131. löggjafarþing — 39. fundur
 25. nóvember 2004.
athugasemdir um störf þingsins.

Forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir.

[10:34]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær hafði ég óskað eftir því að fá viðbrögð hæstv. umhverfisráðherra á Alþingi um álitamál sem vaknað hafa almennt varðandi forvarnir við eldvarnaeftirlit og umhverfisvarnir vegna stórbrunans sem varð við Klettagarða. Ráðherra gat ekki orðið við beiðni minni vegna anna. Sem betur fer, og það ber að þakka, gekk öll samvinna aðila vel vegna þessa stórbruna. Viðbrögð og björgunaraðgerðir á brunastað virðast hafa virkað fullkomlega. Þeir sem að þessum björgunaraðgerðum komu eiga vissulega heiður skilinn.

Nauðsynlegt er þó að fara yfir málið í heild sinni og læra hér af reynslunni, m.a. hvort treysta þurfi betur stoðir forvarna, bæði gagnvart eftirlitsskyldum aðilum og aðgerðum sem beinast að þeim sem uppfylla ekki skyldur um fullnægjandi brunavarnir. Sérstaka athygli mína varðandi þennan bruna vöktu líka óskýrar heimildir slökkiviliðsins til að beita þvingunarúrræðum og að Umhverfisstofa vissi ekki að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefði gert alvarlegar athugasemdir varðandi úrgang á landi Hringrásar vegna almannahættu.

Það er nauðsynlegt í framhaldi af þessum stórbruna að skipulega sé farið yfir það, ekki síst á opnum svæðum, hvort víða sé að finna sambærileg hættusvæði eða eldsmat sem ógnað geti almannahagsmunum og öryggi fólks. Ég bendi þar ekki síst á olíubirgðastöðvar í Örfirisey í nálægð við íbúabyggð. Ég spyr um viðbrögð ráðherra við því. Það er auðvitað grafalvarlegt mál sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag að brunavörnum sé hreinlega ábótavant hjá á þriðja hundrað fyrirtækjum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ástæða til að spyrja ráðherra hvaða áform séu uppi varðandi auknar forvarnir og eldvarnaeftirlit. Ég vildi einnig spyrja ráðherra hvort ástæða sé til sérstakra viðbragða vegna þeirra 200–300 tonna af PCB-menguðum jarðvegi sem geymdur er í sekkjum á lóð Hringrásar og ekki hefur enn fundist staður til að farga. Sömuleiðis spyr ég ráðherrann hvort verkaskipting og skilgreining á ábyrgð sé nægilega skýr milli slökkviliðs, lögreglu og almannavarna þegar stórbruna eða almannavá ber að höndum og hvort skýrar björgunaráætlanir liggi fyrir undir slíkum kringumstæðum.



[10:36]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir að það er nauðsynlegt að vandlega sé farið yfir þessi mál öll í heild sinni þegar svo alvarlegt slys verður eins og þessi bruni hjá Hringrás ehf. Það var mjög mikið fagnaðarefni hversu vel samhæfðir allir þeir voru sem komu að málinu, slökkvilið, lögregla og þeir aðilar aðrir sem þurftu að bregðast við því alvarlega ástandi sem skapaðist.

Vegna brunans á athafnasvæði Hringrásar fól ég Brunamálastofnun í gær að gera úttekt á brunavörnum og eldvarnaeftirliti hjá aðilum með sambærilegan eða hliðstæðan rekstur og Hringrás með vísan í ákvæði laga nr. 75/2000, um brunavarnir. Ég fól Brunamálastofnun að kanna í ljósi atvika hvort ástæða sé til að breyta lögum eða reglum um brunavarnir og eldvarnaeftirlit til að draga úr líkum á því að atvik sem þetta endurtaki sig og að stofnunin skoði sérstaklega hvort ástæða sé til að fyrirskipa nánari samvinnu við eftirlitsaðila til að tryggja skilvirkni í framkvæmd laga og reglna um brunavarnir.

Brunamálastofnun skal við þessa athugun hafa samráð við viðkomandi yfirvöld og eftirlitsaðila. Ráðuneytið væntir þess að niðurstaða Brunamálastofnunar liggi fyrir eigi síðar en 16. janúar nk. og tillögur til breytinga á lögum og reglum, sé ástæða talin til þess, ekki síðar en 15. febrúar.



[10:39]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða þetta atvik hér á þingi og þakka ég hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á því. Við þurfum að fara yfir alla þætti og fagna ég því að hæstv. umhverfisráðherra hefur þegar brugðist við. Það ber líka að þakka öllu því fólki sem lagði hönd á plóginn við björgunarstörf þegar þessi mikli bruni varð. Samkvæmt fréttum í morgun byrjaði að loga aftur í nótt.

Við vorum heppin að vindátt var eins og hún var þegar þessi mikli bruni varð. Það hefði verið mjög erfitt ef eldurinn og reykurinn hefðu farið yfir öldrunarstofnanirnar sem eru rétt við þetta svæði en bent hefur verið á að víða eru hættur á höfuðborgarsvæðinu. Hjá á þriðja hundrað fyrirtækjum er brunavörnum ábótavant en mig langar að vekja athygli á öðru sem kom fram í fyrirspurn sl. vetur hér á Alþingi.

Ég spurði þá hæstv. dómsmálaráðherra hvort til væri rýmingar- eða björgunaráætlun fyrir Reykjavík og nágrannasveitarfélögin ef náttúruhamfarir eða stórslys yrðu sem ógnuðu lífi borgaranna. Í svari frá hæstv. dómsmálaráðherra kom fram að engin slík áætlun er til fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið þar sem þó meiri hluti íbúa landsins býr. Slíkt er hins vegar til fyrir Hveragerði og ýmis önnur svæði á landinu þar sem menn hyggja að einhver vá geti verið fyrir dyrum.

Ég tel fulla ástæðu til að skoðað verði í þessu samhengi hvort farið er að vinna að einhverri rýmingar- eða björgunaráætlun fyrir þetta stóra svæði, höfuðborgarsvæðið, ef hér verða stórslys, náttúruhamfarir eða eitthvað slíkt og flytja þarf íbúa í burtu. Þarna þurfti ekki að flytja nema tiltölulega fáa íbúa í burtu en það gæti orðið verra. Horfum t.d. til Örfiriseyjar og olíubirgðastöðvarinnar þar, ef eitthvað gerðist þar þyrfti líklega að flytja stærri hóp á brott.



[10:41]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það ber að þakka þeim sem stóðu að verki, slökkviliði, sjálfboðaliðum og öðrum þeim sem að brunanum komu og líka hæstv. umhverfisráðherra sem brást röggsamlega við. Nú svipast menn um eftir því hvar álíka viðburður geti komið upp í Reykjavík og nágrenni. Menn skoða fyrirtækin sem ekki hafa sinnt brunavörnum og beina sjónum sínum auðvitað að eigendum húsa sem ekki hafa sinnt brunavörnum heldur, enda er það í mörgum tilvikum dýrt fyrir slíka eigendur. Kannski eigum við að líta í eigin barm.

Það slys sem bíður eftir að komið sé í veg fyrir er auðvitað flugvöllurinn sem reistur var við borgarmörkin í heimsstyrjöldinni síðari. Aðflugið að honum fer ekki bara yfir þetta hús heldur yfir þá olíubirgðastöð sem hefur stað sinn tæpan kílómetra í hánorður. Nú held ég að tími sé kominn til þess, þrátt fyrir pólitískt þras og tregðu ýmiss konar stjórnvalda, að koma þessum flugvelli í burt og gera um það vandlega áætlun. Mér sýnast þær aðstæður sem skapast við það að hæstv. utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar hafa nánast fallist á að í samningum við Bandaríkjamenn muni Íslendingar reiða fram fé til flugvallarins í Keflavík ýti flugvellinum í Reykjavík endanlega út af borðinu. Ég held að öryggismálum í Reykjavík, sérstaklega í Kvosinni og nágrannabyggðum hennar, sé þannig háttað að því fyrr sem þetta er gert, þeim mun betra.



[10:43]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mest er um vert að ekki urðu slys á mönnum, hvorki við eldsvoðann sjálfan, mengunina né heldur við björgunarstörfin. Það ber að þakka og eins það sem aðrir hafa bent á, að þó að ljóst sé að í aðdraganda þessa mikla slyss hafi verið um að ræða sambandsleysi á milli eftirlitsaðila sem annars vegar eiga að sjá um brunavarnir og hins vegar um útgáfu starfsleyfis var samvinna allra aðila á vettvangi þegar á hólminn var komið mjög góð og ekki síst þeirra 600 íbúa sem þarna urðu fyrir röskun, bæði á næturró og högum almennt.

Eins og hér hefur verið bent á er meira í pípunum, ekki síst flugvöllurinn og olíubirgðastöðin í Örfirisey eins og hefur verið nefnt. Ég vil nefna þriðja atriðið sem er flutningur hættulegra efna um þetta þéttbýlissvæði, til og frá höfninni í gegnum borgarlandið. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir snör viðbrögð og eins ber að þakka borgarstjóra fyrir aðkomu hans að þessu máli. Ég fer fram á að líka verði tekið á því sem hér hefur verið nefnt til viðbótar brunavörnum.

Ég vil ekki fara úr þessum ræðustól án þess að nefna það að fyrirtæki eins og Hringrás eru þjóðþrifafyrirtæki sem sjá um að safna spilliefnum frá okkur hinum og koma þeim til réttrar förgunar, og eins efnum til endurvinnslu. Við þurfum auðvitað að búa þannig að slíkum fyrirtækjum að þau verndi umhverfið og skipuleggi starfsemi sína þannig að hætta stafi ekki af. Þetta er auðvitað vaxandi starfsemi hjá okkur sem verður að styðja við.



[10:45]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka viðbrögð hæstv. ráðherra. Ég fagna þeirri úttekt sem hún ætlar að láta fara fram á öllu þessu ferli og forvarnaaðgerðum, og hvort nauðsynlegt sé að grípa til hertra laga eða reglna í því sambandi. Ég tel nauðsynlegt að umhverfisnefnd fái að fylgjast með þeirri niðurstöðu sem verður og tel reyndar rétt að umhverfisnefnd fari yfir málin og kanni líka m.a. um hvaða stofnanir og opinberar byggingar er að ræða þar sem fram hefur komið að eldvarnaeftirliti sé ábótavant. Það eru um 300 fyrirtæki og stofnanir.

Yfirvöld brunamála verða að tryggja þegar í stað að tekið verði á þeim málum og verða að fullvissa okkur um að öryggi borgaranna sé tryggt í því efni. Ég hvet umhverfisnefnd til að skoða þetta mál einnig.

Ég spurði hæstv. ráðherra einnig um viðbrögð hennar, hvort hún telji ástæðu til sérstakra viðbragða vegna þeirra 200–300 tonna af PCB-menguðum jarðvegi sem geymdur er í sekkjum á lóð Hringrásar og ekki hefur fundist leið til að farga. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn svarað því.

Ég vildi enn fremur fá fram afstöðu ráðherrans til verkaskiptingar og skilgreiningar á ábyrgð, hvort hún sé nægjanlega skýr — sem ég held að sé ekki — milli slökkviliðs, lögreglu og almannavarna þegar stórbruna eða almannavá ber að höndum og hvort, eins og hér hefur komið fram, skýrar björgunaráætlanir liggi fyrir þegar svo er. Ég held að einnig þurfi að skýra betur, og vil láta það koma fram við þessa umræðu, verkaskiptingu milli stofnana sem heyra undir hin ýmsu ráðuneyti og fara á einn eða annan hátt með eldvarnaeftirlit svo og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í þessum málum.

Ég held að við eigum að nota tækifærið núna og fara yfir alla þætti þessa máls. Ráðherrann hefur sannarlega farið af stað með góð áform og ég hvet hana til að skoða málið heildstætt.



[10:47]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og menn hafa bent hér á er mikil mildi að ekki urðu nein slys á mönnum þegar þessi skelfilegi atburður gerðist. Þetta raskaði að vísu lífi margra og sló marga, sérstaklega eldri borgara, miklum óhug. Ég held hins vegar að við getum þegar upp verður staðið lært töluvert mikið af þessu.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að skipulag viðbragða gekk upp. Í öðru lagi komu líka fram brotalamir á því hvernig hið opinbera stendur að leyfisveitingum, bráðabirgðaleyfisveitingum og eftirliti. Ég er þeirrar skoðunar að alltaf verði nauðsynlegt að hafa starfsemi af þessu tagi nálægt höfnum og við þéttbýli. Ég tel að það eigi að vera hægt að búa svo um hnúta að ekki sé hætta á neinum slysum. Þarna brast þó auðvitað eitthvað í skipulaginu og mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi í stuttu máli greina frá því hvort hún telur að það sé eðlilegt að fyrirtæki sem standa í svona hættulegum rekstri fái að starfa á undanþágu án starfsleyfis.

Ég tek svo líka undir það, herra forseti, sem einn af þeim íbúum sem búa hvað næst olíubirgðastöðinni í Örfirisey að menn þurfa að skoða hana í framhaldinu. Jafnvel á lognkyrrum dögum leika stundum bensíngufur um húsin sem standa næst olíubirgðastöðinni. Maður getur ekki hugsað til enda þá hugsun hvað gerðist ef þar mundi kvikna í í óheppilegri vindátt, ég tala nú ekki um ef einhvers konar annað slys yrði þar. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða ákaflega vel og þar er um að ræða starfsemi sem ekki er hafnsækin og ekki þarf að vera inni í miðju íbúahverfi eins og nú er.

Þetta hlýtur að vera eitt af því sem hæstv. ráðherra lætur skoða í framhaldi af þessu. Ég spyr hana hvort svo sé ekki.



[10:49]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég tel rétt að fara yfir málið og ég minni á fleiri bruna þar sem pottur hefur verið brotinn hvað varðar brunavarnir, m.a. á Blönduósi nú fyrir skömmu. Ég tel í þessu sambandi mjög nauðsynlegt að fara yfir þvingunarúrræði eftirlitsaðilanna.

Ef ég man rétt sagði slökkviliðsstjóri um þvingunarúrræðin að annars vegar mætti framkvæma á kostnað eiganda — það er ekki góður kostur fyrir slökkvilið að koma upp öðrum móttökustað ef viðkomandi starfsemi fer ekki að reglum — og hins vegar að loka starfseminni. Það er heldur ekki góður kostur. Það er óvíst að ástand hvað varðar brunavarnir, eins og t.d. hjá Hringrás, hefði skánað nokkuð þótt starfseminni hefði verið lokað.

Ég tel þess vegna mjög brýnt að komið verði á einhverjum vægari þvingunarúrræðum til að ná fram markmiðum reglugerðar um brunavarnir.



[10:51]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa nefnt mjög mörg atriði í máli sínu við þessa umræðu og það er ekki hægt að bregðast við því öllu á svo skömmum tíma sem hér gefst. Sérstaklega voru nefnd viðbrögð við PCB-efnum sem eru auðvitað mjög mengandi. Ég tel að þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar núna séu viðunandi. Það getur vel verið að það þurfi að finna einhverja varanlegri lausn til framtíðar en eins og málin standa í dag hvað það snertir er það viðunandi.

Þegar Brunamálastofnun fer í úttekt sína verður væntanlega skoðað hvernig eftirlitið hefur virkað. Þá kemur að sjálfsögðu inn í það verkaskipting milli aðila.

Ég vil nefna líka að hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur farið fram mikið starf á undanförnum árum sem hefur miðað að því að styrkja Eldvarnaeftirlitið og skýra verklagsreglur sem hafa þá með notkun þvingunarúrræða að gera. Það er nokkuð mikið um að dagsektum hafi verið beitt, og þúsundir bréfa eru sendar árlega til fyrirtækja þar sem gerðar eru athugasemdir við eldvarnir. Ákvæði laga um beitingu dagsekta eru því virkt stjórnsýslutæki sem nýtist sveitarfélögunum vel. Almennt séð eru þvingunarúrræði slökkviliðsstjóra virk en slík úrræði eru nokkuð þung í vöfum. Slökkviliðsstjóri verður að fara að stjórnsýslulögum í hvívetna og verður að hafa ríkar ástæður fyrir því að beita þvingunum. Yfirleitt er þá miðað við að líf sé í hættu. Ef einungis er um mögulegt eignatjón að ræða eru tímafrestir atvinnurekenda mun rýmri og ekki kemur til lokunar mannvirkja. Ég vil líka nefna að brunavarnir hafa verið styrktar verulega í kjölfar nýrra laga um brunamál.