131. löggjafarþing — 40. fundur
 26. nóvember 2004.
Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, 1. umræða.
stjfrv., 320. mál (gjaldaheimildir). — Þskj. 356.

[12:56]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi sem er 320. mál þingsins á þskj. 356.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögunum var gjaldið sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að gjaldið uppfyllti skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutfall í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en eins árs í senn.

Frumvarp þetta er flutt í því skyni að breyta álagningarhlutföllum 5. gr. laganna. Með frumvarpinu eru álagningarhlutföll lækkuð en lágmarksgjald er óbreytt að því undanskildu að lagt er til að lágmarksgjald vegna vátryggingamiðlara hækki úr 150 þús. kr. í 200 þús. Áætlað er að álagseftirlitsgjald hækki úr 289,5 millj. kr. árið 2004 í 298 millj. kr. árið 2005, eða um tæp 3%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemur 288,7 millj. kr. en 309,5 millj. kr. á því næsta, sem er 7% hækkun. Fjöldi starfsmanna er ráðandi þáttur í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Af fjölda starfsmanna ráðast helstu stærðir að nokkru eða öllu leyti, svo sem laun og launatengd gjöld, stærð húsnæðis og umfang tölvubúnaðar. Gert er ráð fyrir því í fyrirliggjandi drögum að áætlun fyrir næsta ár, að bætt verði við starfskraft FME sem nemur einu ársverki. Því til viðbótar verði svigrúm til að ráða sumarstarfsmann í tímabundin verkefni.

Á næsta ári mun Fjármálaeftirlitið m.a. þurfa að verja meiri tíma en áður í eftirtalin verkefni: Aukin umsvif íslenskra viðskiptabanka erlendis kalla á aukið eftirlit með þessum fjármálafyrirtækjum á samstæðum grunni. Þegar íslenskir bankar reka starfsemi í gegnum dótturfélög erlendis hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með samstæðunni en leitar samstarfs við eftirlitsstofnanir í heimaríkjum viðkomandi dótturfyrirtækja. Þrátt fyrir slíkt samstarf leiða þessar breytingar ótvírætt til aukins eftirlits af hálfu Fjármálaeftirlitsins og kostnaðar sem því fylgir. Þessum breytingum fylgja fjölþættar áhættur sem ástæða er til að fylgjast vel með. Það á einnig við um samstarf viðskiptabanka og vátryggingafélaga sem í auknum mæli bjóða fram samþætta þjónustu.

Framangreind umsvif og vöxtur innlendra fjármálafyrirtækja kallar á vandaðan undirbúning undir nýjar alþjóðlegar eiginfjárreglur fyrir fjármálafyrirtæki. Þær taka gildi árið 2006 en nú má telja ljóst að aðilar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins muni nýta sér flóknar matsaðferðir sem hinar nýju eiginfjárreglur bjóða upp á. Í því felst að Fjármálaeftirlitið þarf að vera í stakk búið að meta og votta slíkar aðferðir.

Í þriðja lagi þarf að sinna innleiðingu og eftirfylgni við nýja alþjóðlega reikningsskilastaðla að því er varðar eftirlitsskylda aðila.

Í fjórða lagi má nefna að eftirfylgni við framkvæmd nýrrar löggjafar á löggjafarsviði á verðbréfasviði mun kalla á aukna vinnu eftirlitsins.

Í fimmta lagi að með nýlegum lagabreytingum var Fjármálaeftirlitinu falið heildareftirlit með Íbúðalánasjóði en hafði áður einungis eftirlit með húsbréfadeild sjóðsins. Þetta ásamt breytingum á áhættu í starfsemi sjóðsins hefur í för með sér aukin verkefni í eftirliti.

Í síðasta lagi nefni ég aukin verkefni sem tengjast breytingum á lögum á vátryggingarmarkaði.

Hæstv. forseti. Í fylgiskjali III með frumvarpinu er að finna skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi eftirlitsins. Í 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er kveðið á um að ráðherra skuli leggja slíka skýrslu fyrir Alþingi. Í skýrslunni er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðar, lánamarkaðar, verðbréfamarkaðar, vátryggingamarkaðar og lífeyrismarkaðar, þá er greint frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri.

Í þessu efni ber að nefna að mikill vöxtur og útrás fjármálafyrirtækja, einkum hinna þriggja stóru viðskiptabanka, og áhættur sem m.a. tengjast sviptingum og vexti á verðbréfamarkaði, hafa verið meginviðfangsefni Fjármálaeftirlitsins í eftirliti á lánamarkaði.

Fyrirsjáanlegar eru umtalsverðar breytingar á umsvifum fjármálafyrirtækja sem fyrst og fremst felast í enn frekari aukningu á starfsemi erlendis. Þetta á einkum við um þrjá stærstu viðskiptabankana. Jafnframt má búast við sameiningum og hagræðingu innan sparisjóðageirans. Enn fremur má búast við að frekari sameiningar fyrirtækja í stærri rekstrareiningar hafi áhrif á getu fjármálafyrirtækjanna til að veita þeim fullnægjandi fjármálaþjónustu m.a. með hliðsjón af reglum um hámark stórra áhættuskuldbindinga. Í því sambandi mun reyna í auknum mæli á hvernig tengingum er háttað milli lánþega í skilningi viðkomandi reglna. Þá er fyrirsjáanleg aukning í hlutdeild viðskiptabanka, sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja í lánveitingum vegna íbúðarkaupa. Framangreindar breytingar munu hafa í för með sér ýmis ný tækifæri og fjölbreyttari tekjumöguleika fyrir fjármálafyrirtækin, en einnig nýjar og breyttar áhættur sem fylgjast þarf með. Þá eru í farvatninu veigamiklar breytingar á regluumhverfi fjármálafyrirtækja, sem felast í innleiðingu á alþjóðlegum reikningsskilareglum frá og með árinu 2005 annars vegar og nýrra eiginfjárreglna (Basel 2) frá og með árinu 2007 hins vegar. Breytingar á regluumhverfinu munu m.a. hafa í för með sér auknar kröfur um mælingu á áhættu, áhættustýringu og innra eftirlit og upplýsingagjöf um áhættu.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[13:02]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi ekki nokkrar áhyggjur af stjórnsýslulegri stöðu Fjármálaeftirlitsins, að það skuli í fyrsta lagi heyra beint undir ráðherrann og í öðru lagi að það skuli vera fjármagnað af þeim aðilum sem það hefur eftirlit með.

Því er ekki að leyna að í umræðunni að undanförnu, í þeim miklu sviptingum sem verið hafa í fjármálaheiminum, hefur Fjármálaeftirlitið verið gagnrýnt fyrir hversu seint það hefur komið inn í, þó að tilkynna beri Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og fá um það mat fyrir fram um uppstokkun eða eignabreytingar á hlutum í fjármálaheiminum hafa þeir yfirleitt verið um garð gengnir þegar Fjármálaeftirlitið hefur rankað við sér og er oft löngu eftir á að spekúlera í því hvort hlutirnir hafi verið löglegir eða ekki.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessari veiku stjórnsýslulegu stöðu. Hæstv. ráðherra og ráðuneytið stóðu jú fyrir mestu einkavæðingu og sölu á fjármálafyrirtækjum, bönkum, og sá aðili sem hafði eftirlit með því var starfsmaður stofnunar sem heyrir beint undir ráðuneytið, sem hlýtur að vera mjög óheppileg stjórnsýsluleg staða. Vafalaust hafa þeir staðið sína plikt varðandi það mál en óneitanlega er það óskemmtileg staða að vera settur í að staðfesta eða fara yfir gjörðir ráðuneytisins sem viðkomandi heyrir undir.

Ég leyfi mér því að ítreka hvort ráðherrann telji ekki eðlilegt að breyta stjórnsýslulegri stöðu, stjórnun og fjármögnun (Forseti hringir.) þessarar mikilvægu eftirlitsstofnunar.



[13:05]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að mikill misskilningur felist í því sem fram kom hjá hv. þm. Jón Bjarnasyni vegna þess, eins og ég hef margítrekað á hv. Alþingi, að Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð stofnun. Þó að það heyri í fjárlögum undir viðskiptaráðuneytið er því ekki stjórnað úr viðskiptaráðuneytinu, langt frá því.

Sannleikurinn er sá að það er ekki fyrr en forstjóri eftirlitsins afhendir mér skýrslu Fjármálaeftirlitsins um starfsemi, sem mér er kunnugt um hvað Fjármálaeftirlitið er að gera. Ég tel því að hlutirnir geti ekkert verið miklu betri hvað þetta varðar. Varðandi það að eftirlitsskyldir aðilar sjái um rekstur Fjármálaeftirlitsins hvað varðar kostnað er það almennt gert með þeim hætti þar sem við þekkjum til og ég tel að það sé ágætisfyrirkomulag. Ýmsir hafa bent á að sama fyrirkomulag ætti að vera í sambandi við Samkeppnisstofnun, eðlilegra væri að eftirlitsskyldir aðilar stæðu undir þeim kostnaði sem þar verður til, en ég tel að það sé miklu flóknara mál vegna þess að í rauninni nær það til allra Íslendinga.

Það er rétt að eitthvað hefur Fjármálaeftirlitið verið gagnrýnt fyrir að það grípi ekki nægilega snemma inn í. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að almenningur og ráðuneytið hefur ekki einu sinni vissu um hvað Fjármálaeftirlitið er að sýsla hverju sinni. Bráðlega verður gerð bragarbót á því vegna þess að, eins og ég hef látið koma fram, við munum leggja fram frumvarp á næstunni þar sem þessu verður breytt og (Forseti hringir.) gagnsæið verður aukið.



[13:07]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé ekki rétt hjá mér að ráðherra gangi frá ráðningu og skipan forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins.

Ég vísa til þess að við höfum eftirlitsstofnanir eins og Ríkisendurskoðun sem var valið að færa undir Alþingi, heyrði fyrst undir Seðlabankann og svo undir fjármálaráðuneytið. Það var talið mikilvægt að gera það til þess að tryggja sjálfstæði Ríkisendurskoðunar.

Samkeppnisstofnun fær fjármagn sitt á fjárlögum þannig að hún er ekki beint háð þeim aðilum sem hún rannsakar málin hjá eða veitir eftirlit. Reyndar fær stofnunin allt of lítið fjármagn.

Nú skiptir afar miklu máli á þessum markaði að það ríki trúnaður og traust gagnvart þeim eftirlitsstofnunum sem um er að ræða. Menn hafa rætt um að í umræddu olíusamráði eru aðilar líka sem tengjast því umsvifamiklir á fjármálamarkaði.

Það verður að ríkja fullkomið trúnaðartraust gagnvart þeim eftirlitsstofnunum sem skipta miklu máli. Ég leyfi mér því að inna hæstv. ráðherra áfram eftir því hvort hún hafi ekki áhyggjur af veikri stjórnsýslulegri (Forseti hringir.) stöðu Fjármálaeftirlitsins.



[13:09]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég sagði áðan að ég tel að þessu sé ágætlega fyrir komið stjórnsýslulega séð. Það er stjórn sem ræður forstjóra og hann heyrir þess vegna ekki beint undir ráðherra. Ég hef satt að segja ekki heyrt þá gagnrýni áður sem fram kemur hjá hv. þingmanni, að það orki eitthvað tvímælis að Fjármálaeftirlitið sé sjálfstætt og lúti ekki stjórn ráðherra eða ráðuneytis. Ég tel að þessu sé ágætlega fyrir komið svona og veit ekki eiginlega hvað hv. þingmaður er með í huga þegar hann kemur fram með þessa gagnrýni.