131. löggjafarþing — 46. fundur
 2. desember 2004.
Húsnæðismál, 2. umræða.
stjfrv., 220. mál (hámark lánshlutfalls). — Þskj. 223, nál. 499, brtt. 500.

[12:07]
Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Þetta mál er að ég tel nokkuð þekkt og meginefni frumvarpsins er að veita leyfi til að hækka lán Íbúðalánasjóðs í allt að 90% af matsverði eigna. Félagsmálaráðherra verður áfram heimilt að ákveða hámarkslán með reglugerð en slíka heimild hefur hann haft frá setningu laga nr. 44/1998.

Nefndin gerir tillögur um ákveðnar breytingar á frumvarpinu sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

1. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 4. gr. en þar segir að íbúðabréf skuli gefin út sem framseljanleg rafrænt eignaskráð verðbréf. Hér er aðeins um tæknilegt atriði að ræða sem þó skiptir máli til að eyða hugsanlegri óvissu við framkvæmd útboða íbúðabréfa. Þörf er á þessari breytingu til að taka skýrt fram að markmið ákvæðisins er að tryggja að íbúðabréf séu rafbréf, óháð því hvort þau eru skráð í Verðbréfaskráningu Íslands eða hjá öðrum verðbréfaskráningum, svo sem hjá Euroclear, eins og nú er.

2. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 5. gr. Samkvæmt henni getur ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til að greiða upp lán eða greiða aukaafborganir gegn því að greiða lægri vexti.

Með þessari breytingu getur félagsmálaráðherra heimilað Íbúðalánasjóði sama svigrúm við lánveitingar og aðrar fjármálastofnanir njóta samkvæmt almennum lögum á hverjum tíma, nú lög um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum. Nokkur óvissa ríkir um heimildir fjármálastofnana í þessum efnum og hefur Samkeppnisstofnun málið til skoðunar. Þar til niðurstaða í því máli liggur fyrir telur nefndin rétt að beðið verði með setningu reglugerðar á grundvelli þessa ákvæðis. Jafnframt vill nefndin taka fram að augljóst er að efni slíkrar reglugerðar hlýtur að taka mið af niðurstöðu Samkeppnisstofnunar í málinu.

3. Lögð er til breyting á 5. gr., sem verður 7. gr., þess efnis að vextir af lánum til leiguíbúða geti verið fastir eða breytilegir. Fastir vextir munu ákveðast á sama hátt og vextir ÍLS-veðbréfa en Íbúðalánasjóður skal ákveða breytilega vexti við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert. Breyting þessi er til samræmis við nýja 5. gr. frumvarpsins. Lán til leiguíbúða eru ekki háð ákvæðum laga um neytendalán, nr. 121/1994, en rétt þykir að ákvörðun um þóknun fyrir uppgreiðslu láns verði bundin í reglugerð á sama hátt og mælt er fyrir um í 5. gr.

4. Lögð er til breyting á 1. mgr. 9. gr. og er þar lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Jóhanna Sigurðardóttir, Gunnar Örlygsson og Katrín Júlíusdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara um einstaka þætti málsins, t.d. uppgreiðsluálag, og leggja einnig megináherslu á hækkun hámarkslánsfjárhæðar. Áskilur minni hlutinn sér rétt í því sambandi til að styðja og flytja breytingartillögur.

Álfheiður Ingadóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu en tekur undir sjónarmið minni hlutans.

Eins og áður sagði er meginefni frumvarpsins að hækka lán Íbúðalánasjóðs í 90% af matsverði eignar af hóflegu íbúðarhúsnæði og er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í því máli. Frá því hins vegar að þessi fyrirætlun var kynnt hefur orðið afskaplega mikil breyting á íslenskum íbúðalánamarkaði eins og menn þekkja og stærsta breytingin er auðvitað sú að nú hafa bankarnir loksins tekið virkan þátt á þessum markaði og lána núna til íbúðakaupa. Sá sem hér stendur segir loksins því að þetta er eitthvað sem ég hefði viljað sjá gerast fyrr. Þetta er auðvitað fyrst og fremst afleiðing af stærð og styrk þessara fjármálastofnana því sem betur fer, og það er ánægjulegt ekki bara út frá þessari forsendu heldur mjög mörgum öðrum, eigum við stórar og öflugar fjármálastofnanir sem hafa styrkst á undanförnum árum og geta boðið viðskiptavinum sínum núna íbúðalán á mun hagstæðari kjörum en sést hafa áður og á sama hátt ýta þau undir útrás íslenskra fyrirtækja til annarra landa eins og oftsinnis hefur verið nefnt.

Hins vegar ber að hafa í huga eins og þingheimur sem og þjóðin þekkir að fasteignaverð hefur hækkað mjög á undanförnum missirum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu en það er hins vegar ekki alfarið bundið við þetta svæði. Þar hefur margt komið til. Menn þekkja umræðuna um lóðaskort í stærsta sveitarfélagi landsins sem hefur verið ein stærsta ástæðan fyrir því að fasteignaverð hefur hækkað en nú hefur svo sannarlega líka komið til hækkun vegna þess að menn hafa aukið fjármagn á hagstæðari kjörum á þessum markaði en áður hefur verið.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja, og ég vona að þeir þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu taki undir, að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að fasteignaverð hækki endalaust. Það skiptir máli að það komi frá okkur sem og öðrum þeim aðilum sem um þetta fjalla. Ef eitthvað er alveg öruggt er það það að fasteignaverð mun ekki hækka með sama hraða og það hefur gert á undanförnum mánuðum og missirum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er einfaldlega sú að ef menn gera ráð fyrir því, hvort sem það eru einstaklingar sem taka lánin eða þeir aðilar sem halda utan um hagstjórnina eða koma að öðrum ákvörðunum, taka þeir ekki ákvarðanir á réttum forsendum og einhvern tíma verður skellur. Við þekkjum dæmi um lækkun fasteignaverðs í þeim löndum sem við berum okkur saman við og eru í nefndarálitinu nokkur dæmin tekin en sú upptalning er síður en svo endanleg eða fullnægjandi. Með leyfi forseta vil ég þó vitna í nokkur dæmi.

Á árunum 1986–1993 lækkaði fasteignaverð í Noregi um 48%. Á árunum 1989–1993 lækkaði fasteignaverð í Finnlandi um 50% og á árunum 1989–1993 lækkaði fasteignaverð í Bretlandi um 30%. Ef menn skoða þetta út frá þeim forsendum sem eru gefnar upp hjá OECD er meðatal af niðursveiflu fasteignaverðs í 29 tilfellum í ríkjum OECD 15–17% samkvæmt niðurstöðum eða þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá Seðlabankanum. Menn þurfa að hafa í huga, hvort sem um er að ræða 90% lán, ég tala nú ekki um 100% lán, að eðli málsins samkvæmt er engin eignamyndun eða mjög lítil, sérstaklega fyrstu árin. Eignamyndun á fasteignamarkaði hjá almenningi hefur fyrst og fremst legið í því — af því að skuldsetning hefur verið mikil, það er ekki nýtt — að fasteignaverð hefur hækkað. Ef þessar hækkanir stöðvast hins vegar, ég tala ekki um ef það snýst við og fasteignaverð lækkar, þýðir það að hér verður um að ræða neikvæða eignamyndun.

Nú hafa viðbótarlán verið til staðar, 90% viðbótarlán, og þess eru dæmi — menn þekkja það sem að þeim málum koma — að einstaka aðilar hafi farið flatt á þeim. Ef þeir hefðu þurft að selja íbúðina sína tiltölulega skömmu eftir kaup hefðu þeir hreint og klárt verið í mínus.

Þess vegna skiptir máli að allir þeir aðilar, hvort sem það eru þeir sem taka lánin, þeir sem veita þau eða þeir sem ræða þau, séu meðvitaðir um þetta. Það eru auðvitað misjafnar aðstæður hjá hverjum og einum, og auðvitað er íslenskri þjóð og því fólki sem kaupir sér húsnæði hér á landi treystandi til þess að taka ákvörðun út frá eigin forsendum. Hins vegar er mikilvægt að öllu sé haldið til haga og ég tel mjög mikilvægt að þingmenn geri það einnig.

Það kom fram í umræðum áðan um skuldir heimilanna hjá einum hv. þingmanni Framsóknarflokksins að viðkomandi þingmaður fagnaði varnaðarorðum bankastjóra Landsbankans, Sigurjóns Árnasonar, þegar hann tilkynnti að bankinn færi út í 100% lán. Þá fór hann akkúrat yfir það að það skipti máli fyrir einstaklinga og fjölskyldur að vera meðvituð um þessar staðreyndir og fara vel yfir stöðu sína áður en farið er út í kaup með slíkri lánsfjármögnun. Og ég fagna því þegar forsvarsmenn fjármálastofnana tala þannig. Ég er þess sannfærður að þeir aðilar sem að þessum málum starfa hjá þeim stofnunum, og þá er ég að tala um fjármálastofnanir almennt, hvort sem það er hjá Íbúðalánasjóði eða bönkum, upplýsi viðskiptavini sína um þær hættur sem eru til staðar.

Menn hafa mikið rætt, og hér var áðan utandagskrárumræða sem var í sjálfu sér mjög gott að fá, um skuldir heimilanna. Ég fagna slíkri umræðu og vil nota tækifærið, virðulegi forseti, í þessu sambandi og vekja athygli á þeirri skýrslu sem var gerð fyrir BSRB um skuldir íslenska þjóðarbúsins. Hún er greinargóð og tekur vel á þessu máli og ég hvet bæði þingmenn og aðra til að kynna sér hana. Hún er á heimasíðu BSRB. Þar er enn og aftur staðfest sem menn þekkja, að ríkissjóður hefur verið í fararbroddi við það að lækka skuldir og er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá samanburð skulda íslenska ríkisins við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Allir þingmenn hljóta að fagna þeim árangri sem náðst hefur og að sjá að þar er Ísland með þeim allra bestu.

Hins vegar hafa aukist skuldir hjá heimilunum og skýrsluhöfundar fara vel yfir það hverjar þær helstu ástæður eru að þeirra mati. Þar er t.d. nefndur ungur aldur þjóðarinnar og vitnað í það, svo að ég lesi nú beint úr úrdrætti skýrslunnar, með leyfi forseta, að í „skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2003 kemur meðal annars fram að sjóðurinn telji að um 60% af erlendum skuldum landsins megi rekja til ungs aldurs þjóðarinnar“. Munurinn á íslenskri þjóð og þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, sérstaklega Evrópuþjóðum og þá kannski þeim sem kenndar hafa verið við gömlu Evrópu eða Vestur-Evrópu, er hvað íslensk þjóð er mun yngri en þessar þjóðir.

Þá er einnig farið í það að lífeyriskerfið, okkar góða lífeyriskerfi, ýti undir skuldasöfnun. Það er með sjóðasöfnun sem hefur líka þá sérstöðu í samanburði við löndin sem ég nefndi áðan — er þess vegna staða okkar mun betri og er það mikið samkeppnisforskot — að þar telja skýrsluhöfundar þessa vörn, eignarréttindi sem felast í þessari sjóðasöfnun, mjög gott mál. Stærstan hluta skulda heimila má hins vegar rekja til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði samkvæmt skýrsluhöfundum, hvort sem litið er til Íslands eða annarra ríkja. Um 80% landsmanna búa í eigin húsnæði og það er eitt hæsta, ef ekki hæsta, hlutfall sjálfseignarhúsnæðis sem þekkist. Það er auðvitað mjög ánægjulegt. Í skýrslunni er rakið að íslenska skattkerfið hafi í rauninni hvetjandi áhrif á lántökur til húsnæðiskaupa og er þá verið að vísa í vaxtabótakerfið sem ég hef nú lýst yfir áður að við þyrftum að skoða gaumgæfilega, m.a. út frá þeim forsendum.

Aðalatriðið í þessu finnst mér þó vera að um þetta frumvarp er eftir því sem ég best veit ágætissátt í þinginu. Ég held að allir fagni þeirri breyttu stöðu sem er komin á húsnæðislánamarkaði. Það er ánægjulegt að sjá fleiri aðila en áður bjóða þjónustu hvað íbúðalán varðar og vonandi munum við sjá þessa stöðu verða hér til langs tíma. Ég efast svo sem ekkert um það, ég er þess sannfærður að bankarnir eru komnir til að vera.

Það sem snýr að okkur er hins vegar það lagaumhverfi sem Íbúðalánasjóður býr við. Eins og ég segi held ég að menn hafi farið ágætlega yfir það í nefndinni og það er ágætissátt um það, bæði meðal meiri og minni hluta. Ég vil hins vegar nota tækifærið hér og segja að við eigum, hvort sem það snýr að þessari lagasetningu eða í umræðum almennt, ekki að gera neitt, þingmenn, sem skapar þær aðstæður að ýta undir þenslu í samfélaginu. Það borgar sig frekar að stíga varlega til jarðar en fara af stað með miklu offorsi því að það er mikið í húfi. Ég vonast til þess og er þess sannfærður að hin mikla verðhækkunarbylgja sem hefur verið á fasteignum sé að ná hámarki og við náum fljótlega jafnvægi hvað það varðar. Við eigum ekki að fara út í neitt, löggjafinn frekar en aðrir aðilar, sem ýtir undir aðra þætti, þvert á móti ættum við að reyna að gera hvað við getum til að minnka þá þenslu sem hefur verið á markaðnum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég sagði er ágætissátt um þetta í félagsmálanefndinni og ég tel að við höfum farið vel yfir þetta þrátt fyrir að nefndin hafi tekið sér tiltölulega skamman tíma í þetta verkefni. Það var sátt um það í nefndinni að reyna að hraða þessu sem mest mátti vera. Án nokkurs vafa styrkir frumvarpið starfsemi Íbúðalánasjóð á þessum markaði og erum við á undanförnum mánuðum búin að gera ýmislegt til að styrkja sjóðinn til þess að hann geti náð fram þeim markmiðum sínum að veita íbúðakaupendum eins hagstæð lán og kostur er. Af þessu tilefni vísa ég í þá lagasetningu sem við fórum í á vormánuðum sem hefur án nokkurs vafa ýtt undir það að Íbúðalánasjóður hefur getað boðið viðskiptavinum sínum sem hagstæðust kjör. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að sjá til þess að íbúðakaupendum á Íslandi gefist kostur á að fá eins hagstæða fyrirgreiðslu við íbúðakaup og búa við eins góð skilyrði og mögulegt er hvað það varðar. Það liggur alveg fyrir að það umhverfi hefur breyst á undanförnum mánuðum mjög til hins betra og vonandi heldur sú þróun áfram.



[12:25]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að hlýða á ræðu þessa hv. þingmanns sem talaði hér áðan. Ég verð að segja að þeir sem hafa viljað stuðla að félagslegri uppbyggingu húsnæðis í landinu hljóta að hafa fagnað þessum nýja liðsmanni. Það er ekki langt síðan það var eitt af helstu baráttumálum Heimdallar og ýmissa samtaka sem hv. þingmaður hefur stutt í gegnum árin að leggja niður Íbúðalánasjóð. Hér kemur hv. þingmaður og, ja, ég segi nú ekki að hann sé að vinna til frelsisverðlauna Heimdallar með þessu en hann leggur hér fram tillögur sem styrkja undirstöður Íbúðalánasjóðs. Það er undrunarefni en ánægjuefni fyrir marga, og auðvitað er það gott þegar þingmenn sjá að sér.

Það sem mér þótti þó merkilegast við ræðu hv. þingmanns var sá stríði varúðartónn sem var í orðum hans gagnvart stöðunni í samfélaginu. Hv. þingmaður talaði hér langt mál og snjallt um þróun fasteignaverðs og í framhaldi af því sagði hann að það væri skylda okkar þingmanna allra að gera allt sem við gætum til að draga úr þenslunni í samfélaginu. Í framhaldi af því rifjaði hv. þingmaður upp að tekið hefði verið saman að í 29 tilvikum þar sem hefði verið niðursveifla á fasteignaverði hefði sú sveifla að meðaltali numið 15–20%. Klárlega var hv. þingmaður að reisa flagg varúðar gagnvart þeirri þróun sem er á Íslandi.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ekki eins svartsýnn og hv. þingmaður varðandi stöðuna í samfélaginu. Hv. þingmaður talar með mjög neikvæðum hætti um hugsanlegar afleiðingar af þróuninni á íslenskum fasteignamarkaði og er augljóslega að lýsa því yfir að það gæti orðið bankakreppa. Eða lendum við ekki í bankakreppu, herra forseti, ef þessi niðursveifla á fasteignaverði sem hv. þm. var að lýsa í öðrum löndum verður líka hér?



[12:27]
Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fagna menn nýjum liðsmönnum og ég fagna því. Ef ég hef skilið hv. þm. Össur Skarphéðinsson rétt sem er fyrrum ritstjóri Þjóðviljans og barðist hér fyrir sósíalisma og þjóðfrelsi, ef ég man rétt, og þjóðnýtingu og mjög harkalega gegn eignarréttinum, er hann kominn í lið með okkur sem viljum ýta undir séreignastefnu í húsnæðismálum. Ef svo er er það auðvitað mjög ánægjuleg þróun, gott að taka undir hana og ég fagna henni sérstaklega.

Hvað varðar þróun á markaðnum og bankakreppu var það alveg skilgreint markmið mitt hér, og ég held að það skipti máli fyrir okkur þingmenn, að fara yfir þetta mál og vekja athygli fólks á því hvað það þýðir þegar menn taka 90 eða 100% lán. Kannski hef ég gert það með svo hressilegum hætti að ég var búinn að hræða hv. þingmanninn svo að hann sér fyrir sér bankakreppu. Ég sá ekkert slíkt fyrir mér, alls ekki. Ég var fyrst og fremst að vísa í lántakendur, að þeir viti af þessu. Þegar þingmenn tala um þessa hluti, og ég er kannski frekast að vísa til þess þegar menn kalla hér upp að þeir vilji fá 90% lán upp í 20–25 millj. og annað slíkt, eru viðkomandi aðilar ekki að gera neitt annað en að ýta undir hækkun fasteignaverðs og þenslu. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því ef þetta frumvarp nær fram að ganga að slíkt verði uppi og ég sé enga bankakreppu fyrir. (Forseti hringir.) Ég held hins vegar að við eigum iðulega að tala varlega um mál sem þessi.



[12:29]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þingmanns vakti eftirtekt mína vegna þess að hann kemur hér dag eftir dag og hefur sífellt nýja skoðun á hverjum degi. Hv. þm. talaði um nauðsyn þess að draga úr þenslu og að þingmönnum bæri skylda til þess að grípa til aðgerða sem drægju úr þenslu. Hann talaði fyrir nokkrum dögum um nauðsyn þess að lækka skatta í þensluástandi sem samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga er óvarlegt vegna þess að það ýtir undir þenslu. Það rekur sig hvað á annars horn í máli hv. þingmanns. Látum það nú vera.

Ég er ekki jafnsvartsýnn og hv. þingmaður um það að þessi þróun á fasteignamarkaði sem Íbúðalánasjóður hefur ýtt af stað leiði til einhvers konar kreppu eða niðursveiflu í verði fasteigna um 15–20%. Menn verða að gæta að því hvað þeir segja, menn sem eru í talsmennsku og forustu eins og hv. þingmaður eiga ekki að koma með svona dómadagsspár. Eða hvað vakti fyrir þingmanninum með því að rekja með svona svartsýnum hætti þá þróun sem hefur verið erlendis? Tæpast getur það verið annað en að nota það til þess að slá varnagla hér.

Að öðru leyti, herra forseti, hefur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson oft og mörgum sinnum talað gegn Íbúðalánasjóði. Hann hefur talað um að það eigi að leggja sjóðinn af. Þau samtök sem hann hefur tengst helst, Samband ungra sjálfstæðismanna og Heimdallur, hafa talað um að það eigi að leggja af Íbúðalánasjóð. Nú er hv. þingmaður hér með tillögur sem styrkja Íbúðalánasjóð. Hv. þingmaður hefur algjörlega snúist eins og skopparakringla, hann er farinn að styðja það sem hann vildi afnema áður. En ég skil af hverju. Hv. þingmaður sér þessa þróun fyrir, hann lýsir hér mjög uggvænlegri þróun í húsnæðismálum og ef hún gengur eftir þurfum við á stofnun eins og Íbúðalánasjóði að halda til að hreinsa upp eftir hv. þingmann og nóta hans.



[12:32]
Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég taki aftur fögnuð minn yfir því að fyrrum ritstjóri Þjóðviljans hafi eitthvað skipt um skoðun. Allir sem hlustuðu á niðurlag ræðu hans heyrðu að komin voru gömul og góð leiðaraskrif úr Þjóðviljanum sáluga þar sem allt var að fara fjandans til (Gripið fram í.) ef frelsinu væri veittur forgangur. (ÖS: Ég var einmitt að segja …) Allt væri að fara fjandans til og þess vegna þyrftu menn að hafa opinberar stofnanir, virðulegur forseti, til þess að bjarga.

Ég hef ekkert skipt um skoðun í húsnæðismálum. Ég tel að við getum alveg náð þeim markmiðum sem við náum fram með Íbúðalánasjóði með öðrum hætti. Það hefur ekkert breyst hvað það varðar. Það vita allir, og veit allur þingheimur. Ég er hins vegar hér sem varaformaður félagsmálanefndar að koma í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar sem er auðvitað málamiðlun á milli aðila, bæði innan flokka og milli flokka. Það er ekkert leyndarmál. (Gripið fram í.)

Hins vegar annaðhvort skilur hv. þm. Össur Skarphéðinsson ekki þá hluti sem ég var að fara hér yfir eða hann hefur ekki hlustað. Ég hélt því ekki fram úr þessum stól að það sem ég var að fara yfir hér mundi ýta undir lækkun um 15–17%, það var ekki það sem ég sagði. Ef hv. þingmaður hefði hlustað ætti honum að vera það algjörlega ljóst. Það sem ég hins vegar vara við, svo að það sé alveg kristaltært, er að menn tali með þeim hætti sem þeir hafa gert. Menn eiga ekki að gera það. Þegar stjórnarandstaðan kemur hér upp og hvetur til þess að íbúðalán fari í 20–25 millj. er hún að ýta undir verðhækkanir á þessum markaði. Það er algjörlega kristaltært og öllum ljóst.

Sú gamla tugga, nútímaútfærsla vinstri mannsins sem berst gegn skattalækkun fyrir venjulegt fólk, að þær ýti undir þenslu stenst enga skoðun. Ef stjórnarandstaðan vill í alvöru styrkja fjölskyldurnar í landinu lækkum við að sjálfsögðu skatta á þeim.



[12:34]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt nokkrum öðrum þingmönnum í stjórnarandstöðunni sem sæti eiga í félagsmálanefnd skrifað undir álit þetta með fyrirvara um einstaka þætti málsins. Ég vil gera stuttlega grein fyrir honum hér.

Frá því að þetta mál var hér til 1. umr. hafa enn betur komið í ljós þær sviptingar sem eru í fasteignaviðskiptum og útlánum til þeirra. Mig minnir að tilboð um 100% lán sem bankar bjóða nú að hámarksfjárhæð 25 millj. hafi komið eftir að við ræddum málið við 1. umr. Líka hafa komið upplýsingar frá Seðlabanka um 55–56 milljarða útlán til einstaklinga hjá bönkum frá 23. ágúst til októberloka og að sama skapi 40 milljarða uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði. Ekki er ólíklegt að 10–15% af þeim útlánum hjá bönkunum hafi farið í einkaneyslu, kannski 6–8 milljarðar af þessum 55 milljörðum.

Mér kom á óvart svar sem ég fékk frá hæstv. viðskiptaráðherra. Væntanlega hefur hæstv. ráðherra leitað til bankanna til að fá svör við þeirri spurningu en bankarnir virðast ekki geta upplýst um það hvernig þessi miklu útlán upp á 55 milljarða skiptast á milli annars vegar lána til fasteignakaupa og hins vegar til endurfjármögnunar. Það er umhugsunarvirði að Seðlabanki Íslands hafi ekki slíkar upplýsingar.

Mér finnst það hafa verið staðfest í nefndinni sem ég hélt fram við 1. umr., að úr því sem komið væri út af innkomu bankanna inn á markaðinn mundi það litlu breyta þótt hámarksfjárhæðin á lánum hjá Íbúðalánasjóði yrði eitthvað hærri en áform ráðherrans eru, að það mundi ekki hafa þensluhvetjandi áhrif eða neikvæð efnahagsleg áhrif að fara þarna örlítið hærra upp. Sú hækkun hverfur raunverulega í skuggann af þeim víðtæku lánamöguleikum sem bankarnir hafa nú sett fram þar sem eru 80% lán með engu þaki og 100% lán með hámarksfjárhæð 25 millj. kr.

Það hefur raunverulega verið staðfest af fulltrúum þeirra sem komu á fund nefndarinnar, bæði Hagfræðistofnunar og Seðlabanka, að þetta mundi litlu breyta fyrir þensluna. Eins og ég hef bent á mun fólk bara leita í auknum mæli til bankanna og endurfjármagna lán sín þar og flytja frá Íbúðalánasjóði.

Eftir umfjöllun í nefndinni er ég alveg sannfærð um að stjórnvöld eiga, a.m.k. um hríð, að búa þannig að Íbúðalánasjóði að hann geti veitt bönkunum nauðsynlegt aðhald. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að ekki séu nægjanlega traustar stoðir undir fjármögnun lánanna hjá bönkunum, a.m.k. ekki hjá öllum lánastofnunum, og tilgangurinn sé fyrst og fremst að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum eins og ég hef sagt.

Í umfjöllun okkar í félagsmálanefnd kom fram að vísað var til álits sænsks ráðgjafarfyrirtækis sem sérhæfir sig á sviði fjármálaráðgjafar og hefur verið að vinna fyrir Íbúðalánasjóð að undanförnu. Þetta fyrirtæki er vel þekkt á norræna markaðnum og þar kom fram að þeir telja að bankar og sparisjóðir þurfi að vera með 0,6–1,2% hærri vexti en Íbúðalánasjóður ef allt er tekið með í reikninginn.

Mín skoðun er sem sagt sú — var við 1. umr. og ég hef enn herst í þeirri skoðun — að það þurfi að hækka hámarksfjárhæðina. Vegna þeirra miklu uppgreiðslna sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir, hreinlega af því að hann er ekki samkeppnisfær, þarf líka að auka sveigjanleikann í veðmörkum á 1. veðrétti vegna annarra lána þannig að fólk sé ekki neytt til þess að flytja allan lánapakkann með sér frá Íbúðalánasjóði yfir í bankana einungis til þess að geta skuldbreytt mjög óhagstæðu bankaláni upp á kannski 1–3 millj.

Þess eru dæmi að fólk hafi verið að flytja hagstæð byggingarsjóðslán til þess að ná fram skuldbreytingu á einu óhagstæðu bankaláni sem hvílir á eigninni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það og það lýtur m.a. að fyrirvara okkar á hámarksfjárhæðinni sem er breytt með reglugerð: Eru einhver áform uppi af hálfu hæstv. ráðherra varðandi það að fara eilítið hærra í hækkun á hámarksfjárhæðinni? Eru uppi hugmyndir um að auka sveigjanleikann í veðmörkum á 1. veðrétti vegna annarra lána til þess að verja sjóðinn gegn þessum uppgreiðslum sem eru mjög miklar og hafa verið frá því í ágústmánuði?

Hér var aðeins farið inn á fasteignaverðið. Það er raunverulega staðreynd að fyrir þá fjárhæð sem nú er hægt að fá lánaða hjá Íbúðalánasjóði, þ.e. um 11,5 millj., held ég, sem á að fara í 13 millj. þegar þetta frumvarp tekur gildi, er nú einungis hægt að fá litla kjallaraholu eða kannski tveggja herbergja íbúð. Íbúðalánasjóður hefur sett fram að þeir telji sig þurfa að geta veitt lán sem tryggi það að þeir geti lánað fyrir fjögurra til fimm herbergja íbúð. Höfum við fengið frá Fasteignamatinu yfirlit yfir þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir hafa hækkað verulega mikið. Við erum að tala um að lítil 70 fermetra íbúð hefur hækkað um nærri 2,5 millj. á einu ári. Við erum að tala um að íbúð upp á 110–130 fermetra hefur hækkað á einu ári úr 14,7 millj. í 17,2 þannig að við erum að tala hér um verulega hækkun. Ég hygg að Íbúðalánasjóður sé að tala um íbúðir á bilinu 110–130 fermetra sem eru í dag um 17 millj. Mín skoðun er sú að það þurfi að fara hærra með hámarksfjárhæðina og það þurfi strax að fara með hámarksfjárhæðina í 15–16 millj. sem mundu duga fyrir, eins og ég segi, kannski fjögurra herbergja íbúð af þessari stærð sem ég nefndi. (Gripið fram í: … skuldir heimilanna.)

Það er gripið hér fram í fyrir mér og sagt að það muni auka skuldir heimilanna. Við höfum farið yfir það í nefndinni og staðreyndin er bara sú að ef við gerum Íbúðalánasjóð ekki samkeppnishæfan mun fólk leita í auknum mæli til bankanna. Það mun stuðla að þenslu vegna þess að þeir lána ekki til fólks bara miðað við fasteignaviðskipti, heldur bara eins og fólk vill fá. Það er þó ákveðið þak og bremsa hjá Íbúðalánasjóði. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður starfi áfram um hríð þar til bankarnir hafi sannað að þeir séu ekki fyrst og fremst í þessari útrás núna til að ýta Íbúðalánasjóði til hliðar þannig að þeir geti þá hagað sér á markaðnum eins og þeim sýnist þegar þeir eru búnir að koma Íbúðalánasjóði út af honum. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að við gerum hann samkeppnishæfari til að takast á við bankana meðan þeir eru að sanna sig.

Við höfum séð verulega mikla hækkun á fasteignaverði. Það hefur komið fram í vísitölunni. Frá nóvember 2003 til nóvember 2004 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,8% og þar af vegur húsnæðisliðurinn í vísitölunni 1,5%. Það er nú alveg gífurlega mikið í vísitölunni og hefur áhrif á verðbólguna og kjarasamninga. Sumir spá meira að segja að íbúðaverð muni halda áfram að hækka frá því sem það er núna.

Varðandi markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs er alveg ljóst að hún hefur dregist verulega saman. Við erum með tölur frá Íbúðalánasjóði sem sýnir á undanförnum vikum að samanborið við sömu mánuði á síðasta ári hefur samdráttur í lánum verið allt að helmingur. Raunar töldu fasteignasalar sem komu á fund nefndarinnar að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs á þessum síðustu vikum í nýjum fasteignaviðskiptum væri, að mig minnir, 15–25%. Við sjáum hvaða sviptingar eru hér að eiga sér stað og hvernig bankarnir reyna með markvissum hætti að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Mín skoðun er sú að flestir af þessum bönkum, eða a.m.k. margir þeirra og margir sparisjóðanna líka, séu ekkert í stakk búnir til að veita lán með þessum vaxtakjörum. Eins og ég nefndi áðan og vitnaði þá í þetta sænska matsfyrirtæki telur það að almennir vextir í bönkunum til fasteignaviðskipta þurfi að vera 0,6–1,2% hærri en þeir eru í dag. Bankarnir eru raunverulega að niðurgreiða lánin, niðurgreiða fasteignalán sín, í þeim eina tilgangi að mínu viti að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum til þess að þeir geti svo hagað sér þar eins og þeir vilja þegar þeir hafa náð fram ætlunarverki sínu.

Lánveitingar til landsbyggðarinnar og félagsleg lán komu nokkuð til umræðu. Það hefur komið fram hjá bönkunum og reyndar Samtökum atvinnulífsins líka að þeir vilja bara að Íbúðalánasjóður breytist í nokkurs konar Byggðastofnun sem láni fyrst og fremst til landsbyggðarinnar og félagslegra nota. Það hefur bara komið skýrt og skilmerkilega fram og það er alveg ljóst að Íbúðalánasjóður mun ekki án mikilla ríkisstyrkja geta verið með fyrirgreiðslu og lánveitingar til landsbyggðarinnar og til leiguíbúða og félagslegrar aðstoðar. Hann verður að geta lánað út almennt til þess að eiga það mögulegt.

Það kom á óvart í bréfi frá Samtökum banka og verðbréfasjóða að samkvæmt þeim upplýsingum sem þau höfðu aflað sér væri búið að lána um 60 milljarða, þ.e. 5 milljörðum meira en þegar við vorum að skoða þessar tölur fyrir stuttu, og að af þeim hefðu um 64% farið til lántakenda á höfuðborgarsvæðinu og 36% til lántakenda á landsbyggðinni. Þetta eru ótrúlega háar tölur varðandi landsbyggðina þannig að við fengum upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins um hvernig þessar lánveitingar hefðu skipst milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar. Þar koma upp allt aðrar tölur. Þar kemur fram að af heildarlánveitingum á þessum mánuðum, þ.e. frá ágústmánuði, hafi aðeins 13–14% farið til landsbyggðarinnar. Þetta eru allt aðrar tölur en við fengum upplýsingar um frá Samtökum banka og sparisjóða.

Ég held að ég þurfi ekkert að hafa miklu fleiri orð um þessi mál. Við í minni hlutanum höfum haft fyrirvara og ég vil aðeins lýsa þeim. Þeir lúta að því sem fram kemur í frumvarpinu, að samkvæmt því er mögulegt að skerða hámarkslánið, króna á móti krónu, vegna áhvílandi lána sem hvíla á íbúðum. Það skerðir auðvitað hámarksfjárhæðina. Rökin eru þau að þetta sé krafa frá ESA, þessi skerðing verði að eiga sér stað með þeim rökum að Íbúðalánasjóður sé með yfirgnæfandi markaðsstöðu á þessum markaði og þess vegna þurfi að vera með þessa skerðingu, króna á móti krónu. Við höfum það bara fyrir okkur að þetta er gjörbreytt landslag frá því fyrir nokkrum vikum. Bankarnir eru með miklu stærri hlut í nýjum lánveitingum en nokkurn tímann Íbúðalánasjóður þannig að ég tel að þessi rök séu ekki til staðar. Þess vegna getur þetta ákvæði um skerðingu, króna á móti krónu, ekki átt að vera í frumvarpinu. Mun ég sitja hjá við afgreiðslu þess ákvæðis. Ég held sem sagt að það sé einfaldlega rangt að Íbúðalánasjóður sé í markaðsráðandi stöðu sem voru rökin fyrir þessu ákvæði í frumvarpinu.

Ég hef líka efasemdir um það sem er verið að setja hér inn hjá meiri hlutanum og kemur fram í breytingartillögunum um uppgreiðsluálagið. Þarna vill meiri hlutinn fá inn ákvæði sem heimilar að fólk geti valið um hvort það taki lán með eilítið hærri vöxtum og þurfi ekki að greiða sérstakt uppgreiðsluálag ef það óskar eftir að greiða upp lánið. Uppgreiðsluálagið er raunverulega komið inn í það vaxtaálag sem sjóðurinn hefur nú, þessi 0,6%. 0,25% af því eru áætluð vegna uppgreiðslu. Síðan hafi fólk valið um að fá þá vaxtakjör, t.d. 0,25% neðar, þ.e. 3,90%, en þá gengst það undir það að sjóðurinn áskilji sér, ef lántaki vill greiða upp slíkt lán með þessum lægri vöxtum, þóknun sem aldrei nemur hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslunnar. Miðað við þetta eins og það er sett fram getur sjóðurinn tekið, ef fólk velur lægri vextina, hugsanlega mismun á markaðsvöxtum eins og þeir eru á þeim tíma þegar fólk vill greiða upp lánið og á útlánavöxtum eins og þeir voru þegar viðkomandi tók lánið. Þarna getur verið um verulega háa fjárhæð að ræða.

Meiri hlutinn leggur líka til að slík heimild til að taka uppgreiðsluþóknun gangi yfir á leiguíbúðirnar. Ég tel mjög vafasamt að fara þessar leiðir, ekki síst þegar Samkeppnisstofnun hefur ekki úrskurðað í þessu álitamáli. Leitað var til Samkeppnisstofnunar um það hvort bankarnir hefðu í raun og sanni heimild til að veita lán með slíku uppgreiðsluákvæði og bent á að lög um neytendalán kæmu í veg fyrir slíkt.

Eins og framsögumaður tók fram er hvatt til þess að sú heimild sé ekki nýtt fyrr en kominn er þessi úrskurður og niðurstaða og það er auðvitað vörn í málinu.

Ég held að ég hafi þá gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem lúta að þessum ákvæðum, króna á móti krónu, uppgreiðsluálaginu, af því að ég tel nauðsynlegt að fara hærra með þessa hámarksfjárhæð en nú liggur á borðinu og ég tel rétt að auka sveigjanleikann í veðmörkum. Þá vísa ég til þess sem stendur í nefndarálitinu, virðulegi forseti, um það ákvæði. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í nefndinni var rætt um hvaða möguleika Íbúðalánasjóður hefði til að mæta þörfum fólks með eldri óhagstæðari lán frá sjóðnum og til að verja sjóðinn uppgreiðslu. Fram kom af hálfu fulltrúa félagsmálaráðuneytis að kannaðir yrðu möguleikar þess að heimila sjóðnum að fallast á takmarkaðar veðsetningar framar eldri lánum sjóðsins.“

Um þetta spyr ég hæstv. ráðherra líka.

Loks er það spurning mín sem lýtur að félagslega íbúðakerfinu sem mér finnst við ekki hafa fengið nægjanleg svör við í félagsmálanefnd þar sem við fjölluðum um þetta. Fyrir liggja tillögur nefndar um hvernig efla eigi leigumarkaði, m.a. eru þar tillögur um að til álita komi að veita stofnstyrki til byggingar leiguíbúða fyrir sérstaka hópa aldraðra, öryrkja og námsmanna sem búa við erfiðar aðstæður og eru með tekjur og eignir innan tiltekinna tekju- og eignamarka. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það.

Einnig er bent á það að breyta ákvæðum um húsaleigubætur. Ég vil spyrja hvaða áform eru uppi varðandi leiguíbúðirnar einnig. Ég hef áhyggjur af stöðunni á leigumarkaðnum, þótt staðan hafi kannski batnað á almenna leigumarkaðnum eru miklir erfiðleikar hjá lágtekjufólki sem á allt undir því að geta fengið leiguíbúðir hjá sveitarfélögunum eða hjá félagasamtökum eins og Öryrkjabandalaginu. Ég held að lítið hafi saxast á biðlistana sem voru síðast þegar ég skoðaði um 2 þús. manns. Þess vegna spyr ég í lokin hæstv. ráðherra hvaða áform séu uppi um það að efla leigumarkaðinn gagnvart því fólki sem er á biðlista eftir leiguíbúðum hjá sveitarfélögunum og félagasamtökum.



[12:53]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat þess í ræðu sinni sem var mjög yfirgripsmikil og ágæt að minni lánastofnanir þyldu ekki þá samkeppni sem væri á lánamarkaðnum og jafnvel gæti farið illa fyrir sumum þeirra. Hún á þá væntanlega við sparisjóði, sérstaklega úti á landi, hina minni sparisjóði.

Sparisjóðirnir eiga marga vini á þingi. Það kom fram í vetur. Sérstaklega eru landsbyggðarþingmenn vinir þeirra. Þingmaðurinn vill auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs enn frekar með því að hækka hámarkið og gera hann á allan máta eins samkeppnishæfan og hægt er. Þar með eykur hann samkeppni á þessum lánamarkaði, harkan vex og það kemur væntanlega þessum litlu lánastofnunum enn verr. Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er það það sem hv. þingmaður vill?



[12:55]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það skal koma skýrt fram af minni hálfu, virðulegi forseti, að ég tel að innkoma bankanna á fasteignamarkaðinn hafi verið mjög jákvæð. Ég tel að þeir hafi gert marga góða hluti með innkomu sinni, sérstaklega fyrir fólk sem hefur þurft að breyta óhagstæðum lánum, verið með lán kannski á 8–10% vöxtum hjá bönkunum. Þarna hafa bankarnir opnað fyrir möguleika hjá þessu fólki til að skuldabreyta erfiðum lánum og það er vissulega mjög jákvætt. Þeir hafa haft þarna ákveðið frumkvæði að því að ná niður vaxtastiginu. Það var tími til kominn vegna þess að bankarnir hafa haldið uppi allt of háu vaxtastigi í langan tíma og hefðu fyrir lifandis löngu átt að vera komnir inn á þennan markað.

Það gera þeir ekki fyrr en þeir sjá niðurstöðuna frá ESA sem gerði enga athugasemd við starfrækslu Íbúðalánasjóðs. Þeir verða auðvitað að átta sig á stöðu sinni, sjóðirnir, að keyra ekki harðar fram en þeir mögulega þola. Það hefur komið fram, og hv. þingmaður veit það, í umfjöllun um starf okkar í nefndinni að Fjármálaeftirlitið hefur gert athugasemdir við það að a.m.k. einhverjar lánastofnanir séu á grensunni og þurfi að huga betur að áhættustýringu. Það hefur líka komið fram frá Íbúðalánasjóði að sænskt matsfyrirtæki telur að vaxtakjör ýmissa lánastofnana séu hærri en þessir bankar raunverulega geta, eða sparisjóðir eða hverjir það eru. Þetta verða þeir auðvitað að eiga við sjálfa sig og fara ekki lengra þá í samkeppnina en þeir treysta sér þannig að það séu þá bærilegar stoðir undir því sem þeir veita.

Það er það sem ég hef gert athugasemdir við, að þeir séu bara í þessu í þeim eina tilgangi að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum.



[12:57]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni. Hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hún vilji auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs til þess að hann lifi af. Nú er það þannig að þegar t.d. Íbúðalánasjóður lækkaði vexti nýverið eltu allir bankarnir þá lækkun og urðu að gera það, annars misstu þeir viðskiptamenn sína. Þannig er samkeppnin einu sinni. Þessar minni lánastofnanir sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni að gætu lent í vandræðum verða líka að elta samkeppnina, ella missa þær viðskiptamenn sína.

Ég spyr hv. þingmann: Vill hún auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs enn frekar vitandi það að markaðurinn verður að bregðast við og gera þessum minni lánastofnunum svo erfitt fyrir að þær geti jafnvel ekki starfað? Hvað segja landsbyggðarþingmenn í flokki hv. þingmanns við þessari stefnu hennar að gera Íbúðalánasjóð eins samkeppnishæfan og hv. þingmaður leggur til, hækka hámarkið o.s.frv.?



[12:58]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Það er ekkert markmið í sjálfu sér hjá mér að halda þannig á málum að Íbúðalánasjóður starfi hér um alla eilífð. Hv. þingmaður orðaði það svo að ég vildi að Íbúðalánasjóður lifði af. Já, ég held að hann eigi erindi enn þá, Íbúðalánasjóður, meðan bankarnir eru að sanna sig. Það eru ótraustar stoðir undir útlánum ýmissa banka.

Ég get endurtekið mig aftur og aftur með það að ég tel að hlutverk Íbúðalánasjóðs sé afar mikilvægt þannig að bankarnir fái að sanna sig, að þetta séu þá lánveitingar til frambúðar sem þeir geti veitt fólki á þessum hagstæðu kjörum en að tilgangurinn sé ekki bara að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Því miður, virðulegi forseti, held ég að það sé meginmarkmið þeirra.