131. löggjafarþing — 46. fundur
 2. desember 2004.
umræður utan dagskrár.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:32]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja hafa aukist gríðarlega undanfarin missiri og eru þær mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Íslensk heimili skulda núna um 800 milljarða kr. samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands, þ.e. sem nemur allri árlegri lánsframleiðslunni. Til samanburðar kostar allt heilbrigðiskerfið minna en einn tíunda þessarar upphæðar. Hvert einasta mannsbarn á Íslandi skuldar því tæplega 3 millj. kr. en skuldir heimilanna voru rúmlega helmingi lægri fyrir fimm árum.

Skuldir heimilanna voru 20% af ráðstöfunartekjum árið 1980 en í árslok 2003 var þetta hlutfall komið upp í 180%. Það hafði nífaldast á tímabilinu. Íslensk fyrirtæki skulda um 1.300 milljarða kr. og hafa skuldirnar meira en tvöfaldast á fimm árum. Alþjóðlegur samanburður sýnir að skuldir íslenskra fyrirtækja eru með þeim hæstu sem þekkjast meðal þróaðra ríkja heims. Heildarskuldir íslenska þjóðarbúsins eru rúmlega 2.400 milljarðar kr. sem er þreföld landsframleiðslan. Þar af eru erlendar skuldir um helmingur af heildarskuldunum og er Ísland eitt skuldugasta iðnríki í heimi. Greiðslubyrði af erlendum lánum hefur aukist gífurlega mikið. Greiðslur til útlanda í vexti og afborganir af erlendum lánum kosta rúmar 6 kr. af hverjum 10 kr. sem þjóðin aflar í útflutningstekjum.

Herra forseti. Þetta eru ótrúlegar tölur en réttar. 60% af útflutningstekjum okkar fara í afborganir og vexti af erlendum lánum. Um 1% hækkun á erlendum vöxtum leiðir til um 12 milljarða kr. hækkunar á vaxtagreiðslum en fyrir þá upphæð mætti t.d. reka alla framhaldsskóla landsins. Innlend útlán innlánsstofnana í ár jukust um 70 milljarða kr. í október sl. Nýju íbúðarlánin námu í lok október um 55 milljörðum kr. en til samanburðar kostar rekstur alls Landspítalans um helming þessarar upphæðar.

Í Financial Times var Ísland sérstaklega nefnt sem dæmi um land þar sem erlend lán banka til að fjármagna lántökur heimila draga úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum. Í blaðinu kemur einnig fram að hækkandi skuldir heimilanna séu einn þeirra þátta sem hægi á hagvexti. Allar þessar skuldatölur eru í sögulegu hámarki. Skuldir heimila og fyrirtækja hafa aldrei verið hærri og hafa aldrei hækkað jafnört. Það er því ríkt tilefni til að hafa áhyggjur. Þótt hér sé um að ræða skuldir heimila og fyrirtækja en ekki opinberra aðila geta stjórnvöld ekki litið fram hjá þeim. Ríkisvaldinu ber skylda til að stuðla að heilbrigði í efnahagskerfinu. Of mikil skuldsetning lýsir ekki heilbrigðu hagkerfi.

Nú getur sá tími runnið upp að fólk skuldi meira en sem nemur verðmæti fasteignar sinnar en við þekkjum mýmörg dæmi slíks varðandi bifreiðakaup. Of miklar skuldir hafa sundrað mjög mörgum heimilum og mörg sorgarsagan hefur orðið vegna of mikilla skulda. Okkur stjórnmálamönnum ber að vara við óæskilegri þróun. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún hefur gert hið þveröfuga og ýtt undir væntingar og skuldasöfnun. Ríkisstjórnin gerir lítið úr varnaðarorðum óháðra aðila og hefur haldið væntingum í samfélaginu uppi með fagurgala, oflofi og sjálfshóli. Peningamálastefna Seðlabankans virðist hafa lítil áhrif.

Nú er verðbólgan á uppleið, þenslan mikil og litlar eða engar mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum. Stefna stjórnvalda ýtir því undir aukna neyslu og hvetur almenning til að verja æ stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í vaxtagreiðslur vegna neyslu líðandi stundar. Hið svokallaða góðæri sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa stært sig af er einfaldlega fengið að láni. Sé reyndar litið til meðalhagvaxtar hér á landi á árunum 1991–2001 sést að hann er nákvæmlega sá sami og meðalhagvöxtur OECD-ríkjanna. Á þessum 10 árum höfum við því verið um miðja deild en ekki í toppbaráttunni. Aukning neysluútgjalda heimila á sér ekki stoð í auknum kaupmætti en er fjármögnuð með lántökum, erlendum og innlendum, og þetta hafa Samtök atvinnulífsins bent á.

Það er því full ástæða til að leita svara hjá hæstv. forsætisráðherra um hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari gríðarlegu skuldasöfnun íslenskra heimila og fyrirtækja. Einnig er spurt hvort hæstv. forsætisráðherra hugi að einhverjum aðgerðum til að sporna við þessari þróun.



[10:37]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Á sama tíma og rétt er að hvetja til varkárni í sambandi við skuldsetningu, hvort sem það varðar heimili eða fyrirtæki, er ekki rétt að halda því fram að miklar erlendar skuldir séu merki um lausatök í hagstjórn. Það sem skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli er hvers eðlis skuldirnar eru. Eru það opinberir aðilar sem skulda eða eru það einkaaðilar? Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir að skuldsetning ríkisins hefur farið minnkandi. Skuldir ríkisins voru 35% af landsframleiðslu árið 1995 en nú stefnir í það í lok næsta árs að skuldir ríkisins verði 17%.

Það er heldur ekki rétt að fjalla um þetta mál þannig að talað sé um skuldasöfnun eins og einhvert meiri háttar efnahagslegt áfall sem stjórnvöld verði að takast á við. Við verðum að líta til þess í hverju verið er að fjárfesta. Þessar skuldir stafa m.a. af auknum fjárfestingum, arðbærum fjárfestingum. Við getum nefnt fyrirtæki eins og Alcoa, Norðurál og Alcan.

Ef við lítum til fyrirtækjanna að öðru leyti hafa t.d. skuldir sjávarútvegs og ýmissa iðnfyrirtækja staðið í stað á meðan skuldir ýmissa hátæknifyrirtækja og fjármálafyrirtækja hafa aukist verulega, bæði innan lands og á erlendum mörkuðum. Það er ekki óeðlilegt að þetta gerist vegna þess að þetta er sá hluti hagkerfisins sem eykst hraðast. Útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur gengið vonum framar og vakið mikla athygli erlendis. Þetta er mjög jákvæð þróun og það er ánægjulegt að þær skipulagsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir í íslensku efnahagslífi hafi stuðlað að uppbyggingu öflugra og framsækinna fyrirtækja, bæði innan lands og erlendis.

Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að á bak við skuldir fyrirtækjanna standa mjög miklar eignir. Þetta vill oft gleymast í umræðunni.

Hvað varðar skuldir heimilanna er rétt að hafa í huga að hér búa hlutfallslega miklu fleiri í eigin húsnæði en víðast hvar annars staðar í heiminum. Þetta stafar líka af því að aldurssamsetning þjóðarinnar er önnur þar sem hér er hlutfallslega meira um ungt fólk. Það er ekki óeðlilegt að hlutfall skulda sé hærra hér á landi en hjá þeim þjóðum sem eldri eru. Þetta gildir að sjálfsögðu líka hjá fyrirtækjunum þar sem mjög miklar eignir standa á móti skuldunum.

Það þarf að skoða heildarmyndina hvað varðar eignir og skuldir. Hér skiptir gríðarlegu máli að við búum við öflugt lífeyrissjóðskerfi. Heimilin hafa þannig lagt til hliðar mjög mikið á undanförnum árum og áratugum og menn horfa öfundaraugum til góðrar stöðu lífeyrismála hér á landi, m.a. í Noregi þar sem Norðmenn hafa lagt hluta af sínum olíuauð upp á tugmilljarða til að safna fyrir lífeyrisskuldbindingum. Það mun þó ekki duga þeim. Það er hins vegar ljóst að lækkun verðbólgunnar og hagstjórn á undanförnum árum hefur dregið úr óvissu hér á landi, bæði að því er varðar rekstur fyrirtækja og áætlanagerð heimilanna. Fyrirtæki fara fremur út í meiri skuldsetningu á heimili vegna þess að þau eru betur undir það búin að skuldsetja sig til framtíðar.

Ég sagði áðan að hins vegar væri rétt að stíga til jarðar af varúð og hvetja til þess að fólk skuldsetji sig ekki mikið. Það hefur verið jákvætt að þátttaka bankanna á íbúðalánamarkaðnum hefur aukist. Það er hins vegar mikilvægt að bankarnir hugi vel að áhættustöðu sinni að því er varðar þessa nýju útlánastarfsemi, jafnframt um fjármögnun lánanna og arðsemi þeirrar lánastarfsemi. Fjármálaeftirlitið fylgist með þessu eins og kom fram í ræðu forstjóra þess fyrir nokkru síðan sem er mjög mikilvægt. Það er líka mjög mikilvægt fyrir einstaklinga að huga að heildardæminu, hugsa ekki um of um lága vexti, heldur horfa á greiðslubyrðina og fara ekki út í lántökur vegna einkaneyslu.



[10:42]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrir rétt tæpu ári hóf ég umræðu um mikla útlánaaukningu og vaxandi erlendar skuldir þjóðarbúsins. Til svara var þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson. Þá var mest til umræðu það mikla erlenda lánsfé sem bankarnir höfðu dælt inn í landið, m.a. til að fjármagna skuldsettar yfirtökur í atvinnulífinu, eignabreytingar í sjávarútvegi og fleira. 300 milljarðar í nýju erlendu lánsfé höfðu þá streymt inn í hagkerfið á undangengnu ári en á þessu ári hafa bankarnir snúið sér að heimilunum af auknum krafti.

Skuldir bæði fyrirtækja og heimila á Íslandi eru með því mesta sem þekkist í heiminum og skuldir þjóðarbúsins í heild út á við eru ískyggilega miklar. Þær þarf að greiða með einum eða öðrum hætti, hæstv. forsætisráðherra, og þó að gagnlegt sé að leita skýringa á þessum skuldum eru þær samt til staðar. Skuldirnar hverfa ekki þó að menn skilji af hvaða rótum þær eru sprottnar. Þær þarf að borga samt. Mér finnast hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn hafa mikla tilhneigingu til að reyna að fegra þetta ástand fyrir sér. Það er talað um góðkynja viðskiptahalla og annað rugl af því tagi.

Viðskiptahalli upp á 500 milljarða frá og með árinu í ár og til og með 2010 er gríðarlegt vandamál þegar hann bætist ofan á þær miklu skuldir sem fyrir eru. Í niðurlagsorðum skýrslu BSRB um þessi skuldamál segir, og ég held að okkur sé hollt að hafa það í huga:

„Hækkandi skuldir hafa því leitt til þess að stór hluti launþega hefur nú þegar ráðstafað hluta af launum sínum fyrir fram og því eru kollsteypur í efnahagslífinu nú líklegri en áður ef vextir fara hækkandi að nýju og aðstæður breytast til hins verra í hagkerfinu.“

Þetta gildir um heimili, fyrirtæki og þjóðarbúið íslenska í heild út á við.



[10:45]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ungt par fer til náms og tekur námslán. Er það slæmt? Nei. Það er að fjárfesta í menntun sem er þjóðhagslega mjög gott. Síðan kemur þetta unga fólk til Íslands og kaupir sér íbúð og allt í einu vaxa skuldir heimilisins gífurlega. Er það slæmt, herra forseti? Nei. Það er gott vegna þess að eignin er á móti, það stendur eign á móti. Þetta fólk borgar í lífeyrissjóð alla ævi. Er það slæmt? Nei. Í lífeyrissjóðunum eiga Íslendingar rúmar 3 millj. að meðaltali, hvert einasta mannsbarn, litlu börnin líka. Það er meira en allar skuldir heimilanna sem er í lífeyrissjóðunum. Svo á fólk hlutabréf og lausafé þannig að staðan er ekkert slæm. Þetta er ekki slæmt þegar maður lítur á allar þessar eignir sem standa á móti. Þessar eignir hafa hækkað sem aldrei fyrr. Hækkun á íbúðarhúsnæði, hlutabréfum o.s.frv. geta menn aftur á móti sett spurningarmerki við.

Herra forseti. Við þurfum samt að gæta varúðar og fólk almennt þarf að gera það. Menn þurfa að átta sig á því hvað lántaka er. Lántaka er ekkert annað en ráðstöfun á framtíðartekjum viðkomandi einstaklings og hann hefur ekki nema takmarkaðar framtíðartekjur, sérstaklega ef hann er kominn á efri ár. Þetta þarf hver einasti einstaklingur að athuga. Og það er einstaklingurinn sem ég treysti til að athuga þetta. Ég held að stjórnmálamenn eigi ekki að hafa vit fyrir fólki í þessu.

Það er alveg á hreinu að mjög margir hafa tekið kollsteypu og farið offari í því að taka lán. Það sýna árangurslaus fjárnám, þau eru allt of mikil, og ég vara fólk við því núna að taka þessi ódýru lán nema til þess að fjárfesta í eignum sem hækka. Ekki t.d. í bílum, utanlandsferðum eða slíku.



[10:47]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrir að taka þetta mál til umræðu. Það mikla framboð sem fólkinu í landinu stendur nú til boða af lánsfé mun að líkum enn þá auka skuldsetningu heimilanna. Þeir möguleikar sem nú eru til upp á 90% eða allt að 100% fjármögnun íbúðarkaupa gera jafnframt kröfu til þess að fólk og lánastofnanir vandi mjög til allra áætlanagerða um greiðslu afborgana.

Lítið má út af bera í áætlunum um þjóðarhag svo að verðtryggð lán verði ekki venjulegum launþegum þungur baggi að bera og borga áratugi inn í framtíðina. Menn eru með langtímalánum að veðsetja lífskjör sín og greiðslubyrði í óvissu um hvað framtíðin beri í skauti sér. Greiningardeild Landsbankans telur að greiðslubyrði af lánum til heimilanna í landinu séu að jafnaði 20–25% af ráðstöfunartekjum þeirra. Þessa greiðslubyrði telja þeir að sjálfsagt megi lækka niður fyrir 20% af ráðstöfunartekjum með endurfjármögnun og nýjum lengri lánum.

Eins og áður sagði verður mikil skuldsetning ávallt varasöm. Fólkið og fyrirtækin í landinu eru nú þegar mjög skuldsett og eins og horfir um viðskiptahalla á næstu árum má lítið út af bera. Hátt verð á stóriðjuframleiðslu getur breyst og jafnan hefur verið erfitt að spá um verðþróun á þeirri vöru sem og sjávarafurðum okkar. Olíuverðið og framleiðslan eru með slíkri óvissu að spár á þeim markaði hafa nánast ekkert gildi. Þótt fasteignaverð hér á landi, sérstaklega á suðvesturhorninu, hafi hækkað nánast stöðugt undanfarin ár eru dæmi um allt aðra þróun, m.a. frá nágrannalöndum okkar. Varfærni er þess vegna lykilorð við núverandi aðstæður og brýnt er að stjórnvöld og við sem erum í stjórnmálum hvetjum ungt fólk sérstaklega til aðhalds og sparnaðar.



[10:49]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er staðreynd að skuldir heimila á Íslandi eru með því mesta sem þekkist í heiminum. Skuldir nema 180% af ráðstöfunartekjum. Þetta er hættulegt mark. Við lifum í eyðsluhvetjandi þjóðfélagi þar sem lífsgæðakapphlaupið er í algleymingi og aðgengi að lánsfé er nánast óheft. Lánastofnanir eru sífellt að auglýsa vöru sína sem er peningur á kostakjörum, eftir því sem helst má skilja, og síðan þarf ekki að hafa áhyggjur af því að greiða hann til baka. Þjónustufulltrúi þinn í bankanum sér um það.

Ótrúlega miklar yfirdráttarskuldir sýna svo að ekki verður um villst hvernig hin mikla umframeyðsla er fjármögnuð. Yfirdráttarlán einstaklinga sem liggja einhvers staðar kringum 60 milljarða kr. segja allt sem segja þarf um þær ógöngur sem margir einstaklingar og heimili eru lent í. Nýjustu tilboðin á lánamarkaði um allt að 100% lán til íbúðakaupa eru síðan nýjasta varan sem skuldurum stendur til boða. Ekkert mál. Kaupið það sem ykkur langar í, við fjármögnum og þú borgar seinna.

Hin mikla hækkun íbúðaverðs í kjölfar þessara nýju lána sýnir síðan hvernig aukið magn peninga í umferð skrúfar upp verð og eftir standa íbúðakaupendur með hærri skuldir en áður fyrir sömu vöru. Ríkið fitnar sem aldrei fyrr með því að skattleggja þetta allt saman í formi stimpilgjalda sem greiða þarf af öllu saman.

Mikill fjöldi aðfararbeiðna og fjárnáms hjá einstaklingum sýnir að það getur verið hált á lánasvellinu og nauðsynlegt að umgangast gylliboð lánastofnana af varúð. Í þenslu eins og nú er er hætta á að verðbólgan fari af stað. Það munar um hvert prósent sem skuldir hækka við verðbólguna. Heimilin í landinu eiga mikið undir stöðugleika í efnahagsmálum. Það stendur því upp á ríkisstjórnina að fara varlega og draga eins og hægt er úr hækkun ýmissa gjalda sem hún hefur með að gera. Það hefur hún ekki gert undanfarna daga.



[10:51]
Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Það kemur auðvitað ekkert á óvart að hv. stjórnarandstaða dregur hér upp sem dekksta mynd af stöðunni og að málflutningurinn er nokkuð einhliða. Staðan er sú að skuldastaðan er há en það þarf ekki endilega að þýða að efnahagslífið standi höllum fæti. Við ættum frekar að skoða ástæður þess að tölurnar eru eins og þær eru. Hver skyldi sú ástæða vera? Jú, hún er sú að staða efnahagsmála hér á landi er mjög traust. Hagstjórn síðustu ára hefur leitt til meiri stöðugleika en lengi hefur þekkst í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur hefur aukist um 40% frá árinu 1995 og stefnir í 55% aukningu í lok kjörtímabils. Þessi þróun er einstök þótt víða sé leitað.

Þessi langvarandi stöðugleiki hefur að sjálfsögðu þau áhrif að fyrirtæki og heimili lifa ekki í óvissu um næstu ár. Fyrirtæki sem og heimili eru því betur í stakk búin til að gera áætlanir til framtíðar og skuldsetja sig. Það kom t.d. fram í fjölmiðlum í síðustu viku að sjávarútvegurinn leið töluvert fyrir það fjárhagslega í síðustu kosningabaráttu að mikil óvissa var uppi um framhaldið vegna þess að stefna flokkanna er ólík í sjávarútvegsmálum. Það var því mikill léttir fyrir útveginn að stjórnarmynstrið skyldi haldast óbreytt. Þetta er dæmi um það hvað óstöðugleiki getur gert.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að við stöldrum við og skoðum þróunina. Við eigum að hvetja til varfærni og ég tek undir aðvaranir hæstv. forsætisráðherra vegna neyslulána. Það er mjög mikilvægt að við myndum eignir á móti skuldunum. Við verðum þó að líta á heildarmyndina og passa okkur á því að mála ekki skrattann á vegginn þó að okkur bregði við tölurnar. Fyrirtækin í landinu standa í öflugri útrás sem er jákvæð þróun. Hún kostar mikið og eflir mjög fjármálakerfið hér heima.



[10:53]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum alvarlega skuldasöfnun þjóðarbúsins, heimila og fyrirtækja. Það er rétt að velta því fyrir sér hvað hefur verið að gerast undanfarið varðandi lántökur heimilanna en lántökur í erlendum gjaldmiðlum hafa farið mjög vaxandi, reyndar gríðarlega vaxandi á síðustu mánuðum.

Skuldir heimilanna í erlendri mynt hafa nær tvöfaldast frá því í júní en þá voru þær 10.643 millj. kr. en í september voru þær komnar í 16 milljarða og í október í 23,5 milljarða, þ.e. á milli september og október hækka erlendar skuldir heimilanna um 7 milljarða kr. og tvöfaldast á fjögurra mánaða tímabili.

Hvað mundi gerast ef gengið lækkaði og íslenska krónan veiktist á ný? Við búum nú við hæsta gengi íslensku krónunnar í meira en áratug og lægstu erlendu vexti sem hafa gilt um langt árabil. Við vitum að það mun ekki standa áfram. Hvað gerist ef íslenska krónan veikist um 10, 20 eða 30% sem fjármálasérfræðingar segja að muni gerast á næstu mánuðum eða missirum? Þetta mun gerast samhliða því að erlendar vaxtahækkanir munu koma líka yfir þannig að greiðslubyrði heimilanna vegna þessara erlendu lána getur vaxið um tugi prósentna á nokkrum mánuðum.

Með vaxtabreytingu úr 2 til 4% og gengisbreytingu um 10% mun mánaðarleg greiðslubyrði aukast um meira en 50%. Ég tel, herra forseti, að hér sé um alvarlega hluti að ræða og maður veltir fyrir sér hvernig ráðgjöf bankanna sem hafa nánast fjárhæð heimilanna í höndum sér er háttað. Auðvitað firra bankarnir sig ábyrgð með því að láta heimilin taka erlend lán. En hvernig er sú ábyrgð sem þeir eru farnir að veita?



[10:56]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson byggði framsöguræðu sína mjög á nýlegri skýrslu BSRB um skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Það verður hins vegar að segja að sú skýrsla er á margan hátt mun jákvæðari en ráða mátti af ræðu hans sem stafar af því að í þeirri skýrslu eru dregnir fram fjölmargir þættir sem geta skýrt skuldastöðuna í samanburði við önnur lönd og hæstv. forsætisráðherra hefur ágætlega gert grein fyrir.

Það eru nokkrir mikilvægir þættir í þessu sambandi. Skuldir hins opinbera hafa dregist saman á undanförnum árum. Ríkið hefur í stórum stíl greitt upp skuldir sínar þótt sveitarfélögin hafi vissulega aukið þær. Frjálsræði á fjármagnsmarkaði veldur miklu um breytingarnar sem orðið hafa og þær hafa auðveldað mjög aðgang að erlendu lánsfjármagni sem í heildina er auðvitað góð þróun.

Það er hins vegar rétt að of mikil skuldsetning, skuldsetning umfram getu, getur valdið hættu og miklar erlendar skuldir gera þjóðarbúið viðkvæmara fyrir sveiflum. Íslendingar allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, verða þess vegna að gæta sín í lántökum og þurfa auðvitað að auka sparnað. Ég held að við getum öll verið sammála um það.

Það er ekki nóg að gera eins og stjórnarandstaðan gerir hér, að koma í ræðustól Alþingis og hafa óskaplegar áhyggjur. Menn verða líka að segja aðeins hvað þeir vilja gera.

Ég spyr: Vill stjórnarandstaðan hverfa aftur til hafta og miðstýringar á fjármálamarkaði? Vilja samfylkingarmenn sem töluðu hvað hæst um Evrópuvexti fyrir síðustu kosningar lýsa áhyggjum sínum í dag af því að vaxtastig til íbúðakaupenda hefur lækkað? Vilja menn bregðast við aukinni skuldasöfnun með því að hækka skatta á sparnað? Vinstri grænir hafa lagt fram tillögu um það í þinginu. Vilja stjórnarandstæðingar hjálpa ríkisstjórnarflokkunum að hemja vöxt hins opinbera í stað þess að koma alltaf með nýjar og nýjar útgjaldatillögur? Vilja menn í stjórnarandstöðunni hjálpa ríkisstjórninni að lækka skatta þannig að svigrúm heimilanna til að borga niður skuldir aukist?



[10:59]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Skuldir heimilanna í dag eru 800 milljarðar kr. og eigendur þeirra skulda eru að hálfu leyti Íbúðalánasjóður með 400 milljarða, fjórðunginn eiga bankarnir, 210 milljarða ef ég man rétt, og afgangurinn liggur að mestu leyti hjá lífeyrissjóðunum. Þróunin á næstu missirum verður með þeim hætti að hlutfall banka eykst upp í líklega 50% af kostnaði Íbúðalánasjóðs og skuldir heimilanna munu aukast.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, það eru eðlilegar skýringar að baki meginþorra skuldanna, húsnæði og svo má lengi telja. Því er hins vegar ekki að neita að íslensk heimili velta í dag á undan sér 60–80 milljörðum kr. í formi yfirdráttarheimilda, kortaskulda, skammtímalána o.s.frv. Þar liggur vandinn, sá alvarlegi vandi.

Það sem hefur vantað á og Frjálslyndi flokkurinn lagt áherslu á er að verkalýðsfélög í þessu landi, sveitarfélög í þessu landi og ríkisvaldið í þessu landi beini af krafti og ákveðni aðvörunarorðum að heimilunum í landinu. Það vantar upplýsingar til handa íslenskum heimilum til að auka sjálfstæði þeirra á nýjum tímum, á nýrri öld. Öll þekkjum við það að kveikja á sjónvarpinu og sjá gylliboð bankanna. Við þekkjum auglýsingar frá ólíkum fjármálafyrirtækjum af ýmsu tagi og þau líta mörg hver afar vel út. Aðvörunarorðin verða að koma frá bæði verkalýðsfélögum, sveitarfélögum og ríkisvaldinu svo að fólk fari ekki fram úr sér á okkar hröðu og erfiðu tímum.



[11:01]
Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. málshefjanda að íslenska þjóðarbúið skuldar nú 2.400 milljarða kr., þ.e. þrefalda landsframleiðslu. 1.200 milljarðar af þessu eru í erlendum skuldum.

Hæstv. ráðherrar tala um aukinn hagvöxt undanfarinna ára. Það má segja að hann hafi að mestu leyti verið keyrður áfram af aukinni einkaneyslu. En á hvaða forsendum hefur vaxandi neysla almennings byggst? Að einhverju leyti má rekja hana til kaupmáttaraukningar undanfarinna ára en vöxtur neyslu hefur verið mun meiri en vöxtur kaupmáttar. Hraðari vöxtur neyslu en kaupmáttar bendir til þess að heimilin séu í auknum mæli að fjármagna framtíðarneyslu sína með lántökum.

Hér hefur komið fram að íslensk heimili eru mjög skuldsett. Talið er að skuldir þeirra séu um 200% af ráðstöfunartekjunum og hafi tvöfaldast sl. fimm ár. Skuldir heimilanna í erlendum myntum eru sérstakt áhyggjuefni. Hér hefur komið fram að þær séu komnar í 27 milljarða kr. og hafi hækkað um 200% frá sama tíma í fyrra.

Virðulegi forseti. Hvað gerist gagnvart þessum erlendu skuldum þjóðarbúsins og heimilanna ef gengið fellur um 15–20%, bandarískur dollari kostar í kringum 80 kr. og erlendir lánardrottnar hækka vexti sína um 1–1,5%? Getur það verið að í þessu dæmi sem ég er hér að taka hækki greiðslur okkar til erlendra lánardrottna um allt að 20 milljarða kr. á ári vegna þessa?

Ef þessi leikur minn að tölum er réttur skapast hér, ég ætla að leyfa mér að segja, bara erfitt ástand hjá okkur Íslendingum. Ég ætla ekki að kveða sterkar að.

Herra forseti. Skuldasöfnun heimilanna og þjóðarbúsins í heild sinni er verulegt áhyggjuefni, svo og sofandaháttur og sjálfumgleðiháttur ráðherra í núverandi ríkisstjórn gagnvart þessu.



[11:03]
Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrir aldarfjórðungi var tekin upp verðtrygging fjárskuldbindinga á Íslandi sem leiddi til þess að skömmtunarstjórar lánsfjár þurftu að líta á lántakendur sem viðskiptamenn. Þessi bylting gjörbreytti íslensku samfélagi. Hún lagði grunninn að miklu frelsi í viðskiptum manna en í henni fólst líka að lántakendur og lánveitendur þurftu að taka ábyrgð á gjörðum sínum með öðrum hætti en áður var.

Í ljósi 25 ára reynslu og þegar rætt er um skuldastöðu heimilanna á Íslandi er vert að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi eins og forsætisráðherra benti á veldur aldurssamsetning þjóðarinnar því að það er eðlilegt að skuldir heimilanna séu hærri hér en hjá nágrannaþjóðunum.

Í öðru lagi ríkir hér á landi samstaða um sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum.

Í þriðja lagi má nefna gríðarlega uppbyggingu húsnæðis síðustu 100 árin, úr nánast engu í einhverja mestu fermetratölu á mann í heiminum. Þetta tiltölulega nýja húsnæði er því eðlilega veðsett fyrir háar fjárhæðir.

Í fjórða lagi má svo nefna landfræðilega stöðu landsins sem leiðir til þess að húsnæðið þarf að vera dýrara og stærra þar sem við eyðum meiri tíma innan dyra en annars staðar þekkist.

Herra forseti. Lækkun verðbólgunnar og hagstjórn síðustu ára hefur leitt til meiri stöðugleika en lengi hefur þekkst í íslensku viðskiptalífi. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar munu einnig leiða til aukins kaupmáttar almennings og um leið gera þær heimilum auðveldara að standa undir afborgunum lána. Þótt ég fagni frelsinu og auknum möguleikum sem felast í hagsældinni bið ég menn að gleyma sér ekki. Í þessu sambandi fannst mér það bæði ánægjulegt og ábyrgt þegar Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, lét hafa eftir sér varnaðarorð þegar bankinn tilkynnti að hann hygðist bjóða upp á 100% lán til húsnæðiskaupa.

Ég undrast líka að þessi varnaðarorð eða áminning skuli ekki hafa verið meira áberandi. Þetta segi ég vegna þess að þegar við, þ.e. mín kynslóð, veðsetjum eignir okkar og tökum há lán til að eignast húsnæði haustið 2004 erum við líka að ráðstafa tíma okkar og möguleikum í lífinu, í sumum tilvikum allan okkar starfstíma á vinnumarkaðnum.

Ég fagna breytingum sem orðnar eru á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar farsællar efnahagsstjórnar en geri orð bankastjórans að mínum og hvet lántakendur til að passa vel upp á frelsi sitt svo að það snúist ekki upp í andhverfu sína.



[11:05]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það var hins vegar lítið sem ekkert að græða á svörum hans. Stjórnmálamenn eiga að koma með skýra leiðsögn og framtíðarsýn fyrir almenning. Hæstv. forsætisráðherra veitti enga slíka framtíðarsýn í svari sínu. Hann ypptir hins vegar öxlum og vísar öllu á fólkið í landinu.

Árangurslaus fjárnám einstaklinga hafa verið 17 þús. sl. fjögur ár, 17 þús., herra forseti. Ríkisstjórnin er hins vegar með viðhorf afskiptaleysis eins og kemur fram í afstöðunni gagnvart skuldastöðu almennings. Hv. stjórnarþingmenn kölluðu eftir hvað þeir gætu beinlínis gert. Ríkisstjórnin getur gripið til margra aðgerða við að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn aukinni skuldasöfnun í samfélaginu. Í fyrsta lagi gæti ríkisstjórnin horfst í augu við vandann og viðurkennt hann.

Í öðru lagi gæti ríkisstjórnin tekið mark á þeim aðvörunarmerkjum í efnahagslífinu sem hlutlausir aðilar eru sífellt að benda henni á.

Í þriðja lagi gæti ríkisstjórnin lækkað matarskattinn eins og við í Samfylkingunni viljum gera. Það lækkar neysluverðsvísitölu og þar af leiðandi afborganir af lánum.

Í fjórða lagi gæti ríkisstjórnin lagt fram trúverðug fjárlög sem standast þegar á hólminn er komið.

Í fimmta lagi gæti ríkisstjórnin leyst sveitarfélögin úr spennitreyjunni sinni.

Í sjötta lagi má benda á ýmsar sérhæfðar leiðir, svo sem greiðsluaðlögun skuldugra einstaklinga.

Hæstv. forsætisráðherra og fleiri bentu á það að skuldasöfnun væri í sjálfu sér ekki vandamál þar sem eignir hefðu aukist jafnmikið á móti. Það er hins vegar ekki rétt. Seðlabankinn hefur bent á það að t.d. á síðasta ári hefur skuldamyndun fyrirtækja ekki nema að litlu leyti tengst fjármunamyndun fyrirtækjanna. Ég held að það sé alveg augljóst að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur beðið skipbrot og það hörmulega er að hún tekur með sér í fallinu þúsundir heimila sem eru að sligast undan lánum sínum.

Ég legg því til, herra forseti, að við snúum þessari þróun við og byggjum upp heilbrigt efnahagslíf byggt á minni lántökum.



[11:07]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið mjög góð og ég tel að hún hafi fært okkur heim sanninn um það að stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum er rétt. Hér hefur m.a. komið fram að það megi reikna með því að heimilið greiði jafnvel um það bil 20% af ráðstöfunartekjum sínum til afborgana lána og vaxta. Hvaða fólk skyldi þetta vera? Þetta er unga fólkið, fólkið með millitekjurnar og ríkisstjórnin er einmitt að lækka skattbyrði þessa fólks.

Stjórnarandstaðan hefur gert mikið úr því undanfarna daga að þetta sé rangt en ég tel að stjórnarandstaðan hafi sannað með þessum umræðum í dag að við erum þarna einmitt á réttri leið. Við erum að lækka skattbyrði heimilanna, skattbyrði unga fólksins og fólksins með millitekjurnar, fólksins sem er með miklar skuldir.

Ég tel að það sé afskaplega jákvætt hvað við eigum orðið öflugan fjármálamarkað, fjármálamarkað sem getur lánað eðlileg húsnæðislán, fjármálamarkað sem er ekki lengur að lána ungu fólki peninga til íbúðakaupa á yfirdráttarlánum, víxlum og öðrum slíkum lánum sem við þekkjum úr fortíðinni.

Ég tel það líka mjög jákvætt að við eigum banka og fjármálakerfi sem getur stutt við heilbrigða uppbyggingu íslensks atvinnulífs og útrás íslensks atvinnulífs erlendis. Ef við ættum ekki þessar traustu fjármálastofnanir væri engin útrás meðal Íslendinga í dag. Þetta er grundvöllur hagvaxtar. Á sama tíma eigum við að sjálfsögðu að hvetja til varúðar og hvetja einstaklinga til að fara varlega en við hljótum að gleðjast yfir því að fjármálamarkaðurinn skuli vera jafnsterkur og hann er.