131. löggjafarþing — 46. fundur
 2. desember 2004.
húsnæðismál, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 220. mál (hámark lánshlutfalls). — Þskj. 223, nál. 499, brtt. 500.

[13:46]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, en mig langar til að koma að nokkrum sjónarmiðum varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar, frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál, og koma fram bæði í greinargerð með frumvarpinu og í nefndaráliti. Einnig langar mig til að varpa fram a.m.k. tveimur spurningum til hæstv. félagsmálaráðherra.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er málið sem er hér til umfjöllunar vel þekkt. Þetta er mál sem ekki fer lágt í umræðunni, heldur hátt. Hér er á ferðinni hækkun á húsnæðislánum upp í 90%. Þetta mál var eitt af þeim sem fóru hvað hæst í aðdraganda síðustu kosninga og rötuðu inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem sagt er að stefnt skuli að því að hækka húsnæðislán upp í allt að 90%. Við það stefnumið er staðið með frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Það er rétt að geta þess að þegar þetta stefnumál kom inn í stjórnarsáttmálann voru aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði allt aðrar en nú eru, þar á meðal á húsnæðislánamarkaðnum. Á þeim tíma bauð Íbúðalánasjóður bestu vextina og sat í rauninni einn að húsnæðislánamarkaðnum, en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Viðskiptabankarnir, sem eru einkafyrirtæki, hafa blandað sér inn í þau viðskipti og haslað sér völl á húsnæðismarkaði. Það sama má segja um sparisjóðina og jafnvel lífeyrissjóðina, sem hafa boðið lægri vexti til húsnæðis- og fasteignakaupenda og hærri hlutföll en við höfum áður séð á þeim markaði.

Þetta eru atriði sem allir sem þekkja, öll þjóðin þekkir. Í kjölfar þessara breytinga hefur orðið nokkur umræða um Íbúðalánasjóð og stöðu hans á markaðnum og menn hafa sett fram ákveðin sjónarmið um hvort eðlilegt sé að ríkið taki þátt í lánamarkaði með þessum hætti. Um þetta eru skiptar skoðanir eins og sjá má í umsögnum sem nefndinni bárust og kemur fram í nefndarálitinu. Sumir telja mikilvægt að styrkja Íbúðalánasjóð svo hann geti áfram verið raunverulegur valkostur fyrir fólk í fasteignakaupum, en aðrir telja að hlutverk sjóðsins eigi fremur að einskorðast við að gegna félagslegu hlutverki, svo sem að sinna lánveitingu til fólks sem hefur ekki mikið á milli handanna og sömuleiðis til lánveitinga vegna fasteignakaupa á landsbyggðinni. Í þriðja lagi má benda á sjónarmið sem einnig hefur heyrst í umræðunni að ríkið eigi hreinlega að draga sig út af þessum markaði.

Í nefndarálitinu segir að nefndin telji og bendi á að sú fyrirgreiðsla sem Íbúðalánasjóður veitir og hefur veitt sé forsenda fyrir jöfnum aðgangi að lánsfé til fasteignakaupa, óháð búsetu eða félagslegri forsögu einstaklinga, og markmið með hækkun lánshlutfalls sé að auðvelda kaupendum minni og meðalstórra fasteigna að fá heildstæða fjármögnun til slíkra kaupa. Þetta eru sambærileg sjónarmið við það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að sú breyting sem nú hefur orðið á lánsframboði sé jákvæð fyrir þróun íslensks húsnæðismarkaðar er jafnljóst að Íbúðalánasjóður og sú fyrirgreiðsla sem sjóðurinn veitir er forsenda fyrir jöfnum aðgangi almennings að lánsfé til fasteignakaupa, óháð búsetu eða fjárhagslegri forsögu. Ljóst er að atburðarásin á lánamarkaði undanfarna mánuði sýnir með skýrum hætti að tilvist og lánaframboð Íbúðalánasjóðs felur í sér nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum.“

Nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að orðalagið, eins og það kemur fram í greinargerðinni, og tekið er undir í áliti nefndarinnar, sé varlegt. Afsakið, ég leiðrétti að það er ekki tekið undir þetta í nefndarálitinu, eins og kom hér fram, ekki með frammíkalli, heldur með líkamshreyfingum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ef við skoðum markaðinn þá snýst þetta ekki um aðhald ríkisins gagnvart einkafyrirtækjunum, þ.e. viðskiptabönkunum sem eru í einkaeigu. Hér er mjög hörð samkeppni í gangi, samkeppni í sinni hörðustu mynd, einkum hvað varðar vaxtakjör á húsnæðislánamarkaðnum. Sama sjónarmið kom fram í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag sem talaði um og lagði ríka og mikla áherslu á að við yrðum að tryggja samkeppnishæfni og auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs gagnvart lánastofnunum. Sem sagt – auka samkeppnishæfni ríkisins gagnvart einkaaðilunum. Þetta er það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði mikla áherslu á.

Mörg þessara sjónarmiða eru góð og gild og ég hef skilning á þeim, en ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að við eigum að hafa þessi mál, þar á meðal húsnæðismálin og lánamálin, til stöðugrar endurskoðunar. Ég tel að markaðurinn hafi breyst það mikið á síðustu vikum og mánuðum með innkomu einkaaðila sem hafa boðið lántakendum, fólkinu í landinu, miklu lægri vexti við kaup á húsnæði en áður hefur þekkst, að nauðsynlegt sé að taka þessi mál til endurskoðunar.

Sömuleiðis hef ég efasemdir um, og tel óeðlilegt að sjóður eins og Íbúðalánasjóður, sem er í eigu ríkisins og rekinn af hinu opinbera og nýtur þeirrar stöðu að hafa ríkisábyrgð og grundvallar allt starf sitt á henni, taki þátt í jafn hatrammri samkeppni um vaxtakjör til einstaklinga á markaði og nú er, í þessu tilviki hjá fasteignakaupendum.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég blandaði mér í umræðuna, og úr því hæstv. félagsmálaráðherra er hér í húsinu, langar mig til að varpa fram tveimur spurningum og óska eftir að hann geri grein fyrir skoðunum sínum hvað þær varðar í ræðu sinni.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að Íbúðalánasjóður taki þátt í samkeppni við viðskiptabankana, sparisjóðina og eftir atvikum lífeyrissjóðina, um að bjóða lægstu vexti á markaði til neytenda, til fasteignakaupenda, með hliðsjón af því að Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar sem hinir aðilarnir njóta ekki. Telur hæstv. félagsmálaráðherra að þátttaka ríkisins á þessum markaði sé eðlileg eins og hún er nú og sér hann fyrir sér einhverjar breytingar hvað aðkomu Íbúðalánasjóðs að þessum hluta starfseminnar og samkeppninnar varðar?

Í annan stað, eins og ég vék að áðan, kom fram í umsögnum að skiptar skoðanir eru meðal manna um hvort Íbúðalánasjóður eigi að starfa. Sumir eru þeirrar skoðunar að svo sé, og að slíkt sé beinlínis nauðsynlegt fyrir fasteignamarkaðinn, en aðrir telja að hann eigi einungis að sinna félagslegu hlutverki sínu og svo er þriðji hópurinn sem telur að ríkið eigi ekkert að vera að vasast í starfsemi eins og þessari. En ef við gefum okkur það, og ég geri ráð fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra telji að réttlæta megi tilvist Íbúðalánasjóðs á þessum markaði, þá langar mig að spyrja hann hvort ekki nægi að einskorða þátttöku Íbúðalánasjóðs við lánveitingar til hinna eignaminni og til þeirra svæða úti á landi þar sem viðskiptabankarnir sinna einstaklingum kannski ekki með sama hætti og Íbúðalánasjóður hefur gert – nægir ekki einfaldlega að Íbúðalánasjóður sinni þessu hlutverki, en láti einkaaðilunum eftir þann markað sem eftir stendur?

Ég mundi vilja fá sjónarmið hæstv. ráðherra á því hvort hann sjái fyrir sér einhverjar breytingar í framtíðinni hvað aðkomu sjóðsins að þessum markaði varðar.

Að öðru leyti hef ég ekki meira um málið að segja. Nefndarálitið sem hér er til umræðu er ítarlegt og gagnlegt og ég þakka þá málefnalegu umræðu sem hefur farið fram um það. En ég óska eftir að hæstv. félagsmálaráðherra geri grein fyrir þessum sjónarmiðum og svari þeim spurningum sem ég hef varpað fram til hans.



[13:59]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og glögga ræðu um þær breytingar sem eru hér til umræðu á Íbúðalánasjóði. Hann kom að kjarna málsins í ræðu sinni eins og þess hv. þingmanns er von og vísa. Það varðar framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs eftir þessar miklu og róttæku breytingar á lánamarkaði og hann spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvernig hann sjái sjóðnum best fyrir komið. Þetta er stórpólitísk spurning.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann sömu eða svipaðrar spurningar: Hvernig sér hann aðkomu ríkisins að íbúðalánamarkaðnum eftir þær breytingar sem nú eiga sér stað? Að margra mati blasir við að Íbúðalánasjóður hökti nú haltur á eftir hinum í kjölfar þess sem er að gerast á lánamarkaði og haldi ekki í við breytingar sem þar eru að verða. Þá kemur upp sú spurning hvort ríkið eigi almennt að keppa við einkafyrirtæki á þessum markaði. En stærsta spurningin er að sjálfsögðu þessi: Hvernig tryggjum við öllum landsmönnum öruggt aðgengi að íbúðalánum, burt séð frá búsetu? Allir vita að íbúðalán bankanna miðast fyrst og fremst við suðvesturhornið og nágrannabyggðir, en alls ekki við landsbyggðina og hvað þá þar sem hvað mest sverfur að. Því vildi ég spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann þessum hlutum háttað í framtíðinni? Á ríkið að láta af almennri samkeppni á þessum markaði en einbeita sér að því að halda úti einhvers konar félagslegum jöfnunarsjóði sem lánar þá til þeirra svæða sem bankarnir og aðrar lánastofnanir lána ekki til? Á það að vera hlutverk ríkisins? Á það að standa undir slíkri starfsemi eða verður þar látið skeika að sköpuðu? Ég vildi fá viðhorf hans til þessara mála.



[14:01]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir einkar hlýleg orð í minn garð hvað varðar þá ræðu sem ég hélt hér.

Varðandi spurningar hans er mér ljúft og skylt að svara þeim. Skoðun mín er einföld, hún er sú að ríkið eigi ekki að vera fyrirferðarmeira á lánamarkaði, hvort sem það er á fasteignalánamarkaði eða öðrum fjármálamarkaði, en nauðsynlegt er. Eftir því sem þátttaka ríkisins er minni þeim mun betra, því minni þátttaka þeim mun betra.

Ég hef hins vegar, eins og ég held að hafi komið fram í ræðu minni, samúð með því sjónarmiði að komið sé til móts við þá fasteignakaupendur sem hafa lítið fé á milli handanna og kannski ekki sterk veð sem þeir geta lagt fram til tryggingar þeim lánum sem þeir taka til kaupa á fasteignum. Það sama á við um lánveitingar til svæða úti á landi þar sem fasteignamarkaður er kannski ekkert mjög virkur, eins og t.d. í dreifbýlum sveitum þar sem ekki er raunverulegur markaður.

Þess vegna sagði ég og varpaði þeirri spurningu til félagsmálaráðherra hvort þessum málum væri hugsanlega ekki betur komið með því að ríkið mundi þá bara sjá um þennan félagslega þátt húsnæðislánamarkaðarins en draga sig að öðru leyti út af honum. Ég held að það væri betra en að ríkið væri í hreinni samkeppni við einkaaðila á húsnæðismarkaði.

Mitt svar er því þetta: Umsvif ríkisins eiga að vera sem minnst en ég hef alveg samúð með því að komið sé til móts við efnaminna fólk og landsbyggðina, (Forseti hringir.) sérstaklega þar sem ekki er virkur markaður með fasteignir.



[14:03]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra þau viðhorf sem fram komu í máli hv. þingmanns um að hann hafi samúð með þeim sjónarmiðum að tryggja þurfi landsbyggðinni og efnaminna fólki aðgengi að íbúðalánum á sömu kjörum eða alls ekki lakari en gerist og gengur nú á hinum frjálsa markaði. Ég get einnig tekið undir að auðvitað er það eftirsóknarverð staða að ríkið sé í sem allra minnstum mæli þátttakandi á frjálsum lánamarkaði. Það er að sjálfsögðu eftirsóknarverð staða.

En hlutverk okkar er að tryggja það að þessar breytingar, þessi öra og hraða þróun — sem er held ég örari og hraðari en við flest sáum fyrir eða gátum ímyndað okkur — leiði ekki til þess að landsbyggðin og íbúðaeigendur eða væntanlegir kaupendur þar og seljendur lendi í vanda með að fjármagna kaup og sölu á fasteignum sínum. Því tel ég það standa upp á stjórnvöld að koma fram með hugmyndir um hvernig eigi að bregðast við þessu sjái menn fram á það að endalok Íbúðalánasjóðs blasi við, sjái menn fram á að það sé staðan að Íbúðalánasjóður sem slíkur sé að syngja sitt síðasta. Fram kom í máli forstjóra sjóðsins fyrir nokkrum dögum, Guðmundar Bjarnasonar, að hann teldi, að mér skildist, að svo gæti orðið ef þessi þróun héldi áfram.

Það verður þá að liggja skýrt fyrir, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að ríkið eigi að draga sig út úr samkeppni, þ.e. lánum á þeim svæðum þar sem bankarnir eru og vilja lána. Það er miklu róttækara og annað viðhorf en fram kemur í því þingmáli sem hér er til umræðu. Mér fannst það vera innstæðan og kjarninn í máli hv. þingmanns og viðbrögð ríkisins við því væru að stofna einhvers konar félagslegan jöfnunarsjóð sem tryggði íbúðaeigendum, bæði þeim efnaminni og þeim úti á landi, aðgengi að þessum lánum. (Forseti hringir.) Ef þettta er þróunin tek ég undir að ríkisvaldið verður að gera það.



[14:06]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson séum alveg sammála um að það sé engin ástæða, hvorki á þessum markaði, lánamarkaði né öðrum markaði, til að verið sé að níðast á einhverjum sérstökum þjóðfélagshópum, hvort sem það er efnalítið fólk, stórefnað fólk, höfuðborgarbúar, landsbyggðarmenn eða hverjir aðrir. Ég er bara að varpa fram þessum sjónarmiðum til hæstv. ráðherra til umræðu og umhugsunar.

Ég tel alveg rök fyrir því, eins og hv. þingmaður vék hér að, að komið sé til móts við þessa hópa sem ég hygg að Íbúðalánasjóði hafi í upphafi verið ætlað að sinna, þ.e. sinna félagslegri þjónustu gagnvart fólki sem þurfti að sækja sér lánveitingar til að koma þaki yfir höfuðið. Síðan hefur bara, og ég vék að því í ræðu minni, umhverfið allt saman gjörbreyst frá því t.d. að stjórnarsáttmálinn var undirritaður og samþykktur af hálfu okkar sem stöndum að þessari ríkisstjórn. Það hlýtur að leiða til þess að menn taki til umræðu hvort hugsanlega sé eðlilegt að taka þessi mál öll til gagngerrar endurskoðunar eða a.m.k. til umræðu. Þá á ég við þessa auknu samkeppni á húsnæðismarkaði sem orðið hefur með lækkandi vöxtum, hærra lánshlutfalli og greiðari aðgangi að fjármagni.

Við þessar aðstæður, þessar nýju og breyttu aðstæður, hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort ríkið eigi að taka þátt af fullum krafti eins og gert hefur verið, í samkeppni við einkaaðila eða ekki.



[14:08]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er óskaplega erfitt að henda reiður á skoðunum og stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Það er engu líkara en að hún breytist dag frá degi. Hér hlustum við t.d. í dag á tvo talsmenn Sjálfstæðisflokksins sem virðast vera algjörlega á öndverðum meiði, ekki bara varðandi Íbúðalánasjóð heldur líka varðandi þróunina á húsnæðismarkaðnum.

Við heyrðum fyrr í morgun hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson tala eins og allt væri að fara til fjandans á þessum markaði. Það var ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo að í reynd væri möguleiki á einhvers konar bankakreppu. (Gripið fram í: Rangt.) Mig langar til þess að fá álit hv. þingmanns á því ef hann gefur kost á því, ég mun þó ekki ganga hart eftir því.

Það sem mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann um — herra forseti, gæti ég fengið frið til að halda áfram ræðu minni fyrir þessum óánægjuhljóðum frá hv. þingmanni?

Herra forseti. Svo að ég hefji aftur máls á síðari spurningu minni er staðan sú að innan Sjálfstæðisflokksins eru samtök sem hafa lýst yfir fullum fjandskap við Íbúðalánasjóð, hafa lýst því yfir að það eigi að selja þá stofnun og leggja niður. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur verið forustumaður þessara samtaka. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er hann enn þeirrar skoðunar að það eigi að leggja Íbúðalánasjóð niður eða hefur hann tekið flipp-flopp og skipt algjörlega um skoðun eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem kom hingað í morgun og talaði fyrir tillögum sem beinlínis miða að því að styrkja sjóðinn?



[14:10]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eitthvert furðulegasta andsvar sem ég hef á ævinni orðið vitni að, ekki bara hin ímynduðu frammíköll og truflun sem hv. 1. þm. Reykv. n. gerði hér að umfjöllunarefni heldur líka sú túlkun sem frá honum kom varðandi fyrri ræður sem hafa verið haldnar hér í dag og sömuleiðis sjónarmið manna gagnvart Íbúðalánasjóði.

Ég gat ekki heyrt hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson lýsa því yfir í ræðu sinni fyrr í umræðunni að það væri hætta á einhverri stórkostlegri bankakreppu. Þar fyrir utan kannast ég ekki við það að ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson séum sérstaklega ósammála hvað varðar þátttöku ríkisins á fjármálamarkaði, hvort sem sá markaður höndlar með húsnæðislán eða stendur í annars konar lánaviðskiptum. Það er einhver hundalógík sem býr að baki þessum málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Svo fjallaði hann um fjandskap við Íbúðalánasjóð af hálfu samtaka sem ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson höfum verið í forsvari fyrir. Þau samtök hafa engan fjandskap sýnt í garð sjóðsins. Það er fyrst og fremst velmegun fólksins í landinu sem hefur búið að baki þeim málflutningi sem við höfum staðið fyrir og hann er nákvæmlega sá sem ég hélt fram í fyrra andsvari mínu. Ríkið á ekki að taka þátt á (Forseti hringir.) fjármálamarkaði umfram það sem nauðsynlegt er. (Forseti hringir.) Ég held að ég hafi skýrt það nákvæmlega út áðan, í fyrra andsvari mínu.



[14:12]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá eru á þessum degi komnar fram þrjár skoðanir af hálfu sjálfstæðismanna gagnvart Íbúðalánasjóði. Í fyrsta lagi var rifjað hér upp að ýmis félög, eins og Samband ungra sjálfstæðismanna, hafa gert ályktanir í gegnum tíðina um að leggja beri Íbúðalánasjóð niður.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti hér tölu í morgun þar sem hann reifaði og rökstuddi tillögur til þess beinlínis að halda Íbúðalánasjóði á lífi. Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi skipt um skoðun og telji núna að það skipti máli að halda Íbúðalánasjóði á lífi. Sjálfur er ég nokkuð hlynntur því sjónarmiði.

Síðan er þriðja sjónarmiðið sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom með, lagði nú ekki í að skýra afstöðu sína algjörlega, en hún var sú að það ætti að láta Íbúðalánasjóð lifa til þess að sinna þeim verkefnum sem þörf væri á. Hann skilgreindi hins vegar ekkert frekar hvaða verkefni nákvæmlega það væru. Hugsanlega var það landsbyggðin og hugsanlega voru það ýmis félagsleg vekefni.

Út af fyrir sig skiptir það ekki máli. Það sem bara stendur upp úr þessari umræðu er vandræðagangurinn í Sjálfstæðisflokknum gagnvart félagslegum húsnæðismálum og gagnvart Íbúðalánasjóðnum.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem er stærri flokkurinn í ríkisstjórninni, kemur hérna í þessu mikilvæga máli og það stendur ekki steinn yfir steini af því sem talsmenn, hv. þingmenn, flokksins eru að fara með. Það er ekki hægt að leggja saman þessar mismunandi afstöður sem þessir tveir hv. þingmenn hafa flutt hér á þessum degi. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson verður að skýra það út, ekki bara fyrir kjósendum sínum, heldur líka okkur sem erum hér í umræðunni: Er hann búinn að skipta um skoðun? Er hann að lýsa því yfir að það hafi bara verið vitleysa sem (GÞÞ: Ég var …) Samband ungra sjálfstæðismanna sagði hér fyrr á árum og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tók undir með honum (Forseti hringir.) um að það ætti að leggja niður sjóðinn? (Forseti hringir.) Eða er hann allt í einu farinn að umfaðma hann?



[14:14]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan er alltaf að verða furðulegri og furðulegri. Í fyrsta lagi er dálítið erfitt að eiga skoðanaskipti við mann sem hlustar ekki á það sem maður segir. Í öðru lagi er ansi hart þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur upp í andsvar vegna þeirra orða sem ég hef látið falla og beinir öllum spjótum sínum að öðrum hv. þm., Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem hefur enga möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég veit ekki til þess að ég sé í þeirri stöðu að leggja honum orð í munn frekar en hann mér. Umræðan er öll komin í tómt rugl af hálfu 1. þm. Reykv. n.

Ef hv. þingmaður hefði hlustað á mig, þá sagði ég mjög skilmerkilega í ræðu minni að ég hefði samúð með þeim sjónarmiðum að Íbúðalánasjóður hefði hugsanlega einhverju hlutverki að gegna gagnvart hinum dreifðu byggðum þar sem enginn virkur markaður væri í gangi með fasteignir annars vegar og hins vegar gagnvart efnalitlu fólki sem ætti ekki aðgang að lánsfé hjá einkaaðila. Þetta er afskaplega lítill hluti af lántakendum á íslenskum fasteignamarkaði. Ég nefndi þessa tvo hópa. Hv. þingmaður segir að ég hafi ekki skýrt út afstöðu mína til málsins en hún er alveg kristalskýr.

Ég segi það, bara til þess að friða hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að auðvitað hefur það ekkert breyst að úrvalsstaðan væri sú að ríkið stæði ekki í lánastarfsemi eða væri þátttakandi á fjármálamarkaði. Ég hef áður sagt það og þau samtök sem ég hef verið í forsvari fyrir. (Forseti hringir.) Það hefur ekkert breyst og mun ekkert breytast, en spurningin er hvort aðstæður til þess muni skapast og það er ég ekki viss um.



[14:16]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fann að því við mig að ég hefði verið ómálefnalegur gagnvart honum í andsvari og beint orðum mínum jafnvel með ásökunum til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég átti ekki að gera það. Ég var auðvitað í andsvari við hann og átti ekki að misnota það með þessum hætti og ég bið hv. þingmann afsökunar á því.



[14:17]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem unnið er í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem gert var í sumar. Eins og fram hefur komið er meiningin að heimila Íbúðalánasjóði að hækka lán sín í 90% af hóflegu íbúðarhúsnæði, þó með tilteknu hámarki sem nú er 11,5 millj. kr. Markmið lagasetningarinnar er að viðskiptamenn Íbúðalánasjóðs geti notið heildstæðrar lánsfjármögnunar þegar þeir kaupa sér húsnæði og að allir geti haft jafnan aðgang að lánsfé til þeirra þarfa á lágum vöxtum, óháð búsetu og efnahag, ef þeir standast mat.

Ef þau markmið nást verður ekki þörf fyrir svokölluð viðbótarlán sem veitt hafa verið efnaminna fólki, sem þýðir að ekki verður frekari þörf fyrir framlög sveitarfélaganna til þeirra hluta. Sveitarfélögin hafa lagt 1.100 millj. kr. í viðbótarlánin frá árinu 1999. Auk þessa eru hér ákvæði sem liðka fyrir breytingum á félagslegum íbúðamarkaði hjá sveitarfélögunum og ákvæði um lán til leiguíbúða. Loks er verið að veita Íbúðalánasjóði heimild til að bjóða upp á uppgreiðslu eldri lána og það að bjóða viðskiptamönnum sínum að afsala sér slíkum rétti gegn lækkun á vöxtum.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að ræða þessi mál öðruvísi en að koma inn á þá stöðu sem uppi er á fasteignamarkaðnum nú um stundir, þ.e. um aðkomu og innkomu bankanna á markaðinn sem hefur á örfáum mánuðum valdið mikilli hækkun á fasteignaverði og býður heim hættu á yfirveðsetningu vegna þess að nú er verið að bjóða ekki aðeins 80% lán með 25 millj. kr. hámarki, heldur allt að 100% lán með 4,1% vöxtum án þess að um eiginleg fasteignaviðskipti sé að ræða. Því er ekki nema von að menn hafi haft uppi varnaðarorð. Við heyrðum það í ræðum hv. þingmanna í dag, bæði vegna mikillar skuldsetningar heimilanna sem fyrir er, en einnig telja margir hverjir að bankarnir séu að ganga lengra en flestir þeirra þola. Við heyrðum þær skoðanir gesta í hv. félagsmálanefnd að kannski væri bara einn bankanna sem gæti staðið undir tilboðunum til lengri tíma og til langframa. Á þetta hafa m.a. sænskir ráðgjafar á vegum Íbúðalánasjóðs bent.

Málið sem hér liggur fyrir hefur verið í undirbúningi í rúmt ár, frá sumrinu 2003. Hvað skyldi hafa gerst síðan þá? Á síðustu 12 mánuðum hefur vísitala fasteignaverðs hækkað um 12,5%. Verð á íbúðarhúsnæði hefur samkvæmt sömu vísitölu hækkað um 100% á tíu árum frá því að vísitalan var sett. Hún er sett á 100 árið 1994 og er komin í 209 samkvæmt síðustu tölum sem ég sá. Hækkunin hefur orðið gífurlega brött á síðustu mánuðum.

Veltan á markaðnum er gríðarlega mikil. Fram kom í fasteignablaði Morgunblaðsins 29. fyrra mánaðar að á síðustu 12 vikum hefur veltan að jafnaði verið 4,5 milljarðar í viku hverri. Það þýðir að í hverri viku eru yfir 260 fasteignasölur í þéttbýlinu suðvestanlands og á Akureyri inni í þeirri tölu. Yfir 260 sölur í hverri viku. Bankarnir komu inn á markaðinn fyrir 12 vikum með lánsfjártilboð sín. Meðalverð íbúða síðan þá er 17,6 millj. kr. á höfuðborgarsvæðinu og 16,1 millj. kr. á Akureyri.

Breytingin er ekki einungis fólgin í hækkun á fasteignaverði. Vextir hafa líka lækkað niður í 4,15 og lántökugjald hefur lækkað niður í 1% úr 2%. Miðað við þær tölur þar sem heildarveltan er milli 50 og 60 milljarða kr. er ekki nema von að varnaðarorð heyrist, einkum í ljósi skuldsetningar heimilanna, fyrirtækjanna og þjóðarbúsins í heild sem var til umræðu fyrr í dag. Í því efni nálgumst við heimsmet sem skýrsla BSRB, sem einnig hefur verið rædd, bendir á. Fram hefur komið að hlutdeild Íbúðalánasjóðs í þessu 55–60 milljarða kr. lánsfé á síðustu vikum er ekki nema 15%–25%. Þetta kom fram hjá fulltrúum Félags fasteignasala í hv. félagsmálanefnd, en í fylgiskjölum frumvarpsins í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að sjóðurinn hafi um 60% hlutdeild. Þarna hafa því orðið miklar breytingar.

Markmiðin sem sett eru í frumvarpinu og tilgangur Íbúðalánasjóðs eru alveg skýr. Miðað er að jöfnun í aðgangi að lánsfé hvar sem er á landinu með lágum vöxtum. Þetta er gríðarlega mikilvægt í samfélagi okkar þar sem séreignastefnan í húsnæðismálum tröllríður enn því miður öllu. Til þess að 90% lánin sem stefnt er að standi undir nafni þarf að hækka hámarksfjárhæðina úr 11,5 millj. kr. Einnig þarf að liðka til fyrir viðskiptamenn sjóðsins þannig að þeir geti fengið heildstæða lánsfyrirgreiðslu og fjármögnun á húsnæðiskaupum sínum hjá sjóðnum.

Miðað við þær tölur sem ég nefndi um meðalverð í fasteignaviðskiptum síðustu 12 vikur, 16–17,6 millj. kr., og miðað við þær tölur sem við fengum uppgefnar m.a. frá Félagi fasteignasala og frá Fasteignamati ríkisins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um meðalverð á 100–110 fermetra íbúð … (GÞÞ: Félagsmálanefnd.) Félagsmálanefnd, þarna varð mér fótaskortur á tungunni eins og einhver sagði, þetta er auðvitað hv. félagsmálanefnd sem fékk upplýsingarnar og fjallaði um frumvarpið. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ábendinguna. En miðað við tölurnar tel ég einsýnt að það dugi ekki minna en að miða við 17 millj. kr. eign í þessum efnum. Þetta segi ég þrátt fyrir að bent hafi verið á að hugsanlega væri sú fjárhæð of lág og að fara þyrfti nær 20 millj. kr. Ég tel að lágmarkið sé að miða við 17 millj. kr. meðalverð á íbúð til að 90% lánin standi undir nafni.

Ég tel mjög mikilvægt að búið sé vel að Íbúðalánasjóði af þeim ástæðum sem ég hef fyrr rakið. Ég tel mig hafa fengið fullvissu um það hjá gestum í hv. félagsmálanefnd að sú viðbót sem um ræðir á fasteignamarkaðnum muni ekki valda kollsteypu á markaðnum úr þessu og muni ekki setja þensluna út fyrir öll mörk. Ég held að hún sé kannski komin þangað nú þegar. Það skiptir miklu máli að fólk geti farið í endurfjármögnun og geti fengið húsnæðislán heildstætt án þess að þurfa að fara á marga staði.

Ég sat sem áheyrnarfulltrúi í félagsmálanefnd þar sem fjallað var um frumvarpið og styð það álit sem hér liggur fyrir. Það er eitt álit frá nefndinni, en ég ítreka þá fyrirvara sem gerðir eru af hálfu minni hlutans. Þeir eru einkum vegna óvissu um ákvörðun á því hvernig uppgreiðsluálagið á að vera annars vegar og hins vegar vegna hámarksfjárhæðarinnar sem ég hef gert að umtalsefni.



[14:28]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér málefni Íbúðalánasjóðs að mestu leyti vegna þeirrar ánægjulegu þróunar sem orðið hefur á fjármagnsmarkaði síðustu fjóra, fimm mánuðina með stórkostlegri lækkun vaxta og samkeppni á útlánum til einstaklinga sem hefur verið óþekkt hér á landi í marga áratugi. Þróunin er að sjálfsögðu mjög ánægjuleg því hún veldur því að útgjöld heimilanna til íbúðakaupa og lánveitinga lækkar yfirleitt. Sennilega hafa heimilin ekki fengið meiri kjarabót í annan tíma.

Lækkun t.d. vaxta úr 5,1% í 4,15% eins og algengt er hjá almenningi þýðir 14% lækkun á ársgreiðslu af 40 ára láni og 10% lækkun á ársgreiðslu af 25 ára láni. Það munar um minna því þetta eru oft stærstu útgjöld heimilanna.

Það sem er líka ánægjulegt við þetta er að ríkisábyrgðin flyst frá Íbúðalánasjóði yfir til bankanna sem eru ekki með ríkisábyrgð. Það er líka mjög ánægjuleg þróun. Það eykur líka ábyrgð þeirra sem lána hátt hlutfall af verði íbúðar vegna þess að þeir sem bera áyrgð á bönkunum gagnvart hluthöfum sínum verða náttúrlega að vera miklu meira vakandi fyrir áhættu sem þeir taka sjálfir en einhverjir opinberir aðilar sem njóta ríkisábyrgðar.

Þessi þróun kemur ekki á óvart. Þannig hefur KB-banki vaxið mjög umtalsvert síðustu árin. Hann hefur reyndar vaxið alla tíð frá stofnun hans. Hann hefur farið í útrás og keypt upp banka víða um heim, aðallega á Norðurlöndum. Umsvifin hafa vaxið mikið og styrkur hans vaxið sömuleiðis. Þetta hefur að sjálfsögðu þýtt aukna skuldsetningu fyrirtækisins en á móti koma gífurlegar eignir, eins og nefnt var í umræðunni í morgun. Það sem er meira um vert er að lánshæfi bankans hefur batnað svo mjög að það er farið að verða svipað lánshæfismati íslenskra ríkisins. Þar af leiðandi getur þessi banki boðið lán sem eru sambærileg lánum Íbúðalánasjóðs þótt sá sjóður njóti ríkisábyrgðar.

Herra forseti. Vegna umræðunnar sem fram fór áðan, um fylgispekt við Íbúðalánasjóð og hvort menn vildu hafa hann eða ekki, þá vil ég taka skýrt fram að ég hef alltaf verið á móti Íbúðalánasjóði og Húsnæðisstofnun þar áður. Ég er á móti því að ríkið standi í lánveitingum þegar við höfum lánakerfi, lífeyrissjóði og banka, sem geta fullt eins staðið undir þeirri þörf. Það er mín stefna og margir innan Sjálfstæðisflokksins eru sömu skoðunar, kannski ekki allir.

Hafa verður í huga að við erum í samstarfi í ríkisstjórn og í því samstarfi er m.a. kveðið á um að Íbúðalánasjóður eigi að lifa. Menn verða að átta sig á því að stefna ríkisstjórnar getur aldrei orðið stefna annars hvors flokksins. Menn þurfa að átta sig á því. Því ætti Samfylkingin að átta sig manna best á því að hún hefur oft þurft að vera í ríkisstjórnarsamstarfi áður, sem Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, og náði ekki öllu sínu fram. Þetta eiga menn að skilja og þess vegna kemur ekki til umræðu að afnema Íbúðalánasjóð. Þess vegna stend ég að því nefndaráliti sem hér um ræðir sem nefndarmaður í félagsmálanefnd. Mín einlæga skoðun er sú að Íbúðalánasjóður hafi ekkert að gera á markaði, að hann trufli markaðinn frekar en hitt og alveg sérstaklega núna.

Menn hafa rætt nokkuð um uppgreiðsluálag. Það eru uppi deilur um það að uppgreiðsluálag sé ólöglegt á markaðnum. En það er svo merkilegt, herra forseti, að Íbúðalánasjóður er með uppgreiðsluákvæði. Hann tekur 0,25% álag á vexti fyrir það að fólk má greiða upp. Ef maður reiknar þetta yfir í ársgreiðsluna þá er þetta á 25 ára láni 2,7% hærri ársgreiðsla. Ef slíkt álag væri ekki þá gæti fólkið fengið 2,7% hærra lán án þess að ársgreiðslan breyttist. Það segir mér að menn verða að borga 2,7% af láninu fyrir að fá að greiða upp sem segir mér jafnframt að það er uppgreiðsluálag hjá Íbúðalánasjóði. Svo einfalt er það. Þetta álag er reyndar 3,8% í 40 ára láni. Þannig er við lýði uppgreiðsluálag og ég skil ekki í mönnum að fara í eitthvert dómsmál til og segja að það sé bannað að leggja á slíkt álag þegar Íbúðalánasjóður leggur það á sjálfur.

Herra forseti. Hér hefur mikið verið rætt um hækkun á fasteignamarkaði. Það er hárrétt. Það er mikill órói og mikil hækkun á fasteignamarkaði sem minnir á vissan hátt á gullgrafarastemmningu. En það er ekkert einsdæmi. Þetta var verra, herra forseti, um áramótin 1999 og 2000. Ég er búinn að teikna það upp, bæði mánaðarlegar hækkanir yfir allt tímabilið, þriggja mánaða hækkanir og hálfs árs hækkanir, og óróinn eða hækkanirnar voru meiri og öfgafyllri um áramótin 1999 og 2000 en núna. Hið merkilega er að ef maður skoðar þetta hafa hækkanirnar ekkert aukist eftir að lán bankanna komu fram. Hækkanir á verði íbúða hafa ekki aukist. Þær voru meiri í febrúar, mars og apríl á þessu ári en nú með haustinu. Ég skil því ekki hvað menn eru að tala um þegar þeir segja að hin nýju lán bankanna hafi valdið hækkunum á íbúðaverði. Þar er nákvæmlega sama hækkun og ella hefði verið.

Hins vegar er sá munur á stöðunni núna og um áramótin 1999/2000 að þá var íbúðaverð að skríða upp fyrir byggingarkostnað en nú er það komið langt upp fyrir þann kostnað. Það er ákveðin hætta því að nú er verið að framleiða íbúðir um allt af því að það er ódýrara að byggja hús en að kaupa þau. Það er mikill hagnaður fólginn í því að byggja íbúðir og selja þær. Þess vegna verða til nýjar íbúðir út um allt og því ætti fólk að vera sérstaklega vakandi yfir. Þegar margar nýjar íbúðir koma á markaðinn er verðið dæmt til að lækka. Þetta verður fólk að hafa í huga. Spurningin er hvenær það gerist, hvenær það byrjar að gerast.

Þá geta menn lent í því, eins og margoft hefur verið bent á, að 90% lánin hjá Íbúðalánasjóði, svo maður tali ekki um 100% lánin hjá bönkunum, fari upp fyrir verð á eigninni ef það lækkar. Þá eru menn komnir með neikvæða eiginfjárstöðu. Það er ekki skemmtilegt því að þá geta menn ekki selt. Það er því mikilvægt að fólk hugi nákvæmlega að sínum málum og verði varkárt.

Nokkuð hefur verið rætt um skýrslu BSRB. Það er afskaplega góð skýrsla. Hún er virkilega góð. Hún er alls ekki svo neikvæð. Ég skil ekki af hverju menn lesa svo margt neikvætt úr skýrslunni. Hún fjallar um miklar eignir þjóðarinnar í menntun, sem endurspeglast í skuldum við LÍN, í íbúðarhúsnæði, sem endurspeglast í skuldum við Íbúðalánasjóð, í hlutabréfum, sem yfirleitt eru bara hrein eign, og í lífeyrissjóðunum, sem er hrein eign. Hver einasti Íslendingur á um þrjár milljónir rúmar í lífeyrissjóði. Þrjár milljónir, litlu börnin líka. Fjögurra manna fjölskylda á 12 milljónir í lífeyrissjóði að meðaltali. Ég skil því ekki að menn ætli að búa til úr því eitthvert dómadags vandræðamál hérna. Hins vegar getur vel verið að margur Íslendingurinn sé í vandræðum með lausafjárstöðuna. Það er athugunarefni út af fyrir sig. Fólk ætti virkilega að huga að því að lenda ekki í vandræðum með lausaféð. Menn geta átt eignir út um allt, fasteignir o.s.frv., eign í lífeyrissjóði en lent í miklum vandræðum ef þeir eiga ekki fyrir daglegum útgjöldum. Það er allt annar handleggur.

Ég má til með að endurtaka varnaðarorð mín frá því áðan, að fólk þarf að átta sig á því að lántaka er ekki annað en ráðstöfun á framtíðartekjum. Framtíðartekjurnar eru nokkurn veginn afmarkaðar á hvern einstakling. Það er á ábyrgð einstaklingsins hvað hann ráðstafar miklu af framtíðartekjum sínum. Menn þurfa að vera mjög varkárir í því hvað þeir ráðstafa miklu, átta sig á því að lán er ráðstöfun á framtíðartekjum. Það er gott ef lánið er tekið til þess að kaupa eignir sem eru varanlegar, fasteignir, hlutabréf eða eitthvað slíkt. En það er slæmt ef það er notað til neyslu, bílakaupa, sem eru yfirleitt mjög slæm fjárfesting, utanlandsferða eða eitthvers af því tagi. Þá er lántakan mjög slæm og hættuleg. Fólk þarf náttúrlega að bera ábyrgð á því sjálft. Ég treysti fólki til að sjá um fjármál sín og þarf ekki að hafa vit fyrir því.



[14:39]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þá málefnalegu umræðu, mestan part, sem um þetta mál hefur verið í dag. Að mínu viti höfum við hér afar mikilvægt mál til umfjöllunar og er ánægjulegt hve mikill samhljómur er um það í sölum Alþingis. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„… haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki.“

Í ljósi þróunar á húsnæðislánamarkaði á undanförnum mánuðum er mikilvægt að ríkisstjórnin undirstriki hvaða hlutverk hún ætlar Íbúðalánasjóði. Við undirbúning lagabreytinga vegna hækkunar lánshlutfalls sjóðsins sem og breyttrar fjármögnunar hans hefur það verið haft að leiðarljósi að sjóðnum verði eftirleiðis gert kleift að tryggja fólki, hvar í landinu sem það býr, aðgang að fjármagni til kaupa á hóflegu íbúðarhúsnæði á hagkvæmustu kjörum og með allt að 90% lánshlutfalli í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Þetta er sú stefna sem ríkisstjórnin setti sér með stefnuyfirlýsingu sinni og út frá henni hefur verið unnið.

Hæstv. forseti. Ég tel afar mikilvægt að áfram verði stuðst við þetta stefnumið. Í því ljósi er mikilvægt að grípa til ákveðinna aðgerða til að aðlaga sjóðinn breyttum aðstæðum út frá hagsmunum húsnæðiskaupenda, hagsmunum Íbúðalánasjóðs og þar með ríkisins og hagsmunum annarra aðila á markaði.

Í fyrsta lagi þarf að bregðast við uppgreiðslum á eldri lánum Íbúðalánasjóðs og í öðru lagi þeirri staðreynd að of lágt hámarkslán sjóðsins í gjörbreyttu umhverfi á lánamarkaði geri það að verkum að hann er ekki virkur á markaðnum á höfuðborgarsvæðinu, sem aftur getur leitt til verri kjara hans við fjármögnun og þar með endurlán. Það gæti kallað á annað af tvennu: verri lánskjör gagnvart þeim sem minna mega sín á húsnæðislánamarkaði og þeim sem búa á landsbyggðinni eða að öðrum kosti að ríkissjóður greiði niður vexti til þessara hópa, sem ekki getur talist sérlega heillandi framtíðarsýn.

Hæstv. forseti. Þegar ég mælti fyrir þessu máli á Alþingi fyrir fáeinum vikum var gert ráð fyrir því að hámarkslán Íbúðalánasjóðs mundi við gildistöku laganna hækka í 13 millj. kr. Þeirri tölu til grundvallar lá sú lauslega skilgreining að hóflegt íbúðarhúsnæði, eins og rætt er um í stjórnarsáttmála, væri um fjögurra herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim tíma sem viðmiðunin tók til var meðalverð slíkrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu 14,4 millj. kr. 90% af því verði eru 13 millj. kr. Gert var ráð fyrir að húsnæðisverð mundi til loka kjörtímabilsins þróast líkt og það hafði gert missirin þar á undan. Verð hóflegrar íbúðar yrði þannig rúmlega 17 millj. kr. í lok kjörtímabilsins og hámarkslánið því um 15,4 millj. kr.

Það er álit þeirra sem best þekkja til á húsnæðismarkaði, og hefur komið fram við umræðuna í dag, að eðlilegra sé, við skilgreiningu á meðalhúsnæði, að miða við fermetrafjölda en herbergjafjölda. Er það ekki síst í ljósi þess að herbergjafjöldinn segir ekki allt um stærð íbúðar, fjögurra herbergja íbúð getur allt eins verið 200 fermetrar og 80 fermetrar.

Samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar frá því í júní á þessu ári er meðalstærð húsnæðis 119 fermetrar. Það er þó breytilegt eftir staðsetningu. Samantekt Fasteignamats ríkisins sýnir að í október fyrir ári var meðalverð húsnæðis af stærðinni 110–130 fermetrar á höfuðborgarsvæðinu 14,9 millj. kr., 90% af því eru 13,5 millj. kr. Í október síðastliðnum var verðið hins vegar komið í 16,5 millj. kr., 90% af því eru 14,8 milljónir og hefur því verðið hækkað um 10% á einu ári.

Í umræðu undanfarna daga, m.a. í tengslum við umfjöllun félagsmálanefndar um málið sem hér er til umræðu hafa ýmsir aðilar bent á nauðsyn þess að hækka hámarkslán umfram það sem ráðgert var við framlagningu frumvarpsins. Ég tek undir mikilvægi þess, hæstv. forseti, að hámarksfjárhæðin sé endurskoðuð og hámarkslánið hækki enn frekar. Er enda örðugt að sjá að hófleg hækkun hámarkslánsins frá því sem nú er áætlað hafi nokkur efnahagsleg áhrif né áhrif á þróun fasteignaverðs, eins og húsnæðislánamarkaðurinn hefur þróast að undanförnu. Einnig hefur við meðferð málsins verið bent á að unnt sé að hægja á uppgreiðslum áhvílandi lána Íbúðalánasjóðs með því að auka svigrúm sjóðsins til að veita veðleyfi.

Hæstv. forseti. Að öllu virtu er það niðurstaða mín að grípa til eftirfarandi aðgerða til að fylgja eftir því markmiði ríkisstjórnarinnar að marka Íbúðalánasjóði ákveðinn bás á húsnæðislánamarkaði. Honum verði gert kleift að bjóða fólki 90% lán til kaupa á hóflegu húsnæði á hagkvæmustu kjörum. Er rétt að ítreka að með hóflegu húsnæði er átt við meðalverð 110–130 fermetra íbúðar á höfuðborgarsvæðinu.

Við gildistöku laganna mun ég því gefa út reglugerð til hækkunar hámarkslánsins þannig að það nemi 14,9 millj. kr., eða 90% af meðalverði síðastliðinna sex mánaða, sem nú er 16,6 millj. kr. Enn fremur verði gripið til aðgerða til að draga úr uppgreiðslum lána hjá Íbúðalánasjóði.

Gefin verði út reglugerð þar sem sjóðnum verði heimilt að fallast á veðsetningu á undan öðrum áhvílandi lánum sjóðsins en ÍLS-veðbréfum, svo fremi sem sameiginleg uppreiknuð fjárhæð eftirstöðva lánsins og nýs láns er ekki hærri en hámarkslán Íbúðalánasjóðs á hverjum tíma, hún rúmist innan matsverðs eignarinnar og fari ekki yfir 90% af markaðsvirði. Þessi heimild mun væntanlega einkum nýtast þeim sem þegar hafa greitt verulegan hluta áhvílandi lána sinna, en þurfa að skuldbreyta öðrum lánum.

Með þeim aðgerðum sem ég hef hér lýst hæstv. forseti, tel ég að ég hafi gripið til þeirra ráða sem mér eru fær í því augnamiði að tryggja stöðu Íbúðalánasjóðs og þar með ríkissjóðs við gjörbreyttar aðstæður á húsnæðislánamarkaði. Sjóðnum hefur um leið verið afmarkaður ákveðinn bás á markaðnum og þannig skotið stoðum undir möguleika hans til framtíðar, en ekki síður, hæstv. forseti, skapað nauðsynlegt rými fyrir aðrar lánastofnanir á þessu sviði.

Við umfjöllunina í dag, hæstv. forseti, hefur verið fjallað um samkeppni á húsnæðislánamarkaði og stöðu Íbúðalánasjóðs við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi. Eins og kunnugt er kom hinn 11. ágúst 2004 niðurstaða frá Eftirlitsstofnun EFTA um lögmæti lána Íbúðalánasjóðs gagnvart ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Í ákvörðun ESA var fallist á hækkun hámarksláns og talið að starfsskilyrði Íbúðalánasjóðs stæðust í einu og öllu ákvæði EES-samningsins. Þá var fallist á þau rök íslenskra stjórnvalda að fyrirkomulag íbúðalána Íbúðalánasjóðs feli í sér almannaþjónustu sem sé heimilt samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Ástæða er til, hæstv. forseti, að taka þetta fram hér við þessa umræðu.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hér í dag að full ástæða er til þess að fagna aukinni þátttöku banka og annarra fjármálafyrirtækja á húsnæðislánamarkaði. Ég get eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagt: Loksins, loksins. Ég vona sannarlega að þessi fyrirtæki séu komin inn á þennan markað til að vera og þá með framboð þeirra lánskjara sem nú gilda.

Þær breytingar sem Alþingi gerði liðið vor á lögum um húsnæðismál og varða fjármögnun Íbúðalánasjóðs hafa án vafa stuðlað að auknu framboði lánsfjármagns á kjörum sem ekki hafa áður boðist almenningi hér á landi. Þær hafa því tekist vel og um þessar breytingar var góð samstaða á Alþingi.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson beindi til mín tveimur spurningum, hæstv. forseti, í fyrsta lagi um vaxtaákvörðun Íbúðalánasjóðs.

Um það er að segja að sjóðurinn á í sjálfu sér lítið val um aðferðafræði við vaxtaákvörðun. Alþingi hefur með lögum frá því í vor ákveðið að sjóðurinn skuli lána út á fjármögnunarkjörum sínum að viðbættu skýrt fyrir fram skilgreindu vaxtaálagi. Þannig eru vextir hans ákvarðaðir, hæstv. forseti, en alls ekki með tilliti til vaxta annarra lánastofna á húsnæðislánamarkaði og ástæða er til að undirstrika þetta hér.

Í öðru lagi gerði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að umfjöllunarefni hlutverk Íbúðalánasjóðs, félagslegt hlutverk ekki síst.

Eins og fram hefur komið í ræðu minni í dag þá er mikilvægt að stjórnvöld marki sjóðnum ákveðinn bás á þeim lánamarkaði sem hér er til umfjöllunar og ég hef gert grein fyrir þeirri stefnumörkun. En í núverandi húsnæðislánakerfi er það forsenda fyrir getu Íbúðalánasjóðsins, getu hans til að bjóða þeim sem lakast standa lán, að hann hafi tiltekna stærð og veiti einnig almenn lán. Eftirlitsstofnun EFTA hefur, eins og áður sagði, farið yfir þessi mál og komist að sömu niðurstöðu. Ef sjóðnum væri einungis ætlað að veita félagslega húsnæðisaðstoð værum við að breyta í grundvallaratriðum um húsnæðiskerfi og engin leið að sjá slíkt fyrir sér öðruvísi en til þess væri þá lagt umtalsvert fjármagn af ríkisins hálfu, nokkuð sem ég reikna með að við hv. þingmaður getum verið sammála um að sé ekki sérlega heillandi framtíðarsýn.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði að umfjöllunarefni hámarkslán sjóðsins, aukið veðrými og stöðu félagslega húsnæðisins og leigumarkaðarins. Ég hef þegar fjallað um tvö fyrrnefndu atriðin hæstv. forseti, en síðastliðið haust skipaði ég nefnd til þess að yfirfara stöðu leigumarkaðarins og gera tillögur um aukið framboð leiguíbúða. Nefndin átti sömuleiðis að greina biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum eða félagasamtökum. Í niðurstöðum nefndarinnar kom fram að staða leigumarkaðarins væri almennt góð, framboð leiguhúsnæðis væri fullnægjandi og ljóst að það átak sem ríkisstjórnin stóð fyrir í uppbyggingu leiguíbúða árið 2001 hefði skilað góðum árangri. Í frumvarpi því sem við nú ræðum er gert ráð fyrir að stuðlað verði að eflingu leigumarkaðarins með því að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða tvenns konar lán til byggingar leiguíbúða, annars vegar verði sem fyrr boðin lán með breytanlegum vöxtum sem eru nú 4,9%, hins vegar upp á lán með föstum vöxtum en án uppgreiðsluheimildar.

Við gildistöku ákvæða frumvarps þessa verður til heildstætt og einsleitt húsnæðiskerfi. Með því er lokið við það umbótaferli sem hófst með setningu laga um húsnæðismál árið 1998. Tilkoma viðbótarlánakerfisins í stað félagslega íbúðakerfisins árið 1999 hefur sannað gildi sitt, aukið valfrelsi tekju- og eignaminni kaupenda og dregið úr neikvæðum félagslegum afleiðingum afmarkaðra félagslegra íbúða.

Nefnd sú sem ég hér minntist á, hæstv. forseti, vann gott starf, gerði margar gagnmerkar tillögur. Úr þeim er nú unnið í félagsmálaráðuneytinu.

Örlítið um uppgreiðslugjald, hæstv. forseti, sem talsvert hefur komið til umfjöllunar í dag.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að kveða á um í reglugerð að Íbúðalánasjóði verði kleift að bjóða húsnæðislán án endurgjaldslausrar uppgreiðsluheimildar í samræmi við almenn lagaákvæði á hverjum tíma. Í breytingum þeim á lögum um húsnæðismál sem Alþingi samþykkti á liðnu vori var gert ráð fyrir að skuldurum ÍLS-veðbréfa væri ávallt heimilt að greiða aukaafborganir eða greiða skuldina upp að fullu fyrir gjalddaga án endurgjalds. Í því skyni að standa undir þessari heimild var gert ráð fyrir að hluti vaxtaálags sjóðsins mundi verja sjóðinn tapi.

Ástæða þess að sú leið var farin var það mat félagsmálaráðuneytisins að breytingar sem gerðar voru á lögum um neytendalán í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis árið 2000 yllu því að ákvæði þeirra laga tækju nú einnig til íbúðalána. Á undanförnum mánuðum hefur komið fram að viðskiptabankarnir leggja ekki þennan skilning í ákvæði laga um neytendalán og hafa sett ákvæði um uppgreiðslugjald inn í skilmála íbúðalána sinna. Athugasemdum um þetta mun hafa verið beint til Samkeppnisstofnunar og Fjármálaeftirlits og mun það vera til athugunar hjá þeim stofnunum.

Félagsmálaráðuneytið lítur svo á að ef það er skilningur þeirra eftirlitsstofnana sem með málið fara að lög um neytendalán krefjist þess ekki að uppgreiðslugjald sé óheimilt séu engar forsendur fyrir því að gera aðrar kröfur til Íbúðalánasjóðs að þessu leyti en til annarra þeirra sem veita íbúðalán á markaði. Því sé eðlilegt að ráðherra hafi heimild til að veita Íbúðalánasjóði þetta svigrúm ef réttmætar eftirlitsstofnanir komast að þeirri niðurstöðu að það sé löglegt. Rétt er að athuga að þetta lagaákvæði felur ekki í sér sjálfstæða heimild til Íbúðalánasjóðs til að veita lán með þessum hætti heldur er forsenda þess að unnt sé að beita ákvæðinu sú að almenn lög heimili það.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi í máli mínu svarað þeim spurningum sem til mín var beint. Ég vil að lokum vekja sérstaka athygli á þeirri samstöðu sem um þetta mál er á Alþingi. Hv. félagsmálanefnd hefur innt af hendi afar gott starf við umfjöllun málsins og náð saman um það í öllum meginatriðum. Ég vil ljúka máli mínu á að þakka nefndinni sérstaklega starf hennar, hæstv. forseti.



[14:53]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom hér hjá hæstv. félagsmálaráðherra um að hann ætli að hækka þá hámarksfjárhæð sem má veita að láni og er það í samræmi við það sem ég lagði áherslu á bæði við 1. og 2. umr., þ.e. að sú hámarksfjárhæð sem var áformuð af hendi hæstv. ráðherra væri of lág og að fara þyrfti hærra með þá hámarksfjárhæð til að sjóðurinn yrði samkeppnisfær á markaðnum og hefur hæstv. ráðherra komið að hluta til móts við það og ég fagna því mjög.

Ég tel að vísu að ráðherrann fari heldur of lágt í þessu. Ráðherrann talar um 14,9 í staðinn fyrir 13 milljónir sem átti að fara í núna um áramótin. Í staðinn verða það 14,9 og það er auðvitað skref í áttina. En ef hæstv. ráðherra er að miða við 110–130 fermetra íbúð þá kosta þær núna í nóvembermánuði samkvæmt áætlun Fasteignamats ríkisins 17,2 milljónir. Ráðherrann hefði því þurft að fara í 15,5 milljónir með hámarksfjárhæðina til þess að mæta því.

Ég fagna ekki síður því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um aukið veðrými til uppgreiðslu óhagstæðra lána. Nú geta því lántakendur með óhagstæð lán skuldbreytt þeim án þess að þurfa að flytja öll sín lán frá Íbúðalánasjóði til þess að geta skuldbreytt einu óhagstæðu láni. Ég tel að þetta muni verja sjóðinn uppgreiðslu og sé til verulegra hagsbóta fyrir þá sem eru með vexti sem eru núna á bilinu 5–6% hjá Íbúðalánasjóði sem þeir geta ekki hreyft sig með.

Aftur á móti veldur það mér miklum vonbrigðum að hæstv. ráðherra telur sig ekkert þurfa að gera varðandi leigumarkaðinn. Hann telur framboð leiguíbúða nægjanlegt. Það má vera að svo sé á almenna markaðnum. En það er ekki í félagslegum leiguíbúðum þar sem um 2.000 manns bíða og ríkir þar neyðarástand.

En ég fagna hinum yfirlýsingum hæstv. ráðherra.



[14:56]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Rétt til að bregðast við lokaorðum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vil ég segja að ég hef ekkert útilokað í þeim efnum. Sú nefnd sem ég vitnaði til í ræðu minni skilaði ágætu áliti með hugmyndum um ákveðnar breytingar og tillögum þar um. Við erum að fara yfir það í félagsmálaráðuneytinu.

Ég þakka þann stuðning sem ég finn fyrir í orðum hv. þingmanns við þá meginstefnu sem hér hefur verið lögð. Ég átti svo sem ekki von á því, hæstv. forseti, að við hv. þingmaður mundum kannski endilega ná saman í þessari umræðu um endanlega krónutölu þessa hámarksláns. En eins og ég rakti í máli mínu þá liggja að baki þessari ákvörðun minni um hækkun hámarkslánsins mjög skýr rök. Þarna er verið að horfa til meðalverðs síðastliðinna sex mánaða á íbúðum af þeirri stærð sem skilgreind er sem meðalstærð íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Þegar það er tekið saman þá er meðalverð þeirra síðastliðna sex mánuði 16,6 milljónir, 90% af því eru 14,9. Þannig er þessi krónutala fundin og þannig þurfum við að horfa til þessa í framtíðinni.



[14:57]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi síðustu orð hæstv. ráðherra á þann veg að í framtíðinni mundi hámarksfjárhæðin fylgja því að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði gætu keypt sér íbúð miðað við 110–130 fermetra sem er svona fjögurra herbergja íbúð og fengið 90% af þeirri fjárhæð. Ég sé að hæstv. ráðherra kinkar kolli þannig að það verður þá reglulega að breyta þessu miðað við það hvernig fasteignaverð þróast. Er það mjög ánægjulegt að ráðherrann skuli nú við 2. umr. hafa komið með þessa yfirlýsingu.

Varðandi leiguíbúðirnar þá finnst mér, virðulegi forseti, mjög slæmt að lægst launaða fólkið þurfi enn að bíða og ekkert sé gert fyrir þessa hópa. Þetta eru um 2.000 manns og neyðarástand ríkir víða hjá þessu fólki. Ég nefni t.d. að sennilega bíða 300–400 manns hjá Öryrkjabandalaginu eftir að geta fengið leiguíbúðir hjá þeim. Þar af eru 77 geðfatlaðir. Nokkur hundruð námsmenn bíða eftir að fá leiguíbúðir. Við tókum þessa umræðu í fyrra hvort ekki væri nú nauðsynlegt að stíga einhver skref til þess að bæta leigumarkaðinn hjá þessu fólki og að þau fengju hagstæðari lán og þyrftu ekki að bíða svona lengi eftir því að fá fyrirgreiðslu. Það hefur raunverulega ekkert gerst nema það að fyrir liggur álit nefndar hæstv. ráðherra þar sem nefndin leggur til að farið verði m.a. út í að veita stofnstyrki til byggingar leiguíbúða fyrir sérstaka hópa, aldraðra, öryrkja og námsmenn, sem búa við erfiðar aðstæður og eru með tekjur og eignir innan tiltekinna marka. Ráðherrann útilokar að vísu ekki neitt, að skoðaðar verði leiðir til þess að grynnka á þessum biðlistum og koma með leiguíbúðir á hagstæðari kjörum en nú bjóðast lágtekjufólki. En ég hvet ráðherra til þess að gera þetta fyrr en seinna, svo lengi hafa þessir hópar beðið eftir úrlausn sinna mála.



[14:59]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fagna þeirri yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra félagsmála að til standi að hækka þakið sem hér um ræðir með það að markmiði að sjóðurinn keppi áfram af fullum krafti við bankana og lífeyrissjóðina um lán til fasteignakaupa. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að sjóðurinn starfi áfram af fullum krafti sérstaklega á meðan þróunin er að ganga yfir og við erum að átta okkur á til hvers hún muni leiða og því sé mikilvægt að styrkja sjóðinn og gera hann samkeppnishæfan við bankana og lífeyrissjóðina um fasteignalán til íbúðakaupa. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og væri mikið glapræði ef fótunum væri kippt undan Íbúðalánasjóði eins og staðan er núna og mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir marga og sérstaklega landsbyggðina og þá sem verr eru settir, enda hefur það komið í ljós við umræðuna í dag að það er ákaflega erfitt að skilgreina þá sem ættu að hafa aðgang að einhvers konar félagslegum sjóði til fasteignakaupa og við hvað ætti að tengja. Það er ákaflega erfitt.

En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um leið og ég tek undir það markmið með honum að við eigum að renna stoðum undir framhaldslíf Íbúðalánasjóðs og tryggja að hann geti starfað áfram: Óttast hann ekki að sú þróun sem er í gangi núna marki endalok sjóðsins sem slíks jafnvel á næstu mánuðum? Hver eru viðbrögð hans við því og telur hann að grípa þurfi á einhvern hátt til sértækra aðgerða til að tryggja að sjóðurinn starfi áfram annarra en þeirra að hækka þak á lánum sjóðsins til fasteignakaupa?



[15:01]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er trú mín að með þeim aðgerðum sem ég hef boðað í dag verði Íbúðalánasjóði kleift að standa þannig að málum að hann verði virkur á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu eins og á landsbyggðinni en virkni hans á þessum markaði hefur vissulega dregist saman á undanförnum vikum.

Ég lýsti því yfir, hæstv. forseti, þegar ég mælti fyrir þessu máli fyrir nokkrum vikum að eitt það mikilvægasta sem sneri að þessu máli væri að hámarkslán Íbúðalánasjóðs þróaðist með þeim hætti að honum væri þetta kleift. Öðruvísi gæti hann ekki staðið undir þeim markmiðum sem sett eru með lögum um sjóðinn. Hækkun hámarkslánsins sem og með rýmkun í reglugerðarheimild hvað varðar veðrými fyrir framan lán Íbúðalánasjóðs tel ég, hv. þingmaður, að muni tryggja sjóðnum þá stöðu sem honum er nauðsynleg til að standa undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar samkvæmt lögum.



[15:03]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Guð láti gott á vita. Ég vona að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það sem hér er gert sé nægjanlegt til að sjóðurinn megi starfa áfram og geti starfað áfram af fullum krafti án þess að hann skakklappist með einhverjum hætti haltur á eftir þeirri þróun sem á sér stað á markaðnum eins og margir óttast. Það viðhorf hefur komið nokkuð sterkt fram hjá ýmsum talsmönnum og félagsmönnum í Sjálfstæðisflokknum að sjóðurinn ætti ekki að keppa á frjálsum markaði við banka og lífeyrissjóði um lán til fasteignakaupa heldur ætti hann einfaldlega að líða undir lok og bankar og aðrar lánastofnanir að taka við þessu hlutverki. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er á allt annarri skoðun og tek undir þau sjónarmið sem hann hefur haldið fram að við eigum að tryggja líf sjóðsins og við eigum að halda sjóðnum úti áfram allra hluta vegna, ekki síst til að tryggja að þeir efnaminni og þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eigi fullan og algeran aðgang að íbúðalánum svo og til að vera það virka og öfluga aðhald á bankana og lánastofnanir sem ég tel að sé nauðsynlegt. Það er engin ástæða til að ætla annað ef sjóðurinn hyrfi nú af markaði löngu áður en þróunin er gengin yfir, núna meðan þróunin er rétt að hefjast og kannski að ganga hvað hraðast yfir, en að í kjölfarið mundu vextirnir hækka aftur. Ég held að vera Íbúðalánasjóðs á þessum markaði geri það að verkum að bankarnir lækki vextina og sjóðurinn fylgir að sjálfsögðu á eftir í þá áttina. Ef svo væri ekki sæjum við vextina hækka aftur. Sjóðurinn gegnir því áfram margþættu og mikilvægu hlutverki og við honum á að mínu mati ekki að hagga heldur treysta stoðir hans þannig að hann geti starfað áfram.



[15:05]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið til að fagna yfirlýsingu ráðherra hvað varðar Íbúðalánasjóð. Ég hrökk að vísu svolítið við vegna fjárhæðarinnar sem hann nefndi, að setja hámarkið ekki hærra en 14,8 milljónir, en ef miðað er við það sem hann sagði að það verði endurskoðað miðað við þróun á markaði sex mánuði aftur í tímann tel ég að það megi mjög vel við það una. Ég tel að það skipti verulega miklu máli að Íbúðalánasjóður verði áfram kjölfestan í lánakerfi okkar til íbúðarhúsnæðis.