóla Íslands. En slík aðstaða og stjórnunarkostnaður er ekki reiknaður í hinum fylgiskjölunum. Það stenst ekki og má segja að hvað reki sig á annars horn í þessum fylgiskjölum.

Ég verð að segja, úr því að hæstv. menntamálaráðherra eggjaði menn til þess áðan í orðaskiptum við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, að játast undir hinn akademíska raunveruleik sem hér kemur fram. Hún spurði hvernig hv. þingmanni dytti í hug að halda að eitthvað væri hæpið sem kæmi frá háskólunum. Þá er rétt að ég lýsi því yfir í eitt skipti fyrir öll að þessi fylgiskjöl eru ekki unnin á akademískan hátt. Þessi fylgiskjöl eru greinilega lögð fram eftir pöntun frá menntamálaráðuneytinu. Þau eru ekki þessum þremur háskólum sæmandi og fyrir neðan akademíska virðingu þessara þriggja háskóla. Það er sorglegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli kalla fram brot háskólanna þriggja á þeim grunnreglum sem universitas á að fylgja og hefur gert í gegnum aldirnar, að hún skuli sjálf sveigja menn til að niðurlægja virðingu Háskóla Íslands og hinna háskólanna tveggja með því að pína þá til þess að leggja fram þessi heimskulegu og bjánalegu fylgiskjöl sem hér er um að ræða.

Hvers vegna skyldi það svo vera að menntamálaráðherra getur ekki lýst því yfir að hér sé annaðhvort um skatt eða um þjónustugjald að ræða? Getur verið að það sé vegna þess að ef um þjónustugjald væri að ræða þá væri augljóst, samkvæmt öllum réttlætisrökum, að lána ætti fyrir þeim hjá Lánasjóðnum, sem mundi þá þyngja baggann á þeim lið í staðinn fyrir að létta hann? Gæti verið að ef um þjónustugjald væri að ræða þá hefðu nemendur rétt til þess, gagnvart dómstólum, að láta kanna hvern lið sem hér um ræðir og láta bera saman við hina skólana? Þeir hefðu þá jafnvel rétt á að neita að borga þann hluta af þjónustugjaldapakkanum sem þeir nota alls ekki, neita að borga fyrir þjónustu sem þeir aldrei fá. Kann það að vera? Af hverju er þetta ekki skattur, sem allt bendir til að sé reyndin, skólagjöld, eins og hér var rætt um áðan? Af hverju má það ekki heita það hjá hæstv. menntamálaráðherra?

Það kann að vera vegna þess að það sé óþægilegt fyrir menntamálaráðherra og fyrir hæstv. ríkisstjórn sem nú er að lækka skatta eftir að hafa að vísu verið mjög óspör að leggja þá á síðasta ár. Það gæti verið óþægilegt að tala um skattahækkun í áróðursstríðinu innan lands, sem ríkisstjórnin fer nú ansi duglega í, t.d. á blaðamannafundi hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar og hæstv. fjármálaráðherra Geirs Haardes þar sem taldar voru upp ýmsar skattalækkanir en gleymdist að geta um að vaxtabætur stórlækka og gleymdist raunar einnig að segja almennilega frá því að barnabótahækkunin kemur ekki fram fyrr en árið 2007. En það er sem kunnugt er kosningaár á Íslandi og auðvelt að lofa á því vori.

Skyldi vera að í áróðursstríðinu innan lands sé ekki heppilegt að kalla þetta skatt heldur þurfi það að fara einhvers staðar á milli, að vera óútskýrð hækkun á þessu sem hvorki má kalla þjónustugjald né skatt? Kynni það líka að vera vegna þess að fjármálaráðherrann roðnar á sínum frægu og löngu ferðum erlendis þegar hann ber saman hina velheppnuðu fjármálastjórn sína við aðrar þjóðir og gumar af því, og þá vilji hann ekki hafa skattprósentuna of háa og vilji hérna megin landsteina reyna að búa til eitthvað annað úr þeim gjöldum og álögum sem hann innheimtir af þjóðinni allri saman eða að hluta? Þetta dettur mér í hug.

Okkur sem vinnum á þinginu, námsmönnum sem þurfa að borga þetta og öðrum áhugamönnum um þetta mál væri greiði gerður með því að hæstv. menntamálaráðherra upplýsti um hina raunverulegu ástæðu þess að hún vill ekki skera úr um það hvað henni sjálfri finnst. Það er ekki verið að spyrja um stóradóm, ekki verið að spyrja um hinn hinsta dag heldur hvað henni sjálfri finnst, stjórnmálamanninum, hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um þetta? Er þetta þjónustugjald eða er þetta skattur? Á hún svar við því?

Það kann auðvitað að vera að hæstv. menntamálaráðherra vilji geyma sér hina miklu sókn til skólagjalda og vilji því að þetta teljist ekki skólagjöld þannig að þegar hún fari í þau efni þá verði það glæsileg orrusta sem vinnist undir gunnfánum Sjálfstæðisflokksins, en ekki svona skitirí eins og þetta er. Þetta nemur ekki meira í hundraða milljarða reikningum fjárlaganna en 140 millj. kr., ef mark má taka á greinargerðinni með þessu, sem ég held að megi gera því að það er ekki skrifstofa hæstv. menntamálaráðherra sem kemur með þá tölu heldur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins, sem ég treysti enn þá betur. Það eru um 140 millj. kr., skitnar, segi ég, í hinum stóru stærðum, sem nú á að rýra kjör námsmanna um án skýringar, án þess að þjóðinni sé gerð grein fyrir því um hvað er að ræða.

Það á að fá 100 millj. kr. út úr nemendum í Háskóla Íslands, 24 millj. kr. út úr nemendum í Kennaraháskóla Íslands og 16 millj. kr. á að fá út úr nemendum í Háskólanum á Akureyri. Það er um þetta sem málið snýst, 140 millj. kr. frá nemendum til einhvers sem kallað er skráningargjald. Hins vegar er ekki er hægt að gera grein fyrir því hvort það er skattur eða þjónustugjald en af orðum menntamálaráðherra má ráða að þar séu alls ekki skólagjöld. Um þetta snýst málið. Leggst nú ekki mikið fyrir kappann, má segja, forseti, um hæstv. menntamálaráðherra. En það má vona og biðja; ora et labora, sögðu þeir Þorlákur helgi og menn í hans munkareglu. Við gerum það og væntum svara frá hæstv. menntamálaráðherra. Enn spyr ég: Er þetta skattur eða er þetta þjónustugjald? Og enn spyr ég: Af hverju þarf þessa hækkun? Hana þarf ekki á grundvelli fylgiskjala frá skólunum með þessum frumvörpum. Þau eru della, samsuða sem hæstv. menntamálaráðherra er ekki sæmandi að koma með inn á þingið og háskólunum ekki sæmandi að láta frá sér fara, jafnvel þótt undir nauðungarþrýstingi sé.



[17:16]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það verður að taka undir það með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað, öðrum en hæstv. ráðherra að sjálfsögðu, að þetta er ákaflega dapurlegt frumvarp, og dapurlegt hlutskipti fyrir hæstv. menntamálaráðherra á fyrstu metrunum í embætti sínu að þurfa að koma með óbermi af þessu tagi inn í þingið. Þetta frumvarp er neðan við allar hellur. Það snýst um að hækka verulega þau skólagjöld sem komin eru, því miður, í opinberu háskólunum og fundið var upp þetta nafn á á sínum tíma, innritunargjöld eða skráningargjöld. Verra af tvennu eru þó kannski vinnubrögðin í kringum þetta og skrípaleikurinn sem þarna er á ferðinni. Það er alveg yfirgengilegt að skoða fylgiskjölin og sjá þessar æfingar og hundakúnstir í því að reyna að smyrja þessu út á mismunandi liði í skólastarfinu. Mér er alveg nákvæmlega sama hvort á hvað í því, ráðuneytið eða háskólarnir. Það er jafnógeðfellt.

Það er því miður, herra forseti, allt að koma á daginn sem sagt var hér þegar menn hófu þessa vegferð á sínum tíma, í ríkisstjórn krata og Sjálfstæðisflokks, og síðan var því haldið áfram í ríkisstjórn framsóknarmanna með íhaldinu, að tilhneigingin þegar svona gjaldtaka er einu sinni komin á er alltaf sú að reyna að sæta færis og hækka gjaldið. Það er ekkert sem tryggir að eftir 2–3 ár detti mönnum ekki allt í einu í hug að þessi kostnaður hafi verið stórlega vanreiknaður og finni allt í einu út úr því í öllum háskólunum að nú þurfi gjaldið að hækka upp í 89.500, og kannski bara allt í einu í nákvæmlega sömu krónutölu hjá háskólunum þremur. Svona fíflagangur getur auðvitað haldið áfram þegar menn eru einu sinni komnir út á þessa braut.

Til hvers er verið að þessu, herra forseti? Jú, til þess að skrapa saman skitnar 140 millj. kr. í opinberu háskólunum þremur, upp úr vösum námsmanna. Þar hefur ríkisstjórnin fundið matarholurnar, í vösum námsmanna.

Þetta er sama ríkisstjórnin og er svo vel stödd að hún ætlar að gefa jólagjafir og lækka skatta, sérstaklega á hátekjufólkinu í landinu. Þá vantar ekki auðlegðina í búið. En það er ekki hægt að hafa fjárveitingar til þessara háskóla 140 millj. kr. hærri þannig að ekki þurfi að standa í þessu. Sér er nú hver metnaðurinn.

Þetta er upp í veltu opinberu háskólanna upp á samtals liðlega 8 milljarða kr. Háskóli Íslands með 6,1 milljarð, Kennaraháskólinn með 1,3 og Háskólinn á Akureyri með 820 millj. Samtals velta upp á 8,2 milljarða. Upp í þetta á að safna saman heilum 140 millj. kr. — með þessum aðferðum. Menn leggja mikið á sig fyrir lítið, verð ég að segja. Tekur það því fyrir hæstv. menntamálaráðherra að leggja í þennan leiðangur, jafngeðfelldur og hann er, og hafa þrátt fyrir allt ekki meira upp úr krafsinu en þetta?

Nei, þetta er alveg dapurlegt, herra forseti. Það er látið svo heita að þetta sé samkvæmt óskum ríkisháskólanna. Það vantar bara upp á að þeir hafi verið alveg sólgnir í þetta, bara æstir í að fá þetta, er það ekki? Það er bara af kurteisi ekki tekið fram í greinargerð með frumvarpinu en andinn í þessu er sá. Ætli það sé ekki frekar þannig að þetta sé meira í ætt við undirskriftirnar á Kópavogsfundinum, að menn geri þetta grátandi? Auðvitað er alveg vitað að það er búið að þjarma þannig að opinberu háskólunum, svelta þá og fara þannig með þá undanfarin ár að menn eru grátbólgnir og á hnjánum, farnir næstum því að biðja um skólagjöld. Það er rétt. En það vita allir menn nákvæmlega í hvaða samhengi það er.

Það er kannski ekki undir byssukjöftum núna sem menn biðja um þetta eins og á Kópavogsfundinum forðum en það er þá undir svipu sveltistefnunnar undanfarin ár. Þarna er íhaldið á heimavelli. Það kann þetta, herra forseti. Þetta er nákvæmlega sama aðferð og íhaldið notar á sveitarfélögin. Þetta er sama aðferð og menn hafa notað á þau undanfarin ár, að halda þeim í fjársvelti, í fjárhagslegri spennitreyju, þangað til menn fara að selja og einkavæða og grípa til hvers kyns óyndisúrræða. Þetta er eins og þegar fjárvana sveitarfélög, jafnvel meiri hlutar í félagshyggjusveitarfélögum, sitja yfir því að reikna það út hvort þau geti bjargað sér í 2–3 ár með því að selja grunnskólann sinn. Þetta er nákvæmlega það sama. Ég leyfi mér að fullyrða að húmanisti eins og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, er ekki að biðja um svona lagað að gamni sínu eða vegna þess að það sé sérstaklega í samræmi við hugmyndafræði hans og innstu hjartans hvatir að fara að biðja um skólagjöld eða hækkuð innritunargjöld í Háskóla Íslands. Ætli það sé ekki eitthvað annað á ferðinni þegar búið er að fara þannig með menn, eða þess vegna Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, eða Ólafur Proppé í Kennaraháskólanum?

Ég hef enga trú á því að neinn af þessum mönnum — þó að ég eigi svo sem ekkert með að tala fyrir þeirra hönd segi ég það bara sem skoðun mína af kynnum við þessa sómamenn alla — hafi nokkurn áhuga á því að fara inn á þessa braut með sína skóla. Það er verið að neyða stjórnendur þessara stofnana til þess með alveg sömu aðferðum og er verið að neyða sveitarfélögin út í alls konar óyndisúrræði sem auðvitað leysa engan vanda. Það er handan við hornið að síðan verði skólunum refsað sem nemur því sem þeir taka af nemendum í formi minni fjárveitinga frá ríkinu. Það er að vísu tekið fram af sérstakri kurteisi að þeir fái að halda þessu óskertu í eitt ár. Það liggur alveg fyrir hvað í raun og veru er þarna á ferðinni og hvers menn mega vænta í þessum efnum.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst líka alveg makalaust að Framsóknarflokkurinn skuli fela sig í þessari umræðu. Hvar er Framsóknarflokkurinn? Er hann bara gufaður upp ? Eru þau búin að segja af sér þingsætunum, öll 12? Þau spýttust héðan í burtu, þau fáu sem voru hérna þegar kom að því að umræðan hæfist. Hvar er nú hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem fór ekki svo lítinn í framboðinu til Alþingis 2003, sem gaf sig út fyrir að ætla að verða alveg sérstakur verndari og bjargvættur námsmanna og hagsmunamála þeirra? Hún talaði eins og hún og hennar flokkur bæru enga ábyrgð á stjórnarstefnunni og stjórnarsamstarfinu, talaði eins og hreinn stjórnarandstæðingur í framboði sem væri það algerlega óviðkomandi, allt það slæma sem ríkisstjórnin hafði verið að gera í skólamálunum, þar skyldi heldur betur brotið í blað. Hvar er hv. þingmaður nú? Hún er sennilega á liðsæfingu nema hún sé kannski orðin klappstýra í liðinu fyrir nýjum skólagjöldum.

Nei, þetta er heldur dapurlegt, herra forseti.

Svo vil ég gera sérstakar athugasemdir hér við eitt, og ég leyfi mér að kalla það líka ósmekklegt. Ég verð að vísu að játa að ég hef ekki haft tíma til að kanna þar frumgögn en í þessu frumvarpi er látið að því liggja að þessi aðferðafræði sé með uppáskrift umboðsmanns Alþingis. Það er látið að því liggja að í sjálfu sér sé engin ástæða til að gera greinarmun á sköttum og þjónustugjöldum. Hefur umboðsmaður Alþingis einhvern tímann sagt það? Ég hef mikinn fyrirvara á því, tek það að vísu fram að ég hef ekki haft tíma til að fara nákvæmlega yfir það álit umboðsmanns sem menn skjóta sér þarna á bak við en það ber nýrra við ef umboðsmaður Alþingis vill taka ábyrgð á einhverjum sóðaskap hvað varðar framsetningu af þessu tagi. Ég hef frekar þekkt það embætti fyrir hið gagnstæða, að menn vilji hafa svona hluti mjög á hreinu. Hér er verið að fara, augljóslega, út á mjög grátt svæði hvað varðar það að menn geti bara með einhverjum kúnstum og æfingum látið heita svo að um innritunar- eða þjónustugjöld, eða skrásetningargjöld skulum við segja, sé að ræða og að þau þurfi þá ekki að lúta sömu reglum og þjónustugjöld. Það þurfi ekki að vera beint samhengi á milli þess kostnaðar sem lagður er út og þjónustunnar sem menn þá fá og gjaldtökunnar. Það bara ósköp einfaldlega stenst held ég ekki þegar betur er að gáð. Það væri brot á öllum grundvallarprinsippum í þessum efnum.

Hvaða maður kaupir það að það séu fullnægjandi vísindi fyrir því þegar farið er hér yfir þetta fylgiskjal sem virðist hafa verið byggt eftir geðþótta ráðuneytisins á því sem fengið var frá skólunum og lagfæringum menntamálaráðuneytisins á því þar sem sumt er viðurkennt og öðru hent út, eins og íþróttahúsinu? Það hlaut ekki náð menntamálaráðuneytisins að hluti af rekstrarkostnaði íþróttahússins væri tekinn þarna með sem þjónusta við stúdenta. Mér finnst þá að ég eigi að fara að borga svolítil skólagjöld eða innritunargjöld því ég nota þetta íþróttahús af og til. Þá væri sanngjarnt að ég tæki þátt í einhverjum hluta af rekstrarkostnaðinum þar.

Eða svona snilld eins og það að 30% af rekstri skrifstofu kennslusviðs skuli tilheyra þessum gjöldum. 30%. Af hverju ekki 30,02%? Svo 12% af reiknuðum gjöldum vegna aðstöðu og stjórnunar. 12%. Hver eru vísindin á bak við þetta, hæstv. ráðherra? Þau eru auðvitað ekki til. Þetta er slumpugangur, það sér hver heilvita maður. Sama má segja t.d. um þjónustu alþjóðaskrifstofu o.s.frv.

Í reynd er þetta allt saman kjaftæði þegar betur er að gáð. Hvar í ósköpunum ætla menn að draga mörkin hvað varðar rekstur háskólanna í heild sinni? Allur rekstur háskólanna er í eðli sínu í raun og veru fyrir námsmenn. Ég skil ekki bara hvernig þessi hugsun á að ganga upp ef út í það er farið.

Þegar til kastanna kemur eru það, herra forseti, ekki nafngiftirnar sem skipta máli, heldur upphæðirnar. 45 þús. kr. eru 45 þús. kr. hvað sem þær heita. Það munar um þær. Það munar verulega um þær, ég tala nú ekki um þegar það liggur fyrir að þessi kostnaður er ekki lánshæfur.

Fjárlagaskrifstofan virðist ekki alveg hafa náð þessari hugmyndafræði menntamálaráðuneytisins. Svolítið fyndið að orðalagið á þessari stuttaralegu umsögn fjárlagaskrifstofunnar er ekki beinlínis til að undirbyggja þann málflutning ráðherra að þetta séu allt saman alveg þaulskilgreind þjónustugjöld. Þar stendur bara ósköp einfaldlega:

„Útgjaldaheimild skólans í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 byggist á þeirri forsendu að skólinn nýti sér heimildina og afli 100 millj. kr. meiri tekna sem renni óskertar til hans.“

Fjárlagaskrifstofan er ekkert að gera þetta flókið. Þetta eru bara 100 millj. kr. tekjur til Háskóla Íslands. Það er auðvitað það sem það er. Svo geta menn farið í allar þessar æfingar og reynt að skýra þær út og suður og gera bara málið í raun og veru enn þá aumkunarverðara og hlægilegra.

Hvernig ætla menn t.d. að útskýra að það þurfi allt í einu núna, á einu bretti vegna ársins sem í hönd fer, að hækka um 38,5%? Á að gera þetta svona geysilega miklu betur og á þetta að vera svona miklu vandaðra allt á næsta ári og menn að fá svona miklu meiri þjónustu? Eða var halli á þessu í fyrra? Af hverju allt í einu bara núna? 38,5%, það þarf eitthvað að útskýra það.

Hér rekur sig meira og minna eitt á annars horn, herra forseti, og þarf í sjálfu sér ekkert að hafa miklu fleiri orð um það. Mér finnst þó kannski ástæða til að nefna hér einn lið sérstaklega því mér fannst svo dapurlegt að sjá hann hér og það er kostnaðurinn vegna lesaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni og aðgangs að gögnum. Pínulítinn hluta af rekstrarkostnaði Þjóðarbókhlöðunnar á að reikna þarna á námsmenn af því þeir komast inn í Þjóðarbókhlöðuna svona þegar er opið og það eru þarna nokkur borð sem menn geta sest við og lesið. Metnaðurinn er nú ekki meiri en svo að talið er rétt að kría pínulítið af námsmönnum upp í það, þeim sem eru í opinberu háskólunum. Nú vitum við að ýmsir fleiri nota þessa aðstöðu, þar á meðal framhaldsskólanemendur. Þeir eru þar kannski á hrakhólum dálítið. En þeir eru nú að reyna að stelast þarna inn og lesa. Nei, en af því að hægt er að ná til nemendanna í opinberu háskólunum þá skulu þeir borga þetta, a.m.k. þeir í Háskóla Íslands. Ekki er það nú mikill metnaður finnst mér. Ég held menn ættu frekar að vera stoltir af Þjóðarbókhlöðunni og hafa hana opna og nýta hana og hafa það hugarfar við.

Mér finnst þetta allt ákaflega dapurlegt, herra forseti, en auðvitað er þetta, því miður, angi af alveg gríðarlega stóru máli. Þetta er ein af mikilvægu víglínunum í okkar samfélagi, í okkar pólitík. Það er þessi hér af því þetta snýst í grunninn um viðhorf manna til jafnréttis á þessu sviði. Þetta er spurningin um það hvort menn í reynd vilji verja jafnrétti til náms. Svo koma hérna sjálfsagt ræðurnar um að þessi 45 þúsund kall sé svo lágur og hóflegur að hann mismuni nú engum o.s.frv. En menn hafa lagt á þessa braut.

Ég lít á menntun og aðgengi manna að menntun sem mannréttindi. Ég tel að það séu grundvallarmannréttindi að fá að þroska hæfileika sína og menntast í samræmi við efnalega möguleika þess þjóðfélags sem menn búa í. Því eru að sjálfsögðu slík almenn og ytri takmörk sett. En það er þannig í mínum huga að það að menn standi jafnt að vígi gagnvart menntunarmöguleikum í samfélagi er undirstöðujafnréttis- og mannréttindamál. Verkin sýna merkin. Við vitum alveg hvað gerist í þeim þjóðfélögum sem fara inn á braut einkavæðingar í menntakerfinu og taka upp há skólagjöld. Fari menn til Bandaríkjanna og skoði það bara þar. Hvaða möguleika eiga fátækir blökkudrengir sem eru að alast upp í Harlem á því að hljóta góða háskólamenntun í Bandaríkjunum? Enga, nema þeir séu undrabörn í körfubolta og komist inn í gegnum það. Er það inn á þessa braut sem við viljum fara? Ég segi nei.

Það að opinberu háskólarnir séu opnir án fjöldatakmarkana og án skólagjalda er undirstaðan að jafnrétti til náms á háskólastigi. Ástandið er þolanlegt á Íslandi í dag, þó hér séu komnir einkaháskólar með háum skólagjöldum, svo lengi sem valkosturinn er í boði, opinberir háskólar án skólagjalda sem standa mönnum til boða og með allar almennar námsbrautir. Að vísu er að halla undan fæti, t.d. núna ef það á að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík og færa inn í þá einkareknu stofnun nám sem hvergi annars staðar verður í boði á Íslandi. Þar eru há skólagjöld. Þá er farið að halla undan fæti því það er þá ekki lengur þannig að menn eigi val á milli þess að stunda slíkt nám í opinberum almennum háskóla og einkaskólanum. Þetta eru hornsteinarnir. Það eru opinberu skólarnir og auðvitað Lánasjóður íslenskra námsmanna. Því miður hefur verið sótt að þessu ítrekað og hart af Sjálfstæðisflokknum, undir forustu Sjálfstæðisflokksins, á hugmyndafræðilegum og pólitískum grunni. Það er alveg á hreinu. Dapurlega geðlitlir meðreiðarsveinar, nú í Framsóknarflokknum, tölta götuna á eftir þeim. Það er að vísu fagnaðarefni að hér er kominn einn varaþingmaður sem er látinn afplána viðveruna. (Gripið fram í: Var hérna áðan líka.) Þá biðst ég velvirðingar á því að hafa ekki séð það. Ég hygg nú að hv. þingmaður hafi þá verið í hliðarsal á meðan ég var að tala. En betra er að hann er hingað mættur og kannski fáum við að heyra hér réttlætingu og rök Framsóknarflokksins fyrir því að standa að þessum ósköpum með Sjálfstæðisflokknum ef þessi hv. þingmaður Framsóknarflokksins tekur til máls.

Ég held að það sé ósköp einfalt, herra forseti, hvað eigi að gera við þetta frumvarp. Það á að henda því og þeim sem því fylgja og það á að hækka fjárveitingar til háskólanna um 140 millj. kr. við 2. eða 3. umr. fjárlaga og þó meira hefði verið. Auðvitað er þetta aðeins angi af því að fjárhagsleg málefni þessara stofnana hafa langt frá því verið í nógu góðu lagi. Sjálft stoltið og flaggskipið í byggðaumræðu í landinu, uppbygging Háskólans á Akureyri sem flestir ljúka nú upp einum munni um að hafi verið ákaflega vel heppnuð aðgerð, er nú farin að stanga þök vegna þess að háskólinn getur ekki lengur tekið við öllum nemendum sem þangað leita vegna þess að hann fær ekki fjárveitingar til þess. Þannig að það er farið að bremsa af þá uppbyggingu hvað þá annað.

Okkar gamla góða móðurskip í háskólamenntun í landinu, Háskóli Íslands, er auðvitað grátt leikið og hefur verið um langt árabil. Svipaða sögu má segja um Kennaraháskólann sem auðvitað er gríðarlega mikilvæg stofnun og veitir nú ekki af að sæmilega sé að honum búið og kennurum auðvitað almennt eins og dæmin sanna og ég veit að ég þarf ekki að vísa til.



[17:36]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú saman þrjú frumvörp, skattahækkunarfrumvörp upp á 140 millj. kr. frá hæstv. menntamálaráðherra sem fer hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar greinilega búin að finna breiðu bökin í landinu, þ.e. námsmenn við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskólann sem skulu, ef þessi frumvörp verða að lögum, borga 140 millj. kr. meira í skólagjöld eða skatt til ríkisins.

Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, að fylgjast með ríkisstjórninni um þessar mundir. Hún lofaði miklum skattalækkunum fyrir kosningar. Fyrsta árið voru skattar hækkaðir um 4 milljarða sem mun þá þýða í kringum 16 milljarða á kjörtímabilinu. Svo eru tilkynnt núna rétt fyrir helgi skattalækkunaráform þar sem hluti af þessari skattahækkun sem tekin var á síðasta ári er svo lofað sem skattalækkunum. Þetta er með ólíkindum. Það er alveg með ólíkindum að við skulum núna ræða þetta frumvarp þar sem menntamálanefndarfólk stjórnarflokkanna lætur ekki sjá sig við umræðuna. Aumt er hlutverk Framsóknarflokksins alveg sérstaklega, B-deildar Sjálfstæðisflokksins, sem greinilega hefur látið troða þessu máli ofan í sitt víða kok. Þetta er vafalaust einn gjaldstofn þess að formaður Framsóknarflokksins skuli fá að sitja í forsætisráðherrastól undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins eitthvað áfram á þessu kjörtímabili, guð veit hvað lengi.

Virðulegi forseti. Ég segi þetta vegna þess að á flokksþingum og annars staðar er stefnan mörkuð. Það gerðist hjá Framsóknarflokknum fyrir kosningar að samþykkt var mikil og góð stefnuyfirlýsing, m.a. í mennta- og skólamálum, sem er nú rétt að hafa hérna aðeins uppi.

Virðulegi forseti. Það er frekar truflandi þetta mikla hljóð sem berst héðan úr hliðarsal. Maður hefur það stundum á tilfinningunni að verið sé að ræða við mann. En ég ætlaði að hafa það á orði hér, virðulegi forseti, hvað Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum síðasta landsfundi í mennta- og skólamálum. Með leyfi forseta, þá segir svo í kaflanum um mennta- og skólamál m.a.:

„Í mennta- og skólamálum leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á eftirfarandi:

Halda ber fast í þá meginhugsun að nám ungs fólks sé öllum opið óháð efnahag og stöðu.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum,“ — Kærar þakkir framsóknarmenn fyrir að ætla að láta grunnskólana alla vega vera. Ég hef nú ekki séð að það þurfi að taka sérstaklega fram — „né heldur í ríkisreknum háskólum.“ (SJS: Hvar stendur þetta?)

Þetta stendur í samþykkt Framsóknarflokksins frá landsfundi 2003. (SJS: Nú.) Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að það er eðlilegt að menntamálanefndarfólk Framsóknarflokksins, þau Dagný Jónsdóttir sem sérstaklega skal tekið fram að er erlendis á vegum þingsins ... (Gripið fram í: Að horfa á fótboltann.) En það getur líka verið að það sé skringileg tilviljun að Gunnar Birgisson er líka erlendis þegar þetta mál er flutt hér. Auðvitað hefði nú verið meiri bragur á því ef þetta mál hefði verið flutt þegar þau eru heima. En hv. þm. Hjálmar Árnason, hinn menntamálanefndarmaður Framsóknarflokksins, er ekki erlendis. En hann lætur ekki sjá sig við þessa umræðu til þess að verja þessa gjörð sem menntamálaráðherra hefur farið hér með fram eftir að vera búin að svínbeygja Framsóknarflokkinn til að láta af sínum stefnuatriðum og leyfa framlagningu þessa máls.

Bara svo ég hafi sagt það hér, virðulegi forseti, þá verður dálítið kyndugt og spennandi að fylgjast með því hvernig því máli reiðir fram sem er nú hjá stjórnarflokkunum, þar á meðal hjá Framsóknarflokknum, um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Þegar haft er í huga hvað hv. varaformaður menntamálanefndar Dagný Jónsdóttir sagði hér í umræðu utan dagskrár um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans þá getur maður auðvitað lesið það hér — og ég ætla að hafa það eftir hér á eftir — og séð að Framsóknarflokkurinn er ekki alveg tilbúinn.

Ég spái því, virðulegi forseti, að menntamálaráðherra leggi það frumvarp fram eins og þetta hér eftir að hæstv. forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, verður búinn að fara á þingflokksfund Framsóknarflokksins og vafalaust taka þetta þar út þingflokknum og heimila framlagningu vegna þess, eins og ég áður sagði, að þetta er hluti af gjaldinu fyrir forsætisráðherrastólinn.

Í ágætri grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði í Fréttablaðið 28. október síðastliðinn er fjallað um skólagjöldin eða þessa námsmannaskatta sem er ágæt upprifjun, og ber að þakka Kristni fyrir það, fyrir okkur sem höfum áhuga á pólitík og fylgjumst að sjálfsögðu með flokksþingum annarra flokka því maður gat fylgst með því hvernig þessi ályktun sem ég nefndi áðan varð til. Kristinn lýsir þessu í blaðagreininni. Ég ætla að lesa úr þessari grein vegna þess að hún á heima í þingtíðindum:

„Stefna Framsóknarflokksins er skýr varðandi skólagjöld í ríkisreknum háskólum: engin skólagjöld. Í samþykkt síðasta flokksþings, sem haldið var í febrúar 2003, segir orðrétt um þetta: „Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum, né í ríkisreknum háskólum.“

Spyrja má hvort afstaða flokksins nái aðeins til grunnnáms í ríkisreknum háskóla þannig að varðandi framhaldsnám sé flokkurinn fylgjandi skólagjöldum eða hafi a.m.k. ekki hafnað þeim. Svarið er ótvírætt nei við báðum spurningunum. Flokksþingið vísaði frá tillögu um að bæta við orðunum „í grunnnámi“ í ályktunina. Hún hefði þá hljóðað: „né í grunnnámi í ríkisreknum háskólum“. Breytingartillagan hefði dregið úr aðaltillögunni, þannig að hún væri ekki eins víðtæk og afdráttarlaus. Andstaðan við breytingartillöguna var svo mikil að ekki var heimilað að mæla fyrir henni og ekki mátti ræða hana í umræðunum, tillögunni var umsvifalaust vísað frá með dagskrártillögu sem“ — og takið þið nú vel eftir, virðulegi forseti, — „Dagný Jónsdóttir flutti og flestir viðstaddir forystumenn flokksins studdu. Skýrari afstöðu er ekki hægt að sýna til málsins.

Staðan er þá sú að hendur forustumanna flokksins og þingmanna eru algerlega bundnar í þessu máli. Þeir geta ekki hvikað frá samþykktri stefnu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru ekki boðuð skólagjöld og reyndar hvergi á þau minnst. Þar stendur að meðal helstu markmiða ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu sé: að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Stjórnarsáttmálinn var samþykktur í miðstjórn flokksins, og í honum felast engar heimildir til þess að víkja frá samþykktri stefnu flokksþingsins 2003.

Nú er spurt: Er Framsóknarflokkurinn tilbúinn til þess að taka upp skólagjöld í sameinuðum háskóla Tækniháskólans og Háskóla Reykjavíkur? Verði nýi háskólinn ríkisrekinn er svarið skýrt og ótvírætt nei. Flokkurinn getur ekki staðið að því nema þá að sækja áður nýja stefnu til næsta flokksþings. Verði nýi skólinn ekki ríkisrekinn háskóli þá þarf fyrst að ákveða hvort ríkið selji Tækniháskólann eða eigi hann áfram og leggi skólann með gögnum og gæðum inn í nýjan skóla sem yrði til úr þeim báðum. Ef ríkið selur Tækniháskólann er um dæmigerða einkavæðingu að ræða og það er alveg nýr flötur.“

Svo kemur, virðulegi forseti, og rétt að ítreka að ég er að lesa upp úr grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði í Fréttablaðið 28. október sl.:

„Framsóknarflokkurinn hefur ekkert gefið undir fótinn með einkavæðingu í skólakerfinu og það á eftir að ákveða stefnuna. Niðurstaðan er þá að flokkurinn getur ekki staðið að slíku nú. Þá er það síðasti kosturinn, sameinaður skóli sem er ekki ríkisrekinn. Hugsanlega má koma sér undan formlegri samþykkt flokksþings með þeirri leið, en ég held að fæstum muni blandast hugur um að þar væri aðeins verið að fara í kringum samþykktina og opna fyrir almenn skólagjöld í öllu háskólanámi. Til dæmis með því að sameina svo Verkfræði- og raunvísindadeild HÍ við hinn sameinaða skóla, eða sameina lagadeild HÍ við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Þessi leið gengur ekki heldur. Niðurstaðan úr öllum möguleikum er sú sama, að óbreyttri stefnu flokksins getur hann ekki staðið að því að taka upp almenn skólagjöld. Einfalt og skýrt. Engin skólagjöld.“

Virðulegi forseti. Eftir þennan lestur og þegar haft er í huga það sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, hefur sagt er alveg með ólíkindum hvað garmurinn hann Ketill, hvað garmurinn hann Framsóknarflokkurinn getur endalaust látið troða ofan í kokið á sér í þessum málum. Þögn þeirra og fjarvera í þingsalnum fyrir utan hv. varaþingmann, Þórarin E. Sveinsson, sem vissulega er varamannslegur og tekur vörnina þétt og ekki gott að mæta honum á fleygiferð alla vega í sókninni. Þögnin er hrópandi en vafalaust mun hv. þm. Þórarinn E. Sveinsson ræða þetta mál og taka til varna fyrir garminn Framsóknarflokkinn.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin langar mig að fara aðeins yfir umræðuna sem ég vitnaði til áðan. Ég held nefnilega að það hafi ekki verið nægur gaumur gefinn að því sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði þá. Ég tek skýrt fram að ég tel ákaflega mikilvægt að fá þetta inn í umræðuna til að fylgjast með því hvernig því máli reiðir af í þingflokki Framsóknarflokksins um þessar mundir — ég geri ráð fyrir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé löngu búinn að samþykkja þetta. En af því að málið er ekki komið fram spyr maður sig auðvitað að því: Hvað með Framsóknarflokkinn?

Til að hafa það alveg á hreinu vona ég að hv. þm. standi við ákveðin varnarorð í ræðu sinni og Framsóknarflokkurinn standi við en láti ekki svínbeygja sig í því máli eins og öllum öðrum.

Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að það var einmitt hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem orðaði það svo vel forðum þegar hún þurfti að bakka með einhver mál gagnvart Framsóknarflokknum og gagnvart stjórnarstefnunni að menn verði jú að spila með í liðinu. Það sem áður hefur verið sagt skiptir því engu máli því menn verða að spila með.

En í umræðunni um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands sagði hv. þm. m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Tilgangur sameiningar Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands er réttmætur. Efla á samskipti atvinnulífs og skólans og mun það án efa vera forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni í atvinnulífi hér á landi.“

Síðan var gripið fram í fyrir henni og sagt: „Hvað með skólagjöldin?“ Ekkert svar fékkst við því en áfram skal haldið með ræðu hv. þm.:

„Þetta hljómar vel og við höfum í mörg ár talað um að efla þurfi tæknimenntun í landinu. Ég tel engan vafa leika á því að sameiningin muni stuðla að því.“

Svo kemur það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, með leyfi forseta:

„Hins vegar eru mörg atriði sem við þurfum að skoða og eiga eftir að koma til umræðu í þinginu. Þar ber auðvitað hæst umræða um skólagjöld. Í viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í gær er gert ráð fyrir að háskólinn hafi heimild til að innheimta skólagjöld. Það er engin nýbreytni í tilfelli Háskólans í Reykjavík en nýtt fyrir Tækniháskólann. Þar eru námsleiðir sem hingað til hafa ekki borið skólagjöld. Má þar nefna heilbrigðisgreinar eins og geislafræði, meinafræði og t.d. frumgreinadeild.“

Að lokum segir hv. þm. sem taka má undir:

„Ég ítreka að ég fagna sameiningunni og tel að í henni felist mikil tækifæri. En málið á eftir að fá þinglega meðferð og við munum og eigum eftir að fá að sjá nánari útfærslu sem og röksemdafærslu málsaðila.“

Virðulegi forseti. Ég hélt að hæstv. menntamálaráðherra mundi vera í salnum því ég hafði hugsað mér að leggja fram spurningar fyrir hæstv. ráðherra um hvort til stæði að lána fyrir skattheimtunni upp á 140 millj. kr. frá Lánasjóðnum. Jafnframt langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði verið reiknað út, ef ekki verður lánað fyrir þeim, hvað námsfólk þarf að þéna miklu meira á sumrin til að eiga fyrir þessum nýju 140 millj. kr. sköttum. Mér gefst kannski tækifæri til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um þetta á eftir í andsvari þegar hún heldur síðustu ræðu sína.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég segja um skattahækkunina. Mér finnst afar eftirtektarvert að menntamálanefndarfólk stjórnarflokkanna, sem ég hef talað um að er ekki viðstatt, lætur ekki sjá sig þó að tveir séu erlendis á vegum þingsins. Hv. þingmenn Kjartan Ólafsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Hjálmar Árnason hafa ekkert látið sjá sig, og eins og ég hef áður sagt og vil ítreka þá skil ég vel að Framsóknarflokkurinn láti ekki sjá sig vegna þess að aumt er þeirra hlutverk og vafalaust erfitt að réttlæta það.

Virðulegi forseti. Af því að ég sé að hæstv. menntamálaráðherra er kominn, sem ég þakka kærlega fyrir, vil ég spyrja að því hvort það eigi að lána frá lánasjóðnum fyrir þessari 140 millj. kr. skattheimtu. Ef svo er ekki langar mig að heyra hvort það hafi verið skoðað í menntamálaráðuneytinu hvað námsmenn, sem þurfa að greiða þessar 140 millj. kr. í aukna skattheimtu, þurfi að afla miklu meiri tekna, hvað þeir þurfi að hafa í laun til að eiga eftir fyrir þeim 140 millj. kr. sem ríkisstjórnin leggur á námsmenn í landinu. Eins og ég sagði áðan: Vont er þegar þeir hafa kosið að ráðast á námsmenn með þessum hætti og auka skattheimtu eins og gert hefur verið að umtalsefni.



[17:54]
Þórarinn E. Sveinsson (F):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að koma upp og fá að bera blak af mönnum mínum sem ekki eru í salnum. Það er eitt sem varaþingmaður þarf að læra mjög fljótt, að vera ekki í salnum en fylgjast samt með umræðunni. Ég held að ég geti fullvissað áhyggjufulla þingmenn um að bæði hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem eins og fram hefur komið eru ekki á staðnum, fylgjast með umræðunni og munu koma að henni á eftir sem hingað til ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins.

Ég held að ég taki það bara sem hrós að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon — sem gengur einmitt í salinn núna — hefur tvisvar sinnum ekki tekið eftir því þegar ég hef verið í salnum. Ég hélt að það færi meira fyrir mér en það og get fullvissað hann um að allan þann tíma sem hann talaði sátu hér vel á annað hundrað kíló af framsóknarmönnum í salnum og fylgdust með ræðu hans. Alla vega var nógu mikið magn af framsóknarmönnum í salnum, þó hann ásamt fleiri þingmönnum léti ræðurnar um skólamálin snúast mest um fjarveru framsóknarmanna. Það er ágætt, til þess eru breiðu bökin að bera umræðuna og ef menn vilja láta umræðuna snúast um fjarveru okkar framsóknarmanna er það bara ágætt. En nóg um það, ég nenni ekki að svara því meira.

Ég tel að hér sé til umræðu breyting á eldri lögum, framreikningur á innritunargjöldum eða skráningargjöldum en alls ekki umræða um skólagjöld, þó ég geti vel skilið að menn segi að þetta sé grátt svæði og viti ekki hvar mörkin liggja, þau eru óskýr og eðlilegt að menn velti því fyrir sér. En núna erum við eingöngu að tala um framreikning á innritunargjöldum. Hér er lagt fram ágætlega rökstutt mál og ég skil ekki orð sumra þingmanna sem fallið hafa í salnum um hversu illa þetta sé unnið. Ég hef unnið t.d. í Háskólanum á Akureyri og er með ágætisháskólanám á bakinu og ég ætla alla vega ekki að taka þátt í því að gerast einhver „besservisser“ hér og tala um hvað útreikningurinn sé asnalega unninn. Menn geta verið ósammála honum, það er allt annað, en mér er ekki sæmandi að tala um slæleg vinnubrögð og að illa sé að málum staðið í því sem skólarnir skila frá sér. Menn geta verið ósammála, það er allt í lagi, en vissulega er rökstuðningur fyrir útreikningunum. Hér er verið að ræða um skráningargjöld og ég get fullvissað menn um að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur afgreitt málið sem slíkt.

Umræðan um skólagjöld er svo allt önnur umræða og þannig séð ánægjulegt að sú umræða er komin inn í þingsali. Sú umræða er á fleygiferð í samfélaginu og ég þakka ágætum hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að lesa upp úr stefnuskrá framsóknarmanna og umræðum á síðasta flokksþingi þar sem hann vitnaði í grein hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þar var umræða um skólagjöld, hvernig og hvort við eigum að standa að skólamálunum í landinu.

Það vita allir að eitt af grundvallarsjónarmiðum Framsóknarflokksins er að standa vörð um skólakerfið og heilbrigðiskerfið. Það á að vera jafnræði og jafnt aðgengi fyrir alla að báðum kerfunum, það vita allir. Þess vegna er þetta raunar útúrsnúningur í umræðunni.

Ef verið væri að ræða skólagjöld sneri málið öðruvísi við. Ég reikna með því og vona að sú umræða fari fram í öllum þingflokkum og í hv. menntamálanefnd. Ég held að nauðsynlegt sé að taka þá umræðu vegna þess að skólarnir, eins og svo margt annað á síðustu árum, hafa verið á fleygiferð, í mikilli þróun og örri sókn. Nýir námsmöguleikar hafa komið til, bæði á einkaskólastigi og á ríkisskólastiginu. Það er fullt af námi og fullt af þekkingu sem við getum aflað okkur dagsdaglega án þess að ríkisskólarnir komi að því. Menn fara á alls konar námskeið, þess vegna dagsnámskeið, sem þeir borga miklu hærri gjöld fyrir en innritunargjöldin sem hér eru til umræðu.

Þessi umræða er mjög nauðsynleg og þetta er, eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, nákvæmlega angi af stærra máli, miklu stærra máli. Ég er alveg sammála honum í því að menntun er mannréttindi og á að vera jöfn fyrir alla. Hins vegar erum við að mennta fólk úti um allt samfélag á mjög mismunandi hátt, og það er ekki víst að þar sé alls staðar jafnræði. Tökum t.d. heilbrigðiskerfið. Við erum með mjög gott heilbrigðiskerfi, og mjög dýrt. Við erum með mikinn kostnað inni í því sem hlýst af því að mennta fólkið okkar. Mikil kennsla fer fram inni í heilbrigðiskerfinu. Er það heilbrigðiskostnaður eða er það menntunarkostnaður?

Við getum tekið fullt af sérnámi sem er mjög dýrt. Þar ríkir ekki jafnrétti til náms. Ríkir t.d. jafnrétti til að læra flug? Er það jafnrétti? Margt svona sérnám kostar og það borgar einstaklingurinn. Mér finnst alveg hægt að ræða það og er tilbúinn að gera það í mínum þingflokki, hvort sem mér endist varamannsaldur til þar eða ekki, en annars í mínum kreðsum sem og annars staðar í samfélaginu. Ég er alveg tilbúinn að ræða það hvort taka eigi upp einhvers konar gjald fyrir framhaldsnám á efri háskólastigum. Ég er ekki alveg viss um að við eigum að horfa upp á samfélag þar sem allt nám endar í master eða doktor. Ég er ekki viss um að við eigum að hvetja alla til að fara í það. Mjög margir þeirra sem eru að fara í masters- og doktorsnám núna eru einstaklingar sem eru búnir að vera einhver ár í vinnu úti í samfélaginu. Það eru menn sem hafa unnið í 5, 10, 15 ár eða meira, fara í endurmenntun og taka þá masterinn ofan á námið sitt, gamla námið sitt. Mér finnst alveg mega ljá því sjónarmiði umræðu og ég get alveg haft þá skoðun að það sé nám sem eigi að horfa allt öðruvísi á en grunnnámið.

Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir hvað hann las vel upp úr flokkssamþykktum Framsóknar frá síðasta þingi. Það er alveg hárrétt eins og frem kemur í greininni eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þessu var hafnað á síðasta flokksþingi en það er nýtt flokksþing í vor og í millitíðinni hefur heilmikið gerst í skólamálum. Sem betur fer hefur það oftar en ekki verið þannig að við þurfum að laga okkur að breyttu landi og breyttu umhverfi. Hver hefði t.d. getað spáð því fyrir örfáum árum að fjármálastofnanir Íslands færu í þá útrás sem þær hafa farið í? Eða hver hefði getað spáð því að einstök fyrirtæki sem hafa upphaf sitt í verslun á Íslandi gætu farið í þá gífurlegu útrás sem raun ber vitni?

Að mörgu leyti hefði á sama hátt enginn getað spáð því fyrir örfáum árum að skólarnir mundu þróast á þann hátt sem þeir hafa gert, eiga að gera og munu gera. Ég tel það bara til tekna fyrir Framsóknarflokkinn að taka þessi mál upp á flokksþingi í hvert einasta skipti og vera tilbúinn að skipta um skoðun. Það er engin skömm að því að skipta um skoðun ef það er gert að undangenginni umræðu. Nú er ég ekkert að segja að það verði. Ég er alls ekki að segja að það verði. Þetta var umræðan á síðasta þingi og þetta er það sem út af fyrir sig stendur, enda eru menn ekki að tala um skólagjöld heldur innritunargjöld.

Ég tek undir að það hefur verið aðalsmerki okkar framsóknarmanna og Framsóknarflokksins að standa vörð um jafnrétti til skólanáms og allt annað er raunar útúrsnúningur af hálfu hv. þingmanna. Ef þeim finnst þetta gaman — það er svolítið skondið, þetta eru ágætar ræður og gaman að hlusta á þá — getum við framsóknarmenn alveg tekið á móti því, ef þeir njóta þess vel. Ég get fullvissað hv. þm. Kristján L. Möller um að við munum mæta honum af fullum þunga í fótboltavörninni á þessum nótum þegar þar að kemur. Ég ítreka að hér er umræðan um innritunargjöld, ekki skólagjöld, en það er mjög gott að menn taki þá umræðu (Gripið fram í: Allir í vörninni?) þegar þar að kemur. Við þurfum að byggja þetta upp frá vörninni.



[18:04]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Þórarin E. Sveinsson út í ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins sem ég las upp áðan og skal lesa aftur upp. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Halda ber fast í þá meginhugsun að nám ungs fólks sé öllum opið óháð efnahag og stöðu.“

Og síðar:

„Almenn skólagjöld verða ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum né heldur í ríkisreknum háskólum.“

Virðulegi forseti. Mig langar að fá svar við því: Hvað þýðir svona samþykkt á landsfundi Framsóknarflokksins?



[18:05]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að hér er ekki verið að ræða um skólagjöld, hér er verið að ræða um innritunargjöld og ég held að hv. þingmaðurinn hafi sjálfur lesið upp textann. Þetta þýðir það sem þar stendur, að almenn skólagjöld verði ekki tekin upp. Það er það sem síðasta flokksþing ákvað og það er það sem stendur, enda er hér ekki verið að ræða um það eins og margsinnis hefur komið fram.

Svo get ég glatt hann með því að það er nýtt flokksþing í vor og þá getur hann fylgst með umræðu um skólamál og er velkominn til að hlusta á það á flokksþinginu hjá okkur.



[18:06]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Framsóknarmenn ætla að reyna að skjóta sér á bak við það að þetta séu innritunargjöld. Þá er önnur spurning mín til hv. þingmanns: Hvað mega innritunargjöld vera há, að mati framsóknarmanna, áður en farið er að telja þau sem skatta eins og hér er verið að tala um? Var það meining framsóknarmanna á landsfundinum að það væri allt í lagi að innheimta 140 millj. kr. námsmannaskatt sem við erum að tala um núna í þremur skólum?



[18:06]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að nefna þá krónutölu en kallað var eftir rökstuddum útreikningi frá skólanum til að reyna að gera sér grein fyrir því hvað þessi gjöld ættu að vera há. Í augum greiðenda eru þau alltaf of há og í augum skólans eru þau sjálfsagt of lág en þess vegna var það núna, að mér skilst af mér fróðari mönnum, en ekki gert á sínum tíma. Núna var kallað eftir þessum rökstuðningi sem sumir þingmenn hafa nefnt að sé ekki sæmandi að leggja fram en það var kallað eftir þessum rökstuðningi vegna þess að þetta er rökstuddur kostnaður, að beiðni skólanna og eftir umfjöllun þeirra.



[18:07]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni E. Sveinssyni fyrir það hugrekki að koma í þennan ræðustól og reyna að taka upp varnir vegna þess máls sem hér um ræðir. Ég er satt að segja ekki mjög vanur því að reyna að lesa í hugarþel framsóknarmanna, þeir eru fáir í mínum heimabæ, en ég ætla að reyna hins vegar að fá einhvern botn í það sem spurt var um áðan: Hvenær hættir innritunargjald að vera innritunargjald og breytist í skólagjald?

Ég vil líka spyrja: Ef hér er um innritunargjald að ræða — af því að hv. þm. kemur frá Akureyri, getur hann upplýst mig um það hvaða hækkun hafi verið á kostnaði í Háskólanum á Akureyri við innritun nemenda sem kallar fram 40% hækkun milli ára? Það er ósköp skýr spurning og ég vænti þess að hann hafi hugrekki til að svara af einlægni og heiðarleika.



[18:08]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sem ítrekað það sem ég hef sagt áður að það var kallað eftir þessum rökstuðningi. Hann kom frá öllum skólunum og ég get ekki farið út í þá umræðu einangrað um Akureyri varðandi spurningu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Kannski er heldur ekki rétt að taka einn skóla út úr. Ég ítreka að þetta eru innritunargjöld. Það var kallað eftir þessum rökstuðningi og menn sættust á þessa tölu en sjálfsagt er hún of há í augum greiðenda, í augum skólans of lág.



[18:09]
Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber það mikla virðingu fyrir framsóknarmönnum að ég held að þeir hljóti að hafa vitað hvað þeir voru að samþykkja á flokksþingi sínu. Ég árétta að ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa einhverja minnstu hugmynd um það hvenær þetta gjald verður það hátt að það breytist í skólagjöld. Það gefur augaleið. Framsóknarmenn hljóta að gera þær kröfur til sjálfra sín að samþykktir þeirra séu það gagnsæjar að það fólk sem les þær hafi einhverja minnstu hugmynd um það hvort innritunargjaldið sé 40 þús. kr. — er það 100 þús. kr., er það 500 þús.? Hvenær verður sá skurðarpunktur að mati framsóknarmanna að gjaldið breytist í skólagjöld? Þetta er kjarni málsins.

Það er alveg sama hvað hv. þm. endurtekur það oft að hann líti á þetta sem innritunargjald. Spurningin stendur eftir: Hvenær áttu framsóknarmenn við það að skólagjöld væru orðin skólagjöld? Er það 30 þús., 50 þús., 100 þús., 500 þús.? Gefðu okkur einhverja hugmynd, virðulegur þingmaður. Það væri gott að lifa með því.



[18:10]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Til að svara síðustu spurningunni er náttúrlega hugmyndin framkomin. Þetta er það sem menn eru sammála um í þessum umgangi. (Gripið fram í: … þessari umferð?) Þetta er eins og ég hóf mál mitt á áðan framreikningur á gömlum lögum sem ég hélt að hefðu verið upphaflega sett fyrir flesta skólana 1994 en einhver nefndi 1991 þannig að ég ætla ekki að gefa mig út í það hverjir settu þetta á upphaflega.

Sá er nákvæmlega kjarni málsins og það gefst ekki tími til að fara miklu lengra í það. Þetta er umræðan sem er í gangi úti í samfélaginu og ég fagna því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson taki þetta svona upp. Þetta er umræða sem við þurfum að taka og ég er alveg tilbúinn (Gripið fram í.) að taka þátt í henni með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og hverjum sem er. Menn eru sammála því að taka hógvær innritunargjöld og þau breytast auðvitað með tímanum. Það er það sem verið er að breyta hér. Menn eru að breyta gömlum lögum í ný.



[18:11]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni E. Sveinssyni fyrir að standa í stólnum og halda uppi merki Framsóknarflokksins sem því miður hefur fallið niður í umræðum í dag. Hér er líka kominn annar framsóknarmaður í salinn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, höfundur greinar sem hér var lesin áðan. Hann er velkominn í stólinn á eftir að skýra sitt mál og það hvernig málið samræmist þeirri samþykkt á þingflokksfundi Framsóknarflokksins sem við vorum upplýst um áðan.

Ég vil spyrja hv. þm. Þórarin Sveinsson hvort það hafi komið fram á þingflokksfundinum hvort um væri að ræða skatt eða þjónustugjöld vegna þess að það er grundvallaratriði í þessu máli. Mér heyrist á þingmanninum að hér hafi verið talið vera um skatt að ræða vegna þess að hann talaði um hógvær innritunargjöld. Þjónustugjöld geta hvorki verið hógvær né ókurteis, heldur eru þau greiðsla fyrir ákveðna þjónustu. Má skilja orð þingmannsins svo að hér sé um þjónustugjöld eða skatt að ræða?



[18:13]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ætli ég geri ekki orð síðasta ræðumanns að mínum? Út af fyrir sig lá ekki fyrir nein tillaga um það hvort hér væri um skatt eða þjónustugjald að ræða. Menn ræddu það ekki á þeim nótum þannig að ég þakka bara fyrir góða ábendingu frá hv. þm. Merði Árnasyni og skal fara með það í liðið mitt og spyrja hvað liðsheildin vill meina um það. Hvort er þetta skattur eða þjónustugjald? Þetta er í okkar huga innritunargjald.



[18:13]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vilja gera það fyrir mig að fara og spyrja afganginn af Framsóknarflokknum um þetta. Á meðan það er ekki ljóst stendur það sem Framsóknarflokkurinn hefur sagt í þessari umræðu, að hér sé um að ræða hógvær innritunargjöld, þ.e. skatt.



[18:14]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eitt af því sem hv. þm. Þórarinn E. Sveinsson, talsmaður Framsóknarflokksins í þessari skólagjaldaumræðu, sagði í ræðu sinni var að Framsóknarflokkurinn vildi standa vörð um jafnrétti til náms umfram allt annað. Ég er hv. þingmanni sammála. Þess vegna finnst mér það ekki vera alfa og omega þessa máls hvort hér sé um skatt að ræða eða þjónustugjald, hvort hér sé um innritunargjald að ræða eða skólagjald. Ég er á móti hvoru tveggja í opinberum háskólum vegna þess að ég vil standa vörð um jafnrétti til náms, eins og hv. þingmaður. Ég vil spyrja hann: Hvernig getur hann réttlætt það fyrir hönd Framsóknarflokksins að hér sé um eitthvert jafnréttismál að ræða, hér sé ekki ógnað því sem hann kallar jafnrétti til náms?



[18:15]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef hér er um ógnun að ræða, sem ég ætla aðeins að láta liggja á milli hluta, er náttúrlega sú ógnun löngu komin fram. Hér er leiðrétting á gömlum lögum, eins og margbúið er að segja.

Þetta er samt ágætt. Ef maður gleymir stórum orðum er þetta ágæt umræða. Það er nauðsynlegt að þingið ræði um það hvernig við stöndum að skólakerfinu í framtíðinni. Skólakerfið hefur verið, eins og ég reyndi að segja í framsögunni, á þannig siglingu að þetta snýst ekki eingöngu um innritunargjaldið. Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og fleirum sem hér töluðu, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði svona líka, þetta er angi af miklu stærra máli og og það er um að gera og nauðsynlegt að taka þá umræðu. Hér eru að spretta upp nýir skólar úti um allt, sumir með mjög há innritunargjöld og sumir með mjög há skólagjöld og þetta er auðvitað hlutur sem samfélagið þarf að fara yfir í heild sinni.



[18:16]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt vegna þess sem hv. þingmaður lýsir, vegna þeirrar háskólaflóru sem við búum nú við, er þeim mun meiri þörf fyrir það að standa vörð um opinberu háskólana og tryggja að allir sem ekki ætla sér að læra í sjálfseignarstofnunum eigi þá möguleika á að koma til opinberu háskólanna og læra þar. Þess vegna er mjög mikilvægt eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í ræðu sinni áðan að ekki verði farið inn á þá braut að gera ákveðnar námsbrautir eingöngu opnar þeim sem eru til í að borga há skólagjöld. Það skiptir verulegu máli að hér sé um val að ræða og að íslenskir stúdentar eigi þess kost að læra í opinberu háskólunum án skólagjalda.

Ég held að ég verði að segja það við þessa umræðu, hæstv. forseti, að mér finnst stóll hæstv. forsætisráðherra vera fullháu verði keyptur.



[18:17]
Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til að segja að ég held einmitt að ræða síðasta hv. þingmanns sýni það að menn geta alveg náð samstöðu í þessu máli þegar menn ræða það á þeim faglegu nótum sem þessi umræða á allra helst skilið. Ég get alveg tekið þátt í þeirri umræðu að í dag sé ekki jafnrétti til náms í öllum fögum á landinu. Ekki er allt nám jafnaðgengilegt öllum og það er líka þannig þróun í skólakerfinu að ekki eru allir skólar jafnaðgengilegir öllum. Hlutverk okkar er að halda ríkisskólunum vel samkeppnishæfum. Hvernig gerum við það best? Það má alveg hafa þá skoðun að ef þetta innritunargjald væri ekki aðlagað núna hefðu tekjur skólanna minnkað sem þessu nemur. Þetta er eingöngu lítill hluti af öllu stóra málinu sem ég veit og vona að verði rætt hér.



[18:18]Útbýting:

[18:19]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er til umræðu mjög stórt prinsippmál að mínu mati. Hér er verið að ræða um 40% hækkun á skólagjöldum í ríkisháskólunum og ég skil satt að segja ekki þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag um það hvort þetta séu skólagjöld eða þjónustugjöld. Það liggur fyrir lagaleg skýring á því hvað þjónustugjald er og þetta er augljóslega ekki þjónustugjald. Sú umræða þarf ekki að verða meiri.

Það er líka ágætt að halda því til haga að hér er um að ræða 40% hækkun á skólagjöldum ríkisháskólanna en síðast var þetta gjald hækkað árið 2001 og þá einnig um 40%. Við sjáum að gjaldtakan á nemendur í ríkisháskólunum hefur verið að aukast.

Það er einnig fróðlegt að skoða, sem tengist umræðu um það hvort það séu skólagjöld eða ekki, hvað tekið er inn í þetta svokallaða skrásetningargjald. Þeir telja það vera hluta af skráningu að hafa aðgang að bókasafni og tölvum. Þeir telja að alþjóðaskrifstofan, námsráðgjöf og prófgæsla séu hluti af skráningu og jafnvel í samantekt Háskóla Íslands kemur fram að íþróttahúsið hafi átt að vera hluti af skráningarferlinu. Flestir sem láta sig þessi menntamál varða eru þó sammála um að menntakerfið og þá sérstaklega háskólastigið hafi búið við mikið fjársvelti undanfarin ár. Það er aðalatriði þessarar umræðu.

Hæstv. menntamálaráðherra lét hins vegar ein af sínum fyrstu ummælum í starfi vera þau að Háskóli Íslands væri ekkert blankur. Hún orðaði það svona, hæstv. menntamálaráðherra, í fjölmiðlum: Háskóli Íslands er ekkert blankur. Þá væri kannski fróðlegt að spyrja: Af hverju er verið að auka gjaldtökuna af nemendum ef háskólann vantar ekki pening?

Einnig er í greinargerð þessa frumvarps hæstv. menntamálaráðherra komið inn á að þetta frumvarp sé að ósk ríkisháskólanna. Það væri mjög fróðlegt að ganga eftir svörum hjá hæstv. menntamálaráðherra um það hvaða stofnanir ríkisháskólans óskuðu eftir þessari hækkun. Gerði háskólafundur það eða háskólaráð eða stúdentaráð? Það kemur ekki fram í greinargerðinni.

Ég held að það væri ráð að hæstv. menntamálaráðherra mundi heimsækja forsvarsmenn allra deilda háskólans eins og þingmenn Samfylkingarinnar gerðu í upphafi þessa árs. Þá mundi hún fljótt heyra að blankheit skólans eru svo sannarlega fyrir hendi. Þetta veit starfsfólk háskólans og þetta vita stúdentar. Hæstv. menntamálaráðherra hefur þó fjallað, m.a. í grein sinni frá 7. febrúar sl. í Morgunblaðinu, um þá aukningu sem átt hefur sér stað undanfarin ár á fjármagni til háskólastigsins. Hún tekur hins vegar ekki fram að sú aukning svarar aðeins til þess fjölda sem hefur aukist og að samhliða nemendaaukningu hafa laun starfsfólks háskólastigsins hækkað talsvert. Því er þetta aukna fjármagn sem hæstv. menntamálaráðherra vísaði til eingöngu vegna nemendafjölgunar og launahækkana og nær þó ekki að halda í við þessa tvo þætti. Ef við lítum eingöngu á Háskóla Íslands kemur meira að segja fram í grein hæstv. menntamálaráðherra frá febrúar sl. að aukningin á fjármagni til Háskóla Íslands frá árinu 2000 er minni en sem nemur nemendafjölgun á sama tíma. Gagnvart Háskóla Íslands hafa stjórnvöld þannig farið aftur á bak. Hér er ekki verið að ræða um einhverja meðvitaða aukningu í menntamál eins og má skilja af málflutningi hæstv. menntamálaráðherra.

Hæstv. menntamálaráðherra lendir einnig í vandræðum þegar kemur að samanburði við aðrar þjóðir. Í nýjustu skýrslu OECD kemur fram að Íslendingar eru einungis hálfdrættingar á við önnur Norðurlönd þegar kemur að útgjöldum til háskólastigsins. Og þótt við mundum auka útgjöld til háskólastigsins um 1 prósentustig af landsframleiðslu, þ.e. um 8 milljarða, næðum við ekki efstu þjóðum. Þetta sýnir hversu langt að baki við stöndum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að háskólastiginu.

Það er fróðlegt að skoða fleiri staðreyndir um stöðu Íslands í menntamálum. Ef við lítum til opinberra útgjalda til menntamála að teknu tilliti til aldursdreifingar þjóðarinnar er Ísland einungis í 14. sæti af 28 þjóðum. Hér erum við langt að baki öðrum Norðurlandaþjóðum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD er Ísland einungis í 10. sæti séu útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla skoðuð. Samkvæmt sömu skýrslu ver Ísland aðeins 0,9% af landsframleiðslu sinni til háskólastigsins sem er allt að helmingi lægra hlutfall en hinar Norðurlandaþjóðirnar gera.

Það er einnig fróðlegt að stúdera þessa nýjustu skýrslu frá OECD sem hefur samanburðarhæfar tölur. Samkvæmt henni ljúka mun færri einstaklingar háskólanámi á Íslandi en í nágrannalöndunum. Það er ákveðin þjóðsaga hér á landi að við Íslendingar séum gríðarlega menntuð þjóð í alþjóðlegum samanburði. Svo er ekki eins og sjá má ef við lítum til OECD-þjóðanna. Um það bil 29% þjóðarinnar á aldursbilinu 25–34 ára hafa lokið háskólanámi en það er talsvert lægra hlutfall en hjá flestum öðrum Vestur-Evrópuþjóðum. Í Noregi og Svíþjóð er þetta hlutfall 39%, Finnland er með 40% og t.d. Írland og Spánn 37%. Við erum með 29% og hér vísa ég til ungs árgangs, 25–34 ára. Ég er ekki að taka eldri kynslóðirnir inn í breytuna sem eðli málsins samkvæmt hafa minni menntun.

Við getum líka litið á brottfallið úr framhaldsskólum en það er um 30% á Íslandi en meðaltal OECD-þjóðanna er 19%. Einungis fjögur lönd eru verr sett hvað þetta varðar en Ísland. Ef við lítum á það hlutfall íslensku þjóðarinnar sem hefur ekki lokið framhaldsskólaprófi er það mun hærra. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD hefur 61% af Íslendingum á aldrinum 25–34 ára lokið framhaldsskólaprófi en þetta hlutfall er annars staðar á Norðurlöndunum 86–94%. Við erum með 61%. Nánast annar hver Íslendingur hefur einungis lokið grunnskólaprófi og við erum í 25. sæti af 30 OECD-þjóðum hvað þetta varðar.

Svo má taka aðra mælikvarða. Samkvæmt frekar nýlegri könnun af læsi náðu Íslendingar rétt meðaltali og almennt séð hafa Íslendingar staðið sig illa í alþjóðlegu TIMSS-könnununum. Svo má benda á enn einn faktor um stöðu menntamála hér á landi, 30–40% íslenskra nemenda ná ekki lágmarkseinkunn í samræmdum prófum í 10. bekk grunnskólans. Það muna allir hér inni í hvaða vesen hæstv. menntamálaráðherra setti framhaldsskólanemendur fyrr á árinu þegar fólk gat ekki fengið vist í þeim skólum sem það sótti eftir þrátt fyrir lögbundna skyldu ríkisins til að veita slíka þjónustu. Núna er síðasti dropinn sá að hækka skólagjöld í ríkisháskólum um 40%. Þá eru skólagjöld í ríkisháskólum orðin fjórðungur af skólagjöldum Háskólans í Reykjavík ef ég man rétt. Þetta er að fara hægt og rólega upp, reyndar ekki hægt og rólega heldur í stökkum, 40% stökkum, 40% núna, 40% árið 2001. Við sjáum alveg hvert stefnir. Það er verið að auka fórnarkostnaðinn á nemendur sem er þó nægur fyrir. Þegar samanburðurinn bætist ofan á þessar tölur, að við stöndum að baki öðrum þjóðum varðandi fjölda þeirra sem eru með háskólapróf, er þetta ekki rétt stefna. Við eigum einmitt að lækka þröskuldinn fyrir fólk til að komast í háskóla og framhaldsskóla en ekki hækka hann.

Svo er framganga Framsóknarflokksins í málinu alveg sérkapítuli í umræðunni, ég held að menn hafi komið inn á það. Hann er flokkur sem hefur ítrekað ályktað að ekki eigi að hækka skólagjöld í grunnnámi ríkisháskólanna. Svo stendur hann fyrir þessu frumvarpi. Það er alveg með ólíkindum, eins og sá sem stendur hér hefur bent á, að Framsóknarflokkurinn sé í þessari stöðu á meðan hann býr við þann unað að hafa hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur í þingflokki sínum. Um það bil ári eða kannski tveimur árum áður en hún var kosin á þing var hún framkvæmdastjóri stúdentaráðs og hélt sömu ræðu og ég er að halda hér. Um leið og hv. þm. kom inn á þing þagnaði sú rödd Framsóknarflokksins.

Ég vona að stúdentar fylgist með þessari umræðu og sjái hverjir fara hvernig með það vald sem þeir hafa þegar þeir loksins komast að því. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir er varaformaður menntamálanefndar. Hún er oddamaður í þeirri nefnd þannig að hún getur að mínu mati hæglega haft jákvæð áhrif á störf og stefnu ríkisstjórnar í menntamálum. En við sjáum að ekki eingöngu hv. þm. Dagný Jónsdóttir heldur ríkisstjórnarflokkarnir báðir kusu gegn fjárveitingatillögu Samfylkingarinnar sem lögð var fram í fjárlagaumræðunni í fyrra þrátt fyrir augljósan fjárskort háskólans. Síðasti LÍN-samningur var afskaplega slæmur. Eftir því var tekið og núna á að hækka skólagjöld um 40% eftir 40% hækkun fyrir fjórum árum.

Ég held að þessi umræða sé angi af stærra máli, forgangsröð ríkisstjórnarinnar í menntamálum. Við sjáum að menntamál eru ekki forgangsmál þessarar ríkisstjórnar. Það er alveg augljóst. Ég hef bent á að í samanburði fær landbúnaðarkerfið bæði beint og óbeint meira fjármagn frá hinu opinbera en allir framhaldsskólar landsins og Háskóli Íslands samanlagt. Við sjáum alveg forgangsröðina, sauðfé er metið hærra en stúdentar í augum þessarar ríkisstjórnar.

Við sjáum líka að þessi ríkisstjórn stendur fyrir því að kaupa og byggja sendiherrabústað í Berlín sem kostar jafnmikið og að reka meðalframhaldsskóla, t.d. Flensborgarskólann. Sjáið upphæðirnar. Hér er verið að tala um sendiherrabústaðinn. Við erum ekki að tala um sendiráðið, það er margfalt dýrara. Þetta eigum við allt að skoða í samhengi og átta okkur á því fyrir hvað þessi ríkisstjórn stendur í menntamálum. Það sem er dapurlegt er að þetta mun koma aftan að okkur, þetta sinnuleysi og þetta fjársvelti í menntamálum. Eitt það skynsamlegasta sem hver ríkisstjórn getur gert á hverjum tíma er að auka fjármagn í menntakerfið því fjármuni í menntakerfið ber að líta á sem fjárfestingu en ekki útgjöld. Okkar alþjóðlegi samanburður sýnir svo sannarlega að það er brýn þörf að bretta upp ermarnar og setja menntamálin í forgang.



[18:29]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka umræðuna þó hún hafi verið misjöfn og innihald hennar verið misgott. Varðandi það sem fram kom hjá háttvirtum síðasta ræðumanni, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, vil ég sérstaklega mótmæla því að menntamál hafi ekki verið sett í forgang á síðustu árum. Þvert á móti hafa einmitt menntamálin verið sett í forgang hjá ríkisstjórninni, annars vegar með markvissri uppbyggingu í efnahagslífinu sem gerir okkur kleift að uppfylla m.a. kosningaloforð Samfylkingarinnar frá því fyrir síðustu kosningar.

Undir hvaða lagi þrammaði Samfylkingin fyrir síðustu kosningar? Jú, hún ætlaði að setja 3 milljarða kr. á ári í menntakerfið. En bara fyrirgefið, hæstv. forseti, ríkisstjórnin er löngu byrjuð á því verki, að setja um 3 milljarða kr. á ári til viðbótar í allt menntakerfið. Hið opinbera á Íslandi hefur staðið sig feikilega vel í skólakerfinu. Þar hefur verið mikil sókn á öllum sviðum. Það eru blindir menn og heyrnarlausir sem átta sig ekki á því hver sóknin í menntun hefur verið hér. Það hefur aldrei verið meiri fjölgun á háskólanemum en hér hefur verið. Þróunin er hvað hröðust hér af öllum OECD-ríkjunum, langhröðust, og líka aukningin til menntamála.

Ég vil líka benda háttvirtum þingmönnum, sem vitna oft til landa Evrópu og líka OECD, sem er hið besta mál, en þeir minnast ekki einu orði á það hvernig önnur OECD-ríki hafa mætt aukningu nemenda í menntakerfi sínu. Hvernig hafa ýmsar þjóðir OECD-ríkjanna mætt hinni miklu fjölgun nemenda á háskólastigi? Hvernig skyldu þær hafa mætti því? Jú, með því að skerða nemendaframlög. En við höfum lagt okkur í líma við að reyna að láta töluna sem um var samið á sínum tíma fylgja þeim nemendaígildum sem um er að ræða. Það er gríðarleg þensla, jákvæð þensla, í menntakerfinu á Íslandi.

Hér hafa menn talað um brottfall í framhaldsskólum, tyggjandi og kvakandi gamlar tölur, blanda inn í framhaldsskólann m.a. öldunganámi og fjarnámi en minnast ekki einu orði á það sem skiptir mestu máli, þ.e. að brottfall í framhaldsskólum, dagskólunum, hefur snarminnkað. Út af hverju skyldi það nú vera? Út af hinu ágæta reiknilíkani sem alltaf er í endurskoðun, sífelldri endurskoðun. Það hefur leitt til þess að brottfall í framhaldsskólum á Íslandi hefur farið snarminnkandi þegar litið er til dagskólanna og er eitt helsta tækið til að koma í veg fyrir aukið brottfall, þetta ágæta reiknilíkan varðandi framhaldsskólana.

Nú er þannig komið fyrir íslensku samfélagi að við erum með ein mestu framlög til menntamála miðað við þjóðarframleiðslu, ef við miðum við Evrópuríkin. Svo eru menn ósáttir við það og tala um framlögin miðað við síðustu skýrslu OECD en nefna ekki einu orði hvert viðmiðunarárið er, það er árið 2001. Það er rétt bara að menn hafi það á hreinu að þar miða menn við árið 2001. Síðan þá hafa framlög til menntamála, til háskólamála, til rannsóknarmála hækkað um 45%. Ætli það muni ekki eitthvað um þessi ár?

Síðan vil ég líka sérstaklega geta þess, af því að talað hefur verið um að 0,9% af landsframleiðslu séu sett inn í háskólamálin, að þar er Lánasjóður íslenskra námsmanna ekki tekinn með af því að hér er hann túlkaður sem félagslegur jöfnunarsjóður, sem hann er. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur aldrei staðið betur sem hefur m.a. gert það að verkum að í síðustu viku ræddum við afar gott frumvarp sem nú er til meðferðar í háttvirtri menntamálanefnd um lækkun endurgreiðsluhlutfalls námslána úr 4,75% niður í 3,75%.

Svona hlutir gerast ekki af sjálfu sér. Það er ósköp gott að koma hingað upp og segja: Það þarf aðhald í ríkisrekstri, við megum ekki auka útgjöldin of mikið á einum stað en fara síðan í næstu lotu að tala um að bæta þurfi í. Það þarf að vera samkvæmni og samræmi í málflutningnum.

Ég vil sérstaklega geta þess, svo ég haldi mig við háskólastigið, að ég er sannfærð um að þegar litið verður til ársins 2004 þá komi í ljós að við höfum aukið framlög hlutfallslega hraðar og meira en önnur OECD-ríki hafa gert á þessu árabili. Ég er sannfærð um það. Við sjáum á þeim kennslu- og rannsóknarframlögum sem við erum að ræða um hverju sinni í meðferð fjárlaga á hinu háa Alþingi.

Hvers konar umhverfi búum við við ef menn eru að tala um að það sé ekki hægt að ræða um innritunargjöld, um skráningargjöld? Að sjálfsögðu getum við gert það. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson segir að fyrirkomulagið sé ekki svona annars staðar. Það er alveg rétt að það er ekki svona alls staðar annars staðar. En það er heldur ekki með sama hætti samkomulagið milli ríkis og ríkisháskólanna eins og er hér, sér í lagi þegar litið er til Háskóla Íslands. Þar er sérstakur kennslusamningur í gildi og sérstakur rannsóknarsamningur.

Hvað erum við að gera með skráningargjöldunum? Við erum að viðurkenna það sem hið háa Alþingi hefur þegar viðurkennt. Hér hefur Alþingi sérstaklega gefið heimild í lögum til að taka ákveðið gjald fyrir innritun. Til þess er heimild í lögum. Þess vegna finnst mér brýnt að við nýtum þá heimild í lögum, horfumst í augu við hana og séum ekki með þennan feluleik sem stjórnarandstaðan er með. Ég hefði haldið að menn kæmu upp og segðu: Já, gott hjá þér, hæstv. ráðherra, að vera búin að draga fram kostnaðinn á bak við töluna sem hefur verið hér í lögum, 32.500 kr. og þar áður 24.000. Ég hefði fremur búist við að menn kæmu og segðu: Það er nú aldeilis gott að fá þessa tölu á hreint.

Nei, menn vilja ekki gagnsæi í stjórnsýslunni. Svo glotta menn. Menn vilja bara ekki gagnsæi. Maður reynir að draga þetta fram í góðri samvinnu við háskólana sem hafa farið fram á þetta út af því að þeir vilja ekki taka fjármagn úr kennslu- og rannsóknarsamningnum til að standa undir kostnaði sem þjónustan hefur í för með sér gagnvart stúdentum. Þannig er það.

Ég verð að undirstrika að þessi bragur er allur annar og betri en sá háttur sem hafður var á þegar lögin voru samþykkt árið 1990. Í lögum nr. 131/1990 var sérstaklega tekið fram í 21. gr., nú skulu menn taka vel eftir:

„Skrásetningargjöld skulu háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra.“

Er þetta gagnsæi? Finnst mönnum þetta skynsöm og heppileg fyrirmyndarstjórnsýsla, að hafa þetta svona, að skrásetningargjöld skuli háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra? Gott og vel. Við verðum að reikna með því að sú lagagrein hafi verið barn síns tíma, eins og menn hafa áður rætt um, og verða þá bara að viðurkenna það.

Ég vil frekar hafa það svart á hvítu í löggjöfinni að þetta mál og þessi fjárhæð hafi farið fyrir Alþingi, fyrir menntamálanefnd til meðferðar, tiltekin fjárhæð, rökstudd með tölum og rökum, heldur en að láta það ráðast af geðþóttaákvörðun eins og var á árum áður. Ég bara biðst forláts, hæstv. forseti, en mér finnst betra lag á framkvæmdinni núna en á vinnulaginu á árum áður. Í raun má ætla að allt að því geðþóttaákvörðun menntamálaráðherra hafi ráðið úrslitum um hversu hátt skrásetningar- og innritunargjaldið ætti að vera hverju sinni.

Hér hafa menn m.a. rætt um að hv. þm. Dagný Jónsdóttir skuli ekki hafa verið viðstödd umræðuna. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson ræddi það sérstaklega og fór mikinn í púltinu. Mér fannst það ekki stórmannlegt þegar búið var að upplýsa það margoft að hv. þingmaður er stödd erlendis. Hv. þingmaður er þannig einstaklingur, eins og ég þekki hana, að hún kemur ávallt til með að standa fyrir skoðunum sínum og rökstyðja þær afar vel.

Mér fannst heldur ekki stórmannlegt af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem ekki er staddur í salnum, að fara sömu leið, í sama herleiðangur og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, að ráðast að hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, (Gripið fram í.) vitandi vits að hún er fjarstödd þessa umræðu en mun að sjálfsögðu taka málið til meðferðar og fara gaumgæfilega yfir það í meðferð menntamálanefndar á málinu. (Gripið fram í.) En það getur svo sem vel verið að menn séu eitthvað pirraðir yfir því að hafa farið halloka í umræðuþáttum í gær, eins og Silfri Egils og fleiri ágætum þáttum.

Menn hafa verið að tala um að háskólarnir eigi ekki peninga og eigi ekki til fjármagn, þess vegna sé þessi leið farin. (Gripið fram í.) Það er síður en svo þannig. Ég vil sérstaklega benda þingheimi á það, sem vonandi fer að hætta að gjamma fram í, að Háskóli Íslands hefur frá árinu 2000 fengið aukið framlag upp á tæpan milljarð. Háskólinn á Akureyri hefur fengið 230 millj. kr., svo dæmi sé tekið. Kennaraháskóli Íslands hefur fengið um 400 millj. kr. Þar er um 62% aukningu að ræða, svo dæmi sé tekið frá árinu 2000. Framlög til Listaháskóla Íslands hafa á árunum 2000–2004 aukist um 140% eða um 280 millj. kr. Segja menn að það sé fjársvelti í háskólakerfinu?

Auðvitað eigum við sífellt að berjast fyrir því, og við erum að berjast fyrir því sífellt, að auka enn framlög til menntakerfisins. Það er alltaf þannig. En fjármagnið til háskólastigsins hefur aukist gríðarlega. Við höfum eftir bestu getu reynt að mæta kröfum háskólanna og þá sérstaklega ríkisháskólanna til að halda í við þá miklu aukningu og mikla menntasókn landsmanna.

Mér fannst líka hvimleitt að verða vitni að því enn og aftur, í umræðum um háskólamál, að einn úr liði stjórnarandstæðinga skuli enn og aftur á óbeinan hátt höggva í sjálfstæðu háskólastofnanirnar. Mér finnst þetta hvimleiður siður hjá stjórnarandstöðunni, að reyna að gera málflutning sinn meiri með því að höggva í ágætar sjálfstæðar stofnanir í háskólasamfélaginu, (Gripið fram í.) t.d. Viðskiptaháskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og fleiri stofnanir. Við vitum það, það hefur margoft komið fram, að það var pólitísk ákvörðun að koma í raun upp vísi að ávísunarkerfi í háskólasamfélaginu hér á landi, með því að láta fjármagn flytjast með nemanda óháð því í hvaða háskóla hann færi.

Þetta var pólitísk ákvörðun sem þurfti að berjast fyrir. Svo koma menn í dag og segja: Ja, valfrelsi er sjálfsagt. Tækifæri til háskólanáms hafa aldrei verið meiri og betri og skemmtilegri. Hlutirnir gerðust bara þannig. Auðvitað gerast hlutirnir ekki bara þannig. Þetta var pólitísk, meðvituð ákvörðun um að auka valfrelsi, auka samkeppni og fjölga tækifærum unga fólksins til háskólamenntunar. Fyrir vikið sjáum við háskólastigið allt blómstra.

Að mínu mati hefur Háskóli Íslands og ríkisháskólarnir sérstaklega aldrei staðið betur. Hið faglega starf, hið akademíska starf blómstrar. Það verður að hlúa áfram að þeirri góðu starfsemi sem þar hefur farið fram. Það er m.a. gert með því að efla samkeppnissjóðina innan lands því að fram til 2007, svo ég minni háttvirta þingmenn á það, mun ríkisstjórnin auka framlög sín til rannsókna- og vísindamála um milljarð. Það er allt gert í ljósi þess að loksins er komin á samkeppni í rannsóknum og í vísindum. En af orðum háttvirtra þingmanna í stjórnarandstöðunni að marka hefði sú þróun ekki orðið ef þeir hefðu fengið að ráða ferðinni. Svo einfalt er það. Við hefðum ekki rætt um að sameina háskóla á Íslandi í dag, í nóvember árið 2004, ef háskóla- og menntastefna stjórnarandstöðunnar hefði fengið að ráða. Menn verða að hafa það alveg á hreinu, hæstv. forseti.

Í byrjun ferils mín sem ráðherra ákvað ég að farið skyldi í stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á Háskóla Íslands og einnig að láta gera rannsókna- og vísindaúttekt, allt með það að markmiði að efla og styrkja stefnumótun innan háskólans. Að þessu hefur verið unnið í samráði við yfirvöld Háskóla Íslands. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða. Menn hafa dregið fram kostnaðinn vegna þessara frumvarpa. Ég vona að þau fái vandaða meðferð innan menntamálanefndar.



[18:45]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. menntamálaráðherra kveinkar sér yfir alþjóðlegum samanburði sem hún nota bene hrakti ekki í einu einasta atriði. Það er staðreynd og alþjóðlegur samanburður sýnir það að hlutfall Íslendinga varðandi háskólafé er um það bil helmingi lægra en hinar Norðurlandaþjóðirnar verja í sína háskóla.

Það er sömuleiðis staðreynd að um 29% þjóðarinnar á aldursbilinu 25–34 ára hafa lokið háskólanámi á meðan þetta hlutfall er um 40% hjá Norðurlandaþjóðunum. Það er einnig staðreynd að í íslenskum framhaldsskólum er um 30% brottfall á sama tíma og það er um 19% í alþjóðlegum samanburði. Svo talar hæstv. menntamálaráðherra um að þetta hafi allt breyst síðan þessi alþjóðlegi samanburður átti sér stað en þá er einnig hægt að vísa í hennar eigin grein frá 7. febrúar sl. þar sem hún tekur beinlínis fram að fjármagnsaukningin sem fór í Háskóla Íslands nægir ekki einu sinni fyrir nemendafjölguninni á sama tíma. Það er öll menntasóknin.



[18:46]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að það er sárt fyrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar að upplifa þessa miklu menntasókn og standa frammi fyrir henni sem orðnum hlut og þurfa að upplifa enn frekari menntasókn til framtíðar ef við fáum áfram að ráða för. Ég vil sérstaklega benda hv. þingmanni, sem talar um erlendar úttektir, á plagg þar sem fjallað er sérstaklega um hlutfall Íslendinga á aldrinum 30–34 ára með háskólapróf á árinu 2000 í samanburði við Norðurlöndin og meðaltal Evrópusambandslanda. Þar er Ísland með 32,6% útskrifaðra háskólastúdenta, Finnland með 27,4%, Noregur með 37,7%, Svíþjóð með 31,4% og meðaltal Evrópusambandslandanna er 24,6% — og er hv. þingmaður að segja að Íslendingar séu ekki menntuð þjóð? Hvernig er hægt að fullyrða slíkt, virðulegi forseti?



[18:47]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög auðvelt að fullyrða slíkt, íslenska þjóðin er ekki eins menntuð og hún ætti að vera. Tölurnar sýna það. Nánast annar hver Íslendingur hefur einungis lokið grunnskólaprófi sem er miklu hærra hlutfall en hjá öðrum þjóðum. Að sama skapi stendur þessi 12 liða samanburður sem ég rakti í ræðu minni. Hæstv. menntamálaráðherra hrakti ekki eitt einasta atriði, allt frá frammistöðu Íslendinga í læsi og TIMSS-könnunum upp í útgjöldin til Háskóla Íslands eða stöðu framhaldsskólanna. Eftir stendur að alþjóðlegi samanburðurinn er einfaldlega sár, það er verið að þæfa umræðuna og tala um að þessar tölur séu ekki samanburðarhæfar, allt hafi breyst frá 2001 þrátt fyrir að eigin orð ráðherrans hafi staðfest að svo er ekki. Ég hélt að ég þyrfti ekki að benda frekar á það en það verður einhver að kenna hæstv. menntamálaráðherra að lesa þessar alþjóðlegu skýrslur sem koma frá OECD því að þar leynist margur fróðleikurinn sem því miður reynist hæstv. menntamálaráðherra svo sár að hún reynir að kalla menn blinda ef þeir eru ekki einfaldlega sammála henni.



[18:48]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við þau orð sem hv. þingmaður lét falla áðan og miðað við þær tölur sem hann vísar í vil ég sérstaklega geta þess að við Íslendingar útskrifumst úr framhaldsskóla aðeins síðar en aðrar þjóðir. Ég vil líka geta þess að ég stefni að því sem menntamálaráðherra að stytta námstíma til stúdentsprófs sem m.a. kemur til með að hafa áhrif á þessar tölur í samanburði við OECD-ríkin. Ég ætla þá að hv. þingmaður muni ljá máls á og styðja einmitt þá fyrirætlan mína að stytta námstíma til stúdensprófs miðað við orð hans í dag.

Ég vil enn og aftur ítreka það að á bilinu 30–34 ára eru Íslendingar með háskólapróf tæp 33% meðan Danir eru um 33%, Noregur 38%, Svíþjóð 31% og Finnland 27%. Meðaltalið er tæp 25% í Evrópusambandslöndunum. Og ég spyr enn og aftur: Er þetta ekki til marks um það að við séum menntuð? Að sjálfsögðu, virðulegi forseti.



[18:50]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, umræðan var um margt ágæt í dag og upplýsandi og kannski frekar afhjúpandi. Hún afhjúpaði mjög rækilega blekkingarleikinn sem hæstv. ráðherra er í. Hér stendur ekki steinn yfir steini. Hér er einfaldlega verið að innheimta skólagjöld á nemendur í grunnnámi í ríkisháskólunum. Engu skiptir heimatilbúin skilgreining og tilbúin á árum fyrri um það hvort kennsla eða annar rekstur háskólanna flokkist undir skráningargjöld eða skólagjöld. Hér er um hrein og klár skólagjöld að ræða, og þau er verið að hækka um 40%.

Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra í lok umræðunnar: Ætlar hún að beita sér fyrir því að lánað verði fyrir gjöldunum? Hvar liggja mörkin á milli hreinna skólagjalda og einhverra gjalda sem hún kallar skráningargjöld eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom inn á? Hver bað um hækkunina, hvaða stofnanir ríkisháskólanna þriggja báðu um hækkunina? Það hefur hvergi komið fram og þess sér til að mynda hvergi stað í bókunum háskólaráðs og háskólafundar.



[18:51]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var á einum af samráðsfundum mínum með háskólayfirvöldum, háskólarektor við Háskóla Íslands, sem þessi beiðni kom fram skýrt og klárt að fá að hækka innritunargjöldin úr 32.500 í 45.000 kr. út af því að við höfum þetta fyrirkomulag.

Við erum með tvenns konar samninga við Háskóla Íslands. Ég vona að menn fari nú að skilja þetta, einu sinni í lok umræðunnar. Hér erum við með kennslusamning annars vegar og síðan rannsóknarsamning hins vegar. Það er heimild í lögum sem m.a. hv. þingmenn gamla Alþýðuflokksins komu að, að koma á skráningargjöldum á sínum tíma í krónutölu. Þá gat hann samþykkt skráningargjöldin, Alþýðuflokkurinn gamli. Þá samþykkti hann þetta fyrirkomulag sem við byggjum á enn þann dag í dag. Síðan fagna þeir ekki sérstaklega að við erum að draga fram kostnaðinn til að sýna svart á hvítu hver hann raunverulega er en vera ekki með slumpháttinn.



[18:52]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki betur heyrt á svari hæstv. ráðherra en að þessi ósk hefði í rauninni aldrei komið formlega fram. Hæstv. ráðherra vitnaði í fund með — heyrðist mér hún segja — yfirvöldum Háskóla Íslands. Það stendur í öllum þremur frumvörpunum að þetta sé „í samræmi við óskir ríkisháskólanna“. Hvar kom þessi ósk fram hjá skólunum hverjum og einum fyrir sig? Svarið virðist vera hvergi. Þessa sér hvergi stað, til að mynda í bókunum háskólaráðs eða háskólafundar svo að tekið sé dæmi af Háskóla Íslands.

Samkvæmt svari ráðherra áðan hefur þetta hvergi komið fram nema þá í einhverju kaffispjalli hennar og forráðamanna Háskóla Íslands sem varla gildir þá fyrir alla ríkisháskólana þrjá. Og ef svo er, lítur hún á það sem formlega ósk um hækkun skráningargjalda, að þetta hafi komið fram í spjalli hennar og yfirmanna Háskóla Íslands um stöðu mála? Hvar er hin formlega ósk frá skólunum öllum þremur?



[18:53]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers konar vanvirðing er þetta af hálfu hv. þingmanna gagnvart yfirvöldum háskólanna hér á landi? Það er alveg skýrt og klárt að þeir fóru fram á þetta, ríkisháskólarnir, (MÁ: Hverjir?) (Gripið fram í.) og það ekki út af einhverju út í loftið heldur út af því að þeir vilja fá þann kostnað til baka sem þeir leggja út fyrir vegna innritunarinnar, vegna skráningarinnar, en ekki þurfa að taka hann af þeim fjármunum sem koma til þeirra samkvæmt kennslu- og rannsóknarsamningi.

Þess vegna segi ég enn og aftur: Það á að vera fagnaðarefni að við erum að draga fram sérstaklega þennan kostnað sem hefur verið 32.500 kr. fram til þessa og er hækkaður núna upp í 45.000 að beiðni skólanna, að beiðni til að mynda háskólarektors Háskóla Íslands, hækka gjaldið upp í þessa fjárhæð til að mæta aukinni þjónustu, auknum kostnaði vegna skráningarinnar inn í háskólana.



[18:54]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um skólana og hvernig þetta snýr að þeim. Ég ætla að taka aðra hlið þessa máls, út frá nemendunum.

Nemendur mega hafa ákveðnar tekjur án þess að réttur þeirra til námslána skerðist. Miðað við þá upphæð sem hér er verið að tala um, 45 þús. kr., þarf viðkomandi nemandi að þéna sýnist mér tæplega 100 þús. kr. þegar búið er að taka tillit til tekjuskatts, greiðslu í lífeyrissjóð, greiðslu stéttarfélagsgjalds, séreignarsparnaðar og annarra gjalda sem fylgja því að vera launþegi. Nemandinn þarf sem sagt að hafa um það bil 100 þús. kr. í tekjur til að eiga fyrir þessum 45 þús. kr. Þá minnir mig að einn þriðji af þeim tekjum sem hann má hafa án þess að koma inn í 33% skerðinguna sé þegar uppfylltur. Ef ég man rétt má hann þéna 300 þús. kr. og fá þá óskert námslán.

Ég hefði viljað spyrja ráðherra hvort ekki væri ástæða til að skoða lánshæfni nemenda.



[18:55]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fram til þessa hafa skráningargjöldin ekki verið lánshæf. Það er heldur ekki ætlunin með þessari upphæð á skráningargjaldi þannig að það sé alveg klárt. Unnið hefur verið markvisst að því að tryggja undirstöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna með markvissri fjárhagsstjórnun þeirra sem þar fara með völdin og stjórnunina. Það hefur leitt til þess að líka hefur markvisst verið dregið úr bæði tekjutengingum og því að lækka frítekjumarkið. Stefnan hefur verið og mun áfram verða að stjórnendur reyni eftir bestu getu að koma til móts við við kröfur stúdenta um einmitt lækkun á frítekjumarki o.s.frv.



[18:56]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í stuttu andsvari mínu áðan sýnist mér að nemandi þurfi að þéna 100 þús. kr. til að geta borgað þetta innritunargjald. Þar með er einn þriðji af óskiptum tekjum farinn, ef ég veit rétt. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra:

Ef þetta gjald heldur áfram að hækka — menn geta svo rifist um það hvenær það verður skólagjald, hvenær það er innritunargjald eða skrásetningargjald — á næstu árum og kemst kannski upp í það að nemandinn þurfi að setja í það helming þeirrar upphæðar sem hann má þéna án þess að verða fyrir skerðingu á námslánum, eru þar þau mörk þegar ráðherrann telur að rétt væri að leyfa að námslán dekkuðu þessi gjöld? Eða hvar ætlar hún að draga þessa línu? Hvert er í rauninni verið að fara með þessu?



[18:57]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hafa í huga að það er afar mikilvægt að menn átti sig á því að skrásetningargjaldið endurspegli eftir fremsta megni þann raunkostnað sem fellur á ríkisháskólana vegna þessarar þjónustu við nemendur þannig að þeir þurfi ekki að nýta fjármagnið sem kemur til þeirra vegna kennslu og rannsókna. Það er lykilatriði í þessu máli öllu, að þetta endurspegli raunkostnað.

Ég vil líka geta þess fyrst hv. þingmaður er farinn í þennan talnaleik að hækkunin sem um ræðir í frumvarpinu nemur tæpum 1.400 kr. á mánuði miðað við níu mánaða tímabil fyrir stúdentinn.



[18:58]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að einn hv. þingmaður hefði af vana hoggið nærri sjálfseignarstofnunum. Ég tók þessi orð hæstv. ráðherra til mín og ég ætla bara að leiðrétta það ef þau hafa verið mér ætluð.

Ég hef aldrei gagnrýnt sjálfseignarstofnanirnar út frá öðru en því að hæstv. ráðherra má ekki í skólapólitík sinni láta ríkisháskólana gjalda fyrir flóruna í sjálfstæðu háskólunum. Það er það sem ekki má gerast. Það verður að standa vörð um þjóðarskólann, það verður að standa vörð um opinberu háskólana svo að þeir þurfi ekki að borga fyrir aukin tækifæri háskólanema í vinsælum greinum. Hæstv. ráðherra verður að gera sér grein fyrir því að sjálfseignarstofnanirnar eru eingöngu í vinsælu greinunum, í lögfræðinni, í viðskiptagreinunum. Þeir eru ekki í guðfræðinni, íslenskunni, félagsvísindunum almennt, þannig að ég vísa því bara til föðurhúsanna að ég sé eitthvað að höggva í sjálfseignarstofnanirnar.



[18:59]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið forláts ef ég hef misskilið hv. þingmann en það er bara ekki hægt að túlka orð stjórnarandstöðunnar með öðrum hætti miðað við það hvernig hún talar sí og æ um sjálfseignarstofnanirnar, sjálfstæðu skólana og einkaskólana. Það er ekki hægt að túlka orð stjórnarandstæðinga öðruvísi.

Mikilvægt hlutverk Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans verður seint undirstrikað og þá sérstaklega með tilliti til þess þáttar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á áðan, að Háskóli Íslands til að mynda stendur fyrir afskaplega breiðu námsframboði. Hann er líka ríkisháskóli, grundvallarstofnun í háskólasamfélagi okkar, hefur staðið sig með sóma og hann hefur ákveðnar skyldur sem ég held að við getum alveg viðurkennt að séu umfram aðra. Við viðurkennum það líka með því að framlögin til Háskóla Íslands eru hærri hvort sem við tökum kennslu- eða rannsóknarframlög en framlög til einkaháskólanna með skólagjöldunum til þeirra samtals. Það er verið að reyna að mæta þeim miklu kröfum sem gerðar eru til Háskóla Íslands og við erum sífellt að ræða um það í okkar samskiptum, ráðuneytisins og háskólayfirvaldanna.



[19:01]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fer nú fögrum orðum um þjóðarskólann, Háskóla Íslands, og það ber að þakka það. Hún sagði í ræðu sinni áðan að ríkisháskólarnir séu ekki fjárvana, síður en svo, sagði hæstv. ráðherra.

Hverju vill þá hæstv. ráðherra svara forsvarsmönnum háskólanna sem komið hafa ár eftir ár fyrir alþingismenn ýmist í fjárlaganefnd eða menntamálanefnd til að biðja um leiðréttingar, leiðréttingar á launastiku, leiðréttingar vegna nemendafjölda. Hverju svarar hæstv. ráðherra deildarforsetum félagsvísindadeildar eða raunvísindadeildar sem sögðu þingmönnum fyrir síðustu kosningar að það lægi nærri að þessum deildum yrði lokað? Vegna hvers? Vegna fjárskorts.

Hvernig getur hæstv. ráðherra krafið okkur um að vera samkvæm sjálfum okkur í málflutningi og vera svo svona ósamkvæm sjálfri sér í sínum eigin málflutningi?

Í lokin vil ég segja, hæstv. forseti, að gefnu tilefni vegna þeirra reikningskúnsta í frumvörpunum sem við höldum á hér: Þær eru ekki gegnsæ stjórnsýsla. Þær eru húmbúkk.



[19:02]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var vitnað í það sem ég eitt sinn sagði, að Háskóli Íslands væri ekki blankur. Að vera blankur í mínum huga er að eiga ekki pening. Háskóli Íslands hefur yfir fjármagni að ráða en eins og ég gat um áðan verður það eflaust aldrei nóg til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru háskólans hverju sinni, bæði innan hans og utan frá. Það er aftur á móti allt önnur saga. En það hefur verið reynt eftir besta megni og getu að mæta fjárþörf háskólans, það verður eflaust aldrei nóg en það hefur verið reynt eftir bestu getu. Ég vil enn og aftur minna á það sem gert hefur verið annars staðar að svona mikilli aukningu nemenda hefur einfaldlega verið mætt með því að nemendaígildin eru skorin niður. Það hefur þó ekki verið gert hér.



[19:03]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætlaði upphaflega í andsvar við hæstv. menntamálaráðherra en sá fram á að fá ekki nema mínútu til þess og hef aðeins lengra mál þannig að ég notfæri mér því rétt minn til síðari ræðu hér.

Ég ætla ekki að fara aftur yfir allt málið heldur bregðast aðeins við því sem ráðherrann sagði hér, aðallega í andsvörum sínum en líka í ræðunni sem var að vísu að mestu um annað en þau frumvörp sem hér eru flutt.

Í fyrsta lagi er það sérstaklega sá þáttur málsins sem snertir fylgiskjölin um þann kostnað sem um er að ræða, þennan tiltekna kostnað sem ráðherrann hefur rætt nokkuð um. Ráðherrann hefur nú gumað af því og beðið um sérstakar þakkir fyrir að hafa dregið fram kostnaðinn, eins og komist var að orði, að hafa fengið hann á hreint, eins og komist var að orði, að hafa látið sýna hver hann raunverulega er, eins og komist var að orði, og að það sjáist að hann endurspeglar eftir fremsta megni raunkostnaðinn.

Þetta eru afar merkileg ummæli hjá hæstv. ráðherra vegna þess að eins og rakið hefur verið komast háskólarnir af einhverjum dularfullum ástæðum að mjög svipaðri niðurstöðu. Munurinn á útkomunni hjá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands eru þrjú þúsund tvöhundruð og eitthvað krónur á þessum tiltekna kostnaði og þó er um að ræða skóla sem eru gjörólíkir að stærð og umfangi og mætti ætla fyrir fram að ef um væri að ræða einhvern tiltekinn kostnað að þá sé talan ólík. Ef um væri að ræða þjónustugjöld, sem ekki hefur fengist svar við hér nema frá hv. þm. Þórarni Sveinssyni sem er ákaflega heiðarlegur í málflutningi sínum og hefur talað hér um hófleg innritunargjöld, þ.e. ekki þjónustugjöld heldur skatt — ef um væri að ræða þjónustugjöld þá væri eðlilegt að nemandinn greiddi mismunandi upphæð eftir nákvæmum útreikningum sem fram kæmu frá hverjum skóla um sig.

Mig langar að nefna — auðvitað væri hægt að lesa þetta upp allt saman og athuga af hverju þetta er ekki eins, af hverju minnst er á þessa skrifstofu á þessum stað og hina skrifstofuna á hinum staðnum, hvernig stendur á því, eins og rakið var áðan, að Háskóli Íslands mun í frumskjali sínu hafa reiknað út kostnað fyrir þjónustu sem ekki hefur verið af hendi reidd, reiknað sér gjöld af því sem hann hefur aldrei gert neitt í, en því mun hafa verið breytt, hvort sem það er af völdum háskólans eða af völdum hæstv. menntamálaráðherra eða skrifstofu hennar, menntamálaráðuneytinu — mig langar bara að tæpa hér á einum hlut í þessum útreikningum sem eiga að sýna eins og ég sagði áðan, með leyfi forseta, hver kostnaðurinn raunverulega er sem á að endurspegla eftir fremsta megni raunkostnaðinn og það er þetta:

Í fylgiskjalinu frá Kennaraháskólanum er niðurstöðutalan 45.181 kr. sem kostnaður á nemanda. Sá kostnaður er á verðlagi ársins 2004.

Í Háskólanum á Akureyri er hins vegar reiknaður út kostnaður á nemanda eftir verðlagi ársins 2004 og sá kostnaður er 44.648 kr. Síðan nær það af einhverjum ástæðum sennilega ekki nógu hátt, nær ekki þeim 45 þús. kr. sem um er að ræða, og þess vegna er reiknuð á hann 3% verðlagshækkun þannig að kostnaður Háskólans á Akureyri verður, bravó, allt í einu meira en 45 þús. kr. eða 45.987 kr.

Í Háskóla Íslands, Universitas Islandiae, sem leggur fram fylgiskjal I með frumvarpi um sjálfan sig hér, er hins vegar farið þannig að að heildargjöld í þúsundum króna 2003 eru reiknuð 42.317, en síðan er komist að því að gjaldið 2005 sé 48.494. Þarna er því hækkað um eitthvað töluvert mikið meira en 3% jafnvel þó að við reiknuðum með 3% frá 2003–2004 og 3% hækkun frá 2004–2005.

Þetta litla dæmi um verðlagsútreikningana sýnir auðvitað alveg ágætlega um hvers konar pappíra er hér að ræða. Auðvitað hlýtur sá grunur að læðast að hverjum manni sem þetta sér og um þetta fjallar að skipunin hafi verið — hvernig sem hún kom fram, í kaffispjalli við háskólarektorinn eða einhvers konar öðru spjalli einhverra undirmanna — að nú ætti gjaldið sem sé að vera 45 þús. kr. eða sem næst því a.m.k. og útreikningarnir ættu ekki að vera lægri.

Þetta er ekki háskólunum til virðingar, eins og ég rakti áðan og stend fullkomlega við, og heldur ekki menntamálaráðuneytinu til sæmdar eða skrifstofu hæstv. menntamálaráðherra að haga sér svona, þannig að þegar menntamálaráðherra telur að þetta endurspegli eftir fremsta megni raunkostnaðinn þá er ekki hægt að taka þau orð, að hún hafi dregið fram kostnaðinn og fengið hann á hreint, sýnt hver hann raunverulega er, öðruvísi en sem óráðstal hæstv. ráðherra, vegna þess að svo augljóst er það af fylgiskjölunum að hér er verið að reikna upp í upphæð sem búið var að finna út fyrir fram. Þess vegna sagði ég áðan að það er ekki akademískt að fá niðurstöðuna fyrst og leiða síðan rök að niðurstöðunni, heldur á niðurstaðan að fást út af rökleiðslunni sjálfri. Því eru þetta pappírar sem ekki er hægt að taka mark á, forseti góður.

Ég vil svo segja í lokin að mér þótti illa svarað merkilegri spurningu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um lánshæfið vegna þess að þessi 140 millj. kr. skattur á háskólanema, sem þetta er og engin leið er í raun og veru að neita, er ekki aðeins þannig að mönnum sé þá gert sem hann greiða að vinna meira fyrir honum, eins og okkur hinum þegar hækkaðir eru á okkur skattar með einhverjum hætti, heldur getur hér verið um að ræða hreina kjaraskerðingu vegna þeirra reglna lánasjóðsins sem gera ráð fyrir því að lán dragist frá mönnum við ákveðið tekjumark. Þannig að fyrir suma af þeim sem þurfa að taka þátt í þessum 140 millj. kr. skattgreiðslum til stofnana sem hæstv. menntamálaráðherra ræður er um að ræða beina kjaraskerðingu. Þetta gæti menntmálaráðherra raunar lagað, hún var nú að flytja frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gæti hugsanlega beitt áhrifum sínum í menntamálanefnd til að bæta því við að hér væri sem sé um lánshæft gjald að ræða eða þá að leyfður væri hreinn frádráttur á tekjum aðeins vegna þessa gjalds. En hæstv. menntamálaráðherra kaus að svara hv. þingmanni með almennri ræðu um lánasjóðinnn og sem betur fer er margt hægt að ræða í ræðustól Alþingis því annars mundi hæstv. menntamálaráðherra lenda í hreinum vandræðum hér í andsvörum og beinum spurningum.

Þetta vildi ég segja til þess að það sé alveg á hreinu hvað við er átt, sérstaklega um þau fylgiskjöl sem ráðherra telur endurspegla eftir fremsta megni raunkostnaðinn. Þau orð sín hefði hún kannski átt að láta eiga sig hér, svo augljóst er það að þau eru ekki raunveruleg meining ráðherrans.



[19:12]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt aðeins að fara yfir þetta. Það er verið að reyna að draga fram raunverulegan kostnað háskólanna sem þeir þurfa að leggja út þegar kemur að skráningu og innritun varðandi stúdentana.

Stór hluti þessarar hækkunar er auðvitað vísitölutengingin og verðlagsuppbótin þannig að menn átti sig líka á því að fjárhæðin 32.500 hefur ekki verið verðlagsuppfærð síðan hún var samþykkt á sínum tíma á þinginu 2000–2001.

Ég vil undirstrika að það má meta þessa hækkun þannig, ef menn vilja fara í þá talnaleiki sem menn hafa verið í hér, að það eru u.þ.b. 1.400 kr. á mánuði í níu mánuði sem þessi hækkun nemur.

Ég vil einnig undirstrika það að ég á afskaplega gott samstarf við háskólarektor og þá sem stjórna þar. Ég á bæði formlega og óformlega fundi og það koma að sjálfsögðu ákveðnir hlutir fram á formlegum fundum sem eru þá skráðir til bókar, og það kom fram ósk, og ég vil undirstrika það, á einum slíkum fundi þar sem er sérstaklega farið fram á þessa hækkun sem hefur verið undirstrikuð síðan og ítrekuð.

Ég vil líka árétta það, virðulegi forseti, að þessar tölur og þetta frumvarp fer til meðferðar í hv. menntamálanefnd þar sem hv. þm. Mörður Árnason er að mér skilst einn nefndarmanna, þannig að ég held að honum gefist þá tóm og tækifæri til að fara gaumgæfilega yfir þær tölur sem háskólarnir hafa lagt fram máli sínu til stuðnings.



[19:14]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nú nokkuð liðið síðan ég og hæstv. menntamálaráðherra lukum námi og þess vegna er hægt að gera lítið úr þeim tölum sem hér eru uppi með því að reikna þær sem 1.400 kr. á mánuði eða sem 45–47 kr. á dag, ef hæstv. menntamálaráðherra vill. Ég tel að 32.500 kr. fyrir námsmann sé töluverð upphæð. Mig minnir að sú upphæð, reiknuð aftur í tímann, hafi verið tala sem maður horfði í á sínum tíma. Þegar hún hækkar svo um 40%, í 45 þús. kr., þá er hún orðinn verulegur baggi. En það er ekki bara einu sinni sem þetta gjald er greitt, það er greitt á hverju ári þannig að við skulum ekki gera lítið úr því.

Ég þakka svo hæstv. menntamálaráðherra fyrir að minna mig á að ég ætlaði líka að tala um óskir ríkisháskólanna vegna þess að þegar maður sem flytur frumvarp á Alþingi, þingmaður eða ráðherra, fullyrðir í greinargerð að eitthvað sé einhvern veginn verður hann að geta staðið við það. Hann verður að geta sýnt fram á annaðhvort skriflega eða með einhvers konar vitnaleiðslum að það sé svo. Og það sem hæstv. ráðherra hefur sagt um þetta er að hún hafi heyrt það upp úr háskólarektor, þ.e. rektor Háskóla Íslands, að hann hafi beinlínis óskað eftir þessari hækkun, í 45 þús. kr. Ég efa það ekki og er auðvelt að spyrja viðkomandi rektor að því. En ég endurtek spurninguna: Var það þannig að rektor Kennaraháskólans og skólameistari Háskólans á Akureyri, að þeir yfirmenn hafi líka beðið um þessa upphæð? Ég vil biðja menntamálaráðherra að svara því hér og nú hvort þeir hafi gert það og síðan er hægt að athuga hvernig það passar við það sem þeir segja. Það stendur hér, forseti, í öllum þremur frumvörpunum „Er það í samræmi við óskir ríkisháskólanna …“ og það er eðlilegt að biðja hæstv. menntamálaráðherra um að svara því hvernig þessar óskir komu fram og hverjir báru þær fram.



[19:16]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur margoft komið fram hvernig þetta var lagt upp af hálfu Háskóla Íslands. Jafnframt hafa hinir tveir háskólarnir undirstrikað að þeir telji að það þurfi að koma til móts við þann kostnað sem þeir verða fyrir þegar kemur að innritun og skráningu stúdenta í háskólana. Svo einfalt er það. Þessu getur hv. þingmaður auðvitað innt rektorana eftir þegar þeir mæta á fund hv. menntamálanefndar.

Hæstv. forseti, meginmálið er að hér er um innritunargjöld að ræða, kostnað sem hlýst af skráningu. Hér er ekki um skólagjöld að ræða, við getum tekið þá umræðu síðar og eigum að gera það út frá mörgum grundvallaratriðum sem tengjast okkar ágæta menntakerfi. En hér er fyrst og fremst um innritunar-, skráningargjald að ræða þar sem er verið að koma til móts við kröfur og þarfir háskólanna. Um það snýst þetta mál og í frumvarpinu eru færðar fram röksemdir og þar eru tölur um það sem hér um ræðir. Ég ítreka að mér finnst það betri bragur að hafa á en að geta ekki rökstutt með hvaða hætti skráningargjaldið er fengið hverju sinni.



[19:17]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Vegna þess, forseti, að með þeim einum hætti er þessi tala pínd út úr skólameisturum þessara þriggja ríkisháskóla að þeir standa nauðugir viljugir, upp fyrir haus í peningavandræðum, ráða ekki við að stjórna skólunum með þokkalegum hætti án þess að koma skríðandi til menntamálaráðuneytisins, fá ekki úrlausn mála sinna nema þeir komi og geri það sem hæstv. menntamálaráðherra vill, í þetta sinn að hækka skatt á nemendur um 140 millj. kr. Það er að vísu ekki stórmannlegt hjá háskólarektor en þó mannlegt, en það er beinlínis menntamálaráðherranum til vansæmdar að haga yfirstjórn sinni í menntamálum með þessum hætti.



[19:18]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú alls ekki að lengja þessa umræðu mikið en tel mig hafa ákveðið tilefni til örstuttrar ræðu. Hæstv. ráðherra sagði áðan eitthvað á þá leið að ég væri kominn út í einhvern talnaleik þegar ég spurði hvernig þetta sneri að einstökum námsmönnum og hver staða þeirra væri.

Í dag höfum við hlýtt á umræðu sem hefur snúist mest um skólana sjálfa, tekjur þeirra, gjöld og kostnað. Hæstv. ráðherra sagði hér fyrir um 25 mínútum, ef ég man rétt, að menn vildu ekki gegnsæja stjórnsýslu. Ég er að spyrjast fyrir um og vil vita hvernig þetta snýr að nemendunum, þegar kemur að pyngju nemandans sjálfs hvaða möguleika hann hafi til að greiða þessi gjöld og hvaða tekna nemandinn þarf að afla til að geta greitt þessar 45 þús. kr.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna hæstv. ráðherra kallar það talnaleik af minni hálfu. Mér fannst vera komið nóg af umræðunni um skólana almennt, t.d. hvernig þessi uppsetning væri o.s.frv. Það hefur ekki fengist botn í það hvort menn telja þetta þjónustugjöld, innritunargjöld, skráningargjöld eða hvort við erum komin að mörkum skólagjalda, menn eru ekki alveg sammála um það. Sú umræða hafði staðið hér í allan dag og ekki miklu við hana að bæta sem gæti varpað ljósi á þessi mál. Mér fannst hins vegar skorta á að staða námsmannanna væri skoðuð betur og þess vegna fór ég að spyrja út í hvernig þetta kæmi út fyrir námsmanninn sjálfan, hvenær tekjur hans færu að skerðast, en mér sýnist miðað við að hér sé lagt upp með að 1/3 af tekjum námsmanna muni hverfa sem kostnaður við umrædd gjöld, að teknu tilliti til skatta og annarra skyldna sem allir launþegar þurfa að standa skil á. Og ef ég man rétt þá skerðast tekjurnar um 33% þegar þær fara umfram viðmiðunarmörkin, sem mig minnir að séu 300 þús. kr.

Ég tel þetta alveg umræðunnar virði og get ómögulega sætt mig við að slíkt sé kallað talnaleikur þó maður velti fyrir sér hvort það sé eðlilegt að 1/3 af tekjum sem menn mega hafa án þess að verða fyrir skerðingum lánasjóðsins fari í að greiða þessi gjöld. Þess vegna tók ég þetta til umræðu og átta mig ekki á þeirri athugasemd hæstv. ráðherrans að telja þetta einhvern sérstakan talnaleik af minni hálfu, ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra talaði hér sjálf um tölur og upplýsingar sem snúa að heildarkostnaði og taldi nauðsynlegt að gegnsæi væri í stjórnsýslunni. Ég held að ágætt sé að ræða líka gegnsæi í því er snýr að kostnaði nemendanna.

Ég tel að hér sé komið alveg að þeim mörkum að fara að velta fyrir sér hvenær menn eiga orðið rétt á að fá tekjuviðmiðið hækkað, þannig að það skerðist ekki, til að mæta þessum kostnaði sem er orðinn 1/3 af óskertum tekjum námsmanna, að því er mér sýnist.



[19:22]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að móðga hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, jafnágætur þingmaður og hann er og iðulega nokkuð málefnalegur í málflutningi sínum, það var ekki ætlun mín, hafi hann tekið því þannig að ég nefndi þetta talnaleik. En það hefur mikið verið rætt um tölur og menn notað þær ýmist til að reyna að rökstyðja mál sitt, eða þá til að snúa út úr. En það er ég ekki að segja að hv. þingmaður hafi gert í málflutningi sínum.

Engu að síður tel ég að þær athugasemdir sem hann hefur komið með um málið séu þannig ábendingar að hv. menntamálanefnd eigi að fara vel yfir þær þegar málið er komið til meðferðar hjá henni.