131. löggjafarþing — 37. fundur
 24. nóvember 2004.
Undirbúningur í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.
fsp. ÁRJ, 113. mál. — Þskj. 113.

[13:04]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í haust birtist viðtal í Fréttablaðinu við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður undir yfirskriftinni Hrikaleg misþyrming kvenna. Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Vel má búast við því að hér á landi fari umskornar konur innan tíðar að mæta á fæðingardeildir sjúkrahúsa til að fæða börn. Við verðum að fara að búa okkur undir það.“

Áslaug hefur reynslu af því að taka á móti börnum umskorinna kvenna í Danmörku en þangað flutti mikill fjöldi flóttamanna frá Sómalíu upp úr 1997. Áslaug hafði lesið sér til þegar hún fékk fyrstu umskornu konuna til sín og var því að einhverju leyti undirbúin. Engu að síður segist hún hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli þegar raunveruleikinn blasti við. „Ég var lengi að ná mér. Þetta er hrikaleg misþyrming á konum.“

Í Danmörku fara umskornar konur jafnan í gegnum ákveðna fræðsludagskrá þar sem þær fá m.a. fræðslu um það hvernig eðlileg kynfæri líta út. Eiginmönnum þeirra og fjölskyldum er að jafnaði boðið með í fræðsluna því hefðin er svo sterk að engan veginn er nóg að fræða konurnar einar. Áslaug segir nauðsynlegt að skipuleggja einhvers konar fræðslu hér á landi bæði fyrir ljósmæður og lækna og ekki síður fyrir umskornar konur og fjölskyldur þeirra.

Vegna ummæla Áslaugar legg ég fram fyrirspurn á Alþingi fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra sem hljóðar svo: Hefur starfsfólk í heilbrigðiskerfinu verið undirbúið sérstaklega undir móttöku og þjónustu við konur sem hafa verið umskornar? Ef svo er, hvaða starfsfólk og í hverju hefur undirbúningurinn falist?



[13:06]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir beinir til mín fyrirspurn um hvort starfsfólk í heilbrigðiskerfinu hafi verið undirbúið sérstaklega undir móttöku og þjónustu við konur sem hafa verið umskornar, og ef svo er, hvaða starfsfólk og í hverju undirbúningurinn hefur falist.

Af hálfu heilbrigðisþjónustunnar hafa þessi mál fyrst og fremst verið á könnu kvennadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þar hefur allt frá árinu 2003 verið rætt um hvernig taka skuli á vanda þeirra kvenna sem koma kynnu á deildina vegna þungunar og fæðingar og væru umskornar. Tveir eða þrír úr hópi kvennasérfræðilækna deildarinnar hafa það verkefni að kynna sér sérstaklega meðhöndlun umskorinna kvenna bæði í og eftir fæðingu. Þeir læknar hafa nú þegar hafið undirbúning að þessu hlutverki sínu og mundu verða til kvaddir ef slík mál bæru upp á deildinni.

Ljósmæður sem hafa reynslu af þessu starfi og starfa erlendis að þessum málum yrðu einnig til kvaddar þegar þörf yrði á vegna umönnunar í fæðingu. Á kvennadeild er tekin afstaða til umfangs, viðgerða á sköpum og spöng þessara kvenna eftir fæðingu. Kvennadeildin vinnur í samræmi við viðteknar venjur í helstu nágrannalöndum okkar svo sem á Norðurlöndum og í Bretlandi svo og samkvæmt íslenskum lagafyrirmælum. Einnig koma félagsráðgjafar að málinu eftir því sem þörf er á.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þm.



[13:08]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að taka málið upp. Hún hefur verið ötul við að halda málinu á lofti. Ég held að full ástæða sé til að horfa á þetta mál og það gleður mig hvernig hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurninni. Það var náttúrlega ekki við öðru að búast en að Landspítali – háskólasjúkrahús væri með undirbúning í gangi til að takast á við þennan vanda því ljóst er að það er aðeins tímaspursmál hvenær slíkt kemur hér upp. Það er fjöldi útlendinga hér á landi og þetta er mjög djúpt í þjóðarsál þeirra þjóða sem stunda þessi vinnubrögð, en náttúrlega alveg ljóst að þetta er óverjandi meðhöndlun á konum. Þetta er ofbeldi gagnvart konum og alvarlegt form af misnotkun á börnum. Það gleður mig því að heyra frá hæstv. ráðherra að undirbúningur er hafinn í heilbrigðiskerfinu okkar til að takast á við svona tilvik.



[13:09]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Fyrirspurn hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur vekur mann til umhugsunar um hvort konur séu umskornar á Íslandi. Menn vita dæmi þess að konur sem flytjast til Íslands hafi verið umskornar í öðrum löndum, en mig langar að spyrja í þessu sambandi hvort ráðherra hafi einhverja vitneskju, hvort það sé vitneskja í heilbrigðiskerfinu eða í ráðuneytinu um það hvort konur séu umskornar á Íslandi.



[13:10]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að hreyfa málinu í fyrirspurnatíma. Það er rétt við umræðuna að vekja athygli á því frumvarpi sem liggur frammi þar sem þingflokksformenn allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga hafa lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að umskurður á konum, limlesting á kynfærum kvenna, verði bönnuð samkvæmt íslenskum lögum.

Ég hvet einungis til þess í umræðunni að frumvarpið fái hraða meðferð í þinginu. Ég held að Íslendingar eigi að ganga á undan með góðu fordæmi í þessum efnum. Reyndar hafa nokkur nágrannalönd okkar sett sams konar lög og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alþjóðasamfélagið sem berst gegn limlestingum á kynfærum kvenna að þeim löndum fjölgi sem banni þennan verknað með lögum.



[13:11]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni. Þetta er mjög alvarlegt mál og óverjandi misþyrming sem felst í þessari aðgerð. Ég fagna því að kvennadeild Landspítalans sé farin að huga að þjónustu við þennan hóp. Samkvæmt umræðu sem var hérna áður um þessi málefni kom fram að ekki er vitað til þess að þetta hafi verið gert hér á landi, en auðvitað má búast við því að það gerist hér eins og annars staðar á Norðurlöndum, þar sem vitað er að þetta gerist, og vissulega þarf að samþykkja frumvarp í þá veru sem liggur fyrir þinginu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einnig séu uppi áform um að veita þessum konum og fjölskyldum þeirra fræðslu, eins og Áslaug Hauksdóttir minntist á í viðtalinu sem ég vísaði til áðan og veitt er í Danmörku. Ég geri ráð fyrir að menn horfi til annarra landa, eins og kom raunar fram hjá hæstv. ráðherra, en mikilvægt er að það sé fræðsla til fjölskyldnanna, til kvennanna, að læknarnir séu viðbúnir, hjúkrunarfræðingarnir, ljósmæður og allir sem koma að þessum málum. Vissulega fagna ég því að menn eru farnir að huga að þessari þjónustu og verði viðbúnir ef og þegar menn þurfa að taka á móti og veita þjónustu konum sem hafa orðið fyrir þessari hryllilegu misþyrmingu.



[13:13]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta alvarlega mál. Spurt hefur verið hvort við vitum til þess að konur séu umskornar á Íslandi. Ég svaraði fyrirspurn um þetta frá hv. þm. Valdimar Friðrikssyni á síðasta þingi. Þá höfðum við ekki vitneskju um það og við höfum ekki fengið neina vitneskju sem bendir til þess, sem betur fer. Ég tók fram í svari mínu við þeirri fyrirspurn að túlkun okkar er samkvæmt læknalögum og að samkvæmt íslenskum heilbrigðislögum er þetta líkamsárás. Umskurður kvenna er ólöglegur hér á landi þannig að samkvæmt íslenskum læknalögum er ólöglegt að umskera konur og vonandi er það ekki staðreynd að sá verknaður sé framinn.

Það er ástæða til að halda vöku sinni í þessum efnum og ég heyri að hv. þingmenn hafa áhuga á því enda er þetta líklega þriðja fyrirspurnin sem ég svara um málið á Alþingi. Ég tel að það sé full ástæða til þess ef þessi alvarlegu tilvik koma upp hér að veita fræðslu og kalla til þá sem eru bærir til að veita hana, væntanlega heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel félagsráðgjafa. Sem betur fer hefur ekki enn þá komið upp tilfelli svo við vitum til um þetta mál, en ég tek undir að ástæða er til að halda vöku sinni í eins alvarlegu máli og þessu.