131. löggjafarþing — 52. fundur
 8. desember 2004.
athugasemdir um störf þingsins.

náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:01]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna ástandsins sem blasir við ef ekkert verður að gert í málefnum náms- og starfsendurhæfingar fyrir geðsjúka á vegum Fjölmenntar og Geðhjálpar en alger óvissa ríkir um framtíð þjónustunnar við þá 140 einstaklinga sem óska eftir áframhaldandi námi nú eftir áramótin.

Í haust sóttu um 140 manns um að komast í þetta nám en aðeins 80–90 fengu tilboð með ákveðnum takmörkunum og 50 manns fengu ekki nám. 6 millj. komu þá frá menntamálaráðuneytinu svo að hægt var að hefja námið í haust. Frá því í ágúst hafa verið viðræður milli menntamálaráðuneytisins og Geðhjálpar og Fjölmenntar um að endurskoða þjónustusamning og hafði menntamálaráðuneytið tilkynnt bæði Fjölmennt og Geðhjálp að búið yrði að ganga frá því máli fyrir 1. desember. Nú er 8. desember og ekkert hefur heyrst frá menntamálaráðuneytinu.

Fyrir þinginu liggur reyndar fyrirspurn um þetta mál sem ekki átti að svara fyrr en eftir áramót en vegna þess hve alvarleg staða málsins er ákvað ég að taka málið upp hér undir liðnum um störf þingsins.

Þannig er mál með vexti að þessi tími, skammdegið, er ákaflega erfiður fyrir geðsjúka. Óöryggið og óvissan fram undan er slæm fyrir bæði nemendur og aðstandendur. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra sem ég þakka fyrir að hafa komið til að svara þessari umræðu: Hvar stendur þetta mál? Þurfa geðsjúkir sem þurfa menntun að bíða áfram í óvissu? Þetta getur verið lífsspursmál fyrir marga þeirra. Ég veit að þetta líður fyrir það að heyra undir fleiri en einn ráðherra en menntamálaráðherra hefur verið með þetta mál á sinni könnu og ég óska hér með eftir því, virðulegi forseti, að upplýst verði hver staða málsins er.



[10:03]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hér er um að ræða samstarfsverkefni sem fór af stað á sínum tíma á vegum Fjölmenntar annars vegar og Geðhjálpar hins vegar um starfsendurhæfingu og nám sem tengist málefnum geðsjúkra. Þannig er upphafið að þessu máli öllu saman, og í kjölfarið og á sínum tíma var gerð úttekt á þessu verkefni þar sem í ljós kom að þörfin er nokkuð brýn. Ég held að það sé ljóst að hún er brýn en síðan hafa málin þróast á þann veg að reynt var að láta þetta halda áfram í þeim farvegi, þ.e. á milli Fjölmenntar sem hóf þetta nám og Geðhjálpar, þessara tveggja aðila sem hófu þetta ágæta verkefni. Að því leytinu til er ljóst að engir samningar voru gerðir á milli ráðuneytanna sem koma að þessu máli núna og eru að reyna að leysa þetta, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis, þannig að menn hafi það líka á hreinu. Það er líka alveg hreint og klárt að þjónustusamningur menntamálaráðuneytisins við Fjölmennt er í gildi, og Fjölmennt hefur verið falið það hlutverk að sinna fræðslumálum fatlaðra en í þeim samningi er enginn greinarmunur gerður á einstökum hópum fatlaðra.

Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hafa farið fram viðræður milli Fjölmenntar og ráðuneytisins. Því miður hefur ekki enn náðst niðurstaða í þessu máli en engu að síður vil ég varpa ljósi á það að við höfum rætt um þetta, ég og heilbrigðisráðherra, með það auðvitað að markmiði að reyna að leysa málið. Ég vil einnig geta þess að í sumar voru að mínu frumkvæði settar til viðbótar í verkefnið 6 millj., þ.e. 2 millj. frá menntamálaráðuneyti, 2 millj. frá heilbrigðisráðuneyti og 2 millj. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.



[10:06]
Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Öryrkjum fjölgar nú um 700 á ári og þá mest í yngri aldurshópunum. Það er mikilvægt að nota öll þau úrræði sem til eru til að halda bæði geðsjúkum og geðfötluðum virkum úti í þjóðfélaginu. Fólk festist í hlutverki öryrkja og það er hlutverk sem við eigum að reyna að forðast.

Samstarfsverkefni Fjölmenntar og Geðhjálpar hófst í byrjun árs 2003. Það hefur sýnt sig að þar er unnið mikilvægt starf. Námið hefur nýst geðfötluðu fólki mjög vel. Námið kemur til móts við þarfir geðfatlaðra og einstaklinga sem hafa flosnað úr námi en vandamálið er það að þrjú ráðuneyti koma að málinu. Við þekkjum það öll að það er erfiðara að koma á samningum þegar fleiri en eitt ráðuneyti eiga í hlut. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að beita sér í þessu máli og fá til liðs við sig bæði félagsmála- og heilbrigðisráðherra til að ganga þegar frá þjónustusamningi við Fjölmennt og Geðvernd um áframhaldandi nám. Það er búið að loka fjárlögum og þetta er eitt af mörgum verkefnum sem ég tel að muni banka fljótlega upp á á þeim fáu dögum sem eftir eru fram að þinghléi og strax á næsta ári. Það vantar fjármagn inn í stoðþjónustu sem er utan stofnana. Það er ekki nóg að greina, það þarf líka að bjóða upp á meðferðarúrræði og þetta meðferðarúrræði er mjög til bóta og gefur fólki góða von.



[10:08]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir orð hv. þingmanna um að mikilvægt sé að leiða þetta mál til lykta. Vissulega eru vonbrigði að heyra að ekki hafi náðst niðurstaða í samræður og viðræður Fjölmenntar annars vegar og fulltrúa menntamálaráðuneytisins hins vegar. Það er ástæða til að skora á ráðherrana þrjá sem hér eiga í hlut að setjast niður og klára þetta mál. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. heilbrigðisráðherra sem er staddur í salnum núna því að hæstv. menntamálaráðherra hefur tjáð vilja sinn til að klára þetta mál þannig að sómi sé að.

Það leikur enginn vafi á því að Fjölmennt og þau tækifæri sem það opnar geðfötluðum og þeim sem eiga við slík vandamál og veikindi að stríða dyrnar aftur út í samfélagið, eykur þeim sjálfstraust og hæfi til að takast á við tilveruna á nýjan leik þegar fólk er að rísa upp úr erfiðum veikindum sem er erfitt að meðhöndla. Þá er enn þá erfiðara að finna oft fótum sínum forráð í tilverunni þegar þeirri leið í sjúkdómsgöngunni sleppir og mjög mikilvægt að auka aðgengi að menntun og tækifærum til að takast þannig á við tilveruna og fjölga tækifærum þessa fólks á atvinnumarkaði. Oft er um að ræða fólk sem hefur flosnað snemma upp úr námi án þess að ljúka annarri skólagöngu en grunnskólanum vegna veikinda sinna. Þess vegna er ekki síst áríðandi að leiða málið til lykta af festu, og fljótt. Þetta eru litlir peningar en mikilvægt mál. Þess vegna er ástæða til að skora á ráðherrana þrjá að beita sér af fullri hörku í þessu máli og leiða það til lykta svo fljótt sem verða má.

Óvissan og óöryggið er alvarlegt fyrir þetta fólk og því ástæða til að ljúka málinu.



[10:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki efast sá sem hér stendur um góðan vilja þeirra ágætu ráðherra sem að þessu máli koma til lausnar á því en betur má ef duga skal. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra að hún beitti sér síðasta haust fyrir því að í verkefnið fengust 6 millj. Það dugði þó ekki nema til að mæta tveimur þriðju hluta þarfarinnar núna í haust. Umsækjendur um þá menntun og endurhæfingu sem hér er í boði voru um 140 en aðeins var hægt að taka á móti 80–90 manns.

Hér er um litlar fjárhæðir að ræða og það er fagnaðarefni að þeir sem stríða við geðfötlun leiti sjálfir eftir og hafi frumkvæði að því að leita eftir endurhæfingu og menntun af því tagi sem hér um ræðir. Þeim eiga að standa þær dyr opnar. Það er óviðunandi að það sé biðlisti geðfatlaðra eftir úrræðum sem ekki eru kostnaðarmeiri en hér um ræðir. Við getum ekki í þessum sölum undrast yfir því annan daginn að öryrkjum sem ekki eru á vinnumarkaði fari fjölgandi ár frá ári og sjá ekki síðan, ég vil segja, af smáaurum í nauðsynleg verkefni af þessu tagi. Ég treysti því að þeir ráðherrar sem hér eiga hlut að máli leggist saman á árarnar og nái þessu máli í land, eins og ég trúi og treysti að vilji þeirra standi til.



[10:12]
Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu máli í dag. Sem betur fer er öll umræða um geðfatlaða opnari í dag en hún var fyrir nokkrum árum. Þetta er, eins og hefur komið fram, afar viðkvæmur tími fyrir marga og allt starf með geðfötluðum skiptir afskaplega miklu máli, ekki bara fyrir þá sem einstaklinga heldur okkur öll sem samfélag.

Það er mikil og brýn þörf fyrir starfsmenntun og starfsþjálfun og ég vil í þessu minna á aukin úrræði sem eru að verða fjölbreytt sem betur fer. Ég minni á klúbbinn Geysi þar sem fer fram mjög markviss vinnumiðlun og uppbygging einstaklingsins, og samsvarandi klúbbar eru komnir á stofn bæði á Selfossi og í Reykjanesbæ. Ég held að þetta sé með því mikilvægara sem við komum að, þ.e. að byggja upp einstaklinginn, tala opinskátt um vandamálin og gera þá hæfari til að komast út í samfélagið sem fyrst.



[10:13]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að þessu máli sé hreyft. Það er meira en tímabært. Eiginlega er alveg til skammar að ekki skuli vera komin niðurstaða hvað varðar þá önn sem á að hefjast í janúarmánuði nk. Ég verð að segja að mér fundust svör hæstv. menntamálaráðherra, ef svör skyldi kalla, heldur deyfðarleg. Stjórnvöld eiga auðvitað að taka því fagnandi að eiga kost á samstarfi við aðila eins og Geðhjálp um svona verkefni. Það er að mínu mati fyrst og fremst þannig sem á að líta á hlutina. Það er til fyrirmyndar, og stjórnvöld eiga að taka því fegins hendi að eiga kost á samstarfi við slíkan aðila sem leggur mikið af mörkum. Það að láta það vera í óvissu út af einhverjum smávægilegum fjármunum er svo sannarlega að kasta krónunni og spara eyrinn. Ef það er eitthvað sem er tiltölulega óumdeilt að er jákvætt og getur sparað mikla fjármuni, fyrir utan mannlega þáttinn, er það auðvitað að styðja fólk til endurhæfingar og aðstoða það út í lífið, út á vinnumarkaðinn á nýjan leik eftir að hafa lent í veikindum eða erfiðleikum af þessu tagi.

Svo vil ég segja að lokum að menn eru að tala um að þetta sé eitthvert vandamál af því að þetta heyri undir þrjú ráðuneyti. Það er engin afsökun, eitt ráðuneyti tekur ósköp einfaldlega forustu fyrir verkefnum af þessu tagi. Ég hélt að hæstv. ríkisstjórn fundaði nógu oft og að sessunautarnir gætu leyst úr því hver það er. Mér skilst að það sé þá hæstv. menntamálaráðherra, og það er vel. Þar með er það í höfn og það er engin afsökun þó að tvö eða fleiri ráðuneyti leggi sitt af mörkum og um viðfangsefni af því tagi sé að ræða sem að hluta til heyrir undir fleiri en eitt málasvið. Það er engin afsökun fyrir því að þetta sé í einhverjum seinagangi og vandræðum. Það á að klára þetta mál í hvelli.



[10:15]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég tek undir að um mikilvægt mál er að ræða. Málið var rætt í ríkisstjórn á haustdögum. Þá voru gerðar ráðstafanir til þess að halda starfseminni áfram til áramóta og einnig var rætt um hvernig vista ætti starfið. Niðurstaðan varð sú að eðlilegt væri að það væri viðauki við þjónustusamning Fjölmenntar og menntamálaráðuneytisins. Síðan hefur hæstv. menntamálaráðherra unnið að málinu. Mér er kunnugt um það og við höfum verið í sambandi vegna málsins. Stefna heilbrigðisráðuneytisins er að þjóna geðfötluðum í samfélaginu eftir því sem kostur er, forðast stofnanavistun þeirra eftir því sem mögulegt er og ég tel það mjög áríðandi. Ég tel því mjög áríðandi að niðurstaða fáist í málinu og mun vissulega hafa samstarf við hæstv. menntamálaráðherra um það.

Málið er í þessum farvegi og ég vona svo sannarlega að við náum um þetta niðurstöðu. Heilbrigðisráðuneytið vill fyrir sitt leyti stuðla að því.



[10:17]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni. Það er greinilega mikill skilningur á því að leysa þurfi málið. Hæstv. heilbrigðisráðherra vill forðast stofnanavist. Við viljum koma geðsjúkum aftur út í lífið og gera þá virka þjóðfélagsþegna að nýju.

Hvers vegna er þá málið látið bíða svona? Fólk er áhyggjufullt og óöryggi ríkir á heimilum geðfatlaðra, meðal aðstandenda og meðal kennara hjá Fjölmennt sem sinna mjög dýrmætu og mikilvægu starfi, bæði Geðhjálp og Fjölmennt. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á biðlista fyrir þennan hóp. Öryrkjum er að fjölga og menn kvarta yfir því. Hvers vegna taka menn ekki höndum saman? Ég heyri að hæstv. menntamálaráðherra er tilbúin og hæstv. heilbrigðisráðherra talar einnig í þá veru. Hvernig væri nú að drífa þetta af fyrir jólin þannig að fólk þurfi ekki að búa við þessa óvissu og tryggja fjármunina — þetta eru lágar fjárhæðir sem við erum að tala um — þannig að hægt sé að sinna því mikilvæga starfi sem þarna er á ferðinni og tryggja að allir komist að. Það voru ekki nema tveir þriðju sem komust að í haust þegar 6 millj. kr. komu. Við þurfum viðbótarfjármagn þannig að hópurinn geti hafið starfsmenntun sína og endurhæfingu þannig að hann komist aftur út í lífið.

Ég skora á hæstv. félagsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að taka höndum saman við aðra ráðherra — ég sé að forsætisráðherra situr hér í hliðarherbergi sem veit af málinu líka — að þeir taki sig saman á næsta ríkisstjórnarfundi og tryggi að námið hefjist á tilsettum tíma í janúar og að allir sem óska eftir því geti fengið þessa þjónustu sem mikil þörf er fyrir í samfélaginu í dag.



[10:19]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og fleiri hafa gert, þakka fyrir þessa mikilvægu og brýnu umræðu. Það gera sér allir grein fyrir mikilvægi þessa ágæta verkefnis.

Ég undirstrika að verkefnið hófst að frumkvæði Fjölmenntar og Geðhjálpar og er það afar gott. Það er þjónustusamningur í gangi við Fjölmennt upp á 150 millj. kr. á ári. Þar er reyndar enginn greinarmunur gerður á fötluðum og því ósköp eðlilegt að Fjölmennt hafi hafið samstarf við Geðhjálp sem hefur skilað miklum árangri. Til viðbótar hafa bæst við 6 millj. kr. sem ríkisstjórnin samþykkti á haustmánuðum. Þær hafa því miður ekki dugað og það liggur fyrir og er alveg ljóst að við verðum að leysa málið.

Málið er í ákveðnum farvegi, eins og ég kom inn á áðan og hæstv. heilbrigðisráðherra líka, og ég vil ekki meina að það hafi verið notað sem afsökun að málið væri þvert á þrjú ráðuneyti, síður en svo. Mér finnst frekar jákvætt að það er ekki bara þverpólitísk samstaða um svona mál heldur sé líka komið af fagmennsku innan ráðuneytanna þriggja, félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, að borðinu og málin rædd. Mér finnst það þýðingarmikið, það er engin afsökun en mér finnst skipta máli að við ræðum málin heildstætt og reynum að leysa menntunarmál geðsjúkra sem fyrst.