131. löggjafarþing — 37. fundur
 24. nóvember 2004.
Veiðiregla.
fsp. SigurjÞ, 181. mál. — Þskj. 181.

[14:58]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Því verður ekki á móti mælt að þorskafli á Íslandsmiðum hefur dregist gríðarlega saman síðan kvótakerfið var tekið upp. Fyrirhugaður afli á þessu fiskveiðiári er rúmlega helmingi minni en stefnt var að með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þegar það var sett á legg. Allar tilraunir reiknimeistara til að búa til einhverja allsherjaraflareglu til að byggja upp þorskstofninn hafa mistekist hrapallega. Árið 1992 var þorskaflinn 309 þús. tonn, en það er einmitt árið sem vinnuhópur Hafrannsóknastofnunar og Þjóðhagsstofnunar hóf vinnu við gerð svokallaðrar aflareglu sem hafði það að markmiði að efla þorskstofninn.

Aflaregla er föst regla sem ákveður hve mikið á að veiða úr þorskstofninum. Reglan sem hefur gilt undanfarin ár er að það skuli veiða 25% af áætluðum veiðistofni, þ.e. fjögurra ára og eldri þorski. Árangursleysið er algjört, eða 100 þús. tonna minni afli en þegar reiknimeistararnir hófu vinnu sína. Hæstv. sjávarútvegsráðherra skipaði í mars 2001 nefnd til þess að meta árangurinn af notkun aflareglunnar við stjórn fiskveiða. Eflaust hefur árangursleysið rekið ráðherrann áfram til þess að gera umrædda úttekt. Það sem vekur sérstaka athygli er að hæstv. sjávarútvegráðherra skipar sömu menn í að gera úttektina og þá sem bjuggu regluna til. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að menn séu að endurskoða eigin verk.

Ein meginforsenda veiðireglunnar og reiknimeistaranna er að stór hrygningarstofn gefi af sér mikla nýliðun, en nýliðun er fjöldi ungra þorska sem bætast inn í veiðistofninn.

Ef skoðuð eru línurit yfir stærð hrygningarstofns og nýliðun er ekki með nokkru móti hægt að ætla að fylgni sé með stórum hrygningarstofni og mikilli nýliðun. Miklu nær er að lesa út úr gögnum að það sé öfugt samband á milli hrygningarstofns og nýliðunar, þ.e. þegar hrygningarstofn er lítill þá komist fleiri seiði á legg. Þetta samband er viðurkennt að vissu leyti í endurskoðunarskýrslu reiknimeistaranna, það kemur fram á bls. 9. En samt sem áður er eins og skýrslan leiti ætíð í að skýra nýliðun út frá jákvæðu sambandi hrygningarstofns og meiri nýliðunar. Gerðar eru ítrekaðar tilraunir í þá átt og búin til einhver hrognavísitala til að skýra nýliðun og reynt er að flækja málið með aldurssamsetningu hrygningarstofns og stærð hrygna. En þrátt fyrir allar þessar tilraunir virðist þetta jákvæða samband ekki finnast.

Í framhaldinu vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort ekki sé löngu kominn tími til að horfast í augu við árangursleysi aflareglunnar og fara að leita nýrra leiða til að nýta þorskstofninn og játa að þetta samband sé ekki til staðar.



[15:01]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar er svohljóðandi:

„Hver er árangurinn af notkun veiðireglu við uppbyggingu þorskstofnsins á Íslandsmiðum?“

Í mars árið 2001 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd um langtímanýtingu fiskstofna með þátttöku sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar. Nefndin hafði m.a. það verkefni að meta árangurinn sem náðst hafði í nýtingu þorskstofns á undanförnum árum. Nefndin skilaði lokaskýrslu sl. vor og byggir eftirfarandi á henni.

Við framreikning og prófanir vegna setningar aflareglu árið 1995 var gert ráð fyrir að þorskaflinn yrði um 170 þús. tonn allt fram til ársins 2003. Reiknað var með 12–15 ára uppbyggingartíma, þ.e. þar til hrygningarstofn var orðinn um 800 þús. tonn og afli um 330 þús. tonn. Sem kunnugt er jókst aflinn meira en sem þessu nam og þessi markmið hafa því ekki náðst nema að hluta.

En þegar reynslan af ákvörðun heildaraflamarks með aflareglunni er metin er engu að síður ljóst að fiskveiðiárið 1995–1996 til 1996–1997, þegar stofninn er metinn með viðunandi nákvæmni, þá skilaði stefnan fyllilega þeim árangri sem stefnt var að.

Hins vegar þegar stofnmatið fór af réttri leið, a.m.k. eins og fyrirliggjandi mat gefur til kynna, árin 1997–1998 og 1999–2000 voru teknar ákvarðanir á röngum forsendum sem leiddu til þess að heildaraflamark var allt of hátt nokkur ár í röð. Afli umfram aflamark dró einnig úr árangrinum og eins sú breyting sem gerð var með tilkomu sveiflujöfnunar árið 2000, þar sem ekki er gert ráð fyrir að breyting á aflamarki nemi meiru en 30 þús. tonnum plús eða mínus frá einu ári til þess næsta.

Meginniðurstaðan varð því að árangur af beitingu aflareglunnar hefur orðið umtalsverður en miðað við þróun þorskstofnsins og í ljósi þess hvernig hann var metinn á hverjum tíma hefði mátt gera enn betur með því að fylgja upprunalegri tillögu vinnuhóps um aflareglu frá 1994. Þar var miðað við að veiðihlutfall væri 22% af veiðistofni í stað 25%, eins og í raunverulegri útfærslu, og að beitt skyldi svokallaðri meðaltalsreglu, meðaltals stofnmats og aflamarks undangengins árs, til að jafna sveiflur í afla milli ára í stað meðaltals stofnmats yfirstandandi árs og áætlunar næsta árs, eins og nú er.

Reynslan af lækkun fiskveiðidauða fiskveiðiárin 1994–1995 og 1996–1997 sýnir einnig að hægt er að byggja upp þorskstofninn með takmörkun afla. Einnig er nú ljóst að stofnmat er óvissara en áður var talið og skekkja í sömu átt getur verið viðvarandi nokkur ár í röð. Þetta getur leitt til þess að fiskveiðidauði verði um árabil mun meiri en ætlað var þegar beitt er aflareglu. (Gripið fram í: … aðeins að ræða um þetta.) (Gripið fram í: Gera úttekt.)

Í ofangreindri nefndarskýrslu sýndi einfalt haglíkan að hagrænn ávinningur af beitingu aflareglunnar árið 1995–2000 hefði verið um 24 milljarðar króna ef miðað er við hvernig stofninn var nýttur á árunum 1985–1992. Þar af eru 17 milljarðar vegna meiri hagnaðar en ella og 7 milljarðar vegna þess að stofninn var stærri og verðmætari í lok tímabilsins en annars hefði verið. Athugun bendir til að ef beitt hefði verið lægra aflahlutfalli frá upphafi og jöfnun af því tagi sem lögð var til í skýrslu vinnuhóps frá 1994, hefði líklega náðst enn betri árangur. Munurinn er metinn á um 46 milljarða króna. Þar af eru um 9 milljarðar vegna meiri hagnaðar á árunum 1995–2000 og 37 milljarðar vegna stærri stofns í lok tímabilsins.

Þegar bornar eru saman niðurstöður útreikninga með og/eða án matsskekkju kemur fram, að núvirtur hagnaður áranna 1995–2000 er nokkuð svipaður þegar beitt er tiltekinni aflareglu. Ef þeirri reglu sem lögð var til í skýrslu vinnuhóps frá 1994 hefði verið beitt, hefði núvirtur hagnaður orðið um 8 milljörðum meiri en raun varð ef ekki hefði komið til nein matsskekkja. Ef tekið er tillit til matsskekkjunnar er áætlaður munur um 9 milljarðar. Ávinningurinn af stærri og verðmætari stofni yfirgnæfir þennan mun hins vegar algjörlega. Að teknu tilliti til matsskekkjunnar hefði aflareglan sem lögð var til í skýrslu vinnuhópsins leitt til þess að stofninn hefði verið þriðjungi stærri í lok ársins 2000. Í verðmætum talið er áætlað að munurinn sé 37 milljarðar.

Að jafnaði hefur verið tilhneiging til ofmats á stærð þorskstofnsins á undanförnum tveimur áratugum. Ekki hefur fundist fullnaðarskýring þar á. Ofmatið hefur leitt til þess að í stað þess að afli var að jafnaði 25% af veiðistofni, eins og stefnt var að með núverandi aflareglu, var hlutfallið 27,5%. Að auki hefur afli umfram leyfðan heildarafla farið vaxandi á síðustu árum og því hefur raunveruleg veiði orðið um 30% af veiðistofni eða 20% meiri en stefnt var að með aflareglunni og 36% meiri en fólst í upphaflegu aflareglunni frá 1994.

Við samanburð og ítarlegar prófanir á ýmsum aflareglum, m.a. núverandi reglu, kom í ljós að regla sem miðaði við afla sem nemur 22% af veiðistofni hefur góða eiginleika hvað varðar hagnað, stöðugleika og vöxt og viðkomu þorskstofnsins. Niðurstaða um 22% veiðihlutfall er óháð því hvort gert er ráð fyrir að umhverfisaðstæður hafi breyst varanlega til hins verra frá því sem áður var eða hvort gera má ráð fyrir að þær fari batnandi og nýliðun verði aftur eins og á árunum fyrir 1985. — Ég er alveg að verða búinn, herra forseti.

Ef nýliðunin verður eins og á undanförnum 15 árum þýðir þetta að meðalafli verður um 240–250 þús. tonn á ári. Uppbygging hrygningarstofns og/eða betri uppeldisskilyrði leiða til þess að nýliðun verði svipuð og á áratugnum fyrir 1985. Þá verði meðalafli um 350–360 þús. tonn ári með 22% aflareglu.

Herra forseti. Hv. þingmaður lagði fyrir mig fleiri spurningar í ræðu sinni …

(Forseti (GÁS): Nú er tíminn alveg búinn.)

… sem ég verð að fá að svara í seinni ræðu. En það hefði auðvitað verið miklu betra ef hv. þingmaður hefði komið öllum spurningunum á framfæri í fyrirspurninni þegar hún var lögð fram sem þingskjal.

(Forseti (GÁS): Nú ræður forseti litlu um það en ræður því hins vegar að hv. 5. þm. Norðvest. ætlar að gera athugasemd.)

(Gripið fram í: Og kom engum á óvart.)



[15:07]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér í raun að ræða grunninn að þeirri nýtingarstefnu sem ráðuneytið hefur verið að byggja á og stjórnarflokkarnir hafa byggt á, á undanförnum árum varðandi útfærslu við veiðar á þorskstofninum, okkar mikilvægasta stofni, sem gefur okkur bróðurpartinn af tekjunum í sjávarútvegi jafnvel þó að aflinn sé ekki meiri en nú er, hvað þá ef hann væri eins og hann hefði nú verið á árum áður, áður en núverandi regla var tekin upp.

Mér finnst dálítið gæta þess í skýringum hæstv. ráðherra sem hann byggir jú á þeirri skýrslu sem hann var að vitna til, að menn eru með svona „ef-reikning“, ef-reikning aftur á bak, og segja að ef þetta eða hitt hefði gerst þá hefði niðurstaðan orðið þessi og við hefðum fengið meira út úr þessu.

Ég held að það sé afar erfitt, hæstv. forseti, að rétta af fortíðina með einhverjum ef-reikniforsendum. Það er með þær eins og fleira í þessari veröld, náttúruskilyrðin breytast og menn geta ekki sagt allt fyrir — ekki einu sinni aftur á bak.



[15:09]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að koma á framfæri stuttri athugasemd til að lýsa þeirri skoðun minni að þessi hugmyndafræði og hugsunarháttur í kringum þessa aflareglu gengur einfaldlega ekki upp. Veröldin er ekki svona einföld. Það er ekki hægt að setja þorskstofninn inn í eitthvert ákveðið reiknilíkan, og segja: Það er einn einsleitur þorskstofn allt í kringum landið, ýta svo á takka og fá út einhverja útkomu. Þetta er miklu flóknara en svo.

Ég skemmti mér í vor eða sumar við að lesa skýrslu sem kom út í apríl 2004 frá nefnd um langtímanýtingu fiskstofna og mér hreinlega ofbauð að sjá þar hvernig menn eru gersamlega úti að aka í öllum sínum hugsunarhætti, tönnlast á einhverri furðulegri blöndu af tölfræði og hagfræði en gleyma gersamlega allri líffræði. Svona fiskveiðistjórn mun aldrei skila okkur neitt fram á veginn, því miður.



[15:10]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru einhvers konar talnaröð og sambland af líffræði og einkennilegri hagfræði og krónum og tonnum.

En það sem ég er að vekja athygli á og vil ræða hér eru forsendurnar fyrir þessu. Hverjar eru þær? Þetta þarf að fara að ræða. Skilar stór hrygningarstofn mikilli nýliðun? Það er ekki hægt að sýna fram á það. En það er hægt að reikna og reikna og það sem er svo sérstakt í þessu er að þegar maður horfir á þessa reikninga í þessum skýrslum, aflaregluskýrslum, þá er verið að reikna 30 ár fram í tímann. En samt sem áður er ekki hægt að segja til um stærð þorskstofnsins á næsta ári eða þar næsta ári, með nokkurri vissu. En samt sem áður treysta menn sér til að reikna áratugi fram í tímann. Þetta er hrein og klár vitleysa.

Annað atriði sem ég tel að hæstv. ráðherra ætti að svara varðar þá sem bjuggu til aflaregluna, hvers vegna eru þeir settir í að endurskoða regluna? Mér finnst það vera algjör fjarstæða, sérstaklega í ljósi árangursleysis aflareglunnar. Auðvitað eiga þeir að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir hana.

Nú er farið að reikna út dýrastofna, ekki bara í sjávarútvegsráðuneytinu, ég sá að hjá Náttúrufræðistofnun var verið að reikna út rjúpnastofninn 40 ár fram í tímann. Ég var á ráðstefnu um fiskveiðistjórn í haust og þar var verið að reikna út stærð fiskstofna aftur í tímann, þar voru fiskstofnar í Skagerak reiknaðir út 130 ár aftur í tímann, út frá einhverjum skipsbókum með mikilli nákvæmni. Ekki nóg með það, þar var verið að reikna út síldarstofn og ofveiði á sautjándu öld, út frá kirkjubókum.

Ég tel einfaldlega að við höfum lent á algjörum villigötum með þessum útreikningum og að það verði að fara að reikna þetta út frá fæðuframboði og skilyrðum í hafinu. Það er miklu nær lagi þegar verið er að áætla nýliðun á komandi árum.



[15:12]
sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru ótrúlegir fordómar sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur gagnvart reikningi, stærðfræði og tölum. Ef við reiknum ekki neitt, ef við leggjum ekki eitthvað til grundvallar til þess að reikna út frá til að komast að einhverri niðurstöðu um hvernig hlutirnir voru, hvað vitum við þá og á hverju eigum við þá að byggja?

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að við réttum ekki af fortíðina eftir á. En við þurfum hins vegar að skoða hvernig hlutirnir hefðu hugsanlega orðið hefðum við gert hlutina einhvern veginn öðruvísi. — Ekki hægt að setja inn í reiknilíkan og ýta á takka. Ef við gerum ekkert svoleiðis, á hverju eigum við þá að byggja ákvarðanir okkar? Ef við reynum ekki að nálgast það hvernig hlutirnir munu hugsanlega þróast í framtíðinni þá höfum við ekki á neinu að byggja þegar taka á ákvarðanirnar. Líffræðin er alltaf á bak við þetta allt saman, þannig að þetta er ekkert alveg úti að aka. En þetta er ekki eins nákvæmt eins og við hefðum viljað hafa það.

Háttvirtur þingmaður Sigurjón Þórðarson spurði aftur, sem var ágætt, af hverju sömu menn, að breyttu breytanda, hefðu verið settir til þess að endurskoða sín fyrri verk. Því er til að svara að það hefur farið fram þreföld endurskoðun á stofnmatinu og því hvernig stofnmatið og aflareglan hefur virkað saman. Tveir hópar erlendra aðila voru fengnir til að vinna þá vinnu og niðurstöður þeirra hafa verið kynntar á fyrirspurnaþingum sem ráðuneytið hefur staðið fyrir. Til viðbótar voru aðilarnir sem stóðu að aflareglunni fengnir til að fara yfir þetta líka og niðurstöður þeirra hafa líka verið kynntar.

Ástæðan fyrir því að þeir fengu líka tækifæri til að gera það var sú, að aflareglan sem endanlega var ákveðin og farið var eftir var ekki sú aflaregla sem sá hópur lagði til. Það skýrir auðvitað ekki allt sem hefur verið að gerast eða allan muninn á þróuninni sem menn áttu von á, það var fyrst og fremst ofmatið á fiskstofnunum sem skýrir þann mun, eins og kom fram í fyrra svari mínu.