131. löggjafarþing — 53. fundur
 8. desember 2004.
umræður utan dagskrár.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:31]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég leyfi mér að gera að sérstöku umtalsefni samgöngur við Vestmannaeyjar í ljósi þess að strandsiglingum hefur nú verið hætt frá 1. desember sl. Flutningar til og frá öðrum byggðarlögum hafa færst á þjóðvegina með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og álagi á vegakerfið í heild sinni. Sérstaða Vestmanneyinga er hins vegar sú að flutningar þeirra verða einfaldlega ekki færðir á þjóðvegina, a.m.k. ekki enn þá. Í athugun er framtíðarlausn í þeim efnum en slíkar lausnir munu ekki verða að veruleika á næstu árum og því er brýnt að finna úrræði er þjóna yfir 4 þús. manna samfélagi.

Frú forseti. Staðan er einfaldlega þessi: Samgöngur við Vestmannaeyjar eru annaðhvort flugleiðis eða með Herjólfi. Um aðrar leiðir er ekki að tefla. Hver er staðan? Ef við lítum fyrst á flugið hefur komið í ljós að það fellur iðulega niður svo að ljóst má vera að sú leið er ekki nándar nærri alltaf örugg. Árið 2000 féll flug þannig niður 35 heila daga þar sem báðar ferðir féllu niður og 78 daga féll flugið niður aðra leiðina, þ.e. u.þ.b. 20% áætlaðra flugferða féllu niður. Árið 2001 voru það 36 heilir dagar sem féllu niður og 83 svokallaðir hálfir dagar. Á fyrstu 11 mánuðum þessa árs hafa 36 dagar fallið niður í flugi og 45 hálfir dagar.

Af þessu má sjá, frú forseti, að flugsamgöngur eru ekki tryggar til Eyja af veðurfarsástæðum. Menn verða enn um hríð að reiða sig á sjóleiðina, þjóðbrautina til Vestmannaeyja. Fólk og fyrirtæki reiða sig á siglingar Herjólfs. Almenningur sem þarf að leita sérfræðiþjónustu, svo sem læknishjálpar, upp á land þarf oftar en ekki að verja til þess a.m.k. tveimur dögum með tilheyrandi vinnutapi og kostnaði vegna þess að Herjólfur fer aðeins eina ferð á dag þrjá virka daga vikunnar.

Sjávarútvegur er uppistaða atvinnulífsins. Þar skiptir mestu að koma framleiðslunni á markað þegar markaðurinn kallar. Fyrirtæki í sjávarútvegi eiga þess ekki kost að koma vörum sínum af sér til útflutnings, m.a. vegna plássleysis í Herjólfi og takmarkaðra ferða. Þannig mun þurfa að flytja a.m.k. 10 40 feta gáma frá Eyjum vikulega en Herjólfur getur ekki boðið nema takmarkað pláss daglega til viðbótar því sem áður var í stað þeirra flutninga er Eimskip annaðist áður.

Auknir vöruflutningar með Herjólfi munu þar að auki takmarka enn frekar möguleika Vestmanneyinga eða annarra ferðamanna til að flytja bíla sína og er ástandið þó þröngt fyrir.

Frú forseti. Svo sem sjá má af þessari lýsingu er óhætt að halda því fram að Vestmanneyingar sitji ekki við sama borð og aðrir landsmenn, hvorki íbúar þar né fyrirtæki. Ég minni á að um er að ræða samfélag með á fimmta þúsund íbúa. Lágmarkslausn á samgönguvanda þeirra til skemmri tíma hlýtur að vera tvær ferðir Herjólfs á dag nema laugardaga, allan ársins hring.

Vitaskuld ber að fagna því samkomulagi sem náðist nýlega milli Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar en það dugar þó engan veginn til. Yfir vetrarmánuði standa enn eftir þrír virkir dagar vikunnar þar sem aðeins er um eina ferð á dag að ræða en æpandi þörf er á frekari samgöngum.

Nýtt útboð á Herjólfi stendur nú fyrir dyrum. Þar munu væntanlega allar forsendur verða endurskoðaðar en í ljósi þess að Eimskip er hætt að sigla með vörur til og frá Vestmannaeyjum er aðkallandi að bæta þeirri þjónustu við samfélagið í Vestmannaeyjum. Það er þjóðvegurinn til Eyja og ríkisvaldið ber skyldur gagnvart samfélaginu þar.

Ég leyfi mér því, frú forseti, að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann sjái fyrir sér að hin aðkallandi lausn á samgöngum við Vestmannaeyjar verði tekin til alvarlegrar endurskoðunar þegar í stað í ljósi hinna gjörbreyttu aðstæðna.



[13:36]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. málshefjanda fyrir að gefa mér tækifæri til að gera grein fyrir stöðu mála hvað varðar samgöngur við Vestmannaeyjar.

Í marsmánuði á síðasta ári skilaði vinnuhópur sem ég skipaði tillögum um aðgerðir til að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Eftir þeim tillögum hefur verið unnið eins og fært hefur verið. Eins og að líkum lætur eru sjóflutningar meginsamgönguleið Eyjanna. Herjólfur hefur gegnt þar lykilhlutverki ásamt vöruflutningaskipum íslensku skipafélaganna. Rekstur Herjólfs var boðinn út árið 2000. Hefur rekstur allra ferja verið boðinn út og hefur það fyrirkomulag gefist vel. Rekstraraðili Herjólfs er Samskip.

Þegar ljóst varð í haust að Eimskipafélagið mundi hætta strandsiglingum var hafin vinna í samgönguráðuneytinu við að leggja á ráðin um hvernig mætti bregðast við gagnvart þeim byggðum sem eiga allt undir sjóflutningum. Hvað varðar Vestmannaeyjar er ljóst að ekki varð undan því vikist að fjölga ferðum Herjólfs við þessar aðstæður til að tryggja nauðsynlega ferðatíðni svo að þjónusta við Eyjarnar væri fullnægjandi hvað varðar vöruflutninga. Frá því að rekstur Herjólfs var boðinn út hefur ferðum verið fjölgað verulega. Sem dæmi má nefna að árið 1999 voru farnar 419 ferðir. Samkvæmt nýgerðum samningi við Samskip verða farnar allt að 595 ferðum á næsta ári og hefur því ferðum verið fjölgað um 42% á þessu tímabili. Farþegum fjölgaði milli áranna 1999 og 2003 um 46%. Af þessu má sjá að þjónusta Herjólfs hefur stóraukist og mun aukast mikið með þessari fjölgun ferða sem nú hefur verið samið um. Ástæða er til að vekja athygli á því að styrkur ríkissjóðs vegna reksturs Herjólfs á árinu 2003 var 177 millj. kr.

Samkvæmt upplýsingum frá skipafélögunum verða siglingar vikulega til Evrópuhafna frá Eyjum svo sem verið hefur. Hvað varðar flutninga til Ameríku geta flutningafyrirtækin nýtt Herjólf til að koma afurðum í veg fyrir skipin sem sigla þangað. Fjölgun ferða Herjólfs skiptir þannig mjög miklu máli fyrir atvinnulífið og er afar mikilvægt að það samkomulag hefur náðst.

Eins og sjá má hefur verið brugðist við þessum aðstæðum hvað varðar sjóflutninga og ættu Eyjamenn að standa bærilega að vígi þrátt fyrir að strandsiglingarnar leggist af eins og þær hafa verið reknar. Það er von mín að um þessa aukningu geti ríkt sátt. Hún mun kosta verulega aukna fjármuni í rekstrarstyrki og á því verður að sjálfsögðu að taka.

Flugið til Eyja hefur verið að aukast á nýjan leik, bæði frá Reykjavíkurflugvelli og Bakkaflugvelli sem skiptir mjög miklu máli fyrir Vestmannaeyjar. Á Bakkaflugvelli er verið að bæta aðstæður. Þar verður byggð ný flugstöð sem verður tekin í notkun um mitt næsta ár. Þannig ætti aðstaða til flugs að batna mjög mikið.

Á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið unnið mikið starf við að leggja á ráðin um framtíðarhugmyndir hvað varðar samgöngur við Vestmannaeyjar. Í samræmi við tillögur starfshóps um samgöngur við Eyjar hefur verið unnið að rannsóknum á suðurströndinni vegna hugsanlegrar ferjuhafnar við Bakkafjöru. Í þingsályktunartillögu um rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru var gert ráð fyrir að undirbúningsrannsóknatíminn tæki a.m.k. þrjú ár. Unnið hefur verið að öldufarsreikningum á siglingaleiðinni milli lands og Eyja og til Þorlákshafnar. Samið hefur verið við Vestmannaeyjahöfn um reglulegar dýptarmælingar við Bakkafjöru til að fylgjast með botnsbreytingum undan Bakkafjöru. Talið var nauðsynlegt að kanna breytingar á sandfjörum með dýptarmælingum vetur, sumar, vor og haust í a.m.k. þrjú ár, þ.e. til ársins 2006. Þetta þarf að gera þar sem aðstæður við ströndina þarna eru síbreytilegar.

Hjá Siglingastofnun eru skoðaðar mismunandi útfærslur skjólgarða og siglingaleiða og má þar nefna hvort hentar betur að ferjuhöfnin sé við ströndina eða hvort staðsetja eigi höfnina utan við brimgarðinn með vegtengingu í land. Siglingamálastofnun mun standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á Hornafirði á næsta ári og munu þessar hugmyndir verða lagðar þar fyrir mestu sérfræðinga á þessu sviði.

Eins og fyrr sagði skipaði ég starfshóp til að fara yfir samgöngumál fyrir Vestmannaeyjar. Það verkefni að skoða höfn við Bakkafjöru var ein af þeim tillögum sem sá starfshópur lagði fram. Ég tel afar mikilvægt að ljúka þeim rannsóknum þannig að hægt verði að taka ákvörðun árið 2006 um hvort sá kostur sé fær sem framtíðarlausn fyrir ferjusiglingar til Eyja.



[13:41]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram sem snýst um samgöngur við Vestmannaeyjar, kannski fyrst og fremst um samgöngur í núinu, þ.e. samgöngur á sjó. Einnig ber að þakka fyrir að nýverið tókst að fjölga ferðum um 26 á ári þrátt fyrir að sá böggull fylgi skammrifi að um lítils háttar hækkun á fargjöldum verður að ræða.

Í nútímasamfélagi gerir samfélag eins og Vestmannaeyjar með vel á fimmta þúsund íbúa kröfur um að geta komið og farið þegar mönnum sýnist. Herjólfur er vissulega þjóðvegur Vestmannaeyja. Eins og staðan er núna er óásættanlegt að þetta skip skuli aðeins vera nýtt 7–12 tíma á sólarhring, þ.e. þessi þjóðvegur er þá lokaður bróðurpartinn úr hverjum sólarhring. Krafan er mjög skýr. Hún er að lágmarki tvær ferðir á dag, og jafnvel þrjár þegar það á við.

Menn mundu sjálfsagt gera athugasemdir við það ef einhverjir vegir hér á landi yrðu lokaðir bróðurpartinn úr sólarhringnum. Það er það sem fólk horfir til hvað varðar nútíðina, þ.e. að efla og bæta þessa flutninga. Það er lykilatriðið. Svo er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, líka verið að horfa til framtíðar. Verið er að skoða nokkra valkosti, m.a. er verið að rannsaka Bakkafjöru. Eins hefur verið ákveðið að leggja fjármagn í að skoða þann möguleika hvort jarðgöng séu möguleg. Þetta eru hlutir sem verið er að skoða og vonast er til að á haustdögum 2005 verði hægt að taka ákvarðanir um framtíðarlausn í samgöngumálum við Vestmannaeyjar.



[13:44]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað löngu viðurkennt að Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er jafnljóst að það er hlutverk hins opinbera að tryggja þangað samgöngur, góðar og greiðar og á sanngjörnum kjörum eftir því sem tæknilega er viðráðanlegt og innan rýmilegra kostnaðarmarka. Með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, byggir hafnir og flugvelli hljóta menn að leysa þau samgöngumál sem snúa að Vestmannaeyjum og öðrum byggðum eyjum við landið.

Ég hef lagt það til undanfarin ár, 2–4 ár, að farið yrði skipulega og samræmt yfir þá kosti sem til greina koma í framtíðarsamgöngum við Eyjar. Það er auðvitað alveg ljóst að á meðan slík vinna er unnin, og að einhverju leyti virðist hún vera í gangi, þurfa menn að nýta núverandi tæki og kosti þeirra. Ég skil ekkert í því að ekki sé fyrir löngu komin á áætlun fyrir Herjólf þar sem skipið gengur tvisvar á dag alla daga vikunnar. Það er nákvæmlega það sama og við þekkjum úr áætlunarfluginu, fyrr kemst ekki gott lag á þessa hluti. Það er þannig sem menn vilja hafa þetta, að geta farið og komið samdægurs. Vegurinn þarf að vera opinn bæði að heiman og heim og það gerist auðvitað ekki nema með þessu, með sama hætti og þar sem t.d. áætlunarflugi er haldið úti, að berjast fyrir því að fá tvær ferðir á dag að lágmarki.

Herjólfur er gott skip og 12 ára farsæll rekstur þess hefur auðvitað afsannað og hrakið allar kenningar um annað sem uppi voru í byrjun. Það kemur auðvitað að því að hann þarf að endurnýja. Það má kalla gott ef líftími tækis af þessu tagi er 15 ár. Þess vegna er meira en tímabært að fara að huga að því og á meðan á auðvitað nota skipið. Það er svo einfalt í mínum huga. Þetta eru ekki kostnaðartölur sem við eigum að hrökkva undan þótt við bætist einhverjir tugir milljóna ári, þó að þær væru 50, til þess að geta nýtt skipið eins og það býður upp á.



[13:46]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Vestmannaeyjar hafa á undanförnum árum háð mjög harða varnarbaráttu fyrir tilvist sinni eins og svo margar sjávarbyggðir á Íslandi. Íbúum þar hefur fækkað. Ég hygg að þeir séu núna jafnfáir og þeir voru eftir að Heimaeyjargosinu lauk fyrir rúmum 30 árum.

Óþarfakvótasetningar á fisktegundir eins og kolmunna, skötusel, keilu og löngu hafa að sjálfsögðu lagt hömlur á atvinnufrelsi Vestmannaeyinga. Hér er hv. formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson. Hann lofaði því fyrir síðustu kosningar að hann mundi beita sér fyrir því að afnema þessar kvótasetningar. Ekki hefur orðið mikið vart við efndir á þeim loforðum fram til þessa en það yrði að sjálfsögðu mikil vítamínsprauta fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum.

Atvinnulíf er hins vegar ekki nóg, við verðum líka að tryggja samgöngur. Hér eru til umræðu siglingar til og frá Vestmannaeyjum. Enginn efast um að siglingarnar eru sjálfur þjóðvegurinn til og frá Eyjum. Það er að sjálfsögðu skylda ríkisvaldsins að tryggja að þessi þjóðvegur sé sem greiðastur allan ársins hring.

Því ber að fagna að ferðum með Herjólfi hefur verið fjölgað. Hins vegar verða stjórnvöld núna að setjast niður og vinna mjög markvisst og ákveðið að framtíðarstefnumótun fyrir samgöngur til og frá Vestmannaeyjum. Við verðum að fara að íhuga það að skipta Herjólfi hugsanlega út, fá nýtt, stærra og hraðskreiðara skip. Herjólfur er of lítill. Við verðum að skoða möguleikana á því að grafa jarðgöng til Vestmannaeyja. Við verðum líka að athuga möguleikann á því að höfn verði gerð við Bakkafjöru.

Þetta eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir framtíð Vestmannaeyja og hérna verður að fara að taka ákvörðun, ákvörðun til framtíðar. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að jarðgöng séu besti kosturinn.



[13:48]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna umræðu um samgöngur við Vestmannaeyjar og þakka þann vilja sem hér kemur fram, bæði hjá hæstv. samgönguráðherra og þingmönnum, að bæta enn frekar samgöngur við Vestmannaeyjar. Það er stórt mál. Auðvitað er Herjólfur þjóðvegur Eyjanna. Herjólfur er þeirra Hellisheiði. Það skiptir mjög miklu máli, nú þegar farið verður yfir nýtt útboð á Herjólfi, að skoða vel forsendur útboðsins þannig að hann geti þjónað sem allra best íbúum Eyjanna, ferðaþjónustunni og atvinnulífinu. Þarna þarf að taka á og endurskoða. Svo þarf auðvitað að fara vel yfir þá ferðakosti sem Eyjamenn eiga, bæði flugið að Bakka og hingað til höfuðborgarinnar, þess vegna á Selfoss. Ekki eru margar eyjar byggðar og við þurfum að huga vel að samgöngum við þær eyjar sem enn eru í byggð í landinu, efla þær og styrkja.

Svo er hitt auðvitað framtíðin, hinar stóru forsendur sem menn ræða um, Bakkafjara og jarðgöng milli lands og Eyja. Það er auðvitað enn þá fjarlægur draumur þannig að menn mega ekki gleyma sér í þeirri umræðu. Margt getur líka nýtt gerst. Ég hef fylgst með skemmtilegu verkefni nemenda í Háskólanum á Bifröst sem hafa verið að skoða þessa miklu tækni sem Bretar eru að hanna og bjóða upp á, „skycat“, þ.e. loftfar sem tekur mikið af bílum og mikið af fólki og er hugsað sem framtíðarfarkostur. Það er virkilega skemmtilegt verkefni sem Háskólinn á Bifröst vinnur að og skoðar sérstaklega út frá forsendum og samgöngum við Vestmannaeyjar, milli Vestmannaeyja og lands. (Gripið fram í.)

Ég þakka þessa umræðu og vona að þetta fái farsæla lausn og að samgöngur batni enn við Eyjarnar.



[13:51]
Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans, svo og sérstaklega fyrir að beita sér fyrir fjölgun ferða Herjólfs, bæði fyrr og nú. Í þessari viku var þeim fjölgað um tvær á viku yfir vetrarmánuðina, desember til febrúar, þ.e. úr 8 í 10.

Þegar fyrir lá að strandsiglingar mundu hætta varð ljóst að upp kæmu vandamál víða, ekki síst á útgerðarstað eins og Vestmannaeyjum. Ég hafði samband við formann Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, Magnús Kristinsson, um þessi áhrif og formann bæjarráðs, Arnar Sigurmundsson, þar sem ég óskaði eftir því að málið yrði tekið upp í bæjarráði þar sem viðræður væru í gangi við samgönguyfirvöld um fjölgun ferða Herjólfs, svo og önnur mál sem verið hafa í umræðunni. Brugðist var vel við og fóru þeir félagar ásamt Bergi Ágústssyni, bæjarstjóra í Eyjum, á fundi með samningsaðilum. Niðurstaðan er, eins og áður hefur komið fram, fjölgun ferða Herjólfs yfir vetrartímann og önnur mál sem út af stóðu voru kláruð.

Að meðaltali fóru 10 40 feta gámar á viku með Mánafossi þegar hann gekk á milli lands og Eyja. Nú hefur ferðum Herjólfs verið fjölgað, m.a. til að bregðast við þessu.

Virðulegi forseti. Ef ekki verður breyting á strandsiglingum er ljóst að við þurfum að fylgjast vel með þeirri þróun sem verður, þ.e. hvaða áhrif þessir viðbótarflutningar munu hafa á nýtingarhlutfall á bílatæki Herjólfs á álagstímum. Það má ekki hafa þau áhrif að farþegum fækki vegna aukinna flutninga sem hefðu þau áhrif að erfiðara væri að komast með fólksbíla til Vestmannaeyja. Það er ekki hægt að etja atvinnulífinu og hinum almenna Herjólfsfarþega saman vegna þessara breytinga.

Til greina gæti komið að fara sérstakar næturferðir eingöngu vegna vöruflutninga. Það er sennilega ódýrasta leiðin til að bregðast við. Ég er þess fullviss að hæstv. samgönguráðherra mun bregðast við þörfum okkar Eyjamanna komi til þess að fjölga þurfi ferðum enn frekar. Herjólfur er þjóðvegur okkar Eyjamanna og við höfum mikla sérstöðu samanborið við önnur sveitarfélög.

Á næsta ári verður tekin ákvörðun um hvaða valkostur verður í framboði í samgöngumálum okkar Eyjamanna en góðar samgöngur eru stærsta hagsmunamál Eyjanna.



[13:53]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er skiljanlegt að samgöngumál séu Vestmannaeyingum hugleikin þar sem þeir búa við allt aðrar aðstæður í þeim efnum en meginþorri landsmanna. Nútímaþjóðfélag byggir á öruggum og hraðvirkum samgöngum og krafa íbúa og fyrirtækja, hvar sem þau eru, er að þjóðvegurinn til þeirra sé greiðfær alltaf þegar raunhæft er að gera kröfu um slíkt vegna umhverfisaðstæðna. Um Vestmannaeyjar gildir ekkert annað lögmál. Þeir sem þar búa hafa uppi sömu væntingar og kröfur til þjóðvegakerfisins sem á þessari stundu er ferjan og flugsamgöngur. Vonir og væntingar standa til að samgöngur verði tryggðar eins ört og örugglega og nokkur kostur er.

Nú þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hætta strandsiglingum og færa flutninga að mestu yfir á þjóðvegina hlýtur það að kalla á að þjóðvegurinn til Eyja verði styrktur frá því sem verið hefur og Herjólfi gert kleift að auka frekar tíðni ferða til að mæta a.m.k. þeirri minnkun á flutningsgetu sem leiðir af niðurfellingu strandflutninga.

Í nýju útboði sem fyrirhugað er í janúar 2006 hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir að ferjan gangi að lágmarki til 2–3 ferðir á hverjum sólarhring til að halda þjóðveginum til og frá Eyjum opnum með skammlausum hætti.

Öflugar og tryggar flugsamgöngur eru hraðvirkasta leið Eyjamanna til lands, og nauðsynlegt í ljósi sérstöðu þeirra að hlúa sérstaklega að því að framboð haldist í hendur við eftirspurn. Það hlýtur alltaf að vera hlutverk opinberra aðila að leita allra leiða til að halda niðri kostnaði þeirra sem greiða fyrir samgöngur til og frá stöðum þar sem ekki er um það að ræða að hægt sé að setjast upp í einkabílinn hvenær sem mönnum hugnast og aka á þann stað sem hugurinn stendur til.

Við höfum rætt á Alþingi um kostnað þeirra sem nýta göngin undir Hvalfjörð og hvort unnt sé að leita leiða til að minnka hann. Þeir sem þau göng nota hafa þó annan valkost sem er að nýta þjóðvegakerfið fyrir fjörðinn og eiga því val um hvaða leið er notuð með tilliti til ferðatíma og kostnaðar. Þetta val, frú forseti, eiga Vestmannaeyingar ekki og eðlilegt er að það sé haft í huga þegar fjallað er um ferðamöguleika þeirra og kostnað.



[13:55]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðar og traustar almenningssamgöngur eru sérstaklega mikilvægar þeim sem búa í eyjasamfélagi og hafa ekki sömu möguleika og aðrir landsmenn á að setjast upp í bíl og aka leiðar sinnar eftir þjóðvegum landsins. Góðar samgöngur eru því lykilatriði fyrir Vestmannaeyjar til að bæjarfélagið geti bætt stöðu sína og eflt atvinnulífið. Atvinnuleysi er mest í Vestmannaeyjum í öllu Suðurk.

Flugsamgöngur eru ekki síður mikilvægar fyrir Vestmannaeyinga en samgöngur á sjó. Um flugvöllinn á Bakka fara t.d. um 30 þús. manns á ári og er hann einn fjölfarnasti flugvöllur landsins. Það tekur ekki nema 5 mínútur að fljúga á milli lands og Eyja. Í júní á næsta ári mun ný flugstöð rísa á Bakkaflugvelli sem mun þjóna þeim vaxandi umferðarþunga sem um völlinn fer.

Landsflug hóf flugrekstur frá Reykjavík til Vestmannaeyja og Hornafjarðar 1. október sl. og er þess vænst að næstu daga muni þeir bæta flugkost sinn um aðra flugvél. Sú staðreynd að Eimskip hefur lagt niður strandsiglingar hefur kallað á breytta og aukna þjónustu Herjólfs. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni fyrir að hann hefur beitt sér fyrir því að vetraráætlun Herjólfs hefur verið breytt. Verða ferðirnar auknar um tvær á viku og verða því samtals 10. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hafa ferðirnar aukist um 42% síðustu ár og ber að fagna því.

Nú er verið að gera rannsóknaáætlun um jarðgöng til Eyja. Að öllum líkindum munu þær rannsóknir fara af stað á næsta ári og þingmenn Suðurk. stóðu saman að því að færa fjármuni úr Bakkavegi til þess að þær gætu farið af stað. Ekki voru allir ánægðir með það en við töldum, þingmennirnir allir, að það yrði að ganga fyrir.



[13:58]
Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka þetta mál til umræðu. Eins og kom fram í máli þingmannsins er rótin fyrir þessari umræðu sú staðreynd að Eimskipsmenn hafa ákveðið að hætta strandsiglingum. Þá kom einnig fram í máli hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar að allt að 10 40 feta gámar hafa verið fluttir með skipi Eimskips fram til þessa en nú er svo komið að þessar ferðir leggjast niður. Því tel ég ráðlegt í þessari umræðu að við beinum spjótum okkar að þeim vanda sem er upp kominn og er ástæðan fyrir því að þetta er til umræðu.

Það kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að skipið er nýtt 7–12 klukkustundir á sólarhring sem segir okkur að það er pláss fyrir sýnu meira. Því vil ég beina því til samgönguráðherra að horfa til þeirrar leiðar að auka við ferðir til að tryggja að atvinnufyrirtæki í Vestmannaeyjum fái sömu þjónustu og þau fengu fyrir þá ákvörðun Eimskipsmanna að hætta strandflutningum. Nógu erfitt eiga atvinnuvegirnir í dag með þá hagstjórn sem er við lýði. Hér er sterk staða krónunnar og ekki er á það bætandi fyrir Vestmannaeyinga að samgöngur skuli daprast með þeim hætti sem raunin er.

Menn hafa rætt um að skipið sé komið til ára sinna. Ég held að 12 ára skip eigi allmikið eftir og að kannski megi liggja á milli hluta að fara að breyta um farkost hvað það varðar. Ég vil styðja þær hugmyndir sem ráðherra kom inn á í máli sínu áðan um að skoða eins hratt og auðið er tilveru ferjuhafnar á Bakka en umfram allt í þessari umræðu verður niðurstaðan að verða sú að samgönguráðherra íhugi alvarlega — og ég veit að Samskipsmenn mundu taka honum fagnandi — að setjast niður með þeim og ræða alvarlega hvort ekki sé tilefni til að fjölga ferðum milli lands og Eyja. Þá er ég að tala um Herjólf, herra forseti.



[14:00]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. samgönguráðherra. Ég get verið stoltur af því að vera einn níu þingmanna sem flutti þingsályktunartillögu í upphafi þings árið 2000 um það að Alþingi ályktaði að fela samgönguráðherra að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hæfi sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu Bakkafjöru og öðrum aðstæðum í tengslum við ferjuleið frá Vestmannaeyjum að Bakkafjöru. Þetta var samþykkt á Alþingi 5. desember árið 2000 og eins og kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra hefur verið unnið að þessu máli.

Samt hefur verið ótrúlega lítið um þetta mál rætt af hálfu Eyjamanna og kemur það mjög spánskt fyrir sjónir. Þarna er mikill möguleiki. Rannsóknir sem hafa þegar farið fram benda til þess að þarna sé mikill möguleiki á að byggja upp höfn. Það mun hins vegar liggja ljóst fyrir í lok árs 2005 eða upphafi árs 2006 og þá tengist það auðvitað því sem fram undan er, þ.e. endurnýjun þessa skips. Þess vegna gætu þeir legið saman, þessir tveir valkostir, þ.e. væntanleg ferjuaðstaða í Bakkafjöru og nýtt skip.

Hér hafa menn talað um ferðir Herjólfs. Árið 1999 voru farnar rúmlega 400 ferðir en fram undan, árið 2005, verða farnar 600 ferðir og það segir okkur náttúrlega að það hefur verið gert nokkuð í því máli að bæta samgöngur við Eyjar þótt auðvitað megi betur fara. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að eðli málsins samkvæmt ætti auðvitað að laga ferðir skipsins að þörfinni eins og hún er á hverjum tíma. Það er hið besta mál og það munum við auðvitað styðja og styrkja. Umfram allt er rétt að haldið sé áfram þessari miklu og góðu rannsókn um Bakkafjöru og það finnst mér vera stóra málið sem skiptir miklu hvað framtíðarsamgöngur Vestmannaeyja áhrærir.



[14:02]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og eins þeim hv. þm. sem hér hafa lagt orð í belg í þessari umræðu.

Vissulega ber að fagna því sem vel er gert, bæði 42% fjölgun ferða Herjólfs á tiltölulega skömmum tíma og þær aðgerðir sem eiga sér stað hvað varðar aðstöðuna á Bakkaflugvelli.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd eins og hér hefur glögglega komið fram í umræðunni að eftir að Mánafoss hætti að sigla og koma við í Vestmannaeyjum 1. desember eru núverandi aðstæður algjörlega ófullnægjandi. Það eru þau skilaboð sem við þingmennirnir fáum, bæði frá atvinnurekendum og almenningi í Vestmannaeyjum. Auðvitað höfum við ákveðnar skyldur gagnvart þessu samfélagi sem telur á fimmta þúsund manns. Þannig hafa atvinnurekendur tjáð mér að miðað við óbreytt ástand um flutninga kunni þeir beinlínis að neyðast til að færa starfsemi sína upp á land vegna samgönguerfiðleika, vegna erfiðleika við að koma vöru sinni á markað. Það þarf ekkert að efast um hvaða afleiðingar það hefði fyrir samfélagið í Eyjum og hver kostnaður samfélagsins af slíku yrði.

Eins og hér hefur komið fram er unnið að langtímalausnum, bæði við Bakkafjöru eða göng, endurútboð á siglingum og hugsanlega nýtt skip. Þær lausnir eru framtíðarlausnir og langtímalausnir og duga Vestmannaeyingum skammt í þeim vanda sem þeir eru að glíma við í dag og þeim vanda sem steðjar að Vestmannaeyingum í dag. Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni þá beita sér fyrir því að leysa þennan vanda. Eins og hér hefur skýrt komið fram í umræðunum standa þingmenn Suðurk., og augljóslega langt út fyrir það, að baki því að þessi vandi verði leystur og það hið bráðasta.



[14:04]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir góðar undirtektir við þeim ákvörðunum sem ég hef tekið hvað varðar úrbætur í samgöngumálum Vestmannaeyja. Það er alveg ljóst að það er mikill vilji eins og skýrt hefur komið fram í umræðum á Alþingi um samgöngumál Vestmannaeyinga. Þingmenn vilja standa vel að verki þar, og ég tel að svo hafi verið gert.

Það er nauðsynlegt að vandamálin séu ekki gerð meiri en þau eru. Það liggur ljóst fyrir að flutningar verða með sama hætti áfram hvað varðar flutninga til meginlands Evrópu en fjölgun ferða Herjólfs er m.a. til að koma til móts við fyrirtæki sem þurfa að koma framleiðslu sinni í veg fyrir skip sem sigla til Ameríku. Auðvitað þurfum við að meta stöðuna. Það liggur í hlutarins eðli að það er afar mikilvægt fyrir okkur að standa þannig að verki að atvinnufyrirtækin í Vestmannaeyjum, sjávarútvegsfyrirtækin í Vestmannaeyjum, geti bæði fengið aðföng og komið framleiðslu sinni á markað með sem hagkvæmustum hætti.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að eyjasamfélagið er auðvitað með sínum takmörkunum og samgöngur geta aldrei verið með sama hætti og út á hina stóru markaði eins og er á höfuðborgarsvæðinu. Það skilja allir.

Aðalatriði málsins er að unnið er eftir skýrum áætlunum, ég vil að það komi skýrt fram vegna orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það er unnið eftir tillögum sem voru settar upp í góðu samstarfi við heimamenn og ég vænti þess að það geti orðið samkomulag um það sem kemur út úr rannsóknum hvað Bakkafjöru varðar.

Áfram verður unnið að því að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Það eru skilaboðin sem koma úr samgönguráðuneytinu.