131. löggjafarþing — 52. fundur
 8. desember 2004.
heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.
fsp. JBjart, 168. mál. — Þskj. 168.

[10:39]
Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég ætla að það eigi ekki bara við um mig en ég hef nokkrum sinnum heyrt í fólki sem kvartar yfir því eða bendir á að það eigi ekki aðgang að heimilislækni eða ekki aðgang að heilsugæslustöð. Ef ég gef mér að eins hátti um aðra þingmenn þá getur maður gefið sér fyrir fram að þetta sé tiltekinn hópur, en mörg undanfarin ár hefur verið kastað fram ýmsum tölum um fjölda þeirra íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem ekki njóta heimilislæknis eða þjónustu heilsugæslustöðvar. Stundum hefur verið fullyrt að sá hópur telji ekki þúsund, heldur tugi þúsunda íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Mér finnst skipta máli, herra forseti, að það liggi fyrir haldbærar upplýsingar um þetta og um leið og liggja fyrir haldbærar upplýsingar um það hversu margir þessir íbúar eru, þá liggur það líka fyrir hvað við þurfum að byggja upp og efla rekstur heilsugæslunnar til að geta tryggt öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, eins og annars staðar á landinu, greiðan aðgang að grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að það er almenn samstaða um þá forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni að tryggja að heilsugæslan geti sinnt því hlutverki að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Það er líka almennt viðurkennd og eiginlega óumdeild afgerandi hagkvæmni þess að heilsugæslan þjóni því hlutverki, enda er almennt talið að 80–85% af þjónustuþörf landsmanna megi sinna innan heilsugæslunnar.

Við megum heldur ekki gleyma þýðingu heilsugæslunnar fyrir sjúklinga, fyrir einstaklinga og fjölskyldur í landinu, vegna þess að störf og starfsumhverfi heimilislækna skapar þeim mjög náið samband við sjúklinga og fjölskyldur þeirra og heilbrigðiskerfið getur í rauninni ekki verið án þeirrar samhæfingar og yfirsýnar sem heilsugæslunni og heimilislæknum er ætlað að hafa. Ég held líka að með auknu þverfaglegu samstarfi innan heilsugæslunnar eða með þjónustusamningum, að ógleymdri rafrænni sjúkraskrá, getum við enn bætt þessa þjónustu. Undanfarið ár hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu og efla þá þjónustu, m.a. til að mæta fólksfjölgun og aukinni eftirspurn. Í fjárlögum þessa árs sér þess merki eins og undanfarin ár.

Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um hversu langt við eigum í land til að geta metið hver raunveruleg þörf er en upplýsingar um fjölda íbúa sem hafa hvorki aðgang að heilsugæslustöðvum né heimilislækni hafa ekki legið á lausu. Það er að því sem fyrirspurn mín til heilbrigðisráðherra lýtur. Ég hef spurt hæstv. ráðherra að því hve margir íbúar það séu sem ekki hafi aðgang, hvað heilsugæslustöðvarnar séu margar, hve mörg stöðugildi séu við hverja þeirra og hvað gert sé ráð fyrir að þessar tvær nýju stöðvar geti þjónað mörgum íbúum. Og loks hve mikið komum á heilsugæslustöðvar hafi fjölgað og hvað sé talið skýra þá fjölgun.



[10:42]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurn um heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn um fjölda íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem hafi ekki aðgang að heimilislækni eða aðgang að heilsugæslustöð og á hverju þær tölur byggist.

Samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni í Reykjavík sem byggjast á talningu úr sjúkraskrá voru í byrjun nóvember á milli þrjú og fjögur þúsund íbúar í Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi án heimilislæknis.

Í öðru lagi spyr hv. þm. um fjölda heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, fjölda stöðugilda við hverja þeirra og hve margir njóti þjónustu hverrar um sig.

Því er til að svara að á höfuðborgarsvæðinu voru alls 15 heilsugæslustöðvar, þar af 13 á svæði heilsugæslunnar, þ.e. í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Tölurnar sem ég fer yfir á eftir um fjölda á þjónustusvæðum stöðvanna, fjölda þeirra sem njóta þjónustu þeirra og fjölda ársverka á hverri stöð, ná ekki yfir Garðabæ, Hafnarfjörð og Álftanes.

Fram kemur að rúmlega 21 þúsund manns séu skráðir hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum.

Ef rætt er um mannfjölda á þjónustusvæði í maí 2004 og hve margir eru skráðir með heimilislækni í nóvember 2004 og hve mörg ársverk voru á viðkomandi heilsugæslu árið 2003, þá er ég með sundurliðaðar tölur um það hér en tíminn leyfir ekki að ég lesi það, en ég fer yfir niðurstöðutölurnar í þessu.

Mannfjöldinn á þjónustusvæðum er í maí 2004 150.318. Skráðir með heimilislækni eru 147.540. Og ársverk á viðkomandi heilsugæslu árið 2003 eru 254.

Hv. þm. spyr hvað gert sé ráð fyrir að þær tvær heilsugæslustöðvar sem áætlað er að koma á fót á þessu ári muni þjóna mörgum íbúum.

Í maí sl. voru íbúar á svæði heilsugæslustöðvarinnar í Salahverfi tæplega 5.800 en áætlað er að í hverfinu verði um 10 þúsund íbúar þegar það er fullbyggt. Í Voga- og Heimahverfi voru tæplega 4.500 íbúar í maí sl., en heilsugæslustöð mun taka til starfa þar á næsta ári.

Loks er spurt um hve mikið komum fjölgaði á heilsugæslustöðvar á síðastliðnu ári og hvað sé talið skýra fjölgunina.

Komum til læknis á heilsugæslustöðvar í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ fjölgaði á árinu 2003 um 11.640, þ.e. um 7,3%. Fyrstu átta mánuði þessa árs fjölgaði komum enn, um 16.788 sem svarar 16,1% ef miðað er við sama tímabil árið áður. Í þessum tölum eru hvorki komur í heilsuvernd né komur á einkareknu heilsugæslustöðvarnar í Lágmúla og Salahverfi í Kópavogi. Bætt aðgengi að heilsugæslustöðvunum og tilflutningur þjónustu, m.a. frá bráðamóttökum, eru helstu skýringar á þessari aukningu að mati forsvarsmanna heilsugæslunnar.



[10:46]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn en það kom fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra að fyrirhugað sé að setja á laggirnar nýja og langþráða heilsugæslustöð fyrir íbúa Voga- og Heimahverfis á næstunni. Í því sambandi langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hafi tekið ákvörðun um rekstrarform hinnar nýju stöðvar, ekki síst í ljósi góðrar reynslu hæstv. heilbrigðisráðherra af samningum við einkaaðila um rekstur heilsugæslustöðva sem hann hefur lýst hér á hinu háa Alþingi, bæði varðandi heilsugæslustöðina í Salahverfi og ekki síður þá í Lágmúla sem, eins og kom fram í ræðu minni áðan, hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst sem mjög hagkvæmri, vel rekinni og afkastamikilli heilsugæslustöð.

Ég vil spyrja ráðherrann, ítreka það, hvort hann hafi tekið ákvörðun um rekstrarform hinnar nýju stöðvar.



[10:47]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er þörf umræða um heilsugæsluna. Ég fagna því að það skuli ekki vera fleiri en 3–4 þús. manns sem eru án heilsugæslulæknis á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þetta hefur verið hátt í 20 þús. manns á undanförnum árum þannig að þarna hefur greinilega náðst árangur.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í hina nýju heilsugæslustöði í Voga- og Heimahverfi sem mér heyrist að muni þjóna 4.500 manns. Ekki er gert ráð fyrir að hún starfi nema í þrjá mánuði á næsta ári eftir því sem fjárlög segja. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær telur hann að hún verði komin í fulla notkun? Það verður auðvitað ekki á þessum þrem til fjórum mánuðum. Hvenær verðum við búin að leysa þann vanda sem þeir búa við sem hafa ekki aðgang að heilsugæslulækni, þ.e. þessi 3–4 þús., munum við verða búin að leysa hann þegar þessar stöðvar sem eru í farvatninu verða komnar í fulla notkun?



[10:48]
Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki vel gert gagnvart hæstv. ráðherra að spyrja hann um svona sundurliðun á tölum, það er ekki nokkur leið að henda reiður á tölunum þó að ráðherrann hafi gert grein fyrir þeim hér í ræðu sinni. Það var ekki vel gert. Meginmálið í ræðu og svari hæstv. ráðherra er náttúrlega það sem hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að þetta væru 3–4 þús. manns af íbúafjöldanum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki njóta heimilislæknis eða aðgengis að heilsugæslustöð. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þetta er verulegur árangur sem náðst hefur og því ber auðvitað að fagna.

Þetta var meginmálið í svari ráðherrans og gott að vera búin að fá það fram sem segir mér að til viðbótar því sem stendur til að byggja vantar ekki nema eins og eina heilsugæslustöð, hefðbundna að stærð, til að sinna íbúafjöldanum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu til fulls.

Hins vegar kom jafnframt fram í svari ráðherra að tölurnar ná ekki til Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Álftaness sem teljast jú til höfuðborgarsvæðisins. Ég hefði kosið að fá þær upplýsingar fram þó að þær séu ekki hér akkúrat núna. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi þær á takteinunum. Svo heyrist mér líka að með þessari nýju heilsugæslustöð í Salahverfi séu enn einir 5 þús. íbúar sem áfram vantar heimilislækni en að Voga- og Heimahverfisstöðin muni dekka þörfina í því hverfinu.

Loks vil ég ítreka, herra forseti, það sem kom fram í niðurlagi svars hæstv. ráðherra varðandi fjölgun koma á heilsugæslustöðvarnar, þær eru fyrst og fremst til marks um aukna og betri þjónustu og eflda þjónustu heilsugæslunnar. Meðal annars sagði hæstv. ráðherra að það væri vegna þess að verið væri að flytja þjónustu frá bráðavöktunum (Forseti hringir.) sem segir líka að við erum að þjónusta fólk á hagkvæmari hátt.



[10:50]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég undirstrika að verulegur árangur hefur náðst í starfsemi heilsugæslunnar hér undanfarin ár og ég fullyrði að aðgengið hefur batnað.

Spurningum var beint til mín hér, fyrst hvort ég hefði tekið ákvörðun um rekstrarform hinnar nýju stöðvar í Voga- og Heimahverfi. Ég hef ekki tekið hana enn þá en ég geng að því máli með opnum huga. Ég hef líka verið að skoða með hverjum hætti við gætum endurnýjað samninga við sjálfstætt starfandi heimilislækna samkvæmt þeirri viljayfirlýsingu sem við skrifuðum undir á sínum tíma. Við höfum verið að skoða þessi mál í ráðuneytinu og þurfum að taka ákvörðun innan tíðar um þau.

Varðandi það hvenær stöðin verður komin í fulla notkun — það á að skrifa undir verksamninga næsta föstudag og ég vonast til að þær áætlanir standi sem eru um að koma henni í gagnið á næsta ári og að hún komist í fulla notkun í framhaldi af því.

Varðandi svo aftur áform um framhaldið erum við að undirbúa að koma upp annarri heilsugæslustöð í Hafnarfirði. Þar kreppir skórinn. Síðan þarf að laga aðstæður heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ. Það er verkefni sem hefur beðið en það þarf að laga aðstöðu þar.

Varðandi Salahverfið er það ekki fullbyggt enn þá en þegar það verður er áætlað að þar verði 10 þús. manns en þar eru tæplega 6 þús. manns eins og stendur núna.

Ég endurtek að það er áríðandi að halda þessari uppbyggingu áfram.