131. löggjafarþing — 40. fundur
 26. nóvember 2004.
Raforkulög, 1. umræða.
stjfrv., 328. mál (gjaldskrár, tekjumörk o.fl.). — Þskj. 366.

[14:32]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, sem er 328. mál þingsins. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um hafa miklar breytingar orðið á skipulagi raforkumála hér á landi á undanförnum missirum. Er þess skemmst að minnast að í vor sem leið samþykkti Alþingi frumvarp sem varð að breytingalögum við raforkulög, nr. 65/2003.

Frumvarp þetta var byggt á afrakstri svokallaðrar 19 manna nefndar sem í ofangreindum lögum var einkum falið að gera tillögur um fyrirkomulag flutningskerfis raforku, rekstur þess og kerfisstjórnun auk annarra þátta svo sem hvernig jafna skyldi kostnað í raforkukerfinu. Ljóst var í vor að líklegt væri að gera þyrfti frekari breytingar á raforkulögum þegar undirbúningur markaðsopnunar væri lengra á veg kominn.

Í sumar og haust hafa komið fram nokkur atriði sem rétt þykir að skýra eða skipa með öðrum hætti en koma fram í gildandi lögum. Það frumvarp sem hér er lagt fram er unnið af starfsmönnum iðnaðarráðuneytisins í nánu samstarfi við Orkustofnun en stofnunin gegnir veigamiklu hlutverki við nýskipan raforkumála.

Þá er rétt að geta þess að frumvarp þetta hefur verið kynnt Samorku, samtökum raforkufyrirtækja.

Herra forseti. Ég mun á eftir rekja veigamestu atriði frumvarpsins. Ég tel rétt að taka fram að nokkur atriði frumvarpsins snúa aðeins að því að skýra eða leiðrétta einstaka þætti gildandi raforkulaga, nr. 65/2003, og mun ég ekki dvelja við þau atriði sérstaklega.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórn og fastráðnir starfsmenn flutningsfyrirtækisins hafi stöðu opinberra sýslunarmanna. Þótt hér sé farin sú leið að setja ákvæði um þetta inn í III. kafla raforkulaga er ljóst að það kemur til með að gilda um starfsmenn Landsnets hf. en það fyrirtæki mun um áramót taka við rekstri allra flutningsstyrkja raforkukerfisins.

Sú breyting sem hér er lögð til er gerð í því skyni að starfsmenn flutningsfyrirtækisins hafa sömu réttarstöðu og þeir starfsmenn er nú starfa við flutning raforku. Hér er enda um að ræða sömu starfsmenn og ekki heppilegt að breyting verði á réttarstöðu starfsmanna þótt hlutafélag annist þau verkefni sem áður voru falin Landsvirkjun. Landvirkjun hefur hingað til rekið meginflutningskerfið. Fastráðnir starfsmenn þess fyrirtækis hafa stöðu opinberra sýslunarmanna. Af því leiðir að um þá gilda lög nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna. Þeir hafa því ekki verkfallsrétt og eru kjör þeirra við það miðuð.

Telja verður að þungvæg rök hnígi að því að tryggt sé að starfsmenn flutningsfyrirtækisins verði ekki fyrir truflunum vegna vinnudeilna. Hér er því lagt til að sama fyrirkomulag og gilt hefur gagnvart þeim starfsmönnum sem hafa starfað við flutning raforku gildi einnig eftir þá kerfisbreytingu sem fram undan er.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingu á 12. gr. laganna. Þar er að finna heimild til að taka tillit til þess við gjaldskrárgerð ef arðsemi undanfarandi þriggja ára er utan þeirra marka sem sett eru í lögunum. Ekki er hins vegar tekið á því hvernig með skuli fara ef innheimtar tekjur samkvæmt gjaldskrá eru utan tekjumarka viðkomandi fyrirtækja en þó innan arðsemismarka. Þannig gæti verið að fyrirtæki innheimti of há gjöld og færi því upp fyrir tekjuhámark sitt en væri illa rekið og arðsemin því innan marka. Orkustofnun hefur heimild í 2. mgr. 26. gr. raforkulaga til að breyta gjaldskrám til að stöðva of háa gjaldtöku en heimildin nær ekki til þess að ná með lækkun gjaldskrár til baka ofteknum gjöldum aftur í tímann. Hér er lagt til að við endurskoðun tekjumarka á þriggja ára fresti verði heimilt að færa of- eða vanteknar tekjur milli ára og að í reglugerð verði sett hámark á það hlutfall tekjumarka sem heimilt verði að geyma milli ára. Slík heimild þekkist víðast hvar erlendis þar sem opnun raforkumarkaðar hefur þegar átt sér stað.

Við undirbúning frumvarps um breytingu á raforkulögum er varðaði flutningskafla raforkulaga sem varð að lögum sl. vor var gengið út frá því að dreifiveitur greiddu til flutningsfyrirtækisins fyrir alla raforku sem notuð væri á viðkomandi dreifiveitusvæði. Skipti þar ekki máli hvort orkan kæmi frá flutningskerfinu eða frá virkjunum á viðkomandi dreifiveitusvæði beint inn í dreifikerfi, enda væri það sú raforka sem flutningsfyrirtækið þyrfti að hafa til reiðu ef bilanir kæmu upp. Hér er verið að samræma gjaldtöku fyrir innmötun og úttekt og að greitt sé sama gjald hvort sem orkan fer beint inn í flutningskerfið eða tengist dreifiveitu. Ekki var kveðið nægilega skýrt á um þetta í lögum nr. 89/2004 sem kváðu á um breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, og samþykkt voru sl. vor. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt og tekinn af allur vafi um hvernig reikna beri út úttektargjald.

Samkvæmt gildandi raforkulögum skal innmötunargjald af virkjunum undir 7 megavöttum sem ekki tengjast flutningskerfinu beint skipt milli dreifiveitu og flutningsfyrirtækis. Hér er lagt til að allar virkanir búi við sömu meginreglur, að þær allar greiði innmötunargjald til flutningsfyrirtækisins en viðkomandi dreifiveita sjái um innheimtu þess. Á hinn bóginn er lagt til að kveðið verði á um skyldu flutningsfyrirtækisins til að greiða viðkomandi dreifiveitu fyrir þá þjónustu sem hún veitir við að annast tengsl virkjunarinnar við flutningskerfið.

3. gr. frumvarpsins fjallar um breytingu á 17. gr. laganna. Í 8. mgr. 12. gr. laganna segir að virkjanir sem tengjast flutningskerfinu beint geti þurft að greiða sérstakt upphaflegt tengigjald ef tekjur eru ekki taldar standa undir tengingunni og hún geti notið þess að tenging hennar er hagkvæm. Hliðstætt ákvæði er ekki að finna um virkjanir undir 7 megavöttum sem ekki ber að tengja flutningskerfinu heldur tengjast dreifikerfinu. Þó má krefja þær um viðbótarkostnað en ekki er beint ákvæði um hið gagnstæða, að slík virkjun geti notið þess hagræðis sem af tengingu hennar kann að leiða. Á því er tekið hér. Dreifiveitum er gert skylt að láta virkjun mundir 7 megavöttum sem tengist dreifikerfi beint njóta þess hagræðis sem kann að leiða af tengingu hennar, til að mynda vegna minnkandi tapa í viðkomandi dreifikerfi.

Opnun raforkumarkaðarins fer fram í áföngum. Um næstu áramót munu stærri notendur geta valið sér raforkusala en almennir notendur ekki fyrr en 1. janúar 2007. Þrátt fyrir það er í gildandi lögum ekki gert ráð fyrir að eftirlit Orkustofnunar með gjaldskrám til raforku verði nema til næstu áramóta. Því er lagt til að haft verði eftirlit með því að ekki verði óeðlilegar hækkanir á gjaldskrám fyrir raforku á árunum 2005–2006, þ.e. umfram raunkostnað, og heimilað að grípa til setningar reglugerðarákvæða um hámarksverð ef óeðlilegar hækkanir á raforku koma í ljós.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að setning tekjumarka fyrir dreifiveitur og flutningsfyrirtæki verði fyrst um sinn einungis til eins árs. Almenna reglan verði hins vegar að tekjumörk verði sett til þriggja ára. Ástæða þess að heppilegt þykir að setja takmörk á aðeins til eins árs í fyrstu er sú að vænta má að upp kunni að koma atriði sem lagfæra þarf og er því heppilegt að setja tekjuramma til eins árs í fyrsta skipti.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.



[14:40]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort breytingin á 12. gr. raforkulaganna sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins sé ekki óhagstæð fyrir minni virkjanir og skerði samkeppnishæfni raforkubænda.



[14:41]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að ég tel að 2. gr. geri það ekki en ég vil sérstaklega taka fram að í 3. gr., held örugglega þar, er ákvæði þess efnis að þar sem, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, hagstætt er að taka raforku inn á netið eða inn í dreifikerfið er heimild til að taka tillit til þess í sambandi við raforkuverð til viðkomandi raforkuframleiðenda. Þar sem hagstætt er að taka raforku inn í dreifikerfið geta viðkomandi raforkubændur — þá eru þeir sérstaklega hafðir í huga — notið þess í sambandi við verð á orkunni.



[14:42]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þá er það komið, fyrsta plástursfrumvarpið á nýja raforkulagamóverkið sem ég kallaði svo og reitti þar með til reiði hv. þm. Kristin H. Gunnarsson með svo óvirðulegu orði um þessa miklu smíð, markaðsvæðingu raforkumálanna á Íslandi. Og örugglega ekki það síðasta, það kæmi mér ákaflega á óvart ef þetta væri síðasta plástursfrumvarpið sem við eigum eftir að sjá á næstu árum.

Á sínum tíma var nefnt í umræðunum, hvort það var þegar raforkulögin sjálf voru til umfjöllunar árið 2003 eða lögin sem voru afgreidd síðasta vor, að Danir hefðu þurft einar fimm breytingar, fimm atrennur til að breyta sínum orkulögum og hefur þó gengið á ýmsu þar eins og kunnugt er. Þau vandamál sem verið er að rembast við að taka á með þessu frumvarpi og breyta lögum sem eru að hluta til ekki nema nokkurra mánaða gömul eru alveg dæmigerð og lýsandi fyrir öll þau vandamál sem menn eru að rekast á, stanga hausinn í þegar þeir ætla út í leiðangur af þessu tagi. Þetta er ákaflega snúið viðfangsefni og kannski gengur árátta nýfrjálshyggjunnar óvíða lengra en þegar verið er að reyna að búa til einhverjar markaðs- og samkeppnisforsendur inn í grein af þessu tagi. Hún lýtur nánast alfarið lögmálum náttúrulegrar einokunar að öllu leyti nema þá því að ef menn leggja út í allt þetta brölt til að geta komið á einhverri samkeppni á a.m.k. fræðilega að vera hægt að keppa um að selja raforku inn á kerfið. Að hinu leytinu til, bæði hvað varðar flutning og síðan sölu rafmagnsins í smásölu eftir dreifikerfum, er þarna um klassíska náttúrulega einokunarstarfsemi að ræða.

Hvað gerist þá? Þá gerist það að menn fara að reyna að setja upp eftirlit með því að menn misnoti ekki stöðu sína. Þetta er alveg yndisleg útgáfa af vandamálunum sem upp koma sem hér er verið að fjalla um í 2. gr. þessa frumvarps, alveg klassísk. Hugsuðirnir hafa fundið út úr því í sumar að ekki sé nóg að hafa þessi tekjumörk og heimild til að setja þau þannig að menn nái arðseminni inn fyrir ásættanleg mörk og þau sem lögfest eru eða ákveðin af framkvæmdarvaldinu, hvort sem heldur er nú. Hér var valin sú leið að miða við ávöxtun ríkisskuldabréfa og að menn skyldu ekki taka sér meiri arð af starfseminni en svo.

Menn hafa hins vegar áttað sig á því, samanber umsögn um 2. gr. frumvarpsins, að það er gat í þessu. Þeir fundu gat í þessu. Það er sem sagt ekki tekið á því hvernig með skuli fara ef innheimtar tekjur samkvæmt gjaldskrá eru utan tekjumarka viðkomandi fyrirtækja en þó innan arðsemismarka. Bíðið, hvernig getur það gerst? Jú, ef fyrirtækið er nógu illa rekið, ef það tekur sér allt of háar tekjur en er hins vegar svo illa rekið að arðsemin kemur inn fyrir mörkin. Já, það verður einhvern veginn að reyna að loka þessu. Þá er lagt fram frumvarp, plástur á kerfið frá því í fyrra og hittiðfyrra. Þetta verður örugglega ekki síðasti plásturinn.

Það er sjálfsagt alveg rétt að Orkustofnun þarf að geta tekið á þessu. Að vísu hefur orkumálastjóri, sá mæti maður og mikli stærðfræðingur mótmælt því en ég hef spáð því, t.d. á fundi úti í bæ í gær um mál nátengt þessu, að eini aðilinn sem muni virkilega blómstra og græða á þessu brölti, markaðsvæðingu raforkumála á Íslandi, verði Orkustofnun. Þar mun þurfa mikinn mannskap og mikið úthald til að reyna að koma við öllu þessu eftirliti. Ég spái því að það eigi eftir að koma á daginn þótt menn telji sig þar enn vera frekar hófsama, með kostnað um áætlaðar 40 millj. kr. og um þrjá til fimm starfsmenn í þessum djobbum.

Nei, frú forseti, það er leitun að vitlausara sviði til að reyna að koma inn í markaðsvæðingu, samkeppni eða einkavæðingu, en raforkumálunum, og alveg sérstaklega hér á Íslandi. Það hefur eiginlega alls staðar reynst erfitt og meira og minna gefist illa þar sem menn hafa prufukeyrt þetta, sums staðar í áratugi eða a.m.k. um árabil. Það þýðir auðvitað ekki að neita þeim hroðalegu ógöngum sem menn hafa lent í í Norður-Ameríku, bæði á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna, í Kaliforníu, New York fylki og víðar (Iðnrh.: Þar voru allt aðrar ástæður.) Allt aðrar ástæður, segir hæstv. ráðherra. Já, það er kannski sama skýringin og í skýrslu Verslunarráð, athyglisverðu plaggi sem ég hvet menn til að lesa. Þeir tala um þetta, auðvitað sanntrúaðir og þar skal niðurstaðan vera hvað sem tautar og raular að rétt sé að markaðs- og einkavæða raforkumálin.

Hvað gerist þegar reynslan er slæm, þegar veruleikinn er ómögulegur og neitar að hlýða kenningunum? Þá er það veruleikinn sem er vitlaus en kenningarnar réttar. Það er eiginlega grunntónninn í skýrslu Verslunarráðsins um markaðsvæðingu orkukerfisins og mér heyrist hæstv. ráðherra vera á sömu nótum.

Ófarirnar sem þetta hefur haft í för með sér í Bandaríkjunum, í Skandinavíu, á Nýja-Sjálandi og niðri á meginlandi Evrópu, eru ekki teknar með í reikninginn. Menn hafa víða lent í bullandi vandræðum. Það hefur dregið úr afhendingaröryggi og menn orðið rafmagnslausir lon og don. Kostnaðurinn hefur farið upp úr öllu valdi, menn hafa mátt dæla peningum inn í orkufyrirtækin til að þau færu ekki á hausinn og menn hafa meira að segja neyðst til að þjóðnýta þau aftur.

Á austurströnd Bandaríkjanna hafa fylki farið út í að leysa til sín aftur einkavædd orkufyrirtæki, bara til að bjarga málunum, til þess að menn hafi rafmagn. En það er ekkert að formúlunni. Kenningin er samt rétt. Það er bara veruleikinn sem er vitlaus. Þá tala menn um aðferðirnar við markaðsvæðinguna. Markaðsvæðing er iðulega, frú forseti, undanfari og auðvitað nauðsynlegur undanfari einkavæðingarinnar, en það er lokatakmarkið. Það er lokatakmarkið sem svífur alls staðar yfir vötnunum. Það stendur að vísu dálítið í mönnum að gera það hér vegna þess að orkufyrirtækin eru ekki mjög einkavæðanleg um þessar mundir, sérstaklega það stærsta þeirra, Landsvirkjun. Hún er ekkert sérstaklega fýsilegur pakki.

Hvert yrði gengið á bréfum í Landsvirkjun um þessar mundir ef hún yrði skráð? Ætli það yrði mjög beysið, eins og skuldir þess fyrirtækis hafa þróast um þessar mundir vegna hinna brjálæðislegu fjárfestinga, t.d. í Kárahnjúkavirkjun og alveg hörmulegrar arðsemi af því brölti? Það liggur fyrir að þar er ekki um að ræða heildsölu á rafmagni heldur útsölu á rafmagni. Útsala á rafmagni til erlendrar stóriðju er lausnarorðið á Íslandi í dag.

Það er ljóst, frú forseti, það voru menn þó nánast allir sammála um sem tjáðu sig um raforkulagamálin í fyrra og hittiðfyrra og sendu umsagnir til iðnaðarnefndar Alþingis, að þetta mun leiða til hærra raforkuverðs. Annað er óhugsandi vegna þess að allar breytingarnar hafa í för með sér kostnað.

Í fyrsta lagi er ljóst að þetta leiðir til verulegs kostnaðar vegna aðskilnaðarins í starfsemi fyrirtækjanna. Forstjóri Landsvirkjunar kallaði það í gær öfug samlegðaráhrif. Það er oft talað um það, þegar starfsemi er sameinuð, hagrætt og sparað í yfirstjórn, að það hafi í för með sér jákvæð samlegðaráhrif. En hér er um hið gagnstæða að ræða. Menn eru neyddir til að skipta starfseminni upp, búa hana út í sjálfstæðum fyrirtækjum, í fleiri lögum sem eiga síðan innbyrðis viðskipti og svo verður að hafa eftirlit með öllu. Það leiðir í fyrsta lagi til umtalsverðs kostnaðar vegna framkvæmdarinnar og vegna hinna svokölluðu öfugu samlegðaráhrifa.

Í öðru lagi verður heilmikill kostnaður af eftirlitinu. Það þarf að borga eftirlitið. Eftirlitsiðnaðurinn blómstrar. Það er eiginlega reglan þar sem menn fara út í einkavæðingu, sérstaklega einkavæðingu á almenningsþjónustu sem lýtur að einhverju leyti lögmálum náttúrulegrar einokunar. Þá blómstrar eftirlitsiðnaðurinn og honum fylgir mikill kostnaður.

Í þriðja lagi munu raforkunotendur á komandi árum þurfa að borga arðinn sem á að fara að reikna eigendunum, sem hefur í litlum mæli verið tekinn inn í dæmið enn þá.

Hvers vegna voru menn ekkert uppteknir af því að reikna sér arð á árum áður, af fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur eða forverum þeirra, Laxárvirkjun á sínum tíma fyrir norðan eða Hitaveitu Suðurnesja? Jú, það var af því að þetta var þjónusta, skilgreint sem almannaþjónusta en ekki bisness. Arðurinn var fólginn í því að veita þjónustuna, veita hana vel og hafa hana ódýra.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði á nefndum fundi Verslunarráðsins um markaðsvæðingu orkugeirans í gær að það mætti segja að arðurinn hafi verið greiddur út til neytenda, kaupenda, í gegnum lægra orkuverð. Það er alveg rétt. En er það ekki fínt? Er hann ekki vel kominn þar?

Það er dálítið sérkennilegt að sjálfstæðismenn tala mikið um það í tengslum við skattamál að almenningur sé betur að því kominn að ráðstafa tekjunum og það eigi ekki að taka þær inn til ríkisins. Hér eru hinir sömu á því að fara gagnstæða leið. Nú á að hækka raforkureikninga heimilanna um allmörg prósent til þess að taka arðinn frá notendunum, sem áður var fólginn í lægra raforkuverði, og draga hann inn til eigendanna.

Hvað eru eigendurnir að ræða um? Þeir segja: Arðsemisviðmiðin í gildandi lögum eru of lág. Það stóð upp úr öðrum hverjum manni í gær. Þau eru of lág. Það þarf að hækka þetta. Hlutfallið af ávöxtun ríkisskuldabréfa til fimm ára dugir ekki, við verðum að fá meira, segja þeir. Það er hættulegt upp á framtíðina ef við megum ekki græða meira en þetta.

Allt þetta mun valda hærra raforkuverði. Um það er ekki deilt. Tölurnar sem við munum frá því í fyrra og hittiðfyrra hlupu kannski frá 5%, hjá þeim sem allra bjartsýnastir voru, og upp í 20% eða þar yfir. Þá voru menn að vísu að tala um að taka inn í sjálft kerfið verðjöfnun, flutningsjöfnunina sem nú á að koma í gegnum fjárlög. Það kemur þá ekki fram með þeim hætti heldur munu skattgreiðendur í landinu taka á sig þann kostnað. En auðvitað er hann til staðar og hverfur ekki þar með.

Við börðumst fyrir því á sínum tíma og töluðum fyrir því ýmsir, allt frá því að orkutilskipun Evrópusambandsins var í smíðum á tíunda áratugnum og þangað til hún var innleidd hér og Íslendingar gerðust aðilar að henni, að reynt yrði að fá undanþágu frá þessari tilskipun. Það voru öll efni til þess. Ísland er einangraður orkumarkaður og ekki tengdur orkumörkuðum meginlands Evrópu þar sem menn reyna að koma á þessari samkeppni og viðskiptum með raforku yfir landamæri. Það á alls ekki við hér og er út í hött.

Í öðru lagi er eignasamsetningin á orkufyrirtækjum hér þannig að það er eins og hver annar brandari að fara í allt þetta brölt til að markaðsvæða orkubúskap á Íslandi, þegar eigendurnir eru opinberir aðilar, ríkið, Reykjavíkurborg, Akureyri. Reykjavíkurborg á hlut í Landsvirkjun og rúm 90% í Orkuveitu Reykjavíkur. Sveitarfélög á Suðurnesjum eiga stóran hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er enginn einkarekstur. Hvað á þá allt þetta brölt að þýða? Það er óskiljanlegt nema að það sé gagngert hugsað sem undanfari einkavæðingar. (Gripið fram í.) Já, sem menn eiga auðvitað ekki að líta á sem heilög og óumbreytanleg vé.

Hvað var að því að reyna að fá undanþágu fyrir Ísland í þessum efnum, rétt eins og við erum með undanþágu frá evrópskri tilskipun um verslun með jarðgas? Af hverju erum við með undanþágu frá evrópskri tilskipun um verslun með jarðgas, hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Jú, það að er af því að meira að segja Evrópusambandið sá hve arfavitlaust væri að Ísland þyrfti að brölta í því að innleiða tilskipun um viðskipti með jarðgas og því væri best að sleppa því. Það hefði verið álíka hallærislegt að við værum að brölta við eitthvað sem varðar járnbrautarsamgöngur á meginlandi Evrópu, skipaskurði eða annað í þeim dúr.

Einnig hefði verið hægt að fara fram á að fá tímabundna eða afmarkaða undanþágu frá tilskipuninni þótt hún sem slík stæði að einhverju leyti gagnvart Íslandi. Til eru mörg þekkt dæmi um að menn hafi fengið að hafa vissan sveigjanleika í framkvæmdinni, vissar tímabundnar undanþágur. Það er auðveldara að ná því fram gagnvart hinu háa Evrópusambandi. Það særir ekki eins samræmingaráráttuna að allt skuli lúta einum vilja, viljanum í Brussel, ef það er hægt að fóðra það sem eitthvað tímabundið eða afmarkað.

Það var t.d. hugsanlegt að fá sérstakar undanþágur til dreifingar raforku á landsbyggðinni til almennra notenda og segja sem svo: Ja, við getum reynt að aðlaga þetta og sníða í grófum dráttum að samkeppnis- eða markaðsumhverfi hvað varðar hinn stóra markað og stórnotendur en á hinn bóginn höfum við Vestfirði, norðausturhornið og önnur svæði sem eru algjörlega einstök og hvergi til nema á Íslandi og megum við ekki fá að halda okkar fyrirkomulagi þar eða því sem við teljum best henta? Ég er alveg viss um að það hefði mátt tala fyrir slíku.

Veltum aðeins fyrir okkur hvaða skynsemi er fólgin í því að kljúfa upp Orkubú Vestfjarða sem var og er prýðilegt fyrirtæki? Það hefur leyst það verkefni vel af hendi að framleiða og dreifa rafmagni um Vestfirði með þeim árangri að raforkuverð á Vestfjörðum var lægra svo nam jafnvel 10% miðað við aðra staði á landinu, a.m.k. á dreifisvæði Rariks. Þetta var vegna þess að Orkubú Vestfjarða var uppbyggt eins og ég held að sé hárrétt að hafa þetta. Þar var á einni hendi talsverð framleiðsla, líklega um 40% af því sem selt var á svæðinu, afgangurinn var keyptur í heildsölu, og auk þess dreifing og sala, smásala. Inni í þessu kerfi hjálpuðu t.d. afskrifaðar virkjanir eins og Mjólkárvirkjun til. Framlegðin af henni hjálpaði til við að dekka dreifingarkostnaðinn á Vestfjörðum. Er eitthvað að því? Nei, það er alveg prýðilegt fyrirkomulag.

En þá kemur svona tilskipun og stjórnvöld hafa engan metnað eða vilja til að skoða hvort við eigum að reyna að hafa þetta á þeim forsendum sem við teljum henta okkur best. Fyrirvaralaust er ákveðið að gerast aðilar að hinni evrópsku orkutilskipun. Menn vöknuðu svo upp við vondan draum á Íslandi árin 2002 og 2003 þegar það var allt um garð gengið og löngu orðið of seint að grípa í taumana. Þá hrukku þau upp í borgarstjórn Reykjavíkur, og er nú ekki á hverjum degi sem þau verða sammála Ingibjörg Sólveig Gísladóttir og Björn Bjarnason. Þau hrukku upp og fóru að tala um að það hefði kannski átt að reyna að fá undanþágu frá þessu. Ég held að ég fari alveg hárrétt með það að þau hafi bæði haft orð á því í borgarstjórn Reykjavíkur. Það var bara tveimur, þremur árum of seint.

Þegar ég lagði það til á Alþingi í minnihlutaáliti utanríkismálanefndar vorið 2000, ef ég man rétt, að við féllum ekki frá stjórnskipulegum fyrirvara og færum aftur og reyndum að fá undanþágu þá talaði ég aleinn þar fyrir daufum eyrum. Svo fóru menn að hrökkva upp hér og þar í bænum, ótrúlegasta fólk, en ekki hæstv. ráðherra. Hún hefur aldrei vaknað af neinum blundi í þessu máli og er enn jafninnilega hamingjusöm og sannfærð um hvað þetta sé allt saman stórkostlega snjallt, t.d. sé þetta svo gott vegna þess að þá geti litlar virkjanir farið að blómstra og framleiða inn á kerfið. (Gripið fram í.) Hvernig gengur það nú hæstv. ráðherra? Hvernig gengur með Djúpadalsvirkjun? Eru ekki einhver smávandamál þar varðandi gjaldtökuna (Gripið fram í.) og dreifingargjöldin og allt það? Ætli það ekki? Vill nú ekki hæstv. ráðherra koma og upplýsa okkur um hvernig framkvæmdin og undirbúningurinn undir þetta gengur almennt? Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig á að fara með afslættina sem fiskeldið hefur haft á raforkuverði hingað til? Er búið að leysa það mál? Það er ekki hægt að koma slíku við í þessu fína nýja kerfi. Það má ekki. En þannig er að Landsvirkjun hefur látið fiskeldið hafa rafmagn á alveg geysilega hagkvæmum kjörum og það er í raun kannski nánast lifandi vegna þess að það hefur notið þar vildarkjara og ýmis rök eru fyrir því. En hvað verður nú um það?

Það mætti líka spyrja um grænmetið. Hvernig á að leysa þau mál, þó að það séu að vísu niðurgreiðslur, ef ég man rétt, yfir fjárlög. Ég vil líka spyrja um afgangsorkuna. Er iðnaðarráðuneytið búið að leysa það? Hvernig á að koma afgangsorkunni frá framleiðanda eins og Landsvirkjun gegnum þetta kerfi og til kaupenda úti á hinum endanum, t.d. fiskvinnslustöðvar sem hafa varaafl í dísilvélum og hafa verið góðir kúnnar Landsvirkjunar um þessa afgangsorku eða við getum næstum sagt afgangsafgangsorku? Þetta hefur verið prýðileg lausn fyrir báða aðila. Landsvirkjun losnar við hana, fær svolítið fyrir hana og varaaflið er svo á móti hjá fyrirtækjunum sem yfirleitt kaupa vegna þess að þau þurfa auðvitað að tryggja sig einfaldlega af því að samkvæmt orðanna hljóðan er um afgangsorku að ræða.

Hvað gerist núna í nýja kerfinu? Jú, þetta drukknar í hinu blinda kerfi. Það verður að fara með rafmagnið, þó það heiti afgangsorka, sömu leið í gegnum flutningsfyrirtækið og þetta verða að vera viðskipti þessara óháðu aðila og það kemst ekki á leiðarenda. Ég sé ekki alveg hvernig menn ætla að leysa það. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) upplýsti okkur í tengslum við umfjöllun um þetta mál hvernig svona hlutir standa.



[15:02]Útbýting:

[15:02]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er þetta mál enn einu sinni til umræðu. Ég hef haft það hlutverk í gegnum tíðina, frá því að ég a.m.k. fór að taka þátt í umræðum um þetta mál, að reyna að biðja um umræðu um grundvallaratriðin hvað varðar eignarhald á þeim fyrirtækjum sem eiga að taka þátt í þessari samkeppni. Stjórnvöld, sérstaklega hæstv. ráðherra, hafa aldrei lagt fram neinar hugmyndir um það hvernig þessum hlutum yrði sem eðlilegast fyrir komið. Það er gjörsamlega óþolandi þegar stjórnvöld ganga fram með að einkavæða — einkavæðingarhugmyndir eru alla vega á bak við ráðstafanir eins og þessar yfirleitt — að þá skuli menn ekki gera sér grein fyrir því hverjir eigi að taka þátt í samkeppni á markaðnum sem á að búa til.

Nú er Landsvirkjun fyrirtæki sem Íslendingar eiga, ríkissjóður og tvö bæjarfélög í landinu. Þetta fyrirtæki hefur fengið að velja hagkvæmustu virkjunarkosti í landinu fram að þessu, sameiginlegar auðlindir okkar til nýtingar.

Nú er niðurstaðan sú að það eigi að skapa samkeppnisumhverfi. Það er auðvitað fráleitt að þetta fyrirtæki geti verið eignaraðili að flutningsfyrirtækjum. Það hlýtur að þurfa að skilja með trúverðugum hætti þættina að. Það er ekki gert í þeim málatilbúnaði sem hér liggur fyrir. Ég kýs að ræða málið út frá þeirri stöðu sem það er komið í. Það er búið að taka ákvörðun um að þetta fyrirkomulag verði og ég ætla þess vegna ekki að fara í umræðu um það hvort fara hefði átt í þessa göngu eða ekki. Sú umræða hefur tekið enda. Ég hef hins vegar margreynt að fá fram umræður um það hvernig menn sjái þetta fyrir sér og mér finnst eiginlega að hæstv. ráðherra ætti að vera tilbúin til þess að lýsa fyrir okkur á hv. Alþingi hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér samkeppnisumhverfið í framtíðinni. Hver verður framtíð Landsvirkjunar? Finnst hæstv. ráðherra að það gangi inn í framtíðina að Landsvirkjun eigi stóran hlut í flutningskerfinu, í Landsneti? Ég sé ekki fyrir mér að það geti gengið til framtíðar og mér finnst að það þurfi að tala um það.

Mér finnst líka að hæstv. ráðherra þurfi að útskýra fyrir okkur hvað hún sjái fyrir sér með framtíð Rariks. Hvernig verður því fyrirtæki fyrir komið? Æðimargir spyrja mann um þá hluti. Þar vita menn nákvæmlega ekkert hvað er fram undan eða hvernig því fyrirtæki á að reiða af í þessari samkeppni eða samkeppnisumhverfi sem menn tala hér um.

Ótalmargt sem hlýtur að vera óljóst þegar menn leggja í svona göngu og ég skil svo sem vel að koma þurfi inn með einhverjar breytingar á þeim lögum sem hér liggja fyrir. En það er líka mjög ádeiluvert að menn skuli ekki leggja í þessa göngu með skýrar yfirlýsingar um hvert þeir ætli að fara. Ég sé það fyrir mér að ef menn ætla að gera þessa hluti þá verði að leysa með einhverjum hætti Reykjavíkurborg og Akureyri út úr Landsvirkjun og að það verði líka að leysa Landsvirkjun út úr flutningsfyrirtækinu, að því þurfi menn að stefna. Það þurfa einnig að liggja fyrir yfirlýsingar um að svoleiðis skuli staðið að málum því annars verður aldrei hægt að líta á þessa hluti þannig að það sé ekki samkrull í þessu öllu saman. Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir að þessi fyrirtæki verði tortryggð í framtíðinni ef eignarhaldið á allt saman að vera samkrullað eins og það liggur fyrir núna?

Ég hef ekki getað séð fyrir mér að eignarhald á Landsvirkjun geti verið annað en það að ríkið eigi hana. Landsvirkjun á og rekur í dag mikilverðustu orkulindir landsins. Það er fráleitt annað en að hún verði áfram fyrirtæki í eigu almennings. Eina hugsanlegu aðilarnir aðrir sem komið gætu til greina að ræða í því sambandi væru lífeyrissjóðir landsmanna eða einhverjir slíkir. En þá þurfa menn að velja á milli hvort lífeyrissjóðirnir geti orðið eignaraðilar að Landsvirkjun eða hvort þeir gætu orðið hugsanlega eignaraðilar að flutningsfyrirtækinu, ekki á báðum stöðum. Að mínu viti er það útilokað.

Mér finnst líka að hér þurfi að ræða um Rarik og þá stöðu sem sveitarfélögin önnur í landinu en þau sem eiga í Landsvirkjun eru í. Fólkið á landsbyggðinni hefur byggt upp eignir Rariks. Við höfum líka horft upp á það að þau bæjarfélög sem eiga í Landsvirkjun hafa eignast gífurleg verðmæti í gegnum það að reka fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir. Það var ekki björgulegt að fara svona af stað með þetta í upphafi. Nú er tækifæri til þess að rétta þetta af. Ég sé ekki betur en það gæti t.d. gerst með því að sveitarfélögin önnur í landinu eignuðust hlut í Rarik eða flutningsfyrirtækinu.

Mér finnst alla vega ekki að hægt sé að skilja þannig við þessi mál að ekki sé reynt að rétta eitthvað af þar sem hallast á eftir að tvö bæjarfélög í þessu landi hafa verið eignaraðilar og rekstraraðilar að sameiginlegum auðlindum okkar og hagnast á því gífurlega. Það er engin ástæða til þess að hliðra sér hjá þessari umræðu. Það liggur allt fyrir um það hvernig þessar eignir hafa orðið til. Það er vel hægt að reikna út að hvaða leyti Akureyri og Reykjavík hafa hagnast á framlögum sínum og að hvaða leyti þau hafa hagnast á því að hafa haft aðgang að þessum sameiginlegu auðlindum og hvað vanti þá upp á gagnvart öðrum sveitarfélögum í landinu. Út úr þessu gæti auðvitað komið fyrirtæki sem væri skipt eðlilega. Mér finnst að það sé aðalatriði málsins að menn viti hvert þeir ætla í þessu. Hæstv. ráðherra hefur aldrei látið frá sér fara orð svo ég hafi heyrt um það hvernig menn sjái þessa framtíð fyrir sér.

Ég tek undir það að ljóst er að það frumvarp sem hér liggur er bara eitt af fyrstu frumvörpunum. Þau munu verða fleiri því hér er á ferðinni mál sem er ekki undirbúið með þeim hætti að það sé komið í framtíðarhorf. Mér finnst reyndar full ástæða til þess að halda að sumt af því sem hér er sett fram muni kannski ekki standast allt of vel. Ég vek t.d. athygli á því að í e-lið 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Krefjast skal greiðslu ef tenging nýrra virkjana eða stórnotenda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda kerfisins.“

Síðan stendur í útskýringu með þessu, með leyfi forseta:

„Tenging nýrra virkjana eða stórnotenda hefur að sjálfsögðu kostnað í för með sér, en ákvæðinu er ætlað að taka af tvímæli um að sú tenging megi ekki auka kostnað annarra notenda flutningskerfisins verulega.“

Það er nákvæmt orðalagið. Hver á að skera úr um þetta? Á Orkustofnun að finna út úr því hvort þetta sé verulegt eða ekki? Er hægt í lagasetningu að taka svona til orða? Ég held að menn verði nú að skoða þetta betur í nefndinni.

Síðan finnst mér ástæða til þess að benda á annað. Hér er talað um að hafa eigi að þetta fyrirtæki, Landsnet, í gjörgæslu og fyrirtækin sem selja orkuna í gjörgæslu, a.m.k. næstu árin, og hafa í huga hvað þau hafi hagnast eða hvort þau hafi tapað. Í máli sem dreift var á þinginu og var á dagskránni í dag, en komst ekki til umræðu, segir í lok skýringa, með leyfi forseta:

„Miklar sveiflur hafa verið í afkomu orkufyrirtækjanna á síðustu árum. Þannig voru fimm af sex stærstu orkufyrirtækjunum rekin með tapi á rekstrarárinu 2001 og á árinu 2000 voru þrjú af fyrirtækjunum sex rekin með tapi. Hins vegar voru öll fyrirtækin nema eitt rekin með hagnaði á árinu 1999.“

Það virðist hafa farið að ganga heldur verr hjá þeim eftir aldamótin. Það er kannski þetta sem menn hafa í huga núna þegar þeir velta því fyrir sér hvernig eigi nú að passa upp á að allir fái sitt. Þetta segir okkur auðvitað enga aðra sögu en þá að það trúir enginn af þeim sem hefur staðið í því að setja saman reglur og lög um þessi fyrirtæki að hægt verði að gera þetta öðruvísi en með því að hafa þetta allt saman í gjörgæslu, sjá til þess að hver fái sitt. Hver er svo á hinum endanum? Það er bara neytandinn. Reikningurinn til hans á að taka sveiflurnar af öllu saman.

Er þetta þá einhvers konar samkeppnisumhverfi? Nei, ég held að þetta lýsi því nú bara best að þeir sem þarna um véla trúa því ekki því í samkeppni taka menn ábyrgð á því að bjóða fram þjónustu og standa við tilboð sitt. Það getur gengið upp og niður og þá kemur upp úr dúrnum hverjum gengur best á samkeppnismarkaði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig sér hún fyrir sér samkeppni milli orkuframleiðenda á Íslandi? Hvað telur hæstv. ráðherra að muni gerast ef eitt af stærstu orkufyrirtækjunum í landinu ákveður nú að virkja í þeim tilgangi að ná sér í stærri hlutdeild á markaðnum, hefur hagkvæman orkukost til þess og virkjar virkilega til þess að taka þátt í samkeppni, bjóða fram verulegt magn af raforku inn á markaðinn? Hvað gerist þá?

Ég held að menn hafi ekki alveg áttað sig á því hvernig markaðurinn er vegna þess að þeir sem virkja, þeir sem fjárfesta í orkufyrirtækjum eru fyrst og fremst að fjárfesta í vélum og tækjum, en ekki í rekstri. Þegar búið er að virkja sitja menn uppi með nánast allan kostnaðinn. Rekstrarkostnaður virkjunarinnar er hins vegar mjög lítill og ef of mikið af raforku verður til á markaðnum, hvað gerist þá? Þeir sem eru í samkeppninni hafa hagnað eða öllu heldur fjármuni út úr því að selja orkuna, jafnvel fyrir mjög litla fjármuni, vegna þess að annars fá þeir ekki neitt.

Ég tel að þetta vandamál sé nánast óleysanlegt og ég veit að þeir sem reka orkufyrirtækin í landinu treysta því að ekki verði farið út í samkeppni af þessu tagi. En þetta segir allt um að á þessum markaði, sem er allt of lítill til þess að stórframleiðendur á orku geti keppt á honum, er ekki hægt að reka samkeppni milli orkuframleiðenda, það er ekki mögulegt. Sú samkeppni mundi kosta rekstrargrundvöll fyrirtækjanna á auga lifandi bragði.

Ég geri ráð fyrir að þetta vandamál komi ekki upp alveg á næstunni, einfaldlega vegna þess að menn hamast við að virkja upp í verkefni sem munu taka krafta á næstunni. En stóru orkufyrirtækin hafa samt gert ráð fyrir því að sjá markaðnum í landinu fyrir raforku. Með fyrirkomulaginu er búið að gefa öðrum aðilum möguleika á því að fara að virkja. Það er nánast búið að segja við þá alla: Ef þið virkið getið þið fengið að selja á markaðnum.

Það gæti því komið upp sú staða að stóru orkuframleiðendurnir stæðu frammi fyrir því að ýmsir aðilar á Íslandi væru allt í einu farnir að bjóða verulegt magn af raforku á markaðinn og draga færi úr því sem þeir stærri gætu selt.

Ég held að þetta sé vandamál sem hafi ekki verið rætt mjög mikið en sé virkilega mikið umhugsunarefni og segir manni að á næstunni verði þetta býsna mikið miðstýrt fyrirkomulag. Ég sé alla vega ekki fyrir mér samkeppnisumhverfi á þessum markaði þar sem framleiðendur raforku fari að keppa af einhverju viti. Það verða stóru fyrirtækin, ekki kannski með samráði en svona með tilliti hver til annars, sem ákveða hvaða verð verður á raforku á Íslandi. Þeir litlu munu auðvitað nýta sér þá gjaldskrá sem þannig verður til og þeir stóru verða alla vega að taka tillit til þess. Ég ætla þeim svo sem ekki að þeir verði í vandræðum með að keppa við litlu fyrirtækin um verðið, en ég dreg afar mikið í efa að þetta verði trúverðug samkeppni.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort og hvernig gangi með allan þann skóg af reglugerðum sem getið var um í raforkulögunum að þyrfti að setja. Ég hef ekki talið það saman en það eru býsna margar reglugerðir sem gert er ráð fyrir að verði settar um þessi efni og spyr hvort þær séu farnar að líta dagsins ljós og séu allar að koma.

Einnig langar mig til að spyrja eftir því hvað hafi orðið um málefni sem komu upp í tengslum við þetta, t.d. afslættir Landsvirkjunar og Rariks til fiskeldis og garðyrkju, hvort hæstv. ráðherra sé búinn að finna leiðir til að koma í veg fyrir að raforka hækki verulega til þessara aðila eða hvort þeir þurfi að sitja uppi með að breytingin út af fyrir sig verði til þess að framleiðslukostnaður þeirra hækki verulega. Ég hefði áhuga á að heyra um þetta.

Hæstv. forseti. Ég ætla að endurtaka það í lok ræðu minnar að mér finnst kominn tími til að hæstv. ráðherra sýni okkur svolítið inn í þá framtíðarsýn sem ríkisstjórnin hefur hvað þessi mál varðar, sérstaklega eignarhaldið á fyrirtækjunum sem eiga að leika stærstu hlutverkin því ég tel afar brýnt að menn fari að komast til ráðs með að hverju þar er stefnt. Þarna þurfa að verða trúverðug skil á milli fyrirtækjanna. Hvernig sem svo mönnum gengur að búa til einhvers konar samkeppni í þessum geira í framtíðinni er það náttúrlega fyrst og fremst grundvöllurinn til þess að menn trúi því að ekki sé verið að snúa á þá að neytendur hafi traust á því hvernig staðið er að málum, jafnvel þótt miðstýrt verði, að ekki sé eignarhald öllum megin við borðið.



[15:22]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum enn á ný um frumvarp til raforkulaga. Það er ekki liðið hálft ár frá því að raforkulög voru síðast afgreidd á Alþingi. Ég ætla ekki að endurtaka það sem fram hefur komið í umræðunni en vil nota tækifærið til að gagnrýna þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við lagasetninguna alla.

Eins og margoft kom fram í umræðunni á síðasta þingi er ég þeirrar skoðunar að við hefðum ekki þurft að setja þessi lög. Við hefðum átt að geta fengið undanþágu, en menn voru ekki vakandi á sínum tíma þegar unnt hefði verið að fá hana, því það gilda auðvitað allt aðrar reglur um raforkumarkaðinn á Íslandi sem er einn og sér úti í miðju Atlantshafi. Það er skiljanlegt að Evrópuríkin hafi þurft að setja svona lög þar sem verið er að selja raforku yfir landamæri og samkeppni getur verið virk, en við erum sem sagt í lokuðu kerfi.

En það þýðir ekki að að tala um það, búið er að setja lögin og auðvitað mátti vita að lappa þyrfti upp á þessa nýju lagasetningu fljótlega. Það var óttaleg handarbakavinna á frumvarpinu sl. vetur og enn á ný er komið allt of seint inn með þetta frumvarp. (Gripið fram í.) Allur veturinn? Mér skilst að klára þurfi lagasetninguna fyrr en síðar vegna gjaldskráa í kerfinu og spyr hæstv. ráðherra: Er það rétt eða höfum við allan veturinn fyrir okkur í að sinna lagasetningunni, því auðvitað þurfum við að vinna almennilega að þessu? Málið var keyrt allt of hratt í gegnum hv. iðnaðarnefnd sl. vor því ýmsir annmarkar eru á lagasetningunni og hefði betur verið farið almennilega yfir það og málið skoðað betur en að keyra það áfram í hv. iðnaðarnefnd eins og gert var.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra út í reglugerðirnar. Það er fjöldinn allur af reglugerðarheimildum í raforkulögunum eins og þau eru núna og gott ef ekki er verið að bæta við reglugerðarheimild í frumvarpinu. Það væri því full ástæða til þess þegar iðnaðarnefndin fær málið til umfjöllunar að hún fái drög að þeim reglugerðum sem eru í farvatninu frá hæstv. ráðherra.

Ég ætla ekki að fara í mikla umræðu um málið en vildi koma að gagnrýni minni um vinnubrögðin. Það eru lok nóvember og næsta umfjöllun um málið verður ekki fyrr en einhvern tíma í desember eða í lok janúar, sýnist mér ef maður horfir á dagskrá þingsins, og hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra er ekki löngu kominn með málið í þingið? Við höfum fundað í sölum Alþingis frá 1. október og nánast ekkert komið inn af málum frá ráðherrunum. Svo seint og um síðir er komið með málið inn og ætlast til þess að menn flýti fundum í iðnaðarnefnd til þess að koma málinu frá.

Hvað hefur dvalið málið? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra var ekki tilbúin með þetta 1. október þegar við komum saman til þings ef það er svona áríðandi að afgreiða þetta?

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það og tel fulla ástæðu til þess að við tökum okkur góðan tíma í nefndinni til að fara yfir málið og skoða það frá öllum hliðum og kanna þá þætti sem fram hafa komið í umræðunni hjá þeim sem hafa tekið til máls á undan mér og að við skoðum reglugerðirnar og annað sem að málinu öllu snýr. Ég frábið mér að við fáum frumvörp til breytinga á raforkulögum árvisst eða jafnvel oftar á ári á næstunni. Ég fer því fram á að hv. iðnaðarnefnd taki sér góðan tíma til að skoða málið.



[15:28]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þá er byrjað að tína plástrana upp úr sjúkrakassa iðnaðarráðuneytisins til að lappa upp á þetta götótta kerfi sem var sett saman fyrir ári eða svo.

Það verður að segjast eins og er að það er mikið til í því sem haft var eftir bandarískum fræðimanni og iðnjöfri held ég sem kom hingað til lands í fyrravetur þegar hann lýsti raforkuiðnaðinum sem iðnaði í fjötri kreddukenninga. Kreddukenningarnar eru í markaðsvæðingunni, sem eru eins og trúarbrögð sem hafa farið eins og eldur í sinu og undantekningarlaust leitt til hækkunar á raforkuverði til heimilanna þó svo að kannski stærstu fyrirtæki og í sumum tilfellum meðalstór fyrirtæki hafi getað lækkað raforkukostnaðinn hjá sér.

Kerfið var innleitt á Íslandi þvert á hagsmuni neytenda og þvert á þá sérstöðu sem íslenskur raforkumarkaður hefur, eins og hér hefur verið lýst áður. Þetta er lítill markaður, þetta er einangraður markaður, þetta er heildstæður markaður og er allur í almannaeigu og á Íslandi er rafmagnið ódýrt. Aðstæður hér voru ekki eins og í henni Evrópu þegar sameiginlegur evrópskur markaður var tekinn upp, að þar væri bullandi raforkuskortur á köflum en mikið aukaafl í kerfinu annars staðar. En þetta skyldi gert og var gert.

Hitt er svo annað mál að það sem er verst við þetta, og þar sem ráðherrann reyndist og í rauninni allir sem að málinu komu kaþólskari en sjálfur páfinn, það var að hlutafélagavæða flutningsfyrirtækið, vegna þess að þegar litið er til landanna í kringum okkur kemur í ljós að þar hafa ríkin haldið flutningskerfunum hjá sér og kemur ekki til hugar að setja þau út á almennan markað. Þó svo að framleiðslufyrirtækjunum sjálfum og sölufyrirtækjunum hafi verið breytt í hlutafélög og þau hafi jafnvel verið seld út á almennan markað og einkavædd með þeim hætti þá er það þannig á öllum Norðurlöndunum að flutningskerfið er lykilatriðið í öryggi raforkukerfanna, þ.e. að tryggja flutningsgetuna og öryggi í kerfinu, að það sé næg flutningsgeta og að flutningurinn sé öruggur.

Því miður hefur ríkisstjórnin og þessir páfar einkavæðingar og markaðshyggju í ríkisstjórninni komið óorði á hlutafélagaformið með því að nota það alltaf sem undanfara einkavæðingar. Hér er skýrt dæmi um það þar sem er þetta flutningsfyrirtæki vegna þess að það er innbyggt í lögunum að það megi fara á almennan markað, ef ég man rétt, 1. janúar 2011. Verslunarráðið kvartaði stórum undan því á fundi sínum í gær, sem hér var lesið upp úr að hluta af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að ekki væri hægt að versla út fyrir eigendahópinn fyrr en þá með hluti í þessu flutningsfyrirtæki.

Meðan við erum að fást við það hér að hlutafélagavæða flutningsfyrirtækið vil ég geta þess að í Danmörku eru tvö flutningsfyrirtæki sem flytja rafmagn. Annað heitir Eltra og hitt er Elkraft System. Annað er sameignarfyrirtæki, hitt er samvinnufyrirtæki. Í Noregi er það Statnett sem sér um flutninginn. Og hvernig skyldi rekstrarformið á því vera, ætli það sé einkavætt? Ónei, það er ríkisfyrirtæki. En hvernig er það þá í Svíþjóð? Þar er það Svenska Kraftnett sem er flutningskerfið. Og í hvaða rekstrarformi skyldi það vera, hæstv. ráðherra? Jú, það er ríkisfyrirtæki. En á Íslandi erum við náttúrlega kaþólskari en páfinn, eins og ég sagði, og þar skal þetta vera hlutafélag samkvæmt almennum hlutafélagalögum hér á landi og það er meira að segja gengið svo langt að búið er að ákveða hvenær fara eigi í einkavæðingu á þessu fyrirtæki.

Hæstv. forseti. Það skapast mýmörg álitamál og sjónarmið og hagsmunir skarast þegar starfsemi, rekstur félags, er flutt af sviði opinberra hagsmuna yfir á svið einkaréttar í formi hlutafélags. Þetta hafa nágrannalönd okkar farið í gegnum á undanförnum árum og þar hefur orðið mikil umræða um málið. Hún hefur ekki verið fyrirferðarmikil hér á landi.

Með háeffun fyrirtækja, opinberra fyrirtækja, er reksturinn færður út fyrir ýmsar reglur og lög sem um opinberan rekstur gilda og skuldbindingar sem gilda um hann gilda þá ekki lengur. Þannig gilda stjórnsýslulög ekki um hlutafélög samkvæmt íslensku hlutafélagalögunum og upplýsingalög gilda ekki heldur enda þótt þau gildi á sviði opinbers réttar. Hvað þýðir það? Jú, það vita menn í þessum sölum mætavel, það er ekki aðgangur fyrir eigandann, sem er íslenska ríkið, og fulltrúa hans í þessum sölum að upplýsingum svo sem eins og um laun stjórnenda og stjórnarmanna né heldur um aðrar stórar ákvarðanir sem teknar eru á vegum fyrirtækisins og það er lítil sem engin leið að fylgjast með rekstri og árangri af rekstri fyrirtækisins.

Lög um opinbera starfsmenn gilda ekki heldur þegar opinberu fyrirtæki er breytt í hlutafélag. Og nú skal sett undir þennan eina leka, þ.e. hér er í rauninni verið að tryggja stöðu starfsmanna þessa flutningsfyrirtækis, að þeir hafi stöðu opinberra sýslunarmanna, hafi ekki verkfallsrétt, og þeir hafi væntanlega tryggt allt annað í starfsumhverfi sínu sem þeir hafa í gegnum kjarasamninga hingað til.

Í nágrannalöndum okkar er til annað rekstrarform sem er ríkishlutafélag eða opinbert hlutafélag. Í Danmörku — en við höfum löngum tekið mikið mið af dönskum rétti í þessum efnum — eru ákvæði um ríkishlutafélög og í raun má segja að í dönsku lögunum sé gerð sú krafa að um hlutafélög sem eru að meiri hluta til í opinberri eigu gildi það að þau séu tilkynningarskyld, þau séu opin sem um opinbert fyrirtæki væri að ræða. Þannig eru til að mynda hluthafafundir og aðalfundir þessara félaga opnir fyrir fjölmiðla og allan almenning og það gilda líka um þau ákvæði samsvarandi þeim sem gilda um hlutafélög sem skráð eru á markað eða skráð eru í kauphöll. Í hvoru tveggja er fólgið mikið aðhald og í rauninni er verið að tryggja að um þennan rekstur gildi áfram opinbert eftirlit svo lengi sem meirihlutaeignin er í eigu opinberra aðila. Og ég vil upplýsa það, virðulegi forseti, að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum flytja á næstu dögum þingsályktunartillögu um að almennu hlutafélagalögunum íslensku verði breytt í þá veru sem gildir í dönskum rétti og að við fáum ákvæði í okkar hlutafélagalög um hlutafélög sem eru að meirihlutaeign í opinberri eigu, þ.e. sveitarfélaga eða ríkis, og þau hafi sömu stöðu og móðurfélög skv. 2. gr. núgildandi hlutafélagalaga, sem er sú sama og er í dönsku hlutafélagalögunum.

Ef ríkisstjórnin og ráðherra bera gæfu til þess að fylgja okkur á þeirri vegferð að breyta ákvæðum hlutafélagalaga þá þarf hún ekki að vera með sjúkrakassann á lofti á þriggja til fimm mánaða fresti á næstu árum, vegna þess að þar er sett undir þá leka sem eru gallarnir á því formi að breyta opinberum rekstri yfir á svið einkaréttar. (Iðnrh.: Það hefur nú aldrei verið ljótt að vera með sjúkrakassa.) Ja, það er ljótt ef menn þurfa alltaf hreint að vera með hann á lofti, hæstv. ráðherra, það er eiginlega betra að setja undir lekana fyrir fram.

Það er auðvitað margt sem væri áhugavert að ræða varðandi stöðu raforkumála í landinu um þessar mundir. Ég get ekki neitað mér um að svara aðeins því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi áðan, þ.e. eignarhaldið á Landsvirkjun og staða Reykjavíkurborgar í því. Ég tek ekki undir að það hafi verið svo mikill gróði hjá Reykjavíkurborg vegna aðildarinnar að Landsvirkjun, mönnum sýnist sitt hvað um það. En það er ljóst að hjá Reykjavíkurborg hefur lengi verið áhugi á að losna úr þeim selskap, það er bara þannig. En stóriðjudraumarnir, skuldsetningin, stefnan sem eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er að taka kemur auðvitað í veg fyrir að það verði á næstu árum. Það er ekkert hægt að rugga þessum báti vegna þess að þá mun lánshæfi fyrirtækisins minnka verulega og þegar eitt stykki sveitarfélag, hvort sem það heitir Reykjavík eða annað, á 45% eignarhlut í fyrirtæki við þær aðstæður þá eru það auðvitað hagsmunir þess sem eiganda að það gangi vel og þá ruggar það ekki bátnum.

Við tillögugerð um mótun orkustefnu fyrir Reykjavíkurborg var gerð grein fyrir nokkrum leiðum sem fara mætti til að minnka hlut Reykjavíkurborgar í raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Ein af þeim er að ríkið hreinlega greiði Reykjavíkurborg út eignarhluta sinn eða að Reykjavíkurborg fái afhentan einhvern hluta af eigum Landsvirkjunar og þar hafa Sogsvirkjanir verið nefndar. Eða þá að Reykjavíkurborg eignist stærri hlut í flutningsfyrirtækinu en hún á í Landsvirkjun og taki þannig út sinn eignarhluta og loks að Landsvirkjun yrði breytt í hlutafélag og hlutur Reykjavíkurborgar einfaldlega seldur. Ég vil taka fram af því að ég átti sæti í þeirri nefnd sem undirbjó þessa tillögugerð hjá Reykjavíkurborg að ég var ekki sammála því síðasta þar sem ég tel að ekki eigi að selja hluti í Landsvirkjun á almennum markaði og er sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þar um.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Það mætti segja margt um þetta flutningskerfi, hversu miklu betra það væri kannski að hafa sjálfstæðan, óháðan kerfisstjóra í því, en ég held að versti kosturinn hafi í rauninni verið valinn og við eigum eftir að súpa seyðið af því á næstu árum og, eins og ég sagði, ráðherrann mun þurfa að vera með sjúkratöskuna hér á þriggja til fimm mánaða fresti ef þessari hugsun og ramma verður ekki gjörbreytt.



[15:42]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu, en það verður að koma fram við umræðuna að við erum samstjórnarmenn í Landsvirkjun sem er eins og kunnugt er stærsti orkuframleiðandi á þessum markaði.

Ég tek undir orð hv. þm. um ríkishlutafélög og stöðu þeirra. Vegna orða hv. þm. um þingsályktunartillögu vek ég athygli á því að við höfum nokkrir þingmenn undir forustu Guðmundar Árna Stefánssonar þegar flutt lagafrumvörp sem lutu að því að fyrirtæki í opinberri eigu skuli veita upplýsingar um sinn rekstur, en þau hafa því miður ekki fengið undirtektir í þinginu af hálfu stjórnarmeirihlutans og kannski ekki mikil von til þess að því máli fáist hreyft, því miður, því ég held að það skjól sem menn hafa með því að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög og leyna þar almenning upplýsingum sé mjög til óþurftar í opinberum rekstri á Íslandi.

En ég vildi spyrja hv. þm. hvort hún telji ekki algerlega útilokað að um raunverulega samkeppni geti orðið að ræða á raforkuframleiðslumarkaði meðan því er þannig háttað að Reykjavíkurborg á annars vegar næststærsta orkuframleiðandann, Orkuveitu Reykjavíkur, og hins vegar nær helmingshlut í Landsvirkjun, stærsta orkuframleiðandanum.



[15:44]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki nein merki um samkeppni, þá ógurlegu samkeppni sem menn voru að tala um, enda held ég að þeir sem hæst höfðu um hana hafi ekki haft mikla trú á að hún yrði í raun. Aðstæður íslensks markaðar eru einfaldlega þær.

En ég þakka hv. þm. fyrir að minna mig á það sem ég gleymdi að geta í upphafi máls míns að ég og hv. þm. Helgi Hjörvar erum stjórnarmenn í Landsvirkjun og það þarf auðvitað að koma fram þegar maður tekur þátt í umræðum sem þessum.



[15:44]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem fær mig til að veita andsvar er að ég er ekki sammála hv. þingmanni sem síðast talaði um það að þótt breyting verði á eignarhaldi á Landsvirkjun þurfi eitthvað að rugga bátnum, eins og hv. þm. orðaði það. Það breytir ekki stöðu Landsvirkjunar að mínu viti þótt breyting verði á eigendahópnum. Ég er ekki heldur sammála því að Reykjavíkurborg hafi ekki eignast verulegar eignir í Landsvirkjun. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem um það véla hjá Reykjavíkurborg telji að það sé býsna mikils virði sem þar er.

Ég bar einu sinni fram fyrirspurn á Alþingi um eignarhaldið á Landsvirkjun. Ég gat ekki betur séð en að Reykjavíkurborg ætti þar gríðarlega stóran hlut, bæði hvað varðar fjármuni og prósentu af eign í fyrirtækinu. Það er hægt að velta þessum hlutum fyrir sér á margan máta.

Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að ekki sé rétt að láta þetta fyrirtæki á markað eða „selja“ Landsvirkjun þó að ég hafi þá skoðun að það þurfi að leysa þessa eignaraðila út úr Landsvirkjun. Ég tel ekki koma til greina að Landsvirkjun verði gerð að hlutafélagi til þess að selja á almennum markaði. Það er mín skoðun og ég er sannfærður um að það verða mikil átök ef menn ætla í þá göngu.



[15:46]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt. Þegar ég ræði um að breyta eignarhaldi á Landsvirkjun í þá veru að það ruggi bátnum á ég við það að hlutur ríkisábyrgðar og ábyrgðar Reykjavíkurborgar á skuldbindingum fyrirtækisins minnki að sama skapi. Ef hv. þm. er að tala um það sem mér heyrist hann vera að gera, að ríkið eignist og eigi alla hluta í Landsvirkjun, mun sú ríkisábyrgð að sjálfsögðu standa.

Fari hins vegar hluti af fyrirtækinu á almennan markað mun væntanlega draga úr ábyrgðum sem því nemur. Það hefur sýnt sig að slíkar breytingar á eignarhaldi geta leitt til verri lánskjara vegna minnkandi lánshæfni. Þannig er það að Standard & Poor’s sem er viðurkennt lánsmatsfyrirtæki hefur gefið út yfirlýsingu um að án ríkisábyrgðarinnar væri lánshæfi Landsvirkjunar allt annað og minna en það er núna. Við vitum hvað þýðir, það þýðir einfaldlega dýrari lán. Nóg er nú samt.



[15:48]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin þó nokkur umræða og ég þakka fyrir það. Þetta er stórt mál og margt um það að segja. Það er alveg óhætt að segja það.

Ég reiknaði svo sem með að einhver orð yrðu látin falla um það að ekki væri mikil reisn yfir því að koma hingað með frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem ekki er svo langur tími liðinn síðan við settum nýju lögin. Ég vil geta þess að t.d. í Danmörku þurfti á fyrstu tveimur árunum sex sinnum, held ég, að koma inn með frumvörp til breytinga. Það segir kannski sína sögu um það hvað þetta er gríðarlega mikil breyting sem er verið að gera á raforkukerfi landsins. Það er ekki alveg hægt að sjást fyrir um alla hluti. Þess vegna kemur þetta frumvarp hér inn og hefur í sjálfu sér ekki róttækar breytingar í för með sér. Það er frekar um það að ræða að þegar farið var að vinna í reglugerðum og gjaldskrársetningum kom í ljós að það þurfti að hnykkja á ákveðnum atriðum. Ég tel að hv. þingmenn taki því í sjálfu sér ekkert illa. Þetta er mál sem fer til iðnaðarnefndar og vona ég að það geti fengið hraða meðferð þar. Ég fer ekkert í launkofa með það að þetta mál þarf endilega að nást fram fyrir jól vegna gildistöku um áramótin.

Í sambandi við mál hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar höfum við áður talað um, held ég, u.þ.b. það sama og hann kom hér fram með. Ég veit ekki hvort við eigum að vera að eyða miklum tíma í að fara frekar yfir þau atriði, a.m.k. ekki öll. Hvað varðar það að fá undanþágu frá þessari tilskipun var það reynt áður en fulltrúar borgarinnar fóru að velta þeim hlutum fyrir sér. Reynt hafði verið af hálfu ráðuneytisins að fá undanþágu. Svörin voru þau að ef það væri miklum erfiðleikum undirorpið að innleiða þessa tilskipun væri hægt að hugsa sér að skoða það frekar. Niðurstaða Orkustofnunar á þeim tíma varð að ekki væri um það að ræða og ég er alveg sammála henni. Þótt þetta sé mikil vinna er þetta ekki einhver óvinnandi vegur. Í rauninni finnst mér hafa verið skemmtilegt að fást við þetta mál og ég er alltaf jafnsannfærð um að það eigi fullan rétt á sér og það verði til þess að bæta raforkukerfi okkar. Nú verða hlutirnir miklu meira uppi á borðinu. Við aðgreinum rekstrarþætti og ég leyfi mér að segja að mjög margt í þessu kerfi hefur verið dálítið ósýnilegt og kannski ekki alveg skilvirkt fram til þessa. Það er heldur ekkert launungarmál að það voru ekkert óskaplega margir aðdáendur frumvarpsins hér á landi þegar það kom fyrst fram. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það skuli þó hafa náð að verða að lögum og vera komið á þann stað í stjórnsýslunni sem raun ber vitni. Ég er þó alltaf jafnhamingjusöm með frumvarpið og lögin og ég held að það hljóti að segja sína sögu.

Hv. þingmaður kom inn á fiskeldismálið og grænmetið. Það er kannski svolítið dæmigert um það að það var ekki allt gert á grundvelli markaðshugsjónar og ekkert nema gott um það að segja en strax á árinu 1987 var samþykktur tímabundinn afsláttur af orku til fiskeldisfyrirtækja til að tryggja samkeppnisstöðu þeirra. Frá þeim tíma hafa Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og fleiri orkufyrirtæki veitt fiskeldisfyrirtækjum afslátt á raforku, auk þess sem flutningur og dreifing á þeirri orku til fiskeldisins hefur verið verðlagt undir kostnaðarverði. Nú erum við komin inn í það umhverfi að þetta getur ekki verið með sama hætti. Engu að síður notar þessi atvinnugrein jafnt þó nokkuð mikla raforku þannig að ég held að ekki sé útilokað að hægt verði að ná þar góðum samningum. Ég tek samt alveg undir áhyggjur hv. þingmanns, mér fyndist ekki gott til þess að vita að þetta hefði gríðarlega mikil áhrif á þennan rekstur. En það eru bara hlutir sem eru til athugunar núna á milli ráðuneyta. Gjaldskrármálin eru ekki komin það langt að við getum svarað öllum spurningum hvað þau varðar. Um þetta efni fer einmitt þessa dagana fram mikil vinna.

Garðyrkjan er hins vegar með ákveðinn samning. Fjármunir á fjárlögum koma til móts við þann kostnað sem að henni lýtur.

Hv. þingmaður talaði eins og það væri mikið að fara fram á 3% arðsemi en ég held að það sé alveg lágmark til þess að reka fyrirtækið. Það er bæði um það að ræða að þessi fyrirtæki veiti þjónustu en þau þurfa líka að vera í ákveðnum bisness, það er nú ekkert annað en það. (Gripið fram í: Ekki á flutningskerfinu?) Nei, ég meina að þegar búið er að markaðsvæða raforkukerfið sem slíkt erum við að fara inn í samkeppnisumhverfi sem hlýtur að þýða að lögmál viðskiptalífsins gilda þar. Svo er aftur annað sem ræður för með flutningskerfi og dreifikerfi. Við þekkjum það og þarf ekki að fara frekar yfir það.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði um Rarik og var með ýmsar vangaveltur um framtíðarskipulag þessara mála sem er mjög eðlilegt að spurt sé um. Ég er ekki í aðstöðu til að svara miklu um það í dag en þetta eru hlutir sem við erum að sjálfsögðu að vinna að í iðnaðarráðuneytinu. Vonandi geta fljótlega legið fyrir línur um það hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur í þessum geira. Það er ljóst að ríkið er hreyfiaflið. Ríkið á tvö fyrirtæki að fullu og helminginn í Landsvirkjun. Það er ekki hægt að sjá fyrir sér framtíðina óbreytta, í því held ég að ég geti verið sammála hv. þingmanni. Mér fannst hann hafa þá skoðun að svo væri ekki.

Með reglugerðir gengur þannig að þær eru þrjár á lokastigi. Samráð hefur verið haft við raforkugeirann í því sambandi og ekki er ólíklegt að iðnaðarnefnd geti fengið frekari upplýsingar um það þegar málið kemur til hennar.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var með ákveðnar skoðanir sem ég er ekki sammála en eiga að sjálfsögðu rétt á sér eins og allar skoðanir. Ríkisrekstrarhugsjónin var dálítið ofarlega í huga hennar. Ég vil ítreka hvað varðar flutningskerfið að ekki verður breyting þar á nema þá að lögunum verði breytt, þ.e. nema um sé að ræða að breytingar verði á eignarhaldi innan fyrirtækisins. Það þarf ný lög til þess að selja. Það varð niðurstaðan eftir meðferð málsins hér.

Í Danmörku eru reyndar fleiri en eitt flutningskerfi og þess vegna þarf sjálfstæðan kerfisstjóra þar. Þar sem við erum bara með eitt flutningskerfi höfum við kerfisstjórann innan þess.

Finnska flutningskerfið er hlutafélag. Það var ekki nefnt hér en ágætt er að halda því til haga.

Ég held að ekki sé fleira sem ég þarf að bregðast við. Þetta eru aðalatriðin að mínu mati. Ég gæti þess að fara ekki dýpra ofan í ágreiningsmálin af því að það er vel liðið á föstudag og ég held að við bætum okkur ekkert með því í rauninni. Við erum bara ekkert alveg sammála um hvort rétt hafi verið að fara út í þessa breytingu. Þó að þessi tilskipun hefði ekki komið til held ég að það sé nokkuð ljóst að við Íslendingar hefðum gert breytingar á fyrirkomulagi okkar, t.d. hvað það varðar að Landsvirkjun hafi ekki einkarétt á því að virkja fallvötn okkar. Mér finnst að það hefði ekki getað verið fyrirkomulag til framtíðar.

Ég trúi því að það verði samkeppni og hún er þegar hafin. Voru ekki Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja að gera samning við Norðurál í sambandi við stækkun þar? Þetta er bara nýtt í raforkuumhverfi okkar. Það má segja að samkeppnin sé komin á og hún mun halda áfram. Á því held ég að sé ekki nokkur vafi. Miðað við það að þessi fyrirtæki eru orðin jafnsterk og raun ber vitni hafa þau fulla burði til að keppa á markaðnum og þar höfum við fyrirtækið Landsvirkjun vonandi áfram.



[15:58]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að allir þeir sem um þessi mál fjalla séu á einu máli um það að alger forsenda fyrir því að einhver samkeppni ríki á raforkumarkaði sé að Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagið í landinu, sé ekki annars vegar aðaleigandi Orkuveitu Reykjavíkur og um leið helmingseigandi í Landsvirkjun. Ég vil þess vegna inna hæstv. ráðherra eftir viðræðum hennar við borgaryfirvöld í Reykjavík um breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar: Hvernig miðar þeim, eru uppi einhverjar hugmyndir um breytingar í því efni sem ráðherrann bindur vonir við og hvenær megum við þá vænta niðurstöðu úr þeim viðræðum?

Sömuleiðis spyr ég hvort eignarhald ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja sé ekki tímaskekkja nú við hin nýju raforkulög og hvort það sé ekki álit hæstv. ráðherra að löngu sé tímabært að ríkið selji eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og reyni þar með að fækka þeim fyrirtækjum sem það á aðild að vegna hinna eðlilegu samkeppnissjónarmiða á þessum markaði í ljósi nýrra laga.



[15:59]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í samræmi við samkomulag sem gert var á árinu 1996, minnir mig, var niðurstaðan sú fyrir síðustu áramót, fyrir tæpu ári, að eigendur Landsvirkjunar mundu koma sér saman um það hver niðurstaðan yrði um framtíðaráform í sambandi við Landsvirkjun, t.d. í hvaða rekstrarformi fyrirtækið skyldi rekið. Sú vinna hefur verið í gangi, nefnd verið að störfum sem hefur ekki lokið störfum en henni miðar allvel. Ég tel því ekki langt í að hægt verði að greina frá einhverjum niðurstöðum í þeim efnum. Þetta er hins vegar mjög stórt mál og tekur sinn tíma að vinna að því.

Varðandi Hitaveitu Suðurnesja þá er ég alveg sammála hv. þingmanni um að það er ástæða til að huga að því að selja þennan hlut. Það er ekki ástæða til þess lengur að ríkið eigi hlut í Hitaveitu Suðurnesja og það er nokkuð sem hefur verið til umfjöllunar í ráðuneytinu.



[16:01]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja enda fluttum við þingmenn Samfylkingarinnar tillögu um það við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári.

Ég vildi spyrja ráðherrann hvort það sé markmið hennar í viðræðunum við borgaryfirvöld að losa um eignarhlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og, ef svo er, hvort líkur séu á því að það markmið nái fram að ganga.

Í ljósi þess hversu skammt er í að lögin eiga að taka gildi og hve mikill dráttur hefur verið á þeim reglugerðum og gjaldskrám sem hér eiga við vildi ég sömuleiðis spyrja hvort ráðherrann telji þurfa að koma til þess að fresta gildistöku einstakra ákvæða í lögunum þannig að orkufyrirtækjunum gefist tóm og tækifæri til að aðlaga gjaldskrár sínar og viðskiptasamninga hinu nýja umhverfi.



[16:02]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að vinnan sé það vel á veg komin að það sé ekki ástæða til að tala um frestun á gildistöku í þessu sambandi. Eins og ég sagði áðan eru reglugerðir langt komnar. Ég held að þetta verði tilbúið nógu snemma til að allt verði eins og áformað er.

Varðandi það að losa um eignarhald Reykjavíkurborgar þá ætla ég ekki að svara því beint. Ég tel þó að það sé rétt, sem hefur komið fram hjá ýmsum og m.a. hjá Verslunarráðinu nýlega, að það sé í raun ekki í samræmi við áform nýrra raforkulaga, sem ganga út á að taka upp samkeppni í vinnslu á raforku, að Reykjavíkurborg sé svo stór aðili í Landsvirkjun þar sem hún á Orkuveituna.



[16:03]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera smá athugasemd við orð ráðherrans um að þetta hafi verið mikil og skemmtileg vinna. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að þessum aðgerðum hefur líka fylgt gríðarlega mikill kostnaður. Það er ekki aðeins eftirlitskerfið sem á eftir að kosta nokkuð mikið, mismikið eftir því við hvern maður talar. Einnig ber að hafa í huga að arðsemiskrafan er innbyggð í flutningskerfið og nú eru kröfur um hækkun hennar frá vinaklúbbi ríkisstjórnarinnar, Verslunarráðinu. Loks er fyrirhuguð skattlagning á orkufyrirtækin sem mun að sjálfsögðu líka leiða til meiri kostnaðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún að þessar aðgerðir muni leiða til hækkunar eða lækkunar á raforkuverði til neytenda í landinu, og þá kannski sérstaklega til heimilanna? Ég veit að þetta hróflar ekki stóriðjusamningunum, þeir fá áfram útsöluprísinn. En hvað verður með heimilin í landinu þegar upp er staðið eftir þetta, hæstv. ráðherra?



[16:05]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er engin ástæða til að tala um mikinn kostnað í þessu sambandi. Það verður enginn nýr kostnaður til í raun í kerfinu. Það kostar eitthvað að breyta yfir í þetta fyrirkomulag en ég er sannfærð um að raforkufyrirtækin og raforkugeirinn almennt verður betur rekinn eftir þessa breytingu en áður.

Talað hefur verið um 3% arðsemi. Það er ekki hægt að hafa það öllu lægra og er ekki hægt að reka fyrirtæki á núlli. Þess vegna er náttúrlega um eins litla arðsemi að ræða og hægt er að komast af með held ég.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um raforkuverðið í nýja kerfinu. Reynsla margra annarra landa er sú að það hafi lækkað. Sums staðar hefur það staðið í stað og annað slíkt en það hefur hins vegar lækkað meira til fyrirtækja. Það hefur sýnt sig í þeim löndum þar sem við höfum skoðað þessi mál.

Það getur vel verið að hjá einhverjum orkufyrirtækjum lækki verðið meira en annars staðar, t.d. eru teknar ákveðnar kvaðir af Rarik sem það fyrirtæki hafði áður í sambandi við félagslegan kostnað eða óarðbærar einingar sem ríkið tekur nú inn á fjárlög, Það nemur 230 millj. kr.

Auk þessa er meiri jöfnun í kerfinu en var áður sem getur þýtt örlitla hækkun á þessu svæði. En ég held að það sé ekki erfiðara en svo að það sé teljandi í einhverjum hundraðköllum á ári. Þannig verður ekki nein stórkostleg breyting. Það eru ýmsar svona breytingar sem eiga sér stað en þær munu ekki verða stórkostlegar.

Strax um áramót geta fyrirtæki sem kaupa meira en hundrað kílóvött valið sér orkufyrirtæki þannig að það eru bara nokkrir dagar þangað til fyrstu afleiðingar af þessum breytingum koma í ljós.



[16:07]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnast svör hæstv. ráðherra ævinlega rýr í sambandi við eignarhald á fyrirtækjunum til framtíðar. Satt að segja botna ég ekki í því af hverju menn vilja ekki ræða málin opið. Þetta eru opinberar eignir sem hér eru til umræðu. Mér hefði fundist að liggja ætti fyrir að hverju stjórnvöld stefna varðaði þessa hluti og það fyrir löngu síðan. Auðvitað hefðu átt að vera umræður um það hér á Alþingi en það hefur ekki gerst. Hæstv. ráðherra velur sér hvað hún vill setja fram um þessi efni og við því er ekkert að gera.

Hæstv. ráðherrann sagði áðan að samkeppni væri komin á og nefndi samninga sem hafa verið gerðir um sölu á raforku frá Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur til Norðuráls. Það er ekki hægt að halda því fram að þar hafi samkeppni ráðið för. Landsvirkjun var nú einfaldlega ekki fær um að uppfylla þarfir þessara fyrirtækja með þeim hraða sem til þurfti. Þannig er ekki hægt að segja að þetta sé til marks um að á sé komin samkeppni. Hins vegar verður kannski samkeppni í framtíðinni vegna þessa.

Varðandi alvörusamkeppni milli raforkuframleiðenda þá spyr ég hæstv. ráðherra aftur: Finnst henni líklegt að til verði alvörusamkeppni milli raforkuframleiðenda? Væri það líklegt til að leiða til velfarnaðar, ef það gerðist?



[16:09]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það verður samkeppni. Um það held ég að sé ekki nokkur spurning. Nú þegar er það komið í ljós í tengslum við a.m.k. þrjá virkjunarkosti, að þar hafa fleiri en eitt fyrirtæki gefið sig fram og óskað eftir rannsóknarleyfum. Ég held að það segi okkur að fyrirtækin eru að horfa í kringum sig. Síðan þurfum við náttúrlega að setja lög á Alþingi á þessum vetri sem segja til um hvernig við eigum að velja þann aðila sem fær rannsóknarleyfi og svo hitt hvort rannsóknarleyfi eigi að veita forgang að virkjunarleyfi.

Þetta eru stór mál sem eru fram undan og við þurfum að takast á við á Alþingi. Eins og hv. þingmenn hafa kannski séð var í gær dreift frumvarpi til laga sem lýtur einmitt að þessu. Þar er m.a. lagt til að allir þingflokkar eigi aðild að nefnd sem móti tillögur um hvernig þetta skuli vera til framtíðar vegna þess að þetta er eitt af stóru málunum sem við Íslendingar þurfum að vinna að á næstunni þar sem hér er um mikilvæga auðlind að ræða.



[16:10]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Þetta er sannarlega stórt mál. Ég vona sannarlega að niðurstaðan verði sú að jafnræði verði haft í huga og möguleikar til að nýta auðlindir verði þannig að allir hafi sömu tækifæri til að komast þar að, það verði ekki geðþóttaákvarðanir eða fegurðarsamkeppni á vegum ráðuneyta sem ráði því hverjir fái virkjunarleyfi í framtíðinni.

Það sem ég átti við með alvörusamkeppni var að ég hef orðið var við það, m.a. af hálfu forráðamanna fyrirtækja í þessum bransa, að þeir telji það geta orðið mjög alvarlegt ef farið verður að virkja og bjóða orku á markaði í miklu magni til að ná þar markaðshlutdeild. Þeir óttast að engar hömlur verði á slíkri samkeppni, einfaldlega vegna þess sem ég benti á í fyrri ræðu minni.



[16:12]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem fram kom hjá hv. þingmanni. Við eigum eflaust eftir að ræða þessi mál oftar á Alþingi í tengslum við frumvarpið sem ég nefndi áðan.

En af því að umræðunni er að ljúka þá vil ég þakka fyrir hana og vonast til að málið sem hér er til umfjöllunar fái skjóta og góða umfjöllun í hv. iðnaðarnefnd.