131. löggjafarþing — 37. fundur
 24. nóvember 2004.
Grunnafjörður.
fsp. ÞSveinb, 218. mál. — Þskj. 221.

[13:15]
Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Kapla hf. hyggst reisa rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði. Áætlað er að ársframleiðsla verði allt að 340 þúsund tonn af bökuðum rafskautum.

Lagt hefur verið mat á umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar lögum samkvæmt og hefur Skipulagsstofnun fyrir sitt leyti gefið grænt ljós á framkvæmdina, þó að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ýmislegt hefur reyndar breyst síðan það mat fór fram og m.a. hefur komið í ljós að Alcoa hyggst reisa eigin rafskautaverksmiðju í Noregi vegna uppbyggingar álvers í Reyðarfirði sem þýðir að óvíst er um kaupendur alls þess magns rafskauta sem fyrirhugað er að baka á Katanesi.

Hér verður ekki fjölyrt um viðskiptahlið þessa máls nema að segja að það er von fyrirspyrjanda að iðnaðarráðuneytið sjáist fyrir í þessu efni, enda óljóst um hagnaðarvon, þótt það eigi sjálft frumkvæði að því að reisa þessa verksmiðju á Katanesi í Hvalfirði.

Fyrirspurn mín varðar Grunnafjörð. Innan þynningarsvæðis fyrirhugaðrar verksmiðju er Eiðisvatn en af því er afrennsli yfir í Grunnafjörð í Borgarfirði. Grunnafjörður er eins og kunnugt er á skrá Ramsar yfir votlendissvæði sem hafa alþjóðlegt gildi og ber að vernda sérstaklega. Í Grunnafirði í Borgarfirði eru víðáttumiklar leirur með miklu fuglalífi. Þar er viðkomustaður farfugla.

Þær upplýsingar liggja fyrir að í umhverfisráðuneytinu sé gerð verndaráætlunar samkvæmt Ramsar-samþykktinni fyrir Grunnafjörð ekki hafin þótt hann hafi verið settur á þennan lista árið 1996, að ég best man. Fyrir liggur við núverandi aðstæður að frekari náttúrurannsókna er þörf í firðinum, en í vor var því haldið fram af hæstv. þáverandi umhverfisráðherra að ekkert sem vitað væri um núna ógnaði vistkerfinu í Grunnafirði. Það gæti hins vegar breyst, frú forseti, ef fyrirætlanir um rafskautaverksmiðju á Katanesi verða að veruleika. Má nefna að útblástur ýmissa efna mun aukast mjög verði þessi verksmiðja reist, m.a. svokallaðra PAH-efna sem nokkur ótti er af og lítið er vitað um nema að þau hafa álíka virkan og þrávirk efni og gildi þeirra verður nokkuð hátt samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja.

Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra, en ráðuneyti hennar hefur haft forgöngu um að fá aðila til þess að reisa þessa verksmiðju, hvort hún telji að uppbygging rafskautaverksmiðju á Katanesi samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt Ramsar-samþykktinni, í ljósi þess að Eiðisvatn, sem er innan þynningarsvæðisins, hefur afrennsli í Grunnafjörð.



[13:19]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Grunnafjörður er utan núverandi þynningarsvæðis, iðnaðarsvæðisins á Grundartanga, en hluti Eiðisvatns er innan þynningarsvæðisins. Afrennsli Eiðisvatns er Urriðaá sem rennur í Grunnafjörð. Ekki er þörf á að stækka þynningarsvæðið með tilkomu rafskautaverksmiðjunnar þar sem útblástur frá verksmiðjunni gefur ekki tilefni til slíks. Þó er gerð tillaga um minni háttar stækkun þynningarsvæðisins til norðausturs þannig að lóð rafskautaverksmiðjunnar verði innan þess. Tilkoma rafskautaverksmiðjunnar breytir því engu um þann hluta þynningarsvæðisins sem nær út á Eiðisvatn nú þegar. Stæði rafskautaverksmiðjan ein og sér væri ekki þörf á sérstöku þynningarsvæði umhverfis hana. Viðbætur við meðalstyrk brennisteinstvíoxíðs vegna losunar við það sem nú þegar er leyft á iðnaðarsvæðinu eru um 7% og um 5% vegna flúors. Styrkur svifryks af völdum rafskautaverksmiðjunnar verður vel innan marka jafnt utan sem innan þynningarsvæðis. Það sama á við um styrk köfnunarefnisoxíða. Rafskautaverksmiðjan breytir því mjög litlu um styrk þessara efna innan þynningarsvæðisins frá því sem nú þegar er leyft.

Hlutfallsleg aukning mengunarefna á Grundartangasvæðinu verður mest á svokölluðum PAH-efnum sem eru fjölhringa kolvetnissambönd. Ekki eru til umhverfismörk fyrir PAH-efni hér á landi en við mat á umhverfisáhrifum var stuðst við ströngustu mörk sem þekkjast í Evrópu og verður styrkur PAH-efna alls staðar innan þeirra marka.

Þess má geta að í tillögum Evrópusambandsins frá 2003 um styrk nokkurra mengunarefna í andrúmslofti er gert ráð fyrir mörkum fyrir PAH-efni sem eru tíu sinnum hærri en þau sem miðað er við í mati á umhverfisáhrifum rafskautaverksmiðjunnar.

Í mati á umhverfisáhrifum og úrskurði skipulagsstjóra er gert ráð fyrir að styrkur mengunarefna verði vaktaður. Meðal annars verður styrkur PAH-efna í Grunnafirði, Urriðaá og Eiðisvatni vaktaður sérstaklega bæði áður en verksmiðjan tekur til starfa og eftir að starfsemi hefst. Nánari ákvörðun um vöktun þar verður tekin í samráði við Umhverfisstofnun.

Ekki verður séð annað en að fyrirhuguð bygging og rekstur rafskautaverksmiðju samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt Ramsar-sáttmálanum.



[13:22]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér heyrist á svari hæstv. iðnaðarráðherra að lítil viska sé á bak við þann boðskap sem hér var fluttur. Þetta eilífðarhjal um vöktun á útblæstri er að verða fremur leiðinlegt hér í þessu samhengi. Það er alveg sama hversu mikið stjórnvöld vakta þennan útblástur. Hvenær ætlum við að fara að ræða þetta mál ofan í kjölinn og hætta þessari endalausu losun eiturefna út í náttúruna sem nú þegar er farin að valda umhverfinu spjöllum?

Hæstv. forseti. Skuldbindingum Íslands á vettvangi Ramsar-samningsins er ógnað af rafskautaverksmiðju á Katanesi. Skuldbindingum Íslands á vettvangi Bernarsamningsins er ógnað. Skuldbindingum Íslands á vettvangi Kyoto-bókunarinnar og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er ógnað. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að fara að snúa sér að einhverju öðru en að baka rafskaut á Katanesi. Hún ætti að hætta að baka íslenskum friðlöndum slík vandræði sem hér eru í uppsiglingu. Ég tel að það sé kominn tími til að íslensk (Forseti hringir.) friðlönd fái að vera í friði fyrir ríkisstjórn Íslands.



[13:23]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vandinn við þetta mál sem við ræðum hér, Grunnafjörð og stöðu hans gagnvart Ramsar-samþykktinni, er sá að menn hafa aldrei klárað að koma Grunnafirði í lag. Það var látið nægja 1996 að lýsa hann Ramsar-svæði. En síðan þegar búið var að segja A þá taldi íslenska ríkisstjórnin, umhverfisráðherra og aðrir ráðherrar með honum hæstvirtir, að það væri nóg og sögðu aldrei B, sem var það að búa til verndaráætlun fyrir þetta svæði sem þarf að gera og sem á að gera samkvæmt þessari samþykkt. Í raun eru þessi svæði ekki orðin Ramsar-svæði og ekki hægt að monta sig af þeim fyrr en sú verndaráætlun hefur verið gerð.

Það já sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði áðan um að þessi rafskautaverksmiðja samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt þessari samþykkt er því náttúrlega já í ljósi þess að engin verndaráætlun er til. Þar með hefur hvorki hæstv. iðnaðarráðherra né umhverfisráðherra neitt vit á því og ekki neitt um það að segja (Forseti hringir.) hvað samræmist Ramsar-samþykktinni í þessu máli.



[13:24]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa við þessu máli hér. Það er sannarlega ástæða til að halda hæstv. ríkisstjórn við efnið í þessum efnum. Það verður nú sólarlítið í Hvalfirði ef svo heldur sem horfir og ríkisstjórnin raðar þar niður hverju mengandi fyrirbærinu á fætur öðru. Rafskautaverksmiðja er auðvitað eitt af því allra versta sem fyrir finnst af sínum toga. Þar er gífurleg losun mengunarefna miðað við tiltölulega lítil umsvif. Það er auðvitað eins og við manninn mælt að ríkisstjórnin fagnar því sérstaklega og virðist vera þeim mun gráðugri í fyrirbærin sem þau valda meiri mengun. Það voru alveg sérstök fagnaðarlæti út af þessari rafskautaverksmiðju af því að hún á að bætast þarna við það sem fyrir er í Hvalfirðinum.

Eins er það með alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Maður fer að velta því fyrir sér hvernig menn hugsa framgöngu sína, þeir sem geta verið svo gjörsamlega geðklofnir í afstöðu sinni eins og hæstv. ríkisstjórn er t.d. núna þessa dagana gagnvart loftslagsbreytingunum hér á norðurslóðum og losun gróðurhúsalofttegunda (Forseti hringir.) annars vegar og hins vegar fagnaðarlátunum yfir aukinni mengun. (Forseti hringir.) Það er aðeins hægt að bera (Forseti hringir.) sig saman við eitt land í heiminum í þessum efnum, (Forseti hringir.) sem hunsar alþjóðasamþykktir jafnfullkomlega og það eru Bandaríkin.



[13:26]
Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég verð að segja eins og er að þau komu mér ekkert sérlega á óvart.

Mig langar til að hnykkja á því, frú forseti, að staðan varðandi PAH-efni á Íslandi er einfaldlega sú að mjög lítið er um þau vitað. Það þýðir lítið að styðjast við rannsóknir, hversu góðar sem þær eru, sem hafa verið gerðar annars staðar í öðrum löndum. Það hefur ekki verið sett í íslenska reglugerð, ekki byggt á neinum íslenskum rannsóknum um það hver gildin eigi að vera. Hér er verið að leyfa mjög mikla staðbundna losun á PAH-efnum miðað við það sem við þekkjum hingað til á Íslandi. Þess vegna jaðrar það við gáleysi af stjórnvöldum að gefa á það grænt ljós án þess að láta fara fram tilhlýðilegar rannsóknir, frú forseti, m.a. vegna Ramsar-samþykktarinnar. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun hefur sagt að það þarf að gera rannsóknir í Grunnafirði. Það þarf að búa til verndaráætlunina og það ætti náttúrlega að vera búið fyrir löngu, frú forseti. Það er ekki hægt að fullyrða neitt, frú forseti, fyrr en þetta liggur fyrir um áhrif þessara eiturefna. Og eins og hv. þingmenn vita væntanlega þá verður nú ýmislegt annað losað í Hvalfirði ef þessi verksmiðja verður reist, koltvísýringur og annað. Í raun er mjög mikil mengunarhætta af þessu fyrirbæri. Ég bið því hæstv. iðnaðarráðherra að skoða málin betur og sjá til þess að íslenskar rannsóknir liggi til grundvallar.



[13:27]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Alltaf spretta upp sömu hv. þingmennirnir þegar er farið að tala um verksmiðjur í þessum virðulega þingsal af því að þeir eru á móti öllum verksmiðjum. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Það er óþarfi að tala svona.) (Gripið fram í.) Óskaplega eiga hv. þingmenn bágt.

(Forseti (ÞBack): Má ég biðja aðeins um hljóð í salinn.)

En það var eitt alveg hárrétt sem hér var sagt og það var að iðnaðarráðherra hefði ekkert sérstaklega mikið vit á þessum málum, þ.e. hvað varðar mengun. Það vill nú svo til varðandi ráðherra sem ekki fara með slík mál — og iðnaðarráðherra gerir það nú ekki samkvæmt stjórnsýslu Íslands — að þegar mál sem þessi koma upp þá fara þau bara í ákveðinn farveg. Ég veit ekki betur en þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafi haft bara heilmikið álit á mati á umhverfisáhrifum og Skipulagsstofnun í því sambandi og annað slíkt. Það vill svo til að þessi verksmiðja hefur þessi leyfi. Það á nú ekkert að tala um leyfi í þessu sambandi. En hún hefur farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Hv. þingmaður sem hér hóf þessa umræðu hefur nú, held ég, heilmikið álit á Evrópusambandinu og eins og kom fram í máli mínu áðan er matið á umhverfisáhrifum sem unnið er vegna verksmiðjunnar, þ.e. þá eru viðmið hér svo miklu lægri en hjá Evrópusambandinu að þau eru tíu sinnum hærri hjá ESB (Gripið fram í.) í sambandi við verksmiðjuna. Því er augljóst að verið er að gæta varúðar (Gripið fram í: ... í Grunnafjörð.) í þessu sambandi. (Gripið fram í.)

Svo var talað hér um geðklofa og fleira sem ég ætla ekki að bregðast við. En það var líka talað um sól í Hvalfirði. Ég vil minna á að þegar Norðurál hóf starfsemi sína í Hvalfirði voru iðnaðarráðherra afhent mótmæli undir lögregluvernd. Slíkt var ástandið. (Gripið fram í.)

Hver er á móti þeirri verksmiðju í dag? Það sem þurfti til á þeim tíma var kjarkur stjórnvalda til þess að byggja (Forseti hringir.) þessa verksmiðju og svo verður áfram. (Gripið fram í.)